Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

117/2023 Sölubann glugga

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 21. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 117/2023, kæra á ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 8. september 2023 um að banna Starover ehf. að framleiða, selja og afhenda glugga og að fyrirtækið skuli taka auglýsingu um framleiðslu glugga af heimasíðu sinni..

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Starover ehf., þá ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 8. september 2023 um að banna Starover ehf. að framleiða, selja og afhenda glugga og að fyrirtækið skuli taka auglýsingu um framleiðslu glugga af heimasíðu sinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun 16. október 2023.

Málsatvik og rök: Kærandi er fyrirtæki sem stendur í atvinnurekstri við byggingu íbúðar- og atvinnuhúsnæðis. Hinn 20. ágúst 2023 barst Húsnæðis- og mannvirkjastofnun tilkynning um að gluggar sem kærandi framleiddi fyrir tiltekið fjölbýlishús væru gallaðir í skilningi laga nr. 114/2014 um byggingarvörur. Með bréfi, dags. 23. s.m., óskaði stofnunin eftir því að kærandi afhenti tiltekin gögn, þ.e. yfirlýsingu um nothæfi, CE-merkingu, leiðbeiningar um notkun og upplýsingar um öryggi. Í svari kæranda, dags. 2. september s.á. kom fram að fyrirtækið framleiddi ekki glugga á lager eða til endursölu, heldur sérhæfði fyrirtækið sig í viðgerðum á gluggum og hurðum. Kom fram af hálfu kæranda að hann teldi III. kafla laga nr. 114/2014 eiga við um framleiðsluna og að reglur um CE-merkingu ættu því ekki við. Með bréfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, dags. 8. s.m., kom fram að stofnunin teldi þá glugga sem kærandi framleiddi ekki vera löglega markaðssetta til notkunar í útveggi hérlendis. Var kæranda því bannað að framleiða og selja glugga, sem og afhenda þá glugga sem þegar hefðu verið seldir. Þá var kæranda gert að taka auglýsingu um framleiðslu glugga af heimasíðu sinni.

Kröfu sína um frestun réttaráhrifa byggir kærandi á því að ákvörðunin sé honum verulega íþyngjandi.

Húsnæðis og mannvirkjastofnun fer fram á að kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa verði hafnað. Bent sé á að ákvæði 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 byggi á almennum reglum stjórnsýsluréttar. Af athugasemdum að baki því ákvæði er orðið hafi að 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 komi fram að heimild til að fresta réttaráhrifum sé talin nauðsynleg „þar sem kæruheimild getur í raun orðið þýðingarlaus ef æðra stjórnvald hefur ekki heimild til þess að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.“ Því fari fjarri að slíkar aðstæður fyrir hendi í máli þessu. Kærandi geti gert úrbætur og óskað þess að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun taki málið til endurskoðunar á þeim grunni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og ber því að skýra hana þröngt.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggi á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins  einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að banna kæranda að framleiða, selja, auglýsa og afhenda glugga. Lýtur ágreiningur málsins að því hvort ákvörðunin eigi sér nægilega skýra stoð í lögum og reglugerðum.

Kærandi hefur nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina. Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða, sem beinist einungis að kæranda og að hann á fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Þá er og litið til þess að gera verður ráð fyrir að meðferð málsins hjá nefndinni verði lokið innan lögbundins málsmeðferðartíma skv. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þykir því rétt að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

 Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar frá 8. september 2023 um að banna Starover ehf. að framleiða, selja og afhenda glugga og að fyrirtækið skuli taka auglýsingu um framleiðslu glugga af heimasíðu sinni.

127/2023 Hörgá E-9

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 um að samþykkja umsókn fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2023, er barst nefndinni þann sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 að samþykkja umsókn fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 13. nóvember 2023.

Málavextir: Hin kærða framkvæmd er efnistaka á svæði E-9 í Hörgá í Hörgársveit. Á fundi sveitarstjórnar 31. október 2023 var samþykkt umsókn fyrir 56.286 m3 efnistöku á efnistökusvæðinu og gaf skipulags- og byggingarfulltrúi út framkvæmdaleyfi þann sama dag. Leyfið gildir til 31. desember s.á. Fyrir liggur umhverfismat vegna heildstæðs mats á efnistöku á 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár og lauk því ferli með áliti Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015. Þá liggur fyrir að með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 29. september 2023, í kærumáli nr. 53/2023, var felld úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á þessu sama efnistökusvæði.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ljóst sé af gögnum málsins að framkvæmdaraðili hafi óskað nýs framkvæmdaleyfis fáeinum dögum eftir að úrskurðarnefndin hafi ógilt fyrra framkvæmdaleyfi sem hann hafi áður starfað eftir. Álykta megi að efnistaka fari fram og muni að óbreyttu halda áfram í þessum mánuði og næsta. Kæruheimild væri þýðingarlaus ef efnistakan ætti að geta farið fram á meðan málsmeðferð standi og séu verulegir almannahagsmunir af því að ekki sé tekið efni á meðan fjallað sé um málið hjá úrskurðarnefndinni.

Málsrök Hörgársveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda verði hafnað þar sem ekki séu uppfyllt lagaskilyrði fyrir stöðvunarkröfunni. Það sé meginregla í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttararáhrifum kærðrar ákvörðunar og heimildir til frestunar réttaráhrifa beri að skýra þröngt. Aðeins mikilsverðar og ríkar ástæður eða veigamikil rök geti réttlætt að framkvæmdir séu stöðvaðar og sé þeim ekki til að dreifa í málinu.

Það verði ekki séð að kærandi hafi neina knýjandi hagsmuni af úrlausn kærumáls þessa. Stöðvun framkvæmda muni hins vegar valda öðrum tjóni og raska gildandi fyrirkomulagi efnistöku. Þar sem stöðvun framkvæmda sé afar íþyngjandi inngrip í sjálfstjórnarrétt sveitarfélags, ráðstöfunarheimild eiganda yfir landi sínu og eignarrétt þeirra sem rétt eigi til efnistöku beri að gera afar ríkar kröfur til þess að skilyrði séu uppfyllt til stöðvunar framkvæmda. Allt séu þetta hagsmunir sem verndaðir séu af ákvæðum stjórnarskrárinnar. Af þessu leiði að gera verði ríkar sönnunarkröfur um nauðsyn svo alvarlegs inngrips í réttindi þeirra sem hlut eigi að máli og hafi kærandi í engu axlað þá sönnunarbyrði. Rétt sé að hafa í huga að efnistaka úr Hörgá sé mikilvægur liður í bakkavörnum, en farvegur Hörgár raskist mjög í leysingum og það mæli gegn því að stöðva framkvæmdir. Þetta eigi ekki síst við um svæði E-9 eins og sjá megi t.d. í umfjöllun í áliti Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2015.

——

Í máli þessu er aðeins fjallað um sjónarmið kæranda og leyfisveitanda, sem varða kröfu um stöðvun framkvæmda. Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að tjá sig en ekki bárust athugasemdir frá honum við kæruna.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Ákvörðun um slíka stöðvun er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ekki er um það deilt í málinu að framkvæmdir séu yfirstandandi. Skírskotar kærandi til þess að kæra hans yrði þýðingarlaus ef ekki yrði við kröfu hans um stöðvun framkvæmda.

Með vísan til athugasemda um 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 verður að telja að kæruheimild kunni að verða þýðingarlaus í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið hafi úrskurðarnefndin ekki framangreindar heimildir, en mikilvægt sé að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Af hálfu kæranda hefur verið hreyft margvíslegum sjónarmiðum og álítur hann m.a. að skilyrðum skipulagslaga til útgáfu framkvæmdaleyfis hafi ekki verið fullnægt við töku hinnar kærðu ákvörðunar og ekki hafi verið gætt að lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Að auki telur kærandi að hin kærða ákvörðun hafi ekki uppfyllt skilyrði annarra laga, svo sem laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, vatnalaga nr. 15/1923 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Samkvæmt þessu eru ýmis álitaefni uppi í málinu sem geta haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Þarf úrskurðarnefndin tóm til að kanna málsatvik frekar og eftir atvikum að afla frekari gagna.

Sem fyrr segir er ekki um það deilt í máli þessu að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi eru yfirstandandi og er gildistími leyfisins til 31. desember 2023. Verður því að telja að ekki hafi þýðingu að fjalla efnislega um málið nema tryggt sé að efnistaka fari ekki fram úr áreyrum og árfarvegi á svæði E-9 í Hörgá á meðan málið er til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. Þá þykir af framansögðu ljóst að fram séu komin atriði sem þarfnist nánari rannsóknar og séu því efnisleg rök að baki kæru. Þykir því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 til stöðvunar framkvæmda.

Rétt þykir að árétta að framkvæmdir eru alfarið á áhættu leyfishafa á meðan efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir, en hann getur jafnframt krafist þess að mál þetta sæti flýtimeðferð samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

 Úrskurðarorð:

Stöðvaðar eru framkvæmdir sem hafnar eru samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi á svæði E-9 í Hörgá, Hörgársveit, á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

81/2023 Þórisstaðir

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 30. júní 2023 um að kæranda verði gert að fjarlægja frístundahús af landi Þórisstaða.  

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 3. júlí 2023, kærir eigandi Þórisstaða, Hvalfjarðarsveit, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 30. júní 2023 að kæranda verði gert að fjarlægja frístundahús af landi Þórisstaða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Að auki er þess krafist að fjallað verði og úrskurðað um lögmæti túlkunar byggingarfulltrúa á byggingarreglugerð er varðar kröfur til umsóknar vegna byggingarheimildar eftir flutning milli sveitarfélaga.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 24. júlí 2023.

Málavextir: Kærandi er eigandi 23 m2 frístundahúss sem áður stóð í Mófellsstaðalandi, Skorradalshreppi. Húsið var byggt á árunum 2006–2008 og fékk lokaúttekt frá byggingarfulltrúa Skorradalshrepps 22. júní 2020. Byggingarfulltrúi Skorradalshrepps veitti kæranda „flutningsheimild“ til að flytja frístundahúsið 2. júní 2021 af Mófellsstaðalandi á land Þórisstaða og var afrit leyfisins sent til lögreglunnar á Vesturlandi, Vegagerðarinnar og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar. Undanþága Samgöngustofu vegna flutnings sökum breiddar á farmi var veitt 11. ágúst 2021 og var frístundahúsið í kjölfarið flutt milli sveitarfélaga.

Nokkur tölvupóstsamskipti voru milli kæranda og byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar í fram­haldinu, allt til ársins 2023. Deildu kærandi og byggingarfulltrúi þar m.a. um hvort frístundahús kæranda þyrfti að uppfylla kröfur byggingarreglugerðar nr. 112/2012 á þeim tíma sem hús­flutningurinn fór fram til að fá byggingarleyfi vegna hússins í Hvalfjarðarsveit eða hvort nægjanlegt væri að húsið hefði uppfyllt skilyrði reglugerðarinnar þegar það hafi fengið loka­úttekt. Virðist af gögnum málsins sem kærandi hafi ekki sótt um byggingar- eða stöðuleyfi vegna hússins þar sem honum hafi þótt ljóst af samskiptum sínum við byggingarfulltrúa að umsóknum hans yrði hafnað.

Kærandi og fulltrúar Hvalfjarðarsveitar héldu fund 18. maí 2022 og 19. s.m. sendi byggingar­fulltrúi Hvalfjarðarsveitar kæranda tölvupóst þar sem m.a. kom fram að honum væri veittur tveggja mánaða frestur til að koma óleyfisframkvæmd sinni í lag með því að sækja um byggingarheimild. Byggingarfulltrúi Hvalfjarðarsveitar sendi kæranda bréf, dags. 16. júní 2023, þar sem fram kom að byggingarfulltrúi hefði til skoðunar að grípa til aðgerða á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og var kæranda veittur frestur til að koma að andmælum. Byggingarfulltrúi Hvalfjarðarsveitar gerði síðan kröfu með bréfi, dags. 30. s.m., um að frístundahúsið yrði fjarlægt og er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Málsrök kæranda: Í hinni kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa sé tilgreint að ástæða ákvörðunarinnar sé að ekki hafi borist umsókn um stöðuleyfi, byggingarheimild eða byggingarleyfi. Vísað sé til þess að leiðbeiningar hafi verið veittar um hvað ætti að fylgja slíkri umsókn. Vegna þeirra leiðbeininga og túlkunar byggingarfulltrúa sem þar hafi fram komið skapi þær ómöguleika, þar sem fyrir liggi að umsókn verði hafnað. Umsóknin hefði þá þann eina tilgang að fá neitun sem yrði kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Lög og reglugerðir gildi ekki afturvirkt nema löggjafinn kveði sérstaklega á um slíkt. Í því tilviki sem hér sé deilt um sé um að ræða hús sem byggt hafi verið á árunum 2006–2008 og lokaúttekt hafi farið fram 22. júní 2020 sem hafi verið framkvæmd af byggingarfulltrúa Skorradalshrepps. Eftir kaup á húsinu hafi kærandi haft réttmætar væntingar til þess að nýta húsið á sama hátt og fyrri eigandi og á sömu forsendum. Sú aðgerð að færa hús til innan eða á milli sveitarfélaga geti því ekki falið í sér að gerð sé krafa um að húsið uppfylli kröfur sem gerðar séu eftir að húsið hafi verið byggt eða að því verði breytt samkvæmt nýjum kröfum sem til hafi komið eftir að smíði þess hafi verið lokið.

Við kaup á húsinu hafi fylgt samþykktir aðaluppdrættir, burðarþolsteikningar, lagnateikningar og rafmagnsteikningar. Teikningarnar hafi ekki fengist afhentar fyrr en fjórum mánuðum eftir að húsið hafi verið sótt, þar sem byggingarfulltrúi Skorradalshrepps hafi ekki talið sér skylt að afhenda þær. Þess í stað hafi hann afhent byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar teikningarnar þar sem kærandi hafi nálgast þær.

Aðrir byggingarfulltrúar sem kærandi hafi leitað til, m.a. í Borgarbyggð og Bláskógabyggð, taki við umsókn um byggingarheimild fyrir hús með þeim leiðbeiningum að það sem þurfi að fylgja umsókninni umfram upprunalega teikningar sé ný afstöðumynd og uppfærð skráningar­tafla með nýju landnúmeri og matshlutanúmeri. Þeir geri ekki kröfur um að húsið uppfylli kröfur sem til hafi komið eftir að húsið hafi verið samþykkt, að teikningar uppfylli kröfur eða að upprunalegi aðalhönnuður hússins sé á núverandi lista Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar yfir hönnuði.

Málsrök Hvalfjarðarsveitar: Yfirvöld sveitarfélagsins benda á að kæranda hafi verið upplýstur um að sækja þyrfti um leyfi byggingarfulltrúa vegna flutnings frístundahússins. Með tölvupósti til kæranda, dags. 19. maí 2022, hafi honum verið veittur tveggja mánaða frestur til að sækja um byggingarheimild til að koma óleyfisframkvæmd í réttan farveg og tekið fram að ekki yrði ráðist í frekari aðgerðir af hálfu byggingarfulltrúa fyrr en að liðnum þeim fresti. Kæranda hafi því verið veittur rúmur frestur til að sækja um leyfi fyrir framkvæmdinni, en þar sem ekki hafi verið sótt um leyfi rúmu ári síðar og ekkert sem bent hafi til þess að slíkt yrði gert hafi byggingarfulltrúi ekki átt annan kost en að grípa til aðgerða. Þar sem engin heimild væri fyrir húsinu hafi byggingarfulltrúi lýst því yfir að grípa þyrfti til aðgerða á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og krefjast þess að hið ólöglega mannvirki yrði fjarlægt. Af andmælum kæranda verður ekki annað ráðið en að hann hafi ekki í huga að sækja um leyfi, nema hugsanlega eftir að núverandi byggingarfulltrúi sveitarfélagsins hafi hætt störfum.

Sú grunnregla laga nr. 160/2010 að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa sé afar skýr, sbr. 9. gr. laganna. Líkt og rakið sé í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 16. júní 2023, sé það mat byggingarfulltrúans að greind framkvæmd sé háð byggingarleyfi eða byggingarheimild. Hin kærða ákvörðun grundvallist á því að ráðist hafi verið í framkvæmdir án þess að leyfis hafi verið aflað enda hafi engin umsókn um leyfi af nokkru tagi borist sveitarfélaginu.

Byggingarfulltrúi hafi veitt kæranda almennar leiðbeiningar um hvernig umsókn um byggingarheimild eða byggingarleyfi skuli úr garði gerð en hafi enga afstöðu tekið til umsóknar sem ekki hafi borist. Ekki verði séð hvernig leiðbeiningar byggingarfulltrúans, sem falist í að upplýsa um efni mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar, geri kæranda ómögulegt að sækja um leyfi. Þá virðist rök kæranda á því byggð að hann telji ljóst að umsókn hans um leyfi verði hafnað. Kærandi virðist því hafa fyrir fram gefnar hugmyndir um hvernig byggingarfulltrúi muni afgreiða umsókn sem ekki hafi borist.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að hagsmunir hans og sveitarfélagsins fari saman í máli þessu þar sem sveitarfélagið væri búið að fá leyfisgjöld og tekjur af fasteignagjöldum hefði byggingarfulltrúi gætt meðalhófs og jafnræðis við leiðbeiningar vegna hússins. Verði niðurstaða úrskurðarnefndarinnar sú að krafa um að húsið verði fjarlægt sé réttmæt verði húsið ekki flutt annað heldur verði því fargað. Í því geti hvorki verið fólgnir hagsmunir sveitarfélagsins né samfélagsins. Allra leyfa fyrir flutningum hafi verið aflað, en húsið hafi verið flutt í fylgd lögreglu. Leitað hafi verið til byggingarfulltrúa vegna stöðuleyfis fyrir húsið en því hafi verið hafnað. Byggingarfulltrúi hafi gert þá kröfu að húsið uppfyllti skilyrði núgildandi byggingarreglugerðar en ekki þeirrar sem hafi verið í gildi þegar húsið hafi verið byggt.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 30. júní 2023 um að kæranda verði gert að fjarlægja frístundahús af landi Þórisstaða. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá gerir kærandi einnig þá kröfu að úrskurðað verði „um lögmæti túlkunar byggingarfulltrúa á byggingarreglugerð er varðar kröfur til húsa við umsókn um byggingarheimild eftir flutning milli sveitarfélaga“.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Hin kærða ákvörðun um að kæranda verði gert að fjarlægja frístundahús af landi Þórisstaða var tekin með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 og telst því stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina samkvæmt 59. gr. laganna. Slíka heimild er hins vegar ekki að finna vegna túlkunar byggingarfulltrúa á byggingar­reglugerð og verður túlkunin ein og sér ekki borin undir nefndina heldur aðeins í tengslum við málsmeðferð kæranlegrar ákvörðunar sem tekin er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Í ljósi þess að kærandi hefur bent á að byggingarfulltrúar annarra sveitarfélaga séu honum sammála um túlkun byggingarreglugerðar þykir rétt að benda á að samkvæmt 1. og 19. tölul. 5. gr. laga nr. 160/2010 hefur Húsnæðis- og mannvirkjastofnun það verkefni að tryggja samræmingu á byggingareftirliti og skal vera stjórnvöldum til ráðgjafar um mannvirkjamál og veita umsögn um álitamál á því sviði.

Fjallað er um stöðvun framkvæmda, lokun mannvirkis o.fl. í 55. gr. laga nr. 160/2010. Í 2. mgr. nefnds ákvæðis kemur fram að ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brýtur í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað.

Í máli þessu liggur fyrir að hús kæranda hefur ekki fengið byggingarheimild, byggingarleyfi eða stöðuleyfi og að ekki hefur verið sótt um slík leyfi þrátt fyrir áskoranir þar um. Var byggingarfulltrúa því heimilt að gera þá kröfu að kærandi fjarlægði húsið í samræmi við 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010. Verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hvalfjarðarsveitar frá 30. júní 2023 um að kæranda verði gert að fjarlægja frístundahús af landi Þórisstaða.

118/2023 Þórisstaðir

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 118/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 2. október 2023 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 frá og með 1. nóvember 2023 þar til kröfu byggingarfulltrúa um að fjarlægja stöðuhýsi af Þórisstöðum 2, lóð 19, verði sinnt.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Þórisstaða 2, lóðar 19, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 2. október 2023 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 frá og með 1. nóvember 2023 þar til kröfu byggingarfulltrúa um að fjarlægja stöðuhýsi af lóðinni verði sinnt. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Umhverfis- og tæknisviði Uppsveita bs. 24. október 2023.

Málavextir: Byggingarfulltrúi Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. skoðaði hinn 23. ágúst 2023 sumarhúsalóðina nr. 19 á Þórisstöðum 2. Kom í ljós að stöðuhýsi hefði verið sett á lóðina, en ekki hafði verið veitt leyfi fyrir þeirri framkvæmd. Sama dag sendi byggingar­fulltrúi kæranda bréf í gegnum pósthólf vefsíðunnar island.is, þar sem farið var fram á að stöðuhýsið yrði fjarlægt af lóðinni. Í bréfinu var kæranda bent á að ef ekki yrðu gerðar fullnægjandi ráðstafanir fyrir 1. október s.á. mætti kærandi búast við að lagðar yrðu á dagsektir þar til tilmælum byggingarfulltrúa yrði sinnt. Að lokum var kæranda bent á andmælarétt skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 2. október 2023, voru lagðar dagsektir á kæranda að upphæð kr. 20.000 frá 1. nóvember s.á., þar sem kærandi hefði ekki orðið við tilmælum byggingarfulltrúa og andmæli hefðu ekki borist. Var bréf þetta sent kæranda bæði með bréfpósti og hins í gegnum pósthólf vefsíðunnar island.is.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að hann hafi fyrst vitað af bréfum byggingar­fulltrúa 9. október 2023, en þann dag hafi hann komið frá útlöndum. Kærandi hafi ekki verið meðvitaður um áskorun byggingarfulltrúa sem einungis hafi borist í gegnum vefsvæðið island.is. Kærandi tekur fram að á svæðinu sé fjöldi vinnuskúra, en sveitarfélagið bjóði ekki upp á stöðuleyfi. Kærandi sé allur af vilja gerður til að sækja um tilskilin leyfi en dagsektir muni reynast honum þungbærar.

Málsrök Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs.: Af hálfu byggðasamlagsins er bent á að það sé fortakslaust skilyrði að mannvirkjagerð sé í samræmi við deiliskipulag og að leyfi fyrir henni hafi verið veitt. Á svæðinu sé í gildi deiliskipulag fyrir sumarhúsabyggð í landi Þóris­staða, Grímsneshreppi. Í skipulaginu sé ekki gert ráð fyrir lausafjármunum eins og stöðuhýsum á sumarhúsalóðum.

Það sé hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Í því felist m.a. að taka afstöðu til beitingar þvingunarúrræða þeirra sem mælt sé fyrir um í 55. og 56. gr. laganna. Heimilt sé að beita dagsektum til að knýja á um úrbætur vegna þeirra atriða sem talin séu upp í nefndum lagagreinum.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að hann hafi lagt sig allan fram við að leysa málin í samráði við embætti byggingarfulltrúa og hafi sótt um stöðuleyfi, sent teikningar til embættisins og fundið byggingarstjóra. Umsóknin sé þó enn óafgreidd.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. að leggja dagsektir að upphæð kr. 20.000 á kæranda vegna stöðuhýsis á lóð hans.

Kærandi telur að honum hafi ekki verið mögulegt að koma að andmælum vegna fyrirhugaðrar ákvörðun byggingarfulltrúa, þar sem áskorunarbréf hans, dags. 23. ágúst 2023, hafi einungis verið birt í pósthólfi kæranda á vefsíðunni island.is.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 105/2021 um stafrænt pósthólf í miðlægri þjónustugátt er markmið laganna m.a. að meginboðleið stjórnvalda við einstaklinga og lögaðila verði stafræn og miðlæg á einum stað. Í 1. mgr. 4. gr. laganna kemur fram að í stafrænu pósthólfi skuli birta hvers konar gögn, jafnt rituð sem í öðru formi, sem verða til við meðferð máls hjá stjórnvöldum, svo sem tilkynningar, ákvarðanir, úrskurði, ákvaðir og aðrar yfirlýsingar. Þá er kveðið á um í 7. gr. laganna að þegar gögn eru aðgengileg í pósthólfi teljast þau birt viðtakanda. Þar sem í lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sé kveðið á um að gögn skuli birt á ákveðinn hátt, svo sem með auglýsingu, símskeyti, ábyrgðarbréfi, stefnuvotti eða öðrum sannanlegum hætti, skuli birting í stafrænu pósthólfi metin fullgild.

Í 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um andmælarétt og tilkynningu um meðferð máls. Þannig segir í 13. gr. að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því og í 14. gr. er mælt fyrir um að stjórnvald skuli vekja athygli aðila máls á því að mál hans sé til meðferðar, svo fljótt sem því verði við komið, eigi aðili máls rétt á að tjá sig um efni þess skv. 13. gr.

Verður að líta svo á að með því að birta tilkynningu um að mál kæranda hafi verið til meðferðar og honum væri heimilt að koma andmælum að um pósthólf kæranda á island.is hafi byggingarfulltrúi birt slíka tilkynningu með réttum hætti, sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 105/2021. Þá verður að skýra 13. gr. laga nr. 37/1993 og 7. gr. laga nr. 105/2021 svo að kærandi hafi átt þess kost að koma andmælum að eftir að honum barst tilkynning í pósthólf sitt á island.is hvort sem hann hafi í reynd séð þá tilkynningu eða ekki.

Samkvæmt 87. tölul. gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er stöðuhýsi skilgreint sem: „Tímabundnar og lausar byggingar sem ekki eru tengdar lagna- eða veitukerfum og ætlaðar eru til svefns eða daglegrar dvalar manna í fjóra mánuði eða lengur á sama stað svo sem húsvagnar og tjaldhýsi úr léttum byggingarefnum“. Þá eru stöðuhýsi sem skulu standa lengur en fjóra mánuði talin upp í c-lið 1. mgr. gr. 2.3.6. þar sem fjallað er um mannvirkjagerð sem er undan­þegin byggingarheimild og -leyfi, en skal tilkynnt leyfisveitanda. Skal hún vera í samræmi við deiliskipulag.

Í gildi er deiliskipulag Þórisstaða, frístundabyggð. Samkvæmt skilmálum þess er heimilt að reisa geymslu, svefnhús eða gróðurhús, þó ekki stærri en 10–15 m2. Verður af ljósmyndum af hinu umdeilda stöðuhýsi ekki litið svo á að um geymslu, svefnhús eða gróðurhús sé að ræða. Er því ekki að finna heimild í deiliskipulagi fyrir stöðuhýsi kæranda.

Sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant, af því stafar hætta eða það telst skaðlegt heilsu að mati byggingarfulltrúa eða ekki er gengið frá því samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum eða byggingarlýsingu, skal gera eiganda eða umráðamanni þess aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt er. Sama gildir ef notkun mannvirkis brýtur í bága við skipulag, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt 2. mgr. 56. gr. laga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum allt að 500.000 kr. til að knýja menn til þeirra verka samkvæmt lögunum og reglugerðum eða láta af ólögmætu athæfi. Verður í ljósi framangreinds fallist á með byggingarfulltrúa að uppi sé ólögmætt ástand og að honum hafi því verið heimilt að beita dagsektum.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun voru dagsektir ákveðnar frá og með 1. nóvember 2023. Með vísan til 2. mgr. 29. gr. laga nr. 37/1993 þykir rétt, eins og atvikum þessa máls er háttað, að dagsektir sem hafa verið lagðar á frá og með 1. nóvember 2023 til og með uppkvaðningu þessa úrskurðar falli niður.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Umhverfis- og tæknisviðs Uppsveita bs. frá 2. október 2023 um álagningu dagsekta að upphæð kr. 20.000 frá og með 1. nóvember 2023 þar til kröfu byggingarfulltrúa um að fjarlægja stöðuhýsi af lóð nr. 19 á Þórisstöðum 2, verði sinnt.

102/2023 Drápuhlíð

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2023, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. ágúst 2023, er barst nefndinni 28. s.m., kæra eigendur íbúða að Drápuhlíð 2, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð. Er þess krafist að fallist verði á gerð rafhleðslubílastæða á lóðinni til samræmis við jákvæða umsögn skipulagsfulltrúa frá 5. júlí 2022. Til vara er þess krafist að neikvæð umsögn skipulagsfulltrúa frá 3. ágúst 2023 verði endurskoðuð „með heimild fyrir rafhleðslustæði innan lóðar við hlið bílastæða við aðliggjandi lóð að Blönduhlíð 1“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. september 2023.

Málavextir: Hinn 21. mars 2022 lagði einn kærenda þessa máls fram fyrirspurn til skipulagsfulltrúa um möguleika á að koma fyrir rafhleðslustöð á lóðinni nr. 2 við Drápuhlíð. Í umsögn skipulagsfulltrúa við fyrirspurninni, dags. 30. júní s.á., var tekið jákvætt í erindið, en bent á að sækja þyrfti um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Þá var tekið fram að í vinnslu væri hverfisskipulag fyrir Hlíðahverfi, Háteigshverfi og Öskjuhlíðarhverfi, sem væri ætlað að ná utan um breytingaþætti á borð við bílastæða- og innkeyrslumál, og ráðlagði skipulagsfulltrúi að beðið yrði með byggingarleyfisumsókn þar til skipulagið lægi fyrir.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. júlí 2023 var lögð fram umsókn um leyfi til þess að gera tvö bílastæði og tvöfalda rafhleðslustöð við norðurhlið íbúðarhússins að Drápuhlíð 2.  Var málinu vísað til umsagnar og/eða grenndarkynningar skipulagsfulltrúa. Hinn 3. ágúst s.á. skilaði skipulagsfulltrúi nýrri umsögn um áform kærenda þar sem fyrri umsögn var dregin til baka og neikvætt var tekið í erindið. Í niðurstöðu umsagnarinnar kom fram að ekkert deili-skipulag væri í gildi sem heimili bílastæði á lóðinni og þau væru ekki sýnd á mæliblaði eða samþykktum aðaluppdráttum. Bílastæði á þessum stað myndi skapa talsverða slysahættu, ekki síst fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa synjaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda hinn 15. ágúst 2023.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í kjölfar jákvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa 30. júní 2022 hafi vinna við hönnun stæðanna farið af stað og samþykkt hafi verið tilboð frá verktaka í verkið samhliða framkvæmdum við drenlögn. Óvæntur viðsnúningur skipulags­fulltrúa setji allt í uppnám og útlagður kostnaður sé verulegur. Gerðar séu athugasemdir við þá afstöðu skipulagsfulltrúa að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér aukna slysahættu fyrir gangandi vegfarenda. Rafhleðslustæðin verði vel sýnileg, hvort sem horft sé til þeirra sem leggi leið sína að horninu frá Reykjahlíð eða Drápuhlíð. Ekkert grindverk sé í garði Drápuhlíðar 2 sem birgi sýn. Þvert á móti muni öryggi aukast þar sem tré verði fjarlægð við ljósastaur, en þau takmarki lýsingu í dag. Víðast hvar í hverfinu séu útkeyrslur beint út á gangstétt en kærendur kannist ekki við slys af þeirra völdum í þau 36 ár sem þau hafi búið í Hlíðunum. Þá sé það ekki rétt að bakka þurfi út af bílastæðunum og út á hraðahindrun þar sem hleðsla rafbíla sé að aftanverðu og því sé bakkað inn í rafhleðslustæðin. Drápuhlíð sé einstefnugata, en hafi upphaflega verið hönnuð sem tvístefnugata og það skýri hversu breið hún sé. Beygjuradíus sé því alveg nægjanlegur þó að bílum sé lagt í stæði handan götunnar.

Fyrir tveimur árum hafi rúmlega 8 m breitt bílastæði verið gert á lóð Blönduhlíðar 1 með innkeyrslu frá Eskihlíð, en sú lóð liggi að lóðamörkum Drápuhlíðar 2. Engin grenndarkynning hafi farið fram þrátt fyrir að ekkert deiliskipulag sé í gildi. Því ættu kærendur væntanlega að geta fært bílastæði þeirra að lóðamörkum og haft aðkomu frá Eskihlíð. Það sé þó verri kostur en núverandi áform út frá öryggissjónarmiðum. Kærendur telji sig þó eiga að njóta sömu réttinda og nágrannar þeirra að Blönduhlíð 1.

Það sé væntanlega stefna borgarinnar að stuðla að rafbílavæðingu og því spyrja kærendur hvers vegna sé verið að leggja stein í götu þeirra sem vilji taka þátt í þeirri vegferð. Eldri hverfi eins og Hlíðarnar hafi þriggja fasa rafmagn með 230 V kerfi en ekki 400 V eins og sé í nýrri hverfum. Í eldri hverfum þurfi því að stilla hleðslutíma rafbíla yfir minnsta álagstíma með rafhleðslustöðvum.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld taka fram að eldri umsögn skipulagsfulltrúa frá 30. júní 2022, þar sem tekið hafi verið jákvætt í fyrirspurn eins kærenda, hafi verið dregin til baka með nýrri umsögn 3. ágúst 2023. Þegar hafi verið beðist velvirðingar á því, en við gerð eldri umsagnar hafi ekki verið horft nægjanlega vel til aðstæðna m.t.t. aðkomu að fyrirhuguðu bílastæði. Eins og fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa sé staðsetning bílastæðanna þannig að bakka þurfi yfir gangstétt og út á hraðahindrun sem jafnframt sé gönguþverun yfir Drápuhlíð við gatnamót Reykjahlíðar. Þá sé í umsögninni bent á að ljósastaur og umferðarskilti þrengi beygjuradíus aðkomunnar að bílastæðum sem auki enn fremur á slysahættuna. Bent sé á að í gr. 12.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 segi að aðkoma að hverri byggingu, bílastæði og almennu göngusvæði við og að byggingu skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi að byggingunni sé auðvelt öllum og ekki skapist slysahætta á svæðinu. Hafi því málefnaleg sjónar­mið legið að baki umsögn skipulagsfulltrúa og kærðri ákvörðun byggingarfulltrúa.

Kærendur bendi á að í næstu götum megi sjá bílastæði inn á lóðum þar sem aðstæður séu áþekkar þeim sem hér um ræði. Hins vegar verði ekki séð að þar sé um að ræða stæði sem hafi verið samþykkt af borgaryfirvöldum á þessari öld. Á síðustu áratugum hafi viðhorf til umferðaröryggis tekið stakkaskiptum enda fólksfjölgun orðið til þess að öll umferð hafi stóraukist. Ekki séu því uppi sambærilegar aðstæður nú eins og þegar önnur áþekk stæði hafi verið tekin í notkun. Hvað varði bílastæði á aðliggjandi lóð Blönduhlíðar 1 þá virðist vera um ósamþykkt stæði að ræða. Ólíklegt sé að skipulagsyfirvöld myndu samþykkja nýtt stæði með útkeyrslu á þessum stað m.t.t. umferðaröryggissjónarmiða.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur vísa til þess að hraðahindruninni hafi verið komið fyrir árið 2010 fyrir framan fyrirhugaða innkeyrslu, en samkvæmt þinglýstum eignaskiptasamningi frá 10. maí 1962 hafi verið gert ráð fyrir bílskúr á lóð Drápuhlíðar 2. Hraðahindrunin sé töluvert innar í götu en sambærilegar hraðahindranir við gatnamót í Hlíðunum. Margoft hafi verið óskað eftir því að hún verði færð nær gatnamótunum vegna mikillar vatnssöfnunar og hálkumyndunar sem skapi slysahættu. Ávallt hafi þau svör borist frá byggingarfulltrúa að málið sé afgreitt.

Kærendur hafi komist að því að ástæða þess að umsögn skipulagsfulltrúa hafi upphaflega verið jákvæð hafi verið sú að þá hafi verið litið svo á að til stæði að gera eitt bílastæði en ekki tvö. Við málsmeðferð byggingarleyfisumsóknarinnar hafi þó aldrei komið athugasemd frá byggingarfulltrúa um að teiknuð væru tvö stæði en ekki eitt.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Úrskurðarnefndin tekur því lögmæti kærðrar stjórnvaldsákvörðunar til endurskoðunar en tekur almennt ekki nýja ákvörðun í máli. Fellur það því utan valdheimilda úrskurðar­nefndarinnar að leggja fyrir byggingarfulltrúa að samþykkja byggingarleyfisumsókn kæranda. Verður því einungis tekin afstaða til lögmætis hinnar kærðu ákvörðunar.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 3. s.m. Í umsögninni kom m.a. fram að lóð Drápuhlíðar 2 væri í skilgreindri íbúðarbyggð samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2040, ekkert deiliskipulag væri í gildi á svæðinu en unnið væri að hverfisskipulagi. Til væri uppdráttur af svæðinu frá 1945 þar sem sýnd væri einföld innkeyrsla og bílskúr á lóðinni en uppdrátturinn hefði ekkert skipulagslegt gildi. Á gildandi mæliblaði og samþykktum aðal-uppdráttum væri á hinn bóginn ekki gert ráð fyrir bílastæðum, innkeyrslu eða bílskúr á lóðinni. Þá kom og fram í umsögninni að almennt væri ekki tekið jákvætt í ný bílastæði á lóð í gróinni byggð þar sem reynt væri eftir fremsta megni að koma í veg fyrir að ekið væri yfir gangstétt að óþörfu. Í gildandi aðalskipulagi væri sömuleiðis almennt leiðarstef að draga úr notkun einkabílsins og fækka bílastæðum. Líta þyrfti til þess að fyrirhuguð staðsetning bílastæða væri þannig að ekki einungis þyrfti að bakka yfir gangstétt heldur einnig út á hraðahindrun sem fæli í sér augljósa slysahættu fyrir gangandi vegfarendur, sérstaklega börn. Hraðahindrunin væri jafnframt gönguleið yfir Drápuhlíð við gatnamót Reykjahlíðar. Þá myndi ljósastaur og umferðarskilti „þrengja sömuleiðis mjög aðkomuna að þeim og takmarka beygjuradíusinn þegar bakka þarf úr stæðunum“ sem auki á slysahættuna. Væri því tekið neikvætt í erindið.

Hin neikvæða afstaða skipulagsfulltrúa byggðist fyrst og fremst á sjónarmiðum um umferðaröryggi. Verður að líta svo á að byggingarfulltrúi hafi gert þau sjónarmið að sínum þegar hann synjaði leyfisumsókn kærenda með vísan til umsagnarinnar. Verður að telja þau sjónarmið málefnaleg og að virtum staðháttum svæðisins, þ.e. að bílastæðin eru við gönguþverun Drápuhlíðar og þar sem ljósastaur og umferðarskilti þrengja að beygjunni, þykja ekki efni til að hnekkja því mati byggingarfulltrúa. Hefur Reykjavíkurborg við meðferð þessa kærumáls enn fremur vísað til gr. 12.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er kveður m.a. á um að aðkoma að bílastæðum skuli þannig staðsett og frágengin að aðgengi sé auðvelt öllum og ekki skapist slysahætta á svæðinu. Þrátt fyrir að betur hefði farið á því að vísa til reglugerðarákvæðisins við synjun umsóknarinnar verður að fallast á með borgaryfirvöldum að hin umsótta framkvæmd sé ekki í samræmi við ákvæðið. Liggja því bæði lögmæt og málefnaleg sjónarmið að baki ákvörðun byggingarfulltrúa.

Kærendur telja að byggingarfulltrúa hafi borið að afgreiða umsókn þeirra með hliðsjón af umsögn skipulagsfulltrúa frá 5. júlí 2022, en í henni var tekið jákvætt í framkvæmdaáform kærenda og leiðbeint um að sækja þyrfti um byggingarleyfi sem yrði grenndarkynnt. Á grundvelli þeirrar umsagnar hófu kærendur vinnu við að útbúa byggingarleyfisumsókn og í kæru er bent á að sú vinna hafi kostað umtalsvert. Svo sem fram kemur í síðari umsögn skipulagsfulltrúa var fyrri umsögnin dregin til baka þar sem í henni hafi ekki verið horft nægilega vel til aðstæðna í nágrenninu. Verður að telja að skipulagsfulltrúa hafi verið heimilt að endurskoða umsögn sína enda byggði sú endurskoðun á málefnalegum sjónarmiðum eins og fram hefur komið. Hvað varðar hugsanlegt tjón kærenda vegna réttmætra væntinga þá fellur umfjöllun um slíkt álitaefni utan valdheimilda úrskurðarnefndarinnar, en gæti eftir atvikum átt undir lögsögu dómstóla.

Kærendur vísa til þess að á lóðinni Blönduhlíð 1 hafi verið gert 8 m breitt bílastæði með innkeyrslu frá Eskihlíð, en sú framkvæmd hafi ekki verið grenndarkynnt. Telja kærendur að þeir eigi að njóta sömu réttinda. Jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar er að finna í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en í 1. mgr. ákvæðisins er kveðið á um að við úrlausn mála skuli stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti. Í reglunni felst að óheimilt er að mismuna aðilum sem eins er ástatt um og að sambærileg mál ber að afgreiða á sambærilegan hátt. Ekki verður talið að hin kærða synjun byggingarfulltrúa hafi falið í sér brot á jafnræðisreglunni þar sem aðstæður á lóðunum tveimur eru ekki sambærilegar. Þar að auki liggur ekki fyrir að leyfi hafi verið veitt fyrir stæði á lóð Blönduhlíðar 1.

Með hliðsjón af framangreindu verður kröfu um ógildingu hinnar kærður ákvörðunar hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2023 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum og rafhleðslustöð á lóð nr. 2 við Drápuhlíð.

120/2023 Strandvegur

Með

Árið 2023, miðvikudaginn 15. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 120/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyjar frá 14. september 2023 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2023, er barst nefndinni 11. s.m., kæra A, B og C, þá ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyjar frá 14. september 2023 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar þegar í stað og að skipulagsfulltrúa verði gert að sinna sínu hlutverki af hlutleysi með hagsmuni allra í huga.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 13. nóvember 2023.

Málsatvik og rök: Á lóð Strandvegar 51 í Vestmannaeyjum stendur steinsteypt bygging á einni hæð. Er lóðin á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfangi, frá árinu 2015. Samkvæmt skipulaginu er heimilt að byggja á lóðinni tveggja hæða hús með möguleika á þriðju hæð að hluta. Á fundi umhverfis- og skipulagsráð 5. júní 2023 var tekin fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulaginu vegna umræddrar lóðar sem fólst í því að heimilt yrði að byggja þar fjögurra hæða hús með átta íbúðum. Samþykkti ráðið að auglýsa tillöguna samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010 og var sú afgreiðsla staðfest af bæjarstjórn á fundi hennar 22. júní 2023. Athugasemdir bárust frá kærendum, en að kynningartíma loknum var tillagan tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 4. september s.á. Samþykkti ráðið breytingartillöguna sem og framlagða greinargerð með svörum við athugasemdum sem bárust á kynningartíma. Staðfesti bæjarstjórn afgreiðslu ráðsins á fundi hennar 14. s.m.

Kærendur vísa til þess að þau hafi staðið í stappi við Vestmannaeyjabæ vegna fyrirhugaðrar stækkunar hússins að Strandvegi 51, en óánægja þeirra lúti að því hvernig staðið hafi verið að að bílastæðamálum. Lög séu brotin með því að leyfa byggingaraðila hússins að nýta sér hluta af annarri lóð fyrir bílastæði. Þá veki ekki síður furðu samkomulag sem sveitarfélagið hafi gert við lóðarréttarhafa að Strandvegi 51 um að sá aðili hafi rétt til að nota bílastæði á vesturlóð við Strandveg 50 frá kl. 17 síðdegis til kl. 9 að morgni. Gildistími samningsins sé til 13 ára frá undirritun hans 26. september 2022 og sé því spurt hvar íbúar fjölbýlishússins eigi að leggja bílum sínum eftir 26. september 2035. Í byggingarreglugerð sé gert ráð fyrir a.m.k. einu bílastæði fyrir hverja 35 m2 og a.m.k. einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Eftir stækkun hússins á grundvelli deiliskipulagsbreytingarinnar þurfi húsið að Strandvegi 51 því að hafa a.m.k. 10 bílastæði auk eins bílastæðis fyrir hreyfihamlaða. Fjöldi bílastæða á svæðinu sé þegar of lítill. Sveitarfélagið sé að ganga erinda byggingaraðila á kostnað nágranna og væntanlegra kaupenda íbúða í húsinu.

Vestmannaeyjabær bendir á að tillaga hinna kærðu deiliskipulagsbreytingar hafi verið auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og við þá auglýsingu hafi kærendur komið á framfæri athugasemdum sínum. Í svarbréfi sveitarfélagsins við framkomnum athugasemdum kærenda hafi þeim verið bent á að lög og reglur geri ekki ráð fyrir tilteknum fjölda bílastæða. Brugðist hafi verið við ábendingum kærenda vegna bílastæða með því að koma fyrir fleiri bílastæðum, m.a. á nærliggjandi lóð við Strandveg 50. Ítarlega hafi verið fjallað um bílastæðamál í deiliskipulagsbreytingunni. Enn fremur hafi verið merkt bílastæði fyrir hreyfihamlaða í samræmi við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Bæjarstjórn hafi samþykkt tillöguna en hún hafi ekki enn verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda og því ekki tekið gildi.

Niðurstaða: Á fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyjabæjar 14. september 2023 var samþykkt tillaga að breytingu á deiliskipulagi miðbæjar Vestmannaeyja, 2. áfanga, vegna lóðar nr. 51 við Strandveg. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal senda Skipulagsstofnun deiliskipulag sem samþykkt hefur verið af sveitarstjórn og samantekt um málsmeðferð ásamt athugasemdum og umsögnum um þær innan sex mánaða frá því að frestur til athugasemda rann út. Að lokinni lögmætisathugun Skipulagsstofnunar skal sveitarstjórn birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku deiliskipulags og markar jafnframt upphaf eins mánaðar kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Umrædd deiliskipulagsbreyting er enn til meðferðar hjá Skipulagsstofnunar og hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Liggur því ekki fyrir ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

 Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

124/2023 Fiskvinnsla að Bolafæti

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 14. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 124/2023, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 25. september 2023 um að afskrá fiskvinnslustarfsemi að Bolafæti 15 þar sem starfsemin samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020–2035.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. október 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Erik the Red Seafood ehf. þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 25. september 2023 að afskrá fiskvinnslustarfsemi kæranda að Bolafæti 15 þar sem starfsemin samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2020–2035. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá heilbrigðisnefnd Suðurnesja 2. nóvember 2023.

Málsatvik og rök: Kærandi rekur fiskvinnslu á þremur starfsstöðvum í Keflavík, Njarðvík og Sandgerði. Ein starfsstöðvanna er á lóð nr. 15 við Bolafót í Reykjanesbæ og var sú starfsemi skráð sem skráningarskyldur atvinnurekstur í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerð nr. 830/2022 um skráningarskyldan atvinnurekstur. Hinn 5. júlí 2023 sendi Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja kæranda bréf þar sem greindi að í athugun væri hvort afskrá skyldi starfsemi félagsins að Bolafæti 15 með vísan til 11. gr. reglugerðar nr. 830/2022 þar sem samkvæmt upplýsingum skipulagsyfirvalda samrýmdist starfsemin ekki gildandi skipulagsskilmálum fyrir svæðið. Kærandi svaraði erindinu með bréfi, dags. 17. júlí 2023, og mótmælti fyrirhugaðri afskráningu. Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurnesja 25. september 2023 var samþykkt að afskrá starfsemi félagsins að Bolafæti 15 á fyrrgreindum grundvelli. Með bréfi Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, dags. 26. s.m., var kæranda tilkynnt um niðurstöðu nefndarinnar. Hinn 16. október 2023 sendi kærandi eftirlitinu bréf um lokunaráætlun, þar sem m.a. kom fram sú beiðni að félaginu yrði veittur frestur til loka árs 2023 að koma starfseminni að Bolafæti 15 í það horf að þar yrði einungis unnið á hefðbundnum dagvinnuvöktum. Í áætluninni fælist hins vegar ekki viðurkenning á réttmæti eða lögmæti ákvörðunar heilbrigðisnefndar um afskráningu starfseminnar.

Kröfu sína um frestun réttaráhrifa byggir kærandi á því að ákvörðunin sé íþyngjandi þar sem félagið hafi gífurlegra hagsmuna að gæta. Um 30 manns starfi að jafnaði á starfsstöð félagsins að Bolafæti 15 en starfsstöðin sé ein af lykileiningum í starfsemi kæranda. Starfsfólk og viðskiptavinir hafi því einnig mikilla hagsmuna að gæta. Verði réttaráhrifum ákvörðunarinnar ekki frestað verði kæranda fyrir óumflýjanlegu fjártjóni, sem felist m.a. í kostnaði við kaup og/eða uppsetningu á nýrri starfsstöð, flutningskostnaði, greiðslu launa 30 starfsmanna á uppsagnarfresti, missi hagnaðar og eftir atvikum missi viðskiptavina og viðskiptavildar. Húsnæðið að Bolafæti 15 og sú verkun sem þar fari fram hafi vottun frá þriðja aðila, en við flutning þyrfti félagið að afla slíkrar vottunar fyrir nýtt húsnæði og sé það kostnaðarsamt og tímafrekt ferli. Í símtölum milli fyrirsvarsmanna kæranda og starfsmanna Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafi kæranda verið tjáð að hann þurfi ekki að hlíta ákvörðuninni þá þegar heldur fái eilítið svigrúm til lokunar starfsstöðvarinnar. Eftirlitið hafi óskað eftir svokallaðri lokunaráætlun og hafi framkvæmdastjóri eftirlitsins vísað til þess að slík áætlun væri hugsuð til komandi vikna, m.a. til að koma til móts við andmæli félagsins varðandi meðalhóf. Kærandi telji að með því hafi stjórnvaldið viðurkennt nauðsyn þess að réttaráhrifum verði frestað. Þá sé lagagrundvöllur ákvörðunarinnar langt frá því að teljast afgerandi og fullnægjandi. Með hliðsjón af því, svo og þar sem félagið sé einn aðili að málinu, sé ljóst að málið gefi tilefni til að fresta réttaráhrifum stjórnvaldsákvörðunarinnar.

Fyrir hönd heilbrigðisnefndar Suðurnesja er kröfu um frestun réttaráhrif ekki sérstaklega mótmælt, en verði málinu frestað er þess óskað að það sæti flýtimeðferð hjá nefndinni. Þrátt fyrir það telur stjórnvaldið rétt að halda því til haga að auk hagsmuna kæranda séu undir hagsmunir íbúa á svæðinu. Þá sé hin kærða ákvörðun efnislega rétt auk þess sem málsmeðferðarreglum hafi verið gætt í hvívetna.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála frestar kæra til nefndarinnar ekki réttaráhrifum ákvörðunar en kærandi getur þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Sé um að ræða ákvörðun sem ekki felur í sér heimild til framkvæmda getur úrskurðarnefndin með sömu skilmálum frestað réttaráhrifum hennar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. 5. gr. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til frestunar réttaráhrifa í tengslum við meðferð kærumáls, en sú heimild er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og ber því að skýra hana þröngt.

Í máli þessu er kærð sú ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 25. september 2023 að afskrá fiskvinnslustarfsemi kæranda að Bolafæti 15 þar sem starfsemin sé ekki í samræmi við gildandi Aðalskipulag Reykjanesbæjar 2020–2035. Lýtur ágreiningur málsins nánar að því hvort ákvörðunin hvíli á viðhlítandi lagastoð svo og hvort starfsemin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag eða ekki.

Kærandi hefur nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar undir úrskurðarnefndina. Ljóst er að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða og að kærandi á fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Þrátt fyrir að nálægt umræddri starfsemi megi finna íbúðarbyggð verður ekki talið að mögulegir hagsmunir þeirra íbúa, um að hin kærða ákvörðun hafi réttaráhrif sem allra fyrst, vegi þyngra en hagsmunir kæranda af því að þurfa ekki að svo stöddu að ráðast í aðgerðir til að hlíta niðurstöðu heilbrigðisnefndarinnar á meðan ágreiningur málsins hefur ekki verið til lykta leiddur hjá úrskurðarnefndinni. Þá er og litið til þess að gera verður ráð fyrir að meðferð málsins hjá nefndinni verði lokið innan lögbundins málsmeðferðartíma skv. 6. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Þykir því rétt að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa. 

Úrskurðarorð:

Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 25. september 2023 um að afskrá fiskvinnslustarfsemi að Bolafæti 15 þar sem starfsemin samræmist ekki aðalskipulagi.

114/2023 Krossavíkurböð

Með

Árið 2023, föstudaginn 10. nóvember, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 114/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023 um að samþykkja deiliskipulag Krossavíkurbaða á Hellissandi.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. september 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir A, þá ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023 að samþykkja deiliskipulag Krossavíkurbaða á Hellissandi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Málsatvik: Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Snæfellsbæjar 3. maí 2022 var lögð fram lýsing vegna fyrirhugaðrar breytingar aðalskipulags og deiliskipulag fyrir sjóböð við Krossa­vík. Var samþykkt að beina erindinu í kynningu. Fundargerð nefndarinnar var staðfest á fundi bæjarstjórnar 5. s.m. Tillaga til breytingar aðalskipulags og deiliskipulag fyrir Krossavíkurböð var tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 8. nóvember s.á. Vegna fram­kominna umsagna og athugasemda vegna lýsingar voru mannvirki færð fjær sjó en gert hafði verið ráð fyrir í lýsingu og samþykkt var að beina breytingu aðalskipulags og deiliskipulags­tillögunni í lögboðið ferli. Fundargerð nefndarinnar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 10. s.m.

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 17. janúar 2023 voru tillögurnar lagðar fram að nýju með óverulegum lagfæringum vegna ábendinga Skipulagsstofnunar. Var samþykkt að auglýsinga þær í samræmi við 31. og 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarstjórnar 19. janúar 2023 var fundargerð nefndarinnar samþykkt og deiliskipulagstillagan auglýst frá 2. júní 2023 með athugasemdafresti til 14. júlí s.á. Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar 2. maí s.á. var lögð fram að nýju breyting á aðalskipulagi Snæfellsbæjar og deiliskipulagstillaga vegna Krossavíkurbaða, með breytingum vegna fram kominna umsagna fagaðila og athugasemda einstaklinga ásamt tillögu að svörum Snæfellsbæjar. Var samþykkt að beina aðalskipulags­breytingu til Skipulagsstofnunar til staðfestingar í samræmi við 32. gr. skipulagslaga og ganga frá gildistöku deiliskipulags í kjölfarið. Fundargerð nefndarinnar var samþykkt á fundi bæjarstjórnar 4. s.m.

Umhverfis- og skipulagsnefnd samþykkti á fundi sínum 17. júlí 2023 að óska eftir staðfestingu Skipulagsstofnunar á aðalskipulagsbreytingu. Þá var einnig samþykkt deiliskipulag fyrir Krossavíkurböð á Hellissandi með fyrirvara um jákvæða niðurstöðu Skipulagsstofnunar. Bæjarráð samþykkti fundargerð umhverfis- og skipulagsnefndar á fundi sínum 19. s.m. og tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 30. ágúst 2023.

Málsrök kæranda: Bent er á að hin kærða ákvörðun og öll afgreiðsla málsins sé haldin verulegum form- og efnisannmörkum sem leiði til þess að samþykkt þess af hálfu sveitarstjórnar sé ógild eða ógildanleg. Við töku ákvörðunar um deiliskipulag beri bæjarstjórn að fara að skipulagslögum nr. 123/2010, lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og áætlana nr. 111/2021, lögum um náttúruvernd nr. 60/2013, upplýsingalögum nr. 140/2012, stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011. Við málsmeðferð deili­skipulagsins hafi verið brotið gegn öllum þessum lögum.

Málsrök Snæfellsbæjar: Sveitarfélagið vísar til þess að hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við aðalskipulag með þeirri breytingu sem hafi tekið gildi í ágúst 2023. Deiliskipulagið sé einnig í samræmi við meginstefnu Snæfellsbæjar um afþreyingar og ferðamannasvæði sem mótuð hafi verið við síðustu endurskoðun aðalskipulags. Kynningarferli hafi verið í fullu sam­ræmi við skipulagslög enda hafi verið haldnir fjölmennir fundir þar sem lýsing og mats­lýsing, og síðar vinnslutillögur beggja skipulagsstiga ásamt umhverfismatsskýrslu hafi verið kynnt.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. og 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra leyfisveitinga er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun fram­kvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulags­ákvarðana. Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulags­ákvarðana verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttar­áhrifa vegna hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Snæfellsbæjar frá 19. júlí 2023 um að samþykkja deiliskipulag Krossavíkurbaða á Hellissandi.

101/2023 Landmannalaugar

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 31. október kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 14. júní 2023 um að veita Umhverfisstofnun framkvæmdaleyfi vegna laugarpalls við náttúrulaugina í Landmannalaugum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir félagið Náttúrugrið þá ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 14. júní 2023 að veita Umhverfisstofnun framkvæmdaleyfi vegna laugarpalls við náttúru-laugina í Landmannalaugum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi ytra 18. ágúst 2023.

Málavextir: Umhverfisstofnun sótti um byggingarleyfi til Rangárþings ytra til endurnýjunar á laugarpalli við Landmannalaugar 23. júlí 2021. Umsóknin var tekin fyrir í skipulags- og umferðarnefnd sveitarfélagsins 6. september s.á. þar sem lagt var til að sveitarstjórn veitti framkvæmdaleyfi fyrir nefndum palli. Var sú afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn 9. s.m. Þar sem framkvæmdir hófust ekki á tilætluðum tíma sótti Umhverfisstofnun um endurnýjun framkvæmdaleyfisins 26. apríl 2023. Umsóknin var tekin fyrir í skipulags- og umferðarnefnd sveitarfélagsins 1. júní s.á. þar sem lagt var til að sveitarstjórn veitti framkvæmdaleyfi vegna fyrrgreinds palls. Var sú afgreiðsla staðfest af sveitarstjórn 14. júní 2023.

Málsrök kæranda: Bent er á að framkvæmdir samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hafi byrjað í júní 2023 en umdeildur pallur sé ekki háður leyfi skv. skipulagslögum nr. 123/2010, heldur mannvirkjalögum nr. 160/2010. Um valdþurrð sé því að ræða hjá stjórnvaldi því sem tekið hafi hina kærðu ákvörðun. Hvort sem litið sé til ákvæða laga nr. 123/2010 eða 160/2010 falli leyfi samkvæmt þeim úr gildi séu framkvæmdir ekki hafnar innan 12 mánaða frá ákvörðun um veitingu þess. Framkvæmdir hafi sannanlega ekki hafist 9. september 2022 eða fyrr. Hafi því leyfi samkvæmt hinni kærðu ákvörðun, hvað sem öðru líði, verið fallin úr gildi er framkvæmdir hófust.

Óháð öllu ofangreindu séu annmarkar á hinni kærðu ákvörðun þar sem hún sé ekki í samræmi við ákvæði laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Umþrætt framkvæmd sé hluti annarrar framkvæmdar sem Skipulagsstofnun hafi tekið ákvörðun um árið 2018 að skyldi sæta umhverfismati. Sé því ekki um að ræða framkvæmd sem falli utan þess.

Þá sé framkvæmdin ekki í samræmi við friðlýsingarskilmála friðlands að Fjallabaki frá 1979, sem byggðist á ákvæðum 24. gr. þágildandi náttúruverndarlaga nr. 47/1971, þar sem segi að ekki megi gera „mannvirki, sem spilla svip landsins“. Friðlýsingin sé gerð til verndar sérstöku landslagi, en ekki til að veita almenningi aðgang, líkt og hefði verið ef friðlýsing hefði byggst á 25. gr. laganna. Deiliskipulag það sem vísað sé til í gögnum hinnar kærðu ákvörðunar sé auk þess formannmörkum háð þar sem náttúruverndarnefnd fjallaði ekki um það, líkt og skylt var skv. 2. mgr. 68. gr. laga nr. 60/2013. Einnig hafi sveitarfélagið ekki leitað umsagnar hennar áður en leyfið var veitt eins og skylt sé að gera skv. 3. mgr. 61. gr. sömu laga, en fram komi í gögnum málsins að framkvæmdin sé í votlendi sem njóti verndar á grundvelli lagaákvæðisins. Að lokum sé tekið fram að ekki sé hér um tæmandi talningu annmarka að ræða.

Varðandi kærufrest sé bent á að hin kærða ákvörðun hafi verið tekin 9. september 2021, en aldrei birt samkvæmt upplýsingum frá skipulags- og byggingarfulltrúa sama dag og kæra þessi barst nefndinni. Hafi kæranda verið kunnugt um ákvörðunina um þremur vikum fyrir dagsetningu kæru. Sé kæran því fram borin innan lögboðins kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Málsrök Rangárþings ytra: Vísað sé til þess að þegar Umhverfisstofnun hafi sótt um leyfi til endurnýjunar á laugarpalli með tölvupósti 23. júlí 2021, hafi skipulags- og byggingarfulltrúi velt fyrir sér heimild til framkvæmda vegna yfirstandandi vinnu við mat á umhverfisáhrifum. Óskað hafi verið eftir afstöðu Skipulagsstofnunar 9. ágúst 2021 til umræddrar framkvæmdar. Hafi svar borist við þeirri fyrirspurn með tölvupósti 19. ágúst 2021 þar sem ekki voru gerðar athugasemdir við nauðsynlegar endurbætur ef þær væru í samræmi við gildandi deiliskipulag. Einnig hafi verið óskað eftir áliti forsætisráðuneytisins á umræddri framkvæmd 23. ágúst 2021. Þeirri beiðni hafi verið svarað 15. september s.á. og hafi forsætisráðuneytið ekki gert athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd.

Erindið hafi verið tekið fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar sveitarfélagsins 6. september 2021 og lagt til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt til útgáfu framkvæmdaleyfis þar sem að áliti nefndarinnar væri framkvæmdin ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Afgreiðsla nefndarinnar hafi verið staðfest af sveitarstjórn á fundi 9. september 2021 og framkvæmdaleyfi gefið út 15. s.m. Þá hafi sveitarfélagið beint fyrirspurn til Skipulagsstofnunar um hvort þörf væri á að auglýsa ákvörðun sveitarstjórnar sérstaklega sem svarað hefði með tölvupósti 15. september 2021 á þann veg að ekki væri þörf á auglýsingu.

Þar sem framkvæmdir við pallinn gátu ekki hafist á tilætluðum tíma vegna ytri aðstæðna hafi Umhverfisstofnun sótt um endurnýjun framkvæmdaleyfisins 26. apríl 2023. Á fundi skipulags- og umferðarnefndar sveitarfélagsins 1. júní 2023 hafi erindið verið tekið fyrir og lagt til við sveitarstjórn að heimild yrði veitt til útgáfu framkvæmdaleyfis. Eins og við fyrri umsókn mat nefndin að framkvæmdin væri ekki líkleg til að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum. Hafi því um samskonar afgreiðslu verið að ræða og áður, sem staðfest var af sveitarstjórn á fundi 14. júní 2023. Hafi framkvæmdaleyfi verið útbúið í kjölfarið, nákvæmlega eins uppsett og hið fyrra nema með breyttum dagsetningum vegna tilgreindra tafa á framkvæmdum.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Bent er á að ekki sé um að ræða búningaaðstöðupall líkt og fram komi í kæru. Um sé að ræða laugarpall við náttúrulaugina í Landmannalaugum þar sem gestir laugarinnar geti hengt upp handklæði sín undir skyggni. Hafnað sé fullyrðingum um að leyfið hafi verið fallið úr gildi þegar framkvæmdir hófust. Rangaráþing ytra hafi gefið út endurnýjað framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdunum við laugarpallinn 15. júní 2023. Það leyfi falli úr gildi innan 12 mánaða frá þeirri dagsetningu. Hafi framkvæmdir hafist eftir að leyfið hafði fengist og verið sannanlega lokið innan tímaramma hins endurnýjaða leyfis.

Rangárþing ytra hafi óskað eftir afstöðu Skipulagsstofnunar um hvort allar áformaðar fram-kvæmdir í Landmannalaugum væru háðar því að vinna við mat á umhverfisáhrifum klárist áður en framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út 15. september 2021. Í svari Skipulagsstofnunar dags. 19. ágúst s.á. komi fram að ákvörðun um matsskyldu framkvæmda í Landmannalaugum fæli ekki í sér að óheimilt væri að gera nauðsynlegar endurbætur og lagfæringar á núverandi mannvirkjum, þótt umhverfismati væri ekki lokið, enda væru framkvæmdir í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Því sé hafnað að framkvæmdin sé ekki í samræmi við skilmála. Friðlýsingarskilmálar friðlands að Fjallabaki frá 1979 byggist á ákvæðum 24. gr. þágildandi náttúruverndarlaga nr. 47/1971. Þar segi að ekki megi gera „mannvirki, sem spilla svip landsins“. Ekki sé verið að spilla svip landsins heldur einungis verið að bæta aðstöðu og aðgengi. Þá sé hvergi tekið fram í lögum, auglýsingu um friðlýsinguna nr. 354/1979 eða í stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið að mannvirkjagerð sé ekki heimil á svæðinu. Í kafla 3.7 í stjórnunar- og verndaráætlun komi fram að allar endurbætur og frekari uppbygging innviða og mannvirkja á svæðinu skuli falla vel að náttúru og umhverfi. Jafnframt að innviðir skuli stuðla að verndun svæðisins og gera móttöku og upplifun gesta sem heimsækja svæðið sem jákvæðasta. Umhverfisstofnun telji laugarpallinn sem um ræði uppfylla framangreind skilyrði og ítrekar það sem áður hafi komið fram um að endurnýjun pallsins hafi meðal annars verið tilkomin vegna álags á gróðri í kringum hann.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um leyfi til endurnýjunar og stækkunar á laugarpalli við heitu náttúrulaugina í Landmannalaugum. Sveitarstjórn Rangárþings ytra samþykkti umsókn um leyfi til framkvæmdanna með veitingu framkvæmdaleyfis 9. september 2021, sem samþykkt var að endurnýja af hálfu sveitarstjórnar 14. júní 2023. Fól leyfið í sér heimild fyrir 25 m2 laugarpalli.

Í gildi er deiliskipulag fyrir Landmannalaugar frá árinu 2018 þar sem heimilaðar eru fram-kvæmdir við uppbyggingu þjónustumiðstöðvar og er endurnýjun laugarpallsins hluti þeirra framkvæmda. Þá gilda friðlýsingarskilmálar friðlands að Fjallabaki frá árinu 1979 um svæðið sem byggjast á ákvæðum 24. gr. þágildandi náttúruverndarlaga nr. 47/1971, þar sem tekið er fram að ekki megi gera „mannvirki, sem spilla svip landsins“. Fyrirhugaðar framkvæmdir voru tilkynningarskyldar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 6. gr. og lið 12.05 í viðauka í þágildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000.

Hinn 16. febrúar 2018 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhugaðar fram-kvæmdir gætu haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem talin væru upp í 2. viðauka þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og skyldu því sæta umhverfismati. Hinn 19. ágúst 2021 svaraði stofnunin fyrirspurn leyfishafa um hvort framkvæmdir við laugarpallinn væru háðar því að mat á umhverfisáhrifum lægi fyrir. Taldi stofnunin að ákvörðun um matsskyldu framkvæmda fæli ekki í sér að óheimilt væri að gera nauðsynlegar endurbætur og lagfæringar á núverandi mannvirkjum þótt umhverfismati væri ekki lokið, enda væru framkvæmdir í samræmi við gildandi deiliskipulag. Fyrir liggur að umræddur pallur er skilgreindur sem mannvirki í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, en þar er tekið fram að „Áformað er að reisa ýmis mannvirki; byggingar, palla, skýli, stíga, brýr og baðlaug auk tjaldsvæðis og bílastæða.“ Einnig liggur fyrir að leyfishafi sótti um byggingarleyfi fyrir pallinum á árinu 2021, en sú umsókn var afgreidd með veitingu framkvæmdaleyfis.

Samkvæmt 13. tl. 3. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, er hugtakið mannvirki skilgreint sem hvers konar jarðföst manngerð smíð. Að mati nefndarinnar telst 25 m2 laugarpallur með skyggni til mannvirkis í skilningi ákvæðisins. Í 9. gr. laganna kemur fram sú meginregla að gerð mannvirkis, breytingar á því og notkun þess sé háð leyfi byggingarfulltrúa sem tekur byggingarleyfisumsóknir til meðferðar og afgreiðir þær í samræmi við 10.-13. gr. laganna. Samkvæmt 9. tl. 1. mgr. 2. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er framkvæmdaleyfi hins vegar leyfi til framkvæmda í samræmi við skipulag sem ekki eru háðar ákvæðum laga um mannvirki. Í 13. gr. laganna er tekið fram að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfis-áhrifum. Þó þurfi ekki að afla slíks leyfis vegna framkvæmda sem háðar eru byggingarleyfi samkvæmt lögum um mannvirki. Að nefndum lagaákvæðum virtum var það í verkahring byggingarfulltrúa að taka umrædda umsókn um breytingar á laugarpallinum til meðferðar og afgreiðslu samkvæmt ákvæðum mannvirkjalaga en leyfisveitingin var eins og fyrr er rakið undirbúin og afgreidd eftir ákvæðum skipulagslaga um framkvæmdaleyfi.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið var málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar ekki lögum samkvæmt og ber af þeim sökum að fella hana úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Rangárþings ytra frá 14. júní 2023 um að veita Umhverfisstofnun framkvæmdaleyfi vegna laugarpalls við náttúrulaugina í Landmanna-laugum.

94/2023 Víðiholt

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 31. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2023, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. október 2022, um að samþykkja deiliskipulag íbúðarbyggðar við Víðiholt á Álftanesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 9. ágúst 2023, kærir íbúi við Asparholt 6, Garðabæ, ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 6. október 2022 um deiliskipulag íbúðarbyggðar við Víðiholt á Álftanesi. Er þess krafist að sveitarfélagið svari ítrekuðum spurningum íbúa við Asparholt og að nýtt hverfi við Víðiholt rísi ekki hærra en kynnt hafi verið fyrir íbúum og samþykkt hafi verið af bæjaryfirvöldum.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Garðabæ 28. ágúst 2023.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 4. nóvember 2021 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi íbúðarbyggðar við Víðiholt á Álftanesi. Tillagan var auglýst frá 10. nóvember 2021 til og með 16. febrúar 2022 og bárust 15 erindi með athugasemdum. Skipulags­tillagan var tekin fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar 27. september 2022 með til­teknum breytingum sem gerðar voru til að koma til móts við athugasemdir íbúa. Var tillagan samþykkt með vísan til 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Á fundi bæjarráðs 4. október s.á. var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja tillögu skipulagsnefndar um deili­skipulag íbúðar­byggðar við Víðiholt á Álftanesi. Var deiliskipulagstillagan samþykkt á fundi bæjar­stjórnar 6. s.m. og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 13. desember 2022.

Málsrök kæranda: Byggt er á því að nýtt hverfi, Víðiholt á Álftanesi, hafi ekki verið kynnt íbúum með raunsönnum hætti. Íbúar sem hagsmuna hafi átt að gæta hafi ítrekað óskað gagna um áhrif hverfisins, frá fasteignum þeirra séð, en án árangurs. Íbúar við Asparholt óttist að hverfið rísi ekki lægra en Asparholt, svo sem kynnt hafi verið, og hafi ítrekað farið fram á upplýsingar af því tilefni án þess að svör hafi borist frá fulltrúum skipulagsnefndar. Draga megi í efa að slíkt skeytingarleysi standist stjórnsýslulög.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er farið fram á að máli þessu verði vísað frá þar sem kæra verði að teljast vanreifuð og tilefnislaus. Við afgreiðslu deiliskipulags íbúðar­byggðar við Víðiholt hafi þess verið gætt að uppfylla málsmeðferðarreglur skipulagslaga varðandi kynningu gagnvart íbúum og að sú ákvörðun verði nú ekki borin undir úrskurðar­nefndina. Frekari formleg kynning á deiliskipulaginu sé ekki fyrirhuguð og kæranda megi vera það ljóst. Sveitar­félagið muni hins vegar halda áfram að upplýsa kæranda og svara fyrir­spurnum um fram­gang framkvæmda eins og gert hafi verið.

Í kæru sé farið fram á að fá svör við beiðni um hæðarmælingar. Sveitarfélagið hafi hlutast til um að láta gera mælingar á sökklum lóðanna við Víðiholt 1 og 2 og verði niðurstöðurnar sendar kæranda. Samkvæmt mælingum hafi húsin verið reist samkvæmt uppgefnum kótum á hæðar­blöðum. Ekki hafi legið fyrir yfirborðsmælingar af svæðinu óröskuðu.

Á hæðarblöðum komi fram að gólfkóti Víðiholts 1 sé 5,30 og gólfkóti Víðiholts 3 sé 5,50. Á aðaluppdráttum fjölbýlishúsanna við Asparholt 2, 4 og 6 komi fram gólfkóti húsanna nr. 2 og 4 sé 5,85 og húss nr. 6 sé 6,05. Augljóst sé að fjölbýlishúsin við Víðiholt 1 og 3 standi lægra en fjölbýlishúsin við Asparholt 2, 4 og 6. Samþykktar teikningar fjölbýlishúsanna við Víðiholt 1 og 3 hafi verið yfirfarnar að nýju með tilliti til deiliskipulagsskilmála og sé hæð bygginga innan leyfilegrar hámarkshæðar. Fjölbýlishúsin séu því byggð í samræmi við deiliskipulags­skilmála og í samræmi við heimildir hvað hæðarsetningar varði.

Ljóst sé að allar upplýsingar liggi fyrir um fyrirhugaðar framkvæmdir við uppbyggingu íbúðabyggðar við Víðiholt. Sveitarfélagið muni tryggja eftirlit með því að framkvæmdir verði í samræmi við samþykkta deiliskipulagsskilmála. Hvað varði kvartanir kæranda um að fulltrúar í skipulagsnefnd hafi ekki svarað mikilvægum spurningum varðandi kynningu og fram­kvæmdir sé bent á að það sé ekki hlutverk einstakra nefndarmanna að svara spurningum í nafni nefndarinnar. Þá sé óljóst hverjar þær spurningar séu. Endanlegar ákvarðanir í málinu séu á ábyrgð bæjarstjórnar.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Bent er á að íbúar við Asparholt 2, 4 og 6 hafi á öllum stigum málsins óskað eftir raunverulegri kynningu á nýju hverfi við Víðiholt og að notast yrði við myndir teknar af svölum þeirra. Sveitarfélagið hafi algjörlega hunsað að svara þeirri beiðni sem og tölvupósti með fyrirspurnum frá því í júlí 2023. Í greinargerð bæjarritara frá lok ágúst séu ekki skýr svör við spurningunum, þar á meðal varðandi hæðarsetningar á húsum og lóðum.

Niðurstaða: Skilja verður málskot kæranda svo að kærð sé málsmeðferð bæjaryfirvalda Garðabæjar vegna deiliskipulags sem tekur til hverfisins Víðiholts á Álftanesi sem samþykkt var í bæjarstjórn Garðabæjar 6. október 2022. Lúta aðfinnslur kæranda fyrst og fremst að kynningu hins nýja hverfis og ónógum svörum bæjaryfirvalda við óskum íbúa um frekari upplýsingar í kjölfar gildistöku deiliskipulagsins.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þá kemur fram að sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hið kærða deiliskipulag tók gildi með auglýsingu sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 13. desember 2022 og rann kærufrestur vegna þess út 16. janúar 2023, sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Var kærufrestur vegna deiliskipulagsins því liðinn er kæra í máli þessu barst nefndinni hinn 9. ágúst 2023. Verður því ekki tekin afstaða til lögmætis málsmeðferðar bæjaryfirvalda Garðabæjar vegna hins umdeilda deiliskipulags í máli þessu í samræmi við 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kæru­málum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Samskipti og skoðanaskipti stjórnvalda og borgara koma einungis til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni í tengslum við ákvörðun sem kæranleg er til nefndarinnar og tekin er til efnismeðferðar.

Að öllu framangreindu virtu liggur ekki fyrir í máli þessu ákvörðun sem sætt getur lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar og verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.