Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

104/2013 Hverfisgata

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 25. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 104/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. ágúst 2013 um að veita byggingarleyfi til að innrétta veitingahús í flokki III að Hverfisgötu 20 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. október 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Laugavegi 5, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. ágúst 2013 að veita byggingarleyfi til að innrétta veitingahús í flokki III að Hverfisgötu 20. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 10. janúar 2014 og 27. október 2015.

Málavextir: Húsið að Hverfisgötu 20 er steinsteypt bílastæðahús, en á fyrstu hæð í norðvesturenda þess er rými þar sem rekin var verslun.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 12. apríl 2013 var lögð fram fyrirspurn um hvort leyfi fengist til að innrétta kaffihús í flokki III í fyrrgreindu verslunarrými og byggja timburverönd við vesturhlið hússins. Var fyrirspurninni vísað til umsagnar hjá verkefnisstjóra. Á fundi skipulagsfulltrúa 18. s.m. var lögð fram umsögn hans, dags. 17. s.m., þar sem ekki var gerð skipulagsleg athugasemd við að breyta notkun hússins úr verslun í veitingastað. Hinn 13. ágúst 2013 var samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til áðurgreindra breytinga og framkvæmda en þar lá fyrir fyrrgreind umsögn skipulagsfulltrúa. Þar kom fram að opnunartími sé heimilaður til kl. 01 alla daga vikunnar. Hámarks gestafjöldi sé 110 manns í sal og 20 manns á útipalli. Þá lá jafnframt fyrir greinargerð um hljóðvist, dags. 15. júlí 2013, og samþykki eigenda, dags. 19. s.m. og 1. ágúst s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hann hafi fengið afhent gögn í tölvupósti hinn 9. október 2013 varðandi hið kærða leyfi. Íbúð kæranda sé bak við húsið að Hverfisgötu 20 og aðgengi að íbúð hans sé um Traðarkotssund framhjá fyrrnefndu húsi. Nú þegar sé mikið ónæði af veitingastað í húsi nr. 18 við Hverfisgötu. Þar hafi upphaflega verið gefið leyfi fyrir lágstemmdu kaffihúsi en þar sé nú leyfi fyrir veitingahúsi í flokki III. Þá hefði þurft að grenndarkynna hina kærðu breytingu þar sem verslun hafi verið breytt í veitingahús.

Í greinargerð um hljóðvist frá 15. júlí 2013 sem gerð hafi verið af verkfræðistofu komi fram að skoða þurfi eða áætla kröfur um hæsta leyfilega hljóðstig við nálæg eða tengd íbúðarhús til að gera sér grein fyrir hljóðvist vegna starfsemi staðarins. Að Laugavegi 5 séu fimm íbúðir sem ekki séu nefndar í greinargerðinni, en hljóðstig sé mælt á gistiheimili handan Hverfisgötunnar, gegnt húsinu að Hverfisgötu 20.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er skírskotað til þess að húsið að Hverfisgötu 20 sé staðsett á miðborgarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Fyrrnefnd gata sé á skilgreindu hliðarverslunarsvæði A-I.II (sic) og sé samkvæmt skilgreiningu aðalskipulags hliðarverslunargata í miðborg þar sem fjölbreytileg notkun sé leyfð, þ.m.t. rekstur veitingastaða. Um landnotkun á miðborgarsvæðinu sé fjallað í sérstakri greinargerð með aðalskipulaginu, greinargerð III, þróunaráætlun miðborgar, landnotkun. Í þróunaráætlunni sé sérákvæði um að borgaryfirvöld vilji, sem lið í því að viðhalda og efla fjölbreytt mannlíf í borginni, stuðla að samspili verslunarreksturs og veitingareksturs og þyki rétt í því skyni að leyfa rýmri afgreiðslutíma áfengis á aðalverslunarsvæðum V-I.I og hliðarverslunarsvæðum V-II.I. Á svæði því sem hér um ræði, hliðarverslunarsvæði V-II.I, sé sérstaklega gert ráð fyrir rýmri opnunartíma veitingastaða.

Í deiliskipulagi reitsins sem beri heitið deiliskipulag Reykjavíkurborg, Laugavegs- og Skólavörðustígsreitir, staðgreinireitur 1.171.0, sé ekki frekari takmörkun á landnotkun svæðisins frá því sem aðalskipulag geri ráð fyrir. Í greinargerð um núverandi ástand á reitnum komi fram að fjölbreytt starfsemi sé á götuhæðum sem sé í samræmi við markmið þróunaráætlunar. Umsóknin um breytta notkun umrædds rýmis að Hverfisgötu 20 falli því bæði að ákvæðum aðal- og deiliskipulags. Þar sé heimiluð starfsemi af því tagi sem hér um ræði, ef uppfyllt séu skilyrði um frágang og notkun húsnæðisins sem miði að því að taka sérstaklega tillit til íbúa og jafnvel annarra hagsmunaaðila í nágrenninu. Tryggt hafi verið að allur tæknilegur frágangur húseignarinnar yrði með þeim hætti að ekki yrði hætta á röskun grenndarhagsmuna umfram það sem eðlilegt megi teljast á miðborgarsvæði, sérstaklega hvað varði atriði eins og hljóðvist vegna starfsemi innanhúss.

Í greinargerð um hljóðvist, dags. 15. júlí 2013, komi fram að í húsunum sem næst standi kaffihúsinu séu ýmist skrifstofur eða veitingahús með næturopnun. Handan götunnar sé Þjóðleikhúsið og við hlið þess skrifstofuhús, sem nú sé notað sem gistihús. Engar úrbætur þurfi að fara fram á húsnæðinu enda kröfum sem gerðar séu til hljóðeinangrunar uppfyllt, sbr. byggingarreglugerð og reglugerð um hávaða, bæði gagnvart umhverfinu og innan hússins sjálfs. Óþarfi hafi verið að grenndarkynna breytingu húsnæðisins úr verslun í kaffihús enda húsið skilgreint sem atvinnu- og þjónustuhúsnæði og breytingin í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag fyrir reitinn.

Aðalumkvörtunarefni kæranda lúti frekar að almennum reglum um hegðun borgaranna á almannafæri en að skipulagslegum forsendum miðborgarinnar. Um ábyrgð rekstraraðila sé fjallað í lögreglusamþykkt fyrir Reykjavíkurborg nr. 1097/2008 en í 26. gr. hennar komi fram að hver sá sem reki veitingastað skuli sjá um að allt fari þar vel fram og að starfsemin valdi hvorki nágrönnum né vegfarendum ónæði. Brot á fyrrnefndri samþykkt geti varðað sviptingu nauðsynlegra leyfa vegna starfseminnar. Skipulags- og byggingaryfirvöld þurfi þrátt fyrir þetta að hafa til hliðsjónar þau áhrif sem starfseminni fylgi utandyra, en að sama skapi sé ómögulegt að meta hvort þau áhrif sem hin kærða samþykkt heimili leiði til þeirra skerðingar á hagsmunum nágranna sem fullyrt sé af hálfu kæranda. Í umræddu húsi auk nærliggjandi húsa, hafi verið reknir veitingastaðir og skemmtistaðir til fjölda ára. Ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að það hefði verið brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ef umsókn byggingarleyfishafa hefði sætt annarri meðferð og takmörkunum en umsóknir þeirra aðila sem nú þegar séu með rekstur á svæðinu. Ekki sé hægt að rökstyðja synjun þar sem fyrirhuguð nýting sé í samræmi skilmála svæðisins og hafi byggingarleyfishafi að öllu leyti uppfyllt þau skilyrði sem sett hafi verið fyrir veitingu leyfisins í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

——-

Leyfishöfum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í tilefni af kærumáli þessu en engar athugasemdir hafa borist úrskurðarnefndinni af þeirra hálfu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi þar sem heimilað var að breyta notkun verslunarrýmis að Hverfisgötu 20 í veitingastað í flokki III. Samkvæmt 4. gr. laga nr. 85/2007, um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, falla eftirgreindir veitingastaðir í flokk III: „Umfangsmiklir áfengisveitingastaðir, svo sem þar sem leikin er hávær tónlist og/eða afgreiðslutími er lengri en til kl. 23 og kalla á meira eftirlit og/eða löggæslu.“

Umrætt hús er innan deiliskipulagsreits sem afmarkast af Laugavegi, Bankastræti, Ingólfsstræti, Hverfisgötu og Traðarkotssundi. Svæðið er hluti miðborgar Reykjavíkur samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, sem var í gildi er leyfið var samþykkt. Í landnotkunarþætti þróunaráætlunar miðborgar, sem er hluti af fyrrgreindu aðalskipulagi, er miðborginni skipt í landnotkunarreiti, þ.e. miðborgarkjarna, atvinnusvæði, aðalverslunarsvæði og hliðarverslunarsvæði. Laugavegur og Bankastræti innan deiliskipulagsreitsins, þar með talin fasteign kæranda, eru á auðkenndu aðalverslunarsvæði V-I.I en suðurhlið Hverfisgötu, þar sem húsið nr. 20 stendur, er staðsett á hliðarverslunarsvæði V-II.I. Norðurhlið Hverfisgötu gegnt hinu umdeilda húsi er utan deiliskipulagsreitsins á skilgreindu atvinnusvæði A-I.II. Á hliðarverslunarsvæðum hafa verið skilgreind fjögur götusvæði þar sem nákvæmari stýringu verði beitt til að tryggja æskilega dreifingu notkunar og er eitt þeirra Hverfisgata, þ.e. suðurhlið hennar frá og með nr. 4 til og með nr. 62. Telst því Hverfisgata nr. 20 til þeirra skilgreindra götusvæða.

Í aðalskipulaginu var svo kveðið á um skilyrði fyrir breytingu á notkun húsnæðis úr verslun í aðra notkun á jarðhæð götuhliða á framangreindum skilgreindum götusvæðum hliðarverslunarsvæða. Breytingin var eingöngu heimil ef hlutfall annarrar notkunar en smásöluverslunar og matvöruverslunar færi ekki yfir 50% á hverju götusvæði fyrir sig, samfelld götuhlið jarðhæðar undir aðra notkun væri ekki meiri en 30 m og notkunin hefði ekki neikvæð áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna lyktar, hávaða, sorps eða af öðrum ástæðum. Sú skýring var gefin fyrir framangreindu að viðurkennt væri að önnur notkun en smásöluverslun gæti eflt miðborgir og þess vegna væri slík notkun heimiluð á hliðarverslunarsvæðum að því tilskyldu að hún skyggði ekki á verslun. Hinn 28. maí 2009 tók gildi breyting á aðalskipulaginu varðandi skilgreind götusvæði. Í breytingunni fólst að þegar sótt væri um breytingu á notkun húsnæðis á skilgreindu götusvæði sem leiða myndi til þess að viðkomandi notkun færi lítillega fram yfir skilgreind viðmið, væri heimilt að taka jákvætt í erindið en frávikið mætti þó ekki vera meira en 5% á viðkomandi götusvæðum á hliðarverslunarsvæðum og að hvert frávik yrði metið sérstaklega og tekið til umfjöllunar í skipulagsráði.

Úrskurðarnefndin leitaði upplýsinga hjá borgaryfirvöldum um hvert hafi verið hlutfall smásölu- og matvöruverslunar á jarðhæðum húsa er snéru að Hverfisgötu á umræddu götusvæði þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Var upplýst að samkvæmt skráningu embættis skipulagsfulltrúa á starfsemi við Hverfisgötu 4-62 fyrir árið 2013 hafi hlutfall smásöluverslunar einungis verið 38%, en á svæðinu var ekki að finna matvöruverslun. Með hinni kærðu ákvörðun var því farið gegn fyrrgreindum ákvæðum aðalskipulags um hlutfall smásölu- og matvöruverslunar á umræddu götusvæði við Hverfisgötu, enda nam hlutfall annarrar notkunar þá 62%.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og kröfu 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki varðandi samræmi byggingarleyfis við gildandi skipulagsáætlanir verður hið kærða byggingarleyfi fellt úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 13. ágúst 2013 um að veita byggingarleyfi til að innrétta veitingahús í flokki III að Hverfisgötu 20 í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Þorsteinn Þorsteinsson

102/2013 Álfsnes

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 26. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 102/2013, kæra á ákvörðun Sorpu bs. um að kæranda beri að upplýsa, með tilgreiningu á póstnúmeri, hvaðan úrgangur sem afhentur er í Álfsnesi sé upprunninn.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Íslenska gámafélagið ehf., Gufunesvegi, Reykjavík, þá ákvörðun Sorpu bs. frá 16. október 2013 að krefjast þess að kærandi gefi upp póstnúmer þess svæðis sem baggaður úrgangur sem hann kemur með til urðunar í Álfsnesi er upprunninn. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að frestað verði réttaráhrifum ákvörðunarinnar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með bréfi, dags. 1. nóvember 2013, féllst Sorpa bs. á að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar þar til niðurstaða úrskurðarnefndarinnar lægi fyrir. Með hliðsjón af því var ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda en málið nú tekið til endanlegs úrskurðar.

Gögn málsins bárust frá Sorpu bs. 16. desember 2013.

Málavextir: Með umburðarbréfi Sorpu bs., dags. 18. júní 2013, sem beint var til þeirra er kæmu með baggaðan úrgang í Álfsnes, var tilkynnt að til að uppfylla skilyrði um skráningu á uppruna baggaðs úrgangs þyrftu þeir sem kæmu með slíkan úrgang á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi að gefa fyrirtækinu árlega yfirlit um úr hvaða póstnúmeri úrgangur í böggunum kæmi.

Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þessari kröfu Sorpu bs. með bréfi, dags. 10. október 2013. Lýsti kærandi því jafnframt yfir að þar til að borist hefðu efnisleg svör grundvölluð á gildandi lögum væri neitað að veita umbeðnar upplýsingar. Vísaði kærandi m.a. til bréfs frá Umhverfisstofnun til Sorpu bs., dags. 19. júní 2009, þar sem segði: „Það skal þó tekið fram að úrgangshafa ber ekki að láta rekstraraðila urðunarstaðar í té upplýsingar eða gögn sem eru viðskiptalegs eðlis, t.d. á það við um upplýsingar um uppruna úrgangs – með uppruna úrgangs er átt við starfsemi eða framleiðsluferli sem úrgangurinn myndast í en ekki nöfn fyrirtækja sem úrgangur er ættaður frá.“

Í svari Sorpu bs. til kæranda, dags. 16. október 2013, kemur fram að fyrirtækið byggi sína framkvæmd á greindu bréfi Umhverfisstofnunar. Í samræmi við ákvæði III. kafla reglugerðar um urðun úrgangs nr. 738/2003 sé allur úrgangur sem tekið sé við í Álfsnesi upprunaskráður, þ.e. eftir póstnúmeri. Það sé ótvíræð skylda fyrirtækisins að halda utan um umbeðnar upplýsingar. Var kæranda veittur 10 daga frestur til að verða við kröfum Sorpu bs., en að öðrum kosti yrði móttöku hætt á bögguðum úrgangi frá honum. Hefur sú ákvörðun verið kærð, eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Kærandi telur skýringar Umhverfisstofnunar á því hvað felist í upplýsingum um uppruna ótvíræðar, sbr. bréf stofnunarinnar frá 19. júní 2009. Þær feli ekki í sér heimild til rekstraraðila urðunarstaðar til að fá upplýsingar viðskiptalegs eðlis eða um það frá hvaða fyrirtækjum eða einstaka póstnúmerum úrgangur stafi. Með þeim upplýsingum gæti Sorpa bs. kortlagt umsvif og starfsemi kæranda og þannig komist yfir mikilvægar viðskiptaupplýsingar sem gætu skaðað samkeppnishæfni hans.

Með bréfi til kæranda, dags. 16. október 2013, hafi Sorpa sett fram rök til stuðnings kröfu sinni um að kærandi veiti upplýsingar um upprunapóstnúmer úrgangs. Vísi Sorpa þar helst til áðurnefnds bréfs Umhverfisstofnunar frá 19. júní 2009 og til reglugerðar nr. 738/2003. Samkvæmt bréfi Sorpu, dags. 18. júní 2013, eigi strangari reglur um upprunalýsingar ekki að taka gildi fyrr en um áramótin þar á eftir, en samt sem áður gefi Sorpa kæranda 10 daga frest til að verða við kröfunum. Þannig geri Sorpa strangari kröfur til kæranda en annarra viðskiptavina. Þetta sé valdníðsla og brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Ljóst megi vera af lestri laga um meðhöndlun úrgangs nr. 55/2003 og reglugerðar nr. 738/2003, sem og bréfi Umhverfisstofnunar frá 19. júní 2009, að krafa Sorpu bs. um upplýsingar um þau póstnúmer er úrgangur komi frá sé án allrar lagastoðar og í andstöðu við túlkun Umhverfisstofnunar. Því beri að ógilda hina kærðu ákvörðun.

Málsrök Sorpu bs.: Sorpa bs. kannast við að fyrirtækið sé eitt með aðstöðu til förgunar úrgangs á starfssvæði sínu. Þess vegna sé fyrirtækið ekki í neinni samkeppni við kæranda hvað þá starfsemi varði. Fyrirtækið beri ábyrgð á því að farið sé eftir æ strangari reglum við móttöku og meðferð úrgangs á urðunarstað og beri fyrirtækinu m.a. að hlíta fyrirmælum laga og reglugerða og kröfum Umhverfisstofnunar þar um.

Krafan um að upplýst sé um uppruna úrgangs þegar hann sé afhentur á urðunarstað eigi sér upphaf í urðunartilskipun Evrópusambandsins: Landfill Directive 1999/31/EC. Þar segi m.a. í grein 11, 1.b.: „Keeping a register of the quantities and characteristics of the waste deposited, indicating origin, date of delivery, identity of the producer or collector in the case of municipal waste, and, in the case of hazardous waste, the precise location on the site. This information shall be made available to the competent national and Community statistical authorities when requested for statistical purposes.“

Fjallað sé um lýsingu á grunneiginleikum úrgangs í 1. kafla í viðauka II í reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs. Í gr. 1.1.2. sé fjallað um grundvallarkröfur sem gerðar séu til lýsingar á grunneiginleikum úrgangs en samkvæmt ákvæðinu skuli m.a. tilgreina: a) tilurð og uppruna úrgangsins, b) upplýsingar um framleiðsluferlið sem úrgangurinn verði til við, c) lýsingu á vinnslu úrgangsins, d) gögn um samsetningu úrgangsins, e) eiginleika úrgangsins, f) flokka úrgangs samkvæmt reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2004, hafi fyrirtækið spurt Umhverfisstofnun um atriði varðandi kröfur um skráningu samkvæmt þá nýsettri reglugerð nr. 738/2003. Í svarbréfi stofnunarinnar, sem borist hefði rúmum fimm árum síðar, sé áréttað að rekstraraðili urðunarstaðar beri ábyrgð á skráningu sem lúti að uppruna, eðli og samsetningu úrgangs og skuli úrgangshafi leggja fram gögn sem sýni að úrgangur sé tækur til urðunar. Sé það á ábyrgð rekstraraðila urðunarstaðarins að sannprófa það eftir því sem mögulegt sé.

Reynt hafi verið að finna skynsamlegustu leiðina til að uppfylla kröfur um að sýna megi fram á að úrgangur sem tekið sé við sé tækur til urðunar og um að úrgangur sé rekjanlegur ef vandamál komi upp, t.d. vegna mengunar. Hafi skráningarferli vegna afhendingar úrgangs í Álfsnesi verið uppfært og þá m.a. tekið upp að fyrir lægi í gögnum fyrirtækisins hvaðan úrgangurinn væri, eins og verið hafi í Gufunesi fyrir þann úrgang sem ætlaður sé til urðunar. Skráning póstnúmera hafi verið talin skynsamlegasta leiðin þar sem þannig væri bæði uppfyllt krafan um að skrá skuli uppruna og einnig komið til móts við þær takmarkanir sem Umhverfisstofnun hefði sett um skráningu viðskiptaupplýsinga. Ekki verði með nokkru móti séð að upplýsingar, sem kærandi skili Sorpu einu sinni á ári þar sem eingöngu komi fram magn úrgangs til urðunar úr hverju póstnúmeri, séu á einhvern hátt viðskiptaupplýsingar eða að hægt sé að nota þær upplýsingar sem slíkar. Einn samkeppnisaðila kæranda hafi ekki talið þetta til viðkvæmra viðskiptaupplýsinga og skilað umbeðnum gögnum frá því að krafan hafi fyrst verið sett fram. Á það skuli og bent að fyrirtækið stundi ekki söfnun á úrgangi í samkeppni við kæranda og því vandséð hvernig það ætti að nýta sér slíkar upplýsingar. Rétt sé einnig að árétta að skráningarkerfið hafi verið kynnt Umhverfisstofnun oftar en einu sinni og að engar athugasemdir hafi borist þaðan. Póstnúmerakerfið hafi því verið talið skásta leiðin, en erfitt sé að sjá að með þeirri aðferð sé unnt að rekja uppruna til ákveðins fyrirtækis eða stofnunar. Tillögurnar hefðu verið gerðar í samráði við Umhverfisstofnun, eins og áður segi.

Fulltrúar kæranda hafi sótt kynningarfund 22. október 2009, þar sem kynnt hafi verið hvernig Sorpa hygðist mæta kröfum um skráningu á uppruna úrgangs með skráningu póstnúmera. Kærandi hefði ekki hreyft andmælum eða gert athugasemdir við þá kynningu. Aðrir aðilar sem afhendi úrgang í Álfsnesi upplýsi um uppruna samkvæmt póstnúmerum. Eingöngu sé krafist póstnúmera þegar um sé að ræða úrgang sem ætlaður sé til urðunar, en ekki fyrir annan úrgang.

Það sé rangt að Sorpa hafi gert strangari kröfur til kæranda en annarra. Tekið sé fram í bréfinu til kæranda frá 18. júní 2013 að búast megi við strangari kröfum um skráningu en þeim sem þegar séu við hafðar. Komi það fram í drögum að starfsleyfi Sorpu sem líklega taki gildi um næstu áramót. Þær kröfur sem gerðar hafi verið til kæranda séu nákvæmlega samskonar þeim kröfum sem gerðar hefðu verið til annars aðila og hafi það fyrirtæki skilað gögnum síðastliðin tvö ár.

Álit Umhverfisstofnunar: Með bréfi, dags. 18. maí 2015, leitaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eftir áliti Umhverfisstofnunar, sem sérfróðs aðila á þessu sviði, á því hvort krafa Sorpu bs. um upplýsingar um upprunapóstnúmer úrgangs uppfylli kröfur ákvæða reglugerðar nr. 738/2003 um urðun úrgangs.

Í áliti Umhverfisstofnunar frá 27. ágúst 2015 kemur fram að í tilskipun Evrópusambandsins 1999/31/EB segi í gr. 11.1.b að rekstraraðili skuli halda skrá yfir urðaðan úrgang, m.a. uppruna, framleiðanda eða söfnunaraðila ef um heimilisúrgang sé að ræða. Efnislega samhljóða ákvæði sé í 11. gr. reglugerðar nr. 738/2003 og í gr. 4.1 í gildandi starfsleyfi Sorpu bs. fyrir urðunarstaðinn í Álfsnesi.

Umhverfisstofnun vísar í áður tilvitnað bréf stofnunarinnar, dags. 19. júní 2009. Þar komi fram að merking uppruna úrgangs vísi til starfsemi eða framleiðsluferlis sem úrgangur myndist í. Sú skrá sem halda skuli yfir urðaðan úrgang, þar sem m.a. eigi að skrá framleiðanda úrgangs, nái ekki fortakslaust til heimilisúrgangs heldur megi þá gefa upp söfnunaraðila úrgangsins. Það fari því eftir tegund úrgangs hvernig halda skuli umrædda skrá. Ef um væri að ræða t.a.m. rekstrarúrgang frá álveri þá yrði uppruni hans skráður sem álframleiðsla og viðkomandi álver skráð sem framleiðandi.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um heimild Sorpu bs. til að krefjast þess af kæranda að hann gefi upp póstnúmer þess svæðis sem baggaður úrgangur sem kærandi kemur með til urðunar í Álfsnesi er upprunninn.

Reglugerð nr. 738/2003 um urðun úrgangs er sett með heimild í þágildandi 29. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt 2. mgr. 31. gr. reglugerðarinnar er hún sett m.a. með hliðsjón af ESB-tilskipun 1999/31/EB, sem fjallar um urðun úrgangs. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að markmið hennar sé að stuðla að því að urðun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið. Í því felist að urðun úrgangs mengi ekki vatn, jarðveg né andrúmsloft, að dregið verði úr þeirri hættu sem förgun úrgangs getur haft á heilsu manna og dýra, að dregið verði úr urðun úrgangs og að urðun verði háttað þannig að úrgangur nái jafnvægi við umhverfi sitt á sem skemmstum tíma. Reglugerðin fjallar m.a. um starfsleyfi urðunarstaða og í b-lið 2. mgr. 16. gr. kemur nánar fram að í starfsleyfi skuli vera ákvæði um skrásetningu úrgangs, sbr. 11. gr. Í nefndri 11. gr. segir m.a. að rekstraraðili skuli halda skrá yfir allan urðaðan úrgang. Skrá skuli magn og eiginleika úrgangs, uppruna, dagsetningu móttöku og framleiðanda úrgangs eða söfnunarfyrirtæki ef um er að ræða heimilisúrgang. Í máli þessu er deilt um hvort Sorpa bs., vegna nefndrar skráningar, geri ólögmætar kröfur til kæranda með því að krefja hann um póstnúmer þess svæðis sem baggaður úrgangur, er hann kemur með til urðunar á urðunarsvæði Sorpu í Álfsnesi, er upprunninn.

Samkvæmt því sem áður er rakið leggur 11. gr. reglugerðar nr. 738/2003 ákveðnar skyldur á herðar rekstraraðila urðunarstaðar um söfnun og skráningu upplýsinga. Eins og skýrt kemur fram í orðalagi ákvæðisins er um að ræða fortakslausa skyldu rekstraraðila urðunarstaðar til að halda skrá yfir urðaðan úrgang, þar sem m.a. skal skrá uppruna hans og framleiðanda. Umhverfisstofnun, sem annast eftirlit með og veitir leiðbeiningar um framkvæmd reglugerðar nr. 738/2003, hefur leiðbeint Sorpu bs., í bréfi frá 19. júní 2009, á þá leið að ef um sé að ræða úrgang sem búið sé að meðhöndla fyrir afhendingu, þannig að rekstraraðili urðunarstaðar telji sig ekki geta skráð grunneiginleika úrgangsins sjálfur, þá geti hann óskað eftir nauðsynlegum gögnum frá úrgangshafa til að geta uppfyllt ákvæði um skráningu. Böggun felur í sér þjöppun úrgangs í bagga til að minnka rúmmál hans, sbr. skilgreiningu þar um í 3. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs. Má ljóst vera að eftir slíka meðhöndlun er rekstraraðili sem tekur við úrganginum ekki í aðstöðu til að skrá þá eiginleika hans sem krafist er. Er því óhjákvæmilegt fyrir hann að krefja úrgangshafa, er koma með úrgang til urðunar, um þær upplýsingar.

Í nefndu bréfi, sem og í áliti sínu frá 27. ágúst 2015, skýrir Umhverfisstofnun uppruna úrgangs, í skilningi áðurnefndrar 11. gr. reglugerðar nr. 738/2003, sem starfsemi eða framleiðsluferli sem úrgangur myndast í. Í bréfinu er tekið fram að úrgangshafa beri ekki að láta rekstraraðila urðunarstaðar í té upplýsingar eða gögn sem séu viðskiptalegs eðlis. Er tekið dæmi um upplýsingar um uppruna úrgangs og nánar tekið fram að með uppruna úrgangs sé átt við starfsemi eða framleiðsluferli sem úrgangur myndist í en ekki nöfn fyrirtækja sem úrgangur sé ættaður frá. Hefur Sorpa bs. farið þá leið við söfnun upplýsinga um uppruna að krefjast þess af úrgangshöfum, m.a. kæranda, að þeir gefi upp póstnúmer upprunasvæðis baggaðs úrgangs. Þannig er ekki um að ræða upplýsingar um einstaka viðskiptavini heldur eingöngu söfnunarsvæði afmörkuð með póstnúmerum. Verður ekki séð að hvaða leyti þær upplýsingar geta raskað viðskiptahagsmunum kæranda eða skekkt samkeppnisstöðu hans, þannig að leynd yfir þeim vegi þyngra en þeir almannahagsmunir sem þjónað er með söfnun upplýsinganna og liggja að baki því markmiði reglugerðar nr. 738/2003 að urðun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfið.

Með hliðsjón af afdráttarlausu orðalagi 11. gr. reglugerðar nr. 738/2003, sem og öllu framangreindu, þykir sú leið sem Sorpa bs. hefur valið við upplýsingasöfnun ekki vera það íþyngjandi gagnvart kæranda að fyrirtækið teljist hafa farið út fyrir þann ramma sem því er sniðinn að lögum. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Sorpu bs. um að kæranda beri að upplýsa, með tilgreiningu á póstnúmeri, hvaðan úrgangur sem afhentur er í Álfsnesi sé upprunninn.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon                                        

 

11/2013 Brekknaás

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 24. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 11/2013, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2013 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi og bæta við aðstöðu fyrir verslun, hestaleigu, hestaferðir, hestakerruleigu og kaffihús/veitingastofu á lóð nr. 9 við Brekknaás í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Brekknaás 9 ehf., afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2013 um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi og bæta við aðstöðu fyrir verslun, hestaleigu, hestaferðir, hestakerruleigu og kaffihús/veitingastofu á lóðinni að Brekknaási 9, Reykjavík.

Gögn bárust frá Reykjavíkurborg í september og desember 2014 sem og í október og nóvember 2015.

Málsatvik og málsrök. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 20. september 2012 var felld úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. febrúar s.á. um að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins á lóðinni nr. 9 við Brekknaás í Reykjavík. Byggðist niðurstaða nefndarinnar á því að við afgreiðslu málsins hefði ekki verið tekin afstaða til þess hvort téð umsókn samræmdist landnotkun í deiliskipulagi. Hinn 8. janúar 2013 tók byggingarfulltrúi fyrir nýja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi að Brekknaási 9 og bæta við aðstöðu fyrir verslun, hestaleigu, hestaferðir, hestakerruleigu og kaffihús/veitingastofu. Var umsókninni synjað með vísan til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu, dags. 18. desember 2012, en í umsögn var talið að ekki væri gert ráð fyrir verslun eða veitingarhúsarekstri í gildandi deiliskipulagi fyrir svæðið.

Kærandi vísar m.a. til þess að sveitarfélagið hafi ekki sýnt fram á með neinum rökum að fyrirhuguð starfsemi gangi í berhögg við skipulag svæðisins. Þá hafi við meðferð málsins verið brotið á lögvörðum rétti kæranda sem t.a.m sé varin af ákvæðum stjórnarskrár og stjórnsýslulögum.

Reykjavíkurborg bendir á að rétt sé að vísa málinu frá. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 18. febrúar 2014 hafi verið tekin fyrir ný umsókn um leyfi fyrir áður gerðum breytingum innanhúss að Brekknaási 9 sem í sér fælu að útbúin væri aðstaða fyrir verslun, móttöku fyrir hestaleigu, hestakerruleigu, kaffistofu og dýralækningarráðgjöf. Umsókninni hafi verið vísað til umsagnar skrifstofu sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs sem hafi í umsögn, dags. 24. febrúar 2014, ekki gert skipulagslegar athugasemdir við að nefndar breytingar yrðu leyfðar. Hafi umsóknin verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. september 2015. Eigi kærandi því ekki lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins.

Vegna frávísunarkröfu sveitarfélagsins bendir kærandi á að umsókn sú sem samþykkt hafi verið sé ekki sú umsókn sem hafnað hafi verið 8. janúar 2013. Um sjálfstætt mál sé að ræða og eðlilegt að fá efnislegan úrskurð þar sem gróflega hafi verið brotið á kæranda með þeirri synjun og málsmeðferð í heild sinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Upplýst hefur verið af hálfu borgaryfirvalda að eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni í máli þessu hafi kærandi lagt fram nýja umsókn til borgarinnar, dags. 11. febrúar 2014. Í nefndri umsókn er sótt um leyfi fyrir breytingum innanhúss að Brekknaási 9, m.a. fyrir kaffihúsi. Segir um umsóknina í umsögn skrifstofu sviðsstjóra Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar frá 24. febrúar 2014 að sótt sé um sambærilegar breytingar og gert hafi verið árið 2012. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 22. september 2015 var umsóknin tekin fyrir og eftirfarandi bókað: „Sótt er um samþykki fyrir áður gerðum breytingum innanhúss, m.a. innrétting á verslun, móttöku fyrir hestaleigu, hestakerruleigu, kaffistofu í flokki II og dýralæknaráðgjöf….“. Var umsóknin samþykkt og talin samræmast ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki. Fyrir úrskurðarnefndinni liggja bæði sú umsókn sem kærumál þetta lýtur að og synjað var 8. janúar 2013 og umsókn sú sem samþykkt var 22. september 2015. Verður ekki annað af þeim ráðið en að þær séu sambærilegar að efni til.

Hvað sem líður gildi hinnar kærðu ákvörðunar verður að teknu tilliti til þess sem að framan er rakið ekki séð að úrlausn þar um hafi lengur raunhæft gildi fyrir réttarstöðu kæranda. Þar sem á þykir skorta að kærandi hafi sýnt fram á að hann eigi lögvarða hagsmuni í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun og mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________
Nanna Magnadóttir

60/2013 Brynjureitur

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 25. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 60/2013, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 30. maí 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Brynjureits.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Erlendur Gíslason hrl., f.h. húsfélagsins Klapparstíg 29, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 30. maí 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Brynjureits. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 13. nóvember 2015. 

Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Reykjavíkur 12. september 2012 var lagt fram erindi Laugavegsreita ehf., dags. í mars 2012, varðandi breytingu á deiliskipulagi Brynjureits, sem afmarkast af Laugavegi, Klapparstíg, Hverfisgötu og Vatnsstíg. Var samþykkt að kynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu. Tillagan var kynnt til 4. október s.á. og bárust ábendingar og athugasemdir, meðal annars frá kæranda.

Á fundi skipulagsráðs 7. nóvember 2012 var erindið lagt fram að nýju og samþykkt að auglýsa framlagða tillögu til breytingar á deiliskipulagi Brynjureits. Borgarráð samþykkti þá afgreiðslu 15. s.m. Tillagan var auglýst frá 21. nóvember 2012 til 4. janúar 2013 og bárust athugasemdir, meðal annars frá kæranda. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 16. janúar 2013 var tillagan samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um innsendar athugasemdir, dags. 14. s.m. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 24. s.m.

Með bréfi, dags. 30. janúar 2013, var deiliskipulagsbreytingin send Skipulagsstofnun til yfirferðar, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Stofnunin gerði athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda þar sem hún uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar væru til efnis í skipulagsreglugerð. Nánar tiltekið væri í gildandi deiliskipulagi, með síðari breytingum, gert ráð fyrir einnar til tveggja hæða bílakjallara fyrir allt að 100 bílastæði sem spannaði reitinn frá Laugavegi niður að Hverfisgötu. Deiliskipulagsbreytingin gerði ráð fyrir bílageymslu undir Laugavegi 27a með 18 bílastæðum og geymslu undir Laugavegi 27b. Ekki væri gerð grein fyrir öðrum bílastæðum í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar, en fram hafi komið að skilmálar deiliskipulags sem samþykkt hefði verið 25. mars 2003 giltu áfram að öðru leyti. Deiliskipulagsbreytingin fæli í sér að bílakjallarinn minnkaði en að öðru leyti væri ekki fjallað um bílastæði á reitnum. Áfram giltu því kröfur um bílastæði sem settar hefðu verið fram í skilmálum samþykktum 25. mars 2003, en þeir gerðu ráð fyrir einu bílastæði á hverja nýja íbúð og einu stæði fyrir hverja 50 m2 atvinnuhúsnæðis á reitnum. Skýra þyrfti nánar bílastæðaskilmála eftir breytingu, svo sem hvort áðurnefnd 18 bílastæði væru aðeins ætluð nýjum íbúðum á sameiginlegri lóð Hverfisgötu 40 og 42 og Laugavegar 27a. Þá þyrfti að rökstyðja að hægt yrði að uppfylla óbreyttar bílastæðakröfur á reitnum þrátt fyrir breytingu á bílakjallara og fækkun bílastæða.

Skipulagsstofnun gerði einnig athugasemd við að gerðar væru breytingar utan við afmarkað breytingasvæði á uppdrætti. Nánar tiltekið væri bílakjallara á lóðinni Laugavegi 27 breytt auk þess sem sameiginlegri lóð Laugavegar 29 og Hverfisgötu 46 væri skipt í þrjár lóðir, en hvort tveggja fæli í sér bindandi skilmála um lóðir utan breytingasvæðisins. Þá var minnt á ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um bílastæði fyrir hreyfihamlaða og mælt með að gerð yrði grein fyrir þeim í skipulagsskilmálum. Að lokum vakti stofnunin athygli á því að húsið við Laugaveg 27b nyti friðunar samkvæmt lögum um menningarminjar nr. 80/2012, en óheimilt væri að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands, sbr. 29. gr. laganna.

Reykjavíkurborg svaraði athugasemdum Skipulagsstofnunar með bréfi, dags. 17. maí 2013, þar sem greint var frá því að gerðar hefðu verið breytingar á uppdrætti deiliskipulagsbreytingarinnar. Fólu þær í sér að bætt var inn texta um bílastæði auk þess sem settur var fram rökstuðningur um frávik frá reglum um lágmarksfjölda bílastæða. Athugasemdum Skipulagsstofnunar varðandi bílastæði fyrir hreyfihamlaða var svarað á þá leið að samkvæmt byggingarreglugerð yrði að uppfylla þær reglur sem fram kæmu í gr. 6.2.6. í reglugerðinni og í töflu 6.01. kæmi fram hver fjöldi bílastæða fyrir hreyfihamlaða ætti að vera í hlutfalli við fjölda almennra bílastæða. Ekki væri því þörf á að taka það fram í skilmálum deiliskipulags. Þá var tekið fram að ekki væri verið að gera breytingar á lóð Laugavegar 27, en bent var á að við skoðun á deiliskipulagsuppdrætti frá 2003 og breytingaruppdrætti frá 2006 mætti sjá að sneiðing á síðarnefnda uppdrættinum væri röng og ekki í samræmi við uppdrátt, götumynd og skilmála.

Lóðin Hverfisgata 46 og Laugavegur 29 næði frá Laugavegi að Hverfisgötu en ætlunin hefði verið að skipta henni í þrennt nú. Þar sem það væri ekki hægt nema með því að láta breytingarsvæðið ná yfir alla lóðina væri uppdrætti deiliskipulagsbreytingarinnar breytt og lóðin tekin út af afmörkuðu breytingasvæði á uppdrættinum. Engar athugasemdir hefðu borist við umrædda breytingu og friður ríkti um deiliskipulag þessarar lóðar. Því væri ekki talin ástæða til að endurauglýsa deiliskipulagsbreytinguna vegna þessa. Þá væri einnig á það bent að litlar breytingar hefðu átt sér stað á lóðinni samkvæmt deiliskipulagstillögunni. Að lokum voru tilteknar smávægilegar breytingar á uppdrættinum.

Umhverfis- og skipulagsráð tók erindið fyrir á ný hinn 22. maí 2013 og var svarbréf Reykjavíkurborgar til Skipulagsstofnunar, dags. 17. s.m., lagt fram á fundinum. Var deiliskipulagsbreytingin samþykkt með vísan til áðurnefnds svarbréfs. Borgarráð samþykkti afgreiðsluna 30. s.m. og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. júní 2013.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að hin kærða skipulagsákvörðun stríði gegn markmiðum skipulagslaga, sbr. einkum c-lið 1. gr. laganna um að tryggja skuli réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Réttaröryggi kæranda hafi ekki verið tryggt við meðferð málsins.

Kærandi hafi gert athugasemdir við fyrirhugaða breytingu á deiliskipulaginu þar sem hann hafi talið að hún kynni að ganga á rétt íbúa við Klapparstíg 29 til umferðar meðfram norðurhlið Laugavegar 25 að bakgarði Klapparstígs 29, auk þess sem verulegur vafi leiki á um raunverulega stærð þeirrar lóðar. Kærandi hafi bent Reykjavíkurborg á þá óvissu sem ríkti um stærð lóðarinnar og í ljósi þess hefði Reykjavíkurborg borið að upplýsa málið í samræmi við rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar áður en endanleg ákvörðun væri tekin. Þar sem stærð og skipulag lóðarinnar liggi ekki ljóst fyrir verði ekki séð hvernig hægt hafi verið að samþykkja deiliskipulag sem eftir atvikum gangi á rétt kæranda.

Með bréfi til byggingarnefndar Reykjavíkur, dags. 1. nóvember 1990, hafi verið óskað eftir samþykki nefndarinnar fyrir því að skipta lóð Klapparstígs 29 upp í þrjár lóðir, þ.e. vesturhluta, Klapparstíg 29, sem yrði 330 m2, austurhluta, sem yrði 308 m2 og tölusettur eftir ákvörðun nefndarinnar, og sameiginlega aðkomulóð fyrir tvær fyrrnefndu lóðirnar, sem yrði 67 m2. Byggingarnefnd hafi synjað erindinu með bréfi, dags. 13. júní 1991, og hafi sú ákvörðun verið staðfest í borgarstjórn 20. s.m.

Samkvæmt opinberri skráningu Þjóðskrár Íslands sé lóð Klapparstígs 29 alls 705 m2. Í þinglýstum eignaskiptasamningi, dags. 25. febrúar 1991, komi hins vegar fram að húsinu við Klapparstíg 29 fylgi 330 m2 af eignarlóðinni samkvæmt uppdrætti mælingardeildar borgarverkfræðings, dags. 1. nóvember 1990. Þar komi einnig fram að eigninni tilheyri umferðarréttur meðfram norðurhlið Laugavegar 25, um 67 m2 reit samkvæmt fyrrgreindum uppdrætti. Svo virðist sem ekki liggi fyrir hvort þeir 308 m2 sem eftir standi af lóðinni tilheyri jafnframt Klapparstíg 29, en umrædd deiliskipulagstillaga lúti meðal annars að þeim hluta lóðarinnar. Eignaskiptayfirlýsingunni virðist hafa verið þinglýst án þess að samþykki byggingarnefndarinnar fyrir uppskiptingu lóðarinnar hafi legið fyrir. Þá verði ekki séð að austurhluti lóðarinnar hafi fengið lóðarnúmer hjá byggingarnefndinni.

Kærandi hafi bent á það í fyrri umsögnum sínum að ekki yrði séð að samþykki skipulagsyfirvalda hefði legið fyrir um uppskiptingu lóðarinnar á árinu 1991. Því hafi ekki verið svarað af hálfu borgarinnar hvort slíkt samþykki hafi legið fyrir. Liggi það ekki fyrir verði ekki annað séð en að málið hafi ekki verið upplýst af hálfu skipulags- og umhverfissviðs áður en hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt.

Í ljósi framangreinds verði að telja að óheimilt hafi verið að breyta deiliskipulaginu enda verði ekki séð að austurhluti lóðarinnar og sameiginlega aðkomulóðin tilheyri Klapparstíg 29a, heldur Klapparstíg 29.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 13. nóvember 2015, eins og áður greinir, en að öðru leyti hefur sveitarfélagið ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Hin kærða deiliskipulagsbreyting tekur til lóðanna við Hverfisgötu 40-44, Klapparstíg 31 og Laugaveg 23, 27a og 27b, en lóðin sem nefnd er Klapparstígur 29a í hinni kærðu ákvörðun, og var áður hluti lóðar Klapparstígs 29, sameinast lóðum Hverfisgötu 40-42 og Laugavegar 27a. Felur deiliskipulagsbreytingin í sér breytingar á afmörkun byggingarreita og hámarkshæð nýbygginga við Hverfisgötu 40-44, breytingu á lóðamörkum og sameiningu lóðanna Hverfisgötu 40-42 og Laugavegar 27a, sem og lóðanna Hverfisgötu 44 og Laugavegar 27b. Gert er ráð fyrir nýbyggingum við Laugaveg 27a og 27b og göngugötu í gegnum reitinn frá Hverfisgötu og Laugavegi og út á Klapparstíg með kvöð um akstur frá Klapparstíg og Laugavegi og aðkomu slökkviliðs að baklóðum. Með deiliskipulagsbreytingunni var fallið frá því að heimila fimm hæða nýbyggingu við Laugaveg 23 og í staðinn gert ráð fyrir að núverandi timburhús á lóðinni yrði gert upp auk þess sem tveggja hæða nýbygging var heimiluð norðanmegin við húsið. Þá er ráðgert að íbúðir á hverri lóð sem breytingin tekur til verði ekki færri en 12 eða fleiri en 42 og að þær verði á efri hæðum húsa. Á jarðhæð við Laugaveg og í göngugötu verði verslun og þjónusta en íbúðir á efri hæðum. Við Hverfisgötu 40-44 verði verslunar-, atvinnu- og þjónustuhúsnæði á neðstu tveimur hæðunum en atvinnu- eða íbúðarhúsnæði á efri hæðum. Þá verði gerður bílakjallari fyrir 18 bíla undir Laugavegi 27a með innkeyrslu um Hverfisgötu 40.

Kærandi telur að vafi hafi leikið á um raunverulega stærð lóðarinnar Klapparstígs 29 við samþykkt hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar, en fyrir liggur að lóðin var áður sýnd stærri í deiliskipulaginu, eða 705 m2. Athugun á þinglýstum skjölum, s.s. afsölum og kaupsamningum um Klapparstíg 29, leiðir hins vegar í ljós að lóðin sem fylgir húsinu við Klapparstíg 29 er 330 m2 og er hin kærða deiliskipulagsbreyting því í samræmi við þinglýst gögn hvað það varðar. Þá verður ekki séð að með deiliskipulagsbreytingunni sé gengið á rétt íbúa við Klapparstíg 29 til umferðar meðfram norðurhlið Laugavegar 25, enda er kvöð um umferð á þessum stað sýnd með greinargóðum hætti á deiliskipulagsuppdrætti.

Í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar er að finna rökstuðning fyrir frávikum frá reglum um fjölda bílastæða á reitnum og er það í samræmi við gr. 3.1.4. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, sem þá gilti skv. 4. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þrátt fyrir athugasemdir Skipulagsstofnunar þess efnis er ekki fjallað sérstaklega um fjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða.  Eins og hér stendur á verður þó ekki talið að það geti haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda eru fyrir hendi ákvæði í byggingarreglugerð nr. 112/2012 í þessu efni sem taka verður tillit til við frekari byggingu skipulagsreitsins.

Að öllu framangreindu virtu verður hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki talin vera haldin slíkum form- eða efnisannmörkum að leiða eigi til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna tafa við gagnaöflun og sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 30. maí 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Brynjureits.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                             Þorsteinn Þorsteinsson

110/2013 Reykjanes Grímsnes- Grafningshreppi

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 12. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 110/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. september 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykjaness vegna garðyrkjubýlisins Reykjalundar í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. nóvember 2013, er barst nefndinni 15. s.m., kæra tveir eigenda jarðarinnar Reykjaness, Grímsnes- og Grafningshreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. september 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykjaness vegna garðyrkjubýlisins Reykjalundar í Grímsnes- og Grafningshreppi. Skilja verður málskot kærenda svo að þess sé krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá sveitarfélaginu 20. janúar 2014 og 5. nóvember 2015.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps 12. ágúst 2010 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi Reykjalundar í Grímsnesi. Í fundarbókun nefndarinnar kemur fram að á landinu sé lögbýlisréttur og til standi að reka þar garðyrkjubýli. Skipulagssvæðið sem breytingin nái til sé 8 ha og gert sé ráð fyrir tveimur íbúðarhúsum, einu stöku gróðurhúsi og fjórum sambyggðum. Auk þess verði byggt við gamalt íbúðarhús sem fyrir sé á svæðinu. Var afgreiðslu málsins frestað.

Tillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar 26. maí 2011 og samþykkt að auglýsa hana skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps staðfesti þá afgreiðslu 1. júní s.á. Tillagan var auglýst 30. júní 2011, með athugasemdafresti til 12. ágúst s.á., og bárust athugasemdir frá kærendum.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. nóvember 2012 var lögð fram að nýju tillaga að breytingu á deiliskipulagi Reykjalundar. Í bókun fundarins kom fram að deiliskipulagsbreytingin hefði aldrei öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda og þar sem meira en ár væri liðið frá auglýsingu tillögunnar væri hún lögð fram að nýju. Mælti nefndin með því að sveitarstjórn samþykkti að tillagan yrði auglýst að nýju skv. 41. gr. skipulagslaga og samþykkti sveitarstjórnin hinn 5. desember s.á. að auglýsa tillöguna.

Tillagan var auglýst öðru sinni frá 13. desember 2012 til 25. janúar 2013 og bárust athugasemdir frá kærendum. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 28. febrúar s.á. var tillagan tekin fyrir og mælti nefndin með því að sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagsbreytinguna óbreytta. Var skipulagsfulltrúa falið að útbúa umsögn um fram komnar athugasemdir sem liggja þyrfti fyrir við afgreiðslu sveitarstjórnar. Sveitarstjórn samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi 6. mars 2013 auk tillögu að umsögn um innsendar athugasemdir. Var skipulagsfulltrúa falið að senda málið til afgreiðslu Skipulagsstofnunar skv. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

Deiliskipulagsbreytingin, ásamt athugasemdum kærenda og umsögn um þær, var send Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 3. apríl 2013. Með bréfi, dags. 22. s.m., gerði stofnunin athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda. Bent var á að fyrir lægi deiliskipulag Reykjaness sem samþykkt hefði verið í sveitarstjórn 20. september 2000. Þar væri frístundabyggð deiliskipulögð og sett fram á þremur uppdráttum, fyrir lóðir nr. 1-5, 6-10 og 11-14, ásamt yfirlitsmynd. Deiliskipulagsbreytingin varðaði þann hluta svæðisins sem tæki til lóða nr. 1-5, en í henni fælist afmörkun svæðis sem næði yfir lóð nr. 1, ásamt stækkun lóðarinnar. Umrætt deiliskipulagssvæði frístundabyggðarinnar væri hins vegar á landbúnaðarsvæði samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020. Þá væri svæðið á náttúruminjaskrá. Fyrir lægi umsögn Fornleifaverndar ríkisins, dags. 29. júlí 2011.

Skipulagsstofnun benti og á óljósa stöðu þeirrar lóðar sem breytingin ætti við, aðliggjandi lóðar og annarra lóða frístundabyggðarinnar. Deiliskipulag frístundabyggðarinnar væri ekki lengur í samræmi við gildandi aðalskipulag, en þegar hefði verið byggt samkvæmt því á einhverjum lóðanna. Afstaða og stefna sveitarstjórnar um hvernig fara ætti með þann hluta deiliskipulagsins sem þegar hefði verið byggt eftir lægi ekki fyrir eða hvernig ætti að fara með þær lóðir sem óframkvæmanlegt væri að halda áfram uppbyggingu á vegna ósamræmis við aðalskipulagið. Enn fremur væru réttindi óljós varðandi aðkomu að garðyrkjubýlinu um lóð þá sem væri nr. 3 í deiliskipulagi frístundabyggðarinnar, en aðkoma að lóð nr. 1 hefði áður verið á milli lóða nr. 2 og 3. Þá vantaði umsagnir Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlitsins og athuga þyrfti og lagfæra, eftir því sem við ætti, umfjöllun í greinargerð um stefnu aðalskipulags og niðurstöður fornleifaskráningar, sbr. niðurstöðu í umsögn frá 29. júlí 2011. Breytingardagsetningu þyrfti einnig að bæta við uppdrátt.

Málið var tekið fyrir á ný í skipulagsnefnd 22. ágúst 2013. Í fundargerð þess fundar var m.a. bókað: „Nefndin mælir með að sveitarstjórn feli skipulagsfulltrúa að birta auglýsingu um gildistöku deiliskipulags í b-deild Stjórnartíðinda þar sem deiliskipulagsbreytingin er í samræmi við gildandi aðalskipulag svæðisins. Ekki er talið að réttindi varðandi aðkomu að landinu séu óljós þar sem hún er óbreytt og utan annarra lóða. Ekki er rétt það sem kemur fram í bréfi Skipulagsstofnunar að aðkoma að lóðinni hafi áður verið á milli lóða 2 og 3. Varðandi stöðu annarra lóða innan skipulagssvæðisins að þá mælir nefndin með að sveitarstjórn samþykki að gera breytingu á aðalskipulagi svæðisins sem nær yfir aðrar lóðir á þann veg að skilgreina svæðið aftur sem frístundabyggð. Við endurskoðun aðalskipulagsins virðist hafa verið gerð þau mistök að svæði fyrir frístundabyggð hafi verið fellt út. Að mati nefndarinnar er um óverulega breytingu að ræða þar sem um mistök var að ræða sem verið er að leiðrétta til samræmis við gildandi aðalskipulag.“

Sveitarstjórn tók málið fyrir á fundi 2. september 2013 og bókaði þá eftirfarandi: „Sveitarstjórn gerir ekki athugasemd við afgreiðslu nefndarinnar og samþykkir að fela skipulagsfulltrúa að birta auglýsingu um gildistöku breytingar á deiliskipulagi Reykjaness – Reykjalundar í B-deild Stjórnartíðinda. Sveitarstjórn samþykkir jafnframt breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins á þann veg að skilgreina svæði í landi Reykjaness sem svæði fyrir frístundabyggð til samræmis við gildandi deiliskipulag og á sama hátt og var í fyrra aðalskipulagi. Að mati nefndarinnar er breytingin óveruleg þar sem svo virðist sem mistök hafi átt sér stað við endurskoðun aðalskipulagsins.“

Skipulagsstofnun var tilkynnt um afgreiðslu skipulagsnefndar og sveitarstjórnar 7. október 2013 og tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 18. s.m.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er byggt á því að þeir séu réttir eigendur að stærstum hluta þess lands sem um ræðir og mótmæla þeir því að deiliskipulagi á því landi verði breytt. Jörðin Reykjanes, og þær spildur sem teknar hafi verið út úr jörðinni með leigu- eða afsalssamningum, verði ekki skipulagðar án aðkomu kærenda sem séu þinglýstir eigendur jarðarinnar.

Leigulóðin Reykjalundur sé 15 ha landspilda úr landi Reykjaness í Grímsnesi og um hana gildi erfðafestusamningur, dags. 4. janúar 1939. Ágreiningur sé uppi um réttarstöðu erfðafestusamningsins og réttmæti aðgerða núverandi erfðafestuhafa. Á jörðinni hafi ekki verið sjálfstæð búseta eða búskapur auk þess sem engin leiga hafi verið greidd til landeigenda. Því telji kærendur að erfðafestusamningurinn sé riftanlegur á grundvelli brostinna forsendna.

Deiliskipulagsbreytingin geri ráð fyrir allt annarri nýtingu landsins en erfðafestusamningurinn segi til um. Þá hafi hún í för með sér að öll fjallasýn í norðaustur frá lögbýlinu Reykjanesi muni hverfa. Það sé óásættanlegt og feli í sér stórkostlega skerðingu á eignarrétti kærenda. Deiliskipulagsbreytingunni og fyrirhuguðum byggingarframkvæmdum eigenda Reykjalundar í Grímsnesi sé alfarið mótmælt sem heimildarlausum og ólögmætum.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu Grímsnes- og Grafningshrepps er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi ekki veruleg neikvæð áhrif á útsýni frá húsi á aðliggjandi lóð kærenda í landi Reykjaness, enda séu um 250-300 m frá húsinu að nýjum byggingarreit á norðurhluta Reykjalundar. Þá sé ekki hægt að lesa úr fyrirliggjandi erfðafestusamningi að eigendum/leigjendum Reykjalundar sé óheimilt að skipuleggja landið án samráðs við eigendur Reykjaness. Í 2. mgr. erfðafestusamningsins komi m.a. fram að landið sé leigt leigutaka til frjálsra afnota og hvers konar atvinnureksturs. Heimild til að byggja mannvirki megi einnig lesa úr 5. gr. samningsins þar sem fram komi að leiguréttindi að landinu skuli framvegis fylgja húsum þeim eða mannvirkjum, er leigutaki kunni að koma þar upp eða eiga þar á hverjum tíma.

Niðurstaða: Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst afmörkun svæðis, sem nær yfir lóð nr. 1 í fyrirliggjandi deiliskipulagi Reykjaness frá árinu 2000, ásamt stækkun lóðarinnar til austurs og norðurs, úr 1,3 ha í 8 ha.

Fram kemur í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar að til standi að reka á lóðinni garðyrkjubýli. Þá segir að samkvæmt aðalskipulagi sé skipulagssvæðið á skilgreindu frístundasvæði, en samhliða deiliskipulagsbreytingunni hafi verið sótt um breytingu á aðalskipulagi þannig að svæðið verði skilgreint til landbúnaðarnotkunar. Samkvæmt Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 er svæðið þó skilgreint til landbúnaðarnotkunar. Hins vegar gerir deiliskipulag Reykjaness, sem tók gildi 16. október 2001, ráð fyrir frístundabyggð á svæðinu, m.a. á lóð nr. 1 sem deiliskipulagsbreytingin nær til.

Samkvæmt framansögðu er umrætt skipulagssvæði skilgreint í gildandi aðalskipulagi sem landbúnaðarsvæði og samræmist deiliskipulagsbreytingin því aðalskipulaginu hvað landnotkun varðar. Hins vegar verður að telja annmarka á greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar þar sem fjallað er um stefnu aðalskipulags um landnotkun svæðisins, eins og fyrr er rakið. Sá annmarki þykir þó ekki þess eðlis að hann raski gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Athugasemdir Skipulagsstofnunar við efni deiliskipulagsbreytingarinnar, sem fram komu í bréfi hennar, dags. 22. apríl 2013, voru teknar til umræðu í sveitarstjórn og var gerð rökstudd grein fyrir ástæðum þess að ekki var fallist á þær, sbr. 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga.

Ágreiningur er í málinu um heimildir sveitarstjórnar til að gera breytingar á deiliskipulagi Reykjaness samkvæmt beiðni erfðafestuhafa án samþykkis landeigenda. Lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar takmarkast við hina kærðu skipulagsákvörðun og er það ekki á færi nefndarinnar að taka afstöðu til álitaefna um bein eða óbein eignarréttindi, svo sem um efni erfðafestusamnings er tekur til umræddrar spildu. Allt að einu liggur fyrir að sá aðili sem fór fram á umdeilda deiliskipulagsbreytingu hefur umráð spildunnar í skjóli þess samnings. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulagsáætlana. Hvergi í lögum er það áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis landeigenda vegna skipulagsákvarðana sem varða eignir þeirra, enda verður eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Verður hin kærða skipulagsákvörðun því ekki ógilt á þessum forsendum.

Mannvirki þau sem hin kærða deiliskipulagsbreyting heimilar munu vera í nokkurri fjarlægð frá húsi á lóð kærenda. Samkvæmt því og með tilliti til staðhátta að öðru leyti verður ekki talið að heimilaðar byggingar geti dregið úr fjallasýn kærenda að marki.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á meðferð eða efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem áhrif geta haft á gildi hennar. Verður ógildingarkröfu kærenda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 2. september 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Reykjaness vegna garðyrkjubýlisins Reykjalundar í Grímsnes- og Grafningshreppi.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson
 

21/2013 Úlfarsfell

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 17. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 21/2013, kæra á afgreiðslu Skipulagsstofnunar frá 30. janúar 2013 um að synja um meðmæli vegna veitingar byggingarleyfis fyrir fjarskiptamannvirki á toppi Úlfarsfells í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. febrúar 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar, f.h. Reykjavíkurborgar, þá afgreiðslu Skipulagsstofnunar frá 30. janúar 2013, að synja um meðmæli vegna veitingar byggingarleyfis fyrir fjarskiptamannvirki á toppi Úlfarsfells í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðað verði að Skipulagsstofnun beri að veita meðmæli fyrir umræddum framkvæmdum.

Umsögn Skipulagsstofnunar í málinu barst úrskurðarnefndinni 27. mars 2013.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 10. september 2012 var felld úr gildi sú ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita byggingarleyfi fyrir tækjaskýli og tveimur 10 m háum tréstaurum til fjarskipta á toppi Úlfarsfells. Byggði niðurstaða nefndarinnar á því að samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skyldi gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir væru fyrirhugaðar. Eina undantekningin frá deiliskipulagsskyldu vegna leyfisskyldra mannvirkja í dreifbýli og á óbyggðum svæðum væri sú að unnt væri að veita byggingarleyfi fyrir einstökum framkvæmdum að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar skv. 1. tl. bráðabirgðaákvæðis laganna. Hefði umrætt svæði hvorki verið deiliskipulagt né meðmæla Skipulagsstofnunar aflað fyrir leyfisveitingunni.

Í kjölfar úrskurðarins var málið tekið fyrir að nýju hjá Reykjavíkurborg og á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 2. október 2012 var lögð fram umsókn um leyfi til að byggja 15,1 m² tækjaskýli og reisa tvo 10 m háa tréstaura vegna fjarskiptaþjónustu á toppi Úlfarsfells. Var málinu vísað til umsagnar skipulagsstjóra, sem á fundi 12. s.m. vísaði erindinu til umsagnar Póst- og fjarskiptastofnunar, Geislavarna ríkisins, Mosfellsbæjar, Flugmálastjórnar Íslands og Isavia ohf. Skipulagsráð tók málið fyrir á fundi sínum 28. nóvember s.á. Fyrir fundinum lágu umsagnir fyrrgreindra aðila, sem og minnisblað lögfræði og stjórnsýslu, dags. 15. nóvember s.á. Var erindið afgreitt með svohljóðandi hætti: „Samþykkt að óska meðmæla Skipulagsstofnunar fyrir framkvæmdinni skv. 1. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulagslögum nr. 123/2010. Áfram verði unnið samkvæmt sameiginlegri yfirlýsingu Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar dags. 6. júní 2012 sem samþykkt var í skipulagsráði 22.08.2012, um skipulag og umgengni á Úlfarsfelli þar sem m.a. er gert ráð fyrir að unnið verði deiliskipulag fyrir svæðið.“

Reykjavíkurborg sendi í kjölfar þessa erindi til Skipulagsstofnunar, dags. 7. janúar 2013, þar sem óskað var meðmæla stofnunarinnar fyrir fyrrgreindum framkvæmdum. Erindinu var svarað með bréfi, dags. 30. s.m., þar sem m.a. kom fram að á árinu 2011 hefði stofnuninni borist sambærilegt erindi borgarinnar vegna mannvirkja á þessum stað, en þá hefði verið ráðgert að reisa þar 15 m² skýli og 30,5 m hátt fjarskiptamastur. Hefði niðurstaða Skipulagsstofnunar þá verið sú að vinna þyrfti deiliskipulag fyrir framkvæmdasvæðið. Jafnframt var tekið fram að í erindi því sem nú lægi fyrir væri misræmi í lýsingu framkvæmdanna á uppdráttum og myndum. Þá væri umrætt svæði skilgreint í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sem „óbyggt svæði“ þar sem ekki væri gert ráð fyrir mannvirkjagerð. Væri það mat Skipulagsstofnunar að vinna þyrfti deiliskipulag fyrir framkvæmdasvæðið og að umræddar framkvæmdir samræmdust ekki stefnu aðalskipulagsins.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ákvörðun Skipulagsstofnunar sé ólögmæt, ómálefnaleg og óskiljanleg og ekki í neinu samhengi við aðrar afgreiðslur stofnunarinnar í sambærilegum málum.

Varhugavert sé að líta svo á að ákvæði aðalskipulags Reykjavíkur leggi blátt bann við allri mannvirkjagerð á óbyggðum svæðum, en einungis segi í texta að ekki sé gert ráð fyrir mannvirkjagerð á slíkum svæðum. Hefði ætlunin verið að leggja ákveðið bann við allri mannvirkjagerð hefði slíkt verið tekið skýrt fram í skilgreiningu. Svæði þau sem skilgreind séu í aðalskipulaginu sem óbyggð séu víðfeðm, þ.e. Esjan og hlíðar hennar, kollar Úlfarsfells og uppland Reykjavíkur austan Heiðmerkur, en ljóst sé þó að á þessum svæðum sé takmörkuð mannvirkjagerð fyrir hendi. Megi þar t.d. nefna vegi og einstaka veitumannvirki sem aðalskipulag marki ekki ákveðna stefnu um. Á toppi Skálafells séu umfangsmikil fjarskiptamannvirki á svæði sem ekki hafi verið deiliskipulagt. Hafi verið talið eðlilegt og nauðsynlegt að mannvirkjum í þágu fjarskipta væri komið fyrir á óbyggðum svæðum/útivistarsvæðum, enda séu þau jafnan smá að umfangi og um afturkræfar framkvæmdir að ræða. Fjarskiptamannvirki séu m.a. mikilvægur þáttur í öryggismálum þjóðarinnar.

Engin tilraun sé gerð af hálfu Skipulagsstofnunar til að fjalla um hvort framkvæmdir af þessu tagi séu án undantekninga skipulagsskyldar. Um bráðabirgðaframkvæmd sé að ræða og til standi að deiliskipuleggja svæðið í samvinnu við Mosfellsbæ. Teljist það eftir sem áður óbyggt þótt litlu fjarskiptamastri sé komið fyrir á fjallstindi og slíkt því ekki í andstöðu við ákvæði aðalskipulagsins. Mannvirkið sé minniháttar og forsvaranlegt að veita byggingarleyfi. Jafnframt sé bent á að minniháttar mannvirkjagerð sé möguleg á hverfisverndarsvæðum en í aðalskipulagi segi að allri mannvirkjagerð skuli haldið í lágmarki á þeim svæðum.

Sveitarfélagið skírskoti jafnframt til þess að samkvæmt nýrri skipulagsreglugerð nr. 90/2013, er tekið hafi gildi 31. janúar 2013, séu framkvæmdir sem þessar heimilaðar á óbyggðum svæðum, sbr. gr. 6.2. Í k-lið gr. 4.3.1. sé beinlínis gert ráð fyrir að ekki þurfi að deiliskipuleggja lóðir fyrir fjarskiptamannvirki. Falli umrædd framkvæmd fullkomlega að nefndum ákvæðum og því umhugsunarvert hvers vegna litið hafi verið framhjá þeim við meðferð málsins. Þá sé hin kærða ákvörðun einnig án fordæma og megi í því sambandi nefna álit Skipulagsstofnunar vegna fjarskiptamannvirkja í landi Engimýrar í Öxnadal, Hörgárbyggð og fjarskiptastöð á leigulóð Tals í landi Hallands, Svalbarðsstrandahreppi.

Loks sé á því byggt að Skipulagsstofnun hafi ekki gætt hlutleysis við meðferð málsins í ljósi forsögu þess og aðkomu tilgreinds starfsmanns stofnunarinnar af því á fyrri stigum. Sá starfsmaður sé búsettur í Úlfarsársdal og eigi persónulegra hagsmuna að gæta tengda mannvirkjunum. Starfsmenn stofnunarinnar hafi verið vanhæfir til meðferðar málsins á grundvelli ákvæða 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar komi fram að starfsmaður sé vanhæfur til meðferðar máls ef að öðru leyti séu fyrir hendi þær aðstæður sem fallnar séu til þess að draga óhlutdrægni hans í efa.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun tekur fram að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 sé neðri hluti og rætur Úlfarsfells skilgreint sem opið svæði til sérstakra nota og falli „græni trefilinn“ undir það. Efri hluti Úlfarsfells sé í aðalskipulagi skilgreindur sem óbyggt svæði, en þar sé, skv. gr. 3.1.10 í greinargerð með aðalskipulagi, ekki gert ráð fyrir mannvirkjagerð. Svæðin séu ætluð til almennrar útivistar og þau megi gera aðgengileg með gönguslóðum. Byggi greinin á gr. 4.13 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Enn fremur komi fram í reglugerðinni að gera skuli grein fyrir þeim svæðum sem skilgreind séu sem óbyggð í svæðis- og aðalskipulagi og að almennt sé ekki gert ráð fyrir deiliskipulagningu þeirra nema ef mannvirki, s.s. „… stígar eru fyrirhuguð á óbyggðum svæðum getur þurft að deiliskipuleggja þau“. Þá segi í aðalskipulaginu að í deiliskipulagi skuli huga að staðsetningu fjarskiptamastra. Reykjavíkurborg hafi ekki tekið afstöðu til þess hvort fjarskiptamannvirkin kölluðu á breytingu á aðalskipulagi, líkt og Skipulagsstofnun hafi við fyrri afgreiðslu bent á að sveitarfélagið þyrfti að gera. Því hafi stofnunin lagt mat á það og væri niðurstaða hennar að þess þyrfti.

Skipulagsreglugerð nr. 90/2013 hafi ekki tekið gildi fyrr en eftir að niðurstaða Skipulagsstofnunar hafi legið fyrir. Samkvæmt almennum reglum um lagaskil og gildistöku stjórnsýslufyrirmæla sé ekki hægt að byggja úrlausn máls á reglugerð sem ekki hafi tekið gildi. Hafi Skipulagsstofnun byggt ákvörðun sína á gildandi lögum og skipulagsreglugerð nr. 400/1998, líkt og lögmætisreglan kveði á um. Jafnframt sé bent á að aðalskipulag Reykjavíkur byggi á reglugerð nr. 400/1998. Gangi ný skipulagsreglugerð ekki framar ákvæðum aðalskipulagsins.

Vegna þeirra málsraka Reykjavíkurborgar að synjun Skipulagsstofnunar sé án fordæma sé bent á að forsendur meðmæla hafi verið aðrar í tilvikum þeim sem tilgreind séu. Aðalskipulag hafi ekki hindrað veitingu meðmæla. Ekki hafi heldur verið talin þörf á gerð deiliskipulags, en mannvirkin séu ekki staðsett í nágrenni þéttrar byggðar og hvorki fyrirsjáanleg fjölgun þeirra né aukin umsvif, líkt og við Úlfarsfell.

Þá hafi tilgreindur starfsmaður Skipulagsstofnunar ekki komið að afgreiðslu málsins nú eða árið 2011, enda vanhæfur til þess á grundvelli 5. og 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því sé alfarið hafnað að hann hafi haft eða reynt að hafa áhrif á afgreiðslu málsins. Meginreglan sé sú að samstarfsmenn verði ekki sjálfkrafa vanhæfir. Bendi ekkert til þess að þeir eigi sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta af afgreiðslu málsins og sé því hafnað að þeir séu vanhæfir á grundvelli ofangreindra ákvæða.

                        —–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. tl. ákvæðis til bráðabirgða í skipulagslögum nr. 123/2010 getur sveitarstjórn, án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar, leyft einstakar framkvæmdir sem um kann að verða sótt. Er afgreiðsla stofnunarinnar kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Með nefndu ákvæði er vikið frá þeirri meginreglu skipulagslaga að gera skuli deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reit þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 37. gr. laganna. Hefur Skipulagsstofnun við ákvörðun sína m.a. á því byggt að nauðsynlegt sé að deiliskipuleggja umrætt svæði og jafnframt að hin umdeilda framkvæmd sé í andstöðu við stefnu Aðalskipulags Reykjavíkur 2001-2024.

Ný skipulagsreglugerð nr. 90/2013 tók gildi 16. janúar 2013 og var birt í B-deild Stjórnartíðinda 31. s.m. Um óbyggð svæði segir í gr. 6.2. nýrrar reglugerðar að þau séu að mestu án mannvirkja annarra en þeirra sem t.a.m. þjóni fjarskiptum. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað má almennt eigi beita fyrirmælum, er felast í lögum, auglýsingum, reglugerðum, samþykktum eða öðrum slíkum ákvæðum almenns eðlis, fyrr en birting í Stjórnartíðindum hafi farið fram. Óbirt fyrirmæli binda þó stjórnvöld frá gildistöku þeirra, sbr. lokamálslið nefnds ákvæðis. Umhverfis- og auðlindaráðherra fer með yfirstjórn skipulagsmála skv. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og er Skipulagsstofnun honum til aðstoðar. Um hlutverk stofnunarinnar er fjallað í 4. gr. sömu laga og er tekið fram í a-lið að það sé m.a. að hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim. Þrátt fyrir þetta hlutverk Skipulagsstofnunar verður ákvæði lokamálsliðar 1. mgr. 8. gr. laga nr. 15/2005 ekki túlkað með víðtækari hætti en svo að það taki aðeins til þess stjórnvalds sem ábyrgð ber á setningu og birtingu viðkomandi stjórnvaldsfyrirmæla, í þessu tilviki umhverfis- og auðlindaráðherra, en tekið er fram í greinargerð með frumvarpi því sem varð að tilvitnuðum lögum að ákvæðið styðjist við þau rök að stjórnvöld geti ekki borið fyrir sig að farist hafi fyrir að birta fyrirmæli sem veiti almenningi og borgurunum tiltekin réttindi. Með vísan til þess verður við það að miða að þegar hin umþrætta ákvörðun var tekin hafi Skipulagsstofnun verið rétt að byggja á ákvæðum skipulagsreglugerðar nr. 400/1998.

Fjallað er um óbyggð svæði í 4. kafla skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Eru þau skilgreind svo í gr. 4.13.1 að um sé að ræða opin svæði til almennrar útiveru eða takmarkaðar umferðar fólks þar sem ekki sé gert ráð fyrir mannvirkjagerð, þ.m.t. skógræktarsvæði önnur en nytjaskógrækt á bújörðum og landgræðslusvæði. Þá kemur fram í gr. 4.13.2 að gera skuli grein fyrir þeim svæðum sem skilgreind séu sem óbyggð svæði í svæðis- og aðalskipulagi. Jafnframt er tekið fram að almennt sé ekki gert ráð fyrir deiliskipulagningu óbyggðra svæða en séu mannvirki, s.s. stígar, fyrirhuguð á óbyggðum svæðum geti þurft að deiliskipuleggja þau. Bera ákvæðin með sér að almennt skuli við það miðað að ekki séu heimilaðar framkvæmdir á óbyggðum svæðum og að ef vikið sé frá þessu þurfi að meta hverju sinni hvort deiliskipulags sé þörf. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er að finna sambærilega skilgreiningu og í skipulagsreglugerðinni á því hvað teljist til óbyggðra svæða. Jafnframt er þar tekið fram að sú meginregla gildi að ekki skuli reisa frekari byggð á óbyggðum svæðum og enn fremur að nánari útfærsla á þeim fari fram á aðalskipulagsstigi. Þá segir í 5. kafla greinargerðar aðalskipulagsins að huga skuli að staðsetningu fjarskiptamannvirkja í deiliskipulagi.

Ákvæði þau í skipulagsreglugerð og aðalskipulagi sem að framan eru rakin eru ekki afdráttarlaus um skyldu til deiliskipulagningar þegar mannvirkjagerð er fyrirhuguð á óbyggðum svæðum, enda er gert ráð fyrir þeirri undantekningu að leyfi megi veita til slíks að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar. Þó er um undantekningu að ræða frá þeirri meginreglu að deiliskipuleggja skuli svæði þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og ber því með hliðsjón af því að beita þeirri heimild með varfærnum hætti. Ekki verður fram hjá því litið að Reykjavíkurborg hefur beitt skipulagsvaldi sínu með því að skilgreina topp Úlfarsfells í aðalskipulagi sem óbyggt svæði og tekið fram að nánari útfærsla á óbyggðum svæðum fari fram á því skipulagsstigi. Ekki liggur fyrir að svo hafi verið gert og verður að öllu framangreindu virtu að telja að synjun Skipulagsstofnunar um meðmæli hafi byggt á málefnalegu og lögmætu mati stofnunarinnar. Þá gefa þau gögn sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni ekki tilefni til að ætla að brotið hafi verið gegn jafnræði með hinni kærðu ákvörðun. Þannig hefur Skipulagsstofnun í nokkrum fjölda mála synjað um meðmæli á grundvelli þess bráðabirgðaákvæðis sem hér um ræðir og að sama skapi liggur fyrir að í þeim tilvikum, sem kærandi hefur haldið fram sem sambærilegum og meðmæli fengist fyrir, hafa aðstæður verið með öðrum hætti, s.s. vegna þess að aðalskipulag hafi ekki legið fyrir eða að eldri landnotkunarskilgreiningar hafi ekki staðið framkvæmd í vegi. Loks verður ekki talið að um hafi verið að ræða vanhæfi við töku hinnar kærðu ákvörðunar samkvæmt hæfisreglum stjórnsýslulaga. Bera málsgögn með sér að annar starfsmaður Skipulagsstofnunar, en sá sem sveitarfélagið telur eiga persónulegra hagsmuna að gæta í máli þessu, hafi tekið ákvörðun í málinu og ekki verður séð að ástæða hafi verið til að draga óhlutdrægni þess starfsmanns eða stofnunarinnar sem slíkrar í efa.

Með vísan til alls þess er að framan greinir er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 30. janúar 2013 um að synja um meðmæli vegna veitingar byggingarleyfis fyrir fjarskiptamannvirki á toppi Úlfarsfells í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

66/2013 Miðbraut

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 17. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 66/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2013 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna Miðbrautar 34, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júlí 2013, er barst nefndinni 12. s.m., kærir Í, Miðbraut 34, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2012 að synja um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna Miðbrautar 34, Seltjarnarnesi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 27. nóvember 2014 og í nóvember 2015. 

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Lóðin að Miðbraut 34 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Vesturhverfis, sem markast af Lindarbraut, Melabraut, Valhúsabraut og Hæðarbraut. Tilgreind lóð er staðsett innan svæðis sem merkt er A á deiliskipulaginu. Þar er að finna einbýlishús og er þar hvorki heimilt að fjölga íbúðum né bæta við viðbótarhæð. Heimilað nýtingarhlutfall á svæðinu er 0,3. Nefnt deiliskipulag tók gildi 7. ágúst 2007, en var kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, m.a. af kærendum þessa máls. Kvað nefndin upp úrskurð 28. apríl 2008 í því kærumáli, sem er nr. 94/2007, og hafnaði kröfu um ógildingu samþykktar deiliskipulagsins.

Fyrirspurn kærenda um deiliskipulagsbreytingu vegna hækkunar þaks hússins á nefndri lóð var tekin fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 19. júní 2012. Var bókað að nefndin tæki jákvætt í fyrirspurnina og óskaði eftir frekari gögnum. Umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi, vegna hækkunar á nefndu húsi úr einni hæð í eina og hálfa hæð, var móttekin 2. ágúst s.á. og fylgdu henni uppdrættir, dags. 24. júlí s.á. Á fundi nefndarinnar 21. ágúst 2012 var umsóknin tekin fyrir og hún samþykkt til auglýsingar. Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 12. september s.á. Var tillagan auglýst í kjölfarið og tekið fram í auglýsingu að tillagan fæli í sér hækkun þaks og breytingu húss úr einni hæð í eina og hálfa hæð að hámarki. Var gefinn kostur á að koma að athugasemdum til 17. desember s.á. Með bréfi, dags. 11. desember s.á., gerðu íbúar að Melabraut 29, 30, 31, 32, 33 og 34, auk íbúa að Miðbraut 36, athugasemdir við auglýsta tillögu.

Málið var tekið fyrir á ný á fundi bæjarstjórnar 13. febrúar 2013 og samþykkt að tillagan um breytingar á deiliskipulaginu yrði auglýst að nýju í Lögbirtingablaði og með áberandi hætti í dagblaði sem gefið væri út á landsvísu. Skyldi athugasemdafrestur eigi vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingarinnar skv. 1. mgr. 43. skipulagslaga nr. 123/2010. Í auglýsingu var tekið fram að breytingin vegna Miðbrautar 34 væri hækkun um hálfa hæð, þ.e.a.s. valmaþak með mæni 2,7 m yfir núverandi þaki. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 16. apríl s.á. var bókað að athugasemdir hefðu borist frá tilgreindri lögfræðistofu: „… fyrir hönd flestra eigenda á Melabraut 29 til 34 og á Miðbraut 36 um að hækkun yki skuggavarp á lóð og byrgði útsýn“. Frestaði nefndin afgreiðslu þar til aflað hefði verið frekari gagna. Á fundi sömu nefndar 14. maí s.á. var málið enn tekið fyrir og bókað að móttekin væri beiðni umsækjanda: „… um að fá að setja upp létta grind með útlínum þakhækkunar til að skýra erindi sitt betur“. Féllst nefndin á beiðnina og bókaði að hún myndi „… meta grenndaráhrif af uppsetningu á staðnum“.

Tillagan var næst tekin fyrir á fundi nefndarinnar 6. júní s.á. og var bókað að umfang þakhækkunar hefði verið markað með listum og snúrum á húsið til skoðunar fyrir nefndina. Á fundinum var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun: „Nefndin hefur kynnt sér málavexti og hafnar áformum um hálfa efri hæð vegna grenndaráhrifa.“ Var fundargerð nefndarinnar lögð fram á fundi bæjarstjórnar hinn 12. s.m. og staðfest. Er það sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að fyrir nokkrum misserum hafi komið í ljós að húsþak á fasteign þeirra að Miðbraut 34 væri ónýtt. Vegna þessa hafi þeir farið fram á breytingu á deiliskipulagi þannig að leyfð yrði hálf hæð undir valmaþaki ofan á hús sitt og yrði það þá ein og hálf hæð. Synjun bæjarstjórnar vegna andmæla nokkurra nágranna brjóti í bága við jafnræðis-, meðalhófs- og réttmætisreglu stjórnsýslulaga. Ákvarðanir um byggingarmagn í deiliskipulagi Vesturhverfis virðist ráðast af geðþótta sem mismuni fasteignareigendum í hverfinu. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins sé heimilt að reisa hús sem séu ein og hálf eða tvær hæðir á lóðum sem standi næst kærendum, vestan, sunnan og suðaustan við lóð þeirra. Þetta skapi talsverða mismunun á milli einstakra eigenda fasteigna á skipulagsreitnum í nýtingarheimildum lóða. Þá hafi enginn rökstuðningur fylgt hinni kærðu ákvörðun.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að fyrir liggi nýlegt skipulag af því svæði þar sem hús kærenda standi. Deiliskipulagið hafi átt sér langan aðdraganda og hafi verið umdeilt, m.a. vegna mismunandi heimilda til uppbyggingar á svæðinu, hæða húsa, byggingarmagns o.fl. Skipulagið hafi áður sætt kæru, m.a. á þeim grunni að það væri andstætt jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Á því álitaefni hafi verið tekið í úrskurði úrskurðanefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 94/2007. Með vísan til þeirra forsendna sem liggi að baki úrskurðinum um skipulagið í heild sinni stangist hin kærða ákvörðun, þ.e. synjun á breytingu á skipulaginu, ekki á við jafnræðisreglu, meðalhófsreglu eða réttmætisreglu stjórnsýslulaga. Lögmæt og málefnaleg sjónarmið hafi búið að baki synjuninni. Borgarar megi almennt búast við því að nokkur festa sé í skipulagsmálum og ekki séu gerðar breytingar á skipulagi nema þegar nauðsyn krefji, það styðjist við almannaþörf og lögmæt og málefnaleg sjónarmið.

Athugasemdir hafi borist frá nágrönnum í sjö húsum sem mótmælt hafi breytingunni vegna grenndaráhrifa. Að beiðni kærenda hafi verið veittur kostur á að sýna breytinguna með uppsetningu grindar á húsið. Sveitarfélagið hafi hafnað breytingunni eftir að hafa kynnt sér framangreint, þá með hliðsjón af andmælum nágranna og grenndaráhrifum.

Kærendur hafi farið fram á rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar með bréfi, dags. 27. ágúst 2013, og beri að líta á málsrök sveitarfélagsins sem frekari rökstuðning fyrir synjun erindisins. 

Loks hafi tillaga að deiliskipulagsbreytingu verið endurauglýst til að lengja athugasemdafrest og tryggja lögmæti meðferðar málsins, en fyrri auglýsing hafi ekki birst í Lögbirtingablaði. Athugasemdir sem borist hafi við fyrri auglýsingu hafi því verið látnar halda gildi sínu við endurauglýsingu.

Athugasemdir kærenda við umsögn Seltjarnarnesbæjar: Vísað er til þess að sveitarstjórn hafi ákveðið að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samræmi við umsókn kærenda. Hefði því samkvæmt skipulagslögum átt að vinna tillöguna eins og um nýtt deiliskipulag væri ræða. Það hafi ekki verið gert og sé hin kærða ákvörðun og málsmeðferð hennar haldin svo verulegum ágöllum að ógildingu hljóti að varða.

Ekki hafi verið gætt að lagaskyldu um samráð við gerð tillögunnar, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Bæjarstjórn hafi samþykkt að auglýsa tillöguna á fundi sínum 13. febrúar 2013 og hefði tillagan þá þegar þurft að fullnægja skilyrðum skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Hins vegar hafi ekki verið gætt að ákvæði gr. 5.2.1. í reglugerðinni, en þar segi að ef tillaga að deiliskipulagi, eða tillaga að breytingu á því, taki til svæðis sem liggi að lóðamörkum, landamörkum eða sveitarfélagamörkum skuli haft samráð við eiganda þess lands, lóðarhafa eða viðkomandi sveitarfélag áður en tillagan sé samþykkt til auglýsingar. Ákvæðið verði ekki skilið öðruvísi en svo að þegar um sé að ræða breytingartillögu um deiliskipulag einnar lóðar beri að hafa samráð við lóðarhafa aðliggjandi lóða, áður en tillagan sé auglýst.

Ekki hafi heldur verið gætt að ákvæðum í gr. 5.8.5.1. og 5.8.5.2. í sömu skipulagsreglugerð við meðferð málsins, en þar komi m.a. fram að í greinargerð skuli lýsa breytingunni, forsendum hennar, rökstuðningi fyrir henni, samráði við hagsmunaaðila og samræmi við aðalskipulag. Auglýst tillaga sé þegar samþykkt af sveitastjórn og verði ráðið af því að komi ekki fram athugasemdir þurfi ekki að taka tillöguna aftur fyrir í sveitarstjórn heldur nægi þá fyrri samþykkt hennar til auglýsingar, sbr. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Leiði af þessu að ljúka þurfi gerð skipulagstillögu fyrir auglýsingu hennar. Allar meginforsendur eigi að liggja fyrir, svo og upplýsingar um grenndaráhrif tillögunnar. Annars skorti á að fullnægt hafi verið rannsóknarreglu stjórnsýslulaga við undirbúning málsins. Af sömu ástæðu ætti það að heyra til undantekninga að athugasemdir sem fram hafi komið við auglýsta tillögu leiði til þess að frá henni sé fallið.

Bera verði áhrif þeirrar hækkunar á húsi kærenda sem um sé deilt saman við þá hæð sem húsið geti haft miðað við gildandi skipulagsskilmála. Á lóðinni sé jafnframt ónýttur byggingarreitur fyrir viðbyggingu og þótt sú viðbygging megi aðeins vera á einni hæð sé ekkert í skipulaginu um hæðarsetningu gólfplötu eða um þakgerð, en ekki sé kvöð um flöt þök á svæðinu. Þá liggi fyrir að erindi kærenda sé til komið vegna þess að þak á húsi þeirra leki og sé vandséð að mögulegt sé að neita þeim um byggingarleyfi fyrir mænisþaki eða valmaþaki á húsið án nýtanlegs rýmis, enda sé það ekki andstætt skipulagi svæðisins. Engin athugun á þessum mismunandi kostum hafi farið fram og því hafi skort á rannsókn málsins.

Fyrrverandi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hafi hafnað kröfu um ógildingu á deiliskipulagi Vesturhverfis, þrátt fyrir að í skipulaginu fælist talsverð mismunun milli lóðarhafa á svæðinu. Í ljósi þessa hljóti bæjaryfirvöld að þurfa að taka til skoðunar einstök tilvik á svæðinu þar sem um óeðlilega mismunun sýnist vera að ræða. Augljóst sé að betra væri að fallast á umsókn kærenda og samræma þannig stærðir húsa, yfirbragð og nýtingar-
hlutfall lóða, sbr. markmið skipulagsins.

Athugasemdir sem borist hafi við fyrri auglýsingu tillögunar virðist hafa ráðið úrslitum um afstöðu bæjaryfirvalda. Þær hafi hins vegar legið fyrir þegar bæjarstjórn samþykkti 13. febrúar 2013 að skipulagstillagan yrði auglýst að nýju. Með því að samþykkja að auglýsa tillöguna, þrátt fyrir fram komin mótmæli, hafi bæjarstjórn í raun hafnað mótmælunum. Þegar málið hafi verið tekið fyrir í skipulags- og mannvirkjanefnd 16. apríl 2013 eftir endurtekna auglýsingu hafi verið bókað á þann veg að skilja megi að athugasemdir hafi komið fram við þá auglýsingu. Málsgögn beri með sér að um sömu athugasemdir sé að ræða og bókað hafi verið um 18. desember 2012. Séu þessi vinnubrögð ámælisverð og til þess fallin að villa þeim sýn er komi ókunnugir að málinu. Þá hafi fram komnum mótmælum verið safnað og þeirra aflað með því að gefa ranga mynd af fyrirhugaðri breytingu. Bæjaryfirvöldum hafi borið að kanna uppruna þeirrar myndar og upplýsa hið sanna um umfang stækkunarinnar. Að afla ekki þeirra gagna sé brot á rannsóknarreglu.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2013 að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna lóðar nr. 34 við Miðbraut. Umsótt breyting fól í sér að bæta mætti við hús kærenda á lóðinni hálfri hæð undir valmaþaki þannig að húsið yrði ein og hálf hæð.

Um deiliskipulagsáætlanir er fjallað í VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags skv. 1. mgr. 38. gr. tilvitnaðra laga, en landeigandi eða framkvæmdaraðili getur m.a. óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað, sbr. 2. mgr. 38. gr. Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laganna skal fara með breytingar á samþykktu deiliskipulagi eins og um nýtt deiliskipulag sé að ræða að öðru leyti en því að ekki er skylt að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu skv. 1. mgr. 40. gr. Um gerð deiliskipulags, kynningu og samráð er fjallað í 40. gr. og um auglýsingu og samþykkt þess í 41. gr. Þá gilda um skipulagsmál almennt ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, sem tók gildi 31. janúar 2013, en áður gilti skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

Kærendur telja þá ágalla vera á meðferð málsins að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar, og hafa í því sambandi m.a. vísað til þess að ekki hafi verið gætt að lagaskyldu um samráð við gerð tillögunnar, sbr. 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Hafa kærendur um þá samráðsskyldu bent á gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, sem kveður á um að ef tillaga að breytingu deiliskipulags tekur til svæðis sem m.a. liggi að lóðamörkum, skuli haft samráð við eiganda þess lands og lóðarhafa áður en tillagan er samþykkt til auglýsingar. Sambærilegt ákvæði var ekki að finna í eldri skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Í máli þessu háttar svo til að bæjarstjórn staðfesti á fundi sínum 12. september 2012 að tillagan um deiliskipulagsbreytingarnar væri samþykkt til auglýsingar og var hún auglýst 3. nóvember s.á., hvoru tveggja í gildistíð skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Bæjarstjórn samþykkti tillöguna til auglýsingar að nýju á fundi sínum 13. febrúar 2013 og var hún auglýst 14. s.m. Hafði skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þá tekið gildi. Í 9. kafla þeirrar reglugerðar er að finna ákvæði til bráðabirgða og segir þar í 4. tl. að ákvæði hennar gildi ekki um tillögur að breytingum á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga sem sveitarstjórn hafi fyrir gildistöku hennar samþykkt að auglýsa í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Þá gildi ákvæði eldri skipulagsreglugerðar nr. 400/1998. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var ástæða endurauglýsingar umræddrar breytingartillögu til kynningar sú að láðst hafði við fyrri auglýsingu að birta hana í Lögbirtingablaði, svo sem áskilið er í 1. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Var bæjarstjórn því rétt að auglýsa tillöguna að deiliskipulagsbreytingunni að nýju til þess að uppfylla skilyrði um form auglýsingarinnar að lögum. Um lagaskil verður hins vegar að miða við fyrri samþykkt til auglýsingar, enda var endurauglýsing samþykkt vegna framangreindra formskilyrða og var um eina samfellda málsmeðferð að ræða. Þá eru að öðru leyti ekki efni til þess að ætla að ónógt samráð hafi farið fram í skilningi 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Kærendur halda því jafnframt fram að það leiði af 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga að fyrir auglýsingu skipulagstillögu þurfi að ljúka gerð hennar, m.a. í samræmi við gr. 5.8.5.1. og 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þannig að hægt sé að samþykkja hana að óbreyttu. Að öðrum kosti hafi rannsókn ekki verið sinnt nægjanlega, en nefnd reglugerð hafi tekið gildi fyrir ákvörðun sveitarstjórnar um endurauglýsingu tillögunnar. Að sama skapi hafi sveitarfélaginu við endanlega ákvörðun ekki verið heimilt að líta til athugasemda sem fram hefðu komið við fyrri auglýsingu tillögunnar þar sem hún hefði í raun hafnað þeim þegar ákveðið hafi verið að endurauglýsa.

Í 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga segir að sveitarstjórn skuli taka tillögu til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar þegar frestur til athugasemda sé liðinn. Í þeirri umfjöllun skuli taka afstöðu til athugasemda sem borist hafi. Ef engar athugasemdir séu gerðar við tillöguna sé ekki skylt að taka hana aftur til umræðu í sveitarstjórn heldur skuli senda hana Skipulagsstofnun. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni komu fram athugasemdir í kjölfar fyrri auglýsingar deiliskipulagsbreytingartillögunnar, en engar nýjar athugasemdir bárust við endurauglýsingu. Ljóst er af bókun bæjarstjórnar 13. febrúar 2013 að ekki var þá tekin afstaða til þeirra athugasemda sem þá voru fram komnar, heldur sneri afgreiðsla bæjarstjórnar þá eingöngu að því að auglýsa breytinguna á ný. Verður hvorki séð að ákvæði skipulagslaga eða reglugerðar hafi staðið endurauglýsingu í vegi né því að líta til áður fram kominna athugasemda við endanlega afgreiðslu málsins, enda er beinlínis skylt lögum samkvæmt að taka afstöðu til þeirra áður en mál er afgreitt. Þá er ljóst, að gr. 5.8.2.1. og 5.8.5.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um framsetningu breytinga á deiliskipulagi koma ekki til skoðunar, sbr. það sem áður hefur komið fram um skil milli eldri og yngri skipulagsreglugerðar, og þar sem breyting sú sem að var stefnt að beiðni kærenda kom greinilega fram í auglýsingu og kynningargögnum var skilyrðum þar um í skipulagslögum og þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 fullnægt.

Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags, eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Á því svæði sem hér um ræðir hefur bæjarstjórn nýtt sér framangreint skipulagsvald með deiliskipulagi Vesturhverfis, sem úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála tók afstöðu til í kærumáli nr. 97/2007. Þá hefur sveitarstjórn í skjóli skipulagsvalds síns synjað kærendum um breytingu á því skipulagi. Kemur þá til skoðunar hvort að sveitarstjórn hafi beitt valdi sínu á málefnalegan hátt og í samræmi við það markmið c-liðar 1. mgr. 1. gr. nefndra laga að tryggt sé að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi.

Á svæði merktu A í deiliskipulagi Vesturhverfis sem hér á við, er ekki gert ráð fyrir hækkun húsa í tvær hæðir. Tillaga kærenda að breyttu deiliskipulagi fól í sér hækkun húss um hálfa hæð með gerð valmaþaks á húsið í stað núverandi flats þaks, en við þá breytingu yrði mænishæð 2,7 m. Í breytingartillögunni kemur fram að skuggavarp eykst við breytinguna á nærliggjandi lóðir. Við meðferð málsins komu fram athugasemdir nágranna, sem lutu m.a. að skuggavarpi, og var bókað um þær athugasemdir, svo sem nánar greinir í málavöxtum. Þá liggur fyrir að umfang umbeðinnar þakhækkunar var markað með listum og snúrum til kynningar og skoðunar og kynntu fulltrúar skipulagsyfirvalda bæjarins sér aðstæður á vettvangi. Var það mat sveitarfélagsins að hafna bæri tillögu um hækkun húss kærenda með tilliti til grenndaráhrifa. Þrátt fyrir að fallast megi á að grenndaráhrif hinnar umþrættu breytingar séu ekki mikil er hin kærða ákvörðun studd efnisrökum og verður ekki talið að réttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn í skilningi 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þeirrar staðreyndar að íbúum sveitarfélags er almennt ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram breytingu á gildandi deiliskipulagi, verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Seltjarnarnesbæjar frá 12. júní 2013 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna Miðbrautar 34, Seltjarnarnesi.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

51/2015 Laufásvegur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 5. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 51/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 um að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi eldri viðbygginga að norðan- og vestanverðu við einbýlishúsið að Laufásvegi 59, lækkun gólfs í kjallara, byggingu anddyris til vesturs og borðstofu til austurs, breytingum á innra skipulagi og gerð svala ofan á viðbyggingar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra G og S, Laufásvegi 61, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 að veita byggingarleyfi fyrir niðurrifi eldri viðbygginga að norðan- og vestanverðu við einbýlishúsið að Laufásvegi 59, lækkun gólfs í kjallara, byggingu anddyris til vesturs og borðstofu til austurs, breytingum á innra skipulagi og gerð svala ofan á viðbyggingar. Með bréfi, dags. 5. október 2015, krefjast sömu aðilar þess jafnframt að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. júlí 2015, er barst nefndinni 10. s.m., kæra Unnur Ingimundardóttir, Sandra S. Einarsdóttir, Sonja Diego og Páll V. Kolka, Bergstaðastræti 64, Reykjavík, ráðgerðar byggingarframkvæmdir samkvæmt fyrrgreindri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík. Þar sem kærurnar lúta að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður það kærumál, sem er nr. 53/2015, sameinað kærumáli þessu.

Verður að skilja málatilbúnað kærenda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 17. ágúst, 7., 16. og 29. október og 2. nóvember 2015.

Málavextir: Með umsókn, dags. 17. febrúar 2015, sótti leyfishafi um byggingarleyfi fyrir niðurrifi eldri viðbygginga við hús hans að Laufásvegi 59, lækkun gólfs í kjallara, byggingu anddyris til vesturs, bogadreginnar viðbyggingar úr stofu til suðurs og borðstofu til austurs, breytingum á innra skipulagi og gerð svala ofan á allar viðbyggingar. Skipulagsfulltrúi samþykkti á embættisafgreiðslufundi sínum 27. s.m. að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina fyrir hagsmunaaðilum að Bergstaðastræti 60, 62, 62A og 64 og Laufásvegi 57, 58, 60 og 61.

Umsóknin var grenndarkynnt frá 5. mars til og með 2. apríl 2015 og bárust athugasemdir frá íbúum við Bergstaðastræti 64 og Laufásveg 61. Var þeim svarað með umsögn skipulagsstjóra, dags. 3. maí s.á., en umsögnin var samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 6. s.m. og málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 7. s.m. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. s.m. var byggingarleyfisumsóknin tekin fyrir að nýju, nú á grundvelli breyttra teikninga, þar sem horfið var frá því að gera bogadregna viðbyggingu úr stofu til suðurs. Var umsóknin að endingu samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. júní 2015. Fundargerð þess fundar var lögð fram til kynningar á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 10. s.m. og samþykkt á fundi borgarráðs 11. s.m.

Húsið við Laufásveg 59 var byggt árið 1924 og fellur því undir 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar, sem kveður á um að eigendum húsa og mannvirkja, sem ekki njóta friðunar en byggð voru 1925 eða fyrr, sé skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands ef þeir hyggjast breyta þeim, flytja þau eða rífa. Álit Minjastofnunar Íslands, dags. 17. mars 2015, vegna fyrirhugaðra breytinga á húsinu nr. 59 við Laufásveg lá fyrir þegar samþykkt var að veita hið kærða byggingarleyfi.

Málsrök kæranda: Kærendur að Laufásvegi 61 vísa til þess að nái framkvæmdirnar fram að ganga verði fjarlægð milli húsanna að Laufásvegi 59 og 61 allt of lítil og minni en byggingarreglugerð heimili. Hvað brunavarnir varði verði að taka tillit til sólstofu/gróðurhúss með plastþaki, sem áföst sé við húsið nr. 61. Ekki virðist hafa verið tekið tillit til sólstofunnar í umsögn skipulagsfulltrúa um athugasemdir sem borist hafi við grenndarkynningu byggingarleyfisins. Ekki sé heldur reiknað með þakskeggi á húsinu nr. 61, sem skagi um 35-40 cm út fyrir gafl hússins.

Svo virðist sem lækka eigi yfirborð lóðar um 40-60 cm eða meira við lóðamörk húsanna, fjarlægja timburskjólvegg á lóðamörkum og steypa nýjan vegg á sama stað. Þessu fylgi verulegt rask vegna jarðvinnu á lóð Laufásvegar 61 ásamt hættu á því að trjágróður næst lóðamörkunum skemmist. Samhliða breytingum á húsinu við Laufásveg 59 virðist einnig gert ráð fyrir að um 80-90 ára gamall hlynur á lóð hússins verði fjarlægður, en hlynurinn setji mikinn svip á lóðina og næsta nágrenni. Þá boði fyrirhugaðar breytingar aukið ónæði fyrir eigendur Laufásvegar 61, en stórar svalir verði nánast samtengdar því húsi og umferð út á bílskúrsþak, sem verði samtengt viðbyggingunni, verði meiri.

Kærendur að Bergstaðastræti 64 skírskota til þess að greinargerð, sem samin hafi verið um athugasemdir sem fram hafi komið við grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknarinnar, hafi ekki borist þeim frá Reykjavíkurborg. Þeim þyki skjóta skökku við að heimiluð skuli vera svo mikil stækkun gamals húss í gömlu og grónu hverfi með mjög óeðlilegri og ágengri nýtingu lóðar á kostnað nágranna, heildarsvips götunnar og hverfisins alls. Í áðurnefndri greinargerð hafi verið látið í veðri vaka að reynt hafi verið að gæta sæmdarréttar arkitekts hússins og hússins sjálfs með því að umturna ekki útliti þess algerlega, en kærendum þyki þó sem hefðarréttur hverfisins í heild og yfirbragðs þess sé fyrir borð borinn.

Lögboðið bil milli húsa sé ekki virt og engar eðlilegar ástæður hafi verið gefnar fyrir því. Með þessu sé gengið á hlut nágranna í næstu húsum og rétt þeirra til friðhelgi einkalífs og hefðbundins útsýnis. Þá eru athugasemdir sem gerðar voru við grenndarkynningu byggingarleyfisins ítrekaðar, en í þeim kom fram að áformaðar framkvæmdir myndu skerða freklega birtu og útsýni, sem verið hefði meðal helstu kosta íbúðanna í húsinu, skerða notagildi lóðar til útivistar með auknu skuggavarpi og verulega færri sólskinsstundum, þrengja að lóð Bergstaðastrætis 64 og rýra stórkostlega verðgildi íbúða í húsinu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg fer fram á að kröfum kærenda í málinu verði hafnað, enda hafi ekkert komið fram sem leitt geti til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Í grein 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé sett fram sú meginregla að bil á milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið til þess að eldur nái ekki að breiðast út á milli þeirra. Umrædd viðbygging standi uppi á bílskúr (sic) og standi því mun hærra en gróðurskáli kærenda við Laufásveg 61. Einn lítill óopnanlegur gluggi sé sýndur á gafli viðbyggingarinnar með E60 brunaþolnu gleri en 6 m séu á milli viðbyggingarinnar og húss kærenda við Laufásveg 61. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi farið yfir uppdrættina og engar athugasemdir gert. Viðbyggingin uppfylli því kröfur byggingarreglugerðar um brunavarnir. Kærendur við Laufásveg 61 geti auk þess ekki vænst þess að gróðurskáli þeirra, sem sé við lóðamörkin, verði til þess að hindra nýtingarmöguleika næstu lóðar um aldur og ævi.

Stækkun og umfang hússins við Laufásveg 59 sé í samræmi við stækkunarmöguleika nærliggjandi lóða, sbr. deiliskipulag Smáragötureita frá 2005, en litið hafi verið til þess deiliskipulags við mat á því hvort byggingarleyfisumsóknin samræmdist byggðamynstri hverfisins. Framkvæmdin sé því í fullu samræmi við það sem gangi og gerist hvað varðar umfang, stærð og nýtingarhlutfall í nágrenninu. Skipulagsyfirvöld hafi talið byggingarleyfisumsóknina í samræmi við byggðamynstur svæðisins og þéttleika byggðarinnar, en ekki sé ljóst hvað kærendur eigi við með orðinu „hefðarréttur“ hverfisins. Horfið hafi verið frá bogabyggingu og framhlið hússins verði því óbreytt. Varðandi bil á milli húsa vísist til umsagnar skipulagsfulltrúa, en þar komi fram að brunavarnir muni samræmast kröfum byggingarreglugerðar.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er skírskotað til þess að byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi þegar fjallað um nálægð viðbyggingar við fasteignina að Laufásvegi 61. Um sé að ræða steinsteypta viðbyggingu með föstum glugga úr eldvarnargleri, sem snúi að Laufásvegi 61. Ekki verði séð að fyrirhuguð viðbygging standi of nálægt umræddri fasteign.

Skúr með plastþaki, sem standi á lóð nr. 61 við Laufásveg, sé á samþykktri teikningu frá 1991 og sé hann sambyggður við bílskúr á Laufásvegi 59 og fasteignina við Laufásveg 61. Ljóst sé að þáverandi eigendur Laufásvegar 59 hafi veitt heimild fyrir umræddum skúr, sem standi við lóðamörkin, en með því hafi þeir ekki verið að afsala sér réttindum yfir eignarlóð sinni og veita kærendum rétt til að helga sér svæði langt inn á lóðina Laufásveg 59. Þak bílskúrsins að Laufásvegi 59 sé afmörkuð verönd sem nýtt sé til sólbaða og sem grillaðstaða. Ekki sé um að ræða neina eðlisbreytingu varðandi nálægð fasteignanna heldur einungis aukið byggingarmagn á lóðinni. Þá sé bent á að umræddur skúr á lóð Laufásvegar 61 sé byggður úr ólögmætum byggingarefnum, þ.e. plasti, og ótækt sé að láta hann koma í veg fyrir framkvæmdir sem feli í sér byggingu vandaðrar og glæsilegrar steinsteyptrar byggingar. Jafnframt sé augljós brunahætta af því að hafa skúr með plastþaki sambyggðan timburhúsinu við Laufásveg 61.

Fyrirhuguð viðbygging muni standa langt frá fasteigninni að Bergstaðastræti 64 og ekki verði séð að athugasemdir íbúa þar eigi við rök að styðjast. Hvað sæmdarrétt arkitekts hússins varði hafi erfingjar hans um hann að segja en ekki nágrannar. Minjastofnun Íslands hafi fjallað um ytra útlit viðbyggingarinnar með ítarlegum hætti og ljóst megi vera að hún sé ekki í slíku ósamræmi við ytra útlit hússins að það fari í bága við höfundarrétt arkitekts eða almenna ásýnd hverfisins. Þá liggi fyrir fjölmörg fordæmi um afar áþekkar viðbyggingar í hverfinu.

Erfitt sé að átta sig á tilvísun kærenda til friðhelgi einkalífs og hefðbundins útsýnis. Rétt sé að útsýni yfir þak bílskúrsins að Laufásvegi 59 skerðist eitthvað. Þó beri að hafa í huga að viðbyggingin sem um ræði sé annars vegar kjallari, sem ekkert útsýni taki af nágrönnum, og hins vegar 28 m2 borðstofa á 1. hæð, sem sé 4 m breið og inndregin og geti ekki valdið mikilli skerðingu á útsýni. Þá sé hér um að ræða fasteignir í miðborg Reykjavíkur þar sem útsýni manna sé almennt aðeins yfir í næsta garð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita byggingarleyfi fyrir viðbyggingum og breytingum á einbýlishúsi á lóð nr. 59 við Laufásveg. Ekki er í gildi deiliskipulag á svæðinu.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að grenndarkynning felist í því að skipulagsnefnd kynni nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn eða tillögu að breytingu á skipulagsáætlun og gefi þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, þ. á m. svör við framkomnum athugasemdum.

Kærendur við Bergstaðastræti 64 hafa gert athugasemd við að þeim hafi ekki verið send svör skipulagsfulltrúa við athugasemdum sem fram komu við grenndarkynninguna. Af gögnum málsins verður hins vegar ráðið að kærendur höfðu fengið svör skipulagsfulltrúa í hendur og var kunnugt um efni þeirra þegar kæra þeirra var útbúin og urðu þeir því ekki fyrir réttarspjöllum af því tilefni.

Eins og rakið er í málavöxtum var það skipulagsfulltrúi sem tók ákvörðun um grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar leyfishafa en ekki skipulagsnefnd, svo sem framangreint lagaákvæði kveður á um. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna. Kemur þar einnig fram að sveitarstjórn sé heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, sbr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Á þeim tíma er hér um ræðir lá ekki fyrir heimild fyrir skipulagsfulltrúa til að taka slíka ákvörðun sem stoð ætti í samþykkt sem birt hefði verið í Stjórnartíðindum. Umhverfis- og skipulagsráð, sem fer með verkefni skipulagsnefndar samkvæmt skipulagslögum, tók hins vegar afstöðu til hinnar grenndarkynntu umsóknar og var sú afgreiðsla ráðsins síðan staðfest í borgarráði.

Af framangreindum ástæðum verða nefndir annmarkar á málsmeðferð ekki taldir þess eðlis að raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar og ekki liggur fyrir að aðrir hnökrar hafi verið á formlegri málsmeðferð umsóknarinnar sem áhrif geta haft á gildi hennar.

Um bil á milli bygginga er fjallað í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er þar sett fram sú meginregla að bil á milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra. Þá eru í greininni settar fram viðmiðunarreglur um bil á milli bygginga og er þar m.a. vísað í töflu um lágmarksfjarlægðir, en þær gilda þó eingöngu við nánar tilgreindar aðstæður og þegar ekki er sýnt fram á að annað sé nægjanlegt til að uppfylla skilyrði meginreglunnar. Í máli þessu er upplýst að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fór yfir uppdrættina og gerði ekki athugasemdir. Verður því við það miðað að skilyrði meginreglunnar í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð séu uppfyllt.

Hið kærða byggingarleyfi áskilur að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða. Er byggingarleyfið þannig skilyrt hvað þetta varðar og byggingarleyfishafa því óheimilt að ráðast í breytingar á lóðamörkum án slíks samráðs. Þá heimilar hið kærða byggingarleyfi ekki að hlynur sá sem stendur á lóð leyfishafa, og kærendur nefna, verði fjarlægður.

Samkvæmt skýringarmyndum um skuggavarp sem liggja fyrir í málinu hefur skuggavarp af umræddum viðbyggingum ekki teljandi grenndaráhrif. Þá verður að telja að útsýnisskerðing sem kærendur kunna að verða fyrir vegna nefndra viðbygginga sé ekki umfram það sem íbúar í þéttbýli megi almennt búast við.

Laufásvegur 59 er á svæði innan Hringbrautar sem skilgreint er sem sérstakt hverfisverndarsvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þar eru markmið og ákvæði um hverfisvernd á svæðinu skilgreind og kemur þar m.a. fram að stefna sem komi fram í heftinu „Húsvernd í Reykjavík“, ásamt uppfærðu húsverndarkorti, gildi áfram. Samkvæmt þessum gögnum er Laufásvegur 59 á svæði sem lagt er til að vernda. Er lagt til að svip húsa verði sem minnst raskað, t.d. þak- og gluggagerðum. Sýna þurfi sérstaka aðgát við hönnun breytinga og viðbygginga. Breytingar voru gerðar á byggingarleyfisumsókn leyfishafa áður en hún var samþykkt, en með þeim var komið til móts við athugasemdir Minjastofnunar Íslands sem byggðust á framangreindum gögnum. Svo sem áður var rakið var fallið frá breytingum á framhlið hússins, þar sem áður var fyrirhugað að gera bogadregna viðbyggingu. Þá voru gerðar breytingar á útliti glugga á götuhlið hússins. Í ljósi þessa verður ekki séð að umrætt leyfi fari gegn framangreindum markmiðum aðalskipulags.

Eins og fyrr er að vikið að eru skilyrði þess að veita megi byggingarleyfi í þegar byggðum hverfum, án þess að fyrir liggi deiliskipulag, þau að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í máli þessu er um að ræða leyfi til breytinga og viðbygginga við íbúðarhús á lóð í grónu hverfi á svæði sem skilgreint er sem íbúðarsvæði í gildandi aðalskipulagi. Nýtingarhlutfall, sem er mælikvarði á þéttleika byggðar, verður 0,67 eftir breytingar, samkvæmt samþykktum uppdráttum. Er það innan þeirra marka sem Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 tilgreinir, en þar kemur fram að meðalnýtingarhlutfall í Miðborg – borgarhluta 2 hafi verið 0,66 á árinu 2010 og að áætlað sé að það verði 0,88 á árinu 2030. Ekki verður talið að fyrirhugaðar viðbyggingar verði til þess að húsið samræmist ekki byggðamynstri.

Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi verða byggðar svalir á 2. hæð hússins ofan á viðbyggingar, nánar tiltekið 22,1 m2 svalir ofan á viðbyggingu til austurs, sem snýr að Laufásvegi 61, og 6,3 m2 svalir ofan á viðbyggingu til vesturs. Jafnframt er gert ráð fyrir veröndum á 1. hæð ofan á viðbyggingu til austurs að hluta, til viðbótar við þá nýtingu sem verið hefur á þaki bílskúrs. 

Notkun þakflatar undir svalir er óhefðbundin og getur eftir atvikum haft veruleg áhrif á nýtingarmöguleika nágrannalóða, svo sem vegna hljóðvistar og yfirsýnar yfir næstu lóðir. Með hinni kærðu ákvörðun er m.a. heimiluð gerð 22,1 m2 svala á 2. hæð á þakfleti viðbyggingar til austurs. Verður að telja að notkun umrædds þakflatar fari gegn grenndarhagsmunum kærenda. Af framangreindum ástæðum er það álit úrskurðarnefndarinnar að leyfi fyrir slíkri notkun þurfi að eiga stoð í deiliskipulagi, en sem áður greinir er ekki til að dreifa deiliskipulagi fyrir umrætt svæði. Ber af þeim sökum að ógilda hið kærða byggingarleyfi, en með vísan til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður byggingarleyfið þó eingöngu ógilt að því er varðar heimild til að gera 22,1 m2 svalir á 2. hæð á þakfleti viðbyggingar til austurs.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. júní 2015 um að veita byggingarleyfi til að gera 22,1 m2 svalir á 2. hæð á þakfleti viðbyggingar til austurs við Laufásveg 59. Að öðru leyti skal hin kærða ákvörðun standa óröskuð.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

78/2013 Hrímland

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 12. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2013, kæra á þeirri afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúans Akureyrar frá 8. júlí 2013 að synja um útgáfu vottorðs um lokaúttekt vegna frístundahúsa við Hrímland 1, 3 og 5 á Akureyri.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir SS Byggir ehf. afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 8. júlí 2013 um að synja útgáfu vottorðs um lokaúttekt vegna frístundahúsa við Hrímland 1, 3 og 5 á Akureyri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að sveitarfélaginu verði gert að gefa út nefnt vottorð.

Gögn málsins bárust frá Akureyrarbæ 28. ágúst 2013 og í september og október 2015.

Málavextir: Á árinu 2012 voru samþykkt byggingaráform vegna byggingar frístundahúsa að Hrímlandi 1, 3 og 5 á Akureyri. Breytingar á aðaluppdráttunum voru samþykktar 30. janúar 2013 og 12. febrúar s.á. var gerð lokaúttekt á nefndum húsum. Við þá skoðun komu fram athugasemdir er lutu m.a. að því að loftræsing úr eldhúsi væri ekki í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar þar um, svo sem nánar var greint frá í tölvupósti sveitarfélagsins til verkefnastjóra framkvæmdanna 7. mars s.á. Með tölvupósti til sveitarfélagsins 25. júní s.á. fór kærandi fram á að framkvæmd yrði lokaúttekt á nefndum húsum þar eð sveitarfélagið hefði ekki sýnt fram á að nefnd loftræsing stæðist ekki kröfur byggingarreglugerðar. Í svarbréfi skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar, dags. 8. júlí 2013, var þeirri beiðni hafnað, með vísan til þess að ekki væri hægt að gefa út lokaúttektarvottorð fyrr en úrbætur hefðu verið gerðar.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að höfnun sveitarfélagsins byggi á huglægu mati skipulags- og byggingarfulltrúa. Ekki hafi verið sýnt fram á að loftræsing úr eldhúsi standist ekki þar til gerðar kröfur í byggingarreglugerð. Kærandi hafi leitað til sérfræðings í loftræsingum er unnið hafi skýrslu, svonefnda stilliskýrslu, sem sýni fram á að loftskipti umræddra húsa uppfylli ákvæði nefndrar reglugerðar og hafi þeirri skýrslu ekki verið hnekkt af hálfu bæjarins. Þá hafi byggingarmálasvið Akureyrarbæjar sett fram þá kröfu að gerð yrði loftræstirist, hátt á vegg milli baðherbergis og eldhúss, en við það vilji kærandi ekki una.

Málsrök Akureyrarbæjar:
Sveitarfélagið tekur fram að synjun þess sé á því byggð að kröfur um loftræsingu úr eldhúsi samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum, dags. 30. janúar 2013, og ákvæðum byggingarreglugerðar nr. 112/2012, hafi ekki verið uppfylltar. Samkvæmt 5. mgr. gr. 3.9.1. í byggingarreglugerð megi ekki vera ófullgerðir verkþættir sem snerti öryggis- eða heilbrigðiskröfu við lokaúttekt og því sé ekki hægt að gefa út lokaúttektarvottorð nema atriði er varði hollustu séu uppfyllt. Skírskoti sveitarfélagið m.a. til gr. 10.2.5. í reglugerðinni og telji að þar sé gerð sú krafa að lámarksútsog úr eldhúsi, baðherbergi, þvottaherbergi, rými með heitum potti og geymslu/inntaksrými sé samtals 100 l/s. Jafnframt segi í sömu grein að aðstreymi lofts að eldhúsi, baðherbergi og þvottahúsi skuli koma um op sem séu að flatarmáli minnst 100 sm² fyrir hvert rými. Það loft megi, þegar þau liggi ekki að útvegg, koma frá aðliggjandi rýmum með minna mengunar- eða rakaálagi. Þegar þau liggi að útvegg skuli ferskt loft koma að utan, um glugga eða sérstök loftræstiop. Samkvæmt byggingarreglugerð sé því gert ráð fyrir vélrænu útsogi eða sjálfsogandi útsogi upp úr þaki frá þessum rýmum, hverju fyrir sig. Opnanlegir gluggar séu aðeins ætlaðir fyrir ferskt inniloft. Ákvæði nefndrar greinar gildi einnig um frístundahús, sbr. 1. mgr. gr. 6.11.1. í byggingarreglugerð.

Húsbyggjandi geri ráð fyrir að inntaksloftið komi um loftunarristar í stofu og fari í gegnum eldhús, undir hurð inn í pottarými og í þvottahúsi, með rennihurð inn í baðherbergi og loftræsi þannig eldhúsið um leið. Í eldhúsi og stofu, sem sé eitt og sama rýmið, sé hæð frá hurð að lofti minnst 70 cm og upp í 160 cm. Þar geti safnast saman hiti, raki og lykt frá eldhúsi þar sem ekki sé útsog beint frá því rými. Frá inntaki lofts að hurð í pottasal sé stysta leiðin 5 m. Verði inntaksloftið eingöngu tekið inn með útsogi undir og með hurðum muni því ferska kalda loftið verða dregið niður undir gólf til að fara undir hurðina og lítil sem engin hreyfing verði á heita og raka rýminu upp við loft í eldhúsi og stofu. Sé tilgangur loftræsingar sá að soga burtu raka og lykt vegna eldunar og því eðlilegt að slíkt útsog sé staðsett upp við loft.

Álit Mannvirkjastofnunar: Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála leitaði álits Mannvirkjastofnunar á hinni kærðu afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa, sem sérfróðs aðila á því sviði sem kæran beinist að, en skv. 18. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki getur stofnunin tekið til athugunar hvort afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi farið í bága við lög. Umsögn stofnunarinnar barst úrskurðarnefndinni hinn 4. júlí 2014 og var umboðsmanni kæranda send umsögnin og gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna þessa.

Að mati Mannvirkjastofnunar uppfyllir greint fyrirkomulag loftræsingar í nefndum frístundahúsum ekki ákvæði gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð, þar sem ekki sé sérstakt útsog frá eldhúsi. Í álitinu er m.a. tekið fram að fullnægjandi loftræsing sé ein þeirra hollustukrafna sem gerðar séu til mannvirkja skv. byggingarreglugerð og sé byggingarfulltrúa heimilt lögum samkvæmt að hafna útgáfu vottorðs um lokaúttekt mannvirkis sé ekki að fullu sýnt fram á að kröfur reglugerðarinnar þess efnis séu uppfylltar. Vísar stofnunin m.a. til c-liðar 2. mgr. gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð þar sem fram komi að útsog úr eldhúsi íbúðar skuli vera að lágmarki 30 l/s. Er það álit stofnunarinnar að sérstakt útsog skuli vera úr því rými og felist það að mati stofnunarinnar m.a. í merkingu orðsins útsog, þ.e. að loftið skuli dregið út, án viðkomu í öðrum rýmum íbúðarinnar. Útsog í öðru rými, sem dragi loft úr eldhúsi um önnur rými íbúðarinnar, teljist ekki útsog úr eldhúsi. Vísar stofnunin varðandi þá túlkun m.a. til ákvæðis 2. mgr. í gr. 10.2.2. Ástæður þess að krafist sé útsogs úr tilteknum rýmum íbúða í gr. 10.2.5. séu þær að ekki sé talið ásættanlegt, með tilliti til þæginda og heilbrigðis íbúa, að draga lykt og raka úr þessum rýmum yfir í önnur rými íbúða. Jafnframt þessu skírskotar stofnunin til 4. mgr. gr. 10.2.3. í byggingarreglugerð þar sem fram komi að nota skuli staðbundið útsog þar sem mengandi vinnsla fari fram. Telur Mannvirkjastofnun að sameiginlegt markmið þessara ákvæða sé að mengun, lykt, raka og öðru sem valdi óæskilegum loftgæðum sé ekki dreift að óþörfu um íverurými fólks, heldur ræst út sem næst upptökunum með útsogi. Þá sé tekið fram að öll ákvæði 10. hluta byggingarreglugerðar séu ófrávíkjanleg nema annað sé tekið fram, sbr. gr. 10.1.3. í reglugerðinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá afgreiðslu skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar að synja um útgáfu vottorðs um lokaúttekt vegna byggingar húsanna nr. 1, 3 og 5 við Hrímland.

Í 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki kemur fram að sé mannvirki háð byggingarleyfi skv. 9. gr. laganna samþykki byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, byggingaráform eftir að hafa farið yfir byggingarleyfisumsókn og m.a. gengið úr skugga um að aðaluppdrættir uppfylli ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafi verið á grundvelli þeirra. Samkvæmt nefndu lagaákvæði er umsækjanda tilkynnt um samþykkt byggingaráforma, en sú tilkynning veitir umsækjanda þó ekki heimild til að hefja byggingarframkvæmdir heldur þarf til að koma útgáfa byggingarleyfis skv. 13. gr. laganna. Eitt þeirra skilyrða sem sett eru þar fyrir útgáfu leyfisins er að aðal- og séruppdrættir hafi verið yfirfarnir og að leyfisveitandi hafi áritað þá til staðfestingar á samþykki.

Eins og fram kemur í málavöxtum samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi aðaluppdrætti að þeim húsum sem hér um ræðir á árinu 2012, en á þeim var ekki getið um loftræsingu. Hinn 30. janúar 2013 voru samþykktar breytingar á aðaluppdráttum og var þá m.a. tekið fram í byggingarlýsingu að eldhús yrði loftræst vélrænt um þak. Séruppdrættir af loftræsikerfi húsanna munu hafa verið mótteknir 21. febrúar s.á. en ekki samþykktir á þeim forsendum að loftræsing úr eldhúsi væri ekki í samræmi við kröfur þar um í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í málinu liggur fyrir eftirfarandi lýsing lagnahönnuðar umræddra húsa á loftræsingu þeirra: „Við hönnun frístundahússins er miðað við að loftræsing sé blanda af vélrænni og náttúrulegri loftræsingu. Vélrænt útsog er frá lokuðum og gluggalausum rýmum, þ.e. þvottahúsi (20 l/s), baðherbergi (15 l/s) og geymslu (15 l/s). Enn fremur er vélræn loftræsing frá rými með heitum potti auk þess sem þar er bæði opnanlegur gluggi og rennihurð sem er hugsuð sem aðal loftræsing rýmisins þegar potturinn er í gangi. Viðmiðunar loftmagnstölur fyrir vélræna loftræsingu eru fengnar úr byggingarreglugerð, grein 10.2.5. Í svefnherbergjum, stofu og eldhúsi er loftræsing um opnanlega glugga og hurðar. Auk þess eru ristar ofan við glugga í stofu sem nýtast sem loftinntak fyrir loft til móts við vélrænt útsog í húsinu. Þetta loft nýtist jafnframt til loftræsingar á stofu og eldhúsi áður en það er dregið að vélrænt loftræstum rýmum. Vélrænt útsog frá þvottahúsi, baðherbergi og heitum potti er samtals 50 l/s. Þetta loftmagn samsvarar 0,88 loftskiptum í öðrum rýmum hússins.“ Er jafnframt tekið fram að skv. gr. 10.2.5. megi loftræsa með náttúrulegri eða vélrænni loftræsingu eða blöndu af hvoru tveggja og að tryggja beri að loftskipti séu möguleg að lágmarki, óháð gerð loftræsingar. Er niðurstaða hönnuðarins sú að „…loftræsting annarra rýma sé tryggð með náttúrulegri loftræstingu með opnanlegum gluggum og hurðum og þannig séu kröfur byggingarreglugerðar um möguleg loftskipti uppfyllt að fullu“. Samkvæmt framangreindri lýsingu er loftræsing úr eldhúsi, einkum um opnanlega glugga og dyr en ekki vélræn um þak, eins og fram kemur á samþykktum aðaluppdráttum frá 30. janúar 2013.

Kveðið er á um almennar kröfur til loftræsibúnaðar í gr. 14.9.1. í byggingarreglugerð og er þar tekið fram að um kröfur til gæða innilofts gildi ákvæði kafla 10.2. og 10.3. Jafnframt kemur fram að við hönnun, uppsetningu og frágang loftræsikerfa beri ávallt að velja lausnir sem taki tillit til þeirra þátta sem áhrif hafi á inniloft rýmisins sem eigi að loftræsa, þannig að þar séu fullnægjandi loftgæði. Sé loftræsikerfi ætlað að þjóna mismunandi rýmum og sé hætta á gufum, miklum loftraka eða ögnum í loft, s.s. vegna reyks, matarlyktar o.þ.h., skuli valin lausn sem taki tillit til allra aðstæðna og tryggi fullnægjandi loftgæði hvers einstaks rýmis. Í 10. hluta byggingarreglugerðar er fjallað um hollustu, heilsu og umhverfi. Kemur fram í gr. 10.2.1. að loftgæði innan mannvirkja skuli vera fullnægjandi og í samræmi við notkun þeirra og tryggt að loft innan mannvirkis innihaldi ekki mengandi efni sem valdið geti tjóni eða óþægindum. Samkvæmt gr. 10.2.2. skal loftræsa allar byggingar og getur loftræsing verið vélræn, náttúruleg eða blanda af hvoru tveggja. Í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að við ákvörðun loftræsingar beri t.d. að taka mið af tegund og gerð rýmis og hita- og rakamyndun. Kveður gr. 10.2.5. á um loftræsingu íbúða og tengdra rýma og eru þar settar fram lágmarkskröfur um útsog frá nánar tilgreindum rýmum, en tryggja skal samkvæmt greininni að þau loftskipti séu möguleg óháð gerð loftræsingar. Er tiltekið í c-lið greinarinnar að útsog úr eldhúsi íbúðar skuli ekki vera minna en 30 l/s. Framangreind ákvæði eiga einnig við um frístundahús skv. 1. mgr. gr. 6.11.1. í byggingarreglugerð, en þar segir að almennar hollustuháttakröfur íbúða gildi um frístundahús.

Framkvæmd lokaúttektar og útgáfa vottorðs þess efnis er hluti af lögbundnu eftirliti byggingarfulltrúa með mannvirkjagerð skv. 16. gr. mannvirkjalaga. Skal þá, skv. 3. mgr. 36. gr. tilvitnaðra laga, gera úttekt á því hvort mannvirkið uppfylli ákvæða laganna og reglugerða sem settar hafi verið samkvæmt þeim og hvort byggt hafi verið í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Komi í ljós við lokaúttekt að mannvirki uppfylli ekki öryggis- eða hollustukröfur geti eftirlitsaðili fyrirskipað lokun mannvirkis og lagt fyrir eiganda þess að bæta úr. Skuli þá lokaúttektarvottorð ekki gefið út fyrr en það hafi verið gert, sbr. 5. mgr. 36. gr. laganna, sbr. og 5. mgr. í gr. 3.9.1. í byggingarreglugerð.

Ljóst er af því sem áður er rakið að loftræsing úr eldhúsi þeirra húsa sem hér um ræðir er ekki í samræmi við byggingarlýsingu á endanlegum aðaluppdráttum og þar með ekki í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Þá bendir úrskurðarnefndin á mat Mannvirkjastofnunar, sem er sérfróður aðili á þessu sviði, þess efnis að loftræsingin uppfylli ekki ákvæði gr. 10.2.5. í byggingarreglugerð, einkum c-liðar 2. mgr. ákvæðisins, þar sem fram komi að útsog úr eldhúsi íbúðar skuli vera að lágmarki 30 l/s. Með vísan til framangreinds var skipulags- og byggingarfulltrúa rétt að synja um útgáfu lokaúttektarvottorðs, enda uppfylltu nefnd hús ekki ákvæði byggingarreglugerðar um hollustukröfur mannvirkja, auk þess sem þau voru ekki byggð í samræmi við samþykkt hönnunargögn. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Akureyrar frá 8. júlí 2013 um að synja um útgáfu lokaúttektarvottorðs vegna húsanna nr. 1, 3 og 5 við Hrímland á Akureyri.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ______________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

24//2013 Kotabyggð

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 4. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 24/2013, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúa Svalbarðsstrandarhrepps frá 4. febrúar 2013 um að synja útgáfu byggingarleyfis fyrir frístundahúsi á lóð nr. 44 í Kotabyggð, Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. mars 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Óskar Sigurðsson, hrl., f.h. BB bygginga ehf., leigutaka lóðar nr. 44 að Kotabyggð, Svalbarðsstrandarhreppi, þá afgreiðslu byggingarfulltrúa Svalbarðsstrandarhrepps frá 4. febrúar 2013 að hafna útgáfu byggingarleyfis fyrir frístundahúsi á lóðinni nr. 44 í Kotabyggð. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu en hinn 23. maí 2012 mun kærandi hafa lagt inn erindi til byggingarfulltrúa um byggingu frístundahúss á lóð nr. 44 í Kotabyggð. Málið var til meðferðar hjá sveitarfélaginu þá um sumarið og á fundi sveitarstjórnar hinn 4. júlí s.á. var eftirfarandi fært til bókar um það: „Áður á dagskrá sveitarstjórnar á 30. fundi þann 12. júní s.l. Leitað hefur verið álits lögmannsstofu á þeirri stöðu sem uppi er varðandi gildi deiliskipulags í Kotabyggð. Þótt gert sé ráð fyrir tímabundinni blöndun frístundabyggðar og íbúðarbyggðar í Kotabyggð í greinargerð aðalskipulags er það niðurstaða sveitarstjórnar að ekki sé að finna í textanum skýra heimild til byggingar nýrra frístundahúsa heldur sé þar aðeins gert ráð fyrir að eldri byggð haldi sér. Til að leyfa slíkt frávik hefði heimild til þess þurft að koma fram með skýrum hætti í aðalskipulaginu að mati lögfræðinga. Afstaða sveitarstjórnar er því að ekki sé heimilt að gefa út byggingarleyfið. Niðurstaða sveitarstjórnar er meðal annars byggð á áliti Skipulagsstofnunar og lögmannsstofnunnar […]“. Á fundi sveitarstjórnar hinn 15. janúar 2013 var samþykkt breyting á Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 og með bréfi, dags. 17. s.m., fór sveitarstjóri fram á það við Skipulagsstofnun að farið yrði með tillöguna sem óverulega. Jafnframt því var birt tilkynning um afgreiðslu sveitarstjórnar og sagði þar að samkvæmt tillögunni yrði heimilt að skilgreina frístundalóðir á umræddu svæði í deiliskipulagi og að veita byggingarleyfi fyrir frístundahúsum að uppfylltum vissum skilyrðum.

Hinn 1. febrúar 2013 lagði kærandi inn umsókn til byggingarfulltrúa um byggingu frístundahúss á fyrrgreindri lóð. Var erindi hans sent samdægurs með tölvupósti til sveitarstjóra Svalbarðsstrandarhrepps sem svaraði byggingarfulltrúa sama dag með svohljóðandi tölvupósti: „…Skipulagsstofnun hefur hafnað beiðni okkar um að staðfesta óverulega breytingu á aðalskipulagi. Staða aðalskipulagsins er því óbreytt og þar af leiðandi óheimilt að gefa út byggingarleyfi á svæðinu“. Framsendi byggingarfulltrúi svar sveitarstjóra til kæranda með tölvupósti 4. s.m. og tók fram í póstinum: „…hér færðu svar frá sveitarstjóra […]“. Eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni, eða með bréfi, dags. 13. maí s.á., tilkynnti sveitarstjóri kæranda að erindið hefði í raun ekki hlotið formlega afgreiðslu hjá byggingarfulltrúa og að ákveðið hefði verið að taka það til efnislegrar afgreiðslu. Var kæranda gefið færi á að koma á framfæri athugasemdum við niðurstöðu sveitarstjórnar frá 4. júlí 2012, sem áður er getið. Málið var tekið fyrir á fundi byggingarnefndar hinn 18. júní 2013 og lágu þá fyrir athugasemdir kæranda. Var fært til bókar að ekki þætti ástæða til að taka afstöðu til málsins að svo stöddu þar sem það hefði verið kært. Jafnframt var tekið fram að niðurstaða skipulagsnefndar og sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps væri að ekki væri unnt að veita kæranda byggingarleyfi en í aðalskipulagi væri lóð nr. 44 í Kotabyggð á íbúðarsvæði. Þá var bent á að í vinnslu væri deiliskipulag sem væri í samræmi við aðalskipulag. Tók deiliskipulag Kotabyggðar gildi hinn 21. febrúar 2014.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki,  og eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr. sömu laga, veiti byggingarfulltrúi byggingarleyfi, en að öðrum kosti sé hin formlega ákvörðunartaka í höndum sveitarstjórnar, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Telja verði að tölvupóstur byggingarfulltrúa geti tæplega uppfyllt formskilyrði laganna um að ákvörðun sé tekin af valdbærum aðila og því sé um valdþurrð að ræða. Breyti hér engu þótt vísað hafi verið til tölvupóstar frá sveitarstjóra. Umsóknina hafi átt að taka formlega fyrir í skipulagsnefnd og eftir atvikum í sveitarstjórn. Beri að skilja 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga með þeim hætti að byggingarfulltrúi taki ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis, sem sé í andstöðu við grundvallarreglur um stjórnsýsluskipulag sveitarfélaga, sé ljóst að tölvupóstur byggingarfulltrúa geti ekki falið í sér ákvörðun.

Birting og afgreiðsla erindisins sé í ósamræmi við 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og almennar meginreglur stjórnsýsluréttar. Brotið sé gegn ákvæðum 10., 13., 15., og 20. gr. sömu laga. Skriflegu erindi skuli svara skriflega, einkum þegar um synjun sé að ræða. Rökstyðja þurfi ákvörðun og veita leiðbeiningar um kæruheimild og kærufresti. Í engu hafi verið uppfyllt lagaskylda 1. mgr. 7. gr. laganna um leiðbeiningarskyldu stjórnvalds. Byggi hin meinta ákvörðun á undanfarandi málsmeðferð um sambærilegt erindi árið 2012 þar sem í engu hafi verið gætt að andmælarétti. Þess utan sé ákvörðunin svo efnislega óljós að kærandi sé með öllu óupplýstur um annmarka umsóknar sinnar. Ekki sé vísað til laga eða reglna og því óljóst á hvaða lagagrundvelli hin meinta ákvörðun sé byggð. Séu engin efni til að telja að það ósamræmi sé á gildandi aðal og deiliskipulagi að komi í veg fyrir útgáfu hins umbeðna byggingarleyfis. Þá komi m.a. fram í lóðarleigusamningi og á álagningarseðlum vegna fasteignagjalda að um sumarbústaðarland sé að ræða.

Málsrök Svalbarðsstrandarhrepps: Svalbarðsstrandarhreppur vísar til þess að tölvupóstur byggingarfulltrúa hafi ekki falið í sér afgreiðslu á umsókn um byggingarleyfi og að hún sé enn óafgreidd. Um hafi verið að ræða tilkynningu um stöðu málsins. Ekki hafi verið tilefni til að bera málið undir skipulagsnefnd eða sveitarstjórn þar sem forsendur hefðu ekki breyst. Eigi ákvæði stjórnsýslulaga um birtingu, rökstuðning og kæruleiðbeiningar ekki við um þessi óformlegu samskipti. Jafnframt séu ákvæði 15. gr. laganna um upplýsingarétt málinu óviðkomandi þar sem kærandi hafi hvorki óskað eftir upplýsingum eða gögnum. Ekki hafi verið brotið gegn ákvæði 1. mgr. 7. gr. laganna. Málið hafi verið í réttum farvegi og eðlilegt að álykta að kæranda, sem sé húsasmíðameistari, mætti vera fullkunnugt um ferli byggingarleyfisumsókna og kröfur gerðra til þeirra. Ítarleg skoðun hafi átt sér stað á árinu 2012 og þar hafi sjónarmið kæranda legið fyrir með ótvíræðum hætti. Sé hvorki málsmeðferð ólögleg né erindin sambærileg.
Það sé afstaða sveitarstjórnar að ósamræmis gæti í veigamiklum atriðum á milli aðalskipulags og deiliskipulags varðandi Kotabyggð og séu allar nýbyggingar óheimilar þar til skipulagsáætlanir hafi verið samræmdar. Þá sé lóðarleigusamningur, skilgreining lóðarinnar í fasteignaskrá og innheimta fasteignagjalda málinu óviðkomandi, enda hafi þessi atriði ekki skipulagslegt gildi. Auk þessa hafi kæranda mátt vera kunnugt um stefnu sveitarstjórnar sem sett væri fram í aðalskipulaginu um þróun byggðarinnar í íbúðarbyggð þegar hann hafi yfirtekið lóðarleigusamninginn árið 2010. Engar ákvarðanir hafi verið teknar eftir það sem rýri rétt eða stöðu lóðarhafa. 

Niðurstaða: Byggingarfulltrúi annast meðferð byggingarleyfisumsókna og veitir leyfi með samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, sbr. 9., 11., og 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Sveitarstjórn er þó heimilt skv. 1. mgr. 7. gr. nefndra laga að setja sérstaka samþykkt um að í sveitarfélaginu skuli starfa byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsóknir áður en byggingarfulltrúi gefur út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Þá er sveitarstjórn það heimilað í 2. mgr. ákvæðisins að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Samþykkt sem sett er samkvæmt ákvæði þessu skal lögð fyrir ráðherra til staðfestingar og birt í B–deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt gögnum málsins hafði slík samþykkt ekki verið birt skv. fyrrnefndum ákvæðum 7. gr. mannvirkjalaga við afgreiðslu málsins.

Eins og greint hefur verið sendi byggingarfulltrúi umsókn kæranda um byggingarleyfi með tölvupósti til sveitarstjóra, en í umsókninni kom fram að sótt væri um leyfi til að byggja frístundahús á lóðinni nr. 44 við Kotabyggð. Fram kom í tölvupósti byggingarfulltrúa að um nýja umsókn væri að ræða og að í samtali við umsækjanda hefði komið hefði til tals auglýsing um breytingu á aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps. Þá var tekið fram að umsækjandi óskaði eftir skriflegu svari um hvort veitt yrði byggingarleyfi á nefndri lóð. Sendi sveitarstjóri tvö svarbréf til byggingarfulltrúa samkvæmt fyrirliggjandi gögnum. Hið fyrra víkur að því að málið hafi verið sent til Skipulagsstofnunar eins og fram komi í auglýsingu og enn sé beðið svars hennar. Í hinu síðara, er framsent var kæranda, kemur fram að Skipulagsstofnun hafi hafnað beiðni um að staðfesta óverulega breytingu á aðalskipulagi. Staða aðalskipulagsins sé því óbreytt og þar af leiðandi „óheimilt að gefa út byggingarleyfi á svæðinu.“

Framsendingu og vísan til svars sveitarstjóra er ekki hægt að skilja svo að byggingarfulltrúi hafi tekið sjálfstæða afstöðu til samþykkis eða synjunar á byggingarleyfisumsókn kæranda. Liggur því ekki fyrir endanleg ákvörðun hans þar um samkvæmt þeim ákvæðum mannvirkjalaga sem áður eru rakin og skýr eru um hlutverk byggingarfulltrúa. Verður ekki annað ráðið af aðdraganda málsins og afgreiðslu þess en að hin kærða afgreiðsla hafi aðeins falið í sér þær upplýsingagjöf til kæranda um að skipulagsleg staða á svæðinu væri óbreytt. Þar sem ákvörðun, sem ekki bindur enda á mál, verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir