Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

11/2011 Bakkavör

Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 11/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 10. nóvember 2010 um að samþykkja deiliskipulag Bakkahverfis, Seltjarnarnesi.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. janúar 2011, er barst nefndinni 25. s.m., kærir H, Bakkavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 10. nóvember 2010 að samþykkja deiliskipulag Bakkahverfis á Seltjarnarnesi. Gerð er krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að fyrri útgefnir skilmálar, dags. 30 september 1986, vegna lóða nr. 2-44 við Bakkavör, Seltjarnarnesi, standi óbreyttir.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni 1. apríl 2011.

Málsatvik og rök: Árið 2009 var auglýst til kynningar deiliskipulag Bakkahverfis er tekur til húsa sunnan Hæðarbrautar, austan Valhúsabrautar, suðaustan Bakkavarar, austan Suðurstrandar og austan Lindarbrautar. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness hinn 4. júní 2010 voru samþykkt svör við framkomnum athugasemdum sem og tillaga að téðu deiliskipulagi. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 9. s.m. Í kjölfar þess var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar er gerði athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt þess. Tók skipulags- og mannvirkjanefnd málið fyrir að nýju hinn 28. október 2010. Var tillagan samþykkt með breytingum og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 10. nóvember s.á. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2010.

Kærandi tekur fram að staðhæft hafi verið að skipulag fyrir lóðirnar Bakkavör 2-44 frá 1986 hafi aldrei verið staðfest af sveitarstjórn. Standist það ekki og því sé vinna við gerð deiliskipulags Bakkahverfis byggð á röngum forsendum. Ekkert samráð hafi verið haft við eigendur lóðanna vegna þessara breytinga og vandséð hvað búi að baki breytingunum þar sem skipulag af þessum reit sé að öllu leyti í samræmi við skipulagslög.
 
Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Markmið nýs deiliskipulags Bakkahverfis sé að móta heilstætt skipulag sem byggi á þeirri sýn sem sett sé fram í Aðalskipulagi Seltjarnarness 2006-2024. Sé t.a.m. leitast við að staðfesta byggðamynstur hverfisins og feli það m.a. í sér að eldri skipulagsskilmálar séu felldir inn hið nýja skipulag eins og kostur sé. Eðlilegt hafi þótt að taka hús við Bakkavör inn í þá vinnu, sérstaklega þar sem allt skipulagssvæðið myndaði þannig eðlilega heild sem hverfi. Skapi deiliskipulagsáætlanir og skilmálar, sem hvorki voru auglýstir, hlutu staðfestingu ráðherra né samþykki skipulagsstjóra ríkisins, í mörgum tilfellum skipulagslega óvissu og standist ekki núgildandi lög.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru til ársloka 2010, gátu þeir einir gætu skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem áttu lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Af kæru verður ekki ráðið hvaða einstaklingsbundnu hagsmunum kærandi telji hina kærðu ákvörðun raska. Þá seldi kærandi fasteign sína að Bakkavör 6 hinn 13. júní 2013 samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Var afsal gefið út 4. nóvember s.á. og því þinglýst 7. s.m. Mun kærandi nú búsettur í Reykjavík og í töluverðri fjarlægð frá því svæði sem deiliskipulag Bakkahverfis tekur til. Verður því ekki séð að umrætt deiliskipulag snerti lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann teljist eiga kæruaðild varðandi hina umdeildu ákvörðun.

Með vísan til framangreinds verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir