Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

94/2012 Hásteinn

Með
Árið 2014, föstudaginn 10. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3 í Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 94/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. september 2012, er barst nefndinni 1. október s.á., kærir Steinberg Finnbogason hdl., f.h. I og A, Áshamri 49, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 að samþykkja tillögu að breytingu að deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum. Öðlaðist breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 29. ágúst 2012. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ hinn 15. nóvember 2012.

Málsatvik: Hinn 14. mars 2007 tók gildi deiliskipulag fyrir íþrótta- og útivistarsvæði við Hástein. Skipulagssvæðið er í norðvestanverðum jaðri bæjarins og afmarkast af Hamarsvegi í norðri og vestri, íbúðarbyggð við Áshamar og Bessahraun í suðvestri, Hraunvegi í suðri og íbúðarbyggð við Illugagötu og Brekkugötu í austri. Í maí 2007 var staðfest í bæjarstjórn breyting á téðu deiliskipulagi er gerði ráð fyrir að tjaldsvæði yrði staðsett við Þórsheimili, en sú breyting mun ekki hafa tekið gildi. Á árinu 2010 tók gildi breyting á umræddu deiliskipulagi. Fól breytingin í sér að afmarkað var tjaldsvæði frá Þórsheimili og austur í átt að íþróttamiðstöð við Illugagötu. Sætti ákvörðunin kæru til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Bæjarstjórn Vestmannaeyja afturkallaði þá ákvörðun, þar sem ósamræmi væri á milli gildandi aðalskipulags og nefndrar breytingar, en ekki var í aðalskipulagi gert ráð fyrir tjaldsvæði á nefndu svæði. Var málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í kjölfar þessa var unnin tillaga að breytingu á aðalskipulagi Vestmannaeyja er gerði m.a. ráð fyrir að heimilað yrði tjaldsvæði á íþróttasvæði við Hástein. Samhliða því hófst hjá Vestmannaeyjabæ vinna við gerð tillögu að breyttu deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein. Tillaga þess efnis var kynnt á opnum fundi hinn 24. apríl 2012 og sama dag var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagslagsráðs að auglýsa til kynningar tillögu að breyttu deiliskipulagi umrædds svæðis. Samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðslu hinn 26. s.m. Fól tillagan m.a. í sér að afmarkað yrði 7.900 m² svæði sunnan og austan við Þórsheimili fyrir tjaldsvæði sem og byggingarreitur fyrir hótel í Hásteinsgryfju. Bárust tvær athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum.

Deiliskipulagstillagan var tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs hinn 27. júní 2012 og var hún samþykkt með breytingum er fólu m.a. í sér að á skipulagsuppdrátt yrði sett inn hljóðmön á mótum tjaldsvæðis og íbúðarbyggðar við Áshamar og jafnframt yrði kveðið á um hljóðvarnir í skilmálum. Þá var skipulagsfulltrúa falið að gera breytingar á skipulagsgögnum og svara innsendum athugasemdum í samræmi við framlagða greinargerð skipulagsráðgjafa. Var málinu vísað til bæjarstjórnar er samþykkti framangreinda afgreiðslu á fundi hinn 28. júní 2012. Var Skipulagsstofnun tilkynnt um afgreiðslu málsins og með bréfi stofnunarinnar, dags. 18. júlí s.á., kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt breytingarinnar að ákveðnum atriðum leiðréttum, s.s. að skilgreina þyrfti göngustíga á uppdrætti og að sparkvöllur væri tilgreindur sem tjaldsvæði, en ekki kæmi fram í greinargerð að svo væri.

Fyrrgreind breyting á aðalskipulagi Vestamanneyja var að kynningu lokinni samþykkt á fundi bæjarstjórnar hinn 28. júní 2012 og tók gildi 10. ágúst s.á. Þá öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. ágúst s.á., og hefur kærandi skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar að því er varðar heimild til staðsetningar tjaldsvæðis við Þórsheimili.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að starfrækt hafi verið tjaldsvæði við mörk lóðar þeirra í andstöðu við aðalskipulag og deiliskipulag í fimm ár. Í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið, samþykktu í febrúar 2007, sé svæðið merkt sem leiksvæði. Breyting á nefndu deiliskipulagi, sem samþykkt hafi verið í maí 2007, hafi gert ráð fyrir að tjaldsvæði yrði staðsett við Þórsheimili, á reit U2. Hafi breytingin ekki rúmast innan samþykkts aðalskipulags og því verið ólögmæt. Í júní s.á. hafi umhverfis- og skipulagsráð veitt leyfi til framkvæmda á fyrirhuguðu tjaldsvæði, svo sem lagningu vegar, göngustíga og grindverks. Telji kærendur, með vísan til 11. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, að óheimilt hafi verið að samþykkja ákvörðun þá sem nú sé kærð nema að því undangengnu að þær framkvæmdir sem farið höfðu í bága við eldra skipulag yrðu fjarlægðar.

Með hinni kærðu ákvörðun sé verulega vegið að hagsmunum kærenda. Mikið ónæði stafi frá gestum tjaldsvæðisins og hafi þeir ítrekað raskað nætursvefni kærenda. Óþrifnaður frá svæðinu sé mikill og aukin og óásættanleg umferð fylgi starfseminni. Sé ónæðið langt umfram það sem kærendur hafi mátt vænta er þeir hafi keypt fasteign sína. Gengið sé verulega gegn friðhelgi einkalífs kærenda og hafi þeir orðið fyrir eignaspjöllum vegna þessa. Þá rýri starfsemin verðgildi fasteignar þeirra.

Hafa verði í huga þá meginreglu eignarréttarins, sem byggi m.a. á 72. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944, um að menn eigi ákveðinn rétt til hagnýtingar á eigin eignum. Verði takmörkun á þeim rétti að skýra þröngt og byggja á málefnalegum sjónarmiðum. Svo hátti ekki hér en margir staðir séu ákjósanlegri fyrir tjaldsvæði í Vestmannaeyjum en umrætt svæði. Jafnframt sé vísað til 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en telja verði að Vestamannaeyjabær hafi við ákvarðanatöku borið að gæta hagsmuna kærenda og annarra íbúa sem ítrekað hafi mótmælt tjaldsvæði svo nærri íbúðarbyggð. Einnig sé bent á 32. gr. reglugerðar um hollustuhætti nr. 941/2002, en samkvæmt tilvitnuðu ákvæði skuli þess gætt að ónæði berist ekki frá tjaldsvæði til nærliggjandi húsa. Muni mótvægisaðgerðir, sem ætlaðar séu til að draga úr hávaða á svæðinu, ekki skila árangri þar sem tjaldsvæðið liggi að lóðarmörkum kærenda. Verði sú skerðing á friðhelgi heimilisins sem þeir þurfi að þola ekki bætt með öðru móti en því að tjaldsvæðið verði flutt fjær íbúðarbyggð.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Vestmannaeyjabær hafnar því að ógilda beri hina kærðu ákvörðun. Framkvæmdir sem vísað sé til séu fyllilega lögmætar. Þær hafi verið gerðar á grundvelli gildandi deiliskipulags og hafi verið gefið út framkvæmdaleyfi vegna þeirra 2. mars 2011. Leiði breyting á deiliskipulagi ekki til þess að fyrra deiliskipulag hafi verið ólögmætt. Um uppsetningu girðingar og lagningu gönguslóða hafi verið að ræða. Girðingin sé um 1,4 m há og vel innan lóðarmarka íþróttasvæðis og hafi því í raun ekki verið leyfisskyld, sbr. 67. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Vegna lagningu malarslóða sé vísað til þess að gert hafi verið ráð fyrir göngu- og hlaupaslóðum á svæðinu í eldra deiliskipulagi frá mars 2007 og því hafi breyting á umræddu deiliskipulagi er tekið hafi gildi árið 2010 ekki verið forsenda fyrir lagningu malarslóðans.

Í Aðalskipulagi Vestmannaeyja 1975-1995 hafi umrætt svæði verið skilgreint sem íþrótta- og útivistarsvæði og hafi íbúðarbyggð við svæðið byggst upp eftir þann tíma. Sú notkun sem nú sé á svæðinu geti því ekki komið á óvart. Hvorki hafi verið brotið gegn þeim tilgreindu laga- og reglugerðarákvæðum sem kærendur vísi til né gegn eignarrétti þeirra og séu engin efnisleg rök færð fyrir slíku broti. Við mat á staðsetningu tjaldsvæðis hafi verið færð fram málefnaleg rök á fyrri stigum auk þess sem gætt verði að fremsta megni að ónæði frá svæðinu verði sem minnst, m.a. með gerð hljóðmanar sem búið sé að veita framkvæmdaleyfi fyrir. Í þéttbýli verði aldrei hjá því komist að ónæði hljótist af nábýli við íbúa eða lögmæta starfsemi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila þá breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein í Vestmannaeyjum að tjaldsvæði skuli staðsett sunnan og austan við Þórsheimili.

Samkvæmt Aðalskipulagi Vestamannaeyja 2002-2014 er umrætt svæði merkt U2, opin svæði til sérstakra nota, en þau voru skilgreind svo í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 að um væri að ræða svæði með útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert væri ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við þá starfsemi sem þar væri stunduð, s.s. tjald- og hjólhýsasvæði. Í aðalskipulaginu, svo sem því var breytt með samþykkt bæjarstjórnar 28. júní 2012, er nú einnig heimilt að nýta grassvæði innan íþróttasvæðis sem tjaldsvæði og er sérstaklega tilgreint að heimilt verði að nýta grassvæði við Þórsheimili undir tjaldsvæði. Er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana fullnægt með breytingu þessari. Er landnotkun mörkuð í aðalskipulagi og sætir hún ekki endurskoðun úrskurðarnefndarinnar.

Í málsrökum sínum hafa kærendur vísað til 11. gr. skipulagsreglugerðar nr. 400/1998, sem í gildi var er hin kærða ákvörðun var tekin, en tilvitnað ákvæði kvað á um að óheimilt væri að breyta skipulagi svæðis þar sem framkvæmt hefði verið í ósamræmi við skipulag fyrr en hin ólöglega framkvæmd hefði verið fjarlægð, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Nefnt ákvæði átti sér stoð í 4. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Samkvæmt núgildandi skipulagslögum nr. 123/2010, sem í gildi voru við hina kærðu ákvörðunartöku, getur skipulagsfulltrúi nú krafist þessa, sbr. 3. mgr. 53. gr. laganna, en ber ekki skylda til greindra aðgerða.

Almannahagsmunir, þróun byggðar, skipulagsrök eða önnur málefnaleg sjónarmið geta knúið á um breytingu á gildandi deiliskipulagi, einkum þegar skipulag er komið til ára sinna. Ber sveitarfélaginu m.a. að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Eru kröfur í aðalskipulagi um að tryggja þurfi góða hljóðvist í nágrenni við tjaldsvæðið og kvöð um hljóðvörn á mótum tjaldsvæðis og íbúðarbyggð við Áshamars, sem lögð er á í hinu umdeilda deiliskipulagi, til þess fallnar að draga úr áhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá er og bent á að einstaklingum er tryggður bótaréttur í 51. gr. skipulagslaga sé sýnt fram á að skipulagsáætlanir valdi tjóni.

Að öllu framangreindu virtu og þar sem ekki liggur fyrir að þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði er kröfu kærenda um ógildingu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:


Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja frá 28. júní 2012 um að heimila breytingu á deiliskipulagi íþrótta- og útivistarsvæðis við Hástein, Vestmannaeyjum.

___________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________            ___________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

28/2013 Hólmgarður

Með
Árið 2014 þriðjudaginn 30. september, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 28/2013 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. mars 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir R, Hólmgarði 2, Reykjavík, erindi Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem tilkynnt var í bréfi til kæranda, dags.13. febrúar 2013, þar sem farið var fram á að óskráður hundur á vegum kæranda yrði fjarlægður frá Hólmgarði 2 innan tveggja vikna frá dagsetningu bréfsins og áréttuð sú krafa að skráður hundur kæranda yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum eða garði hússins. Skilja verður málskot kæranda svo að krafa heilbrigðiseftirlitsins, um að hinn óskráði hundur verði fjarlægður, verði felld úr gildi.  

Umbeðin gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur hinn 15. apríl 2013.

Málsatvik og rök:  Samkvæmt því sem fyrir liggur í málinu mun kærandi hafa haldið tvo hunda í íbúð sinni að Hólmgarði 2 í Reykjavík.  Leyfi hefur verið veitt fyrir öðrum hundinum á umræddum stað en hinn hundurinn mun hafa verið í umsjá kæranda um nokkurn tíma án þess að leyfi hafi verið veitt fyrir því að halda hundinn á nefndum stað. Í kjölfar kvartana íbúa að Hólmgarði 2 sendi Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur kæranda bréf, dags. 13. febrúar 2013, með yfirskriftinni „Óleyfis hundur – lokaviðvörun“. Í bréfinu er vísað til fyrri bréfaskrifta eftirlitsins til kæranda vegna hins óskráða hunds sem heilbrigðiseftirlitið hvað sig ekki geta veitt leyfi fyrir sökum ofnæmis sameiganda að fyrrgreindri fasteign, Var farið fram á að hundurinn yrði fjarlægður frá Hólmgarði 2 innan tilskilins frests og að hundur kæranda sem leyfi var fyrir yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum hússins eða í sameiginlegum garði.  Er greint bréf tilefni málskots kæranda.

Kærandi vísar til þess að þær tvær íbúðir sem séu að Hólmgarði 2 hafi sérinngang en garður sé sameiginlegur.  Mikið hafi gengið á í samskiptum kæranda og íbúa í húsinu vegna hunda- og kattahalds kæranda og kvartanir ítrekað sendar heilbrigðiseftirliti. Staðhæfingar um óþrifnað í sameiginlegum garði hússins vegna hunda á vegum kæranda séu tilhæfulausar en lausagöngukettir geri þar þarfir sínar sem annars staðar. Dregið sé í efa að hundahald kæranda valdi íbúa hússins ofnæmi enda um engan samgang að ræða eða sameiginleg rými þar sem gæludýr kæranda séu. Hundur sé haldinn að Hólmgarði 4, sem sé sambyggt húsinu að Hólmgarði 2, sem sé nær íbúð nefnds íbúa en íbúð kæranda. Kærandi og dóttir hennar hafi sætt hótunum og ofbeldi af hálfu fyrrgreinds íbúa og sambýlismanns hennar og sé það ósk kæranda að leyfi verði veitt fyrir umræddum hundi svo þessu linni.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er á það bent að eftirlitið hafi haft afskipti af hundahaldi kæranda vegna kvartana um óþrif á lóð Hólmgarðs 2 vegna hunds sem ekki hafi verið veitt leyfi fyrir. Borist hafi staðfesting á því að íbúi í húsinu sé haldinn ofnæmi fyrir hundum. Farið hafi verið fram á að skráður hundur kæranda yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum og garði hússins og farið fram á að hinn óskráði hundur yrði fjarlægður. Vísa beri máli þessu frá þar sem ekki liggi fyrir kæranleg ákvörðun af hálfu heilbrigðiseftirlitsins.        

Niðurstaða: Í bréfi því frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur til kæranda sem er tilefni kærumáls þessa er tekið fram að um lokaviðvörun sé að ræða. Eins og fyrr er rakið var í bréfinu farið fram á að óskráður hundur á vegum kæranda yrði fjarlægður frá Hólmgarði 2 svo ekki þyrfti að koma til frekari aðgerða. Þá var þar áréttað að skráður hundur kæranda yrði ekki hafður í sameiginlegum rýmum  eða garði greinds húss.

Með hliðsjón af tilvitnuðu orðalagi bréfsins verður ekki talið að í því hafi falist lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina heldur hafi verið um að ræða áskorun og tilmæli. Þá liggur fyrir samkvæmt upplýsingum úr Þjóðskrá Íslands að kærandi hefur selt íbúð sína að Hólmgarði 2 samkvæmt kaupsamningi dags. 28. júní 2013 og afsali, dags. 2. september s.á. og afhent nýjum eiganda 1. september 2013. Liggur því fyrir að kærandi heldur ekki lengur hund í fyrrgreindri fasteign.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson

77/2014 Mánatún

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 2. október tók Ómar Stefánsson varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011:

Mál nr. 77/2014, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. mars 2006 og 23. nóvember 2011 um að veita leyfi til þess að byggja allt að níu hæða steinsteypt fjölbýlishús á lóðinni nr. 3-5 við Mánatún í Reykjavík með fimmtíu og sex íbúðum ásamt bílageymslu og geymslukjallara á tveimur hæðum fyrir samtals 284 bíla og að ganga frá og taka í notkun til bráðabirgða hluta bílageymslunnar á nefndri lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júlí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir O, f.h. hússtjórnar Mánatúns 3-5, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. mars 2006 að veita leyfi til þess að byggja allt að níu hæða steinsteypt fjölbýlishús á lóðinni nr. 3-5 við Mánatún með 56 íbúðum ásamt bílageymslu og geymslukjallara á tveimur hæðum fyrir samtals 284 bíla og ákvörðun byggingarfulltrúa frá 23. nóvember 2011 um að veita byggingarleyfi til þess að ganga frá og taka í notkun til bráðabirgða hluta bílageymslunnar á nefndri lóð.

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi að því er varðar heimilaða bílageymslu og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg hinn 28. júlí 2014.

Málavextir: Hinn 30. mars 2006 staðfesti borgarráð ákvörðun byggingarfulltrúa frá 28. s.m. um að veita byggingarleyfi fyrir fjölbýlishúsi við Mánatún 3-5 sem var fyrsti áfangi í uppbyggingu á svonefndum bílanaustreit, en hann samanstendur af lóðum nr. 1-17 við Mánatún og 1-3 við Sóltún. Var byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum gefið út hinn 28. febrúar 2007. Hinn 23. nóvember 2011 samþykkti byggingarfulltrúi að veitt yrði byggingarleyfi til þess að ganga frá og taka í notkun til bráðabirgða hluta bílageymslunnar á nefndri lóð sem heimiluð hafði verið með byggingarleyfinu frá árinu 2006. Staðfesti borgarráð þá ákvörðun hinn 25. s.m. Samkvæmt þeim teikningum sem samþykktar voru árin 2006 og 2011 er gert ráð fyrir einni inn- og útkeyrslu í bílageymsluna frá Mánatúni en á gildandi deiliskipulagsuppdrætti svæðisins frá árinu 2005 er að finna tvær inn- og útkeyrslur, þ.e. ein frá Mánatúni og hin frá Sóltúni. Hinn 10. júlí 2013 gerði leyfishafi samkomulag um tímabundin afnot af bílastæðum við íbúa Mánatúns 3-5 og í kjölfarið sendi kærandi byggingafulltrúa bréf dags. 17. júlí 2013 þar sem áréttað var að samkvæmt gildandi deiliskipulagi væri gert ráð fyrir tveimur inn- og útkeyrslum fyrir umrædda bílgeymslu og að óhjákvæmilegt væri að taka tillit til þess í núverandi byggingaráfanga. Var farið fram á að byggingarfulltrúi hlutaðist til um að önnur inn- og útkeyrsla yrði gerð. Sendi kærandi byggingarfulltrúa ítrekunarbréf, dags. 20. janúar 2014 og 14. apríl s.á. Svar barst frá byggingarfulltrúa, dags. 7. maí 2014, þar sem hann mat það svo að inn- og útkeyrslur í bílageymsluna sem sýndar væru á skipulagsuppdrætti væru leiðbeinandi en ekki skyldubundnar.
 
Málsrök kæranda: Skírskotar kærandi til þess að með hinum kærðu ákvörðunum hafi í veigamiklum atriðum verið vikið frá gildandi deiliskipulagi er varðar fjölda og fyrirkomulag inn- og útkeyrslna í bílageymslu sem fjölbýlishúsið að Mánatúni 3-5 hafi aðgang að. Aðeins sé gert ráð fyrir einni inn- og útkeyrslu en í deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir tveimur. Samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 sem og eldri skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 eigi að byggja í samræmi við gildandi deiliskipulag. Gert hafi verið ráð fyrir 305 bílastæðum í gildandi deiliskipulagi en samkvæmt umdeildu byggingarleyfi séu bílastæðin aðeins 284. Hafi greint fyrirkomulag á aðkomu verið kynnt kaupendum íbúða í Mánatúni 3-5 með vísan til deiliskipulagsins. Núverandi inn- og útkeyrsla sé í norðausturhluta Mánatúns 3 en samkvæmt deiliskipulagi hafi einnig verið gert ráð fyrir inn- og útkeyrslu frá Sóltúni. Sú inn- og útkeyrsla hafi ekki verið til staðar í upphafi þar sem framkvæmdir standi enn yfir í þeim hluta. Þegar framkvæmdir hafi hafist við Mánatún 7-17 hafi verið vakin athygli á því að samkvæmt deiliskipulagi sé gert ráð fyrir tveimur inn- og útkeyrslum og hafi framkvæmdaraðili tekið undir þau sjónarmið að hentugra væri að hafa tvær en slíkt væri þó ekki skylt samkvæmt byggingarleyfi. Í kjölfarið hafi verið leitað til byggingarfulltrúa og hafi verið farið fram á að hann sæi til þess að framkvæmdaraðili myndi gera ráðstafanir til að koma fyrir annarri inn- og útkeyrslu. Hins vegar hafi byggingarfulltrúi ekki talið ástæðu til að verða að beiðninni þar sem ekki væri um skyldu að ræða. Virðist fjöldi inn- og útkeyrslna í bílageymsluna og fyrirkomulag þeirra ekki hafa fengið neina umfjöllun áður en byggingarleyfið hafi verið samþykkt. Sé aðeins vísað til þess að í deiliskipulaginu sé tekið fram að fyrirkomulag bílastæða sé leiðbeinandi. Telji kærandi það fráleitt að ákvæði um „fyrirkomulag bílastæða“ sé yfirfært á fyrirkomulag og fjölda innkeyrslna í bílageymsluna.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að í deiliskipulaginu sé tekið fram að fyrirkomulag bílastæða á skipulagsuppdrætti sé leiðbeinandi en að auki sé fjallað um aðkomu að byggingum í deiliskipulaginu þar sem komi fram að aðkoma íbúðarlóða sé frá Sóltúni og Mánatúni. Þegar litið sé til þess að fyrirmæli í deiliskipulagi um bílastæði, bæði ofanjarðar og í bílakjallara, séu leiðbeinandi verði ekki séð að umrædd byggingaleyfi fari í bága við ákvæði gildandi deiliskipulags.

Málsrök leyfishafa: Bendir leyfishafi á að framkvæmdir byggi á gildu byggingarleyfi og sé því ekki um óleyfisframkvæmdir að ræða. Vísa eigi málinu frá þar sem í fyrsta lagi sé kæra í máli þessu allt of seint fram komin. Umdeilt byggingarleyfi hafi verið gefið út 26. janúar 2012 og hafi framkvæmdir hafist strax í kjölfarið. Mætti kæranda því hafa verið kunnugt um ákvörðunina strax á árinu 2012. Að auki hafi verið haldinn húsfélagsfundur í júlí 2013 þar sem fjallað hafi verið um málið og í framhaldi hafi hafist bréfaskriftir á milli kæranda og Reykjavíkurborgar. Einnig hafi legið fyrir samþykktar teikningar og eignaskiptayfirlýsing með teikningum, m.a. af bílakjallara sem hafi verið fylgigögn með kaupsamningum allra þeirra sem að kæranda standi. Hafi komið fram á þeim teikningum að einungis ein inn- og útkeyrsla verði fyrir bílakjallarann. Hafi því kæranda mátt vera kunnugt um útgáfu byggingarleyfisins fyrir löngu síðan. Kærandi hafi ekki sýnt fram á að veigamiklar ástæður séu til þess að heimila lengri kærufrest. Hins vegar séu fyrir hendi veigamiklar ástæður fyrir því að ekki sé vikið frá lögbundnum kærufresti þar sem framkvæmdirnar séu langt komnar á grundvelli hins kærða byggingarleyfis og sé nú þegar búið að selja íbúðir í Mánatúni 7-17. Myndu tafir á framkvæmdum og breytingar á byggingunni og byggingarkostnaði leiða til verulegs tjóns fyrir leyfishafa þar sem þeir hefðu mátt gera ráð fyrir því að kærufrestir vegna útgefinna byggingarleyfa væru liðnir.

Því sé andmælt að byggingarleyfið sé ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag. Deiliskipulagið sé skipulagsáætlun fyrir tiltekið svæði og hafi verið veitt byggingar- og framkvæmdarleyfi í samræmi við lög og reglugerðir. Það komi hvergi fram í deiliskipulaginu að skylt sé að hafa tvær inn- og útkeyrslur í bílakjallarann og teljist það því ekki frávik eða breyting frá deiliskipulagi. Að auki sé ekki kveðið á um í byggingarreglugerð hversu margar útkeyrslur eigi að vera úr bílageymslu.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist að byggingarleyfi sem samþykkt voru hinn 28. mars 2006 og 23. febrúar 2011 verði felld úr gildi. Er um það deilt hvort hinar kærðu ákvarðanir séu í samræmi við gildandi deiliskipulag hvað varðar fjölda bílastæða í bílageymslu og fjölda inn- og útkeyrslna fyrir bílageymsluna. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 18. júlí 2014 og fer byggingarleyfishafi fram á að kærumálinu verði vísað frá þar sem kærufrestur hafi verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um efni kæranlegrar ákvörðunar miðað við málsatvik.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málsins áttu fulltrúar kæranda fund með starfsmanni byggingarfulltrúa hinn 4. júlí 2013 þar sem m.a. var rætt um fyrirkomulag inn- og útaksturs fyrir fyrrgreinda bílageymslu. Er vísað til þessa fundar í bréfi kæranda til embættis byggingarfulltrúa, dags. 17. júlí 2013, þar sem þeirri skoðun var lýst að óhjákvæmilegt væri að hafa aðkomurnar í umrædda bílageymslu tvær enda gert ráð fyrir slíku í gildandi deiliskipulagi. Verður af þessu ekki annað ráðið en að kæranda hafi fyrir þann tíma mátt vera kunnugt um að veitt byggingarleyfi gerðu aðeins ráð fyrir einni aðkomu að bílageymslunni. Fyrrgreindu bréfi kæranda var svarað með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 7. maí 2014, þar sem þeirri skoðun var lýst að gildandi deiliskipulag fæli ekki í sér ákvörðun um tvær aðkomur að umræddri bílageymslu heldur sýndi uppdráttur möguleika á aðkomum frá tveimur stöðum. Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið leiðbeint um kæruleiðir og kærufrest vegna málsins svo sem rétt hefði verið að gera með hliðsjón af 1. mgr. 7. gr. og 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Með vísan til þess sem að framan er rakið barst kæra í máli þessu þegar meira en ár var liðið frá því að kæranda mátti vera kunnugt um hinar kærðu ákvarðanir og er því óheimilt að taka málið til efnismeðferðar, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni

_________________________________
Ómar Stefánsson

3/2013 Hólmsheiði

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 25. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 3/2013, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 19. desember 2012 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi á Hólmsheiði vegna fangelsislóðar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. janúar 2013, er bárust nefndinni sama dag, kærir Þ, eiganda lands nr. 113¬435 í Reynisvatnslandi, ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 19. desember 2012 um að samþykkja breytingu deiliskipulags vegna fangelsislóðar á Hólmsheiði. Einnig er kærð samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. janúar 2013 um stækkun lóðar nr. 9 við Nesjavallaleið og samþykkt hans frá 22. s.m. á umsókn um leyfi til að reisa fangelsi á téðri lóð. Verður síðara kærumálið, sem er númer 4/2013, sameinað kærumáli þessu enda standa hagsmunir kæranda því ekki í vegi. Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður um stöðvun framkvæmda. Þykir málið nú tækt til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 25. febrúar 2013 og viðbótargögn 21. maí 2014.

Málavextir: Árið 2001 var samþykkt í borgarráði Reykjavíkur deiliskipulag vegna byggingu móttöku- og gæsluvarðhaldsfangelsis á Hólmsheiði. Fram kemur í greinargerð skipulagsins að deiliskipulagið nái til um 35000 m² lóð við Nesjavallaveg, skammt suðvestan við spennuvirki við Geitháls. Þá segir í skilmálum skipulagsins að byggingar megi vera 1-2 hæða og hámarkshæð þeirra ekki meiri en 8 m yfir hæð gólfplötu jarðhæðar. Á fundi skipulagsráðs hinn 29. ágúst 2012 var lagt fram erindi Framkvæmdasýslu ríkisins um breytingu á fyrrgreindu deiliskipulagi, m.a. vegna girðinga. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu og málinu vísað til borgarráðs. Tillagan var hins vegar ekki auglýst heldur sætti hún breytingum og í kjölfar þess var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsráðs hinn 19. desember 2012 og eftirfarandi bókað: „Samþykkt með vísan til 12. gr. samþykktar um skipulagsráð. Samþykkt að falla frá grenndarkynningu þar sem breytingin varðar einungis hagsmuni lóðarhafa.“ Birtist auglýsing um gildistöku umræddrar breytingar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. janúar 2013.

Hinn 15. janúar 2013 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt umsókn um leyfi til að stækka lóðina við Nesjavallaleið 9 um 2733m² frá óútvísuðu landi, þannig að lóðin yrði 37400 m². Þá var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. janúar s.á. tekin fyrir og samþykkt umsókn um leyfi til að reisa fangelsi úr steinsteypu á einni hæð með flötu þaki og tæknirými á annarri hæð, einangrað og klætt að utan að mestu leyti með málmklæðingu á lóðinni nr. 9 við Nesjavallaleið á Hólmsheiði. Staðfesti borgarráð greindar afgreiðslur 17. og 24. s.m.
 
Málsrök kæranda: Kærandi telur að ekki liggi fyrir gilt deiliskipulag fyrir umrædda lóð. Sé hin umdeilda breyting því markleysa sem eigi sér hvorki haldbæra stoð í skipulagsáætlunum, né í m.a. ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010, mannvirkjalaga nr. 160/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Breytingin snerti ekki aðeins hagsmuni lóðarhafa en ljóst sé að íbúar höfuðborgarsvæðisins gætu talið sig þetta varða. Kærandi eigi sumarbústaðarland sem sé í um 10-20 mínútna fjarlægð frá líklegum byggingarreit fangelsisins og eigi ásamt öðrum sumarbústaðareigendum á umræddu svæði lögvarinna hagsmuna að gæta um skipulagsmál á svæðinu. Sé í því sambandi vísað til álits umboðsmanns Alþingis frá 30. apríl 2012 er fjallað hafi um ákvarðanir umhverfisráðherra um Austurheiðar. Þar segi svo: „Vafalaust er að eigendur lands og orlofshúsa í næsta nágrenni höfðu ríka hagsmuni af því að undirbúningur og málsmeðferð sveitarfélagsins í aðdraganda ákvörðunar um að heimila slíka losun jarðvegs og uppbyggingu mannvirkja til tiltekinnar frí¬stundaiðju í námunda við eignir þeirra og almennt útivistar- og frístundasvæði væri í samræmi við þær réttaröryggisreglur sem fram komu í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.“

Ekki sé gert ráð fyrir þjónustustofnunum á Hólmsheiði í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og aðalskipulagi Reykjavíkur og ólögmætt sé skv. 13. gr. mannvirkjalaga að gefa út byggingarleyfi fyrir mannvirkjum sem ekki séu í samræmi við skipulagsáætlanir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kærunum verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Kærandi eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið. Um tveir kílómetrar séu á milli lóðar kæranda og fangelsislóðar. Muni staðsetning byggingar á umræddri lóð engin áhrif hafa á grenndarhagsmuni kæranda, hvorki í sjónrænu tilliti né öðru. Hvorki verði af kæru né öðrum gögnum ráðið hvaða hagsmuni kærandi sé að verja. 

Andmæli kæranda við greinargerð Reykjavíkurborgar: Kærandi ítrekar fyrri athugasemdir sínar og mótmælir harðlega þeirri fullyrðingu sveitarfélagsins að hann eigi engra lögvarinna hagsmuna að gæta. Nærumhverfi fangelsa litist af þeirri starfsemi sem þar fari fram. Felist hinir lögvörðu hagsmunir kæranda í því að fangelsisbyggingin og hið afgirta og flóðlýsta öryggissvæði við jaðar Reynisvatnslands hafi óhjákvæmilega neikvæð og truflandi áhrif á allt nærumhverfið. Sé sumarbústaðarlóð kæranda í u.þ.b. tíu mínútna hlaupafjarlægð frá fangelsisbyggingu og því gæti hagsmunum kæranda verið raskað ef fangar strjúki. Hið afgirta svæði sé við gatnamót sem keyra megi um inn í Reynisvatnsland og muni því ávallt minna á sig. Þá muni umferð um svæðið aukast. Þurfi haldbær rannsóknargögn en ekki staðlausar staðhæfingar til að sýna fram á í hvaða fjarlægð mestu áhrifin deyi út. Muni fangelsisbygging í jaðri hins svonefnda græna trefils, sem sé að hluta tekin undir þessa starfsemi, spilla umhverfinu, hafa fælandi áhrif á fuglalíf og alla útivist utan og innan græna trefilsins.

Um sé að ræða réttindi, og þar með lögvarða hagsmuni hvers og eins íbúa, um að virtar séu þær leyfilegu framkvæmdir sem gert sé ráð fyrir í svæðis- og aðalskipulagi, hafi breytingar ekki verið auglýstar. Vegna réttaröryggissjónarmiða verði lögvarðir hagsmunir eigenda frístundalóða og réttarheimildir ekki túlkaðar þröngt, sbr. tilvitnuð orð um umboðsmanns Alþingis um ríka hagsmuni eigenda lands og orlofshúsa um grenndarrétt. Þá skuli gæslu- og afplánunarfangelsi fyrir 56 einstaklinga á um 4 ha lands skilyrðislaust sæta mati Skipulagsstofnunar vegna neikvæðra umhverfisáhrifa langt út fyrir skipulagsreitinn.

Vettvangsskoðun: Formaður úrskurðarnefndarinnar kynnti sér aðstæður á vettvangi 2. september 2014.

Niðurstaða: Árið 2001 samþykkti borgarráð Reykjavíkur deiliskipulag á Hólmsheiði er gerði ráð fyrir fangelsis- og gæsluvarðhaldsbyggingu á 35000 m2 lóð við Nesjavallarveg. Sætir sú ákvörðun ekki endurskoðun í máli þessu enda er kærufrestur vegna hennar löngu liðinn.

Fól hin kærða breyting á nefndu deiliskipulagi, sem tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 11. janúar 2013, í sér að skilmálum fyrir girðingar og gróðurbeltum var breytt og skilmálum um hljóðvist bætt við. Þá var lóðin stækkuð til norðurs um 10 m og til norðausturs um 7 m og yrði eftir stækkun 37.410 m². Byggingarreitur og nýtingarhlutfall hélst óbreytt. Þá var tilgreint að vegtenging við lóðina í framtíðinni yrði frá Langavatnsvegi. Þá var með hinum kærðu samþykktum byggingarfulltrúa var veitt heimild til að stækka umrædda lóð og reisa á henni fangelsi á einni hæð með flötu þaki og tækirými á annarri hæð.

Í málinu hefur verið gerð krafa um frávísun með þeim rökum að kærandi eigi ekki kæruaðild. Um kæruaðild í þeim málum sem undir úrskurðarnefndina heyra er fjallað um í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar er kveðið á um að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra eigi nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á.

Kærandi máls þessa er eigandi lands nr. 113435 í Reynisvatnslandi á Hólmsheiði og er land hans í um tveggja kílómetra fjarlægð frá hinni umdeildu lóð og fangelsisbyggingu. Liggur fangelsislóðin í nálægð við spennuvirki við Geitháls en lóð kæranda er handan við spennuvirkið fjær fangelsislóðinni. Samkvæmt þeim upplýsingum er liggja fyrir úrskurðarnefndinni mun fangelsisbyggingin verða lágreist og liggur lóð hennar nokkuð lægra í landi en nefnt spennuvirki. Fallast má á að kærandi, líkt og aðrir fasteignaeigendur almennt, geti átt hagsmuna að gæta um skipulagsmál er varðað geti eignir hans. Miðað við aðstæður allar verður hins vegar ekki talið að grenndaráhrif umdeildrar fangelsislóðar og byggingar séu með þeim hætti að varðað geti hagsmuni kæranda á þann veg að hann eigi þá einstaklingsbundnu og lögvörðu hagsmuni tengda gildi umdeildra ákvarðana sem skilyrði eru kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Telur nefndin ljóst að hvorki verði um útsýnisskerðingu að ræða né svo verulegar breytingar á umferð eða önnur áhrif, s.s. vegna flóðlýsingar, á umhverfi kæranda að það geti snert lögvarða hagsmuni hans þegar miðað er við staðsetningu lóðar hans og afstöðu hennar til hinnar umdeildu fangelsislóðar sem og legu hennar.

Þar sem kærandi telst samkvæmt framansögðu ekki eiga þá hagsmuni tengda því að fá úrlausn um kæruefnið sem er áskilið er lögum samkvæmt ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
 

Úrskurðarorð:


Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________________________
Nanna Magnadóttir

 

97/2014 Skógarás

Með
Árið 2014, fimmtudaginn 25. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 97/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. janúar 2009 um að veita leyfi til að stækka svalir, breyta gluggum á norður- og vesturhliðum og innra skipulagi á 2. hæð húss á lóð nr. 21 við Skógarás.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. ágúst 2014, sem barst nefndinni sama dag, kæra A og S, Skógarási 19, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. janúar 2009 að veita leyfi til að stækka svalir húss á lóð nr. 21 við Skógarás.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og þess jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Til vara er þess krafist að svölunum verði breytt þannig að þær samræmist byggingarreit hússins. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. og 23. og 24. september 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 27. janúar 2009 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavíkur tekin fyrir og samþykkt umsókn um að stækka svalir, breyta gluggum á norður- og vesturhliðum og innra skipulagi á 2. hæð einbýlishúss á lóð nr. 21 við Skógarás. Fundargerð byggingarfulltrúa var lögð fram á fundi skipulagsráðs 28. s.m. og staðfest í borgarráði 29. janúar 2009.

Kærendur skírskota til þess að framkvæmdir hafi staðið yfir við byggingu hússins nr. 21 við Skógarás með hléum frá árinu 2007 en framkvæmdir við byggingu svala hafi nýverið hafist. Feli svalirnar í sér skerðingu á réttindum kærenda enda sé opið útsýni af svölunum yfir í garð þeirra. Engin grenndarkynning hafi átt sér stað áður en hið umþrætta leyfi hafi verið veitt og kærendum þannig ekki gefist kostur á að tjá sig. Svalirnar nái út fyrir samþykktan byggingarreit sem sé ólögmætt. Þá hafi þurft að fara fram grenndarkynning þar sem svalirnar rýri grenndarrétt kærenda. Svalirnar séu of nálægt húsi þeirra og mannaferðir svo nálægt í þeirri hæð sem svalirnar séu sé brot á rétti kærenda til friðs og notkunar á húsi þeirra. Vísi kærendur til 7. mgr. 43. gr. l. nr. 73/1997 um þetta efni, sbr. nú skipulagslög nr. 123/2010.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er farið fram á að kröfu kærenda verði vísað frá. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011 teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi. Frestur til að kæra hina kærðu ákvörðun í máli þessu hafi því verið löngu liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Ekki sé reynt að færa rök að því í kæru hvers vegna víkja ætti frá nefndu ákvæði laganna. Þá sé allur vafi tekinn af í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að vísa beri kæru þessari frá, en skv. ákvæðinu sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin.

Kærendur vísa til þess að þeim hafi ekki verið kynnt sú breyting sem gerð hafi verið á áður samþykktum teikningum. Engin tilkynning hafi verið send þeim en allir frestir VII. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 miði við það þegar kæranda hafi verið tilkynnt um ákvörðun stjórnvalds. Framkvæmdir við hinar umþrættu svalir hafi ekki hafist fyrr en í ágúst 2014 og þá þegar hafi kærendur andmælt og sent kæru innan lögmælts frests, sbr. 2. mgr. 4. gr. l. nr. 130/2011. Vísi kærendur m.a. til sjónarmiðar nefndarinnar sem fram komi í málum nr. 8/2012 og 20/2014. Þá sé ljóst að byggingarleyfi fyrir stækkun svala hafi fallið úr gildi 29. janúar 2010 og sé því um óleyfisframkvæmd að ræða.

Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi fyrir stækkun svala, breytingu á gluggum og innra skipulagi á 2. hæð hússins nr. 21 við Skógarás var samþykkt af byggingarfulltrúanum í Reykjavík 27. janúar 2009 og staðfest í borgarráði 29. s.m. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 28. ágúst 2014.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kærendum varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera ljóst að leyfi hafi verið veitt fyrir byggingu svalanna og öðrum breytingum, svo sem af framkvæmdum við bygginguna. Ekki verður af fyrirliggjandi gögnum málsins ráðið að framkvæmdir samkvæmt leyfinu hafi byrjað við svalirnar fyrr en í ágúst 2014 þegar kærendur kveðast hafa orðið áskynja um framkvæmdirnar en aðrar breytingar samkvæmt leyfinu eru ekki þess eðlis að þeir hafi mátt ráða af því að til stæði að stækka hinar umþrættu svalir. Verður því við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests.

Upplýst hefur verið í málinu að byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út af byggingarfulltrúa í samræmi við 44. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 en slíkt leyfi var forsenda fyrir því að hefja framkvæmdir. Þá verður ekki séð af gögnum málsins að skilyrðum greinds lagaákvæðis til útgáfu byggingarleyfis hafi verið fullnægt en byggingarleyfisgjöld munu ekki hafa verið greidd, sbr. 2. tl. 1. mgr. ákvæðisins, og er ekki að sjá að byggingarstjóri hafi undirritað yfirlýsingu um ábyrgð sína eða tilkynnt byggingarfulltrúa um nöfn iðnmeistara í samræmi við 3. mgr. nefndrar 44. gr. Í 4. mgr. nefnds ákvæðis laganna var kveðið á um að staðfesting sveitarstjórnar skv. 43. gr. laganna félli úr gildi hefði byggingarleyfi ekki verið gefið út innan 12 mánaða frá staðfestingunni.

Þar sem staðfesting borgarráðs er fallin úr gildi, sbr. framangreinda 4. mgr. 44. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga, eru úr gildi fallnar heimildir til þeirra framkvæmda sem samþykktar voru með hinni kærðu ákvörðun. Er ekki lengur fyrir hendi nein sú ákvörðun er bindur enda á mál og sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir

48/2014 Borgarhólsstekkur

Með
Árið 2014, föstudaginn 19. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu frá 12. júlí 2007 um að veita leyfi fyrir stækkun á sumarhúsi um 7,8 m2 og byggingu 25,8 m2 gestahúss á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk, Miðfellslandi í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2014, sem barst nefndinni 5. s.m., kærir J,  þá ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu, dags. 12. júlí 2007, að veita leyfi fyrir stækkun á sumarhúsi um 7,8 m2 og byggingu 25,8 m2 gestahúss á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk, Miðfellslandi í Bláskógabyggð.

Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að því er varðar heimild til byggingar gestahúss á nefndri lóð. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 18. júní og viðbótargögn 29. ágúst og 3. september 2014.

Málavextir: Árið 2005 sótti lóðarhafi Borgarhólsstekks nr. 1 í Bláskógabyggð um leyfi til að stækka sumarhús á lóðinni um 8,2 m2 og að byggja 21,7 m2 geymslu á lóðinni. Með umsókninni fylgdi yfirlýsing, dags. 15. mars 2005, frá eiganda lóðar nr. 3 við Borgarhólsstekk þar sem hann gerir engar athugasemdir við fyrirhugaðar framkvæmdir. Var umsóknin samþykkt á fundi byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 29. mars 2005, sem staðfest var af byggðaráði Bláskógabyggðar 12. apríl s.á og af sveitarstjórn Bláskógabyggðar 19. s.m. Árið 2007 sótti leyfishafi um breytingu frá fyrri umsókn. Fólst breytingin í því að í stað geymslu yrði byggt 25,8 m2 gestahús og stækkun sumarhúss yrði 9,5 m2. Var umsóknin afgreidd af byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu hinn 12. júlí 2007 og veitt leyfi fyrir stækkun sumarhúss um 7,8 m2 og byggingu 25,8 m2 gestahúss. Var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest af byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu 17. s.m., af byggðaráði Bláskógabyggðar 31. s.m. og af sveitarstjórn Bláskógabyggðar 4. september s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að umrædd frístundabyggð við Þingvallavatn eigi sér áratuga sögu og sé hún mjög þétt í samanburði við aðrar frístundabyggðir. Stækkun húsa eða nýbyggingar geti því breytt ásýnd byggðar og haft veruleg áhrif á næstu lóðir. Kærandi hafi fyrst orðið þess áskynja við komu í frístundahús sitt hinn 12. maí 2014 að verið væri að reisa nýbyggingu á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk. Við nánari eftirgrennslan hafi komið í ljós að framkvæmdirnar væru gerðar í skjóli byggingarleyfis frá árinu 2007 og hinn 14. maí 2014 hafi verið óskað eftir teikningum frá skipulagsfulltrúa af umræddu húsi. Beiðni um gögn og upplýsingar hafi verið ítrekuð 22. s.m. og umbeðin gögn borist 27. maí 2014.

Hvorki hafi farið fram grenndarkynning vegna umdeilds byggingarleyfis né hafi nágrönnum, sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta vegna ákvörðunarinnar, verið sent bréf til upplýsingar um veitingu leyfisins. Hafi sveitarfélagið því brotið gegn 43. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem og gr. 12.5 í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998. Að auki séu teikningar hins umþrætta gestahúss villandi en þar segi að verið sé að byggja skúr þegar um nýtt hús sé að ræða. Samkvæmt 45. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga og 13. og 14. gr. þágildandi byggingareglugerðar, sem og gr. 2.4.7. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, falli byggingarleyfi úr gildi séu framkvæmdir ekki hafnar innan 12 mánaða frá útgáfu leyfisins. Af framangreindu sé því ljóst að byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og byggðaráð Bláskógabyggðar hafi brotið alvarlega á hagsmunum þeirra aðila sem eigi lögvarinna hagsmuna að gæta. Grenndarréttur sé ótvíræður í frístundabyggð og sé ekki hægt að sættast á að lóðarhafi fái að reisa nýbyggingu sem rýri útsýni og ásýnd nágrannalóða verulega með mögulegri verðrýrnun á nærliggjandi frístundahúsum.

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að framkvæmdir við stækkun á bústaðnum og undirstöður gestahúss hafi hafist árið 2007. Hafi framkvæmdum við viðbyggingu verið lokið 2008 en þær hins vegar stöðvast við gestahúsið. Framkvæmdum við byggingu gestahússins hafi verið haldið áfram árið 2014.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að hann hafi í kjölfar veitingar leyfisins hafist handa við framkvæmdir. Lokið hafi verið við viðbygginguna og borað fyrir súlum og settir upp bitar fyrir umþrætt gestahús. Hafi verið beðið með frekari framkvæmdir til 29. mars 2014 þegar vinna hafi byrjað við klæðningu á botni og uppsetningu grindar á gestahúsinu. Telji leyfishafi kæruna of seint fram komna. Ráðist hafi verið í framkvæmdir við gestahúsið árið 2007, þó svo að grind þess hafi ekki risið fyrr en í lok mars 2014. Bent sé á að kærandi nýti sumarhús sitt mikið og ótrúverðugt sé að hann hafi ekki orðið framkvæmdanna var fyrr en 12. maí sl., enda hafi verið unnið við framkvæmdirnar helgarnar 29.-30. mars, 25.-27. apríl og 3.-4. maí 2014. Hafi kærufrestur því verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni.

Ekki verði talið að grenndarkynning hefði haft úrslitaráhrif á ákvörðun byggingarnefndar. Með grenndarkynningu sé nágrönnum sem eigi lögvarða hagsmuni aðeins gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri en það sé ekki þar með sagt að athugasemdir sem kunni að berast hafi áhrif á útgáfu greinds leyfis. Sé skortur á grenndarkynningu því aðeins formgalli og hafi því ekki áhrif á efnislega niðurstöðu. Að auki hafi byggingarnefnd metið það svo að þeir sem ættu hagsmuna að gæta í málinu hefðu verið með í ráðum og af því leiði að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni tengda umdeildu leyfi. Áréttað sé að almennt hafi ekki verið farið í grenndarkynningu á þessu svæði á þeim árum sem um ræði og ekki sé heldur um brot á deiliskipulagi að ræða. Séu hagsmunir kæranda ekki miklir af því hvort gestahúsið standi. Þær myndir sem kærandi hafi tekið við enda sólpalls hans séu til þess fallnar að gera eins mikið úr hinu skerta útsýni og mögulegt sé. Þá séu lóðir nær vatninu þar sem sumarhús muni rísa. Geti kærandi því ekki búist við að útsýni hans í átt að vatninu haldist óbreytt til frambúðar.

Niðurstaða: Hið kærða byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við sumarhúsið að Borgarhólsstekk 1 og byggingu gestahúss á lóðinni var samþykkt af byggingarfulltrúa og staðfest í sveitarstjórn Bláskógabyggðar á árinu 2007. Heimiluð viðbygging við sumarhúsið mun hafa verið risin á árinu 2008 en unnið var við að reisa umdeilt gestahús frá lokum mars og fram í maí 2014 samkvæmt upplýsingum leyfishafa. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 5. júní 2014.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt um tilvist og efni hinnar kærðu ákvörðunar eða mátti af aðstæðum vera ljóst að leyfi hafi verið veitt fyrir byggingu gestahússins, svo sem af framkvæmdum við bygginguna.

Ekki verður af fyrirliggjandi gögnum málsins ráðið með óyggjandi hætti hvenær framkvæmdir hafi byrjað við undirstöður gestahússins en ekki er til að dreifa formlegri úttekt byggingarfulltrúa á verkþáttum þeirrar byggingar. Framkvæmdir við gestahúsið hófust síðan í lok mars 2014 og stóðu fram í maí samkvæmt upplýsingum leyfishafa. Þótt framkvæmdir kunni að hafa átt sér stað við undirstöður hússins á árinu 2008 leikur verulegur vafi á að kærandi hafi mátt ráða af því hvað til stæði. Í ljósi þess að um er að ræða frístundabyggð verður heldur ekki sú ályktun dregin að honum hafi verið kunnugt um framkvæmdir þær við gestahúsið sem fram fóru á árinu 2014 fyrr en 12. maí það ár, þegar kærandi kvaðst hafa orðið áskynja um framkvæmdirnar. Í kjölfar þess leitaði hann til skipulagsyfirvalda og fékk í hendur upplýsingar og gögn varðandi bygginguna. Verður því við það að miða að kæra í máli þessu hafi borist innan lögmælts kærufrests. Kærandi á sumarhús sem stendur í næsta nágrenni við umrædda lóð og getur uppbygging á þeirri lóð snert lögvarða grenndarhagsmuni hans, svo sem áskilið er í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður mál þetta af greindum ástæðum tekið til efnisúrlausnar.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. laganna varð veiting byggingarleyfis að styðjast við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag. Sú undantekning var gerð í 7. mgr. ákvæðisins, sbr. 3. mgr. 23. gr. laganna, að unnt var að veita byggingarleyfi í þegar byggðu hverfi þótt ekki lægi fyrir deiliskipulag, en þá að undangenginni grenndarkynningu. Loks var skv. 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laganna unnt að veita leyfi fyrir einstökum framkvæmdum þótt ekki lægi fyrir staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag, en þá að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar.

Fyrir liggur að við veitingu umdeilds byggingarleyfis var ekki í gildi deiliskipulag fyrir umrædda frístundabyggð og að leyfið var veitt án undangenginnar grenndarkynningar. Þá er ekki að sjá að meðmæla Skipulagstofnunar hafi verið aflað. Brast því lagaskilyrði fyrir veitingu byggingarleyfisins og verður því fallist á kröfu kæranda um ógildingu þess að því er varðar heimild til byggingar greinds gestahúss.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu, dags. 12. júlí 2007, sem sveitarstjórn Bláskógabyggðar staðfesti 4. september s.á, að því er varðar heimild fyrir byggingu 25,8 m2 gestahúss á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk, Miðfellslandi í Bláskógabyggð.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

81/2014 Þórunnartún

Með

Árið 2014, fimmtudaginn 18. september, tók Nanna Magnadóttur, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 81/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp, til bráðabirgða, svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. júlí 2014, sem bárust nefndinni sama dag, kærir Anna Þórdís Rafnsdóttir hdl., f.h. tilgreindra umbjóðenda sinna sem eru eigandi, húsfélag og leigjendur að Þórunnartúni 2, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkurborgar frá 3. júlí 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.220.0 vegna lóðarinnar nr. 4 við Þórunnartún.

Með tveimur bréfum til nefndarinnar, einnig dags. 29. júlí 2014, kærir sami lögmaður, annars vegar f.h. Höfðatorgs ehf., og hins vegar f.h. Höfðahótels ehf., sömu ákvörðun Reykjavíkurborgar. Þar sem hagsmunir kærenda standa því ekki í vegi verða málin, sem eru nr. 82/2014 og 83/2014, sameinuð kærumáli þessu.

Gera kærendur allir þá kröfu að samþykkt borgarráðs verði felld úr gildi en einnig er farið fram á að yfirvofandi framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða með vísan til 5. gr. 130/2011. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik og rök: Hinn 8. janúar 2014 sótti félagið Skúlatún 4 ehf. um breytingu á deiliskipulagi Borgartúnsreits 1.220.0 vegna lóðar nr. 4 við Þórunnartún. Var óskað eftir breytingum á byggingarreit, aukningu nýtingarhlutfalls og að skilmálum um bílastæði yrði breytt. Var tillagan auglýst frá 9. apríl til 28. maí s.á. og á þeim tíma bárust athugasemdir, m.a. frá kærendum. Hinn 25 júní 2014 var tillagan samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði og staðfest af borgarráði 3. júlí s.á. Var deiliskipulagið birt í B-deild Stjórnartíðinda 22. ágúst s.á..

Skírskota kærendur til þess að hin kærða ákvörðun gangi gegn áherslum og markmiðum aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2013 sem og settum lögum og reglum. Bent sé á að umrædd breyting fari þvert gegn 2. mgr. a. liðar gr. 5.3.2.5. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 sem og markmiðum gildandi aðal- og deiliskipulags Reykjavíkurborgar um vistvænar samgöngur.  Telji kærendur að umþrætt deiliskipulagsbreyting muni valda töluverðu ónæði og gefi af sér  fráhrindandi viðmót. Umferð muni aukast og reikna megi með því að stór hluti fyrirhugaðra bílastæða muni fara undir sorphirðugáma sem verði geymdir utandyra. Þá sé deiliskipulagsbreytingin veruleg og hafi því ekki verið staðið rétt að breytingunni. Séu miklir hagsmunir í húfi fyrir nágranna lóðarhafa Þórunnartúns 4 ef ákvörðun Reykjavíkurborgar muni halda og að líkur séu á að þeir sem eigi lögvarða hagsmuni verði fyrir umtalsverðu tjóni ef frekari framkvæmdir verði gerðar.
 
Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða sé hafnað með vísan til þess að gildistaka deiliskipulags feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir og þar með ekki tilefni til stöðvunar þeirra.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt.  Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar tiltekinnar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og útgáfa byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar, sbr. 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13. 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr.  laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á, með tilliti til hagsmuna kærenda, að fallast á kröfu þeirra um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

______________________________
Nanna Magnadóttir

28/2014 Melavellir

Með
Árið 2014, föstudaginn 19. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 28/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs frá 3. apríl 2014 um synjun á umsókn um breytt deiliskipulag jarðarinnar Melavalla á Kjalarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 9. apríl 2014, er barst nefndinni 11. s.m., kærir G, f.h. Matfugls ehf., Völuteigi 2, Mosfellsbæ, þá ákvörðun borgarráðs, dags. 3. apríl 2014, að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi jarðarinnar Melavalla á Kjalarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn bárust frá Reykjavíkurborg 2. maí og 8. september 2014.

Málavextir: Á jörðinni Melavöllum á Kjalarnesi er starfrækt kjúklingabú og eru þar fimm alifuglahús, þrjú sambyggð og tvö frístandandi, auk íbúðarhúss. Heimilt er samkvæmt gildandi deiliskipulagi Melavalla frá árinu 2006 að reisa eitt frístandandi alifuglahús til viðbótar á jörðinni.

Árið 2007 sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi fyrir jörðina og var fjallað um umsókn hans af borgaryfirvöldum án þess að til þess kæmi að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingar væri birt í B-deild Stjórnartíðinda. Með vísan til fyrra erindis sótti kærandi á ný um breytingu á deiliskipulagi hinn 8. desember 2011. Í umsókn kæranda fólst beiðni um að heimilað yrði að bæta við fjórum frístandandi alifuglahúsum. Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 28. mars 2012 var erindið tekið fyrir og var tillagan auglýst í kjölfarið með fresti til athugasemda til 6. júní s.á. Athugasemdir bárust frá fimm aðilum. Að loknum kynningartíma tillögunnar var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs sem haldinn var 11. júlí 2012 og var erindinu synjað með vísan til umsagnar skipulagsstjóra, dags. 9. s.m. Hinn 12. s.m. var fundargerð skipulagsráðs lögð fram í borgarráði sem samþykkti B-hluta fundargerðarinnar. Var framangreind afgreiðsla Reykjavíkurborgar kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 13. ágúst s.á., er vísaði málinu frá hinn 31. janúar 2014 þar sem hin kærða ákvörðun hefði ekki hlotið staðfestingu borgarráðs og gæti því ekki sætt kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Í kjölfar úrskurðarins var málið tekið fyrir að nýju í umhverfis- og skipulagsráði 26. mars 2014 og umsókninni synjað með vísan til framangreindrar umsagnar skipulagsstjóra, dags. 9. júlí 2012. Í umsögninni var gerð grein fyrir athugasemdum og ábendingum hagsmunaaðila sem lutu m.a. að mengun, magni úrgangs, smithættu og nálægð fyrirhugaðra húsa. Þá var gerð grein fyrir umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur en hennar var leitað vegna athugasemdanna. Í niðurlagi umsagnar skipulagsstjóra segir svo: „Í ljósi athugasemda og ábendinga frá íbúum í næsta nágrenni, íbúasamtökum og hverfaráði Kjalarness er ekki mælt með að deiliskipulagið verði samþykkt óbreytt heldur verði tillögunni synjað. Færa má rök fyrir því að ekki hafi mátt búast við svo mikilli fjölgun alifuglahúsa á stuttu tímabili á ekki stærri jörð en Melavöllum sem er um 16,3 ha en stærð alifuglahúsanna er í dag um 5400 fermetrar. Um helmingsstækkun yrði að ræða ef tillagan næði fram að ganga. Í ljósi umsagnar heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur þar sem tilgreindar eru ákveðnar mótvægisaðgerðir er þó ekki gerð athugasemd við að umsækjandi skili inn nýrri tillögu að breyttu skipulagi þar sem heimilað er eitt alifuglahús til viðbótar við það sem þegar er heimilað í samþykktu skipulagi en þá verða um alls fimm hús á lóðinni í stað sjö. Sú tillaga verður lögð fyrir skipulagsráð til ákvörðunar um auglýsingu berist hún.“

Á fundi borgarráðs 3. apríl 2014 var synjunin staðfest með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir í fyrsta lagi á það að skipulagsráð Reykjavíkur hafi samþykkt samhljóða deiliskipulagstillögur vegna Melavalla, bæði 2009 og 2010, og því hafi með vísan til jafnræðisreglu mátt gera ráð fyrir sambærilegri úrlausn á sama máli árið 2014. Allar forsendur séu óbreyttar frá því að deiliskipulagstillagan var samþykkt í borgarráði 2009. Málefnalegar ástæður verði að vera fyrir hendi til þess að stjórnvöld geti breytt afstöðu sinni og afturkallað ívilnandi stjórnvaldsákvarðanir. Stjórnvaldi sé aðeins heimilt að taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti. Einnig mæli það almennt á móti afturköllun ef eingöngu sé um að kenna mistökum stjórnvalds eða langt sé um liðið síðan ívilnandi ákvörðun hafi verið tekin. Óvönduð stjórnsýsla hafi komið í veg fyrir að vilji borgarráðs árið 2009 skilaði sér í nýju deiliskipulagi. Að auki hafi jafnræðis ekki verið gætt við afgreiðslu hinnar umþrættu deiliskipulagstillögu þar sem umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt byggingu hænsnahúss á Vallá á Kjalarnesi, sem sé nálægt þéttri íbúðarbyggð og skóla. Ekki verði séð að þar hafi farið fram sambærilegt auglýsinga- og kynningarferli og vegna deiliskipulagstillögunnar fyrir Melavelli og ekki hafi verið tekið sama tillit til þeirra sjónarmiða sem séu nú notuð sem réttlæting fyrir synjun hennar.

Í öðru lagi telji kærandi að rök skipulagsráðs fyrir synjun á erindi hans séu ómálefnaleg og huglæg. Öllum efnislegum athugasemdum sem hafi borist við auglýsingu tillögunnar hafi verið sópað út af borðinu með umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 4. júlí 2012. Skipulagsráð hafi hins vegar synjað tillögunni á grundvelli þess álits skipulagsstjóra að ekki hafi mátt búast við svo mikilli fjölgun alifuglahúsa á stuttu tímabili á ekki stærri jörð. Ekki hafi komið fram í ákvörðun skipulagsráðs eða umsögn skipulagsstjóra hversu hratt eða hversu mikið Reykjavíkurborg telji að búast megi við að alifuglaeldi kæranda stækki.

Í þriðja lagi telji kærandi ómálefnalegt að hafna því að jörðin sé nýtt til landbúnaðarstarfsemi, þegar jörðin sé samkvæmt aðalskipulagi á landbúnaðarsvæði og aukið umfang alifuglaeldis muni ekki, samkvæmt framlögðum gögnum, hafa neikvæð áhrif á umhverfið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að úrskurðarnefndin staðfesti ákvörðun borgarráðs frá 3. apríl 2014. Í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi fram að sveitarstjórnir annist gerð deiliskipulagsáætlana og breytingar á þeim. Borgaryfirvöld séu ekki skyldug til að fallast á þær breytingar sem kærandi vilji gera á gildandi skipulagi. Þá sé það oftúlkun á jafnræðisreglu að telja borgaryfirvöld bundin árum saman af fyrri afgreiðslu mála. Í fyrra skiptið sem skipulagsráð hafi samþykkt samsvarandi tillögu hafi fengist samþykki borgarráðs en þá hafi hins vegar borist athugasemdir frá Skipulagsstofnun, sem hafi stöðvað málið. Í síðara skiptið hafi borgarráð aldrei samþykkt tillöguna.

Ekki sé fallist á að jafnræðis hafi ekki verið gætt við afgreiðslu deiliskipulagstillögu kæranda. Í því tilviki sem kærandi hafi nefnt liggi ekki fyrir deiliskipulag líkt og á Melavöllum og greind umsókn hafi verið samþykkt á forsendum 1. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010, að undangengnu áliti Skipulagsstofnunar, sem ekki hafi gert athugasemdir við umsóknina. Sé réttarstaðan því ólík en að auki sé ekki ætlunin að fjölga fuglum á þessu tiltekna svæði heldur að auka rými fyrir þau hænsni sem fyrir séu.

Því sé mótmælt að rök skipulagsráðs hafi verið ómálefnaleg. Íbúar í næsta nágrenni, íbúasamtök og hverfisráð Kjalarness hafi gert alvarlegar athugasemdir við tillöguna. Enn fremur sé í umsögn skipulagsstjóra bent á það hversu lítil jörðin sé, en hún sé aðeins rúmir 16 ha, og gerist bújarðir á Íslandi varla minni en það. Bent sé á í nefndri umsögn að ekki hafi mátt búast við svo mikilli fjölgun alifuglahúsa á jafn stuttu tímabili og hér um ræði. Í umsögn heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sé vissulega bent á ýmsar mótvægisaðgerðir gegn væntanlegri mengun frá kjúklingabúinu. Þess vegna sé einmitt að finna yfirlýsingu í umsögn skipulagsstjóra, sem skipulagsráð hafi samþykkt, þess efnis að ekki sé gerð athugasemd við að umsækjandi skili inn nýrri tillögu að breyttu skipulagi sem feli í sér heimild til að byggja eitt alifuglahús til viðbótar við það sem þegar sé heimilað. Megi því segja að skipulagsráð hafi gætt meðalhófs með því að hafa bent á ákveðna millileið sem málamiðlun.

Ekki sé rétt að borgaryfirvöld hafni nýtingu jarðarinnar Melavalla til landbúnaðar. Kærandi hafi nú þegar heimild til að byggja eitt stakstætt alifuglahús til viðbótar þeim sem fyrir séu, og skipulagsráð hafi bent á að kærandi gæti sótt um að fá heimild til að byggja eitt hús til viðbótar, þó það kalli á skipulagsbreytingu. Hafa verði í huga að um sé að ræða mjög litla jörð í nágrenni mesta þéttbýlis landsins og það séu takmörk fyrir því hvað unnt sé að heimila öflugt alifuglaeldi á slíkum stað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar borgarráðs frá 3. apríl 2014 að synja beiðni um breytingu á gildandi deiliskipulagi jarðarinnar Melavalla á Kjalarnesi. Í hinni umbeðnu breytingu fólst að bætt yrði við fjórum alifuglahúsum á lóðinni en gert er ráð fyrir í gildandi skipulagi að bæta megi við einu húsi.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Sveitarstjórnir fara því með skipulagsvaldið og er það tæki þeirra til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Verður almennt að búast við því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema að nauðsyn beri til. Þá er í lögunum kveðið á um að kynning og samráð eigi sér stað við gerð deiliskipulags, sbr. 40. gr., og að afstaða skuli tekin til athugasemda sem borist hafi, sbr. 3. mgr. 41. gr. Þegar litið er til framangreinds verður að telja málefnalegt af hálfu sveitarfélagsins að vísa til athugasemda og ábendinga nágranna, íbúasamtaka og hverfisráðs Kjalarness um neikvæð grenndaráhrif. Þá verður að telja að í vísun sveitarfélagsins til þess að ekki hafi mátt búast við svo mikilli fjölgun alifuglahúsa á svo stuttu tímabili, á ekki stærri jörð en Melavöllum, felist það mat skipulagsyfirvalda að ekki sé tilefni til breytinga á skipulagi jarðarinnar og að það mat rúmist innan marka þess víðtæka skipulagsvalds sem sveitarstjórnir fara með. Loks skal tekið fram að í umsögn skipulagsstjóra var bent á þann möguleika að leggja mætti fram nýja tillögu þar sem heimilað yrði eitt hús til viðbótar við það sem þegar væri heimilað og var með því leitast við að koma til móts við kæranda.

Kærandi hefur bent á að samsvarandi breyting á deiliskipulagi Melavalla hafi áður verið samþykkt af borgaryfirvöldum. Fyrri skipulagstillögur og samþykktir sæta ekki lögmætisathugun í máli þessu og verður ekki tekin afstaða til þess hvort þær tillögur og samþykktir hafi skapað kæranda einhver réttindi. Verður þó að benda á að þrátt fyrir jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kveður á um að við úrlausn mála skuli stjórnvald gæta samræmis og jafnræðis, getur verið réttlætanlegt að afgreiða sambærileg tilvik með ólíkum hætti ef slík niðurstaða byggir á málefnalegum sjónarmiðum en til þess hefur úrskurðarnefndin þegar tekið afstöðu, svo sem að framan greinir. Þá verður ekki séð að kæranda hafi verið mismunað með töku hinnar kærðu ákvörðunar enda ekki hægt að bera saman synjun á umsókn hans um breytingu á deiliskipulagi við veitingu byggingarleyfis á ódeiliskipulögðu svæði, þrátt fyrir að þar hafi einnig verið um hænsnahús á Kjalarnesi að ræða. Er rétt í því samhengi að taka fram að við töku þessara tveggja ákvarðana lá fyrir hjá Reykjavíkurborg að ástæðan fyrir umsókn kæranda væri aukin starfsemi við alifuglaeldi en að ástæðan fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir hænsnahús væri bættur aðbúnaður varpfugla en ekki aukin starfsemi. Er þessu ekki saman að jafna. Verður af öllu framangreindu ekki annað séð en að jafnræðis hafi verið gætt við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan greinir verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs frá 3. apríl 2014 um synjun á umsókn um breytt deiliskipulag jarðarinnar Melavalla á Kjalarnesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

_____________________________               _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson

93/2013 Svifflugfélagið

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs um að synja um stöðuleyfi og afgreiðslu bæjaryfirvalda á erindi kæranda varðandi viðbyggingu við klúbbhús hans á Sandskeiði, um gerð deiliskipulags og um heimild fyrir flutningi á þremur færanlegum skúrum á svæði kæranda á Sandskeiði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. október 2013, sem barst nefndinni sama dag, kærir K, f.h. Svifflugfélags Íslands, ákvarðanir bæjaryfirvalda Kópavogs um að hafna erindum kæranda um heimild til flutnings og um stöðuleyfi fyrir þremur færanlegum skúrum á svæði félagsins á Sandskeiði, um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við klúbbhús félagsins á svæðinu og um að hafna beiðni um gerð deiliskipulags. Þess er krafist að greindar ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 21. maí 2014.

Málavextir: Með bréfi til Kópavogsbæjar, dags. 27. maí 2013, sótti kærandi um stöðuleyfi fyrir þremur lausum skúrum til 12 mánaða á starfssvæði kæranda á Sandskeiði. Sú umsókn var ítrekuð í bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 21. júní s.á. Sama dag var með bréfi til skipulagsstjóra bæjarins jafnframt óskað eftir að skipulagsyfirvöld leituðu eftir heimild Skipulagsstofnunar fyrir stækkun á húsi kæranda á Sandskeiði þar sem umrætt svæði væri óskipulagt. Jafnframt var farið fram á það að lokið yrði við gerð deiliskipulags fyrir svæðið. Hinn 2. júlí s.á. tók byggingarfulltrúinn í Kópavogi fyrir umsókn kæranda um stöðuleyfi. Var erindinu hafnað með þeim rökum að umræddir skúrar féllu ekki undir skilgreiningu gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og var kæranda send tilkynning þess efnis sama dag. Hinn 9. s.m. beindi kærandi umsókn sinni um stöðuleyfi til bæjarráðs. Var erindið tekið fyrir á fundi ráðsins 25. júlí 2013 og því hafnað með vísan til fyrrgreindrar afgreiðslu byggingarfulltrúa. Hinn 27. ágúst s.á. tók skipulagsnefnd bæjarins fyrir erindi kæranda, dags. 21. júní 2013, varðandi stækkun húss hans á Sandskeiði. Var erindinu hafnað en nefndin samþykkti fyrir sitt leyti að veitt yrði stöðuleyfi til eins árs fyrir þremur færanlegum kennslustofum á umræddu starfssvæði kæranda. Var málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar. Hinn 5. september 2013 hafnaði bæjarráð erindi kæranda um stækkun umrædds húss og vísaði málinu til bæjarstjórnar, sem afgreiddi málið hinn 10. s.m. með svofelldri bókun: „Bæjarstjórn staðfestir höfnun skipulagsnefndar varðandi stækkun á klúbbhúsi Svifflugfélags Íslands á Sandskeiði […]. Bæjarstjórn hafnar afgreiðslu skipulagsnefndar um að félaginu sé gefin heimild til að flytja þrjár færanlegar kennslustofur á athafnasvæði félagsins áður en deiliskipulag af svæðinu liggur fyrir […].“

Hinn 12. september s.á. lagði kærandi fram beiðni til Kópavogsbæjar um rökstuðning fyrir greindum ákvörðunum og barst hann kæranda 24. október s.á.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að Kópavogsbæ sé lagalega skylt að afgreiða umsóknir kæranda með jákvæðum hætti nema málefnaleg rök mæli gegn því. Hafi slík rök ekki borist kæranda. Heimilt sé að veita umbeðið stöðuleyfi skv. 9. lið 60. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og veita megi byggingarleyfi fyrir stækkun á klúbbhúsi kæranda á grundvelli fyrsta bráðabirgðarákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi telji kröfu Kópavogsbæjar um að samþykkja þurfi deiliskipulag til að hægt sé veita stöðu- eða byggingarleyfi bæði óframkvæmanlega og óásættanlega vegna ágreinings um lögsögu á svæðinu sem ekki verði leystur í fyrirsjáanlegri framtíð. Sveitarfélagið virðist gera þá kröfu að fyrir liggi deiliskipulag svo afgreiða megi umsóknir kæranda á sama tíma og beiðni hans um gerð deiliskipulags sé ekki tekin til greina. Telja verði að bæjaryfirvöldum sé skylt að lögum að taka beiðni kæranda um gerð deiliskipulags til afgreiðslu.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að umsókn kæranda um stöðuleyfi hafi verið hafnað af byggingarfulltrúa 2. júlí 2013 með þeim rökum að umræddir skúrar féllu ekki undir skilgreiningu gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í ákvæðinu sé að finna tæmandi talningu á þeim lausafjármunum sem heimilt sé að veita stöðuleyfi fyrir. Sé fjallað um minni háttar atriði, svo sem sumarhús í smíðum sem ætlað sé til flutnings, en ekki sé í ákvæðinu fjallað um heilu húsin. Að auki hafi verið fjallað um beiðni kæranda um stöðuleyfi á fundi bæjarstjórnar 10. september s.á. þar sem henni var hafnað þar sem ekkert deiliskipulag lægi fyrir. Ekki sé unnt að hefja gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði á Sandskeiði þar sem ágreiningur sé um staðarmörk sveitarfélaga og sé það ekki hægt fyrr en úrlausn liggi fyrir í því máli. Að auki telji sveitarfélagið ekki unnt að fallast á flutning viðbyggingar sem hugsuð sé til þess að skeyta við núverandi byggingar á svæðinu þar sem slíkar breytingar myndu krefjast útgáfu byggingarleyfis. Að lokum bendi sveitarfélagið á að umræddar kennslustofur hafi brunnið í lok apríl 2014.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti synjunar byggingarfulltrúa frá 2. júlí 2013 á umsókn kæranda um heimild til flutnings og um stöðuleyfi fyrir þremur færanlegum skúrum á athafnarsvæði kæranda á Sandskeiði og afgreiðslu skipulagsnefndar, bæjarráðs og bæjarstjórnar Kópavogs frá 27. ágúst og 5. og 10. september 2013 á beiðni kæranda um að aflað yrði meðmæla Skipulagsstofnunar í samræmi við 1. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010 vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar við klúbbhús kæranda á Sandskeiði. Þá er kærð afgreiðslu bæjaryfirvalda á beiðni kæranda um gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði.

Kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Samkvæmt 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefst kærufrestur þó ekki ekki fyrr en rökstuðningur hefur verið veittur aðila máls að beiðni hans, að því gefnu að beiðnin hafi borist innan 14 daga frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðunina, sbr. 3. mgr. 21. gr. laganna. Umsókn kæranda um stöðuleyfi var synjað af byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar 2. júlí 2013 og óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni hinn 12. september s.á., eða rúmum tíu vikum eftir að honum var tilkynnt um ákvörðunina. Verður því litið svo á að kærufrestur hinnar kærðu ákvörðunar hafi byrjað að líða þegar kæranda var tilkynnt um ákvörðun byggingarfulltrúa hinn 2. júlí 2013. Kæra barst úrskurðarnefndinni ekki fyrr en 1. október s.á., eða tæpum þremur mánuðum eftir að ákvörðun byggingarfulltrúa lá fyrir. Er því kæran of seint fram komin hvað varðar greinda ákvörðun og verður þeim þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá kemur afgreiðsla skipulagsnefndar varðandi stöðuleyfi hinn 27. ágúst 2013, sem synjað var af bæjarráði 5. september s.á. og af bæjarstjórn 10. s.m., ekki til skoðunar þar sem það er á verkssviði byggingarfulltrúa að veita stöðuleyfi skv. 1. mgr. gr. 2.6.1., sbr. 48. tl. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, og hafði hann þá þegar tekið afstöðu til beiðni kæranda, eins og áður er lýst.

Samkvæmt þágildandi 1. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010 gat sveitarstjórn, án þess að fyrir lægi staðfest aðalskipulag eða svæðisskipulag eða deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, leyft einstakar framkvæmdir sem um kynni að verða sótt. Fyrir liggur í málinu að engin lögformleg umsókn lá fyrir bæjarstjórn þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Af orðalagi ákvæðisins verður ráðið að umsókn fyrir framkvæmdum þurfi að liggja fyrir auk þess sem afla þarf meðmæla Skipulagsstofnunar fyrir leyfisveitingunni. Engin slík umsókn lá fyrir bæjarstjórninni við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Lá því ekki fyrir endanleg ákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og verður þar af leiðandi ekki borin undir úrskurðarnefndina.

Að lokum er kærð afgreiðsla Kópavogsbæjar á beiðni kæranda um að lokið yrði við gerð deiliskipulags fyrir athafnasvæði kæranda. Lagði kærandi fram greinda beiðni hinn 21. júní 2013. Verður ekki séð af orðalagi í bókunum þeirra bæjaryfirvalda sem tóku umsókn kæranda til afgreiðslu að tekin hafi verið lokaákvörðun er varðar þá beiðni. Þá liggja ekki fyrir frekari gögn í málinu sem benda til þess að umrætt erindi hafi fengið formlega afgreiðslu. Þar sem erindið er óafgreitt er ekki til staðar nein sú ákvörðun sem bindur enda á mál og þar með ekki hægt að beina kæru þar um til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Hvað varðar synjun bæjarstjórnar á flutningi þriggja færanlegra skúra þá verður ekki séð að hún hafi verið til þess bær að taka þá ákvörðun og heyrir það því ekki undir valdsvið úrskurðarnefndarinnar að taka hana til skoðunar, enda fer um flutning þeirra eftir ákvæðum reglugerðar nr. 155/2007 um stærð og þyngd ökutækja, sbr. 75. og 76. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Meðferð málsins hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

87/2014 Geirsgata

Með

Árið 2014, þriðjudaginn 16. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 87/2014, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 24. september 2013, um að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera hann nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og leyfi fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. ágúst 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnar Þór Stefánsson hrl., f.h. E og M, Tryggvagötu 4-6, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2013 að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 11. ágúst og 9. og 10. september 2014.

Málavextir: Borgarráð Reykjavíkurborgar samþykkti hinn 26. apríl 2007 deiliskipulag fyrir Slippa- og Ellingsenreit og öðlaðist það gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. júní s.á. Í deiliskipulaginu var m.a. gert ráð fyrir að hluti Mýrargötu yrði lagður í stokk, Geirsgata yrði breikkuð og hluti verbúða myndi víkja þess vegna. Í skipulagsskilmálum fyrir reit R16, sem tekur til umrædds svæðis, sagði m.a: „Sá hluti verbúðanna sem eftir eru verða varðveittar.“ Enn fremur sagði: „Hér er einungis leyfð hafnarsækin starfsemi.“ Hinn 7. maí 2009 samþykkti borgarráð breytingu á deiliskipulagi fyrir Slippasvæði vegna breyttrar notkunar verbúða við Geirsgötu og tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 16. september s.á. Eftir breytinguna sagði um nýtingu í skilmálum fyrir reit R16: „Á reitnum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem er í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónusta, verslanir, veitingahús, vinnustofur listamanna og verslanir þeim tengdum.“ Að öðru leyti var deiliskipulagið óbreytt. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík hinn 24. september 2013 var lögð fram umsókn um að breyta verbúð að Geirsgötu 3 í veitingahús og um breytingar innanhúss, sem og að breyta gluggum í upprunalega mynd og gera nýja glugga og dyr á suðvesturgafl hússins. Fyrir fundinum lá umsögn skipulagsfulltrúa frá 16. ágúst s.á. þar sem ekki var gerð nein skipulagsleg athugasemd við erindið. Samþykkti byggingarfulltrúi umsóknina og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu. Hinn 7. apríl 2014 gaf byggingarfulltrúi svo út byggingarleyfi á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að hið umdeilda byggingarleyfi fari bæði gegn eldra deiliskipulagi á svæðinu, sem hafi tekið gildi 11. júní 2007, og yngra deiliskipulagi sem hafi tekið gildi 3. febrúar 2014. Ljóst sé af texta tilvitnaðra deiliskipulaga að ekki hafi þar verið um að ræða heimilaðar breytingar á verbúðunum og útliti þeirra. Fari þær breytingar sem nú sé verið að gera og byggingarleyfi verið veitt fyrir því í bága við deiliskipulag. Með vísan til 1. mgr. 9. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 1. tl. gr. 2.4.4. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 sé byggingarleyfið því ólögmætt enda megi það ekki fara í bága við deiliskipulag. Eina undantekningin frá slíku sé ef um óverulegar breytingar sé að ræða frá deiliskipulagi en þá hvíli fortakslaus skylda á sveitarfélagi að grenndarkynna þær, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Slíkt hafi ekki verið gert og raunar hafni kærendur því að breytingarnar geti talist óverulegar, sbr. gr. 2.3.4. byggingarreglugerðar, þar sem þær skerði hagsmuni nágranna hvað „innsýn“ varði og hafi jafnframt áhrif á götumynd.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er skírskotað til þess að hið kærða byggingarleyfi fyrir breyttri notkun mannvirkis sé í samræmi við Aðalskipulag Reykjavíkur 2001-2024 og deiliskipulag Slippa- og Ellingsenreits R16, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 7. maí 2009 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 16. september s.á. Í greinargerð deiliskipulagsins segi um „gömlu verbúðirnar“ að á reitnum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem sé í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónustu, verslunum, veitingahúsum, vinnustofum listamanna og verslunum þeim tengdum. Á undanförnum árum hafi starfsemi verbúðanna færst frá upphaflegri hafnsækni yfir í framreiðslu veitinga og smásölu. Fyrir liggi að starfsemi svæðisins haldi áfram að þróast í þá átt á kostnað hefðbundins handverks, vinnslu og umsýslu er tengist sjávarfangi. Byggingarfulltrúi hafi gefið út leyfi til breytinga á notkun húss sem sé í fullu samræmi við aðal- og deiliskipulag. Hafi málsmeðferð leyfisveitingarinnar að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, mannvirkjalaga nr. 160/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að á hans vegum hafi verið stunduð útgerð og fiskvinnsla um árabil. Hann hafi leigt aðstöðu í Verbúð 10 og eigi Verbúð 11. Áður hafi hafnsækin starfsemi eingöngu átt sér stað í verbúðunum en sú breyting hafi orðið á árinu 2002 að veitingaaðstaða hafi verið sett upp í Verbúð 8. Í verbúðunum sé nú að finna veitinga- og kaffistaði, kvikmyndasýninga- og fundasali, bílaleigu, listmunagallerí og skartgripaverslun, smábátafélag og minjagripaverslun, gallerí og listmunasölu. Með auknum umsvifum þjónustufyrirtækja, verslana og veitingastaða í gömlu verbúðunum hafi sífellt orðið örðugra að reka þar fiskvinnslu og útgerðarstarfsemi og hafi leyfishafi því leitað hófanna með að nýta fasteignina í öðrum tilgangi. Brugðist hafi verið í einu og öllu við ábendingum og athugasemdum byggingarfulltrúa. Byggingarleyfi hafi verið gefið út 7. apríl 2014 og framkvæmdir hafist. Bent sé á að íbúðir kærenda séu í um tveggja metra fjarlægð frá mikilli umferðargötu og ekki þurfi að leita langt aftur í tímann til að fullvissa sig um að verðmæti íbúðarhúsnæðis í næsta nágrenni hafi aukist í kjölfar breyttrar starfsemi í gömlu verbúðunum og nágrenni þeirra. Ef kæra nái fram að ganga sé einsýnt að álykta sem svo að engin atvinnustarfsemi í gömlu verbúðunum sé í samræmi við þá umsögn í skipulagi sem vitnað sé til.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar byggingarleyfis vegna breytinga og nýtingar á húsinu nr. 3 við Geirsgötu þar sem leyfið sé í andstöðu við deiliskipulag og breytingarnar hafi í för með sér neikvæð grenndaráhrif gagnvart kærendum.

Í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er það gert að skilyrði fyrir samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfa að efni þeirra sé í samræmi við skipulagsáætlanir. Hið umþrætta byggingarleyfi styðst við þágildandi deiliskipulag Slippa- og Ellingsenreits, sem tók gildi 11. júní 2007, með þeim breytingum sem tóku gildi 16. september 2009 varðandi reit R16, sem hér á við. Á þeim tíma er hin kærða ákvörðun var tekin var áformað að á reitnum skyldi fyrst og fremst gera ráð fyrir starfsemi sem væri í samræmi við starfsemi á miðborgarsvæði, svo sem ferðaþjónustu, verslunum, veitingahúsum, vinnustofum listamanna og verslunum þeim tengdum. Því er ljóst að hin breytta notkun umrædds húsnæðis samræmist því deiliskipulagi sem í gildi var við veitingu umdeilds byggingarleyfis og þágildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, en þar kemur fram að á svæðinu sé stefnt að samhæfingu hafnarsvæðis og miðborgar þar sem fram fari fjölbreytt hefðbundin hafnarstarfsemi með áherslu á þjónustu við skemmtiferðaskip, fiskiskip og báta, menningarstarfsemi og ferðaþjónustu. Þá er rétt að taka fram að í núgildandi deiliskipulagi sem tók gildi 3. febrúar 2014, er gert ráð fyrir óbreyttu ástandi á umræddu svæði frá því sem að framan er lýst. Loks verður ekki talið að orðalag fyrirvara í deiliskipulaginu þess efnis að varðveittur verði hluti verbúða að loknum breytingum við umferðarmannvirki girði fyrir þær breytingar á útliti sem heimilaðar voru með hinu umdeilda byggingarleyfi. Í því samhengi er rétt að benda á að umrædd bygging nýtur hvorki þeirrar verndar sem mælt er fyrir um í lögum nr. 80/2012 um menningarminjar né gerð tillaga að varðveislu hennar í húsakönnun fyrir Mýrargötusvæði frá árinu 2003.

Eins og að framan greinir á byggingarleyfið sér stoð í þágildandi deiliskipulagi Slippa- og Ellingsenreits, svo sem því var breytt hinn 16. september 2009. Hefur úrskurðarnefndinni ekki borist kæra vegna þeirrar breytingar og auk þess er kærufrestur vegna hennar liðinn. Kemur deiliskipulagsbreytingin og möguleg áhrif hennar á grenndarhagsmuni kærenda því ekki til álita hér. Þá tekur úrskurðarnefndin fram að ekki var ástæða til að grenndarkynna byggingarleyfið fyrir kærendum eða öðrum skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, enda var það gefið út með stoð í gildu deiliskipulagi. Þó geta nýir gluggar og dyr á þeim gafli sem staðsettur er gegnt fasteign kærenda og áður var gluggalaus haft í för með sér sjálfstæð grenndaráhrif. Í því samhengi verður hins vegar ekki fram hjá því litið að yfir 20 m eru frá fasteign kærenda að umræddum gafli og að á milli liggur fjölfarin umferðargata. Þá liggur fyrir að við hlið þess húss, er hið kærða leyfi tekur til, og stendur nær kærendum, er veitingahús með útbyggðu glerhýsi, en við hina hlið hússins og fjær kærendum er veitingahús með útisvæði. Með hliðsjón af framangreindum aðstæðum, og einnig því að fasteign kærenda er á svæði sem skilgreint er sem miðborg og miðsvæði í aðalskipulagi, sbr. b-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, verður ekki á það fallist að sú breyting er hér um ræðir sé til þess fallin að breyta götumynd eða skerða hagsmuni kærenda hvað varðar útsýni eða innsýn svo mjög að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar.
 
Í ljósi alls þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggur fyrir að neinir þeir annmarkar hafi verið á málsmeðferð við samþykki hins kærða byggingarleyfis að ógildingu varði er kröfu kærenda um ógildingu þess hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. september 2013 um að veita leyfi til að breyta nýtingu verbúðar í veitingahús í flokki II, breyta gluggum og dyrum, stækka op í steinsteypta plötu, lagfæra reykháf og gera nýtanlegan fyrir arinstæði og útigrill í húsi nr. 3 við Geirsgötu í Reykjavík, sem og leyfi fyrir tímabundna opnun frá 2. hæð inn í hús nr. 3A-B við sömu götu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson