Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

37/2016 Borgarbraut Borgarbyggð

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 37/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar Borgarbraut 55-59.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. apríl 2016, er barst nefndinni 6. s.m., kærir A, Helgugötu 10, Borgarnesi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar Borgarbraut 55-59. Verður að skilja málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 um að samþykkja greint deiliskipulag með áorðnum breytingum. Er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. júlí 2016, er barst nefndinni 12. s.m., kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 8. júlí 2016 að veita leyfi til sökkulvinnu á byggingarsvæði lóðanna Borgarbraut 57 og 59. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 92/2016, sameinað máli þessu. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 4. maí, 19. júlí og 1. september 2016.

Málavextir: Hinn 10. desember 2015 samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Borgarbraut 55-59. Í breytingunni fólst að lóð nr. 55-57 var skipt upp í tvær lóðir, byggingarmagn á svæðinu aukið um 1.569 m2 og hæð húsa breytt. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 16. desember s.á. með athugasemdarfresti til 29. janúar 2016. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Var þeim svarað af skipulagsfulltrúa. Deiliskipulagsbreytingin var svo samþykkt á sveitarstjórnarfundi 11. febrúar 2016. Hinn 14. apríl s.á. var deiliskipulagsbreytingin tekin fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar þar sem breytingar höfðu verið gerðar á tillögunni vegna athugasemda frá Skipulagsstofnun. Var skipulagsbreytingin samþykkt með áorðnum breytingum og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 20. s.m.

Hinn 8. júlí 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir sökkulvinnu á lóðum nr. 57 og 59 við Borgarbraut.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu sé farið fram úr leyfilegu nýtingarhlutfalli samkvæmt aðalskipulagi. Eigi nýtingarhlutfall við hlutfall milli stærðar hverrar lóðar og þeirrar byggingar sem þar standi en ekki til alls svæðisins enda sé þess getið að nýtingarhlutfall sé 0,35-1,0. Auk þess veki það athygli að í auglýsingu um hið breytta deiliskipulag sé getið til um nýtingarhlutfall hverrar lóðar en ekki minnst á heildarhlutfall svæðisins.

Foreldrar kæranda eigi fasteignina Kveldúlfsgötu 2a, sem sé næsta hús við fyrirhugaða byggingu, og teljist hann til lögerfingja að þeirri eign. Af þeim sökum eigi hann lögvarða hagsmuni að fá efnisúrskurð í málinu. Ef byggt verði jafn hátt hús og gert sé ráð fyrir muni útsýni skerðast verulega frá fasteigninni að Kveldúlfsgötu 2a auk þess að hætta sé á vindstrengjum sem og auknum hávaða og umferð. Geti þetta skert gæði eignarinnar og komið niður á endursöluverði hennar.

Málsrök Borgarbyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 sé gert ráð fyrir því að nýtingarhlutfall á reitnum „Miðsvæði“ sé á bilinu 0,35-1,0 en umræddur reitur sé 60.000 m2. Samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu mun byggingarmagn á reitnum aukast um 17.500 m2 sem rúmist vel innan þess nýtingarhlutfalls sem tilgreind sé í gildandi aðalskipulagi. Jafnframt sé á það bent að í kærunni sé ekki gert grein fyrir hvaða lögvörðu hagsmuni kærandi hafi vegna hinna kærðu ákvarðana og beri af þeim sökum að vísa málinu frá.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að samkvæmt aðalskipulagi megi byggja allt að 60.000 m2 á miðsvæðinu og hafi aðeins lítill hluti byggingarmagns þegar verið byggður. Byggingar þær sem rísa eigi á lóðunum Borgarbraut 55-59 sé langt innan þess byggingarmagns sem heimilað sé. Deiliskipulagið hafi verið unnið af mikilli vandvirkni og tillit tekið til allra þeirra þátta sem nauðsynlegir séu og lög og reglugerðir kveði á um.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Málsrök kæranda lúta að mögulegum grenndaráhrifum og verðrýrnun fasteignar foreldra hans í næsta nágrenni við Borgarbraut 57 og 59 sem hið kærða deiliskipulag og byggingarleyfi tekur til. Telur hann sig eiga hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum sem einn lögerfingja foreldranna en sjálfur býr hann í um eins km fjarlægð frá umræddu skipulagssvæði.

Með hliðsjón af afstöðu húss kæranda og fjarlægðar frá umræddu skipulagssvæði, verður ekki séð að byggingarheimildir hinna kærðu ákvarðana geti haft áhrif á lögvarða grenndarhagsmuni er tengjast þeirri fasteign, svo sem vegna skuggavarps. Þá verður ekki fallist á að lögerfðaréttur kæranda gagnvart eigendum fasteignar í nágrenni skipulagssvæðisins geti veitt kæranda kæruaðild í máli þessu vegna hagsmuna arfláta að þeirri fasteign. Verður kærandi samkvæmt framangreindu ekki talinn eiga þá beinu persónulegu lögvörðu hagsmuni tengda, hinum kærðu ákvörðunum í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, að honum verði játuð kæruaðild í máli þessu. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

47/2016 Borgarbraut Borgarbyggð

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar 55-59 við Borgarbraut, Borgarnesi, og ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 26. s.m. um að veita leyfi fyrir jarðvegsvinnu á byggingarsvæði lóða nr. 57 og 59 við Borgarbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. maí 2016, er barst nefndinni 18. s.m., kærir Borgarland ehf., eigandi Borgarbrautar 56-60, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar Borgarbraut 55-59. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 26. s.m. að veita leyfi fyrir jarðvegsvinnu á byggingarsvæði lóða nr. 57 og 59. Er gerð sú krafa að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Þá var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 6. júní 2016.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 8. júlí 2016 um að veita leyfi til sökkulvinnu á byggingarsvæði lóðanna Borgarbraut 57 og 59. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 93/2016, sameinað máli þessu. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til síðari stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 25. maí, 27. júní, 15. og 19. júlí og 31. ágúst 2016.

Málavextir: Hinn 10. desember 2015 samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Borgarbraut 55-59. Í breytingunni fólst að lóð nr. 55-57 var skipt upp í tvær lóðir, byggingarmagn á svæðinu aukið um 1.569 m2 og hæð húsa breytt. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 16. desember s.á. með athugasemdarfresti til 29. janúar 2016. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Var þeim svarað af skipulagsfulltrúa. Deiliskipulagsbreytingin var svo samþykkt á sveitarstjórnarfundi 11. febrúar 2016. Hinn 14. apríl s.á. var deiliskipulagsbreytingin tekin fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar þar sem breytingar höfðu verið gerðar á tillögunni vegna athugasemda frá Skipulagsstofnun. Var skipulagsbreytingin samþykkt með áorðnum breytingum og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 20. s.m.

Hinn 26. apríl 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar samþykkt að veita leyfi fyrir jarðvegsvinnu á lóðum nr. 57 og 59. Hinn 8. júlí 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir sökkulvinnu á fyrrgreindum lóðum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er skírskotað til þess að í hinni kærðu skipulagsbreytingu sé gert ráð fyrir að hámarksbyggingarmagn á byggingareitum Borgarbrautar 57 og 59 verði 3.600 m2 annars vegar og 4.777 m2 hins vegar, en með því sé nýtingarhlutfall lóðanna 1,52 og 2,09. Þetta sé í ósamræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins enda komi þar skýrlega fram að hámarks nýtingarhlutfall innan miðsvæðis sé 1,0. Með því að tilgreina hámarks nýtingarhlutfall á miðsvæðinu sérstaklega hafi sveitarfélagið skuldbundið sig til þess að þéttleiki byggðar og áframhaldandi uppbygging innan miðsvæðisins verði hagað þannig að nýtingarhlutfall á einstökum lóðum eða reitum innan miðsvæðisins fari ekki yfir 1,0.

Svo mikil hækkun á nýtingarhlutfalli líkt og hér um ræði hafi umtalsverð grenndaráhrif í för með sér. Staðfest aðalskipulag sé bindandi fyrir sveitarfélagið og íbúa þess sem eigi að geta gengið út frá því að þróun byggðar og landnotkun sé hagað til samræmis við skipulagsáætlanir.

Fyrirhuguð uppbygging muni leiða til verulegra takmarkana á möguleikum annarra lóðarhafa miðsvæðisins til að auka byggingarmagn á sínum lóðum, en með hinni kærðu skipulagsbreytingu sé gert ráð fyrir uppbyggingu á um 16% þess byggingarmagns sem sé kveðið á um í aðalskipulagi fyrir miðsvæðið í heild. Með því sé með ólögmætun hætti farið gegn jafnræði sem eðlilegt sé að ríki á milli lóðarhafa á miðsvæðinu til möguleika á uppbyggingu og breytinga á svæðinu.

Jafnframt hafi ekki verið rannsakað nægilega hvort umferðamannvirki myndu anna aukinni umferð og hvort bílastæðaþörf sé fullnægt. Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé gerð krafa um að skilmálar um fjölda bílastæða og frágang þeirra sé getið í deiliskipulagi. Í hinni kærðu skipulagstillögu sé tekið fram að fjöldi bílastæða miðist við eitt stæði á hverja 80 m2 íbúð, sé íbúðin stærri séu tvö stæði á íbúð. Hins vegar sé ekki tekið fram hver sé fjöldi eða stærð fyrirhugaðra íbúða né hvernig rými nýbyggingar skiptist á milli notkunarflokka og því sé útilokað að reikna bílastæðaþörf. Auk þess sé ekki gert ráð fyrir bílastæði fyrir hópferðabíla né hreyfihamlaða. Hin kærða skipulagsbreyting stríði gegn ákvæðum skipulagslaga, stjórnsýslulaga og skipulagsreglugerðar og því beri að fella hana úr gildi.

Málsrök Borgarbyggðar: Sveitarfélagið vísar til þess að samkvæmt aðalskipulagi sé heimilt að miða við reitanýtingu við ákvörðun nýtingarhlutfalls tiltekinna landnotkunarreita. Það þýði að sveitarfélaginu sé heimilt að ákvarða hámarksnýtingarhlutfall fyrir landnotkunarreitinn „Miðsvæði“ eins og hann sé skilgreindur í gildandi aðalskipulagi.

Heimilað nýtingarhlutfall á miðsvæði sé á bilinu 0,35-1,0 og miðað við að nýtingarhlutfall skuli vera allt að 1,0 sé því heimilt að byggja allt að 60.000 m2 á svæðinu. Í dag séu byggðir á miðsvæðinu ríflega 13.200 m2 sem samsvari nýtingarhlutfalli 0,22. Ef fyrirhugaðar byggingar rísi, sem hin kærða deiliskipulagsbreyting geri ráð fyrir, myndu byggðir fermetrar á miðsvæðinu aukast um tæplega 9.600 m2 og verði því ríflega 22.800 m2 og hækki nýtingarhlutfall svæðisins í 0,38. Nýtingarhlutfall yrði því eftir sem áður langt undir því hámarksviðmiði sem gildandi aðalskipulag setji á svæðinu, þ.e. 1,0.

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi komi fram að á miðsvæði skuli vera blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu og falli fyrirhuguð nýting bygginga á lóðunum Borgarbraut 55-59 fullkomlega innan þeirrar skilgreiningar. Jafnframt sé á það bent að samkvæmt núgildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir mannvirkjum á lóðunum þar sem saman gætu farið íbúðir á efri hæðum og atvinnurekstur á jarðhæð, allt að 8.000 m2 að stærð, með nýtingarhlutfalli 1,15.

Í kærunni sé vísað til þess að nýtingarhlutfall lóðar nr. 57 við Borgarbraut sé 1,52 og nýtingarhlutfall lóðar nr. 59 sé 2,09. Samkvæmt gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skuli ákvarða nýtingarhlutfall fyrir einstakar lóðir eða afmörkuð svæði eftir landfræðilegum aðstæðum og markmiðum skipulagsins. Sé því réttast að horfa til meðalnýtingarhlutfalls deiliskipulagssvæðisins sem sé 1,4 vegna nýbygginga ef byggðir verða bílakjallarar, þar sem þeir séu heimilaðir, eða 1,17 ef aðeins sé miðað við þann hluta þeirra sem rísa megi ofan jarðar. Því sé ekki verið að auka byggingarmagn á umræddum lóðum svo mikið að kærandi hafi af þeirri ráðstöfun sérstaka hagsmuni.

Litið hafi verið til þess að minnka skuggavarp af fyrirhuguðum byggingum með því að breyta legu byggingarreita og með því að breyta leyfilegri hæð Borgarbrautar 55 sem og að gera efri hæðir allra bygginganna inndregnar. Þar að auki sé verið að vinna að því að setja upp hópferðabifreiðastæði á mismunandi stöðum. Jafnframt sé fjöldi bílastæða tilgreindur í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að samkvæmt aðalskipulagi megi byggja allt að 60.000 m2 á miðsvæðinu og hafi aðeins lítill hluti þess byggingarmagns þegar verið byggður. Byggingar þær sem eigi að rísa á lóðunum Borgarbraut 55-59 séu langt innan þess byggingarmagns. Auk þess sé á það bent að samkvæmt 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli nýtingarhlutfall ákveðið í deiliskipulagi.

Fyrirhugaðar framkvæmdir séu eitt stærsta uppbyggingarverkefni sem í hafi verið ráðist í Borgarbyggð og muni uppbyggingin og fyrirhuguð starfsemi verða mikil lyftistöng fyrir byggðarlagið. Deiliskipulagsbreytingin hafi verið unnin að mikilli vandvirkni og tillit tekið til allra þeirra þátta sem nauðsynlegir séu og lög og reglugerðir kveði á um.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingareiti og byggðamynstur. Skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal það að jafnaði taka til svæða sem mynda heildstæða einingu, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Sveitarstjórn er heimilt að gera breytingar á deiliskipulagi telji hún þess þörf, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna, en skipulagsáætlanir skulu vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna. Kæranda og sveitarfélaginu greinir á um túlkun ákvæða aðalskipulagsins um nýtingarhlutfall umrædds svæðis og þar með hvort innbyrðis samræmi sé milli aðalskipulags og deiliskipulags í því efni.

Í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 er umrætt svæði skilgreint sem miðsvæði (M) og er þar heimiluð blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu. Í töflu aðalskipulagsins um skilgreind svæði innan Borgarness er tekið fram að umrætt svæði sé sex hektarar að stærð með nýtingarhlutfall 0,35-1,0. Segir síðan í almennri umfjöllun um miðsvæðið að þar sem að nokkru leyti sé um þéttingu í byggðu umhverfi að ræða, megi reikna með að nýtingarhlutfall geti sumstaðar farið upp undir 1,0. Af greindri umfjöllun verður ekki annað ráðið en að verið sé í nefndri töflu að vísa til nýtingarhlutfalls fyrir einstakar lóðir eða götureiti innan hins skilgreinda miðsvæðis, en skilgreint nýtingarhlutfall eigi ekki við um miðsvæðið í heild eins og sveitarfélagið byggir á. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér uppbyggingu á þremur lóðum, þ.e. lóðum nr. 55, 57 og 59 við Borgarbraut. Kemur fram að hámarksnýtingarhlutfall lóðar nr. 55 verði 0,54, lóðar nr. 57 1,25 en með kjallara 1,52 og lóðar nr. 59 1,67 en með kjallara 2,09. Er ljóst að nýtingarhlutfall á síðargreindu lóðunum er yfir tilgreindu hámarksnýtingarhlutfalli í aðalskipulagi. Sveitarfélög eru bundið af þeirri stefnumörkun sem sett er í aðalskipulagi hverju sinni og verða að gæta þess að samræmi sé á milli aðalskipulags og deiliskipulags. Að framangreindu virtu verður ekki séð að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé fullnægt og verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella hina kærðu skipulagsbreytingu úr gildi.

Hin kærðu byggingarleyfi fólu í sér heimild fyrir framkvæmdum á lóðum nr. 57 og 59 við Borgarbraut við jarðvegsvinnu og gerð sökkuls. Ekki verður séð að þær framkvæmdir séu þess eðlis að raskað geti hagsmunum kæranda. Þá liggur fyrir að hinn 16. september 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar veitt leyfi til að reisa íbúðarhús, þjónustukjarna og hótel í samræmi við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Verður að líta svo á að hin nýja ákvörðun taki einnig til þeirrar undirbúningsvinnu sem eldri leyfi tóku til.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eiga kærendur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinna kærðu byggingarleyfa og skortir því á að uppfyllt sé skilyrði kæruaðildar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að fyrir hendi séu lögvarðir hagsmunir. Verður þessum þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar 55-59 er felld úr gildi.

Ákvarðanir byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 26. apríl 2016 og 8. júlí s.á um að veita leyfi fyrir jarðvegsvinnu og sökkulvinnu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

105/2016 Legsteinasafn í landi Húsafells

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 6. desember 2018, sjá hér.

Árið 2016, föstudaginn 23. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan, og ákvörðun byggingar¬fulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2016, er barst nefndinni 3. s.m., kærir landeigandi Húsafells 1, þá ákvörðun sveitar¬stjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Húsafell 2 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells í Borgarbyggð. Verður að skilja málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinna kærðu ákvarðana. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 24. og 26. ágúst og 6. og 12. september 2016.

Málavextir: Lóð kæranda og hin deiliskipulagða lóð liggja í landi jarðarinnar Húsafells í Borgarbyggð og munu vera um 40 m á milli húss kæranda, þar sem rekin er gististarfsemi, og húss þess sem hýsa á legsteinasafn.

Í byrjun árs 2014 hófst vinna við nýtt deiliskipulag fyrir Steinhörpuna í landi Húsafells. Tók deiliskipulagið til sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss, sem voru m.a. ætlað að hýsa steinhörpur og önnur verk listamannsins á Húsafelli ásamt því að gert var ráð fyrir uppbyggingu á legsteinasafni fyrir Húsafellslegsteina frá 19. öld. Að lokinni málsmeðferð skipulagstillögunnar var hún samþykkt á fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2015 og tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar 12. janúar 2016 var samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir áður¬greint legsteinasafn í landi Húsafells.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að margir gallar séu á hinu kærða deiliskipulagi, sem m.a. felist í að rangt landnúmer sé á tillögunni, ósamræmi sé á milli hnita og uppdráttar, ekki hafi verið leitað álits umsagnaraðila auk þess sem ekkert samráð hafi verið haft við eigendur aðliggjandi lóða. Jafnframt nái bílastæðabókhald til nágrannalóðar og ekki sé gert ráð fyrir stærri fólksflutningabílum.

Kærandi hafi ekki fengið upplýsingar um gerð deiliskipulagsins og hafi því ekki haft ástæðu til að fylgjast með auglýsingum um deiliskipulag í nágrannalandi þar sem skipulagsfulltrúi hafi borið að leita eftir áliti hans sem eiganda aðliggjandi jarðar áður en skipulagið hafi verið auglýst. Sé þess krafist að kærufrestur miðist við þá dagsetningu sem starfsmaður Borgarbyggðar hafi afhent kæranda deiliskipulagsuppdráttinn, þ.e. 27. júlí 2016. Vegna rangs landnúmers í auglýsingu skipulagsins, hafi verið útilokað að átta sig á til hvaða svæðis deiliskipulagið tæki til.

Það safnhús sem hið kærða byggingarleyfi taki til sé staðstett langt utan byggingarreits. Samkvæmt mælipunktum á deiliskipulagi sé fjarlægð frá lóðarmörkum 11,3 m en á samþykktum aðalteikningum sé sú fjarlægð 5,5 m. Fyrirhuguð staðsetning safnsins muni valda miklum erfiðleikum við rekstur gistiheimilis kæranda. Aðkoma að því og bílastæðum sé tekin í burtu samkvæmt deiliskipulaginu þannig að stæðin verði augljóslega notuð af gestum safnsins. Fyrirhugað sé að stækka gistiheimili kæranda en það verði ómögulegt ef af fyrirhugaðri uppbyggingu verði. Muni kærandi af þessum sökum verða af miklum tekjum. Jafnframt verði erfitt að reka gistiheimili í nálægð við mikinn átroðning safngesta á hlaði gistiheimilisins. Megi gera ráð fyrir miklum fjölda gesta þegar nýtt safn hafi verið byggt en ekki hafi verið gerðar áætlanir af því tilefni. Augljóst sé að fyrirhuguð bílastæði beri ekki þann mikla fjölda gesta sem megi gera ráð fyrir.

Málsrök Borgarbyggðar: Sveitarfélagið andmælir því að hin umdeilda bygging sé langt utan byggingarreits. Augljóst sé að mistök hafi orðið við gerð hnitaskrár deiliskipulagsins þar sem fjöldi hnita samkvæmt skránni séu 17 talsins en að punktar á uppdrættinum sjálfum séu 21. Hafi hnitaskráin ekki uppfærst líkt og hún eigi að gera við gerð deiliskipulagsins. Skýrist ósamræmi milli skipulagsuppdráttar og hnitaskrár af framangreindu. Skipulagsuppdrátturinn komi á undan hnitaskráningu í ferlinu og ráði staðsetningu hnitanna og eigi því að líta til uppdráttarins fremur en hnitaskrárinnar. Skipulags¬uppdrátturinn sé í samræmi við aðal¬uppdrátt fyrirhugaðra mannvirkja sem samþykktur hafi verið á afgreiðslufundi byggingar¬fulltrúa 12. janúar 2016.

Hið kærða skipulag hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015 og verði því að líta svo á að kærufrestur sé löngu liðinn, en samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hafi kæranda verið kunnugt um hið kærða deiliskipulag í rúmt ár áður en hann lagði fram kæru í málinu. Jafnframt sé bent á að ekki sé verið að fækka bílastæðum á lóð Húsafells 1. Umrædd bílastæði falli ekki undir deiliskipulagið og ekki felist afsal á bílastæðum í deiliskipulaginu þar sem afsal eigna verði ekki ákveðið í skipulagsáætlunum.

Þrátt fyrir að rangt landnúmer hafi verið gefið upp í kynntum uppdrætti, hafi engu að síður verið gerð grein fyrir heiti jarðanna á svæðinu, lóðamörkum og heiti þeirra húsa sem á lóðunum standi í samræmi við d-lið 4. mgr. gr. 5.3.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá sé þar að finna heiti skipulagsins, þ.e. Steinharpa, og heiti sveitarfélagsins í samræmi við gr. 7.1. í reglugerðinni en á það sé bent að ekki sé gerð krafa um að landnúmer sé tilgreint í deiliskipulagi.

Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og hafi það fengið lögboðna málsmeðferð.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að málinu verði vísað frá þar sem kæran sé of seint fram komin. Kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þar sé einnig kveðið á um að ef um sé að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur vera frá birtingu. Hið kærða deili¬skipulag hafi öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015 og byggingar¬leyfið verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. janúar 2016. Kæra sé sett fram tæplega 13 mánuðum eftir að hið kærða deiliskipulag tók gildi og sjö mánuðum eftir að byggingarfulltrúi samþykkti kært byggingarleyfi. Hafi byggingarframkvæmdir staðið yfir á umræddum deiliskipulagsreit frá haustinu 2015 án afláts eftir að byggingaráform fyrir húsi A, sem sýnt sé á deiliskipulagi, hafi verið samþykkt.

Fullyrðingu kæranda um að fyrirhugað mannvirki sem hið kærða byggingarleyfi taki til sé staðsett langt utan við byggingarreit sé mótmælt sem rangri. Mælingamaður hafi verið fenginn til þess að setja út lóðarmörk og byggingarreit í samræmi við gildandi uppdrátt deiliskipulagsins og komi fram í minnisblaði hans að staðsetning hússins sé í samræmi við deiliskipulags¬uppdráttinn. Í ljós hafi komið sú hnitaskrá sem sé tilgreind í deilskipulaginu sé röng og hafi hönnuðir deiliskipulagsins viðurkennt það en engu að síður sé skipulagsuppdrátturinn réttur. Bent sé á að öll mannvirki sem hafi verið reist séu í samræmi við umræddan skipulagsuppdrátt og hafi það verið staðfest með reyndarmælingum á svæðinu. Þá sé á það bent að gert sé ráð fyrir tveimur stæðum fyrir fatlaða auk þess sem hvergi sé þess getið að leyfishafi hyggist fá afnot af stæðum kæranda.

———–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015. Kæra í málinu barst 3. ágúst 2016 eða um 13 mánuðum eftir lok kærufrests. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema talið sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. sömu greinar er hins vegar kveðið á um að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Verður þeim hluta máls þessa er lýtur að hinu kærða deiliskipulagi af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hvað varðar hið kærða byggingarleyfi miðast kærufrestur við það tímamark hvenær kærandi hafi mátt vita um samþykki leyfisins. Byggingaráformin voru samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. janúar 2016. Leyfishafi hefur upplýst að byrjað hafi verið að vinna við grunn hússins í ágúst 2016 og liggja ekki fyrir úttektir byggingarfulltrúa vegna framkvæmdanna. Þá kemur fram í fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum kæranda og embættis byggingarfulltrúa frá 26. júlí s.á. að kærandi hafi þá þegar haft byggingarnefndarteikningar undir höndum. Af máls¬atvikum verður ekki fullyrt að kæranda hafi verið kunnugt um byggingarleyfið fyrr en á þeim tíma sem nefnd tölvupóstsamskipti áttu sér stað. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 3. ágúst 2016 og því innan lögmælts eins mánaðar kærufrests.

Samkvæmt 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 þarf fyrirhuguð mannvirkjagerð að vera í samræmi við skipulagsáætlanir og þarf vitneskja þar um að liggja fyrir við útgáfu byggingarleyfis, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Í málinu liggur fyrir að hnitaskrá gildandi deiliskipulags og skipulagsuppdráttur fara ekki saman. Í gr. 5.5.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um framsetningu deiliskipulagsuppdráttar. Er þess þar hvergi getið að hnitaskrá skuli fylgja slíkum uppdrætti. Gildandi deiliskipulagsuppdráttur sýnir hins vegar afmörkun lóða, bygginga og byggingarreita á skipulagssvæðinu. Mælingar á samþykktum aðaluppdráttum byggingar¬leyfis annars vegar og gildandi skipulagsuppdrætti hins vegar gefa til kynna að umrætt mann¬virki sé í samræmi við deiliskipulag svæðisins og sé staðsett innan uppgefins byggingarreits.

Í gildandi lögum og reglugerðarákvæðum á sviði skipulags- og byggingarmála eru ekki gerðar kröfur um lágmarksfjölda almennra bílastæða en fjöldi þeirra skal ákveðinn í deiliskipulagi, sbr. b lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð. Samkvæmt töflu 6.01 í gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er hins vegar kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Hið kærða byggingarleyfi gerir ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða og er það í samræmi við greint ákvæði byggingarreglugerðar. Deiliskipulagið gerir ennfremur ráð fyrir 12 almennum bílastæðum á umræddri lóð. Lóð kæranda liggur utan skipulagssvæðisins og ekki verður ráðið að hin kærða ákvörðun breyti aðkomu eða hlutverki bílastæða á lóð hans.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggur fyrir að málsmeðferð hins kærða byggingarleyfis sé haldin annmörkum sem raskað geta gildi þess, verður ekki fallist á kröfu um ógildingu leyfisins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells. Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

127/2014 Starmýri 2c

Með
Árið 2016, föstudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að veita leyfi til að innrétta gistiheimili í flokki II í verslunarrými á jarðhæð hússins að Starmýri 2c.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. desember 2014, er barst nefndinni 17. s.m., kæra eigendur Starmýrar 2b og eigendur efri hæðar Starmýrar 2c þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 að veita leyfi til að innrétta gistiheimili í flokki II í verslunarrými á jarðhæð hússins að Starmýri 2c. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 9. febrúar 2015.

Málavextir: Á óskiptri lóð nr. 2 við Starmýri standa húsin Starmýri nr. 2a, 2b, og 2c og eru tvö þau síðasttöldu samtengd. Á árinu 1995 var samþykkt í skipulagsnefnd og borgarráði að heimila að byggð yrði 2. hæð ofan á húsin Starmýri 2b og 2c til íbúðarnota og tengibygging milli húsanna, m.a. með stigagangi að íbúðum beggja húsanna á annarri hæð. Gengu þessi byggingaráform eftir.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 26. apríl 2013 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyfi fengist til að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir á fyrstu hæð hússins nr. 2c við Starmýri. Afgreiddi byggingarfulltrúi fyrirspurnina neikvætt á afgreiðslufundi sínum 14. maí s.á með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa. Hinn 18. nóvember 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt að veita leyfi til að innrétta gistirými í flokki II í húsinu nr. 2c í fjórum eignarhlutum, samtals 100 m2 að stærð, með vísan til jákvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 séu breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hafi eða ráð hafi verið fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum, háð samþykki allra eigenda hússins.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eigi að vera verslunarhúsnæði á jarðhæð húsa á nefndri lóð. Allt frá árinu 1965 hafi verið starfræktar þar snyrti- og hárgreiðslustofur og sé svipaður rekstur dagþjónustu ásættanlegur og réttmætur. Lóðin Starmýri 2 sé skilgreind sem nærþjónustusvæði og geti gistiheimili ekki flokkast sem nærþjónusta við íbúa hverfisins.

Starfsemi gistiheimilis sé veruleg breyting á hagnýtingu séreignar Starmýrar 2c. Slík starfsemi fari fram allan sólarhringinn og muni hafa í för með sér verulegt ónæði, röskun og óþægindi fyrir íbúa hússins. Auk þess sé ljóst að verðgildi íbúða í næsta nágrenni muni rýrna.
  
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er á því byggt að ekki hafi þurft samþykki meðeiganda fyrir hinni breyttu notkun, enda sæti hún ekki sérstökum takmörkunum, hvorki í lögum um fjöleignarhús, sérstökum þinglýstum húsfélagssamþykktum, öðrum þinglýstum gögnum né aðalskipulagi. Þá verði ekki séð að umrædd breyting muni fela í sér verulega meira ónæði eða röskun en gera hafi mátt ráð fyrir frá upphafi við nýtingu húsnæðisins. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir þjónustustarfsemi á 1. hæð hússins. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé umrætt húsnæði innan skilgreinds nærþjónustukjarna og sé rekstur gistiheimila þjónusta sem heimil sé á þeim svæðum. Samræmist því umsóknin ákvæðum aðalskipulags.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hann hafi gert tilboð í húsnæðið með fyrirvara um að þar mætti reka gistiheimili. Hafi byggingarfulltrúa verið send fyrirspurn varðandi málið og hafi leyfi verið veitt með ákveðnum skilyrðum. Jafnframt hafi leyfishafa verið bent á að ekki þyrfti samþykki annarra íbúa hússins fyrir umræddum breytingum. Sé um að ræða þrjú gistirými, fyrir að hámarki sex gesti, auk móttöku.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingu á hagnýtingu séreignarhluta í fjöleignarhúsinu Starmýri 2c úr verslunarrými í gistiheimili. Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulagið Safamýri-Álftamýri frá árinu 1961, þar sem hús á lóðinni eru skráð á uppdrætti sem verslunarhúsnæði. Engin greinargerð fylgdi deiliskipulaginu og er ekki að finna sérstaka skilmála á skipulagsuppdrætti er taka til umrædds húsnæðis.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarbyggð, en slík byggð er nánar skilgreind sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu, eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins. Þar er og kveðið á um að undir nærþjónustu geti, auk opinberrar grunnþjónustu og dagvöruverslana, m.a. fallið almenn þjónustustarfsemi, s.s. hárgreiðsla, veitingastaðir í flokki I og eftir atvikum í flokki II, menningarhús, íþróttahús, gallerí og þrifalegur smáiðnaður. Umrætt hús er staðsett á íbúðarsvæðinu ÍB28, Álftamýri-Háaleiti, en í stefnu aðalskipulagsins um borgarhlutann Háaleiti-Bústaðir er tekið fram að nærþjónustukjarni sé m.a. á lóðinni Starmýri 2 og kemur það einnig fram á þemakortum borgarhlutans. Hinn 31. október 2014 tók gildi óveruleg breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þar um, er varðar túlkun sérstakra ákvæða um starfsemi innan landnotkunarsvæða. Var tilgangur breytingarinnar að árétta og skerpa túlkun ákvæða aðalskipulagsins. Í viðauka sem fylgdi skipulagsbreytingunni er að finna töflur er sýna hvers konar starfsemi sé heimiluð á hinum ýmsu svæðum. Í töflu 3 er að finna nákvæma útlistun á því hvar heimilt sé að reka gististaði og kemur þar fram að heimilt sé að reka slíka staði í flokkum I, II og III í skilgreindum nærþjónustukjörnum. Er hin kærða ákvörðun samkvæmt framansögðu í samræmi við gildandi skipulag.

Samkvæmt 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 þarf samþykki allra eigenda eða a.m.k. einfalds meirihluta þegar breytingar eru gerðar á séreignarhluta í fjöleignarhúsi, frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gerist og gengur í sambærilegum húsum. Af athugasemdum við nefnda grein í frumvarpi því sem varð lögum nr. 26/1994 verður ráðið að tilgangur ákvæðisins sé fyrst og fremst sá að sporna við atvinnustarfsemi í húsnæði sem ætlað er til íbúðarnota í fjöleignarhúsum. Um slíka breytingu er ekki að ræða í máli þessu. Í umræddum séreignarhlutum hefur í skipulagi svæðisins frá upphafi verið gert ráð fyrir atvinnustarfsemi og hafa þar m.a. verið starfræktar snyrti- og hárgreiðslustofur. Með hinni kærðu ákvörðun var heimiluð gististarfsemi í húsnæðinu fyrir allt að sex gesti og samkvæmt fyrirliggjandi byggingarleyfisteikningum er ekki um að ræða sameiginlegan inngang í húsnæði leyfishafa og íbúðir kærenda. Verður ekki séð að umdeild breyting á hagnýtingu eignarhlutanna úr einni tegund atvinnurekstrar í aðra hafi í för með sér eða sé til þess fallin að hafa í för með sér, aukna röskun eða ónæði gagnvart öðrum eigendum fjöleignarhússins en búast hafi mátt við að fylgt gæti notkun atvinnuhúsnæðis. Var hin breytta notkun séreignahluta leyfishafa því ekki háð samþykki annarra eigenda fjöleignarhússins samkvæmt fyrrnefndri 27. gr. laga um fjöleignarhús.

Að öllu framangreindu virtu, og þar sem ekki liggur fyrir að ágallar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem raskað geta gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu gistiheimilis í flokki II í verslunarrými á jarðhæð hússins að Starmýri 2c.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

71/2016 Álakvísl

Með
Árið 2016, föstudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 71/2016, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 26. febrúar 2016 um að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna endurnýjunar Reykjaæða og nýs göngustígs við Ártúnsholt.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. júní 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Álakvísl 49, 45, og 51, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 26. febrúar 2016 að samþykkja framkvæmdaleyfi til Veitna ohf. vegna endurnýjunar Reykjaæða og göngustígs við Ártúnsholt.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 7. júlí og 30. ágúst 2016.

Málavextir: Reykjaæðar liggja frá dælustöð Veitna ohf. við Dælustöðvarveg í Mosfellsbæ að hitaveitugeymum í Öskjuhlíð. Fara þær um Ártúnsholt í Reykjavík og tekur hið kærða framkvæmdaleyfi til endurnýjunar þess hluta vatnsæðanna og einnig göngustígs, sem yfir lögnunum er, en hann liggur við raðhúsalóðina Álakvísl 45-51 (oddatölur), þar sem fasteignir kærenda standa og hafa lóðarhafar girt af lóðina við nefndan göngustíg.

Í maí árið 2015 var íbúðareigendum á framkvæmdasvæðinu tilkynnt um fyrirhugaða endurnýjun lagna í Ártúnsholti og lagningu hjólastígs á því svæði þar sem fyrir var göngustígur. Í kjölfar mótmæla íbúa vegna hjólastígsins var fallið frá þeirri fyrirætlun og ákveðið að endurnýja fyrrnefndan göngustíg. Hinn 26. janúar 2016 sóttu Veitur ohf. um framkvæmdaleyfi fyrir endurnýjun á Reykjaæðum við Ártúnsholt á um 890 m kafla frá Höfðabakka í vesturátt gegnum Ártúnsholtið og fyrir lagningu nýs göngustígs á sama svæði. Um var að ræða endurnýjun á meginflutningsæðum hitaveitunnar til borgarinnar, en þessar flutningsæðar sjá um 40% alls höfuðborgarsvæðisins fyrir heitu vatni. Áætlaður framkvæmdatími var frá maí til loka október 2016.

Á fundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 26. febrúar 2016 var samþykkt umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir fyrrgreindri framkvæmd á grundvelli Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, deiliskipulags fyrir Ártúnsholtið, sem samþykkt hafði verið 3. desember 1982, með síðari breytingum, uppdráttar Orkuveitu Reykjavíkur, dags. 17. september 2015, bréfs Veitna ohf., dags. 26. janúar 2016, og umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 26. febrúar 2016. Framkvæmdaleyfið var síðan gefið út 18. apríl 2016. Mun nýr göngustígur verða 2,5 m að breidd og breiðari en stígur sá sem fyrir er.

Málsrök kærenda: Kærendur árétta að þeir mótmæli fyrirhuguðum framkvæmdum harðlega og telji þær brjóta í bága við lög. Þeir hafi m.a. átt í samskiptum við Reykjavíkurborg í mars og apríl 2016 og komið þá á framfæri mótmælum sínum. Formlegt erindi hafi verið sent f.h. eins kæranda til borgarinnar 23. maí s.á., þar sem fyrirhuguðum framkvæmdum hafi verið mótmælt. Það hafi svo fyrst verið með svarbréfi Reykjavíkurborgar, dags. 26. maí 2016, að íbúar hafi fengið tilkynningu um að framkvæmdaleyfi hefði verið gefið út 18. apríl s.á., og hafi málið því verið kært innan lögboðins frests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í hinu kærða framkvæmdaleyfi komi fram að það sé grundvallað á tilteknum gögnum. Hvergi sé vitnað til álits eigenda á umræddu svæði né vikið að mótmælum þeirra í tengslum við framkvæmdirnar, þrátt fyrir að vikið hafi verið að þeirri skoðun í erindi Orkuveitu Reykja¬víkur frá 17. september 2015 að íbúar á svæðinu hafi „stækkað lóðir langt inn í kvaðir, á land sem er ekki í þeirra eigu“ og legið hafi fyrir hörð mótmæli íbúa frá fyrri stigum. Verði að telja að þegar af þeirri ástæðu hafi verið fullt tilefni fyrir Reykjavíkurborg til að gefa íbúum tækifæri til að koma á framfæri sínum sjónarmiðum hvað þetta varðaði, enda ljóst að framkvæmdaaðilum hafi verið fullkunnugt um andstöðu eigenda við það með hvaða hætti svæðin yrðu nýtt.

Samkvæmt þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, dags. 31. maí 1988, sem ráðherraskipuð stjórn Verkamannabústaða í Reykjavík hafi útbúið og framkvæmdastjóri undirritað, fylgi íbúðum kærenda „einkaafnotaréttur á lóðarspildu fjögurra metra breiðri, eða að stíg, jafnlangri íbúðinni“. Telji kærendur því að umræddar framkvæmdir Reykjavíkurborgar við hitalögn á svæðinu og jafnframt breikkun göngustígs leiði eðli málsins samkvæmt til skerðingar á sameign eigenda að íbúðum lóðarinnar. Þess beri að geta að eignarréttur sé varinn af 72. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og Mannréttindasáttmála Evrópu og verði ekki skertur nema almenningsþörf krefji, lagafyrirmæli séu fyrir hendi og fullt verð komi fyrir, auk þess sem eignarréttarhugtak stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmálans sé túlkað rúmt og taki til hvers kyns eignarréttinda, beinna sem óbeinna. Að mati kærenda geti Reykjavíkurborg ekki borið því við að eignaskiptayfirlýsingin sé henni óviðkomandi þar sem borgin sé ekki eiginlegur aðili að henni, enda um að ræða þinglýstar eignarheimildir sem hafi verið í gildi sl. 30 ár, og íbúðareigendur á svæðinu alla tíð leitt rétt sinn frá án athugasemda frá borgaryfirvöldum.

Kærendur telji auk þess að málsmeðferð og ákvörðun Reykjavíkurborgar um að veita umrætt framkvæmdaleyfi sé í andstöðu við lögfestar og ólögfestar reglur stjórnsýsluréttarins, þar sem sú ákvörðun hafi verið tekin án nokkurs tillits til háværra mótmæla eigenda íbúða á svæðinu, m.a. kærenda, og án þess að málið hafi verið rannsakað til hlítar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Bent er á að hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út skv. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi, sbr. 1. mgr. 5. gr. sömu reglugerðar, þar sem um hafi verið að ræða nýjan stíg og endurnýjun á umfangsmiklu lagnakerfi borgarinnar. Framkvæmdaleyfið eigi stoð í aðalskipulagi Reykjavíkurborgar og deiliskipulagi fyrir Ártúnsholtið, sem samþykkt hafi verið 3. desember 1982. Samkvæmt lóðarleigusamningi fyrir Álakvísl 49, samþykktum í borgarráði 4. maí 1982, sem þinglýst hafi verið 21. júlí 1988 og mæliblaði, sem fyrst hafi verið gefið út 23. febrúar 1988, séu engar heimildir til staðar fyrir eigendur á 1. hæð húsa á svæðinu til að hafa einkaafnotarétt á lóðarspildu að stíg. Sú eignaskiptayfirlýsing sem kærendur byggi á sé hvorki í samræmi við lóðarleigusamning né mæliblað. Yfirlýsingin ákvarði hlutdeild hvers eiganda í sameign og marki með því grundvöll að réttindum og skyldum eigenda innbyrðis og gagnvart einstökum hlutum húss en ekki gagnvart Reykjavíkurborg, enda sé borgin ekki aðili að henni, og hafi þessi yfirtaka lóðareiganda yfir borgarlandi enga þýðingu. Gatnagerðargjöld hafi verið innheimt samkvæmt lóðarleigusamningi.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa kemur fram að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran barst. Samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun sem sætir kæru til nefndarinnar. Framkvæmdaleyfið hafi verið gefið út 18. apríl 2016, en nokkru fyrr hafi kærendur þó haft vitneskju um yfirvofandi framkvæmd, eða frá því í maí 2015. Kynningarfundur með íbúum hverfisins hafi verið haldinn 17. mars 2016, þar sem komið hafi fram að fyrirhugað væri að hefja framkvæmdir um miðjan apríl. Ræsfundur vegna verksins hafi verið haldinn 15. og 18. apríl, en þá hafi verktaki hafist handa. Með bréfi, dags. 26. maí s.á., hafi Reykjavíkurborg tilkynnt að fram kominni kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda væri hafnað og upplýst um að framkvæmdaleyfi hafi verið gefið út. Geti kærendum ekki hafa dulist hvenær ætlunin væri að hefja framkvæmdir. Um leið og þær hafi hafist, hinn 18. apríl 2016, hafi þeim mátt vera ljóst að framkvæmdaleyfi hefði verið gefið út. Kæra hafi hins vegar ekki verið lögð fram fyrr en 24. júní s.á., eða rúmum tveimur mánuðum eftir útgáfu leyfisins, og hafi hinn lögbundni kærufrestur þá verið liðinn.

Um lóðina Álakvísl 45-51 gildi lóðarleigusamningur við Reykjavíkurborg. Í honum sé tilgreind sú fasteign sem Reykjavíkurborg hafi veitt kærendum afnot af. Komi þar skýrt fram hver endamörk lóðarinnar séu gagnvart aðliggjandi borgarlandi við götuna Straum í Ártúns¬holti. Eignaskiptayfirlýsingin, sem gerð hafi verið um fasteignina og þinglýst 31. maí 1988, sé samkomulag eigenda fasteignarinnar sín á milli um skiptingu eignanna, m.a. í séreignir og sameignir, og ákvarði hún hlut hvers gagnvart öðrum. Með yfirlýsingunni geti eigendur ekki markað sér stærri eign en þeim hafi að lögum verið veitt afnot af og samkomulag um annað hafi ekkert gildi gagnvart þriðja aðila.

Óháð deilunni um eignarréttinn þá sé ljóst að kvaðir séu til staðar um lóðir í borgarlandi. Verði litið svo á að kærendur hafi með einhverjum hætti eignast það land sem standi utan við þá lóð sem þeim sé leigð á grundvelli lóðarleigusamnings, þó slíkt eigi almennt að vera á forræði dómstóla að meta, sé ljóst að þau afnot verði að taka mið af þeim óbeinu eignarréttindum sem þar séu fyrir. Greint hafi verið frá því að kvöð sé um hitaveitulagnir í borgarlandinu, sem liggi utan við lóðina Álakvísl 45-51. Af slíkri kvöð leiði að leyfishafi hafi rétt til að viðhalda þeim lögnum og endurnýja þær eins og þurfi, óháð því hver fari með handhöfn eignarréttinda lóðarinnar sem teljist borgarland.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Umþrætt framkvæmdaleyfi var gefið út af Reykjavíkurborg 18. apríl 2016. Í gögnum málsins kemur fram að undirbúningsframkvæmdir hafi farið af stað 11. apríl s.á. með fellingu trjáa og runna og uppsetningu öryggisgirðinga og vinnubúða. Við útgáfu leyfisins hafi verið hafist handa við að grafa frá lögnum. Upplýst hefur verið að framkvæmdir hafi byrjað á sitt hvorum enda framkvæmdasvæðisins en fasteignir kærenda eru um miðbik þess. Ekki verður af málsatvikum ráðið með vissu að kærendur hafi vitað eða mátt vita um tímasetningu ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfisins og útgáfu þess fyrr en þeim barst bréf Reykjavíkurborgar, dags. 26. maí 2016, þar sem þeim var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun. Verður því við það miðað að kæra í máli þessu, sem barst úrskurðarnefndinni 24. júní 2016, hafi borist innan lögmælts kærufrests.

Í hnotskurn er í máli þessu deilt um lóðarmörk kærenda gagnvart framkvæmdasvæði því sem hin kærða ákvörðun tekur til og þar með hvort með heimiluðum framkvæmdum sé gengið á lóðarréttindi þeirra.

Hinn 26. janúar 2016 sóttu Veitur ohf. um framkvæmdaleyfið sem um er deilt í þessu máli. Með umsókninni fylgdi yfirlitsmynd í mælikvarðanum 1:1000, ásamt öðrum hönnunar¬gögnum sem sýndu fyrirhugaða framkvæmd og afstöðu hennar gagnvart aðliggjandi byggð og landi skv. 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Þá var einnig lögð fram greinargerð með lýsingu framkvæmdar og rökstuðningi fyrir óbreyttri legu hitaveitulagnanna ásamt lýsingu á áætluðum framkvæmdatíma og hvernig að framkvæmdinni yrði staðið. Framkvæmdin er í samræmi við aðal- og deiliskipulag svæðisins ásamt lóðarleigusamningi og mæliblaði. Ekki verður annað ráðið en að hið kærða framkvæmdaleyfi sé í samræmi við ákvæði reglugerðar um framkvæmdaleyfi, stjórnsýslulög og skipulagslög.

Í 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að hlutverk nefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Ágreiningur um bein eða óbein eignarréttindi og túlkun samninga í því sambandi, svo sem um lóðarleiguréttindi, verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, enda á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkur um að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna endurnýjunar Reykjaæða við Ártúnsholt ásamt nýjum göngustíg.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson
 

40/2014 Kárahnjúks- og Lagarfossvirkjanir

Með
Árið 2016, föstudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 40/2014, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 9. apríl 2014 um að synja kröfu Fljótsdalshéraðs um endurupptöku á málsmeðferð varðandi skilmála virkjunarleyfa Kárahnjúka- og Lagarfossvirkjana.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. maí 2014, er barst nefndinni 8. s.m., kærir Fljótsdalshérað, Lyngási 12, Egilsstöðum, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 9. apríl 2014 að synja kröfu Fljótsdalshéraðs um endurupptöku á málsmeðferð varðandi skilmála virkjunarleyfa Kárahnjúka- og Lagarfossvirkjana. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og stofnuninni falið að fjalla um málið á nýjan leik.

Gögn málsins bárust frá Orkustofnun 23. maí 2014.

Málavextir: Með bréfi, dags. 30. maí 2013, óskaði kærandi þess að Orkustofnun kannaði hvort farið hefði verið að skilmálum virkjunarleyfa vegna Kárahnjúkavirkjunar og Lagarfossvirkjunar, einkum varðandi rennsli og vatnsyfirborð Lagarfljóts. Segir m.a. í bréfi kæranda að ástæða sé til þess að farið verði heildstætt yfir skilmála leyfanna. Orkustofnun leitaði í kjölfarið umsagna virkjunaraðila. Að þeim fengnum kom kærandi að frekari athugasemdum og benti á að tilefni væri til þess að taka til skoðunar hvort umrædd virkjunarleyfi skyldu endurskoðuð. Stofnunin svaraði með bréfi, dags. 6. janúar 2014, þar sem fram kom sú niðurstaða hennar að ekki væri ástæða að svo stöddu til að endurskoða skilmála Kárahnjúka- og Lagarfossvirkjana. Var tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 37. gr. raforkulaga nr. 65/2003 sættu ákvarðanir Orkustofnunar er lytu að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa, sbr. nánar tilgreind ákvæði laganna, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Jafnframt að um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað varðandi kæru færi samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina nr. 130/2011.

Með bréfi til Orkustofnunar, dags. 4. mars 2014, fór kærandi fram á að stofnunin endurupptæki málsmeðferð varðandi skilmála virkjunarleyfanna eða veitti fyllri rökstuðning fyrir afgreiðslu málsins. Í svarbréfi stofnunarinnar, dags. 9. apríl s.á., var beiðni kæranda um endurupptöku hafnað og jafnframt kom fram það álit stofnunarinnar að rökstuðningur fyrir ákvörðuninni væri í samræmi við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hefur þessi ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök Fljótsdalshéraðs:
Af hálfu sveitarfélagsins er um kæruheimild vísað til 2. mgr. 37. gr. raforkulaga nr. 65/2003, en höfnun endurupptöku á málsmeðferð varðandi endurskoðun og skilmála virkjunarleyfis falli undir valdssvið úrskurðarnefndarinnar. Að öðrum kosti beri að vísa málinu til þess ráðuneytis sem með yfirstjórn málaflokksins fari.

Hvað varði lögvarða hagsmuni kæranda sé því vísað á bug að þeir séu ekki til staðar, enda fari hann sem sveitarfélag með stjórn skipulag- og náttúruverndarmála. Kærandi hafi m.a. komið að útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Lagarfossvirkjun og varði athugasemdir hans m.a. það að virkjunaraðili hafi ekki staðið að rekstri í samræmi við upplýsingar sem því lágu til grundvallar.

Áréttað sé að eftirlit Orkustofnunar með virkjunaraðilum sé viðvarandi og geti stofnunin því hvenær sem er hafið málsmeðferð varðandi endurskoðun virkjunarleyfa. Kærandi telji hins vegar mikilvægt, í ljósi þeirrar vinnu sem fram hafi farið við málið, að það sé tekið upp og fjallað um þau efnisatriði sem komið hafi fram á grundvelli fullnægjandi gagna.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun tekur fram að málið varði endurupptöku máls en hvorki endurskoðun né afturköllun leyfis sem fjallað sé um í 1. mgr. 4. gr., 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 11. gr. raforkulaga nr. 65/2003, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé aðila máls hins vegar heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju. Í tilviki Orkustofnunar sé atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið það æðra stjórnvald sem beina hefði átt kæru til, en ekki úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í ákvörðun Orkustofnunar frá 6. janúar 2014 hafi verið leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar. Kærandi hafi ekki nýtt sér þá heimild, enda kærufrestur verið liðinn, heldur valið þá leið með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga að óska endurupptöku á málinu varðandi skilmála hinna umdeildu virkjunarleyfa eða eftir frekari rökstuðningi. Ákvörðun Orkustofnunar um að synja endurupptöku hafi verið tekin með vísan til 1. tl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, en skilyrðum ákvæðisins hafi ekki verið fullnægt. Kærandi hafi kært þá ákvörðun á grundvelli raforkulaga en stjórnvaldsákvarðanir sem ekki varði ákvæði þeirra laga fari að ákvæðum stjórnsýslulaga, eins og hin kærða ákvörðun beri með sér. Kæruheimild sé því til æðra stjórnvalds á grundvelli 26. gr. þeirra laga.

Athugasemdir Landsvirkjunar: Landsvirkjun bendir á að sérstaklega sé lögákveðið í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hverjir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar, en það geti þeir einir sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi auk samtaka sem starfi í ákveðnum tilgangi. Óljóst sé á hvaða lagagrundvelli kærandi hafi lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu og beri úrskurðarnefndinni að vísa málinu frá af þeim sökum þar sem almenn aðildarskilyrði stjórnsýsluréttarins eigi ekki við.

Athugasemdir Orkusölunnar: Orkusalan telur kæranda ekki eiga aðild að máli er snúi að skilmálum virkjunarleyfis vegna Lagarfossvirkjunar þar sem það hafi ekki beina, sérstaka, verulega og lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Sem sveitarfélag hafi kærandi hvorki beina né óbeina hagsmuni af úrlausn málsins þar sem skilmálar virkjunarleyfis þess sem um sé deilt varði hagsmuni virkjunarleyfishafa og landeigenda við Lagarfossvirkjun en ekki hagsmuni sem sveitarfélögum beri að gæta að. Í 7. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 segi m.a. að sveitarfélög skuli annast verkefni sem þeim séu falin í lögum og vinna að sameiginlegum velferðarmálum íbúa eftir því sem fært þyki. Hvorugt þessara skilyrða sé fyrir hendi í máli þessu. Sveitarfélögum beri að vinna að málum sem sérstaklega séu tiltekin í löggjöf og að sameiginlegum hagsmunamálum íbúa sinna. Kærandi gangi hins vegar erinda tiltekinna landeigenda í kærumáli á hendur atvinnurekanda í sama sveitarfélagi. Uppfylli það bersýnilega ekki þær kröfur sem gerðar séu til aðildar í stjórnsýslumáli.

Sveitarfélag geti ekki talist hafa lögvarða hagsmuni vegna virkjunarleyfis samkvæmt raforkulögum með vísan til þess að það geri skipulagsáætlanir eða veiti framkvæmdaleyfi. Kærandi hafi með kæru farið út fyrir sitt lögbundna hlutverk. Þá liggi skipulag vegna Lagarfossvirkjunar þegar fyrir og sé ekki um það deilt í málinu. Loks undirbyggi það ekki aðild að stjórnsýslumáli er snúi að virkjunarleyfi þótt sveitarfélög hafi visst hlutverk við framkvæmd náttúruverndarlaga.

Hvort sem málið eigi undir úrskurðarnefndina eða viðeigandi ráðherra beri að vísa því frá þar sem kærandi eigi ekki aðild að því.

——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Kæruheimildir til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er að finna í ýmsum sérlögum og er fjallað um eina slíka í 2. mgr. 37. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Samkvæmt lagaákvæðinu sæta ákvarðanir Orkustofnunar er lúta að veitingu, endurskoðun og afturköllun leyfa sem fjallað er um í 1. mgr. 4. gr., 2. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 11. gr. laganna kæru til úrskurðarnefndarinnar, en um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefndina. Þau lög eru nr. 130/2011 og er fjallað um kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. þeirra. Þar er tekið fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra eigi. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök geta þó kært nánar tilgreindar ákvarðanir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Kærandi í máli þessu er ekki slík samtök heldur sveitarfélag og er lögfesta kæruheimild því til handa hvorki að finna í lögum nr. 130/2011 né raforkulögum.

Í kæru vísar sveitarfélagið um lögvarða hagsmuni sína til þess að það fari með stjórn skipulags- og náttúruverndarmála. Það hafi t.a.m. komið að útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir Lagarfossvirkjun á grundvelli tilkynningar virkjunaraðila til Skipulagsstofnunar um framkvæmdina, en athugasemdir sveitarfélagsins lúti m.a. að því að virkjunaraðili hafi ekki staðið að rekstri í samræmi við upplýsingar sem fram hafi komið í þeirri tilkynningu. Þá hafi sveitarfélagið með margs konar hætti fengið til umfjöllunar málefni er tengist náttúruverndarþætti málsins.

Í 3. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 kemur fram að sveitarfélög séu sjálfstæð stjórnvöld og er í 7. gr. laganna fjallað um almennar skyldur þeirra. Í 1. mgr. lagagreinarinnar segir að sveitarfélögum sé skylt að annast þau verkefni sem þeim eru falin í lögum. Svo hefur t.d. verið gert í skipulagslögum nr. 123/2010, sbr. 13. og 14. gr. þeirra um veitingu framkvæmdaleyfis. Stjórnvald sem tekur stjórnvaldsákvörðun í skjóli opinbers valds síns, t.d. um leyfisveitingu, er hins vegar ekki aðili að því máli og getur ekki átt að því kæruaðild í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Verður því að líta svo að sveitarfélagið verði að eiga lögvarða hagsmuni af úrlausn máls til að geta átt að því kæruaðild. Í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum verður og við það að miða að það verði að eiga sérstaka einstaklingsbundna hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.

Af kæru og öðrum gögnum málsins verður ráðið að athugasemdir kæranda beinast að vatnsborði í Lagarfljóti og stýringu hæðar þess. Hvað Lagarfossvirkjun varðar hefur kærandi einnig bent á að gert hafi verið ráð fyrir því að samið yrði við landeigendur vegna vatnshæðar. Svo sem fram er komið er kærandi stjórnvald sem gætir opinberra hagsmuna að lögum, t.a.m. á grundvelli skipulagslaga og náttúruverndarlaga, svo sem kærandi hefur vísað til. Hvorki slík almannahagsmunagæsla né eftir atvikum hagsmunagæsla einstakra landeigenda eða annarra íbúa sveitarfélagsins skapa kæranda hins vegar kæruaðild, enda ekki um einstaklega lögvarða hagsmuni hans að ræða, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Að öllu framangreindu virtu er ljóst að kærandi á ekki aðild að kærumáli þessu og verður því þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Hólmfríður Grímsdóttir

76/2016 Unnarbraut

Með
Árið 2016, föstudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2016, kæra vegna dráttar byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar á afgreiðslu erindis um að koma húsinu á lóðinni Unnarbraut 32 í upprunalegt horf eftir framkvæmdir. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra A, Unnarbraut 32, Seltjarnarnesi, drátt á afgreiðslu erindis kærenda frá 27. apríl 2016 um að koma fasteigninni að Unnarbraut 32 aftur í fyrra horf í kjölfar framkvæmda. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé að lagt verði fyrir Seltjarnarnesbæ að taka fyrrgreint erindi kærenda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 5. ágúst 2016.

Málavextir: Síðsumars 2014 mun byggingarfulltrúi Seltjarnarness hafa stöðvað framkvæmdir í kjallara að Unnarbraut 32. Framkvæmdirnar voru á vegum eigenda neðri hæðar hússins sem beindu fyrirspurn, dags. 25. október 2014, til byggingarfulltrúa um breytingar á kjallaranum. Því var nánar lýst í hverju breytingar væru fólgnar, en samþykki kærenda sem meðeigenda fylgdi ekki. Með umsókn, dags. 17. ágúst 2015, sem móttekin var 18. september s.á., var sótt um byggingarleyfi vegna endurbóta á ósamþykktu kjallararými. Fundist hefði raki í rýminu sem til stæði að lagfæra auk þess sem endurgera og bæta þyrfti áður gerðar breytingar á kjallaranum. Var tekið fram að ítrekað hefði verið óskað eftir samþykki meðeigenda en án árangurs.

Með bréfi, dags. 27. apríl 2016, fóru kærendur fram á það við byggingarfulltrúa að hlutast til um það að koma umræddum kjallara í upprunalegt horf. Var skorað á byggingarfulltrúa að beita þvingunarúrræðum í því skyni. Var og tekið fram að framkvæmdir hefðu verið unnar í óleyfi, án samþykkis kærenda, og hefðu þær valdið skemmdum á sameiginlegu burðarvirki hússins. Með bréfi, dags. 26. maí s.á. gaf byggingarfulltrúi umsækjanda byggingarleyfis kost á að tjá sig um erindi kærenda og benti jafnframt á heimildir byggingarfulltrúa skv. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að knýja á um aðgerðir og úrbætur. Í svarbréfi umsækjanda frá 8. júní s.á. kom fram að sumarið 2014 hefði orðið vart við umfangsmiklar rakaskemmdir og sveppamyndun sem ættu upptök sín út frá botnplötu í kjallara hússins. Hefði þurft að bregðast skjótt við. Jafnframt kom fram að vilji væri til þess að fallast á bróðurpart þeirra krafna sem fram kæmu í bréfi kærenda í góðri sátt og án afskipta sveitarfélagsins. Loks var bent á nauðsyn þess að settar yrðu jarðvatnslagnir undir kjallarann og vísað þar um til sérfræðiálits byggingartæknifræðings og húsasmíðameistara sem fram kæmi í greinargerð um regnvatnslagnir í húsinu, en nefnd greinargerð hafði áður borist embætti byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi framsendi svarbréfið til kærenda með tölvupósti 9. júní 2016 með beiðni um að athugað yrði hvort ekki væri grundvöllur til sátta. Hinn 1. júlí s.á. barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu, svo sem áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur árétta að kæra þeirra snúi að óleyfisframkvæmdum sem þurfi að koma í upprunalegt horf. Jafnframt hvort störf byggingarfulltrúa í ferlinu hafi verið lögum samkvæmt. Kærendur hafi ekki getað nýtt sér sinn hluta kjallarans og séu allar fyrirhugaðar framkvæmdir þeirra í bið vegna þessa máls. Raki hafi myndast hjá kærendum og aukist hratt eftir að hitablásara hafi verið komið fyrir í kjallaranum í lok árs 2015. Burðarsúlur í kjallara beri auk þess merki um að átt hafi verið við þær. Ítrekað sé að samþykki kærenda hafi ekki legið fyrir og svo hafi verið frá upphafi málsins.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að frá því að þetta mál hafi komið upp hafi mikið verið reynt að ná sáttum milli aðila. Á tímabili hafi verið fenginn lögfræðingur til sáttargerðar. Til séu margir tölvupóstar og minnispunktar sem sýni að sveitarfélagið hafi lagt mikið á sig og eytt miklum tíma í þessum tilgangi, en það ekki haft erindi sem erfiði. Allan tímann hafi þáverandi og núverandi byggingarfulltrúa verið kunnugt um stöðu mála og vonast eftir því að aðilar gætu náð sáttum. Það hafi líka verið stefnan í þessu máli hjá byggingarfulltrúa að beita sem mildustum stjórnvaldsaðgerðum og best væri ef aðilar næðu sáttum án afskipta sveitarfélagsins.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Forsaga þessa máls varðar þegar gerðar og fyrirhugaðar framkvæmdir í kjallara Unnarbrautar 32. Kærendur, sem eiga íbúð í nefndu húsi, krefjast þess að erindi þeirra til byggingarfulltrúa, dags. 27. apríl 2016, um að kjallara hússins verði komið í upprunalegt horf, verði tekið til afgreiðslu hjá embættinu.

Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Svo sem fram hefur komið beindi byggingarfulltrúi þeirri fyrirspurn til kærenda hvort grundvöllur væri til sátta sama dag og kæra í máli þessu barst nefndinni, eða rúmum tveimur mánuðum eftir að kærendur settu fram kröfur sínar með formlegum hætti. Á því tímabili var einnig gætt andmælaréttar umsækjanda og allur dráttur á afgreiðslu málsins því óverulegur í þeim skilningi. Hins vegar verður af gögnum málsins ráðið að byggingarfulltrúi hefur frá árinu 2014 án árangurs reynt að ná sáttum milli aðila, en allt frá þeim tíma hafa samskipti átt sér stað milli kærenda, byggingarleyfisumsækjanda, bæjarstjóra og byggingarfulltrúa. Með hliðsjón af því og þar sem mál þetta hefur verið kært til úrskurðarnefndarinnar verður að telja ólíklegt að sættir muni nást milli aðila. Eins og atvikum er háttað verður því að telja drátt á afgreiðslu málsins orðinn óhæfilegan, enda ekki séð að efni séu til þess að slá á frest ákvörðun um erindi kærenda. Verður því lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka erindið til efnislegrar meðferðar án frekari tafa.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar að taka erindi kærenda, dags. 27. apríl 2016, til efnislegrar afgreiðslu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Hólmfríður Grímsdóttir

59/2016 Kólumbusarbryggja

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 30. desember 2022, sjá hér .

Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 59/2016, kæra á ákvörðun Snæfellsbæjar um að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. maí 2016, er barst nefndinni 1. júní s.á., kærir Móabyggð ehf., Skeifunni 17, Reykjavík, þá ákvörðun Snæfellsbæjar frá 5. mars 2016 að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna fasteignarinnar Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Snæfellsbæ 13. júní 2016.

Málavextir: Fasteignin Kólumbusarbryggja 1 í Snæfellsbæ er 8.128 m² límtrésgrindarhús á steyptum undirstöðum og stendur á 62.000 m² lóð. Kærandi keypti eignina af þrotabúi fyrri eiganda á seinni hluta ársins 2015 og var ætlun hans að rífa húsið. Skilyrði af hálfu Snæfellsbæjar fyrir veitingu leyfis til niðurrifs eru m.a. þau að álögð fasteignagjöld fyrir árið 2015 verði greidd, m.a. kr. 689.700 í fráveitugjald. Með bréfi, dags. 11. febrúar 2016, fór kærandi fram á það við sveitarfélagið að gjöld þessi yrðu felld niður þar sem hvorki væri búið að leggja lagnir né tengja þær og engin starfsemi færi fram í húsinu. Með bréfi, dags. 5. mars s.á., hafnaði Snæfellsbær framangreindri kröfu kæranda þar sem lagnir væru í steyptum plönum við húsið, vatn væri tengt að húsvegg og frárennslislagnir væru komnar inn fyrir vegg þess. Kærandi kærði framangreinda ákvörðun eins og að fyrr greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður fasteignina Kólumbusarbryggju 1 vera skráða á byggingarstigi 3 í fasteignaskrá Þjóðskrár. Sé ýmsum frágangi við þak og veggi ólokið og hafi gólfplata ekki verið steypt. Fasteignin hafi ekki verið tekin í notkun, enda bíði hún niðurrifs. Ekki hafi verið komið á tengingum, hvorki við vatnsveitu né fráveitu sveitarfélagsins. Sveitarfélagið skorti lagastoð fyrir álagningu fráveitugjalds, sem sé þjónustugjald, því þrátt fyrir að búið sé að leggja lagnir að húsi þurfi að vera komin á tenging við vatns- og fráveitukerfi sveitarfélagsins. Það sé ekki í þessu tilviki og því sé engin þjónusta innt af hendi sem koma þurfi endurgjald fyrir.

Málsrök Snæfellsbæjar: Af hálfu Snæfellsbæjar er bent á að sveitarfélagið hafi á sínum tíma fengið beiðni um að vatn yrði tengt við vinnuaðstöðu sem reist hafi verið vegna byggingar Kólumbusarbryggju 1 og hafi verið orðið við því.

Lagnir séu í steyptum plönum við húsið, vatn sé tengt að húsvegg og frárennslislagnir séu komnar inn fyrir vegg. Lagnir séu þannig komnar bæði fyrir utan og innan hús og sé sveitarfélaginu þannig fullkomlega heimilt að leggja á fráveitugjöld. Ljóst sé að vatni frá plönum sé safnað saman í þar til gerð ræsi og þurfi vatnið leið til að komast af svæðinu. Jafnframt hafi sveitarfélagið sett niður rotþró til að taka við frárennsli frá vinnubúðum og hafi sú framkvæmd verið kostuð af sveitarfélaginu.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á niðurfellingu fráveitugjalda fyrir fasteignina Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ, vegna ársins 2015.

Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er í 22. gr. laga nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna. Samkvæmt 22. gr. fer um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra skal.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Bréf frá Snæfellsbæ til kæranda, þar sem tilkynnt var um hina kærðu ákvörðun, er dags. 5. mars 2016. Ber kærandi það fyrir sig að bréfið hafi aldrei borist honum heldur hafi honum orðið kunnugt um ákvörðunina með bréfi, dags. 2. maí s.á., frá yfirfasteignamatsnefnd vegna máls sem kærandi reki fyrir henni. Hafi umrætt bréf frá Snæfellssbæ til kæranda verið á meðal gagna þess máls. Ekkert hefur komið fram í málinu sem gefur tilefni til að véfengja staðhæfingu kæranda í þessu efni og verður því að miða við að kæranda hafi fyrst orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun 2. maí 2016. Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 1. júní s.á. og telst því vera fram komin innan lögbundins kærufrests.

Uppbygging og rekstur fráveitu telst til grunnþjónustu í sveitarfélagi og mikilvægt er að festa ríki um þá þjónustu, eins og ákvæði laga nr. 9/2009 bera vott um. Í 1. mgr. 4. gr. laganna segir að sveitarfélag beri ábyrgð á uppbyggingu fráveitna í sveitarfélaginu og í 2. mgr. kemur fram að í þéttbýli skuli sveitarfélag koma á fót og starfrækja sameiginlega fráveitu og hefur það einkarétt á þeirri starfsemi samkvæmt 9. mgr. 4. gr. nefndra laga. Jafnframt fer sveitarstjórn með rekstur og stjórn fráveitu á vegum sveitarfélagsins nema annað rekstrarform hafi verið sérstaklega ákveðið, sbr. 1. mgr. 5. gr. laganna. Kveðið er á um fráveitugjald í 1. mgr. 14. gr. laga nr. 9/2009, en þar segir, eins og ákvæðið var orðað, að heimilt sé að innheimta fráveitugjald af öllum fasteignum sem tengdar eru eða munu tengjast fráveitu sveitarfélags.

Kærandi byggir kröfu sína um niðurfellingu fráveitugjalda fyrir árið 2015 á því að húsið sé á því byggingarstigi að engar fráveitulagnir séu fyrir hendi og því hafi skilyrði laga fyrir álagningunni aldrei verið uppfyllt. Samkvæmt gögnum frá Snæfellsbæ eru frárennslislagnir á plönum fyrir utan húsið og einnig komnar inn fyrir húsvegg. Hefur sveitarfélagið því uppfyllt lagalega skyldu sína til að gera kæranda kleift að tengjast fráveitukerfi þess, en skv. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 9/2009 er eigendum húseigna þar sem fráveita liggur skylt á sinn kostnað að annast lagningu og viðhald heimæða fyrir frárennsli að tengingu við fráveitukerfi. Í samræmi við áður tilvitnaða 1. mgr. 14. gr. nefndra laga var álagningin því lögmæt og var sveitarfélaginu heimilt að hafna því að fella hin álögðu gjöld niður.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Snæfellsbæjar um að hafna niðurfellingu og endurgreiðslu fráveitugjalda fyrir árið 2015 vegna Kólumbusarbryggju 1, Snæfellsbæ.

 

75/2016 Leirdalur

Með
Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 75/2016, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar um að samþykkja að breyta einbýlishúsum á lóðum nr. 29-37 við Leirdal í tvíbýlishús. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2016, er barst nefndinni 21. s.m, kæra 40 íbúar við Leirdal, Hamradal og Hraundal, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar frá 8. mars 2016, sem staðfest var í bæjarstjórn 16. s.m., að heimila lóðarhafa Leirdals 29-37 að hafa á lóðunum tvíbýlishús í stað einbýlishúsa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 28. júní 2016, kröfðust kærendur þess að framkvæmdir á nefndum lóðum yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 7. júlí og 5. ágúst 2016.

Málsatvik og rök:
Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar samþykkti 8. mars 2016, með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, umsókn lóðarhafa Leirdals 29-37 um heimild til þess að breyta fokheldum einbýlishúsum lóðanna í tvíbýli og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 16. s.m. Hinn 7. apríl s.á. ritaði hópur íbúa í nágrenni Leirdals bréf til bæjaryfirvalda þar sem þeir lýstu andstöðu við breytingar á lóðunum að Leirdal 7-37 og kröfðust þess að ákvörðunin yrði afturkölluð. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. apríl 2016 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa þess efnis að skipulagi lóðanna Leirdalur 7-27 yrði breytt og þar gert ráð fyrir tvíbýlishúsum í stað einbýlishúsa. Umhverfis- og skipulagsráð hafnaði umsókninni, m.a. með hliðsjón af undirskriftalistum íbúa Leirdals og Hamradals, þar sem lagst var alfarið gegn umræddum breytingum. Ráðið tók þó fram að endurskoðun deiliskipulagsins væri í undirbúningi.
 
Hinn 20. júní 2016 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð að úthluta lóðunum Leirdal 7-27 til lóðarhafa lóða nr. 29-37 með þeim fyrirvörum að fyrirhuguð deiliskipulagsbreyting yrði samþykkt. Tillaga að þeirri deiliskipulagsbreytingu hefur ekki verið lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs.

Kærendur telja að ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs eigi ekki að fá að standa þar sem ein forsenda þess að fasteignareigendur á svæðinu hafi keypt eða byggt þar hús hafi verið sú að hverfið væri skipulagt sem einbýlishúsahverfi. Þá sé um fordæmisgefandi ákvörðun að ræða og ekki sé hægt að samþykkja svo stórtækar breytingar án grenndarkynningar. Bílastæðafjöldi við lóðirnar dugi ekki til þegar fjöldi íbúða sé tvöfaldaður og umferð muni koma til með að aukast um helming, sem auki slysahættu.

Sveitarfélagið telur að umþrættar breytingar komi öllum til góða, þar sem umrædd hús hafi staðið fokheld í átta ár, öllum til ama, og engar horfur á að þau seldust sem svo stór einbýli á næstu árum. Tekið hafi verið tillit til þess að engar breytingar yrðu á útliti og stærð húsa eða nýtingarhlutfalli lóða. Þá hafi ekki enn verið sótt um byggingarleyfi fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum.

Lóðarhafi gerir kröfu um frávísun kærumálsins þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæran hafi borist úrskurðarnefndinni. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 sé kærufrestur einn mánuður frá þeim tíma er kæranda mátti vera kunnugt um viðeigandi ákvörðun. Hin kærða ákvörðun hafi verið birt á vef Reykjanesbæjar 9. mars 2016 og hafi kærufrestur því runnið út mánuði síðar, eða 9. apríl s.á. Í öllu falli sé ljóst að kærendum hafi verið kunnugt um ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs í síðasta lagi 7. apríl 2016 þegar þau hafi undirritað mótmælabréf í kjölfar ákvörðunar ráðsins, sem leiði til þess að kærufrestur hafi runnið út í síðasta lagi 7. maí 2016. 

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var samþykkt að veita lóðarhafa Leirdals 29-37 heimild til að breyta fokheldum einbýlishúsum á þeim lóðum í tvíbýli, en samkvæmt gildandi deiliskipulagi svæðisins frá september 2005 er gert ráð fyrir einbýlishúsum á umræddum lóðum. Hin kærða ákvörðun var tekin með stoð í 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar er skipulagsnefnd veitt heimild til að falla frá grenndarkynningu ef sýnt er fram á að breyting á deiliskipulagi eða leyfisskyld framkvæmd varði ekki hagsmuni annarra en sveitarfélagsins eða umsækjanda.

Í málinu liggur fyrir að tillaga að breyttu deiliskipulagi Leirdals 29-37 hefur hvorki verið samþykkt af sveitarstjórn né birt í B-deild Stjórnartíðinda og ekki hefur verið samþykkt byggingarleyfi fyrir umdeildum breytingum. Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður ákvörðun, sem ekki telst lokaákvörðun í skilningi ákvæðisins, ekki borin undir kærustjórnvald. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

48/2016 Flatahraun

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 24. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 48/2016 með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 2. maí 2016, er framsent var af innanríkisráðuneytinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með bréfi, dags. 9. s.m., kærir G, þá ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar að leggja á gjöld vegna stöðuleyfa. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 6. júlí og 23. ágúst 2016.

Málsatvik og rök: Með bréfi, dags. 6. apríl 2016, tilkynnti Hafnarfjarðarbær hlutaðeigandi þá ákvörðun bæjarstjórnar frá 20. janúar s.á. að tekið yrði upp gjald fyrir stöðuleyfi vegna gáma, skv. 2.6.1. gr. byggingarreglugerðar nr. 112/2012 og gjaldskrá fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfjarðarkaupstað nr. 1244/2015 er birt var í B-deild Stjórnartíðinda 4. janúar 2016. Samkvæmt bréfinu skyldi ársgjald vegna stöðuleyfis fyrir 20 feta gám eða minna vera kr. 31.780 og fyrir 40 feta gám eða minna kr. 63.559.

Kærandi kveður gjald það sem Hafnarfjarðarbær hafi ákveðið að innheimta vegna stöðuleyfa vera skatt þar sem engin þjónusta komi fyrir. Þar af leiðandi sé um ólögmæta skattheimtu að ræða. Hann sé með 20 feta gám sem sé 15 m² smáhýsi staðsett á lóð en um sé að ræða hjóla- og verkfærageymslu sem undanþegin sé byggingarleyfi.

Hafnarfjarðarbær kveður heimild til töku gjalds fyrir stöðuleyfi vera í 51. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Samkvæmt gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé óheimilt að láta hjólhýsi, gáma, báta, torgsöluhús, frístundahús í smíðum sem ætlað er til flutnings og stór samkomutjöld standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega séu skipulögð og ætluð til geymslu slíkra hluta. Aftur á móti sé unnt að sækja um stöðuleyfi fyrir ofangreinda lausafjármuni sé ætlunin að þeir standi lengur utan slíkra geymslustaða.

Niðurstaða: Kæra í máli þessu snýst um um lögmæti gjalds fyrir stöðuleyfi, sbr. 2. gr. gjaldskrár nr. 1244/2015 fyrir leyfisveitingar og þjónustu byggingarfulltrúa og skipulagsfulltrúa í Hafnarfjarðarkaupstað, er birtist í B-deild Stjórnartíðinda 4. janúar 2016. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá sveitarfélaginu mun kærandi ekki hafa sótt um slíkt stöðuleyfi og hefur hann því ekki verið krafinn um hið kærða gjald.

Í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur m.a. fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laganna geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun.

Eins og áður hefur verið rakið liggur engin ákvörðun fyrir í máli þessu um álagningu gjalda á kæranda á grundvelli hinnar umdeildu gjaldskrár. Verður því að telja að kæran beinist að lögmæti hennar. Samkvæmt 51. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er sveitarstjórnum heimilt að setja gjaldskrá fyrir veitta þjónustu og verkefni byggingarfulltrúa, m.a. fyrir útgáfu stöðuleyfa. Upphæð gjalds skal taka mið af kostnaði við þjónustu og einstök verkefni og skal byggð á rekstraráætlun þar sem rökstudd eru þau atriði sem ákvörðun gjalds byggist á. Gjaldskrá skal birt í B-deild Stjórnartíðinda. Slík gjaldskrá felur í sér heimild til innheimtu gjalda samkvæmt nánar tilgreindum skilyrðum sem þar koma fram. Þótt gjaldskráin geti haft verulega þýðingu fyrir þá aðila er þar falla undir, verður ekki talið að setning hennar ein og sér skapi almennt þá sérstöku lögvörðu hagsmuni að það veiti einstökum aðilum, sem mögulega verður gert að greiða gjöld samkvæmt henni, stöðu aðila máls.

Verður  með vísan til alls þess sem að framan er rakið ekki talið að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir