Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

44/2017 Langholtsvegur

Árið 2018, föstudaginn 27. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2017, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs vegna Langholtsvegar 113.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. apríl 2017, er barst nefndinni 20. s.m., kærir eigandi, Langholtsvegi 110a, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. mars 2017 að staðfesta samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 8. s.m. um breytingu á deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs vegna Langholtsvegar 113. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 5. maí 2017.

Málavextir: Húsið að Langholtsvegi 113 er tvær hæðir séð frá Langholtsvegi en þrjár hæðir séð frá Drekavogi. Skráð notkun hússins var verslun og þjónusta fyrir jarðhæð og íbúðir á annarri hæð. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá árinu 2008 var heimilt að byggja eina hæð ofan á húsið, inndregna á allar hliðar. Var það sett sem skilyrði að viðbyggingin myndi tengjast núverandi íbúðum á annarri hæð en ekki leiða til fjölgunar íbúðanna.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 7. desember 2016 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs vegna Langholtsvegar 113. Tillagan fól m.a. í sér að heimilt væri að stækka húsið að Langholtsvegi 113 og breyta notkun þess. Leyfð bygging á annarri hæð yrði stækkuð til norðausturs og á efstu hæð yrði leyfð bygging einungis inndregin frá Langholtsvegi. Nýtingarhlutfall lóðarinnar myndi aukast við breytingarnar úr 1,11 í 1,35 miðað við A-rými en yrði 1,46 miðað við A-og B- rými samanlagt. Þá yrði heimilt að reka í húsinu gistiheimili í flokki II með kaffihúsi/veitingaaðstöðu á jarðhæð sem vísaði að Langholtsvegi. Athugasemdir bárust á auglýsingartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda.

Deiliskipulagstillagan var lögð fyrir umhverfis- og skipulagsráð að nýju á fundi ráðsins 8. mars 2017. Bókað var að athugasemdir hefðu borist, lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 1. mars s.á., sem og greinargerð um skuggavarp, dags. 6. s.m. Í umsögn skipulagsfulltrúa var framkomnum athugasemdum svarað og lagt til að deiliskipulagstillagan yrði samþykkt með nánar tilgreindum breytingum. Samþykkti umhverfis- og skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa og var sú afgreiðsla staðfest í borgarráði 16. mars 2017. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 4. maí s.á.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að húsið að Langholtsvegi 113 byrgi útsýni og auki skuggavarp og rýri þar af leiðandi verðmæti húsa í nágrenninu. Ekki sé þörf á fleiri veitinga- og/eða gististöðum í hverfinu. Búast megi við aukinni umferð stórra bíla sem komi til með að taka upp farþega og skila þeim af sér. Þá valdi það meira ónæði að reka bæði veitingastað og gististað í sama húsi þar sem slíkir staðir kalli á umferð fólks og bíla frá því snemma á morgnanna og langt fram á kvöld með tilheyrandi ónæði fyrir nágranna. Langsótt sé að kalla Langholtsveg 113 nærþjónustukjarna þar sem þar sé einungis starfrækt fatahreinsun. Með breytingunni verði hverfið ekki jafn fjölskyldu- og íbúavænt auk þess sem ásýnd og anda götunnar sé breytt. Þá vísi kærandi til þeirra athugasemda sem sendar hafi verið Reykjavíkurborg við meðferð málsins.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgarinnar er bent á að hækkun á fasteigninni sé þegar heimil samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Eina breytingin sé sú að efsta hæðin verði einungis inndregin frá Langholtsvegi en ekki á allar hliðar, auk þess sem heimilt verði að byggja hæð ofan á viðbyggingu austan við fasteignina. Sú breyting sem deiliskipulagsbreytingin heimili muni ekki hafa mikil áhrif á skuggavarp og engin á fasteign kæranda. Þá verði kærandi ekki fyrir útsýnisskerðingu. Langholtsvegur sé skilgreindur sem aðalgata í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og því heimilt að reka þar gististað. Ekki sé gert ráð fyrir því að umferð muni aukast við breytinguna miðað við hámarksfjölda gesta, en almennt fylgi minni umferð gististöðum en íbúðarbyggð. Miðað við breidd götunnar og legu bílastæða ættu rútur ekki að trufla umferð í götunni. Gististarfsemi og ferðaþjónusta hafi einnig jákvæð áhrif eins og með því að ýta undir og styrkja verslun og þjónustu og auka mannlíf í borginni. Ekki sé um að ræða umfangsmikinn veitingastað og einungis verði mögulegt að fá rekstrarleyfi fyrir veitingastað í flokki II í húsinu með opnunartíma til kl. 23:00 á kvöldin. Tæpir 40 m séu á milli húshliðar Langholtsvegar 113 og að húsi kæranda hinu megin götunnar. Fjarlægð sé því töluverð milli húsa og ætti ekki að verða mikil truflun af gestum úti á svölum á Langholtsvegi 113. Öllum vangaveltum kæranda varðandi ónæði af mögulegum veitingastað sé vísað á bug sem órökstuddum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs vegna Langholtsvegar 113, en breytingin gerir ráð fyrir stækkun hússins og breyttri notkun þess, svo sem nánar er lýst í málavöxtum. Kærandi er búsettur handan Langholtsvegar og ber því við að útsýni hans verði skert og að búast megi við meira ónæði og umferð.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga, afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði að kynningu lokinni og staðfest í borgarráði lögum samkvæmt. Framkomnum athugasemdum var svarað og deiliskipulagstillagan samþykkt með breytingum sem komu til móts við hluta athugasemdanna. Þær breytingar voru þó ekki svo veigamiklar að auglýsa hefði þurft breytta tillögu að nýju, sbr. 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar.
Umrædd lóð er á skilgreindu íbúðarsvæði, ÍB25 Sund, samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og telst Langholtsvegur vera aðalgata. Um aðalgötur segir í aðalskipulaginu: „Meðfram aðalgötum er heimil fjölbreyttari landnotkun, þó grunn skilgreining lóða við götuna sé íbúðarsvæði. Hér er einkum um að ræða starfsemi sem fellur undir flokkana verslun og þjónusta (VÞ, að skemmtistöðum undanskyldum) og samfélagsþjónusta (S). Verslun og þjónusta á jarðhæðum getur verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II og gististaðir í flokki II-III. Opnunartími allra veitingastaða skal takmarkast við kl. 23. […] Rýmri heimildir um landnotkun gilda eingöngu um hús sem standa við viðkomandi aðalgötu og ná einkum til jarðhæða þegar um verslun, þjónustu og veitingastaði er að ræða. Ef þörf krefur eru sett nánari ákvæði um landnotkunarheimildir við aðalgötur í hverfis- og eða deiliskipulagi.“ Er því breytt notkun fasteignarinnar samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu í samræmi við aðalskipulag, svo sem áskilið er í fyrrnefndri 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Að mati úrskurðarnefndarinnar er það ónæði og umferðaraukning sem af breyttri notkun kann að hljótast ekki umfram það sem almennt má búast við í þéttbýli og að því virtu var athugasemdum kæranda þar um svarað með ásættanlegum hætti við meðferð málsins. Þá verður ekki séð að stækkun hússins frá gildandi deiliskipulagi hafi að marki aukin grenndaráhrif umfram það sem vænta mátti að óbreyttu skipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar sem raskað geta gildi hennar og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. mars 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Langholtsvegar/Drekavogs vegna Langholtsvegar 113.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                        Þorsteinn Þorsteinsson