Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2012 Laxeldi Arnarfjörður

Árið 2015, fimmtudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2012, kæra á ákvörðun Fiskistofu um útgáfu rekstrarleyfis til fiskeldis til handa Arnarlaxi ehf. vegna framleiðslu á 3.000 tonnum af laxi árlega.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir Arnór Halldórsson hdl., f.h. Fjarðalax ehf., Grandagarði 14, Reykjavík, þá ákvörðun Fiskistofu frá 21. júní 2012 að gefa út rekstrarleyfi til handa Arnarlaxi ehf. til framleiðslu á 3.000 tonnum af laxi árlega. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bréfi, dags. 6. febrúar 2014, gerir kærandi þá kröfu að framkvæmdir á grundvelli rekstrarleyfis verði stöðvaðar þar sem leyfishafi hyggist hefja framkvæmdir við Haganes í Arnarfirði samkvæmt hinni kærðu ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis til starfrækslu fiskeldisstöðvar þar. Þar sem rekstrarleyfi veitir ekki heimild til framkvæmda heldur til reksturs fiskeldisstöðvar þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu um stöðvun framkvæmda. Verður málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust frá Fiskistofu 28. ágúst 2012 og 18. mars 2014.

Málavextir: Hinn 9. september 2011 sótti Arnarlax ehf. um rekstrarleyfi til fiskeldis til Fiskistofu. Fram kom í umsókninni að um væri að ræða 3.000 tonna eldi í Arnarfirði og að beðið væri afgreiðslu Umhverfisstofnunar á starfsleyfi vegna eldisins. Fiskistofa frestaði afgreiðslu erindisins þar til starfsleyfi og fleiri fylgigögn bærust. Umhverfisstofnun gaf út starfsleyfi vegna eldisins 29. febrúar 2012, sem síðar var endurupptekið og starfsleyfi gefið út að nýju 30. apríl s.á.

Kærandi í máli þessu sendi bréf til Fiskistofu, dags. 26. apríl 2012, þar sem fram kom að ágreiningur væri um staðsetningu umsóttra kvíastöðva. Fiskistofa leitaði álits Matvælastofnunar af þessu tilefni og var þess m.a. óskað að fjallað yrði um sýkingarhættu vegna laxalúsar og afleiðingar hennar og um líkur á að laxalús dreifðist með hafstraumum á milli rekstaraðila í Arnarfirði. Í áliti dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun, dags. 30. apríl 2012, kom fram að laxalús væri ein helsta ógn kvíaeldis í Arnarfirði en þeirri áhættu væri hægt að halda í algjöru lágmarki miðað við umhverfisaðstæður í dag ef farið yrði að gildandi leikreglum um fjarlægðarmörk, kynslóðaskipt eldi og hvíldartíma kvíastæða. Bent var á að niðurstöður eldri rannsókna sýndu að þar sem lús væri á annað borð til staðar væri fiskilúsin nánast allsráðandi, en laxalús hefði einungis greinst í undantekningartilfellum í kvíafiski. Nýrri athuganir féllu á sama veg, þ.e. fiskilúsin væri yfirgnæfandi, en ein og ein laxalús hefði þó sést. Þegar lúsin væri á sviflægt þroskastig gæti hún hæglega dreifst um allan fjörðinn en tilraunir sýndu að 180° dagar, þ.e. einn mánuður við 6°C, væri algjör lágmarkshvíld eldissvæði.

Með tölvupósti umsækjanda til Fiskistofu 2. maí 2012 var tekið fram vegna umsóknarinnar að óskað væri eftir að rekstrarleyfi yrði gefið út vegna tveggja þeirra staðsetninga sem tilgreindar væru í starfsleyfinu, þ.e. svæðis merkt A, utan við Hrafnseyri við norðanverðan Arnarfjörð, og svæðis merkt B, sem væri við Haganes. Umsókn um svæði merkt C, sem væri við utanverðan Fossfjörð, myndi umsækjandi afturkalla. Með bréfi, dags. 3. s.m., leitaði Fiskistofa skýringa frá Umhverfisstofnun varðandi heimilt framleiðslumagn á hverju svæði, sem tilgreint væri í starfsleyfinu. Skýringar stofnunarinnar bárust Fiskistofu með bréfi, dags. 10. s.m., og var þar tekið fram að starfsleyfið tilgreindi ekki eða afmarkaði framleiðslumagn á hverju svæði fyrir sig.

Með bréfum, dags. 21. maí 2012, óskaði Fiskistofa eftir umsögnum frá Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnun, Veiðimálastofnun, Siglingastofnun, Landhelgisgæslunni, Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ, sem og frá tilgreindum hagsmunaaðilum, m.a. kæranda. Umsagnarbeiðninni fylgdi umsókn um rekstrarleyfið, afrit af starfsleyfi vegna eldisins og öðrum fylgigögnum, sem og afstöðumynd af fyrirhuguðum eldisstöðum. Kom fram í umsögn Hafrannsóknastofnunar að hún gerði ekki athugasemdir við framleiðslumagn eða tvö eldisvæðanna, svæði A og svæði B, en að þriðja svæðið merkt C væri of nálægt laxeldisstöð kæranda í Fossfirði samkvæmt nýlegri reglugerð um fiskeldi og kæmi því ekki til greina að mati stofnunarinnar. Veiðimálastofnun benti á að fiskeldi gæti haft neikvæð áhrif á stofna ferskvatnsfiska og lagði til að áður en eldismagn yrði aukið yrði farið í að meta burðargetu svæðisins, gera áætlun um svæðaskiptingu og samhæfingu og tryggja að hægt væri að rekja þá fiska sem slyppu úr kvíum til uppruna og sleppistaðar. Í umsögn dýralæknis fisksjúkdóma hjá Matvælastofnun frá 11. júní 2012 kom fram það álit að út frá vistfræðilegum og sjúkdómstengdum sjónarmiðum teldi álitsgjafi fullvíst að burðargeta fjarðarins til fiskelds gæti með góðu móti rúmað tvö öflug fyrirtæki og að mjög mikilvægt væri að staðsetningar kvíaþyrpinga væru ígrundaðar. Álitsgjafi benti á að staðsetningu eldisins við Haganes þyrfti að skoða nánar með tilliti til hafstrauma, en hún væri á mörkum þess að uppfylla tilskilin fjarlægðarmörk. Lagðist álitsgjafi ekki gegn leyfisveitingunni svo fremi að Fiskistofa setti m.a. kröfur um fjarlægðarmörk.

Fiskistofa gaf út rekstrarleyfi 21. júní 2012, og er leyfilegt framleiðslumagn samkvæmt því allt að 3.000 tonn af laxi á ári, með starfsemi á tveimur tilteknum svæðum í Arnarfirði, Tjaldaneseyrum, sem mun vera svæði merkt A, og Haganesi, sem mun vera svæði merkt B.  Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.       

Við málsmeðferð og ákvarðanatöku Fiskistofu lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. apríl 2011 þess efnis að eldi það sem hér um ræðir skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Umhverfisráðherra kvað upp úrskurð 4. júlí 2012 vegna þeirrar ákvörðunar, felldi hana úr gildi og kvað á um að eldið skyldi háð mati á umhverfisáhrifum. Kærandi fór fram á með bréfi til Fiskistofu 20. s.m. að ákvörðun um útgáfu rekstrarleyfisins yrði afturkölluð. Með úrskurði uppkveðnum 30. nóvember s.á. féllst umhverfisráðherra á að endurupptaka úrskurð sinn frá 4. júlí s.á., felldi hann úr gildi og staðfesti jafnframt ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 20. apríl 2011 um að eldið skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að forsendur hafi brostið fyrir útgáfu rekstrarleyfisins þar sem ákvörðun Skipulagsstofnunar 20. apríl 2011, þess efnis að fyrirhugað eldi skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum, hafi verið felld úr gildi með úrskurði umhverfisráðherra 4. júlí 2012. Í leyfinu séu aðeins sett almenn skilyrði vegna vöktunar, búnaðar og ytra og innra eftirlits. Engar kröfur eða skilyrði séu sett vegna umhverfisþátta eða krafna sem lúti að verndun umhverfisins. Þá dragi kærandi í efa að leyfishafi muni hefja starfsemi innan 24 mánaða frá útgáfu leyfisins, en Fiskistofu sé þá heimilt að fella rekstrarleyfið niður, sbr. gr. 7.1. í leyfinu.

Hið umdeilda rekstrarleyfi taki til svæðis sem sé mjög nálægt eldissvæði kæranda. Nálægð á milli eldissvæða skipti miklu varðandi smit og sjúkdóma sem herja kunni á fiski. Sá fiskur sem kærandi framleiði sé sérstaklega vottaður til sölu hjá verslunarkeðjunni Whole Foods Market sem lífrænt ræktaður. Þess vegna sé verðmæti hans mun meira en annars fisks sem ekki hafi slíka vottun. Viðskiptahugmynd, fjárfestingar og fjárhagsáætlun kæranda geri ráð fyrir því að sá fiskur sem félagið framleiði sé allur vottaður sem lífrænn fiskur. Ef meðhöndla þurfi eldisfisk á svæðinu, þ.e. í Arnarfirði, með utanaðkomandi efnum, s.s. með efnaböðum, verði vottunin ekki framlengd. Það hafi þær afleiðingar að það verð sem fáist fyrir fiskinn lækki mjög sem aftur hafi þær afleiðingar að grundvellinum verði kippt undan starfsemi og rekstri kæranda. Það eldi sem sé fyrirhugað sé hefðbundið, en ekki lífrænt, eldi. Fjárhagslegir hagsmunir kæranda af því að geta stundað lífrænt fiskeldi séu miklir. Leiði af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að fella beri hið umdeilda rekstarleyfi niður án tafar, en annars þyrfti kærandi að sæta lengri bið eftir niðurstöðu um hvort leyfið héldi gildi sínu eða ekki. Yrði niðurstaðan sú að leyfið héldi gildi sínu hefði kærandi lagt fram mikið fé í starfsemi sem kollvarpað væri þar sem nálægð væri of mikil á milli eldissvæða. Eldi kæranda yrði ekki lengur lífrænt sem myndi hafa í för með sér lækkun á afurðarverði.

Ógilda beri hina kærðu ákvörðun á grundvelli ómálefnalegra sjónarmiða. Ekki verði séð að Fiskistofa hafi tekið tillit til þeirra afleiðinga sem verði fyrir fiskeldi í Arnarfirði, þ.m.t. starfsemi kæranda. Í þessu sambandi megi vísa í umsögn Matvælastofnunar frá 11. júní 2012 varðandi rekstararleyfi það sem hér sé til umfjöllunar: „Mjög mikilvægt er að staðsetningar kvíaþyrpinga séu ígrundaðar og með tilkomu nýrrar reglugerðar nr. 401/2012 um fiskeldi er tekið sérstaklega á afmörkun og hvíld eldissvæða sem er lykill að sátt og nýtingu svæðisins.“ Þá komi einnig fram að; „Fjarðalax hefur nú þegar helgað sig suðursvæðinu og því þarf að taka tillit til núverandi eldis í Fossfirði þegar kemur að leyfisveitingum og útsetningu seiða á nýjar staðsetningar.“

Miklar líkur séu á að sjúkdómar og laxalús geti borist á milli fyrirhugaðrar sjókvíaeldisstöðvar og sjókvíaeldisstöðvar kæranda. Samkvæmt lögum nr. 11/2008 um fiskeldi og reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi hvíli mjög rík skylda á Fiskistofu að tryggja að málsatvik séu nægjanlega upplýst, almennt og að teknu sérstöku tilliti til markmiða fiskeldislaga og hagsmuna sem í húfi séu, áður en hún taki ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis, sbr. og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga. Fjarlægð milli fyrirhugaðs eldis og eldis kæranda sé 4,2 km og hafi Fiskistofa því vikið verulega frá því meginviðmiði 1. mgr. 3. gr. greindrar reglugerðar að fjarlægð milli sjókvíaeldisstöðva skuli að lágmarki vera 5 km. Megintilgangur greindrar reglu sé að draga úr líkum á að fisksjúkdómar og sníkjudýr, eins og laxalús, berist milli stöðva og valdi skaða og breiðist út. Við undirbúning ákvörðunar um að víkja frá greindu meginviðmiði um lágmarksfjarlægð verði að rannsaka eins og mögulegt sé hvort fisksjúkdómar og/eða sníkjudýr, s.s. laxalús, séu á svæðinu og hugsanlega dreifingu þeirra milli eldisstöðva og almennt, m.a. með straumlíkönum. Vísi kærandi til greiningar á laxalúsum á laxi sem alinn hafi verið í Fossfirði og sérfræðiskýrslu varðandi hættu á útbreiðslu laxalúsar og fisksjúkdómasmiti í Arnarfirði.

Beri Fiskistofu að taka ekki ákvörðun um að víkja frá fjarlægðarreglunni nema niðurstöður rannsókna sýni með óyggjandi hætti að líkur á dreifingu sjúkdóma og/eða sníkjudýra aukist ekki. Þá sé það skilyrði skv. nefndu reglugerðarákvæði að samráð sé haft um frávikið við Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun, auk þess að leita umsagnar viðkomandi sveitarstjórnar um það. Þegar Fiskistofa hafi leitað umsagna nefndra stofnana hafi hún hvorki upplýst um að staðsetning fyrirhugaðrar eldisstöðvar við Haganes væri nær eldisstöð kæranda en fjarlægðarmörk kvæðu á um né um það hver fjarlægðin væri. Tilgangur samráðsins hljóti að vera sá að fá mat þessarar sérfræðistofnana á því hvort frávik frá lágmarksfjarlægð væri til þess fallið að draga úr líkum á smiti og útbreiðslu fisksjúkdóma og sníkjudýra. Þá hafi komið fram í umsögn Matvælastofnunar að rannsaka þyrfti staðsetningu eldisstöðvar við Haganes betur m.t.t. hafstrauma. Þrátt fyrir þessa umsögn hafi Fiskistofa ákveðið að veita rekstrarleyfi án þess að óska eftir frekari upplýsingum frá stofnuninni eða mats eða rannsóknar hennar. Loks virðist umsögn Hafrannsóknastofnunar bera með sér að stofnunin hafi talið staðsetninguna við Haganes vera í samræmi við fjarlægðarmörk reglugerðarinnar en Fiskistofa virðist ekki hafa talið tilefni til að koma að réttum upplýsingum um fjarlægð. Kröfur um rannsókn máls og undirbúning töku ákvörðunar hafi ekki verið uppfylltar og beri að fellar úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu.

Málsrök Fiskistofu: Fiskistofa bendir á að rekstrarleyfi hafi verið gefið út eftir að mat hafi verið lagt á umsókn og fram komnar umsagnir. Ákvörðun hennar um útgáfu rekstarleyfis geti ekki sætt ógildingu vegna síðar tilkominna atvika. Í kjölfar endurupptöku hafi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum verið staðfest með úrskurði 30. nóvember 2012. Það sé sérstakt úrlausnarefni hvort að rekstarleyfi verði afturkallað ef fyrirtæki takist ekki að hefja starfsemi innan 24 mánaða. Getgátur um erfiðleika við að standast tímafresti geti ekki verið ástæða til að ógilda ákvörðun um útgáfu leyfis. Þá verði ekki séð hvernig meðalhófsreglan geti átt við í málinu, en útgáfa leyfis sé ekki íþyngjandi ákvörðun í skilningi 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Þegar umsókn um rekstrarleyfi hafi borist Fiskistofu hafi gilt reglur um 2 km fjarlægð milli eldissvæða. Í lok málsmeðferðatímans hafi verið birt reglugerð þar sem meginreglan sé 5 km fjarlægð, en heimilt sé að víkja frá þeim fjarlægðarmörkum. Umsagnarbeiðni hafi verið send til allra lögbundinna umsagnaraðila og ennfremur til fleiri aðila sem hagsmuna ættu að gæta eða taldir væru geta komið með mikilvægt innlegg í málið. Umsagnir stofnana sem til hafi verið leitað hafi að mati Fiskistofu verið á þann veg að ekki bæri að að hafna umsóknina. Í umsögnunum komi fram nokkrar  athugasemdir varðandi nálægð eldissvæða, en almennt hafi umsagnaraðilar ekki mælt gegn útgáfu leyfis. Með tilliti til 1. mgr. 10. gr. laga um fiskeldi hafi Fiskistofa talið rétt að gefa út leyfið, en í tilvitnuðu ákvæði segi m.a.; „Telji Fiskistofa að umsókn um rekstarleyfi fullnægi skilyrðum laga þessara skal stofnunin gefa út rekstarleyfi til tíu ára í senn.“ Heimilt sé að víkja frá meginreglunni um 5 km fjarlægð og hafi Fiskistofa leitað til lögbundinna umsagnaraðila í því sambandi. Þá sé umdeilanlegt hvort frávikið sé verulegt þar sem fjarlægð milli umræddra eldissvæða sé um 4,2 km.

Málið hafi verið nægilega rannsakað þegar að útgáfu rekstarleyfis hafi komið. Fiskistofa hafi fengið í hendur öll þau gögn sem séu áskilin í lögum og reglugerð. Ekki hafi verið lögð sérstök skylda á umsækjendur í þessu tilviki um að gera sjálfstæðar rannsóknir. Áhættuþættir í laxeldi séu almennt þekktir og Fiskistofa hafi ekki lagt þá skyldu á aðra umsækjendur um rekstararleyfi að framkvæma sjálfstæðar rannsóknir, jafnvel ekki í tilvikum þar sem lítil fjarlægð sé á milli stöðva. Komi slíkar upplýsingar nægilega fram í umsögnum. Þá sé það ekki úrslitaatriði hversu nákvæm fjarlægðarmæling hafi legið fyrir við afgreiðslu umsóknarinnar. Fjarlægðin sé rúmir 4 km og nákvæmari mælingar breyti litlu varðandi áhættumat. 

——-

Leyfishafi fer fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni ellegar að kröfu kæranda verði hafnað.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Fiskistofu að gefa út rekstrarleyfi sem heimilar að framleiða allt að 3.000 tonn af laxi árlega í sjókvíum á tveimur hnitsettum svæðum í Arnarfirði, annars vegar við Tjaldaneseyrar og hins vegar við Haganes.
   
Um rekstrarleyfi til fiskeldis fer eftir ákvæðum III. kafla laga nr. 71/2008 um fiskeldi. Til starfrækslu fiskeldisstöðva þarf rekstarleyfi sem Fiskistofa veitir skv. þágildandi 1. mgr. 7. gr. laganna, en áður en slíkt leyfi er veitt skal Fiskistofa afla umsagnar lögbundinna umsagnaraðila, sbr. þágildandi 2. mgr. 7. gr. Í þágildandi 1. mgr. 9. gr. kemur fram að við meðferð umsóknar um rekstrarleyfi til fiskeldis skuli Fiskistofa leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti sem kunni að fylgja starfsemi fiskeldisstöðva. Veiti fyrirliggjandi gögn ekki nægilegar upplýsingar til þess að mat verði lagt á framangreinda þætti getur Fiskistofa lagt fyrir umsækjendur að láta í té frekari upplýsingar áður en rekstarleyfi er veitt, sbr. þágildandi 2. mgr. 9. gr. Í samræmi við 4. mgr. 10. gr. laganna skal þess ávallt gætt við útgáfu rekstrarleyfis að fullnægt sé ákvæðum laga um mat á umhverfisáhrifum og laga um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Við útgáfu hins umdeilda rekstrarleyfis lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhugað eldi væri ekki háð mati umhverfisáhrifum og var Fiskistofu rétt að miða við það við útgáfu leyfisins. Þá standa engin rök til þess að gildi leyfisins verði raskað fyrir fram vegna mögulegra síðar til kominna atvika, s.s. þess að líkur séu fyrir því að starfsemi samkvæmt leyfinu hefjist ekki innan tilskilins tíma, en kæmi til þess hefur Fiskistofa sjálfstæða heimild í ákvæði 7.1 í leyfinu til að fella það úr gildi. Að sama skapi verður ekki séð að meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 leiði til ógildingar á leyfinu með vísan til þess að ágreiningur sé um réttmæti ákvörðunarinnar eða að bið verði eftir niðurstöðu í kærumáli vegna hans.

Þegar málsmeðferð hófst fyrir Fiskistofu var í gildi reglugerð nr. 238/2003 um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, þar sem mælt var fyrir um í 1. mgr. 14. gr. að fjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva skyldi vera að lágmarki 2 km. Undir lok málsmeðferðarinnar tók hins vegar gildi reglugerð nr. 401/2012 um fiskeldi og féll þá reglugerð nr. 238/2003 úr gildi. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um fiskeldi er kveðið á um að lágmarksfjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva samkvæmt meginviðmiði skuli vera 5 km miðað við útmörk hvers eldissvæðis sem rekstrarleyfishafa hafi verið úthlutað. Fiskistofa geti að höfðu samráði við Matvælastofnun og Hafrannsóknastofnun að fenginni umsögn sveitarstjórnar heimilað styttri eða lengri fjarlægðir milli eldisstöðva.

Við meðferð málsins leitaði Fiskistofa eftir áliti og umsögnum frá Matvælastofnun, Hafrannsóknastofnun, Veiðimálastofnun, Siglingastofnun, Landhelgisgæslunni, Vesturbyggð og Ísafjarðarbæ, sem og frá tilgreindum hagsmunaaðilum, eins og nánar er lýst í málavöxtum. Þegar umsagna var leitað hafði reglugerð nr. 401/2012 þegar tekið gildi. Þá kröfu verður að gera til stjórnvalda almennt að þau þekki lög og reglugerðir á því sviði sem þau starfa og veita umsagnir á. Verður því ekki séð að Fiskistofu hafi borið sérstaklega að benda á skil reglugerða í umsagnarbeiðni sinni. Eins skal á það bent að beiðninni fylgdu gögn sem glögglega sýndu staðsetningu fyrirhugaðs eldis og gátu álitsgjafar fjallað um fjarlægðir á milli eldissvæða, sem þeir álitsgjafar, sem tilgreindir eru sem samráðsaðilar í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um fiskeldi, og gerðu. Þannig bera umsagnir bæði Matvælastofnunar og Hafrannsóknastofnunar þess merki að afstaða var tekin til fjarlægðar milli eldisstöðva. Tekur rekstrarleyfið ekki til þess eldissvæðis sem samkvæmt umsókn var fyrirhugað í um 900 m fjarlægð frá eldi kæranda í Fossfirði, en Hafrannsóknastofnun taldi það of nálægt eldi hans. Fór þannig fram fullnægjandi samráð í skilningi nefnds reglugerðarákvæðis.

Nýtti Fiskistofa sér heimild í áðurnefndu reglugerðarákvæði til að víkja frá því fjarlægðarviðmiði sem þar er sett og heimilaði 4,2 km fjarlægð í stað þeirra 5 km sem miðað er við í ákvæðinu. Líkt og áður greinir ber Fiskistofu að afla lögbundinna umsagna og hafa ákveðið samráð við veitingu rekstrarleyfis, m.a. í þeim tilgangi að geta lagt mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti fyrirhugaðs reksturs. Á það ekki síst við þegar Fiskistofa ákveður að víkja frá tilgreindum fjarlægðarmörkum. Fiskistofa er hins vegar ekki bundin af þeim umsögnum sem aflað er sem hluta af rannsókn máls samkvæmt fyrirmælum í lögum og reglugerðum heldur leggur hún sjálfstætt mat á þá þætti rekstursins sem áður eru nefndir. Í þessu sambandi er rétt að benda á að með umsókn um rekstrarleyfi fylgdi þegar útgefið starfsleyfi Umhverfisstofnunar ásamt greinargerð, auk þess sem matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir. Í nefndum gögnum kemur fram að matsskylduákvörðun hafi m.a. byggst á niðurstöðum straummælinga sem gerðar hafi verið árin 2001 og 2011 í nálægð við eldissvæðin sem þá hafi verið fyrirhuguð og að Skipulagsstofnun teldi ekki að endurupptaka starfsleyfis og breyting á staðsetningu eldisins breytti þeim forsendum. Þá leitaði Fiskistofa sérstaklega eftir áliti Matvælastofnunar vegna ágreinings um staðsetningu og er í því umfjöllun um sýkingarhættu og dreifingu laxalúsar, sem og um lágmarkshvíld eldissvæða út frá smiti af völdum hennar. Verður því ekki annað séð en að fyrir Fiskistofu hafi legið nægilegar upplýsingar til að leggja mat á sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti tengda hinu umdeilda rekstrarleyfi, eins og henni bar að gera skv. þágildandi 9. gr. laga um fiskeldi, og að það mat hafi farið fram með sjálfstæðum og málefnalegum hætti.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Fiskistofu um útgáfu rekstrarleyfis til fiskeldis til handa Arnarlaxi ehf. vegna framleiðslu á 3.000 tonnum af laxi árlega.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Geir Oddsson