Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

5/2014 Björtusalir

Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 5/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogsvæðis um synjun á veitingu leyfis fyrir hundinn X.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. janúar 2014, er barst nefndinni 21. s.m., kærir A, Kópavogi, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 25. Nóvember 2013 að synja um veitingu leyfis fyrir hundinn X. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 12. febrúar 2014.

Málavextir: Kærendur sóttu um skráningu á hundi sínum með umsókn til Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, dags. 25. október 2013. Kærendur sendu frekari gögn til stuðnings umsókn sinni með tölvupósti 29. s.m. og segir þar m.a: „Við munum skipta um hurð þar og hafa hana opnanlega með lykli utanfrá.“ Með tölvupósti 6. nóvember s.á. var farið fram á að kærendur legðu fram samþykki 2/3 hluta meðeigenda sinna fyrir hundahaldi í fjöleignarhúsi þeirra þar sem ekki væri sérinngangur að íbúð kærenda samkvæmt teikningum. Í svari sínu frá 8. s.m. kváðust kærendur vera með sérinngang í íbúð sína um dyr út úr stofu en íbúð þeirra er á jarðhæð. Fóru kærendur jafnframt fram á að heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis tæki rökstudda ákvörðun í máli þeirra og vísuðu m.a. í álit kærunefndar húsamála í máli nr. 19/2011 máli sínu til stuðnings.

Umsókn kærenda var lögð fram á fundi heilbrigðisnefndar 25. nóvember 2013 og var svohljóðandi bókað: „Sameiginlegur inngangur er í íbúðina með öðrum íbúðum og ber að afla samþykkis 2/3 eigenda í slíkum tilvikum. Flóttaleið úr íbúð um stofu breytir þar engu um. Skráning dýrsins er gerð með fyrirvara um að tilskilins samþykkis verði aflað.“ Kærendum var kynnt með bréfi, dags. 23. desember 2013, að með vísan til þessa væri hundurinn skráður til bráðabirgða til þriggja mánaða. Barst kæra í málinu úrskurðarnefndinni 20. janúar 2014, eins og áður sagði.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að brotið hafi verið á rétti þeirra skv. ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ásamt ákvæðum laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, með því að synja um skráningu hunds þeirra á grundvelli þess að samþykki 2/3 íbúa hússins liggi ekki fyrir. Sú regla eigi ekki við í tilfelli kærenda þar sem sérinngangur sé inn í íbúðina. Gerð sé athugasemd við bókun heilbrigðisnefndarinnar þar sem segi „könnuð var staða íbúðarinnar með tilliti til inngangs hjá byggingarfulltrúa Kópavogs“ en enginn rökstuðningur liggi fyrir um það hvað í því mati hafi leitt til niðurstöðu nefndarinnar að um sérinngang væri ekki að ræða. Við svo íþyngjandi ákvörðun hafi verið ástæða til að skoða íbúðina sjálfa en ekki eingöngu gögn hjá byggingarfulltrúa. Virðist hafa verið byggt á því að ef um sameiginlegan inngang sé að ræða geti annar inngangur í íbúðina ekki talist sérinngangur. Því mótmæli kærendur, enda alþekkt að fasteignir hafi fleiri innganga en þann er teljist vera aðalinngangur. Þá hafi verið byggt á því að umræddur inngangur teljist ekki vera inngangur heldur „flóttaleið“ en því sé einnig mótmælt, enda sé inngangurinn í fullu samræmi við skilgreiningu á inngangi skv. Gr. 6.4.2. í byggingareglugerð nr. 112/2012. Frá því að kærendur hafi flutt inn í fasteignina hafi undantekningarlaust verið farið með hundinn inn og út í gegnum nefndan inngang, enda sé hægt að opna hann bæði innan og utan frá.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Heilbrigðisnefndin bendir á að samkvæmt 4. gr. samþykktar um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000 séu allir hundar á eftirlitssvæðinu skráningarskyldir. Eftir breytingu á lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994 með lögum nr. 40/2011 hafi heilbrigðisnefndin tekið mið af þeirri breytingu varðandi kröfur um samþykki 2/3 hluta eigenda í fjöleignarhúsum. Við umsókn um skráningu hunds kærenda hafi ekki verið lögð fram gögn um samþykki meðeigenda þeirra og því haldið fram að íbúðin hefði séraðkomu. Fyrirvari hafi verið gerður um þetta atriði af hálfu heilbrigðiseftirlitsins og kærendum bent á að nauðsynlegt væri að útvega samþykki meðeigenda í fjöleignarhúsinu. Kærendur hefðu ekki talið sig þurfa samþykki og hafi starfsmaður heilbrigðiseftirlitsins kannað aðstæður. Grunnmynd 1. hæðar ásamt ljósmynd hafi stutt þá niðurstöðu hans að um væri að ræða hurð úr stofu út á lóð en ekki sérinngang. Kærendur hefðu nýtt heimild í 4. gr. hundasamþykktar til að óska eftir úrskurði heilbrigðisnefndar í málinu sem hafi komist að þeirri niðurstöðu að fasteign kærenda væri ekki með sérinngang í skilningi 33. gr. b laga nr. 26/1994 og þyrfti því að leggja fram samþykki meðeigenda. Upplýsingar hafi legið fyrir frá byggingarfulltrúa um að það væri einn inngangur í íbúðina. Jafnframt hafi hann upplýst um þá kröfu byggingarreglugerðar varðandi flóttaleiðir að hver íbúð skuli hafa tvo óháða útganga. Heilbrigðisnefnd hafi talið sér rétt og skylt að virða rétt annarra eigenda í fjöleignarhúsum við skráningu hunda og viðurkenni ekki flóttaleiðir sem sérinngang.

Vettvangsganga: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 29. apríl 2015.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á veitingu leyfis til hundahalds í íbúð kærenda á jarðhæð í fjöleignarhúsinu, en með ákvörðun heilbrigðisnefndar var einungis veitt tímabundið leyfi til þriggja mánaða.

Um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi gildir samþykkt nr. 154/2000, sem sett var með stoð í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Segir í 1. gr. samþykktarinnar að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæminu með skilyrðum samkvæmt samþykktinni. Í 4. gr. segir að allir hundar sem haldnir eru á eftirlitssvæðinu séu skráningarskyldir og eru í ákvæðinu talin upp þau gögn sem liggja þurfa fyrir til þess að hundur fáist skráður og er eitt þeirra „samþykki meðeigenda fjöleignarhúss, ef við á“. Þá er tekið fram í 5. gr. samþykktarinnar að um hundahald í fjöleignarhúsi gildi ákvæði laga nr. 26/1994 með síðari breytingum en þau lög fjalla um fjöleignarhús. Um samþykki meðeigenda fyrir hundahaldi fer skv. ákvæðum nefndra laga og er hunda- og kattahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafa sameiginlegan inngang eða stigagang, sbr. 33. gr. a. Hins vegar er kveðið á um í 1. mgr. 33. gr. b að samþykkis annarra eigenda sé ekki þörf þegar hvorki sé um sameiginlegan inngang né stigagang að ræða, sbr. 33. gr. a. Eigi það til dæmis við þegar sérinngangur sé í íbúð á jarðhæð eða frá sameiginlegum útitröppum. Gildi það þótt lóð sé sameiginleg og annað sameiginlegt rými sé í húsinu. Nefnd lagaákvæði tóku gildi með lögum nr. 40/2011 um breytingu á lögum um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Í athugasemdum með frumvarpi breytingalaganna er fjallað um tilurð reglna um hunda- og kattahald í fjöleignarhúsum og því lýst að þar vegist á andstæð sjónarmið eða hagsmunir þeirra sem vilji halda hunda og ketti sem gæludýr og þeirra sem hafi ofnæmi fyrir slíkum dýrum. Þá er því lýst að regla 33. gr. b sé í samræmi við gildandi rétt og túlkun og framkvæmd laganna. Verður að telja af framangreindu að til þess að um sérinngang sé að ræða í skilningi laganna verði hann að vera þannig úr garði gerður að engin þörf sé á að fara með dýrið um sameign fjöleignarhússins og tilgangi nefndra lagaákvæða þannig náð.

Húsið er fjöleignarhús með sameiginlegum inngangi fyrir allar íbúðir hússins. Íbúð kærenda, sem er á jarðhæð, er einnig með dyr sem opnast út á afgirtan sérafnotaflöt með hliði. Heilbrigðisnefnd byggði synjun sína um leyfi til hundahalds þar á þeirri túlkun byggingarfulltrúa Kópavogs að samkvæmt teikningum væri í stofu gert ráð fyrir flóttaleið vegna brunavarna, þ.e. að greindar dyr væru eingöngu útgangur en ekki inngangur. Skoðun á vettvangi leiddi í ljós að dyrnar eru nú með lás og snerlum og er hægt að aflæsa þeim bæði utan og innan frá. Því er ljóst að kærendur eru með sérinngang í skilningi áðurnefnds ákvæðis 33. gr. b í fjöleignarhúsalögum að íbúð sinni frá sérafnotafleti þótt þeir geti einnig farið um sameiginlegan inngang.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum lýstu kærendur því yfir 29. október 2013 að skipt yrði um hurð og yrði hún opnanleg utanfrá. Vettvangskönnun úrskurðarnefndarinnar leiddi í ljós að nefndar dyr eru nú opnanlegar utan frá en gögn liggja ekki fyrir um hvenær sú breyting átti sér stað. Var heilbrigðisnefnd því rétt að byggja á fyrirliggjandi gögnum við ákvörðunartöku sína, enda lágu á þeim tíma ekki fyrir neinar þær upplýsingar sem leitt gátu til annarrar niðurstöðu. Verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogsvæðis um synjun á veitingu leyfis fyrir hundinn X,

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Þorsteinn Þorsteinsson