Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2016 Reykjanesvitabraut

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 73/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 19. apríl 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Reykjanesvita og nágrenni og ákvörðun bæjarstjórnar frá 21. febrúar 2017 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála, dags. 27. júní 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Reykjanesvitaíbúðarhúss, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 19. apríl 2016 að samþykkja deiliskipulag fyrir Reykjanesvita og nágrenni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 14. mars 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 21. febrúar s.á. um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1. Verður það mál, sem er nr. 30/2017, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami kæranda stendur að báðum málunum.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Í greinargerð sveitarfélagsins, dags. 20. mars 2017, kemur fram að framkvæmdum samkvæmt útgefnu framkvæmdaleyfi sé lokið. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 18. júlí 2016 og 20. mars 2017.

Málavextir: Með bréfi, dags. 14. ágúst 2014, óskaði Reykjanes Jarðvangur eftir heimild til þess að vinna deiliskipulag fyrir Reykjanes, á því svæði sem Ferðamálasamtök Suðunesja hafa á leigu, í samræmi við aðalskipulag og í samráði við umhverfis og skipulagssvið Reykjanesbæjar. Á fundi sínum 16. september s.á. samþykkti bæjarstjórn Reykjanesbæjar beiðni Reykjanes Jarðvangs.

Á fundi umhverfis og skipulagsráðs 14. janúar 2015 voru lögð fram drög að lýsingu skipulagsverkefnisins. Var samþykkt að senda lýsinguna til umsagnar eigenda fasteigna innan deiliskipulagsmarka, tiltekinna opinberra stofnana ásamt því að auglýsa lýsinguna í Lögbirtingablaði 21. janúar 2015 og í Víkurfréttum 22. s.m. Umhverfis og skipulagsráð samþykkti síðan hinn 11. nóvember 2015 ósk Reykjanes Jarðvangs um að tillaga að deiliskipulagi Reykjanesvita og nágrennis yrði auglýst samkvæmt 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Óskað var umsagna frá tilteknum aðilum, þ. á m. kæranda, með bréfi, dags. 27. nóvember 2015. Birtist auglýsing um kynningu deiliskipulagstillögunnar í Lögbirtingablaði og Víkurfréttum 19. nóvember s.á. Athugasemdafrestur var til 31. desember s.á. Málið var á dagskrá fundar umhverfis og skipulagsráðs 13. janúar 2016, þar sem kom fram að engar athugasemdir hefðu borist en umsagnir hefðu borist frá Minjastofnun og Umhverfisstofnun. Minjastofnun kom á framfæri ábendingum um framsetningu fornminja á uppdrætti og var tekið tillit til þeirra ábendinga og samþykkt að senda tillöguna til afgreiðslu hjá Skipulagsstofnun. Sú afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarstjórnar 19. janúar s.á.

Með bréfi, dags. 29. janúar 2016, gerði Skipulagsstofnun athugasemdir við deiliskipulagið. Lutu þær að því að gera þyrfti grein fyrir og sýna á uppdrætti staðsetningu rotþróar, lagna og/eða borholu neysluvatns, auk raflagna. Gæta þyrfti að fyrirhugaðri staðsetningu austasta hluta bílastæðasvæðis með tilliti til 15 m friðhelgunarsvæðis fornleifa og samræma þyrfti bílastæðafjölda á uppdrætti annarsvegar og í greinargerð hinsvegar. Þá þyrfti að gera nánari grein fyrir aðstöðu til stjörnuskoðunar og sýna á uppdrætti reiðleið sem liggja ætti frá Höfnum að Reykjanesvita. Loks benti stofnunin á að gera þyrfti grein fyrir því til hvaða aðgerða yrði gripið til að vernda kríuna almennt á deiliskipulagssvæðinu, auk sérstakra takmarkana á framkvæmdum, s.s. tímatakmarkana á varptíma. Á fundi umhverfis og skipulagsráðs 8. mars s.á. kom fram að brugðist hefði verið við öllum athugasemdum Skipulagsstofnunar fyrir utan umfjöllun um neysluvatn sem væri seinni tíma ákvörðun í samráði við HS Orku. Var tillagan svo send Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og Minjastofnun til umsagnar og á fundi nefndarinnar 12. apríl s.á. var svo bókað að Heilbrigðiseftirlitið hefði samþykkt tillöguna fyrir sitt leyti. Var og samþykkt að senda tillöguna með áorðnum breytingum til afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu á fundi 19. apríl 2016 og tilkynnti Skipulagsstofnun með bréfi, dags. 4. maí s.á., að hún gerði ekki athugasemd við að sveitarstjórn birti auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins. Deiliskipulagið tók síðan gildi með auglýsingu í Bdeild Stjórnartíðinda 26. maí 2016.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er bent á að fyrirhuguð uppbygging þjónustumiðstöðvar á vegum Reykjanes Geopark (Reykjanes Jarðvangur), sem sé meginforsenda deiliskipulagsins, muni í raun koma í veg fyrir uppbyggingu þess rekstrar sem kærandi hafi áformað á svæðinu, enda sé ljóst að það standi ekki undir tveimur þjónustumiðstöðvum.

Samkvæmt 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli kynna tillögu að deiliskipulagi, forsendur hennar og umhverfismat fyrir íbúum sveitarfélagsins og öðrum hagsmunaaðilum á fundi eða á annan fullnægjandi hátt áður en tillagan sé tekin til afgreiðslu. Samkvæmt munnlegum upplýsingum frá Reykjanesbæ hafi engin slík kynning átt sér stað vegna hins umþrætta deiliskipulags. Samkvæmt nefndri lagagrein sé einvörðungu hægt að falla frá slíkri kynningu ef allar meginforsendur liggi fyrir í aðalskipulagi. Svo sé ekki í þessu tilfelli, enda sé ekki einu orði minnst á hina fyrirhuguðu þjónustumiðstöð í Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 20082024.

Hið kærða deiliskipulag sé einnig haldið þeim verulega ágalla að hvorki á skipulagsuppdrætti né í greinargerð skipulagsins hafi verið gert ráð fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu á vegum kæranda, þrátt fyrir að kærandi hafi um langt skeið haft uppi áform um uppbyggingu slíkrar þjónustumiðstöðvar og ítrekað gert grein fyrir þeim áformum. Hafi hann átt fjölmarga fundi með fulltrúum sveitarfélagsins um þau áform, auk þess sem fjallað hafi verið um málið í fjölmiðlum. Þá hafi kærandi undir höndum bréf frá byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar, dags. 6. janúar 2016, þar sem staðfest sé að hinn 10. desember 2015 hafi verið samþykkt umsókn kæranda um byggingarleyfi vegna nýs söluskála við Reykjanesvita samkvæmt aðaluppdrætti frá Verkfræðistofu Suðurnesja.

Byggingarfulltrúi og skipulagsfulltrúi hafi jafnframt staðfest að framangreind byggingaráform séu í fullu gildi og að gefið verði út byggingarleyfi þegar þær kröfur sem gerðar séu í samþykktinni séu uppfylltar. Það leiði hins vegar af ákvæði 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki að byggingarleyfi megi því aðeins gefa út að það eigi sér stoð í og samrýmist skipulagsáætlunum viðkomandi svæðis.

Þegar byggingarfulltrúi hafi samþykkt umsókn kæranda um byggingaráform hinn 10. desember 2015 hafi frestur til athugasemda við deiliskipulagið ekki verið útrunninn. Með samþykkt á byggingaráformum hafi hann staðið í þeirri trú að hið nýja deiliskipulag myndi gera ráð fyrir samþykktum byggingaráformum. Fyllilega megi jafna framkominni byggingarleyfisumsókn og samþykkt hennar við athugasemdir við deiliskipulagið, enda yrði annars um misræmi að ræða milli samþykktra byggingaráforma og skipulags sveitarfélagsins. Þá verði ekki séð að samþykkt deiliskipulagsins, án þess að jafnframt gert sé ráð fyrir byggingaráformum kæranda, geti talist samrýmast rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í 7. kafla greinargerðar með hinu umþrætta deiliskipulagi sé að finna umfjöllun um samráð við hagsmunaaðila. Segi þar að leitað hafi verið eftir hugmyndum og samráði við tilgreinda aðila, en kærandi sé ekki meðal þeirra. Hafi þó verið sérstaklega rík ástæða til að hafa samráð við hann umfram aðra á grundvelli sjónarmiða um grenndar og nábýlisrétt og áforma kæranda um uppbyggingu á svæðinu. Skortur á samráði sé í skýrri andstöðu við 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga, en þar sé kveðið á um þá meginreglu að við gerð skipulagsáætlana skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, viðkomandi stjórnvalda og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta um mörkun stefnu.

Þá sæki framkvæmdaleyfið stoð sína í hið kærða deiliskipulag. Það sé skilyrði framkvæmdaleyfis að það styðjist við gilt skipulag, sbr. 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Þegar ákvörðun hafi verið tekin af hálfu skipulagsfulltrúa um að veita umþrætt leyfi hafi það legið fyrir að lögmæti skipulagsins væri vefengt. Hafi skipulagsfulltrúa því borið að ganga úr skugga um hvort útgáfa leyfisins samræmdist skipulagi. Auk þessa uppfylli hið útgefna framkvæmdaleyfi ekki lágmarkskröfur sem gera verði til leyfisveitingar lögum samkvæmt. Ljóst sé að hið umþrætta framkvæmdaleyfi fullnægi aðeins hluta þeirra skilyrða sem gerð séu til útgáfu framkvæmdaleyfis samkvæmt reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Þannig komi t.d. ekki fram hvert sé umfang framkvæmdarinnar, tilvísun í heiti og dagsetningu þeirra gagna sem leyfi byggi á, gildistími leyfisins, eftirlitsaðili framkvæmdarinnar eða að framkvæmd skuli samræmast samþykktum hönnunargögnum, sbr. 3., 4., 7., 8. og 10. tl. 12. gr. reglugerðarinnar. Framkvæmdaleyfið sé því í beinni andstöðu við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar og því ógildanlegt.

Málsrök Reykjanesbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að gerð hafi verið lýsing á skipulagsverkefninu og hún send öllum hugsanlegum umsagnaraðilum á svæðinu til skoðunar með löglegum athugasemdafresti, en kærandi hafi verið þar á meðal. Einnig hafi skipulagstillagan verið auglýst í staðarblaði og Lögbirtingablaði. Deiliskipulagið sé í meginatriðum í samræmi við gildandi Aðalskipulag Reykjanesbæjar 20082024. Kynning á því ásamt greinargerð hafi farið fram á sama hátt. Kærandi hafi ekki sett fram athugasemdir við þá kynningu. Auk þess hafi fulltrúi kæranda og fulltrúi Reykjanesfólkvangs hist reglulega frá því að vinna við deiliskipulagið hafi hafist.

Hvað varði byggingaráform kæranda þá hafi verið tekin ákvörðun um að umfang uppbyggingar á lóð hans verði sett fram sem viðbót eða sérstakt deiliskipulag þar sem þau áform gætu tafið afgreiðslu á deiliskipulagi. Hafi enda verið augljóst að áformin væru ekki einskorðuð við núverandi lóð vitavarðarhúss heldur tækju yfir miklu stærra svæði. Sé þar m.a. gert ráð fyrir hóteli á friðuðu svæði, sem sé framkvæmd sem kunni að vera háð mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, og sé ekki í samræmi við aðalskipulag. Til þess að tefja ekki fyrir áformum kæranda hafi verið gefið út leyfi fyrir byggingu veitingahúss á gömlum grunni við íbúðarhúsið, með samþykki Minjastofnunar, en það hús sé fyrir 54 gesti með tilheyrandi hreinlætisaðstöðu. Bílastæði á lóð séu fjögur og augljóst sé að þetta geti ekki leyst úr öllum þörfum þeirra tuga þúsunda ferðamanna sem leið eigi um svæðið.

Eins og fram hafi komið þá hafi kærandi verið í miklu sambandi við fulltrúa Reykjanesfólksvangs frá því að vinna við skipulagið hafi hafist. Einnig hafi hann átt fundi með sviðsstjóra umhverfissviðs Reykjanesbæjar vegna sinna hagsmuna, sem hafi lyktað með því að teikningar að veitingahúsi Vitavarðarins hafi verið samþykktar til að liðka fyrir uppbyggingu á lóðinni. Ítarlegar kynningar hafi farið fram og kærandi hafi ekki gert athugasemdir við deiliskipulagið á auglýstum athugasemdatíma og ekki verði séð hvers konar frekara samráð hafi verið unnt. Umrætt deiliskipulag hafi verið gert til þess að bæta úr aðstöðu fyrir ferðamenn með því að útbúa tjaldstæði með miðstöð fyrir ferðamennsku, hreinlætisaðstöðu og bílastæði. Einnig sé umferð bíla um svæðið takmörkuð frá því sem nú sé og afmarkaðar gönguleiðir skilgreindar.

Hið kærða deiliskipulag hafi verið fullnægjandi stoð fyrir veitingu framkvæmdaleyfis þrátt fyrir að skipulagið hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar, enda fresti kæran ekki réttaráhrifum þess. Af þeim sökum hefði Reykjanesbæ verið óheimilt að synja umsókn um leyfi til framkvæmda sem séu í samræmi við deiliskipulagið. Sú fullyrðing kæranda að skipulagsfulltrúa hafi borið að ganga úr skugga um að útgáfa leyfisins hafi verið í samræmi við skipulag sé af sömu ástæðu algerlega út í hött, enda hafi honum borið að leggja til grundvallar gildandi skipulag svæðisins sem auglýst hafi verið í Bdeild Stjórnartíðinda 26. maí 2016.

Málsástæður kæranda vegna deiliskipulagsins lúti að því að kynning hafi ekki farið fram skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga, að ekki sé gert ráð fyrir byggingaráformum kæranda í deiliskipulaginu og að skort hafi á beint samráð við kæranda. Ekkert af þessum atriðum sé líklegt til að leiða til ógildingar hins kærða deiliskipulags. Eins og fram komi í gögnum málsins hafi kæranda verið kynnt lýsing deiliskipulagsins og samráð og samskipti hafi verið höfð við hann á ýmsum stigum málsins. Hann hafi fengið sérstaka tilkynningu um að samþykkt hefði verið að auglýsa tillöguna. Þrátt fyrir þetta hafi hann ekki gert athugasemdir við hana. Hvað varði byggingaráform kæranda þá sé því til að svara að hann hafi fengið samþykkt byggingaráform í desember 2015, sem hafi lotið að byggingu nýs húss á gömlum grunni. Hafi verið talið að í áformunum fælist endurbygging sem ekki þarfnist deiliskipulags. Sé sú samþykkt enn í gildi, sbr. 4. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 1173/2012 um breytingar á henni.

Í reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi komi fram að leyfi skuli vera skriflegt og innihalda ákveðnar upplýsingar. Skipulagsfulltrúi hafi gefið út skriflegt leyfi hinn 7. mars 2017 á grundvelli fyrirliggjandi gagna, sem skoða verði sem hluta leyfisins. Verði ekki séð að á leyfinu séu slíkir annmarkar að leiði eigi til ógildingar og skipti þar máli að engin þörf hafi verið á að setja í leyfið skilyrði af hálfu leyfisveitanda skv. 4. mgr. 10. gr. reglugerðarinnar. Sé um að ræða ágalla á leyfinu er varði efnisinnihald þess þá verði hann í öllu falli ekki talinn svo verulegur að leiða eigi til ógildingar.

Niðurstaða: Í hnotskurn er í máli þessu deilt um heimildir hins kærða deiliskipulags fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu þriðja aðila á umræddu svæði. Telur kærandi samþykkt skipulagsins setja áform hans um slíka uppbyggingu í uppnám, en bæjaryfirvöldum hafi verið kunnugt um þau áform og þegar veitt byggingarleyfi vegna þeirra.

Lýsing hinnar umþrættu deiliskipulagstillögu var kynnt 21. janúar 2015. Tillagan sjálf var auglýst til kynningar 19. nóvember s.á. og bárust engar athugasemdir. Þá fékk kærandi kynningu á lýsingu deiliskipulagsins með bréfi, dags. 21. janúar 2015, og fór hann fram á það með tölvupósti 30. s.m. að fyrirhuguð uppbygging við gamla vitavarðarhúsið yrði hluti af hinu kærða deiliskipulagi. Þó svo að kæranda hafi ekki verið svarað með beinum hætti vegna þessa þá fékk hann kynningu á deiliskipulagstillögunni í kjölfar framangreindrar lýsingar, þar sem ekki var farið að beiðni hans, en ekki er unnt að jafna umsókn um byggingarleyfi við athugasemdir við deiliskipulagstillögu, svo sem kærandi heldur fram. Að þessu virtu liggja ekki fyrir þeir form eða efnisannmarkar á hinu kærða deiliskulagi að valdið geti ógildingu þess.

Á fundi sínum 21. febrúar 2017 samþykkti bæjarstjórn Reykjanesbæjar framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga bílastæðis samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi Reykjanesvita og nágrennis. Í 7. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi eru talin upp þau gögn sem fylgja skulu umsókn um framkvæmdaleyfi. Er m.a. gerð krafa um að meðfylgjandi sé lýsing á framkvæmd og hvernig hún falli að gildandi skipulagsáætlunum og staðháttum, ásamt framkvæmdatíma og öðru sem máli kann að skipta. Þá skulu einnig fylgja umsókn hönnunargögn. Samkvæmt 12. gr. reglugerðarinnar, þar sem fram koma lágmarkskröfur sem gerðar eru til framkvæmdaleyfa, skal í leyfi koma fram umfang framkvæmdar, samantekt á lýsingu og frágangi framkvæmdar og tilvísun til þeirra gagna sem framkvæmdaleyfið byggir á. Á það skortir að verulegu leyti að í framangreindu framkvæmdaleyfi sé gerð grein fyrir þeim atriðum sem tilgreind eru í tilvitnuðu reglugerðarákvæði. Með hliðsjón af ótvíræðu orðalagi ákvæðisins um lágmarkskröfur um efnisinnihald framkvæmdaleyfis verður að telja hið kærða framkvæmdaleyfi slíkum annmörkum háð að varði ógildingu þess.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Reykjanesbæjar frá 19. apríl 2016 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Reykjanesvita og nágrenni.

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 21. febrúar 2017 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga bílastæðis við Reykjanesvitabraut 1.

2/2016 Laufásvegur 70

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2016, kæra á breytingu deiliskipulags Smáragötureita vegna Laufásvegar 70, sem samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur hinn 26. nóvember 2015 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2016, er barst nefndinni 11. s.m., kæra eigendur, Smáragötu 13, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. nóvember 2015 að breyta deiliskipulagi Smáragötureita. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. mars 2016.

Málavextir: Upphaf málsins má rekja til framkvæmda á lóð Laufásvegar 70 sem veitt var byggingarleyfi fyrir á árinu 2012. Það leyfi var síðar fellt úr gildi að hluta með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 75/2012 hinn 11. júní 2015, en framkvæmdum var þá lokið. Kæruefnið snýr að upphækkuðum palli við dyr á 1. hæð á miðri suðvestur hlið hússins við Laufásveg 70 og aðliggjandi lægri palli við vestur horn hússins. Pallarnir eru tengdir með þrepum.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi Smáragötureita vegna Laufásvegar 70 var grenndarkynnt 24. september 2015 með athugasemdafresti til 22. október s.á. Athugasemdir bárust frá íbúum Smáragötu 11 og 13. Þeim var svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. nóvember s.á., þar sem jafnframt var lagt til að grenndarkynnt tillaga að breyttu deiliskipulagi yrði samþykkt. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa samþykkti umhverfis- og skipulagsráð tillöguna hinn 18. nóvember 2015. Borgarráð samþykkti breytt deiliskipulag 26. nóvember s.á. og auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. desember 2015. Í breytingunni fólst að byggingareit lóðarinnar var breytt þannig að áðurnefndir steinsteyptir pallar féllu innan hans. Í skilmálum segir að lægri pallurinn skuli vera í lóðarhæð eins og hún var áður og hærri pallurinn u.þ.b. 1,3 m hærri. Að öðru leyti gildi skilmálar deiliskipulags Smáragötureita frá árinu 2005. Kæra vegna þessarar ákvörðunar barst úrskurðarnefndinni 11. janúar 2016, eins og að ofan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að engin haldbær rök hafi staðið til hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar önnur en að festa í sessi þegar gerða byggingu, sem gerðar hafi verið athugasemdir við í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna neikvæðra grenndaráhrifa. Ekki hafi verið tekið tilliti til athugasemda við grenndarkynningu. Í reynd sé um að ræða viðbyggingu við húsið að Laufásvegi 70, en ekki palla líkt og borgaryfirvöld haldi fram. Mannvirkið sé úr járnbentri steinsteypu, á tveimur hæðum og með óuppfylltu innra rými sem unnt sé að gera innangengt frá íbúðarhúsi. Hæð mannvirkisins sé umfram heimild í deiliskipulagi. Efri pallur með handriði sé 3,61 m frá fyrri hæð lóðar og sá neðri 1,54 m ef marka megi mælingu starfsmanna Reykjavíkurborgar. Innsýn sé af mannvirkinu inn um glugga húss kærenda og yfir útvistarsvæði lóðar þeirra. Með umræddri deiliskipulagsbreytingu séu borgaryfirvöld að firra sig ábyrgð á mistökum sem þau beri ábyrgð á, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 75/2012, þar sem bent hafi verið á að grenndaráhrif vegna pallanna gætu orðið veruleg og að nýtingarmöguleikar nærliggjandi lóða gætu skerst vegna hljóðvistar og yfirsýnar. Deiliskipulagsbreytingin verði því kærendum til varanlegs tjóns. Borgaryfirvöld hafi í málsmeðferð sinni fyrst og fremst gætt hagsmuna Laufásvegar 70 á kostnað hagsmuna kærenda. Vel hefði mátt hanna viðbygginguna innan marka þess deiliskipulags sem í gildi var. Þess sé krafist að nefnd deiliskipulagsbreyting verið felld úr gildi, auk þess sem viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfis vegna viðbyggingarinnar hafi á sínum tíma verið ólögmæt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsbreytingar vegna Laufásvegar 70 verði hafnað. Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hæð pallanna sé í samræmi við teikningar. Lægri pallurinn sé 0,88 m ofan grasflatar á miðri lóð og 1,59 m yfir syðsta hluta lóðar, þar sem hún sé lægst. Hærri pallurinn sé 1,95 m yfir hæð grasflatar á miðri lóð en 2,66 m yfir lóð þar sem hún sé lægst. Hæð pallanna sé ekki óeðlileg miðað við aðstæður og telja verði skiljanlegt að húseigendur við Laufásveg vilji geta gengið úr íbúðum sínum út í garð. Sökum landhalla séu gerðir pallar og stigar. Ólíklegt sé að nágrannar verði fyrir ónæði vegna pallanna. Innsýn í garða verði ekki meiri en búast megi við í því umhverfi sem um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Smáragötureita þar sem gert er ráð fyrir tveimur pöllum á lóðinni Laufásvegi 70, sem eru þar þegar fyrir.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarfélög með vald til gerðar deiliskipulagsáætlana. Við beitingu þess valds ber m.a. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Í skipulagsvaldi sveitarfélaga felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum. Þessu valdi eru aðallega settar skorður með kröfu um samræmi við aðalskipulagsáætlanir og kröfu um lögmæta málsmeðferð sem gefi hagsmunaaðilum kost á að koma að athugasemdum áður en ákvörðun er tekin. Telji hagsmunaaðilar sig verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinga á deiliskipulagsáætlunum raskar það ekki gildi breytinganna, en getur eftir atvikum orðið grundvöllur bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Tekin var ákvörðun af hálfu Reykjavíkurborgar um að fara með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu eftir ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Það fól í sér að breytingin var metin óveruleg og því væri nægjanlegt að kynna áform um hana fyrir næstu nágrönnum með grenndarkynningu. Fyrir liggur að tillagan var grenndarkynnt frá 24. september 2015, með athugasemdafresti til 22. október s.á. Grenndarkynningin náði til kærenda og komu þeir athugasemdum að innan tilskilins frests. Að lokinni grenndarkynningu var breytingatillagan samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um þær athugasemdir sem borist höfðu. Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu hinn 26. nóvember s.á. Samkvæmt framsögðu var gætt að rétti kærenda til þess að koma að athugasemdum við kynningu skipulagstillögunnar og lá efnisleg afstaða borgarráðs til þeirra fyrir við afgreiðslu málsins.

Á meðal þess sem deilt er um í málinu er hæð umræddra palla í lóðinni og þá hvort samræmi sé á milli þess sem deiliskipulag heimilar og þess hvernig pallarnir séu í raun. Í skilmálum hins breytta deiliskipulags segir að lægri pallur skuli vera í lóðarhæð eins og hún var áður, en að sá hærri sé um það bil 1,3 m hærri. Af orðalagi skilmálanna verður ráðið að miða skuli við upphaflega hæð lóðarinnar frá byggingartíma hússins árið 1927. Af upphaflegum aðaluppdráttum hússins má sjá að lóðin við suðvestur hlið hússins hefur staðið nokkru hærra en síðar varð. Kann lóðin að hafa sigið nokkuð á þeim níu áratugum sem frá er liðnir eða verið grafin niður.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki liggja fyrir þeir annmarkar á málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar sem raskað geta gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 26. nóvember 2015 um breytingu á deiliskipulagi Smáragötureita vegna Laufásvegar 70.

19/2016 Gvendargeisli 16

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16 í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Gvendargeisla 18, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 að veita byggingarleyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð í húsinu að Gvendargeisla 16. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust 16. mars 2016.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag Grafarholts austur frá árinu 2002. Í almennum skilmálum þess kemur fram að uppgefnar fermetratölur tiltekinna húsagerða séu viðmiðunartölur og að bílgeymslur og sameign reiknist ekki með í íbúðastærðum. Uppgefið nýtingarhlutfall lóða sé einnig til viðmiðunar, en miðist við heildarstærð bygginga. Fyrir einbýlishús af þeirri gerð sem hér um ræðir (H-hús) gildir þeir sérskilmálar að þau skuli vera ein til tvær hæðir, viðmiðunarflatarmál sé 215 m2 og nýtingarhlutfall lóðar 0,3. Þakform sé frjálst en mælst til þess að þök séu lágreist svo byggingar skerði ekki útsýni og varpi ekki skugga á næstu hús að óþörfu. Hámarkshæð slíkra húsa sé 7,7 m og meðalhæð norðurveggja skuli ekki vera umfram 6 m.

Með umsókn, dags. 26. október 2015, var óskað eftir leyfi fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16. Erindinu var vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa, sem veitti umsögn með bréfi, dags. 7. janúar 2016. Í henni kemur fram að stækkunin sé innan hæðartakmarkana bæði hvað varði heildarhæð og meðalhæð norðurveggjar. Stærð hússins eftir stækkun án bílskúrs verði 213,5 m2 og því innan viðmiðunarmarka. Nýtingarhlutfall lóðar eftir stækkun verði 0,34, sem sé yfir viðmiðunarhlutfalli. Til þess beri þó að líta að nýtingarhlutfall nálægra lóða sé á bilinu 0,28 til 0,40 þrátt fyrir viðmið deiliskipulags um nýtingarhlutfall upp á 0,30. Því verði að telja stækkunina innan gildandi deiliskipulagsheimilda. Ekki verði séð að stækkunin skerði útsýni eða sólarbirtu næstu húsa að þarflausu. Ekki séu því gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið. Með vísan til þessarar umsagnar skipulagsfulltrúa var fyrrgreind umsókn um byggingarleyfi samþykkt.

Málsrök kærenda:
Kærendur telja hina kærðu ákvörðun brjóta stórlega gegn hagsmunum sínum og vera í andstöðu við gildandi deiliskipulag.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg lét málið ekki til sín taka en vísaði til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest, enda hafi úttekt skipulagsfulltrúa staðfest að stækkunin sé innan hæðartakmarkana og innan gildandi heimilda um nýtingarhlutfall. Vísað sé til röksemda skipulagsfulltrúa. Kærendur hafi ekki rökstutt með hvaða hætti hin kærða ákvörðun brjóti gegn hagsmunum þeirra og því sé ekki unnt að taka frekari afstöðu til kærunnar.

Niðurstaða: Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis er hæð hússins að Gvendargeisla 16, eftir hækkun þaks, innan hæðarmarka gildandi deiliskipulags og er flatarmál hússins að frádregnum bílskúr einnig innan viðmiða deiliskipulagsins. Nýtingarhlutfall lóðar eftir stækkun telst 0,34, sem er yfir uppgefnu viðmiði í skilmálum skipulagsins um nýtingarhlutfall fyrir umrædda húsagerð, sem er 0,30.

Til þess ber að líta að nýtingarhlutfall sambærilegra lóða á skipulagssvæðinu er nú þegar á bilinu 0,28 til 0,40 og er nýtingarhlutfall lóðar kærenda, sem liggur að lóð leyfishafa, 0,33. Eins og framkvæmd skilmála skipulagsins um nýtingarhlutfall lóða á svæðinu hefur verið háttað er nýtingarhlutfall lóðarinnar Gvendargeisla 16 í samræmi við það sem heimilað hefur verið á deiliskipulagssvæðisins. Í ljósi þessa, og einnig þess að um viðmiðunarhlutfall er að ræða, verður nefnt frávik ekki talið hafa áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Verður kröfu kærenda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2016 um samþykkt byggingarleyfis fyrir hækkun þaks og byggingu setustofu á annarri hæð hússins að Gvendargeisla 16.

153/2017 Fjörður 1, Fjarðabyggð

Með

Árið 2018, föstudaginn 19. janúar, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 153/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. desember 2017, er barst nefndinni 24. s.m., kæra eigendur fasteignarinnar Fjörður 1 í Mjóafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 16. nóvember 2017 að krefjast þess að rafstöðvarhús og geymslubygging á Firði 1 verði fjarlægð ásamt því að vegur sem liggur frá Mjóafjarðarvegi að íbúðarhúsi Fjarðar 1 verði fjarlægður. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að réttaráhrifum hennar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa.

Málsatvik og rök: Á fundi bæjarstjórnar Fjarðabyggðar 16. nóvember 2017 var samþykkt að eigendum jarðarinnar Fjörður 1 í Mjóafirði yrði gert skylt að fjarlægja rafstöðvarhús og geymslubyggingu af jörðinni og afmá jarðrask vegna þeirra með stoð í 55. og 56. gr. laga  nr. 160/2010 um mannvirki. Var einnig samþykkt að þeim yrði gert að fjarlægja veg sem liggur frá Mjóafjarðarvegi að íbúðarhúsi Fjarðar 1 og afmá jarðrask vegna hans á grundvelli 53. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Kærendur skírskota til þess að smáhýsi undir rafstöð, eins og hér um ræði, sé undanþegin byggingarleyfi en rafstöðin sé nauðsyleg þegar nota þurfi tæki sem gangi fyrir rafmagni. Það myndi rýra mjög notagildi umræddrar fasteignar yrði þetta ekki hægt. Þá sé hið svokallað geymsluhús ekki annað en tveir gámar í fjárhústóft. Sé því ekki um byggingu að ræða í skilningi laga eða mannvirki eins og það sé skilgreint í 3. gr. mannvirkjalaga. Þá sé hinn umþrætti vegur í raun ekki vegur heldur varnargarður við lækinn Beljanda sem gerður hafi verið af Vegagerðinni á mörgum undanförnum árum. Sú framkvæmd hafi verið gerð í þeim tilgangi að verja þjóðveg nr. 953, Mjóafjarðarveg, fyrir ágangi lækjarins. Með tíð og tíma hafi varnargarðurinn vissulega verið kominn í það horf að hægt hafi verið að aka bifreiðum á honum en það breyti því þó ekki að um varnargarð sé að ræða en ekki veg.

Af hálfu Fjarðabyggðar er ekki gerð athugasemd við frestun réttaráhrifa hinna kærðu ákvörðunar. Hins vegar sé bent á að til skoðunar ætti að koma að vísa frá hluta af kröfum kærenda. Krafa um að rafstöðvarhús fái að standa en rafstöð yrði fjarlægð, virðist ekki geta komið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni enda hafi sveitarfélagið hvorki tekið afstöðu til slíkrar kröfu né ljóst að slík ákvörðun geti fallið undir lög nr. 160/2010 um mannvirki og valdsvið úrskurðarnefndarinnar. Ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið efnislega rétt, málsmeðferð í samræmi við reglur og í öllu falli séu engir slíkir annmarkað á ákvörðun Fjarðabyggðar að varði ógildingu. Hvað varði sjónarmið um nauðsyn, þá telji sveitarfélagið það ekki geta staðist. Hvað sem líði virðingu sveitarfélags fyrir hagsmunum þegna, liggi fyrrir að mannvirkið teljist óleyfisframkvæmd þar sem ekki liggi fyrir samþykki allra sameigenda Fjarðar 1 um heimild til stöðu þess. Ekki sé unnt að fallast á að bygging geymsluhúsnæðis sé ekki byggingarleyfisskyld þótt hluti mannvirkisins séu gámar. Þá sé vegalagningin framkvæmdaleyfisskyld að áliti sveitarfélagsins og ljóst að farið hafi verið í framkvæmdir vegna vegarins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr.

Hin kærða ákvörðun felur í sér beitingu þvingunarúrræða gagnvart kærendum á grundvelli ákvæða laga um mannvirki nr. 160/2010 og skipulagslaga nr. 123/2010  vegna rafstöðvarhúss, ætlaðrar geymslubyggingar og vegs á lóðinni Fjörður 1 í Mjóafirði. Fyrir liggur að ýmis álitaefni eru uppi í málinu sem áhrif geta haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar sem rannsaka þarf frekar og hefur stjórnvald það sem tók hina kærðu ákvörðun ekki lagst gegn því að réttaráhrifum hennar verði frestað meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið og að um verulega íþyngjandi ákvörðun er að ræða fyrir kærendur, þykir rétt að fallast á kröfu þeirra um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar bæjarstjórnar Fjarðabyggðar frá 16. nóvember 2017 er frestað á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

31/2016 Hótel Orustustöðum

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 31/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 26. október 2015 um að samþykkja deiliskipulag hótels í landi Orustustaða í Skaftárhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir eigendur og leigutakar jarðarinnar Hraunbóls í Skaftárhreppi ákvörðun sveitarstjórnar Skafárhrepps frá 26. október 2015 um að samþykkja deiliskipulag hótels í landi Orustustaða, Skaftárhreppi. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. febrúar 2016.

Krefjast kærendur þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi en til vara að hún verði felld úr gildi að því marki sem hún brjóti gegn hagsmunum og réttindum þeirra. Jafnframt var gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Var þeirri kröfu hafnað með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 15. júní 2016.

Gögn málsins bárust frá Skaftárhreppi 18. apríl 2016 og í desember 2017.

Málavextir: Jörðin Orustustaðir er á Brunasandi í Skaftárhreppi. Varð jörðin nýbýli árið 1823 en lagðist í eyði um 1950. Á árinu 2014 var auglýst breyting á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022. Fól breytingin í sér að landbúnaðarsvæði var breytt í 15 ha verslunar- og þjónustusvæði, V32, og þar gert ráð fyrir um 7.000 m² hóteli á tveimur hæðum. Aðkoma yrði um veg vestan Orustustaða. Jafnframt yrði til 0,5 ha efnistökusvæði og brunn-, grann- og fjarsvæði vatnsverndar. Öðlaðist breytingin gildi 20. janúar 2015.

Tillaga að deiliskipulagi í landi Orustustaða var lögð fram á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skaftárhrepps 9. desember 2014. Fól tillagan í sér að á jörðinni yrði hótel með 200 gistirýmum, auk annarrar aðstöðu. Aðkomuvegur að svæðinu lægi að hluta til í landi Hraunbóls/Sléttabóls. Var samþykkt að auglýsa tillöguna til kynningar og leita umsagna Vegagerðarinnar, Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Umhverfisstofnunar, Fuglaverndar, Minjastofnunar Íslands og ábúenda á Hraunbóli. Staðfesti sveitarstjórn greinda afgreiðslu 15. s.m.

Bárust athugasemdir á kynningartíma deiliskipulagstillögunnar, t.a.m. frá kærendum er mótmæltu m.a. fyrirhugaðri veglínu. Hinn 15. apríl 2015 var fyrrgreind tillaga samþykkt á fundi sveitarstjórnar, að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Í kjölfar þess var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Gerði stofnunin athugasemd við gildistöku þess og taldi það ekki uppfylla markmið og ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um efni og gæði. Vegna þessa mæltist skipulagsnefnd til þess á fundi sínum 10. júní 2015 að skipulagið yrði yfirfarið m.t.t. athugasemda Skipulagsstofnunar. Einnig var lagt til að samráðsfundur yrði haldinn með hagsmunaaðilum vegna þeirrar veglínu sem ráðgerð væri í tillögunni. Í framhaldi af nefndum fundi skoruðu landeigendur Hraunbóls á sveitarstjórn, með bréfi dags. 14. ágúst 2015, að hafna fyrirliggjandi deiliskipulagstillögu. Vísuðu þeir m.a. til þess að í tillögunni væri rangt farið með staðreyndir um náttúrufar og votlendi á Brunasandi. Jafnframt færi tillagan þvert gegn tilmælum Umhverfisstofnunar og ábendingum landeigenda um að vegtenging að hótelinu yrði að austan.

Skipulagsnefnd tók málið fyrir á ný á fundi 19. ágúst 2015. Var tekið fram að brugðist hefði verið við athugasemdum Skipulagsstofnunar varðandi mótun byggðar og skilmála um útlit bygginga og efnisval. Fór nefndin fram á „nánari skilgreiningu innan deiliskipulags á útliti og gerð starfsmannahúss“, en tók fram að ekki væri gerð athugasemd við tillöguna að öðru leyti. Lagt var til að tillagan svo breytt yrði auglýst að nýju, að teknu tilliti til athugasemda nefndarinnar. Samþykkti sveitarstjórn nefnda afgreiðslu 20. s.m. Bárust athugasemdir við tillöguna á kynningartíma hennar, m.a. frá kærendum.

Deiliskipulagstillagan var til umfjöllunar í skipulagsnefnd 26. október 2015. Var bókað að umsögnum og athugasemdum er borist hefðu á auglýsingartíma væri svarað í greinargerð tillögunnar. Gerði meirihluti nefndarinnar að öðru leyti ekki athugasemd við tillöguna og lagði til að hún yrði send Skipulagsstofnun til yfirferðar. Samþykkti meirihluti sveitarstjórnar afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi sínum þann sama dag.

Hinn 9. febrúar 2016 lá fyrir ákvörðun Skipulagsstofnunar um að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða og aðkomuvegur væru ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin skyldi því ekki vera háð mati á umhverfisáhrifum. Sama dag tilkynnti stofnunin sveitarfélagi Skaftárhrepps að hún gerði ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins. Tók deiliskipulag Orustustaða gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 17. febrúar s.á., svo sem fyrr greinir.

Matsskylduákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 var skotið til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði sínum 22. desember s.á., í kærumáli nr. 26/2016, hafnaði kröfum um ógildingu ákvörðunarinnar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að um 10 ha spilda af skipulagssvæði deiliskipulags Orustustaða sé innan eignarlands þeirra. Sé það í óþökk kærenda, en ekkert samráð hafi verið haft við þá. Brjóti málsmeðferð sveitarstjórnar og ákvörðun hennar um samþykkt deiliskipulagsins í bága við markmiðsákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og meginreglur stjórnsýsluréttar. Sé brotið gegn grunnreglum stjórnsýsluréttar um meðalhóf og jafnræði, sem og gegn hagsmunum landeigenda Hraunbóls/Sléttabóls, sem verndaðir séu með 1. mgr. 72. gr. stjórnarskrár nr. 33/1944, sbr. lög nr. 97/1995, og ákvæði 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Megi engan skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji, en ekki sé því fyrir að fara hér. Muni bygging 200 herbergja hótels á Orustustöðum raska viðkvæmu náttúruminjasvæði og fari umrætt deiliskipulag því gegn meginmarkmiði skipulagslaga. Brotið hafi verið gegn lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins og því meginmarkmiði skipulagslaga að tryggja skuli réttaröryggi í meðferð skipulagsmála. Hagsmunir framkvæmdaraðila hafi verið settir í forgang á kostnað hagsmuna kærenda. Gangi deiliskipulagið því gegn öllum jafnræðissjónarmiðum, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga, sbr. og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Gangi það sömuleiðis gegn venjuhelguðum grenndar- og nábýlisreglum íslensks réttar og að öðru leyti gegn friðhelgu einka- og fjölskyldulífi kærenda.

Sveitarstjórn hafi brostið heimild til að gera í deiliskipulagi ráð fyrir vegi innan eignarlands Hraunbóls/Sléttabóls í andstöðu við þá aðila sem hafi forræði á því landi sem vegurinn eigi að liggja um. Eigi þetta jafnt við um þann hluta sem núverandi vegslóði liggi um og það óraskaða land sem deiliskipulagið geri ráð fyrir að fari undir veg innan eignarlandsins. Flokkist núverandi vegslóði innan lands Hraunbóls/Sléttabóls undir einkaveg í skilningi vegalaga nr. 80/2007. Af því leiði að hann lúti forræði landeigenda.

Rökstuðningur sveitarstjórnar í svörum við framkomnum athugasemdum kærenda fullnægi ekki skilyrðum 22. gr. stjórnsýslulaga. Hafi umrædd tillaga því verið afgreidd án þess að efnisleg afstaða væri tekin til athugasemdanna, einungis hafi verið vísað til 49. og 50. gr. skipulagslaga.

Sveitarstjórn beri skylda til að sjá til þess að áður en ákvörðun sé tekin liggi fyrir fullnægjandi upplýsingar um þau áhrif og breytingar á landi og umhverfi sem framkvæmd muni hafa í för með sér. Beri henni jafnframt að sjá til þess að fram hafi farið mat á því hvaða mótvægisaðgerðir séu nauðsynlegar svo sporna megi við neikvæðum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.

Gera megi ráð fyrir því að minnst um 200-300 bifreiðar og um 900 manns muni fara um umrætt svæði á hverjum sólarhring. Þrátt fyrir það hafi ekki verið gerð úttekt á því hvaða áhrif það geti haft á nánasta umhverfi og náttúru. Ekki hafi verið haft til hliðsjónar heildarmat á öllum þeim áhrifum sem ákvörðunin muni og kunni að hafa á umhverfi og náttúru. Fræðilegt og faglegt mat á áhrifum hótelbyggingarinnar og starfseminnar skorti þannig að fullnægt væri ákvæðum laga um umhverfismat áætlana nr. 105/2006 og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Ekki hafi t.d. verið gætt að því að nægilega væri upplýst um meðferð skolps og hvernig tryggja eigi aðlægar jarðir gegn skolpmengun. Hvorki hafi verið sýnt fram á hvernig afla eigi neysluvatns né að vatnsupptaka í þessu magni muni ekki hafa áhrif á gróðurfar, ræktun og neysluvatn hjá öðrum landeigendum á Brunasandi. Þá hafi ekki heldur verið sýnt fram á hvernig tryggja eigi grunnvatnsstöðu í landi Hraunbóls/Sléttabóls. Loks hafi ekki verið gerð úttekt á landi Hraunbóls/Sléttabóls, sem fyrirhugað sé að leggja undir vegstæði.

Engar upplýsingar sé að finna um aðra mögulega kosti við veglagningu og þar með sé enginn samanburður gerður á mismunandi kostum. Fari slíkir annmarkar á málsmeðferð og forsendum stjórnvaldsákvarðana í bága við meginreglur stjórnsýsluréttar um meðalhóf og rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Sé áskilið í 6. gr. laga nr. 105/2006 að mismunandi valkostir séu metnir, sér í lagi í f- og hlið 2. mgr. 6. gr. laganna.

Breyting á aðalskipulagi Skaftárhrepps hafi ekki falið í sér ákvörðun um veglínu, en fram hafi komið í greinargerð með þeirri breytingu að endanlega veglegu þyrfti að ákveða á deiliskipulagsstigi og í samráði við landeigendur. „Samráð“ sveitarstjórnar hafi falist í hótunum um beitingu eignarnáms. Landssvæði sem lagt sé til að fari undir veglínu í hinu kærða deiliskipulagi sé velgróið votlendissvæði í eigu Hraunbóls/Sléttabóls og Foss á Síðu. Muni veglagning um það hafa mikil og neikvæð áhrif á hagsmuni landeigendanna. Nærtækast hefði verið að vegtenging að hótelbyggingunni væri um land framkvæmdaraðila, en ekki um land nærliggjandi jarða, hvað þá um ósnortið land í einkaeigu. Austan megin liggi þjóðvegur (héraðsvegur) frá hringvegi 1 að Sléttu. Sá vegur, Hrunavegur, sé á forræði Vegagerðarinnar, en um sé að ræða uppbyggðan heilsársveg. Þá hafi verið bent á vegslóða í hrauninu, sem liggi frá Hrunavegi að Orustustöðum og sé að meginhluta innan landssvæðis framkvæmdaraðila.

Málsrök Skaftárhrepps: Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Við ákvarðanatöku umrædds deiliskipulags hafi í hvívetna verið uppfylltar reglur stjórnsýsluréttarins, sem og þær skyldur sem á sveitarfélaginu hvíli samkvæmt skipulagslögum. Að baki ákvörðuninni hafi legið málefnalegar og lögmætar ástæður, þ.e. að bregðast við fólksfækkun og minnkandi atvinnutækifærum innan sveitarfélagsins. Um brot á lögmætisreglu hafi ekki verið að ræða.

Breytingar á aðalskipulagi Skaftárhrepps og síðar deiliskipulagi eigi rætur sínar að rekja allt til ársins 2013. Með breytingum á aðalskipulaginu hafi verið brugðist við breyttum aðstæðum á svæðinu án þess þó að skerða ræktað landbúnaðarland eða verndaðar jarðmyndanir. Skipulagsferlið hafi verið vandað í alla staði og kapp lagt á að vinna það í sátt og samlyndi við hagsmunaaðila. Samráðsfundir hafi m.a. verið haldnir með landeigendum aðliggjandi jarða og lóða við skipulagssvæðið.

Orustustaðir liggi við syðsta hluta Brunahrauns á Brunasandi og landamerki jarðarinnar séu mörkuð í Orustuhól sem standi norðan hraunsins, rétt við þjóðveg 1. Vegna þessarar legu jarðamarka hafi aðkoma að Orustustöðum verið í gegnum land annarra jarða um vegslóða að austan og vestanverðu hrauninu. Nýr aðkomuvegur (héraðsvegur) sé sýndur í breyttu aðalskipulagi. Við val á staðsetningu hans hafi verið unnin greining á því hvaða kostir væru í boði og hvaða leið væri heppilegust að jörðinni. Við ákvörðun um lagningu vegar hafi sex möguleikar verið lagðir til grundvallar.

Helstu forsendur sveitarfélagsins við val þess á veglínu hafi t.a.m. verið nálægð hennar við íbúðir, bújarðir og sumarhús og að skerðing á ræktuðu landi væri lágmörkuð sem og umhverfisáhrif hennar. Hafi niðurstaðan orðið sú að velja veglínu C. Hún sé lengri en flestar hinar, en rúmir 3 km af henni sé ágætis vegur. Leiðin sé í rúmlega 500 m fjarlægð frá bústöðum og íbúðarhúsi á Hraunbóli. Hún fari fram hjá einu íbúðarhúsi meðan leiðir D, E og F fari fram hjá sex húsum en þar sé lítið rými til að færa leiðina frá bæjum nema með því að skerða velgróið votlendissvæði. Austan megin sé kúabú þar sem land sé nytjað. Frá veglínu C séu rúmlega 13 km til sjávar og tæpir 10 km í norðurmörk þess svæðis sem sé mikilvægast m.t.t. fuglalífs. Sett verði ræsi og gerð sé krafa um að þess sé gætt að vegurinn skerði ekki flæði vatns til suðurs.

Málsrök lóðarhafa: Lóðarhafi vísar m.a. til þess að leið D, eftir núverandi ýtuslóða um Skaftáreldahraun, hefði í för með sér að raska þyrfti hrauninu. Væri slíkt ekki í samræmi við stefnu Skaftárhrepps en jafnframt falli Eldhraunið undir lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. Í umhverfisskýrslu hafi verið skoðað hvernig hægt væri að útfæra veglínu þá sem valin hafi verið í aðalskipulaginu þannig að umhverfisáhrif hennar yrðu sem minnst. Sé mikilvægt að vanda vel til hreinsunar skolps og hafi lóðarhafi verið í sambandi við umhverfisverkfræðing varðandi lausnir. Fylgst verði með losunarmörkum og tekið verði mið af fylgiskjali 4 í reglugerð nr. 450/2009 um breytingu á reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp.

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar og annast hún og ber ábyrgð á gerð deiliskipulags, sbr. 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Við beitingu þess ber m.a. að fylgja markmiðsetningu nefndra laga sem tíunduð er í 1. gr. þeirra. Þar er t.a.m. kveðið á um að stuðla skuli að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða. Jafnframt að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulagsmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi. Við töku skipulagsákvarðana eru sveitarstjórnir enn fremur bundnar af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins, er felur m.a. í sér að með ákvarðanatöku sé stefnt að lögmætum markmiðum. Einnig gerir meðalhófsregla 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þá kröfu til stjórnvalda að ekki sé gengið lengra en nauðsynlegt sé til að ná settum markmiðum er búi að baki stjórnvaldsákvörðun. Verða sveitarstjórnir að virða greind lagaákvæði og sjónarmið við töku skipulagsákvarðana. Skal við gerð deiliskipulags byggja á stefnu aðalskipulags en þar er lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi t.d. landnotkun og takmarkanir á henni. Þá skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis samræmi, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var samþykkt breyting á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022 fyrir gildistöku hins umdeilda deiliskipulags. Í breytingunni fólst að 15 ha landbúnaðarsvæði á jörðinni Orustustöðum var breytt í verslunar- og þjónustusvæði. Með breytingunni var því ekki lengur gert ráð fyrir þeirri landnotkun sem skipulagsreglugerð nr. 90/2013 áskilur að sé á landbúnaðarsvæðum, þ.e. svæði fyrir landbúnað og mannvirki sem tengjast búrekstrinum, með áherslu á búfénað, matvæla- og fóðurframleiðslu, heldur landnotkun þar sem gert sé ráð fyrir verslun og þjónustu, þ.m.t. hótelum, gistiheimilum, gistiskálum, veitingahúsum og skemmtistöðum. Jafnframt fól breytingin í sér að á umræddu svæði yrði hótel og tengd starfsemi og áætlað byggingarmagn um 7.000 m² á tveimur hæðum.  Auk þess var gert ráð fyrir nýju efnistökusvæði og nýju brunn-, grann- og fjarsvæði vatnsverndar. Þá kemur fram í greinargerð aðalskipulagsáætlunarinnar að skilgreina þurfi héraðsveg að svæðinu og hafi veglína C verið valin að loknu mati á sex leiðum. Fram kemur í samanburðartöflu að leið C liggi eftir núverandi vegi, en nýr vegur sé á um 2,8 km kafla sunnan við Hraunból og að skógræktarsvæði. Eru veglínur sýndar á skýringaruppdrætti í greinargerð aðalskipulagsbreytingarinnar.

Í greinargerð umrædds deiliskipulags hótels í landi Orustustaða segir að skipulagssvæðið sé tæpir 40 ha að stærð. Þar af séu 28 ha innan Orustustaða, 10 ha innan óskipts lands Hraunbóls/Sléttabóls og 0,5 ha innan Fossjarða. Gerir skipulagið ráð fyrir því að á 13,6 ha lóð innan jarðarinnar Orustustaða verði tveir byggingarreitir og er heimilað byggingarmagn innan lóðarinnar allt að 7.000 m². Er lóðin á reit merktum V32 í aðalskipulagi Skaftárhrepps. Á byggingareit B1 verður 200 herbergja hótel, er samanstendur af tveggja hæða móttöku- og veitingahúsi, gistihúsum og öðrum minni byggingum af mismunandi stærð. Hámarksbyggingarmagn á reitnum verður 6.250 m². Reiknað er með 115 bílastæðum, sem staðsett skulu vestan við byggingarnar, og þrjú rútustæði við aðkomu hótelsins skulu staðsett innan lóðar. Á byggingarreit B2 eru ráðgerðar allt að þrjár byggingar fyrir starfmenn. Heildarbyggingarmagn er 750 m², það er allt að 15 íbúðir sem hver um sig verður 50 m² að stærð. Bílastæði við starfsmannahús verða fimmtán. Jafnframt tekur deiliskipulagið til aðkomuvegar sem liggur að hluta til í landi Hraunbóls/Sléttabóls og Fossjarða.

Að framangreindu virtu fer hið kærða deiliskipulag ekki í bága við stefnu og markmið aðalskipulagsins og er áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana þ.a.l. fullnægt.
Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma, og með umhverfismati áætlunar, ef við á. Lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum var breytt með lögum nr. 138/2014, en eftir þá breytingu eru m.a. hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis tilgreind í flokki B, sbr. lið 12.05 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000. Framkvæmdir í þeim flokki skal tilkynna Skipulagsstofnun til ákvörðunar um matsskyldu. Breytingalögin tóku gildi 31. desember 2014, en aðalskipulagsbreyting var samþykkt af sveitarstjórn fyrr í þeim mánuði. Málsmeðferð deiliskipulagsins var hins vegar fram haldið og með hliðsjón af nefndum lagabreytingum var unnin umhverfisskýrsla í samræmi við lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.

Eins og áður er lýst kom val á veglínu að hótelinu til skoðunar við breytingu á aðalskipulagi Skaftárhrepps. Fram kemur í kafla 4.4 í greinargerð með þeirri breytingu að margar athugasemdir hafi verið gerðar um legu aðkomuvegar að Orustustöðum í lýsingu skipulagsverkefnisins, en þá hafði ekki verið gerð tillaga að legu vegar. Eftir það hafi landeigendum verið sendar tillögur að veglínum og umsagnir borist. Við val á veglínu hafi verið lögð áhersla á nokkra þætti. Að veglínan myndi trufla sem minnst þá sem byggju og dveldu á svæðinu, miðað við 500 m frá bæjarstæðum. Að truflun á væntanlegu friðlandi yrði sem minnst og veglínan færi ekki yfir merkar minjar. Að veglínan myndi ekki ganga yfir það svæði sem talist gæti gott ræktunarland ef hjá því væri komist. Loks að umhverfisáhrif hennar yrðu sem minnst. Gerður hafi verið samanburður á sex veglínum hvað varðaði nefnda þætti og hafi niðurstaðan orðið sú að velja veglínu C, sem byggst hafi á fyrrnefndu mati. Eru færð rök fyrir vali á veglínunni í samræmi við þá þætti sem fjallað er um í samanburði veglínanna. Þá kemur fram í greinargerðinni í kafla 5 um umhverfisáhrif að gerð sé grein fyrir þeim í samræmi við 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Í kaflanum kemur jafnframt fram að neikvæð umhverfisáhrif verði af umferð bíla og ferðamanna um svæðið, en til að takmarka þau eins og kostur sé hafi verið reynt að velja staðsetningu vegarins þannig að áhrif hans yrðu sem minnst. Loks eru áréttuð þau rök sem fram komu í kafla 4.4. varðandi val sveitarstjórnar á veglínu.

Í hinu umdeilda deiliskipulagi var ekki gert valkostamat á mismunandi aðkomuvegum að Orustustöðum heldur tekið fram að aðkoma að hótelinu yrði frá þjóðvegi 1 eftir núverandi vegi sem liggi að Hraunbóli og nýjum 1,7 km vegkafla, sem liggi af núverandi vegi, rétt vestan við Hraunból. Er sú veglína sýnd á uppdrætti deiliskipulagsins og er hún í samræmi við veglínu þá sem sýnd er á breyttum aðalskipulagsuppdrætti. Í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins er tekið fram að vegstæði hafi verið valið út frá fjarlægð frá bústöðum og íbúðarhúsi á Hraunbóli, tiltekið hvernig lagningu vegarins verði háttað til að ekki myndist fyrirstaða og að allt óþarfa rask verði forðast og haft í huga friðhelgað svæði friðaðra fornleifa. Tiltekið er einnig að neikvæð umhverfisáhrif verði af umferð bíla og ferðamanna en að reynt hafi verið að velja staðsetningu vegarins þannig að áhrif hans verði sem minnst.

Að teknu tilliti til kröfu þeirrar sem gerð er í skipulagslögum um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana og þess samanburðar á veglínum sem fram fór við aðalskipulagsbreytingu verður ekki séð að þörf hafi verið á frekari samanburði mismunandi kosta um veglínu við útfærslu deiliskipulagsins. Þá fullnægði umhverfisskýrsla deiliskipulagsins áskilnaði 6. gr. laga nr. 105/2006 um efnisinnihald að teknu tilliti til efnis hennar og stöðu deiliskipulagsins í stigskiptri áætlanagerð, sbr. og 1. mgr. ákvæðisins.

Kærendur hafa ítrekað andmælt og komið að athugasemdum sínum við fyrirhugaðar framkvæmdir að Orustustöðum, bæði þegar nefndar breytingar voru gerðar á aðalskipulagi Skaftárhrepps og eins við gerð deiliskipulagsins. Jafnframt kærðu þeir til úrskurðarnefndarinnar þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhuguð framkvæmd skyldi ekki sæta mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000. Tefla kærendur ýmsum sjónarmiðum fram máli sínu til stuðnings, t.a.m. að ekki hafi verið heimilt að samþykkja hið umdeilda deiliskipulag án samráðs við þá eða heimildar þeirra, en vegur að hótelinu muni liggja um land þeirra.  Lúti umræddur vegur forræði þeirra, en um einkaveg sé að ræða.

Skipulagslög gera ráð fyrir að samráð sé viðhaft við almenning og hagsmunaaðila á öllum skipulagsstigum. Í greinargerð með umræddri aðalskipulagsbreytingu kemur fram að þrír samráðsfundir hafi verið haldnir með landeigendum, einn með landeigendum vestan Eldhrauns og tveir með landeigendum austan megin. Gögn málsins bera hins vegar ekki með sér að boðað hafi verið til frekara samráðs við deiliskipulagsgerðina í samræmi við fyrirmæli gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð. Kærendur komu þó einnig að athugasemdum sínum í deiliskipulagsferlinu og í svörum sveitarfélagsins við framkomnum athugasemdum er gerð grein fyrir því hvers vegna valin hafi verið sú veglína sem gert sé ráð fyrir í aðal- og deiliskipulagi, en þau rök hafa áður verið tíunduð. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þau rök málefnaleg og skal á það bent að í skyldu sveitarfélags til samráðs felst ekki að fallast beri á allar þær athugasemdir sem fram koma. Er enda sveitarstjórnum að lögum veitt víðtækt skipulagsvald þótt því beri að beita að teknu tilliti til málsmeðferðarreglna skipulags- og stjórnsýslulaga. Skipulagslög gera enn fremur ráð fyrir því að gildistaka skipulagsáætlana geti haft í för með sér röskun á einstökum fasteignaréttinum. Felur ákvörðun um deiliskipulag þó ekki í sér ráðstöfun á beinum eða óbeinum eignarréttindum, en standi slík réttindi í vegi fyrir framkvæmd skipulags getur komið til eignarnáms skv. 50. gr. skipulagslaga eða eftir atvikum til bótagreiðslna í samræmi við 51. gr. laganna. Slík álitaefni heyra þó ekki undir úrskurðarnefndina heldur eftir atvikum undir dómstóla.

Sveitarstjórn nýtti sér heimild 2. mgr. 40. gr. skipulagslaga til að víkja frá þeirri skyldu að taka saman lýsingu við upphaf deiliskipulagsgerðar þegar allar meginforsendur þess liggja fyrir í aðalskipulagi. Af því sem áður hefur verið rakið verður ráðið að allar meginforsendur deiliskipulagsins hafi legið fyrir í aðalskipulagi, svo sem því var breytt, og hafi því verið heimilt að víkja frá framangreindri lagaskyldu. Málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar var að öðru leyti í samræmi við ákvæði skipulagslaga um auglýsingu, samþykkt og afgreiðslu. Þá verður ekki séð að farið hafi verið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga, m.a. um meðalhóf og jafnræði.

Með vísan til alls framangreinds verður ekki talið að þeir efnis- eða formannmarkar hafi verið á hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar.

 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að felld verði úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Skaftárhrepps frá 26. október 2015 um að samþykkja deiliskipulag hótels í landi Orustustaða í Skaftárhreppi.

36/2016 Miðbraut

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 11. janúar kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarnesbæjar frá 24. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. apríl 2016, er barst nefndinni 5 s.m., kæra eigendur, Miðbraut 26, og eigendur Miðbraut 21, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. febrúar s.á. að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fjöldi bílastæða verði aukinn á lóðinni Miðbraut 28 í samræmi við kröfur kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 10. maí 2016.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir svokallað Vesturhverfi sem skiptist í svæði A, B og C. Lóðin að Miðbraut 28 er á svæði C. Deiliskipulagsbreyting fyrir lóðina nr. 28 við Miðbraut var grenndarkynnt 30. desember 2015 með athugasemdafresti til 5. febrúar 2016. Sú tillaga gerði m.a. ráð fyrir því að hámarksfjöldi íbúða á lóðinni yrðu fjórar í stað tveggja og að bílastæðum myndi fjölga úr tveimur í fjögur. Jafnframt yrði þar eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Tveir undirskriftarlistar með athugasemdum bárust á kynningartíma tillögunnar, með nöfnum samtals 23 aðila. Athugasemdirnar voru efnislega samhljóða. Í þeim var gerð krafa um að bílastæðum við húsið að Miðbraut 28 yrði fjölgað.

Að lokinni grenndarkynningu var skipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulags- og umferðarnefndar 9. febrúar 2016 og hún samþykkt. Jafnframt var skipulagsfulltrúa falið að svara athugasemdum í samræmi við umræður á fundinum. Á fundi bæjarstjórnar 24. s.m. var afgreiðsla skipulags- og umferðarnefndar staðfest.

Málsrök kærenda:
Af hálfu kærenda er þess krafist að bílastæðum við fyrirhugað fjórbýlishús að Miðbraut 28 verði fjölgað úr fjórum í átta. Ljóst megi vera að mjög líklegt sé að hverri íbúð fylgi að minnsta kosti tveir bílar. Kveða þurfi því á um að bílastæði innan lóðar verði átta talsins, svo sem skipulags- og mannvirkjanefnd hafi gert áskilnað um við samþykki byggingar fjórbýlishúss við Melabraut 27 á fundi sínum hinn 21. júní 2011. Aukabílastæði við Miðbraut séu alls ekki mörg og það myndi þrengja mjög að íbúum og umferð ef fjölgaði í hópi þeirra sem leggi ökutækjum sínum að staðaldri við gangstétt götunnar.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:
Bæjaryfirvöld benda á að í deiliskipulagi svæðisins séu svohljóðandi ákvæði um bílastæði: „Geymsla fyrir bíl skal vera fyrir a.m.k. helming íbúða í hverju húsi. Auk þess er kvöð um a.m.k. 2 bílastæði á hverri lóð. Þar sem fleiri en ein íbúð verður heimiluð á lóð er kvöð um a.m.k. 1 aukastæði á lóð fyrir hverja viðbótar íbúð.“

Tillagan sé því í samræmi við ákvæði deiliskipulagsins um fjölda bílastæða innan lóðar. Þrátt fyrir athugasemdir íbúa hafi ekki verið talið rétt að víkja frá þeirri meginreglu nema hún yrði endurskoðuð fyrir svæðið í heild. Bent sé á að fjölgun bílastæða innan lóðar fækki bílastæðum sem standi almenningi opin utan lóðar, eins og aðstæður séu á umræddri lóð. Við slíka tilfærslu bílastæða minnki sveigjanleiki á nýtingu bílastæða í hverfinu. Að auki sé illmögulegt að koma fyrir átta bílastæðum á lóðinni.

Til viðbótar framangreindu myndi slíkur fjöldi bílastæða sem kærendur krefjist breyta ásýnd húss og lóðar og leiða til þess að framgarður hússins færi nánast að öllu leyti undir bílastæði. Í byggingarreglugerð sé gert ráð fyrir að í slíkum fjöleignarhúsum sé eitt bílastæði fyrir hreyfihamlaða. Með vísan til þess og framkominna athugasemda hafi verið gerð krafa um eitt bílastæði á lóðinni fyrir hreyfihamlaða.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun felur í sér þá breytingu á deiliskipulagsskilmálum fyrir lóðina Miðbraut 28 að heimilað er að fjölga íbúðum í húsi því sem stendur á lóðinni úr tveimur í fjórar, að fjölga bílastæðum innan lóðar úr tveimur í fjögur og að bæta við einu bílastæði fyrir hreyfihamlaða.

Deiliskipulagsbreytingin fékk málsmeðferð samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt því ákvæði er sveitarstjórn heimilt að gera breytingar á samþykktu deiliskipulagi sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar skv. 1. mgr. ákvæðisins og skal þá fara fram grenndarkynning. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi telst óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Ljóst er að umrædd deiliskipulagsbreyting hefur ekki í för með sér breytingu á notkun eða nýtingarhlutfalli lóðarinnar. Hins vegar breytist yfirbragð svæðisins að því leyti að þremur bílastæðum er bætt við á lóðinni. Dæmi eru um að á svæðinu séu lóðir með jafn margar eða fleiri íbúðir. Breytingin rúmast innan upphaflegra deiliskipulagsskilmála fyrir svokallað C-svæði, sem er hluti umrædds deiliskipulagssvæðis. Í greinargerð skipulagsins kemur fram að byggð á svæði C sé sundurleitari en á svæðum A og B. Þar standi elstu og minnstu húsin, en einnig þau stærstu, og dæmi séu um allt að sex íbúðir á lóð. Stefnt sé að þéttingu byggðar og aðlögun minni húsa að þeim stærri svo hverfið fái samræmdara yfirbragð. Þar sé nýtingarhlutfall heimilað 0,5, heimiluð nokkur fjölgun íbúða og í stöku tilvikum hækkun húsa um hálfa til eina hæð. Með hliðsjón af þessu verðu að telja að sveitarstjórn hafi verið heimilt að fara með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu samkvæmt fyrrgreindri 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og einnig þess að ekki verður séð að form eða efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun, verður kröfu kærenda um ógildingu hennar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 24. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vesturhverfis, vegna fjölgunar íbúða og bílastæða á lóðinni nr. 28 við Miðbraut.

114/2017 Tröllaendi 1 Flatey

Með
Árið 2018, fimmtudaginn 11. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykhólahrepps frá 22. ágúst 2017 um að samþykkja byggingaráform um starfsmannahús að Tröllenda 1 í Flatey á Breiðafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2017, er barst nefndinni 6. s.m., kæra eigendur Byggðarenda í Flatey á Breiðafirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Reykhólahrepps frá 22. ágúst 2017 að samþykkja byggingaráform um starfsmannahús að Tröllenda 1 í Flatey. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykhólahreppi 19. október 2017.

Málavextir: Í gildandi aðalskipulagi Reykhólahrepps frá árinu 2008 fellur lóð sú er hið kærða byggingarleyfi tekur til innan skilgreinds athafnasvæðis austast í Flatey, merkt A1 – Tröllendi. Í greinargerð aðalskipulagsins kemur fram að á athafnasvæðum skuli almennt ekki gera ráð fyrir íbúðum, en að unnt sé að gera ráð fyrir íbúðum tengdum starfsemi fyrirtækja, s.s. fyrir húsverði. Í deiliskipulagi fyrir athafnasvæðið að Tröllenda frá árinu 2016 er umrædd lóð auðkennd A1 og tekið fram í skilmálum að á henni megi vera hús undir gistiaðstöðu fyrir starfsmenn atvinnufyrirtækja í Flatey. Það hús skuli vera allt að 120 m2, á einni hæð, með lágu risi sem hafi 15-20° þakhalla og mænisstefnu NV-SA. Þak skuli klætt torfi og skuli húsið uppfylla kröfur samkvæmt kafla 6.7 í byggingarreglugerð um íbúðir og íbúðarhús. Heimilt sé að byggja 20 m2 geymsluskúr á lóðinni, annað hvort stakstæðan eða sem hluta starfsmannahúss. Heimilað heildarbyggingarmagn sé alls 140 m2. Lóðin sé 492 m2 og nái byggingarreitur yfir hana alla.

Á fundi skipulags-, húsnæðis- og hafnarnefndar Reykhólahrepps hinn 11. maí 2017 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir starfsmannahúsi að Tröllenda 1. Bókað var að nefndin samþykkti byggingaráformin með fyrirvara um að stærð mannvirkisins yrði í fermetrum talið innan heimilda deiliskipulags og að húsnæðið yrði innan skilgreinds byggingarreits. Byggingarfulltrúa var jafnframt falið að fylgja málinu eftir. Umsóknin var tekin fyrir að nýju í nefndinni hinn 29. maí s.á. og afgreidd með eftirfarandi bókun: „Haft hefur verið samband við Skipulagsstofnun, Landmótun og Minjavernd vegna fyrirvara á síðasta fundi nefndarinnar. Með vísan í skipulagslög 123/2013 3. mgr. 43. gr. samþykkir nefndin að um óverulegt frávik frá deiliskipulagi sé að ræða, að hagsmunir nágranna skerðist ekki. Nefndin staðfestir því framlögð byggingaráform.“ Á fundi sveitarstjórnar Reykhólahrepps hinn 8. júní 2017 var þessi afgreiðsla nefndarinnar staðfest. Byggingarfulltrúi samþykkti síðan byggingarleyfisumsóknina með áritun þar um á aðaluppdrætti hinn 22. ágúst 2017. Samkvæmt uppdráttunum er um að ræða gistihús vegna hótelrekstrar í Flatey. Grunnflötur aðalhúss er tilgreindur 142 m2 og geymslu 15 m2. Af uppdráttunum má ráða að hluti geymsluhúss og svæði undir sorptunnur og sólpall verði utan byggingarreits og lóðar.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast hafa skilning á þörf fyrir starfsmannahús það sem hið kærða byggingarleyfi snúi að, enda hafi þeir ekki sett sig upp á móti nýlegu deiliskipulagi sem geri ráð fyrir lóð undir slíkt hús. Af bókunum skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins frá því í maí 2017 megi hins vegar ráða að Minjavernd, sem sé byggingaraðili hússins, hafi viljað fara út fyrir heimildir deiliskipulags að því er varði stærð þess og staðsetningu innan byggingarreits. Eftir upphaf framkvæmda hafi grunur vaknað um að þær samræmdust ekki gildandi deiliskipulagi. Hafi af því tilefni verið óskað eftir samþykktum aðaluppdráttum hússins hjá byggingarfulltrúa Reykhólahrepps, sem borist hafi að hluta með tölvupósti hinn 14. september 2017. Frekari gögn hafi ekki borist þrátt fyrir ósk þar um.

Gerð sé athugasemd við að stærð hússins samkvæmt uppdrætti sé 153 m2, þakhalli sé 40-45°, langveggir séu 3,5 m háir, mænishæð sé 4,95 m og gert sé ráð fyrir millilofti og mænisstefnu í NV-SSA. Húsið standi auk þess á hárri fyllingu og standi því mjög hátt í landinu og skyggi á útsýni frá húsi kærenda. Allt sé þetta í andstöðu við gildandi deiliskipulag og það hvernig skipulagið hafi verið kynnt fyrir íbúum. Enn fremur hafi skipulagsnefnd ekki verið heimilt að beita 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 við afgreiðslu uppdrátta að húsinu og útgáfu byggingarleyfis, enda um svo mikil frávik að ræða frá gildandi deiliskipulagi að borið hefði að fara með málið samkvæmt 2. mgr. 43. gr. eða jafnvel 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Skipulagsnefnd og sveitarstjórn Reykhólahrepps hafi farið langt út fyrir heimildir sínar til minniháttar breytinga á deiliskipulagi með útgáfu á hinu kærða byggingarleyfi. Kærendum hafi fyrst orðið ljóst um þessi miklu frávik frá gildandi deiliskipulagi þegar þeim hafi borist áðurgreindur tölvupóstur hinn 14. september 2017.

Málsrök Reykhólahrepps: Af hálfu Reykhólahrepps er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, en ella að kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis verði hafnað.

Byggingaráform hafi verið samþykkt á fundi skipulags-, húsnæðis- og hafnarnefndar Reykhólahrepps hinn 29. maí 2017. Jafnframt hafi verið samþykkt að nýta heimild 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og hafi sú samþykkt verið staðfest af sveitarstjórn hinn 8. júní s.á., samhliða því sem að hin kærða ákvörðun hafi verið staðfest. Í kjölfarið hafi framkvæmdir hafist. Mælt hafi verið fyrir sökklum 23. júní 2017 og hinn 16. ágúst s.á. hafi verið búið að slá frá sökklum. Frá þeim tíma hafi mátt ráða umfang hússins og hæðarsetningu í lóðinni. Hefði kærendum borið að afla sér upplýsinga um mannvirkið eftir að staðfesting sveitarstjórnar um byggingaráformin lá fyrir og hefði þeim í síðasta lagi mátt vera ljóst umfang mannvirkisins um miðjan ágúst, þegar sökklar hefðu verið steyptir. Kæra hafi borist úrskurðarnefndinni tveimur mánuðum síðar, hinn 6. október 2017, og þar með að liðnum kærufresti. Beri því að vísa málinu frá. Auk þessa eigi kærendur ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, enda verði ekki séð hvernig frávik það sem felist í hinni kærðu ákvörðun frá skipulagsskilmálum vegi að einstaklegum og lögvörðum hagsmunum þeirra. Beri einnig af þeirri ástæðu að vísa kærunni frá.

Byggingar á umræddri lóð séu 17 m2 stærri að flatarmáli en skipulag geri ráð fyrir. Um sé að ræða innan við eins metra breikkun á 20 m langhlið hússins, er snúi að húsi kærenda. Vikið sé lítillega frá mænisstefnu, horn geymsluhúss skagi lítillega út fyrir byggingarreit og þakhalli á samþykktum uppdráttum sé 34°. Ekkert af þessu hafi hins vegar áhrif á hagsmuni kærenda. Þess utan hafi við byggingu hússins verið leitast við að draga úr mænishæð þess með lækkun gólfplötu og veggja og minnkun þakhalla niður í 30°. Þetta hafi þau áhrif að húsið standi ekki hærra en ef það hefði verið byggt með þeim þakhalla sem skipulag geri ráð fyrir. Sveitarfélagið hafi einnig ákveðið að byggingarleyfishafa verði gert að lækka þakhalla niður í 20° og því sé ekki þörf á að taka afstöðu til þess kæruliðar sem varði þakhallann. Athugasemdir sem snúi að hæðarsetningu hússins og vegg- og mænishæð varði skipulagið sjálft og komi því ekki til skoðunar í kærumálinu, enda kærufrestur vegna þess löngu liðinn. Þar sem frávik frá skipulagi raski ekki hagsmunum kærenda sé skilyrðum 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga fullnægt til útgáfu byggingarleyfis án breytingar á deiliskipulagi. Til öryggis hafi sveitarfélagið samþykkt að gera breytingu á deiliskipulaginu svo byggingin samrýmist því, sbr. bókun þess efnis frá 12. október 2017.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi telur kærendur skorta kæruaðild að málinu, enda eigi þeir ekki lögvarinna hagsmuna að gæta. Þau frávik frá deiliskipulagi sem kærendur beri fyrir sig varði, eins og atvikum sé háttað, ekki einstaklega lögvarða hagsmuni þeirra. Um sé að ræða almenna hagsmuni sem skipulagsyfirvöld gæti í skjóli skipulagsvalds. Hús kærenda standi um 100 m frá framkvæmdasvæðinu og það sé beinlínis rangt að heimilað hús muni skerða útsýni þeirra umfram það sem ráð sé fyrir gert í deiliskipulagi.

Við hönnun hússins hafi verið gert ráð fyrir að það stæði í lægð á milli hæðardraga. Komið hafi hins vegar í ljós að lóðin lægi hærra í Tröllendahæðinni og stæði húsið því hærra en ætlað hafi verið. Til að bregðast við þessu hafi sökklum, gólfi, veggjum og þaki verið breytt með það fyrir augum að lækka húsið, eins og kostur væri. Samtals hafi húsið því lækkað um 70 cm á byggingartíma frá því sem samþykktar teikningar hafi ráðgert. Þessar breytingar hafi verið unnar í samráði við og með vitund byggingarfulltrúa, sem hafi fengið nýjar teikningar. Þak hússins sé tvíhalla með 10° og 30° halla og mænishæð sé sú sama og ef þakið væri allt með 20° halla. Torf hafi reynst illa á þökum í Flatey sökum þurrviðris á sumrum og skorts á vatni til vökvunar. Því sé aðeins torf á lægra þakinu. Grunnflötur hússins sé 142 m2 og skúrs 15 m2. Heimilt sé samkvæmt nýrri byggingarreglugerð að byggja allt að 20 m2 skúr innan lóðar. Sökum þess að eitt horn skúrsins nái út fyrir byggingarreit hafi teikningar verið samþykktar af skipulags-, byggingar-, húsnæðis- og hafnarnefnd með vísan til 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga og hafi sveitarstjórn staðfest þá samþykkt.
 
Niðurstaða: Af gögnum verður ráðið að hús það sem hin kærða ákvörðun heimilar að Tröllenda 1 verði í sjónlínu frá húsi kærenda að Byggðarenda og ber ekkert þar á milli. Hefur byggingin því áhrif á útsýni frá fasteign kærenda. Verða kærendur af þeim sökum taldir eiga grenndarhagsmuni af því að umrætt hús verði staðsett innan skipulagðrar lóðar og að það verði ekki meira áberandi í umhverfi sínu en skipulag geri ráð fyrir. Í ljósi þessa teljast kærendur eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Samkvæmt áritun byggingarfulltrúa á fyrirliggjandi aðaluppdrætti fyrirhugaðs húss að Tröllenda 1 samþykkti hann byggingaráformin hinn 22. ágúst 2017, sbr. 9. og 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Ekki liggur fyrir að sveitarfélagið hafi sett sérstaka samþykkt sem kveði á um aðra málsmeðferð byggingarleyfisumsókna, svo sem á grundvelli 7. gr. mannvirkjalaga, þar sem heimilað er að fela sérstökum byggingarnefndum afgreiðslu byggingarleyfisumsókna. Verður upphaf kærufrests vegna veitingar umdeilds byggingarleyfis því í fyrsta lagi miðað við fyrrgreint samþykki byggingaráforma. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að byggingarleyfi hafi verið gefið út samkvæmt 13. gr. laganna, sem er forsenda þess að hefja megi framkvæmdir. Verður ekki fullyrt að kærendum hafi mátt vera ljóst efni hinnar kærðu ákvörðunar fyrr en þeim bárust samþykktir aðaluppdrættir hússins í tölvupósti hinn 14. september 2017. Barst kæra í máli þessu samkvæmt því fyrir lok eins mánaðar kærufrests, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með vísan til framangreinds verður kærumál þetta tekið til efnislegrar meðferðar.

Gildandi deiliskipulag kveður á um heimild til byggingar 120 m2 húss á umræddri lóð, sem geti, ef heimilaður 20 m2 geymsluskúr sé sambyggður því, orðið alls 140 m2. Húsið skuli vera á einni hæð, með lágu risi með 15-20° þakhalla, mænisstefnu NV-SA og þaki klæddu torfi. Byggingarreitur nái til allrar lóðarinnar, sem sé 492 m2 að stærð. Samþykkt byggingarfulltrúa á byggingaráformum frá 22. ágúst 2017 víkur í nokkrum atriðum frá þessum skilmálum skipulagsins. Flatarmál hússins er tilgreint 142 m2, og því nokkuð umfram heimilaða stærð, en geymsluskúr, sem að hluta er tilgreindur sem þvottaaðstaða, er ekki sambyggður.  Óumdeilt er að halli risþaks er töluvert meiri en skipulagsskilmálar heimila og að mannvirkið stendur að hluta utan lóðar. Þá er mænisstefna hússins ekki í samræmi við skipulagsskilmála og aðeins er gert ráð fyrir torfi á hluta þaksins. Var hið kærða byggingarleyfi því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag, svo sem áskilið er í 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga.

Samkvæmt 3. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá skilmálum deiliskipulags í byggingarleyfi, ef um sé að ræða svo óverulegt frávik að tilgreindir hagsmunir nágranna skerðist í engu, sbr. einnig gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þau frávik samþykktra aðaluppdrátta frá skilmálum gildandi deiliskipulags sem hér hafa verið greind hafa áhrif á grenndarhagsmuni kærenda að því er varðar útsýni. Auk þess snerta frávikin nýtingarhlutfall lóðar, form hússins, stærð byggingarreits og lóðar, ásamt gerð og lögun þaks. Þessi frávik geta ekki talist óveruleg. Skilyrði þess að vikið sé frá skilmálum skipulags við veitingu byggingarleyfis skv. 43. gr. skipulagslaga voru því ekki uppfyllt þegar hin kærða ákvörðun var tekin.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykhólahrepps frá 22. ágúst 2017 um samþykkt byggingaráforma vegna starfsmannahúss að Tröllenda 1 í Flatey.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

18/2016 Skógarás

Með
Árið 2017, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 18/2016, kæra á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2016 um að leggja sorpgjald að fjárhæð 39.200 á fasteignina Skógarás 1, Reykjavík, fastanúmer 204-6554.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. janúar 2016, er barst nefndinni 8. febrúar s.á., kærir A, Skógarási 1, Reykjavík, þá ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2016 um að leggja sorpgjald að fjárhæð 39.200 á fasteignina Skógarás 1, Reykjavík, fastanúmer 204-6554. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 17. nóvember 2016.

Málavextir: Kærandi er eigandi fasteignarinnar Skógarás 1, fastanúmer 204-6554. Samkvæmt fasteignaskrá samanstendur fasteign kæranda af íbúð sem er skráð 129,3 m² og þremur bílskúrum sem eru skráðir samtals 73,9 m². Sorpgjald var lagt á fasteign kæranda í samræmi við gjaldskrá nr. 1251/2015 fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg. Kærandi er krafinn um kr. 21.200 fyrir gráa tunnu með skrefagjaldi og kr. 9.520 fyrir bláa tunnu með skrefagjaldi. Þrjár gráar og þrjár bláar tunnur eru í húsinu og er gjaldið reiknað útfrá hlutfalli eignar kæranda af heildarflatamáli fasteignarinnar að Skógarási 1, húsið er 763,7 m² og skráð stærð fasteignar kæranda, fastanúmer 204-6557, er 203,2 m².

Málsrök kæranda: Kærandi kveður fasteign sína vera 203,2 m² samkvæmt fasteignamati Þjóðskrár en inni í þeirri tölu séu bílskúrar í séreign sem séu samtals 73,9 m² og sé íbúðin því 129,3 m². Í samþykkt um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík og á heimasíðu Reykjavíkurborgar komi fram að gjöldunum skuli skipt eftir hlutfallstölu eigenda í viðkomandi sameign og samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg sé „tunnugjald“ vegna fasteignar hans reiknað út frá heildarfermetra tölu en þar sem bílskúrarnir séu séreign með sérstakan eignaskiptasamning geti ekki staðist að þeir eigi að reiknast með.

Húsfélag fyrir bílskúrana sé með sér kennitölu og húsfélagið fyrir íbúðarhúsið með aðra kennitölu. Húsfélag bílskúra hafi ekkert með sameign húsfélagsins í Skógarási 1 að gera. Atkvæðisréttur kæranda í húsfélaginu Skógarási 1 miðist við stærðina á íbúðinni, 129,3 m² og breyti eign hans á bílskúrunum engu þar um. Samkvæmt þinglýstum eignarskiptayfirlýsingum annars vegar fyrir bílskúrana og hins vegar fyrir Skógarás 1 þá séu bílskúrarnir ekki með neinn aðgang að sameign húss nr. 1 við Skógarás. Sé það því fullkomlega óeðlilegt og engin lagaheimild fyrir því að nota bílskúrana við útreikning hlufallstölu vegna sorpgjalda.

Í B-lið 45. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús sé talinn upp kostnaður sem skiptist að jöfnu á milli eignarhluta og í 5. tölulið sé talað um allan sameiginlegan rekstrarkostnað. Tunnuleiga og sorphirða hljóti að falla þar undir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg bendir á að kærandi sé þinglýstur eigandi fasteignar með fastanúmer 204-6554, sem taki til matshluta 01-0302, 04-0102, 04-0105 og 04-0106. Hver og einn matshluti eigi hlutdeild í sameign og hafi sameiginleg hlutdeild allra matshluta verið lögð til grundvallar álagningu. Matshluti 01 sé íbúð kæranda en matshlutar 04 séu þrír bílskúrar í eigu kæranda.

Í kæru sé vísað til þess að verið sé að kæra álagningu „tunnugjalds“ og sé við það miðað að með því sé verið að kæra álagningu gjalds vegna blandaðs úrgangs skv. 2. gr. gjaldskrár nr. 1251/2015 fyrir meðhöndlun úrgangs í Reykjavík. Í kæru komi fram að álagning miði við að fasteign kæranda sé 203,2 m² að stærð en hið rétta sé að íbúðin sé 129,3 m² og kærandi telji að miða eigi álagninguna við þá stærð.

Gjaldtökuheimild sé í 23. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs en í 4. málslið 2. mgr. ákvæðisins segi að sveitarstjórn megi ákveða gjaldið sem fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Hugtakið fasteignareining sé ekki skilgreint í lögunum og ekki sé að finna skýringu á því í öðrum lögum. Hugtakið gefi þó til kynna að verið sé að miða við einhverja heild fasteignar, þ.e. fleiri en eina fasteign eða matshluta, sem samkvæmt ákvæðum laga, reglna eða eðlis máls eigi að teljast sem ein eining. Í því samhengi verði að líta til ákvæða laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús, en í 10. tölulið 1. mgr. 5. gr. laganna segi að séreign teljist m.a. aðrir hlutar húss eða lóðar, bílskúr á lóð húss eða búnaður og lagnir sem þinglýstar heimildir segi séreign. Í 22. gr. sömu laga sé fjallað um bílskúra og ráðstöfun þeirra. Í 1. mgr. segi að bílskúr, m.a. þeir sem standi sjálfstæðir á lóðum, skuli fylgja ákveðnum séreignarhlutum í húsinu og sérstök sala þeirra sé óheimil. Í 3. mgr. segi að óheimilt sé að aðskilja bílskúr við sölu á séreignarhluta. Af þessum ákvæðum megi draga þá ályktun að þegar fjallað sé um fasteignareiningu geti séreign í fjölbýli og bílskúr á sameiginlegri lóð talist fasteignareining. Bílskúr geti ekki verið sjálfstæð séreign og skipti þar engu þótt sérstakt húsfélag taki til bílskúra, enda sé þar einungis verið að nýta heimild til sérstaks húsfélags samkvæmt fjöleignarhúsalögum.

Í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir Skógarás 1-5, bílgeymslur, sé fjallað um bílskúra á sameiginlegri lóð fasteignanna nr. 1,3 og 5 við Skógarás. Bílskúrar, sem séu 11 talsins, á sameiginlegri lóð, séu taldir sem sér matshluti (04) gagnvart öðrum matshlutum á lóðinni. Í eignaskiptayfirlýsingunni komi fram að hver og einn bílskúr eigi hlutdeild í sameiginlegri lóð, aðgreint frá hlutdeild í matshluta 04. Þessi skilgreining á stöðu bílskúranna renni enn fremur stoðum undir skilgreiningu þá á fasteignareiningu sem áður hafi komið fram. Með vísan til þess leiki enginn vafi á því að íbúð kæranda og bílskúrar í hans eigu teljist fasteignareining í skilningi laga nr. 55/2003. Í því samhengi skipti engu máli hvort bílskúrar séu reknir í sérstöku húsfélagi sem sérstök deild innan þess á sér kennitölu. Slík ráðstöfun sé gerð í hagræðingarskyni til að einfalda stjórn fasteignarinnar. Bílskúrunum fylgi aftur á móti eignarhlutdeild í lóð og teljist því hluti hennar.

Í 45. gr. fjöleignarhúsalaga sé fjallað um skiptingu sameiginlegs kostnaðar. Álagning sorphirðugjalda fari eftir A-lið ákvæðisins, sem kveði á um að sameiginlegum kostnaði skuli skipt eftir hlutfallstölu, sbr. 14. gr. laganna. Skipting sameiginlegs kostnaðar samkvæmt hlutfallstölu sé meginregla laganna en undantekningar sé að finna í B- og C-lið ákvæðisins.

Rétt sé að geta þess að eigendum fasteigna beri að greiða gjald fyrir meðhöndlun úrgangs fyrir allar fasteignir og skipti þar ekki máli hvort fasteign sé skilgreind sem bílskúr. Við álagningu gjalda sé keyrð saman heildarstærð fasteignareiningar samkvæmt skráningu í fasteignaskrá Þjóðskrár. Hlutdeild kæranda í sameign með vísan til þinglýstrar eignaskiptayfirlýsingar hafi verið grundvöllur álagningar á sameiginlegum kostnaði við sorphirðu. Álagning sorphirðugjalda á fasteign kæranda sé í fullu samræmi við þær reglur sem gildi um meðhöndlun úrgangs í Reykjavík og hafi borginni verið rétt og skylt að miða við samtölu hlutfallstölu allra séreignarhluta hans í fasteigninni.

Mismunur á rekstrartekjum og rekstrarkostnaði hafi verið eftirfarandi á síðustu árum í krónum talið:

Ár                                                    2016                 2015                 2014
Rekstrartekjur                      915.612.709    859.334.530    810.552.372
Rekstrarkostnaður              952.812.768    923.969.922    881.010.101
Rekstrarhalli                           37.200.059       64.635.392      70.457.729

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélaginu. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Á grundvelli 2. mgr. sömu lagagreinar skal sveitarstjórn setja samþykkt þar sem tilgreind eru atriði um meðhöndlun úrgangs, umfram það sem greinir í lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim, sbr. einnig heimild í þágildandi 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, nú 59. gr. Samþykkt sú er í gildi var er umrætt gjald var lagt á kæranda var nr. 228/2013 um meðhöndlun úrgangs í Reykjavíkurborg og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 12. mars 2013.
 
Sveitarfélög skulu skv. 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 innheimta gjald fyrir alla meðhöndlun úrgangs. Jafnframt er þeim heimilt að innheimta gjald fyrir tengda starfsemi sem samræmist markmiðum laganna, svo sem þróun nýrrar tækni við meðhöndlun úrgangs, rannsóknir, fræðslu og kynningarmál. Heimilt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað, svo sem magn og gerð úrgangs, losunartíðni og frágang úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. síðasta málsl. 2. mgr. 23. gr. Gjaldið skal þó aldrei vera hærra en sem nemur þeim kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. lagagreinarinnar, og skal birta gjaldskrá í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 4. mgr. Er gjaldskrá sú sem hin kærða álagning byggir á nr. 1251/2015 og var hún birt 6. janúar 2016.

Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Hefur Reykjavíkurborg valið þá leið að jafna kostnaði vegna meðhöndlunar sorps með því að innheimta fast gjald á hverja fasteignareiningu samkvæmt afdráttarlausri heimild þar um í 2. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003. Fasteignir eru skráðar í fasteignaskrá samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Hugtakið fasteignareining er ekki skilgreint í lögunum, en fasteignir, hluta þeirra og einstök mannvirki skal skrá sem sérstakar eindir í fasteignaskrá, sbr. 2. mgr. 3. gr. sömu laga. Er og í b-lið ákvæðisins tekið fram að skrá skuli séreignarhluta í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús. Samkvæmt 2. mgr. 15. gr. laga nr. 6/2001 skulu fasteignir í fjöleign skilgreindar með hlutfallstölu og fer um skráningu fasteigna í fjöleignarhúsum samkvæmt lögum um fjöleignarhús.

Samkvæmt 4. mgr. 7. gr. samþykktar nr. 228/2013 er sorphirðugjöldum fyrir heimilissorp í fjöleignarhúsum skipt eftir hlutfallstölum eigenda í viðkomandi sameign, sbr. 43. og 45. gr. laga um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samkvæmt 45. gr. þeirra laga skal allur sameiginlegur kostnaður, hverju nafni sem hann nefnist, skiptast á eigendur eftir hlutfallstölum eignarhluta í viðkomandi sameign nema kostnaðurinn falli ótvírætt undir nánar tilgreind tilvik. Í 7. gr. samþykktar nr. 228/2013 segir jafnframt að útreikningur hlutfallstölu skuli byggður á flatarmáli eignarhluta hvers eiganda. Fasteign kæranda að Skógarási 1 er með fastanúmerið 204-6554 samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og er íbúðareignin skráð 203,2 m² að flatarmáli. Samkvæmt skránni skiptist eignin í íbúð sem er 129,3 m² og þrjá bílskúra sem eru alls 73,9 m² að flatarmáli. Bílskúrarnir eru samkvæmt þessu hluti af eignarhluta kæranda í fasteigninni og er hans eignarhlutfall í fjöleignarhúsinu um 27%. Greiðir hann fyrir afnot af tunnum fyrir heimilissorp og pappír í samræmi við þá hlutfallstölu. Verður með hliðsjón af greindum ákvæðum laga nr. 6/2001 að telja að viðhlítandi lagaheimildir hafi legið að baki þessari tilhögun gjaldtöku Reykjavíkurborgar.

Séu rekstrartölur fyrir sorphirðu í Reykjavíkurborg fyrir árin 2014, 2015 og 2016 skoðaðar sést að rekstrarkostnaður er hærri en rekstrartekjur fyrir öll árin og er sú niðurstaða í samræmi við áskilnað 3. mgr. 23. gr. laga nr. 55/2003 um að álögð gjöld megi ekki vera hærri en kostnaður af rekstri heilbrigðiseftirlits.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 19. janúar 2016 um að leggja sorpgjald að fjárhæð 39.200 á fasteignina Skógarás 1, Reykjavík, fastanúmer 204-6554.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

26/2016 Hótel í landi Orustustaða

Með
Árið 2017, föstudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 um að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða í Skaftárhreppi, og framkvæmdir því tengdar, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra, eigendur Hraunbóls á Brunasandi, og leigutakar lóða í landi jarðarinnar Hraunbóls, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða, Skaftárhreppi, og framkvæmdir því tengdar, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Með bréfi til nefndarinnar, dags. 10. mars 2016, mótteknu 11. s.m., kæra eigendur lögbýlanna Hruna og Bjarnartanga á Brunasandi jafnframt nefnda ákvörðun. Taka þeir fram að óskipt land jarðanna Teygingalækjar, Sléttu, Hruna og Bjarnartanga nái allt til sjávar og liggi að landi Orustustaða austanmegin. Loks kæra Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, sömu ákvörðun Skipulagsstofnunar með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. mars 2016, er móttekið var sama dag hjá nefndinni.

Gera allir kærendur kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að taka ákvörðun um að umrædd framkvæmd verði látin sæta mati á umhverfisáhrifum. Í tveimur kæranna er jafnframt gerð sú varakrafa að Skipulagsstofnun verði gert að taka málið á ný til efnismeðferðar skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. 

Verða síðartilgreindu kærumálin, sem eru númer 27/2016 og 28/2016, sameinuð kærumáli þessu enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 14. apríl 2016. 

Málavextir: Hinn 3. desember 2015 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða framkvæmd í Skaftárhreppi til ákvörðunar um matsskyldu hennar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í tilkynningu framkvæmdaraðila kom fram að framkvæmdin fæli í sér að á jörðinni Orustustöðum, rúmum 20 km austan við Kirkjubæjarklaustur, yrðu m.a. reist hótel og starfsmannahús. Hefðu Orustustaðir orðið nýbýli árið 1823 en lagst í eyði um 1950. Væri jörðin á Brunasandi, sveit sem byggst hefði upp eftir Skaftárelda. Þar væri votlendi syðst við sjóinn og austast á sandinum með fágætum plöntutegundum, fjölbreyttu fuglalífi og sjaldgæfum fuglategundum. Á svæði því sem framkvæmdirnar næðu til væri hins vegar uppgróinn sandur, þar væri móajarðvegur um 10 cm þykkur á malarbornum eða grýttum grunni. Við framkvæmdir yrði þess gætt að framkvæmdasvæðið yrði í góðri fjarlægð frá Eystra Eldhrauni og ekki væri verið að raska votlendissvæðum sem væru um 10 km sunnar. Í tilkynningu kom einnig fram að unnið hefði verið að uppbyggingu hótels á Orustustöðum um nokkurt skeið. Gerð hefði verið breyting á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022 vegna þessa og deiliskipulag hefði verið samþykkt fyrir svæðið. Samkvæmt aðalskipulagi væri stærð svæðisins 15 ha.

Byggingarreitir yrðu tveir, B1 og B2, byggingar á 1-2 hæðum, samtals allt að 7.000 m². Á byggingarreit B1 yrði m.a. hótel með 200 herbergjum, ásamt móttöku og veitingaaðstöðu. Ætlunin væri að hótelið myndaði eina heild, sem væri samsett úr nokkrum húsagerðum sem gætu tengst saman. Heildarbyggingarmagn reitsins væri 6250 m². Væri svæðið fyrir byggingarreit hótelsins á milli tveggja lækja sem rynnu undan Eystra Eldhrauni, Lambhúsalækjar og Orustustaðalækjar. Gert væri ráð fyrir 115 bílastæðum, sem staðsett yrðu vestan við byggingarnar, og þremur rútustæðum innan lóðar. Á byggingarreit B2 væri gert ráð fyrir starfsmannahúsum, allt að þremur byggingum á einni hæð. Heildarbyggingarmagn væri 750 m², allt að 15 íbúðir, hver um sig um 50 m² að stærð. Ráðgerð væru 15 bílastæði við starfsmannahús. Leyfilegt væri að fjölga bílastæðum ef þörf krefði í allt að 1 bílastæði á hverja 50 m² húsnæðis.

Ekki væri aðkomuvegur að jörðinni í dag. Gerðar hefðu verið athugasemdir vegna legu aðkomuvegar að Orustustöðum í skipulagsferlinu en að loknum samanburði á sex veglínum hefði leið C verið valin. Yrði aðkoma að umræddu hóteli frá þjóðvegi 1 eftir núverandi vegi er lægi að Hraunbóli og eftir nýjum 1,7 km vegkafla sem lægi af núverandi vegi rétt vestan við Hraunból. Veglínan yrði rúmlega 500 m sunnan við bæjarstæðið á Hraunbóli. Vegurinn lægi meðfram skógræktarsvæði og að hótellóðinni sem væri í um 300 m fjarlægð frá hraunjaðri og búsetuminjum á Orustustöðum. Yrði hann 7 m breiður og lagður þannig að lindarvatn rynni undir hann og í gegnum vegræsi þannig að ekki myndaðist fyrirstaða. Ræsi yrði sett í veginn við alla læki svo vatn rynni áfram til suðurs og væri reiknað með 13 ræsum. Gert væri ráð fyrir nýju efnistökusvæði sem notað yrði í uppbyggingu á aðkomuvegi og framkvæmdum á Orustustöðum. Efnistakan yrði á óröskuðu landi, samtals um 5.000 m² að stærð. Teknir yrðu um 5000 m³ úr námunni. Að framkvæmdum loknum yrði henni lokað og við frágang hennar búnar til tjarnir.

Neysluvatnslagnir yrðu lagðar frá brunnsvæði neðan við hraunjaðarinn og umhverfis það væri skilgreint vatnsverndarsvæði. Lagnaleið yrði frá vatnsbóli að hótellóð. Um nýtt vatnsból yrði að ræða. Yrði að tryggja aðgengi að neysluvatni sem uppfyllti gæðakröfur reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn. Þá yrði skólp hreinsað með þriggja þrepa hreinsun eða öðrum aðferðum sem ekki hefðu meiri umhverfisáhrif á viðtaka, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Endanleg staðsetning, frágangur og stærð hreinsistöðvar yrði í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, en á deiliskipulagsuppdrætti væri sýndur 2.165 m² reitur fyrir fráveitumannvirki.

Í kjölfar tilkynningarinnar óskaði Skipulagsstofnun umsagna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar, Skaftárhrepps, Minjastofnunar Íslands og Ferðamálastofu um hvort og á hvaða forsendum, umrædd framkvæmd skyldi háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í lögum nr. 106/2000. Var einnig farið fram á að í umsögn kæmi m.a. fram, eftir því sem við ætti, hvort nægjanlega væri gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands taldi í umsögn sinni, dags. 14. desember 2015, að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Yrðu varanleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, óveruleg, önnur en sjónræn og staðbundin í næsta nágrenni hennar. Mögulegt væri að milda þau með góðri umgengni á framkvæmdatíma og vönduðum frágangi umhverfis og mannvirkja að framkvæmdum loknum.

Fram kom í umsögn Vegagerðarinnar, dags. 15. desember 2015, að gerð væri nægjanleg grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum hvað vegagerð varðaði. Væri ekki ástæða til að framkvæmdin færi í mat á umhverfisáhrifum.

Niðurstaða umsagnar Umhverfisstofnunar, dags. 17. desember 2015, var sú að helstu umhverfisáhrif framkvæmdanna yrðu neikvæð sjónræn áhrif vegna framkvæmda er tækju yfir 15 ha sem og vegna starfsemi sem hefði í för með sér umferð mörg hundruð manna um lítt snortið svæði. Meðal þess sem stofnunin vakti athygli á voru ný lög nr. 60/2013 um náttúruvernd og ákvæði Bernarsamningsins. Taldi Umhverfisstofnun mikilvægt að vatnsbúskapur svæðisins yrði ekki fyrir umhverfisáhrifum vegna áætlaðra framkvæmda og að fylgst yrði með framkvæmdum til að framvinda yrði í samræmi við það. Einnig var tekið fram að mikilvægt væri að besta fáanlega tækni yrði notuð við fráveitu hótelrekstursins og að hreinsun skólps yrði viðunandi í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisnefndar. Losunarmörk yrðu ákveðin svo ekki yrði um næringarefnaauðgun að ræða á svæðinu. Taldi stofnunin að áhrif frá fráveitu færu eftir því hve vel yrði að henni staðið. Ef gengið yrði frá fráveitunni þannig að þriggja þrepa hreinsun skilaði næringarefnasnauðu frárennsli um siturlögn yrðu umhverfisáhrif hennar ekki umtalsverð. Þá benti Umhverfisstofnun á að veglína C gerði ráð fyrir meiri röskun á ósnortnu landi en ef aðrar leiðir yrðu valdar. Myndu allar veglínur hafa umhverfisáhrif á þessu ósnortna svæði. Umhverfisáhrif vegagerðar yrðu ekki umtalsverð yrði vegagerð hagað þannig að vatn flæddi í sama mæli suður Brunasand. Einnig kom fram að Umhverfisstofnun teldi upplýsingar um námu ekki nægilega lýsandi.

Í umsögn Skaftárhrepps, dags. 18. desember 2015, kom m.a. fram að skipulagsnefnd hefði á fundi sínum 9. s.m. fært til bókar að umrædd tilkynningarskýrsla væri í samræmi við aðalskipulag Skaftárhrepps og deiliskipulag vegna hótels í landi Orustustaða. Miðað við þær forsendur sem nefndin hefði væri framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Minjastofnun Íslands taldi í umsögn sinni, dags. 21. desember 2015, að umrædd framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum að því gefnu að gengið væri að nánar tilgreindum skilyrðum er lytu að varðveislu fornleifa.

Ferðamálastofa tók ekki afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar í umsögn sinni, dags. 11. janúar 2016, en benti m.a. á að mikilvægt væri að vanda vel til uppbyggingar og gera ítarlegar kröfur um hönnun og undirbúning.

Athugasemdir framkvæmdaraðila og frekari upplýsingar bárust Skipulagsstofnun með bréfum dags. 14., 21., 27. og 28. janúar 2016. Var þar m.a. tekið fram að ekki væri fallist á sjónarmið Umhverfisstofnunar um veglínu C. Hefði sú leið verið valin með umhverfi og samfélag í huga. Stærstur hluti leiðarinnar væri eftir núverandi vegi að Hraunbóli og síðan eftir slóðum og tekinn væri sveigur í suður í landi Hraunbóls út fyrir ræktað land. Hefðu aðrir kostir raskað meira ósnortnu svæði, t.d. kostir D og F, sem farið hefðu í gegnum hraun eða yfir stærra svæði sem lítt væri raskað.

Hinn 9. febrúar 2016 lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdanna fyrir. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða og aðkomuvegur að því væru ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt var bent á nauðsyn þess að framkvæmdaraðili fylgdi í hvívetna ábendingum Minjastofnunar Íslands um framkvæmdir og umgengni við þekktar minjar og staðsetningu vinnubúða og efnisgeymsla. Þá teldi Skipulagsstofnun það nauðsynlega forsendu fyrir því að votlendi sunnan framkvæmdasvæðisins spilltist ekki, að aðkomuvegur hamlaði ekki vatnsrennsli og að fráveita frá starfseminni yrði um rotþró og olíuskilju eins og fyrirhugað væri. Loks ítrekaði stofnunin mikilvægi þess að viðhöfð yrði sú verktilhögun og þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hefðu verið við meðferð málsins og vöktun á aðgerðum og áhrifum þannig að framkvæmdin væri ekki líkleg til að valda verulegum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að mótun lands, saga byggðar og þróun samfélags á Brunasandi sé einstök á Íslandi á margan hátt. Myndi svæðið allt sérstaka heild með sögulegum minjum um búsetu fyrri tíma og hafi mikið menningarlegt gildi. Fyrirhugað hótel eigi að reisa langt inni á ósnortnu landi þar sem engin mannvirki eða innviðir séu til staðar. Verði það stærsta hótel í dreifbýli á Íslandi og næst stærsta hótel landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Eystri hluti Skaftáreldahraunsins, Brunahraun, njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Svo sé einnig um lindasvæðin og votlendið. Lindasvæðin, lækir undan hrauninu og votlendið næri einnig sérstakt gróðurfar, lífríki og búsvæði margra fuglategunda sem beri að vernda, sbr. 2. gr. sömu laga. Grunnvatnsstaða sé há og lítill landhalli, eða aðeins 2 m/km til sjávar. Í nágrenni hótelsins sé enginn yfirborðsviðtaki, straumvatn, sem dugi til að bera burt lífræn mengunarefni. Vatnsumhverfið teljist því viðkvæmt svæði sbr. A-hluta II. viðauka reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Engin reynsla sé í landinu af árangursríkum rekstri þriggja þrepa hreinsistöðvar og aðstæður á Brunasandi séu líklegar til að gera rekstur slíkrar stöðvar sérlega erfiðan. Hefði borið að meta áhrif framkvæmdarinnar á umhverfi sitt. Landsvæði það sem raska eigi sé nær ósnortið af manna völdum og sé um ósnortið landslag að ræða. Við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi hvorki verið horft nægilega til sérstöðu svæðisins á Brunasandi né gætt að mögulegum neikvæðum heildaráhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á umhverfi, náttúrufar og menningarminjar. Brotið hafi verið gegn lögum nr. 105/2000 um umhverfismat áætlana og lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun beri að líta til, og leggja til grundvallar ákvörðun sinni, viðmið 2. viðauka laga nr. 106/2000. Það hafi hún ekki gert, eða ekki sem skyldi. Hefði t.d. þurft að athuga eðli og staðsetningu framkvæmdarinnar, með tilliti til stærðar hennar og umfangs. Flokkist Brunasandur sem mjög viðkvæmt svæði með tilliti til mengunar og hefði átt að taka tillit til þess. Brunasandur sé á lista sem alþjóðlegt mikilvægt fuglasvæði í Evrópu. Á Brunasandi séu margar mikilvægar fuglategundir, þ. á m. nokkrar sem séu á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þórshaninn, einhver sjaldgæfasti varpfugl landsins, eigi þar heimkynni. Þá hefði þurft að skoða áhrif framkvæmdarinnar að teknu tilliti til tímalengdar hennar, tíðni og óafturkræfi áhrifa. Skipulagsstofnun hafi ekki fullnægt þeirri rannsóknarskyldu sem á henni hvíli lögum samkvæmt og sem eigi að tryggja að ákvarðanir um stærri framkvæmdir séu undirbúnar með forsvaranlegum hætti.
Á engu stigi málsins hafi farið fram faglegt og fræðilegt mat á umhverfisáhrifum og þeim breytingum sem verði á lífsgæðum landeigenda á svæðinu vegna framkvæmdanna. Muni fyrirhuguð starfsemi algerlega breyta forsendum lífs þeirra sem nú séu búsettir á svæðinu. Upplifanir af umræddu svæði sem ósnortnu víðerni verði eyðilagðar. Ekki hafi verið gerðar rannsóknir á vatnafari, jarðvegi og öðrum staðháttum á Brunasandi. Tölulegar greiningar um áhrif framkvæmdanna séu ekki lagðar fram. Hvergi sé sýnt fram á fyrirbyggjandi ráðstafanir eða öryggiskröfur vegna viðkvæmrar náttúru. Ekki hafi verið sýnt fram á að framkvæmdir við veg, neysluvatnsöflun og frágang frárennslis og skólps verði hægt að útfæra á jafn viðkvæmu svæði og Brunasandur sé. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að hægt verði að afla nægilegs vatns til að uppfylla þarfir vegna hótelsins og starfsmannaíbúða, hvað þá án áhrifa á vatnsbúskap landeigenda. Muni vatnsnotkunin, bæði varðandi vatnsöflun og frárennsli, hafa hamlandi áhrif á nýtingu jarða sem landbúnaðarjarða og geti að auki mengað jarðveg, svo sem reynslan sýni.

Ekki hafi verið metið hvernig staðið skuli að framkvæmd við veginn. Í greinargerðum sé hvergi fjallað um áhrif framkvæmdanna á gróður er fari undir vegstæðið eða hvernig staðið verði að uppgræðslu vegstæðis og svæðisins meðfram veginum. Þá sé hvergi tekið á því hvernig staðið verði að uppgræðslu raskaðs lands í landi Hraunbóls, eða hvernig komast eigi fyrir vatnsuppsöfnun ofan við veginn. Útfærslan sé sett í hendurnar á framkvæmdaraðila án aðkomu eigenda landsins.

Framkvæmd af slíku umfangi og eðli sem hér sé fyrirhuguð muni hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif. Mikil sjónræn áhrif verði vegna stórra mannvirkja, vegar og efnistöku. Um umfangsmikið inngrip verði að ræða hvað varði umferð á Brunasandi en gera megi ráð fyrir því að um 500-600 manns hið minnsta geti dvalist samtímis á Orustustöðum á háannatíma. Muni veglagning og aukin umferð hafa afar neikvæð áhrif á aðra landeigendur á Brunasandi hvað það varði að halda áfram framkvæmdum er snerti landbúnað og aðrar sjálfbærar nytjar af jörðunum.

Jafnframt ríki veruleg óvissa um áhrif framkvæmdarinnar. Ætla megi að sá lífræni úrgangur sem falli til við rekstur hótelsins verði a.m.k. þrisvar sinnum meiri en á Kirkjubæjarklaustri, stærsta þéttbýli í Skaftárhreppi. Takist þriðja þrepið í fyrirhuguðu hreinsivirki ekki sem skyldi muni umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verða víðtæk og veruleg. Mengunaráhrif gætu orðið umtalsverð og óafturkræf, m.a. á verðmætustu fuglasvæðin sunnar á Brunasandi. Ofauðgunar muni gæta neðar á vatnasviðinu, með tímanum yfir stórt svæði og loks alla leið til sjávar. Ekki hafi fengist upplýsingar, t.d. frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, um uppsetningu og fyrirhugaðan rekstur á hreinsistöðinni. Sé það ábyrgðarleysi að samþykkja lausn af þessu tagi þar sem ekki verði séð að neinar raunhæfar áætlanir, þekking eða skilgreindar forsendur búi að baki. Virkni örveruflórunnar að vetrarlagi skapi óvissu.

Þá hafi umsagnir, m.a. frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, verið mjög almenns eðlis og ekki unnar í samræmi við umfang framkvæmdanna gagnvart staðháttum og náttúru Brunasands. Taki þær mið af þörfum og óskum framkvæmdaraðilans en hvergi á þeim þáttum er snerti íbúa Brunasands og sem skerði lífsgæði og tekjumöguleika þeirra.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun tekur fram að með hliðsjón af tilkynningu framkvæmdaraðila, umsögnum fagstofnana og öðrum gögnum málsins telji stofnunin að hún hafi dregið forsvaranlegar og réttar ályktanir. Því sé hafnað að ákvörðunin sé ekki byggð á nægilega traustum grunni.

Deiliskipulag vegna fyrirhugaðs hótels hafi komið til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Með því hafi fylgt greinargerð og umhverfisskýrsla, dags. 13. apríl 2015, þar sem umhverfismat hafi farið fram á grundvelli 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umhverfisskýrslunni hafi verið breytt eða ný gerð á grundvelli laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana en í skýrslunni sé gerð grein fyrir áhrifum tillögunnar á umhverfið.

Því sé hafnað að Skipulagsstofnun hafi ekki horft til þeirra þátta sem taldir séu upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Tilkynning framkvæmdaraðila og efni umsagna hafi ekki gefið til kynna að aðrir þættir í viðaukanum, en fram komi í hinni kærðu ákvörðun, hafi getað átt við eða haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Í gögnum framkvæmdaraðila hafi komið fram að frá viðkomandi veglínu séu tæpir 10 km í norðurmörk þess svæðis sem mikilvægast sé m.t.t. fuglalífs. Þá sé byggingarreitur hótels einnig langt fyrir utan verðmætustu fuglasvæðin. Með þetta í huga séu ekki forsendur til að byggja á ákvæði um verndarsvæði í 2. viðauka til stuðnings því að framkvæmdin eigi að fara í umhverfismat.

Umtalsverð umhverfisáhrif séu skilgreind í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000. Teljist þau „veruleg óafturkræf“ eða „veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Þurfi mikið til að koma til að framkvæmd sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þótt fyrirhugað hótel sé mikið að umfangi og á svæði þar sem engin mannvirki séu fyrir þá geti það ekki leitt til þess að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, enda séu þau efnisskilyrði er fram komi í fyrrnefndri skilgreiningu ekki uppfyllt. Það atriði að á Brunasandi sé viðkvæmt svæði, þ. á m. votlendissvæði með hárri grunnvatnsstöðu, geti ekki verið nægilegur grundvöllur fyrir því að framkvæmdin skuli háð umhverfismati, sbr. áðurgreind skilyrði. Ónæði vegna aukinnar umferðar hafi ekki í för með sér að áhrif hótel- og vegaframkvæmda á aðra landeigendur á Brunasandi séu umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Í ákvörðun sinni hafi Skipulagsstofnun vikið að því að fyrirhugað hótel væri skammt frá Eldhrauni sem njóti verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, líkt og votlendi sem sé um 10 km suður af framkvæmdasvæðinu. Muni framkvæmdin og aðkomuvegur hvorki valda beinum né óbeinum áhrifum á þessi svæði. Áhrif framkvæmdanna á þessa þætti séu því óveruleg. Telji Skipulagsstofnun brýnt að rekstraraðilar hótelsins sjái til þess að starfsemi þeirra verði ekki til þess að rýra verndargildi hraunsins og votlendisins með umferð ferðafólks. Jafnframt hafi Skipulagsstofnun tekið undir sjónarmið Minjastofnunar Ísland. Einnig telji stofnunin afar brýnt að frágangur mannvirkja og umgengni sé þannig að ekki sé minnsta hætta á því að mengun berist í neysluvatn og að þessa verði gætt við endanlega hönnun vatnsbóls og hótels. Ekki verði séð á hverju sú fullyrðing byggist að starfsmenn við hótelið geti orðið 70-90 talsins.

Skipulagsstofnun telji að í umsögn Umhverfisstofnunar sé m.a. tekin afstaða til þess hver áhrif vegagerðar séu á gróður en í umsögninni segi að umhverfisáhrifin verði ekki umtalsverð. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, sem fari með eftirlit með neysluvatni og fráveitu í Skaftárhreppi, sé ekki gerð athugasemd við að þriggja þrepa hreinsikerfi verði notað. Í umsögn heilbrigðiseftirlitsins, dags. 14. desember 2015, segi m.a. eftirfarandi: „Vegna hárrar grunnvatnsstöðu og jarðvegsgerðar sem gerir svæðið viðkvæmt fyrir allri mengun, verða öll bílastæði og afgreiðsluplön með vökvaheldu yfirborði og niðurföllum tengdum olíuskilju til að takmarka hættu á olíumengun í umhverfinu. Einnig er gert ráð fyrir þriggja þrepa hreinsun á fráveitu eða öðrum sambærilegum aðferðum sem lágmarka áhrif frárennslis á viðtaka, auk þess sem gerð er krafa um fituskilju á frárennsli frá veitingaaðstöðu til að hámarka virkni fyrirhugaðra hreinsivirkja. Þá verður fráveita hönnuð þannig að auðvelt sé að taka dæmigerð sýni af frárennsli bæði fyrir og eftir hreinsun þannig að vöktun umhverfis vegna hugsanlegrar mengunar frá fráveitu verði sem auðveldust.“ Miðist ákvörðun Skipulagsstofnunar við þá forsendu að hreinsikerfið virki sem skyldi. Hafi stofnunin ekki sérfræðiþekkingu og faglegar forsendur til að byggja á því að engin reynsla sé til í landinu af árangursríkum rekstri slíkrar hreinsistöðvar og að aðstæður á Brunasandi séu líklegar til að gera rekstur stöðvarinnar sérlega erfiðan. Með hliðsjón af gögnum framkvæmdaraðila og umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafi komið fram að fráveitu- og sorpmál starfseminnar verði með fullnægjandi hætti.

Málsrök framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili tekur fram að hann hafi kynnt sér lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. Taki framkvæmdin mið af því að forðast algjörlega röskun á Skaftáreldahrauni og eigi hún hvorki að raska hrauni né hraunjaðrinum. Hafi staðsetning hótelsins verið valin með hliðsjón af fjarlægð frá hrauni, minjum, votlendi, merktum gróðri og fuglalífi. Sú vinna er átt hafi sér stað vegna umræddra framkvæmda á síðastliðnum þremur og hálfu ári hafi öll markast af því að umhverfisáhrif framkvæmdanna yrðu sem minnst. Mikilvægt sé að gengið verði frá fráveitumálum þannig að neikvæð áhrif á heilsu og öryggi verði nánast engin. Forðast skuli allt óþarfa rask og hafa í huga 15 m friðhelgað svæði friðaðra fornleifa. Umferð fólks verði takmörkuð um varpsvæði á varptíma.

Þar sem hótelið eigi að rísa hafi jörðin verið nýtt, m.a. fyrir skógrækt. Árið 1997 hafi Orustustaðir orðið ein af fyrstu jörðunum í Skaftárhreppi þar sem gerður var samningur við Suðurlandsskóga, heildarstærð samningssvæðisins sé 290 ha og búið sé að gróðursetja í 2/3 hluta þess. Skógræktarsvæðið sé rétt vestan við fyrirhugað hótel og liggi að því ýmsir slóðar. Á síðustu árum hafi verið byggð nokkur sumarhús á næstu jörð, þ.e. Hraunbóli.

Í niðurstöðu starfshóps á vegum ráðuneytis umhverfis- og auðlindamála sé ósnortið víðerni skilgreint svo „þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags vegna mannlegra umsvifa, sem er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, s.s. raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum (sbr. vegalög), sem er a.m.k. 25 km² að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu.“ Geti umrætt svæði ekki talist ósnortið víðerni. Í raun sé ekkert svæði á Brunasandi sem geti talist ósnortið víðerni þar sem alltaf sé styttra en 5 km í manngerðan veg, tún eða skóg.

Sjónræn áhrif framkvæmdarinnar verði einhver en aðallega þegar komið sé að svæðinu eftir nýjum aðkomuvegi. Byggingar eigi þó ekki að standa upp fyrir hraunið og verði því ekki sýnilegar frá norðri, þannig að þær sjáist ekki frá þjóðvegi 1. Á jörðinni sé skógræktarsvæði vestast sem dragi verulega úr sýnileika bygginganna frá vestri. Reiturinn sé staðsettur þannig að austan frá verði byggingar ekki sýnilegar frá þeim bústöðum sem séu við hraunjaðarinn, en aukin ljósmengun verði. Ljósbjarmi verði líka sýnilegur í Landbroti sem sé rúmlega 11 km suðvestan við framkvæmdarsvæðið. Reynt verði að lágmarka sjónræn áhrif með því að ganga vel frá svæðinu í samræmi við náttúru og umhverfi. Við frágang lóðar skuli nota eins og kostur sé staðargróður og íslenskar trjátegundir. Til að takmarka ljósmengun sé lagt upp með að lýsing verði hulin þannig að birtan sjáist ekki. Í dag liggi margir slóðar um svæðið og vegur að Hraunbóli. Til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif frá umferð verði vegstæðið lagt í rúmlega 500 m fjarlægð frá bústöðum og íbúðarhúsi á Hraunbóli.

Haft hafi verið samráð við stofnanir, og fólk sem dvelji þarna á svæðinu, margsinnis frá því að málið hafi fyrst komið til skipulags- og byggingarnefndar. Haldnir hafi verið fundir með Fuglavernd, landeigendum og Umhverfisstofnun. Gerð hafi verið fornleifaskráning á svæðinu
árið 2014. Leitað hafi verið samráðs við val á veglínu sem hefði sem minnst truflandi áhrif á íbúa. Í skipulagsferlinu hafi verið haft samráð við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands vegna fráveitumála. Vanda þurfi annað þrep hreinsunarinnar og gera ráð fyrir fituskilju frá veitnaaðstöðu. Fráveita skuli hönnuð þannig að unnt sé að taka dæmigerð sýni af aðveituskólpi, svo og hreinsuðu skólpi, áður en það sé losað í viðtökuvatn. Eftirlit og mælingar skuli vera skv. reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerð nr. 982/2010 um fráveitur sveitarfélaga. Losunarmörk eigi að vera skv. fylgiskjali 4 í reglugerð nr. 450/2009 um breytingu á reglugerð um fráveitur og skólp.

Opinberir umsagnaraðilar hafi ekki gert athugasemd við vatnsöflun innan svæðisins. Það eigi að bora eftir vatni í dýpri jarðlög, en lögð verði áhersla á að ábúendur á Brunasandi sýni ábyrgð í notkun vatns á svæðinu. Sé það enda hagur allra að vatnsbúskapur þess haldist í jafnvægi.
——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða í Skaftárhreppi, ásamt tengdum framkvæmdum, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þar sem framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis falla í flokk B í 1. viðauka við lög nr. 106/2000, sbr. tölul. 12.05, en skv. 1. mgr. 6. gr. laganna skulu framkvæmdir í þeim flokki háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Segir þar nánar að ákvörðun skuli taka innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn hafi borist, við ákvörðunina skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og að áður skuli leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni.

Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 barst Skipulagsstofnun tilkynning um byggingu hótels í landi Orustustaða. Var tiltekið að í framkvæmdinni fælist bygging hótels og að auki væri gert ráð fyrir starfsmannahúsum, lagningu aðkomuvegar og nýrri efnisnámu en efni úr henni yrði notað í vegagerð og byggingar. Fjallað var um forsendur hvað varðaði náttúrufar, skógrækt, náttúruminjar og fornminjar, sem og tengsl við skipulagsáætlanir. Hafði tilkynningin einnig að geyma frekari upplýsingar um framkvæmdina og reifun á umhverfisáhrifum hennar. Voru þau helst á náttúru- og menningarminjar, heilsu og öryggi og sjónræn áhrif. Þá var greint frá vöktun með fráveitu og tiltekið að þar sem grunnvatnsstaða væri há og lítill landhalli þá teldist vatnsumhverfið viðkvæmt svæði, sbr. A-hluta II. viðauka reglugerðar nr. 789/1999 um fráveitur og skólp. Tilkynningunni fylgdi deiliskipulagsuppdráttur í kvarðanum 1:7500. Fullnægjandi gögn fylgdu því tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar skv. 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. og áðurnefnda 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000.

Skal og tekið fram að lög nr. 106/2000 gera ráð fyrir því að framkvæmdaraðili afli og leggi fram á viðhlítandi hátt þær upplýsingar sem lögin gera ráð fyrir. Hlutverk Skipulagsstofnunar er svo að leggja mat á framlögð gögn og komast að niðurstöðu samkvæmt lögunum, s.s. með því að taka ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar eða með því að gefa álit sitt um mat á umhverfisáhrifum. Mat stofnunarinnar hlýtur eðli máls samkvæmt að lúta að því að sannreyna gildi gagna og gæði þeirra. Í þeim tilgangi skal stofnunin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra, eftir eðli máls hverju sinni, áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Hefur stofnunin samkvæmt ákvæðinu forræði á því hverra umsagna skuli leitað umfram þær sem tilgreindar eru og leitaði stofnunin þeirra umsagna sem fram koma í málavaxtalýsingu. Umsagnirnar tóku óhjákvæmilega mið af tilkynningu framkvæmdaraðila, enda var beðið um álit umsagnaraðila á henni. Þá laut umsagnarbeiðnin að því hvort að fyrirhuguð framkvæmd væri háð mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000. Var ekki tilefni fyrir umsagnaraðila að taka á öðrum þáttum en umhverfisþáttum. Kærendur hafa m.a. bent á möguleg áhrif framkvæmdarinnar á votlendi og fuglalíf því tengt. Má telja að rök hafi staðið til þess að leita álits Náttúrufræðistofnunar Íslands þar um. Með hliðsjón af fjarlægð fyrirhugaðrar framkvæmdar frá mikilvægustu varpsvæðum votlendisins verður þó ekki annað ráðið en að þau gögn hafi legið fyrir Skipulagsstofnun er nauðsynleg voru til að hún gæti komist að efnislega réttri niðurstöðu. Verður skortur á slíkri álitsumleitan því ekki látinn valda ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt ákvæðum 6. gr. laga nr. 106/2000 ræðst matsskylda af því hvort að framkvæmd getur haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, en í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í 3. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tölul. 2. viðauka. Undir hverjum tölulið eru svo fjöldi annarra liða. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir þeirra liða vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð, en það að framkvæmd falli undir einhverja þeirra leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu.

Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar er tekið fram að stofnunin skuli við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum taka mið af viðmiðunum sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og er jafnframt tekið fram að byggt sé á framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og framkomnum umsögnum. Dregur stofnunin saman niðurstöður sínar varðandi eðli og staðsetningu framkvæmdar.

Um eðli framkvæmdar tiltekur stofnunin að m.a. skuli taka mið af eðli og umfangi framkvæmda, samlegð með öðrum framkvæmdum, úrgangsmyndun, mengun og ónæði, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Umfang fyrirhugaðs hótels feli í sér umfangsmiklar framkvæmdir á svæði þar sem engin mannvirki séu fyrir. Feli uppbyggingin í sér verulega breytta ásýnd á svæðinu, sem gæti fyrst og fremst þegar komið sé að hótelinu. Tekur Skipulagsstofnun undir mikilvægi þess að hótelið sé hannað með hliðsjón af staðsetningu þess á óbyggðu svæði í dreifbýli. Hvað ónæði varðar þá telur Skipulagsstofnun að umferð um aðkomuveg neðan Hraunbóls muni augljóslega valda breytingum frá núverandi ástandi, þar sem aukin umferð muni fara um nágrenni bæjarins þegar hótelið verði komið í rekstur. Þá telur Skipulagsstofnun að með hliðsjón af gögnum framkvæmdaraðila og umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafi komið fram að fráveitu- og sorpmál starfseminnar verði með fullnægjandi hætti.

Hvað staðsetningu framkvæmdar varðar, þ.e. hversu viðkvæm svæði eru t.d. með tilliti til sérstæðra náttúruminja, verndarsvæða, nálægð við fornminjar, landslagsheilda og hvernig hún fellur að skipulagi, sbr. 2. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000, tekur Skipulagsstofnun fram að fyrirhugað hótel sé skammt frá Eldhrauni. Hafi það runnið í Skaftáreldum 1783-1784 og njóti verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Sama grein laganna gildi um votlendið sem sé um 10 km suður af framkvæmdasvæðinu. Muni framkvæmdin og aðkomuvegur ekki valda beinum áhrifum á svæðin og telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar eigi ekki að hafa í för með sér óbein áhrif á þau. Engu að síður kunni að reyna á það þegar hótelið sé komið í rekstur að umferð hótelgesta beinist að einhverju leyti að svæðunum. Áhrif framkvæmdanna á þessa þætti séu því óveruleg. Nauðsynlegt sé að haga framkvæmdum líkt og framkvæmdaraðili hafi boðað til að vegtenging að hótelinu hafi ekki neikvæð áhrif á rennsli undan hrauninu að votlendinu sunnan framkvæmdasvæðisins. Þá tekur Skipulagsstofnun undir með Minjastofnun Íslands og telur brýnt að verktakar verði upplýstir um tilgreindar fornleifar á svæðinu. Gangi það eftir séu hverfandi líkur til að framkvæmdin hafi áhrif á minjar. Skipulagsstofnun bendir jafnframt á að starfsemin verði mjög nærri því vatnsverndarsvæði sem ætlað sé að sjá starfseminni fyrir neysluvatni. Þó svo að landhalli sé frá vatnsverndarsvæðinu að framkvæmdasvæðinu sé hann lítill og því afar brýnt að frágangur mannvirkja og umgengni við vatnsverndarsvæðið sé þannig að ekki sé hin minnsta hætta á því að mengun berist í neysluvatn.

Brunasandur byggðist upp í kjölfar Skaftárelda og voru Orustustaðir meðal nýbýla þar árið 1823. Jörðin mun hafa lagst í eyði um 1950 og eru búsetuminjar þar. Í um 5 km radíus frá jörðinni er að finna jarðir í byggð og sumarhús. Samkvæmt Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022 fellur Brunasandur undir kornræktarsvæði 3, sem er síst kornræktarsvæða Skaftárhrepps. Í aðalskipulaginu er tekið fram að ekki séu skilgreind verndarsvæði vatnsbóla einstakra jarða í dreifbýli, en í dreifbýli Skaftárhrepps séu 25 vatnsból skráð með starfsleyfi. Á sveitarfélagsuppdrætti sést að næsta vatnsból er á Sléttu, í um þriggja kílómetra fjarlægð frá Orustustöðum.

Að virtum aðstæðum öllum er það mat úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðunartöku sína litið til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000 og tekið til þeirra afstöðu að teknu tilliti til framkominna umsagna. Viðurkennt var að um verulega breytta ásýnd yrði að ræða vegna umfangs hótelframkvæmdanna og ónæði yrði af umferð. Ekki yrðu bein áhrif á svæði sem nytu verndar 61. gr. laga nr. 60/2013, en um viðkvæman viðtaka væri að ræða. Var og ráð fyrir því gert í tilkynningu framkvæmdaraðila og því lýst hvernig staðið yrði að fráveitu þannig að uppfyllt yrðu skilyrði reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, auk þess sem svör framkvæmdaraðila vegna umsagnar Umhverfisstofnunar tiltóku að losunarmörk yrðu í samræmi við reglugerðina. Ákvörðun Skipulagsstofnunar tók mið af tilkynntri framkvæmd sem gerði m.a. ráð fyrir ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa á skólpi, sem og því að ræsi undir aðkomuvegi myndu tryggja að lindarvatn rynni undir hann án fyrirstöðu. Hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til að ætla að þessi tilhögun framkvæmdar muni ekki vera fullnægjandi, þvert á móti liggja fyrir umsagnir Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sem báðar eru á þá lund að frágangur fráveitu verði fullnægjandi miðað við tilkynningu. Þá er rekstur fráveitunnar háður starfsleyfi, en slík leyfi kveða jafnan á um vöktun og viðbrögð ef eitthvað fer úrskeiðis. Loks tók framkvæmdaraðili undir með Umhverfisstofnun að mikilvægt væri að vatnsbúskapur svæðisins yrði ekki fyrir umhverfisáhrifum, ýmis ákvæði hefðu verið sett í deiliskipulagi til að tryggja það og væri ekkert því til fyrirstöðu að sett yrðu skilyrði við veitingu framkvæmdaleyfis þess efnis að vegurinn yrði þannig gerður að hann hindri ekki rennsli lindarvatns. Bendir ekkert til þess að mat Skipulagsstofnunar hafi að öðru leyti verið ómálefnalegt eða stutt ónógum gögnum. Er og rétt að taka fram að þar sem niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að framkvæmdin væri ekki matsskyld þá var ekki nauðsyn á mati á umhverfisáhrifum eða sérstökum rannsóknum því tengdu.

Kærendur hafa einnig bent á að framkvæmdin muni hafa áhrif á vatnsbúskap og að aðkomuvegur muni fara um eignarland utan Orustustaða. Muni þetta hafa áhrif á nýtingu jarða þeirra undir landbúnað. Markmið laga nr. 106/2000 er m.a. að  tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Þegar málsmeðferð fer fram samkvæmt lögunum, t.d. þegar tekin er ákvörðun um matsskyldu, ber því að horfa til afleiðingar framkvæmdar fyrir umhverfið. Hins vegar kemur ágreiningur um möguleg áhrif á eignarrétt, s.s. að grunnvatni, ekki til skoðunar í þeirri málsmeðferð sem á sér stað samkvæmt lögum nr. 106/2000.

Loks stóðu ekki rök til þess að Skipulagsstofnun liti til laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, enda var á þessu stigi um matsskylduákvörðun að ræða en hvorki skipulagsáætlun né leyfisveitingu. Verður því ekki frekar fjallað um þessa málsástæðu kærenda.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 um að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða, Skaftárhreppi, og framkvæmdir því tengdar, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Geir Oddsson

112/2015 Almannadalur

Með
Árið 2017, föstudaginn 29. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2015, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 27. nóvember 2014 og 27. nóvember 2015 um að synja beiðni um að byggingarstjóri verði fjarlægður af verki og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. október 2014 um að synja beiðni um íhlutun af hálfu embættisins vegna Almannadals 7.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. desember 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir A, þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 27. nóvember 2014 og 27. nóvember 2015 að synja beiðni um að stofnunin hlutist til um að byggingarmeistari verði fjarlægður af verki og ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. október 2014 um að synja beiðni um íhlutun af hálfu embættisins vegna Almannadals 7. Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Mannvirkjastofnun 6. janúar 2016.

Málavextir: Á árinu 2008 var veitt byggingarleyfi fyrir hesthúsi á lóðinni Almannadal 7 í Reykjavík. Var um að ræða fjöleignarhús með fimm séreignarhlutum. Stóðu eigendur eignahlutanna að byggingu hússins. Munu framkvæmdir við bygginguna hafa stöðvast á árinu 2009 og upp komið ágreiningur meðal eigenda um hvort skipta ætti út byggingarstjóra að verkinu.

Með bréfi frá lögmanni hluta eigenda, dags. 27. febrúar 2014, var farið fram á að byggingarfulltrúinn í Reykjavík réði verktaka sem væru ótengdir eigendum, til að annast byggingarframkvæmdir við sameign eigenda hesthúss að Almannadal 7 á grundvelli minnihlutaverndar 38. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Í bréfinu kom fram að framkvæmdir við húsið hefðu legið niðri frá árinu 2009. Byggingarfulltrúi svaraði erindinu með bréfi, dags. 20. október 2014, þar sem kæranda var tilkynnt að embættið myndi ekki einhliða afskrá byggingarstjóra af verki við sameign hússins. Var á því byggt að embættið teldi sig ekki hafa lagalega heimild til þess að afskrá byggingarstjóra einhliða af verki, en það væri í höndum eigenda að segja honum upp. Væri því ekki tilefni til íhlutunar embættisins, eins og óskað væri eftir. Um væri að ræða einkaréttarlegan ágreining á milli aðila sem embættið ætti ekki aðkomu að. Var í bréfinu vísað til þess að sameigendur hússins ættu þann möguleika að leita til dómstóla með ágreining sinn.

Með bréfi til Mannvirkjastofnunar, dags. 3. apríl 2014, fór lögmaður hluta eigenda umrædds hesthúss fram á íhlutun af hálfu stofnunarinnar. Var farið fram á að hún afskráði byggingarstjóra af verki vegna byggingar hesthússins og ráðinn yrði verktaki til að ljúka verkinu. Hinn 27. nóvember 2014 var þeirri beiðni synjað þar sem Mannvirkjastofnun taldi málið ekki falla undir 18. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Enn var leitað til stofnunarinnar með beiðni, dags. 24. mars 2015, þar sem kærandi fór fram á að stofnunin  hlutaðist til um að meirihluti eigenda Almannadals 7 fengi heimild til að skipta um byggingarstjóra. Því erindi var synjað með tölvupósti, dags. 27. nóvember s.á., og var vísað til þess að fyrri beiðni sama efnis hefði verið synjað með formlegum hætti með bréfi, dags. 27. nóvember 2014. 

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að í svarbréfi byggingarstjóra hússins Almannadals 7 við umsókn um skiptingu upphaflegs byggingarleyfis, dags. 24. september 2009, komi fram að hann sé boðinn og búinn til þess að liðka fyrir að eigendur eininga 0101, 0102 og 0103 geti tekið hús sín í notkun. Það loforð hans hafi þó ekki gengið eftir. Byggingarstjórinn hafi stöðvað framkvæmdir snemma árs 2009 og kallað til Vinnueftirlitið, hinn 20. nóvember s.á., án samráðs við aðra byggingarrétthafa, til að gera öryggisúttekt á byggingunni. Telji kærandi að ástæða þess hafi verið sú að framkvæmdir myndu liggja niðri um nokkurn tíma þar sem byggingarstjórinn ætlaði ekki, eða gat ekki, haldið framkvæmdum áfram. Með bréfi, dags. 12. mars 2015, til byggingarfulltrúaembættisins hafi skrifstofustjóri þess verið spurður tveggja spurninga. Spurt hafi verið hvort nýr meirihluti byggingarrétthafa gæti skipt um byggingarstjóra á byggingarleyfi. Svarið hafi verið á þá leið að það þyrfti samþykki allra því að allir eigendur hafi samþykkt byggingarstjórann á verkið. Þá hafi verið spurt um það hvort eigandi eignarhluta 0105 í Almannadal 7 gæti sótt um aðskilið byggingarleyfi fyrir sína eign án aðkomu sameigenda. Svar við þeirri spurningu hafi ekki borist. Aðrir eigendur hafi fengið aðskilið byggingarleyfi fyrir sínar eignir, en eigandi matshluta 0105, sem sé eiginkona byggingarstjórans, hafi ekki sótt um slíkt.

Í bréfi frá embætti byggingarfulltrúa, dags. 8. janúar 2012, til byggingarleyfishafa hafi eftirfarandi komið fram: „Við vettvangsskoðun skilmálafulltrúa embættis byggingarfulltrúa þann 18. október s.l. kom í ljós að frágangi húss og lóðar er ábótavant skv. samþykktum uppdráttum frá 19. september 2007. Byggingarleyfi var útgefið í mars 2008. Búið er að steypa útveggi og loka húsinu að hluta. Seinni hlutinn er opinn.“ Í bréfinu hafi byggingarfulltrúi farið fram á að húsinu yrði lokað svo að engin hætta stafaði af því, gengið yrði frá opnum skurði við enda hússins og lóðin jöfnuð. Þá hafi einnig verið vísað til þess að skv. gr. 68.8 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 skuli leggja fram nákvæma verk- og tímaáætlun um frágang og verklok til byggingarfulltrúa. Yrði þessum tilmælum ekki sinnt yrði málið lagt fyrir skipulagsráð sem tæki ákvörðun um framhald málsins með hliðsjón af gr. 210 í byggingarreglugerð. Gæti það falið í sér beitingu dagsekta eða að verkið yrði unnið á kostnað eiganda. Ekkert hafi heyrst frá skipulagsráði vegna málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er farið fram á frávísun málsins. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála teljist kærufrestur vera einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra eigi. Frestur til að kæra umdeilda afgreiðslu byggingarfulltrúa hafi því verið löngu liðinn þegar kæra hafi borist úrskurðarnefndinni. Ekki sé reynt að færa rök fyrir því í kæru hvers vegna víkja ætti frá nefndu ákvæði laganna og hljóti kæran að teljast alltof seint fram komin. Þegar af þeirri ástæðu beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni.

Verði ekki fallist á að tilvitnað lagaákvæði eigi við í þessu tilviki sé á því byggt að skv. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli bera fram stjórnsýslukæru innan 3 mánaða frá því að aðila máls hafi verið tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun. Í 28. gr. stjórnsýslulaga sé svo allur vafi tekinn af um að vísa beri kæru þessari frá, en samkvæmt ákvæðinu sé óheimilt að sinna kæru ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tekin.

Málsrök Mannvirkjastofnunar:
Stofnunin vekur athygli á því að ákvæði 18. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, er fjalli um íhlutun stofnunarinnar í stjórnsýslu byggingarfulltrúa, sé heimildarákvæði sem veiti heimild til afskipta af stjórnsýslu hans. Beiti stofnunin heimildinni geti til þess komið að hún taki stjórnvaldsákvörðun, t.d. gefið út byggingarleyfi, sem kæranleg væri til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 59. gr. laga um mannvirki. Stofnunin telji hins vegar vafa leika á því hvort synjun um beitingu heimildarinnar sé stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé á grundvelli 59. gr.

Í máli þessu hafi borist beiðni um íhlutun Mannvirkjastofnunar frá lögmanni þriggja eigenda Almannadals 7, þ.m.t. kæranda, dags. 3. apríl 2014, þar sem m.a. hafi verið gerð krafa um afskráningu byggingarstjóra hússins. Þeirri beiðni hafi verið synjað með bréfi, dags. 27. nóvember s.á., þar sem stofnunin hafi talið að málið félli ekki undir 18. gr. laga um mannvirki. Að mati stofnunarinnar sé það ekki hlutverk hennar að úrskurða í ágreinings- eða vafamálum varðandi lagatúlkun byggingarfulltrúa. Gögn málsins bendi til þess að af hálfu byggingarfulltrúaembættisins hafi verið reynt að leysa málið á grundvelli þeirra heimilda sem embættið hafi, en það hafi ekki dugað til. Hafi það verið mat Mannvirkjastofnunar að ekkert hafi komið fram í málinu sem benti til þess að stjórnsýsla byggingarfulltrúa hafi farið í bága við lög. Af þeim sökum hafi skilyrði til beitingar 18. gr. laga um mannvirki ekki verið til staðar.

Eftir því sem næst verði komist snúist þetta mál um það hvort byggingarfulltrúa sé heimilt og skylt að afskrá byggingarstjóra af verki að kröfu hluta eigenda í andstöðu vilja annarra eigenda. Samkvæmt kæru virðist þeir sem vilji afskráningu byggingarstjórans núna mynda minnihluta eigenda í húsfélagi Almannadals 7, eins og þegar beiðni um íhlutun hafi borist Mannvirkjastofnun.

Upphaflegt leyfi sem hafi snúið að mannvirkjagerðinni í heild hafi verið gefið út 5. mars 2008. Seinna hafi verið gefin út aðskilin byggingarleyfi fyrir eignarhluta 0101, 0102 og 0103 annars vegar og 0104 hins vegar, en svo litið á að upphaflegt byggingarleyfi væri enn í gildi fyrir eignarhluta 0105 og sameign. Snúist ágreiningurinn um afskráningu byggingarstjórans á þeim hluta. Telji eigendur eignarhluta 0101, 0102 og 0103 að aðgerðarleysi byggingarstjórans gagnvart sameigninni hindri þá í að ljúka við sinn hluta mannvirkjagerðarinnar.

Ekki sé tekin afstaða til þess í lögum um mannvirki eða byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem fjallað sé um hlutverk og skráningu byggingarstjóra, hvernig byggingarfulltrúi skuli fara með beiðni um afskráningu byggingarstjóra ef ágreiningur sé í eigendahópnum um slíkt. Byggingarstjóri sé skv. 2. mgr. 27. gr. laga um mannvirki faglegur fulltrúi eiganda við mannvirkjagerð og starfi í umboði hans samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi við eiganda. Þá sé það ekki hlutverk stofnunarinnar að taka afstöðu til þess hvort og þá hvaða ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús gildi um beiðni um afskráningu byggingarstjóra eða taka afstöðu til gildis upphaflegs samnings byggingarstjóra og eigenda/húsfélags Almannadals 7. Taki Mannvirkjastofnun undir sjónarmið byggingarfulltrúans í Reykjavík að um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining milli aðila sem embættin geti ekki leyst úr.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að hún hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Þó verður kæra ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að hún var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. nefndrar 28. gr.

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 20. október 2014, þar sem kom fram að embættið teldi ekki tilefni til íhlutunar af sinni hálfu vegna málsins, enda væri að mati embættisins um að ræða einkaréttarlegan ágreining sem ætti undir dómstóla. Ákvarðanir Mannvirkjastofnunar þess efnis að um væri að ræða einkaréttarlegan ágreining sem ekki félli undir gildissvið 18. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki voru tilkynntar kæranda með bréfum, dags. 27. nóvember 2014 og 27. nóvember 2015. Kæra vegna þessara ákvarðana barst úrskurðarnefndinni 8. desember 2015. Ljóst er að kæran barst innan kærufrests að því er varðaði seinni ákvörðun Mannvirkjastofnunar og verður henni því ekki vísað frá á þeim forsendum. Hins vegar barst kæran þegar meira en ár var liðið frá því að kæranda var tilkynnt um hina kærðu ákvörðun byggingarfulltrúa og fyrri ákvörðun Mannvirkjastofnunar. Verður kærunni því ekki sinnt að því er nefndar ákvarðanir varðar, sbr. fyrirmæli þar um í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Samkvæmt 1. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Samkvæmt 18. gr. laga um mannvirki hefur Mannvirkjastofnun heimild til þess að taka til athugunar að eigin frumkvæði eða samkvæmt ábendingu hvort afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi farið í bága við lög. Skal Mannvirkjastofnun kalla eftir skýringum frá byggingarfulltrúa og viðkomandi sveitarstjórn nema málið sé að fullu upplýst. Verði niðurstaða athugunar Mannvirkjastofnunar sú að brotin séu ákvæði laganna eða reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim og byggingarfulltrúi geri ekki fullnægjandi ráðstafanir til úrbóta skal Mannvirkjastofnun gera byggingarfulltrúa og viðkomandi sveitarstjórn aðvart og krefjast þess að úr sé bætt. Mannvirkjastofnun er heimilt, ef ekki er úr bætt, að beita sömu réttar- og þvingunarúrræðum gagnvart eiganda mannvirkis og byggingarfulltrúi. Þegar meðferð Mannvirkjastofnunar skv. 1. mgr. 18. gr. er lokið skal eftirlit með mannvirkjagerðinni og önnur stjórnsýsla málsins vera í höndum viðkomandi byggingarfulltrúa. Mannvirkjastofnun skal tilkynna viðkomandi byggingarfulltrúa með formlegum hætti þegar afskiptum stofnunarinnar af máli er lokið.

Í 59. gr. laga um mannvirki er kæruheimild þar sem fram kemur að stjórnarvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. þó ákvæði 2. mgr. 17. gr. Er þar engin undanþága gerð hvað varðar ákvarðanir Mannvirkjastofnunar sem teknar eru á grundvelli 18. gr. laganna og verður málið því tekið til efnismeðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða ákvörðun fólst í synjun Mannvirkjastofnunar á beiðni kæranda um að stofnunin hlutaðist til um að meirihluti eigenda í Almannadal 7 fengi heimild til að skipta um byggingarstjóra hússins samkvæmt byggingarleyfi útgefnu 5. mars 2008. Samkvæmt gr. 3.1.2. í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998 var það skilyrði að við útgáfu byggingarleyfis myndi byggingarstjóri, sem væri ekki sjálfur eigandi byggingarréttarins, framvísa yfirlýsingu eða samningi við eigandann um að hann hafi verið ráðinn til verksins. Í gr. 4.7.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 kemur fram að byggingarstjóri sé faglegur fulltrúi eigenda við mannvirkjagerð og starfi í umboði þeirra samkvæmt skriflegum ráðningar- eða verksamningi. Ekki er að finna heimild fyrir byggingarfulltrúa eða Mannvirkjastofnun að slíta slíkum samningi og afskrá byggingarstjóra af byggingarleyfi að kröfu hluta eigenda. Með hliðsjón af greindum reglugerðarákvæðum má fallast á með Mannvirkjastofnun að um sé að ræða einkaréttarlegan ágreining sem eigi eftir atvikum undir dómstóla.

Hvort sem litið yrði á beiðni kæranda til Mannvirkjastofnunar, dags. 24. mars 2015, sem beiðni um endurupptöku fyrri ákvörðunar eða beiðni um nýja ákvörðun, verður ógildingarkröfu kæranda hafnað með vísan til þess sem að framan er rakið.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 27. nóvember 2015 um að synja beiðni hans um að stofnunin hlutist til um að kærandi fengi heimild til að skipta um byggingarstjóra.

Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir