Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

7/2014 Lindargata

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. febrúar 2014, er barst nefndinni 4. s.m., kæra Þ, Jöklagrunni 23, Reykjavík, og R, Hólmi, Landbroti, eigendur fasteignanna að Veghúsastíg 9a, að hluta, og Lindargötu 34 og 34a, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 að breyta deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32. Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. apríl 2016, afturkölluðu núverandi eigendur Lindargötu 34 og 34a kæruna fyrir sitt leyti. RR hótel ehf., sem á nú fasteignina að Vegahúsastíg 9a, hefur hins vegar tekið við rekstri kærumálsins er þá fasteign varðar.

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Jafnframt var gerð krafa um stöðvun framkvæmda, en því var hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum 30. júní 2014.

Málavextir: Hinn 21. júní 2013 tók skipulagsfulltrúi Reykjavíkur fyrir umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, staðgreinireita 1.152.410-1.152.412, vegna lóðanna nr. 28, 30 og 32 við Lindargötu. Var í henni gert ráð fyrir að nefndar lóðir yrðu sameinaðar, sex bílastæði á jarðhæð húsa samkvæmt gildandi skipulagi yrðu felld niður, byggingarreitir dýpkaðir og nýr byggingarreitur afmarkaður syðst á lóðinni. Var málinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem samþykkti á fundi sínum 26. s.m. að auglýsa umsótta skipulagsbreytingu og var sú ákvörðun staðfest í borgarráði 4. júlí 2013. Athugasemdir bárust við tillöguna á kynningartíma hennar, m.a. frá þáverandi eigendum Vatnsstígs 9a. Hin auglýsta tillaga var síðan samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 9. október 2013, með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa, er lagði til að „flái á stækkun byggingarreits verði aukinn þannig að fjarlægð hans frá lóðarmörkum verði að minnsta kosti 4 metrar“ og að bætt yrði við í skilmála að ekki mætti byggja svalir á þeirri hlið sem sneri að Lindargötu 34. Staðfesti borgarráð greinda ákvörðun 17. s.m.

Deiliskipulagið var sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu, sem taldi að ekki væri unnt að taka afstöðu til efnis breytingarinnar þar sem skýra þyrfti betur atriði um hámarkshæð nýbygginga og bílastæði. Í kjölfar þessa sendi Reykjavíkurborg skýringar og lagfærðan deiliskipulagsuppdrátt til Skipulagsstofnunar. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 29. janúar 2014, kom fram að ósamræmi væri í upplýsingum um hæðir nýbygginga. Taka þyrfti ákvörðun um hver hámarkshæð ætti að vera og senda síðan þeim sem gert hefðu athugasemdir við hæð ný svör með skýringum. Var á ný gerð breyting á uppdrætti deiliskipulagsins. Öðlaðist skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 4. mars 2014.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að fasteign hans liggi að skipulagsreitnum. Á skýringaruppdráttum deiliskipulagsins sé ekki gerð grein fyrir fasteigninni með nægjanlegum hætti og sé lýsing skipulagsverksins ekki í samræmi við gr. 5.2.3. í gildandi skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Ekki hafi verið haft samráð við kæranda, sbr. gr. 5.2.1. í reglugerð, en honum hafi aldrei verið tilkynnt um tillöguna. Þá verði að telja óheimilt, með hliðsjón af gr. 5.3.1. í reglugerðinni, að breyta einstökum reitum deiliskipulags án tillits til heildarhagsmuna viðkomandi hverfis.

Vísað sé til ógildingarúrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 105/2005, en flest þau rök sem þar sé byggt á eigi við í máli þessu. Skírskotun til almenningssamgangna og nálægðar við miðbæ séu ekki viðhlítandi rök fyrir því að slakað sé á kröfum um bílastæði við frekari uppbyggingu. Einnig megi draga í efa að fullnægt sé kröfum um greiðar aðkomuleiðir slökkviliðs og sé í því sambandi bent á 3. mgr. í gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerðinni. Þá sé ekki ljóst hvernig tryggja skuli aðkomu að bakhúsum á umræddri lóð. Hin kærða ákvörðun þrengi að kostum kæranda til frekari uppbyggingar á lóð hans og geri fasteign hans í raun nær verðlausa. Fylgi heimiluðum byggingum skuggavarp.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um staðfestingu hinnar kærðu ákvörðunar. Farið hafi verið eftir ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð hinnar kærðu ákvörðunar. Eldra deiliskipulag svæðisins frá árinu 2004 hafi gert ráð fyrir að hús á umræddum lóðum myndu víkja og í þeirra stað mætti byggja þriggja hæða hús með risi og kjallara. Við skipulagsbreytingu sé ekki gerð grein fyrir byggingum utan þess svæðis sem breytingin taki til. Tilvitnun kærenda í gr. 5.2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 eigi ekki við um framsetningu deiliskipulagstillögu heldur lýsingu á deiliskipulagstillögu fyrir auglýsingu, sem hér eigi ekki við. Samkvæmt gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð sé samráð við skipulagsgerð bundið við þá aðila sem skipulagið nái til en aðrir eigi þess kost að koma á framfæri athugasemdum við kynningu þess.

Deiliskipulagsbreyting geti eftir atvikum tekið til afmarkaðra reita eða lóða og sé afmörkun þess svæðis sem skipulagsbreytingin taki til ekki andstæð lögum. Forsendur úrskurðar sem kærandi vísi til eigi ekki við í máli þessu. Ekki séu gerðar kröfur í skipulagsreglugerð um fjölda bílastæða. Verði að hafa í huga staðsetningu umrædds svæðis við miðborg og þá stefnu að auka veg almenningssamgangna og stuðla að því með skipulagi að menn gangi eða hjóli milli staða. Ekkert bendi til þess að hin kærða ákvörðun leiði til verðrýrnunar á fasteignum kærenda. Þvert á móti megi færa rök fyrir því að uppbygging óbyggðra lóða á svæðinu geti aukið verðmæti fasteignanna með styrkingu heildarmyndar götunnar. Tekið sé fram í skilmálum skipulagsbreytingarinnar að aðkoma að bakhúsi og garði sé tryggð og megi þak bakhúss ekki fara upp fyrir vegghæðir aðliggjandi húsa. Við veitingu byggingarleyfa séu uppdrættir yfirfarnir af Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins með tilliti til brunavarna. Eigi því fullyrðingar um ótrygga aðkomu að bakhúsi og að þrengt sé að möguleikum til uppbyggingar á lóðum þeirra ekki við rök að styðjast. Þá hafi verið gerðar breytingar á tillögunni til að draga úr skuggavarpi.

Málsrök lóðarhafa Lindargötu 28-32: Lóðarhafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.
                        ——

Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti.

Niðurstaða: Í skilmálum fyrir deiliskipulag Skúlagötusvæðis, sem samþykktir voru árið 2004, var gert ráð fyrir að hús á lóðunum Lindargötu 28, 30 og 32 yrðu rifin eða fjarlægð og að reisa mætti í þeirra stað hús á þremur hæðum, með risi og kjallara. Felur hið kærða deiliskipulag m.a. í sér að fyrrgreindar lóðir verði sameinaðar. Er byggingarheimild sú sama og áður að því viðbættu að nýr byggingarreitur er afmarkaður syðst á lóðinni fyrir einnar hæðar bakhús. Felld eru út bílastæði og hæðir húsa eru leiðréttar frá gildandi deiliskipulagi, miðað við uppmælingu landupplýsingadeildar Reykjavíkurborgar samkvæmt skipulaginu. Við breytinguna verður nýtingarhlutfall lóðarinnar 1,84 og með kjallara 2,15.

Tillaga að breytingu á deiliskipulagi ofangreindra lóða var auglýst til kynningar í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var samkvæmt tilvitnuðu ákvæði ekki skylt að taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, sbr.  gr. 5.2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, þar sem um breytingu á deiliskipulagi var að ræða. Að loknum kynningartíma tillögunnar voru m.a. gerðar þær breytingar á henni „að flái á stækkun byggingarreits verði aukinn þannig að fjarlægð hans frá lóðarmörkum verði að minnsta kosti 4 metrar“ og bætt var við skilmála skipulagsins að ekki mætti byggja svalir á þeirri hlið er snýr að Lindargötu 34. Þrátt fyrir að skipulagsuppdráttur sýni ekki þann hluta hússins að Veghúsastíg 9a, sem víkja skyldi samkvæmt eldra deiliskipulagi, má af framsetningu hans ráða hver afstaða hins breytta skipulagssvæðis var gagnvart nærliggjandi lóðum. Var með því fullnægt ákvæðum í gr. 7.1. í skipulagsreglugerð þar um.

Kærandi vísar til þess að lögbundins samráðs hafi ekki verið gætt við meðferð málsins hjá skipulagsyfirvöldum, sbr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð. Fallast má á að skortur á sérstöku samráði sé ágalli á meðferð málsins, en þegar litið er til þess að kærandi kom að athugasemdum við auglýsta tillögu verður sá annmarki ekki talinn þess eðlis að raski gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda verður ekki séð að kærandi hafi orðið fyrir réttarspjöllum af þeim sökum.

Í skilmálum deiliskipulagsbreytingarinnar segir að aðkoma að garði og bakhúsi skuli vera tryggð án þess að farið sé í gegnum íbúðir. Af deiliskipulagsuppdrætti og staðháttum verður ráðið að fyrir hendi er aðkoma úr vestri að húsum á baklóð hinnar sameinuðu lóðar og verður ekki annað séð en að hún fullnægi áskilnaði í gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerð um aðkomu að baklóðum og aðgengi fyrir neyðarbíla. Er hvað það varðar rétt að benda á að byggingarfulltrúi getur við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi metið hvort nauðsynlegt sé að leita umsagnar slökkviliðs, en áskilið er í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að á lóðum skuli vera greið aðkoma fyrir sjúkra- og slökkvibifreiðar. Jafnframt skal sýna á aðaluppdrætti hvernig haga skuli fólks- og vöruaðkomu að húsi og lóð, gámastæðum og aðkomu sjúkra-, slökkvi- og sorphreinsunarbíla. Sama skal og koma fram á lóðauppdráttum, eftir því sem við á. Meðferð byggingarleyfisumsóknar getur því gefið tilefni til nánari athugunar en við skipulagsgerð.

Þá er hvorki að finna í lögum né reglugerðum kröfu um lágmarksfjölda almennra bílastæða. Hins vegar er í byggingarreglugerð kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða, en ekki er gert ráð fyrir slíkum stæðum í hinni kærðu ákvörðun. Sú vöntun hefur þó ekki áhrif á gildi hennar en fyrir hendi eru ákvæði í byggingarreglugerð þar um sem taka verður tillit til við frekari uppbyggingu á skipulagsreitnum.

Loks er ástæða til að benda á að sveitarstjórnir fara með skipulagsvald og annast gerð deiliskipulags og breytingar á því, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Þau lög gera ráð fyrir að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignarréttindum. Sé sýnt fram á að gildistaka skipulags valdi tjóni getur viðkomandi eftir atvikum leitað réttar síns og krafist skaðabóta í samræmi við 51. gr. skipulagslaga, en úrlausn um það álitaefni er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar.

Að öllu framangreindu virtu, og þar sem ekki verður séð að fyrir hendi séu neinir aðrir þeir annmarkar á málsmeðferð eða efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar að leiða eigi til ógildingar hennar, verður kröfu kæranda þar um hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 17. október 2013 um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis vegna lóðanna Lindargötu 28, 30 og 32.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

106/2014 Austurbrún

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 106/2014, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. október 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás, vegna lóðar nr. 6 við Austurbrún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Austurbrúnar 14 þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 2. október 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás, vegna lóðar nr. 6 við Austurbrún.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. desember 2014, er barst nefndinni 15. s.m., kæra 49 íbúar við Austurbrún og Vesturbrún sömu ákvörðun. Gera allir kærendur þá kröfu að ákvörðun borgarráðs verði felld úr gildi. Þar sem kærurnar lúta báðar að sömu ákvörðun og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 126/2014, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 17. október 2014 og 13. janúar 2015.

Málavextir: Hinn 2. apríl 2014 var á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur samþykkt að auglýsa framlagða tillögu um breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás. Í tillögunni fólst breyting á afmörkun deiliskipulagsreitsins og aukning á byggingarmagni lóðarinnar nr. 6 við Austurbrún. Var gert ráð fyrir nýjum byggingarreit á lóðinni fyrir sambýli með sex íbúðum fyrir fjölfatlaða. Á sama fundi var samþykkt að upplýsa íbúa í nágrenninu sérstaklega um auglýsinguna. Var dreifibréfi, dags. 30. apríl 2014, dreift til íbúa þar sem vakin var athygli á umræddri auglýsingu og fresti til að skila inn athugasemdum. Tillagan var auglýst í fjölmiðlum frá 5. maí  til 16. júní 2014. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum, og var öllum athugasemdum svarað af skipulagsfulltrúa með bréfi, dags. 27. júlí s.á. Að lokinni kynningu var erindið tekið fyrir að nýju og samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 24. september s.á. Staðfesti borgarráð þá afgreiðslu 2. október 2014. Tók skipulagsbreytingin gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 29. s.m.
 
Málsrök kærenda: Kærendur telja að ekki hafi verið heimilt að fara með breytingu á skipulagi vegna lóðarinnar að Austurbrún 6 líkt og um breytingu á deiliskipulagi Laugaráss væri að ræða, þar sem greint skipulag taki ekki til lóðarinnar. Ekki sé hægt að breyta deiliskipulagi svæðis sem aldrei hafi verið deiliskipulagt. Breyting á deiliskipulagi eigi að taka til lóðar eða svæðis innan deiliskipulagssvæðis en ekki utan þess. Í aðalskipulagi sé svæðið skilgreint sem fastmótuð byggð og hafi íbúar því mátt treysta því að ekki kæmi umfangsmikil nýbygging á skipulagssvæðið. Ef gerðar séu breytingar á fullbyggðu og fastmótuðu hverfi þurfi að standa til þess ríkar málefnalegar ástæður. Hin kærða skipulagsbreyting muni hafa áhrif á alla heildarmynd hverfisins, þrengja mjög að og takmarka útsýni.

Að auki samræmist fjöldi bílastæða ekki stefnu aðalskipulags um bílastæði. Ákvæði um fjölda bílastæða hafi lengi verið bundin í skipulags- og byggingarreglugerðum og verði að miða við að a.m.k. eitt stæði eigi að fylgja hverri íbúð auk stæða fyrir fatlaða. Í húsi því sem fyrir sé á umræddri lóð séu 72 íbúðir en 40 bílastæði og sé augljóst að ekki hafi verið farið eftir greindum reglum. Nú þegar sé mikill bílastæðaskortur á lóðinni nr. 6 við Austurbrún og megi gera ráð fyrir að starfsfólk og gestir í nýju sambýli muni nýta sér gestastæði við Austurbrún 8-14. Einnig sé bent á að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé nú 0,7, sem sé yfir nýtingarhlutfalli lóða í nágrenninu. Sé frekari nýting á lóðinni fordæmisgefandi en með fyrirhugaðri breytingu hækki nýtingarhlutfall í 0,81.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagins er ekki fallist á að ólögmætt hafi verið að breyta deiliskipulagi með því að stækka skipulagssvæðið um eina lóð þótt æskilegra hefði verið að deiliskipuleggja reitinn Vesturbrún og Austurbrún í heild sinni. Umrædd lóð liggi alveg að mörkum deiliskipulagsvæðisins og allar meginforsendur liggi fyrir í aðalskipulagi.

Í nýlegu aðalskipulagi sé m.a. lögð áhersla á þéttingu byggðar. Hin kærða skipulagsbreyting sé í fullu samræmi við gildandi aðalskipulag. Að auki sé á það bent að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum, eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Helstu málefnalegu ástæður fyrir hinni kærðu skipulagsbreytingu megi finna í stefnumörkun um þéttingu byggðar í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og bent sé á að mikill skortur sé á húsnæði fyrir hreyfihamlaða einstaklinga í borginni. Með heimilaðri byggingu sé verið að koma til móts við þarfir þessa hóps með framboði á sérhönnuðu húsnæði í gróinni íbúðarbyggð, með lágmarks tilkostnaði, þar sem öll grunnþjónusta sé fyrir hendi. Með þessu sé verið að gæta almannahagsmuna en ekki sérhagsmuna. 

Heildarmynd hverfisins muni ekki skerðast og sé lögð áhersla á að fyrirhuguð bygging taki mið af aðliggjandi byggingum. Ekki liggi fyrir endanleg útfærsla byggingarinnar heldur sé skýringarmynd með umræddri breytingartillögu aðeins til viðmiðunar. Heildarfjöldi bílastæða á lóðinni fari úr 44 í 49. Um sé að ræða sambýli fyrir fjölfatlaða einstaklinga sem aki almennt ekki bíl og séu því háðir akstursþjónustu. Enn fremur sé bent á að íbúar og gestir að Austurbrún 6 hafi aðgang að bílastæðum meðfram Austurbrún til jafns við aðra íbúa í hverfinu. Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé nú 0,7 en meðalnýtingarhlutfall lóða á öllu svæðinu sé 0,6.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að reynslan sýni að bílastæði við húsið að Austurbrún 6 séu vannýtt. Bendi mælingar til þess að eitt bílastæði dugi fyrir hverja fjórar íbúðir. Samkvæmt því dugi 17 bílastæði fyrir 71 íbúð. Sé fullyrðingu kærenda um bílastæðaskort því hafnað.

Það hafi í för með sér jákvæð samlegðaráhrif að reka fleiri en eina húseign á samliggjandi lóðum. Eigi það m.a. við um viðhald lóða, bílastæða, eftirlit og viðhald með húsum. Jafnframt sé bent á að undanfarin ár hafi það verið haft að leiðarljósi að dreifa og blanda félagslegu húsnæði sem mest um ólík hverfi borgarinnar.

Niðurstaða: Hin umdeilda deiliskipulagsbreyting felur í sér að deiliskipulagssvæði reits 1.381, Laugarás, er stækkað um eina lóð, þ.e. lóðina nr. 6 við Austurbrún. Á þeirri lóð er gert ráð fyrir nýjum byggingarreit, þar sem fyrirhuguð er bygging sambýlis með sex íbúðum fyrir fjölfatlaða einstaklinga. Húsið verði að hámarki 600 m2 og nýtingarhlutfall hækki úr 0,7 í 0,8. Að auki er gert ráð fyrir sjö bílastæðum, þar af fjórum fyrir hreyfihamlaða. 

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti og byggðamynstur. Deiliskipulag skal gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal það að jafnaði taka til svæða sem mynda heildstæða einingu, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Segir síðan í 1. mgr. 43. gr. laganna að sveitarstjórn sé heimilt að gera breytingar á deiliskipulagi telji hún þess þörf. Hin kærða skipulagsbreyting felur m.a. í sér að ódeiliskipulagðri lóð er aukið við svæðið sem gildandi deiliskipulag tekur til. Í greinargerð frumvarps þess er varð að núgildandi skipulagslögum er tekið fram að með því að miða við að deiliskipulag taki til svæða sem mynda heildstæða einingu sé ætlunin að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir. Hins vegar er hvorki að finna í lögum né reglugerðum bann eða takmarkanir á því að stækka svæði gildandi deiliskipulags, líkt og felst í hinni kærðu ákvörðun.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarsvæði ÍB24, Laugarás. Er því lýst sem fullbyggðu og fastmótuðu svæði og að yfirbragð byggðarinnar sé nokkuð fjölbreytt bæði í húsagerð og byggingarstíl. Meðal helstu markmiða aðalskipulagsins er þétting byggðar og verði a.m.k. 90 % nýrra íbúða innan núverandi þéttbýlismarka. Þá sé markmiðið að auka fjölbreytni og blöndun innan núverandi miðkjarna og auka almennt nálægð íbúða og vinnustaða, eins og unnt sé. Jafnframt er tekið fram að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum, eftir því sem ákveðið sé í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Að framangreindu virtu verður ekki annað séð en að hin kærða skipulagsbreyting sé í samræmi við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. laganna, um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana, sé jafnframt fullnægt. 

Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Var tillagan kynnt nágrönnum á svæðinu, hún síðan auglýst, athugasemdum svarað, samþykkt tillaga send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og auglýsing um gildistöku hennar birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er heimilað að byggja einlyft hús að hámarki 600 m2 fyrir sambýli sex fjölfatlaðra einstaklinga. Á sömu lóð er þegar fyrir 13 hæða fjöleignarhús. Umrætt svæði einkennist af fjölbreyttum húsagerðum og er þar m.a. að finna einbýlishús og háreist fjölbýlishús. Í því ljósi verður ekki séð að umdeilt hús breyti nokkru um yfirbragð núverandi byggðar. Málefnalegar ástæður liggja að baki umræddri skipulagsbreytingu, en með henni er að því stefnt að bregðast við húsnæðisskorti fyrir tiltekinn þjóðfélagshóp og auka hagkvæmni í rekstri með samnýtingu þjónustu sem þegar er fyrir hendi í húsi því sem fyrir er á títtnefndri lóð.

Ekki er í núgildandi lögum eða reglugerðum á sviði skipulags- og byggingarmála kveðið á um  lágmarksfjölda almennra bílastæða á lóð, en þar sem eru 5-12 íbúðir eru á lóð þurfa að vera tvö stæði fyrir hreyfihamlaða sbr. gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Er framangreindu skilyrði um lágmarksfjölda stæða fyrir hreyfihamlaða fullnægt í umdeildri skipulagsbreytingu. Jafnframt er tekið fram í b-lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að í deiliskipulagi skuli hverju sinni setja skilmála um fjölda bílastæða. Í umræddri skipulagsbreytingu er tilgreindur fjöldi almennra stæða, sem og fjöldi stæða fyrir hreyfihamlaða, og samræmist hún því greindu ákvæði skipulagsreglugerðarinnar.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða skipulagsbreyting sé haldin þeim annmörkum sem raskað geti gildi hennar og verður kröfu um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 2. október 2014 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.381, Laugarás, vegna lóðar nr. 6 við Austurbrún.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

42/2014 Snjallsteinshöfði

Með
Árið 2016, föstudaginn 24. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 42/2014, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um að gefa út starfsleyfi til Eldfelds ehf. fyrir rekstur loðdýrabús að Snjallsteinshöfða 3, Rangárþingi ytra.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. maí 2014, er barst nefndinni 15. s.m., kæra Á, Vöðlum, Rangárþingi ytra, og M og Ó, bæði til heimilis að Grásteini, Rangárþingi ytra, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 29. apríl 2014 að veita Eldfeldi ehf. starfsleyfi til reksturs loðdýrabús að Snjallsteinshöfða 3, Rangárþingi ytra. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Suðurlands 13. júní 2014, 19. apríl 2016 og 25. s.m.

Málavextir: Með umsókn, dags. 5. desember 2013, sótti Eldfeldur ehf. um starfsleyfi fyrir rekstri minkabús með allt að 1000 dýrum að Snjallsteinshöfða 3, Rangárþingi ytra. umhverfis- og auðlindaráðuneytið veitti vegna umsóknarinnar undanþágu frá þágildandi reglum um fjarlægðarmörk í 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, en þar sagði að óheimilt væri að hafa loðdýrabú nær mannabústöðum, matvælafyrirtækjum eða vinnustöðum annarra en sjálfs búsins en sem næmi 500 metrum. Undanþágan var veitt vegna fjarlægðar á milli loðdýrahúsa og íbúðarhúss að Vöðlum, en hún er 470 metrar. Jafnframt veitti ráðuneytið undanþágu vegna fjarlægðar á milli íbúðarhúss að Snjallsteinshöfða 2 og loðdýrabúsins, en fjarlægð þar á milli er innan við 300 metrar. Eru bréf ráðuneytisins dags. 6. febrúar og 30. apríl 2014.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands fékk staðfestingu á því með tölvupósti 16. janúar 2014 að samkvæmt Aðalskipulagi Rangárþings ytra 2010-2022 væri spilda sú sem fyrirhuguð loðdýrahús stæðu á skilgreind sem landbúnaðarsvæði og samræmdist loðdýrabú með 1000 dýrum þeirri landnotkun. Starfsmaður heilbrigðiseftirlitsins framkvæmdi úttekt á væntanlegu búi 25. febrúar s.á.

Auglýsing um starfsleyfi til kynningar vegna loðdýrabús að Snjallsteinshöfða birtist í Dagskránni, fréttablaði Suðurlands, 6. mars 2014. Þar kom m.a. fram að starfsleyfið væri til kynningar hjá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands og á skrifstofu Rangárþings ytra og að frestur til að skila inn athugasemdum væri til 4. apríl s.á. Skiluðu kærendur inn athugasemdum við starfsleyfisdrögin.

Á fundi heilbrigðisnefndar Suðurlands 29. apríl 2014 var ákveðið að gefa út starfsleyfi vegna nefnds loðdýrabús og var leyfið gefið út af Heilbrigðiseftirliti Suðurlands 5. maí s.á. Var leyfið gefið út til fjögurra ára, eða til 5. maí 2018. Eftir að kærendum hafði verið kynnt ákvörðunin fóru þeir fram á rökstuðning fyrir henni og var sá rökstuðningur veittur með bréfi, dags. 14. maí 2014..

Málsrök kærenda:
Í kæru kemur fram að í nálægð við loðdýrabúið að Snjallsteinshöfða 3 séu ýmist staðsett íbúðarhús eða búið að skipuleggja frístundabyggð. Til dæmis sé hús eins kæranda að Vöðlum um 470 metra frá loðdýrabúinu, deiliskipulögð frístundabyggð á jörðinni Árbakka um 280 metra frá því og íbúðarhús kærenda að Grásteini um 1.080 metra frá búinu. Kærendur hafi því ríka ástæðu og lögvarða hagsmuni af því að búið sé ekki starfrækt án þess að skilyrðum laga og reglugerða sé fullnægt. Loðdýrabú geti haft margvísleg áhrif á nærliggjandi svæðum, m.a. geti skapast aukin hætta á að vatnsból mengist og hætta á að vatn fyrir dýr spillist. Þá sé ávallt hætta á að minkarnir sleppi út en í nálægð við búið séu hænur, húsdýr og heimilisdýr. Auk þessa hafi kærendur unnið að friðun á tjörnum á svæðinu, m.a. á þeirri tjörn sem sé rétt fyrir neðan loðdýrabúið, og varpfuglar hafi komið á hverju ári og fest rætur sínar á svæðinu. Af öðrum áhrifum af völdum minkabúsins megi nefna verulega lyktarmengun og mengun vegna dreifingar skíts úr búinu en um meðferð loðdýraskíts gildi strangari kröfur en um annan húsdýraáburð. Jafnframt þurfi að hafa í huga meindýravarnir, þá sérstaklega hvað varði flugur, og að endingu sé hugsanleg smithætta frá búinu er geti t.d. skaðað nýköstuð folöld.

Kærendur telji að starfsemi loðdýrabúsins muni hafa í för með sér hömlur á framtíðarmöguleika þeirra til nýtingar þess lands sem sé á áhrifasvæði búsins. Slík takmörkun muni eðlilega hafa í för með sér skert verðmæti þeirra jarða og þar með tjón fyrir kærendur. Af öllu framangreindu sé ljóst að kærendur hafi verulega lögvarða hagsmuni í málinu.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurlands: Heilbrigðiseftirlitið bendir á að fyrir hafi legið að fjarlægð á milli íbúðarhúss að Vöðlum og loðdýrahúsa rekstraraðila stæðist ekki fjarlægðarmörk skv. þágildandi 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti, en 470 m væru á milli húsanna. Sótt hefði verið um undanþágu til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins vegna þessa og hún verið veitt með bréfi ráðuneytisins, dags. 6. febrúar 2014, og áréttuð með bréfi, dags. 30. apríl s.á.

Jafnframt hafi við útgáfu starfsleyfisins legið fyrir afstaða skipulags- og byggingafulltrúa sveitarfélagsins um að starfsemin væri í samræmi við aðalskipulag, sem sé nægilegt skv. b. lið gr. 10.2 í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar um úttekt Matvælastofnunar varðandi þeirra þátt í eftirliti með rekstri loðdýrabúsins samkvæmt lögum nr. 55/2013 um velferð dýra, lögum nr. 38/2013 um búfjárhald og þágildandi reglugerð um aðbúnað og meðferð minka og refa nr. 165/2007, en það séu atriði er varði húsakost, aðbúnað, öryggisþætti, t.d. að bú séu vörsluheld, og velferð dýranna. Í fyrrgreindri reglugerð sé skýrt tekið fram að Landbúnaðarstofnun (nú Matvælastofnun) og héraðsráðunautur skuli setja búinu skrifleg fyrirmæli um slíkt og það sé því ekki á ábyrgð heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, eða heilbrigðiseftirlits í þeirra umboði.

Megintilgangur starfsleyfisskilyrða fyrir loðdýrabú og eftirlits með þeim sé að draga úr mögulegri mengun af völdum atvinnurekstrarins í umhverfi sínu. Matvælastofnun hafi aðrar skyldur og sé heilbrigðiseftirlitinu einungis heimilt að setja starfseminni skilyrði útfrá skilgreindu valdsviði sínu. Við ákvörðun um útgáfu starfsleyfis verði stjórnvöld að treysta því að önnur stjórnvöld framfylgi þeim lögum og reglum sem þeim beri og í þessu ákveðna máli hafi legið fyrir upplýsingar um eftirlit Matvælastofnunar.

Samkvæmt upplýsingum frá skipulags- og byggingarfulltrúa hafi tjarnir í nágrenni framkvæmdaraðila ekki verið friðaðar og engin hverfisvernd nálægt búinu. Heilbrigðiseftirlitið telji að þrátt fyrir útgefið starfsleyfi muni varpfuglar halda áfram að koma að Vöðlum og að tjörn í nágrenni loðdýrabúsins.

Hvað varði athugasemdir um mögulega spillingu vatnsbóla og drykkjarvatns dýra þá sé vatnsveita sveitarfélagsins á svæðinu og neysluvatn fullnægjandi samkvæmt mælingum heilbrigðiseftirlitsins. Engin vatnsból séu merkt í nágrenni búsins á aðalskipulagi og önnur starfsleyfisskyld vatnsból séu ekki á skrá heilbrigðiseftirlitsins. Eftirlitið telji að litlar líkur séu á neikvæðum áhrifum frá starfseminni á drykkjarvatn dýra, enda óheimilt að dreifa skít á stöðum þar sem hann geti mengað ár, læki eða vatnsból, sbr. grein 2.3 í skilyrðum hins umdeilda starfsleyfis.

Varðandi mögulegar hömlur á nýtingarmöguleikum á landi því sem sé á áhrifasvæði framkvæmdaraðila sé fallist á að starfsemin muni mögulega hafa hamlandi áhrif á notkun þess svæðis sem sé innan 500 metra radíusar frá loðdýrabúinu. Í þessu máli hafi hins vegar bæði legið fyrir afstaða skipulagsyfirvalda sveitarfélagsins og undanþága umhverfis- og auðlindaráðuneytis og því ekki á valdi heilbrigðiseftirlitsins að taka afstöðu til mögulegrar framtíðarlandnýtingar byggðrar á skipulagslegum forsendum.

Varðandi athugasemdir um að Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafi átt að leita umsagna áður en starfsleyfi sé veitt og láta fylgja með umsagnarbeiðni rökstutt álit á áhrifum hugsanlegar mengunar, sbr. gr. 9 í reglugerð nr. 785/1999, sé bent á að starfsleyfisskilyrðin sem til umfjöllunar séu í málinu séu unnin í samvinnu við Umhverfisstofnun og önnur heilbrigðiseftirlitssvæði. Þau séu því samræmd á landsvísu.

Hvað varði mat á mengun og áhrif á umhverfið skuli það upplýst að áður en ákvörðun um útgáfu starfsleyfis sé tekin geri Heilbrigðiseftirlit Suðurlands áhættumat á umhverfis- og mengunarþáttum og hafi það legið fyrir við ákvörðun  um útgáfu hins kærða leyfis.

Varðandi verulega lyktarmengun og mengun vegna dreifingar skíts frá búinu sé lögð áhersla á kröfur um meðhöndlun skíts og dreifingu hans í samræmdum starfsleyfisskilyrðum Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, og sé starfsleyfi í samræmi við þau, eins og áður hafi komið fram. Með þeim skilyrðum sé verið að fyrirbyggja ranga meðhöndlun úrgangs og mögulega mengun af hans völdum. Jafnframt sé ákvæði í starfsleyfisskilyrðunum um að heilbrigðisnefnd geti krafist sértækra aðgerða ef ólykt frá starfseminni valdi óþægindum. Heilbrigðisnefndin telji að ferlið við afgreiðslu hins kærða starfsleyfis hafi verið lögmætt að öllu leyti.

Athugasemdir kærenda við málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurlands: Kærendur telja að Heilbrigðiseftirliti Suðurlands hafi ekki verið heimilt að meta hvaða upplýsingar væri nauðsynlegt að fylgdu með umsókn skv. gr. 10 í reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Í gr. 10 segi að nánar tiltekin atriði skuli fylgja umsókn eins og við eigi hverju sinni og túlka eigi ákvæðið þannig að það sé skylda allra umsækjenda að láta þau skjöl fylgja sem við eigi um þann rekstur sem þeir séu að sækja um starfsleyfi fyrir. Orðalagið „eins og við á hverju sinni“ sé einungis tilkomið vegna þeirra aðstæðna þegar tiltekin gögn/upplýsingar eigi hreinlega ekki við fyrirhugaða starfsemi. Ef ákvæðinu hefði verið ætlað að veita heilbrigðisnefnd frjálsar hendur um að meta hvaða gögn og upplýsingar hún teldi fullnægjandi væri greinin væntanlega öðruvísi orðuð. Orðalag 10. gr. verði augljóslega að skýra þannig að fara þurfi í gegnum hvern lið ákvæðisins og kanna hvort þau skjöl og upplýsingar sem „eigi við“ fylgi umsókninni. Til að mynda bendi ekkert til að „lýsing á tilhögun innra eftirlits vegna losunar út í umhverfið“, sbr. h-lið gr. 10.2, hafi fylgt umsókn framkvæmdaraðila um starfsleyfi.

Ætíð hafi verið í gildi strangar reglur um minkabú vegna umhverfisáhrifa sem slík bú hafi í för með sér, sérstaklega varðandi staðsetningu, aðbúnað, vörsluheldni búanna og varnir gegn mengun frá slíkum búum. Kærendur telji að Heilbrigðiseftirliti Suðurlands hafi borið að vísa frá umdeildri umsókn um starfsleyfi vegna ófullnægjandi upplýsinga í umsókninni.

——-

Kærendur hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins. Leyfishafa var gefinn kostur á að tjá sig um málið en kaus að gera það ekki.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Heilbrigðisnefndar Suðurlands frá 29. apríl 2014 að gefa út starfsleyfi til reksturs loðdýrabús.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum, þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er. Fram kemur í gögnum málsins að tæplega 1.100 metrar eru á milli hinna umdeildu loðdýrahúsa að og íbúðarhúss tveggja kærenda að Grásteini. Samkvæmt skilyrðum í hinu umdeilda starfsleyfi er gert ráð fyrir að skít verði dreift utanhúss. Eðli málsins samkvæmt er slík starfsemi til þess fallin að hafa í för með sér lyktarmengun og getur hún borist um langan veg ef veðurfarsskilyrði eru með ákveðnum hætti. Er því ekki hægt að útiloka að umrædd starfsemi geti snert lögvarða hagsmuni kærenda að Grásteini.

Samkvæmt 5. gr. a í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skal allur atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun hafa gilt starfsleyfi, sbr. 6. gr. sömu laga. Samkvæmt 5. gr. laganna setur ráðherra reglugerð til að stuðla að framkvæmd mengunarvarnaeftirlits og skulu þar m.a. vera almenn ákvæði um starfsleyfi fyrir allan atvinnurekstur sem haft getur í för með sér mengun, sbr. 1. tl. nefndrar lagagreinar. Reglugerð um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér menguner nr. 785/1999.,Markmið hennar er m.a. að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum atvinnurekstrar sem getur haft í för með sér mengun, koma á samþættum mengunarvörnum og að samræma kröfur og skilyrði í starfsleyfum, sbr. gr. 1.1. Í fylgiskjali 2 með reglugerðinni er talinn upp sá atvinnurekstur sem heilbrigðisnefnd veitir starfsleyfi, þ. á m. loðdýrarækt, sbr. gr. 6.1. Heilbrigðisnefnd er þannig ætlað það hlutverk að veita starfsleyfi, að teknu tilliti til þeirra markmiða reglugerðarinnar sem snúa að mengunarvörnum. Ber nefndinni að fara að þeim málsmeðferðarreglum sem í reglugerðinni eru tilgreindar, sem og í lögum nr. 7/1998 og stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Samkvæmt 15. gr. laga nr. 7/1998 starfa heilbrigðisfulltrúar í umboði heilbrigðisnefndar, sbr. og gr. 6.2 reglugerðar nr. 785/1999.

Við meðferð umsóknar um starfsleyfi er heilbrigðisnefnd fyrst og fremst ætlað að fjalla um mögulega mengun vegna atvinnureksturs sem sótt er um starfsleyfi fyrir en eftirlit með húsnæði, aðbúnaði dýra, öryggisþáttum og smitvörnum er á hendi annarra stjórnvalda. Ber heilbrigðisnefndinni að vinna að markmiðum reglugerðar nr. 785/1999, sem talinn voru upp hér að framan, en í reglugerðinni er að finna ákvæði um hvernig staðið skuli að leyfisveitingum svo að greind markmið um lágmörkun mengunar og samþættar mengunarvarnir verði sem best tryggð, m.a. með samræmdum kröfum og skilyrðum í starfsleyfum.

Rekstur minkabúa er rótgróin atvinnugrein í landbúnaði á Íslandi og möguleg umhverfisáhrif búanna eru talin það fyrirsjáanleg að samræmd starfsleyfisskilyrði Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga fyrir loðdýrabú hafa verið útbúin í samræmi við fyrirmæli þar um í gr. 14.2, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 785/1999. Í starfsleyfisskilyrðunum er tekin afstaða til þess hvernig best verði staðið að viðkomandi starfsemi með tilliti til mengunarvarna, m.a. eru þar ákvæði um meðferð og eyðingu dýrahræja og meðhöndlun á dýraskít, hálmi og heyi úr loðdýrabúum. Þar eru jafnframt ákvæði um að standa skuli þannig að dreifingu á úrgangi úr búi að ekki sé hætta á mengun í vatnsbólum eða í yfirborðsvatni og að tryggt sé að dreifingin valdi ekki öðrum óþægindum eða ama s.s. vegna lyktar eða óþrifnaðar. Er sérstaklega tekið fram að ef í ljós komi að loftmengun eða ólykt frá starfseminni valdi fólki á nærliggjandi landareignum óþægindum sé heilbrigðisnefnd heimilt að krefjast sérstakra aðgerða. Hefur viðkomandi heilbrigðiseftirlit eftirlitsskyldu með því að starfsleyfisskilyrði séu uppfyllt.

Þótt samræmd starfsleyfisskilyrði liggi fyrir er jafnframt þörf á því að heilbrigðisnefnd taki sjálfstæða afstöðu til þess hvort umsókn framkvæmdaraðila og fyrirliggjandi gögn uppfylli þau skilyrði sem sett eru í reglugerð nr. 785/1999 og meti hvort starfsleyfi verði veitt á grundvelli þeirra. Fyrir liggur að undanþága var veitt af umhverfis- og auðlindaráðuneytinu vegna fjarlægðarmarka í þágildandi 4. mgr. 24. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Áður en starfsleyfið var veitt gerði starfsmaður heilbrigðiseftirlitsins úttekt á fyrirhugaðri starfsemi rekstraraðila og jafnframt var gengið úr skugga um að starfsemin væri í samræmi við aðalskipulag, en deiliskipulag er ekki til fyrir svæðið. Var það mat heilbrigðisnefndar að framangreindar upplýsingar væru nægjanlegar til að skilyrði gr. 10.2 í reglugerð nr. 785/1999 væru uppfyllt og verður fallist á það mat, sérstaklega með tilliti til þess sem áður sagði um þau samræmdu starfsleyfisskilyrði sem um ræðir í málinu.

Drög að starfsleyfinu voru auglýst 6. mars 2014 og voru til kynningar til 4. apríl s.á., í samræmi við fyrirmæli gr. 24 í reglugerð nr. 785/1999, og loks var starfsleyfið gefið út til fjögurra ára, sbr. fyrirmæli gr. 12.1, þar sem segir að sé starfsleyfi gefið út án þess að fyrir liggi deiliskipulag skuli það ekki gefið út til lengri tíma en fjögurra ára.

Samkvæmt öllu framangreindu verður ekki annað séð en að nægar upplýsingar hafi legið fyrir, málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og skilyrðum laga og reglna hafi verið fullnægt að öðru leyti til útgáfu hins kærða starfsleyfis. Verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurlands um að gefa út starfsleyfi til Eldfelds ehf. fyrir rekstur loðdýrabús að Snjallsteinshöfða 3, Rangárþingi ytra.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

31/2016 Hótel Orustustaðir

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 15. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 31/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur og leigutakar jarðarinnar Hraunbóls í Skaftárhreppi þá ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 26. október 2015 að samþykkja deiliskipulag fyrir Orustustaði, Skaftárhreppi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Hinn 26. október 2015 samþykkti sveitarstjórn Skaftárshrepps deiliskipulag fyrir Orustustaði í Skaftárhreppi. Tók skipulagsbreytingin gildi 17. febrúar 2016 með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærendur krefjast frestunar réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til nýtingar á tilteknu svæði. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar eins og á við um veitingu byggingar- eða framkvæmdaleyfis með stoð í skipulagi, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem gert er ráð fyrir í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar er hafnað.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

123/2014 Skipasund

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 123/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breytingum á fasteigninni Skipasundi 43 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 28. nóvember 2014, er barst nefndinni 4. desember s.á., kærir Á, Skipasundi 41, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 að veita m.a. leyfi til að byggja svalir og stiga niður í garð og færa til kofa við hús á lóð nr. 43 við Skipasund í Reykjavík. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að farið sé fram á ógildingu greindrar ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 14. janúar 2014.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 1. júlí 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja svalir með tröppum niður í garð við húsið að Skipasundi 43, breyta staðsetningu kofa og færa innkeyrslu og byggingarreit fyrir bílskúr á lóðinni. Var erindinu vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem samþykkti á fundi sínum 11. s.m. að grenndarkynna umsóknina. Eftir grenndarkynninguna var málið á dagskrá skipulagsfulltrúa, sem vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs á fundi hinn 5. september 2014. Umhverfis- og skipulagsráð tók málið fyrir á fundi sínum 10. s.m. Á fundinum lá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 4. s.m. þar sem fram komnum athugasemdum var svarað og mælt með því að umsóknin yrði samþykkt með tilgreindum skilyrðum. Engar athugasemdir komu fram á fundinum við umsögnina og var vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa, sem samþykkti umsóttar breytingar á fundi hinn 16. september 2014.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að útfærsla svala með stiga niður í garð, sem heimiluð sé með hinni kærðu ákvörðun, geri það að verkum að þaðan sé horft beint inn í stofu og sólstofu kæranda. Viðbygging við hús kæranda hafi verið hönnuð með stórum gluggum til austurs þar sem ekki hefði verið um innsýn að ræða, en með tilkomu nefndra svala og stiga yrði staðan önnur. Kærandi hafi ekki mótmælt þessum framkvæmdum enda talið einfalt að hindra þessi áhrif með útfærslu mannvirkisins og hækkun skjólveggjar upp í 1,5 m. Raunin hafi hins vegar orðið sú að horft sé frá svölunum og stiganum inn í stofu og sólstofu kæranda. Óbreytt ástand muni verða kæranda til ama og leiða til þess að fasteign hans falli í verði. Loks sé farið fram á að smáhýsi sem standi of nálægt umræddum lóðamörkum verði fært til samræmis við ákvörðun byggingarfulltrúa og ákvæði byggingarreglugerðar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að að tekið hafi verið tillit til fram kominna athugasemda kæranda við grenndarkynningu fyrirhugaðra breytinga að Skipasundi 43. Sá hluti skjólveggjar er snúi að fasteign kæranda hafi verið hækkaður í 1,5 m í þeim tilgangi að takmarka innsýn í stofu og borðstofu kæranda. Ekki verði talið að mannvirkið hafi slíka röskun í för með sér gagnvart kæranda að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi  en um 12 m séu milli umræddra svala og húss kæranda. Heimilaðar svalir hafi ekki meiri grenndaráhrif en að jafnaði megi búast við þegar breytingar séu gerðar á húsum í þéttbýli. Skúr sá sem standi á nefndri lóð sé innan við 10 m2 að stærð og sé ekki byggingarleyfisskyldur. Skúrinn beri þó að staðsetja minnst þrjá metra frá lóðamörkum samkvæmt byggingarreglugerð.

Andmæli byggingarleyfishafa: Skírskotað er til þess að framkvæmdir eins lóðarhafa geti ekki takmarkað eða komið í veg fyrir framkvæmdir á nærliggjandi lóðum. Hinar kærðu breytingar séu óverulegar í samanburði við það sem samþykkt hafi verið á lóð kæranda. Vegna athugasemda kæranda hafi byggingarleyfishafi orðið við tilmælum skipulags- og byggingarsviðs um að hækka hluta skjólveggjar, sem snúi að lóð kæranda, í 1,5 m í þeim tilgangi að takmarka beina sýn inn um stofuglugga á húsi kæranda. Sú hlið húss kæranda sem snúi að lóð byggingarleyfishafa sé með glugga er nái frá gólfi til lofts og blasi sú hlið hússins við frá lóð leyfishafa án tillits til umdeildra framkvæmda. Bent sé á að uppbyggð verönd sé á húsi kæranda með sýn yfir á lóð leyfishafa. Smáhýsi á lóð leyfishafa verði fært þrjá metra frá lóðamörkum, í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar, og til að jafnræðis verði gætt sé farið fram á það að íverustaður sem kærandi hafi komið fyrir við lóðarmörk leyfishafa verði færður.

Niðurstaða:  Smáhýsi það sem kemur við sögu í máli þessu er ekki byggingarleyfisskylt, sbr. g-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hins vegar verður samkvæmt nefndu ákvæði að liggja fyrir samþykki rétthafa aðliggjandi lóðar fyrir stöðu slíks húss innan þriggja metra frá lóðamörkum. Kærandi hefur lýst sig samþykkan staðsetningu hússins eins og hún er sýnd á fyrirliggjandi uppdrætti, sem staðfestur hefur verið af byggingarfulltrúa, og leyfishafi hefur lýst því yfir að húsið verði ekki staðsett nær lóðarmörkum kæranda en í þriggja metra fjarlægð. Með hliðsjón af þessum málsatvikum, og þar sem ekki liggur fyrir stjórnvaldsákvörðun varðandi staðsetningu smáhýsisins sem borin verður undir úrskurðarnefndina skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, verður ekki fjallað frekar um þann þátt málsins.

Ágreiningsefni máls þessa lýtur fyrst og fremst að hönnun svala við hús byggingarleyfishafa að Skipasundi 43, sem kærandi telur að muni hafa óæskileg grenndaráhrif gagnvart sinni fasteign að Skipasundi 41 vegna innsýnar.

Húsið að Skipasundi 43 er kjallari, hæð og ris. Samkvæmt fyrirliggjandi uppdráttum eru umræddar svalir 13,6 m2 að flatarmáli og nemur gólfflötur þeirra við gólf fyrstu hæðar hússins, og er í um 2,3 m hæð frá lóðaryfirborði. Snýr skammhlið svalanna, sem er um 2,4 m að breidd, að lóð kæranda og er skjólveggur á þeirri hlið 1,5 m á hæð, en 1,1 m á öðrum hliðum svalanna. Svalirnar og stigi frá þeim niður á lóð eru úr timbri og munu vera í um 12 m fjarlægð frá húsi kæranda. Á árinu 2004 var heimiluð rúmlega 100 m2 viðbygging við hús kæranda, sem liggur í átt að lóðamörkum umræddra lóða. Er hús kæranda nú 181,1 m2 en hús byggingarleyfishafa 144,9 m2. Báðar lóðir eru jafn stórar, eða 549 m2 samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár. Nýtingarhlutfall lóðar kæranda er því mun hærra en lóðar byggingarleyfishafa. Fyrrgreindar svalir eru ekki óvenjulegar að gerð og hafa ekki meiri grenndaráhrif en almennt má búast við að fylgi svölum við sambærileg hús. Liggur fyrir að skjólveggur sem snýr að lóð kæranda var hækkaður til að draga úr innsýn í hús kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun ekki talin haldin slíkum  ágöllum að leitt geti til ógildingu hennar. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að veita m.a. leyfi til að byggja svalir og stiga niður í garð og færa til kofa við hús á lóð nr. 43 við Skipasund í Reykjavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

29/2016 Smárinn

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 15. júní, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 29/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Nýi Norðurturninn ehf., eigandi Hagasmára 3, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2015 að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir Smárann vestan Reykjanesbrautar. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til fram kominnar stöðvunarkröfu kæranda.

Málsatvik og rök: Hinn 9. nóvember 2015 samþykkti skipulagsnefnd tillögu að breytttu deiliskipulagi fyrir Smárann vestan Reykjanesbrautar. Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest af bæjarráði 12. s.m. og af bæjarstjórn 24. s.m. Tók skipulagsbreytingin gildi 9. júní 2016 með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda.

Kærandi skírskotar til þess að verulegir annmarkar hafi verið á undirbúningi og umfjöllun skipulagsnefndar og bæjarstjórnar við afgreiðslu á hinni kærðu ákvörðun. Af þeim sökum beri að fella skipulagsbreytinguna úr gildi. Kærendur eigi lögvarða hagsmuni að gæta í málinu og sé því gerð sú krafa að engar framkvæmdir verði heimilaðar eftir hinu samþykkta deiliskipulagi á meðan kæran sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Af hálfu Kópavogsbæjar er bent á að í hinni kærðu ákvörðun felist engin heimild til að hefja framkvæmdir. Þær séu hvorki hafnar né yfirvofandi og beri því að hafna fram kominni stöðvunarkröfu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar sem hefur að geyma heimild til breyttrar nýtingar tiltekinnar lóðar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar eins og á við um veitingu byggingar- eða framkvæmdaleyfis í með stoð í skipulagi, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Af þessu leiðir að jafnaði sé ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda sem heimilaðar eru með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. 

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun er hafnað.
 

_____________________________
Ómar Stefánsson

110/2014 Hringbraut

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 1. júní 2016, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 110/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir S, Víðimel 58, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 16. september 2014 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Hringbraut 79. Gerir kærandi þá kröfu að samþykki fyrir breytingum á innra skipulagi hússins “ í þeim tilgangi að breyta því úr venjulegu íbúðarhúsnæði í gistihús, verði felld úr gildi.”

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 18. desember 2014.

Málsatvik og rök:  Hinn 13. maí 2014 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að hækka þak og byggja kvisti, grafa frá kjallara og innrétta tvær íbúðir í húsi á lóð nr. 79 við Hringbraut. Við breytingarnar stækkaði húsið um 31 fermetra. Var málinu vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Skipulagsfulltrúi samþykkti á fundi sínum 16. s.m. að grenndarkynna erindið og bárust athugasemdir frá nágrönnum, þar á meðal kæranda. Skipulagsfulltrúi tók erindið fyrir að lokinni grenndarkynningu 8. ágúst 2014 og vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs. Málið var á dagskrá ráðsins 13. s.m. sem gerði ekki athugasemdir við erindið með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 6. ágúst 2014. Var málinu vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa sem samþykkti umsótt byggingarleyfi hinn 16. september 2014 og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 18. s.m. Byggingarleyfi var síðan gefið út 17. október 2014.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að með heimiluðum breytingum á húsinu við Hringbraut 79, sem tilheyri grónu íbúðarhverfi, sé  farið á svig við gildandi lög og reglugerðir um íbúðarhúsnæði og skipulag íbúðarhverfa í þeim tilgangi að breyta húsinu í  hótel eða gistiheimili. Samþykktar teikningar beri með sér að ekki sé gert ráð fyrir að búið verði í húsinu, sem eftir breytingar uppfylli ekki kröfur um íbúðarhúsnæði þar sem á teikningum sé ekki að finna annað eldhús en eldhúskrók í kjallara hússins. Hins vegar sé gert ráð fyrir sjö baðherbergjum. Þurfi ekki að velkjast í vafa um tilgang breytinganna og fráleitt að halda því fram að hið kærða leyfi feli í sér að breyta húsinu úr þriggja í tveggja íbúða hús. Þar sem ekki verði búið í húsinu verður ekki rekin þar heimagisting sem háð sé öðrum skilyrðum en gistiheimili og hótel. Með byggingarleyfinu sé farið á svig við lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald og gengið gróflega á rétt kæranda sem næsta nágranna. Húsið að Hringbraut 79 standi á horni þar sem fjöldi gangandi og hjólandi skólabarna fari um og með nýjum inngangi hússins að Hofsvallagötu sé verið að fórna öryggi á gangstéttinni og á nýrri hjólreiðabraut. Þurft hefði að leita umsagnar Hofsvallagötunefndar og Melaskóla um þá ákvörðun. Aukin ásókn ferðamanna hafi verið í leiguherbergi í íbúðarhverfum með tilheyrandi röskun og verðfalli fasteigna nágranna vegna hávaða og mengunar frá umferð þegar rútur sækji fólk og farangur á öllum tímum sólarhrings. Framganga borgaryfirvalda í máli þessu sýni að ekki sé staðið vörð um hagsmuni íbúa þegar atvinnustarfsemi eins og útleiga herbergja hafi forgang fram yfir umferðaröryggi og heimili húseigenda á staðnum. Með sömu þróun muni rútur og fjallajeppar leggja undir sig götur íbúðarhverfa í eldri hluta borgarinnar. Hér séu undir hagsmunir allra íbúa í hverfinu og borgarbúa í heild.

Borgaryfirvöld benda á að með hinu kærða byggingarleyfi hafi verið fallist á að innrétta tvær íbúðir í stað þriggja í húsinu að Hringbraut 79 en ekki hafi verið samþykkt gistiheimili í umræddu húsi. Í byggingarreglugerð sé fjölda eldhúsa eða salerna ekki takmörk sett og uppfylli samþykktir uppdrættir ákvæði reglugerðarinnar um íbúðir. Í 3. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 sé heimagisting skilgreind svo að um sé að ræða gistingu á heimili leigusala og sé þar átt við einkaheimili eða lögheimili leigusala. Túlka verði nefnt lagaákvæði á þann veg að það sé skilyrði að eigandi búi í hinu leigða húsnæði ásamt þeim er greiði endurgjald fyrir gistinguna. Leiga á séreign sem leigusali búi ekki í, þó í sama húsi sé, falli ekki undir hugtakið heimagisting í lögunum heldur sé þá um útleigu á íbúð að ræða.    Ekki sé áskilið  leyfi skipulagsyfirvalda fyrir heimagistingu. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að með umræddum breytingum aukist slysahætta vegna innkeyrslu að bílskúrum frá Hofsvallagötu enda engin breyting þar á frá áður samþykktum teikningum. 

Niðurstaða: Upplýst er að eftir veitingu hins kærða byggingarleyfis var tekin fyrir umsókn á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 24. febrúar 2015 um byggingarleyfi samkvæmt nýjum uppdráttum að breytingum á húsinu að Hringbraut 79.  Var sú umsókn samþykkt á þeim fundi með áritun byggingarfulltrúa á aðaluppdrætti. Sú afgreiðsla var staðfest í borgarráði hinn 26. s.m. Hið nýja byggingarleyfi er í stórum dráttum sama efnis og hið kærða byggingarleyfi en heimilaðar voru breytingar á innra fyrirkomulagi húss og ytra útliti þess frá því sem ráð var fyrir gert í hinu fyrra leyfi.  Liggur því fyrir að samþykkt hefur verið nýtt byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Hringbraut 79 en sú byggingarleyfisákvörðun hefur ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Hvað sem lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar líður, stæði hið nýja byggingarleyfi óhaggað allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________________
Ómar Stefánsson

 

111/2015 Kötlunesvegur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 9. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 111/2015, kæra á álagningu fráveitugjalda á fasteignina Kötlunesveg 3, Langanesbyggð, fastanúmer 217-0856, vegna áranna 2014 og 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. desember 2015, er barst nefndinni 7. s.m., kæra S, á ákvarðanir Langanesbyggðar frá 26. febrúar 2014 og 8. febrúar 2015 um álagningu fráveitugjalda á fasteign þeirra Kötlunesveg 3, Langanesbyggð. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Langanesbyggð 5. janúar 2016 og 30. og 31. mars s.á.

Málavextir: Kærendur eiga fasteignina Kötlunesveg 3 á Bakkafirði sem tilheyrir sveitarfélaginu Langanesbyggð. Sveitarfélagið lagði fráveitugjald á eignina fyrir árið 2014, kr. 10.418, og fyrir árið 2015, kr. 10.058. Kærendur kæra álagninguna á þeim forsendum að fasteignin sé ekki tengd fráveitukerfi sveitarfélagsins.

Málsrök kærenda: Kærendur kveða húsin í þorpinu við Bakkafjörð vera tengd sameiginlegri fráveitu að frátöldum húsum sem standi við Kötlunesveg. Þau hús hafi hvert um sig eigin fráveitulögn, sem lögð sé stystu leið frá viðkomandi húsi og fram á nærliggjandi sjávarbakka, eða niður fyrir hann þar sem aðstæður leyfi. Þetta eigi við um fasteign kærenda, sem standi við Kötlunesveg 3, en þeir hafi sjálfir þurft að annast og kosta lagfæringar á fráveitulögninni frá húsinu þegar upp hafi komið bilanir eða stíflur.

Þrátt fyrir framangreint krefjist sveitarfélagið þess að kærendur greiði fráveitugjald og haldi því fram að hús kærenda sé tengt fráveitukerfi sveitarfélagsins. Þessi staðhæfing sé röng og líti kærendur svo á að gjaldtakan sé óheimil skv. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna.

Málsrök Langanesbyggðar: Sveitarfélagið vísar til þess að lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna kveði á um einkarétt sveitarfélags til þess að koma á fót og reka fráveitu. Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. laganna sé sveitarfélögum heimilt að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar séu eða muni tengjast fráveitu sveitarfélags. Langanesbyggð innheimti fráveitugjald af kærendum í samræmi við framangreint ákvæði þar sem fasteign þeirra að Kötlunesvegi 3 sé tengd fráveitukerfi sveitarfélagsins, hafi verið það um árabil og kærendur hafi greitt gjöld í samræmi við það án athugasemda um langa hríð.

Um sé að ræða lagnir sem lagðar hafi verið af Skeggjastaðahreppi á sínum tíma og tilheyri nú Langanesbyggð, eftir sameiningu Skeggjastaðahrepps og Þórshafnarhrepps. Þá liggi lagnirnar um land sem sé í eigu sveitarfélagsins og fullyrðingu kærenda um að fasteign þeirra sé tengd fráveitukerfi í eigu og umsjón kærenda sé mótmælt sem rangri og ósannaðri.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um réttmæti ákvörðunar Langanesbyggðar um að leggja fráveitugjald á fasteign kærenda að Kötlunesvegi 3, Langanesbyggð.

Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er í 22. gr. laga um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009. Samkvæmt 22. gr. fer um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kærufrestur í máli einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Samkvæmt gögnum málsins fór álagning fyrir árið 2014 fram 26. febrúar það ár. Kæra í málinu er dagsett 3. desember 2015 og var þá rúmlega 21 mánuður liðinn frá álagningu. Með vísan til 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga verður sá hluti kærunnar því ekki tekinn til efnismeðferðar og er honum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Álagning fyrir árið 2015 fór fram 8. febrúar það ár. Var því meira en mánuður liðinn frá álagningu þegar að kæra var lögð fram í málinu. Kærendum var þó ekki leiðbeint um kæruleið eða frest til að leggja fram kæru, eins og skylt er skv. 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Kærendur sendu sveitarfélaginu bréf, dags. 31. ágúst 2015, þar sem þeir fóru fram á leiðréttingu á fráveitu- og sorpgjöldum. Var það ekki fyrr en með svarbréfi Langanesbyggðar, dags. 4. nóvember s.á., sem kærendum var leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar. Þar sem kæra í málinu kom fram innan mánaðar eftir að kærendum var leiðbeint um kæruleið, eða 3. desember s.á., þykir sá hluti kærunnar er varðar álagningu fyrir árið 2015 vera tækur til efnismeðferðar.

Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 segir að sveitarfélag beri ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu. Í 2. mgr. segir að í þéttbýli skuli sveitarfélag koma á fót og starfrækja sameiginlega fráveitu. Samkvæmt 9. mgr. 4. gr. laga nr. 9/2009 skal sveitarfélag hafa einkarétt til að reka fráveitu þar sem skylt er skv. tilvitnaðri grein að koma á fót og reka fráveitu, þ.e. í þéttbýli, sbr. 2. mgr. 4. gr. Jafnframt fer sveitarstjórn með rekstur og stjórn fráveitu á vegum sveitarfélagsins nema annað rekstrarform hafi verið sérstaklega ákveðið, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Kveðið er á um fráveitugjald í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009, en þar segir, eins og ákvæðið var orðað, að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags.

Eins og skýrt kemur fram í tilvitnuðum lagaákvæðum telst rekstur fráveitu til grunnþjónustu innan sveitarfélags sem því er einu ætlað að koma að, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Samkvæmt upplýsingum frá Langanesbyggð rekur sveitarfélagið fráveitu á Bakkafirði, m.a. þann hluta sem liggur frá húsum við Kötlunesveg. Samkvæmt uppdrætti sem lagður hefur verið fram ná lagnir út fyrir lóðarmörk fasteignar kærenda og í sjó fram. Með vísan til ákvæða þeirra sem áður voru rakin um skyldur og einkarétt sveitarfélags til reksturs fráveitu verður talið að fráveitulagnir frá fasteign kærenda séu hluti af fráveitukerfi sveitarfélagsins, hvað sem líður því álitaefni hver kostað hafi fráveitulögn frá húsi kærenda. Var sveitarfélaginu því rétt að innheimta fráveitugjald vegna húss kærenda.

Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009 skal stjórn fráveitu semja gjaldskrá þar sem kveðið er nánar á um greiðslu og innheimtu gjalda skv. 13. og 14. gr. Samkvæmt 9. gr. samþykktar nr. 992/2012 um gatnagerðargjald, stofngjald fráveitu, byggingarleyfisgjald, gjöld vegna skipulagsvinnu, afgreiðslu- og þjónustugjöld og gjaldskrá vatnsveitu Langanesbyggðar, sbr. 1. gr. samþykktar nr. 1005/2012 um breytingar á framangreindri samþykkt, er árlegt fráveitugjald 0,225% af heildarálagningarstofni. Álagningarstofn vegna umræddrar fasteignar fyrir árið 2015 er kr. 4.470.000 og álagt fráveitugjald því kr. 10.058.

Miða skal við að fráveitugjald ásamt öðrum tekjum fráveitu standi undir rekstri hennar, þ.m.t. fjármagnskostnaði, viðtakarannsóknum og vöktun og fyrirhuguðum stofnkostnaði samkvæmt langtímaáætlun veitunnar, sbr. 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009. Lagðar hafa verið fram afkomutölur fráveitu Langanesbyggðar fyrir árið 2015 og samkvæmt þeim eru tekjur kr. 6.220.297 en rekstrarkostnaður kr. 7.280.077. Reksturinn er því neikvæður um kr. 1.059.780. Álögð gjöld eru samkvæmt framangreindu ekki hærri en kostnaður af veittri þjónustu og telst gjaldið því lögmætt þjónustugjald skv. áður tilvitnuðu ákvæði 2. mgr. 15. gr. laga nr. 9/2009.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um ógildingu álagningar fráveitugjalda á fasteignina Kötlunesveg 3, Langanesbyggð, fastanúmer 217-0856, vegna ársins 2014, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu álagningar fráveitugjalda á fasteignina Kötlunesveg 3 vegna ársins 2015.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              __________________________                
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

86/2014 Álver Norðuráls á Grundartanga

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 26. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 86/2014, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2014 um að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonna ársframleiðslu í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til umhverfis- og auðlindaráðuneytis, dags. 27. júlí 2014, er barst ráðuneytinu 28. s.m. og framsent var til úrskurðarnefndarinnar 5. ágúst s.á., kærir Umhverfisvaktin við Hvalfjörð, Kúludalsá, Akranesi, ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2014 um að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonna ársframleiðslu í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að nefndin úrskurði um að framleiðsluaukningin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 17. september 2014.

Málavextir: Í mars 2014 sendi framkvæmdaraðili, Norðurál á Grundartanga, fyrirspurn um matsskyldu til Skipulagsstofnunar vegna fyrirhugaðrar framleiðsluaukningar álvers framkvæmdaraðila úr 300.000 tonnum á ári í allt að 350.000 tonn á ári, skv. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. tl. 13. a. í 2. viðauka laganna.

Með bréfum, dags. 21. mars 2014, leitaði Skipulagsstofnun umsagna Hvalfjarðarsveitar, Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Veðurstofu Íslands, Vinnueftirlitsins og Umhverfisstofnunar. Svar Vinnueftirlitsins er dags. 1. apríl s.á. og er þar ekki tekin afstaða til matsskyldu. Í svörum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, dags. 8. s.m., Veðurstofu Íslands, dags. 12. s.m., og Hvalfjarðarsveitar, dags. 14. s.m. og 2. júní s.á., kemur fram að þeir aðilar telji framkvæmdina ekki matsskylda.

Í umsögnum Umhverfisstofnunar, dags. 11. apríl og 2. júní s.á., var niðurstaðan sú að framkvæmdin væri matsskyld. Stofnunin teldi umfjöllun skorta um ýmsa þætti varðandi fyrirhugaða stækkun álversins. Til dæmis vanti ítarlega umfjöllun um mengunarvarnir og valkosti varðandi mögulegar mótvægisaðgerðir til að mæta hættu á aukinni loftmengun vegna framleiðsluaukningarinnar. Stofnunin teldi jafnframt að eðlilegt væri að gera grein fyrir hlutfalli brennisteins í súráli í heildarlosun brennisteinstvíoxíðs frá álverinu. Mikilvægt væri að horfa til sammögnunaráhrifa þess iðnaðar sem væri á svæðinu, enda losi þessi fyrirtæki í sama viðtaka.

Framkvæmdaraðili svaraði umsögnum Umhverfisstofnunar, Hvalfjarðarsveitar og Veðurstofu Íslands með bréfum til Skipulagsstofnunar, dags. 26. maí, 4. og 5. júní 2014.

Skipulagsstofnun sendi framkvæmdaraðila fyrirspurn, dags. 19. júní s.á., um losunarheimildir á brennisteinstvíoxíði, ástæðu fyrir aukinni raunlosun brennisteinstvíoxíðs og hvort þess væri að vænta að losunin gæti orðið meiri en hún væri í dag. Í svarbréfi framkvæmdaraðila, dags. 24. s.m., kemur fram að líklegt sé að hámarkslosun á brennisteinstvíoxíði lækki úr 21 kg/t Al niður í 18 kg/t Al til samræmis við önnur starfsleyfi álvera á Íslandi. Losun eftir 2005 hafi yfirleitt verið á milli 11 og 12 kg/t Al og reiknað væri með því að losun yrði svipuð áfram.

Í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 26. júní 2014, var komist að þeirri niðurstöðu að framleiðsluaukning framkvæmdaraðila um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonnum í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 3. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Því skyldi framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Kærandi segir nokkra veigamikla þætti liggja til grundvallar kærunni sem nauðsynlegt sé að taka mið af til að skipulagsyfirvöld séu fær um að taka afstöðu til þess hvort auka megi við mengun frá Grundartanga með því að leyfa framleiðsluaukningu framkvæmdaraðila.

Í fyrsta lagi þurfi að rannsaka samlegðaráhrif mengunar af völdum stóriðju á Grundartanga á lífríki og náttúru. Áhrif mengunar vegna iðjuveranna á svæðinu séu mun meiri en mælingar bendi til. Mengunarálag birtist m.a. í flúori í beinasýnum úr sauðfé og hrossum og heilsubresti búfjár. Mikilvægt sé að sérfræðingar sem sinni mengunarmælingum og úrvinnslu þeirra vinni saman til að fá sem gleggsta heildarmynd af stöðunni. Enn sé stuðst við rannsóknir á áhrifum flúors á dádýr í Noregi til að ákvarða þol íslensks búfjár. Dádýr sé erlend dýrategund sem búi við önnur lífsskilyrði en íslensk húsdýr. Alvarlegar vísbendingar séu um að flúormengun hafi valdið tjóni utan þynningarsvæða iðjuveranna. Stöðugar rannsóknir þurfi að eiga sér stað á búfjárafurðum til að tryggja fæðuöryggi vegna mengunar frá Grundartanga.

Ekki eigi að gefa afslátt af kröfum um mat á umhverfisáhrifum þó að annar mengandi iðnaður sé til staðar á svæðinu. Miklu fremur beri að gæta sérstakrar varúðar þegar teknar séu ákvarðanir um að auka mengun í umhverfi þar sem hættumerkin blasi við vegna mikillar mengunar. Mæla þurfi styrk flúors í andrúmslofti allan ársins hring, en ekki einungis yfir gróðrartímabilið, apríl til október. Koma þurfi á fót upplýsingamiðlun um loftgæði á rauntíma allt árið. Samkvæmt starfsleyfi framkvæmdaraðila sé heimilt að auka útsleppi flúors yfir vetrarmánuðina, þegar flúor í andrúmslofti sé ekki mældur, á þeim forsendum að það sé utan vaxtar- og beitartíma. Þetta standist ekki því hefð sé fyrir útigangi og vetrarbeit hrossa og sauðfjár og það sé skýlaus krafa að gætt sé að hreinleika haganna allan ársins hring með öflugri vöktun. Sé enda í starfsleyfi framkvæmdaraðila gert ráð fyrir því að unnt sé að stunda hefðbundinn búskap utan skilgreindra þynningarsvæða fyrir flúor og brennistein. Þynningarsvæði fyrir nefnd efni hafi verið þau sömu síðan framkvæmdaraðili hafi hafið starfsemi sína með fimm sinnum minni framleiðslu en nú sé. Miðað við núverandi flúorálag sé ekki unnt að halda því fram að landbúnaður í grennd við Grundartanga geti gengið eðlilega fyrir sig.

Mikilvægt sé að skipulagsyfirvöld leiti umsagna hagsmunaaðila þegar stefnt sé að því að auka mengandi iðnaðarframleiðslu í landbúnaðarhéraði. Ekki verði séð að Skipulagsstofnun hafi leitað slíkra umsagna þrátt fyrir að iðnaðarsvæði Grundartanga sé í landbúnaðarhéraði þar sem hagsmunasamtök bænda séu starfandi og þrátt fyrir að til séu íbúasamtök sem vinni að náttúruvernd og auknum náttúrugæðum.

Flestir viti nú um hið alvarlega mengunarslys sem orðið hafi í verksmiðju framkvæmdaraðila í ágúst 2006. Íbúar í grennd hafi enga hugmynd haft um slysið fyrr en mörgum mánuðum síðar og skort hafi verulega á rannsóknir í kjölfar þess. Skipulagsyfirvöldum beri nú þegar að láta þar til bæra aðila hanna viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa á Grundartanga.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er vísað til þeirra röksemda og lagasjónarmiða sem fram koma í hinni kærðu ákvörðun. Mikilvægt sé að hafa í huga að ákvörðun um að framkvæmd skuli háð umhverfismati sé íþyngjandi í garð framkvæmdaraðila, sbr. t.d. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5081/2007. Af því leiði að stofnunin geti ekki tekið slíka ákvörðun nema fyrir liggi traustar og áreiðanlegar upplýsingar sem renni stoðum undir þann möguleika að hin fyrirhugaða framleiðsluaukning Norðuráls á Grundartanga hafi í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum. Að mati stofnunarinnar liggi ekki fyrir slíkar upplýsingar í málinu.

Kærandi færi ekki rök fyrir þeirri fullyrðingu sinni að áhrif mengunar vegna iðjuveranna á Grundartanga séu mun meiri en mælingar bendi til, t.d. með vísan til gagna sem leiði í ljós réttmæti fullyrðingarinnar. Skipulagsstofnun bendi á að umhverfi verksmiðjanna á Grundartanga sé vaktað í samræmi við ákvæði í starfsleyfum þeirra. Bæði sé um að ræða beinar mælingar á styrk efna í lofti og vatni, sem og afleiddum áhrifum, s.s. styrk flúors í gróðri og beinum grasbíta. Jafnframt séu í gildi mörk fyrir styrk efna í andrúmslofti samkvæmt reglugerðum. Tryggja þurfi að mengun fari ekki yfir þau mörk utan þynningarsvæða.

Í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila hafi dreifing mengunarefna verið reiknuð út og sýnt fram á að mengun yrði ekki ofan marka utan þynningarsvæða að því undanskyldu að sólarhringsstyrkur brennisteinstvíoxíðs á Kríuvörðu myndi mælast ámóta oft ofan viðmiðunarmarka og verið hafi. Í þeim útreikningum hafi verið reiknuð dreifing miðað við losun mengunarefna frá báðum stóru verksmiðjunum á Grundartanga.

Ekki finnist ákvæði um leyfilegan styrk flúors í reglugerðum um styrk mengunarefna í andrúmslofti. Þau mörk sem stuðst sé við í starfsleyfum álvera á Íslandi séu komin úr norskum viðmiðunarmörkum. Eðlilegt væri að viðmiðunarmörk væru í reglugerðum eða starfsleyfum fyrirtækja en vafasamt sé að einstök fyrirtæki standi fyrir rannsóknum til að ákvarða slík mörk. Rannsókn á afleiðingum langtíma álags vegna flúors á íslenskt búfé þurfi að fara fram, enda sé það gert með því að vakta umhverfið í Hvalfirði, m.a. með því að mæla styrk flúors í beinum sauðfjár.

Kærandi haldi því fram að sá galli sé á núverandi umhverfisvöktun að styrkur flúors í andrúmslofti sé einungis mældur yfir vaxtartíma gróðurs frá apríl til október, en ekki allan ársins hring. Sú ábending kæranda eigi að vera til umfjöllunar við endurnýjun starfsleyfis hjá Umhverfisstofnun, en ekki þegar könnun á matsskyldu fari fram, þar sem ákvæði séu í núgildandi starfsleyfi framkvæmdaraðila um að rekstraraðili skuli standa fyrir „samfelldum mælingum“ á styrk flúors í andrúmslofti (gr. 5.1).

Þó að mælingar allan ársins hring gæfu aðra mynd en mælingar á sex mánuðum fái stofnunin ekki séð að það atriði eitt og sér leiði til þess að möguleiki væri á því að framkvæmdin hefði í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og væri því matsskyld, enda ekki unnt að líta svo á að um verulega óafturkræf áhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu gæti verið að ræða sem ekki væri hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.

Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum komi m.a. fram að við ákvörðun um matsskyldu skuli Skipulagsstofnun fara eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin. Áður skuli stofnunin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni. Hið tilvitnaða orðalag sé matskennt og áskilji ekki að stofnuninni beri strax að leita álits annarra en leyfisveitenda heldur þurfi að meta aðstæður og atvik í hverju máli. Að loknu því mati þurfi að taka afstöðu til þess hvort leita eigi álits annarra. Frá upphafi hafi stofnunin nær eingöngu leitað umsagna um tilkynningaskyldar framkvæmdir hjá leyfisveitendum og opinberum sérfræðistofnunum. Eins og það mál sem nú sé til umfjöllunar hafi legið fyrir stofnuninni og út frá þeim gögnum sem hún hafi haft undir höndum hafi ekki verið talið tilefni til að leita umsagna hagsmunaaðila. Niðurstöður umsagnaraðila hafi ekki verið á sama veg, en í því sambandi bendi stofnunin á að álits sé almennt aflað sem hluta af rannsókn máls með það að markmiði að það sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin. Ákvörðunarvaldið um það hvort framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum hvíli hins vegar hjá Skipulagsstofnun skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 106/2000. Stofnunin hafi haft nægar upplýsingar til að taka ákvörðun í málinu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili vísar kröfum kæranda á bug og bendir jafnframt á að ekki séu uppfyllt skilyrði þess að úrskurðarnefndin taki kæruna til efnismeðferðar. Kæran sé of seint fram komin þar sem kærufrestur hafi verið til 28. júlí 2014 en fram komi í bréfi umhverfis- og auðlindaráðuneytis að kæran hafi borist ráðuneytinu með tölvupósti þann dag. Kæran sé stimpluð um móttöku 29. s.m. en hafi verið móttekin hjá úrskurðarnefndinni 5. ágúst s.á. Því skuli vísa kærunni frá þar sem hún hafi borist eftir að kærufresti lauk, enda geti kæra með tölvupósti varla rofið kærufrest þar sem lögákveðið sé að hún skuli vera skrifleg og undirrituð. Þá hafi kærandi ekki lögvarða hagsmuni af ákvörðun Skipulagsstofnunar. Eigi hann hvorki beinna né verulegra hagsmuna að gæta og skorti á þau gögn sem sýna eigi fram á að lögákveðin skilyrði um aðild umhverfisverndarsamtaka séu uppfyllt, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Hvað efni málsins varði sé um að ræða aukningu á framleiðslu áls í álveri framkvæmdaraðila á Grundartanga. Aukningin sé einungis framkvæmd með tæknilegri þróunarvinnu þar sem gert sé mögulegt að leiða meiri rafstraum í gegnum núverandi kerlínur framkvæmdaraðila. Ekki sé þörf á neinum nýjum byggingum, ekki sé þörf á breytingu á stærð þynningarsvæðis og sé ekki reiknað með aukinni losun flúors. Engin breyting verði í raun á daglegri starfsemi álversins. Einungis sé verið að uppfæra og þróa búnað.

Árið 1995 hafi verið unnið mat á umhverfisáhrifum á allt að 180.000 tonna ársframleiðslu áls hjá framkvæmdaraðila á Grundartanga. Árið 2002 hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framleiðsluaukningar álversins í allt að 300.000 tonna ársframleiðslu. Nú liggi fyrir áform um að auka framleiðslu í álverinu um allt að 50.000 tonn á ári. Framleiðsluaukningin, sem byggi á straumhækkun, felist fyrst og fremst í tæknibreytingum og aukinni orku- og hráefnisnotkun, en ekki sé um að ræða fjölgun kera eða stækkun kerskála.

Skipulagsstofnun hafi sinnt lögboðinni rannsóknarskyldu sinni við töku hinnar kærðu ákvörðunar. Leitað hafi verið álits lögboðinna aðila skv. 2. mgr. 6. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, auk Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Umhverfisstofnunar, Veðurstofu Íslands og Vinnueftirlitsins. Ekki hafi borið að leita álits annarra en gert hafi verið. Þá hafi Skipulagsstofnun farið eftir lögbundnum viðmiðum í 3. viðauka laga nr. 106/2000 við töku ákvörðunarinnar.

Ekki sé ljóst hvað kærandi eigi við með því að samlegðaráhrif mengandi efna frá iðjuverunum á Grundartanga hafi ekki verið rannsökuð. Samkvæmt starfsleyfum iðnfyrirtækja þar séu umhverfisáhrif af starfseminni sérstaklega vöktuð og hafi verið það um áraraðir í samráði við Umhverfisstofnun. Staðreyndin sé sú að samlegðaráhrif vegna stóriðju á Grundartanga séu vel þekkt og megi sjá skýrslur um umhverfisvöktun á vef framkvæmdaraðila og Umhverfisstofnunar.

Áhrif flúors á búfénað hafi verið rannsökuð í tugi ára og séu vel þekkt. Á grundvelli þeirra rannsókna hafi viðmið um magn flúors í fóðri verið sett og á Íslandi sé alla jafna miðað við evrópsk viðmið sem séu 30 µg F/g. Viðmið í Bandaríkjunum séu 30-35 µg F/g. Í vöktunarskýrslum framkvæmdaraðila sjáist að styrkur flúors í grasi utan þynningarsvæðis á Grundartanga hafi aldrei mælst yfir 30 µg F/g, allt frá upphafi mælinga árið 1997. Hæsta gildi í grasi á síðasta ári hafi verið 7,9 µg F/g í Fannahlíð, sem sé við mörk þynningarsvæðis.

Bein og tennur á annað þúsund fjár á svæðinu hafi verið rannsökuð og dýralæknar hafi skoðað mun fleiri ær með reglubundnu eftirliti. Í þeim rannsóknum hafi aldrei fundist dæmi um neikvæð áhrif flúors á fé eða aðrar skepnur.

Flúor sé í dag mældur á vaxtartíma gróðurs, þar sem gróður taki ekki upp flúor á öðrum tíma. Það sé ekki rétt að framkvæmdaraðili hafi leyfi til að losa meiri flúor yfir vetrartímann. Slík heimild hafi verið til staðar einungis við ræsingu nýrra kera. Engin ný ker hafi verið tekin í gagnið síðustu árin og engin áform séu um það. Flúor í andrúmslofti sé afar erfitt að mæla í rauntíma. Notast sé við svokallaða síutækni þar sem sérstakar síur safni flúor úr andrúmsloftinu. Tilraunir með annan búnað sem mæli í rauntíma hafi ekki gefist vel og séu ónákvæmar. Innri mælitæki framkvæmdaraðila geti hinsvegar mælt flúor í útblæstri úr reykhreinsivirkjum og um rjáfur og því sé vel fylgst með losun flúors frá degi til dags.

Viðbragðsáætlun sé til staðar vegna frávika í starfsemi, þ. á m. mögulegra mengunarslysa. Að auki sé tilgreint í starfsleyfi félagsins að tilkynna þurfi Umhverfisstofnun um frávik.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í hinni kærðu ákvörðun Skipulagsstofnunar var kærufrestur í máli þessu tilgreindur til 28. júlí 2014. Kærandi sendi kæruna þann dag sem viðhengi í tölvupósti til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og framsendi ráðuneytið kæruna 5. ágúst s.á. til úrskurðarnefndarinnar í samræmi við 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 5. mgr. 27. gr. þeirra laga telst kæra nógu snemma fram komin, ef bréf sem hefur hana að geyma, er komið til æðra stjórnvalds eða afhent pósti áður en fresturinn er liðinn. Tölvupóstur með kærunni ber með sér að hafa verið kominn til ráðuneytisins þann dag sem tilgreindur var í hinni kærðu ákvörðun sem lokadagur kærufrests. Þá verður talið afsakanlegt að kæru hafi verið beint að umhverfis- og auðlindaráðuneyti í stað úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, enda var kæruleið áður til ráðuneytisins. Verður að öllu framansögðu við það að miða að kæra hafi borist innan kærufrests óháð formi hennar, enda hvílir á úrskurðarnefndinni leiðbeiningarskylda skv. 1. mgr. áðurnefndrar 7. gr. stjórnsýslulaga um hvernig bæta skuli úr formgöllum ef ástæða er til.

Í máli þessu er deilt um gildi þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2014 að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er því haldið fram af hálfu kæranda að ekki megi láta hjá líða að gera slíkt mat. Byggist það einkum á því að aukin framleiðsla muni valda aukinni mengun sem nú þegar sé of mikil í nágrenni iðjuversins. Er þess krafist að nefndin úrskurði um að framleiðsluaukningin skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000, svo sem henni var breytt með 25. gr. laga nr. 131/2011, sæta ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmda kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu, enda fellur það utan valdheimilda hennar að ákveða að umrædd fyrirhuguð framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Í nefndri 14. gr. laga nr. 106/2000 segir að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæruna fari samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þau eru nr. 130/2011. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. þeirra laga geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Eitt þeirra tilvika er að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geti kært nánar tilgreindar ákvarðanir, s.s. ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Í 4. mgr. 4. gr. laganna kemur svo fram að umhverfisverndarsamtök teljist samtök sem hafi umhverfisvernd að meginmarkmiði. Samtökin skuli vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald.

Kærandi er félag og hlutverk þess skv. 3. gr. laga félagsins er að: a) stuðla að verndun lífríkisins við Hvalfjörð, jafnt í sjó, lofti og á landi, b) að vinna að faglegri upplýsingaöflun með aðstoð sérfræðinga, c) að efla fræðslu um umhverfismál almennt og leiðir til úrbóta, d) að fylgjast með mengunarvörnum á svæðinu og gera tillögur til úrbóta eftir því sem þurfa þykir og e) að vera góð fyrirmynd í orði og verki. Samkvæmt 2. gr. geta þeir orðið félagar sem hafa áhuga á náttúru- og dýravernd, vilja stuðla að góðri umgengni um Hvalfjörð og í nágrenni hans og rækta virðingu fyrir lífríkinu meðal íbúanna. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað munu félagar vera um 90 talsins og á meðal gagna málsins er áritaður ársreikningur kæranda og skýrsla stjórnar hans fyrir starfsárið 2014. Uppfyllir kærandi því skilyrði 4. gr. laga nr. 130/2011 fyrir kæruaðild umhverfisverndarsamtaka.

Í 1. gr. laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum laganna. Eiga þau m.a. að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Í 1. viðauka við lögin, eins og þau voru á þeim tíma, eru taldar framkvæmdir sem ávallt eru háðar mati á umhverfisáhrifum en í 2. viðauka eru taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Er þá metið í hverju tilviki, með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar, hvort þær skuli háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Eru þar á meðal taldar breytingar og viðbætur við framkvæmdir skv. 1. og 2. viðauka sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. tl. 13. a. Með vísan til framangreinds töluliðar tilkynnti framkvæmdaraðili áform sín til Skipulagsstofnunar skv. 2. mgr. 6. gr. laganna, en í ákvæðinu, eins og lögin voru á þeim tíma, er mælt fyrir um málsmeðferð framkvæmda sem kunni að vera háðar mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt nefndri 2. mgr. 6. mgr. laganna, sbr. 1. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 1123/2005, sem þá var í gildi, skyldu ákveðin gögn fylgja tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar. Í samræmi við framangreint hafði tilkynningin um áform um framleiðsluaukningu í álveri framkvæmdaraðila m.a. að geyma framkvæmdalýsingu, umfjöllun um skipulag á svæðinu og lýsingu á staðháttum. Greint er frá umhverfisvöktun á Grundartanga og niðurstöðum hennar, en vöktuninni er ætlað að meta álag á umhverfið sem starfsemi iðjuvera þar veldur. Kemur fram að vöktunin fari fram samkvæmt umhverfisvöktunaráætlun sem samþykkt sé af Umhverfisstofnun og þar sé kveðið á um vöktun andrúmslofts, árvatns, gróðurs, grasbíta, lífríkis sjávar og umhverfis flæðigryfja í sjó. Loks er í tilkynningunni fjallað um möguleg umhverfisáhrif vegna framkvæmdarinnar. Í kjölfarið leitaði Skipulagsstofnun umsagna, eins og fram kemur í málavaxtalýsingu, en leita skal álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 6. gr. Framkvæmdaraðili svaraði öllum álitsgerðum og í kjölfarið leitaði Skipulagsstofnun eftir nánari upplýsingum frá honum um losun brennisteinstvíoxíðs. Frekari álitsumleitan var á forræði Skipulagsstofnunar í samræmi við nefnt lagaákvæði, en ekki verður séð að til þess hafi verið sérstakt tilefni. Var framangreind málsmeðferð í samræmi við fyrirmæli laganna þar um.

Rekstur álvers er mengandi starfsemi og hefur 50.000 tonna framleiðsluaukning á ári óhjákvæmilega í för með sér aukin áhrif á umhverfið. Snýst ágreiningur máls þessa um það mat Skipulagsstofnunar að þau áhrif yrðu ekki umtalsverð í skilningi laga nr. 106/2000 og að þar með væri ekki þörf á mati á þeim.

Samkvæmt o. lið 3. gr. laganna eru umhverfisáhrif umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Í títtnefndri 2. mgr. 6. gr. sömu laga segir að fara skuli eftir viðmiðum í 3. viðauka við lögin þegar komist sé að niðurstöðu um hvort framkvæmd geti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli þar með sæta mati á þeim áhrifum. Í nefndum 3. viðauka eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum og fjölda stafliða þar undir. Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu, sbr. 1. tl. Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar og þar skal athuga hversu viðkvæm þau svæði eru sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, einkum með tilliti til landnotkunar sem fyrir er eða fyrirhuguð samkvæmt skipulagsáætlun, magns, gæða og getu til endurnýjunar náttúruauðlinda, verndarsvæða og álagsþols náttúrunnar, sbr. 2. tl. undir liðum i., ii., iii og iv. Vegna verndarsvæða er meðal annars vísað til friðlýstra náttúruminja og svæða sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd, svæða, sbr. gr. 4.21 í skipulagsreglugerð, sem njóta verndar í samræmi við reglugerð um varnir gegn mengun vatns og reglugerð um neysluvatn vegna grunnvatns- og strandmengunar og mengunar í ám og vötnum, sem og svæða sem njóta verndar samkvæmt samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland er bundið af, og falli válistar hér undir. Um álagsþol náttúrunnar er tekið fram að viðkvæmni svæðis skuli athuga með tilliti til m.a. votlendissvæða, strandsvæða, náttúruverndarsvæða, þar með talið svæða á náttúruminjaskrá, upprunalegs gróðurlendis, svo sem skóglendis, og síðast en ekki síst svæða þar sem mengun er yfir viðmiðunargildum í lögum og reglugerðum. Loks ber að líta til eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar í ljósi áðurnefndra viðmiðana, sbr. 3. tl., einkum með tilliti til umfangs umhverfisáhrifa, þ.e. þess svæðis og fjölda fólks sem ætla má að verði fyrir áhrifum, tímalengdar, tíðni og óafturkræfi og sammögnunar umhverfisáhrifa sem og hverjar líkur séu á þeim o.fl.

Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir áðurgreindra þátta vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð, en úrskurðarnefndin er þeirrar skoðunar að með hliðsjón af eðli og stærðargráðu þeirrar starfsemi sem hér er um deilt hefðu vel flest þeirra atriða sem talin eru í 3. viðauka átt að koma til skoðunar við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Í ákvörðun sinni gerir Skipulagsstofnun fyrst grein fyrir máli því sem fyrir liggi og meðferð þess. Reifuð eru framlögð gögn framkvæmdaraðila um fyrirhugaða framkvæmd, orku- og hráefnisnotkun, vöktun umhverfis, áhrif framleiðsluaukningar á umhverfið, losun gróðurhúsalofttegunda, áhrif á loftgæði og um samræmi við skipulagsáætlanir. Þá eru reifuð álit umsagnaraðila og viðbrögð framkvæmdaraðila við þeim. Loks kemst Skipulagsstofnun að
þeirri niðurstöðu að hin tilkynnta framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif „sbr. þau viðmið sem tilgreind eru í 3. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum“. Frekari tilvísanir til 3. viðauka eða heimfærslur til nánar tilgreindra tölu- og stafliða hans er hins vegar ekki að finna í niðurstöðunni, en eins og atvikum máls þessa er háttað hefði það aukið til muna á gagnsæi og skýrleika hennar.

Árið 1995 var unnið mat á umhverfisáhrifum fyrir allt að 180.000 tonna ársframleiðslu áls hjá framkvæmdaraðila og árið 2002 fór fram mat á umhverfisáhrifum framleiðsluaukningar álversins í allt að 300.000 tonna ársframleiðslu. Í niðurstöðu sinni tekur Skipulagsstofnun fram að þegar horft sé til beinna áhrifa fyrirhugaðrar aukningar telji stofnunin að taka beri mið af þeirri starfsemi sem lagt hafi verið mat á árið 2002 og niðurstöðum vöktunar á iðnaðarsvæði Grundartanga, en allítarleg gögn liggi fyrir um samlegðaráhrif álvers framkvæmdaraðila og járnblendiverksmiðju Elkem, sem byggja megi á. Frekari grein er ekki gerð fyrir efni þess mats sem fram fór árið 2002. Stofnunin leit á nefnt mat sem grunnlínu sem umfjöllun um áhrif framleiðsluaukningar skyldi miðast við. Þegar að hinni kærðu ákvörðun kom voru hinsvegar liðin 12 ár frá því að mat á umhverfisáhrifum var unnið og þá var í gildi eldra lagaumhverfi. Var því tilefni til að gera grein fyrir því í umfjöllun Skipulagsstofnunar hvort, og þá að hvaða leyti, forsendur væru aðrar en þá hvað varðar atvik sem og gildandi lög og reglugerðir.

Ákvarðanir stjórnvalda verða að vera ákveðnar og skýrar að efni til, að öðrum kosti geta málsaðilar og aðrir þeir sem telja til réttar vegna ákvörðunar vart gert sér grein fyrir réttarstöðu sinni. Eins og áður hefur komið fram er úrskurðarnefndin þeirrar skoðunar að framsetningu hinnar kærðu ákvörðunar hafi um margt verið ábótavant og að tilefni hafi verið til nánari umfjöllunar um ákveðin atriði. Þrátt fyrir þá annmarka er það álit nefndarinnar að af heildarsamhengi hinnar kærðu ákvörðunar, þ.m.t. tilvísun til þess mats á umhverfisáhrifum sem fór fram árið 2002 og gagna, s.s. ítarlegra vöktunarskýrslna og úttektar á umhverfisáhrifum, sé hún nægilega skýr og leiði framangreindir annmarkar því ekki til ógildingar.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að fyrirhuguð framleiðsluaukning, sem byggi á straumhækkun, feli fyrst og fremst í sér tæknibreytingar og aukna orku- og hráefnisnotkun, en ekki sé um að ræða fjölgun kera eða stækkun kerskála. Er það og forsenda Skipulagsstofnunar að helstu beinu umhverfisáhrif felist í auknum útblæstri flúors og brennisteinstvíoxíðs og þá muni framleiðsluaukningin leiða til aukinnar losunar koltvíoxíðs. Er þessi forsenda í samræmi við gögn málsins sem áður hafa verið tilgreind. Í samræmi við framangreint er í niðurstöðukafla Skipulagsstofnunar fjallað frekar um brennisteinstvíoxíð og flúor og fallist á að bregðast þurfi við fyrirsjáanlegum auknum útblæstri á þeim efnum. Jafnframt er fallist á að mikilvægt sé að endurskoða loftdreifingarspár reglulega með tilliti til vöktunar og betri mælinga. Sýni vöktunarmælingar að ekki sé hægt að standa við ákvæði í starfsleyfum um að halda losun mengunarefna innan viðmiðunarmarka með tilliti til þynningarsvæðis, eigi fyrstu viðbrögð framkvæmdaraðila skilyrðislaust að felast í því að finna leiðir til að draga úr menguninni. Það megi meðal annars gera með bættum mengunarvarnarbúnaði eða kaupum á sem bestu hráefni. Einnig er tekið fram í inngangi niðurstöðukafla að Skipulagsstofnun telji að hafa beri í huga fyrirséðar breytingar sem gerðar verði á starfsleyfi framkvæmdaraðila með tilliti til hámarkslosunar á brennisteinstvíoxíði og áforma um bætt afsog frá kerum. Taldi Skipulagsstofnun að framleiðsluaukning framkvæmdaraðila væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Fyrir liggur að til grundvallar niðurstöðu Skipulagsstofnunar lágu upplýsingar úr mati á umhverfisáhrifum sem gert var 2002 og ítarlegar vöktunarskýrslur allt frá þeim tíma, auk annarra gagna. Í niðurstöðu er fjallað um tiltekin viðmið í 3. viðauka laga nr. 106/2000, án heimfærslu þó. Þannig er að finna umfjöllun um eðli framkvæmdar, sbr. tl. 1, einkum um sammögnunaráhrif með öðrum framkvæmdum á svæðinu, sbr. ii., og um mengun, sbr. iii. Um staðsetningu er einnig fjallað, einkum um álagsþol náttúrunnar með tilliti til svæða þar sem mengun er yfir viðmiðunargildum í lögum og reglugerðum, sbr. tl. 2.iv.(i), og er sú umfjöllun nokkuð ítarleg. Upplýsingar frá framkvæmdaraðila um ferskvatnssýni úr ám í Hvalfirði og sjósýni og upplýsingar um styrk efna í samanburði við mörk sem skilgreind eru í neysluvatnsreglugerð gáfu hins vegar tilefni fyrir stofnunina til að fjalla um aðrar reglugerðir á þessu lagasviði. Sama gildir um þær upplýsingar framkvæmdaraðila að marktækar breytingar væru til hækkunar á meðalstyrk flúors í kjálkabeinum lamba og fullorðins fjár milli áranna 1997-2012 en þó væri um að ræða marktæka breytingu til lækkunar á meðalstyrk flúors í lömbum milli áranna 2007-2012. Var ástæða til að Skipulagsstofnun fjallaði frekar um ástæður þessara breytinga. Loks er rétt að benda á að umfjöllun um umhverfisáhrif miðar að mestu leyti við þynningarsvæði en ekki er vikið að t.a.m. landnotkun þar fyrir utan eða mögulegum áhrifum á votlendissvæði. Þegar tekið er tillit til alls framangreinds þykir stofnunin þó hafa farið eftir þeim viðmiðum í 3. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sem mestu máli skiptu við töku ákvörðunarinnar. Sérstaklega var litið til álagsþols náttúrunnar að teknu tilliti til þess að mengun hefði mælst yfir viðmiðunargildum reglugerða, en hvað það varðar lá einnig fyrir umsögn Veðurstofu Íslands þess efnis að miðað við fyrirhugaða framleiðsluaukningu myndi sá tími þar sem brennisteinstvíoxíð myndi mælast yfir gróðurverndarmörkum aukast um 0,1 prósentustig miðað við óbreyttan útblástur frá járnblendiverksmiðju Elkem. Þá lá fyrir í gögnum málsins að aukin losun myndi að öðru leyti rúmast innan heimilda starfsleyfis framkvæmdaraðila, eins og það var á þeim tíma sem ákvörðunin var tekin, en þær heimildir byggðu á mati á umhverfisáhrifum sem fram fór árið 2002. Loks var það forsenda fyrir niðurstöðu Skipulagsstofnunar að áform væru um ákveðnar mótvægisaðgerðir, t.d. bætt afsog frá kerum, en möguleiki á að vega upp á móti umhverfisáhrifum með mótvægisaðgerðum er eitt skilgreiningaratriða þess hvort þau áhrif teljist veruleg, sbr. o. lið 3. gr. laga nr. 106/2000, sem áður hefur verið rakinn. Að öllu framansögðu verður ekki hnekkt því mati Skipulagsstofnunar að framleiðsluaukning muni ekki hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif í skilningi laga nr. 106/2000.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður annað séð en að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðunartöku sína gætt lögmætrar málsmeðferðar, aflað umsagna og tekið sjálfstæða afstöðu til ítarlegra gagna sem fyrir liggja í málinu, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, verður ekki talið um neina þá annmarka að ræða er raskað geti gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Er kröfu kærenda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til nefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2014 um að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonna ársframleiðslu í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

______________________________              _____________________________
Nanna Magnadóttir                                                 Geir Oddsson

Sérálit Aðalheiðar Jóhannsdóttur prófessors: Ég er sammála niðurstöðu meiri hluta úrskurðarnefndarinnar þess efnis að mál þetta skuli tekið til efnismeðferðar. Ég tel hins vegar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi með eftirfarandi rökum: Í gögnum framkvæmdaraðila, sem lögð hafa verið fyrir nefndina, kemur fram ráðagerð um frekari stækkun Norðuráls á Grundartanga, þ.e. til viðbótar við þá ríflega 15% framleiðsluaukningu sem áætluð er samkvæmt framangreindri tilkynningu hans. Framleiðsluaukningunni fylgir aukin hráefnisnotkun, orkunotkun, aukin losun gróðurhúsalofttegunda og ýmissa mengandi efna út í umhverfið, þ.m.t. flúors, að mestu leyti í línulegu hlutfalli við aukninguna. Með vísan til framangreinds og þess að nokkuð skortir á að Skipulagsstofnun hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og að teknu tilliti til þess hvernig tilskipanir þær sem innleiddar eru með lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum hafa verið túlkaðar af dómstól Evrópusambandsins (sjá einkum mál nr. C-431/92, C-72/95 og C-227/01), en þeir dómar hafa þýðingu við túlkun löggjafar Evrópska efnahagssvæðisins, og með vísan til þeirrar staðreyndar að engar tölulegar viðmiðanir er að finna í 5. tölul. 1. viðauka laga nr. 106/2000, tel ég að fella beri úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 26. júní 2014 um að fyrirhuguð framleiðsluaukning álvers Norðuráls á Grundartanga um 50.000 tonn á ári, úr 300.000 tonna ársframleiðslu í allt að 350.000 tonna ársframleiðslu, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir

39/2014 Fálkaklettur

Með
Árið 2016, mánudaginn 30. maí 2016, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 39/2014 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 27. apríl 2014, er barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 28. s.m., kærir Þ, Fálkakletti 5, Borgarnesi, ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 2. apríl 2014, um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna byggingar sem standi við lóðamörk Fálkakletts 5 og 7. Er gerð sú krafa að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málsatvik og rök: Með bréfi til byggingarfulltrúa Borgarbyggðar, dags. 11. desember 2013, sendi kærandi kvörtun í tilefni af byggingu sem staðsett var á lóðinni Fálkakletti 7 við lóðarmörk fasteignar kæranda að Fálkakletti 5. Var erindið tekið fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 21. janúar 2014 og bókað: „Þórdís Arnardóttir er með fyrirspurn er varðar byggingu á Fálkakletti 7 fyrir fiðurfénað. Málið var lagt fram og byggingarfulltrúa falið að svara erindinu.“ Við könnun á vettvangi kom í ljós að umræddur hænsnakofi stóð nær lóðamörkum Fálkakletts 5 og 7 en sem nam 3 metrum. Í svarbréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 2. apríl 2014, var sú niðurstaða tilkynnt að það væri mat byggingarfulltrúa að ekki væri ástæða til að fara í þvingunaraðgerðir vegna málsins þar sem ekki hafi verið gerðar athugasemdir við staðsetningu kofans fyrr en löngu eftir að honum hafi verið komið fyrir.

Kærandi vísar til þess að umdeild bygging standi innan við 3 metra frá mörkum lóðar hans og hefði því þurft að koma til samþykki kæranda skv. 6. tl. g liðar gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Slíkt samþykki liggi ekki fyrir. Staðsetning byggingarinnar og notkun hafi truflandi áhrif gagnvart kæranda enda standi hún alveg á mörkum nefndra lóða.

Niðurstaða: Í umsögn byggingarfulltrúa til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. maí 2016, kemur fram að eigandi umdeilds hænsnakofa, sem staðsettur var á lóðinni Fálkakletti 7, sé fluttur og hafi tekið hænsnakofann með sér, en kærumálið snýst um lögmæti staðsetningar nefnds kofa nærri mörkum lóðar kæranda.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem tekið hefur við þeim málum sem áður áttu undir úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála, er sett það skilyrði fyrir aðild að kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni að viðkomandi eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra skal nema að lög kveði sérstaklega á annan veg. Þar sem umdeildur kofi hefur verið fjarlægður af lóðinni Fálkakletti 7 á kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá hinni kærðu ákvörðun hnekkt. Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________________
Ómar Stefánsson