Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

97/2016 Laxeldi í Arnarfirði

Árið 2016, fimmtudaginn 11. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 97/2016, kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 6. maí 2016 um að gefa út rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Geiteyri ehf., Síðumúla 34, Reykjavík og Akurholt ehf., Aratúni 9, Garðabæ, þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 6. maí 2016 að gefa út rekstrarleyfi til handa Arnarlaxi hf. vegna sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að réttaráhrifum rekstrarleyfisins verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust frá Matvælastofnun 19. júlí 2016.

Málsatvik og rök: Arnarlax hf. sótti hinn 12. mars 2015 um breytingu á rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Óskaði fyrirtækið eftir því að framleiðslumagn þess yrði aukið um 7.000 tonn, en gildandi rekstrarleyfi þess veitti heimild til framleiðslu á allt að 3.000 tonnum af laxi í sjókvíum í Arnarfirði á ári.

Kærendur taka fram að þeir séu eigendur Haffjarðarár í Hnappadal og eigi mikilla hagsmuna að gæta um að ekki sé stefnt í hættu lífríki árinnar og villtum lax- og silungsstofnum hennar, m.a. með lúsafári, sjúkdómasmiti og erfðamengun. Þeir hafi fyrst fengið vitneskju um útgáfu rekstrarleyfisins 14. júní 2016 í kjölfar fyrirspurnar þeirra um hvort leyfi hefði verið gefið út. Matvælastofnun hafi ekki rannsakað málið sérstaklega og með sjálfstæðum og víðfeðmum hætti áður en hún hafi gefið út rekstrarleyfið í kyrrþey. Leyfisútgáfan hafi ekki verið auglýst og tækifæri til að setja fram athugasemdir ekki verið veitt. Stofnunin hafi þannig virt að vettugi andmælarétt kærenda og annarra hagsmunaaðila.

Af hálfu Matvælastofnunar kemur fram að umsókn leyfishafa hafi verið unnin í samræmi við lög nr. 71/2008 um fiskeldi og reglugerð nr. 1170/2015 um fiskeldi. Athugasemdir kærenda við verklag stofnunarinnar séu á misskilningi byggðar og beri að hafna kröfu þeirra um ógildingu rekstrarleyfisins.

Leyfishafi vísar til þess að kæran hafi ekki borist innan lögmælts kærufrests og því beri að vísa henni frá, skv. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. 8. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Rekstrarleyfið hafi verið gefið út 6. maí 2016. Það hafi byggt á útgáfu starfsleyfis 15. febrúar s.á. sem birt hafi verið í B-deild Stjórnartíðinda 17. mars s.á. Lögum samkvæmt séu umsóknir um rekstrarleyfi og starfsleyfi afgreiddar samhliða og sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Matvælastofnunar að gefa út rekstrarleyfi vegna sjókvíaeldis á laxi í Arnarfirði.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það skilyrði kæruaðildar að málum fyrir nefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Sú undantekning er þó gerð í nefndum lögum að umhverfisverndar- útivistar- og hagsmunasamtök geta að ákveðnum skilyrðum uppfylltum átt kæruaðild án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, en kærendur eru ekki slík samtök.

Í kæru vísa kærendur til þess að þeir séu eigendur Haffjarðarár í Hnappadal á Snæfellsnesi. Um er að ræða laxveiðiá sem rennur til sjávar á sunnanverðu nesinu. Laxeldið sem hið kærða starfsleyfi heimilar er í Arnarfirði á Vestfjörðum, fjarri nefndri á. Verður ekki séð með vísan til þessa að kærendur hafi hagsmuna að gæta umfram þá hagsmuni sem almenna má telja. Slíkir hagsmunir nægja ekki einir og sér til kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni, svo sem áður hefur komið fram.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið þykir á skorta að kærendur eigi þá lögvörðu hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun sem gerðir eru að skilyrði fyrir kæruaðild í fyrrgreindri 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir