Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2016 Laufásvegur 70

Árið 2018, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 2/2016, kæra á breytingu deiliskipulags Smáragötureita vegna Laufásvegar 70, sem samþykkt var í borgarráði Reykjavíkur hinn 26. nóvember 2015 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. janúar 2016, er barst nefndinni 11. s.m., kæra eigendur, Smáragötu 13, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 26. nóvember 2015 að breyta deiliskipulagi Smáragötureita. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. mars 2016.

Málavextir: Upphaf málsins má rekja til framkvæmda á lóð Laufásvegar 70 sem veitt var byggingarleyfi fyrir á árinu 2012. Það leyfi var síðar fellt úr gildi að hluta með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, í máli nr. 75/2012 hinn 11. júní 2015, en framkvæmdum var þá lokið. Kæruefnið snýr að upphækkuðum palli við dyr á 1. hæð á miðri suðvestur hlið hússins við Laufásveg 70 og aðliggjandi lægri palli við vestur horn hússins. Pallarnir eru tengdir með þrepum.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi Smáragötureita vegna Laufásvegar 70 var grenndarkynnt 24. september 2015 með athugasemdafresti til 22. október s.á. Athugasemdir bárust frá íbúum Smáragötu 11 og 13. Þeim var svarað í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 13. nóvember s.á., þar sem jafnframt var lagt til að grenndarkynnt tillaga að breyttu deiliskipulagi yrði samþykkt. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa samþykkti umhverfis- og skipulagsráð tillöguna hinn 18. nóvember 2015. Borgarráð samþykkti breytt deiliskipulag 26. nóvember s.á. og auglýsing þar um birtist í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. desember 2015. Í breytingunni fólst að byggingareit lóðarinnar var breytt þannig að áðurnefndir steinsteyptir pallar féllu innan hans. Í skilmálum segir að lægri pallurinn skuli vera í lóðarhæð eins og hún var áður og hærri pallurinn u.þ.b. 1,3 m hærri. Að öðru leyti gildi skilmálar deiliskipulags Smáragötureita frá árinu 2005. Kæra vegna þessarar ákvörðunar barst úrskurðarnefndinni 11. janúar 2016, eins og að ofan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að engin haldbær rök hafi staðið til hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar önnur en að festa í sessi þegar gerða byggingu, sem gerðar hafi verið athugasemdir við í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna neikvæðra grenndaráhrifa. Ekki hafi verið tekið tilliti til athugasemda við grenndarkynningu. Í reynd sé um að ræða viðbyggingu við húsið að Laufásvegi 70, en ekki palla líkt og borgaryfirvöld haldi fram. Mannvirkið sé úr járnbentri steinsteypu, á tveimur hæðum og með óuppfylltu innra rými sem unnt sé að gera innangengt frá íbúðarhúsi. Hæð mannvirkisins sé umfram heimild í deiliskipulagi. Efri pallur með handriði sé 3,61 m frá fyrri hæð lóðar og sá neðri 1,54 m ef marka megi mælingu starfsmanna Reykjavíkurborgar. Innsýn sé af mannvirkinu inn um glugga húss kærenda og yfir útvistarsvæði lóðar þeirra. Með umræddri deiliskipulagsbreytingu séu borgaryfirvöld að firra sig ábyrgð á mistökum sem þau beri ábyrgð á, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 75/2012, þar sem bent hafi verið á að grenndaráhrif vegna pallanna gætu orðið veruleg og að nýtingarmöguleikar nærliggjandi lóða gætu skerst vegna hljóðvistar og yfirsýnar. Deiliskipulagsbreytingin verði því kærendum til varanlegs tjóns. Borgaryfirvöld hafi í málsmeðferð sinni fyrst og fremst gætt hagsmuna Laufásvegar 70 á kostnað hagsmuna kærenda. Vel hefði mátt hanna viðbygginguna innan marka þess deiliskipulags sem í gildi var. Þess sé krafist að nefnd deiliskipulagsbreyting verið felld úr gildi, auk þess sem viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfis vegna viðbyggingarinnar hafi á sínum tíma verið ólögmæt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda um ógildingu deiliskipulagsbreytingar vegna Laufásvegar 70 verði hafnað. Málsmeðferð skipulagsbreytingarinnar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hæð pallanna sé í samræmi við teikningar. Lægri pallurinn sé 0,88 m ofan grasflatar á miðri lóð og 1,59 m yfir syðsta hluta lóðar, þar sem hún sé lægst. Hærri pallurinn sé 1,95 m yfir hæð grasflatar á miðri lóð en 2,66 m yfir lóð þar sem hún sé lægst. Hæð pallanna sé ekki óeðlileg miðað við aðstæður og telja verði skiljanlegt að húseigendur við Laufásveg vilji geta gengið úr íbúðum sínum út í garð. Sökum landhalla séu gerðir pallar og stigar. Ólíklegt sé að nágrannar verði fyrir ónæði vegna pallanna. Innsýn í garða verði ekki meiri en búast megi við í því umhverfi sem um ræði.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti breytingar á deiliskipulagi Smáragötureita þar sem gert er ráð fyrir tveimur pöllum á lóðinni Laufásvegi 70, sem eru þar þegar fyrir.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fara sveitarfélög með vald til gerðar deiliskipulagsáætlana. Við beitingu þess valds ber m.a. að haga málsmeðferð þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn, þó svo að hagur heildarinnar verði hafður að leiðarljósi, sbr. 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga. Í skipulagsvaldi sveitarfélaga felst víðtæk heimild til breytinga á þegar gerðum deiliskipulagsáætlunum. Þessu valdi eru aðallega settar skorður með kröfu um samræmi við aðalskipulagsáætlanir og kröfu um lögmæta málsmeðferð sem gefi hagsmunaaðilum kost á að koma að athugasemdum áður en ákvörðun er tekin. Telji hagsmunaaðilar sig verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna breytinga á deiliskipulagsáætlunum raskar það ekki gildi breytinganna, en getur eftir atvikum orðið grundvöllur bótakröfu, sbr. 51. gr. skipulagslaga.

Tekin var ákvörðun af hálfu Reykjavíkurborgar um að fara með hina kærðu deiliskipulagsbreytingu eftir ákvæði 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Það fól í sér að breytingin var metin óveruleg og því væri nægjanlegt að kynna áform um hana fyrir næstu nágrönnum með grenndarkynningu. Fyrir liggur að tillagan var grenndarkynnt frá 24. september 2015, með athugasemdafresti til 22. október s.á. Grenndarkynningin náði til kærenda og komu þeir athugasemdum að innan tilskilins frests. Að lokinni grenndarkynningu var breytingatillagan samþykkt af umhverfis- og skipulagsráði með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um þær athugasemdir sem borist höfðu. Borgarráð staðfesti þessa afgreiðslu hinn 26. nóvember s.á. Samkvæmt framsögðu var gætt að rétti kærenda til þess að koma að athugasemdum við kynningu skipulagstillögunnar og lá efnisleg afstaða borgarráðs til þeirra fyrir við afgreiðslu málsins.

Á meðal þess sem deilt er um í málinu er hæð umræddra palla í lóðinni og þá hvort samræmi sé á milli þess sem deiliskipulag heimilar og þess hvernig pallarnir séu í raun. Í skilmálum hins breytta deiliskipulags segir að lægri pallur skuli vera í lóðarhæð eins og hún var áður, en að sá hærri sé um það bil 1,3 m hærri. Af orðalagi skilmálanna verður ráðið að miða skuli við upphaflega hæð lóðarinnar frá byggingartíma hússins árið 1927. Af upphaflegum aðaluppdráttum hússins má sjá að lóðin við suðvestur hlið hússins hefur staðið nokkru hærra en síðar varð. Kann lóðin að hafa sigið nokkuð á þeim níu áratugum sem frá er liðnir eða verið grafin niður.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki liggja fyrir þeir annmarkar á málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar sem raskað geta gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 26. nóvember 2015 um breytingu á deiliskipulagi Smáragötureita vegna Laufásvegar 70.