Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

35/2020 Langholtsvegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 21. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Langholtsvegi 138, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði nefndar­innar uppkveðnum 29. maí 2020 var stöðvunarkröfu kærenda hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. maí 2020.

Málavextir: Með umsókn, dags. 17. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja stein­steyptan bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð húss þess sem stendur á lóðinni. Umsókninni fylgdi m.a. samþykki sameigenda fyrir framkvæmdunum.

Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. júní 2019 og ákveðið að vísa málinu til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. júlí s.á., kom fram að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið. Hinn 10. september 2019 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin og var byggingarleyfi gefið út 29. apríl 2020. Í útgefnu byggingarleyfi er tekið fram að frágangur á lóðamörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að umdeild byggingaframkvæmd sé ekki í samræmi við deiliskipulag Vogahverfis frá árinu 2010. Áður en byggingarleyfi verði veitt þurfi því að fara fram grenndarkynning. Deiliskipulag heimili ekki svalabyggingu að Langholtsveg 136. Slík bygging virðist jafnframt í andstöðu við deiliskipulagið frá 2010, en þar komi fram að við endurbætur skuli leitast við að viðhalda upprunalegu formi húsa. Í deiliskipulaginu segi: „Byggingarreitir bílskúra eru afmarkaðir á skipulagsuppdrætti. Í einhverjum tilfellum eru eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra. Gildir þá sú samþykkt. Byggingarreitir bílskúra eru almennt 5×7 m fyrir einnar hæðar einfaldan bílskúr en 7,5×7 m fyrir einnar hæðar tvöfaldan bílskúr.“

Deiliskipulagið frá 2010 sýni ekki byggingarreiti bílskúrs. Ekki séu heimildir til þess að byggja bílskúr á svo óljósum grundvelli sem felist í því að í deiliskipulagi sé vísað til „eldri byggingar­nefndarsamþykkta“. Það sé í andstöðu við tilgang skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 að vísa til svo óljósra heimilda. Um það megi vísa til skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðarinnar. Hvað sem þessu líði sé ljóst að sá byggingarreitur sem komi fram á eldri lóðarblöðum sé mun minni en 5×7 m. Hann rúmi ekki um 31 m² bílskúrsbyggingu. Eigi eldri heimildir að hafa þýðingu, þá þýði það jafnframt að byggja þurfi á stærð byggingarreits samkvæmt þeim heimildum. Bygging bílskúrs virðist í ósamræmi við önnur deiliskipulagsákvæði, t.a.m. að ekki megi fjölga innkeyrslum að húsum, að ekki megi fjölga bílastæðum og það markmið að ekkert jarðrask verði utan byggingarreita.

Þá sé skilyrði fyrir byggingaráformum eftirfarandi: „Skilyrt er að ný eignaskiptayfirlýsing sé samþykkt fyrir útgáfu byggingarleyfis, henni verður þinglýst eigi síðar en við lokaúttekt.“ Sá aðili sem standi að byggingaráformum eigi hvorki forgangs- eða eignarrétt að bílskúrs­byggingu á lóð Langholtsvegar nr. 136 samkvæmt gildandi eignaskiptayfirlýsingu. Gera verði þá kröfu að fyrir liggi samþykki annarra eigenda og eignarréttarlegar forsendur fyrir framkvæmdum eins aðila á sameignarhluta húss og lóðar komi fram með skýrum hætti.

Bæði bílskúrsbygging og svalabygging raski grenndarhagsmunum eigenda Langholtsvegar 138 og sé beinlínis gert ráð fyrir að framkvæmdasvæðið fari 1,5 m inn á lóð þeirra. Frágangur lóðar og umsjón byggingarsvæðis sé hluti byggingarleyfis og byggingaryfirvöld þurfi að ganga úr skugga um að eigendur svæðis heimili framkvæmd og nauðsynleg afnot áður en byggingar­leyfi sé gefið út. Eigendur Langholtsvegar 138 séu því aðilar máls og beri að gæta að réttindum þeirra samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993, meðal annars með upplýsingagjöf, leiðbeiningum og að veita andmælarétt. Þá sé í ósamræmi við löggjöf á sviði skipulags- og byggingarmála að veita byggingarleyfi til framkvæmda á lóð annars aðila án samþykkis þess aðila. Gengið sé á eignarréttarlega hagsmuni eigenda Langholtsvegar 138, sbr. þá röskun sem verði af byggingum við og nærri lóðarmörkum og nýrra svala á hlið Langholtsvegar 136 sem snúi að Langholtsvegi 138.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að samkvæmt Aðalskipulagi Reykja­víkur 2010-2030 sé Langholtsvegur 136 í skilgreindri íbúðar­byggð, merkt ÍB27. Í gildi sé deiliskipulag fyrir Vogahverfi, samþykkt 1. september 2010. Í skilmálum deiliskipulags fyrir svæði A, sem Langholtsvegur 136 tilheyri, segi: „Lögð er áhersla á að halda í fíngert yfirbragð byggðar. […] Nýtingarhlutfall einbýlis- og sambýlishúsa á svæði A verði allt að 0,6.“ Bundin byggingarlína sé skáhallt á götu og hús í þriggja m fjarlægð frá lóðarmörkum vestan við götu en í sex m fjarlægð frá lóðarmörkum austan við götu.

Samkvæmt deiliskipulaginu sé 7×5 m stór byggingarreitur í norðvestur horni umræddrar lóðar fyrir bílskúr. Þar segi að „nýir bílskúrar hafi sömu yfirborðsáferð og önnur hús á lóðinni“ og verður bílskúrinn steinsteyptur líkt og aðalhúsið sé. Einnig komi fram í skilmálum deili­skipulagsins að byggingarreitir bílskúra séu afmarkaðir á skipulagsuppdrætti. Í einhverjum tilfellum séu eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra. Gildi þá sú samþykkt. Fjallað sé um viðbyggingar og kvisti í deiliskipulaginu og falli svalir undir þá skilgreiningu. Samþykki meðlóðarhafa fyrir framkvæmdum þurfi að liggja fyrir, bæði fyrir svölum og bílskúr. Hið umþrætta byggingarleyfi sé í samræmi við deiliskipulag.

Áhyggjur kærenda vegna hugsanlegra framkvæmda séu skiljanlegar en í gildi sé samþykkt borgarráðs frá 1. september 1998 sem kveði á um að utanhúss- og lóðarfrágangi skuli vera lokið eigi síðar en innan tveggja ára frá útgáfu byggingarleyfis að viðlögðum dagsektum, sbr. gr. 2.4.7. og 2.9.2. byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Minnt sé á að í gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir nýbyggingu á lóðinni og hafi breytingin ekki meiri áhrif á framkvæmdatíma né rask á meðan á framkvæmdum standi, en vera myndi samkvæmt gildandi deiliskipulagi.

Meðlóðarhafar að Langholtsvegi 136 séu að fullu meðvitaðir um þau byggingaráform sem séu fram undan á lóðinni enda liggi fyrir samþykki þeirra, dags. 24. apríl 2019, sem hafi fylgt byggingarleyfisumsókninni. Kærendur séu ekki aðilar að eignaskipta­yfirlýsingu annarrar eignar. Úrskurðarnefndin taki ekki afstöðu til eignaskiptayfirlýsinga heldur dómstólar. Einnig liggi fyrir breytt eignaskipta­yfirlýsing, undirrituð af öllum eigendum að Langholtsvegi 136, samþykkt af byggingarfulltrúa 1. apríl 2020. Eignaskiptayfirlýsingin verði send sýslumanni til þinglýsingar þegar lokaúttekt fari fram.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar benda á að byggingarframkvæmdin sé í fullu samræmi við deiliskipulag Vogahverfis og því sé ekki gerð krafa um grenndarkynningu samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Eigendur Langholtsvegar 136 hafi þó gengið lengra og sent kynningarefni til eigenda aðliggjandi lóða.

Deiliskipulag banni ekki svalir. Fordæmi séu fyrir samþykki svala á sambærilegum byggingum á deiliskipulagssvæðinu. Að banna svalir gangi í berhögg við ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012 um flóttaleiðir vegna bruna. Svalir séu einnig fyrir innan byggingarreit eins og sjáist á skipulagsuppdrætti. Byggingarreitur fyrir bílskúr komi skýrt fram á skipulagsuppdrætti og sé um 5×7 m.

Bygging bílskúrs og bílastæðis sé í fullu samræmi við deiliskipulagsákvæði. Innkeyrsla að húsi sé óbreytt frá fyrri uppdráttum enda vandséð hvernig bílskúrsreitur geti verið án innkeyrslu. Vandséð sé hvernig eignarréttur eiganda Langholtsvegar 138 sé skertur með upprunalegum byggingarrétti á lóð Langholtsvegar 136 sem hafi verið til staðar við nýbyggingu, meðal annars á samþykktum teikningum Langholtsvegar 138 frá árinu 1946 og 1947 ásamt því að vera skilmerkilega lýst á skipulagsuppdráttum.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur telja að borið hafi að grenndarkynna byggingar­fyrirætlanir m.a. í ljósi ónákvæmni deiliskipulags, óskýrleika um nýtingu bygginga og stöðu eldri bygginga og byggingarreita. Húsbyggingin á lóðamörkum sé verulegt grenndarrask, bæði hvað varði ásýnd og birtu og eins skerðist lóðagæði vegna skuggavarps. Hefði því þurft skýra heimild lóðamarkaeigenda svo slík grenndargæðaskerðing gæti fengið framgöngu og hlotið samþykki.

Byggingarleyfi svala staðsettra á gafli Langholtsvegar 136 eigi sér ekki stoð í deiliskipulagi. Svalirnar séu, samkvæmt athugasemdum Reykjavíkurborgar, reistar á grundvelli leyfis í deiliskipulagi fyrir kvisti og viðbyggingar en leyfið sé samt veitt fyrir þeim á gafli húss. Þá séu svalir eðlisólíkar viðbyggingum sem tilheyri innra rými húsnæðis. Svalabygging á húsgafli Langholtsvegar 136 eigi sér ekki stoð í deiliskipulagi Vogahverfis frá 2010 og raski grenndar­hagsmunum vegna óþægilegrar innsýnar í svefnherbergi, stofu og eldhús næsta húss.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis fyrir bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og svölum og svaladyrum sem á að bæta við aðra hæð hússins. Er einkum deilt um hvort byggingarleyfið sé í samræmi við skipulagsáætlanir og þau grenndaráhrif sem verði af byggingu bílskúrs og svala.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykkt byggingaráforma, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi jafnframt vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Í gildi er deiliskipulag Vogahverfis, samþykkt 1. september 2010. Samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins er svæðinu skipt upp í sjö svæði, þ.e. svæði A-E og svæði V og S. Lóðin Langholtsvegur 136 er staðsett á svæði A en þar eru aðallega sænsk timburhús og sambýlishús og nýtingarhlutfall lóða á svæðinu geti verið allt að 0,6. Kemur og fram að eitt markmiða deiliskipulagsins sé að varðveita hið fíngerða yfirbragð hverfisins með því að takmarka stærð húsa. Í greinargerð skipulagsins er fjallað um almenna skilmála sem varða allt svæðið. Þar kemur meðal annars fram að byggingarreitir séu afmarkaðir á öllum lóðum í hverfinu. Byggingarreitir taki mið af byggðamynstri hverfisins og allar breytingar skuli vera innan byggingarreita en innan þeirra megi byggja m.a. ný hús og viðbyggingar við núverandi hús. Auk þess sem gerð sé grein fyrir byggingarreitum bílskúra. Í einhverjum tilfellum séu eldri byggingarnefndarsamþykktir enn í gildi fyrir óbyggða bílskúra, en þá gildi sú samþykkt. Byggingarreitir bílskúra séu almennt 5×7 m fyrir einnar hæðar einfaldan bílskúr en 7,5×7 m fyrir einnar hæðar tvöfaldan bílskúr. Bílskúrar skuli vera lágreistir með lítt hallandi þaki eða mænisþaki sem taki mið af þaki aðalhúss. Hæsta leyfilega hæð við útvegg verði 2,7 m og hæsta leyfilega mænishæð verði 3,4 m mælt frá gólfi undir efstu klæðningu. Nýir bílskúrar hafi sömu yfirborðsáferð og önnur hús á lóðinni. Heimilt sé að gera kvisti á íbúðarhús, en breidd þeirra verði aldrei meiri en 3 m eða 1/3 af lengd húss og skuli allir kvistir vera dregnir minnst 1 m inn frá vegglínu. Þá er í skipulaginu heimilt að lengja hús þar sem lóðaraðstæður leyfa eða reisa viðbyggingar sem verði inndregnar frá göflum húsa. Heildarbreidd húsa og viðbyggingar megi verða allt að 12 m.

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum fyrirhugaðs bílskúrs að Langholtsvegi 136 er hann staðsettur á byggingarreit sem er afmarkaður á skipulags­uppdrætti. Stærð bílskúrs verður 4,5×7,0 m með 3,40 m mænishæð. Þá mun hann hafa sömu yfirborðsáferð og íbúðarhús lóðarinnar, en bílskúrinn verður steinsteyptur, steinaður að utan í sama litatón og þakkantur verði í sama formi og á íbúðarhúsinu. Eftir breytingarnar verður nýtingarhlutfall lóðarinnar um 0,46. Samkvæmt því fer umdeildur bílskúr ekki í bága við skilmála gildandi deiliskipulags.

Með hinu kærða byggingarleyfi er jafnframt heimiluð bygging 7,2 m² svala og svaladyra við aðra hæð vesturgafls íbúðarhússins á umræddri lóð sem snýr að austurgafli húss kæranda sem stendur í u.þ.b. 10 m fjarlægð frá húsinu að Langholtsvegi 136. Ekki er sérstaklega tekið fram í skilmálum skipulagsins hvort heimilt sé að byggja svalir við hús á svæðinu en telja verður að slíkt mannvirki rúmist innan heimildar deiliskipulagsins um viðbyggingar innan byggingarreits, enda er um viðurhlutaminna mannvirki að ræða en hefðbundna stækkun húss. Á göflum beggja húsanna sem snúa hvort að öðru eru gluggar og munu því heimilaðar svalir sem eru hóflegar að stærð ekki auka innsýn að marki umfram það sem þegar er fyrir.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svaladyrum á aðra hæð hússins á lóðinni.

45 og 49/2020 Norðurstígur

Með

Árið 2020, föstudaginn 3. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 45/2020, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 29. maí 2020 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir endurgerð á Norðurstíg milli Vestur­götu og Geirsgötu, svo og á Nýlendugötu milli Norðurstígs og Ægisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júní 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Norðurstíg 5, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar um að veita framkvæmdaleyfi fyrir endurgerð á Norðurstíg milli Vesturgötu og Geirsgötu og á Nýlendugötu milli Norðurstígs og Ægisgötu. Skilja verður málskot kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Að auki er þess krafist að hætt verði umsvifalaust við fyrirhugaðar framkvæmdir og verður að líta svo á að í því felist krafa um stöðvun framkvæmda. Reykjavíkurborg fór fram á frávísun stöðvunarkröfu kærenda með þeim rökum að framkvæmdir væru ekki hafnar og hefði leyfi ekki verið gefið út fyrir þeim. Hinn 30. júní 2020 fékk úrskurðarnefndin þær upplýsingar frá kærendum að framkvæmdir væru hafnar og var staðfest af hálfu borgarinnar að leyfi hefði verið gefið út án þess að nefndin hefði verið upplýst um þær breyttu aðstæður. Að svo komnu máli verður ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda en málið þykir hins vegar nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. júní 2020, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra eigendur, Nýlendugötu 6, Reykjavík, einnig fyrrgreinda ákvörðun skipulagsfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem hið síðara kærumál, sem er nr. 49/2020, varðar sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verður það sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. og 16. júní og 1. júlí 2020.

Málavextir: Hinn 4. maí 2020 lagði skrifstofa framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg fram umsókn um framkvæmdaleyfi vegna endurgerðar á Norðurstíg milli Vesturgötu og Geirs­götu, svo og á Nýlendugötu milli Norðurstígs og Ægisgötu. Í framkvæmdalýsingu segir nánar tiltekið að skipt verði um jarðveg samkvæmt kennisniðum og lagnir veitufyrirtækja verði endurnýjaðar að töluverðu leyti. Verkið felist meðal annars í því að leggja snjóbræðsluslöngur, reisa ljósastólpa, leggja grásteinskant, leggja hellur og ganga frá gróðursvæðum. Gengið verði frá yfirborði með götugögnum og öðrum mannvirkjum í samræmi við útboðsgögn, en til götugagna teljast t.a.m. ljósastaurar, bekkir, biðskýli og ruslafötur. Nánar kemur fram í lýsingunni að samkvæmt framkvæmda­áætlun verði byrjað að framkvæma í Nýlendugötu, en þegar sú framkvæmd verði langt komin verði hægt að hefja framkvæmd efst í Norðurstíg. Verklok séu áætluð 10. október 2020. Framkvæmdirnar voru kynntar íbúum og öðrum hagsmunaaðilum með tilkynningu, dags. 6. maí 2020, og fylgdu tilkynningunni teikningar sem sýndu fyrirhugað útlit gatnanna.

Framkvæmdaleyfisumsókninni var vísað til umsagnar verkefnastjóra og var það afgreitt með umsögn skipulags­fulltrúa, dags. 29. maí 2020. Í umsögninni kemur fram að ekki sé lagst gegn því að veitt verði framkvæmda­leyfi fyrir framkvæmdinni. Hún sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 og markmið í því um borgargötur og gæði byggðar. Tekið skyldi sérstakt tillit til þess að um miðborgarsvæði væri að ræða og skyldi virða allar reglur og leiðbeiningar um vinnutíma, merkingar, hávaða og rask gagnvart íbúum við götuna og á nærliggjandi svæðum.

Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 29. maí 2020 var samþykkt að gefa út framkvæmdaleyfi með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa. Var leyfið gefið út 25. júní s.á.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að á teikningum, sem fylgt hafi tilkynningu Reykjavíkurborgar um framkvæmdirnar, séu þær fyrirhugaðar innan lóðarmarka Norður­stígs 5. Á lóðinni sé meðal annars fyrirhuguð hellulögn, gerð göngustígs og að þar verði stað­settur bekkur og trjágróður. Þetta rask muni hafa í för með sér að allur trjágróður sem fyrir sé á lóðinni verði fjarlægður, sem og hellulögn eigenda. Framkvæmdirnar hafi verið skipulagðar og samþykktar af Reykjavíkurborg, algjörlega án samráðs og samþykkis eigenda lóðarinnar. Kærendur telji að ekki hafi verið gætt að hagsmunum þeirra við skipulagningu verkefnisins og að framkvæmdirnar muni rýra verðmæti fasteignarinnar að Norðurstíg 5.

Kærendur að Nýlendugötu 6 benda á skort á samráði og að grenndarkynning hafi ekki farið fram. Ekki sé til staðar heimild í deiliskipulagi fyrir því að búa til almenningstorg. Ekki sé tekið tillit til hagsmuna þeirra heldur sé gengið á þá að þeim forspurðum. Spurningum til borgar­yfirvalda hafi verið svarað seint, illa og aðeins að litlu leyti. Almenningstorg við húsvegg ógni friðhelgi einkalífs þar sem fjölda óviðkomandi fólks sé beint um svæðið sem sé nálægt mið­svæðum. Borgaryfirvöld hafi fallist á að fella bekki úr gildandi hönnun vegna framkominna athugasemda, en þess sé krafist að almenningsbekkir verði ekki settir upp í portinu til framtíðar. Hellulögn með vatnsleiðslum undir muni stórauka hættu á rakavandamálum í útveggjum húsa og sökklum. Kostnaður muni fylgja því að setja upp girðingar til að varna almenningi aðgengi að garði kærenda. Aðgengi iðnaðarmanna og lítilla flutningabíla meðfram trjám, ljósastaurum og pollum verði torvelt, bæði milli húsanna í portinu og á Norðurstíg, sem og gera flutninga og viðhald erfiðara og dýrara, sbr. gr. 5.3.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sem segi að tryggja skuli aðkomu að hliðum stakstæðra mannvirkja sem standi við lóðarmörk og að baklóðum sambyggðra húsa með kvöðum eða öðrum hætti. Deiliskipulag sýni ekkert sem hefti aðgöngu að lóðinni en nú séu á útfærsluteikningum ljósastaurar, tré og göngustígar sem takmarki aðkomu að henni.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld fallast ekki á framkomin sjónarmið kærenda og krefjast þess að kröfu þeirra um ógildingu framkvæmdaleyfis verði hafnað.

Framkvæmdin sé í samræmi við gildandi deiliskipulag Norðurstígsreits og Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, sem og markmið í aðalskipulagi um borgargötur og gæði byggðar. Ekki sé fallist á að framkvæmdirnar séu innan lóðar kærenda. Samkvæmt gildandi deili­skipulagi fyrir Norðurstígsreit, samþykktu í borgarráði 20. janúar 2004, sé heimilt að stækka lóðina að Norðurstíg 5 fyrir sunnan húsið til suðurs og að stækkunin verði tekin af borgarlandi. Sú heimild hafi þó aldrei verið nýtt af hálfu lóðarhafa, lóðin hafi aldrei verið stækkuð og séu því lóðarmörkin ennþá eins og þau hafi verið áður, þ.e. upp við húsið. Lóðarmörkin séu enn fremur ljóslega sýnd á teikningu með afsalsbréfi, dags. 15. mars 1963, og í eignaskipta­yfirlýsingu, dags. 19. júlí 1993. Enginn trjágróður verði fjarlægður af lóð kærenda og ekki sé með neinu móti hægt að líta svo á að framkvæmdirnar hafi einhver áhrif á hagsmuni kærenda. Fallið hafi verið frá þeim áformum að setja bekki við lóðarmörk.

Ekki sé hægt að fallast á að friðhelgi einkalífs sé skert með framkvæmdinni, enda sé einungis verið að breyta yfirborði svæðisins og fegra það með hellulögn. Ekki sé verið að gera almenningstorg eins og kærendur haldi fram. Gangandi vegfarendur eigi nú þegar greiða leið um svæðið og svo verði áfram. Ekki sé heldur fallist á að hitalagnir undir stéttinni muni stórauka hættu á vatnstjóni á húsi kærenda að Nýlendugötu 6. Þéttidúkur verði lagður undir og upp með hellunum að húsum sem komi í veg fyrir að vatn komist að útveggjum. Engin breyting sé á aðkomu lítilla flutningabíla og aðgengi fyrir iðnaðarmenn.

—–

Í kjölfar þess að framkvæmdir hófust bárust úrskurðarnefndinni viðbótarathugasemdir kærenda sem ekki verða raktar frekar hér en nefndin hefur haft þær hliðsjónar.

—–

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um framkvæmdaleyfi sem heimilar endurgerð Norðurstígs milli Vesturgötu og Geirsgötu og Nýlendugötu milli Norðurstígs og Ægisgötu. Nánar felst í leyfinu enduruppbygging gatna og verður heildaryfirbragð þeirra bætt, meðal annars með því að endurnýja yfirborð þeirra og bæta við grjótbeðum og trjám. Auk þess eru heimilaðar verulegar breytingar á lögnum og kerfum í götunum. Fjallað er um framkvæmdaleyfi í 13.-15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og í reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Geta stofn-, dreifi- og flutningskerfi fráveitu, hitaveitu, vatnsveitu, fjarskipta, rafveitna og verulegar breyt­ingar á slíkum mannvirkjum m.a. verið háðar framkvæmdaleyfi, sbr. 1. mgr. 5. gr. nefndrar reglugerðar.

Kærendur að Norðurstíg 5 bera því m.a. við að umþrættar framkvæmdir séu fyrirhugaðar innan marka lóðarinnar og vísa í því sambandi til deiliskipulags svæðisins þar sem fram kemur að lagt sé til „að lóðin fyrir sunnan gamla húsið inni á reitnum verði stækkuð til suðurs. Stækkunin er tekin af borgarlandi.“ Af hálfu borgarinnar er bent á að fyrirætlun þessi hafi ekki gengið eftir og er skráning í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands í samræmi við það. Í deiliskipulagi eru teknar ákvarðanir um lóðir, sbr. 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en skipulagsáætlanir einar og sér ráðstafa ekki eignarréttindum. Þá styðja önnur gögn málsins ekki fullyrðingu kærenda sem ekki er í samræmi við opinbera skráningu. Verður því ekki séð að eignarréttindi þeirra hafi staðið í vegi fyrir að hið kærða framkvæmdaleyfi yrði veitt, en bent skal á að það fellur ekki innan valdsviðs úrskurðar­nefndarinnar að skera úr ágreiningi um bein eða óbein eignarréttindi, s.s. þau sem skapast geta vegna hefðar, enda á slíkur ágreiningur eftir atvikum undir dómstóla. Þar undir á einnig ágreiningur, t.a.m. um skaðabótaskyldu, vegna vandamála sem kunna að rísa í kjölfar fram­kvæmdar, s.s. rakavandamál í útveggjum og sökklum, sem kærendur að Nýlendugötu 6 telja aukna hættu á.

Í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga er kveðið á um að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli sveitar­stjórn fjalla um og taka afstöðu til þess hvort framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir og er slíkt samræmi áskilið í 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 772/2012. Í 7. gr. reglugerðarinnar kemur enn fremur fram sú meginregla að framkvæmdaleyfi skuli vera gefið út á grundvelli deili­skipulags þótt heimilt sé að veita framkvæmdaleyfi á grundvelli aðalskipulags að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Er og kveðið á um í 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga að þar sem fram­kvæmdir séu fyrirhugaðar og deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn að undangenginni grenndarkynningu veitt framkvæmdaleyfi sé um að ræða framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag varðandi landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar. Er því m.a. haldið fram í málinu að grenndarkynning hafi þurft að fara fram.

Í gildi er frá 20. janúar 2004 deiliskipulag Norðurstígsreits, sem afmarkast af Norðurstíg, Vesturgötu, Ægisgötu og Tryggvagötu. Í greinargerð með deiliskipulaginu er meðal annars tekið fram að meðal megineinkenna reitsins sé áberandi skortur á m.a. frágangi útisvæða og lóða og eigi það einnig við um borgarland. Eitt meginmarkmið skipulagsins sé að styrkja stöðu reitsins sem miðborgar- og íbúðarsvæðis, auka notagildi þess almennt og stuðla að endurbótum á svæðinu í umhverfislegu tilliti. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eru Nýlendugata og Norðurstígur á svæði blandaðrar miðborgarbyggðar, merkt M1c og í gamla Vesturbænum, merkt ÍB1. Á svæði M1c er m.a. lögð áhersla á að vernda og styrkja íbúðarbyggð og hverfisanda og um gamla Vesturbæinn segir meðal annars að það sé gróið íbúðarhverfi sem hafi verið fullbyggt að mestu fyrir 1950. Byggðin sé heilsteypt sem njóti verndar að hluta vegna byggða­mynsturs. Í kafla aðalskipulags um veitur er fjallað um hitaveitur og rafveitur og tiltekið að á næstu árum verði gert ráð fyrir talsverðri endurnýjun flutnings- og stofnæða enda væru þær víða orðnar gamlar, bilanir nokkuð tíðar og mikilvægi lagna sé mikið. Hefðbundin endurnýjun minni dreifilagna og heimaæða færi eftir sem áður fram samhliða framkvæmdum sveitarfélaga og veitustofnana. Þá þurfi að styrkja og endurnýja núverandi rafdreifikerfi (strengi, spenni­stöðvar) í grónum hverfum borgarinnar.

Að framangreindu virtu eru heimilaðar framkvæmdir í samræmi við aðal- og deiliskipulag svæðisins og var hið kærða leyfi gefið út á þeim grundvelli. Bar því ekki nauðsyn til að grenndarkynna framkvæmdirnar skv. 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Svo sem fram kemur í aðal­skipulagi er um nauðsynlega endurnýjun lagna að ræða og verður að telja aðrar heimilaðar framkvæmdir í samræmi við það markmið gildandi deiliskipulags að stuðla að endurbótum á svæðinu í umhverfislegu tilliti. Um almenningsrými er að ræða, þ.m.t. göturými, en ekki torg, sbr. gr. 5.3.2.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Verður að telja að einungis sé um nánari útfærslu að ræða á deiliskipulagi, eins og eðlilegt er að teknu tilliti til framangreinds markmiðs, sem kalli ekki á deiliskipulagsbreytingu. Fallið var frá þeim áformum að setja upp bekki þá sem kærendur mótmæltu og verður ekki annað ráðið en að öll þau gögn verið til staðar sem nauðsynleg voru og málsmeðferð vegna hins kærða framkvæmdaleyfis hafi verið lögum samkvæmt.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar frá 29. maí 2020 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir endurgerð á Norðurstíg milli Vesturgötu og Geirsgötu, svo og á Nýlendugötu á milli Norðurstígs og Ægisgötu.

39/2020 Ægisgata, Stykkishólmi

Með

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 39/2020, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erindis um að framkvæmdir verði stöðvaðar og mannvirki fjarlægð á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3 í Stykkishólmsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. maí 2020, er barst nefndinni 25. s.m., kærir lóðarhafi Ægisgötu 3, Stykkishólmi, drátt á afgreiðslu erinda kæranda, sem ítrekuð voru með bréfi, dags. 22. apríl 2020, um að framkvæmdir á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3 verði stöðvaðar og girðing þar fjarlægð. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að lagt verði fyrir Stykkishólmsbæ að taka fyrrgreint erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 27. maí 2020.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 6. maí 2019 var samþykkt byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi að Ægisgötu 1. Í lok nóvember 2019 mun kærandi, eigandi Ægisgötu 3, hafa haft samband bréflega við bæjaryfirvöld í Stykkishólmsbæ vegna framkvæmda á lóðamörkum Ægisgötu 1 og 3. Í bréfinu kom fram að kærandi teldi steypta veggi á lóðamörkum vera of háa og of nálægt lóðamörkum. Þá vakti kærandi athygli á að til stæði að breyta hæð lóðarinnar. Með tölvupósti til bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar 8. janúar 2020 var þess krafist að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar. Byggingarfulltrúi tók málið til skoðunar og í bréfi hans til kæranda, dags. 20. janúar 2020, kom fram að girðingar á lóðamörkum við Ægisgötu 1 væru ekki í samræmi við reglur og að framkvæmdir við þær hefðu verið stöðvaðar.

Kærandi tekur fram að þrátt fyrir bréf byggingarfulltrúa frá 20. janúar 2020 hafi framkvæmdir á lóðinni nr. 1 við Ægisgötu haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist. Lóðin hafi verið hækkuð og búið sé að fylla að skjólveggjum og þeir þá í raun orðnir stoðveggir. Bæjaryfirvöld hafi ekkert aðhafst þrátt fyrir að hafa verið vel upplýst um framkvæmdirnar. Hinn 22. apríl 2020 hafi kærandi sent bréf til byggingarfulltrúa og bæjarstjóra og krafist þess að þvingunarúrræðum yrði beitt vegna framkvæmda á lóð nr. 1. Því hafi ekki verið svarað.

Af hálfu Stykkishólmsbæjar er tekið fram að erindi kæranda frá 22. apríl 2020 hafi nú verið svarað með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 26. maí s.á. Dráttur á afgreiðslu erindisins skýrist m.a. af því ástandi sem uppi hafi verið vegna Covid-faraldursins o.fl., eins og fram komi í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda. Líkt og fram komi í gögnum málsins hafi verið óskað eftir því við lóðarhafa að Ægisgötu 1 að hann geri grein fyrir umræddum framkvæmdum og hvernig hann hyggist ljúka málinu með fullnægjandi hætti. Hafi honum verið gefinn kostur á að gera grein fyrir framkvæmdunum bæði skriflega og með uppdráttum. Tekið hafi verið fram að nauðsynlegt væri að fram kæmi á uppdráttum fjarlægð veggja frá lóðamörkum, hæð þeirra og jarðvegshæð beggja megin við til þess að hægt væri að taka afstöðu til þess hvort um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir sé að ræða.

Eins og áður hafi verið rakið hafi ekki tekist að ljúka málinu vegna ýmissa ástæðna, svo sem sóttkvíar byggingarfulltrúa í apríl, páskahátíðar o.fl. Þegar endanleg gögn berist byggingarfulltrúa muni sveitarfélagið senda kæranda uppdráttinn og gögn til skoðunar og umsagnar. Berist gögn ekki innan tíðar muni byggingarfulltrúa grípa til nauðsynlegra aðgerða til að knýja á um málalok í samræmi við ákvæði laga nr. 160/2010 um mannviki.

Niðurstaða: Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu hefur kærandi um nokkurra mánaða skeið beint athugasemdum til stjórnvalda í Stykkishólmsbæ vegna framkvæmda á mörkum lóðar sinnar nr. 1 við Ægisgötu og nágrannalóðar nr. 3 við sömu götu. Framkvæmdir við stoðveggi á lóðinni nr. 3 við Ægisgötu voru stöðvaðar 20. janúar 2020, en ekki hefur verið tekin ákvörðun af hálfu Stykkishólmsbæjar um hvort fjarlægja beri umrædd mannvirki. Beindi kærandi þeim kröfum aftur að bænum, með bréfi, dags. 22. apríl 2020, að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar og að mannvirki yrðu fjarlægð.

Samkvæmt 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er. Það er álit úrskurðarnefndarinnar að afgreiðsla málsins hafi dregist nokkuð, enda liðið um hálft frá því að kærandi setti fyrst fram kröfur sínar gagnvart sveitarfélaginu. Erindi hans frá 22. apríl 2019 hefur nú verið svarað og hafa verið færðar fram skýringar á töfum svaranna. Málið er í vinnslu hjá sveitarfélaginu sem hefur upplýst um að til meðferðar sé mál lóðarhafa Ægisgötu 1 hjá embætti byggingarfulltrúa og þurfi lóðarhafi að gera grein fyrir framkvæmdunum, meðal annars m.t.t. byggingarleyfisskyldu þeirra Gefa upplýsingar sveitarfélagsins tilefni til að ætla að málinu verði fylgt eftir og því lokið innan skamms. Er því ekki tilefni fyrir úrskurðarnefndina að fjalla frekar um málið á þessu stigi og verður því vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Dragist áframhaldandi meðferð málsins hins vegar úr hófi er unnt að kæra dráttinn að nýju til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

107/2019 Stafafellsfjöll

Með

Árið 2019, föstudaginn 29. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 107/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hornafjarðar frá 21. október 2019 um að fjarlægja eða færa til mannvirki sem stendur á lóðinni nr. 11 í Stafafellsfjöllum á kostnað eiganda.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. október 2019, er barst nefndinni 22. s.m., kærir eigandi, Fiskhóli 11, Höfn í Hornafirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hornafjarðar frá 21. október 2019 að fjarlægja eða færa til mannvirki sem stendur á lóðinni nr. 11 í Stafafellsfjöllum, Hornafirði, á kostnað eiganda. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 30. október 2019.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Það varðar frístundahús kæranda á lóð nr. 11 í Stafafellsfjöllum, sem hefur staðið þar frá 2006 samkvæmt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 24. júlí 2018, var kæranda tilkynnt að umsókn hans um byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á umræddri lóð væri synjað þar sem framkvæmdin samræmdist ekki skipulagsáætlunum, sbr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Húsið væri nær lóðarmörkum en 10 m og uppfyllti það því ekki skilyrði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, sem mælir fyrir um að ekki skuli byggja nær lóðarmörkum í frístundabyggð en 10 m. Með ákvörðun byggingarfulltrúa Horna­fjarðar frá 30. júlí 2018 var kæranda gert að fjarlægja sumarhúsið á lóðinni á grundvelli 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki þar sem húsið væri án byggingarleyfis, væri staðsett utan byggingarreits lóðar og u.þ.b. tveimur metrum frá mörkum aðliggjandi lóðar, þ.e. lóðarinnar nr. 10 í Stafafellsfjöllum. Var kæranda gefinn tveggja mánaða frestur, til 1. október 2018, til að verða við kröfu byggingarfulltrúa að viðlögðum dagsektum. Tekið var fram að yrði kröfu byggingar­fulltrúa ekki sinnt innan tilgreinds frests væri heimilt að fjarlægja hið ólöglega mannvirki á kostnað eiganda. Með tölvupósti 22. október 2018 óskaði kærandi eftir fresti til 1. ágúst 2019 til að fjarlægja mannvirkið. Kvaðst hann ætla  að kaupa fullbúið hús hjá erlendum framleiðanda og flytja það til Íslands. Með póstinum fylgdu teikningar að nýju frístundahúsi á tveimur hæðum sem staðsett yrði innan byggingarreits. Í kjölfarið áttu sér stað bréfleg samskipti milli kæranda og byggingarfulltrúa fram á mitt ár 2019.

Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 23. ágúst 2019, var kæranda gefinn lokafrestur til að skila inn hönnunargögnum, staðfestum upplýsingum um hönnunarstjóra og umsókn um byggingar­leyfi fyrir nýju frístundahúsi á umræddri lóð. Í bréfinu var jafnframt skorað á kæranda að fjarlæga óleyfisbyggingu sem fyrir væri á lóðinni eða flytja hana inn á byggingarreit. Var kæranda veittur 10 daga frestur til að verða við kröfunni. Að öðrum kosti yrðu lagðar á dagsektir, 50.000 kr. á dag. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. október 2019, var upplýst að hvorki hefði borist svar, umbeðin gögn né hefði hið ólöglega mannvirki verið fjarlægt. Í bréfinu kom fram að dagsektir hefðu verið lagðar á vegna mannvirkisins frá 3. september og vakin athygli á því að þær féllu ekki niður fyrr en hið ólöglega mannvirki hefði verið fjarlægt. Jafnframt var tilkynnt  að mannvirkið yrði fjarlægt á næstunni og skorað á kæranda að flytja innbú og annað tilheyrandi úr húsinu. Að endingu var veittur lokafrestur til að fjarlægja mannvirkið eða flytja það á byggingarreit. Þá var að lokum leiðbeint um að heimilt væri að kæra ákvörðun byggingar­fulltrúa til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að kærufrestur væri einn mánuður.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að með ákvörðun sveitarfélagsins frá 2. mars 2011 hefði verið ákveðið að bygging á umræddri lóð hans mætti standa. M.ö.o. hefði verið hafnað kröfum nágranna um að hún skyldi fjarlægð. Byggingarfulltrúi hafi hins vegar lagt á dagsektir og skrifað bréf þar sem því hafi verið hótað að mannvirkið yrði fjarlægt. Kærandi telji sig vera í fullum rétti með að láta bygginguna standa.

Í fyrsta lagi verði að telja að bréf byggingarfulltrúa sé ekki formleg ákvörðun um fjarlægingu mannvirkis. Í bréfinu sé hvergi notað orðið „ákvörðun“. Algerlega sé óljóst hvert efni bréfsins sé, þar sé talað í belg og biðu og í lok bréfsins sé hvatning byggingarfulltrúa um að virða ákvörðun frá því í fyrra sem ekki komi fram hver sé. Þetta sé ekki tæk afgreiðsla og ekki sé ljóst hvert efni bréfsins sé. Í öðru lagi sé byggt á því að þar sem sveitarfélagið hafi þegar með ákvörðun sinni frá árinu 2011 tekið bindandi og óafturkræfa ákvörðun um að mannvirkið megi standa, séu ákvarðanir nú um dagsektir og niðurrif húss á kostnað eiganda ólögmætar. Í þriðja lagi sé byggt á því að vegna jafnræðisreglu séu dagsektir og niðurrif ólögmæt. Á lóðum í Stafafellsfjöllum hafi mannvirki risið og verið frjálslega með farið gagnvart lóðamörkum. Eigi það við um fjölda lóða, ekki bara mannvirki og lóð kæranda.

Málsrök Hornafjarðar: Bæjar­yfirvöld vísa m.a. til þess að þau hafi kynnt sér málefni lóða nr. 10 og 11 í Stafafellsfjöllum með ítarlegum hætti áður en tekin hafi verið hin umþrætta ákvörðun frá 30. júlí 2018. Mikill fjöldi gagna liggi fyrir í málinu en byggingarfulltrúi hafi haft þau öll til hliðsjónar við ákvarðanatöku og telji sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu. Byggingarfulltrúi hafi kynnt sér aðstæður á umræddum lóðum,  m.a. í vettvangsferð 6. mars 2018 þegar hann hafi mælt upp lóðirnar og staðsetningu húsa. Fyrir liggi að umsóknum kæranda, annars vegar um byggingarleyfi og hins vegar um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í Stafafellsfjöllum, hafi verið synjað og afstaða eiganda lóðar nr. 10 liggi fyrir hvað varði lóðamörk og beiðni um breytingu á lóðamörkum. Hafi byggingarfulltrúi því talið að málsatvik væru nægjanlega upplýst og að sannar og réttar upplýsingar lægju fyrir þegar ákvörðunin hafi verið tekin. Með hliðsjón af þeim gögnum hafi það verið endanlegt mat byggingarfulltrúa að hagsmunir eigenda lóðar 10 gengju framar hagsmunum kærenda.

Niðurstaða: Svo sem rakið er í málavöxtum var kæranda, með ákvörðun byggingarfulltrúa frá 30. júlí 2018, gert að fjarlægja sumarhús sitt á lóðinni nr. 11 í Stafafellsfjöllum eða flytja það á byggingarreit í samræmi við deiliskipulag svæðisins og var til þess gefinn tveggja mánaða frestur. Sú ákvörðun var ekki kærð til úrskurðarnefndarinnar. Að sama skapi var ákvörðun byggingarfulltrúa, frá 23. ágúst 2019 um álagningu dagsekta til að knýja á um að húsið yrði fjarlægt, ekki borin undir úrskurðarnefndina innan lögmælts kærufrests, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Verða þær ákvarðanir því ekki teknar til efnismeðferðar í máli þessu.

Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. október 2019, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun bæjar­yfirvalda að hið ólöglega mannvirki yrði fjarlægt á kostnað eiganda og í bréfinu var skorað á hann að fjarlægja innbú og verðmæti áður en til þess kæmi. Er efni ákvörðunarinnar ótvírætt, þ.e. að bæjaryfirvöld hafi tekið þá ákvörðun að fjarlægja umrætt hús á kostnað eiganda, og verður í máli þessu tekin afstaða til lögmætis þeirrar ákvörðunar.

Byggingarfulltrúa er í 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, sbr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, heimilað að krefjast þess að mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt brjóti byggingar­framkvæmd í bága við skipulag eða ekki hafi verið fengið leyfi fyrir henni. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað.

Kærandi sótti um byggingarleyfi í maí 2018 fyrir sumarhúsi á lóðinni nr. 11 í Stafafellsfjöllum. Með ákvörðun byggingarfulltrúa, dags. 24. júlí s.á., var umsókn kæranda synjað þar sem framkvæmdin samræmdist ekki deiliskipulagi og færi í bága við ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 vegna þess að sumarhúsið væri nær lóðarmörkum en 10 m. Liggur því fyrir að kærandi hefur ekki fengið leyfi fyrir sumarhúsi sínu á umræddri lóð, en samkvæmt gögnum málsins mun það hafa verið reist án byggingarleyfis árið 2006. Liggur ekki annað fyrir en að meðalhófs hafi verið gætt og að byggingarfulltrúi hafi fylgt málsmeðferðar­reglum stjórnsýslu­laga nr. 37/1993 við meðferð málsins, þ. á m. veitt kæranda andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, og fært fram rök að baki ákvörðuninni með vísan til málsatvika og viðeigandi réttarheimilda, sbr. 21. og 22. gr. laganna. Voru því uppfyllt skilyrði 55. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð fyrir því að taka hina kærðu ákvörðun.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hornafjarðar frá 21. október 2019 um að fjarlægja eða færa til mannvirki sem stendur á lóðinni nr. 11 í Stafafellsfjöllum á kostnað eiganda.

101/2018 Stafafellsfjöll í Lóni

Með

Árið 2019, föstudaginn 19. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2018, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar frá 3. júlí 2018 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundabyggð í Stafafells­fjöllum í Lóni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Fiskhóli 11, Höfn í Hornafirði, þá ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar frá 3. júlí 2018 að synja umsókn hans um breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum í Lóni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sveitarfélagið Hornafjörð að samþykkja umsókn kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Sveitarfélaginu Hornafirði 10. september 2018.

Málavextir: Með umsókn, dags. 13. júní 2018, óskaði kærandi eftir breytingu á deiliskipulagi fyrir frístundabyggð í Stafafellsfjöllum í Lóni. Fól umsóknin í sér færslu á byggingarreit gestahúss innan frístundalóðar kæranda nr. 11 innan skipulagssvæðisins þannig að hann verði í 2 m fjarlægð frá lóðarmörkum. Skipulagsfulltrúi lagði umsóknina fyrir fund skipulagsnefndar 19. júní og taldi nefndin ekki ástæðu til að heimila umsóttar breytingar. Á fundi bæjarráðs 3. júlí var umsókn kæranda hafnað. Í bókun bæjarráðs var tekið fram að „samkvæmt 5.3.2.12. gr. skipulagsreglugerðar nr. 90 [/2013] er ekki heimilt að byggja nær lóðarmörkum en 10 m. Bæjarráð hafnar erindinu út frá ofangreindri reglugerð.“

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að gestahúsið standi á byggingarreit þar sem áður hafi staðið gestahús, grillhús sem hafi verið reist áður en skipulagsreglugerð hefði mælt fyrir um þá skyldu að bygging skyldi ekki standa nær en 10 m frá lóðarmörkum.

Málsrök Hornafjarðar: Sveitarfélagið vísar til þess að málsmeðferð hafi verið í samræmi við lög og vandaða stjórnsýsluhætti. Hafi kærandi sótt um stækkun á byggingarreit lóðar nr. 11 þannig að byggingarreiturinn væri 2 m frá lóðarmörkum lóðar nr. 10. Samþykkt umsóknarinnar þýddi að frístundahús kæranda væri þar með innan byggingarreits en húsið standi utan byggingarreits og án byggingarleyfis. Frístundahúsið sé án samþykkis eigenda aðliggjandi lóðar og brjóti í bága við gildandi deiliskipulag.

Sveitarfélagið geti fallist á að umsótt breyting á deiliskipulagi teljist óveruleg og falli þar með undir 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í ljósi andstöðu umráðamanna lóðar nr. 10 við breytingu á lóðarmörkum og sjónarmiða landeigenda telji sveitarfélagið óþarft að grenndarkynna breytingartillöguna. Sjónarmið og afstaða allra hagsmunaaðila liggi fyrir og hafi legið fyrir til fjölda ára. Ákvæði skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um að ekki skuli byggja nær lóðarmörkum en 10 m sé skýrt. Eigendur frístundahúsa geti ekki ætlast til þess að sveitarfélagið fari gegn lögum, reglum og skipulagsskilmálum á svæðinu. Kærandi eigi ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram breytingu á deiliskipulagi gegn vilja skipulagsyfirvalda og eigenda lands í Stafafellsfjöllum.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við það tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en ekki er á færi nefndarinnar að taka nýja ákvörðun í málinu eða leggja fyrir skipulagsyfirvöld að afgreiða mál með tilteknum hætti. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Eins og að framan er rakið sótti kærandi um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í Stafafellsfjöllum í Lóni sem fól í sér að byggingarreitur innan lóðar hans yrði í um 2 m fjarlægð frá mörkum lóðar hans og lóðar nr. 10 á skipulagssvæðinu. Í greinargerð gildandi deiliskipulags umræddrar frístundabyggðar kemur m.a. fram að staðsetning húsa sé frjáls innan byggingar­reits, að fengnu samþykki byggingarfulltrúa, og að ný hús verði hvergi nær lóðarmörkun en 10 m og í minnst 50 m fjarlægð frá ám. Þá kemur fram í gr. 5.3.2.12. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 að frístundahús ásamt tilheyrandi mannvirkjum skulu að jafnaði vera á sér lóð nema sérstakar aðstæður kalli á annað. Ekki skuli byggja nær lóðarmörkum en 10 m.

Samkvæmt framangreindu er fjarlægðarregla gr. 5.3.2.12. reglugerðarinnar, sem jafnframt kemur fram í greinargerð fyrrgreinds deiliskipulags, skýr um að ekki megi byggja nær lóðarmörkum en 10 m. Tilgangur umrædds ákvæðis skipulagsreglugerðar er að tryggja lágmarksfjarlægð milli frístundahúsa og dreifingu frístundabyggðar og skapa með því þá friðsæld sem sóst sé eftir í slíkri byggð. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvenær umrætt hús á lóð kæranda var reist og mun ekki hafa verið sótt byggingarleyfi fyrir húsinu á sínum tíma. Bæjarráði Hornafjarðar var því rétt að hafna umsókn kæranda um breytingu á umræddu deiliskipulagi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Hornafjarðar frá 3. júlí 2018 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í Stafafellsfjöllum í Lóni.

74/2010 Lágholtsvegur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 12. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2010, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 um að synja um leyfi fyrir áður byggðum 15,8 m2 svalapalli úr timbri við einbýlishúsið á lóð nr. 11 við Lágholtsveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. desember 2010, er barst nefndinni 3. s.m., kærir G, Lágholtsvegi 11, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 að synja um leyfi fyrir áður byggðum svalapalli á lóð nr. 11 við Lágholtsveg. Skilja verður málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða synjun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 14. febrúar 2011 og 4. og 6. febrúar 2015.

Málavextir: Með bréfi byggingarfulltrúans í Reykjavík, dags. 13. ágúst 2007, var kærandi krafinn skýringa á svalapalli sem byggður hafði verið út frá miðhæð hússins við Lágholtsveg 11 án þess að byggingarleyfi lægi fyrir. Með ódagsettu bréfi, mótteknu hjá byggingarfulltrúa 1. október 2007, óskaði kærandi eftir fresti til að sækja um leyfi fyrir svalapallinum. Engri umsókn var þó skilað inn af hálfu kæranda.

Með bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 29. júní 2010, var þess krafist að kærandi fjarlægði svalapallinn af lóðinni innan 30 daga eða sækti ella um byggingarleyfi fyrir honum innan sama frests. Var kæranda jafnframt veittur 14 daga frestur til að tjá sig um málið.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 28. september 2010 var lögð fram fyrirspurn frá kæranda, dags. 17. september 2010, um hvort leyfi fengist fyrir áður nefndum svalapalli sem byggður hefði verið árið 1984. Byggingarfulltrúi frestaði málinu með vísan til athugasemda á fyrirspurnarblaði. Athugasemdirnar lutu að því að umsögn húsafriðunarnefndar og Minjasafns Reykjavíkur þyrfti að fylgja umsókn um byggingarleyfi þar sem húsið væri friðað. Þá þyrfti að sýna staðsetningu og stærð pallsins á afstöðumynd. Samkvæmt deiliskipulagi væri heimilt að byggja svalir eða viðbyggingu, allt að 20 m2, við húsið en samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar þyrfti ef byggja skyldi nær lóðamörkum en þrjá metra. Lóð Lágholtsvegar 11 liggur að lóðunum við Lágholtsveg 9, Grandaveg 36 og 38 og opnu svæði.

Kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir svalapallinum með umsókn, dags. 28. október 2010, og fylgdi erindinu samþykki eigenda Grandavegar 4 og 36 og Lágholtsvegar 3 og 13, dags. 15. september 2010. Umsókn kæranda var synjað á fundi byggingarfulltrúa 2. nóvember 2010 með svofelldri bókun: „Þrátt fyrir leiðbeiningu með fyrirspurn um að samþykki lóðarhafa Grandavegar 38 yrði að fylgja barst það ekki með byggingarleyfisumsókn. Er erindinu því synjað sbr. ákvæði deiliskipulags. Umsækjanda er bent á að hægt er að sækja um breytta staðsetningu pallsins sbr. ákvæði deiliskipulags. Fjarlægja skal pallinn innan 30 daga. Verði það ekki gert mun embætti byggingarfulltrúa leggja til beitingu þvingunarúrræða byggingarreglugerðar.“ Ákvörðun byggingarfulltrúa var staðfest í borgarráði 4. nóvember 2010.

Málsrök kæranda: Að sögn kæranda var svalapallurinn byggður árið 1984 eða 1985 með samþykki allra þáverandi eigenda nærliggjandi húsa, þar með talið eigenda Grandavegar 38. Ekki hafi verið gerð athugasemd við svalapallinn fyrr en árið 2007 og hann hafi því staðið án athugasemda í 23 ár. Núverandi eigendur Grandavegar 38 hafi eignast hús sitt árið 2004.

Húsið við Lágholtsveg 11 hafi á sínum tíma verið ranglega staðsett eins og fleiri hús á Bráðræðisholtinu. Húsið sjálft sé aðeins 2 m frá lóðamörkum og telur kærandi að það yrði til lýta ef pallurinn fengi ekki að standa í beinni línu við húsið. Staðsetning hússins sé á ábyrgð byggingarfulltrúans í Reykjavík. Í deiliskipulagi sé leyfi fyrir allt að 20 m2 viðbyggingu við hús kæranda en pallurinn sé 15,8 m2. Núverandi eigendur Grandavegar 38 vilji ekki samþykkja svalapallinn vegna þess að af honum sjáist í heitan pott á lóð Grandavegar 38 en hið sama megi raunar segja um rishæð Lágholtsvegar 11.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi hafi fylgt samþykki eigenda Grandavegar 4 og 36 og Lágholtsvegar 3 og 13 fyrir pallinum. Síðar hafi úrskurðarnefndinni verið afhent yfirlýsing fyrri eigenda Grandavegar 38, dags. 24. apríl 2014, um að þeir hefðu ekki gert athugasemd þegar svalapallurinn var byggður, og yfirlýsing um samþykki fyrir pallinum frá eigendum Framnesvegar 66, dags. 17. febrúar 2014, og eiganda Framnesvegar 68, dags. 20. apríl s.á.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg tekur ekki undir málsástæður kæranda og telur að byggingarfulltrúa hafi verið heimilt að synja um leyfi fyrir svalapallinum sem um er deilt í málinu. Er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.

Ljóst sé að samkvæmt deiliskipulagi Lýsisreits, samþykktu í borgarráði hinn 15. febrúar 2007, séu sérskilmálar fyrir lóð kæranda þeir að heimilt sé að byggja svalir eða viðbyggingu allt að 20 m2 og kvisti á allt að þriðjungi þakflatar með hliðsjón af verndunarákvæðum. Samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar þurfi ef byggja skuli nær lóðamörkum en 3 m. Reykjavíkurborg hafi fyrst orðið kunnugt um svalapallinn þegar vinna við gerð deiliskipulags hafi staðið yfir á árinu 2006 en fallið hafi verið frá því að heimila pallinn þá þar sem hann hafi ekki verið í samræmi við deiliskipulag auk þess sem ekkert leyfi hafi verið fyrir honum.

Pallurinn sé um 1,20 m frá lóðarmörkum Grandavegar 38 og uppfylli því ekki framangreind skilyrði. Ekki skipti máli hvenær pallurinn hafi verið byggður eða hve lengi hann hafi staðið því ljóst sé að ekki hafi verið veitt byggingarleyfi fyrir honum í upphafi. Árið 2007 hafi verið hafist handa gagnvart eigendum pallsins. Reykjavíkurborg taki hvorki afstöðu til þess í málinu hvort um tómlæti nágranna sé að ræða né til fullyrðinga kæranda um að húsið, sem byggt hafi verið árið 1911, hafi verið rangt staðsett í upphafi enda hafi ekki verið sýnt fram á það af hálfu kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 að synja um byggingarleyfi fyrir áður byggðum svalapalli við Lágholtsveg 11. Svalapallurinn mun hafa verið reistur árið 1984 eða 1985 en umsókn um byggingarleyfi fyrir pallinum var fyrst lögð fram 28. október 2010. Um umsóknina og þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja henni gilda því skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997. Þá verður horft til þess deiliskipulags sem í gildi var þegar sótt var um byggingarleyfið.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga var óheimilt að grafa grunn, reisa hús, rífa hús, breyta því, burðarkerfi þess, formi, svipmóti eða notkun þess eða gera önnur þau mannvirki sem féllu undir IV. kafla laganna nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Í 2. mgr. sömu greinar kom fram að framkvæmdir skv. 1. mgr. skyldu vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.

Í deiliskipulagi Lýsisreits, sem tekur til umrædds svæðis og samþykkt var í borgarráði 15. febrúar 2007 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 14. júní s.á., eru skilgreindar heimildir til endurnýjunar og viðbygginga. Um Lágholtsveg 11 segir þar að heimilt sé að byggja viðbyggingu allt að 20 m2 og kvisti á allt að þriðjungi þakflatar, með hliðsjón af verndunarákvæðum. Samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar þurfi ef byggja skal nær lóðamörkum en 3 m. Í eldra deiliskipulagi, sem samþykkt var í skipulagsnefnd Reykjavíkur 21. janúar 1980 og staðfest 24. september s.á., var ekki að finna heimild fyrir byggingu svalapallsins.

Svalapallurinn sem hér um ræðir stendur um 1,2 m frá lóðamörkum Lágholtsvegar 11 og Grandavegar 38. Er því ljóst að samþykki eigenda Grandavegar 38 er áskilið samkvæmt fyrrgreindum skilmálum gildandi deiliskipulags. Breytir þar engu þótt húsið við Lágholtsveg 11 sé aðeins í tveggja metra fjarlægð frá lóðamörkunum. Yfirlýsing fyrri eigenda Grandavegar 38 um að þeir hafi ekki gert athugasemdir við pallinn þegar hann var reistur verður ekki talin nægja til þess að uppfylla áðurnefnt skilyrði deiliskipulagsins um samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar. Nauðsynlegt var að afla samþykkis lóðarhafa Grandavegar 38 á þeim tíma sem sótt var um byggingarleyfið.

Sú fullyrðing kæranda að svalapallurinn hafi staðið athugasemdalaust í 23 ár hefur ekki áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar enda verða skipulagsyfirvöld ekki knúin til að veita byggingarleyfi sem færi á svig við ákvæði gildandi deiliskipulags. Var byggingarfulltrúa því rétt sökum skorts á samþykki lóðarhafa aðlægrar lóðar, og með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður talið að neinir þeir annmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun sem geti raskað gildi hennar, verður kröfu kæranda um ógildingu hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun byggingafulltrúans í Reykjavík frá 2. nóvember 2010 um að synja um leyfi fyrir áður byggðum svalapalli á lóð nr. 11 við Lágholtsveg.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

15/2014 Silfurgata

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 22. janúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 15/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 um stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 28. febrúar 2014, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir I, Bókhlöðustíg 9, Stykkishólmi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 að samþykkja stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs. Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði nú tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun réttaráhrifa.

Málsgögn bárust úrskurðarnefndinni frá Stykkishólmsbæ 10. mars 2014.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Stykkishólmsbæjar 22. apríl 2013 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa að Silfurgötu 15 um að stækka lóð og minnka landhæð til að koma fyrir bílastæði, sem og um að endurnýja og stækka geymsluskúr. Lóðin er á svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Var lagt til að leyfa eingöngu stækkun lóðar og yrði stækkunin grenndarkynnt skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 fyrir eigendum húsa við Bókhlöðustíg 7 og 9 og Silfurgötu 13. Var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 16. maí s.á. og af bæjarstjórn 23. s.m. Athugasemdir frá kæranda bárust á grenndarkynningartíma.

Nýtt lóðarblað vegna stækkunar á nefndri lóð var samþykkt af skipulags- og byggingarnefnd 13. nóvember 2013. Var það grenndarkynnt fyrir sömu aðilum og áður, sem og fyrir eigendum Silfurgötu 17. Bæjarráð og bæjarstjórn frestuðu afgreiðslu málsins þar til grenndarkynningu væri lokið. Kom kærandi athugasemdum sínum á framfæri á grenndarkynningartíma. Að grenndarkynningunni lokinni fór umsóknin aftur fyrir fund skipulags- og byggingarnefndar 13. janúar 2014, sem vísaði til fyrri fundar síns 13. nóvember 2013. Jafnframt var skipulags- og byggingarfulltrúa falið að gera „smá breytingu á lóðarblaði“ og svara athugasemdum. Mun breytingin hafa verið fólgin í því að sneitt var af austurhorni hinnar stækkuðu lóðar til að forðast skörun við lóð kæranda. Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarráðs 23. janúar s.á. og á fundi bæjarstjórnar 30. s.m.  Athugasemdum kæranda var svarað með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 31. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi mótmælir því að með lóðarblaði sé sett bílastæði á lóð sem hafi frá árinu 1903 verið óaðskiljanlegur hluti lóðar sinnar, en þar hafi m.a. verið matjurtagarður. Hafi þessi áratugalanga notkun myndað hefðarrétt á þessari nýtingu skv. 2., 3. og 8. gr. laga nr. 46/1905 um hefð. Þá sé byggt á lóðarlýsingu í erfðafestubréfi, dags. 8. maí 1916. Kærandi telji að Stykkishólmsbær hafi ekki sýnt fram á að lega lóðarinnar hafi frá öndverðu verið sú sem nú sé gengið út frá samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.

Kærandi hafi í bréfi sínu til skipulags- og byggingarfulltrúa Stykkishólmsbæjar, dags. 2. júní 2010, vegna deiliskipulagstillögu fyrir Þinghúshöfða í Stykkishólmi, m.a. bent á að samkvæmt tillögunni væru mörk lóðanna Bókhlöðustígs 9 og Silfurgötu 15 í ósamræmi við nýtingu lóðar sinnar. Hafi kærandi tekið fram að sér hefði verið tjáð af seljanda eignarinnar að umrætt bílastæði hefði áður tilheyrt Bókhlöðustíg 9 og þá nýlega verið tekið í notkun af eigendum Silfurgötu 15. Kærandi hafi beðið Stykkishólmsbæ um upplýsingar um þetta fyrirkomulag en ekki hlotið nein viðbrögð vegna þessa.

Fyrri grenndarkynning vegna stækkunar umræddrar lóðar hafi verið ófullkomin og ógerningur hafi verið að átta sig á áhrifum fyrirhugaðra breytinga. Upplýsingar um hæðarpunkta hafi vantað og hafi þær teikningar sem fylgdu tillögunni verið óljósar. Þá hafi við grenndarkynningu tillögu að nýju lóðarblaði verið ómögulegt að gera sér grein fyrir í hverju breytingin væri fólgin eða hvaða áhrif hún kynni að hafa á nálægar lóðir og notkunarmöguleika þeirra. Þá hafi ekki verið orðið við kröfu kæranda um nýtt lóðarblað sem sýndi afstöðu annarra lóða.

Að mati kæranda sé það óásættanlegt að aðkoma vélknúinna ökutækja verði á þrjá vegu um eign sína og að bílastæði verði við stofugluggann. Slíkt fyrirkomulag sé í andstöðu við þann staðaranda sem hverfið á Þinghúshöfða búi yfir. Eðlileg aðkoma að Silfurgötu 15 sé frá Silfurgötu en ekki með aðkomu frá Bókhlöðustíg á kostnað venjuhelgaðrar nýtingar eignar sinnar. Silfurgata sé öll utan þess deiliskipulagssvæðis sem nái til Bókhlöðustígs en að mati kæranda sé óeðlilegt að breyta skipulagi þannig að það hafi bein áhrif á annað skipulagssvæði. Þá sé lega lóða og staðhættir þannig að fyrirhugaðar breytingar virðist óeðlilegar.

Málsrök Stykkishólmsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að skúr sem tilheyri Silfurgötu 15 hafi sennilega staðið þar í 50 til 60 ár, ef ekki lengur, og að umrætt bílastæði hafi verið notað af Silfurgötu 15 árum saman. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum skerði stækkun lóðar að Silfurgötu 15 á engan hátt lóð kæranda þar sem stækkunin hafi ekki verið á kostnað þeirrar lóðar. Sé í raun ekki verið að breyta neinu heldur staðfesta þau not sem verið hafi. Kærandi hafi hvorki lagt fram uppdrátt sem sýni hvernig hann telji að lóð sín liggi né hvernig hann telji að lóðin eigi að vera samkvæmt lóðarsamningi frá árinu 1916. Umrædd stækkun sé úr landi sveitarfélagsins og byggist sú niðurstaða m.a. á erfðafestubréfi frá 1916, en þar sé lóðin mæld í álnum. Miði sveitarfélagið við löggilta danska alin frá 1776 sem teljist vera 24 þumlungar, eða 62,7 cm, að lengd. Þá sé höfð hliðsjón af uppdrætti af Stykkishólmi frá árunum 1942-1943, sem sýni girðingu við Bókhlöðustíg 9 og loftmynd sem tekin hafi verið áður en Bókhlöðustígur 7 hafi verið rifinn og nýtt hús byggt á þeirri lóð. Þá sé byggt á deiliskipulagi fyrir Þinghúshöfða frá árinu 2011. Telja verði ólíklegt að fyrri eigandi hafi átt landið undir þeim matjurtagarði sem kærandi vísi til og virðist eldri uppdráttur gefa til kynna að matjurtagarður hafi verið upp við húsið sjálft. Þegar kærandi hafi keypt eignina hafi matjurtagarðurinn verið farinn. Fyrri eigandi hafi gert munnlegt samkomulag um að nota mætti þá spildu sem bílastæði. Hafi kærandi haft vitneskju um þetta.

Þrjár íbúðir hafi verið að Silfurgötu 15 frá árinu 1981 og hafi aðgengi íbúa þar að bakhluta hússins verið til staðar fyrir kaup kæranda á eign sinni árið 2004. Með lóðarblaðinu sé ekki verið að breyta legu umræddrar lóðar þannig að leiði til skerðingar á lóð kæranda. Þá nái deiliskipulag frá árinu 2011 ekki inn á það svæði sem um sé deilt og því tilheyri það ekki Bókhlöðustíg 9.

Loks sé því hafnað að Stykkishólmsbær hafi ekki upplýst kæranda um málið. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi sent kæranda gögn til rökstuðnings því að umdeild landspilda tilheyri ekki eign hans og sé vísað til bréfasamskipta við kæranda frá 30. desember 2013 og 31. janúar 2014.

———–

Úrskurðarnefndin tilkynnti lóðarhafa Silfurgötu 15 um fram komna kæru og veitti honum frest til að koma að athugasemdum en þær hafa ekki borist nefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 að samþykkja stækkun lóðar að Silfurgötu 15. Er gert ráð fyrir því á lóðarblaði að stækkunin sé til austurs, að lóð kæranda.

Í máli þessu liggur fyrir samþykkt sveitarstjórnar fyrir breyttum lóðarmörkum Silfurgötu 15, svo sem áskilið er í 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að nefndri grein undanskilinni er ekki að finna neinar þær sérstöku reglur í lögunum sem eiga við um málsmeðferð þegar lóðarmörkum er breytt. Sveitarfélagið kaus að grenndarkynna hina umdeildu tillögu að lóðarblaði á grundvelli 44. gr. laganna, en að öðru leyti fór um meðferð málsins eftir almennum málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir liggur að samskipti kæranda og Stykkishólmsbæjar hafa verið töluverð í aðdraganda hinnar kærðu ákvörðunar. Þannig kom kærandi á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins og var þeim svarað af hálfu sveitarfélagsins. Af þeim svörum og öðrum gögnum málsins verður ráðið að sveitarfélagið hefur rannsakað þinglýstar heimildir hvað varðar lóð kæranda og þá lóð sem stækkuð var, sem og litið til tiltækra uppdrátta og loftmynda við rannsókn sína. Við grenndarkynningu tillögu að hinu umdeilda lóðarblaði í nóvember 2013 var tekið fram að stækkun lóðarinnar væri úr óskiptu landi sveitarfélagsins en auk þess fylgdi hnitaskrá. Kærandi vísar til þess að í ákvörðuninni  sé gert ráð fyrir bílastæði á spildu sem hafi frá árinu 1903 verið óaðskiljanlegur hluti lóðar hans og m.a. verið þar nýtt sem matjurtagarður. Hafi þessi áratugalanga notkun myndað hefðarrétt á þessari nýtingu. Úr slíkum eignarréttarlegum ágreiningi verður ekki skorið fyrir úrskurðarnefndinni heldur á hann undir almenna dómstóla. Af öllu framangreindu er því ljóst að sveitarfélagið uppfyllti skyldu sína til rannsóknar máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, kynnti fyrirhugaða breytingu á grundvelli 44. gr. skipulagslaga og veitti kæranda andmælarétt, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga, auk þess að svara fram komnum andmælum. Þá verður ekki séð að málsmeðferð umdeildrar ákvörðunar hafi að öðru leyti verið áfátt.

Silfurgata 15 er ekki á deiliskipulögðu svæði en húseign kæranda er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag á Þinghúshöfða, sem tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. júní 2011. Hefur nefndu deiliskipulagi ekki verið hnekkt, en úrskurðarnefndin hafnaði ógildingu þess í úrskurði sínum fyrr í dag, í máli nr. 57/2011. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir aðkomu að Silfurgötu 13 og 15 með vegi milli húss kæranda að Bókhlöðustíg 9 og hússins að Bókhlöðustígs 11. Gerir hin kærða ákvörðun ráð fyrir því að nefnd aðkoma verði nýtt til þess að komast að bílastæðum á hinni stækkuðu lóð. Verður ekki séð að hin kærða ákvörðun leiði að þessu leyti til aukinna grenndaráhrifa gagnvart kæranda frá því sem verið hefur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar frá 30. janúar 2014 um stækkun á lóð Silfurgötu 15 með útgáfu nýs lóðarblaðs.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

 
 

62/2014 Auðbrekka

Með
Árið 2014, föstudaginn 10. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 62/2014, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. maí 2014 um að veita leyfi til að byggja við jarðhæð húss við Auðbrekku 3 sem nemur 3,5×14,8 m eða 51,8 m2.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. júlí 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir Eik fasteignafélag hf., þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. maí 2014, um að veita leyfi til að byggja við jarðhæð húss við Auðbrekku 3 að stærð 3,5×14,8 m eða 51,8 m2. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 25. júlí, 25. ágúst og 15. september 2014.

Málavextir: Lóðirnar Auðbrekka 1 og 3-5 eru hlið við hlið. Hinn 16. júní 1960 var gerður lóðarleigusamningur fyrir lóð nr. 52 ,nú Auðbrekka 3-5, og honum þinglýst. Var slíkur samningur gerður vegna Auðbrekku 54, nú Auðbrekka 1, hinn 31. desember 1965 og honum ásamt afstöðumynd þinglýst samdægurs. Í þeim samningi segir um aðra skilmála að gagnkvæmur umferðarréttur sé um norðurhluta nefndra lóða og sameiginleg afnot af þeim norðan við hús fyrir bifreiðastæði og er vísað til meðfylgjandi yfirlýsingar sem ekki hefur verið þinglýst. Með yfirlýsingu, dags. sama dag eða 31. desember 1965, og undirritaðri af sömu aðilum f.h. Kópavogskaupstaðar annars vegar og þáverandi lóðarhafa Auðbrekku 52 hins vegar er því lýst að samkomulag sé til staðar um breytingar á og viðauka við lóðarleigusamninginn og verði ákvæði þau sem lýst er í yfirlýsingunni færð inn í lóðarsamning sem gefinn verði út að nýju þegar endanleg mæling á lóðinni liggi fyrir. Er annars vegar um að ræða ákvæði líkt og áður er lýst um umferðarrétt og afnot af bifreiðastæðum og hins vegar ákvæði þess efnis að af norðvestur horni lóðarinnar (nú nr. 3-5 við Auðbrekku) sé tekinn skiki að stærð 3,8×24,0 m og færður á þá lóð sem nú er nr. 1 við Auðbrekku. Sú yfirlýsing er ekki til staðar í þinglýstum gögnum lóðanna en sömu rétthafar munu hafa verið á þeim tíma að báðum lóðunum. Með lóðarleigusamningi lóðar þeirrar sem nú er nr. 1 fylgdi uppdráttur með lóðarmörkum eins og þeim er lýst í nefndri yfirlýsingu. Hins vegar er hvergi að finna hin breyttu lóðarmörk í þinglýstum gögnum lóðar nr. 3-5 við Auðbrekku eins og áður er lýst.

Haustið 2013 sótti lóðarhafi Auðbrekku 3 um leyfi fyrir viðbyggingu við húsið. Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar sem samþykkti á fundi sínum 21. janúar 2014 að grenndarkynna tillöguna með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 þar sem ekkert deiliskipulag er á umræddu svæði. Var lóðarhöfum Auðbrekku 1 og 5 og Skeljabrekku 4 tilkynnt um greinda umsókn með bréfum, dags. 28. s.m., og þeim gefinn frestur til 27. febrúar s.á. að gera athugasemdir við tillöguna. Barst athugasemd frá einum lóðarhafa Auðbrekku 1 og þess krafist að tillögunni yrði hafnað þar sem lóðarmörk hefðu verið færð með þeim hætti að hann gæti ekki lengur notað bílastæði eða nýtt húsnæði sitt eins og lagt hefði verið upp með samkvæmt samþykktri lóðarteikningu og þinglýstum eignaskiptasamningi. Mun kærandi einnig hafa sent athugasemd innan þeirra tímamarka sem tilgreind voru í bréfi um grenndarkynningu en á annað tölvupóstfang en þar var gefið var upp og barst hún því ekki skipulagsnefnd fyrr en að kynningunni lokinni.

Hinn 15. apríl s.á. hafnaði skipulagsnefnd leyfisumsókninni á grundvelli umsagnar skipulags- og byggingardeildar þar sem fram kom að fyrirhuguð framkvæmd myndi rýra möguleika lóðarhafa Auðbrekku 1 um afnot að sameiginlegum bílastæðum norðan lóðanna Auðbrekku nr. 1 og 3-5. Hinn 22. apríl s.á. samþykkti bæjarstjórn að vísa málinu aftur til skipulagsnefndar. Var málið tekið fyrir á fundi nefndarinnar hinn 20. maí s.á. og afgreitt með eftirfarandi bókun: „Við nánari skoðun er það mat skipulagsnefndar að fyrirhuguð viðbygging rýrir ekki aðkomu eða sameiginlega nýtingu bílastæða á lóð. Vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar.“ Á fundi sínum 22. s.m. vísaði bæjarráð málinu til bæjarstjórnar til afgreiðslu og samþykkti bæjarstjórn erindið 27. s.m. Var leyfishafa og þeim lóðarhafa Auðbrekku 1 er gert hafði athugasemdir tilkynnt um samþykki erindis leyfishafa með bréfum, dags. 1. júní s.á., en ekki kæranda.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs gangi á lögvarða hagsmuni hans þar sem fyrirhuguð viðbygging sé inni á lóð hans að Auðbrekku 1. Þá minnki lóðin um þriðjung samkvæmt breytingunni og gangi því gegn gildandi lóðarleigusamningi, dags. 31. desember 1965.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er tekið fram að í upphafi hafi skipulagsnefnd hafnað erindi leyfishafa á grundvelli umsagnar skipulags- og byggingardeildar, dags. 15. apríl 2014. Hafi bæjarstjórn vísað málinu aftur til skipulagsnefndar sem við nánari skoðun hafi komist að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð viðbygging myndi ekki rýra aðkomu eða sameiginlega nýtingu bílastæða á lóð. Hafi sú niðurstaða fyrst og fremst byggst á því að á umræddum bílastæðum á lóðinni stæðu gámar og svæðið hafi því ekki verið nýtt sem bílastæði. Myndi viðbygging við Auðbrekku 3 því ekki breyta nýtingu svæðisins. Skipulagsnefnd hafi því samþykkt umsóknina á fundi sínum 20. maí 2014 og bæjarstjórn staðfest tillöguna 27. s.m.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa hefur því verið lýst yfir að hann muni ekki láta málið til sín taka en hann bendi þó á að hann hafi staðið í þeirri trú að mörk lóðar sinnar að Auðbrekku 3 væru önnur en hin kærða ákvörðun sýni. Hafi hann án árangurs reynt að fá skýringar frá Kópavogsbæ um hin breyttu lóðarmörk sem felist í hinni kærðu ákvörðun.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. maí 2014 að heimila viðbyggingu við hús að Auðbrekku nr. 3. Snýst ágreiningurinn um lóðamörk eins og þau koma fram í hinni kærðu ákvörðun og hvort heimiluð viðbygging muni fara inn á lóð kæranda. Ber aðilum, þ.e. kæranda, leyfishafa og sveitarfélaginu, ekki saman um hvar hin eiginlegu mörk umræddra lóða liggja.

Í fyrirliggjandi gögnum málsins er að finna þinglýsta lóðarleigusamninga. Slíkir samningar afmarka það land sem ráðstafað er og verður þeim ekki breytt nema með samkomulagi aðila þar um. Var gerður lóðarleigusamningur vegna Auðbrekku 3-5 árið 1960 en vegna Auðbrekku 1 árið 1965. Við gerð lóðarleigusamnings Auðbrekku 1 var að auki gerð breyting á lóð Auðbrekku 3-5 en á þeim tíma munu sömu aðilar hafa verið lóðarhafar beggja lóða. Var skiki af norðvesturhorni lóðar Auðbrekku 3-5 færður á lóð nr. 1, sbr. uppdrátt þann er þinglýst var með lóðarleigusamningnum 1965. Verður ekki séð af gögnum málsins, eða þeim þinglýstu skjölum sem úrskurðarnefndin hefur aflað sér hjá Fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands, að þeim lóðarmörkum hafi verið breytt síðar með samningum þar um.

Þinglýsingum fylgir ákveðinn áreiðanleiki að lögum og mátti kærandi treysta því að þeim lóðarmörkum sem fram koma í lóðarleigusamningi þinglýstum á fasteign hans yrði ekki breytt án hans aðkomu. Að sama skapi mátti leyfishafi treysta því að þinglýsingabækur greindu frá tilvist réttinda yfir hans eign, þ. á m. hverjum þeim breytingum á lóðarmörkum sem gerðar hefðu verið. Þinglýsingarstjórar hafa eftir atvikum heimildir til þess að endurskoða úrlausnir sínar í þinglýsingarmálum og heyrir ágreiningur um efnisatvik að baki þinglýstum réttindum og eftir atvikum forgangsvernd þeirra samkvæmt þinglýsingalögum undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. Hins vegar verður ekki fram hjá því litið að þau lóðamörk sem felast í hinni kærðu ákvörðun eru hvorki í samræmi við lóðarleigusamning Auðbrekku 3-5 (áður Auðbrekku 52) né lóðarleigusamning Auðbrekku 1 (áður Auðbrekku 54). Þá verður ekki annað séð en að fyrirhuguð viðbygging muni að hluta til fara inn á lóð kæranda þegar litið er til lóðarmarka á þinglýstum uppdrætti vegna Auðbrekku 1. Að teknu tilliti til eðlis þeirrar athugasemdar sem barst frá einum lóðarhafa Auðbrekku 1 á grenndarkynningartíma og með hliðsjón af þeim gögnum sem sveitarfélagið sem lóðarleigjandi hafði undir höndum og var jafnframt samningsaðili að var ástæða til frekari rannsóknar af hálfu sveitarfélagsins varðandi umdeild lóðamörk. Þykir svo verulega skorta á að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 væri fullnægt við undirbúning og töku hinnar kærðu ákvörðunar að ógildingu varði enda geta mörk lóðanna ráðið úrslitum um lögmæti hennar.

Í ljósi alls framangreinds verður fallist á kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:


Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 27. maí 2014 um að veita leyfi fyrir viðbyggingu við jarðhæð húss við Auðbrekku 3.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              ______________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                   Þorsteinn Þorsteinsson

51/2009 Útkot III

Með

Árið 2012, föstudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2009, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 um að synja umsókn um að spildur D og E í landi Útkots verði sameinaðar undir eitt landnúmer með nafninu Útkot III. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. júlí 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir J hrl., f.h. H, Stararima 29, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 að hafna umsókn kæranda um að tvær spildur merktar D og E í landi Útkots á Kjalarnesi verði sameinaðar undir eitt landnúmer með nafninu Útkot III. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að með samþykki borgarráðs hinn 26. mars 2002 var jörðinni Útkoti skipt upp í sex spildur samkvæmt beiðni eigenda.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. janúar 2009 var síðan tekin fyrir umsókn þar sem óskað var eftir því að tvær af spildunum, merktar D og E í landi Útkots, yrðu sameinaðar undir eitt landnúmer svo hægt yrði að þinglýsa nafninu Útkoti III á þær.  Erindinu var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. júní 2009 með vísan til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu þar sem fram kemur að samkvæmt uppdrætti liggi mörk umræddra spildna ekki saman, en slíkt sé forsenda þess að af samruna þeirra geti orðið.  Auk þess liggi Hvalfjarðarvegur á milli spildnanna og myndi þá samruninn ná yfir veginn sem sé í eigu ríkisins.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi hinn 11. júní 2009. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir á því að ekki hafi verið heimilt að lögum að synja beiðni hans.  Fyrir liggi að landbúnaðarráðherra hafi árið 2004 samþykkt stofnun lögbýlis til skógræktar og þjónustu á spildum kæranda samkvæmt heimild í 16. gr. jarðalaga nr. 81/2004.  Hafi það verið gert á grundvelli meðmæla frá Reykjavíkurborg sem hafi ekki gert athugasemd við að skógræktar- og þjónustubýli yrði stofnað á landi kæranda, sem væri á skipulögðu landbúnaðarsvæði.  Auk þess hafi örnefnanefnd veitt heimild til að nota nafnið Útkot III.  Beiðni kæranda hafi lotið að því að lögbýlið (jörðin) Útkot III, sem stofnað hafi verið með tveimur landspildum, yrði skráð í fasteignaskrá sem ein jörð (lögbýli) en ekki tvær spildur. 

Bent sé á að heimild landbúnaðarráðherra samkvæmt 16. gr. jarðalaga hafi í raun falið í sér sameiningu á tveimur spildum í eina eign, sem beri heitið Útkot III, samkvæmt lögum um bæjarnöfn nr. 35/1953.  Því hafi skort lagaheimild til afskipta borgarinnar af því hvort spildurnar yrðu sameinaðar eða ekki enda hafi það þá þegar verið gert með ákvörðun ráðherra.  Vísað sé til þess að samkvæmt 15. gr. jarðalaga sé heimilt að sameina jarðarhluta með leyfi landbúnaðarráðherra.  Eina lögmæta takmörkunin á því sé ef spildurnar séu ekki í sama sveitarfélagi.  Með gagnályktun frá þessu ákvæði sé óheimilt að synja um sameiningu lóða innan sama sveitarfélags sé skilyrði ákvæðisins uppfyllt að öðru leyti. 

Því sé ranglega haldið fram í umsögn lögfræði- og stjórnsýslu að spildurnar liggi ekki saman.  Það sé misskilningur eða vísvitandi rangtúlkun.  Kærandi hafi verið eigandi tveggja spildna, merktar D og E, ásamt landinu undir Hvalfjarðarvegi sem liggi um land hans.  Við mælingu á stærð spildnanna sé tekið mið af vegstæðinu sem Vegagerðin hafi umráð yfir og svonefndu veghelgunarsvæði, sem muni vera 15 metrar frá miðlínu vegar til beggja hliðar.  Viðurkenna megi að uppdráttur sá sem sýni spildur kæranda og stærðarútreikning þeirra áður en þær hafi verið sameinaðar í eitt lögbýli geti verið villandi ef málið sé ekki rannsakað með viðhlítandi hætti.  Það réttlæti þó ekki órökstudda staðhæfingu í umsögninni og þá ákvörðun sem á henni byggi. 

Enn fremur sé á því byggt að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni beri stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.  Fjarri sé að byggingarfulltrúi hafi kynnt sér til hlítar þau gögn sem lögð hafi verið fyrir embættið við afgreiðslu á beiðninni.  Ekki hafi verið aflað upplýsinga frá kæranda við meðferð málsins.  Þá hafi honum heldur ekki verið veitt tækifæri til að tjá sig um þá fyrirætlun borgarinnar að synja beiðninni.  Það sé án nokkurs vafa brot á andmælarétti 13. gr. stjórnsýslulaga. 

Árétta verði að erindi kæranda hafi einvörðungu lotið að því að fá eign sína rétt skráða í fasteignaskrá, sbr. lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, í samræmi við ákvörðun landbúnaðarráðherra um lögbýli á spildunum.  Samkvæmt 4. gr. nefndra laga skuli skráning fasteignar fela í sér nýjustu upplýsingar sem á hverjum tíma séu tiltækar og fasteignina varði auk nauðsynlegra greinitalna hverrar fasteignar.  Í 19. gr. laganna segi að sveitarstjórn og þeir sem sveitarstjórn feli upplýsingagjöf, í þessu tilviki byggingarfulltrúi, beri ábyrgð á að fasteignaskrá berist réttar upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim og eyðingu þeirra.  Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi ekki farið að lögum varðandi skráningu á lögbýlinu Útkoti III.  Beri því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir hann að hlutast til um að eignin verði þegar í stað rétt skráð í fasteignaskrá í samræmi við fyrirliggjandi skjöl málsins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.  Synjunin byggi á því að kærandi hafi verið að sækja um sameiningu tveggja spildna í eina lóð með einu landnúmeri.  Ljóst sé að skráning þessara spildna undir eitt landnúmer jafngildi sameiningu þeirra þar sem þær verði þá ein lóð.  Hafi synjunin verið á því byggð að ekki hafi verið heimilt að sameina spildur sem ekki lægju saman.  Auk þess lægi Hvalfjarðarvegur á milli spildnanna og myndi þá samruninn ná yfir veginn sem væri í eigu ríkisins.  Ekki væri heimilt að sameina þessar tvær spildur yfir eignarhluta annars aðila.  Í kæru komi nú fram sú afstaða að kærandi hafi alls ekki verið að sækja um sameiningu spildnanna, heldur hafi beiðni hans einungis lotið að því að skrá spildurnar rétt, þ.e. í einu lagi sem lögbýlið Útkot III.  Það sé þó mat byggingaryfirvalda að með því að sækja um skráningu spildna í eitt landnúmer sé í raun verið að sameina þær. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 um að hafna beiðni kæranda um að tilgreindar spildur hans verði skráðar með einu landnúmeri með nafninu Útkot III. 

Ákvörðun borgarráðs var tekin á grundvelli 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem giltu á þeim tíma er hér um ræðir, þar sem kveðið var á um að óheimilt væri að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar kæmi til. 

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er svæðið þar sem spildurnar eru skilgreint sem landbúnaðarsvæði, en þar er ekki í gildi deiliskipulag.  Standa ákvæði í aðalskipulagi ekki í vegi fyrir því að umræddar spildur verði sameinaðar.  Hins vegar verður að telja að sveitarfélagið eigi að öðru jöfnu frjálst mat um það hvort lóðir verði sameinaðar eða ekki, enda sé ákvörðun um það studd haldbærum rökum og reist á málefnalegum sjónarmiðum. 

Fyrir liggur að borgarráð reisti synjun sína á rökstuðningi þeim sem fram kemur í umsögn skipulags- og byggingarsviðs, dags. 5. júní 2009, þar sem segir að mörk umræddra spildna liggi ekki saman en það sé forsenda þess að af samruna þeirra geti orðið.  Auk þess liggi Hvalfjarðarvegur milli spildnanna og myndi samruninn þá ná yfir veginn, sem sé í eigu ríkisins.  Á þessi rök verður ekki fallist og verður m.a. til þess að líta að umræddur vegur mun hafa legið um land Útkots og þannig skipt landinu í reynd áður en því var formlega skipt upp í spildur með samþykkt borgarráðs á árinu 2002.  Þá er alkunna að vegir hafa víða verið lagðir um eignarlönd bújarða og lögbýla án þess að af því leiddi að skipta þyrfti landinu upp í aðskildar spildur með aðgreindum fasteignanúmerum.  Var hin kærða ákvörðun að þessu leyti ekki studd haldbærum rökum og verður hún því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi synjun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 á umsókn kæranda um að spildur D og E í landi Útkots á Kjalarnesi verði sameinaðar undir eitt landnúmer með nafninu Útkot III. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ___________________________
     Ásgeir Magnússon                           Þorsteinn Þorsteinsson