Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

95 og 113/2017 Skotæfingasvæði Blönduósi

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 95/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Blönduósbæjar frá 11. apríl 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði við Blönduós. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra A og Blomstra ehf., eigendur jarðarinnar Hjaltabakka í Húnavatnshreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Blönduósbæjar frá 11. apríl 2017 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði í landi Hjaltabakka í Húnavatnshreppi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. október 2017, sem móttekið var sama dag, kæra sömu aðilar ákvörðun skipulagsfulltrúa Blönduósbæjar frá 26. september 2017 um veitingu framkvæmdaleyfis á grundvelli hins kærða deiliskipulags. Krefjast kærendur ógildingar leyfisins. Verður það kærumál, sem er nr. 113/2017, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og kærendur eru þeir sömu í báðum málunum.

Í greindum málum var jafnframt gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða, en þeim kröfum var hafnað með úrskurði uppkveðnum 12. október 2017.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Blönduósbæ 18. september og 10. október 2017.

Málavextir:
Með samningi milli þáverandi landeiganda Hjaltabakka og hreppsnefndar Blönduóshrepps, dags. 21. nóvember 1931, var samið um girðingar milli Hjaltabakka og Blönduóss. Kveður samningurinn á um skyldu Blönduóshrepps til að setja „fjárhelda girðingu úr girðingu þeirri sem nú er milli Hnjúka og Hjaltabakka 200 –tvöhundruð föðmum- frá vegahliði því sem verið hefir á gömlu girðingunni á melrana efst við Hjaltabakkahvamma og þaðan beina línu yfir móanna vestur í Draugagil. Þó verður ekki girt nú lengra en að Húnvetningabraut.“ Kemur fram í lið II í samningnum að spilda sú sem verði milli girðingarinnar og gildandi landamerkja fái Blönduóshreppur til ævarandi nota án sérstaks endurgjalds með tilteknum skilyrðum, sem m.a. lúta að því að Blönduóshreppur haldi girðingum við. Segir í lið VI að samningurinn gildi um óákveðinn tíma og sé því óuppsegjanlegur.

Á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar Blönduósbæjar 5. september 2016 var tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi fyrir skotæfingasvæði á núverandi stað. Nefndin samþykkti að kynna deiliskipulagið á almennum fundi í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga og að breyting á aðalskipulagi yrði kynnt á sama fundi. Nefndin tók málið fyrir á fundi 28. september 2016 að loknum kynningarfundi. Var deiliskipulagstillagan samþykkt og að fengnu samþykki sveitarstjórnar yrði málsmeðferð tillögunnar samkvæmt 41. gr. skipulagslaga. Skyldi tillagan auglýst samhliða breytingu á aðalskipulagi svæðisins, sem samþykkt var á sama fundi. Þá var á fundi nefndarinnar 8. febrúar 2017 lögð fram til kynningar auglýsing um tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Deiliskipulagstillagan var auglýst frá 26. janúar til 9. mars 2017. Bárust athugasemdir vegna hennar með bréfi frá kærendum, dags. 8. mars s.á.

Að lokinni kynningu var skipulagstillagan tekin fyrir á fundi skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar 10. mars 2017 en afgreiðslu hennar þá frestað. Á fundi 5. apríl s.á. samþykkti nefndin deiliskipulagstillöguna og málsmeðferð samkvæmt 42. gr. skipulagslaga. Á fundinum var athugasemdum kærenda svarað með vísan í bókun við lið 8 í fundargerð fundarins. Með bréfi, dags. 19. maí 2017, staðfesti sveitarstjóri Húnavatnshrepps að Blönduósbær hefði skipulagsvald yfir umræddri landspildu úr landi Hjaltabakka, sem væri um 40 ha að stærð, þrátt fyrir að hún lægi innan sveitarfélagsmarka Húnavatnshrepps. Sveitarstjórn staðfesti fyrrgreinda afgreiðslu skipulags-, umhverfis- og umferðarnefndar á fundi sínum 11. apríl 2017 og tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. júlí 2017.

Skipulagsfulltrúi veitti síðan framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmdum á umræddu æfingasvæði á grundvelli hins samþykkta deiliskipulags 26. september 2017. Hófust framkvæmdir í samræmi leyfið í byrjun október s.á.

Málsrök kærenda:
Kærendur telja að sveitarstjórn Blönduósbæjar sé óheimilt samkvæmt skipulagslögum að samþykkja aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulag fyrir svæði sem sé utan sveitarfélagsins og sé deiliskipulagið því í andstöðu við 7. tl. 2. gr. og 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Landspildan þar sem umrætt skotæfingasvæði sé innan marka Húnavatnshrepps og því hafi Blönduósbær ekki skipulagsvald á svæðinu. Landamerki Blönduósbæjar sem sýnd séu á bls. 4 í deiliskipulaginu séu ranglega tilgreind þar sem leiguland úr Hjaltabakkalandi skv. leigusamningi frá 1931 sé sýnt innan bæjarmarka Blönduósbæjar. Auglýsing um breytingu á Aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010-2030 hafi því ekki lagastoð og sé markleysa.

Skotæfingasvæðið sé hluti af því landi sem þáverandi eigandi Hjaltabakka hafi leigt Blönduóshreppi með leigusamningi árið 1931. Leyfi lögreglustjóra fyrir skotsvæði verði aðeins veitt að undangengnu samþykki landeiganda, sbr. 2. tl. 16. gr. reglugerðar nr. 787/1998 um skotvopn og skotfæri o.fl. Kærendur, sem séu landeigendur að Hjaltabakka, hafi ekki veitt leyfi fyrir skotæfingavellinum og hafi sveitarstjórn verið kunnugt um þá afstöðu áður en hún samþykkti deiliskipulagið. Skipulagsstofnun hafi að sama skapi verið kunnugt um afstöðu landeigenda áður en hún staðfesti breytingu aðalskipulagsins. Því sé leyfi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra, dags. 30. janúar 2017, ólögmætt, verði litið svo á að það taki til umrædds landsvæðis. Sú leyfisútgáfa hafi verið kærð til dómsmálaráðuneytisins.

Af öryggisástæðum sé óásættanlegt að skotsvæðið sé á opnu svæði nálægt byggð og nærri umferð, bæði gangandi og ríðandi fólks. Ásættanleg fjarlægð frá byggð sé almennt talin a.m.k. 2.000 m frá miðpunkti skotsvæðis, auk þess sem miðað sé við að ekki sé sjónlína frá skotsvæði til byggðar. Á uppdrætti í greinargerð og umhverfisskýrslu Landmótunar frá 20. janúar 2017 sjáist að 2.000 m fjarlægð frá miðpunkti skotsvæðisins nái nánast til ystu marka Blönduósbyggðar, norðan Blöndu. Í skýrslunni segi jafnframt að almennt megi gera ráð fyrir að hávaði vegna skotæfinga sé greinanlegur í 1-2 km radíus frá skotæfingasvæðum og megi skilgreina það sem áhrifasvæði skotæfingasvæðisins.

Frá skotsvæðinu stafi óásættanleg hávaðamengun, sem sé til þess fallin að trufla veiðimenn við Laxá á Ásum og í veiðihúsinu Ásgarði. Jafnframt geti hávaðinn fælt búfénað í landi Hjaltabakka, þar sem rekin sé umsvifamikil hrossarækt, en aðeins séu 100 m frá skotsvæðinu að girðingu í landi Hjaltabakka. Hávaði við ána og í veiðihúsinu séu langt yfir viðunandi mörkum. Fjarlægð svæðisins frá tíu af betri veiðistöðum árinnar sé 650-1.600 m og fjarlægðin frá veiðihúsinu um 1.100 m. Þá sé bein sjónlína að veiðihúsinu og að mörgum betri veiðistöðum árinnar. Ljóst sé að hávaði frá skotsvæðinu sé langt yfir viðmiðunarmörkum um hávaða samkvæmt reglugerð nr. 724/2008, sbr. töflu III, og samkvæmt nefndri greinargerð og umhverfisskýrslu, sbr. einnig bréf skipulagsfulltrúans á Blönduósi, dags. 27. apríl 2017.

Óásættanlegt og ólöglegt sé að heimila starfsemina m.t.t. fyrirliggjandi áætlana skotfélagsins um að hefja skotæfingar með rifflum sem hafi a.m.k. tveggja km drægni og þ.a.l. margfalt stærra hættusvæði og hávaðamengun en við æfingar með 250-300 m drægni, líkt og stundaðar hafi verið á svæðinu fram að þessu.

Málsrök Blönduósbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er því mótmælt að stjórnsýslumörk séu óljós, enda hafi sveitarfélögin komið sér saman um mörkin, sem endurspeglist t.d. í samþykktu aðalskipulagi 1993-2013 og 2010-2030 og svæðisskipulagi 2004-2016. Sveitarfélögum sé tryggður sjálfsákvörðunarréttur í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. 78. gr., sbr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þau hafi því fullt forræði á því að semja um stjórnsýslumörk sín á milli og það hafi þau gert í þessu tilviki, sbr. bréf sveitarstjóra Húnavatnshrepps, dags. 23. maí 2017. Engu máli skipti hvort umrædd landspilda teljist vera að hluta í Húnavatnshreppi eða ekki. Það sé ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að hrófla við þessu samkomulagi sveitarfélaganna.

Blönduósbær hafi umrædda landspildu úr landi Hjaltabakka til ævarandi afnota samkvæmt samningi frá 21. maí 1931 um merkjagirðingu á milli Hjaltabakka og Blönduóss. Samningurinn sé óuppsegjanlegur og engar takmarkanir séu á notkunarheimild sveitarfélagsins. Blönduósbær hafi í 86 ár ráðstafað og skipulagt umrætt svæði án mótmæla frá eigendum Hjaltabakka. Skotsvæðið hafi verið staðsett á umræddri landspildu í 30 ár án athugasemda eigenda Hjaltabakka eða annarra. Skotfélaginu hafi ekki borist athugasemdir vegna starfsemi sinnar, hvorki af hálfu kærenda né Húnavatnshrepps, í þann tíma sem skotfélagið hafi haft landið til afnota.

Varðandi hávaðamengun sé vísað til svara skipulagsfulltrúa Blönduósbæjar og þeirra upplýsinga sem fram komi í aðal- og deiliskipulagi. Veiðihús Laxár á Ásum hafi verið byggt árið 2012 og nú standi yfir framkvæmdir við stækkun þess.

Meginmarkmiðið með breytingu á aðalskipulagi og gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði hafi verið að bæta öryggi við skotæfingar, auka gildi svæðisins til skotæfinga og tryggja að þær fari fram á öruggu svæði. Reynt hafi verið að vanda til skipulagsferlisins og tekið hafi verið tillit til þeirra umsagna sem borist hefðu, eins og kostur hafi verið, t.d. með því að takmarka opnunartíma skotsvæðisins, gera kröfu um að veifur/ljósmerki gefi til kynna að skotæfingar standi yfir, auk þess að gera ríkar kröfur til hljóðmana við riffilbraut. Með breytingu á reglugerð um skotvopn, skotfæri o.fl. hafi verið veitt heimild fyrir notkun á hljóðdeyfum fyrir stóra riffla. Því muni framvegis flestir notendur stórra riffla notast við hljóðdeyfi og ætla megi, eftir gildistöku breytingarinnar á reglugerðinni, að það heyri til undantekninga að skotið verði úr stórum riffli í framtíðinni án hljóðdeyfis.

Úrskurðarnefndin sé ekki bær til þess að endurskoða leyfi lögreglustjórans á Norðurlandi vestra. Umrætt skotsvæði teljist uppfylla skilyrði IV. kafla reglugerðar um skotvopn, skotfæri o.fl. nr. 787/1998, sbr. 24. gr. vopnalaga nr. 16/1998, líkt og fram komi í framangreindu leyfisbréfi, en mál vegna þeirrar leyfisveitingar sé nú rekið fyrir héraðsdómi.

Kröfur kærenda vegna veitts framkvæmdaleyfis séu óljósar og án nokkurs lagalegs rökstuðnings.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að það sem fram komi í kæru varðandi skotæfingar, hávaða og hættumat sé úr lausu lofti gripið. Fullyrðingar séu ekki studdar neinum gögnum heldur byggðar á huglægu mati kærenda. Starfsemi leyfishafa hafi verið á umræddu svæði án athugasemda frá árinu 1989. Aðspurður hafi annar kærenda sagt óþarft að framkvæma hljóðmælingu, hans huglæga mat væri nægjanlegt.

Hvorki liggi fyrir umboð né athugasemdir frá Veiðifélagi Laxár á Ásum, sem annist rekstur veiðihússins Ásgarðs. Því sé óskiljanlegt hvaða lögvörðu hagsmuni kærendur telji sig hafa. Fulltrúar leyfishafa hafi rætt við stangveiðimenn og það sé einróma álit þeirra að engin truflun sé frá skotsvæðinu og að afar sjaldan greinist frá því hávaði. Fjarlægð milli skotsvæðis og veiðihúss sé 1.200 m í beinni loftlínu, en ekki 1.100 m. Engin búseta sé á Hjaltabakka en þó nokkuð sé þar af hrossum. Þau séu hins vegar öll innan girðingar norðan við þjóðveg 1, en skotsvæði leyfishafa sé sunnan við sama veg. Fjarlægð þar á milli sé um 1.600 m í beinni loftlínu. Leyfishafi hafi látið framkvæma hljóðmælingar og fylgi niðurstöður hennar gögnum málsins. Við skoðun niðurstaða hennar megi ljóst vera að fullyrðingar kærenda séu úr lausu lofti gripnar.

Fullyrðingar um að 2.000 m séu ásættanleg fjarlægð skotsvæðis frá byggð séu rangar. Skotæfingasvæðið á Akureyri sé t.d. rétt ofan við bæinn, um 400 m frá Hlíðarfjallsvegi. Skotstefna skotæfingsvæðisins á Reykjaströnd sé í beinni línu að Sauðárkróksbæ. Pistill formanns þess skotfélags fylgi greinargerð en þar sé fjallað um áhrif skotæfinga á dýralíf, en á skotsvæði leyfishafa sé einnig fjölskrúðugt fuglalíf. Eðlilega sé hættusvæði riffla stærra en hættusvæði haglabyssa. Riffilbrautin verði niðurgrafin og manir allt í kring, þannig að ekki verði hægt að skjóta upp úr henni. Hætta fyrir utanaðkomandi sé því engin.

Gera megi ráð fyrir að um 80% skotæfinga verð með cal. 22LR rifflum en hávaði úr slíkum rifflum sé hverfandi og margfalt minni en úr haglabyssum. Nú sé búið að leyfa hljóðdeyfa á stærri riffla og langflestir iðkendur komnir með hljóðdeyfa á sín vopn.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvarðana sveitarstjórnar Blönduósbæjar, annars vegar frá 11. apríl 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði við Blönduós, og hins vegar ákvörðun skipulagsfulltrúa frá 26. september s.á. um að veita leyfi til framkvæmda á grundvelli hins kærða deiliskipulags.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga, og sætir ákvörðun um aðalskipulag ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 52. gr. skipulagslaga. Þarf deiliskipulag að rúmast innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna.

Óumdeilt er að landspilda sú í landi Hjaltabakka þar sem umrætt skotæfingasvæði liggur er innan marka Húnavatnshrepps. Verður ekki framhjá því litið að hvorki Skipulagsstofnun né umhverfis- og auðlindaráðherra hafa gert athugasemd við að Blönduósbær skipulegði umrædda landspildu í aðalskipulagi, en auk þess hefur skipulagið verið staðfest af ráðherranum sem fer með æðsta vald málaflokksins á stjórnsýslustigi. Í málinu liggur og fyrir bréf sveitarstjóra Húnavatnshrepps, dags. 19. maí 2017, þar sem hann staðfestir að Blönduósbær hafi skipulagsvald yfir umræddri landspildu, þótt hún liggi innan sveitarfélagsmarka Húnavatnshrepps. Er framangreint í samræmi við ákvæði samnings frá 21. nóvember 1931, þar sem Blönduóshreppur fær spilduna til ævarandi nota. Verður því lagt til grundvallar að Blönduósbær fari með skipulagsvald á umræddu svæði.

Í gildi er Aðalskipulag Blönduósbæjar 2010-2030, en breyting var gerð á því sem tók gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 24. júlí 2017. Í breytingunni fólst m.a. að skilgreint var nýtt svæði, O11 – Skotæfingasvæði. Um svæðið segir að innan þess verði, auk núverandi „skeetvallar“, „tappbraut“, bogfimibraut og riffilbraut með áherslu á að bæta öryggi og auka gildi svæðisins til skotæfinga. Samtals sé svæðið 15,2 ha að stærð. Í 2. kafla hins kærða deiliskipulags kemur m.a. fram að tilgangur skipulagsins sé að bæta aðstöðu á umræddu skotæfingasvæði til að mæta kröfu Umhverfisstofnunar um kennslu í notkun stærri riffla. Öryggisreglur sem gildi á skotvöllum aðildarfélaga Skotfélags Íslands séu að mestu sniðnar eftir keppnis- og tæknireglum Alþjóðaskotsambandsins (UIT). Fram kemur í kafla 4.2. að riffilbraut verði grafin niður um 2-2,5 m og uppgröftur nýttur í manir beggja vegna brautarinnar og við austurenda hennar. Heildardýpt brautarinnar verði því um 3-3,5 m en um 5 m við enda hennar til að draga úr því hljóði sem berist frá henni. Er landnotkun samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi því í samræmi við landnotkun svæðisins samkvæmt gildandi aðalskipulagi.

Deiliskipulag var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Var skipulagið afgreitt í skipulagsnefnd að kynningu lokinni og staðfest af sveitarstjórn lögum samkvæmt. Það tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 27. júlí 2017, að lokinni lögboðinni yfirferð Skipulagsstofnunar. Var því farið að lögum við málsmeðferð hinnar kærðu skipulagsákvörðunar.

Samkvæmt framangreindu liggja ekki fyrir annmarkar á efni eða málsmeðferð hins kærða deiliskipulags sem raskað geta gildi þess og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga skal afla framkvæmdaleyfis vegna framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum. Í 4. mgr. ákvæðisins segir að sveitarstjórn skuli við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir.

Í útgefnu framkvæmdaleyfi er tekið fram að framkvæmdin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag Blönduósbæjar og að það sé gefið út í samræmi við 13.-16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi og ákvæði laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Liggur og fyrir deiliskipulag vegna umrædds svæðis þar sem fjallað er um fyrirhugaðar framkvæmdir.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga veitir sveitarstjórn framkvæmdaleyfi og í 4. mgr. ákvæðisins er tekið fram að sveitarstjórn skuli við útgáfu framkvæmdaleyfis fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir Þá skal sveitarstjórn leita álits Skipulagsstofnunar um hvort framkvæmd sé matsskyld eða ekki samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. 14. gr. laganna.

Greint leyfi var gefið út af skipulagsfulltrúa, en ekki liggur fyrir að honum hafi verið veitt heimild til að samþykkja útgáfu slíks leyfis, sbr. 6. gr. og 1. tl. 1. mgr. 15. skipulagslaga, en samkvæmt 3. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi gefur skipulagsfulltrúi út framkvæmdaleyfi að fengnu samþykki sveitarstjórnar nema að á annan veg sé mælt í samþykktum sveitarfélagsins.

Ekki liggur fyrir að sveitarstjórn hafi fjallað um og tekið afstöðu til útgáfu framkvæmdaleyfisins eða leitað álits Skipulagsstofnunar um það hvort framkvæmdin væri matsskyld eða ekki samkvæmt lögum nr. 106/2000 áður en leyfið var gefið út. Verða þessir annmarkar á málsmeðferð taldir svo verulegir að varði ógildingu hins kærða framkvæmdaleyfis.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Blönduósbæjar frá 11. apríl 2017 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði við Blönduós.

Felld er úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Blönduósbæjar frá 26. september 2017 um að gefa út framkvæmdaleyfi vegna framkvæmda við skotæfingasvæði í landi Hjaltabakka í Húnavatnshreppi.

46/2017 Sveinbjarnargerði

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 8. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 46/2017, kæra á ákvörðun sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja varphænsnahús að Sveinbjarnargerði, Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. maí 2017, er barst nefndinni 2. s.m., kæra eigendur, Sveinbjarnargerði III, þá ákvörðun sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 að samþykkja að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu varphænsnahúss að Sveinbjarnargerði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 11. maí 2018, sem móttekið var 18. s.m., gera kærendur jafnframt kröfu um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Svalbarðsstrandarhreppi 15. júní 2017 og 29. maí 2018.

Málsatvik: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Leyfishafi í máli þessu tók við rekstri alifuglabús í Sveinbjarnargerði haustið 2012 og í september 2013 hafnaði heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra kröfu um að stöðva þann rekstur. Felldi úrskurðarnefndin þá ákvörðun úr gildi með úrskurði kveðnum upp 24. apríl 2015 í kærumáli nr. 96/2013. Þá vísaði úrskurðarnefndin frá kærumáli nr. 98/2015 með úrskurði upp kveðnum 24. nóvember 2016, en það mál laut að veitingu starfsleyfis fyrir rekstrinum.

Með umsókn, dags. 16. febrúar 2017, sótti leyfishafi um leyfi til að endurbyggja varphænsnahús í Sveinbjarnargerði II á grunni eldra húss sem þar stóð áður. Til þess að uppfylla kröfur nýrrar reglugerðar um hámarksfjölda varphæna á hvern m2 var sótt um að breikka grunninn um rúma þrjá metra þannig að grunnflötur stækkaði úr rúmum 600 m2 í rúma 800 m2. Mænishæð yrði um 6,5 m.

Á fundi sínum 22. febrúar 2017 samþykkti sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps að grenndarkynna umsóknina. Fór grenndarkynning fram með bréfum, dags. 2. mars 2017, og stóð til 31. s.m. Barst ein athugasemd á þeim tíma, sem svarað var með bréfi, dags. 18. apríl 2017, að undangenginni afgreiðslu sveitarstjórnar á fundi hennar 5. s.m. Í kjölfarið var byggingarleyfisumsóknin samþykkt á fundi sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis 26. apríl 2017 og er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Leyfishafa var tilkynnt með bréfi, dags. 18. maí 2017, að framkvæmdin félli í flokk B skv. lið 1.10 í viðauka 1 með lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Honum bæri því að tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd, sbr. 2. mgr. 6. gr. laganna, og yrði ekki gefið út byggingarleyfi fyrr en niðurstaða stofnunarinnar lægi fyrir. Ákvörðun Skipulagsstofnunar þess efnis að endurbygging alifuglahúss að Sveinbjarnargerði skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum lá fyrir 25. ágúst s.á. og hefur hún ekki verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Byggingarleyfi var gefið út 28. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að með endurbyggingu varphænsnahússins verði framleiðsla búsins tvöfölduð, þannig að í stað 8.000 hæna verði þar haldnar um 16.000 hænur.

Í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020 sé gert ráð fyrir ferðaþjónustu í Sveinbjarnargerði II og að byggingarmagn ákvarðist með deiliskipulagi. Eigendur Græneggja ehf. og Bjarnargerðis ehf. hafi ávallt komið í veg fyrir að deiliskipulag yrði unnið í Sveinbjarnargerði II, þrátt fyrir ítrekaða beiðni um það af hálfu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra og Skipulagsstofnunar, auk kærenda. Þau tvö hús sem búið sé að endurgera hafi verið endurbyggð frá grunni og húsið sem til standi að endurbyggja hafi hrunið fyrir nokkrum áratugum. Hefði átt að gera deiliskipulag áður en farið væri í þær framkvæmdir.

Forráðamaður búsins hafi verið í hreppsnefnd og komið að gerð gildandi aðalskipulags með beinum hætti, en engin ósk hafi þá verið um áframhaldandi hænsnarækt í Sveinbjarnargerði II. Fram hafi komið í bréfi Skipulagsstofnunar til umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, dags. 18. janúar 2013, að aðalskipulagið myndi líta öðruvísi út væri það ætlun hreppsins að hafa þar hænsnabú og að deiliskipuleggja þyrfti svæðið ef sú væri ætlunin. Að auki hafi komið fram í bréfi Svalbarðsstrandarhrepps til Skipulagsstofnunar, dags. 7. mars 2002, að eftir kosningar yrði gert í því að knýja landeigendur Sveinbjarnargerðis II til að gera deiliskipulag. Þá sé bent á að engin skipulagsnefnd sé starfandi í hreppnum, líkt og gildandi lög kveði á um.

Starfsleyfi heilbrigðiseftirlitsins frá september 2015 hafi verið veitt til fjögurra ára vegna þess að deiliskipulag sé ekki til staðar. Leyfið gildi fyrir allt að 10.000 hænur og því rúmist 16.000 hænur ekki innan þess. Ekki sé hægt að fallast á að sveitarstjórn túlki starfsleyfi heilbrigðiseftirlitsins með þeim hætti að svo sé.

Ekki komi fram í reglugerð nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína hvernig mæla skuli fjarlægðir. Mögulega sé fjarlægðin yfir 50 m sé mælt vegg í vegg. Sé mælt frá vegg hænsnahússins að lóðarmörkum sé fjarlægðin um 43 m. Hún sé mun minni sé mælt milli lóðarmerkja. Ekki sé ljóst hvaða hlutverk verkstæðisbyggingin hafi og hvort hún reiknist með sem hluti af búinu en við fyrirhugaða endurbyggingu verði þetta að einu húsi. Athafnasvæðið nái um 30 m til suðurs og allar afurðir, starfsfólk og gestir fari úr húsi að sunnanverðu og því megi ætla að 50 m mæling sé frá lóðarmörkum athafnasvæðisins að sunnan að mörkum lóðar kærenda. Eldishús megi aðeins byggja á svæðum sem skipulögð séu fyrir landbúnað, iðnað eða þar sem stefna hafi verið mörkuð í aðalskipulagi.

Fjölskyldutengsl hafi haft áhrif á afgreiðslu mála. Sveitarstjóri sé bróðir eiginkvenna eigenda Græneggja ehf. og eigi sjálfur hluta í Bjarnargerði ehf. Hann hafi um tíma verið framkvæmdastjóri síðarnefnda félagsins, sem aftur eigi hluta í Græneggjum ehf. Þá sitji hann alla fundi hreppsnefndar og geti haft áhrif á niðurstöðu mála með nærveru sinni.

Málsrök Svalbarðsstrandarhrepps: Af hálfu sveitarstjórnar er á það bent að Sveinbjarnargerði sé á svæði sem merkt sé L1, sem standi fyrir landbúnaðarsvæði. Endurbygging umrædds húss sé í samræmi við aðalskipulag, sem og við 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Hafi umsóknin því verið samþykkt.

Fjarlægð frá fyrirhuguðu eldishúsi að íbúðarhúsi mælist 61,7 m, sem sé umfram þá 50 m kröfu sem gerð sé í b-lið I. liðar 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína. Eðlilegt sé að mæla í vegg húss kærenda, enda sé hugtakið „mannabústaður“ notað í tilgreindu ákvæði. Ljóst sé að umfang reksturs Græneggja ehf. aukist. Gerð verði breyting á aðkomu að húsunum, sem verði að norðan þar sem fóðursíló séu staðsett, þannig að þungaumferð aukist ekki við að varphænum fjölgi. Fram komi á uppdrætti að hús sé sunnan við grunninn sem áform séu uppi um að byggja á. Húsið sé nýtt sem geymsla eða verkstæði og ekki standi til að taka það undir eldi. Fjarlægð í það sé 51,1 m samkvæmt uppdrættinum. Fjarlægðarmörkin í framangreindu reglugerðarákvæði gildi um eldi á 40.000-60.000 fuglum og því sé óljóst hvort að þau eigi við um 6.000 fugla eldi. Skilyrði ákvæðisins um fjarlægð sé engu að síður fullnægt.

Meginástæða þess að ekki hafi verið gert deiliskipulag sé sú að ekki náist samkomulag milli eigenda fasteigna í Sveinbjarnargerði. Erindið hafi verið samþykkt á fundi sveitarstjórnarinnar 5. apríl 2017 en leyfishafa hafi verið tilkynnt 18. maí s.á að byggingarleyfi yrði ekki gefið út fyrr en félagið hefði tilkynnt framkvæmdina til Skipulagsstofnunar í samræmi við lið 1.10 í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Hin kærða ákvörðun varði ekki starfsleyfi Græneggja ehf. og feli ekki í sér afstöðu til þess, enda veiti sveitarstjórn ekki starfsleyfi.

Sveitarstjóri eigi ekki sæti í sveitarstjórn og geti því ekki haft áhrif á afgreiðslu mála með atkvæði sínu. Sveitarstjórn geti tæplega verið vanhæf vegna þess að sveitarstjóri sitji fundi, líkt og honum beri að gera. Fjárhagslegir hagsmunir sveitarstjóra í Græneggjum ehf. séu nánast engir, en hann eigi 10% hlut í Bjarnargerði ehf., sem eigi 10% hlut í Græneggjum ehf.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi tekur fram að hin kærða framkvæmd sé fólgin í því að byggja yfir gamlan grunn með það að markmiði að fjölga varphænum úr tæplega 8.000 í 12.000 að hámarki. Breikka þurfi grunninn um rúma þrjá metra til að gæta fullrar hagkvæmni, m.t.t. varpkassa, vatnsnippla og fóðurlína. Grunnflötur stækki þannig úr rúmum 600 m² í rúma 800 m². Lengd hússins verði sú sama og áður, en það muni breikka til austurs. Byggingin verði hærri en áður, en verði verulega lægri en skemman sem hún muni standa áföst við. Hún verði í 61,7 m fjarlægð frá gamla íbúðarhúsinu í Sveinbjarnargerði III, en fjarlægðin sé 51,1 m sé mælt frá mörkum lóðar kærenda.

Heildarfjöldi varphænsna og unga í uppeldi samanlagt geti að hámarki orðið 15.000, en fjöldinn verði að meðaltali töluvert minni þar sem ávallt þurfi að hreinsa bæði uppeldishús og varphús í hvert skipti þegar skipt sé um fugl, en það sé gert í áföngum. Eggjaframleiðslan geti vaxið um u.þ.b. 35%.

Gildandi starfsleyfi hafi miðað við 10.000 varphænur þar sem það hámark hafi verið í reglugerð nr. 504/1998 um vistvæna landbúnaðarframleiðslu, en leyfishafi stundi slíka framleiðslu. Sú reglugerð hafi nú verið felld úr gildi. Leyfið sé yfirleitt endurskoðað á fjögurra ára fresti, sbr. 1. mgr. 20. gr. reglugerðar nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Eggjaframleiðsla hafi verið samfellt í Sveinbjarnargerði í yfir 50 ár. Sótt hafi verið um breytingu á starfsleyfi í samræmi við fyrirhugaða stækkun, en það verði ekki gefið út fyrr en að byggingarframkvæmdum loknum.

Deiliskipulagskvöð samkvæmt aðalskipulagi nái eingöngu til ferðaþjónustunnar, en í skipulaginu komi fram að frekari uppbygging á ferðaþjónustu í Sveinbjarnargerði, merkt V3,  sé gerð samkvæmt deiliskipulagi. Ferðaþjónusta hafi fyrst verið heimiluð í Sveinbjarnargerði með bréfi, dags. 13. mars 1998, þar sem Skipulagsstofnun hafi fallist á að veita leyfi fyrir breyttri notkun sláturhúss.

Sveitarstjórn Svalbarðsstrandarhrepps fari með skipulagsmál sveitarfélagsins án þess að nokkur undirnefnd sé í þeim málum, en slíkt sé heimilt samkvæmt lögum. Með 10% eignaraðild sveitarstjóra að Bjarnargerði ehf. eigi hann óbeint 1% í Græneggjum ehf.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 að samþykkja að veita byggingarleyfi vegna endurbyggingar varphænsnahúss að Sveinbjarnargerði en sveitarstjórn hefur gert það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefndin hafi fjallað um og samþykkt umsókn fyrir leyfinu, sbr. 3. gr. samþykktar nr. 420/2013 um afgreiðslur sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis, sbr. og ákvæði 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Einskorðast lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar við hina kærðu leyfisveitingu, undirbúning hennar og málsmeðferð.

Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Skal þess gætt að byggingarleyfisskyld framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir sveitarfélags þegar sótt er um byggingarleyfi og er það jafnframt skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu, sbr. 2. mgr. 10. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga. Er því gert ráð fyrir því að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við gildandi deiliskipulag, en undanþágu hvað varðar ódeiliskipulögð svæði er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti sveitarstjórn ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar og láti skipulagsnefnd þá fara fram grenndarkynningu. Fór grenndarkynning fram eins og mælt er fyrir um í nefndu lagaákvæði með því fráviki þó að sveitarstjórn annaðist kynninguna á grundvelli lagaheimildar þess efnis að í sveitarfélögum þar sem erfiðlega horfi með að manna nefndir sé sveitarstjórn heimilt að fara sjálf með verkefni lögskipaðrar nefndar, sbr. 4. mgr. 37. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.

Í gildi er Aðalskipulag Svalbarðsstrandarhrepps 2008-2020. Samkvæmt skipulaginu er Sveinbjarnargerði á landbúnaðarsvæði merkt L1. Um svæðið segir að það sé gott landbúnaðarland sem vel sé fallið til ræktunar og búvöruframleiðslu, sem skuli vera meginlandnotkun á svæðinu. Segir enn fremur að heimilt sé að nýta og reisa byggingar fyrir atvinnustarfsemi sem falli vel að búrekstri og nýtingu viðkomandi jarðar og hafi ekki neikvæð áhrif á umhverfi sitt. Fyrst og fremst sé átt við atvinnugreinar sem séu eðlileg viðbót við búreksturinn og stoðgreinar við landbúnað, sem áfram verði meginlandnotkun á svæðinu. Innan svæðisins við Sveinbjarnargerði er hringtákn merkt V3 og er það skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði. Er því svæði lýst sem hóteli og veitingahúsi í töflu í kafla 4.6 í aðalskipulagi og tiltekið að uppbygging skuli vera samkvæmt deiliskipulagi. Segir nánar í nefndum kafla að á sveitarfélagsuppdrætti megi merkja þjónustustarfsemi með hringtákni á viðkomandi lögbýli í stað ákveðinnar landfræðilegrar afmörkunar.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar endurbyggingu varphænsnahúss á lögbýli á skilgreindu landbúnaðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi, en á lögbýlinu má jafnframt vera hótel og veitingahús. Er og heimilt samkvæmt skipulaginu að reisa byggingar fyrir atvinnustarfsemi sem falli vel að búrekstri. Verður að telja ljóst af orðalagi og framsetningu aðalskipulagsins að skilmálar um að uppbygging skuli vera samkvæmt deiliskipulagi séu bundnir við svæðið V3 en að aðallega sé gert ráð fyrir landbúnaði á lögbýlinu í samræmi við skilgreinda landnotkun og áherslur aðalskipulags. Rúmast hin kærða leyfisveiting því innan heimilda gildandi aðalskipulags, en framkvæmdin er í beinum tengslum við þann rekstur sem þegar fer fram á svæðinu. Sömuleiðis voru fyrir hendi skilyrði til grenndarkynningar skv. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga ber sveitarstjórnarmanni, nefndarfulltrúa eða starfsmanni sveitarfélags að víkja sæti við meðferð og afgreiðslu máls þegar það varðar hann svo sérstaklega að almennt megi ætla að viljaafstaða hans mótist að einhverju leyti þar af. Samkvæmt 54. gr. sömu laga ræður sveitarstjórn framkvæmdastjóra, þ.e. sveitarstjóra, og er hlutverk hans að sjá um að stjórnsýsla sveitarfélagsins samræmist lögum, samþykktum og viðeigandi fyrirmælum yfirmanna. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laganna skal hann sitja fundi sveitarstjórnar og þar hefur hann bæði málfrelsi og tillögurétt. Hann hefur þó ekki atkvæðisrétt nema hann sé jafnframt kjörinn fulltrúi í sveitarstjórninni, en það mun þáverandi sveitarstjóri ekki hafa verið.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að sveitarstjórinn hafi komið að undirbúningi málsins, þ.m.t. grenndarkynningu. Liggur fyrir að hann tengist eigendum leyfishafa fjölskyldutengslum og eru þeir mágar. Þá mun hann eiga lítinn hlut í fyrirtæki sem á hlut í leyfishafa. Svo sem áður er komið fram er grenndarkynning þáttur í lögboðinni málsmeðferð þegar byggingarleyfi er veitt vegna framkvæmdar á ódeiliskipulögðu svæði. Var sveitarstjóranum því rétt að víkja sæti við undirbúning, meðferð og afgreiðslu byggingarleyfisins vegna vanhæfis í skilningi 2. mgr. 20. gr. sveitastjórnarlaga.

Við mat á því hvort nefndur annmarki á afgreiðslu sveitarstjórnar á byggingarleyfinu teljist svo verulegur að ógildingu varði ber m.a. að horfa til þess að sveitarstjóri gegnir lykilhlutverki í stjórnsýslu sveitarfélaga. Sem slíkur var hann í aðstöðu til að hafa áhrif á afstöðu starfsmanna sveitarfélagsins til málsins og sveitarstjórnar til grenndarkynningar. Hins vegar verður að líta til þess að hann hafði ekki atkvæðisrétt á fundum og gat því ekki með beinum hætti komið að ákvörðun varðandi grenndarkynninguna, en samkvæmt 2. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga ræður afl atkvæða úrslitum mála. Þá verður ekki séð að aðkoma sveitarstjóra að grenndarkynningunni hafi ráðið úrslitum um lyktir málsins eða leitt til niðurstöðu sem var efnislega önnur en annars hefði orðið, einkum og sér í lagi þegar litið er til þess að byggingarleyfið var samþykkt af sameiginlegri byggingarnefnd Eyjafjarðarsvæðis þar sem sveitarstjóri átti ekki sæti. Verður byggingarleyfið því ekki ógilt af þeim sökum.

Í 6. gr. reglugerðar nr. 520/2015 um eldishús alifugla, loðdýra og svína er fjallað um fjarlægðir eldishúsa, m.a. frá mannabústöðum. Þegar um er að ræða m.a. nýbyggingar, meiriháttar breytingar eða stækkanir á eldishúsum ber sveitarstjórn að ákveða fjarlægð þeirra við m.a. mannabústaði eða svæði sem afmörkuð hafa verið fyrir þá notkun í aðalskipulagi eða með byggingarreitum í deiliskipulagi. Samkvæmt b-lið I. liðar 1. mgr. skal lágmarksfjarlægð vera 50 m fyrir bú ætluð fyrir 40.000 til 85.000 stæði fyrir kjúklinga eða 40.000 til 60.000 stæði fyrir hænur. Meðal gagna málsins er málsett loftmynd, dags. 12. maí 2017, og samkvæmt henni er fjarlægð frá varphúsi að mörkum lóðar kærenda 51,1 m, en fjarlægð að íbúðarhúsi kærenda er 61,7 m. Umrætt bú telur um 8.000 varpfugla og með fyrirhugaðri stækkun er búið enn töluvert undir stærðarviðmiðum tilvitnaðs b-liðar reglugerðarinnar. Engu að síður er skilyrði um lágmarksfjarlægð samkvæmt ákvæðinu uppfyllt hvað varðar hið endurbyggða eldishús.

Loks var gætt að ákvæði 5. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga og byggingarleyfi ekki gefið út fyrr en ákvörðun Skipulagsstofnunar lá fyrir um að framkvæmdin væri ekki matsskyld.

Með hliðsjón af öllu því sem að framan er rakið eru ekki þeir ágallar á efni eða málsmeðferð hinnar kærðu leyfisveitingar fyrir hendi sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda um ógildingu því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar sameiginlegrar byggingarnefndar Eyjafjarðarsvæðis frá 26. apríl 2017 um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja varphænsnahús að Sveinbjarnargerði í Svalbarðsstrandarhreppi.

93/2018 Áshamar

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 2. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2018, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Áshamri 32 í Vestmannaeyjabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Áshamars 48, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni nr. 32 við Áshamar í Vestmannaeyjabæ. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Jafnframt er gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Vestmannaeyjabæ 12. júlí 2018.

Málavextir:
Hinn 20. febrúar 2017 tók umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja fyrir umsókn lóðarhafa um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Áshamri 32, sem er á ódeiliskipulögðu svæði. Ráðið samþykkti að umsóknin yrði grenndarkynnt fyrir lóðarhöfum að Áshamri 28, 30, 34, 36 og 50 og Búhamri 13, 29, 35 og 39 með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umsóknin var kynnt með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, og var gefinn fjögurra vikna frestur frá dagsetningu bréfsins til að skila inn athugasemdum. Engar athugasemdir bárust innan frestsins og var byggingarleyfi gefið út hinn 31. ágúst s.á. Framkvæmdir við byggingu hússins hófust í febrúar 2018 og hafði kærandi af því tilefni samband við byggingarfulltrúa 7. mars s.á. Síðar sama dag sendi byggingarfulltrúi kæranda með tölvupósti þær upplýsingar sem sendar voru með grenndarkynningunni. Samþykkt byggingarleyfisins var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem felldi leyfisveitinguna úr gildi með úrskurði nr. 60/2018 þar sem grenndarkynningin náði ekki til kæranda.

Í kjölfarið var byggingarleyfisumsóknin grenndarkynnt á ný með bréfi, dags. 9. maí 2018, og var gefinn var fjögurra vikna frestur til að koma á framfæri athugasemdum vegna hennar. Kærandi sendi athugasemdir með bréfi, dags. 6. júní 2018.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní 2018, var erindið tekið fyrir að nýju, það samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar. Var bókað í fundargerð að ráðið hafnaði athugasemdum lóðarhafa að Áshamri 48. Jafnframt var bókað að skráð nýtingarhlutfall fyrir íbúðarhúsabyggð ÍB-4 væri 0,15 en ekki fyrir einstaka byggingarlóðir líkt og fram kæmi í innsendu bréfi. Heimilt væri að víkja frá deiliskipulagsskyldu vegna stakra framkvæmda í þegar byggðum hverfum þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir, viki fyrirhuguð framkvæmd ekki í verulegum atriðum frá notkun, nýtingarhlutfalli eða yfirbragði hverfisins. Ekki væri hægt að fallast á rök er vörðuðu útsýnisskerðingu og væri bent á að engin leið væri til að tryggja öllum íbúum bæjarins útsýni sem ávallt væri huglægt hverjum og einum. Á lóðinni hefði áður staðið íbúðarhús sem hefði verið rifið eftir bruna og alltaf hafi verið fyrirhugað að nýta lóðina áfram fyrir íbúðarhúsnæði. Ráðið teldi fyrirhugaða nýbyggingu falla vel að yfirbragði hverfisins hvað varðaði nýtingu, útlit og form. Benti ráðið á að ekki hefðu komið fram nein rök sem styddu að verðgildi húsnæðis í nágrenninu myndi skerðast við uppbyggingu á lóð Áshamars 32. Uppbyggingu hverfisins yrði að meta heildstætt og mætti þá einnig draga fram að uppbygging gæti haft jákvæð áhrif á fasteignamarkaðinn í nágrenninu.

Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs á fundi 21. júní 2018. 

Málsrök kæranda: Kærandi telur hina umdeildu framkvæmd ekki vera í samræmi við landnotkun, en ákvæði 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki feli í sér það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirki og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum. Samkvæmt gildandi aðalskipulagi sé heildarnýtingarhlutfall lóða á umræddu svæði 0,15. Nýtingarhlutfall umræddrar lóðar samkvæmt fyrirliggjandi teikningum verði 0,20, en þar sé miðað við að stærð lóðar sé 923 m2. Stærð lóðarinnar í fasteignaskrá sé hins vegar 767 m2 og samkvæmt því sé nýtingarhlutfall lóðarinnar 0,24. Ekkert hafi verið bókað um þetta misræmi á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 12. júní 2018. Þegar kærandi hafi innt eftir svörum hafi hann fengið þær upplýsingar að nýr lóðarleigusamningur hefði verið undirritaður milli aðila 29. maí 2018. Megi leiða líkum að því að hinn nýi lóðarleigusamningur hafi verið gerður í þeim tilgangi að lækka nýtingarhlutfall lóðarinnar svo það kæmist nær nýtingarhlutfalli nálægra lóða. Framangreind aukning á nýtingarhlutfalli lóðar sé svo veruleg breyting að grenndarkynning skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 dugi ekki til.

Framkvæmdin sé ekki heldur í samræmi við byggðamynstur. Fyrirhuguð hæð hússins samkvæmt teikningum sé 4,92 m, en hæsti punktur annarra húsa í götunni sé 4,35 m. Breidd hæstu þekju samkvæmt teikningum sé 10,1 m að viðbættum 12 m. Breidd samkvæmt hæstu þekju annarra húsa í götunni sé 6,80 m. Þá snúi þak á 12 m viðbótinni í norður-suður, en þak annarra húsa í götunni snúi í austur-vestur. Þetta leiði til verulegrar útsýnisskerðingar fyrir kæranda og sé breytingin í andstöðu við lögmætar væntingar kæranda um framtíðarskipulag þegar hann hafi fjárfest og flutt á svæðið.

Málsmeðferð og afgreiðsla málsins beri með sér að hagsmunir kæranda hafi verið algerlega fyrir borð bornir. Framkvæmdir hafi verið hafnar án þess að kærandi hafi fengið að koma að athugasemdum og ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda hans við grenndarkynningu. Leiða megi líkum að því að síðari grenndarkynningin hafi aðeins þjónað þeim tilgangi að bæta úr formgalla. Rökstuðningi og upplýsingum sem fylgt hafi niðurstöðu umhverfis- og skipulagsráðs hafi verið verulega ábótavant. Ekkert komi fram þar um nýjan lóðarleigusamning við leyfishafa, sem sé í samræmi við teikningar hans sem gerðar hafi verið í ársbyrjun 2017. Þá hafi engin gögn verið lögð fram til stuðnings þeirri fullyrðingu að húsið sem áður hafi staðið á lóðinni hafi verið í líkingu við önnur hús í botnlanganum.

Málsrök Vestmannaeyjabæjar: Bæjaryfirvöld telja engin rök hníga að því að verða við kröfum kæranda. Framkvæmdin sé í fullu samræmi við eðlilega landnotkun og byggðamynstur. Rök kæranda um skerðingu á útsýni hafi ekki verið þess eðlis að byggingarleyfi yrði ekki gefið út og réttlæti alls ekki stöðvun framkvæmda. Útgáfa byggingarleyfis að undangenginni grenndarkynningu hafi að öllu leyti uppfyllt skilyrði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Fyrirhugað hús falli vel að byggðamynstri og götumynd, enda hafi það verið ein forsendna fyrir útgáfu byggingarleyfisins. Þekja íbúðarhluta hússins sé í austur-vestur, líkt og á öðrum húsum. Þekja bílskúrs muni snúa þvert á þak íbúðarhúss og það sé í fullu samræmi við þegar samþykktar framkvæmdir við götuna, þ.e. hús nr. 24 og 34 við Áshamar.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar sé eðlilegt miðað við svæðið og nágrenni þess. Nýtingarhlutfallið 0,15, sem fram komi í aðalskipulagi, eigi við um svæði ÍB-4 í heild sinni, en ekki einstakar lóðir. Umhverfis- og skipulagsráð hafi bent á þetta í niðurstöðu sinni 12. júní 2018, sem kærandi hafi vísað til í kæru. Fullyrðing kæranda um að nýtingarhlutfallið 0,20 sé mun hærra en nýtingarhlutfall nærliggjandi lóða standist ekki skoðun. Nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 34 við Áshamar sé samtals 0,24 og nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 36 sé 0,21. Kæranda geti ekki dulist að nýtingarhlutfall lóðanna á svæðinu sé ekki 0,15 þar sem nýtingarhlutfall lóðar hans sé það hæsta á svæðinu, eða 0,29. Tekið sé undir að kærandi hafi átt að vera aðili að upphaflegri grenndarkynningu. Úr því hafi verið bætt og kæranda verið gefið færi á að koma með athugasemdir við fyrirhugaða framkvæmd. Hann hafi því getað gætt réttar síns lögum samkvæmt. Athugasemdir hans hafi ekki þótt gefa tilefni til þess að hafa áhrif á útgáfu byggingarleyfis. Nýtingarhlutfallið 0,20 sé mjög hóflegt og skeri sig að engu leyti frá nærliggjandi húsum. Án stækkunar lóðarinnar hefði nýtingarhlutfall verið 0,24 sem bæjaryfirvöld telji í góðu samræmi við þær samþykktir sem gerðar hafi verið fyrir svæðið.

Ekki sé gerð athugasemd við staðhæfingu kæranda um hæð fyrirhugaðs húss miðað við önnur hús í götunni, en bent sé á að átt sé við hæð frá botnplötu. Önnur hús við götuna hafi verið byggð í tíð eldri byggingarreglugerða og óheimilt væri að byggja þau samkvæmt núgildandi lögum og byggingarreglugerð, t.d. vegna breyttra krafna um lofthæð og einangrun í þaki. Gólfkóti fyrirhugaðs húss sé 26,20, sá sami og eldra hússins. Á lóðinni nr. 34 sé hann 27,30 og 29,00 á lóð kæranda. Hann sé því lægri en annarra húsa við götuna og mun lægri en fasteignar kæranda. Við framkvæmdina sé núgildandi lögum og reglum fylgt. Kærandi geti ekki ætlast til þess að fyrirhugað hús verði eins og fyrra hús að öllu leyti þegar slík bygging samræmist ekki núgildandi lögum og reglum.

Í þéttbýli sé ekki hægt að gera ráð fyrir því að útsýni skerðist ekki vegna bygginga. Líta verði til þess hvaða væntingar fasteignaeigendur geti almennt haft á grundvelli málefna- og lagalegraforsendna. Kærandi hafi sjálfur fengið byggingarleyfi fyrir bílgeymslu þrátt fyrir athugasemdir um útsýnisskerðingu sem fram hafi komið við grenndarkynningu. Umsókn hans hafi fengið sömu meðferð og umsókn vegna hins kærða leyfis. Fullyrðing kæranda um verðrýrnun eignar vegna útsýnisskerðingar sé ekki studd neinum rökum og huglæg sjónarmið hans og væntingar geti ekki haft áhrif á niðurstöðu málsins. 

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að vegna strangra krafna núgildandi byggingarreglugerðar nr. 112/2012 hafi ekki fengist leyfi til að nota þann grunn sem fyrir hafi verið á lóðinni. Þetta geri að verkum að húsið verði 20 cm hærra en það hús sem áður hafi staðið þar. Reglur um einangrun innanhúss hafi jafnframt áhrif á hæð hússins.

Lóðarstærð sem fram komi á fyrstu teikningum sem lagðar hafi verið inn 14. febrúar 2017 sé sú stærð sem gefin hafi verið í upphafi. Leyfishafi geti ekki útskýrt hvers vegna lóðin hafi verið skráð minni í fasteignaskrá.

Íbúðarhúsið sé af hóflegri stærð, 145 m2, auk 40 m2 bílskúrs. Fyrirhugað hús sé sláandi líkt öðrum húsum í götunni, eins og lagt hafi verið upp með. Ljósmyndir sem kærandi hafi lagt fram séu villandi og beinlínis teknar með þeim hætti að villa um fyrir þeim sem um þetta mál muni fjalla. Eðlilegra hefði verið að taka myndir út um þann glugga sem kærandi telji útsýni sitt skerðast, ekki við lóðamörk eða af lóðum nágranna.

Þá hafi lóðarúthlutunin verið samþykkt af tveimur byggingarnefndum og tveimur bæjarstjórnum með öllum greiddum atkvæðum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi áréttar að hið fyrirhugaða hús muni gjörbreyta götumynd og skerða útsýni kæranda verulega. Vísað sé til álits löggilds fasteignasala, sem m.a. segi að útsýni vegi þyngra í verðmæti fasteigna úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu og að ekki leiki vafi á því að fyrirhugaðar byggingarframkvæmdir muni valda verulegri verðrýrnun á fasteign kæranda, auk þess að minnka sölumöguleika.

Stærð fyrirhugaðs húss m.t.t. annarra húsa í götunni byggi ekki á neinni þörf, hvorki almennings né annarra. Nýtingarhlutfallið rúmlega tvöfaldist. Það hafi mikil áhrif á skipulag lóðarinnar sem og næstu lóðir, auk þess að fela í sér inngrip í götumynd götunnar sem húsið standi við. Húsið verði mun hærra en önnur hús og breidd hæstu þekju mun meiri en annarra húsa í götunni. Þá sé hæð og hæsta þekja þeirra húsa sem byggt hafi verið við í götunni í samræmi við götumynd.

Skipulagsgögn þau sem umhverfis- og skipulagsráð byggi niðurstöðu sína á uppfylli ekki skilyrði skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Ekki liggi fyrir afstöðumynd eða þrívíddarmynd af byggingunni sem stjórnvaldið geti byggt ákvörðun sína á m.t.t. útlits, forms og áhrifa byggingarinnar á hagsmuni kæranda. Því hafi rannsóknarskyldu skv. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 ekki verið fullnægt. Vísi kærandi einnig til gr. 2.4. í skipulagsreglugerð hvað varði hlutverk skipulagsfulltrúa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi að Áshamri 32 í Vestmannaeyjabæ, en slík samþykkt er skilyrði útgáfu byggingarleyfis, skv. 2. gr. samþykktar nr. 991/2012 um afgreiðslur byggingarnefndar Vestmannaeyjabæjar, sbr. og 7. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði. Í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram sú meginregla að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Undanþágu frá þeirri skyldu er að finna í ákvæði 1. mgr. 44. gr. laganna. Þar segir að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir þá geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Upphaflega láðist að grenndarkynna fyrir kæranda en úr því var bætt og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum sem hann skilaði þann 6. júní 2018. Var hið kærða byggingarleyfi því veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt greindri 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 7. mars 2005, er lóðin nr. 32 við Áshamar á svæði merktu ÍB-4. Um svæðið segir m.a. að fullbyggt sé það 60.200 m2, að nýtingarhlutfall sé 0,15, að um blandaða byggð sé að ræða og að einbýlishús skuli vera á einni hæð. Hefur úrskurðarnefndin kynnt sér gögn varðandi svæðið, m.a. úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, og hefur staðreynt að það er langt frá því að vera fullbyggt miðað við aðalskipulag.

Húsin á lóðunum við Áshamar 2-60, slétt númer, eru við þrjár botngötur. Við Áshamar 22-40, sem er ein botngatnanna, standa hús sem öll voru byggð samkvæmt sömu grunnteikningum í kjölfar gosloka. Slíkt hús var einnig að Áshamri 32, en það mun hafa brunnið árið 1999. Byggt hefur verið við tvö hús í götunni, nr. 34 og 36. Lóðir við nefnda botngötu eru 750 m² að stærð, nema lóðirnar í botni götunnar, þ.e. nr. 30 og 32, sem voru 767 m². Lóðin Áshamar 32 hefur verið stækkuð úr 767 m2 í 923 m2, sbr. lóðarleigusamning, dags. 28. maí 2018, og meðfylgjandi samþykkt lóðarblað, dags. 5. október 2016. Skráning stærðar lóðarinnar er nú hin sama í fasteignaskrá. Húsið að Áshamri 32 mun verða einlyft einbýlishús, auk bílskúrs, og að lögum verður það svipað þeim húsum, breyttum sem óbreyttum, sem fyrir eru í botngötunni. Birt flatarmál hússins verður 185,5 m² og nýtingarhlutfall verður 0,20, en hefði að óbreyttri lóðarstærð verið 0,24. Nýtingarhlutfall lóða við nefnda botngötu er 0,13 nema á lóðunum nr. 34 og 36, þar sem byggt hefur verið við húsin. Er nýtingarhlutfall þar nú annars vegar 0,13 og hins vegar 0,21. Meðalnýtingarhlutfall í botngötu Áshamars nr. 2-20 er 0,23 og í botngötu kæranda, Áshamri nr. 42-60, er hlutfallið 0,26. Meðalstærð húsa í þeim botngötum er á bilinu 180 m2 til 190 m2. Götumynd í botngötu Áshamars nr. 22-40 er nokkuð heildstæð, þrátt fyrir að byggt hafi verið við tvö hús þar, en botngöturnar sín hvoru megin eru frábrugðnar hvað varðar stærð og lögun húsanna. Við mat á því hvort framkvæmd falli að byggðamynstri ber einkum að líta til hverfis í heild sinni, fremur en á einstakar götur innan þess, enda er m.a. tekið fram um 44. gr. í frumvarpi því sem varð að skipulagslögum að grenndarkynna skuli umsóknir um byggingar- og framkvæmdaleyfi í þegar byggðum hverfum þegar deiliskipulag liggi ekki fyrir. Þykir hin leyfða byggingarframkvæmd hvorki víkja frá götumynd botngötunnar þar sem húsið mun standa né frá byggðamynstri hverfisins.

Verður samkvæmt framangreindu talið að hin leyfða byggingarframkvæmd hafi verið í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Voru því skilyrði 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga uppfyllt og heimilt að grenndarkynna hina umþrættu umsókn.

Hið umdeilda hús verður staðsett á sama stað á lóðinni og húsið sem þar áður stóð. Hæð þess verður 4,92 m, en hæð annarra húsa við Áshamar nr. 22-40 er 4,35 m. Mismunurinn nemur því 0,57 m. Af hálfu leyfishafa og Vestmannaeyjabæjar hefur verið bent á að þennan mismun megi m.a. rekja til þess að núgildandi lög og byggingarreglugerð geri ríkari kröfur sem lúta að lofthæð og einangrun þaks. Verður ekki talið að fyrirhuguð mænishæð teljist óhófleg samkvæmt framangreindu, þrátt fyrir grenndaráhrif gagnvart kæranda. Þá verður einnig að líta til þess að umrædd botngata liggur í nokkrum halla og er lóð leyfishafa neðst í götunni. Miðast hæð húsanna við gólfkóta, en líkt og áður greinir er kótinn 26,20 á lóð leyfishafa en 29,00 á lóð kæranda. Verða áhrif hæðarmismunarins því minni en ella. Þá voru á lóð nr. 32 skýr ummerki um hið fyrra hús þegar kærandi keypti eign sína árið 2006. Lóðin er á skilgreindu íbúðasvæði í gildandi aðalskipulagi, sem tekið hafði gildi við kaup kæranda á sinni eign, og var lóðin enn fremur sýnd sem laus íbúðarhúsalóð í skipulaginu. Mátti kæranda því hafa verið ljóst að á lóðinni nr. 32 við Áshamar yrði eftir atvikum byggt aftur.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið er hinni kærðu ákvörðun hvorki áfátt að formi né efni og verður því hafnað kröfu kæranda um ógildingu hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að fella úr gildi ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 12. júní 2018 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóð nr. 32 við Áshamar, Vestmannaeyjabæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________                  ________________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                             Þorsteinn Þorsteinsson

68/2016 Frakkastígur

Með

Árið 2018, föstudaginn 20. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 68/2016, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 17. maí 2016 um að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahús að Frakkastíg 26A, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. júní 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir eigandi, Frakkastíg 26B, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 17. maí 2016 að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahúsi við Frakkastíg 26A, Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Einnig eru kærð „öll önnur brot Reykjavíkurborgar á [kæranda] er varða veitingahúsið Frakkastíg 26A“.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 22. júlí 2016 og í júní 2018.

Málavextir: Forsaga máls þessa er nokkur, en 12. maí 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um byggingarleyfi vegna hússins á lóðinni Frakkastíg 26A. Var m.a. samþykkt breytt notkun hússins úr íbúðarhúsi í veitingahús í flokki II. Að auki voru samþykktar breytingar á húsinu að innan og utan. Skaut kærandi máls þessa nefndri ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði 3. mars 2016 felldi hana úr gildi að því er laut að stækkun bíslags til norðurs og gerð skjólveggja og grindverks. Í kjölfarið var samþykkt breyting á deiliskipulagi svæðisins, sem kærandi hefur einnig kært til úrskurðarnefndarinnar og er það kærumál nr. 134/2016.

Umsókn um starfsleyfi fyrir veitingahús í flokki II að Frakkastíg 26A var móttekin hjá Reykjavíkurborg 9. desember 2015. Eftirlitsferð á vegum Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur fór fram 13. maí 2016 og er skýrsla vegna þessa dagsett sama dag. Var þar tekið fram að gestafjöldi sé 65, að sjá sé húsnæðið í samræmi við samþykktar teikningar og að samkvæmt teikningu séu útiveitingar á fimm borðum. Þá var fjallað um búnað í eldhúsi, hvaða matseld færi fram, reglur um óþol og ofnæmisvalda, ræstingu og þrif, meðferð matvæla og innra eftirlit. Á afgreiðslufundi heilbrigðiseftirlitsins 17. s.m. var starfsleyfisumsóknin tekin fyrir og var samþykkt að veita leyfi til 12 ára með starfsleyfisskilyrðum fyrir samkomuhús og fyrirvara um rekstrarleyfi sýslumanns. Sett var og skilyrði um að rekstraraðili gerði allt sem í hans valdi stæði til að koma í veg fyrir ónæði, sbr. reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti. Gaf framkvæmdastjóri heilbrigðiseftirlitsins út starfsleyfið sama dag. Er starfsleyfið sú ákvörðun sem kærð er í máli þessu.

Starfsemi og rekstur veitingastaða eru einnig háð rekstrarleyfi. Á nefndum afgreiðslufundi heilbrigðiseftirlitsins 17. maí 2016 var enn fremur lagt fram bréf Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 26. apríl s.á., þar sem óskað var umsagnar heilbrigðiseftirlitsins fyrir veitingastað í flokki II, ásamt útiveitingum til kl. 21:00. Var samþykkt að veita jákvæða umsögn, tekið fram að gestafjöldi væri 65 og sett skilyrði um að rekstraraðili gerði allt sem í hans valdi stæði til að koma í veg fyrir ónæði, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 og reglugerðar nr. 941/2002. Veitti byggingarfulltrúinn í Reykjavík einnig umsögn og óskaði þess að rekstrarleyfi yrði veitt til bráðabirgða til 12 mánaða þar sem unnið væri að deiliskipulagsbreytingu á svæðinu. Mun rekstrarleyfið hafa verið gefið út 25. maí 2016 til eins árs, frá 25. júní s.á. að telja. Skaut kærandi máls þessa þeirri ákvörðun til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem 14. nóvember 2017 felldi leyfið úr gildi. Taldi ráðuneytið m.a. að um slíka annmarka hefði verið að ræða að nauðsynlegt hefði verið að hafna útgáfu leyfis þar til niðurstaða hefði legið fyrir vegna deiliskipulagsbreytingarinnar, enda hefði ekki verið á færi umsækjanda að tryggja þá breytingu. Hinn 16. ágúst 2017 samþykkti sýslumaður nýtt rekstrarleyfi vegna Frakkastígs 26A. Hefur kærandi komið að kæru vegna þess til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en því máli mun ekki vera lokið hjá ráðuneytinu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að leyfisveiting hafi farið fram á röngum forsendum þar sem aðrir uppdrættir hafi fylgt umsókn en samþykktir hafi verið. Brjóti húsnæðið í bága við skilmála deiliskipulags, byggingarleyfis og samþykkta aðaluppdrætti. Uppfylli veitingahúsið ekki grunnskilyrði þess að fá útgefið leyfi í flokki II, en ónæði af starfseminni sé töluvert meira en rúmist innan þess ramma sem settur sé í deiliskipulagi og í lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Fyrirkomulag á lóð og útisvæði sé ekki í eðlilegu samhengi við starfsemi veitingahússins á þessum stað eða í næsta nágrenni. Á gildandi aðaluppdrætti segi að innandyra séu sæti fyrir 49 manns. Samkvæmt rekstrarleyfi megi vera 38 sæti innandyra á 1. hæð, 12 sæti á 2. hæð og 15 sæti utandyra eða samtals 65 sæti.

Engin raunveruleg eða fagleg mæling hafi verið gerð á hljóðvist eða lyktarmengun á milli húsa. Þess utan virðist sem engin hljóðvistarhönnun hafi verið gerð fyrir veitingahúsið og bresti því lagaheimild til að heimila rekstur veitingastaðarins, sbr. gr. 4.3.9. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vítavert sé að heimila rekstur veitingastaðar í húsi sem uppfylli ekki lögbundnar kröfur til eldvarna og eldhætta sé mikil. Sérstaklega þar sem fjarlægð milli veitingastaðarins og íbúðarhúsa sé undir 4 m. Ekki hafi verið haft samband við nágranna til að kynna þeim málið. Um óviðunandi lyktar- og hljóðmengun sé að ræða frá veitingahúsinu. Útisvæði þess sé mikið notað og ónæðið afar mikið. Sífelldur og hávær hvinur sé frá blásara á þaki bíslagsins/eldhússins. Umferðarréttur kæranda að lóð hans sé ekki virtur.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Engir form- eða efnisannmarkar séu á starfsleyfinu og því engar forsendur til að fella það úr gildi. Umrætt starfsleyfi hafi verið gefið út eftir að uppfyllt hafi verið ákvæði laga um matvæli nr. 93/1995 og laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim. Heilbrigðisfulltrúi hafi gert úttekt á húsnæðinu og aðstöðunni þar í samræmi við reglugerð nr. 941/2002 um hollustuhætti og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004. Við eftirlit hafi ekkert komið fram sem gefið hafi tilefni til að hafna umsókn um starfsleyfi eða fresta útgáfu þess. Heilbrigðisnefnd sé jafnframt umsagnaraðili til sýslumanns vegna útgáfu rekstrarleyfisins varðandi grenndaráhrif. Hafi jákvæð umsögn verið send sýslumanni 17. maí 2016 og sýslumaður gefið út rekstrarleyfi 25. s.m. Hafi þá starfsleyfið endanlega tekið gildi.

——-

Kærandi hefur í kjölfar kæru komið fjölda skjala að í málinu þar sem hann rekur með ítarlegum hætti forsögu málsins til nokkurra áratuga, sem og samskipti sín við stjórnvöld vegna málsins. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér skjölin en ekki er þörf á að reifa efni þeirra frekar hér.

Niðurstaða: Úrskurðarnefndin hefur það hlutverk skv. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á þessu sviði. Rísi ágreiningur um framkvæmd laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda er heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar í samræmi við 65. gr. laganna, áður 31. gr. þeirra. Nánar er kveðið á um málsmeðferð og kæruaðild í 4. gr. laga nr. 130/2011, en þar kemur t.a.m. fram í 1. mgr. ákvæðisins að fram þurfi að koma í kæru hvaða ákvörðun er kærð. Í kæru kemur fram krafa um ógildingu þeirrar ákvörðunar að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahúsi að Frakkastíg 26A og er það kæranleg ákvörðun. Kærandi kærir einnig „öll önnur brot Reykjavíkurborgar“ án nánari tilgreiningar. Svo sem áður er komið fram hefur úrskurðarnefndin kynnt sér fjölda skjala sem kærandi hefur komið að í málinu. Af þeim er ljóst að kærandi er afar ósáttur við framgöngu borgaryfirvalda vegna leyfisveitinga þeirra varðandi Frakkastíg 26A. Hins vegar verður ekki séð að við móttöku kærunnar hafi nokkur annar sá ágreiningur verið til staðar sem borinn verður undir úrskurðarnefndina. Þá gefa viðbótarathugasemdir kæranda í málinu ekki heldur tilefni til að álykta að nýtt kæruefni hafi komið fram þótt kærandi sé ósáttur við starfsemi þá sem fram fer í skjóli hinnar kærðu leyfisveitingar heldur benda gögn málsins til þess að ágreiningur aðila í máli þessu eigi rætur sínar að rekja til hins kærða starfsleyfis. Að öllu þessu virtu tekur úrskurðarnefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu þess.

Í máli þessu er því deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahúsi í flokki II að Frakkastíg 26A, sem gefið var út af framkvæmdastjóra eftirlitsins í samræmi við viðauka 2.2. við samþykkt nr. 715/2013 um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, með síðari breytingum. Fjallar viðaukinn um embættisafgreiðslur framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur án staðfestingar heilbrigðisnefndar.

Til veitingastaða í flokki II teljast umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, afgreiðslutími er ekki lengri en til kl. 23:00 og kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sem í gildi var við veitingu starfsleyfisins. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 4. gr. a. í lögum nr. 7/1998 skyldu fyrirtæki og önnur starfsemi sem talin eru upp í fylgiskjali III með lögunum hafa gilt starfsleyfi gefið út af heilbrigðisnefnd og fellur starfsemin að Frakkastíg 26A undir þá skyldu. Sambærilegt ákvæði er að finna í 7. gr. reglugerðar nr. 941/2002 um hollustuhætti. Í 8. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um hvaða gögn skuli fylgja með umsókn um starfsleyfi og er þar m.a. áskilið að uppdrættir af staðsetningu fylgi umsókn. Þá skal húsnæðið hafa hlotið samþykkt byggingarnefndar, sbr. þágildandi ákvæði 14. gr. reglugerðarinnar sem við á í máli þessu.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrædd lóð á íbúðarsvæði ÍB11. Á þeim tíma er hin kærða ákvörðun var tekin var Frakkastígur skilgreindur sem aðalgata. Um íbúðarsvæði sagði svo í aðalskipulaginu að þar væri almennt gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu og gætu veitingastaðir í flokki I og eftir atvikum í flokki II fallið undir þá skilgreiningu. Innan skilgreindra íbúðarsvæða væri mögulegt að gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi enda væri um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki ylli ónæði. Meðfram aðalgötum væri heimil fjölbreyttari landnotkun. Verslun og þjónusta á jarðhæðum gæti verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II. Opnunartími allra veitingastaða skyldi takmarkast við kl. 23:00. Að framangreindu virtu fer heimiluð starfsemi að Frakkastíg 26A ekki í bága við gildandi skipulagsáætlun sem gerir beinlínis ráð fyrir því að starfsemi sú sem heimiluð er með hinu kærða starfsleyfi sé samrýmanleg búsetu á sama svæði. Það leysir heilbrigðisyfirvöld borgarinnar þó ekki undan þeirri skyldu að meta hverju sinni hvort starfsemi sú sem sótt er um leyfi fyrir valdi slíku óhagræði fyrir nágranna að rétt sé að leyfa hana ekki. Þannig er t.a.m. tekið fram í gr. 5.3.2.8. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að gæta skuli þess að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum vegna bílaumferðar, hávaða, ljósanotkunar eða annars ónæðis. Þá er það meðal hlutverka heilbrigðisnefnda að hafa eftirlit með framkvæmd reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Hið kærða starfsleyfi er bundið ákveðnum skilyrðum sem miða að því að koma til móts við kvartanir nágranna um aðkomu og lóð, mengun og hávaða. Er og sérstaklega tekið fram í tilkynningu til leyfishafa um starfsleyfið, dags. 17. maí 2016, að skilyrt sé að rekstraraðili geri allt sem í hans valdi standi til að koma í veg fyrir ónæði, sbr. ákvæði reglugerðar nr. 724/2008 og reglugerðar nr. 941/2002. Verður að telja með tilliti til þessa að skyldubundið mat Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, m.a. á grenndarhagsmunum kæranda, hafi farið fram með fullnægjandi hætti áður en starfsleyfið var gefið út. Hefur þá einnig verið höfð hliðsjón af því að um eitthvað ónæði er ávallt að ræða í þéttbýli og að um mörk miðborgarkjarna, blandaðrar miðborgarbyggðar og íbúðarbyggðar og hreinnar íbúðarbyggðar sé að ræða.

Hinn 12. maí 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um leyfi til að breyta notkun á Frakkastíg 26A úr íbúðarhúsnæði í veitingastað í flokki II, auk breytinga á húsinu að innan sem utan. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu felldi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ákvörðunina úr gildi að hluta, þ.e. vegna stækkunar bíslags fast upp að mörkum lóðar kæranda og vegna skjólveggja og grindverks á lóðarmörkum kæranda og leyfishafa, en að öðru leyti var ekki hróflað við gildi ákvörðunarinnar. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar var því til staðar gild samþykkt byggingarfulltrúa, m.a. um breytta notkun hússins. Var byggingarleyfi svo samþykkt að nýju 22. nóvember 2016 að undangenginni deiliskipulagsbreytingu, sem einnig hefur verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður greinir. Þá lá fyrir við meðferð máls þessa jákvæð umsögn byggingarfulltrúa frá 4. maí 2016 fyrir veitingahúsi í flokki II að Frakkastíg 26A. Var í umsögninni vísað til yfirferðar á samþykktum aðaluppdráttum, til laga nr. 85/2007 og tilgreindra reglugerða, sem og til byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Hinn 13. maí 2016 fór fram skoðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á húsnæðinu og er tekið fram í eftirlitsskýrslu að húsnæðið sé að sjá í samræmi við samþykktar teikningar. Einnig er tekið fram að gestafjöldi sé 65. Í byggingarlýsingu byggingarleyfis sem þá var í gildi kom fram að sæti fyrir gesti yrðu á báðum hæðum hússins, alls 49 talsins, en á samþykktum aðaluppdráttum eru þau sögð 48. Hins vegar er einnig tekið fram í eftirlitsskýrslu að veitingaborð utanhúss séu fimm talsins og verður að líta svo á að það skýri með fullnægjandi hætti misræmi í tilgreindum gestafjölda. Gerir síðar útgefið byggingarleyfi frá 22. nóvember 2016 ráð fyrir 50 sætum innandyra og 15 sætum utandyra, eða alls 65 sætum.

Að öllu framangreindu virtu voru skilyrði laga til útgáfu hins kærða starfsleyfis uppfyllt og verða ekki taldir þeir annmarkar á málsmeðferð og efni þess sem raskað geta gildi leyfisins. Við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar var gerður fyrirvari um rekstrarleyfi sýslumanns. Fram hefur komið að ákvörðun sýslumanns frá 25. maí 2016 um að samþykkja rekstrarleyfi var ógilt með úrskurði atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins 14. nóvember 2017. Áður, eða 16. ágúst 2017, hafði sýslumaður samþykkt nýtt rekstrarleyfi og sætir það nú einnig kæru til ráðuneytisins. Hefur því ekki verið hnekkt og hefur niðurfelling eldra rekstrarleyfis ekki áhrif á gildi hins kærða starfsleyfis. Verður kröfu kæranda um ógildingu starfsleyfisins því hafnað.

Ákvörðun um veitingu rekstrarleyfis fyrir veitingastarfsemi þá sem um er deilt í máli þessu var tekin af Sýslumanni höfuðborgarsvæðisins með heimild í lögum nr. 85/2007. Við málsmeðferð umsókna um slík rekstrarleyfi skal sýslumaður leita tilgreindra umsagna áður en umsókn er afgreidd, sbr. 10. gr. nefndra laga. Slíkar umsagnir hafa verið veittar af heilbrigðiseftirlitinu, hvort tveggja vegna þess rekstrarleyfis er síðar var fellt úr gildi 14. nóvember 2017, sem og vegna rekstrarleyfis frá 16. ágúst s.á. Getur hin síðar veitta umsögn eftir atvikum komið til skoðunar við lögmætisathugun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins en verður ekki borin undir úrskurðarnefndina, þar sem aðeins þær ákvarðanir sem binda endi á mál verða bornar undir kærustjórnvald samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Loks skal á það bent að í 60. gr. reglugerðar nr. 941/2002 er tekið fram að eftirlit heilbrigðiseftirlits felist m.a. í því að framfylgja ákvæðum laga, reglugerða og starfsleyfa, sem heilbrigðisnefnd sé falið. Séu vanhöld á því að skilyrðum starfsleyfisins sé fylgt eða þeim framfylgt getur eftirlitsaðili í þeim tilvikum beitt ákveðnum úrræðum, svo sem gert kröfu um úrbætur eða stöðvað starfsemi þar til úr hefur verið bætt, sbr. XVIII. kafla reglugerðarinnar þar um. Einnig er skv. 10. gr. reglugerðarinnar heimilt að endurskoða starfsleyfið að jafnaði á fjögurra ára fresti sé það gefið út til lengri tíma en fjögurra ára. Telji kærandi enn á sér brotið vegna áframhaldandi starfsemi getur hann beint því til borgaryfirvalda að sinna eftirliti sínu, en af gögnum málsins verður ráðið að það hafi hann gert og að við því hafi verið brugðist, m.a. með eftirliti í október 2017, löngu eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni. Kærandi hefur haft ýmislegt við það eftirlit að athuga, s.s. fram kemur í athugasemdum hans til úrskurðarnefndarinnar. Það verður þó ekki séð hvort eða með hvaða hætti hann hefur komið þeirri skoðun sinni á framfæri við heilbrigðisyfirvöld borgarinnar. Telji hann svo vera og að við því hafi ekki verið brugðist getur kærandi eftir atvikum komið að kæru til nefndarinnar vegna dráttar á afgreiðslu máls, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála, m.a. þessa, sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 17. maí 2016 um að samþykkja starfsleyfi fyrir veitingahús að Frakkastíg 26A, Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                         Þorsteinn Þorsteinsson

 

134/2016 Frakkastígur

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 24. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 134/2016, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 29. september 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Frakkastíg 26 (26B), Reykjavík, „alla stjórnsýslu Reykjavíkurborgar“. Með bréfi til kæranda, dags. 3. október s.á., óskaði úrskurðarnefndin skýringa á því hvert kæruefnið væri. Jafnframt var tekið fram að ef ekki væri um að ræða nýja kæru yrði litið svo á að um væri að ræða frekari gögn og rök kæranda í kærumáli nr. 68/2016, er varðaði kæru hans á starfsleyfi fyrir veitingastað við Frakkastíg 26A. Í kjölfarið, eða 14. október 2016, barst nefndinni sameiginleg kæra eigenda, Frakkastíg 24A, á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg. Er gerð krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi. Er það hin kærða ákvörðun í máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. nóvember 2016.

Málavextir: Frakkastígur 26A er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Kárastígsreits austur, staðgreinireitur 1.182.3, frá árinu 2008. Samkvæmt skilmálum þess er umrædd lóð fullbyggð og nýtingarhlutfall hennar 0,8 en í almennum skilmálum deiliskipulagsins eru veittar ákveðnar byggingarheimildir fyrir allar lóðir þar sem aðstæður leyfa og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Hinn 12. maí 2015 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um leyfi fyrir breyttri notkun húss á umræddri lóð, úr íbúðarhúsi í veitingahús í flokki II. Að auki voru samþykktar breytingar á húsinu að innan og utan, svo sem stækkun kvista og bygging bíslags til norðurs. Var ákvörðunin kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði 3. mars 2016 í kærumáli nr. 99/2015 felldi ákvörðunina úr gildi að þeim hluta er varðaði stækkun bíslagsins og gerð skjólveggja og grindverks, þar sem ekki hefði legið fyrir samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða fyrir þessum framkvæmdum, svo sem áskilið væri í deiliskipulagi.

Hinn 22. apríl 2016 var á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa samþykkt að grenndarkynna tillögu að breytingu á deiliskipulagi umræddrar lóðar. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 13. maí s.á. var sú samþykkt afturkölluð og ákveðið að grenndarkynna nýja tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Frakkastíg 24A, 24B, 26 og 26B. Tók sú tillaga til lóðanna Frakkastígs 26 og 26A en aðeins var gert ráð fyrir breyttum skilmálum lóðarinnar nr. 26A. Bárust athugasemdir á kynningartíma tillögunnar frá kærendum máls þessa og var þeim vísað til umsagnaraðila. Málið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 1. júlí 2016 og því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs sem tók það fyrir 17. ágúst s.á. Var tillagan samþykkt með vísan til umsagnar umhverfis- og skipulagssviðs, dags. 30. júní 2016. Birtist auglýsing um samþykktina í B-deild Stjórnartíðinda 15. september 2016. Í breytingunni felst m.a. að heimilt er að stækka húsið að Frakkastíg 26A sem nemur 5,3 m², ásamt því að byggja svalir og kvisti. Jafnframt er tekið fram að heimilt sé að vera með veitingastað í flokki II í húsinu. Einnig séu færðar inn réttar lóðarstærðir fyrir báðar lóðirnar samkvæmt lóðarblaði, dags. 30. nóvember 2015. Loks er tilgreint að skerpt sé á skilyrðum um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að starfsemi veitingahúss á lóðinni fylgi gríðarlegt ónæði sem skerði lífsgæði þeirra verulega. Sé hagsmunum þeirra verulega raskað vegna hávaða, lyktarmengunar, skuggavarps og umgangs gesta á svæðinu. Freklega sé gengið á rétt nágranna og rétt þeirra til friðhelgi einkalífs og hefðbundins útsýnis frá húsum þeirra. Hafi kærendur ekki veitt samþykki sitt fyrir umræddum breytingum. Taka hafi þurft tillit til þess hve fjarlægð milli húsa á viðkomandi lóðum sé lítil og því séu áhrifin mun meiri.

Hljóð- og lyktarmengun frá umræddu húsi sé óviðunandi. Ekkert tillit hafi verið tekið til þessara þátta við meðferð málsins eða málið verið rannsakað. Hafi sveitarfélagið með því brotið gegn ákvæðum 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Séu dyr á eldhúsi er snúi að lóð Frakkastígs 26 oft opnar og aðföng og hráefni geymt utandyra. Mikill hávaði sé frá loftblásara á bíslagi hússins, en einnig sé mikið ónæði vegna gesta á svölum og í garði veitingahússins. Umferðarréttur að húsi annars kærenda sé ekki virtur. Því sé harðlega mótmælt að samþykkja eigi nú breytingar sem felldar hafi verið úr gildi.

Ekkert mat á skuggavarpi hafi verið unnið við meðferð málsins en það hafi aukist mikið á lóðum kærenda, m.a. vegna bíslagsins. Hafi hvorki verið tekið tillit til þessa atriðis né síðari tillagna kærenda um meðalhóf sem fælust í annarri útfærslu á bíslaginu. Af þessu sökum hafi skuggavarp orðið meira en réttmætt sé. Lögboðið bil milli húsa sé ekki virt og engar eðlilegar ástæður gefnar fyrir því. Notagildi lóða kærenda hafi verði skert og verðgildi fasteigna þeirra rýrt verulega. Gerðar séu alvarlegar athugasemdir við brunavarnir og aðkomu slökkviliðs og sé bent á gr. 9.8.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 í því sambandi. Gaflar hússins, hliðar þess og þak hafi verið hækkuð og kvistur á bakhlið hússins sé stærri en samþykktar teikningar segi til um. Kvistir séu staðsettir alveg að þakbrún, en ekki í 0,5 m fjarlægð eins og áskilið sé varðandi bakhlið hússins. Viðbygging við bíslag sé alveg á lóðamörkum og þykk einangrun og múrhúð stytti enn frekar bilið milli þeirra húsa sem um ræði. Klæðningin sé eldmatur. Viðbyggingin sé ekki í samræmi við deiliskipulag frá árinu 2008. Breyting á hámarksnýtingarhlutfalli lóðarinnar geti ekki farið gegn viðmiðum skipulags án samþykkis eigenda nærliggjandi lóða. Skerði breyting á nýtingarhlutfalli rétt kærenda. Fyrir hendi sé leyfi lóðarhafa Frakkastígs 24A til að byggja forstofu út í garðinn en verði bíslagið stækkað verði 1 m á milli húsanna. Túlka beri heimildir aðalskipulagsins um starfsemi veitingastaða við aðalgötu í íbúðarbyggð þröngt. Þá sé nauðsynlegt að halda skika þeim sem reisa eigi viðbygginguna á óbyggðum m.a. vegna þess hversu stutt sé á milli húsa og vegna útsýnis út á götu.

Sérstakar athugasemdir séu gerðar við umsögn skipulagsfulltrúa, en þar sé að finna nokkrar rangfærslur. Þar sé því haldið fram að um umfangslitla starfsemi sé að ræða, en ónæðið sem fylgi starfseminni sé langt umfram það. Veitingahúsið sé við hliðina á stóru hóteli og við einn fjölfarnasta ferðamannastað í borginni og sé umgangur og aðsókn ferðamanna á veitingastaðinn afar mikil. Um skert útsýni sé að ræða úr stofuglugga en ekki um eldhúsglugga líkt og segi í umsögn. Talað sé um eina lóð þegar um tvær sé að ræða. Ekki sé útskýrt hvers vegna ekki sé lengur þörf á samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða. Hafi aðeins hluti athugasemda verið settur fram á afgreiðslufundi umhverfis- og skipulagsráðs og fundarmenn blekktir. Þá sé búið að rifta samkomulagi milli eigenda Frakkastígs 26 og 26A vegna vanefnda eiganda að Frakkastíg 26A.

Reykjavíkurborg hafi ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu. Stjórnsýsla borgarinnar hafi verið óvönduð, bréfum ekki verið svarað og skort hafi á upplýsingar. Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar hafi verið brotið. Hagsmunir annarra hafi verið settir í forgang. Uppdráttur deiliskipulagsins sé ekki réttur og nýtingarhlutfall lóðarinnar rangt skráð.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Málið sé ekki þannig vaxið að ógildingu varði. Ekkert hafi komið fram í málinu er leitt geti til þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Ekki sé fallist á að umrædd breyting hafi stórkostleg neikvæð áhrif á hagsmuni eigenda aðliggjandi lóða. Standi húsið að Frakkastíg 26A við skilgreinda aðalgötu samkvæmt aðalskipulagi og gildi því rýmri landnotkunarheimildir, en heimilt sé að vera með veitingastað í flokki II á lóðinni. Í 4. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald séu veitingahús í flokki II skilgreindir sem umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin sé ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist. Afgreiðslutími sé ekki lengri en til kl. 23:00 og kalli ekki á mikið eftirlit eða löggæslu. Sé núverandi kvöð á lóðinni um umferð að Frakkastíg 26 óbreytt.

Útsýnisskerðing sé ekki umfram það sem íbúar í þéttri byggð megi búast við, enda geti menn ekki vænst þess að aðstæður og byggingar á lóðum verði óbreyttar um aldur og ævi. Athugasemdir varðandi stærð hússins, hvort framkvæmt hafi verið í ósamræmi við samþykkta uppdrætti, hvort óeðlilegur hávaði sé frá blásara og hvort umferðarréttur sé nýttur undir aðföng hafi ekki áhrif á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá sé bent á að með samkomulagi milli eigenda Frakkastígs 26A og Frakkastígs 26 hafi annar kærenda samþykkt tilteknar breytingar sem hann geri nú athugasemdir við. Liggi ekkert fyrir í málinu um að sá samningur sé ekki í gildi milli aðila.

Athugasemdir lóðarhafa Frakkastígs 26A:
Lóðarhafi krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Málsmeðferð Reykjavíkurborgar hafi í hvívetna verið samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013. Athugasemdum kærenda hafi verið skilmerkilega svarað af hálfu skipulagsfulltrúa og sé tekið undir sjónarmið hans. Standi tilvísun umsagnarinnar til samkomulags annars kærenda og lóðarhafa frá 16. mars 2016, enda sé það enn í fullu gildi og „riftunaryfirlýsing“ að engu hafandi. Því sé mótmælt að lóðarhafi hafi vanefnt samkomulagið. Umrætt samkomulag hafi verið forsenda þess að gerð hafi verið breyting á deiliskipulagi svæðisins. Því hafi fylgt teikning af veitingastaðnum sem fallist hafi verið á. Fyrir liggi samþykki nágranna að Frakkastíg 24 og Skólavörðustíg 45 fyrir stækkun bíslags, byggingu geymsluskúra og skúra undir ruslatunnur. Nefnt bíslag hafi verið samþykkt í fyrrgreindu samkomulagi. Sé því hafnað að það valdi meira skuggavarpi en almennt gerist í þéttri byggð, skerði útsýni og notagildi lóða kærenda eða rýri verðgildi fasteigna þeirra. Víðast hvar í miðborg Reykjavíkur sé fjarlægð milli húsa ekki mikil. Hafi slíkt ekki áhrif á þær heimildir sem lóðarhafi hafi að lögum og samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Samkvæmt núgildandi deiliskipulagi sé samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða aðeins nauðsynlegt þegar byggt sé utan skilgreinds byggingarreits og nær lóðamörkum en 3 m en svo hátti ekki hér. Þurfi breyting á nýtingarhlutfalli ekki samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Að Frakkastíg 26A sé starfræktur hófstilltur veitingastaður í flokki II og bendi ekkert til þess að hljóð- og lyktarmengun frá honum sé meiri en gangi og gerist um slíka veitingastaði. Gert sé ráð fyrir svölum á húsinu og útisvæði í samkomulagi aðila og sé ekkert óeðlilegt við þau svæði. Fullkomið brunavarnarkerfi sé inni á veitingastaðnum og aðkoma að húsinu eftir aðalgötu mjög góð. Því sé andmælt að eldhúsdyr séu oft opnar og að aðföng og hráefni séu oft geymd utandyra. Jafnframt sé því mótmælt að loftblásari á húsinu sé mjög hávær eða að ónæði sé vegna ferðamanna. Því sé hafnað að húsið sé í ósamræmi við teikningar. Sé gerður fyrirvari við þær mælingar á vegalengd á milli húsa sem greini í kæru, en við mælingu borgarinnar hafi engar athugasemdir verið gerðar. Sé einhver munur á milli teikninga og þess sem sé í raun sé hann mjög óverulegur. Geti fyrrgreind atriði ekki haft áhrif á gildi deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá snúi dyr á eldhúsi inn á lóð nr. 26A, en ekki að lóðinni nr. 26. Loks sé bent á að ekki hafi borist neinar kvartanir vegna starfsemi veitingastaðarins frá hóteli sem sé til húsa að Skólavörðustíg 45, en herbergi hótelgesta snúi að porti og svölum veitingastaðarins.

——-

Annar kærenda hefur í kjölfar kæru komið fjölda skjala að í málinu þar sem hann rekur með ítarlegum hætti forsögu þess til nokkurra áratuga, sem og samskipti sín við borgaryfirvöld. Jafnframt færir hann fram frekari sjónarmið máli sínu til stuðnings. Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér skjölin en ekki er þörf á að reifa efni þeirra frekar hér.

——-

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti 20. júlí 2018.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 17. ágúst 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg. Svo sem áður er rakið kærði annar kærenda í upphafi „alla stjórnsýslu Reykjavíkurborgar“, en í kjölfar fyrirspurnar úrskurðarnefndarinnar um kæruefni barst ný kæra sem lýtur að nefndri deiliskipulagsbreytingu. Sætir aðeins hin kærða breyting lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar en ekki fyrrnefnt deiliskipulag sem tók gildi á árinu 2008. Sætti það raunar kæru að hluta af hálfu annars kærenda, en hafnað var kröfu hans um ógildingu með úrskurði úrskurðarnefndarinnar 15. desember 2010 í kærumáli nr. 120/2008.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna. Ekki er áskilið að sveitarstjórn afli samþykkis landeiganda vegna skipulagsákvarðana sem varða eignir þeirra, s.s. annar kærenda heldur fram, enda verður eignarréttindum ekki ráðstafað með skipulagsáætlunum. Sem endranær verða þó að liggja málefnalegar forsendur að baki slíkum ákvörðunum. Verður að telja að svo hátti til hér, en fyrir liggur að ástæða þess að deiliskipulagsbreytingin tók einnig til lóðar annars kæranda var sú að í deiliskipulagi frá 2008 mun ranglega hafa verið talið að um eina lóð væri að ræða, en með breytingunni voru færðar inn lóðarstærðir fyrir báðar lóðir samkvæmt lóðarblaði, dags. 30. nóvember 2015.

Við beitingu skipulagsvalds ber þess að gæta að breytingar á deiliskipulagi rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, og að stefnt sé að lögmætum markmiðum með breytingunni. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin að Frakkastíg 26A á íbúðarsvæði, ÍB 11. Við meðferð og gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var Frakkastígur skilgreindur sem aðalgata. Gerði aðalskipulagið ráð fyrir að á þeim svæðum væri almennt gert ráð fyrir íbúðarbyggð ásamt tilheyrandi nærþjónustu og gætu veitingastaðir í flokki I, og eftir atvikum í flokki II, fallið undir þá skilgreiningu. Innan skilgreindra íbúðarsvæða væri mögulegt að gera ráð fyrir fjölbreyttri atvinnustarfsemi, enda væri um að ræða þrifalega starfsemi sem ekki ylli ónæði. Meðfram aðalgötum væri heimil fjölbreyttari landnotkun. Verslun og þjónusta á jarðhæðum gæti verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II. Opnunartími allra veitingastaða skyldi takmarkast við kl. 23:00. Eins og fyrr greinir er starfræktur veitingastaður í flokki II að Frakkastíg 26A og er tiltekið í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu að heimilt sé að vera með veitingastað í þeim flokki í húsinu. Að framangreindu virtu var áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana fullnægt.

Tillaga að hinni umdeildu breytingu var grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga, en samkvæmt því ákvæði er heimilt að grenndarkynna óverulega breytingu á deiliskipulagi að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Skal við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis. Sambærilegt ákvæði er að finna í gr. 5. 8. 2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013, en þar er jafnframt tilgreint að meta skuli hvort um fordæmisgefandi breytingu sé að ræða eða breytingu er varði almannahagsmuni.

Í gildandi deiliskipulagi Kárastígsreits austur, staðgreinireit 1.182.3, segir að lóðin sé fullbyggð og nýtingarhlutfall hennar 0,8. Með hinni kærðu ákvörðun er m.a. heimilað að stækka húsið við Frakkastíg 26A sem nemur 5,3 m² og er hámarksnýtingarhlutfall A-, B- og C-rýma 0,97. Samkvæmt almennum skilmálum deiliskipulagsins má byggja kvisti á risþök og skal fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1,0 m. Með breytingunni er heimilað að vera með einn kvist á hvorri hlið og skal hann vera miðjusettur á framhlið hússins en staðsetning á bakhlið skal vera a.m.k. 0,5 m frá enda. Þá er ekki gerður áskilnaður um að svalir séu með gleri líkt og er í almennum skilmálum deiliskipulagsins. Heimilt er að vera með torfþak og hækka þakið sem því nemur og að vera með veitingastað í flokki II í húsinu, eins og áður greinir. Þá segir í greinargerð með deiliskipulagsbreytingunni að færðar séu inn réttar stærðir fyrir lóðirnar Frakkastíg 26 og 26A samkvæmt lóðarblaði, dags. 30. nóvember 2015. Loks er skerpt á skilyrðum um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða í gildandi deiliskipulagi, en það sé aðeins nauðsynlegt ef byggt sé utan skilgreinds byggingarreits og nær lóðamörkum en 3 m. Núverandi kvöð um umferð að Frakkastíg 26 er óbreytt.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður að telja skipulagsbreytinguna óverulega breytingu í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga þrátt fyrir að nýtingarhlutfall lóðarinnar hækki nokkuð, en þær skýringar eru gefnar í greinargerð með skipulagsbreytingunni að við uppmælingu á húsinu óbreyttu hafi komið í ljós að nýtingarhlutfallið væri 0,92 en ekki 0,8. Einnig er tiltekið að heimilt sé að hækka nýtingarhlutfall A-rýmis í 0,94 með viðbyggingunni og með svölum, A- og C-rými, verði nýtingarhlutfall 0,97. Er og til þess að líta að samkvæmt gildandi deiliskipulagi er meðalnýtingarhlutfall á svæðinu 1,36 og er það mjög mismunandi eftir lóðum, var því ekki um fordæmisgefandi breytingu að ræða. Þá er notkun í samræmi við heimildir aðalskipulags, svo sem áður hefur komið fram, og ekki verður séð að stækkun byggingarreits um 5,3 m² og bygging viðbyggingar með hámarkshæð 2,95 m víki svo nokkru nemi frá útliti og formi viðkomandi svæðis.

Íbúðarbyggð er skilgreind á þann veg í gr. 6.2. í skipulagsreglugerð að um sé að ræða svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins. Skal gæta þess að atvinnustarfsemi í íbúðarbyggð valdi sem minnstum óþægindum, m.a. vegna hávaða, ljósanotkunar og annars ónæðis, sbr. gr. 5.3.2.8. skipulagsreglugerðar. Fyrir liggur að kærendur telja að verulegt ónæði sé af starfseminni og að gengið sé gegn grenndarhagsmunum þeirra. Kærendur telja enn fremur að umsögn skipulagsfulltrúa, vegna athugasemda þeirra hafi ekki gefið rétta mynd af alvarleika málsins, en að auki hafi ýmsum athugasemdum kærenda ekki verið svarað. Komu kærendur að fjölmörgum athugasemdum, m.a. að nýtingarhlutfall lóðarinnar væri rangt og uppdráttur deiliskipulagsins væri villandi, auk þess sem því var mótmælt að byggt yrði á þeim skika sem gert væri ráð fyrir að reisa viðbygginguna, þar eð skuggavarp myndi aukast og útsýni minnka. Jafnframt var tekið fram að heimild sú sem veitt væri í aðalskipulagi um starfsemi veitingastaðar í íbúðarbyggð væri undantekning sem túlka bæri þröngt og íbúum í hag.

Eins og áður hefur verið rakið samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík breytta notkun hússins að Frakkastíg 26A árið 2015 og stóð sú ákvörðun óhögguð í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í mars 2016. Gáfu athugasemdir um breytta notkun umrædds húss því ekki tilefni til ítarlegri svara af hálfu borgaryfirvalda. Hvað athugasemdir um áhrif þess að byggja á skika þeim sem áður var ónýttur lutu svör borgarinnar fyrst og fremst að útsýnisskerðingu, en ekki var vikið sérstaklega að skuggavarpi. Fallast má á að aukið skuggavarp geti orðið vegna heimilaðrar viðbyggingar, en ekki verður séð að það hafi verið kannað sérstaklega við vinnslu og meðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Æskilegt hefði verið að kanna þau grenndaráhrif nánar og taka afstöðu til þeirra athugasemda kærenda þar að lútandi. Þegar litið er til stærðar viðbyggingarinnar og þess sem þegar hefur verið heimilað með fyrri ákvörðunum, og ekki sætir endurskoðun hér, verður þó ekki talið að um ógildingarannmarka sé að ræða, en greinargerð um skuggavarp mun hafa verið meðal fylgiskjala við gerð gildandi deiliskipulags frá árinu 2008.

Gert er ráð fyrir svölum á suðurhlið hússins Frakkastígs 26A. Þrátt fyrir að lóðir kærenda séu norðan og austan við umrædda lóð er ljóst að opnar svalir með aðgengi frá veitingastað eru til þess fallnar að valda nágrönnum ónæði umfram það sem almennt má búast við í íbúðarbyggð. Til þess er þó að líta að lóðin Frakkastígur 26A er í íbúðarbyggð við mörk miðborgarkjarna og blandaðrar miðborgarbyggðar og íbúðarbyggðar. Verður og ekki fram hjá því litið að sveitarstjórnir hafa að lögum víðtækt skipulagsvald. Gildi deiliskipulagsbreytingarinnar verður því ekki raskað þótt hún hafi ótvíræð áhrif á grenndarhagsmuni kærenda, en rétt þykir að benda á að geti þeir sem eiga hagsmuna að gæta sýnt fram á tjón vegna breytinga á deiliskipulagi þá geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina. Þá verður ekki talið að heimilaðar breytingar muni að marki raska grenndarhagsmunum kærenda að öðru leyti, svo sem vegna skerðingar á útsýni, auk þess sem kvöð um umferð að lóð hans er óbreytt.

Loks eru þær breytingar sem heimilaðar voru með skipulagsákvörðuninni ekki þess eðlis að þær hafi áhrif á aðkomu slökkviliðs frá því sem áður var. Heimiluð viðbygging verður á lóðamörkum, rétt eins og bíslag það sem fyrir var, og því vart um minna bil að ræða milli húsa nema á þeim skika sem nú er heimilt að nýta. Nýti kærendur sér byggingarheimildar sínar samkvæmt skipulagi verður vissulega minna bil milli þeirra bygginga og viðbyggingarinnar, en til þess er að líta að ekki er til að dreifa ákvæðum í lögum eða reglugerðum sem kveða á um lágmarks fjarlægð milli húsa. Þó er í gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 vísað til þess sem meginreglu að bil á milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið svo ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra, en að öðru leyti eru settar viðmiðunarreglur um lágmarksfjarlægð miðað við brunaálag og brunavarnir. Koma þessar reglur fyrst og fremst til skoðunar við veitingu byggingarleyfis, en í gr. 5.3.2. í skipulagsreglugerð er einnig kveðið á um að við gerð deiliskipulags skuli þess gætt að unnt sé að framfylgja sérstökum kröfum sem gerðar séu í öðrum lögum og reglugerðum, s.s. kröfum um heilsu og öryggi, og skal samráð haft við umsagnaraðila og fagstofnanir til að tryggja framfylgd þeirra krafna. Kemur og fram í gögnum málsins að Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hafi haft aðkomu að málinu vegna leyfisveitinga og úttekta á húsnæðinu Frakkastíg 26A áður en til hinnar kærðu deiliskipulagsákvörðunar kom. Þrátt fyrir athugasemdir slökkviliðsins um frágang veggjar á lóðamörkum verður ekki talið að nauðsyn hafi borið til um frekara samráð á því stigi málsins, en eftir atvikum gátu athugasemdirnar gefið tilefni til nánari athugunar og eftirlits af hálfu byggingarfulltrúa.

Að öllu framangreindu virtu þykir hin kærða deiliskipulagsákvörðun ekki haldin þeim form- eða efnisannmörkum sem leitt geti til ógildingar hennar.

Það athugist að lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar einskorðast við hina kærðu ákvörðun, en svo sem áður er fram komið hafa kærendur einnig gert ýmsar athugasemdir við hinar umdeildu framkvæmdir, svo sem um brunavarnir og óleyfisframkvæmdir sem alla jafna lúta eftirliti byggingarfulltrúa. Að áliti nefndarinnar er þar ekki um að ræða sjálfstæð kæruefni, enda verður af gögnum málsins, sem úrskurðarnefndin hefur kynnt sér, ekki ráðið að fyrir liggi kæranleg ákvörðun, s.s. synjun um að beita þvingunarúrræðum. Verður ekki heldur séð að umkvartanir kærenda þess efnis hafi ratað í slíkan farveg hjá borginni eða verið settar fram með þeim hætti að það hefði verið eðlilegt að telja að um væri að ræða beiðni um beitingu þvingunarúrræða til að knýja fram úrbætur. Kærendur geta komið slíkri beiðni á framfæri við borgaryfirvöld, en telji þeir sig hafa óafgreitt erindi þess efnis nú þegar, sem úrskurðarnefndin fær ekki staðreynt af gögnum málsins, geta kærendur komið að kæru til nefndarinnar vegna dráttar á afgreiðslu máls, sbr. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Rétt að taka fram að meðal þeirra fjölda athugasemda sem borist hafa í málinu af hálfu annars kæranda er mappa er barst nefndinni 1. júní 2017. Þar er vikið að því að endurtaka þurfi alla meðferð deiliskipulagsbreytingarinnar skv. 24. gr. stjórnsýslulaga og raunar þurfi að endurupptaka allt málið hvað varðar veitingastaðinn Frakkastíg 26A frá upphafi þess árið 2015. Er og vikið að því að slík krafa hafi margoft verið sett fram. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu var byggingarleyfi frá 12. maí 2015 vegna nefnds húss fellt úr gildi að hluta með úrskurði úrskurðarnefndarinnar kveðnum upp 3. mars 2016. Nefndinni bárust ekki gögn frá kæranda frá þeim tíma þar til kæra barst 22. júní 2016 í kærumáli nr. 68/2016 er varðar starfsleyfi veitingastaðar í húsinu að Frakkastíg 26A. Verður ekki séð að í gögnum þess kærumáls sem hér er til meðferðar eða gögnum kærumáls nr. 68/2016 hafi komið fram athugasemd sem túlka mætti sem beiðni um endurupptöku á úrskurði nefndarinnar fyrr en 1. júní 2017, en þá var meira en ár liðið frá uppkvaðningu úrskurðarins. Verður ekki heldur séð af gögnunum að slík beiðni hafi verið tekin til meðferðar hjá Reykjavíkurborg. Úrskurðarnefndin leitaði eigi að síður eftir afstöðu Reykjavíkurborgar og lóðarhafa Frakkastígs 26A til athugasemda kæranda um endurupptöku og bárust nefndinni þau svör frá Reykjavíkurborg að þeir sem aðilar kærumáls nr. 99/2015 samþykktu ekki endurupptöku þess. Eru því ekki lagaskilyrði til frekari umfjöllunar úrskurðarnefndarinnar þar um, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála, m.a. þessa, sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 17. ágúst 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kárastígsreits, staðgreinireit 1.182.3, vegna lóðanna nr. 26 og 26A við Frakkastíg í Reykjavík.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                        Þorsteinn Þorsteinsson

132/2016 Vegslóði í Leirhnjúkshrauni

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 19. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.


Fyrir var tekið mál nr. 132/2016, kæra á athafnaleysi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps og á ákvörðunum hennar um útgáfu framkvæmdaleyfis 22. september 2002 og 16. september 2004.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir Fjöregg, félag um náttúruvernd og heilbrigt umhverfi í Mývatnssveit, og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, athafnaleysi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að hlutast ekki til um að láta fyrirtækið Landsvirkjun fjarlægja vegslóða að borplani við rannsóknarborholu nefnda KV-1 í Leirhnjúkshrauni. Jafnframt er kærð ákvörðun sveitarstjórnarinnar frá 16. september 2004 um að veita Landsvirkjun heimild til rannsóknarborana á svokölluðu vestursvæði Kröflu, eða nánar tiltekið í Leirhnjúkshrauni, og einnig fyrra framkvæmdaleyfi sveitarstjórnarinnar, sbr. bréf dags. 26. september 2002, sem heimilaði Landsvirkjun að gera svokallaðan borteig og leggja vegslóða að honum í Leirhnjúkshrauni.

Kærendur gera þær kröfur að sveitarstjórn verði gert að hlutast til um að láta leyfishafa fjarlægja vegslóða að borplani við rannsóknarborholu nefnda KV-1 í Leirhnjúkshrauni. Jafnframt er þess krafist að ógiltar verði ákvarðanir Skútustaðahrepps er hafi heimilað leyfishafa að útbúa borteig, vegslóða og bora rannsóknarborholur í Leirhnjúkshrauni, eða á svæði því sem nefnt sé vestursvæði Kröflu í gögnum.

Gögn málsins bárust frá Skútustaðahreppi 9. nóvember 2016 og 14. júní 2018.

Málavextir:
Leyfishafi sendi erindi til Skipulagsstofnunar, dags. 16. janúar 2001, þar sem óskað var eftir ákvörðun um hvort borun rannsóknarborhola á fjórum nánar tilteknum svæðum væri háð mati á umhverfisáhrifum. Eitt þessara svæða var svokallað vestursvæði í sunnanverðu Leirhnjúkshrauni og var niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að borun þar væri háð mati á umhverfisáhrifum. Á árinu 2002 fór fram mat á umhverfisáhrifum af borun allt að sex rannsóknarborhola á tveimur borteigum á vestursvæði, sem er það svæði sem um ræðir í máli þessu.

Í matsskýrslu leyfishafa kemur fram að reynist vestursvæðið óhæft til vinnslu og nýtingar jarðhita verði leitast við að afmá ummerki framkvæmda eins og kostur sé, en eftir verði borteigarnir tveir og vegslóði að þeim. Skipulagsstofnun féllst á þá framkvæmd 9. september 2002 og var úrskurður stofnunarinnar kærður til umhverfisráðherra, sem staðfesti niðurstöðu Skipulagsstofnunar með úrskurði 13. maí 2003. Í úrskurðinum var það skilyrði sett að vegslóði að fyrirhuguðum borplönum skyldi fjarlægður ef ekki kæmi til nýtingar á jarðhita á svæðinu í kjölfar rannsóknarborana. Vinna við framkvæmd og frágang skyldi unnin í samráði við Umhverfisstofnun og skyldi stofnunin leita umsagnar viðkomandi sveitarfélaga og landeigenda. Á skilyrði ráðherra m.a. við um borholu nefnda KV-1 í Leirhnjúkshrauni, sem kærumál þetta fjallar um, að því er varðar athafnaleysi sveitarfélagsins um að krefjast þess að vegslóði að borholuplani verði afmáður.

Leyfishafi sótti um framkvæmdaleyfi fyrir gerð fyrsta áfanga vegslóða og tveggja borteiga á vestursvæði við Kröflu 24. september 2002. Skútustaðahreppur veitti framkvæmdaleyfi 26. s.m. og Náttúruvernd ríkisins veitti leyfi fyrir sömu framkvæmdum 8. október s.á. Skútustaðahreppur veitti framkvæmdaleyfi fyrir rannsóknarborunum á vestursvæði Kröflu 17. september 2004.

Haustið 2004 var lagður vegur að fyrri borteig og útbúið borplan fyrir holu KV-1. Á árinu 2006 var borað niður á 2900 m dýpi en ekki aðhafst frekar.

Annar kærenda sendi leyfishafa bréf, dags. 13. september 2016, þar sem segir að kærandi hafi orðið þess áskynja að vegslóði og borteigur er leyfishafi muni hafa látið gera sumarið 2006 í Leirhnjúkshrauni hafi ekki verið fjarlægður. Vísar kærandi til úrskurðar umhverfisráðherra og bendir á að skilyrði í úrskurðinum eigi m.a. við um borholu nefnda KV-1 í Leirhnjúkshrauni. Segir jafnframt í bréfinu að eins og ráða megi af þeim gögnum sem aðgengileg séu almenningi hafi verið ljóst í um áratug að jarðhiti úr borholu KV-1 yrði ekki nýttur í kjölfar þeirra rannsóknarborana sem leyfðar hefðu verið árið 2004. Skorar kærandi á leyfishafa að hefjast þegar handa við að afmá vegsummerki við nefnda borholu í samræmi við úrskurð umhverfisráðherra frá 2003. Hafi ekki verið brugðist við erindinu 27. september 2016 áskilji kærandi sér rétt til að leita til dómstóla og eftir atvikum stjórnvalda vegna málsins, án frekari fyrirvara.

Framangreindu bréfi var svarað af leyfishafa með bréfi, dags. 28. september 2016. Segir í niðurlagi bréfsins að þó svo að hola KV-1 hafi ekki staðið undir væntingum þá sýni hár botnhiti að háhitakerfi sé nærri. Jarðhitaráðgjafar leyfishafa séu ekki á einu máli um hvort vestursvæðið sé í heild kulnað eða eingöngu kulnað á þeim stöðum þar sem borað hafi verið. Mögulega sé háhita að finna vestan við núverandi borteig, þar sem plan KV-2 hafi verið fyrirhugað samkvæmt mati á umhverfisáhrifum. Áherslur leyfishafa í jarðvarma hafi færst annað tímabundið en jarðhitasvæðið undir Leirhnjúkshrauni hafi ekki verið endanlega afskrifað. Kröflusvæðið sé í nýtingarflokki í rammaáætlun og því líti leyfishafi svo á að honum beri að horfa til þess svæðis vegna aukinnar orkunýtingar í framtíðinni. Loks sé ljóst að vegslóðinn nýtist ennþá vel til annarra rannsókna, svo sem á smáskjálftum og á eðli volgs grunnvatnsstraums er streymi í átt að Mývatni. Því sé það mat leyfishafa að ekki sé tímabært að afmá vegslóða í Leirhnjúkshrauni á þessari stundu.

Kærendur sendu sveitarstjórn Skútustaðahrepps bréf, dags. 7. október 2016. Þar segir að kærendur telji að um athafnaleysi hafi verið að ræða varðandi eftirfylgni skilyrðis fyrir framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins, samþykktu á árinu 2004, um að fjarlægja vegslóða að borplani við rannsóknarborholu KV-1 í Leirhnjúkshrauni. Borholan hafi ekki staðið undir væntingum og hafi ekki verið nýtt og staðfesti rannsóknir sem gerðar hafi verið á holunni þetta. Samkvæmt 16. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 hafi sveitarstjórn með höndum hið lögbundna eftirlit með framkvæmdum, þ.m.t. að skilyrðum framkvæmdar sé framfylgt. Sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafi fengið afrit af bréfi til leyfishafa, dags. 13. september 2016, með áskorun um að afmá nefndan vegslóða í samræmi við úrskurð ráðherra frá 2003. Afstaða leyfishafa sé nú fram komin og fallist hann ekki á að hefjast handa við að afmá slóðann. Að mati kærenda hafi Skútustaðahreppur ekki sinnt skyldum er leiði af 2. mgr. 53. gr. skipulagslaga, en ákvæðið mæli fyrir um skyldur skipulagsfulltrúa ef framkvæmd sé í ósamræmi við útgefið framkvæmdaleyfi eða skilyrði þess, sbr. og 16. gr. sömu laga um eftirlitsskyldu sveitarstjórnar. Kærendur eigi ekki annars kost en að leita til æðra stjórnvalds vegna þess athafnaleysis er þeir telji sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafa sýnt við eftirlit með hinni leyfðu framkvæmd, nánar tiltekið framfylgd skilyrðis um að afmá umræddan vegslóða í Leirhnjúkshrauni.

Kæra til úrskurðarnefndarinnar barst 13. október 2016, eins og áður hefur komið fram.

Málsrök kærenda: Kærendur kveðast byggja kæruheimild sína á b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með hliðsjón af 2. mgr. 9. gr. Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum, sem og 11. gr. tilskipunar 2011/92/ESB, beri að túlka tilvitnað ákvæði laga um úrskurðarnefndina, þ.e. „ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum“, þannig að innan þess rúmist kæruheimild umhverfisverndarsamtaka eins og kærenda, beint eða með lögjöfnun. Átt sé við þegar á standi sem í máli þessu, þ.e. þegar hið kærða sveitarfélag hafi veitt leyfi til framkvæmda á grundvelli úrskurðar umhverfis- og auðlindaráðherra, sem hafi staðfest úrskurð Skipulagsstofnunar um heimild til borana með því skilyrði sem mál þetta fjalli um, þ.e. að afmá umræddan slóða við tilteknar aðstæður. Slík rúm túlkun kæruheimildar, og eftir atvikum lögjöfnun, sé í samræmi við markmið laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og með öðrum hætti væri ekki unnt að halda því fram, sé litið til lögskýringargagna með lögum nr. 130/2011, að 2. mgr. 9. gr. Árósasamningsins sé lögfest á Íslandi.

Krafa um ógildingu ákvörðunar um útgáfu framkvæmdaleyfis frá 16. september 2004, að því er varði rannsóknarboranir, sé byggð beint á kæruheimild b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og haldi kærendur því fram að undir þá ákvörðun beri einnig að fella leyfi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 26. september 2002 um að heimila gerð borteigs og vegslóða í Leirhnjúkshrauni, enda séu þau mannvirki hluti af umhverfismati því er úrskurður umhverfisráðuneytis frá 13. maí 2003 hafi fjallað um.

Kærendum hafi orðið kunnugt um að skilyrði leyfisveitingar samkvæmt áðurgreindum úrskurði umhverfisráðuneytis hefðu ekki verið uppfyllt í september 2016 og hafi annar kærenda þegar sent bréf til leyfishafa með kröfu um að skilyrðið yrði uppfyllt, eða 13. september s.á. Afrit bréfsins hafi verið sent til sveitastjórnar Skútustaðahrepps. Svar hafi borist frá leyfishafa 28. s.m., þar sem því hafi verið hafnað að fjarlægja slóðann. Engin viðbrögð hafi borist frá hinu kærða sveitarfélagi. Kærufrestur sé því ekki liðinn. Samhliða framangreindu hafi af hálfu annars kæranda verið farið fram á afhendingu gagna um hugsanlega leyfisveitingu sveitarfélagsins, þar með talda leyfisbeiðni. Þau gögn hafi ekki verið tiltæk og hafi kærandi aflað upplýsinga af vefsíðu sveitarfélagsins um það hvenær leyfi fyrir framkvæmdunum hafi verið veitt. Afrit leyfisbréfs Skútustaðahrepps, dags. 17. september 2004, hafi loks borist 12. október 2016 og 13. s.m. hafi borist afrit af leyfisbeiðni leyfishafa, dags. 15. september 2004. Í þeirri beiðni komi fram að sveitarstjórn Skútustaðahrepps hafi með bréfi, dags. 26. september 2002, veitt leyfi fyrir gerð svonefnds borteigs og vegslóða að honum, allt í Leirhnjúkshrauni, og hafi þær framkvæmdir átt sér stað haustið 2003. Þessar upplýsingar hefðu ekki áður legið fyrir. Kæran sé því borin fram innan kærufrests. Ekki hafi komið fram að framangreindar leyfisveitingar hafi verið birtar í Lögbirtingarblaði, svo sem lög bjóði. Hafi því kærufrestur ekki tekið að líða fyrr en kærendum hafi orðið kunnugt um framangreindar leyfisveitingar.

Gögn beri ekki með sér að rökstudd ákvörðun hafi verið tekin um að samþykkja framkvæmdaleyfin eða að slíkar ákvarðanir hafi verið birtar og ekki sjái þess stað að rökstudd afstaða hafi verið tekin til umhverfismatsins, sbr. ákvæði er þá hafi gilt um leyfi til framkvæmda er háðar væru mati á umhverfisáhrifum, sbr. 27. gr. þágildandi laga nr. 73/1997.

Málsrök Skútustaðahrepps: Skútustaðahreppur krefst þess að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni, þar sem kærendur eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Um kæruheimild sé vísað til b-liðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en þar sé umhverfisverndarsamtökum heimilað að kæra til úrskurðarnefndarinnar ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falli undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Kæra varði ekki ákvörðun um að veita leyfi til framkvæmda, heldur meint athafnaleysi. Kæran vísi í raun ekki til neinnar ákvörðunar.

Þá hvíli frávísunarkrafan á því að ekkert liggi fyrir um aðgerðarleysi af hálfu Skútustaðahrepps. Þegar kæra hafi borist hafi sveitarfélaginu verið gefinn nokkurra daga frestur til að taka málið til umfjöllunar. Eðli máls samkvæmt hefði sveitarfélaginu borið, á grundvelli rannsóknarreglu, að kalla eftir afstöðu hlutaðeigandi aðila áður en ákvörðun yrði tekin. Eigi að kæra athafnaleysi verði í öllu falli að liggja fyrir að um raunverulegt athafnaleysi geti verið að ræða, en ekki drátt á að taka til afgreiðslu erindi innan nokkurra daga eða vikna.

Kröfur kærenda feli í sér að niðurstaða stjórnvaldsins Skútustaðahrepps eigi að fela í sér að fjarlægja skuli vegslóða. Kæra um athafnaleysi geti einungis falið í sér að úrskurðarnefndin staðfesti að athafnaleysi hafi átt sér stað og leggi fyrir hið kærða stjórnvald að taka ákvörðun um það málefni sem athafnaleysi beinist að. Úrskurðarnefndin geti ekki tekið fyrstu ákvörðun í málinu, heldur taki stjórnvaldið ákvörðun, sem síðan sé heimilt að kæra.

Jafnvel þótt ákvæði laga nr. 130/2011 yrðu talin fela í sér kæruheimild varðandi hugsanlegt aðgerðarleysi við eftirfylgni með veittu framkvæmdaleyfi eða skilyrðum þess þá feli lögin ekki í sér að slík kæruheimild gildi um framkvæmdaleyfi sem veitt hafi verið fyrir gildistíma laganna. Það leiði af almennum lagaskilareglum og lögskýringu að til þess að umhverfisverndarsamtök gætu kært hugsanlegt athafnaleysi vegna framkvæmdaleyfis þyrftu slík samtök að hafa haft kæruheimild um framkvæmdaleyfið sjálft. Umhverfisverndarsamtök hafi ekki haft kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar við útgáfu framkvæmdaleyfis, dags. 17. september 2004, sem fram hafi farið á grundvelli 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Þá feli kröfur kærenda í sér að ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis, dags. 16. september 2004, sé kærð. Kærufrestir þeirrar ákvörðunar séu löngu liðnir og auk þess hafi kærendur ekki kæruaðild að ákvörðununum, sbr. ákvæði laga sem gilt hafi við útgáfu leyfanna.

Ekki liggi fyrir nokkur sönnun eða gögn um að Skútustaðahreppur hafi sýnt af sér athafnaleysi varðandi eftirfylgni við skilyrði framkvæmdaleyfis, dags. 17. september 2004, um vegslóða að borplani við rannsóknarborholu nefnda KV-1 í Leirhnjúkshrauni. Vegna skammra fresta sem kærandi hafi veitt sveitarfélaginu hafi í raun ekki náðst að hefja málsmeðferð eða taka erindið til umfjöllunar áður en kæra hafi verið lögð fram til úrskurðarnefndarinnar. Það sé eðli kæruheimilda að áður en kæra sé sett fram hafi hið kærða stjórnvald tekið ákvörðun eða í öllu falli sýnt af sér athafnaleysi, sem lýsi afstöðu til máls. Því sé hafnað að hægt sé að gera kröfur sem feli í sér að úrskurðarnefndin taki fyrstu ákvörðun í málinu. Yrði fallist á athafnaleysi Skútustaðahrepps geti nefndin einungis staðfest það og gert sveitarfélaginu að taka ákvörðun í málinu.

Með hliðsjón af bréfi leyfishafa, dags. 28. september 2016, liggi ekki fyrir að skilyrði séu til að fallast á kröfur kærenda. Slíkt sé í öllu falli ósannað og verði ekki á öðru byggt nema að undangenginni málsmeðferð sem uppfylli skilyrði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Loks séu ekki skilyrði til að fallast á kröfur kærenda, þar sem Skútustaðahreppur hafi með ákvörðun, dags. 26. október 2016, veitt leyfishafa framkvæmdaleyfi fyrir Kröflulínu 4. Framkvæmdalýsing og mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar, sbr. matsskýrslu sem lögð hafi verið fyrir Skipulagsstofnun, feli í sér að umræddur vegslóði í Leirhnjúkshrauni verði hluti af varanlegum línuvegi. Í því felist að ný ákvörðun hafi verið tekin um stöðu vegslóðans gagnvart löggjöf um mat á umhverfisáhrifum og skipulag. Þar af leiðandi sé skilyrði sem hafi falist í úrskurði umhverfisráðherra, dags. 13. maí 2003, fallið niður. Það gildi a.m.k. um þann hluta vegslóðans sem hin nýja ákvörðun beinist að.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi gerir aðallega þær kröfur að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Til vara krefst hann þess að kröfum kæranda verði hafnað. Kærufrestur vegna útgáfu framkvæmdarleyfa sé liðinn og kæra því of seint fram komin. Kveðið hafi verið á um í 5. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997, sem verið hafi í gildi þegar umræddar ákvarðanir um útgáfu framkvæmdarleyfa hafi verið teknar, að frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála (nú úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála) sé einn mánuður frá því að kæranda hafi orðið kunnugt eða mátt vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra eigi. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé að finna samhljóða ákvæði. Í lögunum segi jafnframt að um kæruheimildir gildi að öðru leyti ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. stjórnsýslulaga sé einnig fjallað um kærufresti, en þar komi fram að hafi kæra borist að liðnum kærufresti beri að vísa henni frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. komi hinsvegar fram að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun hafi verið tilkynnt aðila. Hafi umrætt ákvæði um ársfrest verið lögfest í þeim tilgangi að skapa festu í stjórnsýsluframkvæmd og koma í veg fyrir að verið væri að kæra gömul mál sem erfitt geti verið að upplýsa.

Ljóst sé að í því máli sem hér um ræði sé liðinn meira en áratugur frá því að ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfa hafi verið tilkynnt aðila málsins. Kærendum hafi verið kunnugt um umrædda framkvæmd allt frá undirbúningi hennar, frá útgáfu framkvæmdaleyfa, á framkvæmdastigi og eftir að framkvæmdum hafi verið lokið við lagningu vegslóða og borplans. Þrátt fyrir að hafa vitað af útgáfu framkvæmdaleyfa og að framkvæmdum væri lokið við lagningu vegslóða hafi kærendur látið undir höfuð leggjast að leggja fram kæru þar til nú.

Leyfishafi byggi einnig kröfu sína um frávísun á því að kærendur hafi glatað rétti til þess að halda uppi kröfum vegna tómlætis. Ljóst sé að um 12-14 ár séu liðin frá því að umræddar ákvarðanir um útgáfu framkvæmdaleyfa hafi verið teknar og útgáfa leyfa farið fram. Framkvæmdir hafi hafist fyrst fyrir um tólf árum og hafi síðasta rannsóknarborunin farið fram fyrir átta árum. Kærendur hafi vitað af útgáfu framkvæmdarleyfa frá upphafi en einnig að framkvæmdum við lagningu vegar og borun á einni rannsóknarholu væri lokið. Samkvæmt meginreglu um tómlæti geti aðili glatað rétti til þess að halda uppi kröfu ef hann láti undir höfuð leggjast að halda uppi slíkri kröfu.

Leyfishafi geri einnig þá kröfu að kæra um athafnaleysi sveitarfélagsins við að láta hjá líða að fjarlægja vegslóða að borplani við rannsóknarholu í Leirhnjúkshrauni verði vísað frá þar sem ekki sé um að ræða stjórnvaldsákvörðun. Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 sæti stjórnvaldsákvarðanir sveitarfélaga kæru til úrskurðarnefndar. Samhljóða ákvæði sé að finna í lögum nr. 130/2011. Í 1. gr. þeirra laga sé fjallað um valdsvið úrskurðarnefndarinnar. Þar komi fram að nefndin hafi það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem lög kveði á um. Í greinargerð með frumvarpi til laganna segi um framangreint ákvæði að það ráðist af ákvæðum einstakra laga en eingöngu verði kæranlegar til nefndarinnar þær ákvarðanir sem afmarkaðar séu í lögum hverju sinni, sem og önnur úrlausnaratriði ef lög mæli svo. Ljóst sé að hið kærða athafnaleysi feli ekki í sér stjórnvaldsákvörðun sveitarfélagsins. Í lögum sé jafnframt hvergi að finna afmarkaða kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar, líkt og áskilnaður sé um, vegna athafnaleysis stjórnvalda, eða vegna meints athafnaleysis, líkt og um ræði í þessu máli. Ljóst sé því að úrskurðarnefndina skorti heimild til þess að fjalla um hið meinta athafnaleysi.

Hugtakið stjórnvaldsákvörðun hafi verið skilgreint þannig að það sé ákvörðun sem tekin sé í skjóli stjórnsýsluvalds og sé beint milliliðalaust út á við að tilteknum aðila eða aðilum og með henni sé kveðið á bindandi hátt um rétt eða skyldur þeirra í ákveðnu og fyrirliggjandi máli. Einkennandi sé fyrir stjórnvaldsákvarðanir að þær séu teknar einhliða af stjórnvöldum og oftast á skriflegan hátt. Stjórnvaldsákvarðanir hafi bindandi réttaráhrif um úrlausn og binda enda á tiltekið stjórnsýslumál. Til þess að ákvörðun teljist vera stjórnvaldsákvörðun verði hún einnig að beinast að tilteknum aðila eða aðilum. Hin kærða ákvörðun um meint athafnaleysi sveitarstjórnar um að fela leyfishafa að afmá vegslóða að borplani uppfylli ekki framangreind skilyrði til að geta talist stjórnvaldsákvörðun. Í fyrsta lagi liggi ekki fyrir nein ákvörðun hjá sveitarfélaginu, í öðru lagi liggi ekki fyrir ákvörðun sem sé beint að tilteknum aðila og í þriðja lagi liggi ekki fyrir ákvörðun sem feli í sér bindandi réttaráhrif. Staðreyndin sé jafnframt sú að á sveitarfélaginu hvíli engin lögbundin skylda til þess að taka slíka ákvörðun né heimild eða réttur til þess að skylda leyfishafa til að afmá umræddan veg samkvæmt orðalagi framkvæmdaleyfis eða úrskurði umhverfisráðherra.

Niðurstaða
: Í máli þessu er deilt um framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá árunum 2002 og 2004, þar sem heimilað var að leggja vegslóða, gera borteig og bora rannsóknarborholur, allt í Leirhnjúkshrauni. Enn fremur er deilt um meint athafnaleysi sveitarstjórnar vegna nefnds vegslóða, en kærendur telja að sveitarstjórn beri að hlutast til um að hann verði fjarlægður.

Kærendur í máli þessu eru umhverfisverndarsamtök og byggja kæruaðild sína á ákvæði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þar kemur fram að slíkum samtökum sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að sé heimilt að kæra nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Er þar m.a. um að ræða ákvarðanir um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum, sbr. b-lið nefndrar lagagreinar, og er til þess skírskotað í kæru að mannvirki þau sem leyfð hafi verið á árunum 2002 og 2004 séu hluti af því mati á umhverfisáhrifum sem fram hafi farið.

Kæruheimild til handa umhverfisverndarsamtökum vegna ákvarðana um framkvæmdir sem sætt hafa mati á umhverfisáhrifum var lögfest 1. október 2005 þegar bætt var við ákvæði þar um í 5. mgr. 8. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 21. gr. laga nr. 74/2005 um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1993, með síðari breytingum. Svo sem fram kemur í frumvarpi því sem varð að breytingalögum nr. 74/2005 var tilefni lagabreytinganna almenn endurskoðun laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum og innleiðing tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins frá 26. maí 2003, nr. 2003/ 35/EB um þátttöku almennings í gerð tiltekinna áætlana og framkvæmda í tengslum við umhverfismál og breytingar á, með tilliti til þátttöku almennings og aðgangi að réttlátri málsmeðferð, tilskipunum ráðsins 85/337/EBE og 96/61/EB. Var og tekið fram að tilskipunin fæli í sér breytingar á tilskipun 85/337/EBE um mat á umhverfisáhrifum og tilskipun 96/61/EB um samþættar mengunarvarnir. Með tilskipuninni væri verið að tryggja þátttöku almennings í ákvarðanatöku stjórnvalda og aðgang almennings að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum og byggðu ákvæði hinnar nýju tilskipunar á ákvæðum Árósasamningsins um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum.

Kærendur höfðu samkvæmt því sem að framan greinir ekki heimild, án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, til að kæra leyfi sem gefin voru út í kjölfar mats á umhverfisáhrifum fyrr en rúmu ári eftir að seinna leyfið var gefið út 16. september 2004, en kæruheimildin var lögfest 1. október 2005. Er því ekki hægt að fallast á að kærendur geti átt aðild hvað varðar þá leyfisveitingu, enda liggur ekkert fyrir um að löggjafinn hafi haft þá fyrirætlan þvert á þá meginreglu að lög séu ekki afturvirk. Verður kæru kærenda því þegar af þeirri ástæðu vísað frá úrskurðarnefndinni að því er varðar hin umþrættu framkvæmdaleyfi frá 2002 og 2004. Ekki er hins vegar loku fyrir það skotið að kærendur geti átt aðild hvað varðar eftirlit með skilyrðum framkvæmdaleyfa sem gefin voru út fyrir framangreinda lögfestingu kæruheimildar umhverfisverndarsamtaka.

Svo sem fram kemur í málavöxtum staðfesti umhverfisráðherra með úrskurði sínum 13. maí 2003 þann úrskurð Skiplagsstofnunar að fallist væri á framkvæmdir á vestursvæði Kröflu með því skilyrði að vegslóði að fyrirhuguðum borplönum, m.a. við borholu KV-1 í Leirhnjúkshrauni, skyldi fjarlægður yrði ekki um að ræða nýtingu jarðhita á svæðinu í kjölfar rannsóknarborana. Fyrir liggur að annar kærenda skoraði á leyfishafa, með bréfi, dags. 13. september 2016, að hefjast þegar handa við að afmá verksummerki við borholu sína í Leirhnjúkshrauni í samræmi við skilyrði í úrskurði umhverfisráðherra frá 2003. Leyfishafi svaraði með bréfi, dags. 28. september 2016, þar sem segir að ekki sé tímabært að afmá vegslóða í Leirhnjúkshrauni. Jarðhitasvæðið undir hrauninu hafi ekki verið endanlega afskrifað, Kröflusvæðið sé í nýtingarflokki í rammaáætlun og því líti leyfishafi svo á að honum beri að horfa til þess svæðis vegna aukinnar orkunýtingar í framtíðinni. Auk þess nýtist vegslóðinn ennþá vel til annarra rannsókna. Kærendur sendu sveitarstjórn Skútustaðahrepps bréf, dags. 7. október 2016, þar sem þeir tiltóku að þeir teldu að um athafnaleysi væri að ræða varðandi eftirfylgni skilyrðis fyrir framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins um að fjarlægja umræddan vegslóða og að kærendur eigi þess ekki annars kost en að leita til æðra stjórnvalds vegna þess athafnaleysis. Kæra barst úrskurðarnefndinni 13. s.m. eða innan við viku frá því að kærendur sendu greint erindi og rétt ríflega tveimur vikum eftir svar leyfishafa. Sveitarstjórn hafði því vart ráðrúm til svara og skýringa um það í hverju eftirlit hennar fælist með því að skilyrði það sem sett var með úrskurði umhverfisráðherra væri uppfyllt áður en málið var kært til úrskurðarnefndarinnar. Kom enda ekki til svara sveitarstjórnar áður en kæra barst nefndinni og gátu kærendur að sama skapi ekki lagt mat á hvort viðhlítandi skýringar væru til staðar á því sem þeir telja athafnaleysi sveitarstjórnar. Var kæra til úrskurðarnefndarinnar því ekki tímabær, enda liggur ekki fyrir lokaákvörðun í málinu sem kæranleg er til nefndarinnar, sbr. ákvæði 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin aflaði frá Skútustaðahreppi fyrir uppkvaðningu þessa úrskurðar hefur enn ekki verið brugðist við erindi kærenda frá 7. október 2016. Áréttar sveitarfélagið að hinn umþrætti vegslóði sé nú orðinn hluti af línuvegi vegna Kröflulínu 4. Sú framkvæmd hvíli á mati á umhverfisáhrifum og framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins sem upphefji eldri skilyrði um veginn sem gert hafi ráð fyrir tímabundinni notkun.

Ljóst er að grundvöllur máls þessa hefur breyst nokkuð frá því að kæra barst úrskurðarnefndinni, en einnig liggur fyrir að erindi kærenda er ósvarað. Með hliðsjón af atvikum öllum þykir rétt að líta á málskot kærenda sem kæru á drætti á afgreiðslu máls skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga frekar en að vísa því frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 26. gr. sömu laga. Þar sem langt er um liðið frá erindi kærenda og nýjar upplýsingar liggja fyrir í málinu verður lagt fyrir sveitarstjórn Skútustaðahrepps að bregðast við erindi kærenda frá 7. október 2016.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils umfangs og fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kæru á ákvörðun sveitastjórnar Skútustaðahrepps um útgáfu framkvæmdaleyfis 22. september 2002 og 16. september 2004.

Lagt er fyrir sveitarstjórn Skútustaðahrepps að svara erindi kærenda frá 7. október 2016.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (sign)

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir (sign)                                    Ásgeir Magnússon (sign)

137/2016 Víðivellir

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 137/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps frá 2. ágúst 2016 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í landi Víðivalla ytri 1, Fljótsdalshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra A og B, eigendur frístundalóða nr. 4 og 5 og D og E vegna frístundalóða nr. 8 og 9 að Víðivöllum ytri 1, Fljótsdalshreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps frá 2. ágúst 2016 að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í landi Víðivalla ytri 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fljótsdalshreppi 23. nóvember 2016.

Málavextir: Á fundi sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps 11. janúar 2011 var samþykkt tillaga að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Víðivalla ytri 1 og birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 20. maí s.á. Fól skipulagið í sér að gert var ráð fyrir 13 frístundalóðum á 19,4 ha svæði. Í september 2013 tilkynnti Skipulagsstofnun sveitarfélaginu að umrætt deiliskipulag teldist ekki í gildi, en lögbundnir tímafrestir höfðu ekki verið haldnir við meðferð deiliskipulagstillögunnar.

Á fundi sveitarstjórnar 5. apríl 2016 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi Víðivalla ytri 1 sem efnislega var að meginstefnu til sú sama og fyrra skipulag sem áður hafði verið metið ógilt. Þær breytingar höfðu þó verið gerðar að á skipulagssvæðinu var nú gert ráð fyrir einni lóð í stað lóðanna nr. 1, 2 og 3, en ósk þess efnis hafði borist sveitarfélaginu. Þá hafði tillagan sætt öðrum breytingum, m.a. með vísan til þess að nýtt aðalskipulag Fljótsdalshrepps hefði tekið gildi. Var samþykkt að auglýsa tillöguna til kynningar skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Athugasemdir bárust á kynningartíma hennar, m.a. frá tveimur kærenda í máli þessu. Hinn 2. ágúst 2016 tók sveitarstjórn málið fyrir að nýju og samþykkti tillöguna sem og svör við fram komnum athugasemdum. Tillagan var í kjölfar þess send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu og gerði stofnunin ekki athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt deiliskipulagsins. Birtist auglýsing þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. september 2016. Tveir kærenda sendu Fljótsdalshreppi og Skipulagsstofnun athugasemdir sínar vegna fyrrnefndrar samþykktar og var þeim svarað með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 16. september 2016, og með bréfi sveitarfélagsins, dags. 17. október s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að röng forsenda búi að baki hinni kærðu ákvörðun, þ.e. að ekki sé til staðar gilt deiliskipulag fyrir svæðið. Hafi lóðum verið úthlutað á grundvelli deiliskipulags fyrir sumarhúsasvæði í landi Víðivalla ytri 1 frá 1993. Það skipulag sé enn í gildi samkvæmt 11. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Einnig hafi verið samþykkt Svæðisskipulag Héraðssvæðis 1998-2010 þar sem gerð hafi verið grein fyrir frístundahúsasvæðinu. Hafi það sambærilega stöðu og aðalskipulag. Gerð nýs deiliskipulags á svæðinu sé því óþörf.

Skipulagslög nr. 123/2010 taki ekki til fyrri deiliskipulagsvinnu Fljótsdalshrepps en skipulagið frá árinu 2011 hafi ekki tekið gildi. Hafi sveitarfélaginu borið að hefja deiliskipulagsferlið frá grunni árið 2016. Sú afstaða Skipulagsstofnunar að lokamálsgrein 42. gr. skipulagslaga eigi við standist ekki. Málsmeðferð eftir 40. gr. laganna hafi aldrei átt sér stað. Henni sé ekki heimilt að sleppa og verði málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 73/1997 ekki jafnað til hennar. Lokamálsgrein 42. gr. skipulagslaga hafi verið sett með breytingarlögum nr. 135/2012. Bendi ekkert til þess að ákvæðinu hafi verið ætlað að gilda afturvirkt og hefði í öllu falli þurft að taka það skýrt fram. Málsmeðferð deiliskipulagsins sé því ekki í samræmi við ákvæði 40. gr. skipulagslaga. Hafi hvorki verið útbúin lýsing skipulagsverkefnisins né viðhöfð kynning og samráð við deiliskipulagsgerðina. Hafi það komið í veg fyrir að kærendur hafi getað haft áhrif og aðkomu að skipulagsgerðinni. Með réttu hafi átt að tilkynna eigendum lóða sérstaklega um deiliskipulagstillöguna, en það hafi ekki verið gert. Sé í þessu sambandi skírskotað til 3. tl. gr. 5.2.1. og til gr. 5.6.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013.

Skipulagsnefnd og skipulagsfulltrúi hafi aldrei fjallað um hið kærða deiliskipulag og hafi því lögbundinni málsmeðferð samkvæmt skipulagslögum ekki verið fylgt. Sé málsmeðferð skipulagsnefndar, þar sem skipulagsfulltrúi hafi málfrelsi og tillögurétt, grundvöllurinn að faglegri málsmeðferð við skipulagsgerð. Í gr. 5.7.1. í skipulagsreglugerð komi m.a. fram að þegar frestur til athugasemda sé liðinn skuli sveitarstjórn taka tillögu til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar.

Í greinargerð hins kærða deiliskipulags sé ekki fjallað um samgöngukerfi og umferðarmannvirki, svo sem beri að gera skv. a. lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð. Einungis sé gerð grein fyrir aðkomu frá þjóðvegi, en ekki umferðarkerfi á skipulagssvæðinu. Sérstök ástæða hafi verið til að fjalla um þetta ef víkja ætti frá eldra skipulagi um áætlaða legu vegar um frístundasvæðið. Þá sé aðeins gert ráð fyrir einni leið af svæðinu og sé í þessu sambandi sérstaklega vísað til lokamálsgreinar ákvæðisins.

Nýtt deiliskipulag muni festa í sessi illfæra og óörugga umferðarleið að lóðum kærenda. Veghalli leiðarinnar sé um 30% og vegurinn hlykkjóttur. Hann hafi verið lagður til bráðabirgða árið 1993 en deiliskipulagið frá því ári hafi gert ráð fyrir annarri veglínu sem sé mun greiðfærari, m.a. vegna minni veghalla. Sú veglagning sé auk þess hluti af einkaréttarlegum samningum lóðarhafa við eiganda opins svæðis innan deiliskipulagsins. Séu ástæður þessarar breytingar illskiljanlegar og í andstöðu við markmið skipulagslaga og ákvæði skipulagsreglugerðar. Hafi skortur á kynningu, samráði, faglegri umfjöllun skipulagsnefnda og aðkomu skipulagsfulltrúa leitt til þess að ekki hafi verið gætt að hagsmunum lóðarhafa og fagsjónarmiðum um veglagningu á svæðinu.

Málsrök Fljótsdalshrepps: Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kærenda verði hafnað. Fyrsta aðalskipulag Fljótsdalshrepps hafi tekið gildi árið 2004. Þegar af þeirri ástæðu hafi ekki verið uppfyllt skilyrði til að deiliskipulagsáætlun fyrir sumarbústaðarsvæði í landi Víðivalla ytri 1 gæti öðlast gildi á grundvelli 11. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997. Ekki sé grundvöllur til að beita rýmkandi lögskýringu enda feli ákvæðið í sér undantekningu frá þeirri aðalreglu að nánar tilgreindir annmarkar við formlega staðfestingu skipulagsáætlana leiði til ógildis þeirra. Svæðisskipulag Héraðssvæðis 1998-2010, sem samþykkt hafi verið löngu síðar, geti aldrei orðið fullnægjandi grundvöllur fyrir deiliskipulagsgerð jafnvel þótt litið yrði svo á að það hefði sömu réttaráhrif og aðalskipulag í þessu tilliti. Um sé að ræða nýtt deiliskipulag og eigi sjónarmið um að gerð þess sé óþörf eða jafnvel óheimil sér enga stoð. Standi engin rök til þess að óheimilt hafi verið að nýta heimild í lokamálslið 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Eðli málsins samkvæmt eigi umrætt ákvæði við um liðin atvik en feli á engan hátt í sér afturvirkni.

Ágreiningslaust sé að deiliskipulagstillagan hafi ekki verið tekin til umfjöllunar í skipulagsnefnd að loknum athugasemdafresti. Geti skortur á umfjöllun nefndarinnar ekki talist verulegur annmarki er leiði til ógildingar deiliskipulagsins og sé það í samræmi við afstöðu Skipulagsstofnunar að þessu leyti. Sveitarstjórn fari með skipulagsvald á sínu svæði í þessum efnum og eigi skipulagsnefnd að starfa undir yfirstjórn hennar, sbr. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga. Samkvæmt því geti sveitarstjórn á engan hátt orðið bundin af því sem fram kunni að koma í umfjöllun skipulagsnefndar. Þá verði ekki séð að í 41. gr. laganna sé gert ráð fyrir sérstakri aðkomu skipulagsfulltrúa utan hugsanlegrar þátttöku hans í umfjöllun skipulagsnefndar.

Hvað varði þá athugasemd að kynning tillögunnar hafi ekki verið í samræmi við 40. gr. skipulagslaga sé áréttað að það ákvæði komi ekki til álita þar sem um málsmeðferð fari skv. lokamálslið 2. mgr. 42. gr. laganna. Þá liggi ekki annað fyrir en að vinna við deiliskipulagsþætti sem unnir hafi verið á gildistíma skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 hafi uppfyllt skilyrði þeirra laga og reglugerðar. Núgildandi skipulagsreglugerð hafi tekið gildi í janúar 2013. Geti ákvæði hennar ekki haft þýðingu um þá deiliskipulagsvinnu sem unnin hafi verið fyrir það tímamark. Þá geti tilvitnuð ákvæði skipulagsreglugerðar sem kærendur vísi til ekki komið til álita enda snúi þau að samráði og kynningu við gerð deiliskipulagstillögu, sbr. 40. gr. skipulagslaga. Að auki eigi 3. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð við um þá sem eigi lönd að deiliskipulagssvæði, en ekki þá sem eigi land sem sé hluti af viðkomandi svæði. Tillagan hafi verið kynnt í samræmi við gr. 5.6.1. í skipulagsreglugerð og hafi að öllu leyti verið í samræmi við lög. Eigi sjónarmið um að kærendur hafi átt rétt á sérstakri kynningu eða samráði sér enga lagastoð.

Fyrir liggi að á deiliskipulagsuppdrætti sé gerð grein fyrir vegstæði á skipulagssvæðinu með grænni brotalínu en það vegstæði sé hið sama og núverandi vegur liggi um. Gerð sé grein fyrir aðkomu að svæðinu frá þjóðvegi í greinargerð og á uppdrætti. Sé framsetning þessi í samræmi við ákvæði gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð. Hvað varði lokamálsgrein tilvitnaðrar greinar þá sé vísað til þess að um sé að ræða fámenna frístundabyggð þar sem ekki sé þekkt sérstök hætta af gróðureldum. Sé á engan hátt sýnt fram á að umferð um svæðið og frá því yrði örðugari um veg á vegsvæði samkvæmt deiliskipulaginu en væri um veg á vegstæði því sem kærendur óski eftir. Því sé andmælt að veghalli sé 30% og vegurinn ógreiðfær. Þá hafi ekkert komið fram um að núverandi vegur hafi verið lagður til bráðabirgða. Sérstaklega sé mótmælt að gætt hafi verið hagsmuna annarra á kostnað kærenda. Sveitarfélagið sé ekki aðili að og beri ekki ábyrgð á einkaréttarlegum samningum milli kærenda og eigenda Víðivalla ytri 1.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að þeir einir geti skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er kærandinn Þorsteinn Bjarnason hvorki skráður eigandi lóðanna nr. 8 né nr. 9 á deiliskipulagssvæðinu eða mannvirkja á þeim lóðum. Á hann því ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður kæru hans því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar Fljótsdalshrepps á deiliskipulagi frístundabyggðar að Víðivöllum ytri 1 er öðlaðist gildi 23. september 2016. Sveitarstjórn samþykkti árið 2011 tillögu að deiliskipulagi fyrir sama svæði en þar sem lögbundnir tímafrestir skv. þágildandi 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um auglýsingu tillögunnar voru ekki virtir við meðferð málsins taldist hún ógild. Var kveðið á um það í lokamálslið 2. mgr. tilgreinds ákvæðis að færi þá um tillöguna í samræmi við 41. gr. laganna. Var 2. mgr. 42. gr. skipulagslaga breytt með lögum nr. 135/2012. Ekki voru þó gerðar breytingar á lokamálslið 2. mgr. og skyldi sem fyrr fara með ógilt deiliskipulag í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Samkvæmt því skyldi auglýsa tillöguna til kynningar og að liðnum fresti til athugasemda skyldi sveitarstjórn taka tillöguna til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Var ekki gerður áskilnaður um að sveitarstjórn tæki saman lýsingu á skipulagsverkefninu líkt og almennt er þegar vinna við gerð deiliskipulagstillögu hefst, sbr. 40. gr. sömu laga.

Í máli því sem hér er til umfjöllunar liggur fyrir að hin kærða ákvörðun er að meginstefnu til byggð á sömu forsendum og felur í sér sambærilegar heimildir og áður samþykkt deiliskipulag Víðivalla ytri 1. Þó hafa þær breytingar verið gerðar að gert er ráð fyrir 11 lóðum í stað 13 lóða á skipulagssvæðinu og hefur skipulagið einnig sætt breytingum þar sem nýtt aðalskipulag Fljótsdalshrepps hefur tekið gildi og breytingar orðið á lögum og reglugerðum. Að þessu virtu verður ekki talið að sveitarstjórn hafi getað byggt málsmeðferð sína á ákvæðum 41. gr. skipulagslaga á grundvelli 2. mgr. 42. gr. laganna. Verður enda að telja að eðli máls samkvæmt geti lokamálsliður 2. mgr. 42. gr. aðeins átt við í þeim tilvikum þegar ógild deiliskipulagsákvörðun sem þar er fjallað um er auglýst að nýju efnislega óbreytt.

Samkvæmt 40. gr. skipulagslaga skal sveitarstjórn taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu þegar vinna við gerð deiliskipulagstillögu hefst. Heimilt er þó skv. ákvæðinu að falla frá gerð slíkrar lýsingar ef allar meginforsendur liggja fyrir í aðalskipulagi. Eru meginforsendur skýrðar svo í gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að með þeim sé átt við stefnu um áherslur og uppbyggingu landnotkunarreita, svo sem varðandi nánari notkun á einstökum reitum, þéttleika og byggðamynstur eða umfang auðlindanýtingar. Umrætt skipulagssvæði er í Aðalskipulagi Fljótsdalshrepps 2014-2030 skilgreint sem frístundabyggð, F4, og er þar gert ráð fyrir 13 frístundahúsum á um 20 ha svæði. Með hliðsjón af efni hins kærða deiliskipulags lágu meginforsendur þess fyrir í gildandi aðalskipulagi. Var skipulagsyfirvöldum sveitarfélagsins því heimilt að falla frá gerð lýsingar við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.

Í greinargerð deiliskipulagsins er tekið fram að aðkoma að skipulagssvæðinu sé af Fljótsdalsvegi (933) um 150 m norðan brúar yfir Kelduárkvísl. Í gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð er tekið fram að við deiliskipulag svæða í þéttbýli, og í dreifbýli eftir atvikum, skuli gera grein fyrir því samgöngukerfi sem fyrir er og fyrirhugað er skv. aðalskipulagi. Jafnframt segir í lokamálsgrein greinarinnar að á íbúðarsvæðum, svæðum fyrir frístundahús og öðrum svæðum þar sem gera megi ráð fyrir mannfjölda og hætta geti verið á gróðureldum, skuli gæta þess að fleiri en ein greið leið sé um og frá svæðinu. Felur ákvæðið í sér gæslu öryggishagsmuna og afdráttarlausa skyldu við fyrrgreindar aðstæður. Eins og fyrr greinir er aðeins um eina leið að ræða um og frá skipulagssvæðinu. Á svæðinu er gert ráð fyrir 11 sumarhúsalóðum og að heimilt sé að reisa eitt hús ásamt útihúsi á hverri lóð. Samkvæmt skipulagsuppdrætti er töluverður gróður á svæðinu, en í greinargerð deiliskipulagsins er svæðinu svo lýst að upp frá þjóðveginum séu kjarri vaxnir hjallar og gangi gamalt berghlaup niður í hlíðina allt niður að 80 m hæðarlínu. Hafi landið áður verið nýtt til beitar.

Sveitarfélagið hefur skírskotað til þess að um sé að ræða fámennt frístundasvæði þar sem ekki sé þekkt sérstök hætta af gróðureldum. Ekki liggur þó fyrir í gögnum málsins á hverju sú staðhæfing sveitarfélagsins byggist eða hvort leitað hafi verið álits sérfróðra aðila, s.s. slökkviliðs svæðisins, um hugsanlega hættu á gróðureldum á svæðinu við gerð deiliskipulagsins. Verður að telja í ljósi staðhátta að tilefni hefði verið til að rannsaka það atriði frekar í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Skipulagsnefndir fara með skipulagsmál samkvæmt skipulagslögum og er meginverksvið þeirra skv. gr. 2.3. í skipulagsreglugerð að fjalla um stefnumörkun í skipulagsmálum, hafa forgöngu um gerð og breytingar á skipulagsáætlunum og fjalla um skipulagstillögur. Hefur skipulagsfulltrúi umsjón með skipulagsgerð samkvæmt nefndum lögum. Situr hann fundi skipulagsnefndar og er sérfróður á sviði skipulagsmála. Í 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að þegar frestur til athugasemda sé liðinn skuli sveitarstjórn taka tillöguna til umræðu að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Samkvæmt því er sveitarfélagið hefur upplýst fjallaði skipulagsnefnd ekki um hina kærðu tillögu að liðnum athugasemdafresti svo sem áskilið er í lögum. Var undirbúningi hinnar kærðu ákvörðunar því áfátt að þessu leyti.

Verða framangreindir annmarkar, sem lúta bæði að rannsókn máls og lögboðinni málsmeðferð, þess eðlis að fella verður hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfum Þorsteins Bjarnasonar.

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps frá 2. ágúst 2016 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í landi Víðivalla ytri 1.

____________________________________
Nanna Magnadóttir (sign)

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson (sign)                                     Þorsteinn Þorsteinsson (sign)

 
 

 

9/2017 Veghúsastígur

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 1. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 9/2017, kæra á ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. desember 2016 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, staðgreinireits 1.152.4, vegna lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra nánar tilgreindir lóðareigendur lóðarinnar að Klapparstíg 19 og Veghúsastíg 1 þá ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. desember 2016 að synja um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötusvæðis, staðgreinireits 1.152.4, vegna fyrrnefndrar lóðar.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 18. maí 2017.

Málavextir: Húsin að Klapparstíg 19 og Veghúsastíg 1 eru á lóð þar sem í gildi er deiliskipulag Skúlagötusvæðis fyrir staðgreinireit 1.152.4. Voru húsin friðuð á grundvelli aldurs þeirra skv. lögum nr. 80/2012 um menningarminjar. Árið 2014 lýsti Minjastofnun Íslands friðun hússins að Veghúsastíg 1 úr gildi fallna þar sem húsið væri metið óviðgerðarhæft.

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 24. febrúar 2016 var lögð fram fyrirspurn lóðarhafa umræddrar lóðar um hvort heimilað yrði að breyta deiliskipulagi lóðarinnar. Á lóðinni yrðu lágreistar byggingar með sex til sjö litlum íbúðum og húsið að Veghúsastíg 1 yrði rifið. Einnig var lagt fram bréf frá arkitektum, dags. 27. nóvember 2015, umsagnir Borgarsögusafns Reykjavíkur, dags. 19. og 22. janúar 2016, og umsögn Minjastofnunar Íslands, dags. 11. febrúar s.á. Jafnframt var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 22. febrúar s.m., þar sem fram kom að fallist væri á að unnin yrði tillaga að breytingu deiliskipulags í samræmi við tillögu, dags. 27. nóvember 2015, en lagt til að núverandi hús að Veghúsastíg 1, eða a.m.k. form þess, stærð og ásýnd, yrði fellt inn í tillöguna og það af húsinu sem nýtilegt væri yrði nýtt við endurbygginguna. Færði umhverfis- og skipulagsráð til bókar að ekki væru gerðar athugsemdir við erindið, sbr. þó skilyrði og leiðbeiningar sem fram kæmu í fyrrgreindri umsögn skipulagsfulltrúa.

Í kjölfar þessa lögðu lóðarhafar fram umsókn um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar, sem tekin var fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 6. maí 2016. Í breytingunni fólst m.a. að skilgreindir voru nýir byggingarreitir á lóðinni og gert þar ráð fyrir sex íbúðum og smáhýsi. Jafnframt yrðu byggingar á lóð Veghúsastígs 1 fjarlægðar, sbr. uppdrátt, dags. 27. apríl 2016. Málinu var vísað til meðferðar hjá verkefnisstjóra og síðan lagt fram að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 20. maí s.á., sem vísaði því til umhverfis- og skipulagsráðs. Var umsóknin lögð fram á fundi ráðsins 15. júní 2016 og m.a. tekið fram að byggingar á lóð nr. 1 við Veghúsastíg yrðu fjarlægðar samkvæmt deiliskipulags og skýringaruppdrætti, dags. 23. maí s.á. Samþykkti ráðið að auglýsa framlagða tillögu til kynningar og vísa málinu til borgarráðs. Tók það málið fyrir á fundi sínum 23. júní s.á. og samþykkti greinda afgreiðslu. Á kynningartíma tillögunnar bárust athugasemdir frá sex aðilum.

Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 7. desember 2016 og henni synjað af meirihluta ráðsins með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 5. s.m. Í umsögninni kom m.a. fram að þótt timburhúsið að Veghúsastíg 1 væri illa farið þá væri æskilegt að gera við það eða eftir atvikum að endurbyggja það á núverandi stað, helst á upphaflegum undirstöðum. Vegna framkominna athugasemda hefði verið ákveðið að fara yfir málið á ný með það í huga að húsið stæði áfram á sínum stað. Málinu var einnig vísað til borgarráðs og staðfesti meirihluti þess nefnda synjun á fundi sínum 15. s.m.

Borgarstjórn tók málið fyrir 20. desember 2016 og samþykkti fyrrnefndar synjanir borgarráðs og umhverfis- og skipulagsráðs með tíu atkvæðum gegn fjórum. Færði meirihluti borgarstjórnar til bókar að gamla timburhúsið að Veghúsastíg 1 hefði ótvírætt varðveislugildi og að deiliskipulagstillögu um að heimilt yrði að rífa það eða fjarlægja væri hafnað.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að nánar tilgreindur borgarfulltrúi hafi verið vanhæfur til meðferðar málsins vegna fyrri afstöðu hans til þess. Hafi hann ítrekað látið í ljós þá skoðun sína að vernda bæri Veghúsastíg 1. Við endanlega afgreiðslu málsins hafi niðurstaða þess frekar ráðist af fyrri fordómum en málefnalegum sjónarmiðum. Í ljósi stöðu umrædds borgarfulltrúa, sem formanns umhverfis- og skipulagssviðs, verði að ætla að um sé að ræða ógildingarannmarka. Sé vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 280/2003 í þessu sambandi.

Á fundi kærenda með Reykjavíkurborg hafi komið fram að borgin hefði í hyggju að kúvenda afstöðu sinni án þess að tilgreind væri fyrir því skýr ástæða. Hafi lóðareigendum verið boðið að breyta tillögu að deiliskipulagi á þann veg að byggingarmagn yrði aukið en húsið að Veghúsastíg 1 endurgert. Hafi nýrri tillögu verið skilað inn. Í framhaldi af því hafi ákvörðun verið tekin, án þess að rætt hafi verið við lóðareigendur eða þeim gefinn kostur á að tjá sig um framkomin sjónarmið og ástæður kúvendingar Reykjavíkurborgar. Hafi borið að veita þeim andmælarétt skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Um lögvernduð eignarréttindi sé að ræða og beri að skýra allan vafa í málinu lóðareigendum í hag. Stjórnvöldum beri að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum. Lóðareigendur hafi lagt fram fyrirspurnartillögu, sem grundvallast hafi á því að tekið yrði tillit til sjónarmiða í aðalskipulagi um hverfisvernd, til hússins að Klapparstíg 19 og hverfisins að öðru leyti. Hafi þeir gengið lengra í þessum efnum en þörf hefði krafið, þar sem tillaga þeirra hafi verið lágstemmdari og hófstilltari en byggingar á lóðum í kring. Minjastofnun Íslands og Borgarsögusafn Reykjavíkur hafi í umsögnum sínum fagnað hinni kærðu deiliskipulagstillögu og talið að um jákvætt skref væri að ræða. Borgarsögusafn sé hluti af Reykjavíkurborg og geti það ekki talist lögmætt sjónarmið af hálfu borgarinnar að hafna eigin umsögn án þess að nokkur breyting hafi orðið á málinu. Með hliðsjón af framangreindu geti vernd Veghúsastígs 1 ekki talist málefnalegt sjónarmið sem niðurstaða verði byggð á. Þegar fyrirspurnartillagan hafi verið samþykkt hafi verið tekið fram að hún væri í góðu samræmi við byggð á Veghúsastíg. Hefði Reykjavíkurborg því þegar tekið afstöðu til Veghúsastígs 1 og samþykkt að húsið mætti hverfa, enda væri tillagan að öllu leyti í samræmi við markmið skipulagsins um endurskipulagningu eldri hverfa. Það að tillagan hafi verið auglýst án þess að samhliða væri auglýst breyting á aðalskipulagi staðfesti það mat Reykjavíkurborgar að tillagan væri í samræmi við aðalskipulag.

Deiliskipulagstillagan hafi verið í fullu samræmi við fyrirspurnartillöguna. Hafi því borið að samþykkja tillöguna nema ný sjónarmið hafi leitt til annars, en engin ný sjónarmið hafi komið fram. Reykjavíkurborg hafi þegar hafnað þeim sjónarmiðum sem komið hafi fram í athugasemdum. Geti borgin ekki metið sömu sjónarmið með öðrum hætti við endanlega afgreiðslu málsins. Minjastofnun hafi sem æðsta stjórnvald landsins á sviði minjamála þegar tekið afstöðu til varðveislugildis hússins. Beri sveitarfélaginu að virða þau málefnalegu valdmörk sem séu á milli stjórnvalda. Megi hér nefna álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2835/2003. Með sama hætti sé Reykjavíkurborg óheimilt að byggja niðurstöðu sína á sjónarmiðum um minjagildi einstakra húsa þar sem það sé skýrlega á forræði Minjastofnunar að gera það.

Húsið að Veghúsastíg 1 sé ónýtt og því ómögulegt að gera það upp. Hafi þetta ítrekað komið fram við meðferð málsins og sé Reykjavíkurborg fullkunnugt um þessa staðreynd. Í engu sé að þessu vikið í umsögn borgarinnar um deiliskipulagstillöguna. Hér hljóti þó að vera um mikilvægt sjónarmið að ræða.

Fyrir nokkrum árum hafi verið veitt heimild til að reisa hús á lóðinni að Klapparstíg 17 í stað timburhúss sem þar hafi áður staðið og eyðilagst hafi í eldi. Nýtingarhlutfall lóðarinnar hafi hækkað úr 0,85 í 1,25. Verði ekki annað séð en að það mál sé mjög sambærilegt máli þessu, að því viðbættu að yfirvöld friðunarmála hafi samþykkt niðurrif Veghúsastígs 1.

Verði ekki fallist á kröfu kærenda sé réttaröryggi íbúa Reykjavíkur teflt í tvísýnu. Lóðareigendum hafi ítrekað verið lofað að þeim yrðu veittar tilteknar byggingarheimildir. Hafi þeir tekið ákvarðanir í trausti þess að treysta mætti yfirlýsingum starfsmanna borgarinnar og kjörnum fulltrúum, sem ítrekað hafi lýst yfir stuðningi við tillöguna. Sé í þessu sambandi vísað til bókunar minnihluta í borgarráði frá 15. desember 2016 um málið, en þar segi eftirfarandi: „Húsið við Veghúsastíg 1 var metið ónýtt árið 2011. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur mat húsið óíbúðarhæft í byrjun árs 2012 og Minjastofnun affriðaði húsið á árinu 2014 vegna bágs ástands þess. Minjastofnun gerði ekki athugasemd við niðurrif þess. Vegna þessa er eðlilegt að fallast á þá deiliskipulagsbreytingu sem auglýst hefur verið“. Þau atriði sem minnst sé á í bókuninni sé hvergi að finna í rökstuðningi borgarinnar fyrir synjun.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kærenda verði hafnað. Sé málið ekki þannig vaxið að ógildingu varði.

Formaður umhverfis- og skipulagsráðs hafi með ummælum sínum í viðtali við fjölmiðil 18. september 2014 verið að staðfesta þá stöðu sem lóðin hafi verið í samkvæmt gildandi deiliskipulagi frá 2004. Geri það ráð fyrir að húsið verði gert upp í samræmi við aldur og byggingarstíl vegna verndunar götumyndar. Hafi fyrrgreindur aðili oft talað á opinberum vettvangi um mikilvægi húsafriðunar, enda sé það eitt af hlutverkum kjörinna fulltrúa að upplýsa almenning og tjá skoðanir sínar. Ekki séu uppi þær aðstæður skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að formaðurinn teljist vanhæfur. Hafi hann engra persónulegra hagsmuna að gæta í málinu og ekki hafi verið sýnt fram á að hann hafi blandast svo persónulega í málið að það geri  hann óhlutdrægan. Sé vísað til athugasemda við 3. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum. Til að um vanhæfi sé að ræða verði að gera þá kröfu að viðkomandi starfsmaður hafi tjáð sig með beinum hætti um það ákveðna mál sem um sé að tefla. Sú almenna skoðun formannsins um að stuðla beri að verndun húsanna geri hann ekki vanhæfan.

Umhverfis- og skipulagsráð hafi samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi vegna álits Minjastofnunar Íslands um að húsið að Veghúsastíg 1 væri algerlega ónýtt. Með því hafi formaðurinn verið að lýsa þeirri afstöðu sinni að rétt væri að kynna framkomna tillögu fyrir hagsmunaaðilum og kalla eftir athugasemdum. Eftir að athugasemdir hafi borist og eftir talsverða umræðu meðal húsafriðunarfólks hafi þó styrkst sú skoðun formannsins að húsið ætti að standa, þ.e.a.s. að borgin ætti að gera það sem skilyrði fyrir uppbyggingarheimildum, á reit þar sem engar heimildir voru, að lóðarhafar endurbyggðu húsið frá grunni.

Málefni hússins að Veghúsastíg 1 eigi sér töluverða forsögu. Byggingarfulltrúi hafi t.a.m. synjað umsókn um leyfi fyrir niðurrifi hússins árið 2014. Hafi við þá afgreiðslu verið vísað til minnisblaðs verkþjónustu þar sem komist hafi verið að þeirri niðurstöðu að tæknilega séð væri hægt að gera við húsið. Líkur væru á því að meginhluti burðarviða væri heill, en skipta þyrfti um allar klæðingar, gera við undirstöður og glugga eða endurnýja þá. Formaður umhverfis- og skipulagsráðs hafi enga aðkomu átt að þeirri afgreiðslu. Í ljósi fyrri afgreiðslna á erindum kærenda hafi lóðareigendur ekki getað vænst þess síðar að fá heimild til niðurrifs hússins.

Kærendur hafi haft frumkvæði af málinu með umsókn sinni þar sem þeir hafi sjálfir veitt allar nauðsynlegar upplýsingar. Í slíkum tilvikum sé ekki skylt að veita andmælarétt áður en ákvörðun sé tekin. Sé t.d. ekki talið að veita þurfi umsækjendum andmælarétt við fram komnum athugasemdum eftir auglýsingu tillagna.

Skipulagsvald í hverju sveitarfélagi sé í höndum sveitarstjórnar. Sé gildandi deiliskipulag fyrir umrædda lóð bindandi fyrir lóðarhafa og eigi þeir enga lögvarða kröfu á því að fá því breytt. Verði ekki annað séð en að synjun umhverfis- og skipulagsráðs hafi verið málefnaleg og rökstudd, en í afgreiðslunni sé vísað til þeirra raka sem fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa.

Ekki sé fallist á að verið sé að brjóta jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Mismunandi nýtingarhlutfall einstakra lóða helgist m.a. af skipulagsmarkmiðum hverju sinni og mismunandi aðstæðum á lóðum. Möguleg mismunun sem af því leiði verði ekki talin fara í bága við jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins. Aðstæðum sem verið hafi að Klapparstíg 17 verði ekki jafnað til þeirrar stöðu sem húsið að Veghúsastíg 1 sé í. Hvergi sé áskilið í lögum að skylt sé að veita aðrar uppbyggingarheimildir í þeim tilvikum sem hús teljist illa farin. Þótt húsið hafi verið affriðað þýði það ekki að borginni sé allt að einu skylt að leyfa niðurrif þess, heldur einfaldlega að sveitarfélagið geti heimilað breytingar á því án aðkomu Minjastofnunar. Eftir sem áður sé leyfisveitingarvaldið hjá viðkomandi sveitarfélagi, enda beinlínis gert ráð fyrir því í lögum um menningarminjar að sækja þurfi um affriðun húsa áður en sótt sé um byggingarleyfi. Umsagnir Borgarsögusafns séu aðeins ráðgefandi álit, en ekki bindandi.

Fyrirspurn um leyfi verði ekki lögð að jöfnu við formlega umsókn. Feli jákvætt svar við slíkri fyrirspurn ekki í sér stjórnvaldsákvörðun sem skapi lóðarhöfum réttindi eða skyldur, enda sé ekki um að ræða lokaákvörðun. Sé sérstaklega bent á að skipulagsfulltrúi hafi lagt til í umsögn sinni að núverandi hús að Veghúsastíg yrði fellt inn í tillöguna eða það sem nýtilegt væri af húsinu yrði nýtt við endurbygginguna. Þá hafi auglýst tillaga m.a. falið í sér aukningu á byggingarmagni frá því sem gert hafi verið ráð fyrir í fyrirspurnartillögu. Fjölmörg dæmi séu um að auglýstum tillögum hafi verið synjað vegna athugasemda úr nágrenninu. Sú staða hafi verið upp í þessu máli.

Árið 2011 hafi byggingarfulltrúi farið fram á það við eiganda hússins að gluggar þess yrðu lagaðir, húsið málað og lóð snyrt, en húsið hafi þá staðið autt í fjöldamörg ár, án nokkurs viðhalds. Verði ástand hússins í dag einungis rakið til aðgerðarleysis eiganda. Verði og ekki talið fullreynt að húsið sé í raun ónýtt með öllu.

——-

Kærandi hefur komið að athugasemdum við málsrök Reykjavíkurborgar. Þar kemur m.a. fram að engum gögnum hafi verið framvísað um að mögulegt sé að lagfæra húsið að Veghúsastíg 1. Jafnframt styðji engin gögn þá fullyrðingu að viðhaldi hússins hafi vísvitandi ekki verið sinnt og sé því mótmælt. Frekari sjónarmið hafa verið færð fram í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en höfð hafa verið til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur, sem staðfest var í borgarstjórn, að synja um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Annast þær jafnframt og bera ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags skv. 29. og 38. gr. sömu laga. Unnt er að óska eftir því við sveitarstjórn að deiliskipulagi sé breytt. Einstakir aðilar eiga þó almennt ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram slíka breytingu gegn vilja skipulagsyfirvalda. Við meðferð slíkrar umsóknar ber sveitarstjórn hins vegar að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar. Jafnframt skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fyrir liggur að borgarstjórn hafnaði umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi umræddrar lóðar með þeim rökum að húsið að Veghúsastíg 1 hefði ótvírætt varðveislugildi. Samkvæmt upplýsingum er bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 13. desember 2017, og staðfestar voru 31. janúar 2018, lá fyrir fundi borgarstjórnar útskrift úr gerðabók umhverfis- og skipulagsráðs frá 7. desember 2016 varðandi málið. Jafnframt lágu fyrir eftirfarandi fylgiskjöl: Deiliskipulags og skýringaruppdrættir, dags. 23. maí 2016, skýrsla Mannvits vegna cobraborunar, dags. 9. júní 2016, innsendar athugasemdir og umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. desember 2016.

Í nefndri umsögn skipulagsfulltrúa var skírskotað til þess að húsið að Veghúsastíg 1 hefði orðið fyrir vatnsskemmdum og hefði það verið metið ónýtt með álitsgerð árið 2011. Vegna þessa hefði Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur metið húsið óíbúðarhæft í ársbyrjun 2012. Hefði Minjastofnun Íslands affriðað húsið á árinu 2014 vegna bágs ástand þess og ekki gert athugasemd við að húsið yrði rifið. Þá var tekið fram að vegna fyrrgreindra umsagna og álitsgerða hefði umhverfis- og skipulagsráð tekið jákvætt í að auglýsa þá tillögu sem nú lægi fyrir. Enn fremur var til þess vísað að Reykjavíkurborg hefði í nokkrum álitsgerðum og minnisblöðum lagt á það áherslu að „haldið yrði í“ steinbæinn að Klapparstíg 19 og timburhúsið að Veghúsastíg 1. Sagði svo: „Þó að timburhúsið sé illa farið, væri æskilegt að gera við það eða eftir atvikum endurbyggja það á núverandi stað, helst á upphaflegum undirstöðum. Vegna fram kominna athugasemda var ákveðið að fara yfir málið á ný með það í huga að húsið stæði áfram á sínum stað. Sú lausn kæmi einnig til móts við athugasemdir eigenda að Veghúsastíg 1A um aðgengi að baklóðinni.“

Minjastofnun Íslands annast framkvæmd verndunar og vörslu menningarminja í landinu skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 80/2012 um menningarminjar og starfar samkvæmt þeim lögum. Samkvæmt stofnskrá sinni, sbr. auglýsingu nr. 807/2015 um staðfestingu safnaráðs á stofnskrá Borgarsögusafns Reykjavíkur, hefur safnið umsjón með menningarminjum í Reykjavík og skal það m.a. sinna minjavörslu í Reykjavík í samræmi við ákvæði laga nr. 80/2012 og halda skrár yfir fornleifar, hús og mannvirki í Reykjavík. Skal leita umsagnar safnstjóra t.d. þegar fjallað er um verndun húsa, s.s. við skipulagsgerð. Þegar fyrirspurn kærenda um breytingu á deiliskipulagi umræddrar lóðar var afgreidd í umhverfis- og skipulagsráði lágu fyrir umsagnir framangreindra aðila. Í umsögn Borgarsögusafns Reykjavíkur, dags. 22. janúar 2016, kemur fram að safnið líti tillöguna jákvæðum augum út frá sjónarmiði borgar og húsverndar. Minjastofnun veitti jafnframt umsögn sína, dags. 11. febrúar 2016, vegna áformaðrar uppbyggingar. Þar var til þess vísað að samkvæmt ástandsmati sem gert hefði verið á Veghúsastíg 1 í maí 2014 væri húsið metið óviðgerðarhæft. Hefði Minjastofnun lýst friðun þess skv. 29. gr. laga nr. 80/2012 úr gildi fallna með bréfi, dags. 20. maí 2014. Gerði stofnunin ekki athugasemd við niðurrif þess eða við fyrirspurnartillöguna. Tækju fyrirhugaðar nýbyggingar tillit til smágerðs mælikvarða gamla steinbæjarins að Klapparstíg 19 og eldri byggðar á reitnum.

Af bókun borgarstjórnar verður ekki með afgerandi hætti ráðið á hverju sú niðurstaða meirihluta borgarstjórnar er byggð að varðveislugildi hússins að Veghúsastíg 1 sé mikið. Þá kemur ekki fram í umsögn skipulagsfulltrúa hver hafi staðið að álitsgerðum og minnisblöðum þeim þar sem lögð sé áhersla á að „haldið yrði“ ekki einungis í steinbæinn að Klappastíg 19 heldur einnig húsið að Veghúsastíg 1, eða hvert innihald þeirra var að öðru leyti. Þá verður hvorki séð að umsögn Minjastofnunar né umsögn Borgarsögusafns hafi legið fyrir hjá borgarstjórn við afgreiðslu á umsókn kærenda. Um var að ræða umsagnir sérfróðra aðila sem gátu haft úrslitaþýðingu við afgreiðslu málsins, en eins og áður er rakið kom fram í umsögn Minjastofnunar Íslands að húsið að Veghúsastíg 1 væri óviðgerðarhæft samkvæmt ástandsmati er gert hefði verið í maí 2014 og að friðun þess hefði verið aflétt. Í umsögn skipulagsfulltrúa um málið var einungis vikið lítillega að áðurgreindri umsögn Minjastofnunar. Í gögnum málsins kemur enn fremur fram að byggingarfulltrúi Reykjavíkur fór fram á það við nánar tilgreinda verkþjónustu að ástand hússins yrði metið og lá það mat fyrir 25. september 2014. Segir þar m.a: „…tæknilega er hægt að gera við húsið og geta undirstöður og burðarviðir nýst en svo til allt annað er úr sér gengið og hefur runnið sitt skeið“. Virðist sem nefnt mat hafi heldur ekki legið fyrir við afgreiðslu málsins hjá borgarstjórn. Verulegur vafi leikur þannig á því að fyrir borgarstjórn hafi legið fullnægjandi gögn við afgreiðslu málsins og verður að telja að vegna framkominnar umsóknar hafi verið tilefni fyrir skipulagsyfirvöld til frekari rannsóknar. Þegar metið er lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar verður aukinheldur að hafa í huga að borgarstjórn bar ekki aðeins að fara að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga heldur var henni einnig rétt að líta til stjórnarskrárvarinna eignarréttinda lóðarhafa og taka í rökstuðningi sínum m.a. afstöðu til þess hvort að raunhæft væri að gera kröfu til varðveislu hússins að Veghúsastíg 1, einkum og sér í lagi að teknu tilliti til þess álits Minjastofnunar Íslands að húsið væri óviðgerðarhæft. Er ljóst af framangreindu að ekki einungis var rannsókn málsins verulega áfátt heldur var rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar sömuleiðis ófullnægjandi.

Sex athugasemdir komu fram á kynningartíma deiliskipulagstillögunnar. Ein þeirra barst frá eigendum hússins að Veghúsastíg 1A og laut að því að þinglýst kvöð væri til staðar þess efnis að ekki yrði reist girðing á lóðamörkum Veghúsastígs 1 og 1A. Af þeim fimm athugasemdum öðrum sem bárust var ein órökstudd með öllu en því mótmælt að húsinu Veghúsastíg 1 yrði raskað eða það rifið. Hinar fjórar voru efnislega samhljóða og vísuðu þær allar til viðtals við formann umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar, sem birtist í Fréttablaðinu 18. september 2014 og vefmiðlinum www.visir.is sama dag. Kom þar fram að húsið að Veghúsastíg 1 væri friðað sökum aldurs og að skoðun formannsins væri sú að Veghúsastíg 1 ætti að gera upp. Haft var eftir formanninum að það kæmi „ekki til greina að eigendur komist upp með að láta aldursfriðað hús grotna innan frá árum saman og krefjist svo þess að borgin leyfi þeim að rífa það og vitni í slökkviliðið um slysahættu.“ Af þeim fjórum athugasemdum þar sem tekið var undir sjónarmið formannsins vísuðu höfundar tveggja til fyrri tengsla sinna við nágrenni Veghúsastígar 1, annars vegar vegna búsetu og hins vegar vegna rekstrar á árum áður.

Með bréfi, dags. 20. maí 2014, aflétti Minjastofnun Íslands friðun hússins að Veghúsastíg 1. Var því röng sú fullyrðing formanns umhverfis- og skipulagsráðs, sem birtist í fjölmiðlun í september s.á., að húsið væri friðað fyrir aldurs sakir. Þar af leiðir að fyrrgreindar fjórar athugasemdir við deiliskipulagstillöguna, þar sem tekið var undir sjónarmið formannsins, geta vart talist hafa verið gefnar á réttum forsendum. Veittu þær athugasemdir því ekki viðhlítandi stoð fyrir þeirri ályktun skipulagsyfirvalda að húsið skyldi standa. Þá verður heldur ekki séð að gætt hafi verið meðalhófs við meðferð málsins og reynt að finna aðra lausn en þá að hafna deiliskipulagstillögunni til að koma til móts við þá athugasemd nágranna að þinglýst kvöð væri til staðar um framkvæmdir á lóðamörkum.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður að telja að svo verulegir annmarkar hafi verið á undirbúningi og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar að fella beri hana úr gildi.

Athygli vekur að nefndur formaður umhverfis- og skipulagsráðs tók þátt í meðferð málsins hjá ráðinu, sem og í borgarstjórn. Orkar það tvímælis í ljósi ummæla þeirra sem hann hafði látið falla í fjölmiðlum um þetta tiltekna hús og meint atferli lóðarhafa, enda voru ummælin til þess fallin að draga í efa óhlutdrægni formannsins. Að fenginni framangreindri niðurstöðu eru þó ekki efni til frekari umfjöllunar um þetta atriði.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda og umfangs mála sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur frá 20. desember 2016 um að synja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Skúlagötureits, staðgreinireits 1.152.4 vegna lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg og nr. 1 við Veghúsastíg í Reykjavík.

2/2016 Laufásvegur 70

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2016, kæra á breytingu deiliskipulags Smáragötureita vegna Laufásvegar 70, sem samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur hinn 26. nóvember 2015 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2016, er barst nefndinni 11. s.m., kæra eigendur, Smáragötu 13, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. nóvember 2015 að breyta deiliskipulagi Smáragötureita. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. mars 2016.

Málavextir: Upphaf málsins má rekja til framkvæmda á lóð Laufásvegar 70 sem veitt var byggingarleyfi fyrir á árinu 2012. Það leyfi var síðar fellt úr gildi að hluta með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 75/2012 hinn 11. júní 2015, en framkvæmdum var þá lokið. Kæruefnið snýr að upphækkuðum palli við dyr á 1. hæð á miðri suðvestur hlið hússins við Laufásveg 70 og aðliggjandi lægri palli við vestur horn hússins. Pallarnir eru tengdir með þrepum.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi Smáragötureita vegna Laufásvegar 70 var grenndarkynnt 24. september 2015 með athugasemdafresti til 22. október s.á. Athugasemdir bárust frá íbúum Smáragötu 11 og 13. Þeim var svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. nóvember s.á., þar sem jafnframt var lagt til að grenndarkynnt tillaga að breyttu deiliskipulagi yrði samþykkt. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa samþykkti umhverfis- og skipulagsráð tillöguna hinn 18. nóvember 2015. Borgarráð samþykkti breytt deiliskipulag 26. nóvember s.á. og auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. desember 2015. Í breytingunni fólst að byggingareit lóðarinnar var breytt þannig að áðurnefndir steinsteyptir pallar féllu innan hans. Í skilmálum segir að lægri pallurinn skuli vera í lóðarhæð eins og hún var áður og hærri pallurinn u.þ.b. 1,3 m hærri. Að öðru leyti gildi skilmálar deiliskipulags Smáragötureita frá árinu 2005. Kæra vegna þessarar ákvörðunar barst úrskurðarnefndinni 11. janúar 2016, eins og að ofan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að engin haldbær rök hafi staðið til hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar önnur en að festa í sessi þegar gerða byggingu, sem gerðar hafi verið athugasemdir við í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna neikvæðra grenndaráhrifa. Ekki hafi verið tekið tilliti til athugasemda við grenndarkynningu. Í reynd sé um að ræða viðbyggingu við húsið að Laufásvegi 70, en ekki palla líkt og borgaryfirvöld haldi fram. Mannvirkið sé úr járnbentri steinsteypu, á tveimur hæðum og með óuppfylltu innra rými sem unnt sé að gera innangengt frá íbúðarhúsi. Hæð mannvirkisins sé umfram heimild í deiliskipulagi. Efri pallur með handriði sé 3,61 m frá fyrri hæð lóðar og sá neðri 1,54 m ef marka megi mælingu starfsmanna Reykjavíkurborgar. Innsýn sé af mannvirkinu inn um glugga húss kærenda og yfir útvistarsvæði lóðar þeirra. Með umræddri deiliskipulagsbreytingu séu borgaryfirvöld að firra sig ábyrgð á mistökum sem þau beri ábyrgð á, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 75/2012, þar sem bent hafi verið á að grenndaráhrif vegna pallanna gætu orðið veruleg og að nýtingarmöguleikar nærliggjandi lóða gætu skerst vegna hljóðvistar og yfirsýnar. Deiliskipulagsbreytingin verði því kærendum til varanlegs tjóns. Borgaryfirvöld hafi í málsmeðferð sinni fyrst og fremst gætt hagsmuna Laufásvegar 70 á kostnað hagsmuna kærenda. Vel hefði mátt hanna viðbygginguna innan marka þess deiliskipulags sem í gildi var. Þess sé krafist að nefnd deiliskipulagsbreyting verið felld úr gildi, auk þess sem viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfis vegna viðbyggingarinnar hafi á sínum tíma verið ólögmæt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsbreytingar vegna Laufásvegar 70 verði hafnað. Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hæð pallanna sé í samræmi við teikningar. Lægri pallurinn sé 0,88 m ofan grasflatar á miðri lóð og 1,59 m yfir syðsta hluta lóðar, þar sem hún sé lægst. Hærri pallurinn sé 1,95 m yfir hæð grasflatar á miðri lóð en 2,66 m yfir lóð þar sem hún sé lægst. Hæð pallanna sé ekki óeðlileg miðað við aðstæður og telja verði skiljanlegt að húseigendur við Laufásveg vilji geta gengið úr íbúðum sínum út í garð. Sökum landhalla séu gerðir pallar og stigar. Ólíklegt sé að nágrannar verði fyrir ónæði vegna pallanna. Innsýn í garða verði ekki meiri en búast megi við í því umhverfi sem um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Smáragötureita þar sem gert er ráð fyrir tveimur pöllum á lóðinni Laufásvegi 70, sem eru þar þegar fyrir.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarfélög með vald til gerðar deiliskipulagsáætlana. Við beitingu þess valds ber m.a. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Í skipulagsvaldi sveitarfélaga felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum. Þessu valdi eru aðallega settar skorður með kröfu um samræmi við aðalskipulagsáætlanir og kröfu um lögmæta málsmeðferð sem gefi hagsmunaaðilum kost á að koma að athugasemdum áður en ákvörðun er tekin. Telji hagsmunaaðilar sig verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinga á deiliskipulagsáætlunum raskar það ekki gildi breytinganna, en getur eftir atvikum orðið grundvöllur bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Tekin var ákvörðun af hálfu Reykjavíkurborgar um að fara með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu eftir ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Það fól í sér að breytingin var metin óveruleg og því væri nægjanlegt að kynna áform um hana fyrir næstu nágrönnum með grenndarkynningu. Fyrir liggur að tillagan var grenndarkynnt frá 24. september 2015, með athugasemdafresti til 22. október s.á. Grenndarkynningin náði til kærenda og komu þeir athugasemdum að innan tilskilins frests. Að lokinni grenndarkynningu var breytingatillagan samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um þær athugasemdir sem borist höfðu. Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu hinn 26. nóvember s.á. Samkvæmt framsögðu var gætt að rétti kærenda til þess að koma að athugasemdum við kynningu skipulagstillögunnar og lá efnisleg afstaða borgarráðs til þeirra fyrir við afgreiðslu málsins.

Á meðal þess sem deilt er um í málinu er hæð umræddra palla í lóðinni og þá hvort samræmi sé á milli þess sem deiliskipulag heimilar og þess hvernig pallarnir séu í raun. Í skilmálum hins breytta deiliskipulags segir að lægri pallur skuli vera í lóðarhæð eins og hún var áður, en að sá hærri sé um það bil 1,3 m hærri. Af orðalagi skilmálanna verður ráðið að miða skuli við upphaflega hæð lóðarinnar frá byggingartíma hússins árið 1927. Af upphaflegum aðaluppdráttum hússins má sjá að lóðin við suðvestur hlið hússins hefur staðið nokkru hærra en síðar varð. Kann lóðin að hafa sigið nokkuð á þeim níu áratugum sem frá er liðnir eða verið grafin niður.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki liggja fyrir þeir annmarkar á málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar sem raskað geta gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 26. nóvember 2015 um breytingu á deiliskipulagi Smáragötureita vegna Laufásvegar 70.

26/2016 Hótel í landi Orustustaða

Með
Árið 2017, föstudaginn 22. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Geir Oddsson umhverfis- og auðlindafræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 um að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða í Skaftárhreppi, og framkvæmdir því tengdar, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra, eigendur Hraunbóls á Brunasandi, og leigutakar lóða í landi jarðarinnar Hraunbóls, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða, Skaftárhreppi, og framkvæmdir því tengdar, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Með bréfi til nefndarinnar, dags. 10. mars 2016, mótteknu 11. s.m., kæra eigendur lögbýlanna Hruna og Bjarnartanga á Brunasandi jafnframt nefnda ákvörðun. Taka þeir fram að óskipt land jarðanna Teygingalækjar, Sléttu, Hruna og Bjarnartanga nái allt til sjávar og liggi að landi Orustustaða austanmegin. Loks kæra Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, sömu ákvörðun Skipulagsstofnunar með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 11. mars 2016, er móttekið var sama dag hjá nefndinni.

Gera allir kærendur kröfu um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir Skipulagsstofnun að taka ákvörðun um að umrædd framkvæmd verði látin sæta mati á umhverfisáhrifum. Í tveimur kæranna er jafnframt gerð sú varakrafa að Skipulagsstofnun verði gert að taka málið á ný til efnismeðferðar skv. lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. 

Verða síðartilgreindu kærumálin, sem eru númer 27/2016 og 28/2016, sameinuð kærumáli þessu enda þykja hagsmunir kærenda ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 14. apríl 2016. 

Málavextir: Hinn 3. desember 2015 barst Skipulagsstofnun tilkynning um fyrirhugaða framkvæmd í Skaftárhreppi til ákvörðunar um matsskyldu hennar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í tilkynningu framkvæmdaraðila kom fram að framkvæmdin fæli í sér að á jörðinni Orustustöðum, rúmum 20 km austan við Kirkjubæjarklaustur, yrðu m.a. reist hótel og starfsmannahús. Hefðu Orustustaðir orðið nýbýli árið 1823 en lagst í eyði um 1950. Væri jörðin á Brunasandi, sveit sem byggst hefði upp eftir Skaftárelda. Þar væri votlendi syðst við sjóinn og austast á sandinum með fágætum plöntutegundum, fjölbreyttu fuglalífi og sjaldgæfum fuglategundum. Á svæði því sem framkvæmdirnar næðu til væri hins vegar uppgróinn sandur, þar væri móajarðvegur um 10 cm þykkur á malarbornum eða grýttum grunni. Við framkvæmdir yrði þess gætt að framkvæmdasvæðið yrði í góðri fjarlægð frá Eystra Eldhrauni og ekki væri verið að raska votlendissvæðum sem væru um 10 km sunnar. Í tilkynningu kom einnig fram að unnið hefði verið að uppbyggingu hótels á Orustustöðum um nokkurt skeið. Gerð hefði verið breyting á Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022 vegna þessa og deiliskipulag hefði verið samþykkt fyrir svæðið. Samkvæmt aðalskipulagi væri stærð svæðisins 15 ha.

Byggingarreitir yrðu tveir, B1 og B2, byggingar á 1-2 hæðum, samtals allt að 7.000 m². Á byggingarreit B1 yrði m.a. hótel með 200 herbergjum, ásamt móttöku og veitingaaðstöðu. Ætlunin væri að hótelið myndaði eina heild, sem væri samsett úr nokkrum húsagerðum sem gætu tengst saman. Heildarbyggingarmagn reitsins væri 6250 m². Væri svæðið fyrir byggingarreit hótelsins á milli tveggja lækja sem rynnu undan Eystra Eldhrauni, Lambhúsalækjar og Orustustaðalækjar. Gert væri ráð fyrir 115 bílastæðum, sem staðsett yrðu vestan við byggingarnar, og þremur rútustæðum innan lóðar. Á byggingarreit B2 væri gert ráð fyrir starfsmannahúsum, allt að þremur byggingum á einni hæð. Heildarbyggingarmagn væri 750 m², allt að 15 íbúðir, hver um sig um 50 m² að stærð. Ráðgerð væru 15 bílastæði við starfsmannahús. Leyfilegt væri að fjölga bílastæðum ef þörf krefði í allt að 1 bílastæði á hverja 50 m² húsnæðis.

Ekki væri aðkomuvegur að jörðinni í dag. Gerðar hefðu verið athugasemdir vegna legu aðkomuvegar að Orustustöðum í skipulagsferlinu en að loknum samanburði á sex veglínum hefði leið C verið valin. Yrði aðkoma að umræddu hóteli frá þjóðvegi 1 eftir núverandi vegi er lægi að Hraunbóli og eftir nýjum 1,7 km vegkafla sem lægi af núverandi vegi rétt vestan við Hraunból. Veglínan yrði rúmlega 500 m sunnan við bæjarstæðið á Hraunbóli. Vegurinn lægi meðfram skógræktarsvæði og að hótellóðinni sem væri í um 300 m fjarlægð frá hraunjaðri og búsetuminjum á Orustustöðum. Yrði hann 7 m breiður og lagður þannig að lindarvatn rynni undir hann og í gegnum vegræsi þannig að ekki myndaðist fyrirstaða. Ræsi yrði sett í veginn við alla læki svo vatn rynni áfram til suðurs og væri reiknað með 13 ræsum. Gert væri ráð fyrir nýju efnistökusvæði sem notað yrði í uppbyggingu á aðkomuvegi og framkvæmdum á Orustustöðum. Efnistakan yrði á óröskuðu landi, samtals um 5.000 m² að stærð. Teknir yrðu um 5000 m³ úr námunni. Að framkvæmdum loknum yrði henni lokað og við frágang hennar búnar til tjarnir.

Neysluvatnslagnir yrðu lagðar frá brunnsvæði neðan við hraunjaðarinn og umhverfis það væri skilgreint vatnsverndarsvæði. Lagnaleið yrði frá vatnsbóli að hótellóð. Um nýtt vatnsból yrði að ræða. Yrði að tryggja aðgengi að neysluvatni sem uppfyllti gæðakröfur reglugerðar nr. 536/2001 um neysluvatn. Þá yrði skólp hreinsað með þriggja þrepa hreinsun eða öðrum aðferðum sem ekki hefðu meiri umhverfisáhrif á viðtaka, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Endanleg staðsetning, frágangur og stærð hreinsistöðvar yrði í samráði við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, en á deiliskipulagsuppdrætti væri sýndur 2.165 m² reitur fyrir fráveitumannvirki.

Í kjölfar tilkynningarinnar óskaði Skipulagsstofnun umsagna Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar, Skaftárhrepps, Minjastofnunar Íslands og Ferðamálastofu um hvort og á hvaða forsendum, umrædd framkvæmd skyldi háð mati á umhverfisáhrifum að teknu tilliti til 2. viðauka í lögum nr. 106/2000. Var einnig farið fram á að í umsögn kæmi m.a. fram, eftir því sem við ætti, hvort nægjanlega væri gerð grein fyrir framkvæmdinni, umhverfi hennar, mótvægisaðgerðum og vöktun.

Heilbrigðiseftirlit Suðurlands taldi í umsögn sinni, dags. 14. desember 2015, að framkvæmdin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Yrðu varanleg umhverfisáhrif framkvæmdarinnar, óveruleg, önnur en sjónræn og staðbundin í næsta nágrenni hennar. Mögulegt væri að milda þau með góðri umgengni á framkvæmdatíma og vönduðum frágangi umhverfis og mannvirkja að framkvæmdum loknum.

Fram kom í umsögn Vegagerðarinnar, dags. 15. desember 2015, að gerð væri nægjanleg grein fyrir fyrirhuguðum framkvæmdum hvað vegagerð varðaði. Væri ekki ástæða til að framkvæmdin færi í mat á umhverfisáhrifum.

Niðurstaða umsagnar Umhverfisstofnunar, dags. 17. desember 2015, var sú að helstu umhverfisáhrif framkvæmdanna yrðu neikvæð sjónræn áhrif vegna framkvæmda er tækju yfir 15 ha sem og vegna starfsemi sem hefði í för með sér umferð mörg hundruð manna um lítt snortið svæði. Meðal þess sem stofnunin vakti athygli á voru ný lög nr. 60/2013 um náttúruvernd og ákvæði Bernarsamningsins. Taldi Umhverfisstofnun mikilvægt að vatnsbúskapur svæðisins yrði ekki fyrir umhverfisáhrifum vegna áætlaðra framkvæmda og að fylgst yrði með framkvæmdum til að framvinda yrði í samræmi við það. Einnig var tekið fram að mikilvægt væri að besta fáanlega tækni yrði notuð við fráveitu hótelrekstursins og að hreinsun skólps yrði viðunandi í samræmi við fyrirmæli heilbrigðisnefndar. Losunarmörk yrðu ákveðin svo ekki yrði um næringarefnaauðgun að ræða á svæðinu. Taldi stofnunin að áhrif frá fráveitu færu eftir því hve vel yrði að henni staðið. Ef gengið yrði frá fráveitunni þannig að þriggja þrepa hreinsun skilaði næringarefnasnauðu frárennsli um siturlögn yrðu umhverfisáhrif hennar ekki umtalsverð. Þá benti Umhverfisstofnun á að veglína C gerði ráð fyrir meiri röskun á ósnortnu landi en ef aðrar leiðir yrðu valdar. Myndu allar veglínur hafa umhverfisáhrif á þessu ósnortna svæði. Umhverfisáhrif vegagerðar yrðu ekki umtalsverð yrði vegagerð hagað þannig að vatn flæddi í sama mæli suður Brunasand. Einnig kom fram að Umhverfisstofnun teldi upplýsingar um námu ekki nægilega lýsandi.

Í umsögn Skaftárhrepps, dags. 18. desember 2015, kom m.a. fram að skipulagsnefnd hefði á fundi sínum 9. s.m. fært til bókar að umrædd tilkynningarskýrsla væri í samræmi við aðalskipulag Skaftárhrepps og deiliskipulag vegna hótels í landi Orustustaða. Miðað við þær forsendur sem nefndin hefði væri framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Minjastofnun Íslands taldi í umsögn sinni, dags. 21. desember 2015, að umrædd framkvæmd skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum að því gefnu að gengið væri að nánar tilgreindum skilyrðum er lytu að varðveislu fornleifa.

Ferðamálastofa tók ekki afstöðu til matsskyldu framkvæmdarinnar í umsögn sinni, dags. 11. janúar 2016, en benti m.a. á að mikilvægt væri að vanda vel til uppbyggingar og gera ítarlegar kröfur um hönnun og undirbúning.

Athugasemdir framkvæmdaraðila og frekari upplýsingar bárust Skipulagsstofnun með bréfum dags. 14., 21., 27. og 28. janúar 2016. Var þar m.a. tekið fram að ekki væri fallist á sjónarmið Umhverfisstofnunar um veglínu C. Hefði sú leið verið valin með umhverfi og samfélag í huga. Stærstur hluti leiðarinnar væri eftir núverandi vegi að Hraunbóli og síðan eftir slóðum og tekinn væri sveigur í suður í landi Hraunbóls út fyrir ræktað land. Hefðu aðrir kostir raskað meira ósnortnu svæði, t.d. kostir D og F, sem farið hefðu í gegnum hraun eða yfir stærra svæði sem lítt væri raskað.

Hinn 9. febrúar 2016 lá ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdanna fyrir. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða og aðkomuvegur að því væru ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Framkvæmdin skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt var bent á nauðsyn þess að framkvæmdaraðili fylgdi í hvívetna ábendingum Minjastofnunar Íslands um framkvæmdir og umgengni við þekktar minjar og staðsetningu vinnubúða og efnisgeymsla. Þá teldi Skipulagsstofnun það nauðsynlega forsendu fyrir því að votlendi sunnan framkvæmdasvæðisins spilltist ekki, að aðkomuvegur hamlaði ekki vatnsrennsli og að fráveita frá starfseminni yrði um rotþró og olíuskilju eins og fyrirhugað væri. Loks ítrekaði stofnunin mikilvægi þess að viðhöfð yrði sú verktilhögun og þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hefðu verið við meðferð málsins og vöktun á aðgerðum og áhrifum þannig að framkvæmdin væri ekki líkleg til að valda verulegum og óafturkræfum áhrifum á umhverfið.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að mótun lands, saga byggðar og þróun samfélags á Brunasandi sé einstök á Íslandi á margan hátt. Myndi svæðið allt sérstaka heild með sögulegum minjum um búsetu fyrri tíma og hafi mikið menningarlegt gildi. Fyrirhugað hótel eigi að reisa langt inni á ósnortnu landi þar sem engin mannvirki eða innviðir séu til staðar. Verði það stærsta hótel í dreifbýli á Íslandi og næst stærsta hótel landsins utan höfuðborgarsvæðisins. Eystri hluti Skaftáreldahraunsins, Brunahraun, njóti sérstakrar verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Svo sé einnig um lindasvæðin og votlendið. Lindasvæðin, lækir undan hrauninu og votlendið næri einnig sérstakt gróðurfar, lífríki og búsvæði margra fuglategunda sem beri að vernda, sbr. 2. gr. sömu laga. Grunnvatnsstaða sé há og lítill landhalli, eða aðeins 2 m/km til sjávar. Í nágrenni hótelsins sé enginn yfirborðsviðtaki, straumvatn, sem dugi til að bera burt lífræn mengunarefni. Vatnsumhverfið teljist því viðkvæmt svæði sbr. A-hluta II. viðauka reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp. Engin reynsla sé í landinu af árangursríkum rekstri þriggja þrepa hreinsistöðvar og aðstæður á Brunasandi séu líklegar til að gera rekstur slíkrar stöðvar sérlega erfiðan. Hefði borið að meta áhrif framkvæmdarinnar á umhverfi sitt. Landsvæði það sem raska eigi sé nær ósnortið af manna völdum og sé um ósnortið landslag að ræða. Við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi hvorki verið horft nægilega til sérstöðu svæðisins á Brunasandi né gætt að mögulegum neikvæðum heildaráhrifum fyrirhugaðra framkvæmda á umhverfi, náttúrufar og menningarminjar. Brotið hafi verið gegn lögum nr. 105/2000 um umhverfismat áætlana og lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun beri að líta til, og leggja til grundvallar ákvörðun sinni, viðmið 2. viðauka laga nr. 106/2000. Það hafi hún ekki gert, eða ekki sem skyldi. Hefði t.d. þurft að athuga eðli og staðsetningu framkvæmdarinnar, með tilliti til stærðar hennar og umfangs. Flokkist Brunasandur sem mjög viðkvæmt svæði með tilliti til mengunar og hefði átt að taka tillit til þess. Brunasandur sé á lista sem alþjóðlegt mikilvægt fuglasvæði í Evrópu. Á Brunasandi séu margar mikilvægar fuglategundir, þ. á m. nokkrar sem séu á válista Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þórshaninn, einhver sjaldgæfasti varpfugl landsins, eigi þar heimkynni. Þá hefði þurft að skoða áhrif framkvæmdarinnar að teknu tilliti til tímalengdar hennar, tíðni og óafturkræfi áhrifa. Skipulagsstofnun hafi ekki fullnægt þeirri rannsóknarskyldu sem á henni hvíli lögum samkvæmt og sem eigi að tryggja að ákvarðanir um stærri framkvæmdir séu undirbúnar með forsvaranlegum hætti.
Á engu stigi málsins hafi farið fram faglegt og fræðilegt mat á umhverfisáhrifum og þeim breytingum sem verði á lífsgæðum landeigenda á svæðinu vegna framkvæmdanna. Muni fyrirhuguð starfsemi algerlega breyta forsendum lífs þeirra sem nú séu búsettir á svæðinu. Upplifanir af umræddu svæði sem ósnortnu víðerni verði eyðilagðar. Ekki hafi verið gerðar rannsóknir á vatnafari, jarðvegi og öðrum staðháttum á Brunasandi. Tölulegar greiningar um áhrif framkvæmdanna séu ekki lagðar fram. Hvergi sé sýnt fram á fyrirbyggjandi ráðstafanir eða öryggiskröfur vegna viðkvæmrar náttúru. Ekki hafi verið sýnt fram á að framkvæmdir við veg, neysluvatnsöflun og frágang frárennslis og skólps verði hægt að útfæra á jafn viðkvæmu svæði og Brunasandur sé. Þá hafi ekki verið sýnt fram á að hægt verði að afla nægilegs vatns til að uppfylla þarfir vegna hótelsins og starfsmannaíbúða, hvað þá án áhrifa á vatnsbúskap landeigenda. Muni vatnsnotkunin, bæði varðandi vatnsöflun og frárennsli, hafa hamlandi áhrif á nýtingu jarða sem landbúnaðarjarða og geti að auki mengað jarðveg, svo sem reynslan sýni.

Ekki hafi verið metið hvernig staðið skuli að framkvæmd við veginn. Í greinargerðum sé hvergi fjallað um áhrif framkvæmdanna á gróður er fari undir vegstæðið eða hvernig staðið verði að uppgræðslu vegstæðis og svæðisins meðfram veginum. Þá sé hvergi tekið á því hvernig staðið verði að uppgræðslu raskaðs lands í landi Hraunbóls, eða hvernig komast eigi fyrir vatnsuppsöfnun ofan við veginn. Útfærslan sé sett í hendurnar á framkvæmdaraðila án aðkomu eigenda landsins.

Framkvæmd af slíku umfangi og eðli sem hér sé fyrirhuguð muni hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif. Mikil sjónræn áhrif verði vegna stórra mannvirkja, vegar og efnistöku. Um umfangsmikið inngrip verði að ræða hvað varði umferð á Brunasandi en gera megi ráð fyrir því að um 500-600 manns hið minnsta geti dvalist samtímis á Orustustöðum á háannatíma. Muni veglagning og aukin umferð hafa afar neikvæð áhrif á aðra landeigendur á Brunasandi hvað það varði að halda áfram framkvæmdum er snerti landbúnað og aðrar sjálfbærar nytjar af jörðunum.

Jafnframt ríki veruleg óvissa um áhrif framkvæmdarinnar. Ætla megi að sá lífræni úrgangur sem falli til við rekstur hótelsins verði a.m.k. þrisvar sinnum meiri en á Kirkjubæjarklaustri, stærsta þéttbýli í Skaftárhreppi. Takist þriðja þrepið í fyrirhuguðu hreinsivirki ekki sem skyldi muni umhverfisáhrif framkvæmdarinnar verða víðtæk og veruleg. Mengunaráhrif gætu orðið umtalsverð og óafturkræf, m.a. á verðmætustu fuglasvæðin sunnar á Brunasandi. Ofauðgunar muni gæta neðar á vatnasviðinu, með tímanum yfir stórt svæði og loks alla leið til sjávar. Ekki hafi fengist upplýsingar, t.d. frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, um uppsetningu og fyrirhugaðan rekstur á hreinsistöðinni. Sé það ábyrgðarleysi að samþykkja lausn af þessu tagi þar sem ekki verði séð að neinar raunhæfar áætlanir, þekking eða skilgreindar forsendur búi að baki. Virkni örveruflórunnar að vetrarlagi skapi óvissu.

Þá hafi umsagnir, m.a. frá Heilbrigðiseftirliti Suðurlands, verið mjög almenns eðlis og ekki unnar í samræmi við umfang framkvæmdanna gagnvart staðháttum og náttúru Brunasands. Taki þær mið af þörfum og óskum framkvæmdaraðilans en hvergi á þeim þáttum er snerti íbúa Brunasands og sem skerði lífsgæði og tekjumöguleika þeirra.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun tekur fram að með hliðsjón af tilkynningu framkvæmdaraðila, umsögnum fagstofnana og öðrum gögnum málsins telji stofnunin að hún hafi dregið forsvaranlegar og réttar ályktanir. Því sé hafnað að ákvörðunin sé ekki byggð á nægilega traustum grunni.

Deiliskipulag vegna fyrirhugaðs hótels hafi komið til meðferðar hjá Skipulagsstofnun. Með því hafi fylgt greinargerð og umhverfisskýrsla, dags. 13. apríl 2015, þar sem umhverfismat hafi farið fram á grundvelli 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Umhverfisskýrslunni hafi verið breytt eða ný gerð á grundvelli laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana en í skýrslunni sé gerð grein fyrir áhrifum tillögunnar á umhverfið.

Því sé hafnað að Skipulagsstofnun hafi ekki horft til þeirra þátta sem taldir séu upp í 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Tilkynning framkvæmdaraðila og efni umsagna hafi ekki gefið til kynna að aðrir þættir í viðaukanum, en fram komi í hinni kærðu ákvörðun, hafi getað átt við eða haft verulega þýðingu fyrir úrlausn málsins. Í gögnum framkvæmdaraðila hafi komið fram að frá viðkomandi veglínu séu tæpir 10 km í norðurmörk þess svæðis sem mikilvægast sé m.t.t. fuglalífs. Þá sé byggingarreitur hótels einnig langt fyrir utan verðmætustu fuglasvæðin. Með þetta í huga séu ekki forsendur til að byggja á ákvæði um verndarsvæði í 2. viðauka til stuðnings því að framkvæmdin eigi að fara í umhverfismat.

Umtalsverð umhverfisáhrif séu skilgreind í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000. Teljist þau „veruleg óafturkræf“ eða „veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Þurfi mikið til að koma til að framkvæmd sé líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Þótt fyrirhugað hótel sé mikið að umfangi og á svæði þar sem engin mannvirki séu fyrir þá geti það ekki leitt til þess að framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum, enda séu þau efnisskilyrði er fram komi í fyrrnefndri skilgreiningu ekki uppfyllt. Það atriði að á Brunasandi sé viðkvæmt svæði, þ. á m. votlendissvæði með hárri grunnvatnsstöðu, geti ekki verið nægilegur grundvöllur fyrir því að framkvæmdin skuli háð umhverfismati, sbr. áðurgreind skilyrði. Ónæði vegna aukinnar umferðar hafi ekki í för með sér að áhrif hótel- og vegaframkvæmda á aðra landeigendur á Brunasandi séu umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Í ákvörðun sinni hafi Skipulagsstofnun vikið að því að fyrirhugað hótel væri skammt frá Eldhrauni sem njóti verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, líkt og votlendi sem sé um 10 km suður af framkvæmdasvæðinu. Muni framkvæmdin og aðkomuvegur hvorki valda beinum né óbeinum áhrifum á þessi svæði. Áhrif framkvæmdanna á þessa þætti séu því óveruleg. Telji Skipulagsstofnun brýnt að rekstraraðilar hótelsins sjái til þess að starfsemi þeirra verði ekki til þess að rýra verndargildi hraunsins og votlendisins með umferð ferðafólks. Jafnframt hafi Skipulagsstofnun tekið undir sjónarmið Minjastofnunar Ísland. Einnig telji stofnunin afar brýnt að frágangur mannvirkja og umgengni sé þannig að ekki sé minnsta hætta á því að mengun berist í neysluvatn og að þessa verði gætt við endanlega hönnun vatnsbóls og hótels. Ekki verði séð á hverju sú fullyrðing byggist að starfsmenn við hótelið geti orðið 70-90 talsins.

Skipulagsstofnun telji að í umsögn Umhverfisstofnunar sé m.a. tekin afstaða til þess hver áhrif vegagerðar séu á gróður en í umsögninni segi að umhverfisáhrifin verði ekki umtalsverð. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands, sem fari með eftirlit með neysluvatni og fráveitu í Skaftárhreppi, sé ekki gerð athugasemd við að þriggja þrepa hreinsikerfi verði notað. Í umsögn heilbrigðiseftirlitsins, dags. 14. desember 2015, segi m.a. eftirfarandi: „Vegna hárrar grunnvatnsstöðu og jarðvegsgerðar sem gerir svæðið viðkvæmt fyrir allri mengun, verða öll bílastæði og afgreiðsluplön með vökvaheldu yfirborði og niðurföllum tengdum olíuskilju til að takmarka hættu á olíumengun í umhverfinu. Einnig er gert ráð fyrir þriggja þrepa hreinsun á fráveitu eða öðrum sambærilegum aðferðum sem lágmarka áhrif frárennslis á viðtaka, auk þess sem gerð er krafa um fituskilju á frárennsli frá veitingaaðstöðu til að hámarka virkni fyrirhugaðra hreinsivirkja. Þá verður fráveita hönnuð þannig að auðvelt sé að taka dæmigerð sýni af frárennsli bæði fyrir og eftir hreinsun þannig að vöktun umhverfis vegna hugsanlegrar mengunar frá fráveitu verði sem auðveldust.“ Miðist ákvörðun Skipulagsstofnunar við þá forsendu að hreinsikerfið virki sem skyldi. Hafi stofnunin ekki sérfræðiþekkingu og faglegar forsendur til að byggja á því að engin reynsla sé til í landinu af árangursríkum rekstri slíkrar hreinsistöðvar og að aðstæður á Brunasandi séu líklegar til að gera rekstur stöðvarinnar sérlega erfiðan. Með hliðsjón af gögnum framkvæmdaraðila og umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafi komið fram að fráveitu- og sorpmál starfseminnar verði með fullnægjandi hætti.

Málsrök framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili tekur fram að hann hafi kynnt sér lög nr. 60/2013 um náttúruvernd. Taki framkvæmdin mið af því að forðast algjörlega röskun á Skaftáreldahrauni og eigi hún hvorki að raska hrauni né hraunjaðrinum. Hafi staðsetning hótelsins verið valin með hliðsjón af fjarlægð frá hrauni, minjum, votlendi, merktum gróðri og fuglalífi. Sú vinna er átt hafi sér stað vegna umræddra framkvæmda á síðastliðnum þremur og hálfu ári hafi öll markast af því að umhverfisáhrif framkvæmdanna yrðu sem minnst. Mikilvægt sé að gengið verði frá fráveitumálum þannig að neikvæð áhrif á heilsu og öryggi verði nánast engin. Forðast skuli allt óþarfa rask og hafa í huga 15 m friðhelgað svæði friðaðra fornleifa. Umferð fólks verði takmörkuð um varpsvæði á varptíma.

Þar sem hótelið eigi að rísa hafi jörðin verið nýtt, m.a. fyrir skógrækt. Árið 1997 hafi Orustustaðir orðið ein af fyrstu jörðunum í Skaftárhreppi þar sem gerður var samningur við Suðurlandsskóga, heildarstærð samningssvæðisins sé 290 ha og búið sé að gróðursetja í 2/3 hluta þess. Skógræktarsvæðið sé rétt vestan við fyrirhugað hótel og liggi að því ýmsir slóðar. Á síðustu árum hafi verið byggð nokkur sumarhús á næstu jörð, þ.e. Hraunbóli.

Í niðurstöðu starfshóps á vegum ráðuneytis umhverfis- og auðlindamála sé ósnortið víðerni skilgreint svo „þar sem ekki gætir beinna ummerkja mannsins og náttúran fær að þróast án álags vegna mannlegra umsvifa, sem er í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, s.s. raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og þjóðvegum (sbr. vegalög), sem er a.m.k. 25 km² að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja á jörðu.“ Geti umrætt svæði ekki talist ósnortið víðerni. Í raun sé ekkert svæði á Brunasandi sem geti talist ósnortið víðerni þar sem alltaf sé styttra en 5 km í manngerðan veg, tún eða skóg.

Sjónræn áhrif framkvæmdarinnar verði einhver en aðallega þegar komið sé að svæðinu eftir nýjum aðkomuvegi. Byggingar eigi þó ekki að standa upp fyrir hraunið og verði því ekki sýnilegar frá norðri, þannig að þær sjáist ekki frá þjóðvegi 1. Á jörðinni sé skógræktarsvæði vestast sem dragi verulega úr sýnileika bygginganna frá vestri. Reiturinn sé staðsettur þannig að austan frá verði byggingar ekki sýnilegar frá þeim bústöðum sem séu við hraunjaðarinn, en aukin ljósmengun verði. Ljósbjarmi verði líka sýnilegur í Landbroti sem sé rúmlega 11 km suðvestan við framkvæmdarsvæðið. Reynt verði að lágmarka sjónræn áhrif með því að ganga vel frá svæðinu í samræmi við náttúru og umhverfi. Við frágang lóðar skuli nota eins og kostur sé staðargróður og íslenskar trjátegundir. Til að takmarka ljósmengun sé lagt upp með að lýsing verði hulin þannig að birtan sjáist ekki. Í dag liggi margir slóðar um svæðið og vegur að Hraunbóli. Til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif frá umferð verði vegstæðið lagt í rúmlega 500 m fjarlægð frá bústöðum og íbúðarhúsi á Hraunbóli.

Haft hafi verið samráð við stofnanir, og fólk sem dvelji þarna á svæðinu, margsinnis frá því að málið hafi fyrst komið til skipulags- og byggingarnefndar. Haldnir hafi verið fundir með Fuglavernd, landeigendum og Umhverfisstofnun. Gerð hafi verið fornleifaskráning á svæðinu
árið 2014. Leitað hafi verið samráðs við val á veglínu sem hefði sem minnst truflandi áhrif á íbúa. Í skipulagsferlinu hafi verið haft samráð við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands vegna fráveitumála. Vanda þurfi annað þrep hreinsunarinnar og gera ráð fyrir fituskilju frá veitnaaðstöðu. Fráveita skuli hönnuð þannig að unnt sé að taka dæmigerð sýni af aðveituskólpi, svo og hreinsuðu skólpi, áður en það sé losað í viðtökuvatn. Eftirlit og mælingar skuli vera skv. reglugerð nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, lög nr. 9/2009 um uppbyggingu og rekstur fráveitna og reglugerð nr. 982/2010 um fráveitur sveitarfélaga. Losunarmörk eigi að vera skv. fylgiskjali 4 í reglugerð nr. 450/2009 um breytingu á reglugerð um fráveitur og skólp.

Opinberir umsagnaraðilar hafi ekki gert athugasemd við vatnsöflun innan svæðisins. Það eigi að bora eftir vatni í dýpri jarðlög, en lögð verði áhersla á að ábúendur á Brunasandi sýni ábyrgð í notkun vatns á svæðinu. Sé það enda hagur allra að vatnsbúskapur þess haldist í jafnvægi.
——-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða í Skaftárhreppi, ásamt tengdum framkvæmdum, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, þar sem framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.

Hótel og tengdar framkvæmdir utan þéttbýlis falla í flokk B í 1. viðauka við lög nr. 106/2000, sbr. tölul. 12.05, en skv. 1. mgr. 6. gr. laganna skulu framkvæmdir í þeim flokki háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki B, sbr. 2. mgr. 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 3. mgr. lagagreinarinnar. Segir þar nánar að ákvörðun skuli taka innan fjögurra vikna frá því að fullnægjandi gögn hafi borist, við ákvörðunina skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000, og að áður skuli leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra eftir eðli máls hverju sinni.

Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 barst Skipulagsstofnun tilkynning um byggingu hótels í landi Orustustaða. Var tiltekið að í framkvæmdinni fælist bygging hótels og að auki væri gert ráð fyrir starfsmannahúsum, lagningu aðkomuvegar og nýrri efnisnámu en efni úr henni yrði notað í vegagerð og byggingar. Fjallað var um forsendur hvað varðaði náttúrufar, skógrækt, náttúruminjar og fornminjar, sem og tengsl við skipulagsáætlanir. Hafði tilkynningin einnig að geyma frekari upplýsingar um framkvæmdina og reifun á umhverfisáhrifum hennar. Voru þau helst á náttúru- og menningarminjar, heilsu og öryggi og sjónræn áhrif. Þá var greint frá vöktun með fráveitu og tiltekið að þar sem grunnvatnsstaða væri há og lítill landhalli þá teldist vatnsumhverfið viðkvæmt svæði, sbr. A-hluta II. viðauka reglugerðar nr. 789/1999 um fráveitur og skólp. Tilkynningunni fylgdi deiliskipulagsuppdráttur í kvarðanum 1:7500. Fullnægjandi gögn fylgdu því tilkynningu framkvæmdaraðila til Skipulagsstofnunar skv. 11. gr. reglugerðar nr. 660/2015 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. og áðurnefnda 2. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000.

Skal og tekið fram að lög nr. 106/2000 gera ráð fyrir því að framkvæmdaraðili afli og leggi fram á viðhlítandi hátt þær upplýsingar sem lögin gera ráð fyrir. Hlutverk Skipulagsstofnunar er svo að leggja mat á framlögð gögn og komast að niðurstöðu samkvæmt lögunum, s.s. með því að taka ákvörðun um matsskyldu framkvæmdar eða með því að gefa álit sitt um mat á umhverfisáhrifum. Mat stofnunarinnar hlýtur eðli máls samkvæmt að lúta að því að sannreyna gildi gagna og gæði þeirra. Í þeim tilgangi skal stofnunin leita álits leyfisveitenda, framkvæmdaraðila og annarra, eftir eðli máls hverju sinni, áður en ákvörðun um matsskyldu er tekin, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000. Hefur stofnunin samkvæmt ákvæðinu forræði á því hverra umsagna skuli leitað umfram þær sem tilgreindar eru og leitaði stofnunin þeirra umsagna sem fram koma í málavaxtalýsingu. Umsagnirnar tóku óhjákvæmilega mið af tilkynningu framkvæmdaraðila, enda var beðið um álit umsagnaraðila á henni. Þá laut umsagnarbeiðnin að því hvort að fyrirhuguð framkvæmd væri háð mati á umhverfisáhrifum skv. lögum nr. 106/2000. Var ekki tilefni fyrir umsagnaraðila að taka á öðrum þáttum en umhverfisþáttum. Kærendur hafa m.a. bent á möguleg áhrif framkvæmdarinnar á votlendi og fuglalíf því tengt. Má telja að rök hafi staðið til þess að leita álits Náttúrufræðistofnunar Íslands þar um. Með hliðsjón af fjarlægð fyrirhugaðrar framkvæmdar frá mikilvægustu varpsvæðum votlendisins verður þó ekki annað ráðið en að þau gögn hafi legið fyrir Skipulagsstofnun er nauðsynleg voru til að hún gæti komist að efnislega réttri niðurstöðu. Verður skortur á slíkri álitsumleitan því ekki látinn valda ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Samkvæmt ákvæðum 6. gr. laga nr. 106/2000 ræðst matsskylda af því hvort að framkvæmd getur haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar, en í p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „veruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum“. Í 3. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka við lögin, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tölul. 2. viðauka. Undir hverjum tölulið eru svo fjöldi annarra liða. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hverjir þeirra liða vega þyngra en aðrir við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð, en það að framkvæmd falli undir einhverja þeirra leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu.

Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar er tekið fram að stofnunin skuli við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð mati á umhverfisáhrifum taka mið af viðmiðunum sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og er jafnframt tekið fram að byggt sé á framlögðum gögnum framkvæmdaraðila og framkomnum umsögnum. Dregur stofnunin saman niðurstöður sínar varðandi eðli og staðsetningu framkvæmdar.

Um eðli framkvæmdar tiltekur stofnunin að m.a. skuli taka mið af eðli og umfangi framkvæmda, samlegð með öðrum framkvæmdum, úrgangsmyndun, mengun og ónæði, sbr. 1. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000. Umfang fyrirhugaðs hótels feli í sér umfangsmiklar framkvæmdir á svæði þar sem engin mannvirki séu fyrir. Feli uppbyggingin í sér verulega breytta ásýnd á svæðinu, sem gæti fyrst og fremst þegar komið sé að hótelinu. Tekur Skipulagsstofnun undir mikilvægi þess að hótelið sé hannað með hliðsjón af staðsetningu þess á óbyggðu svæði í dreifbýli. Hvað ónæði varðar þá telur Skipulagsstofnun að umferð um aðkomuveg neðan Hraunbóls muni augljóslega valda breytingum frá núverandi ástandi, þar sem aukin umferð muni fara um nágrenni bæjarins þegar hótelið verði komið í rekstur. Þá telur Skipulagsstofnun að með hliðsjón af gögnum framkvæmdaraðila og umsögn Heilbrigðiseftirlits Suðurlands hafi komið fram að fráveitu- og sorpmál starfseminnar verði með fullnægjandi hætti.

Hvað staðsetningu framkvæmdar varðar, þ.e. hversu viðkvæm svæði eru t.d. með tilliti til sérstæðra náttúruminja, verndarsvæða, nálægð við fornminjar, landslagsheilda og hvernig hún fellur að skipulagi, sbr. 2. tl. 2. viðauka laga nr. 106/2000, tekur Skipulagsstofnun fram að fyrirhugað hótel sé skammt frá Eldhrauni. Hafi það runnið í Skaftáreldum 1783-1784 og njóti verndar samkvæmt 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Sama grein laganna gildi um votlendið sem sé um 10 km suður af framkvæmdasvæðinu. Muni framkvæmdin og aðkomuvegur ekki valda beinum áhrifum á svæðin og telur Skipulagsstofnun að framkvæmdirnar eigi ekki að hafa í för með sér óbein áhrif á þau. Engu að síður kunni að reyna á það þegar hótelið sé komið í rekstur að umferð hótelgesta beinist að einhverju leyti að svæðunum. Áhrif framkvæmdanna á þessa þætti séu því óveruleg. Nauðsynlegt sé að haga framkvæmdum líkt og framkvæmdaraðili hafi boðað til að vegtenging að hótelinu hafi ekki neikvæð áhrif á rennsli undan hrauninu að votlendinu sunnan framkvæmdasvæðisins. Þá tekur Skipulagsstofnun undir með Minjastofnun Íslands og telur brýnt að verktakar verði upplýstir um tilgreindar fornleifar á svæðinu. Gangi það eftir séu hverfandi líkur til að framkvæmdin hafi áhrif á minjar. Skipulagsstofnun bendir jafnframt á að starfsemin verði mjög nærri því vatnsverndarsvæði sem ætlað sé að sjá starfseminni fyrir neysluvatni. Þó svo að landhalli sé frá vatnsverndarsvæðinu að framkvæmdasvæðinu sé hann lítill og því afar brýnt að frágangur mannvirkja og umgengni við vatnsverndarsvæðið sé þannig að ekki sé hin minnsta hætta á því að mengun berist í neysluvatn.

Brunasandur byggðist upp í kjölfar Skaftárelda og voru Orustustaðir meðal nýbýla þar árið 1823. Jörðin mun hafa lagst í eyði um 1950 og eru búsetuminjar þar. Í um 5 km radíus frá jörðinni er að finna jarðir í byggð og sumarhús. Samkvæmt Aðalskipulagi Skaftárhrepps 2010-2022 fellur Brunasandur undir kornræktarsvæði 3, sem er síst kornræktarsvæða Skaftárhrepps. Í aðalskipulaginu er tekið fram að ekki séu skilgreind verndarsvæði vatnsbóla einstakra jarða í dreifbýli, en í dreifbýli Skaftárhrepps séu 25 vatnsból skráð með starfsleyfi. Á sveitarfélagsuppdrætti sést að næsta vatnsból er á Sléttu, í um þriggja kílómetra fjarlægð frá Orustustöðum.

Að virtum aðstæðum öllum er það mat úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við ákvörðunartöku sína litið til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000 og tekið til þeirra afstöðu að teknu tilliti til framkominna umsagna. Viðurkennt var að um verulega breytta ásýnd yrði að ræða vegna umfangs hótelframkvæmdanna og ónæði yrði af umferð. Ekki yrðu bein áhrif á svæði sem nytu verndar 61. gr. laga nr. 60/2013, en um viðkvæman viðtaka væri að ræða. Var og ráð fyrir því gert í tilkynningu framkvæmdaraðila og því lýst hvernig staðið yrði að fráveitu þannig að uppfyllt yrðu skilyrði reglugerðar nr. 798/1999 um fráveitur og skólp, auk þess sem svör framkvæmdaraðila vegna umsagnar Umhverfisstofnunar tiltóku að losunarmörk yrðu í samræmi við reglugerðina. Ákvörðun Skipulagsstofnunar tók mið af tilkynntri framkvæmd sem gerði m.a. ráð fyrir ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa á skólpi, sem og því að ræsi undir aðkomuvegi myndu tryggja að lindarvatn rynni undir hann án fyrirstöðu. Hefur ekkert komið fram í málinu sem gefur tilefni til að ætla að þessi tilhögun framkvæmdar muni ekki vera fullnægjandi, þvert á móti liggja fyrir umsagnir Umhverfisstofnunar og Heilbrigðiseftirlits Suðurlands sem báðar eru á þá lund að frágangur fráveitu verði fullnægjandi miðað við tilkynningu. Þá er rekstur fráveitunnar háður starfsleyfi, en slík leyfi kveða jafnan á um vöktun og viðbrögð ef eitthvað fer úrskeiðis. Loks tók framkvæmdaraðili undir með Umhverfisstofnun að mikilvægt væri að vatnsbúskapur svæðisins yrði ekki fyrir umhverfisáhrifum, ýmis ákvæði hefðu verið sett í deiliskipulagi til að tryggja það og væri ekkert því til fyrirstöðu að sett yrðu skilyrði við veitingu framkvæmdaleyfis þess efnis að vegurinn yrði þannig gerður að hann hindri ekki rennsli lindarvatns. Bendir ekkert til þess að mat Skipulagsstofnunar hafi að öðru leyti verið ómálefnalegt eða stutt ónógum gögnum. Er og rétt að taka fram að þar sem niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að framkvæmdin væri ekki matsskyld þá var ekki nauðsyn á mati á umhverfisáhrifum eða sérstökum rannsóknum því tengdu.

Kærendur hafa einnig bent á að framkvæmdin muni hafa áhrif á vatnsbúskap og að aðkomuvegur muni fara um eignarland utan Orustustaða. Muni þetta hafa áhrif á nýtingu jarða þeirra undir landbúnað. Markmið laga nr. 106/2000 er m.a. að  tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum viðkomandi framkvæmdar. Þegar málsmeðferð fer fram samkvæmt lögunum, t.d. þegar tekin er ákvörðun um matsskyldu, ber því að horfa til afleiðingar framkvæmdar fyrir umhverfið. Hins vegar kemur ágreiningur um möguleg áhrif á eignarrétt, s.s. að grunnvatni, ekki til skoðunar í þeirri málsmeðferð sem á sér stað samkvæmt lögum nr. 106/2000.

Loks stóðu ekki rök til þess að Skipulagsstofnun liti til laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, enda var á þessu stigi um matsskylduákvörðun að ræða en hvorki skipulagsáætlun né leyfisveitingu. Verður því ekki frekar fjallað um þessa málsástæðu kærenda.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist verulega vegna mikils fjölda og umfangs mála sem kærð hafa verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 9. febrúar 2016 um að fyrirhugað hótel í landi Orustustaða, Skaftárhreppi, og framkvæmdir því tengdar, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Geir Oddsson