Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

22/2015 Þrastarás

Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2015, kæra á synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2015 á umsókn um byggingarleyfi fyrir svalaskýli á þakhæð hússins að Þrastarási 39, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Þrastarás 39, Hafnarfirði, synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2015 á umsókn hans um byggingarleyfi fyrir svalaskýli á þakhæð hússins að Þrastarási 39. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 13. maí 2015.

Málavextir: Árið 2010 lagði kærandi í tvígang fram fyrirspurn til skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um hvort heimilað yrði að stækka kvist á húsi hans að Þrastarási 39 en í bæði skiptin fékk hann neikvætt svar. Í seinna skiptið óskaði hann eftir rökstuðningi sem var á þá leið að stækkun kvists væri hvorki í samræmi við deiliskipulag né byggingarreglugerð, þar sem rýmið myndi ekki uppfylla skilyrði um lágmarkshæð herbergja og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi umfram heimildir deiliskipulagsins. Þá snúi kvisturinn að bakgarði nágranna en aðrir kvistir sem hafi verið samþykktir snúi allir að götu eða opnu svæði. Hinn 6. mars 2015 sótti kærandi um leyfi til þess að byggja svalaskýli á þakhæð nefnds húss með því að framlengja þakkvisti og loka honum með gleri í brautum. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa, 18. mars. s.á. var erindinu vísað til skipulags- og byggingarráðs sem tók málið fyrir 24. s.m. og hafnaði erindinu með vísan til fyrri afgreiðslna vegna fyrirspurna kæranda.

Málsrök kæranda: Kærandi telji að engin efnisleg rök séu fyrir hinni kærðu synjun skipulags- og byggingarráðs, enda ákvörðun ráðsins órökstudd. Arkitekt hússins hafi teiknað breytingarnar og samþykki liggi fyrir frá nágranna að Þrastarási 37. Um sé að ræða mjög minimalíska breytingu sem sé í fullu samræmi við byggingarreglugerð. Breyting þessi hafi engin áhrif á götumynd, enda snúi umræddar svalir að baklóð. Eins skyggi umræddar breytingar á engan hátt á nærliggjandi garð eða auki útsýni yfir hann frá því sem nú sé. Hagsmunir kæranda séu miklir í málinu vegna rakaskemmda á neðri hæð frá svölunum. Svalirnar sléttfyllist af snjó sem breytist í krapa þegar hláni og þá leki. Svalalokun sé því nauðsynleg til að verja húsið fyrir leka.

Kærandi telji að þessar breytingar falli vel að deiliskipulagi þar sem í hverfinu séu alls konar útbyggingar leyfðar. Þá sé rétt að árétta að kvistur og svalir séu byggðar samkvæmt samþykktum teikningum frá bæjaryfirvöldum.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að fyrirhuguð framkvæmd samræmist ekki gildandi deiliskipulagi, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 9. apríl 2002. Húsið sé parhús og um það gildi skilmálar merktir P1 í skipulaginu. Svalaskýli teljist í skráningartöflu lokaðar svalir í höfuðflokki S og lokunarflokki A samkvæmt skilgreiningu Fasteignaskrár. Hér sé því ekki um B-lokun að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar um að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja svalaskýli á þakhæð húss hans með því að framlengja þak á kvisti og loka honum með gleri í brautum.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frá árinu 2002. Þar er hús kæranda skilgreint sem húsgerð P1, parhús á einni hæð, og samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins má grunnflötur húss ekki vera stærri en nemur 40% af grunnfleti lóðar. Þá er heimilað að nýta rými í rishæð, rúmist það innan tilskilinna hæðarmarka, og er hámarksmænishæð húsgerðarinnar 5 m frá gólfplötu. Svalaskýlið, sem kærandi óskaði að reisa, myndi vera í lokunarflokki A samkvæmt ÍST 50:1998 og því myndi sú breyting hækka nýtingarhlutfall lóðar kæranda. Hins vegar myndi það ekki teljast til stækkunar á grunnfleti húss og færi því ekki gegn skipulagsskilmálum að því leyti, en í skipulaginu eru ekki sett tiltekin mörk á nýtingarhlutfall. Þá verður ekki séð að lokun svala og stækkun kvists, auki grenndaráhrif, svo sem vegna yfirsýnar á lóð nágranna, umfram þau sem þegar eru til staðar vegna þaksvalanna á húsi kæranda. Þá gilda ákvæði gr. 6.7.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um lágmarkshæð herbergja ekki um þakrými í húsi kæranda, þar sem af fyrirliggjandi teikningum verður ráðið að þakrýmið sé nýtt sem geymslurými, og því ekki hægt að synja umsókn hans á þeim forsendum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður að telja að rökstuðningi hinnar kærðu synjunar sé svo áfátt að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar á umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir svalaskýli á þakhæð hússins að Þrastarási 39.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson