Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

70/2014 Álmakór

Árið 2015, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2014, kæra á álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignarinnar að Álmakór 22, Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2014, er barst nefndinni 9. s.m., kæra B og H, Álmakór 22, Kópavogi, þá ákvörðun Kópavogsbæjar frá 13. janúar 2014 að leggja á sorphirðu- og eyðingargjald að fjárhæð kr. 22.000 vegna fasteignar þeirra að Álmakór 22. Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að þeir krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 26. ágúst 2014 og 29. apríl 2015.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Kópavogs 22. október 2013 var ákveðið á grundvelli laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að innheimta kr. 22.000 í sorphirðu- og eyðingargjald á hverja íbúð í Kópavogi á árinu 2014. Samkvæmt bókun skyldi innheimta gjaldið með fasteignagjöldum á sömu gjalddögum. Gjaldið var lagt á kærendur með álagningarseðli, dags. 13. janúar 2014, vegna fasteignar þeirra. Með bréfi, dags. 2. maí 2014, sendu kærendur Kópavogsbæ fyrirspurn vegna gjaldanna. Í svarbréfi bæjarlögmanns, dags. 13. júní s.á., var haldið fram rétti bæjarfélagsins til að innheimta jafnaðargjald vegna sorphirðu og jafnframt bent á kæruleið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Kæran er dags. 8. júlí 2014, eins og áður segir.

Málsrök kærenda: Kærendur mótmæla álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds á fasteign þeirra á þeim grundvelli að þeir hafi aldrei nýtt sér þjónustuna sem verið sé að innheimta gjald fyrir og aldrei haft sorptunnur við hús sitt. Ekki hafi verið þörf fyrir nefnda þjónustu þar sem kærendur endurnýti allan lífrænan úrgang í garðrækt og flokki annan úrgang ítarlega og fari með í móttökustöð Sorpu. Kærendur telji einkennilegt að sé Kópavogsbær skyldaður með lögum til að innheimta gjald fyrir þjónustu sem kærendur nýti sér ekki skuli þeir vera krafðir um gjald hjá móttökustöð Sorpu bs. fyrir sömu þjónustu. Kærendur hafi flutt inn í hús sitt árið 2009 og fyrstu árin hafi þeir fengið gjöld þessi niðurfelld. Eftir breytingar á sveitarstjórn í Kópavogi hafi reglum verið breytt þannig að allir þurfi að greiða gjaldið hvort sem þjónustan sé nýtt eða ekki.

Málsrök Kópavogsbæjar: Í greinargerð bæjarfélagsins kemur fram að heimilt sé samkvæmt lögum að innheimta jafnaðargjald fyrir sorphirðu. Löng hefð sé fyrir því hjá Kópavogsbæ að sorphirðu- og eyðingargjöld séu greidd með einu jafnaðargjaldi fyrir allar íbúðir óháð þjónustustigi. Við gerð fjárhagsáætlunar sé ákveðið hvert gjaldið skuli vera og það innheimt með fasteignagjöldum. Þetta gjald fari til Sorpu bs., sem sjái um sorphirðu fyrir bæinn ásamt eyðingu. Sú fjárhæð sem innheimt sé nái ekki upp í þá fjárhæð sem sveitarfélagið greiði árlega til reksturs Sorpu. Óumflýjanlegt sé að nýting þjónustunnar sé mismikil hjá íbúum með tilliti til fjölda í hverri fasteign o.fl. Það yrði miklum vandkvæðum bundið að meta þjónustustig fyrir einstakar íbúðir og telji sveitarfélagið því eðlilegt að eitt gjald sé ákveðið fyrir alla.

Leiða megi líkur að því að kærendur nýti sér sorpeyðingarþjónustu Sorpu fyrir sitt almenna heimilissorp og séu þ.a.l. að nýta sér þá þjónustu sem sé innifalin í stærstum hluta umrædds jafnaðargjalds. Kærendur fullyrði að Sorpa bs. rukki þá samkvæmt gjaldskrá þegar komið sé með sorp á móttökustöð. Ekki sé rukkað fyrir móttöku á almennu heimilissorpi og skyldum úrgangi hjá Sorpu. Það sorp sem greiða þurfi fyrir móttöku á falli ekki undir flokkinn almennt heimilissorp og falli því utan þess sorphirðugjalds sem málið snúist um.

Yfirlit yfir kostnað við sorphirðu á móti gjöldum sé eftirfarandi fyrir árin 2009 til 2013. Árið 2012 hafi orðið hækkun vegna bláu tunnunnar.

                                              2013                 2012                    2011                       2010                    2009
Sorphirðugjald         -255.135.627     -280.235.569       -219.387.789        -203.534.540        -179.722.398
Sorphreinsun              88.991.135      108.118.053          94.996.617            93.626.583            87.972.735
Sorpeyðing               147.237.425      126.180.152        119.873.369           103.985.252          114.758.306
Bláa tunnan                26.601.456          17.498.638                        0                            0                            0
Afkoma                         7.694.389        -28.438.726          -4.517.803            -5.922.705            23.008.643

Niðurstaða: Í máli þessu krefjast kærendur þess að fellt verði niður sorphirðu- og eyðingargjald á fasteign þeirra þar sem þau nýti sér ekki þjónustuna sem verið sé að innheimta gjald fyrir. Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá er kærð er, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Var kærufrestur því liðinn er kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni. Hins vegar er hvorki að finna leiðbeiningar um kæruheimild né kærufresti á álagningarseðli og var kærendum fyrst leiðbeint þar um með bréfi bæjarlögmanns, eins og nánar greinir í málavöxtum. Verður því að telja afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að kærufresti liðnum, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Á grundvelli sama ákvæðis var sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind væru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greindi í lögunum og reglugerðum samkvæmt þeim. Þá segir í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að sveitarfélög geti sett sér samþykktir m.a. um meðferð úrgangs og skolps. Kópavogsbær hefur ekki sett sér samþykkt á grundvelli tilvitnaðra lagaákvæða.

Í 4. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 segir að sveitarfélögum sé heimilt að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr., þ.m.t. um meðferð úrgangs og skolps, og skal sveitarfélag láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Þá var sveitarfélögum skv. þágildandi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Loks sagði í 4. mgr. þeirra lagagreinar að sveitarfélögum væri heimilt að fela stjórn byggðasamlags að ákvarða framangreint gjald og að sveitarfélag eða viðkomandi byggðasamlag skyldi láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að nefndum lögum segir að ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir séu almenns eðlis. Þá segir að ákveðið hafi verið að fara þá leið að gera tillögu um frumvarp til sérlaga þar sem kveðið yrði á um meðhöndlun úrgangs. Hins vegar er engin ráðagerð í frumvarpinu þess efnis að ákvörðun um innheimtu gjalda fari fram með breyttum hætti miðað við lög nr. 7/1998, en þau lög gilda samhliða lögum nr. 55/2003. Verður að skilja tilvitnuð lagaákvæði svo að nýti sveitarfélög sér heimildina til að innheimta gjald skuli þau setja gjaldskrá þar um og birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Er sá skilningur einnig í samræmi við þágildandi 4. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Slíkt var ekki gert heldur bæjarstjórn Kópavogsbæjar ákvörðun á fundi sínum um álagninguna og lét þar við sitja. Þar sem hin umdeildu gjöld voru ekki lögð á með formlega réttum hætti verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Kópavogsbæjar um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignarinnar að Álmakór 22, Kópavogi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon