Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

16/2016 Vegamótastígur

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 30. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 16/2016, kæra á ákvörðun borgarstjórnar frá 17. nóvember 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5 vegna lóðanna nr. 7 og nr. 9 við Vegamótastíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er móttekið var 29. janúar 2016, kærir H, f.h. íbúa og eigenda Grettisgötu 3, 3a og 5 þá ákvörðun borgarstjórnar frá 17. nóvember 2015 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi reits 1.171.5 vegna lóða nr. 7 og nr. 9 við Vegamótastíg í Reykjavík. Erindi sama efnis frá sömu aðilum var móttekið hjá innanríkisráðuneytinu 10. febrúar 2016 og framsent úrskurðarnefndinni. Barst það nefndinni 18. s.m. Skilja verður málsskot kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 10. mars 2016.

Málsatvik og rök: Árið 2002 var samþykkt deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.5 sem afmarkast af Laugavegi, Klapparstíg, Grettisgötu og Vegamótastíg. Gerði deiliskipulagið m.a. ráð fyrir því að fjarlægja mætti núverandi byggingu á lóðinni nr. 9 við Vegamótastíg, en nefnd lóð er á horni Grettisgötu og Vegamótastígs. Einnig yrði byggingarreitur lóðarinnar stækkaður og heimilt að reisa þar fjögurra hæða byggingu með inndreginni efstu hæð og kjallara. Á aðliggjandi lóð að Laugavegi 18b var gert ráð fyrir sambærilegum byggingarheimildum á nýjum byggingarreit syðst á lóðinni en að hús við Laugaveg væri óbreytt. Árið 2005 var samþykkt breyting á nefndu deiliskipulagi er fól m.a. í sér að síðargreindu lóðinni var skipt í tvær og önnur þeirra varð nr. 7 við Vegamótastíg. Árið 2008 tók gildi breytt deiliskipulag vegna lóðanna nr. 7 og nr. 9 við Vegamótastíg. Fól það í sér, samkvæmt greinargerð þess, að á lóðunum væri byggt nokkurn veginn í samræmi við fyrra deiliskipulag, en að gamall steinbær sem áður hafði staðið á lóðinni að Vegamótastíg nr. 7 yrði endurreistur á þaki nýbyggingar og einnig að gamla húsið á lóðinni við Vegamótastíg nr. 9 yrði flutt upp á þak.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 15. maí 2015 var lögð fram umsókn um leyfi til að breyta deiliskipulagi lóðanna að Vegamótastíg nr. 7 og nr. 9. Gerði tillagan ráð fyrir að á nefndum lóðum yrðu fimm hæða byggingar og yrði efsta hæð inndregin, sem og 1. hæð. Kjallari á einni hæð yrði undir húsunum. Einnig yrði hætt við að endurreisa gamla steinbæinn á þaki nýbyggingar og að færa gamla húsið á lóðinni að Vegamótastíg nr. 9 upp á þak. Málinu var vísað til umsagnar verkefnisstjóra og á fundi skipulagsfulltrúa 5. júní s.á. var því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem á fundi 1. júlí s.á. samþykkti að auglýsa framlagða tillögu.  Samþykkti borgarráð greinda afgreiðslu 9. s.m. Að lokinni auglýsingu var umsóknin lögð fram að nýju á embættisafgreiðslufundum skipulagsfulltrúa 4. og 18. september 2015 og samþykkt í tvígang að framlengja frest til athugasemda vegna beiðni kærenda þar um. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 25. september s.á. var erindinu vísað til umsagnar verkefnisstjóra og á fundi skipulagsfulltrúa 2. október s.á. var því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs. Ráðið tók málið fyrir 21. s.m. og samþykkti meirihluti þess tillöguna með þeim breytingum er fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa. Samþykkti borgarstjórn tillöguna 17. nóvember 2015. Öðlaðist breytingin gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember s.á.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum telja kærendur að fimm hæða byggingar við Vegamótastíg muni raska verulega ásýnd svæðisins, enda séu húsin við Grettisgötu umtalsvert lægri. Sé ekki tekið mið af heildarsýn hverfisins í deiliskipulaginu. Fyrirhugaðar byggingar muni t.a.m. skerða útsýni og birtu, valda skuggamyndun og ýta undir sterka vindsveipa. Lífsgæði kærenda muni rýrna sem og virði eigna þeirra. Hætta sé á tjóni af framkvæmdunum, t.d. vegna sprengingar klappar. Gera megi ráð fyrir miklum hávaða og ónæði af fyrirhuguðum hótelrekstri í húsunum. Muni staðsetning og aðkoma að bílastæði/kjallara valda kærendum miklum óþægindum og ónæði. Kærendur hafi séð auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins nokkrum dögum áður en kæra barst úrskurðarnefndinni.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæra sé of seint fram komin með vísan til 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kæra í máli þessu hafi borist úrskurðarnefndinni 29. janúar 2016. Frestur til að kæra hafi verið til 11. janúar 2016 og hafi hann því verið liðinn þegar kæra barst úrskurðarnefndinni. Beri þegar að þeirri ástæðu að vísa máli frá enda hafi engin rök verið færð fyrir því hvers vegna víkja ætti frá skýrum ákvæðum laga að þessu leyti.

Lóðarhafi nefndra lóða gerir kröfu um frávísun málsins með vísan til þess að lögbundinn kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni. Þá uppfylli kæran ekki þau skilyrði sem sett séu í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 11. desember 2015. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður, nema á annan veg sé mælt í lögum. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu miðast upphaf frestsins við birtingu ákvörðunar. Kæra í máli þessu var móttekin hjá úrskurðarnefndinni 29. janúar 2016, eða rúmum mánuði eftir birtingu hinnar kærðu ákvörðunar, og var þá kærufrestur til nefndarinnar liðinn samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________________
Nanna Magnadóttir

76/2015 Hringrás

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2015, kæra á ákvörðunum Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs og að hafna beiðni kæranda um heimild til að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hringrás hf., Klettagörðum 9, Reykjavík, ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu skv. 66. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs, þar sem stofnuninni hafi ekki borist magntölur úrgangs frá kæranda. Áminningin var birt kæranda með bréfi, dags. 13. ágúst 2015, og var þar veittur frestur til úrbóta til og með 4. september s.á. Jafnframt er kærð sú ákvörðun Umhverfisstofnunar, sem tilkynnt var kæranda með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. september 2015, að hafna því að veita kæranda heimild til að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, þ.e. annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar.

Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir Umhverfisstofnunar verði felldar úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 29. október 2015.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 22. september 2015 og 9. mars 2016.

Málsatvik: Kærandi rekur endurvinnslu brotajárns og móttöku spilliefna hérlendis og hefur til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun á grundvelli laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Í  1. mgr. 19. gr. laganna segir m.a. að rekstraraðilar skuli fyrir 1. maí ár hvert skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um þann úrgang sem meðhöndlaður var á undangengnu almanaksári. Skal skýrslan innihalda upplýsingar um tegundir úrgangsins og magn, uppruna og ráðstöfun hverrar tegundar. Skýrslan skal vera á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til og vera aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar.

Kærandi afhenti ekki umrædda skýrslu á tilsettum tíma og með bréfi, dags. 12. júní 2015, tilkynnti Umhverfisstofnun honum um áform um áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs. Var honum veittur frestur til 26. s.m. til að bæta úr með afhendingu upplýsinganna eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærandi tjáði Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 25. júní 2015, að hann teldi að birting umræddra skýrslna myndi raska viðskiptahagsmunum sínum og valda sér tjóni. Eftir frekari samskipti kæranda og Umhverfisstofnunar var honum veitt áminning vegna vanskila á magntölum úrgangs með bréfi, dags. 13. ágúst 2015. Veitti stofnunin kæranda frest til úrbóta til og með 4. september s.á.

Eftir frekari samskipti kæranda og Umhverfisstofnunar óskaði kærandi eftir því með bréfi, dags. 2. september 2015, að skila inn tveimur skýrslum til Umhverfisstofnunar. Önnur skýrslan átti að vera á því formi sem stofnunin hafði þegar lagt til en hin átti að geyma samandregnar upplýsingar um magntölur úrgangs og vera til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 9. s.m., var beiðni kæranda hafnað. Kærandi hefur kært framangreindar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður Umhverfisstofnun hafa í áraraðir fengið gögn um söfnun og meðhöndlun úrgangs frá fyrirtækjum sem meðhöndli úrgang og fram til þessa hafi stofnunin og Hagstofa Íslands unnið úr gögnunum heildartölfræði um úrgangsmál fyrir landið. Eftir breytingu á 19. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs hyggist Umhverfisstofnun nú birta gögn frá hverju og einu fyrirtæki á vef sínum. Kærandi telji mikla hagsmuni í húfi fyrir sig, verði þær upplýsingar sem stofnunin óski eftir gerðar opinberar á því formi sem stofnunin hafi lagt til í samræmi við 1. mgr. 19. gr. laganna. Í umræddum skýrslum sé að finna viðkvæmar viðskiptaupplýsingar, sér í lagi hjá kæranda vegna rekstrarforms hans, og gætu samkeppnisaðilar greint rekstur hans með nokkuð nákvæmum hætti yrðu upplýsingarnar gerðar opinberar á því formi sem Umhverfisstofnun krefjist.

Umhverfisstofnun beri að meta hagsmuni þá sem í húfi séu við beitingu viðkomandi lagaákvæðis og ganga ekki lengra en þörf krefji til að þjóna markmiðum þeim sem að sé stefnt með reglunni. Birting umræddra gagna geti skaðað hagsmuni fyrirtækja á samkeppnismarkaði og gangi fortakslaus beiting ákvæðisins gegn grundvallarreglum íslensks réttar um atvinnufrelsi, jafnræði og meðalhóf. Það þjóni ekki hagsmunum almennings eða umhverfis að birta nákvæmar viðskiptaupplýsingar fyrirtækisins og Umhverfisstofnun gæti ákveðið að túlka skyldu skv. 19. gr. með vægari hætti, t.d. með því að fallast á tillögu kæranda um það hvernig upplýsingarnar verði birtar, þ.e. með samandregnum upplýsingum og tölfræði um magntölur úrgangs.

Hafnað sé þeim málsrökum Umhverfisstofnunar að jafnræði á milli aðila væri raskað ef stofnunin féllist á að birta umræddar upplýsingar á því formi sem kærandi leggi til, enda hafi ekki verið birtar neinar skýrslur á heimasíðu stofnunarinnar. Væri einfalt mál að gefa öðrum aðilum einnig færi á að skila skýrslum inn á umræddu tvöföldu formi.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að það komi skýrt fram í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs að rekstraraðilar skuli fyrir 1. maí ár hvert skila til stofnunarinnar skýrslu um úrgang sem meðhöndlaður hafi verið á undangengnu almanaksári. Jafnframt sé ljóst samkvæmt ákvæðinu að skýrslan skuli vera á því formi sem Umhverfisstofnun leggi til. Tilgangur nefndrar skýrslugjafar sé að safna tölfræðiupplýsingum og beri stofnuninni að safna viðkomandi upplýsingum og senda áfram í samræmi við skyldur Íslands samkvæmt samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna.

Einnig sé skýrt kveðið á um það í 1. mgr. 19. gr. að áðurnefndar skýrslur skuli vera aðgengilegar á heimasíðu Umhverfisstofnunar. Hafi stofnunin ekki svigrúm til að víkja frá svo skýru lagaboði með því að heimila takmarkaða birtingu skýrslnanna. Vakin sé sérstök athygli á því að stofnunin óski einungis eftir upplýsingum um þann úrgang sem rekstraraðili endurvinni, endurnýti, fargi sjálfur eða flytji úr landi til meðhöndlunar. Hvorki sé óskað eftir upplýsingum um þann úrgang sem rekstraraðili sendi til meðhöndlunar hjá öðrum aðilum innanlands né að í skýrslunni komi fram heildarmagn þess úrgangs sem rekstraraðili hafi tekið  við. Einungis sé um upplýsingar að ræða sem nauðsynlegar séu til að uppfylla kröfur um gögn sem íslenskum stjórnvöldum beri að standa skil á gagnvart framangreindum erlendum stofnunum.                                                                                                                                                                                                                                                                                                              

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs skulu rekstraraðilar skila til Umhverfisstofnunar fyrir 1. maí ár hvert skýrslu um þann úrgang sem meðhöndlaður var á undangengnu almanaksári. Skal skýrslan innihalda upplýsingar um tegundir úrgangsins og magn, uppruna og ráðstöfun hverrar tegundar. Segir einnig að skýrslan skuli vera á því formi sem Umhverfisstofnun leggi til. Í 6. málsl. 1. mgr. segir loks að skýrslurnar skuli gerðar aðgengilegar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Af orðalagi ákvæðisins má ráða að rekstraraðilar beri fortakslausa skyldu til að skila umræddum upplýsingum og að skylt sé að hafa þær á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til. Engar frekari leiðbeiningar liggja fyrir um hvernig formið skuli vera. Ákvörðunarvald þar um liggur því alfarið hjá stofnuninni, þó með þeim fyrirvara að gætt sé almennra reglna stjórnsýsluréttarins við þá ákvarðanatöku, t.a.m. með því að ganga ekki lengra í kröfum sem gerðar eru til rekstaraðila um upplýsingagjöf en nauðsyn ber til.

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að rekstraraðilar skuli nota tiltekið form þar sem er krafist upplýsinga um alls 72 úrgangsflokka, magn í tonnum og aðferð við endurvinnslu, endurnýtingu og förgun í hverjum flokki. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá stofnuninni er formið byggt upp með það að leiðarljósi að safna einungis þeim upplýsingum sem nauðsynlegar eru fyrir tölfræðiúrvinnslu og upplýsingagjöf samkvæmt alþjóðlegum samningum sem Ísland er aðili að. Hefur stofnunin lagt fram gögn þessu til staðfestingar. Að teknu tilliti til þessa og afdráttarlauss orðalags áðurnefndrar 1. mgr. 19. gr. laga nr. 55/2003 verður ekki annað séð en að sú leið sem Umhverfisstofnun hefur valið við upplýsingasöfnun og form skýrslu sé í samræmi við nefnt lagaákvæði. Þá kemur skýrt fram í nefndri 1. mgr. 19. gr. laganna að skýrsla sem birt skuli á heimasíðu Umhverfisstofnunar sé sú skýrsla sem rekstraraðili skilar inn á áðurnefndu formi. Var stofnuninni því rétt að hafna beiðni kæranda um heimild til að skila inn tveimur skýrslum í stað einnar.

Samkvæmt því sem að framan greinir bar kæranda að skila til Umhverfisstofnunar skýrslu með upplýsingum um þann úrgang sem meðhöndlaður var af honum á undangengnu almanaksári fyrir 1. maí 2015, en það var ekki gert. Í 2. mgr., sbr. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 55/2003 er kveðið á um heimild Umhverfisstofnunar til að veita aðila áminningu til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum og skal jafnframt veita hæfilegan frest til úrbóta. Með bréfi, dags. 12. júní 2015, voru kæranda kynnt áform um áminningu vegna vanskila á umræddum upplýsingum og gefinn frestur til 26. s.m. til að bæta úr eða koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ákvörðun um áminningu var tekin 13. ágúst s.á. Telja verður að með þessu hafi verið gætt andmælaréttar kæranda og hann fengið rúman tíma til úrbóta áður en gripið var til þvingunarúrræða samkvæmt greindu lagaákvæði.

Að öllu framangreindu virtu þykja hinar kærðu ákvarðanir ekki haldnar neinum þeim annmörkum sem raskað geta gildi þeirra og verður kröfu um ógildingu þeirra af þeim sökum hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar sem tilkynnt var með bréfi, dags. 13. ágúst 2015, um að veita kæranda áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs. Jafnframt er hafnað kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar Umhverfisstofnunar að hafna beiðni kæranda um heimild til að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs, annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. 

_______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir

100/2015 Hringrás

Með

Árið 2016, miðvikudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 100/2015, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 3. nóvember 2015 um álagningu dagsekta á Hringrás hf. frá og með 11. sama mánaðar vegna vanskila á magntölum úrgangs.

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. nóvember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hringrás hf., Klettagörðum 9, Reykjavík, ákvörðun Umhverfisstofnunar um að leggja dagsektir á fyrirtækið vegna vanskila á magntölum úrgangs.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar og var fallist á þá kröfu með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 26. nóvember 2015.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 13. og 18. nóvember 2015 og 9. mars 2016.

Málavextir: Kærandi rekur endurvinnslu brotajárns og móttöku spilliefna hérlendis og hefur til þess starfsleyfi frá Umhverfisstofnun á grundvelli laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laganna skulu rekstraraðilar fyrir 1. maí ár hvert skila til Umhverfisstofnunar skýrslu um þann úrgang sem meðhöndlaður var á undangengnu almanaksári. Skal skýrslan innihalda upplýsingar um tegund og magn úrgangs, og um uppruna og ráðstöfun hverrar tegundar. Skýrslan skal vera á því formi sem Umhverfisstofnun leggur til og vera aðgengileg á heimasíðu stofnunarinnar.

Kærandi afhenti ekki umrædda skýrslu á tilsettum tíma og með bréfi, dags. 12. júní 2015, tilkynnti Umhverfisstofnun honum um áform um áminningu vegna vanskila á magntölum úrgangs. Var honum veittur frestur til 26. s.m. til að bæta úr, með afhendingu upplýsinganna, eða til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Kærandi tjáði Umhverfisstofnun með bréfi, dags. 25. júní 2015, að hann teldi að birting umræddrar skýrslu myndi raska viðskiptahagsmunum sínum og valda sér tjóni. Var kæranda veitt áminning vegna vanskila á magntölum úrgangs með bréfi, dags. 13. ágúst 2015, og frestur veittur til úrbóta til og með 4. september s.á.

Í kjölfar frekari samskipti kæranda og Umhverfisstofnunar óskaði kærandi eftir því með bréfi, dags. 2. september 2015, að fá að skila inn tveimur skýrslum til Umhverfisstofnunar. Önnur skýrslan átti að vera á því formi sem stofnunin hafði þegar lagt til en hin átti að geyma samandregnar upplýsingar um magntölur úrgangs og vera til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 9. s.m., var beiðni kæranda hafnað. Kærandi kærði framangreindar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar og krafðist jafnframt frestunar réttaráhrifa þeirra. Þeirri kröfu kæranda var hafnað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 29. október 2015.

Með bréfi, dags. 11. september 2015, barst kæranda tilkynning frá Umhverfisstofnun þar sem boðuð voru áform stofnunarinnar um að leggja dagsektir á kæranda vegna vanskila á magntölum úrgangs sem honum bæri að skila. Með tölvupósti 3. nóvember s.á. ítrekaði kærandi þá afstöðu sína að hann væri fús til að skila nefndum magntölum til Umhverfisstofnunar, svo framarlega sem ekki yrðu birt persónugreinanleg gögn á heimasíðu hennar. Með bréfi stofnunarinnar, dags. sama dag, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun hennar að leggja á hann dagsektir vegna vanskila á magntölum úrgangs að fjárhæð 10.000 krónur á dag. Dagsektirnar voru lagðar á „frá og með 11. nóvember 2015 og þar til staðfesting á fullnægjandi úrbótum hefur borist stofnuninni“. Hefur þessi ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, en eins og áður greinir var fallist á beiðni kæranda um frestun réttaráhrifa hennar með úrskurði uppkveðnum 26. nóvember 2015.

Málsrök kæranda: Kærandi telur mikla hagsmuni í húfi fyrir sig verði þær upplýsingar sem Umhverfisstofnun óski eftir gerðar opinberar á því formi sem stofnunin leggi til. Í umræddum skýrslum sé að finna viðkvæmar viðskiptaupplýsingar, sér í lagi hjá kæranda vegna rekstrarforms, sem geti skaðað samkeppnisstöðu hans. Kærandi hafi nýtt sér lögbundinn rétt sinn til að bera ákvarðanir Umhverfisstofnunar undir úrskurðarnefndina og sú ákvörðun stofnunarinnar að leggja á kæranda dagsektir áður en niðurstaða sé fengin í því máli dragi úr lögbundnum og stjórnarskrárvörðum rétti hans til endurskoðunar stjórnvaldsákvarðana er hann varði.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun fer fram á að kröfum kæranda verði hafnað. Samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs hvíli sú skylda á rekstraraðilum að skila viðkomandi skýrslum fyrir 1. maí ár hvert. Jafnframt hvíli skylda á Umhverfisstofnun að taka við þeim og gera þær aðgengilegar á heimasíðu sinni. Loks fari fram mikil úrvinnsla upplýsinga úr skýrslunum og Umhverfisstofnun hafi þá skyldu að safna viðkomandi tölfræðiupplýsingum og senda áfram samkvæmt skyldum Íslands gagnvart samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði og loftslagssamningi Sameinuðu þjóðanna, þ.e. til Hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat) og skrifstofu loftslagssamningsins. Um sé að ræða u.þ.b. 10 skýrslur árlega með þremur skiladögum. Mikilvægt sé að Umhverfisstofnun standi skil á skýrslunum á réttum tíma og því áríðandi að rekstraraðilar standi skil á sínum upplýsingum samkvæmt framangreindu. Frekari töf á því en þegar sé orðin myndi leiða til þess að forsendur upplýsingagjafar stofnunarinnar yrðu ófullnægjandi og því sé nauðsynlegt að hún fái nefndar upplýsingar hið fyrsta. Skili Umhverfisstofnun ekki tölfræðiupplýsingunum til framangreindra aðila gildi almennar reglur um brot á skyldum Íslands samkvæmt EES-samningnum og þjóðréttarlegum skyldum.

Umhverfisstofnun hafi gætt meðalhófs í málinu og færð hafi verið fram skýr rök fyrir kröfum stofnunarinnar. Kærandi hafi fengið eðlilega fresti og hafi fundað með stofnuninni um málið. Kærandi hafi verið áminntur og stofnunin geti ekki látið hjá líða að framfylgja lagaskyldu í nafni meðalhófs. Dagsektir séu þvingunarúrræði og geti ákvörðun um dagsektir eðli málsins samkvæmt verið íþyngjandi fyrir rekstraraðila. Dagsektir séu úrræði stjórnvalda til að breyta háttsemi rekstraraðila til framtíðar þannig að stjórnvaldið geti uppfyllt skyldu sína samkvæmt lögum og reglugerðum og gagnvart öðrum stjórnvöldum, öðrum rekstraraðilum og almenningi, til að tryggja það að rekstraraðilar starfi í samræmi við þær réttarheimildir sem um starfsemi þeirra gildi.

Niðurstaða: Ágreiningur í máli þessu snýst um þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að ákveða  kæranda dagsektir að fjárhæð 10.000 krónur á dag frá og með 11. nóvember 2015 og þar til staðfesting á fullnægjandi úrbótum hafi borist stofnuninni.

Ákvörðun um dagsektir er sprottin af vanrækslu kæranda á skyldu skv. 19. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt ákvæðinu skulu rekstraraðilar skila til Umhverfisstofnunar fyrir 1. maí ár hvert skýrslu um þann úrgang sem meðhöndlaður var á undangengnu almanaksári. Skal skýrslan innihalda upplýsingar um tegundir úrgangsins og magn, uppruna og ráðstöfun hverrar tegundar. Segir einnig að skýrslan skuli vera á því formi sem Umhverfisstofnun leggi til. Í 6. málsl. 1. mgr. 19. gr. segir loks að skýrslurnar skuli gerðar aðgengilegar á heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Samkvæmt 3. mgr. 66. gr. laga nr. 55/2003 hefur Umhverfistofnun heimild til að leggja á aðila dagsektir hafi hann ekki orðið við tilmælum um úrbætur innan tiltekins frests, samkvæmt heimild 2. mgr. 66. gr. til veitingar áminningar.

Áður hafði Umhverfisstofnun veitt kæranda áminningu og frest til úrbóta samkvæmt 2. mgr. 66. gr. laga nr. 55/2003 og var sú ákvörðun kærð til úrskurðarnefndarinnar ásamt þeirri ákvörðun stofnunarinnar að hafna beiðni kæranda um heimild til að skila inn tveimur skýrslum um magntölur úrgangs. Annars vegar ítarlegri skýrslu til tölfræðiútreiknings og hins vegar samandreginni skýrslu til birtingar á heimasíðu stofnunarinnar. Með úrskurði í máli nr. 76/2015, sem kveðinn var upp fyrr í dag, komst nefndin að þeirri niðurstöðu að hafna kröfu kæranda um ógildingu framangreindra ákvarðana. Byggðist sú niðurstaða á því að kærandi hefði ekki staðið skil á skýrslu samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/2003 og hefði Umhverfisstofnun verið rétt að veita honum áminningu og jafnframt að neita að taka við skýrslum á öðru formi en því sem stofnunin hefði ákveðið.

Í samræmi við framangreinda niðurstöðu var Umhverfisstofnun rétt að leggja á kæranda dagsektir til að knýja á um skil hans á skýrslu samkvæmt 19. gr. laga nr. 55/2003 og er því kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Eins og áður hefur komið fram var lögð fram kæra í málinu 6. nóvember 2015 og ákvað úrskurðarnefndin með bráðabirgðaúrskurði að fresta réttaráhrifum ákvörðunarinnar á meðan að málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Dagsektir falla því ekki á fyrr en eftir  uppkvaðningu úrskurðar þessa.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar Umhverfisstofnunar frá 3. nóvember 2015 um álagningu dagsekta á kæranda frá og með 11. sama mánaðar vegna vanskila á magntölum úrgangs.

_______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                                            Ómar Stefánsson                                                Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     

74/2015 Ísfélag Vestmannaeyja

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2015, kæra á ákvörðunum Umhverfisstofnunar frá 12. ágúst 2015 um álagningu dagsekta á Ísfélag Vestmannaeyja frá og með 17. ágúst 2015 og þar til staðfesting á fullnægjandi úrbótum hefur borist stofnuninni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. september 2015, er barst nefndinni 9. s.m., kærir Ísfélag Vestmannaeyja hf., Strandvegi 26, Vestmannaeyjum, ákvarðanir Umhverfisstofnunar frá 12. ágúst 2015, um álagningu dagsekta vegna brennslu úrgangsolíu á starfsstöðvum félagsins á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Kærandi krefst þess að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Þá krefst hann þess að kveðinn verði upp úrskurður um frestun réttaráhrifa á meðan kæran er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með bráðabirgðaúrskurði, dags. 15. október 2015, var fallist á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvarðana.
 
Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 21. september og 12. október 2015.

Málavextir: Kærandi er útgerðarfyrirtæki og rekur m.a. fiskimjölsverksmiðju á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Í þeirri starfsemi notar kærandi olíublöndu sem búin er til úr svartolíu og notaðri olíu sem hefur verið hreinsuð og síuð. Umhverfisstofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 13. mars 2013, að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang og að til þess að heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, auk þess að sækja um nýtt starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun. Með bréfi, dags. 10. maí 2013, tilkynnti Umhverfisstofnun kæranda að þar sem ekki hefði borist staðfesting á því að brennslu úrgangsolíu hefði verið hætt eða áætlun um hvernig ákvæði reglugerðar nr. 739/2003 skyldu uppfyllt, áformaði stofnunin að áminna kæranda skv. 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eftir nokkur samskipti kæranda og stofnunarinnar veitti stofnunin kæranda áminningu með bréfi, dags. 13. janúar 2014, og var þar gefinn frestur til úrbóta til og með 28. janúar. Kærandi kærði þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 10/2014.

Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar hinn 20. júní 2014 var skráð frávik vegna brennslu úrgangsolíu á starfsstöð kæranda í Vestmannaeyjum. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 28. júlí s.á., var vísað til fyrra bréfs hennar frá 2. október 2012 um að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang. Til þess að heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, þar sem segði að einungis sé heimilt að brenna úrgangsolíu í starfsstöðvum sem hafi starfsleyfi sem uppfylli kröfur reglugerðarinnar um sambrennslu. Ljóst væri að kærandi hefði ekki slíkt starfsleyfi. Vísaði Umhverfisstofnun til þess að þá þegar hefði kæranda verið veitt áminning fyrir brennslu úrgangsolíu á starfsstöð sinni á Þórshöfn. Þar sem kærandi brenndi nú úrgangsolíu á starfsstöð sinni í Vestmannaeyjum og hefði ekki farið að tilmælum Umhverfisstofnunar varðandi brennslu úrgangsolíu áformaði stofnunin að veita kæranda áminningu skv. 26. gr. laga nr. 7/1998 vegna starfsstöðvar hans í Vestmannaeyjum. Veitti stofnunin kæranda áminningu með bréfi, dags. 8. desember 2014, og var þar gefinn frestur til úrbóta til og með 22. desember s.á. Kærandi kærði einnig þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar og er kærumálið nr. 4/2015.

Með bréfum, dags. 5. maí 2015, tilkynnti Umhverfisstofnun kæranda að hún fyrirhugaði að leggja á hann dagsektir vegna brennslu úrgangsolíu í starfsstöðvum félagsins í Vestmannaeyjum og á Þórshöfn. Með bréfi, dags. 5. júní s.á., mótmælti kærandi fyrirhugaðri álagningu dagsekta. Með tveimur ákvörðunum Umhverfisstofnunar frá 12. ágúst 2015 voru kæranda gerðar dagsektir vegna ofangreindar háttsemi að fjárhæð 25.000 krónur vegna hvorrar starfsstöðvar, þ.e. samtals 50.000 krónur á dag. Dagsektirnar lögðust á „frá og með 17. ágúst 2015 og þar til staðfesting á fullnægjandi úrbótum hefur borist stofnuninni“. Hafa þær ákvarðanir einnig verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst vísa til allra málsraka sem fram komi af hans hálfu í kærumálum nr. 10/2014 og 4/2015 fyrir úrskurðarnefndinni. Komist nefndin að því að ákvarðanir um áminningar skuli ógilda í nefndum málum bresti forsendur fyrir dagsektum.

Umhverfisstofnun hafi aldrei veitt kæranda nein fyrirmæli eða leiðbeiningar um það hvers kyns úrbætur teljist fullnægjandi til þess að brennsla meintrar úrgangsolíu sé lögmæt, þ.e. hvaða efnisinnihald endurunninnar olíu sé lagalega fullnægjandi. Einvörðungu sé tiltekið í ákvörðunum stofnunarinnar að úrbætur séu fólgnar í því að brennslu sé hætt á verksmiðjuolíunni, sem Umhverfisstofnun hafi ákveðið að sé úrgangsolía. Uppfylli þessi meðferð málsins ekki þær kröfur sem gera verði til lögbundinna takmarkana á athafnafrelsi einstaklinga og lögaðila sem njóti verndar eignaréttar- og atvinnufrelsisákvæða stjórnarskrárinnar, auk krafna stjórnsýsluréttarins um rannsókn og meðalhóf, sbr. 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Geti það ekki verið í samræmi við umhverfisverndarsjónarmið, sem búi að baki þeirri löggjöf sem hér sé til skoðunar, þ. á m. um sóun verðmæta, að stofnun ákveði án frekari rökstuðnings að tiltekin olía sé úrgangsolía og því megi aldrei nýta hana eða endurvinna frekar, burtséð frá efnisinnihaldi hennar eða hugsanlegri frekari hreinsun. Umhverfisstofnun hafi ekki bent á eða gert grein fyrir hvernig umrætt hreinsunarferli skuli vera þannig að áskilnaði laga teljist fullnægt. Brjóti það gegn kröfum um skýrleika stjórnvaldsákvarðana og réttaröryggissjónarmiðum er um opinbera stjórnsýslu gildi.

Reglugerð um endurnýtingu úrgangs sé í smíðum í umhverfis- og auðlindaráðuneyti, sbr. lög nr. 63/2014 sem breytt hafi lögum nr. 55/2003 um meðferð úrgangs. Liggi því ekki enn fyrir sértækar viðmiðanir um það hvaða hreinsunarferli olía þurfi að ganga í gegnum til að uppfylla skilyrði 21. gr. laganna um lok úrgangsfasa. Af þeim sökum sé ókleift að álykta sem svo að notkun kæranda á verksmiðjuolíu sé í andstöðu við lög.

Jafnvel þótt úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að brennsla umræddrar olíu á starfsstöðvum kæranda á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum sé ekki lögum samkvæm séu ákvarðanir um dagsektir samt sem áður ólögmætar þar sem aldrei hafi legið fyrir í hverju þær úrbætur sem Umhverfisstofnun hafi krafist af kæranda ættu að felast. Auk þess sé sú löggjöf sem lúti að brennslu olíunnar afar óræð og því eðlilega lagalegur vafi uppi í málinu, sbr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Mótmælt er þeirri staðhæfingu kæranda að Umhverfisstofnun hafi ekki veitt honum fyrirmæli eða leiðbeiningar um fullnægjandi úrbætur í málinu. Krafa um úrbætur hafi verið skýrt framsett í bréfum málsins við ákvarðanir um áminningar og áformum um dagsektir. Úrbætur hafi verið fólgnar í því að brennslu verksmiðjuolíu, sem stofnunin hefði ákveðið að væri úrgangsolía, yrði hætt. Jafnframt hafi kæranda verið leiðbeint um það að til að brenna nefnda olíu löglega þyrfti hann að sækja um sambrennsluleyfi til að viðhafðar væru fullnægjandi mengunarvarnir.

Kærandi virðist vaða í villu varðandi samningu reglugerða í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Sú reglugerð sem Umhverfisstofnun sé kunnugt um að sé í vinnslu sé reglugerð um endurnýtingu úrgangs en ekki um setningu viðmiða um lok úrgangsfasa fyrir olíuúrgang.

Umhverfisstofnun fari því fram á að öllum kröfum kæranda verði hafnað og ákvarðanir stofnunarinnar um álagningu dagsekta staðfestar. Kærandi hafi fengið góðan tíma til að verða við kröfum um stöðvun á brennslu úrgangsolíu hafi hann ekki sambrennsluleyfi. Ekki sé réttlætanlegt að kærandi geti verið lengur með áminningar án þess að stofnunin grípi til frekari aðgerða.

Niðurstaða: Ágreiningur í máli þessu snýst um þær ákvarðanir Umhverfisstofnunar að gera kæranda að greiða dagsektir vegna brennslu á úrgangsolíu á starfsstöðvum hans á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum, frá og með 17. ágúst 2015 og þar til úr hefur verið bætt. Eru dagsektirnar að fjárhæð 25.000 krónur á dag fyrir hvora starfsstöð, alls 50.000 krónur á dag.

Ákvarðanir um dagsektir eru sprottnar af brennslu kæranda á olíuafurð sem kæranda og Umhverfisstofnun greinir á um hvort standist ákvæði reglugerða nr. 809/1999 um olíuúrgang, sbr. reglugerð nr. 673/2011, og nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, sbr. reglugerð nr. 294/2012, sem settar eru með heimild í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 7/1998, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna, getur Umhverfisstofnun beitt nánar tilteknum þvingunarúrræðum til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum. Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laganna hefur Umhverfisstofnun heimild til álagningar dagsekta þar til úr er bætt, þegar aðili sinnir ekki fyrirmælum innan tiltekins frests.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu tilkynnti Umhverfisstofnun kæranda með bréfum, dags. 5. maí 2015, áform um álagningu dagsekta yrði hann ekki við kröfum um úrbætur. Þar kemur fram að Umhverfisstofnun telji úrbætur felast í því að brennslu olíunnar verði hætt. Jafnframt segir að áætlað sé að leggja dagsektirnar á frá og með 27. s.m. Var kæranda gefinn frestur til 20. s.m. til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Hinar kærðu ákvarðanir eru frá 12. ágúst s.á. Telja verður að með þessu hafi verið gætt andmælaréttar kæranda og hann fengið rúman frest til að bregðast við fyrirmælum Umhverfisstofnunar um úrbætur áður en gripið var til hinna kærðu þvingunarúrræða.

Eins og áður kom fram hefur kærandi rekið kærumál fyrir nefndinni vegna áminninga sem honum voru veittar af Umhverfisstofnun vegna brennslu úrgangsolíu með ákvörðunum frá 13. janúar 2014, vegna starfsstöðvar á Þórshöfn, og 8. desember s.á., vegna starfsstöðvar í Vestmannaeyjum. Með úrskurðum í málum nr. 10/2014 og nr. 4/2015, uppkveðnum fyrr í dag, ógilti nefndin framangreindar ákvarðanir. Eiga ákvarðanir Umhverfisstofnunar um að leggja á kæranda dagsektir sér því ekki lengur stoð og verður því að fella þær úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir Umhverfisstofnunar frá 12. ágúst 2015 um álagningu dagsekta frá og með 17. ágúst 2015 og þar til staðfesting á fullnægjandi úrbótum hefur borist stofnuninni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                                              Ómar Stefánsson                                               Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    

______________________________              _____________________________
             Geir Oddsson                                                   Þorsteinn Sæmundsson

4/2015 Ísfélag Vestmannaeyja

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2015, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja – Vestmannaeyjum áminningu og krefja það um úrbætur, en ákvörðunin var birt með bréfi, dags. 8. desember 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Ísfélag Vestmannaeyja hf., Strandvegi 26, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að veita Ísfélagi Vestamannaeyja hf. – Vestmannaeyjum áminningu. Áminningin var birt kæranda með bréfi, dags. 8. desember 2014, og var þar veittur frestur til úrbóta til og með 22. desember s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 25. febrúar 2015.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 20. febrúar og 6. mars 2015.

Málavextir: Kærandi er útgerðarfyrirtæki og rekur m.a. fiskimjölsverksmiðju á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Í þeirri starfsemi notar kærandi olíublöndu sem búin er til úr svartolíu og notaðri olíu sem hefur verið hreinsuð og síuð. Umhverfisstofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 13. mars 2013, að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999 um olíuúrgang og að til þess að heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, auk þess að sækja um nýtt starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun fyrir sambrennslu samkvæmt þeirri reglugerð. Kæranda var veitt áminning vegna brennslu olíunnar á starfsstöð sinni á Þórshöfn með ákvörðun Umhverfisstofnunar, dags. 13. janúar 2014, og hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar. Er það kærumál nr. 10/2014.

Við reglubundið eftirlit Umhverfisstofnunar hinn 20. júní 2014 var skráð frávik vegna brennslu úrgangsolíu á starfsstöð kæranda í Vestmannaeyjum. Með bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 28. júlí s.á., var vísað til fyrra bréfs hennar um að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð nr. 809/1999. Til þess að heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003, þar sem segði að einungis væri heimilt að brenna úrgangsolíu í starfsstöðvum sem hafi starfsleyfi sem uppfylli kröfur reglugerðarinnar um sambrennslu. Ljóst væri að kærandi hefði ekki slíkt starfsleyfi. Vísaði Umhverfisstofnun til þess að þá þegar hefði kæranda verið veitt áminning fyrir brennslu úrgangsolíu á starfsstöð sinni á Þórshöfn. Þar sem kærandi brenndi nú úrgangsolíu á starfsstöð sinni í Vestmannaeyjum og hefði ekki farið að tilmælum Umhverfisstofnunar varðandi brennslu úrgangsolíu áformaði stofnunin að veita kæranda áminningu skv. 26. gr. laga nr. 7/1998 vegna starfsstöðvar hans í Vestmannaeyjum. Veitti stofnunin kæranda áminningu með bréfi, dags. 8. desember 2014, og var þar gefinn frestur til úrbóta til og með 22. desember s.á. Kærandi hefur kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður segir.

Málsrök kæranda: Auk eftirfarandi málsraka vísar kærandi til rökstuðnings síns í máli nr. 10/2014 varðandi rök um formgalla og efnislega annmarka á ákvörðun Umhverfisstofnunar er leiða skuli til ógildingar hennar í máli þessu.

Fullnægjandi lagastoð hafi skort til áminningar Umhverfisstofnunar. Hvorki eigi sér stoð í lögum né reglugerðum sú afstaða stofnunarinnar, að hreinsunarferli það sem nú sé framkvæmt hjá framleiðanda sé ekki í samræmi við kröfur samkvæmt reglugerð um olíuúrgang nr. 809/1999, sbr. breytingarreglugerð nr. 673/2011. Reglugerð nr. 673/2011, um breytingu á reglugerð nr. 809/1999, hafi verið sett til innleiðingar á tilskipunum nr. 75/439/EBE og 87/101/EBE, sem þá þegar hafi verið felldar úr gildi og leystar af hólmi með tilskipun nr. 2008/98/EB um úrgang. Það hafi áhrif á gildi tilskipananna sem réttarheimilda og þar af leiðandi mat á gildi reglugerðar um olíuúrgang nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011.

Sú efnislega breyting hafi orðið á málinu frá fyrri kæru kæranda í kærumáli nr. 10/2014 að tilskipun nr. 2008/98/EB hafi verið innleidd á Íslandi með lögum nr. 63/2014, um breytingu á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Vegna tafa á innleiðingu tilskipunarinnar hafi EFTA-dómstóllinn komist að því í máli nr. E-5/2014 að Ísland hefði brotið gegn samningsskuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum.

Umhverfisstofnun haldi því fram að dómur EFTA-dómstólsins nái ekki til setningar reglugerðar um lok úrgangsfasa á Íslandi um sértæk viðmið fyrir tiltekna úrgangsflokka en þeim skilningi sé mótmælt. Samkvæmt dómsorði hafi verið komist að því að Ísland hafi gerst brotlegt með því að innleiða ekki nauðsynlegar ráðstafanir (e. necessary measures), án tillits til þess hvort þær fælu í sér setningu laga eða reglugerða. Því sé ekki hægt að undanskilja einstaka reglugerð sem sannanlega eigi undir tilskipun nr. 98/2008/EB. Sú afstaða eigi sér hvorki stoð í EES-rétti né íslenskum rétti.

Samningsbrot íslenska ríkisins sé því yfirstandandi, ekki síst í ljósi þess að nauðsynlegar reglugerðir, sem kunni að hafa bein áhrif á réttarstöðu kæranda, hafi ekki verið settar. Í 1. mgr. 21. gr. laga nr. 55/2003 segi að sérstakur úrgangur af tilteknu tagi hætti að vera úrgangur þegar hann hafi farið í gegnum endurnýtingaraðgerð, m.a. endurvinnslu, og uppfylli þær sértæku viðmiðanir sem ráðherra setji í reglugerð um lok úrgangsfasa. Þetta hafi ekki verið gert og því gildi engar viðmiðanir hér á landi um lok úrgangsfasa vegna endurunninnar olíu. Kærandi hafi allt frá upphafi óskað eftir því að viðmiðanir yrðu settar af hálfu Umhverfisstofnunar en stofnunin hafi ekki talið sig vera bæra til þess, þrátt fyrir að henni beri skylda að lögum til að sýna frumkvæði í þeim efnum.

Staðfest hafi verið af hálfu umhverfis- og auðlindaráðuneytis að unnið sé að setningu reglugerðar samkvæmt áðurnefndri 21. gr. laga nr. 55/2003, sem koma muni í stað reglugerðar nr. 809/1999, enda byggi hún á brottföllnum réttarheimildum. Það lagaumhverfi sem kæranda beri að starfa eftir sé því í besta falli óskýrt, ekki síst vegna áðurnefndra brota íslenska ríkisins á samningsskuldbindingum sínum samkvæmt EES-samningnum. Af almennum reglum íslensks stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar og meginreglum EES-réttar, þ.m.t. lögmætisreglunni og reglunni um meðalhóf, leiði að ekki beri að taka íþyngjandi stjórnvaldsákvörðun þegar grundvöllur ákvörðunarinnar sé jafn óskýr og í máli þessu.

Umhverfisstofnun hafi byggt á því að sú olía sem brennd sé hjá kæranda hafi ekki gengið í gegnum það hreinsunarferli sem tilgreint sé í reglugerð nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011. Kærandi hafi í því sambandi bent á að ekki sé kveðið á um sérstakt hreinsunarferli í umræddri reglugerð og hafi ekki fengist nánari leiðbeiningar frá Umhverfisstofnun þess efnis, þrátt fyrir ítrekuð tilmæli kæranda þar um.

Kærandi brenni endurunna olíu, þ.e. olíublöndu sem hafi verið hreinsuð í birgðastöð framleiðanda. Varan sem kærandi kaupi samanstandi af svartolíu A380 og hinni hreinsuðu verksmiðjuolíu en þessum tveimur olíum sé blandað saman í hlutföllunum 60 af svartolíu á móti 40 af verksmiðjuolíu. Umhverfisstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu að brennsla nefndrar endurunninnar olíu sé ólögmæt þar sem hluti hennar sé síuð og hreinsuð úrgangsolía. Hreinsunarferlið hafi verið útlistað á nákvæman hátt fyrir stofnuninni og hún hafi ekki getað bent á hvaða hluti ferlisins uppfylli ekki áskilnað stofnunarinnar um hreinsunarferli. Ótækt sé að beitt sé íþyngjandi viðurlögum í ljósi þess að ekki séu til nein viðmið í lögum eða reglugerðum um það hreinsunarferli sem Umhverfisstofnun telji nauðsynlegt. Allan vafa þessa efnis beri að meta kæranda í hag, sérstaklega að teknu tilliti til þess að ekki hafi verið hnekkt þeim niðurstöðum framleiðanda að 86% fastra efna séu fjarlægð úr olíunni í hreinsunarferli fyrirtækisins. Um það vísist til skýrslu framleiðandans frá febrúar 2014.

Í bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 31. október 2014, hafi því m.a. verið haldið fram að einungis Stóra-Bretland hefði sett sér viðmið um lok úrgangsfasa fyrir úrgangsolíu. Hið rétta sé að bæði í Danmörku og Þýskalandi hafi verið sett slík viðmið. Í 6. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, felist m.a. að á stjórnvöldum hvíli sérstök skylda að rannsaka nánar stjórnsýsluframkvæmd í öðrum aðildarríkjum ESB eða EES þegar bent hafi verið á að framkvæmd sé þar háttað á annan veg. Þetta sé mikilvægt vegna kröfu EES-réttar um einsleitni á hinum sameiginlega innri markaði. Af málsrökum Umhverfisstofnunar sé ljóst að stofnunin hafi ekki kannað framangreinda framkvæmd með fullnægjandi hætti og muni stjórnsýsla hennar leiða til þess að lögaðilar hér á landi muni búa við lakari aðstöðu en sambærilegir aðilar á hinum innri markaði. Slík mismunun kunni að leiða til bótaskyldu íslenska ríkisins.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að kærandi hafi fengið góðan tíma til að bregðast við á öllum stigum málsins. Hann hafi hvorki orðið við kröfum stofnunarinnar um að hætta að brenna umræddan olíuúrgang né viljað staðfesta að hann muni hætta að brenna úrganginn. Kærandi hafi ekki orðið við kröfum um að sækja um sambrennsluleyfi hjá Umhverfisstofnun til að geta brennt úrganginn með löglegum hætti.

Brennsla þeirrar olíu sem um sé deilt sé óheimil án sambrennsluleyfis, sbr. reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, þar sem um sé að ræða olíuúrgang samkvæmt reglugerð nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011. Í maí 2014 hafi lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs verið breytt með lögum nr. 63/2014. Með þeim hafi tilskipun Evrópusambandsins nr. 2008/98/EB verið innleidd í íslenskan rétt, m.a. ákvæði um lok úrgangsfasa, sem séu nú í 21. gr. laganna. Þar segi í 1. mgr. að sérstakur úrgangur af tilteknu tagi hætti að vera úrgangur þegar hann hafi farið í gegnum endurnýtingaraðgerð, m.a. endurvinnslu, og uppfylli þær sértæku viðmiðanir sem ráðherra setji í reglugerð um lok úrgangsfasa. Í 3. mgr. segi að ráðherra sé heimilt að setja slík viðmið í reglugerð.

Á ríkjum innan Evrópska efnahagssvæðisins hvíli skylda til að innleiða viðmið sem sett hafi verið í reglugerðir af Evrópusambandinu og gilda eigi á öllu EES-svæðinu en á meðan það hafi ekki verið gert sé það valkvætt fyrir hvert ríki. Hvorki hafi verið gefin út slík viðmið fyrir olíuúrgang hjá Evrópusambandinu né á Íslandi. Þó að slík viðmið hafi verið sett í Bretlandi, Þýskalandi og Danmörku sé það ekki bindandi fyrir Ísland. Þótt Ísland hafi verið of lengi að innleiða tilskipun nr. 2008/98/EB, sbr. dóm EFTA-dómstólsins í máli E-5/2014, þá geti niðurstaða dómsins ekki náð til reglna sem ekki sé skylda að innleiða. Varðandi fullyrðingar um frumkvæðisskyldu Umhverfisstofnunar til setningar reglugerða þá sé það umhverfis- og auðlindaráðuneyti sem setji reglugerðir í umræddum málaflokki.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um heimild kæranda til brennslu olíuafurðar sem kæranda og Umhverfisstofnun greinir á um hvort standist ákvæði reglugerðar um olíuúrgang nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011, og reglugerðar um brennslu úrgangs nr. 739/2003, sbr. reglugerð nr. 294/2012, sem settar eru með heimild í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hefur Umhverfisstofnun veitt kæranda áminningu vegna brennslu á úrgangsolíu á starfsstöð hans í Vestmannaeyjum, en kærandi heldur því fram að ekki sé um úrgangsolíu að ræða.

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 7/1998 kemur fram að Umhverfisstofnun annist eftirlit með framkvæmd laganna og sé stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni er undir lögin falli. Í 3. mgr. sömu greinar segir að stofnunin fari því aðeins með beint eftirlit að lög mæli svo fyrir eða ráðherra ákveði það með reglugerð að höfðu samráði við stofnunina þegar um landið allt er að ræða. Í málinu er tekist á um framkvæmd sem deilt er um hvort standist áðurnefndar reglugerðir, sem settar eru með heimild í 5. gr. laganna. Í 4. gr. reglugerðar nr. 809/1999 um olíuúrgang kemur fram að heilbrigðisnefndum undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins og Hollustuvernd ríkisins beri að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt. Umhverfisstofnun hefur tekið við hlutverki Hollustuverndar ríkisins, sbr. lög nr. 90/2002 um Umhverfisstofnun. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs segir að Umhverfisstofnun annist eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar. Af framangreindu er ljóst að stofnunin fer með beint eftirlit með framkvæmd þeirri sem um er deilt í málinu í samræmi við áðurnefnda 18. gr. laga nr. 7/1998. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laganna fer um valdsvið og þvingunarúrræði stofnunarinnar í samræmi við VI. kafla laganna og skv. 1. mgr. 26. gr. er veiting áminningar eitt þeirra þvingunarúrræða sem stofnuninni er heimilt að beita til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum. Umhverfisstofnun var því bær að lögum til að taka hina kærðu ákvörðun.

Forveri úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefur fjallað um þá olíu sem hér er um deilt. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kvað upp úrskurð 10. nóvember 2011 í kærumáli nr. 12/2011 þar sem felld var úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar um að verksmiðjuolía félli í flokk úrgangsolíu og að um brennslu hennar færi samkvæmt ákvæðum um sambrennslu í reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs. Byggðist sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar á því að framleiðsla olíunnar fæli í sér aðgerð til að hreinsa úrgang svo hann eða hluti hans kæmist í svipað eða sama form og hann hefði verið í upphaflega. Væri þar með um endurmyndun að ræða samkvæmt skilgreiningu þágildandi 4. málsl. 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 809/1999 um olíuúrgang og jafnframt að verksmiðjuolían sem yrði til við endurmyndunina væri grunnolía, sbr. þágildandi 5. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Með reglugerð nr. 673/2011 var áðurgreindum skilgreiningum í reglugerð nr. 809/1999 breytt. Grunnolía er nú skilgreind sem jarðefnaolía og/eða unnin olía, synþetísk, sem notuð er sem grunnþáttur fyrir margvíslegar olíuvörur, svo sem smurolíur, vélarolíur, iðnaðarolíur, gírolíur og feiti, sbr. 5. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Þá er endurmyndun skilgreind sem aðgerð til að framleiða grunnolíu með hreinsun á olíuúrgangi, einkum með því að fjarlægja úr henni óhreinindi, oxaðar afurðir og íblöndunarefni, sbr. 3. málsl. 6. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Eins og fram hefur komið byggir Umhverfisstofnun ákvörðun sína um áminningu á því að olían sem kærandi brennir á starfsstöð sinni sé í raun olíuúrgangur samkvæmt reglugerðinni.

Í lögum nr. 55/2003 er fjallað um meðhöndlun úrgangs. Með breytingu á lögunum, sbr. lög nr. 63/2014, komu inn í 21. gr. laganna ákvæði um lok úrgangsfasa, en þar er innleidd 6. gr. tilskipunar nr. 2008/98/EB. Í 1. mgr. nefndrar 21. gr. segir að sérstakur úrgangur af tilteknu tagi hætti að vera úrgangur þegar hann hafi farið í gegnum endurnýtingaraðgerð, m.a. endurvinnslu, og uppfylli þær sértæku viðmiðanir sem ráðherra setji í reglugerð um lok úrgangsfasa, sbr. 43. gr., í samræmi við tiltekin almenn skilyrði. Slík reglugerð hafði ekki verið sett og verður ekki ráðið af framangreindu efni 21. gr. laga nr. 55/2003 einu og sér hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að olíuúrgangur hætti að vera úrgangur. Hvað sem því líður verður ekki hjá því litið að í gildi eru reglugerðir nr. 809/1999 um olíuúrgang og nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, báðar með síðari breytingum. Eins og áður greinir er í hinni fyrrnefndu að finna skilgreiningar á hugtökunum grunnolía og endurmyndun auk þess sem olíuúrgangur er þar skilgreindur í 10. mgr. 3. gr. sem hvers konar smurnings- og iðnaðarolíur sem orðið hafi óhæfar til þeirrar notkunar sem þær voru upphaflega ætlaðar sem og að olíuúrgangur sé spilliefni. Spilliefni er svo skilgreint í 12. mgr. 3. gr. með vísan til reglugerðar um skrá fyrir spilliefni og annan úrgang, en hún er nr. 184/2002.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar frá framleiðanda olíunnar sem aðilar máls hafa ekki dregið í efa. Er annars vegar um að ræða upplýsingar frá mars 2011 og hins vegar frá febrúar 2014. Samkvæmt þessum upplýsingum er verksmiðjuolía sú sem hér um ræðir að grunni til úrgangsolía sem safnað er frá smurstöðvum, skipum og annarri starfsemi og fer í gegnum ákveðið vinnsluferli sem nánar er lýst. Í upplýsingunum frá 2014 kemur fram að vinnsluferlið fjarlægi úr olíunni um 86% af föstum efnum sem samanstanda af málmögnum, ösku og öðrum efnum, s.s. oxuðum efnum og íblöndunarefnum, en verið er að skoða að fjarlægja meira af föstum efnum eins og þungmálmum og kalsíum. Vatnsinnihald, eðlisþyngd og seigja er mæld mánaðarlega og ársfjórðungslega fer fram nákvæmari rannsókn og borin saman við þau gildi sem gilda fyrir IFO 380 svartolíu skv. staðli. Þá er árlega kannað magn þungmálma, halógena og PCB í olíunni. Kemur fram að í þeirri blöndu sem brennd sé í verksmiðjum, 37,5%, séu það aska, zink, fosfór og kalsíum sem séu yfir mörkum staðals fyrir svartolíu. Þá er sett fram í töflu meðaltal ýmissa gilda í meðaltali verksmiðjuolíu áranna 2012 og 2013, sem og 37,5% blöndu, og borið saman við svartolíu IFO 380.

Umhverfisstofnun starfar eftir lögum um stofnunina nr. 90/2002. Hlutverk hennar skv. 1. gr. laganna er að annast starfsemi skv. lögum nr. 7/1998 og fjölda annarra laga sem þar eru talin og áður höfðu heyrt undir Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, veiðistjóra og hreindýraráð. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 90/2002 kemur fram að rétt þyki að sameina stjórnsýslustarfsemi stofnana sem fari með mengunarvarnir, hollustuhætti, náttúruvernd, dýravernd og stjórn á stofnstærð villtra dýra. Þeim stofnunum sé falið með lögum að annast framkvæmd tiltekinna málaflokka fyrir hönd umhverfisráðuneytisins. Í ýmsum öðrum lögum er Umhverfisstofnun ætlað eftirlitshlutverk, t.a.m. í lögum nr. 55/2003. Þá eru í gildi fjöldi reglugerða sem settar eru á grundvelli áðurnefndra laga sem Umhverfisstofnun er ætlað að hafa eftirlit með framkvæmd á. Þar á meðal er fjöldi reglugerða á sviði mengunarvarna auk þeirra sem fyrr eru nefndar, t.d. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Umhverfisstofnun er samkvæmt því sem að framan greinir sú stofnun sem annast framkvæmd mengunarvarna fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytis og verður að telja hana sérfróðan aðila á því sviði.

Taka má undir með kæranda að stofnuninni, sem er sérfræðistofnun á sviði mengunarvarna, hefði verið í lófa lagið að rannsaka málið með sjálfstæðum og ítarlegum hætti. Stofnunin hefur ekki upplýst úrskurðarnefndina um að slíkt hafi verið gert eða afhent nefndinni nein þau gögn sem til þess benda, en skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skal stjórnvald láta nefndinni í té öll þau gögn og upplýsingar er tengjast málinu. Fór nefndin fram á það við stofnunina í bréfi, dags. 9. janúar 2015. Þannig verður hvorki séð að Umhverfisstofnun hafi skoðað framleiðsluferli umræddrar olíu eða efnasamsetningu hennar umfram það sem fram kemur í upplýsingum frá framleiðanda né að hún hafi kannað með mælingum hver áhrif væru af brennslu nefndrar olíu.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar lágu fyrir Umhverfisstofnun fyllri upplýsingar frá framleiðanda en um var að ræða í kærumáli nr. 10/2014. Í því máli var kveðinn upp úrskurður í dag, en þar lágu til grundvallar ákvörðunartöku Umhverfisstofnunar upplýsingar framleiðanda frá árinu 2011. Í fyrirliggjandi máli lágu fyrir upplýsingar frá árinu 2014 sem áður eru raktar. Af þeim má ráða að um 14% fastra efna úr úrgangsolíu þeirri sem unnin er situr eftir að loknu vinnsluferli framleiðanda. Meðal þeirra efna sem þar er að finna eru þungmálmar. Geta efni þau sem eftir sitja í greindri olíu verið skaðleg heilsu manna og umhverfi. Meðal markmiða laga nr. 7/1998 er að búa landsmönnum heilnæm lífsskilyrði og vernda þau gildi sem felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi, sbr. 1. gr. laganna. Þá er meðal markmiða laga nr. 55/2003 að tryggja að úrgangsstjórnun og meðhöndlun úrgangs fari þannig fram að ekki skapist hætta fyrir heilbrigði manna og dýra og umhverfið verði ekki fyrir skaða, sbr. a-lið 1. mgr. 1. gr. þeirra laga.

Þrátt fyrir þær upplýsingar, og nefnd markmið laga nr. 7/1998 og nr. 55/2003, verður ekki séð að Umhverfisstofnun hafi haft nægar forsendur til að komast að niðurstöðu um það hvort það ferli sem um ræddi teldist endurmyndun í skilningi 3. málsl. 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011, og hvort sú afurð sem út úr því kæmi gæti talist grunnolía samkvæmt skilgreiningu 5. mgr. 3. gr. sömu reglugerðar, svo sem henni var breytt með reglugerð nr. 673/2011. Eigi að síður lagði stofnunin það til grundvallar að svo væri ekki er hún ákvað að áminna kæranda. Er þar um þvingunarúrræði að ræða og íþyngjandi ákvörðun sem verður að eiga sér nægilega stoð í bæði atvikum máls og lögum. Þar sem á það skorti verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi, enda ekki fullnægt þeim áskilnaði að mál sé nægjanlega upplýst til að stjórnvald komist að réttri niðurstöðu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður orðið við kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 8. desember 2014 að veita Ísfélagi Vestamannaeyja hf. – Vestmannaeyjum áminningu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                                            Ómar Stefánsson                                                Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    

______________________________              _____________________________
          Geir Oddsson                                                  Þorsteinn Sæmundsson

103/2014 Hlaðvellir

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 17. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 103/2014, kæra vegna aðkomu frá Hlaðavöllum inn á lóð Austurvegar 28, Selfossi, og vegna bílastæða þar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. september 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir R, persónulega og f.h. eigenda Reynivalla 6 og Hlaðavalla 5, 6, 8 og 10, Selfossi, sveitarfélagið Árborg m.a. fyrir að „… veita með athafnaleysi gistiheimilinu á Austurvegi 28 á Selfossi óleyfisheimild til að opna á lóð sinni 300 m2 bílaplan og innkeyrslu, hvort tveggja með aðkomu frá íbúðagötunni Hlaðavöllum, að húsinu að Austurvegi 28, til að þjónusta gisti¬heimilið sem þar er til húsa“.

Gögn málsins bárust frá Árborg 9. janúar 2015 og í febrúar og mars 2016.

Málavextir: Forsaga málsins er sú að í fasteigninni við Austurveg 28 var áður rekið Sjúkrahús Suðurlands og síðar hjúkrunardeildin Ljósheimar, eða allt til ársins 2007. Hinn 10. febrúar 2010 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Árborgar aðaluppdrætti vegna breytinga á innra skipulagi og breyttrar notkunar fasteignarinnar að Austurvegi 28, auk lítilsháttar breytinga utanhúss, í þá veru að þar væri mögulegt að reka farfuglaheimili. Þar hefur síðan verið rekið slíkt heimili á grundvelli rekstrarleyfa útgefnum af Sýslumanninum á Selfossi. Rekstrar¬leyfi var fyrst gefið út á árinu 2010 vegna gististaðar í flokki III, þ.e. gististaðar með veitingum, þó ekki áfengisveitingum.

Sumarið 2010 voru fullgerð bílastæði á lóð farfuglaheimilisins, með aðkomu frá Hlaðavöllum. Þar munu áður hafa verið til staðar bílastæði, í minna mæli þó, sem íbúar við Hlaðavelli munu hafa haft afnot af samkvæmt óformlegu samkomulagi. Einn kærenda, fyrir hönd íbúa við Hlaðavelli, beindi fyrirspurn til byggingarfulltrúa með tölvupósti 13. júlí 2010. Var m.a. spurt hvort framkvæmdaleyfi hefði verið gefið út fyrir nefndum bílastæðum og hvernig skipulags-yfirvöld hygðust bregðast við þeim framkvæmdum hefði leyfi ekki verið gefið út vegna þeirra. Sami kærandi lýsti áhyggjum sínum vegna umfangs framkvæmdanna í tölvupósti til byggingarfulltrúa 19. s.m. og svaraði skipulags- og byggingarfulltrúi því til að embætti hans myndi kanna aðstæður á vettvangi sama dag. Fyrra erindinu svaraði síðan skipulags- og byggingarfulltrúi í tölvupósti 3. ágúst s.á. Tók hann fram að ekki hefði verið gefið út framkvæmdaleyfi og að til að byrja með yrði rætt við hlutaðeigandi aðila, líkt og ákveðið hefði verið á fundum.

Fundur mun hafa verið haldinn 19. ágúst 2010 með fulltrúum sveitarfélagsins og húseigendum við Hlaðavelli. Með bréfi, dags. 20. s.m., var farið fram á við skipulags- og byggingarfulltrúa Árborgar að hann, eða annað það embætti sveitarfélagsins er málið kynni að heyra undir, lokaði aðkomu frá Hlaðavöllum að Austurvegi 28 og bílastæðum á lóðinni. Sumarið 2012 áttu frekari samskipti sér stað milli kærenda og sveitarfélagsins vegna greindrar aðkomu og bílastæða. Mun m.a. hafa verið haldinn fundur þar um 24. júlí það ár og í kjölfarið var þess krafist með bréfi, dags. 14. ágúst 2012, stíluðu á framkvæmdastjóra sveitarfélagsins og skipulags- og byggingarfulltrúa, að sveitarfélagið gripi þegar til aðgerða til að koma í veg fyrir áfram¬haldandi aðkomu um Hlaðavelli að Austurvegi 28.

Með bréfi, dags. 12. mars 2013, var óskað eftir rökstuddum svörum við nánar tilgreindum spurningum varðandi hina umdeildu aðkomu og bílastæði Austurvegar 28. Var tekið fram í bréfinu að tæp þrjú ár væru frá því að íbúar við Hlaðavelli hefðu sent byggingarfulltrúa sína fyrstu kröfu um að greindri aðkomu yrði lokað. Þá væru liðnir nokkrir mánuðir frá því að íbúarnir hefðu sent beiðni um lokun aðkomunnar og fundur verið haldinn um það erindi í kjölfarið. Formlegt erindi með kröfum íbúa hefði verið sent og bæjarráð óskað eftir minnisblaði frá byggingarfulltrúa um málið. Loks var tekið fram að íbúar hefðu ekki orðið varir við hreyfingu á málinu síðan þá.

Sveitarfélagið leitaði álits lögmanns vegna aðkomu og umferðar um Hlaða¬velli að Austurvegi 28 og samþykkti bæjarráð á fundi sínum 27. júní 2013 að senda hagsmunaðilum minnisblað lögmannsins, dags. 7. s.m., og fól jafnframt byggingarfulltrúa að fara yfir aðgengismál. Hinn 23. júlí s.á. mótmæltu nánar tilgreindir íbúar við Hlaðavelli því bréflega að bréfi þeirra frá ágúst 2012 væri svarað tæpu ári síðar án þess að afstaða væri tekin til þeirra krafna sem þar hefðu verið settar fram. Jafnframt var ítrekuð sú krafa íbúanna að komið yrði þegar í stað í veg fyrir hina umdeildu aðkomu. Á fundi bæjarráðs 21. nóvember s.á. var framkvæmdastjóra sveitarfélagsins falið að svara greindu erindi íbúa við Hlaðavelli frá 23. júlí s.á. Í bréfi framkvæmdastjórans, dags. 27. nóvember s.á., er tekið fram að sveitarfélög geti ekki skert eignarréttindi aðila með ákvörðunum í deiliskipulagi nema greiða bætur fyrir þann skaða sem skerðing hafi í för með sér. Vegna þessa hefði sveitarfélagið ekki í hyggju að láta vinna tillögu að deiliskipulagi þar sem kveðið yrði á um bann við aðkomu frá Hlaðavöllum að lóð Austurvegar 28. Öðrum kröfum hefði verið svarað áður, þ.e. að ekki væri á valdsviði sveitarfélaga að staðfesta hvort réttindi hefðu skapast fyrir hefð, auk þess sem ekki hefði þurft að grenndarkynna starfsemi í húsnæði Austurvegar 28 sökum þess að skipulag svæðisins gerði ráð fyrir að starfsemi af því tagi gæti farið þar fram.

Með bréfi, dags. 29. júlí 2014, leituðu tveir kærenda að nýju til sveitarfélagsins og óskuðu eftir tilgreindum gögnum og upplýsingum. Í bréfinu kom m.a. fram að á fundi framkvæmdastjóra og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins með húseigendum við Hlaðavelli hinn 24. júlí 2012 hefðu íbúar spurt hvers vegna sveitarfélagið hefði ekki farið fram á að sótt væri um framkvæmdaleyfi vegna breyttrar aðkomu að Austurvegi 28. Svar sveitarfélagsins hefði verið á þann veg að ástæða þessa væri sú að einungis væri verið að gera upp bílastæði sem hefðu verið til staðar. Í bréfinu var óskað frekari upplýsinga um þau bílastæði sem fyrir hefðu verið og óskað eftir afriti af framkvæmdaleyfi fyrir þeim. Ef ekki hefði verið fyrir þeim framkvæmdarleyfi var spurt hvort ekki hefði þurft framkvæmdaleyfi fyrir þeim breytingum sem mál þetta snýst um. Auk þessa var óskað eftir rökstuðningi ef svar sveitarfélagins yrði á þá leið að ekki hefði þurft framkvæmdaleyfi.

Rekstraraðili sótti um nýtt rekstrarleyfi 14. maí 2014, leyfi til reksturs gististaðar í flokki II, gististað án veitinga. Gaf sýslumaður út rekstrarleyfi 2. september s.á. að fenginni jákvæðri umsögn skipulags- og byggingarnefndar Árborgar.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að brotið hafi verið á rétti íbúa við Hlaðavelli vorið 2010 þegar sveitarfélagið samþykkti fyrir sitt leyti að veitt yrði rekstrarleyfi fyrir gistiheimili, án þess að erindið væri grenndarkynnt gagnvart nágrönnum, en baklóðin snúi að nefndri götu. Mat bæjaryfirvalda hafi verið að það væri óveruleg breyting á notkun hússins að breyta því úr lítilli langlegudeild fyrir aldraða í gistiheimili með leyfi fyrir 63 næturgestum. Annað hafi komið í ljós. Grenndarkynning á leyfi til rekstrar gistiheimilisins hefði m.a. getað komið í veg fyrir þau mistök að gistiheimilið fengi leyfi til rekstursins svo til án bílastæða.

Nokkrum sinnum hafi verið sótt um leyfi til vínveitinga og leyfi til að leigja út sali til samkomuhalds í miðju íbúðarhverfinu. Það hafi kostað íbúa hverfisins harða baráttu að hrinda ásóknum á íbúðarbyggðina.

Þá hafi embætti skipulags- og byggingarfulltrúa vantalið þau bílastæði sem til staðar hafi verið fyrir Austurveg 28, þegar sveitarfélagið samþykkti rekstrarleyfið vorið 2010. Hafi rekstraraðilar því ákveðið að gera 300 m² bílaplan á baklóð fasteignarinnar, 22×10 m bílastæði og samhliða því 8 m breiða innkeyrslu frá Hlaðavöllum. Þeim framkvæmdum hafi verið lokið sumarið 2010 og þannig hafi öll 30 m suðurhlið lóðarinnar opnast út á Hlaðavelli. Sú ráðstöfun hafi breytt íbúðargötunni í þjónustugötu.
   
Gestir, starfsfólk og aðrir njóti aðkomu frá Hlaðavöllum. Húseigendur við Hlaðavelli, sem keypt hafi húseignir við rólega íbúðargötu, eigi nú allt í einu heima við þjónustutorg fyrir gistiheimili. Fyrir íbúa Hlaðavalla snúist óheimil yfirtaka Hlaðavalla um stöðugt áreiti af ýmsum toga og á öllum tímum sólarhringsins, gífurlega aukningu og eðlisbreytingu umferðar, missi götunnar sem íbúðargötu og að auki hafi u.þ.b. sex bílastæði tapast. Gatan sé lítil og afar þröng botngata. Hvert farartæki sem fari inn götuna verði að fara sömu leið til baka. Ekki hafi verið sótt um leyfi fyrir bílastæðinu á baklóð Austurvegar 28 og hafi sveitarfélaginu borið að stöðva þær framkvæmdir strax í upphafi.

Málsrök sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að allt frá árinu 2010 hafi kærendur sent sveitarfélaginu erindi vegna rekstrarins að Austurvegi 28, sem og vegna útgáfu rekstrarleyfa og umferðar um Hlaðavelli að Austurvegi 28. Kærendum hafi verið bent á að sýslumaður fari með útgáfu rekstarleyfa og að sveitarfélagið fari ekki með ákvörðunarvald í þeim efnum þrátt fyrir að gefin sé umsögn um afgreiðslutíma og veittar séu upplýsingar um það hvort staðsetning sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagins kveði á um, sbr. 24. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

Sveitarfélagið geti ekki einhliða ákveðið að loka aðkomu frá Hlaðavöllum að lóðinni Austurvegi 28 nema með deiliskipulagi, en slíkt skipulag sé ekki til staðar fyrir Hlaðavelli. Sveitarfélagið hafi ekki í hyggju að gera deiliskipulag sem innihaldi skilmála sem kunni að leiða til þess að sveitarfélagið verði skaðabótaskylt gagnvart eiganda Austurvegs 28, sbr. 51. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Þótt ekki sé að fullu ljóst hvers sé krafist fyrir úrskurðarnefndinni af hálfu kærenda virðist kröfugerðin annars vegar snúa að því að sveitarfélaginu verði gert að loka aðkomu að Austurvegi 28 frá Hlaðavöllum og hins vegar að viðurkennt verði að sveitarfélagið hafi brotið gegn ákvæðum laga þegar jákvæð umsögn hafi verið gefin til sýslumanns vegna umsóknar rekstraraðila gistiheimilisins. Ekki verði séð að úrskurðarnefndin hafi heimild til þess að kveða á um skyldu sveitarfélags til athafna af því tagi sem greinir í kröfugerð kærenda. Þá virðist ekki vera nein nákvæm tilgreining á því hvaða ákvæði laga eða reglugerða sveitar¬félagið eigi að hafa brotið þegar jákvæð umsögn var gefin sýslumanni.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 25. september 2014 og er í þremur liðum. Tveir þeirra snúa að starfsemi gististaðar að Austurvegi 28, Selfossi, en skipulags- og byggingarfulltrúi veitti leyfi 10. febrúar 2010 fyrir breyttri notkun fasteignarinnar svo þar mætti reka slíkan stað. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar er löngu liðinn. Þá eru rekstrarleyfi vegna nefndrar starfsemi gefin út af sýslumanninum á Selfossi að fenginni umsögn sveitarfélagsins. Rekstrar¬leyfi útgefin af sýslumanni eru ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, heldur eftir atvikum til viðeigandi ráðuneytis. Lögbundnar umsagnir sveitarfélaga eru liður í málsmeðferð við útgáfu slíkra leyfa og fela því ekki í sér neina þá ákvörðun sem bindur enda á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki fjallað frekar um þessar kröfur kærenda.

Lóðin Austurvegur 28 liggur milli Austurvegar og Hlaðavalla á ódeiliskipulögðu svæði. Í húsakynnum á lóðinni er rekið farfuglaheimili, en samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er um að ræða fjóra matshluta, sem byggðir voru á árunum 1935, 1959 og 1966. Matshlutarnir eru sambyggðir og ná yfir lóðina þvera. Lýtur þriðji liður kærunnar að aðkomu að lóðinni frá Hlaðavöllum, en kærendur eiga aðkomu að sínum húsum frá þeirri götu. Kæruefnið snýr jafnframt að innkeyrslu og bílaplani tengdu aðkomunni. Framkvæmdum vegna greindrar aðkomuleiðar, innkeyrslu og bílastæða var lokið á árinu 2010 og hafa ýmis samskipti átt sér stað vegna þeirra milli kærenda og sveitarfélagsins, svo sem nánar greinir í málavaxtalýsingu. Frekari samskipti hafa einnig átt sér stað um sama deiluefni vegna umsagna sveitarfélagsins í tilefni af útgáfu rekstrarleyfa, sem og vegna gerðar aðalskipulags, en þau samskipti verða ekki rakin frekar hér.
   
Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur m.a. fram að hlutverk nefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum á þessu sviði. Frá gildistöku nefndra laga 1. janúar 2012 hefur nefndin verið til þess bær að úrskurða m.a. í málum varðandi leyfisskyldu framkvæmda, þvingunar¬úrræði byggingarfulltrúa og deiliskipulagsgerð, en fyrir þann tíma tók úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarlaga slík mál til úrlausnar.
   
Eins og nánar greinir í málavaxtalýsingu var athygli skipulags- og byggingarfulltrúa vakin á þeim framkvæmdum sem deilt er um í máli þessu, og mögulegri leyfisskyldu þeirra, þegar sumarið 2010. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu fór skipulags- og byggingarfulltrúi á vettvang og skoðaði framkvæmdirnar. Var það mat hans að þær væru ekki leyfisskyldar, en sveitarfélagið hefur upplýst að formleg staðfesting á þeirri afstöðu hans liggi ekki fyrir og að hún hafi ekki verið tilkynnt íbúum við Hlaðavelli með formlegum hætti. Með bréfum kærenda, dags. 20. ágúst 2010 og 14. ágúst 2012, var m.a. skorað á skipulags- og byggingarfulltrúa að koma í veg fyrir aðkomu að Austurvegi 28 um Hlaðavelli, en hann er valdbær til þess að taka ákvörðun um leyfisskyldu framkvæmda og eftir atvikum um þvingunarúrræði sem beita skuli vegna þeirra. Það er meginregla stjórnsýsluréttar að hver sá sem beri skriflegt erindi undir stjórnvald eigi rétt á skriflegu svari við því. Bar skipulags- og byggingarfulltrúa því ótvíræð skylda til þess að svara kærendum með skriflegum hætti um hvort hann hygðist beita valdheimildum sínum til að verða við kröfum þeirra um lokun aðkomu að Austurvegi 28 um Hlaðavelli. Það verður hins vegar ekki litið fram hjá því að samkvæmt gögnum málsins hafa verið haldnir fundir með íbúum Hlaðavalla þar sem sú afstaða sveitarfélagsins hefur komið fram, m.a. af hálfu skipulags- og byggingarfulltrúa, að ekki verði komið í veg fyrir nefnda aðkomu nema þá eftir atvikum með gerð deiliskipulags. Verður við það að miða, eins og atvikum er hér háttað, að kærendum hafi verið það ljóst, í síðasta lagi á fundi með m.a. skipulags- og byggingarfulltrúa 24. júlí 2012, að hann hygðist ekki beita valdheimildum sínum í því skyni og jafnframt að hann teldi framkvæmdirnar ekki leyfis¬skyldar. Kæra í máli þessu barst meira en ári síðar eða 25. september 2014 og verður því ekki frekar um þennan hluta kærunnar fjallað, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá skal tekið fram að þrátt fyrir að vafi um leyfisskyldu framkvæmda verði borinn undir úrskurðarnefndina er einungis gert ráð fyrir því að það sé gert í tengslum við framkvæmdir sem eru fyrirhugaðar eða hafnar, eða í beinu og eðlilegu framhaldi af þeim. Kemur því ekki til álita að taka til úrlausnar leyfisskyldu framkvæmda sem fyrir löngu er lokið, sér í lagi þegar afstaða skipulags- og byggingarfulltrúa þar um hefur jafnframt legið fyrir um langt skeið.

Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags en í því eru teknar ákvarðanir um skipulagsforsendur innan sveitarfélagsins, m.a. lóðir og aðkomu að þeim, sbr. nánari ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 þar um. Í bréfi framkvæmdastjóra sveitarfélagsins frá 27. nóvember 2013 kom fram að sveitarfélagið hygði ekki á deiliskipulagsgerð til að loka aðkomu þeirri sem hér er um deilt. Með hliðsjón af forsögu málsins, og í ljósi þess að samskipti vegna hinnar umdeildu aðkomu höfðu áður átt sér stað með margvíslegum hætti og af ýmsu tilefni, verður að líta svo á að um hafi verið að ræða upplýsingagjöf og skýringar til kærenda um afstöðu sveitarfélagsins í tilefni af margítrekuðum erindum þeirra vegna nefndrar aðkomu. Í bréfinu fólst hins vegar ekki nein sú ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til alls þess sem rakið hefur verið verður ekki hjá því komist að vísa frá úrskurðarnefndinni þeim kröfum kærenda sem lúta að framangreindum atriðum.

Eins og nánar er rakið í málavöxtum beindu tveir kærenda erindi til sveitarfélagsins með bréfi, dags. 29. júlí 2014, þar sem leitað var eftir nánar tilgreindum gögnum og upplýsingum. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu mun erindinu ekki hafa verið svarað formlega, en sveitarfélagið vísar til þess að kærendur hafi þegar haft undir höndum öll þau gögn og upplýsingar sem óskað hafi verið eftir. Svo sem áður er rakið hafa margvísleg samskipti átt sér stað milli kærenda og sveitarfélagsins. Þess sér þó ekki stað í gögnum málsins að kærendur hafi fengið upplýsingar um það hvort framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út vegna bílastæða þeirra sem til staðar voru áður en hinar umdeildu framkvæmdir hófust. Óskað var eftir þessum upplýsingum í áðurgreindu erindi sem og rökstuðningi fyrir afstöðu sveitarfélagins. Verður því að líta svo á að nefndu erindi sé enn ósvarað, en eins og áður hefur verið rakið ber sveitarfélaginu að svara slíku erindi skriflega í samræmi við áðurnefndar meginreglur stjórnsýsluréttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

62/2015 Fiskeldi í Dýrafirði

Með
Árið 2016, mánudaginn 21. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Geir Oddsson auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2015, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. júlí 2015 um að aukið eldi á regnbogasilungi eða laxi um 2.000 tonn í 4.000 tonna ársframleiðslu í Dýrafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Landssamband veiðifélaga, Bændahöllinni v/Hagatorg, Reykjavík, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. júlí 2015 að aukið eldi á regnbogasilungi eða laxi um 2.000 tonn í 4.000 tonna ársframleiðslu í Dýrafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að mat á umhverfisáhrifum fari fram.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 14. september 2015.

Málavextir: Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 19. desember 2012, tilkynnti Dýrfiskur hf. um þau áform sín að auka framleiðslu á regnbogasilungi eða laxi í Dýrafirði úr 2.000 tonnum í 4.000 tonn á ári. Kom fram í tilkynningunni að fyrirtækið hygðist bæta við eldissvæðum þannig að þau yrðu þrjú, eldissvæði við Gemlufall og Mýrarfell kæmu til viðbótar eldissvæði við Haukadalsbót.

Skipulagsstofnun leitaði álits Ísafjarðarbæjar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Siglingastofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar. Í umsögnum Hafrannsóknastofnunar og Umhverfisstofnunar kom fram það álit að upplýsingar skorti um nánar tilgreind atriði.  Í kjölfar frekari upplýsinga framkvæmdaraðila óskaði Skipulagsstofnun eftir frekari umsögn nefndra stofnana sem ítrekuðu fyrra álit sitt.  Í ljósi umsagna greindra stofnana tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun að hann teldi frekari rannsókna þörf, sérstaklega m.t.t. strauma og burðarþols. Stofnunin yrði upplýst um framgang mála. Skipulagsstofnun tilkynnti umsagnaraðilum um fyrirhugaða rannsókn og að ákvörðun stofnunarinnar yrði að vænta í framhaldi þess að uppfærð greinagerð framkvæmdaraðila bærist og viðeigandi aðilar hefðu gefið umsögn þar um.

Með bréfi, dags. 29. mars 2015, tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun að frekari gagnaöflun hefði farið fram og að viðbótargögn sýndu að burðarþol Dýrafjarðar væri mun meira en áður væri talið. Bréfinu fylgdi uppfærð greinargerð framkvæmdaraðila, dags. sama dag. Þar var enn gert ráð fyrir þremur eldissvæðum, þó með þeirri breytingu að gert væri ráð fyrir eldissvæði við Eyrarhlíð í stað þess við Mýrarfell sem áður hafði verið tilkynnt um. Í greinargerðinni var jafnframt greint frá niðurstöðum um burðarþolsmat Dýrafjarðar sem og rannsókn á botndýrum á  fyrirhuguðu eldissvæði við Eyrarhlíð. Niðurstöður líkanareikninga Hafrannsóknarstofnunar sýni fram á að Dýrafjörður sé ekki viðkvæmur fyrir lífrænu álagi m.t.t. súrefnisinnihalds sjávar og telji Hafrannsóknarstofnun að hægt sé að leyfa allt að 10.000 tonna eldi í firðinum. Gerð hafi verið rannsókn á botndýralífi á þremur stöðum á því svæði sem fyrirhugað sé sem nýtt eldissvæði við Eyrarhlíð.  Þar megi gera ráð fyrir því að fjölbreytni muni minnka á afmörkuðu svæði í nálægð við eldiskvíar, vegna uppsöfnunar næringarefna, en hvíld eldissvæða og tilfærsla kvíaþyrpinga innan eldissvæðisins muni draga úr neikvæðum áhrifum á botndýralífi á þessi svæði.
 
Skipulagsstofnun leitaði álits Ísafjarðarbæjar, Ferðamálastofu, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Matvælastofnunar, Minjastofnunar Íslands, Samgöngustofu og Umhverfisstofnunar með bréfum, dags. 11. júní 2015. Hvorki Ísfjarðarbær né Ferðamálastofa tóku afstöðu til þess hvort að mat á umhverfisáhrifum ætti að fara fram, en gerðu almennar athugasemdir er lutu að skipulagsvaldi sveitarfélaga og mikilvægi þess að taka tillit til hugsanlegrar framtíðaruppbyggingar í ferðaþjónustu á svæðinu. Fiskistofa taldi að ætluð framleiðsluaukning myndi ekki auka til muna hættuna vegna mögulegra slysasleppinga eða auka mikið hættu á sjúkdóms- eða sníkjudýratengdum vandamálum. Hafrannsóknastofnun taldi að aukið eldi á regnbogasilungi eða laxi um 2.000 tonn frá núverandi leyfi skyldi ekki sæta mati á umhverfisáhrifum. Matvælastofnun tók fram að ekki væri talin þörf á að fyrirhugað sjókvíaeldi færi í sérskylt umhverfismat, þ.e.a.s. um þá þætti sem snéru að sjúkdómum. Minjastofnun Íslands taldi að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum, m.a. að teknu tilliti til 2. mgr. 24. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar. Í umsögn Samgöngustofu kom fram að framkvæmdin myndi ekki valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og skyldi því ekki háð umhverfismati. Umhverfisstofnun tók fram að ef heildarlífmassi yrði aldrei meiri en 10.000 tonn og með vöktun væri unnt að sannreyna mat á burðarþoli fjarðarins, væri umrædd framleiðsluaukning ekki talin líkleg til þess að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.
   
Kærandi gerði athugasemd við fyrirhugaða framkvæmd með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 21. júní 2015. Var þess krafist að framkvæmdin skyldi háð mati á umhverfisáhrifum, enda þyrfti að meta áhrif eldisins á þau verðmæti sem fælust í villtum laxa- og silungastofnum á Íslandi.
   
Hinn 8. júlí 2015 komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð framleiðsluaukning Dýrfisks hf. á regnbogasilungi eða laxi, úr 2.000 tonna ársframleiðslu í 4.000 tonna ársframleiðslu við Haukadalsbót, Gemlufall og Eyrarhlíð í Dýrafirði væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.  

Málsrök kæranda: Það er mat kæranda að niðurstaða Skipulagsstofnunar sé röng og ekki studd fullnægjandi rökum eða gögnum. Kærandi ítreki athugasemdir þær sem gerðar hafi verið við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun og bendi á að meta þurfi áhrif þess á villta stofna að leyfa eldi á frjóum norskum löxum í því magni sem um geti í umsókn framkvæmdaraðila. Við laxeldi á Íslandi sé notaður laxastofn af norskum uppruna sem fluttur hafi verið til landsins á 9. áratugnum. Erfðarannsóknir á genamengi laxa sem gerðar hafi verið hin síðari ár staðfesti að norskur lax sé mjög fjarskyldur íslenskum laxastofnum og geti blöndun slíkra laxastofna haft ófyrirséðar afleiðingar á þróun hinna íslensku laxastofna. Sem dæmi hafi veiðst yfir 200 laxar af tiltölulega lítilli slysasleppingu laxa hjá öðrum rekstraraðila. Þeir fiskar hafi verið að búa sig til hrygningar  sem styðji þær áhyggjur sem kærandi hafi af slíku eldi.

Möguleiki sé á eldi á norskum laxi. Því sé eðlilegt að metin séu sammögnunaráhrif þess og annars eldis á norskum laxi á Vestfjörðum. Sé miðað við þær upplýsingar frá Veiðimálastofnun, sem komi fram í ákvörðun Skipulagsstofnunar, að meta beri það sem svo að einn lax sleppi við hvert framleitt tonn af laxi, megi líta svo á að fjögur þúsund laxar sleppi úr 4.000 tonna eldi á hverju ári. Fyrirhuguð sé uppbygging laxeldis á Íslandi í 80.000 tonna framleiðslu á ári og gætu þá allt að 80.000 laxar af norskum uppruna sloppið á ári hverju. Líti kærandi því svo á að fyrirhugað eldi á norskum laxi auki verulega áhættu á erfðablöndun við villta stofna sem margir telji fáa fiska og því sé umhverfismat skylt.

Ekki sé hægt að vera sammála rökstuðningi Skipulagsstofnunar þess efnis að áhrif vegna aukningar á hættu á sjúkdómum og laxalús hjá villtum laxfiskstofnum á svæðinu séu ólíkleg og muni ekki hafa umtalsverð áhrif. Sú afstaða stofnunarinnar sé m.a. rökstudd með vísun í rannsóknir í Finnmörk í Norður-Noregi. Þar komi fram að sjókvíaeldi auki afföll af sjóbirtingi og sjóbleikju vegna álags vegna laxalúsa, en þar sem álag af fiskeldi sé mest hafi afföll verið í meðallagi eða há, þ.e. 18-55%. Kærandi telji 18-55% afföll hjá sjóbirtingi og sjóbleikju í Finnmörk vegna fiskeldis ekki geta stutt þá niðurstöðu að áhrifin séu ekki líkleg til að verða umtalsverð. Til séu fjölmargar erlendar rannsóknir sem sýni áhrif lúsasmits á villta silungs- og laxastofna. Þær rannsóknir sýni einnig að áhrifasvæði lúsasmits nái tugi kílómetra frá eldisstað. Sú staðreynd sé hvergi dregin fram í greinargerð framkvæmdaraðila og sé enn ein ástæðan fyrir því að eðlilegt sé að umrædd framkvæmd fari í mat á umhverfisáhrifum.

Þá sé vísað til niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 43/2012 þar sem nefndin hafi ógilt ákvörðun Skipulagsstofnunar. Mál þessi séu á margan hátt sambærileg. Miklir hagsmunir íslenskrar náttúru séu í húfi og því sé mikilvægt að allrar varúðar sé gætt. Annað væri í andstöðu við reglur alþjóðlegs umhverfisréttar um varúðarnálgun og varúðarreglu sem úrskurðarnefndin hafi talið að líta bæri til skv. alþjóðasamningum sem Ísland eigi aðild að og í anda íslenskra laga. 

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er á það bent að sú krafa kæranda að framkvæmdin skuli sæta mati á umhverfisáhrifum falli ekki undir hlutverk úrskurðarnefndarinnar og að nefndin hafi ekki valdheimildir til að kveða á um slíkt.

Að mati stofnunarinnar sé óumdeilt að eldislax sé fjarskyldur öðrum laxastofnun við Norður-Atlantshaf, þar með töldum þeim norska. Engin laxveiðiá sé í Dýrafirði, en þar sé silungur sem m.a. gangi í sjó. Næstu gjöfulu laxveiðiár séu í Ísafjarðardjúpi og Breiðafirði. Til þess að fiskeldi í Dýrafirði hafi umtalsverð áhrif á erfðaefni villtra laxastofna þurfi strokufiskur að synda langa leið og ganga í ár í umtalsverðum mæli og hrygna þar. Litlar líkur séu á að allt þetta gangi eftir. Mikilvægasta mótvægisaðgerðin felist í því að leyfisveitandi geri strangar kröfur um gæði eldisbúnaðar og strangt eftirlit sé haft með honum. Einnig að gerð sé krafa um vandaða viðbragðsáætlun sem fylgt yrði ef framkvæmdaraðili missi fisk í sjó.

Bent sé á að tilvísun í norskar rannsóknir hafi verið ætlað að draga fram vitneskju um að fiskeldi í sjó auki hættu á lúsarsmiti í villtum laxfiskum. Hér beri að horfa til þess að sjókvíaeldi í Noregi sé umfangsmikið og í þeim samanburði sé fyrirhugað eldi í Dýrafirði lítið. Laxeldi í Finnmörk hafi vaxið úr 45.000 tonnum árið 2009 í 70.000 tonn árið 2012. Árið 2010 hafi öll fiskeldissvæði verið í góðu ástandi hvað varði afföll sjóbirtings og sjóbleikju, en frá þeim tíma hafi ástandið versnað umtalsvert.

Eldi í Dýrafirði verði 4.000 tonn, ef af verði. Ólíklegt megi telja að eldi af þeirri stærðargráðu leiði til sambærilegra affalla og hlotist hafi af 42.000 til 70.000 tonna eldi. Séu því ekki líkur á að fyrirhugað eldi muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér. Einnig liggi fyrir mat Matvælastofnunar þess efnis að fyrirhugað eldi muni ekki hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang villtra fiskistofna í Dýrafirði og nágrenni hans.

Þá sé ekki hægt að fallast á það að kærumál þetta og kærumál nr. 43/2012 séu sambærileg, líkt og kærandi haldi fram. Hin almenna regla stjórnsýsluréttar um jafnræði, sem sé lögfest í 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, áskilji að atvik séu sambærileg. Ef atvik í tilteknu máli séu sambærileg atvikum í öðru máli beri að leysa úr málunum á sambærilegan hátt, en sé það ekki gert sé slíkt brot á jafnræðisreglunni. Með fyrrgreindum úrskurði úrskurðarnefndarinnar hafi verið felld úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar um að 7.000 tonna ársframleiðsla á eldisfiski í Ísafjarðardjúpi skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Um hafi verið að ræða blandað eldi þorsks og laxfisks eða eldi einnar tegundar. Hin kærða ákvörðun lúti hins vegar að eldi á regnbogasilungi sem mögulega breytist í laxeldi. Þrátt fyrir að í báðum tilvikum feli starfsemin í sér sjókvíaeldi á regnbogasilungi og laxi þá séu þau í veigamiklum atriðum ósambærileg. Umfang eldisins í  máli nr. 43/2012 hafi verið mun meira, eða 7.000 tonn á ári, en eldisaukningin í Dýrafirði nemi 2.000 tonnum á ári. Eldið í máli nr. 43/2012 sé staðsett nálægt laxveiðiám í innanverðu Ísafjarðardjúpi og gæti mögulega haft sammögnunaráhrif með öðru fiskeldi í djúpinu. Ekkert af þessu eigi við um eldi í Dýrafirði. Þá sé ekki um að ræða mögulegt eldi á þorski í Dýrafirði. Sé ljóst að atvik í málunum séu ekki sambærileg og ólík niðurstaða Skipulagsstofnunar því ekki brot á jafnræðisreglunni.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að hann hafi stundað sjókvíaeldi í Dýrafirði síðan 2008 og það svæði sé skilgreint sem leyfilegt eldissvæði fyrir laxfiska með tilliti til fjarlægðar svæðisins frá laxveiðiám. Eldissvæðin í firðinum séu í tæplega 100 km fjarlægð frá næstu ám með villta laxastofna í Ísafjarðardjúpi. Fjarlægð milli eldissvæða og laxaáa skipti miklu máli um hvort strokulax leiti upp í árnar.  Því meiri sem fjarlægðin sé því minni líkur séu til þess að strokulax leiti í viðkomandi ár. Þetta sé ein lykilforsenda þess að laxeldi sé heimilt á Vestfjörðum og öðrum svæðum á Íslandi skv. auglýsingu landbúnaðarráðherra nr. 460/2004.  

Miklar framfarir hafi orðið í búnaði og vinnuaðferðum í sjókvíaeldi, sem hafi gert það að verkum að verulega hafi dregið úr því að eldisfiskur sleppi. Hér á landi sé unnið eftir norskum staðli sem skilgreini lágmarkskröfur á búnað miðað við þær aðstæður sem séu á sjókvíaeldisstað. Staðallinn tilgreini einnig verklag, viðhald og eftirlit. Opinber gögn frá Noregi sýni að á  sex árum, 2008-2013, sé fjöldi strokulaxa að meðaltali 0,21 stk. fyrir hvert framleitt tonn af eldislaxi. Það sé um fimmfalt minna en meðaltal sex ára þar á undan, 2002-2007. Unnið sé að því að bæta þennan árangur enn frekar og stefnt sé fullum fetum að „núllsleppingu“  laxfiska í sjókvíaeldi. Framkvæmdaraðili muni fylgja þessari þróun eftir og haga sínum fjárfestingum í búnaði og þróun eldisaðferða í samræmi við hana. Rannsóknir á atferli regnbogasilungs sem hafi verið sleppt úr sjókvíaeldi sýni allar að silungurinn haldi sig í grennd við sjókvíaeldið. Þetta hegðunarmynstur geri það að verkum að endurheimtur með netveiði séu háar, sem dragi enn frekar úr neikvæðum áhrifum eldissilungs.

Áhrif silungaeldis á náttúrulega stofna séu ekki mælanleg. Vísað sé til umsagnar Veiðimálastofnunar frá árinu 2009 varðandi áhyggjur kæranda um mögulega erfðablöndun milli regnbogasilungs og villtra fiskistofna. Þar komi fram að regnbogasilungur sé ekki náttúrulegur á Íslandi. Hann hafi verið í eldi hér sem og víða um lönd í áratugi en sé upprunninn frá vesturströnd N-Ameríku og hrygni að vori. Regnbogasilungur hafi ekki náð að fjölga sér á Íslandi. Regnbogasilungur valdi því ekki erfðablönduhættu eða hafi varanleg áhrif á íslenskar ár og vötn.

Þrátt fyrir margfalda aukningu í laxeldi hafi fjöldi strokulaxa í norskum ám minnkað markvisst undanfarin ár. Árlegt meðaltal eldislaxa í 110 ám í Noregi hafi verið á bilinu 5-15% frá árinu 2000. Fyrir aldamótin hafi hins vegar hlutfall eldislaxa í norskum ám oft greinst yfir 20%. Nýjar rannsóknir bendi til að þessar prósentutölur séu töluvert ofmat á fjölda strokulaxa í norskum ám. Fjöldi strokulaxa af heildarlaxagöngu í einstaka ám sé að jafnaði ekki yfir 5%.
   
Frá aldamótum hafi gífurlegum fjármunum í Noregi verið varið í rannsóknir til þess að finna og kortleggja breytingu á erfðamengi villtra laxa sem rekja megi til eldislaxa. Erfiðlega hafi gengið að finna þessi áhrif hjá norskum laxastofnum þrátt fyrir að um árabil hafi verið sett yfir 200 milljón laxaseiði í eldiskvíar. Laxastofnar á Vestfjörðum séu á ystu mörkum útbreiðslusvæðis tegundarinnar og umhverfið í ám sé mjög harðbýlt fyrir laxinn. Það sjáist best á miklum sveiflum í laxveiðiám milli ára. Það séu því ekki líkindi til þess að afkvæmi eldislaxa, sem hugsanlega nái að hrygna í Vestfirskum ám, nái að hafa áhrif á genamengi laxins hér fremur en í Noregi. Skýringin á litlum erfðaáhrifum frá eldislaxi á villta stofna sé sennilega afar slakur lífsþróttur afkvæma eldislaxa í náttúrunni sem hafi verið staðfest í rannsóknum á Írlandi og í Noregi. Það sé því langsótt að telja að íslenska laxastofninum sé ógnað.

Það sé þekkt að sjókvíaeldi laði að sér villtan fisk. Þrátt fyrir þessa nálægð villts fisks og eldisfisks séu engar beinar sannanir fyrir því að villtur fiskur beri smitsjúkdóma eldisfisks á milli og þrátt fyrir yfir 20 ára rannsóknir séu engar óyggjandi sannanir fyrir því að fiskeldi hafi neikvæð áhrif á villta fiskistofna. Náttúruleg skilyrði fyrir laxalús séu mun verri hérlendis en víða erlendis vegna lágs sjávarhita. Aðstæður í Dýrafirði og á núverandi eldissvæðum sé þannig að hitastig fari undir 2°C á vetrarmánuðum sem sé ekki lífvænlegt fyrir lúsina og stöðvi þroska hennar. Framkvæmdaraðili stundi umhverfisvænt eldi sem sé vottað af þriðja aðila. Í því felist að þéttleiki í eldiskvíunum sé lítill sem dragi verulega úr sjúkadómshættu. Auk þess séu ekki notuð lyf í eldinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum, sæta ákvarðanir skv. 6. gr. laganna um matsskyldu framkvæmdar, sem tilgreind er í flokki B og flokki C í 1. viðauka við lögin, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.   Í samræmi við þetta einskorðast athugun úrskurðarnefndarinnar við lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar. Tekur úrskurðarnefndin því aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar, en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að umrætt fyrirhugað fiskeldi skuli háð mati á umhverfisáhrifum verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt.

Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um áform sín um aukið eldi á regnbogasilungi, sem mögulega breytist í laxeldi síðar, úr 2.000 tonnum í 4.000 tonna ársframleiðslu við Haukadalsbót, Gemlufall og Eyrarhlíð í Dýrafirði. Kemur fram í gögnum framkvæmdaraðila að áhersla hafi verið lögð á eldi á regnbogasilungi en ef farið yrði í eldi á laxi yrði notast við laxastofn sem mun vera af norskum uppruna. Varð það niðurstaða Skipulagsstofnunar að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum, en því er haldið fram af hálfu kæranda að ekki megi láta hjá líða að gera slíkt mat. Er í því sambandi einkum bent á að verði af laxeldi aukist áhætta af erfðablöndun við villta stofna auk þess sem fyrirhugað eldi auki hættu á sjúkdómum og lúsasmiti hjá villtum laxfiskstofnum.

Í 1. gr. nefndra laga nr. 106/2000 er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Þau eiga m.a. að tryggja að áður en leyfi sé veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Jafnframt er það meðal annarra markmiða laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar. Í 1. viðauka við lögin eru m.a. taldar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og metið er í hverju tilviki með tilliti til eðlis, umfangs og staðsetningar hvort háðar skuli mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögunum. Falla þær framkvæmdir ýmist í flokk B eða flokk C. Kveðið er á um í 2. mgr. 4. gr. laganna að Skipulagsstofnun taki ákvörðun skv. 6. gr. um hvort framkvæmd í flokki B skuli háð mati á umhverfisáhrifum, en þeim flokki tilheyrir þauleldi á fiski þar sem ársframleiðsla er 200 tonn eða meiri og fráveita til sjávar, sbr. lið 1.11 í 1. viðauka, sem og allar breytingar eða viðbætur við framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B sem hafa þegar verið leyfðar, framkvæmdar eða eru í framkvæmd og kunna að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. lið 13.02 í nefndum viðauka. Við ákvörðun um matsskyldu framkvæmda sem falla í flokk B og C ber að fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru taldir þeir þættir sem líta ber til við matið. Er þar fyrst tiltekið að athuga þurfi eðli framkvæmdar, einkum með tilliti til stærðar og umfangs hennar, sammögnunaráhrifa með öðrum framkvæmdum, nýtingar náttúruauðlinda, úrgangsmyndunar, mengunar, ónæðis og slysahættu. Þá ber og að líta til staðsetningar framkvæmdar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar.

Hvorki heildstæð nýtingaráætlun né skipting fiskeldissvæða samkvæmt heimild í 5. gr. laga nr. 71/2008 um fiskeldi er til fyrir Dýrafjörð þar sem fyrirhuguðum eldiskvíum er ætlaður staður. Hins vegar bera niðurstöður líkanareikninga Hafrannsóknastofnunar með sér að burðarþol Dýrafjarðar sé varlega áætlað, m.t.t. varúðarnálgunar, allt að 10.000 tonn. Fyrirhuguð heildarnýting á ári er 4.000 tonn. Er í þessu sambandi rétt að árétta að Hafrannsóknastofnun er sérfróður aðili á þessu sviði og er stofnuninni ætlað það hlutverk í framangreindum lögum að framkvæma burðarþolsmat, ellegar skuli slíkt mat framkvæmt af aðila sem ráðuneyti samþykkir að fenginni bindandi umsögn Hafrannsóknastofnunar, sbr. 1. mgr. 8. gr. og 5. mgr. 10. gr. laganna.

Ljóst er að auknum lífmassa fylgja auknar líkur á sjúkdómum. Í niðurstöðu sinni tekur Skipulagsstofnun enda fram að hún telji að helstu neikvæðu áhrif fyrirhugaðrar stækkunar á fiskeldi í Dýrafirði kunni að felast í aukinni hættu á að sjúkdómar og laxalús berist í villta laxfiska. Sömuleiðis tekur stofnunin fram að ef eldisfiskur sleppi í einhverju mæli úr kvíum og rati upp í ár kunni það að hafa neikvæð áhrif. Skipulagsstofnun taldi framangreind áhrif hins vegar ekki umtalsverð og tekur m.a. fram að frá Dýrafirði sé langt í næstu gjöfulu laxveiðiár auk þess að vísa til staðla og viðbragðsáætlunar sem framkvæmdaraðili áformi að fylgja. Eins er bent á álit Matvælastofnunar og Fiskistofu. Í umsögn Fiskistofu er áréttað að ekki sé talið að umrædd aukning muni auka til muna hættuna á mögulegri slysasleppingu eða auka mikið hættu á sjúkdóms- eða sníkjudýratengdum vandamálum, umfram það sem nú þegar sé fyrir hendi vegna fiskeldis á svæðinu. Þá kemur fram í umsögn Matvælastofnunar að ekki sé þörf á umhverfismati um þá þætti sem snúi að sjúkdómum. Vegi þyngst að mati Matvælastofnunar þau rök að eldi af umræddri stærðargráðu sé ekki talið hafa neikvæð áhrif á heilbrigði og viðgang þeirra villtu fiskistofna sem fyrir séu í vistkerfi Dýrafjarðar og nágrennis.

Við töku hinnar kærðu ákvörðunar lágu m.a. fyrir Skipulagsstofnun umsagnir sérfróðra aðila, eins og áður hefur verið lýst. Þá var meðferð málsins ekki fram haldið fyrr en fyrir lágu frekari gögn um burðarþol Dýrafjarðar. Loks ber meðferð málsins með sér að stofnunin aflaði gagna auk þess að leggja mat á gögn framkvæmdaraðila. Verður ekki annað séð af öllu framangreindu en að við ákvörðunartöku Skipulagsstofnunar hafi verið farið eftir viðmiðum í 2. viðauka við lög um mat á umhverfisáhrifum. Þá verður og ekki annað ráðið en að niðurstaða stofnunarinnar, þess efnis að fyrirhugað aukið fiskeldi sé ekki líklegt til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð slíku mati, hafi verið réttmæt og studd nægilegum gögnum og rökum.

Loks skal á það bent að í kærumáli til úrskurðarnefndarinnar nr. 43/2012 var um að ræða eldi af annarri stærðargráðu sem tók til fleiri tegunda, eða á þorski, laxi og regnbogasilungi. Var eldið staðsett í Ísafjarðardjúpi þar sem fyrir voru önnur eldissvæði auk þess sem þar er að finna laxveiðiár. Atvik í málunum eru því ekki sambærileg. Þannig er framkvæmdaraðili einn með leyfi til fiskeldis í Dýrafirði auk þess sem fjörðurinn og fyrirhugað eldi er í miklum mun meiri fjarlægð frá laxveiðiám en áskilið er í gr. 4.2 í reglugerð nr. 105/2000 um flutning og sleppingar laxfiska og varnir gegn fisksjúkdómum og blöndun laxastofna.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki séð að hin kærða ákvörðun sé haldin neinum þeim annmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu um ógildingu hennar af þeim sökum hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 8. júlí 2015 um að aukið eldi á regnbogasilungi eða laxi um 2.000 tonn í 4.000 tonna ársframleiðslu í Dýrafirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Geir Oddsson           

10/2014 Ísfélag Vestmannaeyja – Þórshöfn

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 23. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 10/2014, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita Ísfélagi Vestmannaeyja hf. – Þórshöfn áminningu og krefja það um úrbætur, en ákvörðunin var birt með bréfi, dags. 13. janúar 2014.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. febrúar 2014, er barst nefndinni 12. s.m., kærir Ísfélag Vestmannaeyja hf., Strandvegi 26, Vestmannaeyjum, þá ákvörðun Umhverfisstofnunar að veita Ísfélagi Vestamannaeyja hf. – Þórshöfn áminningu. Áminningin var birt kæranda með bréfi, dags. 13. janúar 2014, og var þar veittur frestur til úrbóta til og með 28. janúar 2014. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um frestun réttaráhrifa ákvörðunarinnar, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar, uppkveðnum 12. maí 2014.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 11. apríl 2014.

Málavextir: Kærandi er útgerðarfyrirtæki og rekur m.a. fiskimjölsverksmiðju á Þórshöfn og í Vestmannaeyjum. Í þeirri starfsemi notar kærandi svonefnda verksmiðjuolíu sem er olíublanda búin til úr svartolíu og notaðri olíu sem hefur verið hreinsuð og síuð. Umhverfisstofnun tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 13. mars 2013, að olían teldist til úrgangsolíu samkvæmt reglugerð um olíuúrgang nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011. Svo heimilt væri að brenna hana þyrfti að uppfylla skilyrði reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, auk þess að sækja þyrfti um nýtt starfsleyfi hjá Umhverfisstofnun fyrir sambrennslu samkvæmt þeirri reglugerð.

Með bréfi, dags. 10. maí 2013, tilkynnti Umhverfisstofnun kæranda að þar sem ekki hefði borist staðfesting á því að brennslu úrgangsolíu hefði verið hætt eða áætlun um hvernig ákvæði reglugerðar nr. 739/2003 skyldu uppfyllt, áformaði stofnunin að áminna kæranda skv. 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Eftir nokkur samskipti kæranda og stofnunarinnar veitti hún honum áminningu með bréfi, dags. 13. janúar 2014, og var þar gefinn frestur til úrbóta til og með 28. s.m. Hefur kærandi kært ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður kröfu sína um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi byggja í fyrsta lagi á því að formgallar hafi verið á málsmeðferð Umhverfisstofnunar við töku ákvörðunarinnar. Annars vegar hafi stofnunina skort valdbærni  og hins vegar hafi hún brotið rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar. Í annan stað sé krafan á því byggð að efnislegir annmarkar hafi verið á ákvörðun stofnunarinnar og feli hún í sér brot gegn lögfestum og ólögfestum meginreglum stjórnsýsluréttarins, svo sem lögmætisreglu og meðalhófsreglu.

Umhverfisstofnun hafi með töku ákvörðunar sinnar farið út fyrir málefnaleg valdmörk sín. Í lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir komi fram að lögin taki til hvers konar starfsemi og framkvæmda hér á landi, en í einstökum ákvæðum þeirra séu valdmörk hinna ýmsu stofnanna sem undir lögin heyri ákvörðuð sérstaklega. Í 13. gr. laganna segi að heilbrigðisnefndum beri að sjá um að framfylgt sé ákvæðum laganna og reglugerða settum samkvæmt þeim. Samkvæmt 6. gr. gefi Umhverfisstofnun út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft geti í för með sér mengun og talinn sé upp í fylgiskjali með lögunum. Í 1. mgr. 18. gr. segi að Umhverfisstofnun annist eftirlit með framkvæmd laganna og sé stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni er undir lögin falli. Í 2. mgr. segi að stofnunin hafi yfirumsjón með heilbrigðiseftirliti og skuli sjá um vöktun og að rannsóknir þessu tengdar séu framkvæmdar. Í 3. mgr. 18. gr. komi fram að stofnunin fari aðeins með beint eftirlit að lög mæli svo fyrir eða ráðherra ákveði það með reglugerð að höfðu samráði við stofnunina þegar um landið allt er að ræða og við heilbrigðisnefndir þegar um einstök svæði sé að ræða. Í athugasemdum við greinina í frumvarpi til laga nr. 7/1998 segi um eftirlitshlutverk þetta að stofnuninni sé ekki ætlað að vera yfirvald í þeim skilningi að hún fari með eftirlitsmál en eftirlitið verði í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaganna. Með vísan til framangreinds byggi kærandi á því að valdmörk Umhverfisstofnunar takmarkist við útgáfu starfsleyfa og eftirlit vegna þeirra og takmarkist eftirlitshlutverk stofnunarinnar að öðru leyti við að heilbrigðisnefndir framfylgi ákvæðum laganna. Þannig falli það utan valdmarka stofnunarinnar að hafa beint eftirlit með því hvernig olía sé notuð í starfsemi kæranda.

Einnig hafi Umhverfisstofnun brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Markmið þeirrar reglu sé að tryggja að stjórnvaldsákvarðanir verði bæði löglegar og réttar og teljist vera hluti öryggisreglna stjórnsýsluréttarins. Brot gegn slíkri reglu leiði til þess að fella beri ákvörðunina úr gildi.

Kærandi telji ákvörðun Umhverfisstofnunar um áminningu ekki hafa lagastoð þar sem hún byggi á lögskýringu sem ekki fái staðist. Byggi afstaða stofnunarinnar á því að endurunnin olía sem kærandi noti í atvinnustarfsemi sinni sé í raun úrgangsolía í skilningi reglugerðar nr. 809/1999 um olíuúrgang, sbr. breytingareglugerð nr. 673/2011. Sú niðurstaða byggist á því að hreinsunarferli Olíudreifingar hf. uppfylli ekki skilyrði til endurmyndunar olíuúrgangs svo til verði grunnolía sbr. reglugerð nr. 809/1999. Í bréfi stofnunarinnar, dags. 16. desember 2013, komi fram að einungis sé heimilt að brenna úrgangsolíu í starfsstöðvum sem hafi starfsleyfi sem uppfylli kröfur um sambrennslu samkvæmt reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs.

Engin skilyrði fyrir endurmyndun olíuúrgangs sé að finna í reglugerð nr. 809/1999. Eina efnislega lýsingin á því ferli sem fylgja beri sé að finna í eftirfarandi skilgreiningu á hugtakinu „endurmyndun“ í 3. gr. reglugerðarinnar eins og henni hafi verið breytt með 2. gr. reglugerðar nr. 673/2011: „Endurmyndun er aðgerð til að framleiða grunnolíu með hreinsun á olíuúrgangi, einkum með því að fjarlægja úr henni óhreinindi, oxaðar afurðir og íblöndunarefni.“ Af þessu sé ljóst að við mat á því hvort að olíuúrgangur hafi verið nægilega hreinsaður þurfi að meta í hverju hreinsunarferli Olíudreifingar felist.

Það hreinsunarferli sem Olíudreifing hf. framkvæmi á úrgangsolíu hreinsi olíuna og fjarlægi úr henni óhreinindi, oxaðar afurðir og íblöndunarefni. Í því sambandi vísist til skýrslu Olíudreifingar, „Verksmiðjuolía – mars 2011“, þar sem fram komi að úrgangsolían fari í gegnum hreinsunarferli þar sem olían sé hituð og leidd í gegnum þriggja fasa skilvindu (decanter). Þar sé megnið af vatninu og föstu efnunum skilið frá fyrir skilvindu, sem taki síðasta fría vatnið og þau föstu efni sem náist með. Í skýrslunni komi enn fremur fram að endurunnin olía, verksmiðjuolía, hafi sömu eiginleika og svartolía 380. Þá hafi endurunnin olía minna magn brennisteins og minni seigju samanborið við svartolíu 380, en það leiði til þess að ekki þurfi að hita endurunna olíu eins mikið og svartolíu 380. Leiði notkun endurunninnar olíu því til orkusparnaðar samanborið við notkun á svartolíu 380.

Eftir að kæranda hafi verið veitt áminning af hálfu Umhverfisstofnunar hafi verið óskað eftir því að Olíudreifing hf. gerði nánari grein fyrir því hreinsunarferli sem notað væri við framleiðslu endurunninnar olíu. Hafi verið útbúin skýrslan „Verksmiðjuolía – febrúar 2014“. Í skýrslunni komi fram að úrgangsolía fari í gegnum sambærilegt vinnsluferli og áður, þar sem vatni sé tappað undan og olían leidd í gegnum þriggja fasa skilvindu sem skilji megnið af vatni og föstum óhreinindum frá olíunni. Eins og fram komi í kaflanum „Árangur hreinsunarinnar“ þá sé nánast allt frítt vatn fjarlægt úr olíunni. Þá leiði hreinsunarferlið til þess að um 86% af föstum efnum úrgangsolíunnar séu fjarlægð, en þau samanstandi af málmögnum, ösku, oxuðum efnum og íblöndunarefnum. Í skýrslunni komi fram að í nánast öllum tilvikum sé minna af skaðlegum efnum í verksmiðjuolíu samanborið við svartolíu 380. Þegar umræddri verksmiðjuolíu hafi verið blandað við svartolíu 380 lækki þessi gildi enn frekar og mun minna losni af skaðlegum efnum í andrúmsloftið við brennslu slíkrar blandaðrar olíu samanborið við brennslu svartolíu 380.

Engin skýr fyrirmæli liggi fyrir í lögum og reglugerðum um meðhöndlun úrgangsolíunnar önnur en framangreind skilgreining á „endurmyndun“ og staðfest hafi verið að hreinsunarferlið fjarlægi 86% af föstum efnum úr úrgangsolíunni. Í því ljósi byggi kærandi á því að margnefndur olíuúrgangur sé hreinsaður nægjanlega þar sem óhreinindi, oxaðar afurðir og íblöndunarefni séu fjarlægð í hreinsunarferli fyrirtækisins.

Samkvæmt rannsóknarreglunni hafi hvílt sú skylda á Umhverfisstofnun að rannsaka nánar þær upplýsingar sem fram hafi komið frá Olíudreifingu hf., m.a. þá fullyrðingu að olían sé í sumum tilvikum betri til notkunar í iðnaði en svartolía 380. Miklir fjárhagslegir hagsmunir séu í húfi fyrir kæranda og það leiði til enn strangari skyldu á hendur stjórnvaldinu til að rannsaka öll atriði málsins til hlítar.

Kærandi kveður Umhverfisstofnun byggja ákvörðun sína á lögum og reglugerðum sem vísi til úreltra tilskipana ESB. Í 5. gr. reglugerðar nr. 673/2011, sem hafi breytt skilgreiningu á áður nefnda hugtakinu „endurmyndun“, komi fram að reglugerðin sé sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998 og með hliðsjón af 26. tölul. XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun ráðsins nr. 75/439/EBE, sbr. 87/101/EBE). Nefndar tilskipanir hafi verið felldar úr gildi með tilskipun nr. 2008/98/EB. Nýja tilskipunin sé frábrugðin fyrri tilskipunum að því leyti að innleidd sé ný forgangsröðun á endurnýtingu úrgangs, sbr. 4. gr. hennar. Í hinni nýju tilskipun sé enn fremur að finna ákvæði í 6. gr. sem kveði á um hvenær úrgangsfasa sé lokið, m.ö.o. hvenær úrgangur breytist í vöru. Í ákvæðinu segi að sérstakur úrgangur af tilteknu tagi hætti að vera úrgangur þegar hann hafi farið í gegnum endurnýtingaraðgerð, m.a. endurvinnslu, og uppfylli þær sértæku viðmiðanir sem þróa skuli í samræmi við eftirfarandi skilyrði:

a) efnið eða hluturinn séu yfirleitt notuð í sérstökum tilgangi,
b) markaður eða eftirspurn sé eftir slíku efni eða hlut,
c) efnið eða hluturinn uppfylli tæknilegu kröfurnar fyrir þennan sérstaka tilgang og samræmist þeirri löggjöf og þeim stöðlum sem gilda um vörur, og
d) notkun á efninu eða hlutnum hafi ekki neikvæð áhrif fyrir umhverfið eða heilbrigði manna þegar til heildarinnar sé litið.

Viðmiðanir skuli m.a. felast í viðmiðunarmörkum fyrir mengunarvalda, ef nauðsyn krefji, og í þeim skuli taka tillit til allra hugsanlegra neikvæðra umhverfisáhrifa af efninu eða hlutnum.

Textaskýring þessa ákvæðis leiði til þeirrar niðurstöðu að sú olía sem kærandi noti í atvinnustarfsemi sinni fullnægi ofangreindum skilyrðum til að hafa lokið úrgangsfasa. Þannig hafi úrgangsolía farið í gegnum hreinsunarferli sem geri það að verkum að til verði olía sem nýta megi í stað svartolíu 380. Óhætt sé að fullyrða að hér á landi sé markaður fyrir nefnda olíu og að notkun hennar hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfið eða heilbrigði manna þegar á heildina sé litið. Ef olían sé ekki notuð hér á landi sé hún flutt með skipum til Norðurlanda, þar sem hún sé seld og brennd í samskonar kötlum og hjá kæranda. Við flutning olíunnar með skipum frá landinu þurfi að brenna verulegu magni af svartolíu með tilheyrandi mengun. Íslenska ríkið hafi ekki innleitt tilskipun 2008/98/EB. Komin sé því upp sú staða að EES-réttur geri ráð fyrir því að skilgreint verði hvenær úrgangur teljist vara en íslenskan rétt skorti með öllu slíkar reglur.

Umhverfisstofnun hafi með ákvörðun sinni brotið gegn óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar Evrópuréttarins. Í 6. gr. EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, komi m.a. fram að við framkvæmd og beitingu ákvæða samningsins beri að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóla Evrópubandalaganna. Við gildistöku laga nr. 2/1993 hafi legið fyrir nærri fjögurra áratuga dómaframkvæmd Evrópudómstólsins um það hvernig haga skyldi stjórnsýslu aðildarríkja Evrópubandalaganna, nú ESB, þegar teknar væru stjórnvaldsákvarðanir byggðar á reglum sem innleiddar hefðu verið á grundvelli reglugerða og tilskipanna ESB. Í umræddri 6. gr. felist enn fremur að á stjórnvöldum hvíli a.m.k. sú skylda, þegar bent hafi verið á hvernig stjórnsýsluframkvæmd sé háttað í öðru aðildarríki ESB eða EES-ríki, að rannsaka nánar hvað í henni felist. Kærandi telji að Umhverfisstofnun hafi ekki sinnt þessari rannsóknarskyldu sinni. Í því sambandi sé vísað til þess að kærandi hafi afhent stofnuninni sérstakt leiðbeiningarrit þar sem gerð sé grein fyrir stjórnsýsluframkvæmd í Englandi, Wales og Norður-Írlandi. Í ritinu komi fram að söfnun úrgangsolíu og endurvinnsla hennar leiði til þess að unnt sé að nota hana á ný, m.ö.o. virðist meðferð endurunninnar olíu þar vera með allt öðrum hætti en hér á landi. Í ljósi áður tilvitnaðra meginreglna EES-samningsins hafi Umhverfisstofnun borið skylda til þess að rannsaka nánar hvað í þessari bresku stjórnsýsluframkvæmd felist. Ljóst sé að nefnd framkvæmd byggi á tilskipun 2008/98/EB.

Með ákvörðun sinni hafi Umhverfisstofnun brotið gegn meðalhófsreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Efni hinnar kærðu ákvörðunar hafi byggst á mati Umhverfisstofnunar að verulegu leyti og hafi stofnuninni borið að velja þau úrræði sem vægari væru til að ná sama markmiði. Við það mat beri m.a. að líta til þess að stofnuninni hafi borið að leiðbeina kæranda um hvernig hann gæti uppfyllt umrædd skilyrði laga og reglugerða og kanna nánar hvaða efni losni út í andrúmsloftið við brennslu blandaðrar olíu og eftir atvikum að setja viðmiðunarreglur þannig að ekki þyrfti að flytja úrgangsolíu úr landi með tilheyrandi neikvæðum afleiðingum fyrir umhverfið. Auk þess varði málið atvinnufrelsi kæranda og framleiðanda olíunnar, svo og eignarrétt þeirra að vörum sem notaðar séu í atvinnustarfsemi þessara aðila. Umræddir hagsmunir njóti verndar 72. og 75. gr. stjórnarskrár Íslands nr. 33/1944.

Málsrök Umhverfisstofnunar: Umhverfisstofnun bendir á að kærandi hafi fengið góðan tíma til að bregðast við kröfum stofnunarinnar á öllum stigum málsins. Hann hafi hvorki orðið við kröfum um að hætta að brenna umræddan olíuúrgang né viljað staðfesta að hann muni hætta að brenna olíuúrganginn. Hann hafi heldur ekki gripið til aðgerða til að koma til móts við kröfur stofnunarinnar um að sækja um sambrennsluleyfi til að geta brennt olíuúrganginn með löglegum hætti, þar sem þá sé brugðist við hættu á mengun með því að rekstraraðili sé krafinn um uppsetningu viðeigandi mengunarvarnabúnaðar. Kærandi hafi ákveðið að tjá sig ekki við stofnunina þegar áform um áminningu hafi verið tilkynnt með bréfi dags., 16. desember 2013.

Varðandi fullyrðingu kæranda um að Umhverfisstofnun hafi farið út fyrir málefnaleg valdmörk sín með ákvörðun sinni segi í 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum samkvæmt ákvæðum laganna, geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi beitt tilgreindum aðgerðum, þ.á m. veitt áminningu. Í 2. málsl. 2. mgr. 28. gr. laganna segi að í þeim tilvikum þar sem Umhverfisstofnun fari með eftirlit fari um valdsvið og þvingunarúrræði stofnunarinnar í samræmi við VI. kafla laganna. Ljóst sé því að stofnunin hafi heimildir til að beita þvingunarúrræðum, þ.á m. áminningu, til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum eða eigin fyrirmælum. Enn fremur segi í 34. gr. reglugerðar nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, að til þess að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt reglugerðinni geti heilbrigðisnefnd og heilbrigðisfulltrúi, svo og Hollustuvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, í þeim tilvikum sem stofnunin fari með eftirlit, beitt ákvæðum VI. kafla laga nr. 7/1998, eins og við geti átt hverju sinni.

Í 6. gr. laga nr. 7/1998 segi, eins og kærandi bendi réttilega á, að Umhverfisstofnun gefi út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem haft geti í för með sér mengun og talinn sé upp í fylgiskjali 1 með lögunum. Enn fremur segi í 3. mgr. 18. gr. laganna að stofnunin fari því aðeins með beint eftirlit að lög mæli svo fyrir eða ráðherra ákveði það með reglugerð. Í 3. málsl. 4. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit, segi að telji eftirlitsaðili að ekki sé fylgt ákvæðum laga, reglugerða eða starfsleyfa geti eftirlitsaðili framfylgt þvingunarúrræðum sem fram komi í IX. kafla reglugerðarinnar. Í 1. mgr. 13. gr. sömu reglugerðar segi að Hollustuvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, hafi beint mengunarvarnaeftirlit með atvinnurekstri sem talinn sé upp í fylgiskjali 1 með reglugerðinni, þ.á m. fiskimjölsverksmiðjum skv. 1. lið a og b. Í 1. mgr. 27. gr. reglugerðarinnar segi að telji eftirlitsaðili, sbr. 4. mgr. 12. gr., að ekki sé fylgt ákvæðum laga, reglugerðar eða starfsleyfis geti hann veitt rekstraraðila skriflega áminningu og krafist úrbóta innan tiltekins frests, ásamt öðrum aðgerðum sem lýst sé í IX. kafla reglugerðarinnar. Reglugerð nr. 786/1999 sé sett m.a. samkvæmt ákvæðum 5. og 27. gr. laga nr. 7/1998. Einnig sé vert að benda á að Umhverfisstofnun hafi farið fram á það að kærandi sæki um starfsleyfi til sambrennslu, sbr. reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs.

Samkvæmt framangreindu sé það mjög skýrt að Umhverfisstofnun fari með beint eftirlit með starfsemi fiskimjölsverksmiðja, hvort sem eftirlitið sé með einstökum ákvæðum starfsleyfis eða því hvort starfsemi uppfylli lög og reglur sem í landinu gildi og séu á forræði stofnunarinnar.

Varðandi fullyrðingu kæranda um að Umhverfisstofnun hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar, m.a. á grundvelli þess að stofnunin hafi ekki metið í hverju hreinsunarferli framleiðanda felist, þá hafi stofnunin haft skýrslu fyrirtækisins undir höndum allt frá árinu 2011. Umhverfisstofnun hafi því kynnt sér framleiðsluferlið með greinargóðum hætti og geri ekki athugasemdir í meginatriðum við þær tæknilegu upplýsingar sem fram komi í skýrslunni. Þær upplýsingar sem hafi komið frá kæranda hafi verið teknar til skoðunar og mats og hafi stofnunin kappkostað að taka vandaða ákvörðun á öllum stigum málsins.

Eins og Umhverfisstofnun hafi tjáð kæranda, sé afstaða stofnunarinnar varðandi umræddan blandaðan olíuúrgang skýr. Í 10. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 809/1999 um olíuúrgang segi að olíuúrgangur sé hvers konar smurnings- og iðnaðarolíur sem orðið hafi óhæfar til þeirrar notkunar sem þær voru upphaflega ætlaðar, þ.á m. notuð brennsluolía fyrir vélar og gírkassaolía, svo og smurolía, hverflaolía og vökvaþrýstiolía. Enn fremur segi að olíuúrgangur sé spilliefni. Í 11. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segi að spilliefni sé úrgangur sem merktur sé með stjörnu * í I. viðauka með reglugerð nr. 184/2002 um skrá yfir spilliefni og annan úrgang, og einnig annar úrgangur sem hafi einn eða fleiri eiginleika sem tilteknir séu í III. viðauka með tilvitnaðri reglugerð. Í 3. gr. reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs segi að spilliefni sé úrgangur sem innhaldi efni sem haft geti mengandi eða óæskileg áhrif á umhverfið hvort sem þau séu óblönduð eða hluti af öðrum efnum, vörum eða umbúðum sem komist hafi í snertingu við spilliefni. Í 3. málsl. 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011, segi að endurmyndun sé aðgerð til að framleiða grunnolíu með hreinsun á olíuúrgangi, einkum með því að fjarlægja úr henni óhreinindi, oxaðar afurðir og íblöndunarefni. Í 5. mgr. 3. gr. sömu reglugerðar segi að grunnolía sé jarðefnaolía og/eða unnin olía, synþetísk, sem notuð sé sem grunnþáttur fyrir margvíslegar olíuvörur, svo sem smurolíur, vélarolíur, iðnaðarolíur, gírolíur og feiti. Þótt olíuúrgangurinn sem deilt sé um í málinu hafi farið í gegnum hreinsunarferli Olíudreifingar hf. hafi hann ekki farið í gegnum það ferli sem gerð sé krafa um til endurmyndunar í grunnolíu, sbr. tilvitnað reglugerðarákvæði. Umhverfisstofnun telji því að hin umdeilda olía verði áfram olíuúrgangur og flokkist sem spilliefni, þar með talin blanda olíuúrgangsins við svartolíu.

Þessi afstaða stofnunarinnar sé staðfest með nýrri skýrslu Olíudreifingar hf. frá því í febrúar 2014, þar sem segi m.a. að um 86% af föstum efnum sem séu í olíuúrganginum séu fjarlægð í hreinsunarferlinu en þau föstu efni samanstandi af málmögnum, ösku og öðrum efnum, svo sem oxuðum efnum og íblöndunarefnum. Einnig segi í skýrslunni að verið sé að skoða að fjarlægja meira af efnum, svo sem þungmálmum og kalsíum, en það sé á tilraunastigi. Eins og áður segi þá komi fram í 3. málsl. 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011, að endurmyndun sé aðgerð til að framleiða grunnolíu með hreinsun á olíuúrgangi, einkum með því að fjarlægja úr henni óhreinindi, oxaðar afurðir og íblöndunarefni. Það sé ekki gert nema að takmörkuðu leyti í ferli Olíudreifingar hf. Einnig sé ljóst að verksmiðjuolía Olíudreifingar hf. sé ekki notuð sem grunnþáttur fyrir margvíslegar olíuvörur, sbr. áður tilvitnaða 5. mgr. 3. gr. sömu reglugerðar. Loks sé mikilvægt að líta til þess að ekki sé búið að innleiða ítarlegar reglur og skilyrði um lok úrgangsfasa, sbr. tilskipun 2008/98/EB.

Varðandi niðurstöður mælinga á verksmiðjuolíu, sé ekki hægt að setja fram niðurstöður slíkra mælinga sem fastar niðurstöður mælinga á öllum olíuúrgangi sem notaður sé yfir ákveðið tímaskeið, þar sem úrgangurinn komi úr ýmsum áttum, t.d. frá smurstöðvum og skipum. Því hljóti samsetning viðkomandi úrgangs að vera mismunandi.

Í reglugerð nr. 739/2003 sé gert ráð fyrir því að heimilt sé að nota olíuúrgang í sambrennslustöðvum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum um m.a. rekstrarskilyrði við brennsluna, mælingar á losun mengandi efna og losunarmörk. Í 5. gr. reglugerðarinnar segi að rekstur sorpbrennslu- og sambrennslustöðva sé starfsleyfisskyldur atvinnurekstur og samkvæmt 6. gr. skuli sækja um starfsleyfi til Umhverfisstofnunar. Því sé ljóst að ekki sé heimilt að brenna olíuúrgang og spilliefni nema rekstraraðili hafi nefnt starfsleyfi og uppfylli ákvæði reglugerðarinnar að öðru leyti.

Varðandi þau málsrök kæranda að ákvörðun Umhverfisstofnunar byggi á lögum og reglugerðum sem vísi til úreltra tilskipana ESB bendi stofnunin á að hún sé stjórnsýslustofnun sem fylgi hefðbundinni stjórnsýsluframkvæmd í störfum sínum. Við ákvarðanir sínar líti stofnunin fyrst og fremst til íslenskra laga og reglugerða og EES-réttar. Á þessum grunni hafi stofnunin komist að því að brennsla þeirrar olíu sem um sé deilt sé óheimil án sambrennsluleyfis, þar sem um sé að ræða olíuúrgang, sbr. það sem að framan sé rakið.

Því sé hafnað að stofnunin hafi við meðferð málsins brotið gegn því sem kærandi kalli óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttar Evrópuréttarins. Stofnunin þekki vel til notkunar úrgangshugtaksins, m.a. hugtaksins olíuúrgangur, í ríkjum á hinu Evrópska efnahagssvæði, þróun þess og mögulega innleiðingu tilskipunar 2008/98/EB í íslenskan rétt, og hafi það sannarlega verið eitt af þeim atriðum sem stofnunin hafi skoðað við mat og ákvörðun sína í málinu.

Umhverfisstofnun geri sér grein fyrir að í 10. gr. frumvarps til breytinga á lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs sé fjallað um hugtakið „lok úrgangsfasa“ (end of waste) þar sem sett séu fram almenn skilyrði þess að stjórnvöld geti ákveðið að setja upp sérstök viðmið fyrir hvern flokk úrgangs fyrir sig og hvernig sá flokkur geti hætt að teljast til úrgangs og orðið að vöru að uppfylltum skilyrðum. Það sé því nauðsynlegt, en ekki nægilegt, að innleiða greinina um lok úrgangsfasa svo að kærandi geti litið svo á að olíuúrgangur sem hann brenni uppfylli þau almennu skilyrði sem sett séu um hvernig úrgangsflokkurinn olíuúrgangur geti hætt að vera úrgangur. Til þess að svo megi verða sé nauðsynlegt að Evrópusambandið ákveði slík sérstök viðmið, sem gildi innan sambandsins og þá á Evrópska efnahagssvæðinu eftir innleiðingu slíkrar gerðar, eða að íslensk stjórnvöld geri það sjálf með reglugerð með stoð í nýjum ákvæðum um lok úrgangsfasa, eftir að þau lög hafi tekið gildi. Umhverfisstofnun taki því ekki undir að fyrirhuguð innleiðing tilskipunarinnar ein og sér veiti kæranda rétt til að líta á olíuúrgang sem vöru en ekki úrgang.

Kærandi haldi því fram að ástand mála hér á landi sé með allt öðrum hætti en tíðkist í öðrum löndum á hinu Evrópska efnahagssvæði og vísi þar til stjórnsýsluframkvæmdar í Englandi, Wales og Norður-Írlandi. Varðandi þá framkvæmd hafi framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gert alvarlegar athugasemdir við viðmið þau fyrir lok úrgangsfasa fyrir olíuúrgang sem þar séu notuð. Í minnisblaði framkvæmdastjórnarinnar nr. 13/375, dags. 25. apríl 2013, sé lýst áhyggjum af því að nefnd viðmið geti leitt til þess að vissir mengunarvaldar, sem fari út í umhverfið við brennslu, séu enn í olíunni og skapi hættu. Fari framkvæmdarstjórnin fram á að viðmiðunum verði breytt.

Þó að Umhverfisstofnun hafi tekið fullt tillit til þeirra gagna sem kærandi hafi fært fram hafi stofnunin metið það svo að nefnd stjórnsýsluframkvæmd í Bretlandi gæti ekki breytt niðurstöðu stofnunarinnar, sem byggi á viðurkenndum réttarheimildum, einkum íslenskum lögum og reglugerðum, að teknu tilliti til meginreglna um þjóðréttarlegar skuldbindingar.

Varðandi fullyrðingu kæranda um að Umhverfisstofnun hafi brotið gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar sé ljóst að stofnunin hafi tekið ákvörðun sína að vel athuguðu máli, með hliðsjón af þeim skýru markmiðum að framfylgja lögum og reglugerðum í landinu og stöðva brennslu olíuúrgangs án tilskilinna mengunarvarna. Stofnunin hafi veitt kæranda fresti og gætt andmælaréttar hans á öllum stigum málsins. Áminning sé vægasta úrræðið sem heimilað sé að beita samkvæmt VI. kafla laga nr. 7/1998 og nauðsynlegur undanfari þess að frekari þvingunarúrræðum sé beitt gerist þess þörf, brot séu ítrekuð og/eða alvarleg. Ákvörðun Umhverfisstofnunar um að veita kæranda áminningu hafi því verið hófleg og rökrétt.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um heimild kæranda til brennslu olíuafurðar sem kæranda og Umhverfisstofnun greinir á um hvort standist ákvæði reglugerðar um olíuúrgang nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011, og reglugerðar um brennslu úrgangs nr. 739/2003, sbr. reglugerð nr. 294/2012, sem settar eru með heimild í 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Hefur Umhverfisstofnun veitt kæranda áminningu vegna brennslu á úrgangsolíu á starfsstöð hans í Vestmannaeyjum, en kærandi heldur því fram að ekki sé um úrgangsolíu að ræða.

Í 1. mgr. 18. gr. laga nr. 7/1998 kemur fram að Umhverfisstofnun annist eftirlit með framkvæmd laganna og sé stjórnvöldum til ráðuneytis um málefni er undir lögin falli. Í 3. mgr. sömu greinar segir að stofnunin fari því aðeins með beint eftirlit að lög mæli svo fyrir eða ráðherra ákveði það með reglugerð að höfðu samráði við stofnunina þegar um landið allt er að ræða. Í málinu er tekist á um framkvæmd sem deilt er um hvort standist áðurnefndar reglugerðir, sem settar eru með heimild í 5. gr. laganna. Í 4. gr. reglugerðar nr. 809/1999 um olíuúrgang kemur fram að heilbrigðisnefndum undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins og Hollustuvernd ríkisins beri að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt. Hefur Umhverfisstofnun tekið við hlutverki Hollustuverndar ríkisins, sbr. lög nr. 90/2002 um Umhverfisstofnun. Í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs segir að Umhverfisstofnun annist eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar. Af framangreindu er ljóst að stofnunin fer með beint eftirlit með framkvæmd þeirri sem um er deilt í málinu í samræmi við áðurnefnda 18. gr. laga nr. 7/1998. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laganna fer um valdsvið og þvingunarúrræði stofnunarinnar í samræmi við VI. kafla laganna og skv. 1. mgr. 26. gr. er veiting áminningar eitt þeirra þvingunarúrræða sem stofnuninni er heimilt að beita til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögunum, reglugerðum, samþykktum sveitarfélaga eða eigin fyrirmælum. Umhverfisstofnun var því bær að lögum til að taka hina kærðu ákvörðun.

Forveri úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hefur fjallað um þá olíu sem hér er um deilt. Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir kvað upp úrskurð 10. nóvember 2011 í kærumáli nr. 12/2011 þar sem felld var úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar um að verksmiðjuolía félli í flokk úrgangsolíu og að um brennslu hennar færi samkvæmt ákvæðum um sambrennslu í reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs. Byggðist sú niðurstaða úrskurðarnefndarinnar á því að framleiðsla olíunnar fæli í sér aðgerð til að hreinsa úrgang svo hann eða hluti hans kæmist í svipað eða sama form og hann hefði verið í upphaflega. Væri þar með um endurmyndun að ræða samkvæmt skilgreiningu þágildandi 4. málsl. 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 809/1999 um olíuúrgang og jafnframt að verksmiðjuolían sem yrði til við endurmyndunina væri grunnolía, sbr. þágildandi 5. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar.

Með reglugerð nr. 673/2011 var áðurgreindum skilgreiningum í reglugerð nr. 809/1999 breytt. Grunnolía er nú skilgreind sem jarðefnaolía og/eða unnin olía, synþetísk, sem notuð er sem grunnþáttur fyrir margvíslegar olíuvörur, svo sem smurolíur, vélarolíur, iðnaðarolíur, gírolíur og feiti, sbr. 5. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Þá er endurmyndun skilgreind sem aðgerð til að framleiða grunnolíu með hreinsun á olíuúrgangi, einkum með því að fjarlægja úr henni óhreinindi, oxaðar afurðir og íblöndunarefni, sbr. 3. málsl. 6. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar. Eins og fram hefur komið byggir Umhverfisstofnun ákvörðun sína um áminningu á því að olían sem kærandi brennir á starfsstöð sinni sé í raun olíuúrgangur samkvæmt reglugerðinni.

Kærandi hefur bent á að greindum skilgreiningum hafi verið breytt í samræmi við Evróputilskipanir er nú séu fallnar úr gildi og að enn hafi ekki verið innleidd tilskipun nr. 2008/98/EB um úrgang, sem m.a. fjalli um lok úrgangsfasa. Á þeim tíma er hin kærða ákvörðun var tekin hafði nefnd tilskipun ekki verið innleidd í íslenskan rétt. Hvað sem því líður verður ekki hjá því litið að í gildi eru reglugerðir nr. 809/1999 um olíuúrgang og nr. 739/2003 um brennslu úrgangs, báðar með síðari breytingum. Eins og áður greinir er í hinni fyrrnefndu að finna skilgreiningar á hugtökunum grunnolía og endurmyndun auk þess sem olíuúrgangur er þar skilgreindur í 10. mgr. 3. gr. sem hvers konar smurnings- og iðnaðarolíur sem orðið hafi óhæfar til þeirrar notkunar sem þær voru upphaflega ætlaðar sem og að olíuúrgangur sé spilliefni. Spilliefni er svo skilgreint í 12. mgr. 3. gr. með vísan til reglugerðar um skrá fyrir spilliefni og annan úrgang, en hún er nr. 184/2002.

Í málinu liggja fyrir upplýsingar frá framleiðanda olíunnar sem aðilar máls hafa ekki dregið í efa. Er annars vegar um að ræða upplýsingar frá mars 2011 og hins vegar frá febrúar 2014, eru þær síðarnefndu því til komnar eftir að hin kærða ákvörðun var tekin og var ekki á þeim byggt. Þær fyrrnefndu lágu hins vegar fyrir Umhverfisstofnun við ákvörðunartökuna. Samkvæmt upplýsingum framleiðanda frá 2011 er verksmiðjuolía sú sem hér um ræðir að grunni til úrgangsolía sem safnað er frá smurstöðvum, skipum og annarri starfsemi. Olían fer í gegnum ákveðið vinnsluferli sem nánar er lýst. Gerður er samanburður á brennslu á hreinni IFO 380 svartolíu og blöndu hennar og verksmiðjuolíu og er sett fram tafla með eiginleikum blandna af svartolíu og verksmiðjuolíu. Þar koma fram gildi blandnanna auk gilda svartolíu. Er m.a. um að ræða gildi fyrir ösku, kalsíum og zink. Tekið er fram að öll gildi blöndu af verksmiðjuolíu og IFO 380 í hlutföllum 25%/75% séu innan marka IFO 380 samkvæmt ISO staðli 8217 að því undanskyldu að hún innihaldi notaða smurolíu.

Umhverfisstofnun starfar eftir lögum um stofnunina nr. 90/2002. Hlutverk hennar skv. 1. gr. laganna er að annast starfsemi skv. lögum nr. 7/1998 og fjölda annarra laga sem þar eru talin og áður höfðu heyrt undir Hollustuvernd ríkisins, Náttúruvernd ríkisins, veiðistjóra og hreindýraráð. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 90/2002 kemur fram að rétt þyki að sameina stjórnsýslustarfsemi stofnana sem fari með mengunarvarnir, hollustuhætti, náttúruvernd, dýravernd og stjórn á stofnstærð villtra dýra. Þeim stofnunum sé falið með lögum að annast framkvæmd tiltekinna málaflokka fyrir hönd umhverfisráðuneytisins. Í ýmsum öðrum lögum er Umhverfisstofnun ætlað eftirlitshlutverk, t.a.m. í lögum nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Þá eru í gildi fjöldi reglugerða sem settar eru á grundvelli áðurnefndra laga sem Umhverfisstofnun er ætlað eftirlit með. Þar á meðal er reglugerðir á sviði mengunarvarna auk þeirra sem fyrr eru nefndar, t.d. nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Umhverfisstofnun er samkvæmt því sem að framan greinir sú stofnun sem annast framkvæmd mengunarvarna fyrir hönd umhverfis- og auðlindaráðuneytis og verður að telja hana sérfróðan aðila á því sviði.

Taka má undir með kæranda að stofnuninni, sem er sérfræðistofnun á sviði mengunarvarna, hefði verið í lófa lagið að rannsaka málið með sjálfstæðum og ítarlegum hætti. Stofnunin hefur ekki upplýst úrskurðarnefndina um að slíkt hafi verið gert eða afhent nefndinni nein þau gögnsem til þess benda, en skv. 5. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála skal stjórnvald láta nefndinni í té öll þau gögn og upplýsingar er tengjast málinu. Fór nefndin fram á það við stofnunina í bréfi, dags. 14. febrúar 2014. Þannig verður hvorki séð að Umhverfisstofnun hafi skoðað framleiðsluferli umræddrar olíu eða efnasamsetningu hennar umfram það sem fram kemur í upplýsingum frá framleiðanda né að hún hafi kannað með mælingum hver áhrif væru af brennslu nefndrar olíu.

Upplýsingar framleiðanda sem áður eru raktar eru að mörgu leyti takmarkaðar. Til að mynda er ekki að finna upplýsingar um hvernig mælingar fari fram eða árangur þess ferlis sem notað er. Er vandséð að Umhverfisstofnun hafi haft undir höndum nægar upplýsingar til að komast að niðurstöðu um það hvort það ferli sem um ræddi teldist endurmyndun í skilningi 3. málsl. 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 809/1999, sbr. reglugerð nr. 673/2011, og hvort sú afurð sem út úr því kæmi gæti talist grunnolía samkvæmt skilgreiningu 5. mgr. 3. gr. sömu reglugerðar, svo sem henni var breytt með reglugerð nr. 673/2011. Eigi að síður lagði stofnunin það til grundvallar að svo væri ekki er hún ákvað að áminna kæranda. Er þar um þvingunarúrræði að ræða og íþyngjandi ákvörðun sem verður að eiga sér nægilega stoð í bæði atvikum máls og lögum. Þar sem á það skorti verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi, enda ekki fullnægt þeim áskilnaði rannsóknarreglu að mál sé nægjanlega upplýst til að stjórnvald komist að réttri niðurstöðu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður orðið við kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 13. janúar 2014 að veita Ísfélagi Vestamannaeyja hf. – Þórshöfn áminningu

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
                                     Ómar Stefánsson                                                    Aðalheiður Jóhannsdóttir                                    

______________________________              _____________________________
         Geir Oddsson                                                       Þorsteinn Sæmundsson

13/2016 Fiskeldi

Með

Árið 2016, þriðjudaginn 8. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 13/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar um að verða ekki við kröfu um að hafna frummatsskýrslu vegna eldis á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra Geiteyri ehf. og Akurholt ehf., eigendur Haffjarðarár í Hnappadal, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar sem fram kemur í bréfum hennar 16. desember 2015 og 12. janúar 2016 að verða ekki við kröfu um að hafna frummatsskýrslu vegna eldis á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði. Er þess aðallega krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að málsmeðferð Skipulagsstofnunar frá og með 20. október 2015 verði ógilt.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 9. febrúar 2016.

Málavextir: Skipulagsstofnun barst 12. október 2015 frummatsskýrsla Dýrfisks hf. og Fjarðalax ehf. vegna mats á umhverfisáhrifum eldis á allt að 19.000 tonnum af laxi og regnbogasilungi í Patreksfirði og Tálknafirði. Skýrslan var lögð fram til kynningar með fresti til athugasemda til 2. desember s.á.

Með bréfi, dags. 1. desember 2015, komu kærendur athugasemdum við frummatsskýrsluna á framfæri við Skipulagsstofnun. Jafnframt var farið fram á að frummatsskýrslunni yrði hafnað. Í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 16. s.m., var því lýst að svo sem lög gerðu ráð fyrir hefði stofnunin komið athugasemdunum á framfæri við framkvæmdaraðila sem myndi taka afstöðu til þeirra í matsskýrslu sem send yrði til stofnunarinnar. Væri stofnuninni skylt að fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á nefndum athugasemdum, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000. Jafnframt að ekki væri ljóst að svo stöddu hvort eða hvaða áhrif athugasemdirnar myndu hafa á matsskýrslu framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar, en ekki væri loku fyrir það skotið að þær myndu endurspeglast í þeim skilyrðum og/eða mótvægisaðgerðum sem stofnunin kynni að setja, sbr. 2. mgr. 11. gr., sem og í mati hennar á áhrifum eldisins á umhverfið.

Með tölvubréfi 30. desember 2015 fóru kærendur fram á að Skipulagsstofnun legði mat á frummatsskýrslu þá sem um ræddi, að teknu tilliti til fram kominna athugasemda. Einnig beindu þeir tilmælum til stofnunarinnar um að leitað yrði umsagnar Veiðimálastofnunar, Landssambands veiðifélaga og umhverfisverndarsamtaka eins og Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landverndar. Þá óskuðu kærendur þess að stofnunin staðfesti að hún myndi verða við kröfu þeirra um höfnun frummatsskýrslunnar. Skipulagsstofnun svaraði kærendum með bréfi, dags. 12. janúar 2016, þar sem tekið var fram að stofnunin hefði í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 lagt mat á það hvort að frummatsskýrslan uppfyllti þær kröfur sem gerðar væru í 9. gr. laganna og væri í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. Það hefði verið mat stofnunarinnar að ekki væru forsendur til að hafna því að taka skýrsluna til athugunar, enda hefðu umrædd lagaskilyrði verið uppfyllt. Jafnframt upplýsti stofnunin að umsagnar Veiðimálastofnunar hefði verið leitað og að Landssamband veiðifélaga hefði gert athugasemdir við frummatsskýrsluna. Þá tók stofnunin fram að hún teldi ekki tilefni til að leita umsagnar Náttúruverndarsamtaka Íslands og Landverndar en benti á að samtök þessi, sem og önnur slík á sviði umhverfis- og náttúruverndar, ættu þess kost að gera athugasemdir við framlagða frummatsskýrslu. Loks ítrekaði stofnunin það sem fram hefði komið í bréfi hennar frá 16. desember 2015 að hún myndi ekki verða við kröfu kærenda um að hafna frummatsskýrslunni.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að í niðurstöðu Skipulagsstofnunar, þar sem fjallað var um kröfu þeirra um að hafna frummatsskýrslu, hafi falist ákvörðun sem telja verði kæranlega samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála eins og þau verði skýrð með hliðsjón af ákvæðum Árósasamningsins, sbr. einkum 2. mgr. 9. gr., og af ákvæðum tilskipunar 2011/92/ESB, sbr. 1. mgr. 11. gr. Úrskurðarnefndin sé hin óháða og óhlutdræga stofnun sem komið hafi verið á fót hér á landi og hagsmunaaðilar geti skotið málum sínum til í þeim tilgangi að „vefengja efnislegt lögmæti ákvarðana eða málsmeðferðina við töku þeirra, aðgerðir eða aðgerðarleysi sem falla undir ákvæðin um þátttöku almennings samkvæmt þessari tilskipun“ eins og fram komi í lokaákvæði nefndrar 1. mgr. 11. gr. Framkvæmd sú er um ræði sæti mati á umhverfisáhrifum og það séu ekki aðeins endanlegar ákvarðanir sem verði vefengdar heldur einnig málsmeðferð við töku ákvarðana, aðgerðir eða aðgerðarleysi. Tilvitnaðar lagaheimildir hafi þann tilgang að tryggja víðtækan aðgang almennings að réttlátri og virkri málsmeðferð í umhverfismálum. Í því felist m.a. að í umhverfismálum njóti aðilar jafnréttis á við framkvæmdaraðila (e. „equality of arms“). Samkvæmt 2. mgr. 14. gr. laga nr. 106/2000 hefði framkvæmdaraðili getað kært til úrskurðarnefndarinnar ákvörðun Skipulagsstofnunar um að hafna frummatsskýrslu. Með sama hætti sé það réttur hagsmunaaðila að eiga færi á að kæra þá ákvörðun eða úrlausn stofnunarinnar um að hafna ekki frummatsskýrslu eða taka kröfu þar að lútandi ekki til meðferðar.

Hvað varði varakröfu kærenda sé bent á að Skipulagsstofnun hafi 20. október 2015 ritað framkvæmdaaðila bréf, þar sem fram hafi komið að „athugun“ hennar verði auglýst, og komi sá skilningur fram í bréfi stofnunarinnar til kærenda hinn 16. desember 2015 að meðferð frummatsskýrslunnar hafi þar verið lokið. Á þeim tíma hafi stofnuninni ekki verið heimilt að ljúka meðferð skýrslunnar, enda hafi hún ekki framkvæmt mat á henni skv. lögum nr. 106/2000.

Fjölmargar og alvarlegar athugasemdir hafi borist við frummatsskýrsluna. Verði ekki betur séð en að Veiðimálastofnun telji þar um að ræða falsanir og rangfærslur á tilvitnunum í vísindagögn, auk rangra staðhæfinga. Burðarþolsmat liggi ekki fyrir og engin grein sé gerð fyrir hættu vegna lúsafárs, sjúkdómasmits og erfðamengunar, auk þess sem lítt sé fjallað um magn úrgangs. Fiskistofa telji mikið skorta á grunnþekkingu á lífríki ferskvatna á Vestfjörðum og nauðsynlegt sé að skýra það áður en meiri uppbygging verði í fiskeldi þar. Möguleikinn á því að erfðablöndun verði og geti valdið tjóni sé raunverulegur. Sé því mikilvægt að leggja mat á hættuna og afleiðingar af erfðablöndun við villta stofna en áhrifin ekki afgreidd sem „óveruleg og afturkræf“, eins og gert sé í frummatsskýrslu. Landssamband veiðifélaga geri margar alvarlegar athugasemdir við frummatsskýrsluna og bendi m.a. á rangar fullyrðingar. Alvarlegar athugasemdir hafi einnig komið frá NASF, verndarsjóði villtra laxastofna, sem og Veiðifélagi Laxár á Ásum. Hins vegar veki umsagnir Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar furðu  og þurfi þær að kynna sér betur varúðarreglu náttúruverndarlaga, markmiðsákvæði 1. gr. laga um fiskeldi, sem og álit Veiðimálastofnunar um sjókvíaeldi með norskum erfðabreyttum laxastofni.

Augljóst sé að Skipulagsstofnun hafi ekki rannsakað málið sérstaklega og með sjálfstæðum og víðfeðmum hætti með tilliti til allra þeirra atriða sem máli skipti.

Málsrök Skipulagsstofnunar:
Skipulagsstofnun telur að kæru þessari eigi að vísa frá. Stofnunin bendir á að í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé fjallað um það hvaða ákvarðanir hennar séu kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Burtséð frá því hvort hin kærða ákvörðun teljist stjórnvaldsákvörðun sé í 1. mgr. 14. gr. ekki minnst á að hún sé kæranleg til nefndarinnar. Í 3. mgr. sömu greinar segi að framkvæmdaraðili geti kært til nefndarinnar ákvörðun stofnunarinnar samkvæmt 1. mgr. 10. gr. um að frummatsskýrsla uppfylli ekki þær kröfur sem gerðar séu í 9. gr. eða sé ekki í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr. Samkvæmt þessari málsgrein hafi löggjafinn ákveðið að ákvörðun um höfnun á frummatsskýrslu sé kæranleg til nefndarinnar. Samkvæmt orðanna hljóðan sé ákvörðun stofnunarinnar um að hafna ekki frummatsskýrslunni hins vegar ekki kæranleg til nefndarinnar. Þá komi ekki fram í umræddri 14. gr. að unnt sé að kæra málsmeðferð Skipulagsstofnunar frá ákveðnum tíma eins og varakrafa kærenda gangi út á.

Vegna tilvísunar kærenda til EES-réttar bendi Skipulagsstofnun á að skýringarreglu 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið hafi verið lýst í dómum Hæstaréttar. Í dómum réttarins í málum nr. 79/2010 og nr. 92/2013 hafi eftirfarandi komið fram: „Í 3. gr. laga nr. 2/1993 er mælt svo fyrir að skýra skuli lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur, sem á honum byggja. Slík lögskýring tekur eðli máls samkvæmt til þess að orðum í íslenskum lögum verði svo framast er unnt gefin merking, sem rúmast innan þeirra og næst kemst því að svara til sameiginlegra reglna sem gilda eiga á Evrópska efnahagssvæðinu, en hún getur á hinn bóginn ekki leitt til þess að litið verði fram hjá orðum íslenskra laga.“ Ákvæði 14. gr. laga nr. 106/2000 um málskot til úrskurðarnefndarinnar séu skýr. Með tilliti til þess og greindra dóma sé úrskurðarnefndin bundin af 1. og 3. mgr. lagagreinarinnar. Atbeina löggjafans þurfi til að breyta lagagreininni, sé hún í ósamræmi við Árósasamninginn og EES-rétt.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Fjarðalax ehf. telur að kröfum kærenda beri skilyrðislaust að hafna. Í fyrsta lagi sé Skipulagsstofnun ekki heimilt samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar að kröfu þriðja aðila. Niðurstaða stofnunarinnar þar um geti einungis byggst á sjálfstæðu mati og veiti lög kærendum enga aðild að mati Skipulagsstofnunar skv. 1. mgr. 10. gr. laganna. Kærendur eigi því ekki lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun um þetta atriði, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Í öðru lagi eigi kærendur ekki málsskotsrétt til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Leiði það annars vegar af eðli máls þar sem krafa kærenda á hendur Skipulagsstofnun eigi sér ekki stoð í lögum nr. 106/2000, svo sem að framan sé rakið. Hins vegar leiði það af því að í 14. gr. nefndra laga séu athafnir og ákvarðanir stjórnvalda sem sæti málskoti tæmandi taldar. Árósasamningurinn veiti aðildarríkjum talsvert svigrúm um innleiðingu meginreglna samningsins. Sú staðreynd að ekki hafi verið gerð breyting á 3. mgr. nefndrar 14. gr. um hverjir eigi málsskotsrétt á grundvelli 2. málsl. 1. mgr. 10. gr. staðfesti að löggjafinn hafi metið réttindi almennings nægjanlega trygg með öðrum hætti.

Í þriðja lagi sé kærufrestur liðinn og í fjórða lagi sé ekki fótur fyrir því að Skipulagsstofnun hafi ekki framkvæmt mat á því hvort skilyrði væru til að taka frummatsskýrsluna til athugunar, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000. Ekkert hafi komið fram í málinu sem styðji að mat hafi ekki verið framkvæmt við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun eða að málsmeðferð hafi verið áfátt að þessu leyti. Í fimmta lagi sé ákvæði 2. málsl. 1. mgr. nefndrar 10. gr. heimildarákvæði. Skipulagsstofnun hafi heimild til að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar en sé það ekki fortakslaust skylt, jafnvel þótt stofnunin telji skýrsluna háða einhverjum annmörkum. Stofnunin hafi þannig ríkt svigrúm til að taka frummatsskýrslu til kynningar í samræmi við 2. mgr. 10. gr. framangreindra laga.

Loks sé áréttað að sú málsmeðferð Skipulagsstofnunar að kynna frummatsskýrslu lögum samkvæmt hafi ekki nokkur áhrif á hagsmuni kærenda, beint eða óbeint, enda hafi þeir átt þess kost eins og aðrir að gera athugasemdir við skýrsluna, sem þeir og hafi gert.

——

Dýrfiski hf., sem einnig er framkvæmdaraðili, var einnig gefinn kostur á að tjá sig um fram komna kæru en athugasemdir bárust ekki innan tilskilins frests.

Niðurstaða: Í 1. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum er gerð grein fyrir markmiðum þeirra. Eiga þau að tryggja að mat á umhverfisáhrifum hafi farið fram áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann, vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs, að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Jafnframt er það markmið laganna að draga eins og kostur er úr neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdar, að stuðla að samvinnu aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða, sem og að kynna umhverfisáhrif og mótvægisaðgerðir vegna framkvæmda fyrir almenningi og gefa honum kost á að koma að athugasemdum og upplýsingum áður en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Til að ná þessum markmiðum mæla lögin fyrir um ákveðna málsmeðferð, sem framkvæmdir háðar mati á umhverfisáhrifum fara í gegnum. Gefinn er kostur á að koma að athugasemdum í því ferli og eftir atvikum veitt heimild til kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 14. gr. áðurnefndra laga.

Þannig skal framkvæmdaraðili gera tillögu að matsáætlun til Skipulagsstofnunar og kynna hana umsagnaraðilum og almenningi, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga 106/2000. Stofnunin skal svo taka ákvörðun um tillöguna, að fenginni umsögn leyfisveitenda og eftir atvikum annarra aðila, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Fallist stofnunin á tillögu að matsáætlun með athugasemdum eða synji hún tillögunni getur framkvæmdaraðili kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eftir því sem segir í 14. gr. nefndra laga. Að lokinni málsmeðferð skv. áðurnefndri 8. gr. vinnur framkvæmdaraðili frummatsskýrslu á grundvelli samþykktrar matsáætlunar, sbr. 9. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. skal Skipulagsstofnun meta hvort slík skýrsla uppfylli kröfur 9. gr. og sé í samræmi við matsáætlun skv. 8. gr., en sé svo ekki er stofnuninni heimilt að hafna því að taka skýrsluna til athugunar. Framkvæmdaraðili hefur einnig heimild í 14. gr. sömu laga til að kæra þá ákvörðun. Frummatsskýrslan er kynnt samkvæmt nánari ákvæðum þar um í 10. gr. og er öllum heimilt að gera athugasemdir við hana, sbr. 4. mgr. lagagreinarinnar. Þá leitar Skipulagsstofnun umsagna skv. 5. mgr. ákvæðisins. Stofnunin skal svo skv. 6. mgr. 10. gr. senda framkvæmdaraðila umsagnir og athugasemdir og skal framkvæmdaraðili gera grein fyrir þeim og taka afstöðu til þeirra í matsskýrslu sem hann vinnur á grundvelli frummatsskýrslu. Að ferli þessu loknu skal Skipulagsstofnun gefa rökstutt álit sitt á matsskýrslunni, sbr. 11. gr. sömu laga. Auk framangreindra ákvarðana eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar skv. 6. gr., skv. 2. mgr. 5. gr. sem og skv. 12. gr. laganna kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar, sbr. áðurgreinda 14. gr.

Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að neyta ekki heimildar þeirrar sem hún hefur í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 106/2000 að hafna því að taka frummatsskýrslu til athugunar. Eins og áður greinir gæti framkvæmdaraðili kært slíka synjun til úrskurðarnefndarinnar, en aðra kæruheimild vegna ákvarðana samkvæmt þessari grein er ekki að finna í 14. gr. laganna.

Ísland hefur tekið á herðar sér ákveðnar skuldbindingar með aðild sinni að Árósasamningnum um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Þar á meðal eru skuldbindingar er varða aðgang að réttlátri málsmeðferð. Samhliða tillögu til þingsályktunar um fullgildingu nefnds samnings, og til að standa við skuldbindingar Íslands samkvæmt honum, hlutu meðferð Alþingis frumvörp sem síðan urðu að lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sem og lögum nr. 131/2011 um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Eins og áður hefur verið rakið er kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar að finna í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, en þau lög sættu breytingum með áðurnefndum lögum nr. 131/2011. Löggjafinn hefur því tekið afstöðu til þess með lögum hvernig uppfylla skuli samningsskyldur Íslands skv. Árósasamningnum, þ. á m. hvaða ágreiningur verði borinn undir úrskurðarnefndina. Annar ágreiningur, svo sem sá sem mál þetta snýst um, sem kann að rísa um framkvæmd laga nr. 106/2000 og ekki er tilgreindur í 14. gr. þeirra laga, sætir samkvæmt framangreindu og orðanna hljóðan þá ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, enda er ekki mælt fyrir um það í lögum, eins og fyrrnefnd 1. gr. laga nr. 130/2011 áskilur.

Með vísan til framangreinds verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon

53/2014 Arnarnes

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 17. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 3. apríl 2014 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Arnarnes.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2014, er barst nefndinni 23. s.m., kæra fimmtán erfingjar fyrrum eiganda jarðarinnar Arnarness og núverandi eigendur hluta lands í Arnarnesi, m.a. lóðar að Hegranesi 1-3, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 3. apríl 2014 að samþykkja deiliskipulag fyrir Arnarnes, sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí s.á. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. júní 2014, sem barst nefndinni sama dag, kæra Gísli Vilhjálmsson og Kristín Jónsdóttir, Súlunesi 25, Garðabæ, fyrrgreinda ákvörðun. Er gerð sú krafa að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að hún verði felld úr gildi hvað varðar grein 4.8 í skilmálum deiliskipulags Arnarness. Til þrautavara er þess krafist að bótaskylda sveitarfélagsins verði viðurkennd vegna gildistöku deiliskipulags Arnarness. Þá kærir Mavik ehf., Kringlunni 4-6, Reykjavík, sömu ákvörðun með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. júní 2014, er barst nefndinni sama dag. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að grein 4.8 – Nýtingarhlutfall, í skilmálum deiliskipulagsins, verði felld úr gildi. Þar sem hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða síðargreindu tvö kærumálin, sem eru nr. 54/2014 og 55/2014, sameinuð máli þessu.

Gögn í málunum bárust frá Garðabæ 8. ágúst 2014, í nóvember 2015 og febrúar 2016.

Málavextir: Forsaga máls þessa er sú að með úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 23/2010 var m.a. komist að þeirri niðurstöðu að ekkert deiliskipulag væri í gildi fyrir Arnarnes. Hafist var handa við gerð deiliskipulags og var lýsing deiliskipulagsgerðar skv. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 samþykkt í skipulagsnefnd Garðabæjar 10. mars 2011 og í bæjarstjórn 17. s.m. Lýsingin var send Skipulagsstofnun til umsagnar 4. maí s.á., sbr. 3. mgr. 40. gr. laganna, og hinn 17. ágúst s.á. var haldinn fundur til kynningar vinnu við skipulagstillögu í samræmi við 4. mgr. nefnds ákvæðis.

Ákveðið var að auglýsa tillögu að deiliskipulagi á fundi bæjarstjórnar 4. apríl 2013 og birtust auglýsingar í Lögbirtingablaði og Fréttablaðinu í byrjun júní 2013. Lá tillagan frammi á bæjarskrifstofum Garðabæjar frá 4. júní til og með 27. ágúst s.á. og var enn fremur aðgengileg á heimasíðu sveitarfélagsins. Allnokkrar athugasemdir bárust á auglýsingatíma, m.a. voru gerðar athugasemdir við grein 4.8 í almennum skipulagsskilmálum þar sem sagði m.a.: „Nýtingarhlutfall á hverri lóð má vera allt að 0,45. Þó skal byggður flötur hússins aldrei verða meira en 30% af flatarmáli lóðar.“ Byggðust athugasemdir við nefnt atriði á því að verið væri að takmarka með ólögmætum hætti nýtingarrétt eigenda lóða í Arnarnesi á eignum sínum.

Á fundi skipulagsnefndar Garðabæjar 23. janúar 2014 var deiliskipulagstillagan lögð fram og m.a. fjallað um framangreindar athugasemdir. Eftirfarandi var fært til bókar: „Að athuguðu máli leggur skipulagsnefnd til að hækka ákvæði um byggðan flöt úr 30% í 35% í tillögu að deiliskipulagi Arnarness.“ Einnig var bókað að nefndin liti svo á að tillagan fæli ekki í sér breytingu á kynntri tillögu í grundvallaratriðum og því bæri ekki að kynna hana að nýju skv. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Á fundi skipulagsnefndar 13. febrúar s.á. var deiliskipulagstillagan tekin fyrir að nýju. Lagðar voru fram innsendar athugasemdir og tillaga að greinargerð með svörum við þeim. Ásamt framangreindum breytingum á leyfilegu hámarki byggingarflatar var lagt til að tekið yrði tillit til athugasemdar um fyrirhuguð keðju-/stallahús, með allt að 12 íbúðum, á lóðinni við Hegranes nr. 1-3. Athugasemdin varðaði meint stílbrot á núverandi byggðarmynstri, sem einkenndist af einbýlishúsum, og einnig að líkur á verðfalli eigna í Arnarnesi myndu aukast. Breytingin fólst í því að í stað fyrirhugaðra keðjuhúsa á lóðinni yrði gert ráð fyrir fjórum einbýlishúsum. Var deiliskipulagstillögunni breytt í samræmi við framangreint áður en hún var samþykkt af nefndinni.

Á fundi bæjarráðs Garðabæjar 18. mars 2014 var samþykkt að vísa deiliskipulagstillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar. Á fundi bæjarstjórnar Garðabæjar 3. apríl s.á. var tillagan lögð fram ásamt athugasemdum við auglýsta tillögu og svörum við þeim. Tillagan var samþykkt skv. 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga.

Hið samþykkta deiliskipulag var sent Skipulagsstofnun til skoðunar og voru gerðar nokkrar athugasemdir við það samkvæmt bréfi, dags. 9. maí 2014, en ekki gerð athugasemd við að auglýsing yrði birt um gildistöku skipulagsins. Auglýsing um gildistökuna birtist síðan í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí 2014. Lagfærðir uppdrættir og greinargerð, í samræmi við athugasemdir Skipulagsstofnunar, bárust stofnuninni með bréfi, dags. 1. ágúst 2014.

Málsrök kærenda: Þeir kærendur sem jafnframt eru eigendur lóðarinnar Hegraness 1-3 kveðast vera ósáttir við vinnubrögð Garðabæjar í kringum hið kærða deiliskipulag. Telja þeir að skipulagið sé ekki í samræmi við lög og að málsmeðferðarreglna hafi ekki verið gætt við gerð þess.

Samþykki bæjarstjórnar Garðabæjar frá 3. apríl 2014 hafi verið ólögmætt, m.a. af þeim sökum að einn af þeim er hafi veitt samþykki sitt fyrir skipulaginu búi að Súlunesi 14, sem sé eina húsið á skipulagssvæðinu sem ekki sé einbýlishús. Einungis séu fimm einbýlishúsalóðir á milli Súluness 14 og Hegraness 1-3. Vísi kærendur til þess að hluti þeirrar einu athugasemdar sem hafi borist við upphaflega skilmála um nýtingu lóðar kærenda hafi lotið sérstaklega að því að bygging fjölbýlishúsa á lóðinni myndi rýra verð fasteigna á svæðinu. Engin greining hafi verið gerð á þessari röksemd af hálfu bæjarstjórnar í aðdraganda ákvörðunar um að breyta deiliskipulaginu og verði því að telja meiri líkur en minni til þess að meint möguleg verðlækkun íbúðarhúsalóða, þ.m.t. Súluness 14, hafi haft þýðingu við þá kúvendingu frá upphaflegri tillögu sem orðið hafi á skipulagi lóðarinnar að Hegranesi 1-3.

Einnig telji kærendur að sú ákvörðun að breyta upphaflegri skipulagstillögu fyrir svæðið hafi verið illa ígrunduð og unnin í flýti. Hafi hún því hvorki verið í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 né vandaða stjórnsýsluhætti. Breyting sú er gerð hafi verið á skipulagstillögunni varðandi lóðina að Hegranesi 1-3 hafi að því best verði séð verið gerð á grundvelli athugasemda frá einum aðila, íbúa sem sé ekki í grennd við nefnda lóð.

Aðrir kærendur byggja kröfu sína um ógildingu á því að með grein 4.8 í skipulagsskilmálunum, sem kveði á um að hámarksnýtingarhlutfall sé 0,45 og hámark byggðs flatar 35% af stærð lóðar, sé eignarréttindum kærenda takmörk sett með ólögmætum hætti. Lóðir á Arnarnesi séu eignarlóðir og verið sé að takmarka stjórnarskrárvarin réttindi með framangreindum ákvæðum. Um sé að ræða íþyngjandi skerðingu á þeim nýtingarrétti sem byggt hafi verið á í skipulagsframkvæmd á svæðinu allt frá árinu 1964. Með hinu nýja deiliskipulagi séu brotnar reglur stjórnsýsluréttarins um jafnræði og meðalhóf, auk lögmætisreglu.

Við skipulagningu nýbyggingarsvæða sé sjaldnast til að dreifa einstaklingsbundnum lögvörðum hagsmunum en öðru máli gegni þegar gert sé skipulag fyrir fastmótaða og gróna byggð, eins og sé tilfellið í þessu máli. Þegar svo standi á feli deiliskipulagsákvörðun í sér endurskoðun á skipulagi reits með gróinni byggð og beri að taka tillit til réttmætra hagsmuna þeirra er breyting skipulags varði.

Ekki hafi verið sýnt fram á að nauðsynlegt sé að takmarka réttindi kærenda með þeim hætti sem gert sé í skipulaginu, með tilliti til þeirra meginmarkmiða sem að sé stefnt með því. Umræddir skilmálar séu því í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýslu- og stjórnskipunarréttar. Óljóst sé hvaða heildaryfirbragð byggðar sé verið að vernda, eins og talað sé um í greinargerð. Ekki sé málefnalegt sjónarmið í sjálfu sér að setja eignarrétti fjölda manna íþyngjandi og takmarkandi skorður í því skyni að skipulagsyfirvöld geti komist hjá mögulegum ágreiningi í óljósri framtíð. Þá séu reglur um nýtingarhlutfall og byggðan flöt engin trygging fyrir því að ekki komi upp deilur um skipulagsmál í framtíðinni.

Aðferð sú sem notuð sé til að ná markmiðum deiliskipulagsins skapi ójafnræði á milli einstakra eigenda fasteigna á svæðinu. Orsakist það m.a. af því að áður hafi verið veitt einstök byggingarleyfi sem samræmist ekki þeirri stefnumörkun sem nú skuli fylgja samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi. Þetta valdi því að ekki verði samræmi innan hverfisins í nýtingarhlutfalli vegna bygginga sem þar séu fyrir með hærra nýtingarhlutfall en miðað sé við í hinu kærða skipulagi. Þeir aðilar sem eigi í dag óbyggðar lóðir eða lóðir sem ekki séu nýttar í samræmi við fyrra skipulag muni njóta lakari réttar en þeir sem þegar hafi fullnýtt lóðir sínar eða nýtt þær umfram þær heimildir sem hið nýja deiliskipulag geri ráð fyrir.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu Garðabæjar er þess aðallega krafist að kærunum verði vísað frá nefndinni þar sem engin kæruheimild sé til staðar, sbr. ákvæði 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Skipulagsáætlanir, svo sem aðalskipulag og svæðisskipulag, hafi almennt verið taldar til almennra stjórnvaldsfyrirmæla. Hið kærða deiliskipulag nái til alls Arnarnessins og bindi hendur allra frá birtingu þess í B-deild Stjórnartíðinda. Því beri ekki að líta á kæruefnið sem kæru á stjórnvaldsákvörðun heldur kæru á setningu almennra stjórnvaldsfyrirmæla, en slíkar kærur heyri ekki undir úrskurðarnefndina. Af 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála megi ráða að eingöngu séu kæranlegar til nefndarinnar þær ákvarðanir sem mælt sé fyrir um í lögum hverju sinni, sbr. hið áður tilvísaða ákvæði 52. gr. skipulagslaga.

Verði ekki fallist á frávísun málsins samkvæmt framangreindu telji Garðabær engu að síður að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 verði ekki beitt um þá ákvörðun bæjarstjórnar að samþykkja deiliskipulag fyrir Arnarnes þar sem ekki sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða. Óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins kunni þó að gilda um samþykki á skipulaginu.

Verði málinu ekki vísað frá sé þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Varðandi lóðina Hegranes 1-3 hafi í auglýstri skipulagstillögu verið gert ráð fyrir því að hún yrði skilgreind sem íbúðarlóð, nánar tiltekið að þar yrðu keðjuhús með 12 íbúðum. Í eldra skipulagi Arnarness hafi lóðin verið skilgreind sem verslunarlóð (þjónustu- og íbúðarsvæði). Eftir að athugasemdafrestur hafi runnið út hafi verið gerðar tilteknar breytingar á deiliskipulagstillögunni, m.a. hafi skipulagi lóðarinnar Hegraness 1-3 verið breytt þannig að í stað keðjuhúsanna hafi verið skipulagðar fjórar einbýlishúsalóðir. Þannig hafi ekki verið um neina breytingu á notkun lóðarinnar að ræða, þ.e. hún hafi áfram verið skilgreind sem íbúðarlóð. Því sé sérstaklega mótmælt að nefnd breyting á húsagerð hafi leitt til verulegrar skerðingar á nýtingarmöguleikum lóðarinnar, eins og fullyrt sé. Breytingin hafi verið gerð áður en deiliskipulagið hafi tekið gildi og því sé ekki um breytingu á samþykktu deiliskipulagi að ræða, sbr. 43. gr. skipulagslaga.

Framangreind breyting hafi ekki verið „breyting í grundvallaratriðum“ í skilningi 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga og því hafi ekki þurft að auglýsa hina breyttu tillögu á nýjan leik. Sé afstaða sveitarfélagsins hvað þetta varði í samræmi við úrskurði úrskurðarnefndarinnar, sem og úrskurði eldri úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála.

Sveitarfélagið telji að ekki hafi verið um að ræða svo verulega hagsmuni umrædds bæjarstjórnarfulltrúa að valdið hafi vanhæfi, þar sem hagsmunir viðkomandi hafi ekki verið þess eðlis að almennt megi ætla að viljaafstaða hafi mótast af þeim. Aðeins hafi verið um að ræða almenna hagsmuni íbúa á því svæði sem deiliskipulagið nái til en ekki sé fyrir að fara sérstökum hagsmunum umfram aðra.

Möguleg verðlækkun hafi ekki haft þýðingu við mat á skipulagi lóðarinnar Hegraness 1-3. Við ákvörðunina hafi það verið haft að leiðarljósi að langstærstur hluti íbúðarbyggðarinnar í deiliskipulaginu séu einbýlishús. Með hliðsjón af því hafi verið talið nauðsynlegt að varðveita það heilsteypta byggðamynstur sem fyrir sé í hverfinu, í samræmi við það markmið aðalskipulags að leggja áherslu á sérstöðu hverfisins.

Sveitarfélagið telji jafnframt að málið hafi verið rannsakað nægilega og allra nauðsynlegra og réttra upplýsinga um málsatvik hafi verið aflað áður en ákvörðun um samþykki deiliskipulags hafi verið tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Því sé ekki um brot á rannsóknarreglunni að ræða í málinu.

Í tilefni af málatilbúnaði vegna greinar 4.8 í almennum skipulagsskilmálum sé á það bent að skipulagsvaldið liggi hjá viðkomandi sveitarstjórn og af reglum á sviði skipulagsmála, sem og dómaframkvæmd, megi ráða að það vald sé nokkuð víðtækt og að sveitarstjórnum sé veitt svigrúm til að hlutast til um skipulag þess landsvæðis sem falli innan marka hvers sveitarfélags, óháð því hvort slíkt landsvæði sé í einkaeign. Skipulagslög setji þar með eignarráðum fasteignareigenda skorður og veiti heimild til að takmarka ráðstöfunarrétt eiganda á eign sinni, með áætlun um breytta landnotkun, í því skyni að stuðla að hagkvæmri nýtingu lands og gæða þess, sbr. dóm Hæstaréttar 14. júní 2011 í máli nr. 563/2011.

Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga séu í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingarreiti, byggðamynstur, þ.m.t. nýtingarhlutfall, útlit mannvirkja og form, eftir því sem við eigi. Sveitarfélagið telji að af ákvæðinu megi ráða að skipulagsskylda sveitarstjórnar nái til framangreindra atriða og að hún geti ekki vikið sér undan því að taka afstöðu til þeirra. Þrátt fyrir að byggingarreitum hafi verið úthlutað á sínum tíma geti kærendur ekki gert ráð fyrir eða haft réttmætar væntingar til þess að byggingarleyfi fáist fyrir sama fermetrafjölda og reiturinn taki til. Því sé í reynd ekki hægt að halda því fram að um skerðingu á nýtingarrétti sé að ræða.

Samkvæmt Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 skuli þéttleiki byggðar taka mið af þeirri byggð sem fyrir sé á hverjum stað þannig að hún fái haldið einkennum sínum. Á Arnarnesi sé þéttleiki byggðar lítill, eða 5,9 íbúðir á hvern hektara, samanborið við 18 íbúðir á hvern hektara í nýjum hverfum í Garðabæ. Til að viðhalda einkennum byggðar á svæðinu hafi því verið nauðsynlegt að kveða á um hámark byggðs flatar í deiliskipulagi, samhliða skilyrði um hámark nýtingarhlutfalls, og þannig takmarka þéttleika. Sveitarfélagið telji að ekki hafi verið unnt að ná markmiði þessu með öðrum og vægari hætti, svo sem með því að setja eingöngu skilyrði um nýtingarhlutfall.

Það sé mat sveitarfélagsins að hið kærða deiliskipulag feli á engan hátt í sér beina skerðingu á eignarlandi, sbr. 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, heldur séu þar aðeins settar almennar takmarkanir við nýtingu eignarréttinda á grundvelli skipulagsvalds sveitarstjórna samkvæmt skipulagslöggjöf. Ekki hafi verið gengið lengra varðandi takmörkun á nýtingu en nauðsynlegt hafi verið til að ná fram lögmætum skipulagsmarkmiðum og því hafi fyllsta meðalhófs verið gætt.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Kæra í máli þessu snýr að gildi ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 3. apríl 2014 um að samþykkja deiliskipulag Arnarness í Garðabæ. Um er að ræða gróið íbúðarhverfi, sem einkennist af stórum einbýlishúsalóðum.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í skipulagslögum nr. 123/2010 er fjallað um gerð deiliskipulags og í 52. gr. þeirra laga er kveðið á um að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem tók m.a. yfir hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 1. janúar 2012.

Um langt árabil hefur verið litið svo á að deiliskipulagsákvarðanir sveitarfélaga hafi verið kæranlegar til æðra stjórnvalds á grundvelli kæruheimilda í gildandi lögum og hafa úrskurðir um gildi deiliskipulagsákvarðana sætt endurskoðun dómstóla án athugasemda við þá réttarframkvæmd. Ekki er að finna í lögskýringargögnum með frumvarpi til skipulagslaga eða frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ráðagerð um að breyta kæruheimild að þessu leyti. Í samræmi við framangreint hafa kærur vegna deiliskipulagsákvarðana verið teknar til meðferðar hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verður mál þetta því tekið til efnismeðferðar.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu var tillaga að deiliskipulagi fyrir Arnarnes auglýst til kynningar skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og bera gögn málsins með sér að 23 athugasemdir hafi borist við tillöguna á auglýsingartíma. Beindust margar þeirra að þeim skilyrðum sem sett voru um hámarksnýtingarhlutfall og leyfilegan byggðan flöt húss og var því mótmælt að sett væru slík takmörk, en einnig barst athugasemd um að leyfilegt nýtingarhlutfall væri allt of hátt.

Að lokinni kynningu umræddrar deiliskipulagstillögu voru gerðar tvær breytingar á henni. Grein 4.8 í skipulagsskilmálum var breytt þannig að leyfilegur grunnflötur húss var stækkaður úr 30% í 35% af stærð lóðar, eða um 16,7%, og tók sú breyting til allra lóða á skipulagssvæðinu. Jafnframt var skilmálum fyrir lóðina Hegranes 1-3 breytt með því að í stað heimildar til að byggja tveggja hæða keðju-/stallahús, með allt að tólf íbúðum, kom heimild til byggingar fjögurra einbýlishúsa á lóðinni.

Í 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga er kveðið á um að ákveði sveitarstjórn að breyta auglýstri tillögu í grundvallaratriðum skuli hin breytta tillaga auglýst til kynningar á nýjan leik skv. 1. mgr. 41. gr. laganna. Verður að ætla að þau sjónarmið búi þar að baki að íbúar og hagsmunaðilar eigi þess kost að koma að athugasemdum við hina breyttu tillögu, séu breytingarnar talsverðar og þess eðlis að geta haft áhrif á hagsmuni og réttarstöðu þeirra. Geta viðkomandi þá eftir atvikum komið að sjónarmiðum sínum í tilefni af breytingunum.

Fyrrgreind breyting á grunnfleti húsa á svæðinu verður að teljast umtalsverð og til þess fallin að hafa áhrif á yfirbragð byggðar. Þá fól breyting sú sem sneri að lóðinni Hegranesi 1-3 í sér breytta húsagerð frá kynntri tillögu. Verður með tilliti til þess að telja að tillögunni hafi verið breytt á þann veg að borið hafi að auglýsa hana að nýju til kynningar samkvæmt ákvæði 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga eftir að breytingin hafði verið samþykkt í bæjarstjórn.

Með vísan til þess sem að framan er rakið var sá annmarki á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varðar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 3. apríl 2014 um að samþykkja  deiliskipulag fyrir Arnarnes.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson