Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

51/2009 Útkot III

Árið 2012, föstudaginn 24. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 51/2009, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 um að synja umsókn um að spildur D og E í landi Útkots verði sameinaðar undir eitt landnúmer með nafninu Útkot III. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. júlí 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir J hrl., f.h. H, Stararima 29, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 að hafna umsókn kæranda um að tvær spildur merktar D og E í landi Útkots á Kjalarnesi verði sameinaðar undir eitt landnúmer með nafninu Útkot III. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að með samþykki borgarráðs hinn 26. mars 2002 var jörðinni Útkoti skipt upp í sex spildur samkvæmt beiðni eigenda.  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 6. janúar 2009 var síðan tekin fyrir umsókn þar sem óskað var eftir því að tvær af spildunum, merktar D og E í landi Útkots, yrðu sameinaðar undir eitt landnúmer svo hægt yrði að þinglýsa nafninu Útkoti III á þær.  Erindinu var synjað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. júní 2009 með vísan til umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu þar sem fram kemur að samkvæmt uppdrætti liggi mörk umræddra spildna ekki saman, en slíkt sé forsenda þess að af samruna þeirra geti orðið.  Auk þess liggi Hvalfjarðarvegur á milli spildnanna og myndi þá samruninn ná yfir veginn sem sé í eigu ríkisins.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu byggingarfulltrúa á fundi hinn 11. júní 2009. 

Málsrök kæranda:  Kærandi byggir á því að ekki hafi verið heimilt að lögum að synja beiðni hans.  Fyrir liggi að landbúnaðarráðherra hafi árið 2004 samþykkt stofnun lögbýlis til skógræktar og þjónustu á spildum kæranda samkvæmt heimild í 16. gr. jarðalaga nr. 81/2004.  Hafi það verið gert á grundvelli meðmæla frá Reykjavíkurborg sem hafi ekki gert athugasemd við að skógræktar- og þjónustubýli yrði stofnað á landi kæranda, sem væri á skipulögðu landbúnaðarsvæði.  Auk þess hafi örnefnanefnd veitt heimild til að nota nafnið Útkot III.  Beiðni kæranda hafi lotið að því að lögbýlið (jörðin) Útkot III, sem stofnað hafi verið með tveimur landspildum, yrði skráð í fasteignaskrá sem ein jörð (lögbýli) en ekki tvær spildur. 

Bent sé á að heimild landbúnaðarráðherra samkvæmt 16. gr. jarðalaga hafi í raun falið í sér sameiningu á tveimur spildum í eina eign, sem beri heitið Útkot III, samkvæmt lögum um bæjarnöfn nr. 35/1953.  Því hafi skort lagaheimild til afskipta borgarinnar af því hvort spildurnar yrðu sameinaðar eða ekki enda hafi það þá þegar verið gert með ákvörðun ráðherra.  Vísað sé til þess að samkvæmt 15. gr. jarðalaga sé heimilt að sameina jarðarhluta með leyfi landbúnaðarráðherra.  Eina lögmæta takmörkunin á því sé ef spildurnar séu ekki í sama sveitarfélagi.  Með gagnályktun frá þessu ákvæði sé óheimilt að synja um sameiningu lóða innan sama sveitarfélags sé skilyrði ákvæðisins uppfyllt að öðru leyti. 

Því sé ranglega haldið fram í umsögn lögfræði- og stjórnsýslu að spildurnar liggi ekki saman.  Það sé misskilningur eða vísvitandi rangtúlkun.  Kærandi hafi verið eigandi tveggja spildna, merktar D og E, ásamt landinu undir Hvalfjarðarvegi sem liggi um land hans.  Við mælingu á stærð spildnanna sé tekið mið af vegstæðinu sem Vegagerðin hafi umráð yfir og svonefndu veghelgunarsvæði, sem muni vera 15 metrar frá miðlínu vegar til beggja hliðar.  Viðurkenna megi að uppdráttur sá sem sýni spildur kæranda og stærðarútreikning þeirra áður en þær hafi verið sameinaðar í eitt lögbýli geti verið villandi ef málið sé ekki rannsakað með viðhlítandi hætti.  Það réttlæti þó ekki órökstudda staðhæfingu í umsögninni og þá ákvörðun sem á henni byggi. 

Enn fremur sé á því byggt að með hinni kærðu ákvörðun hafi verið brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en samkvæmt henni beri stjórnvaldi að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því.  Fjarri sé að byggingarfulltrúi hafi kynnt sér til hlítar þau gögn sem lögð hafi verið fyrir embættið við afgreiðslu á beiðninni.  Ekki hafi verið aflað upplýsinga frá kæranda við meðferð málsins.  Þá hafi honum heldur ekki verið veitt tækifæri til að tjá sig um þá fyrirætlun borgarinnar að synja beiðninni.  Það sé án nokkurs vafa brot á andmælarétti 13. gr. stjórnsýslulaga. 

Árétta verði að erindi kæranda hafi einvörðungu lotið að því að fá eign sína rétt skráða í fasteignaskrá, sbr. lög nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, í samræmi við ákvörðun landbúnaðarráðherra um lögbýli á spildunum.  Samkvæmt 4. gr. nefndra laga skuli skráning fasteignar fela í sér nýjustu upplýsingar sem á hverjum tíma séu tiltækar og fasteignina varði auk nauðsynlegra greinitalna hverrar fasteignar.  Í 19. gr. laganna segi að sveitarstjórn og þeir sem sveitarstjórn feli upplýsingagjöf, í þessu tilviki byggingarfulltrúi, beri ábyrgð á að fasteignaskrá berist réttar upplýsingar um lönd og lóðir og breytingar á þeim og eyðingu þeirra.  Byggingarfulltrúinn í Reykjavík hafi ekki farið að lögum varðandi skráningu á lögbýlinu Útkoti III.  Beri því að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi og leggja fyrir hann að hlutast til um að eignin verði þegar í stað rétt skráð í fasteignaskrá í samræmi við fyrirliggjandi skjöl málsins. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.  Synjunin byggi á því að kærandi hafi verið að sækja um sameiningu tveggja spildna í eina lóð með einu landnúmeri.  Ljóst sé að skráning þessara spildna undir eitt landnúmer jafngildi sameiningu þeirra þar sem þær verði þá ein lóð.  Hafi synjunin verið á því byggð að ekki hafi verið heimilt að sameina spildur sem ekki lægju saman.  Auk þess lægi Hvalfjarðarvegur á milli spildnanna og myndi þá samruninn ná yfir veginn sem væri í eigu ríkisins.  Ekki væri heimilt að sameina þessar tvær spildur yfir eignarhluta annars aðila.  Í kæru komi nú fram sú afstaða að kærandi hafi alls ekki verið að sækja um sameiningu spildnanna, heldur hafi beiðni hans einungis lotið að því að skrá spildurnar rétt, þ.e. í einu lagi sem lögbýlið Útkot III.  Það sé þó mat byggingaryfirvalda að með því að sækja um skráningu spildna í eitt landnúmer sé í raun verið að sameina þær. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 um að hafna beiðni kæranda um að tilgreindar spildur hans verði skráðar með einu landnúmeri með nafninu Útkot III. 

Ákvörðun borgarráðs var tekin á grundvelli 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem giltu á þeim tíma er hér um ræðir, þar sem kveðið var á um að óheimilt væri að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar kæmi til. 

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er svæðið þar sem spildurnar eru skilgreint sem landbúnaðarsvæði, en þar er ekki í gildi deiliskipulag.  Standa ákvæði í aðalskipulagi ekki í vegi fyrir því að umræddar spildur verði sameinaðar.  Hins vegar verður að telja að sveitarfélagið eigi að öðru jöfnu frjálst mat um það hvort lóðir verði sameinaðar eða ekki, enda sé ákvörðun um það studd haldbærum rökum og reist á málefnalegum sjónarmiðum. 

Fyrir liggur að borgarráð reisti synjun sína á rökstuðningi þeim sem fram kemur í umsögn skipulags- og byggingarsviðs, dags. 5. júní 2009, þar sem segir að mörk umræddra spildna liggi ekki saman en það sé forsenda þess að af samruna þeirra geti orðið.  Auk þess liggi Hvalfjarðarvegur milli spildnanna og myndi samruninn þá ná yfir veginn, sem sé í eigu ríkisins.  Á þessi rök verður ekki fallist og verður m.a. til þess að líta að umræddur vegur mun hafa legið um land Útkots og þannig skipt landinu í reynd áður en því var formlega skipt upp í spildur með samþykkt borgarráðs á árinu 2002.  Þá er alkunna að vegir hafa víða verið lagðir um eignarlönd bújarða og lögbýla án þess að af því leiddi að skipta þyrfti landinu upp í aðskildar spildur með aðgreindum fasteignanúmerum.  Var hin kærða ákvörðun að þessu leyti ekki studd haldbærum rökum og verður hún því felld úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi synjun borgarráðs Reykjavíkur frá 11. júní 2009 á umsókn kæranda um að spildur D og E í landi Útkots á Kjalarnesi verði sameinaðar undir eitt landnúmer með nafninu Útkot III. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________    ___________________________
     Ásgeir Magnússon                           Þorsteinn Þorsteinsson