Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

13/2015 Strandgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 16. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2015, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 10. desember 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Hafnarfjarðar vegna lóðanna nr. 31 og 33 við Strandgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. febrúar 2015, sem barst nefndinni 18. s.m., kæra N og S, Austurgötu 30, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 10. desember 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Hafnarfjarðar vegna lóðanna nr. 31 og 33 við Strandgötu.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 19. febrúar 2015, sem barst nefndinni 20. s.m., kærir Hildur Sólveig Pétursdóttir hrl., f.h. E, Gunnarssundi 4, Hafnarfirði, sömu ákvörðun. Með bréfi, dags. 19. mars 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir sami lögmaður fyrir hönd sömu aðila, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 21. janúar 2015 að veita leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins að Strandgötu 31-33.

Kærendur krefjast þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi, en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar, og hagsmunir aðila þykja ekki standa því í vegi, verða síðargreindu kærumálin, sem eru nr. 16/2015 og 19/2015, sameinuð máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkrafna kærenda.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðabæ 26. febrúar og 9. og 23. mars 2015.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 1. júlí 2014 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Hafnarfjarðar vegna lóða nr. 31 og 33 við Strandgötu. Í breytingunni fólst að lóðirnar yrðu sameinaðar í eina lóð. Heimilað yrði að byggja inndregna 4. hæð með því skilyrði að skuggavarp á lóðir við Austurgötu og Gunnarssund myndi ekki aukast. Var gert ráð fyrir 26 íbúðum á þremur efstu hæðunum. Að auki var gert ráð fyrir 12-13 bílastæðum innan lóðarmarka Strandgötu 31-33. Samþykkt var að auglýsa fram lagða tillögu og var hún auglýst í fjölmiðlum 17. s.m. með athugasemdafresti til 12. september s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum, og var þeim svarað með umsögn skipulags- og byggingarsviðs. Var haldinn kynningarfundur 14. ágúst s.á., sem auglýstur var í prentmiðlum 17. júlí og 14. ágúst s.á. Auk þess var fundurinn auglýstur á vef bæjarins og dreifibréfum dreift í hús í nágrenni við Strandgötu 31 og 33. Á fundinum var breytingartillagan kynnt frekar og spurningum fundargesta svarað. Hinn 14. október s.á. samþykkti skipulags- og byggingarráð fram lagða tillögu ásamt umsögn skipulags- og byggingarsviðs. Var afgreiðslan staðfest og tillagan samþykkt af bæjarstjórn 29. s.m. Á fundi skipulags- og byggingarráðs 2. desember s.á. voru athugasemdir Skipulagsstofnunar, dags. 26. nóvember s.á., teknar fyrir ásamt svörum skipulags- og byggingarsviðs, dags. 1. desember s.á. Voru svörin ásamt áorðnum breytingum samþykkt og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna á fundi sínum 10. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. janúar 2015.

Hinn 21. janúar 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar samþykkt umsókn um leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins á lóðinni nr. 31-33 við Strandgötu. Hinn 25. febrúar s.á. var á fundi skipulags- og byggingarfulltrúa tekin fyrir eftirfarandi beiðni kærenda
„ …gerð er krafa um að byggingarleyfi verði synjað vegna ógildanlegrar stjórnvaldsákvörðunar“. Synjaði byggingarfulltrúi beiðninni.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að bæði leyfishafi og Hafnarfjarðarbær hafi hagsmuni af því að hin umdeilda skipulagsbreyting verði samþykkt. Hafi það haft áhrif á málið þar sem báðir þessir aðilar hafi tekið fullan þátt í allri málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar. Sé um brot á hæfisreglum stjórnsýsluréttar að ræða, sbr. 3. gr. og 4. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og hafi það komið niður á hagsmunum kærenda.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting muni hafa í för með sér stórfellda breytingu á nýtingarmöguleikum kærenda á fasteign sinni og ljóst sé að daglegt líf þeirra verði fyrir augum margra nýrra íbúa. Einnig muni skuggavarp á fasteign þeirra verða verulegt og breytingarnar hafa í för með sér ónæði, hávaða og bílastæðavandamál. Nú þegar nýti nágrannar þau bílastæði sem staðsett séu á baklóð lóðarinnar Strandgötu 31-33. Augljóst sé að bílastæðaþörf fyrirhugaðra íbúða verði ekki fullnægt, en einnig muni möguleikar fólks á að finna bílastæði í nágrenni við heimili sín skerðast.

Með því að heimila hækkun á einu húsi sé sett fordæmi sem erfitt geti verið að standa gegn komi óskir fram um hækkun á öðrum húsum. Geti það haft í för með sér að götumynd miðbæjar Hafnarfjarðar breytist og hann tapi sérkennum sínum. Sé hin kærða deiliskipulagsbreyting í ósamræmi við aðal- og deiliskipulag og muni hafa veruleg áhrif á yfirbragð götunnar. Að auki muni íbúðarblokk með mjög litlum íbúðum, líkt og fyrirhugað sé að byggja, hafa áhrif á það hvers konar íbúar muni festa kaup á þeim.

Sé um að ræða verulega annmarka á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar. Hvorki hafi verið gerð lýsing, líkt og kveðið sé á um í 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, né hafi deiliskipulagstillagan verið kynnt hagsmunaðilum áður en hún hafi verið tekin til afgreiðslu í sveitarstjórn, sbr. 4. mgr. 40. gr. sömu laga. Að auki hafi kynningarfundur ekki verið auglýstur með fullnægjandi hætti. Hafi hann aðeins verið auglýstur á vef bæjarins og geti auglýsing í Fréttablaðinu ekki talist auglýsing með áberandi hætti, enda jafnist það ekki á við svæðisbundinn fréttamiðil. Hafi dreifibréfum aðeins verið dreift í hús í nágrenni við Strandgötu 31-33 en ekki til allra íbúa sveitarfélagsins. Um sé að ræða miðbæ Hafnarfjarðar sem snerti lífsgæði allra íbúa bæjarins.

Málsmeðferðarreglum 43. gr. skipulagslaga hafi ekki verið fylgt. Sé það aðeins í þeim tilvikum þar sem um óverulegar breytingar á samþykktu deiliskipulagi sé að ræða að ekki sé talin ástæða til málsmeðferðar samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Það eigi ekki við um hina kærðu deiliskipulagsbreytingu, enda víki tillagan frá notkun og hafi sú breyting í för með sér verulega íþyngjandi áhrif og rýri verðgildi eignar kærenda.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 segi að á miðbæjarsvæði sé heimilt að gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði þar sem aðstæður leyfi, sérstaklega á efri hæðum bygginga. Samkvæmt aðalskipulagi sé að auki heimilt að uppfylla bílastæðakröfur á almennum bílastæðum á miðsvæði gegn greiðslu sérstaks gjalds sé ekki hægt að uppfylla bílastæðakröfur innan lóðar. Allt rými á jarðhæð í miðbænum sé ætlað fyrir verslun, veitingahús og þjónustu, en að auki sé stefnt að aukinni íbúðarbyggð í miðbænum, m.a. á efri hæðum húsa við Strandgötu. Hafi verið tekin sú ákvörðun að selja húsnæði bæjarins að Strandgötu 31-33 þar sem það hafi ekki nýst nógu vel. Hafi það verið þáttur í hagræðingu í rekstri bæjarins.

Því sé hafnað að kynningarfundurinn hafi verið illa kynntur þar sem tilkynning hafi verði borin í öll nærliggjandi hús auk auglýsingar á heimasíðu bæjarins, í Fréttablaðinu og samdægurs í Fjarðarpóstinum. Vegna aðstæðna hafi auk þess verið kynnt fleiri gögn um skuggavarp en venja sé fyrir.

Sú staðhæfing kærenda sé röng að húseignin verði hæsta byggingin í metrum talið við Strandgötu. Sýni deiliskipulagsuppdráttur að heimilt sé að reisa hærra hús við Strandgötu 26-30. Engu hafi verið breytt frá fyrra skipulagi varðandi umferð og aðkomu að lóðum kærenda. Að auki haldi kærendur því fram að fyrirhugaðar íbúðir séu mjög litlar en hið rétta sé að birt flatarmál þeirra verði á bilinu 42,2-87,6 m2. Sameinuð lóð Strandgötu 31-33 liggi ekki að lóðarmörkum lóðar kærenda heldur liggi sú lóð vestan að bæjarlandi.

Aðeins sé skylt að gera lýsingu á deiliskipulagi þegar um nýtt deiliskipulag sé að ræða, en ekki vegna breytinga á þegar gerðu deiliskipulagi, sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Hafi meginforsendur breytingartillögunnar legið fyrir í aðalskipulagi og hafi sveitarstjórn því verið heimilt að falla frá kynningu á tillögunni.

——————–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar á breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Hafnarfjarðar vegna lóðanna nr. 31 og 33 við Strandgötu. Þá er deilt um ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að veita leyfi fyrir byggingarframkvæmdum með stoð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags. Samkvæmt 40. gr. og 41. gr. sömu laga fer sveitarstjórn með alla málsmeðferð varðandi gerð og breytingu á deiliskipulagi. Er sveitastjórn því lögum samkvæmt skylt að sjá um gerð, kynningu og auglýsingu á deiliskipulagi og breytingum á því og telst ekki aðili máls í skilningi 1. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá tekur umrædd grein einungis til vanhæfis starfsmanna sem hafa stjórnsýslu með höndum og nefndarmanna stjórnsýslunefnda, en samkvæmt orðalagi sínu á hún ekki við um leyfishafa. Er því ekki hægt að fallast á með kærendum að um brot á hæfisreglum stjórnsýsluréttar sé að ræða í máli þessu.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2013-2025 er merkt sem miðbær Hafnarfjarðar (M1). Segir þar að á svæðinu skuli allt rými á jarðhæð vera nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu en þó sé stefnt að aukinni íbúðarbyggð, m.a. á efri hæðum húsa við Strandgötuna. Auk þess megi uppfylla bílastæðakröfur á almennum bílastæðum á svæðinu gegn greiðslu sérstaks gjalds, sé ekki hægt að uppfylla þær kröfur innan lóða. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á að allir geti fundið húsnæði og umhverfi við sitt hæfi og að við endurskipulagningu byggðar skuli leita að möguleikum til þéttingar byggðar. Loks segir að eðlilegt sé að þéttleiki byggðar í miðbæjum sé meiri en í öðrum hverfum og eigi slíkt við um miðbæ Hafnarfjarðar. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og áðurnefnda 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Það er því á hendi sveitarstjórnar að hafa áhrif á þróun byggðar og umhverfi, þ.m.t. götumynd og notkun. Verður að líta svo á að ákvörðun þar um lúti fyrst og fremst skipulagslegum markmiðum, sem séu á forræði sveitarfélaga, fremur en lögvörðum hagsmunum einstaklinga. Liggur fyrir í gögnum málsins að ítarlegar athuganir voru gerðar vegna mögulegs skuggavarps á hús í nágrenni við Strandgötu. Samkvæmt greindum gögnum verður ekki séð að hækkun um eina inndregna hæð muni auka skuggavarp á eignir kærenda úr hófi fram. Þá er hvorki að finna í lögum né reglugerðum kröfu um lágmarksfjölda almennra bílastæða auk þess sem heimilt er samkvæmt aðalskipulagi að uppfylla bílastæðakröfur á almennum bílastæðum á miðbæjarsvæðinu, líkt og áður greinir. Verður, með hliðsjón af því sem rakið hefur verið, ekki talið að breytingin sé slík að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Samkvæmt 4. mgr. 40. gr. laganna er ekki lögð fortakslaus skylda á sveitarfélög að kynna deiliskipulagstillögu fyrir hagsmunaðilum áður en sveitarstjórn tekur hana til afgreiðslu. Er heimilt að falla frá slíkri kynningu ef meginforsendur liggja fyrir í aðalskipulagi, líkt og við á í máli þessu. Að auki er tekið fram í 1. mgr. 43. gr. laganna að ekki þurfi að gera lýsingu vegna breytinga á deiliskipulagi. Þá er heldur ekki að sjá að málsmeðferðin hafi verið haldin öðrum annmörkum enda var hin kærða deiliskipulagsbreyting auglýst til kynningar lögum samkvæmt, fram komnum athugasemdum svarað, breytingin samþykkt og gildistaka hennar auglýst í kjölfarið.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar hafnað.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar á hið kærða byggingarleyfi stoð í gildandi deiliskipulagi. Með vísan til þess, og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð við þá ákvarðanatöku, verður gildi leyfisins heldur ekki raskað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarráðs Hafnarfjarðar frá 10. desember 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir miðbæ Hafnarfjarðar vegna lóðanna nr. 31 og 33 við Strandgötu.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 21. janúar 2015 um að veita leyfi til að breyta 2. og 3. hæð hússins að Strandgötu 31-33.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson
 

72/2012 Blöndulína 3

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2012, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2012 um að taka Blöndulínu 3 og áætlun Landsnets hf. um „styrkingu byggðarlínunnar“ ekki til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2012, er barst nefndinni 16. s.m., kærir eigandi Hóla í Öxnadal í Hörgársveit, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2012 að taka Blöndulínu 3 og áætlun Landsnets hf. um „styrkingu byggðarlínunnar“ ekki til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Skipulagsstofnun verði gert að taka ákvörðun um slíkt sameiginlegt mat. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Skipulagsstofnun verði gert að taka málið á ný til efnismeðferðar.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 6. september 2012.

Málavextir: Hinn 30. desember 2008 féllst Skipulagsstofnun á tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun um Blöndulínu 3. Línan er 220 kV háspennulína sem fyrirhuguð er á milli Blöndustöðvar og Akureyrar, alls um 107 km leið um Húnavatnshrepp, Sveitarfélag Skagafjarðar, Akrahrepp, Hörgársveit og Akureyrarkaupstað. Línan yrði lögð sem loftlína, studd 23 m háum möstrum með rúmlega 300 m millibili og umhverfis hvert mastur þyrfti að slétta 120 m² svæði. Er gert ráð fyrir því að línan liggi m.a. um land kæranda.

Hinn 21. mars 2012 auglýsti Skipulagsstofnun frummatsskýrslu framkvæmdaraðila vegna greindrar framkvæmdar til kynningar. Athugasemdir bárust á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Í bréfi sínu til stofnunarinnar gerði kærandi ítarlegar athugasemdir við frummatsskýrsluna og fór m.a. fram á það að í samræmi við  2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 tæki stofnunin Blöndulínu 3 og fyrirætlanir framkvæmdaraðila um „styrkingu byggðarlínunnar“ til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum. Með bréfi til verkfræðistofu framkvæmdaraðila, dags. 14. júní 2012, lét stofnunin í ljós þá afstöðu sína að áætlun um „styrkingu byggðarlínunnar“ væri ekki „fyrirhuguð framkvæmd“ samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000. Einnig vísaði Skipulagsstofnun í úrskurð umhverfisráðherra frá 3. apríl 2008, varðandi sameiginlegt mats á umhverfisáhrifum vegna álvers í Helguvík og tengdra framkvæmda. Afrit bréfsins var m.a. sent kæranda.

Málsrök kæranda: Kærandi telur áætlun framkvæmdaraðila um „styrkingu byggðarlínunnar“ vera á því stigi að geta kallast „fyrirhuguð framkvæmd“. Eigi umfjöllun um það hvað teljist fyrirhuguð framkvæmd í úrskurði umhverfisráðherra frá 3. apríl 2008 ekki við í þessu tilfelli. Í úrskurðum umhverfisráðherra frá 3. apríl 2008, 28. september 2009 og 28. janúar 2010, varðandi sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum vegna álversins í Helguvík, sé í öllum tilvikum fjallað um sameiginlegt mat ólíkra þátta, þ.e. framkvæmda og virkjunar, en mikil óvissa hafi ríkt um virkjanakosti. Atvik séu önnur í máli þessu þar sem um sé að ræða hvort hringtenging raforkukerfis, sem augljóslega sé ekki undirorpin sömu óvissu og virkjanir, skuli fara í sameiginlegt mat eða hvort áætlanir um hringtengingu megi búta niður í ákveðna áfanga og meta aðgreinda búta hringsins hvern fyrir sig. Framkvæmdaraðila eigi ekki að vera unnt að komast hjá sameiginlegu mati með því að skipta upp framkvæmdum, sem fyrirtækið sjálft telji að séu tengdar framkvæmdir, og komast þannig fram hjá þeim yfirlýsta tilgangi 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum að gefa skýrari mynd af heildarumhverfisáhrifum framkvæmda. Þetta eigi enn frekar við þar sem Skipulagsstofnun hafi hingað til ekki gert umhverfismat á kerfisáætlun framkvæmdaraðila, skv. lögum nr. 105/2006.

Ekki sé hægt að fallast á fordæmisgildi úrskurðar ráðherra frá 3. apríl 2008, enda hafi ráðuneytið sjálft sett mikla fyrirvara í úrskurðinum við fordæmisgildi hans. Þar segi m.a. að áréttað sé að niðurstaðan feli ekki í sér afstöðu ráðuneytisins til þess hvort 2. mgr. 5. gr. kunni síðar að geta komið til álita. Þá eigi rök um réttmætar væntingar framkvæmdaraðila, svo sem tíundað sé í úrskurði ráðherra frá 3. apríl 2008, ekki við í þessu máli. Krafa um sameiginlegt mat  á umhverfisáhrifum hafi verið komin fram áður en matsáætlun framkvæmdaraðila hafi verið samþykkt af hálfu Skipulagsstofnunar í desember 2008. Séu málsatvik nú ólík málsatvikum í fyrri úrskurði ráðherra. 

Framkvæmdaraðili hafi lengi ætlað að hringtengja raforkukerfið og hafi fyrirtækið margsinnis lýst því í kerfisáætlunum sínum hvernig sú áætlun skiptist í áfanga, auk þess að hafa fjallað um það í árskýrslum sínum, m.a. árin 2010 og 2011. Skipulagsstofnun hafi látið undir höfuð leggjast að rannsaka málið og gæta lagafyrirmæla um samráð, en ákvörðun um sameiginlegt mat hefði átt að koma til skoðunar áður en tekin hafi verið ákvörðun um tillögu að matsáætlun Blöndulínu 3. Hagsmunaaðilar á Ytri-Mælifellsá hafi farið fram á slíkt en kæranda sé ekki kunnugt um að að samráðsferli hafi farið fram um þá kröfu, svo sem boðið sé í 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Hafi rannsóknarregla 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 því verið brotin.

Skipulagsstofnun hafi átt að vísa frá beiðni um að taka frummatsskýrslu framkvæmdaraðila til athugunar, sbr. 2. ml. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000. Skýrslan hafi ekki verið í samræmi við matsáætlun, svo sem Skipulagsstofnun hafi samþykkt hana með umfangmiklum athugasemdum og tilmælum 30. desember 2008. Sé því rétt að ógilda alla málsmeðferðina að því er lúti að frummatsskýrslunni. Þá hafi ákvörðunin verið haldin formgöllum. Kæranda hafi ekki verið tilkynnt formlega um ákvörðun Skipulagsstofnunar, heldur einungis fengið afrit af bréfi stofnunarinnar til verkfræðistofu framkvæmdaraðila, en slíkt sé ekki í samræmi við 20. gr. stjórnsýslulaga. Loks hafi stofnunin ekki gætt að því að leiðbeina kæranda um kæruheimild og kærufrest auk þess sem ákvörðunin hafi ekki verið nægilega rökstudd.  

Málsrök Skipulagsstofnunar: Stofnunin vísar til þess að endanleg matsskýrsla Blöndulínu 3 liggi ekki fyrir. Liggi afstaða framkvæmdaraðila til athugasemda kæranda því ekki fyrir í matsskýrslu og hafi stofnunin ekki gefið rökstutt álit sitt á slíkri skýrslu.

Ítrekað sé að ekki séu forsendur til að taka ákvörðun á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í viðbrögðum stofnunarinnar við athugasemdum kæranda hinn 14. júní 2012 hafi af þeim sökum ekki falist ákvörðun á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis. Því hafi ekki verið um að ræða stjórnvaldsákvörðun með þeim augljósu skyldum sem stofnunin hefði þá þurft að framfylgja lögum samkvæmt, s.s. með auglýsingu. Í ljósi þess að ekki hafi verið um að ræða stjórnvaldsákvörðun á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laganna sé ekki til staðar kæruheimild skv. 14. gr. sömu laga.

Forsenda fyrir beitingu nefndrar 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 sé að þrjú skilyrði séu uppfyllt. Í fyrsta lagi að um sé að ræða fleiri en eina fyrirhugaða matsskylda framkvæmd. Í öðru lagi að hinar fyrirhuguðu framkvæmdir séu á sama svæði eða að framkvæmdirnar séu háðar hver annarri. Í þriðja lagi að Skipulagsstofnun hafi haft samráð við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur. Einungis sé hægt að taka ákvörðun um sameiginlegt mat fleiri matsskyldra framkvæmda sé þessum þremur skilyrðum  fullnægt.

Engan fyrirvara eða afmörkun sé að finna í lögum eða athugasemdum með lögunum sem takmarki gildissvið 2. mgr. 5. gr. laganna við það á hvaða stigi framkvæmd skuli vera til að teljast „fyrirhuguð“. Þá sé  hugtakið „framkvæmd“ ekki fyllilega skýrt. Hugtakið „framkvæmd“ sé þó skilgreint í d-lið 3. gr. laganna sem hvers konar nýframkvæmd eða breyting á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi sem undir lögin falli. Þá sé skilgreining á hugtakinu „framkvæmd“ mjög almenn í 1. gr. tilskipunar Ráðs Evrópusambandsins nr. 85/337 um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunni að hafa á umhverfið. Skipulagsstofnun hafi talið að til þess að framkvæmd geti talist „fyrirhuguð“ í skilningi 2. mgr. 5. gr. laganna þurfi framkvæmdin að vera komin í tiltölulega fastar skorður. Án þess sé hvorki hægt að meta eðli eða umfang slíkrar framkvæmdar né taka afstöðu til þess hvort að rétt sé að meta umhverfisáhrif hennar sameiginlega með öðrum framkvæmdum. Því sé ekki nóg að framkvæmd sé á áætlunarstigi heldur þurfi hún að vera fastmótuð og tæk til málsmeðferðar skv. IV. kafla laga nr. 106/2000. Frekari styrking byggðarlínunnar, eins og hún sé kynnt í kerfisáætlun framkvæmdaraðila, geti því ekki talist „fyrirhuguð framkvæmd“ skv.  2. mgr. 5. gr. laganna. Þennan skilning Skipulagsstofnunar á „fyrirhugaðri framkvæmd“ sé einnig að finna í úrskurði umhverfisráðherra frá 28. janúar 2010 vegna Suðvesturlínu, en þar taki ráðuneytið undir sjónarmið stofnunarinnar. Í frumvarpi til breytinga á lögum um mat á umhverfisáhrifum, sem lagt hafi verið fram á 140. löggjafarþingi Alþingis 2011-2012, hafi verið lögð til skilgreining á hugtakinu „fyrirhuguð framkvæmd“, þannig að í því fælist að framkvæmd væri tæk til málsmeðferðar skv. IV. kafla laga nr. 106/2000. Frumvarpið hafi ekki verið afgreitt á því þingi en það hafi verið lagt fram að nýju á haustþingi 2012. Þar sem skilyrði nefnds ákvæðis um „fyrirhugaðar framkvæmdir“ hafi ekki verið uppfyllt hafi stofnuninni ekki verið heimilt að beita því.

Ekki sé unnt að líta svo á að lagning Blöndulínu 3, sem 220 kV loftlínu frá Blöndustöð til Akureyrar, sé nauðsynlega háð því að ráðist verði í lagningu nýrrar byggðarlínu um landið með 220 kV spennu. Umþrætt loftlína geti staðið ein og sér um ókomin ár án þess að til komi breytingar á öðrum hlutum núverandi byggðarlínu, hvort sem um væri að ræða lagningu nýrrar línu eða lagfæringar á eldri línu.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili tekur undir athugasemdir Skipulagsstofnunar. Að öðru leyti sé bent á að athugasemdir kæranda, þess efnis að teknar verði til sameiginlegs mats framkvæmdir við Blöndulínu 3 og áætlanir framkvæmdaraðila um styrkingu byggðarlínu, séu of seint fram komnar. Slíka kröfu hefði átt að setja fram áður en ákvörðun hefði verið tekin um matsáætlun Blöndulínu 3 árið 2008. Því til stuðnings sé vísað í úrskurð umhverfisráðherra frá 1. febrúar 2010. Ljóst sé að þótt krafa kæranda um sameiginlegt mat hefði verið lögð fyrir á réttum tíma hefðu lagaskilyrði ekki verið uppfyllt til að verða við slíkri kröfu. Augljóst sé að staðsetning Blöndulínu 3 og fyriráætlanir um styrkingu byggðarlínu í öðrum landshlutum geti ekki talist vera á sama svæði. Þá séu framkvæmdir við Blöndulínu 3 og áætlanir um styrkingu byggðarlínunnar ekki háðar hvor annarri, sbr. greinagerð við 5. gr. frumvarps þess er orðið hafi að lögum nr. 74/2005. Loks feli fyriráætlanir um styrkingu byggðarlínu í öðrum landshlutum ekki í sér að undirbúningur framkvæmda sé kominn á það stig að þær séu fyrirhugaðar. Engar ákvarðanir hafi verið teknar um þessar framkvæmdir og því ekki unnt að meta umhverfisáhrif þeirra. Þá sé ekki um að ræða sammögnunaráhrif. 

——————-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða:
Í máli þessu er deilt um þá afstöðu Skipulagsstofnunar sem fram kemur í bréfi stofnunarinnar frá 14. júní 2012 að skilyrði séu ekki fyrir hendi til að taka Blöndulínu 3 og áætlun framkvæmdaraðila um „styrkingu byggðarlínunnar“ til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. 

Í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 segir að ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. nefndri 2. mgr. 5. gr. sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæruna fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Samkvæmt þeim lögum, sem eru nr. 130/2011, hefur úrskurðarnefndin m.a. það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana, sbr. 1. gr. laganna. Þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, sbr. 3. mgr. 4. gr. sömu laga, og er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr.

Mat á umhverfisáhrifum lýtur þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir um í lögum nr. 106/2000. Um málsmeðferð matsskyldra framkvæmda fer eftir IV. kafla laganna. Skal framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar, kynna matsáætlunina umsagnaraðilum og almenningi og hafa samráð við stofnunina, sbr. 8. gr. laganna. Fallist stofnunin á matsáætlun, með eða án athugasemda, vinnur framkvæmdaraðili frummatsskýrslu í samræmi við áætlunina, sbr. 9. gr. Þegar skipulagsstofnun hefur tekið frummatsskýrslu til athugunar kynnir stofnunin fyrirhugaða framkvæmd og frummatsskýrslu í samræmi við 2. mgr. 10. gr. og er öllum heimilt að gera athugasemdir við skýrsluna, sbr. 4. mgr. 10. gr. Stofnunin skal svo senda framkvæmdaraðila þær athugasemdir sem henni berast og skal þá vinna endanlega matsskýrslu þar sem gerð sé grein fyrir fram komnum athugasemdum og afstöðu framkvæmdaraðila til þeirra, sbr. 6. mgr. 10. gr. Loks skal Skipulagsstofnun í áliti sínu um mat á umhverfisáhrifum fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum sem berast við kynningu á frummatsskýrslu, sbr. 1. mgr. 11. gr.

Athugasemdir kæranda bárust Skipulagsstofnun við kynningu á frummatsskýrslu, en fyrr en við þá opinberu og lögboðnu kynningu er ekki hægt að fullyrða að kæranda hafi verið ljóst að matsferli væri hafið vegna framkvæmda sem m.a. snertu hagsmuni hans sem landeiganda á því svæði sem framkvæmdir voru fyrirhugaðar. Við kæru til úrskurðarnefndarinnar hafði Skipulagsstofnun ekki fjallað um afgreiðslu framkvæmdaraðila á athugasemdum kæranda, enda hafði hún ekki gefið álit sitt í samræmi við 11. gr. laga nr. 106/2000. Hins vegar hafði stofnunin sent framkvæmdaraðila bréflega þær athugasemdir sem höfðu borist í samræmi við 6. mgr. 10. gr. og í því bréfi kom fram skýr afstaða þess efnis að skilyrði væru ekki fyrir hendi til að beita heimild stofnunarinnar til að ákveða að umhverfisáhrif ákveðinna framkvæmda skyldu metin sameiginlega. Þessi afstaða fól í sér niðurstöðu stofnunarinnar gagnvart erindi kæranda og var þannig lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ræður ekki úrslitum í þessu efni þótt ákvörðunin hafi ekki verið birt í samræmi við 3. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum, en í lögum nr. 106/2000 er hvorki kveðið á um slíka birtingu né um sérstök réttaráhrif tengd slíkri birtingu. Þá var kæranda tilkynnt um ákvörðunina með afriti af bréfi stofnunarinnar til framkvæmdaraðila. Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið og til ótvíræðrar kæruheimildar 1. mgr. 14. gr. laganna verður kæran tekin til efnislegrar meðferðar.

Kærandi telur málsmeðferð Skipulagsstofnunar ógilda þar sem stofnunin hefði átt að vísa frummatsskýrslunni frá með vísan til 2. ml. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. laganna getur framkvæmdaraðili einn kært ákvarðanir Skipulagsstofnunar samkvæmt nefndri 1. mgr. 10. gr. og verður því ekki frekar um þetta fjallað. Þá fer kærandi fram á að auk þess að ákvörðunin verði felld úr gildi verði Skipulagsstofnun gert að taka framangreindar framkvæmdir til sameiginlegs mats. Svo sem áður segir er hlutverk úrskurðarnefndarinnar bundið við það að úrskurða í kærumálum. Tekur nefndin því aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að mæla fyrir um sameiginlegt mat, svo sem krafist er, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Í 2. mgr. 5. gr.  laga nr. 106/2000 segir: „Í þeim tilvikum þegar fleiri en ein matsskyld framkvæmd eru fyrirhugaðar á sama svæði eða framkvæmdirnar eru háðar hver annarri getur Skipulagsstofnun að höfðu samráði við viðkomandi framkvæmdaraðila og leyfisveitendur ákveðið að umhverfisáhrif þeirra skuli metin sameiginlega.“ Af orðalagi ákvæðisins er ljóst að ákvæðinu verður ekki beitt nema að uppfylltum öllum þeim skilyrðum sem þar eru talin, þ.e. að um sé að ræða fleiri en eina matsskyld framkvæmd, að umræddar framkvæmdir séu fyrirhugaðar á sama svæði eða séu háðar hver annarri og að ákveðið samráð hafi farið fram.

Eins og rakið hefur verið deila aðilar um það hvort að áætlun framkvæmdaraðila um „styrkingu byggðarlínunnar“ hafi verið komin á það stig að geta talist „fyrirhuguð framkvæmd“ í skilningi fyrrgreinds lagaákvæðis. Í því sambandi hefur kærandi bent á að framkvæmdir við Blöndulínu 3, sem og „styrking byggðarlínunnar“, séu hluti af hringtengingu raforkukerfisins á landsvísu. Er ljóst að hvort sem seinni framkvæmdin telst fyrirhuguð eða ekki er hún allt að einu ekki á sama landsvæði og hin matsskylda framkvæmd við Blöndulínu 3 tekur til. Af texta laga nr. 106/2000 verður ráðið að þar sé um að ræða mat á umhverfisáhrifum stakra framkvæmda á það svæði sem framkvæmdin tekur til, þ.e. áhrifasvæði framkvæmdarinnar, sbr. t.d. 1. mgr. 1. gr. og 1. mgr. 8. gr. laganna. Verður að skýra 2. mgr. 5. gr. í því ljósi þannig að þær fyrirhuguðu framkvæmdir sem komi til greina í sameiginlegt mat hafi áhrif á sama svæði. Er því ekki fyrir að fara hér. Ekki verður heldur fallist á það með kæranda að þar sem Blöndulínu 3 séu hluti af hringtengingu raforkukerfisins sé hún háð öðrum framkvæmdum á kerfinu og verði því að fara í sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum. Þvert á móti er ljóst að Blöndulína 3 felur í sér sjálfstæða framkvæmd, enda er gert ráð fyrir að hún flytji raforku um 220 kV háspennulínu á milli Blöndustöðvar og Akureyrar, eða frá virkjun til notenda. Hefur það ekki afgerandi áhrif um tengsl framkvæmdanna að tilgangur með svo hárri spennu línunnar miði m.a. að því að auka flutningsgetu á landsvísu, enda miðar hún einnig að því að tryggja notendum við enda línunnar raforku til framtíðar.

Með vísan til framangreinds verður hvorki talið að um sé að ræða framkvæmdir á sama svæði né að þær séu hvor annarri háðar. Þegar af þeirri ástæðu voru ekki fyrir hendi lagaskilyrði til að mæla fyrir um sameiginlegt mat þeirra skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000. Verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. júní 2012 um að taka Blöndulínu 3 og áætlun Landsnets hf. um „styrkingu byggðarlínunnar“ ekki til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.
 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________    
Ómar Stefánsson                                             Ásgeir Magnússon    

______________________________              _____________________________    
Geir Oddsson                                                   Þorsteinn Þorsteinsson                     

58/2013 Kröflulína 3

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2013, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 10. maí 2013 um að taka Blöndulínu 3 og fyrirætlun Landsnets hf. um Kröflulínu 3 ekki til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2013, er barst nefndinni s.d., kærir eigandi Hóla í Öxnadal í Hörgársveit, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 10. maí 2013 að taka Blöndulínu 3 og fyrirætlun Landsnets hf. um Kröflulínu 3 ekki til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Skipulagsstofnun verði gert að taka ákvörðun um slíkt sameiginlegt mat. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Skipulagsstofnun gert að taka málið á ný til efnismeðferðar.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 27. september 2013.

Málavextir: Blöndulína 3 er 220 kV háspennulína sem fyrirhuguð er á milli Blöndustöðvar og Akureyrar. Færi línan m.a. um land kæranda í Hörgársveit. Kröflulína 3 yrði 220 kV háspennulína frá tengivirki við Kröflustöð að tengivirki við Fljótsdalsstöð.

Hinn 26. febrúar 2013 auglýsti Skipulagsstofnun til kynningar tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun vegna Kröflulínu 3. Tillagan  lá frammi til kynningar til 15. mars 2013. Kærandi gerði athugasemdir við tillöguna með bréfi til stofnunarinnar, dags. 10. s.m. Í bréfi kæranda var þess krafist að stofnunin tæki til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 þær framkvæmdir sem kærandi taldi vera í beinum tengslum við Kröflulínu 3 og heyrðu beint undir fyrirhugaða 220 kV hringtengingu flutningskerfis framkvæmdaaðila. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar er tekið fram að um sé að ræða þá kafla sem falli undir Hólasandslínu 3 og Blöndulínu 3.

Skipulagsstofnun svaraði athugasemdum kæranda með bréfi, dags. 10. maí 2013. Í bréfi stofnunarinnar kom fram að ekki væri tilefni til að verða við kröfu kæranda um sameiginlegt mat, þar sem skilyrði 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum væru ekki uppfyllt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að um eina samfellda háspennulínu sé að ræða sem fyrirhugað sé að reisa hringinn í kringum landið. Kröflulína 3 og Blöndulína 3, sem muni liggja um land kæranda, séu tengdar framkvæmdir. Kærandi hafi áður kært til úrskurðarnefndarinnar synjun Skipulagsstofnunar um að taka síðarnefndu framkvæmdina til sameiginlegs mats með öðrum hlutum hringtengingarinnar. Kærandi eigi því einnig aðild að kærumáli þessu og sé eðlilegt að kærumálin hljóti sameiginlega málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni.

Skilyrði um sameiginlegt mat séu uppfyllt. Af gögnum framkvæmdaraðila, sem kynnt hafi verið á málþingi Skipulagsstofnunar 24. apríl 2012, sé ljóst að til standi að leggja háspennulínu frá Blöndu um Akureyri að Kröflu og áfram í Fljótsdal. Sé örðugt að skilja þau gögn á annan hátt en að þar sé átt við framkvæmdir sem séu háðar hver annarri og jafnvel að um sé að ræða sömu framkvæmd í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdaraðili birti árlega áætlun um framkvæmdir í flutningakerfi rafmagns. Undir kaflanum „almenn undirbúningsverkefni“ sé fjallað um „styrkingu byggðarlínunnar“ á þann veg að telja verði að framkvæmdaraðili líti svo á að um sé að ræða eina heild, enda sé þar ítrekað vísað til „línunnar“ og talað um lagningu hennar „hringinn í kringum landið“. Ljóst sé að í huga framkvæmdaraðila sé í reynd um að ræða eina línu og mismunandi kafla hennar. Eigi að leggja að jöfnu hugtökin „verkefni í undirbúningi“, sem sé kaflaheitið í kerfisáætlun 2013-2017, og „fyrirhuguð framkvæmd“ í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000. Sé ljóst að hinir mismunandi kaflar séu hver öðrum háðir en það sé eitt skilyrða 2. mgr. 5. gr. laganna.

Ekki sé skilyrt í lögum að einungis megi hefja umhverfismat á framkvæmd hafi hún þá þegar samþykkt í aðalskipulagi og sé kærandi ósammála þeirri afstöðu framkvæmdaraðila að ekki eigi að hefja mat á umhverfisáhrifum fyrir Hólasandslínu 3 þar sem sá kafli línunnar sé ekki enn kominn í aðalskipulag allra hlutaðeigandi sveitarfélaga. Þá hafi framkvæmdaraðili nú þegar hafið mat á umhverfisáhrifum á öðrum köflum línunnar þó svo að skipulagsferli þess sé ólokið. Skipulagsstofnun hafi skilgreint hugtakið „fyrirhuguð framkvæmd“ skv. lögum nr. 106/2000 of þröngt. Framkvæmd þurfi ekki að vera tæk til málsmeðferðar skv. IV. kafla laganna og telji kærandi að hér sé verið að rugla sama hugtökum. Megi vísa í lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sérstaklega hvað varði skilgreiningu á hugtakinu „áætlanir“. Ljóst sé að Hólasandslína 3 hafi verið í undirbúningi um langt skeið. Hafi línan ásamt Kröflulínu 3 verið samhliða í undirbúningi þrátt fyrir að framkvæmdaraðili hafi síðar ákveðið að annar kaflinn skyldi fara fyrr í matsáætlun. Sá tilgangur laganna að draga fram heildaráhrif framkvæmdar væri að engu hafður ef framkvæmdaraðili gæti að vild hlutað niður nátengdar framkvæmdir á lokastigi undirbúnings í því skyni að fá mat á umhverfisáhrifum þeirra bútað niður. Hafi úrskurður ráðherra frá 28. janúar 2010 um Suðvesturlínur ekki fordæmisgildi hér.

Loks sé ákvörðun Skipulagsstofnunar háð formgalla, þar sem stofnunin hafi ekki leitað til leyfisveitenda, sem séu viðkomandi sveitarfélög og Orkustofnun, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000. Slíkt sé jafnframt brot á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.   

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er vísað til bréfs stofnunarinnar frá 10. maí 2013. Niðurstaða stofnunarinnar hafi verið að þar sem ekki væri hægt að líta svo á að aðrar framkvæmdir en Kröflulína 3 væru fyrirhugaðar í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum væri ekki forsenda að taka ákvörðun á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laganna. Sú niðurstaða hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beri að vísa stjórnsýslukæru kæranda frá, sbr. 1. ml. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá bendi stofnunin á, vegna kröfugerðar kæranda þar um, að úrskurðarnefndin hafi ekki valdheimild til að leggja fyrir stofnunina að taka ofangreindar framkvæmdir til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 þurfi m.a. að vera um að ræða fleiri en eina „fyrirhugaða“ matsskylda framkvæmd. Ekki séu til staðar forsendur til að taka ákvörðun um hvort umhverfisáhrif framkvæmda skuli metin sameiginlega sé þetta skilyrði laganna ekki uppfyllt. Stofnunin hafi talið að til þess að framkvæmd geti talist „fyrirhuguð“ í skilningi ákvæðisins þurfi hún að vera komin í tiltölulega fastar skorður. Án þess sé hvorki hægt að meta eðli eða umfang slíkrar framkvæmdar né taka afstöðu til þess hvort rétt sé að meta umhverfisáhrif hennar sameiginlega með öðrum framkvæmdum. Því sé ekki nóg að framkvæmd sé á áætlunarstigi heldur þurfi hún að vera fastmótuð og tæk til málsmeðferðar skv. IV. kafla nefndra laga. Ráðuneytið hafi tekið undir þennan skilning stofnunarinnar í úrskurði umhverfisráðherra frá 28. janúar 2010 vegna Suðvesturlínu.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið leitað upplýsinga eða viðhorfa frá leyfisveitendum, þ.e.a.s. sveitarfélögum og Orkustofnun, hafni stofnunin þeirri staðhæfingu kæranda að um hafi verið að ræða brot á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 sé úr garði gert sé ekki með berum orðum gert ráð fyrir því að stofnuninni sé skylt að leita til leyfisveitenda um upplýsingagjöf heldur skuli hún hafa samráð við töku ákvörðunar um hvort umhverfisáhrif framkvæmda skuli metin sameiginlega.

Ekki verði ráðið af fyrirliggjandi gögnum um áformaðar framkvæmdir í tengslum við Kröflulínu 3 að fyrirhugaðar séu aðrar framkvæmdir á vegum framkvæmdaaðila sem til álita komi að meta sameiginlega með fyrrgreindri framkvæmd. Ekki sé fallist á þá ályktun kæranda að hugtökin „verkefni í undirbúningi“, sem sé kaflaheitið í kerfisáætlun 2013-2017, og „fyrirhuguð framkvæmd“ í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, hafi sama inntak.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili tekur undir athugasemdir Skipulagsstofnunar og bendir auk þess á að kærandi geti ekki talist eiga lögvarða hagsmuni í máli þessu, líkt og gert sé ráð fyrir varðandi kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærandi búi erlendis og sé þinglýstur eigandi jarðarinnar Hóla í Öxnadal í Hörgársveit, en Kröflulína 3 liggi hvorki um landareign kæranda né umrætt sveitarfélag.

Niðurstaða: Í máli þessu er m.a. gerð krafa um frávísun með þeim rökum að fyrirhuguð framkvæmd við Kröflulínu 3 snerti ekki lögvarða hagsmuni kæranda og skorti því á að skilyrði um kæruaðild séu uppfyllt, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í nefndu lagaákvæði segir að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Þó geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök átt aðild, m.a. vegna ákvarðana Skipulagsstofnunar um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum, án þess að sýna fram á einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni. Um slíkt er ekki að ræða í þessu tilviki og kemur þá til skoðunar hvort að kærandi eigi lögvarinna hagsmuni að gæta í málinu, en fyrrgreint ákvæði þar um verður að skýra í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Í kæru vísar kærandi til eignarhalds síns á landi sem Blöndulína 3 mun liggja um en kærandi hefur einnig kært til úrskurðarnefndarinnar þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að mat á umhverfisáhrifum þeirrar línu verði ekki sameiginlegt með öðrum tilteknum framkvæmdum, sbr. úrskurð nefndarinnar sem kveðinn var upp fyrr í dag í kærumáli nr. 72/2012. Mál þetta snýst hins vegar um þá afgreiðslu Skipulagsstofnunar, sem fram kemur í bréfi stofnunarinnar frá 10. maí 2013, að ekki séu forsendur fyrir því að taka ákvörðun á grundvelli 2. mgr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Liggur fyrir að krafa kæranda þar um var gerð af því tilefni að tillaga að matsáætlun vegna Kröflulínu 3 lá fyrir til ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Lítur úrskurðarnefndin svo á að málið snúi að framkvæmdum vegna þeirrar línu, en hún mun liggja fjarri landareign kæranda í öðrum landshluta. Vísar kærandi til þess í kæru að ljóst sé að stefnt sé að tengingu á flutningskerfi raforku sunnanlands og norðan og að tengja eigi saman þau tvö kerfi. Kerfið sem vísað sé til fyrir norðan nái frá Blöndu til Fljótsdals. Verður með hliðsjón af því sem að framan er rakið ekki séð að kærandi hafi hagsmuni umfram aðra landsmenn af því að umhverfisáhrif Kröflulínu 3 verði metin sameiginlega með öðrum framkvæmdum, s.s. Blöndulínu 3.

Að teknu tilliti til alls framangreinds verður ekki séð að afgreiðsla Skipulagsstofnunar snerti lögvarða hagsmuni kæranda þannig að það skapi honum kæruaðild. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________    
Ómar Stefánsson                                             Ásgeir Magnússon    

______________________________              _____________________________    
Geir Oddsson                                                   Þorsteinn Þorsteinsson 

30/2014 Fururgrund Akranesi

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2014, kæra á ákvörðun Akraneskaupstaðar um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalda á fasteignina Furugrund 16, Akranesi, fyrir árið 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 16. apríl 2014, kærir J, Furugrund 16, Akranesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar frá 20. janúar 2014 að leggja á fasteignina Furugrund 16, Akranesi, fastanúmer 210-2940, sorphreinsunar- og eyðingargjald að fjárhæð kr. 29.820 fyrir árið 2014. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Akraneskaupstað 22. maí 2014.

Málavextir: Álagningarseðill fasteignargjalda í Akraneskaupstað er dagsettur 21. janúar 2014. Kæranda var með honum gert að greiða, fyrir árið 2014, kr. 16.095 í sorphreinsunargjald og kr. 13.725 í sorpeyðingargjald vegna fasteignarinnar að Furugrund 16, Akranesi, alls kr. 29.820. Með bréfi til bæjarstjórnar Akraness, dags. 9. mars 2014, fór kærandi fram á endurskoðun á sorpgjöldum vegna 2014 og var málinu vísað til bæjarstjóra. Kæranda barst svar frá Akraneskaupstað, dags. 5. maí s.á., þar sem kröfu hans var hafnað, en þá hafði kærandi þegar snúið sér til úrskurðarnefndarinnar vegna málsins og jafnframt kvartað yfir drætti á afgreiðslu þess af hálfu sveitarfélagsins.

Málsrök kæranda: Kærandi krefst þess að álögð sorpgjöld verði endurskoðuð og í kjölfarið lækkuð umtalsvert. Hann styður mál sitt við þau rök að bæjarstjórn hafi láðst að fá samþykki heilbrigðisnefndar Vesturlands fyrir gjaldskrá ársins 2014 eins og áskilið sé í lögum. Þá hafi við ákvörðun gjaldskrárinnar ekki verið tekið tillit til umtalsverðs hagnaðar af málaflokknum undanfarin fimm ár, þ.e. árin 2010-2014, og þar með séu þau gjöld sem ákveðin hafi verið fyrir árið 2014 of há miðað við heimild til innheimtu þjónustugjalda.

Málsrök Akraneskaupstaðar: Því er mótmælt að gjaldtaka Akraneskaupstaðar á sorpgjöldum sé ólögmæt þar sem ekki hafi verið farið að fyrirmælum 25. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Gjaldskráin sé lögmæt og í fullu samræmi við nefnda 25. gr., en setning hennar byggi á samþykkt Akraneskaupstaðar um meðhöndlun úrgangs á Akranesi nr. 1231/2005, sem staðfest hafi verið af umhverfisráðuneytinu 22. desember 2005. Eftirlit með setningu samþykkta sé á hendi umhverfis- og auðlindaráðherra samkvæmt 25. gr. laga nr. 7/1998, en ekki verði ráðið af lögunum eða greinargerð með þeim hvort eftirlitshlutverkið gildi einnig um breytingar á gjaldskrám sem eðli máls samkvæmt hafi ekki efnislegar breytingar í för með sér á samþykktinni. Af lögskýringargögnum með lögum nr. 59/1999, sem hafi fært 25. gr. laga 7/1998 í núverandi horf, sé ekki að finna neina vísbendingu um ástæður þess að afla þurfi umsagnar heilbrigðisnefndar við breytingar á gjaldskrám. Hins vegar sé ljóst að vilji löggjafans með breytingunni hafi verið að efla sjálfstæði sveitarfélaganna á þessu sviði.

Varðandi aðkomu heilbrigðisnefndar Vesturlands að breytingum á gjaldskrám sveitarfélaga á svæðinu hafi verið aflað upplýsinga heilbrigðisfulltrúa Vesturlands um verklagið. Það sé ekki almenn regla að leitað sé umsagnar nefndarinnar þrátt fyrir orðalag 25. gr. laga nr. 7/1998. Segja megi að sú framkvæmd sé í samræmi við efnislegt inntak um sjálfstæði og ábyrgð sveitarfélaganna á þessum þætti. Þá sé það ekki almenn regla að í þeim tilvikum sem  umsagnarbeiðni berist nefndinni sé beiðnin borin undir nefndina sjálfa heldur sé beiðnin þá afgreidd af heilbrigðisfulltrúanum án aðkomu nefndarinnar, a.m.k. ef fyrir liggi samþykkt staðfest af ráðherra, líkt og gildi um Akraneskaupstað. Þá séu einnig dæmi um að erindi séu send til umsagnar eftir að þau hafi verið samþykkt í sveitarstjórn og birt í Stjórnartíðindum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um álagningu sorphirðu- og eyðingargjalds og er m.a. deilt um hvort gjaldskrá fyrir hirðu og eyðingu sorps í Akraneskaupstað nr. 1285/2013, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 14. janúar 2014, hafi skort lagastoð þar sem hún hafi ekki verið sett með formlega réttum hætti.

Í 1. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segir að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Heimilt sé auk annars að setja í slíkar samþykktir ákvæði um meðferð úrgangs og skolps, sbr. 2. tl. ákvæðisins. Samkvæmt 1. ml. 2. mgr. 25. gr. semur heilbrigðisnefnd drög að samþykktum og breytingum á þeim og leggur fyrir viðkomandi sveitarstjórn sem afgreiðir þau í formi samþykktar til ráðherra. Samkvæmt 4. mgr. skulu samþykktir skv. þessari grein birtar í B-deild Stjórnartíðinda. Í 5. mgr. 25. gr. er síðan fjallað sérstaklega um gjaldskrár. Þar segir: „Heimilt er sveitarfélögum að setja gjaldskrá um innheimtu gjalda skv. 1. mgr. að fenginni umsögn hlutaðeigandi heilbrigðisnefndar. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum.“ Skal sveitarfélag láta birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda.

Samkvæmt tilvitnuðu orðalagi 25. gr. laga nr. 7/1998 er skýrt að sveitarstjórn skuli leita umsagnar heilbrigðisnefndar við setningu gjaldskrár um innheimtu gjalda skv. greininni, m.a. samkvæmt samþykktum um meðferð úrgangs og skolps sem settar hafi verið með stoð í ákvæðinu. Fyrir Akraneskaupstað hefur verið sett slík samþykkt nr. 1231/2005 um meðhöndlun úrgangs á Akranesi, birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. janúar 2006. Samkvæmt 9. gr. samþykktarinnar leggur Akraneskaupstaður, að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar, á almennt sorphirðu- og sorpeyðingargjald sem standa skal undir þeim kostnaði sem á sveitarfélagið fellur vegna móttöku úrgangs, sorpsöfnunar, annarrar meðhöndlunar og förgunar úrgangs í samræmi við ákvæði 5. mgr. 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og þágildandi 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 23. gr. laganna. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi.

Skilyrði fyrir lögmæti reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla er að þau eigi sér lagastoð og séu sett í samræmi við lög. Af þessu leiðir að stjórnvöld geta almennt ekki tekið ákvarðanir sem eru íþyngjandi fyrir borgarana nema hafa til þess heimild í lögum. Af framangreindu leiðir jafnframt að þegar löggjafinn hefur með skýrum lagafyrirmælum kveðið á um hvernig formlega skuli standa að reglusetningu á tilteknu sviði af hálfu stjórnvalda hafa stjórnvöld almennt ekki frjálst val um að fara aðrar leiðir í þeim efnum. Samkvæmt fyrrgreindri 25. gr. laga nr. 7/1998 og 9. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs á Akranesi nr. 1231/2005 er skýrt tekið fram að sveitarstjórn, í þessu tilfelli Akraneskaupstaður, leggi á almennt sorphirðu- og sorpeyðingargjald að fenginni umsögn heilbrigðisnefndar. Ljóst er af gögnum málsins að ekki hefur verið fylgt þeim skilyrðislausu fyrirmælum laga að leita skuli umsagnar heilbrigðisnefndar áður en ný gjaldskrá er sett samkvæmt greindri samþykkt. Fyrirmæli um gjaldtöku eru íþyngjandi gagnvart borgurunum og því mikilvægt að gætt sé ákvæða laga í hvívetna við setningu þeirra. Þar sem gjaldskrá fyrir hirðu og eyðingu sorps í Akraneskaupstað nr. 1285/2013 var ekki sett á lögmætan hátt getur hún ekki skapað grundvöll gjaldtöku.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Akraneskaupstaðar að leggja á fasteignina Furugrund 16, Akranesi, fastanúmer 210-2940, sorphreinsunar- og eyðingargjald fyrir árið 2014.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir

72/2014 Svalvogar

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2014, kæra á ákvörðun Ísafjarðarbæjar um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignarinnar Svalvoga í Dýrafirði, Ísafjarðarbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. júlí 2014, er barst nefndinni 11. s.m., kærir Þ, f.h. Rósa ehf., eiganda Svalvoga í Dýrafirði, fastanúmer 212-5335, þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 25. janúar 2014 að leggja sorpgjald fyrir árið 2014 á greinda fasteign. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Ísafjarðarbæ 8. ágúst 2014.

Málavextir: Með álagningarseðli fasteignargjalda í Ísafjarðarbæ fyrir árið 2014, dags. 25. janúar 2014, var kæranda gert að greiða kr. 13.230 í sorpgjald vegna Svalvoga. Er gjaldið tilgreint sem „sorpgjald á sumarbústaði“. Kærandi fékk tölvupóst frá Ísafjarðarbæ 19. mars 2014, þar sem minnt var á ógreidd fasteignargjöld og vísað á vefslóð þar sem rafrænan greiðsluseðil væri að finna. Hinn 26. s.m. sendi kærandi tölvupóst til sveitarfélagsins og fór fram á „niðurfellingu á sorpgjaldi þar sem Ísafjarðarbær hirð[i] ekkert sorp þar“. Kröfu hans var synjað með bréfi, dags. 11. júní 2014, þar sem um lögbundna grunnþjónustu í sveitarfélagi væri að ræða.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir kröfu sína um niðurfellingu sorpgjalds á því að engin búseta hafi verið á jörðinni Svalvogum í Dýrafirði frá því að hann hafi keypt jörðina 2004. Þar af leiðandi hafi ekki þurft að eyða eða farga neinu sorpi frá henni, enda húsið verið óíbúðarhæft. Leiðin frá Svalvogum að sorpgámum Ísafjarðarbæjar utan við Þingeyri sé um 25 km. Þurfi að sæta sjávarföllum til að komast þá leið um níu mánuði á ári. Við kaup jarðarinnar 2004 hafi öll húsin verið talin ónýt eða í ónothæfu ástandi. Enginn hafi búið að Svalvogum og þar af leiðandi hafi engin þjónusta verið veitt. Kærandi telji sig ekki þurfa að greiða fyrir þjónustu sem ekki sé veitt.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu Ísafjarðarbæjar er kröfu kæranda um niðurfellingu sorpgjalda hafnað. Í samþykkt um sorphirðu í Ísafjarðarbæ nr. 1221/2011 komi fram að bærinn annist söfnun sorps frá öllu íbúðarhúsnæði í þéttbýli sveitarfélagsins og á gámastöðvum fyrir íbúðarhúsnæði í dreifbýli. Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar innheimti gjald fyrir förgun úrgangs í samræmi við ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Þá sé sveitarfélaginu heimilt að innheimta gjald fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi í samræmi við 2. mgr. 11. gr. Gjöld fyrir hreinsun og förgun úrgangs innheimtist með fasteignagjöldum og á sömu gjalddögum. Bent sé á að um sorpförgunargjald fyrir sumarbústaði sé að ræða, en ekki sorphreinsunargjald, í samræmi við 9. gr. samþykktarinnar. Gjaldið fyrir sumarbústaði sé kr. 13.230 fyrir árið 2014 en kr. 39.230 fyrir hverja fasteign í þéttbýli og kr. 26.700 í dreifbýli. Gjaldið fyrir Svalvoga sé ársgjald fyrir sumarbústaði, sem sé 50% af gjaldi fyrir íbúðarhúsnæði í dreifbýli, sbr. 2. mgr. 9. gr. samþykktar um sorphirðu. Íbúðarhæfi sé ekki skilyrði fyrir innheimtu sorpförgunargjalds fyrir þess háttar fasteignir.

Þegar litið sé til þess hvort Svalvogar njóti þeirrar þjónustu sem gjaldið sé innheimt fyrir sé til þess að líta hvort kærandi hafi raunhæfa möguleika á að koma frá sér sorpi til aðgengilegra móttökustöðva. Svalvogar séu staðsettir í 20 km fjarlægð frá Þingeyri. Þar séu gámar sem taki við heimilissorpi án þess að gjald sé tekið fyrir. Skv. 3. gr. samþykktar um sorphirðu í Ísafjarðarbæ sé heimilt í dreifbýli, í samráði við heilbrigðiseftirlit, að setja upp ílát fyrir úrgang í alfaraleið í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili. Staðsetning ílátsins skuli vera þannig að aðgengi að því sé gott. Bærinn telji þessi skilyrði samþykktarinnar vera uppfyllt þannig að þjónustan teljist vera fyrir hendi.

Þegar litið sé á heildartekjur Ísafjarðarbæjar vegna sorphirðu megi sjá að þær séu töluvert undir sorphreinsunarkostnaði og hafi verið það undanfarin ár. Áætlanir sveitarfélagsins bendi til að svo verði einnig árið 2014.

            Áætlun 2014               2013          2012        2011
Skatttekjur        -64.280.000    -64.480.289    -71.972.624    -71.186.386
Sorphreinsun    69.000.000    77.710.498    121.742.272    100.392.786
Tap                        4.720.000    13.230.209    49.769.648    29.206.400

Aðrar tekjur v/
sorpeyðingar    -8.348.880    -10.018.616    -11.718.347    21.890.855
Önnur gjöld v/
sorpeyðingar    11.455.422    13.103.397    11.992.904    1.752.748
Rekstrarniðurstaða    7.826.542    16.314.990    50.044.205    9.068.293

Ljóst sé að heildartekjur sveitarfélagsins hafi verið mun lægri en heildarkostnaður við meðhöndlun úrgangs og sé eyðing sorps hjá sveitarfélaginu því rekin með verulegu tapi. Gjöld skuli lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóti þjónustu vegna sorps, sbr. 8. gr. samþykktar um sorphirðu í Ísafjarðarbæ. Þar sem sorphirða sé til staðar og jafnframt rekin með tapi sé ekki grundvöllur til að fella gjaldið niður vegna þess að það sé of hátt.

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að felld verði úr gildi álagning sorpgjalds á fasteignina Svalvoga í Ísafjarðarbæ.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli sama ákvæðis var sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Ísafjarðarbær setti með vísan til þessa samþykkt nr. 1221/2011 um sorphirðu í Ísafjarðarbæ. Í samþykktinni segir að Ísafjarðarbær annist söfnun sorps frá íbúðarhúsnæði í þéttbýli og á gámastöðvum fyrir íbúðarhúsnæði í dreifbýli. Þá annist bærinn förgun úrgangs, sbr. 2. mgr. 1. gr. samþykktarinnar. Í dreifbýli sé heimilt að setja upp ílát fyrir úrgang í alfaraleið í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili, sbr. 4. mgr. 3. gr.

Sveitarfélögum var skv. þágildandi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. nefndrar 11. gr., og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. samþykktar nr. 1221/2011 innheimtir bæjarstjórn Ísafjarðar gjald fyrir förgun úrgangs og er sveitarfélaginu heimilt að innheimta gjald fyrir alla aðra meðhöndlun úrgangs. Skulu gjöldin ákvörðuð og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt ákvæðum áðurnefndrar 11. gr. laga nr. 55/2003, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Gjöld fyrir hirðu og förgun úrgangs skulu innheimtast með fasteignagjöldum og skulu lögð á hverja fasteign, stofnun eða fyrirtæki sem njóta þjónustunnar, sbr. 2. mgr. 8. gr. samþykktarinnar. Um álagningarforsendur segir í 9. gr. að öll sumarhús í Ísafjarðarbæ greiði 50% af sorpförgunargjaldi, en það er gjaldið sem kærandi er krafinn um.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og var skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis, sem og 9. gr. samþykktar nr. 1221/2011, að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. samþykktarinnar er heimilt að setja upp ílát fyrir úrgang í alfaraleið í stað þess að sækja heimilisúrgang á hvert heimili í dreifbýli. Skilyrði er gert um að staðsetning íláts skuli vera þannig að aðgengi að því sé gott. Samkvæmt gögnum málsins er næsta gámasvæði þar sem tekið er við heimilissorpi án endurgjalds í um 20-25 km fjarlægð frá fasteign kæranda, eða á Þingeyri við Dýrafjörð. Óumdeilt er að leiðin frá Svalvogum er illfær meiri hluta árs. Gámasvæðið sem næst er fasteigninni telst eigi að síður vera í alfaraleið í skilningi 4. mgr. 3. gr. samþykktarinnar og sú þjónusta þannig veitt sem kærandi er krafinn um gjald fyrir. Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á kæranda vegna fasteignar hans samkvæmt gjaldskrá fyrir söfnun, förgun, móttöku og flokkun sorps í Ísafjarðarbæ nr. 1204/2013. Loks er ljóst af þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram að álögð gjöld vegna sorphirðu eru ekki hærri en kostnaður við þá þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðum ákvæðum 11. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Ísafjarðarbæjar um álagningu sorpgjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignarinnar Svalvoga í Dýrafirði, Ísafjarðarbæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir

89/2014 Vogar

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2014, kæra á ákvörðun sveitarfélagsins Voga um álagningu sorpeyðingargjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignar með fastanúmer 209-6107.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. ágúst 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir H, ,  ákvörðun sveitarfélagsins Voga frá 29. janúar 2014 um að leggja sorpeyðingargjald fyrir árið 2014 á sumarhús með fastanúmerið 209-6107.  Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu Vogum 16. september 2014 og 16. mars 2015.

Málavextir: Álagningarseðlar fasteignargjalda í sveitarfélaginu Vogum fyrir árið 2014 eru dagsettir 29. janúar 2014. Var kæranda með slíkum seðli gert að greiða kr. 23.107 í sorpeyðingargjald vegna fasteignar sinnar, sem ber fastanúmerið 209-6107. Með tölvupósti 15. apríl 2014 til skrifstofu sveitarfélagsins mótmælti kærandi gjaldinu og fór fram á að það yrði lækkað eða fellt niður. Með tölvupósti frá 14. júlí s.á. var þeirri kröfu hafnað af hálfu sveitarfélagsins.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst vera annar tveggja eigenda að sumarhúsi í landi sveitarfélagsins Voga. Um sé að ræða lítið sumarhús sem sé notað í nokkra daga á ári og séu þar takmarkaðir möguleikar til gistingar. Í þau skipti sem sumarhúsið sé notað sé allt sorp tekið með til Hafnarfjarðar, en þar séu báðir eigendur búsettir. Sveitarfélagið Vogar beri því engan kostnað af sorpi við bústaðinn enda væri algerlega úr leið fyrir eigendur að keyra sorpið inn í Voga. Því sé krafist að gjaldið verði fellt niður en að öðrum kosti að gjaldið verði lækkað verulega, til samræmis við þá lækkun sem sumarhúsaeigendur annarra sveitarfélaga njóti. Tekið sé fram að samskonar beiðni hafi verið send sveitarfélaginu fyrir árið 2013 og þá hafi gjaldið verið fellt niður.

Málsrök Sveitarfélagsins Voga: Af hálfu sveitarfélagsins er ekki fallist á kröfur kæranda. Sorpeyðingargjöld séu innheimt af öllum fasteignum í sveitarfélaginu án tillits til þess hvernig viðkomandi fasteign sé notuð. Gjaldtakan sé studd gjaldskrá sveitarfélagsins, nr. 507/2013, sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda og með því móti hlotið gildistöku. Sveitarfélagið sé aðili að Sorpeyðingarstöð Suðurnesja, sem innheimti sambærilegt gjald hjá aðildarsveitarfélögum sínum þar sem gjaldstofninn taki mið af fjölda fasteignanúmera. Sveitarfélagið kveður tekjur og kostnað af sorpþjónustu nokkurn veginn standast á eins og meðfylgjandi tölur sýni:

            Áætlun 2015               2014          2013        2012
Tekjur af sorphr.          -17.758.000    -17.744.296    -17.750.160    -16.976.398
Kostnaður v. sorphr.    17.697.000    17.696.508    17.696.508    18.487.296
Tap                             -61.000    -47.788    -53.652    1.510.898

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að fellt verði niður sorpeyðingargjald á sumarhús í hans eigu.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli sama ákvæðis er sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum samkvæmt þeim, sbr., einnig 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sveitarfélagið Vogar hefur ekki sett sér slíka samþykkt.

Sveitarfélögum var skv. þágildandi 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003 heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Sveitarfélagið Vogar setti, með vísan til 25. gr. laga nr. 7/1998, gjaldskrá fyrir sorphirðu og sorpeyðingu í sveitarfélaginu Vogum, nr. 507/2013, sem birt var 3. júní s.á. Samkvæmt 1. gr. gjaldskrárinnar er bæjarstjórn sveitarfélagsins heimilt að leggja á árlegt sorphirðu- og sorpeyðingargjald sem innheimta skal með fasteignagjöldum. Gjaldið skiptist í sorphreinsunargjald, kr. 14.900 á hvert sorpílát, og sorpeyðingargjald, kr. 23.170 á hverja íbúð. Fram kemur á álagningarseðli að kærandi er eingöngu krafinn um sorpeyðingargjald.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og raunar var skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Sveitarstjórn var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á fasteign kæranda. Samkvæmt þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram eru álögð gjöld að jafnaði ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðum ákvæðum 11. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998.

Í samræmi við framangreint verður kröfu kæranda hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun sveitarfélagsins Voga um álagningu sorpeyðingargjalds fyrir árið 2014 vegna fasteignar með fastanúmer 209-6107.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir

17/2013 Lindarsel

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2013, kæra á álagningu sorphirðugjalds árið 2013 fyrir fasteignina Lindarsel 8, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. febrúar 2013, er barst nefndinni 14. s.m., kærir S, Lindarseli 8, Reykjavík, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 18. janúar 2013 að leggja á fasteignina Lindarsel 8 gjald að fjárhæð kr. 18.600 fyrir leigu og losun á grárri sorptunnu. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 25. mars 2014 og 25. febrúar 2015.

Málavextir: Álagningarseðlar fasteignargjalda í Reykjavík fyrir árið 2013 eru dagsettir 18. janúar 2013. Var kæranda gert að greiða af Lindarseli 8, fastanúmer 205-4350 og 205-4351, 33% og 67% af gjaldi fyrir gráa sorptunnu, alls kr. 18.600. Með bréfi til umhverfis- og samgöngusviðs Reykjavíkurborgar, dags. 14. nóvember 2012, tilkynnti kærandi um afpöntun á sorphirðuþjónustu, sem fælist í hirðingu úr einni grárri tunnu, frá og með 31. desember s.á. Með bréfi dags. 29. nóvember s.á. var kæranda tilkynnt að ekki væri hægt að verða við ósk hans um afpöntun á þjónustunni þar sem að lágmarki skyldi vera eitt ílát fyrir blandað heimilissorp við hvert íbúðarhús. Var vísað til 4. mgr. 2. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík nr. 410/2011 varðandi þetta atriði. Með bréfi, dags. 13. desember s.á., mótmælti kærandi þessum málalyktum og kvaðst hafa ákveðið að kaupa alla sorpþjónustu af öðrum aðila. Fylgdi bréfinu staðfesting frá Gámaþjónustunni hf. um að fyrirtækið myndi annast alla heimasorphirðu fyrir kæranda frá og með áramótum 2012/2013.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa ákveðið að kaupa alla sorpþjónustu af Gámaþjónustunni hf. sem uppfylli betur þær kröfur sem hann geri um flokkun úrgangs en Reykjavíkurborg. Grárri sorptunnu sem kærandi hafi haft frá Reykjavíkurborg hafi verið sagt upp en þeirri uppsögn hafnað. Gámaþjónustan hf. bjóði m.a. upp á söfnun á lífrænum eldhúsúrgangi til jarðgerðar en sú þjónusta sé ekki í boði hjá borginni heldur sé lífrænn úrgangur frá heimilum borgarbúa urðaður þvert á öll umhverfismarkmið. Telji kærandi sig hafa fullan rétt á að kaupa slíka þjónustu af einkaaðila sem til þess hafi starfsleyfi. Reykjavíkurborg hafi ákveðið að innleiða samkeppni og valfrelsi á sorphirðumarkaði. Þannig hafi borgarbúar val um að leigja Blátunnu af borginni og geti einnig valið um mismunandi sorpílát með mismunandi gjaldi eftir þjónustustigi. Hér sé því um þjónustugjald að ræða en ekki skatt og þar með hljóti kærandi að geta valið að nýta sér ekki þjónustu borgarinnar og greiða þá ekki fyrir hana. Ólögmætt hljóti að vera að innheimta þjónustugjald fyrir þjónustu sem sé ekki þegin og hafi verið afþökkuð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfu kæranda verði hafnað. Ákvörðun um sorphirðugjald hafi verið lögmæt og sé fyrirkomulag sorphirðu í Reykjavík lögbundið en ekki valkvætt. Sorphirða sé meðal lögbundinna verkefna Reykjavíkurborgar, sbr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Um skyldur sveitarfélaga til að hirða sorp sé fjallað í 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Þá sé í reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs, sem sett hafi verið samkvæmt ákvæðum 4. og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og 13. og 22. gr. laga nr. 55/2003, kveðið nánar á um skyldur sveitarfélaga til sorphirðu. Tilvitnaðar lagareglur kveði þannig skýrt á um að sveitarstjórn sé ábyrg fyrir reglulegri tæmingu sorpíláta og flutningi heimilisúrgangs frá öllum heimilum á viðkomandi svæði. Í samþykkt Reykjavíkurborgar um meðhöndlun úrgangs nr. 410/2011 segi m.a. að umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar sjái um söfnun á blönduðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavík og hafi umsjón með rekstri grenndarstöðva fyrir flokkaðan heimilisúrgang. Í 2. mgr. 2. gr. komi fram að sérhverjum húsráðanda íbúðarhúsnæðis sé skylt að nota þau ílát og þær aðgerðir sem heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar ákveði. Þá útvegi Reykjavíkurborg sorpílát við íbúðarhúsnæði skv. 3. mgr. 2. gr. Í lokamálslið 4. mgr. 2. gr. sé skýrt kveðið á um að við hvert íbúðarhús skuli vera að lágmarki eitt ílát. Af öllu þessu sé ljóst að Reykjavíkurborg beri skýra lögbundna skyldu til að sinna sorphirðu á blönduðum heimilisúrgangi og að borgin ákveði hvernig þeim málum sé hagað innan sveitarfélagsins að teknu tilliti til ákvæða laga og reglugerða. Gjaldskrá sú fyrir sorphirðu í Reykjavík er hafi verið í gildi við álagningu umdeilds sorphirðugjalds hafi verið nr. 1280/2012. Þar sé kveðið á um að gjald fyrir gráa sorptunnu sem sé sótt minna en 15 metra á 10 daga fresti sé kr. 18.600.

Bent sé á að það sé stefna Reykjavíkurborgar að íbúar greiði að fullu fyrir sorphirðu með sorphirðugjöldum sem taki mið af þjónustu, magni og tegund úrgangs, þ.e. íbúar greiði þjónustugjöld fyrir þá þjónustu sem þeim sé veitt. Íbúar sem kjósi að kaupa þjónustu af einkaaðilum geti fækkað ílátum fyrir blandað sorp og þannig lækkað þjónustugjöld af sorphirðu sem þeir greiði Reykjavíkurborg. Engin heimild sé hinsvegar fyrir því að afþakka lögbundna sorphirðu Reykjavíkurborgar við íbúðarhús og skuli að lágmarki vera eitt ílát fyrir blandaðan heimilisúrgang við hvert íbúðarhús, sbr. 4. mgr. 2. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg.

Að síðustu þyki rétt að benda á að heilbrigðisnefnd Reykjavíkurborgar gegni því hlutverki að veita starfsleyfi fyrir meðhöndlun úrgangs, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 55/2003, og hafi Gámaþjónustan hf. hvorki þá né nú fengið starfsleyfi nefndarinnar til að safna blönduðum heimilisúrgangi eða lífrænum eldhúsúrgangi, eins og haldið sé fram í málinu.

Loks séu tölur yfir heildargjöld og tekjur af sorphreinsun í Reykjavíkurborg eftirfarandi:

Áætlun 2015        Raun 2014       Raun 2013         Raun 2012
Skatttekjur    -1.225.525.826    -1.158.102.100       -1.083.870.927         -946.903.629
Sorphreinsun    1.240.801.991    1.213.865.012        1.095.114.912        1.000.843.216
Tap    15.276.165    55.762.912             11.243.985             53.939.587

Niðurstaða: Í máli þessu krefst kærandi þess að felld verði úr gildi álagning sorpgjalds á fasteign hans að Lindarseli 8, Reykjavík. Beri honum ekki að greiða gjaldið þar sem hann hafi afpantað þjónustuna og keypt hana af öðrum aðila. Hann fái því ekki þá þjónustu sem verið sé að innheimta gjald fyrir.

Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, nú 1. og 2. mgr. 8. gr. laganna, er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli sama ákvæðis var sveitarstjórn heimilt að setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Reykjavíkurborg hefur með vísan til þessa sett samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg. Sú samþykkt sem var í gildi þegar hin umdeildu gjöld voru lögð á fasteign kæranda var nr. 410/2011 og var staðfest af ráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda 8. apríl 2011.
 
Sveitarfélögum var skv. þágildandi 11. gr. laga nr. 55/2003 heimilt að innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. nefnda lagagrein, nú sambærilega reglu í 23. gr. laganna. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. samþykktar nr. 410/2011 skal innheimta gjald fyrir förgun úrgangs í samræmi við ákvæði 1. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þá skal fyrir söfnun á blönduðum heimilisúrgangi og rekstur endurvinnslustöðva innheimt gjöld í samræmi við 2. mgr. 11. gr. Skulu gjöldin ákvörðuð og innheimt samkvæmt gjaldskrá sem sett er samkvæmt ákvæðum áðurnefndrar 11. gr. laga nr. 55/2003, sbr. 25. gr. laga nr. 7/1998. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. samþykktar nr. 410/2011 skal innheimta gjöld fyrir söfnun á blönduðum heimilisúrgangi og rekstur endurvinnslustöðva með fasteignagjöldum á sömu gjalddögum. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. miðast sorphirðugjaldið fyrir söfnun á blönduðum heimilisúrgangi við fjölda og stærð sorpíláta, hreinsunartíðni og vegalengd sem draga þarf sorpílát við losun.

Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki og að sama skapi verður íbúum ekki í sjálfsvald sett hvort að þeir nýta sér þjónustuna eða ekki. Í áðurnefndri samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg nr. 410/2011 segir í 2. mgr. 1. gr. að umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar sjái um söfnun á blönduðum heimilisúrgangi frá íbúðarhúsum í Reykjavíkurborg og hafi umsjón með rekstri grenndarstöðva fyrir flokkaðan heimilisúrgang. Í 2. mgr. segir jafnframt að heilbrigðisnefnd sé heimilt að veita öðrum aðilum undanþágu frá þessu ákvæði og ákvæðum 2. gr. um söfnun blandaðs heimilisúrgangs. Í þeim tilvikum þar sem veitt sé undanþága, sé umhverfis- og samgöngusviði jafnframt heimilt að falla frá innheimtu sorphirðugjalda að því marki, sem gjaldið nái til söfnunar heimilisúrgangs og leigu sorpíláta. Ekkert liggur fyrir um að umhverfisnefnd hafi nýtt sér nefnda undanþáguheimild og er því ljóst að skylda til söfnunar á heimilissorpi liggur hjá umhverfis- og samgöngusviði Reykjavíkurborgar, samkvæmt samþykkt nr. 410/2011.

Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur er heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og var skýrt tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Þannig verður að telja að heimilt sé með vísan til framangreinds ákvæðis, sem og 7. gr. samþykktar nr. 410/2011, að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign. Reykjavíkurborg var því heimilt að ákveða að tiltekið fast gjald yrði lagt á fasteign kæranda en samkvæmt lokamálslið 4. mgr. 2. gr. samþykktar um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg skal að lágmarki vera eitt sorpílát fyrir blandaðan heimilisúrgang við hvert íbúðarhús og er gjald það sem lagt var á kæranda í samræmi við þá þjónustu. Loks er ljóst af þeim gögnum sem sveitarfélagið hefur lagt fram að álögð gjöld vegna sorphirðu eru ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðum ákvæðum 11. gr. laga nr. 55/2003 og 25. gr. laga nr. 7/1998.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun um álagningu sorphirðugjalds árið 2013 fyrir fasteignina Lindarsel 8, Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir

77/2013 Sautjándajúnítorg

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2013, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis um að afturkalla leyfi fyrir hundinum David Byron, örmerki nr. 352206000089460, til heimilis í íbúð nr. 207 að Sautjándajúnítorgi 3 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir I, Sautjándajúnítorgi 3, Garðabæ, þá ákvörðun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 24. júlí 2013 að afturkalla skráningarleyfi hundsins David Byrons, í eigu kæranda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 11. september 2013.

Málavextir: Kærandi sótti um leyfi fyrir hundinn David Byron hinn 28. maí 2013 til heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Umsókninni fylgdu tilskilin gögn samkvæmt 4. gr. samþykktar um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000, þ. á m. listi með undirskriftum sameigenda umsækjanda að Sautjándajúnítorgi 1-7. Var gefið út skráningarskírteini fyrir hundinn, dags. 20. júní 2013. Húsfélagið Sautjándajúnítorgi 1-7 hafði þá samband við heilbrigðiseftirlitið og gerði athugasemd við skráninguna. Tilskilið samþykki meðeigenda fyrir hundinum lægi ekki fyrir þar sem of fáir hefðu samþykkt hundahaldið. Var kæranda tilkynnt með bréfi 1. júlí s.á. að til þess að skráning hundsins yrði lögleg þyrfti heilbrigðiseftirlitið að fá að nýju fullnægjandi yfirlýsingu meðeigenda að stigagangi umsækjanda um samþykki fyrir hundinum. Bærust þessi gögn ekki fyrir 20. s.m. teldist skráningin ólögleg. Í bréfi heilbrigðiseftirlitsins til kæranda, dags. 24. s.m., kemur fram að viðbótargögn hafi borist en þau væru ófullnægjandi. Var kæranda tilkynnt að varanlegt leyfi væri afturkallað en að hundurinn yrði skráður til bráðabirgða til 23. október 2013. Kærandi undi ekki þeim málalyktum og skaut málinu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa staðið í þeirri trú að varanlegt leyfi hefði verið gefið út fyrir hund sinn þar sem kæranda hefðu verið afhentir pappírar þess efnis og öll gjöld hefðu verið greidd. Síðan hefði borist bréf frá heilbrigðiseftirliti Garðabæjar eftir að stjórn húsfélagsins hefði gert athugasemdir við leyfið. Kærandi hefði talið sig hafa samþykki 2/3 íbúa í húsinu fyrir hundinum sem væri orðinn stór hluti af fjölskyldunni og erfitt að fjarlægja hann eftir þennan tíma.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis: Heilbrigðisnefndin bendir á að um hundahald í Garðabæ gildi heilbrigðissamþykkt nr. 154/2000, sem sé sett með vísan til ákvæða 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en þar sé sveitarfélögum m.a. heimilað að setja samþykktir um takmörkun gæludýrahalds. Samkvæmt 4. gr. samþykktarinnar séu allir hundar sem haldnir séu á eftirlitssvæðinu skráningarskyldir. Sé skráningarskylda grundvöllur fyrir eftirliti og afskiptum sveitarfélagsins af hundahaldinu. Af gögnum málsins liggi fyrir að hundurinn hafi verið haldinn að Sautjándajúnítorgi 3 í Garðabæ 28. maí 2013 og upplýst hafi verið að hann hefði verið þar lengur en í einn mánuð. Samkvæmt reglum hundasamþykktarinnar sé dýrið skráningarskylt á meðan það sé haldið á eftirlitssvæðinu. Við skráningu hundsins hafi verið tekið við gögnum sem eigandi hans hafi lagt fram og eigandinn hafi fengið skráningarskírteini til staðfestingar skráningunni. Í ákvæðum fjöleignarhúsalaga komi fram að eigandi skuli afla samþykkis 2/3 sameigenda og fá leyfi fyrir dýrinu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það á við, áður en dýrið kemur í húsið. Heilbrigðisnefnd fjalli um réttindi og skyldur eiganda dýrs með vísan til hollustuhátta og beri að fara að ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, samþykkt um hundahald og stjórnsýslulögum við störf sín. 

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um réttmæti ákvörðunar heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis að afturkalla leyfi fyrir hundahaldi kæranda á heimili hans.

Í 1. mgr. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 er kveðið á um að sveitarfélög geti sett sér eigin samþykktir um atriði sem ekki sé fjallað um í reglugerðum eða gert um einstök atriði ítarlegri kröfur en fram komi í þeim, enda falli þau undir lögin. Er m.a. heimilt að setja í slíkar samþykktir ákvæði um bann eða takmörkun gæludýrahalds og húsdýrahalds. Á grundvelli þessarar heimildar var sett samþykkt um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi, nr. 154/2000. Þar segir í 1. gr. að hundahald sé takmarkað í lögsagnarumdæminu með skilyrðum samkvæmt samþykktinni. Í 4. gr. er kveðið á um skráningarskyldu hunda á eftirlitssvæðinu.

Samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 getur stjórnvald afturkallað ákvörðun sína að eigin frumkvæði, sem tilkynnt hefur verið aðila máls, þegar það er ekki til tjóns fyrir aðila eða ákvörðun er ógildanleg. Gögn málsins bera með sér að aðeins lá fyrir samþykki 41.7% sameigenda viðkomandi stigahúss fyrir hundahaldi kæranda, með 40.4% eignarhluta. Samkvæmt 4. gr. samþykktar nr. 154/2000 er óheimilt að gefa út skráningarskírteini fyrir hund nema fyrir liggi samþykki allra meðeigenda fjöleignarhúss ef við á. Með sérstöku fylgiskjali með umsókn um skráningu hunds í sveitarfélögunum Álftanesi, Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi kemur fram að nauðsynlegt sé að afla samþykkis 2/3 hluta, eða 66.7%, eigenda fjöleignarhúss sem hafi sameiginlegan inngang eða stigagang með umsækjanda. Bæði skuli miðað við fjölda íbúða og eignarhluta. Er þessi áskilnaður um hlutfall samþykkra sameigenda í samræmi við ákvæði 1. mgr. 33. gr. a laga um fjöleignarhús nr. 26/1994, eins og þeim var breytt með lögum nr. 40/2011. Ljóst er að kæranda tókst ekki að leggja fram samþykki 2/3 sameigenda sinna að Sautjándajúnítorgi 1-7 fyrir hundi sínum. Eins og að framan er rakið er greint hlutfall samþykkra eitt þeirra skilyrða sem sett eru fyrir heimild heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis til útgáfu skráningarskírteinis, sbr. 4. gr. áðurnefndrar samþykktar. Þar sem ófrávíkjanlegu skilyrði samþykktarinnar var ekki fullnægt er ljóst að hin kærða ákvörðun var ógildanleg að lögum. Afturköllun á skráningu hundsins uppfyllti því áskilnað 25. gr. stjórnsýslulaga fyrir afturköllun stjórnvaldsákvörðunar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis um að afturkalla leyfi fyrir hundinn David Byron, örmerki nr. 352206000089460.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Aðalheiður Jóhannsdóttir

83/2013 Sautjándajúnítorg

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 83/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um útgáfu á bráðabirgðaleyfi fyrir hundinn David Byron, örmerki nr. 352206000089460, til heimilis í íbúð nr. 207 að Sautjándajúnítorgi 3 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Húseigendafélagið, f.h. húsfélagsins Sautjándajúnítorgi 1-7, Sautjándajúnítorgi 3, Garðabæ, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 24. júlí 2013 að veita bráðabirgðaleyfi til 23. október s.á. fyrir hundinn David Byron, til heimilis að Sautjándajúnítorgi 3, Garðabæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara er þess krafist að leyfistíminn verði styttur úr þremur mánuðum í einn mánuð.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 11. september 2013.

Málavextir: Eigandi hundsins David Byron sótti um leyfi fyrir honum hinn 28. maí 2013 og fékk útgefið skráningarskírteini, dags. 20. júní 2013. Kærandi hafði þá samband við heilbrigðiseftirlitið og gerði þá athugasemd að tilskilið samþykki meðeigenda fyrir hundinum lægi ekki fyrir. Of fáir hefðu samþykkt og lægi ekki fyrir tilskilið hlutfall samþykkta. Var leyfishafa tilkynnt með bréfi 1. júlí s.á. að til þess að skráning hundsins yrði lögleg þyrfti heilbrigðiseftirlitið að fá að nýju fullnægjandi yfirlýsingu meðeigenda hans að stigagangi um samþykki fyrir hundinum. Bærust þessi gögn ekki fyrir 20. júlí s.m. teldist skráningin ólögleg. Tilskilin gögn um samþykki bárust ekki og var varanlegt leyfi afturkallað með bréfi til leyfishafa, dags. 24. júlí s.m. Var honum jafnframt tilkynnt með bréfinu að hundurinn yrði skráður til bráðabirgða til 23. október s.á. Kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að samkvæmt 33. gr. a fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sé hundahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafi sameiginlegan inngang eða stigagang. Eigandi skuli afla samþykkis annarra eigenda og fá leyfi fyrir dýrinu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það á við, áður en dýrið komi í húsið. Eigandi hundsins hafi, allt frá því að hún eignaðist hann fyrir mörgum mánuðum síðan, haft tækifæri til þess að afla tilskilins samþykkis meðeigenda sinna. Það hafi hún ekki gert. Tilskilins samþykkis hafi ekki verið aflað og hafi eigandi hundsins þannig brotið á rétti meðeigenda sinna í húsinu allt frá því að hann var fluttur í húsið í mars 2013. Upphafleg ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um að skrá hundinn hafi verið ólögmæt. Eigandi hundsins hafi síðan fengið nægilega langan frest til að gera viðeigandi ráðstafanir hans vegna. Þá hafi hann fengið fullnægjandi viðvörun um afleiðingar þess að afla ekki tilskilins samþykkis meðeigenda. Þegar litið sé til þess að með áframhaldandi dvöl hundsins í húsinu sé brotið á lögbundnum réttindum annarra íbúa hússins telji kærandi eðlilegt og nauðsynlegt að eiganda hundsins verði gert að fjarlægja hann úr húsinu án frekari tafar.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis: Heilbrigðisnefndin bendir á að um hundahald í Garðabæ gildi heilbrigðissamþykkt nr. 154/2000, sem sé sett með vísan til ákvæða 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir en þar sé sveitarfélögum m.a. heimilað að setja samþykktir um takmörkun gæludýrahalds. Samkvæmt 4. gr. samþykktarinnar séu allir hundar sem haldnir séu á eftirlitssvæðinu skráningarskyldir. Sé skráningarskylda grundvöllur fyrir eftirliti og afskiptum sveitarfélagsins af hundahaldinu. Við skráningu hundsins hafi verið tekið við gögnum sem eigandi hans hafi lagt fram og hafi leyfishafi fengið skráningarskírteini til staðfestingar skráningunni. Í ákvæðum fjöleignarhúsalaga komi fram að eigandi skuli afla samþykkis 2/3 sameigenda og fá leyfi fyrir dýrinu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það eigi við, áður en dýrið kemur í húsið. Heilbrigðisnefnd beri að fara að ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, samþykkt um hundahald og stjórnsýslulögum við störf sín. Sé þess krafist að hafnað sé kröfu um ógildingu á útgáfu hins umdeilda bráðabirgðaleyfis, enda hafi ekkert komið fram um að ákvörðunin hafi byggst á röngum forsendum. Hafi meðalhófs verið gætt við afgreiðslu málsins með því að fara ekki strangar í sakir en nauðsyn hafi borið til.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist niðurfellingar á bráðbirgðaleyfi fyrir hundahaldi. Fyrir liggur að leyfi var veitt og skráningarskírteini gefið út 20. júní 2013, í samræmi við 4. gr. samþykktar um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000. Það leyfi var síðan afturkallað með bréfi 24. júlí s.á. vegna athugasemda kæranda um að samþykkis tilskilins fjölda sameigenda að Sautjándajúnítorgi 1-7 hefði ekki verið aflað. Nýtti heilbrigðiseftirlit sér heimild 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar og gaf út bráðabirgðaleyfi fyrir hundinum til þriggja mánaða. Þennan tíma skyldi leyfishafi nýta til að finna hundinum annan dvalarstað, en leyfið skyldi renna út 23. október 2013.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Hið umdeilda bráðabirgðaleyfi var gefið út til þriggja mánaða og síðasti gildisdagur þess var 23. október 2013. Samkvæmt gögnum málsins var leyfið ekki framlengt og rann það því út á tilsettum degi, eða fyrir um einu ári og fimm mánuðum síðan. Ljóst er að hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum þar sem gildistími hins umdeilda bráðabirgðaleyfis er löngu liðinn. Verður því ekki séð að kærandi eigin lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þeirrar ákvörðunar. Máli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

97/2013 Kópavogstún

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2013, kæra á ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 25. júlí 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Kópavogstún vegna lóða nr. 1a-c við Kópavogsbraut og nr. 3, 5, 7 og 9 við Kópavogstún. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. október 2013, sem barst nefndinni 14. s.m., kæra T, F og Þ, Kópavogsbraut 1b, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogsbæjar að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Kópavogstún vegna lóða nr. 1a-c við Kópavogsbraut og nr. 3, 5 ,7 og 9 við Kópavogstún. Verður að skilja málskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða deiliskipulagsbreyting verði felld úr gildi hvað varðar breytingu á fjölda hæða fjölbýlishúsanna á sameinaðri lóð nr. 3-5 við Kópavogstún.

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2015, sem barst nefndinni sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 4. desember 2013 um að veita leyfi til að byggja fjölbýlishús að Kópavogstúni 3-5. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sömu aðilar standa að baki síðari kærunni verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 11/2015, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 12. ágúst 2014 og 17. febrúar 2015.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 7. maí 2013 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir Kópavogstún fyrir lóðir nr. 1a-c við Kópavogsbraut og lóðir nr. 3, 5, 7 og 9 við Kópavogstún. Í breytingunni fólst m.a. að íbúðum í fyrirhuguðum fjölbýlishúsum á sameinaðri lóð nr. 3-5 við Kópavogstún yrði fjölgað um sex og bætt yrði við einni inndreginni hæð. Samþykkt var að auglýsa framlagða tillögu. Hinn 8. s.m. vísaði bæjarráð afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar sem staðfesti hana 14. s.m. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 1. júní s.á. með athugasemdarfresti frá 3. s.m. til 16. júlí s.á. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kærendum. Var þeim svarað með umsögn skipulags- og byggingardeildar 19. júlí s.á. Hinn 23. júlí 2013 samþykkti skipulagsnefnd framlagða tillögu ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar. Var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest og tillagan samþykkt af bæjarráði 25. s.m. Skipulagsbreytingin tók svo gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 13. september 2013.

Hinn 4. desember 2013 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Kópavogs samþykkt umsókn um leyfi til að byggja fjölbýlishús að Kópavogstúni 3-5. Byggingarleyfi var svo gefið út 26. febrúar 2014.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að deiliskipulagsbreytingin muni koma sér illa fyrir íbúa fjöleignarhússins nr. 1b við Kópavogsbraut, sérstaklega fyrir þá sem eigi íbúðir vestast í húsinu. Skipti engu máli hvort fólk búi á fyrstu eða fimmtu hæð, allt útsýni muni glatast vegna fyrirhugaðra byggingaráforma. Muni útsýni út á Álftanes og út á haf hverfa sem og sú dásamlega kvöldsýn þegar sólin lækki á lofti. Fallegt útsýni hafi verið eitt af þeim aðalatriðum sem Sunnuhlíðarsamtökin hafi vísað til við sölu íbúða að Kópavogsbraut 1a og b. Hafi það því komið á óvart þegar stjórn Sunnuhlíðar hafi farið fram á hækkun um eina hæð á þeim húsum sem áætlað hafi verið að byggja árið 2007, umfram það sem skipulag hafi kveðið á um.

Hæð húsanna, sem standi nú til að byggja fyrir framan Sunnuhlíðarblokkirnar, sé mjög yfirdrifin eða sex íbúðarhæðir ásamt kjallara. Séu þau í engu samræmi við stærð annarra húsa sem standi á svæðinu, en þau séu öll fjögurra hæða auk inndreginnar fimmtu hæð. Að auki muni fyrirhugaðar nýbyggingar verða til þess að íbúðir kærenda verði umluktar veggjum hárra húsa allt um kring. Muni sólin ekki sjást fyrr en hún nái að komast upp fyrir húsin í stað Bláfjalla sem sé algjörlega óásættanlegt og muni hafa áhrif á verðgildi íbúðanna í framtíðinni.

Sé það beiðni kærenda að þarna verði aðeins leyfðar fjögurra hæða blokkir auk inndreginnar fimmtu hæð og kjallara. Sé það í samræmi við allar aðrar blokkir á svæðinu hvað varði fjölda íbúðarhæða. Þurfi að staðsetja blokkirnar þannig að sem flestir geti við unað gagnvart útsýni og sól. Að auki þurfi hæðarmörk fyrstu hæðar nýju blokkanna að taka tillit til halla fyrir framan Sunnuhlíðarblokkirnar, en þær séu að hluta til niðurgrafnar. Enn fremur þurfi að gæta að skuggavarpi, sem og hugsanlegum sterkum vindstrengjum sem geti myndast milli hárra blokka. Í dag myndist slíkur vindstrengur í vissum vindáttum, t.d.  á milli blokka nr. 1a og 1b við Kópavogsbraut.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að umþrætt deiliskipulagsbreyting hafi í för með sér litlar sem engar breytingar á byggingarmagni. Íbúðum á lóð nr. 3-5 sé fjölgað um sex frá gildandi deiliskipulagi án þess að hæð húsa hækki. Efstu hæðir allra húsa verði inndregnar.

Fasteignareigendur og aðrir hagsmunaaðilar geti ekki gert ráð fyrir því að hafa óskert útsýni til frambúðar. Hverfi séu endurbyggð og hafi sveitarfélög talsvert svigrúm í meðferð skipulagsvalds til að ákveða hvernig þróun byggðar verði, þó að teknu tilliti til hagsmuna heildarinnar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting leiði ekki til þess að útsýni kærenda skerðist meira en ef byggt hefði verið samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Hvað varði hið kærða byggingarleyfi sé bent á að kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt um eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Byggingarleyfið vegna Kópavogstúns 3-5 hafi verið gefið út 26. febrúar 2014 en  kæra í málinu hafi borist með bréfi, dags. 10. febrúar 2015, eða tæplega ári frá útgáfu byggingarleyfisins. Hafi kærendum ekki verið kunnugt um ákvörðun um útgáfu byggingarleyfisins á þeim tíma verði að telja að þeim hafi orðið kunnugt um ákvörðunina á einhverjum tímapunkti sumarið 2014. Í öllu falli verði að telja að kærendum hafi verið kunnugt um ákvörðunina að fengnu tölvubréfi frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. desember 2014, þar sem veittar hafi verið leiðbeiningar um kæruheimild vegna byggingarleyfis. Sé kæran því of seint fram komin og beri að vísa henni frá.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að kæra vegna byggingarleyfisins sé of seint fram komin. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sé frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum. Hin kærða ákvörðun hafi verið tekin af byggingarfulltrúa Kópavogs hinn 4. desember 2013. Af bréfi eins kærenda frá 5. desember 2014 megi ráða að honum hafi verið fullkunnugt um byggingarframkvæmdir á lóðinni og hafi hann lýst verkframvindu og þeim framkvæmdum sem hafi átt sér stað. Sé því ljóst að þeim hafi verið eða hafi mátt vera kunnugt um að byggingarleyfi hefði verið gefið út vegna framkvæmdanna. Kærufrestur sé því löngu liðinn. Ljóst sé að meira en ár sé liðið frá því að byggingaráform voru samþykkt. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga skuli vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema talið sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra sé tekin til meðferðar. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar sé þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar sé meira en ár liðið frá því að ákvörðun hafi verið tilkynnt aðila. Kærendum, sem búi í nágrenni við lóðina að Kópavogstún 3-5, hafi ekki getað dulist að byggingarframkvæmdir hefðu hafist á lóðinni í árslok 2013. Sé því óheimilt að taka kæruna til efnismeðferðar.

——–

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök til stuðnings kröfum sínum og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.

Niðurstaða: Í máli þessu eru deilt um gildi samþykktar bæjarráðs Kópavogs um breytingu á deiliskipulagi fyrir Kópavogstún vegna lóða nr. 1a-c við Kópavogsbraut og lóða nr. 3, 5, 7 og 9 við Kópavogstún og ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs um samþykkt á byggingaráformum í samræmi við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Er aðallega deilt um breytingu er varðar fjölda hæða í fjölbýlishúsum á sameinaðri lóð nr. 3-5 við Kópavogstún, en skipulagsbreytingin felur í sér að bætt verði við einni inndreginni hæð á húsunum.

Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting tekur til lóða á svæði sem samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er merkt íbúðarsvæði, ÍB1, Kársnes. Er svæðinu lýst sem nokkuð fastmótaðri byggð þar sem gert sé ráð fyrir áframhaldandi uppbyggingu og fjölgun íbúða. Í aðalskipulaginu er lögð áhersla á góða nýtingu lands og landgæða og að mótun byggðarinnar tryggi sjálfbærni og hagkvæma uppbyggingu, sem felist m.a. í þéttingu byggðar. Jafnframt er lögð áhersla á blandaða byggð með fjölbreyttu framboði húsnæðis, þjónustu og útivistar. Verður ekki annað séð en að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé jafnframt fullnægt.

Sveitarstjórnum er veitt víðtækt vald við gerð og breytingar á deiliskipulagi, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þó ber við töku skipulagsákvarðana m.a. að hafa í huga það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. laganna að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Samkvæmt teikningum er lega lands, þar sem fyrirhuguð fjölbýlishús munu rísa, aflíðandi og munu þau verða staðsett neðar en hús kærenda. Í gildandi deiliskipulagi er að auki gert ráð fyrir nokkrum fjölbýlishúsum á svæðinu sem öll eru með fimm til sex hæðum, auk kjallara. Er sú breyting sem áætluð er á hinum umþrættu fjölbýlishúsum í samræmi við önnur fjölbýlishús á svæðinu. Samkvæmt teikningum mun heimiluð hæð húsanna auk þess lækka um 1,7 m við hina umdeildu breytingu þrátt fyrir aukningu um eina inndregna hæð, en sú aukning er deiluefnið hér. Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið verður ekki talið að breytingin sé slík, miðað við heimildir í fyrra deiliskipulagi, að réttur kærenda sé fyrir borð borinn í skilningi áðurgreinds c-liðar 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Að öllu framangreindu virtu, og þar sem ekki verður annað af gögnum ráðið en að meðferð umdeildrar deiliskipulagsbreytingar hafi verið lögum samkvæmt, verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar.

Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Upphaf kærufrests í máli þessu ræðst af því hvenær kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um efni kæranlegrar ákvörðunar miðað við málsatvik. Byggingaráform voru samþykkt 4. desember 2013 og hið kærða byggingarleyfi gefið út 26. febrúar 2014. Af gögnum málsins er ljóst að framkvæmdir voru hafnar sumarið 2014. Mátti kærendum á þeim tíma vera kunnugt um að veitt hefði verið byggingarleyfi fyrir hinum umþrættu framkvæmdum. Kæra vegna byggingarleyfisins barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 10. febrúar 2015 og var þá kærufrestur liðinn. Af þeim sökum verður kröfu kærenda um að fella hið kærða byggingarleyfi úr gildi vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist í máli þessu sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Kópavogsbæjar frá 25. júlí 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kópavogstúns vegna lóða nr. 1a-c við Kópavogsbraut og nr. 3, 5 ,7 og 9 við Kópavogstún.

Kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 4. desember 2013 um að samþykkja leyfi til að byggja fjölbýlishús að Kópavogstúni 3-5 er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson