Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

70/2015 Gjaldskrá

Árið 2016, þriðjudaginn 16. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2015, kæra á breytingu á gjaldskrá nr. 893/2014 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, samkvæmt auglýsingu nr. 696/2015 er birtist í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 21. júlí 2015, samkvæmt auglýsingu nr. 696/2015 er birtist í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015, um breytingu á gjaldskrá nr. 893/2014 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi eða gjaldskránni breytt þannig að tímagjald og gjald fyrir rannsókn á sýnum verði stórlega lækkað.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 5. október 2015.

Málavextir: Auglýsing nr. 696/2015, um breytingu á gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, var birt í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015. Um breytingu á gjaldskrá nr. 893/2014 er að ræða og felst hún í því að tímagjald er hækkað úr 10.529 krónum í 17.340 krónur og gjald fyrir rannsókn á hverju sýni samkvæmt eftirlitsáætlun er hækkað úr 12.390 krónum í 20.200 krónur. Kærandi starfar á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja samkvæmt starfsleyfi útgefnu af eftirlitinu og skv. 1. gr. gjaldskrárinnar er heimilt að innheimta af honum gjöld í samræmi við hana.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa lögvarða hagsmuni í málinu þar sem hann starfi á svæðinu samkvæmt starfsleyfi útgefnu af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og greiði gjöld samkvæmt gjaldskrá eftirlitsins. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja hafi hækkað tímagjald og gjald fyrir sýni fjórum sinnum frá árinu 2012. Upphæð eftirlitsgjalda samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á. Megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Með öðrum orðum sé um að ræða þjónustugjöld, sem verði aðeins nýtt til þess að standa undir þeim kostnaði sem hljótist af þeirri þjónustu sem gjaldið standi í tengslum við. Á tæpu þriggja ára tímabili hafi tímagjald hækkað um 175% og gjald fyrir sýni um 115%. Þessi hækkun sé langt umfram vísitölu- og verðlagshækkanir í landinu á sama tímabili og verði því ekki skýrð með vísan til þess. Með vísan til lagasjónarmiða um þjónustugjöld fari kærandi fram á að hækkun sú sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015 verði felld úr gildi eða breytt þannig að hún nemi verðlagshækkun þeirra kostnaðarliða sem séu grundvöllur þjónustugjaldsins.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið fer fram á að málinu verði vísað frá á grundvelli þess að ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða og að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Gjaldskrá sú er málið snúist um hljóti að teljast vera almenn stjórnvaldsfyrirmæli sem beinist að ótilteknum hópi aðila en feli ekki í sér ákvörðun sem beinist að kæranda. Kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu þar sem kröfur hans miði að því að fá gjaldskrá fellda úr gildi en ekki álagningu gjalda á hann sjálfan. Eftirlitsgjöldin hafi verið reiknuð út vegna þeirra þátta sem heilbrigðiseftirlitinu beri að hafa eftirlit með lögum samkvæmt, en álagning hafi enn ekki farið fram. Kærandi geti ekki átt lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um almennar gjaldskrárbreytingar án þess að það sé tengt við einstaklingsbundna og afmarkaða hagsmuni hans sjálfs.

Sveitarfélögin sem standi að Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja leggi áherslu á að eftirliti sé sinnt af kostgæfni en jafnframt sé eftirlitinu ætlað að standa undir eigin rekstri hvað eftirlitsskylda starfsemi varði, enda sé það í fullu samræmi við gjaldtökuheimild 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998. Fjárhagsleg endurskipulagning heilbrigðiseftirlitsins hafi staðið yfir um nokkra hríð og ljóst hafi verið að taka yrði gjaldskrá eftirlitsins til gagngerrar endurskoðunar svo að reksturinn stæði undir sér. Breytingar á gjaldskrá undanfarinna ára endurspegli þetta en ljóst sé að of stutt hafi verið gengið í hvert sinn og þess ekki gætt að gjaldskráin endurspeglaði raunkostnað. Tímagjald samkvæmt hinni kærðu gjaldskrá sé byggt á fjárhagsáætlun heilbrigðiseftirlitsins, m.a. með hliðsjón af rekstrarafkomu undanfarinna ára. Sá hluti rekstrarfjár eftirlitsins sem snúi að almennri þjónustu við borgarana, sem ekki falli undir eftirlitsskylda starfsemi, sé lagður til af sveitarfélögunum.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Kærandi mótmælir frávísunarkröfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segi að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda sé heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Enn fremur segi í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að nefndin skuli hafa það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir í lögum á því sviði. Samkvæmt þessu sé ljóst að allar ákvarðanir stjórnvalda með stoð í lögum nr. 7/1998, og ágreiningur er þær varði, verði bornar undir nefndina, þ.m.t. ákvörðun heilbrigðisnefndar um hækkun tímagjalds og sýnatökugjalds sem hér um ræði. Sú ákvörðun sé að mati kæranda stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þessu samhengi skipti þó ekki máli hvort um stjórnvaldsákvörðun eða stjórnvaldsfyrirmæli sé að ræða vegna valdheimilda úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum. Þær taki til þess að endurskoða bæði undirbúning og efni þeirra ákvarðana og stjórnvaldsfyrirmæla sem bornar séu undir hana.

Skýrt sé að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa. Kærandi reki starfsemi á Keflavíkurflugvelli, sem sé starfsleyfisskyld samkvæmt lögum nr. 7/1998. Á grundvelli starfsleyfis fari Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja með eftirlit með starfsemi kæranda á flugvallarsvæðinu og innheimti fyrir það árleg eftirlitsgjöld. Samkvæmt áætlun sem kærandi hafi fengið séu eftirlitsgjöldin byggð á tímagjaldi og gjaldi fyrir sýnatöku og upphæð þeirra gjalda hafi því bein áhrif á kæranda, þ.e. hvaða fjárhæð hann þurfi að greiða fyrir eftirlit, og varði hann verulega.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er sveitarfélögum heimilt að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Upphæð gjaldsins skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Hvert eftirlitssvæði skal hafa sameiginlega gjaldskrá og skal hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda.

Í máli þessu er deilt um lögmæti gjaldskrár nr. 893/2014 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði, eins og henni var breytt með auglýsingu nr. 696/2015, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015. Eftir að kæra var lögð fram í málinu hefur verið sett ný gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði. Gjaldskráin er nr. 927/2015 og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. október 2015. Við gildistöku hennar féll jafnframt úr gildi áðurnefnd gjaldskrá nr. 893/2014 og fór álagning ekki fram samkvæmt henni eftir að henni var breytt. Þar sem hin kærða gjaldskrá hefur ekki lengur réttarverkan að lögum verður ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um lögmæti hennar. Með vísan til þessa er kröfu kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon