Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

62/2016 Glammastaðir

Árið 2016, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar frá 23. júní 2015 um að ógilda ekki deiliskipulag fyrir Glammastaði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 7. júní 2016, kærir V, eigandi jarðarinnar Glammastaða í Hvalfjarðarsveit, þá ákvörðun Hvalfjarðarsveitar frá 23. júní 2015 að ógilda ekki deiliskipulag fyrir frístundabyggðina Kjarrás í landi Glammastaða sem tók gildi 31. ágúst 2011. Er þess krafist að deiliskipulagið verði fellt úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hvalfjarðarsveit 6. júlí 2016.

Málsatvik og rök: Hinn 31. ágúst 2011 tók gildi breytt deiliskipulag fyrir frístundabyggð í landi Glammastaði í Hvalfjarðasveit. Kærandi eignaðist umrætt land með kaupsamningi, dags. 9. janúar 2013. Á árinu 2015 gerði hann þá kröfu að sveitarfélagið felldi deiliskipulagið úr gildi. Með bréfi, dags. 25. júní 2015, var lögmanni kæranda tilkynnt um að þeirri kröfu hefði verið hafnað.

Kærandi vísar til þess að deiliskipulag umrædds svæðis frá árinu 2001 hafi aldrei öðlast gildi og að eftir að það hafi verið lagt fram hafi orðið verulegar breytingar á eignarhaldi lands og skiptingu þess innan deiliskipulagssvæðisins. Fráleitt hafi verið að samþykkja nær óbreytt deiliskipulag árið 2011 án þess að allir aðilar hafi komi að þeirri vinnu og að slíkur annmarki við gerð skipulags leiði til ógildingar þess. Sumarhúsaeigendur á deiliskipulagssvæðinu hafi gert kröfur á hendur kæranda um að leggja vatn og veg um svæðið og hafi hann því ríka hagsmuni af því að deiliskipulagið verði ógilt. Hvorki starfsmenn embættis sýslumanns né Hvalfjarðarsveitar kannist við framangreindar kvaðir, en eigi landeigandi að bera slíka skyldu verði kvöð þess efnis að hvíla á landinu. Þá hafi þáverandi landeigandi ekki samþykkt umþrætta kvöð þegar deiliskipulagsbreytingin hafi verið unnin.

Af hálfu sveitarstjórnar er á það bent að ekkert í gögnum málsins bendi til þess að málsmeðferð deiliskipulagsins hafi verið ólögmæt eða að það sé ógildanlegt af öðrum ástæðum. Þá hafi liðið of langur tími frá gildistöku deiliskipulagsins þar til krafa kæranda hafi verið sett fram en kærufrestur vegna skipulagsákvarðana sé 30 dagar frá opinberri birtingu auglýsingar um gildistöku skipulags. Heimild til endurupptöku samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé eitt ár nema veigamiklar ástæður mæli með að mál sé tekið upp að liðnum lengri tíma. Þá verði í máli þessu að líta til almennra reglna um tómlæti og fyrningu, enda geti á mjög skömmum tíma margir aðilar byggt ríkan rétt á gildi skipulags svo sem með byggingu húsa í samræmi við skipulag, sölu eigna eða á annan hátt.

Niðurstaða: Mál þetta snýst um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar um að hafna kröfu kæranda um að fella úr gildi samþykkt deiliskipulag sem tók gildi 31. ágúst 2011.  Tilkynning um hina kærðu ákvörðun var send lögmanni kæranda með bréfi, dags. 25. júní 2015, en þar var hvorki getið um hvert kæra mætti ákvörðunina né um kærufrest. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 7. júní 2016, eða tæpu ári síðar.

Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Þó verður kæra ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að hún var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. ákvæðisins. Fyrrgreindar heimildir til að taka kæru til efnismeðferðar að liðnum kærufresti fela í sér undantekningu frá meginreglu 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa beri kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar ber því að skýra þröngt. Við beitingu þeirra undantekningaákvæða verður að líta til þess hvort fleiri aðilar eigi hagsmuni tengda ákvörðun en svo er um hina kærðu ákvörðun. Umþrætt deiliskipulag nær til 36 frístundalóða og má ætla að hagsmunir aðila fari ekki saman.

Kæranda var ekki leiðbeint um kæruleið eða kærufrest í tilkynningu um hina kærðu ákvörðun svo sem bar að gera samkvæmt 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Sá dráttur sem varð á að kæra umdeilda ákvörðun verður þó ekki talinn afsakanlegur en kærandi, sem naut aðstoðar lögmanns, átti þess kost að afla upplýsinga um kæranleika ákvörðunarinnar hygðist hann láta reyna á gildi hennar. 

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið þykja undantekningaákvæði 1. og 2. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga ekki eiga við í máli þessu og verður kærumálinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 1. mgr. 28. gr. nefndra laga þar sem kæra barst að liðnum kærufresti.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir