Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2008 Gvendargeisli

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 2/2008, kæra á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkurborgar varðandi fjölgun bílastæða við Gvendargeisla 106. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. janúar 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir S, Gvendargeisla 106, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsráðs frá 19. desember 2007 varðandi fjölgun bílastæða við Gvendargeisla 106.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 17. júlí 2007 var lögð fram fyrirspurn nokkurra íbúa við Gvendargeisla, þ.á m. kæranda, um fjölgun bílastæða inni á lóðum við götuna.  Var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Lögð fram fyrirspurn, […] dags. 11. júlí 2007 ásamt undirskriftarlista 8 íbúa, dags. 6. júlí 2007, um fjölgun bílastæða inni á lóðum við Gvendargeisla 88-116.  Lögð fram umsögn Framkvæmdasviðs, dags. 2. ágúst 2007.  Neikvætt með vísan til umsagnar Framkvæmdasviðs.“ 

Með bréfi kæranda til skipulagsráðs, dags. 1. október 2007, fór kærandi m.a. fram á leyfi til þess að nýta hluta lóðar sinnar sem bílastæði.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 5. október 2007 var eftirfarandi bókað:  „Gvendargeisli 106, bílastæði, málskot.  Lagt fram bréf […], dags. 1. október 2007, varðandi bílastæði á lóð nr. 106 við Gvendargeisla.  Farið er fram á þrjú bílastæði á lóðinni í stað tveggja.  Sambærilegu erindi fyrir lóðir nr. 88-116 við Gvendargeisla var synjað á afgreiðslufundi skipulagsstjóra þann 17. ágúst 2007.  Vísað til skipulagsráðs.“  Á fundi skipulagsráðs 19. desember 2007 var eftirfarandi bókað:  „Neikvætt með vísan til fyrri afgreiðslu og eldri umfjallana.“  Var fundargerð skipulagsráðs staðfest á fundi borgarráðs 10. janúar 2008. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að í erindi hans til skipulagsyfirvalda hafi falist beiðni um að nýta hluta lóðar hans að Gvendargeisla 106 sem bílastæði og að fjarlægðir verði fimm metrar af fimmtán metra langri merkingu sem sýni bílastæði úti í götu fyrir framan lóð hans.  Bendir kærandi á að víðs vegar í hverfinu séu fleiri en tvö bílastæði á lóðum án þess að við því hafi verið amast af hálfu borgaryfirvalda. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar kærumálsins þar sem skipulagsráð hafi aðeins afgreitt fyrirspurn frá kæranda og því liggi ekki fyrir í málinu lokaákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. 

Niðurstaða:  Erindi nokkurra íbúa við Gvendargeisla, dags. 6. júlí 2007, til skipulagsráðs var meðhöndlað af hálfu ráðsins sem fyrirspurn um fjölgun bílastæða inni á lóðum.  Þegar erindi kæranda sama efnis kom til umfjöllunar í skipulagsráði var tekið fram í bókun ráðsins að um málskot væri að ræða og ber bókunin það með sér að eingöngu hafi verið til umfjöllunar fyrirspurn um hvort tiltekin framkvæmd yrði heimiluð. 

Með vísan til þessa verður hin kærða afgreiðsla ekki talin fela í sér lokaákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson

46/2009 Bergþórugata

Með

Ár 2009, föstudaginn 10. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 46/2009, kæra vegna byggingarleyfis fyrir þegar gerðum breytingum og á embættisfærslu byggingarfulltrúa varðandi framkvæmdir að Bergþórugötu 1 í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. júní 2009, framsendir umhverfisráðuneytið úrskurðarnefndinni erindi A, Bergþórugötu 1, Reykjavík, dags. 13. maí 2009, en erindi þetta hafði umhverfisráðuneytinu borist framsent frá samgönguráðuneytinu með bréfi, dags. 29. maí 2009.  Í erindinu er sett fram kæra er lýtur að byggingarleyfi fyrir breytingum á innra skipulagi neðri hæðar hússins að Bergþórugötu 1 í Reykjavík er veitt var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. júní 2006.  Jafnfram tekur kæran til embættisfærslu byggingarfulltrúa varðandi framkvæmdir við umræddan eignarhluta. 

Í bréfi umhverfisráðuneytisins til úrskurðarnefndarinnar kemur fram að ráðuneytið muni svara almennum fyrirspurnum um hlutverk byggingarfulltrúa o.fl. er fram komi í téðu erindi, en að rétt þyki að framsenda úrskurðarnefndinni það til afgreiðslu í ljósi 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsatvik og rök:  Kærandi er eigandi íbúðar á efri hæð að Bergþórugötu 1.  Samkvæmt því sem fram kemur í kæru hóf eigandi neðri hæðar vinnu við breytingar á eignarhluta sínum í janúar 2006, en hann hafði þá nýlega fest kaup á honum.  Kærandi kveðst hafa gert byggingarfulltrúa grein fyrir þessum framkvæmdum í lok maí 2006 en þær hafi verið án leyfis og falið í sér röskun á hagsmunum kæranda.  Hafi þá komið fram að fyrir lægi umsókn um leyfi fyrir umræddum breytingum og að hún yrði tekin fyrir innan fárra daga. 

Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 30. maí 2006.  Var málinu þá frestað og vísað til athugasemda á umsóknarblaði.  Málið var tekið fyrir að nýju á afgreiðslufundi hinn 6. júní 2006 og var byggingarleyfi þá veitt í samræmi við fyrirliggjandi umsókn. 

Af málsgögnum verður ráðið að kærandi hafi á árunum 2007 – 2009 ítrekað kvartað yfir framkvæmdum á neðri hæð og m.a. bent á að umrætt byggingarleyfi væri úr gildi fallið auk þess sem framkvæmdirnar snertu sameign og séreignarhluta kæranda og að ekkert samþykki væri fyrir þeim svo sem áskilið væri samkvæmt fjöleignarhúsalögum nr. 26/1994.

Í óundirrituðu bréfi skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar til kæranda, dags. 27. febrúar 2009, kemur m.a. fram að ekki hafi verið talið að breytingar þær sem um var sótt í maí 2006 væru þess eðlis að samþykki meðeiganda þyrfti að liggja fyrir.  Þá sé það mat embættisins að ágreiningur kæranda og eiganda neðri hæðar sé einkaréttarlegs eðlis sem leysa verði á öðrum vettvangi á grundvelli almennra reglna um skaðabótarétt og eftir atvikum með atbeina dómstóla. 

—————–

Frekari rök og sjónarmið aðila liggja fyrir í málinu sem ekki verða rakin hér nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er annars vegar kærð embættisfærsla byggingarfulltrúa vegna tiltekinna framkvæmda og hins vegar byggingarleyfi, sem veitt var hinn 6. júní 2006, vegna framkvæmdanna. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og samvinnunefndar miðhálendisins, þegar það á við, nema annað sé sérstaklega tiltekið í lögum. 

Ekki verður séð að fyrir liggi í máli þessu kæranleg stjórnvaldsákvörðun um afskipti eða afskiptaleysi byggingarfulltrúa af hinum umdeildu framkvæmdum og koma ávirðingar kæranda er lúta að embættisfærslu hans því eigi til umfjöllunar við úrlausn málsins.  Hins vegar er byggingarleyfi það sem veitt var hinn 6. júní 2006 kæranleg stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Verður ráðið af kærunni að kæranda hafi verið orðið kunnugt um hið umdeilda byggingarleyfi þegar á árinu 2007 og var kærufrestur því löngu liðinn er kærandi vísaði málinu til samgönguráðuneytisins hinn 13. maí 2009. 

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.  Í 2. mgr. 28. gr. segir síðan að kæru skuli þó ekki sinna ef meira en ár sé liðin frá því að ákvörðun hafi verið tilkynnt aðila. 

Leggja verður að jöfnu tilkynningu til aðila máls og vitneskju hans um hina umdeildu stjórnvaldsákvörðun.  Ber því, með hliðsjón af 1. og 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, að vísa frá þeim hluta kærunnar er tekur til umrædds byggingarleyfis frá 6. júní 2006. 

Með vísan til framanritaðs verður kærumáli þessu vísað í heild frá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________             ____________________________
        Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson

121/2008 Uppsalir

Með

Ár 2009, föstudaginn 10. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2008, kæra vegna brota sveitarfélagsins Hornafjarðar á 29. og 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við skiptingu jarðarinnar Uppsala í Hornafirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags.  12. nóvember 2008, er barst nefndinni hinn 14. s.m., framsendi Skipulagsstofnun kæru S, Uppsalavegi 8, Sandgerði, f.h. P, meðeiganda að jörðinni Uppsölum 2 í Hornafirði, dags. 11. nóvember 2008, vegna brota sveitarfélagsins Hornafjarðar á 29. og 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við skiptingu jarðarinnar Uppsala í Hornafirði. 

Skilja verður málskot kæranda svo að farið sé fram á að skipting jarðarinnar Uppsala í Uppsali 1, Uppsali 2 og jörðina Sunnuhlíð verði hnekkt. 

Málsatvik og rök:  Kærandi vísar til þess að á sínum tíma hafi jörðin Uppsalir verið skráð sem óskipt eign í veðmálabókum með tveimur eignarhlutum, Uppsölum 1 og 2, sem tilgreindir hafi verið í hundruðum.  Eftir 1976 hafi þinglýsingarstjóri skráð í veðmálabækur jörðina Uppsali „sem sér eign og eignarhlutann Uppsalir 2 í Uppsalajörðinni sem sér eign.“  Hafi það verið gert án samþykkis eigenda Uppsala 2 og án atbeina sveitarstjórnar. 

Í apríl 2008 hafi kærandi fengið upplýsingar um að Uppsalajörðinni hefði verið skipt upp í þrjár jarðir, Uppsali 1, Uppsali 2 og Sunnuhlíð sem skipt hefði verið úr eignahlutanum Uppsölum 1.  Þessar jarðir hafi fengið skráningu í Landskrá fasteigna sem sjálfstæðar fasteignir þótt engin landamerki hafi verið gerð milli eignarhlutanna, samþykki sveitarfélags fyrir skiptingunni hafi ekki legið fyrir og hún verið án samþykkis allra eigenda Uppsalajarðarinnar.  Kærandi hafi bent sveitarstjórnaryfirvöldum í Hornafirði á meint lagabrot í þessu efni en engar skýringar fengið frá þeim og ekki hafi verið farið að óskum eigenda Uppsala 2 um að Uppsalajörðin yrði skráð í Landskrá fasteigna í samræmi við þinglýst landamerki jarðarinnar sem hafi verið óbreytt frá árinu 1922. 

Telur kærandi Sveitarfélagið Hornafjörð hafa vanrækt þá lagaskyldu sína að halda landeignaskrá eins og mælt sé fyrir um í 29. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og með áðurgreindri skiptingu Uppsalajarðarinnar hafi sveitarfélagið brotið gegn 30. gr. laganna.

—–

Embætti byggingarfulltrúa Hornafjarðar hefur veitt úrskurðarnefndinni þær upplýsingar að í öllu falli frá síðari hluta áttunda áratugar síðustu aldar liggi ekki fyrir ákvarðanir af hálfu sveitarfélagsins um skiptingu umræddrar jarðar. 

Þá hefur Fasteignaskrá Íslands upplýst að skráning áðurgreindra jarðahluta hafi þegar verið fyrir hendi árið 1970.  Skráning Sunnuhlíðar sem sérstakrar fasteignar hafi nú, á árinu 2009, verið felld brott. 

Loks hefur sýslumaðurinn á Höfn upplýst að skipuð hafi verið landskiptanefnd til þess að afmarka eignarhluta jarðarinnar Uppsala og sé störfum hennar ekki lokið.  Þá liggi fyrir að kærandi hafi látist eftir að kæra barst í málinu og sé einkaskiptum í búi hennar lokið. 

Fyrirsvarsmaður kæranda í málinu hlaut við skiptin eignarhlut í Uppsölum 2 og verður hann því nú talinn aðili kærumáls þessa í skjóli hagsmuna sinna sem eigandi nefnds eignarhlutar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og samvinnunefndar miðhálendisins, þegar það á við, nema annað sé sérstaklega tiltekið í lögum.  Í ákvæðinu er kveðið á um að frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á. 

Af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum, er aflað hefur verið, verður ekki séð að fyrir liggi í máli þessu stjórnvaldsákvörðun varðandi umdeilda skiptingu eða skráningu jarðarinnar Uppsala sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar.  Í öllu falli liggur fyrir að möguleg stjórnvaldsákvörðun sem málið kann að varða hefur þá verið tekin fyrir mörgum áratugum og gæti af þeim sökum ekki fallið undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en nefndin var sett á laggirnar með skipulags- og byggingarlögum nr. 73 /1997 er tóku gildi hinn 1. janúar 1998.

Með vísan til framanritaðs verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________              ________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson

30/2009 Skipholt

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 30/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2009 um að hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda við Skipholt 17 í Reykjavík og að synja kröfu hans um að fella niður byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. maí 2009, er barst nefndinni hinn 5. sama mánaðar, kærir Dögg Pálsdóttir hrl. f.h. O ehf., eiganda eignarhluta að Skipholti 17, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. apríl 2009 að hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda við Skipholt 17 og að synja kröfu hans um að fella niður byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum sem byggingarfulltrúi samþykkti hinn 8. nóvember 2006 og borgarráð staðfesti hinn 9. sama mánaðar. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi og að kveðinn verði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfunnar um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda. 

Málsatvik og rök:  Hinn 23. júní 2006 gerðu kærandi og byggingarleyfishafi, sem eru sameigendur að fasteigninni að Skipholti 17, með sér samkomulag um að byggingarleyfishafi fengi tiltekinn eignarhluta kæranda í kjallara fasteignarinnar gegn því að kærandi fengi hluta kjallararýmis sem grafa átti út.  Þá gaf kærandi samþykki sitt fyrir teikningum að fyrirhuguðum framkvæmdum við fasteignina.  Var samkomulagið háð þeim fyrirvara að fyrirhugaður útgröftur kjallarans gengi eftir en ella félli það úr gildi.  Samkomulaginu var þinglýst á greinda fasteign hinn 25. apríl 2007. 

Að undangegninni grenndarkynningu samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík hinn 8. nóvember 2006 umsókn meðeiganda kæranda að fasteigninni að Skipholti 17 um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hluta fasteignarinnar úr skrifstofuhúsnæði í íbúðir og hækkun umrædds húss um eina hæð.  Borgarráð staðfesti ákvörðunina hinn 9. nóvember s.á.  Samþykki kæranda sem meðeiganda að umræddri fasteign fyrir umsóttum breytingum lá þá fyrir.  Munu framkvæmdir hafa byrjað eftir útgáfu byggingarleyfisins.

Með bréfi lögmanns kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 1. október 2008, var tilkynnt um afturköllun samþykkis kæranda fyrir heimiluðum breytingum samkvæmt fyrrnefndu byggingarleyfi.  Byggingarfulltrúi tilkynnti í svarbréfi, dags. 14. nóvember s.á., að embættinu væri óheimilt að taka til greina afturköllun kæranda og var beiðni þar um hafnað með vísan til fyrirliggjandi umsagnar lögfræði- og stjórnsýslu skipulags- og byggingarsviðs.  Hinn 16. febrúar 2009 var af hálfu kæranda krafist þess að byggingarfulltrúi stöðvaði framkvæmdir við nefnda fasteign með vísan til afturköllunar kæranda á samþykki fyrir framkvæmdunum og þar sem þær væru ólöglegar sökum þess að enginn byggingarstjóri væri skráður fyrir þeim.  Byggingarfulltrúi hafnaði erindinu með bréfi, dags. 2. mars 2009, og taldi ekki lagaskilyrði vera fyrir hendi til að stöðva framkvæmdir enda hefði þá nýr byggingarstjóri verið skráður fyrir verkinu í stað þess sem hefði sagt sig frá því. 

Með bréfum lögmanns kæranda, dags. 5. og 18. mars 2009, var enn gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan ekki lægi fyrir úttekt vegna byggingarstjóraskipta og fyrir lægi að framkvæmdir vikju í verulegu frá samþykktum uppdráttum.  Í síðargreinda bréfinu var jafnframt krafist niðurfellingar byggingarleyfisins fyrir umdeildum framkvæmdum.  Byggingarfulltrúi svaraði greindum erindum í bréfi, dags. 23. mars 2009, þar sem tilkynnt var að úttekt vegna byggingarstjóraskiptanna hefði farið fram og var kröfu um stöðvun framkvæmda hafnað.  Jafnframt var upplýst um að byggingarleyfishafa hafi verið tilkynnt um framkomnar athugasemdir kæranda og honum veittur 14 daga frestur til þess að koma á framfæri skýringum.  Var krafa um stöðvun framkvæmda ítrekuð með bréfi, dags. 7. apríl 2009, en með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 15. apríl 2009, var kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda synjað að svo stöddu. 

Ógildingarkrafa kæranda byggi fyrst og fremst á þeirri málsástæðu að samkomulag kæranda og byggingarleyfishafa, sem hafi verið forsenda samþykkis kæranda fyrir umdeildum framkvæmdum, sé fallið úr gildi.  Jafnframt byggi kærandi á því að í ljós hafi komið að ekki sé verið að byggja í samræmi við samþykkta uppdrætti og teikningar en þegar af þeirri ástæðu beri að fella umrætt byggingarleyfi úr gildi.  Skýr réttur hafi verið brotinn á kæranda þegar ekki hafi verið fallist á kröfu um stöðvun framkvæmda við Skipholt 17 þegar í ljós hafi komið að enginn byggingarstjóri hafi verið skráður á verkið í marga mánuði. 

Burtséð frá hinu brottfallna samkomulagi kæranda og byggingarleyfishafa sé ljóst að kærandi hafi aldrei samþykkt að farið yrði svo verulega út fyrir upphaflegar teikningar sem nú sé raunin.  Sprungur hafi myndast í rúðum og telja verði líklegt að burðarþolsmælingar séu rangar.  Hagsmunir kæranda verði ekki tryggðir með öðru móti en að framkvæmdir verði stöðvaðar meðan gerðar séu nýjar teikningar og sótt um nýtt byggingarleyfi eins og skýrt komi fram í matsgerð dómkvaddra matsmanna sem lögð hafi verið fram og unnin hafi verið í tilefni af endurgerð nýs eignaskiptasamnings um fasteignina að Skipholti 17.  Þar komi og fram að ekki hafi verið byggt í samræmi við samþykkta uppdrætti og teikningar og að svo veruleg frávik séu frá samþykktum teikningum að afar ólíklegt sé að byggingaryfirvöld láti við svo búið standa. 

Byggingarfulltrúi hafi með bréfi sínu, dags. 14. apríl 2009, staðfest að í raun væri ekki verið að byggja í samræmi við veitt leyfi.  Byggingarleyfishafa hafi verið gefinn kostur á að leggja fram nýjar teikningar og aðaluppdrætti til þess að hægt væri að ljúka við framkvæmdir við húsið.  Óskiljanlegt sé að byggingarfulltrúi stöðvi ekki framkvæmdir þar til þessar upplýsingar liggi fyrir.  Auk þess sé ljóst samkvæmt niðurstöðu áðurnefndrar matsgerðar að íbúðir þær sem verið sé að byggja í húsinu nr. 17 við Skipholt verði aldrei samþykktar ef farið verði að lögum.  Við þessar aðstæður hafi byggingaryfirvöld heimild til þess að stöðva framkvæmdir tafarlaust.  Kærandi hafi orðið að þola rask og ónæði sem af framkvæmdunum hafi hlotist í nokkra mánuði eftir að byggingarstjóri hafi sagt sig frá verkinu og orðið fyrir talsverðu tjóni sem erfitt sé að sjá hver beri ábyrgð á þar sem enginn byggingarstjóri hafi verið á verkinu og byggingarleyfishafi sé nánast gjaldþrota. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfum kæranda verði hafnað. 

Í fyrsta lagi sé kæran of seint fram komin.  Leggja verði til grundvallar að báðum kröfum kæranda í málinu hafi verið hafnað í síðasta lagi 2. mars 2009, en ekki sé hægt að líta svo á að ítrekaðar tilraunir kæranda til að fá kröfum sínum framgengt í málinu rjúfi kærufresti.  Þrátt fyrir að krafa um niðurfellingu byggingarleyfis sé fyrst orðuð í bréfi kæranda, dags. 18. mars 2009, hafi sú krafa í raun komið fram með bréfi hans, dags. 1. október 2008, þar sem samþykki kæranda á uppdráttum hafi verið afturkallað.  Kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sé einn mánuður frá því að kæranda varð, eða mátti vera kunnugt, um hin kæranlegu atvik.  Kæran sé dagsett 4. maí 2009 og því ljóst að allir frestir hafi þá verið löngu liðnir. 

Í öðru lagi sé krafist frávísunar málsins á þeim grundvelli að ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða þar sem synjun byggingarfulltrúa í málinu geti vart talist formleg stjórnsýsluákvörðun, en hvorki skipulagsráð né borgarráð hafi tekið afstöðu til málsins. 

Hvað efnishlið málsins varði sé á það bent að fyrir liggi að skriflegt samþykki kæranda sem meðlóðarhafa Skipholts 17 á innsendum byggingarleyfisuppdráttum hafi verið til staðar við veitingu leyfisins.  Afturköllun samþykkis kæranda, dags. 1. október 2008, hafi byggst á því að hann hafi með samkomulagi við byggingarleyfishafa, dags. 23. júní 2006, vegna fyrirhugaðra framkvæmda við að grafa út kjallara í húsnæðinu Skipholt 17, veitt skilyrt samþykki fyrir breytingum er hið kærða byggingarleyfi taki til.  Hafi samþykkið verið bundið því skilyrði að ef ekki yrði grafið út rými í kjallara hússins félli samkomulagið niður og jafnframt að meðlóðarhafi myndi þá afturkalla samþykki sitt.  Samkomulagi þessu hafi verið þinglýst á lóðina nr. 17 við Skipholt hinn 25. apríl 2007, liðlega fimm mánuðum eftir veitingu umdeilds byggingarleyfis.  Þar sem í ljós hafi komið að ekki hafi verið hægt að grafa út kjallarann hafi samþykkið verið afturkallað. 

Telja verði að afturköllun samþykkis kæranda hafi verið allt of seint fram komin. Kærandi hafi ekki fært fram rök fyrir því að taka ætti afturköllun fyrirvaralauss samþykkis kæranda til greina.  Í engu beyti þó aðilar hafi gert með sér sérstakt samkomulag um fyrirvara á samþykki meðlóðarhafa, en byggingaryfirvöldum hafi verið ókunnugt um.  Ljóst sé, að þrátt fyrir að kærandi standi í deilum við byggingarleyfishafa um gerninga að baki samþykki hans á uppdráttum, leiði slíkar deilur ekki til þess að hann eignist kröfu á að byggingarfulltrúi felli úr gildi útgefið byggingarleyfi þar sem m.a. hafi legið fyrir samþykki kæranda sem meðeiganda. 

Byggingarfulltrúa hafi verið rétt að hafna kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda enda hafi þá nýr byggingarstjóri verið skráður fyrir framkvæmdunum að Skipholti 17.  Afturköllun kæranda á samþykki sínu fyrir framkvæmdunum hafi hér enga þýðingu enda hafi samþykkið verið lagt fyrir embætti byggingarfulltrúa á sínum tíma án nokkurs fyrirvara. 

Byggingarleyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna kærumáls þessa en engar athugasemdir hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu. 

————-

Aðilar hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í kærumáli þessu er tekist á um afstöðu byggingarfulltrúans í Reykjavík er fram kemur í bréfi embættisins, dags. 15. apríl 2009, til krafna kæranda um stöðvun framkvæmda við Skipholt 17 og niðurfellingu byggingarleyfis frá 8. nóvember 2006, sem settar voru fram í bréfum til byggingarfulltrúa, dags. 18. mars og 7. apríl 2009. 

Um heimild byggingarfulltrúa til að stöðva framkvæmdir við byggingu húss, sem ekki hefur fengist leyfi fyrir eða byggt er á annan hátt en leyfi stendur til, er mælt fyrir um í 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Ákvörðun um stöðvun framkvæmda á grundvelli þeirrar heimildar er bráðabirgðaákvörðun sem tekin er tafarlaust en skal þó staðfest í byggingarnefnd svo fljótt sem við verður komið.  Í kjölfar slíkrar ákvörðunar þarf að taka afstöðu til afdrifa byggingarframkvæmdanna, eftir atvikum með veitingu byggingarleyfis eftir ákvæðum skipulags- og byggingarlaga eða ákvörðun um að bygging eða byggingarhluti verði fjarlægður, sbr. 2. og 4. mgr. 56. gr. laganna.  Hins vegar er ekki kveðið á um í nefndu lagaákvæði að þörf sé á staðfestingu byggingarnefndar á ákvörðun byggingarfulltrúa að stöðva ekki framkvæmdir.  Slík ákvörðun er eftir atvikum háð frjálsu mati embættisins og verður ekki séð að einstaklingar eigi lögvarinn rétt til þess að knýja fram beitingu þessa þvingunarúrræðis. 

Að framangreindu virtu felur hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa, um að stöðva ekki framkvæmdir við Skipholt 17 að svo stöddu, ekki í sér stjórnvaldsákvörðun er bindur enda á mál og verður kærandi ekki talinn eiga aðild að þeirri ákvörðun.  Verður þessum kröfulið því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kröfu kæranda um niðurfellingu umrædds byggingarleyfis var svarað í fyrrgreindu bréfi byggingarfulltrúa á þann veg að það væri enn staðfast mat embættisins að samningar kæranda og byggingarleyfishafa séu embættinu óviðkomandi og að of seint sé að framvísa þeim nú í þeim tilgangi að fá byggingarleyfið fellt úr gild. 

Ekki liggur fyrir að afstaða hafi verið tekin til þessarar kröfu kæranda með öðrum hætti, svo sem með bókun á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa eða af hálfu borgarráðs, sem hefur ákvörðunarvald um veitingu byggingarleyfis og eðli máls samkvæmt einnig afturköllun þess.  Verður því að líta svo á að ekki liggi fyrir lokaákvörðun þar til bærs stjórnvalds um greinda kröfu kæranda.  Verður ógildingarkröfu kæranda af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_________________________________            _________________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                              Aðalheiður Jóhannsdóttir

117/2007 Holtsmúli

Með

Ár 2009, föstudaginn 19. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 117/2007, kæra á samþykkt hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 12. september 2007 um að veita stöðuleyfi fyrir 20 m² bjálkahúsi til eins árs að Holtsmúla II. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. september 2007, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Þ, Miðvangi 3, Hafnarfirði, f.h. T ehf., eiganda jarðarinnar Holtsmúla I, Rangárþingi ytra, þá samþykkt hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 12. september 2007 að veita stöðuleyfi fyrir 20 m² bjálkahúsi til eins árs að Holtsmúla II. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Ekki kom til þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar sem þær voru að mestu yfirstaðnar er kæran barst nefndinni.

Málavextir og rök:  Á fundi byggingarnefndar hinn 28. júní 2007 var samþykkt umsókn eiganda jarðarinnar Holtsmúla II um stöðuleyfi fyrir 20 m² bjálkahúsi til fjögurra ára.  Á fundi hreppsnefndar hinn 12. september s.á. var fundargerðin samþykkt þó með þeirri breytingu að stöðuleyfið var aðeins veitt til eins árs í stað fjögurra til samræmis við byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að umrætt sumarhús muni hafa veruleg áhrif á hagsmuni hans sem landeiganda.  Það sé staðsett við veg sem liggi mjög nærri bænum og hafi neikvæð grenndaráhrif.  Þá hafi hið kærða leyfi leitt til þess að erfiðara hafi reynst að selja jörðina en ella. 

Af hálfu Rangárþings ytra er krafist frávísunar málsins þar sem kærandi eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geti þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Í máli þessu verði ekki séð í hverju hinir einstaklegu lögákveðnu hagsmunir kæranda séu fólgnir. 

Hvað efnishlið málsins varði sé bent á að hið kærða leyfi sé veitt til eins árs og ekki sé um varanlega staðsetningu hússins að ræða. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta þeir einir skotið máli af því tagi sem hér um ræðir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Í máli þessu liggur fyrir að stöðuleyfi það er um er deilt var aðeins veitt til eins árs frá samþykkt þess hinn 12. september 2007 og verður það því ekki lengur lagt til grundvallar áframhaldandi stöðu húss á umræddum stað.  Hefur kærandi af þessum sökum ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hins kærða leyfis og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________          ________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson 

19/2009 Álftanesvegur

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 16. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. 

Fyrir var tekið mál nr. 19/2009, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 um að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. apríl 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir G, Sjávargötu 19, Álftanesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 5. mars 2009 að veita framkvæmdaleyfi fyrir lagningu Álftanesvegar frá Engidal að bæjarmörkum við Álftanes. 

Kærandi gerir þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 13. apríl 2009, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, gerði kærandi jafnframt kröfu um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Ekki hefur verið tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda þar sem engar framkvæmdir hafa enn átt sér stað á grundvelli hins umdeilda leyfis.  Þykir kærumálið nú nægilega upplýst og verður það því tekið til endanlegs úrskurðar. 

Málsatvik og rök:  Í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015, sem staðfest var af ráðherra árið 1998, var gert ráð fyrir lagningu Álftanesvegar yfir Garðahraun nokkru norðar en nú er áformað samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi.  Mat á umhverfisáhrifum vegarins hófst á árinu 2000 í samræmi við legu hans samkvæmt þágildandi aðalskipulag Garðabæjar og Bessastaðahrepps og samþykkti Skipulagsstofnun í úrskurði sínum á því ári tvær tillögur að legu vegarins.  Síðar ákvað stofnunin að fram skyldi fara sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum fyrir áformaðan Álftanesveg og fyrirhugaðan Vífilsstaðaveg.  Með úrskurði hinn 22. maí 2002 féllst Skipulagsstofnun á þrjá valkosti á legu Álftanesvegar.  Var sá úrskurður kærður til umhverfisráðherra sem staðfesti hann 3. febrúar 2003. 

Í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016, sem samþykkt var í bæjarstjórn á árinu 2006, var veglínu Álftanesvegar breytt til samræmis við einn þeirra valkosta er Skipulagsstofnun hafði fallist á.  Sama ár var samþykkt nýtt aðalskipulag Sveitarfélagsins Álftaness þar sem Álftanesvegur fylgir núverandi legu frá sveitarfélagamörkum við Garðabæ að vegamótum Bessastaðavegar og Norður- og Suðurnesvegar. 

Í apríl 2008 var samþykkt í bæjarstjórn Garðabæjar breyting á aðalskipulagi sem fól í sér færslu á legu hins nýja Álftanesvegar til suðurs á 1,5 km löngum kafla um Garðaholt og vestasta hluta Garðahrauns í Garðabæ.  Var breytingin staðfest af ráðherra 2. febrúar 2009.  Umrædd breyting á aðalskipulagi var tilkynnt Skipulagsstofnun og leitað eftir afstöðu stofnunarinnar til matsskyldu breytingarinnar í samræmi við 6. gr. og 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.  Með ákvörðun, dags. 18. febrúar 2009, komst Skipulagsstofnun að þeirri niðurstöðu að breytingin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. 

Í kjölfar þessa veitti Sveitarfélagið Álftanes Vegagerðinni framkvæmdaleyfi til lagningar Álftanesvegar fyrir sitt leyti og sama gerði bæjarstjórn Garðabæjar með samþykkt þar um hinn 5. mars 2009 með tilteknum skilyrðum.  Framkvæmdaleyfi Garðabæjar var síðan gefið út hinn 7. apríl 2009.  Var veiting þess auglýst í dagblöðum og birtist auglýsing sama efnis í Lögbirtingablaðinu hinn 20. maí s.á. 

Kærandi telur að rangar forsendur séu að baki umsóknar Vegagerðarinnar fyrir hinu kærða framkvæmdaleyfi.  Nýr Álftanesvegur hafi verið ætlaður fyrir átta þúsund manna byggð í Garðaholti og álíka mikla byggð á Álftanesi en fyrir liggi að þessar áætlanir gangi ekki eftir.  Því sé ekki þörf fyrir nýjan veg um friðlýst land.  Um sé að ræða sjaldgæft lítt snortið hraun í þéttbýli sem sé vinsælt útivistarsvæði sem kærandi nýti sér og fari þar til berja á haustin.  Á svæðinu vaxi á þriðja hundrað plöntutegundir, fuglalíf sé fjölbreytt, einstakar sjávarfitjar séu með ströndinni auk þess sem í hrauninu megi finna merkar menningarminjar á borð við fornar gönguleiðir.  Svæðið sé vinsælt til fræðslu nemenda á öllum skólastigum. 

Unnt hefði verið að finna veginum annan stað sem hefði minni röskun í för með sér og gangi hin kærða ákvörðun því gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.  Auk þess komi ekki fram í úrskurði Skipulagstofnunar vegna umdeildrar framkvæmdar hvers vegna hún sé nauðsynleg og sé úrskurðurinn því vafasamur grunnur fyrir veitingu hins kærða framkvæmdaleyfis.  Vegagerðin hafi á sínum tíma tíundað margvíslega röskun á umhverfisþáttum er vegalagningunni fylgdi en í skýrslu hennar frá árinu 2008 sé dregið úr þeim umhverfisþáttum og þeim því leynt fyrir aðilum að ákvarðanatöku í málinu.  Loks hafi ekki verið sýnt fram á að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá árinu 2002 á friðlýstu svæði standist eftir svo langan tíma. 

Framkvæmdaleyfishafi gerir þá kröfu að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að kröfu kæranda um ógildingu hins kærða framkvæmdaleyfis verði hafnað. 

Kveðið sé á um í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 að þeir einir geti skotið ákvörðunum sveitarstjórnar til úrskurðarnefndar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Kærandi sé búsettur á Álftanesi og ekki liggi fyrir að hann hafi sérstök tengsl eða eigi sérgreinda hagsmuni umfram aðra íbúa Álftaness sem tengist umræddri framkvæmd.  Kærandi haldi því fram að með lagningu vegarins um Garðahraun sé gengið á almennan rétt hans sem og annarra borgara til útivistar á svæðinu en ekki sé teflt fram sérstökum og einstaklegum hagsmuni kæranda tengda vegarstæðinu.  Af þessum ástæðum beri að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts kæranda. 

Um efnishlið máls byggi leyfishafi á því að hið kærða framkvæmdaleyfi sé í samræmi við úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, ákvörðun um matsskyldu og skipulagsáætlanir Sveitarfélagsins Álftaness og Garðabæjar.  Ekkert tilefni sé því til að ógilda leyfið.  Málið hafi fengið lögboðna umfjöllun af þar til bærum aðilum, þ.á m. fornleifa- og náttúruverndaryfirvöldum.  Almenningur hafi haft greiðan aðgang að ferli málsins og getað komið að athugasemdum lögum samkvæmt. 

Af hálfu Garðabæjar er gerð krafa um frávísun kærumálsins frá úrskurðarnefndinni en að öðrum kosti að ógildingarkröfu kæranda verði hafnað.  Ekki verði séð að kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og beri að vísa því frá sökum aðildarskorts.  Eru rökin að baki þeirri ályktun á sömu lund og sett eru fram af hálfu framkvæmdaleyfishafa. 

Varðandi efnishlið máls benda bæjaryfirvöld á að vegstæði Álftanesvegar yfir Garðahraun hafi fyrst verið kynnt í Aðalskipulagi Garðabæjar 1995-2015 frá árinu 1997 og í framhaldi af því hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum vegarins.  Fallist hafi verið á vegarlagninguna í úrskurði Skipulagsstofnunar samkæmt þremur fyrirliggjandi valkostum og hafi ráðherra staðfest þá niðurstöðu.  Ljóst megi því vera að sú ákvörðun, að leggja nýjan Álftanesveg eins og sýnt sé í samþykktu aðalskipulagi Garðabæjar, sæti ekki frekari kæru á stjórnsýslustigi.  Hið kærða framkvæmdaleyfi byggi á niðurstöðu úrskurðarins og skipulagsáætlunum bæjarins.  Sjónarmið einstaklinga um verndun hrauns, sem þegar hafi fengið skoðun og umfjöllun við gerð skipulagsáætlana, geti ekki hróflað við gildi framkvæmdaleyfisins.  Að öðru leyti fullnægi leyfið skilyrðum 27. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 13. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 og sé í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir auk þess sem fyrir liggi matsskýrslur sem bæjarstjórn hafi tekið afstöðu til við útgáfu leyfisins eins og áskilið sé. 

Niðurstaða: Í máli þessu er gerð frávísunarkrafa með þeim rökum að kærandi eigi ekki málsaðild þar sem á skorti að hann eigi einstaklegra, lögvarinna hagsmuna að gæta vegna efnis hinnar kærðu ákvörðunar um veitingu framkvæmdaleyfis. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Sé um að ræða ákvarðanir vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum eiga umhverfisverndar- og hagsmunasamtök, sem varnarþing eiga á Íslandi, jafnframt sama rétt enda séu félagsmenn samtakanna 30 eða fleiri og það samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.  Er aðild slíkra samtaka, eðli máls samkvæmt, ekki bundin því skilyrði að þau eigi einstaklegra lögvarinna hagmuna að gæta. 

Kærandi máls þessa er búsettur í talsverðri fjarlægð frá fyrirhuguðu vegstæði samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi.  Í kæru er vísað til atriða er lúta að almannahagmunum, t.d. útivistarmöguleikum almennings.  Hins vegar liggur ekki fyrir að umdeild ákvörðun snerti lögvarða einstaklingsbundna hagsmuni kæranda svo sem með röskun á grenndarhagsmunum hans sem fasteignareiganda.  Verður kærandi því ekki talinn eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður málinu af þeim sökum vísað frá nefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________              _________________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                       Aðalheiður Jóhannsdóttir

77/2008 Lambhóll við Starhaga

Með

Ár 2009, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að aðhafast ekki vegna breytinga á gluggum hússins Lambhóls við Starhaga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. ágúst 2008, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir K, Löngubrekku 5, Kópavogi, eigandi íbúðar í húsinu Lambhól við Starhaga í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúa að aðhafast ekki vegna breytinga á gluggum hússins Lambhóls.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málvextir og rök:  Í nokkur ár virðist sem deilur hafi staðið milli eigenda fasteignarinnar Lambhóls við Starhaga m.a. um endurgerð glugga í eldri hluta hússins.  Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 13. apríl 2006, var óskað eftir því að byggingarfulltrúi skæri úr deilum eigenda hússins varðandi glugga.  Var erindi þessu svarað með bréfi, dags. 15. janúar 2007, þar sem sagði m.a:  „Í fyrrnefndu bréfi yðar er óskað eftir úrskurði á því hvert skuli vera útlit glugga í eldra húsi, þeirri beiðni er hér með hafnað þar sem ekki er á valdsviði embættisins að kveða upp dóma.  Er yður leiðbeint um að leita til dómstóla vegna þessa ágreiningsefnis.“ 

Á fundi skipulagsráðs hinn 18. júní 2008 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 16. s.m., þar sem rakin voru deiluefni eigenda hússins.  Varðandi ágreining um endurgerð glugga í eldri hluta þess sagði m.a. eftirfarandi:  „Jafnframt hefur byggingarfulltrúi leiðbeint málsaðilum að leita til dómstóla með deilumálið, þar sem ekki er á valdsviði embættisins að dæma í málinu.  Er afskiptum embættisins af þeim þætti málsins lokið.“  

Hefur kærandi kært þessa ákvörðun byggingarfulltrúa svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kæranda er bent á að kærunefnd fjöleignarhúsamála hafi í áliti sínu komist að þeirri niðurstöðu að leggja beri til grundvallar teikningar hússins frá árinu 1951 hvað gluggagerð þess varði.  Hafi byggingarfulltrúi verið beðinn um að aðhafast í málinu.  Hann hafi neitað því en samkvæmt byggingarreglugerð beri byggingarfulltrúa að bregðast við ef útliti húss er breytt án byggingarleyfis. 

Af hálfu borgaryfrvalda er krafist frávísunar málsins með þeim rökum að ekki sé um endanlega ákvörðun að ræða sem bindi enda á mál heldur fyrirspurn sem ekki sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kærandi kom á framfæri mótmælum sínum vegna kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun málsins og heldur því fram að hann kæri þá ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekkert í málinu en ekki svar hans, dags. 15. janúar 2007. 

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda máls þessa, dags. 15. janúar 2007, kemur fram að hann telji það ekki vera á valdsviði embættis síns að kveða upp dóma og er þar vísað til deilna eigenda hússins um breytingar á gluggum.  Framangreinda afstöðu sína kynnti byggingarfulltrúi síðar í bréfi til skipulagsráðs, dags. 16. júní 2008, þar sem reifaðar eru deilur eigenda hússins Lambhóls við Starhaga.

Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Gildir þá einu þótt fyrir hendi kunni að hafa verið ástæður sem réttlætt hafi drátt á því að mál væri kært.  Verður að líta svo á að með bréfi byggingarfulltrúa 15. janúar 2007 hafi kæranda verið tilkynnt um þá niðurstöðu byggingarfulltrúa að það væri ekki á valdsviði hans að skera úr ágreiningi eigenda um breytingar á gluggum umrædds húss og að kæranda hafi þá þegar mátt vera ljóst að byggingarfulltrúi myndi ekkert aðhafast í tilefni af erindi hans.  Þar sem meira en ár var liðið frá dagsetningu bréfs byggingarfulltrúa þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni ber samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa málinu frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.       

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.  

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson   

162/2007 Gulaþing

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 162/2007, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2007 um synjun á breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. desember 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Gunnar Guðmundsson hdl., f.h. Efrihlíðar ehf., lóðarhafa Gulaþings 25 í Kópavogi, þá afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogsbæjar frá 6. nóvember 2007 að synja beiðni um breytt deiliskipulag lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing.  

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir og málsrök:  Á fundi skipulagsnefndar 29. maí 2007 var lögð fram beiðni lóðarhafa Gulaþings 25 um breytt deiliskipulag vegna lóðarinnar þannig að henni yrði skipt í tvær lóðir.  Var erindinu frestað.  Í gildi er deiliskipulag á svæðinu, Vatnsendi-Þing, sem samþykkt var árið 2005.  Samkvæmt því er lóðin nr. 25 við Gulaþing 1.845 m² að stærð og heimilt að byggja þar 400 m² einbýlishús á tveimur hæðum.  Á fundi nefndarinnar hinn 3. júlí sama ár var samþykkt að tillaga að breyttu deiliskipulagi vegna lóðarinnar yrði auglýst og bárust skipulagsyfirvöldum athugasemdir frá næstu nágrönnum.  Var erindi kæranda til umfjöllunar á fundum skipulagsnefndar hinn 4. september 2007 og 18. sama mánaðar, en á fundi nefndarinnar hinn 6. nóvember sama ár var erindinu hafnað með vísan til innsendra athugasemda og umsagnar bæjarlögmanns.  Var kæranda tilkynnt um þessi málalok með bréfi, dags. 8. nóvember 2007, og var í niðurlagi bréfsins vakin athygli á því að ákvörðunin væri kæranleg til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. 

Á fundi bæjarráðs 8. nóvember 2007 var fundargerð skipulagsnefndar frá 6. sama mánaðar til umfjöllunar, sem og á fundi bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar, án þess að hin umdeilda afgreiðsla skipulagsnefndar væri sérstaklega rædd.     

Af hálfu kæranda er krafist ógildingar á framangreindu og vísar hann m.a. til þess að hagsmunir nágranna hvað varði útsýni yfir Elliðavatn og umferð um götuna muni ekki skerðast þótt fallist yrði á beiðni hans um skiptingu lóðarinnar.

Af hálfu skipulagsyfirvalda er krafist frávísunar málsins og því haldið fram að kæran hafi borist að liðnum kærufresti.  Verði ekki fallist á frávísunarkröfuna sé bent á að deiliskipulag svæðisins, Vatnsendi-Þing, sé nýlega samþykkt og ekki séu fyrir hendi veigamiklar ástæður eða skipulagsleg rök sem réttlæti breytingar á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var beiðni kæranda um breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 25 við Gulaþing synjað á fundi skipulagsnefndar hinn 6. nóvember 2007.  Var fundargerðin til umfjöllunar á fundum bæjarráðs hinn 8. sama mánaðar og bæjarstjórnar hinn 13. sama mánaðar án þess þó að erindi kæranda fengi þar sérstaka afgreiðslu.

Í 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kemur fram sú meginregla að sveitarstjórn beri ábyrgð á og annist gerð deiliskipulags og hið sama gildir um breytingu þess, sbr. 26. gr. laganna.  Þá segir í gr. 2.4 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 að skipulagsnefndir fari með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar.  Ennfremur segir þar m.a. að meginverksvið skipulagsnefnda sé að fjalla um stefnumörkun í skipulagsmálum, hafa forgöngu um gerð og breytingar á skipulagsáætlunum og fjalla um skipulagstillögur.  Þá fjalli nefndirnar um athugasemdir við auglýstar skipulagstillögur, geri tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu skipulagstillagna og veiti umsagnir um hvort leyfisskyldar framkvæmdir séu í samræmi við skipulagsáætlun.  Loks segir í gr. 2.5 að ákvarðanir skipulagnefnda skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Skilja verður framangreind ákvæði á þann veg að skipulagsnefnd sveitarfélags sé ekki falin fullnaðarafgreiðsla erinda er varða nýtt eða breytt deiliskipulag, hvort sem er til samþykkis eða synjunar.  Það er sveitarstjórnar einnar að taka slíkar ákvarðanir, nema fyrir hendi sé sérstök samþykkt sveitarfélagsins um annað fyrirkomulag, sbr. 44. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, en slík samþykkt er ekki fyrir hendi í hinu kærða tilviki. 

Samkvæmt framansögðu verður ekki litið svo á að hin kærða afgreiðsla skipulagsnefndar hafi falið í sér stjórnvaldsákvörðun er sætt geti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda var nefndin aðeins bær til þess að gera tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu málsins.  Engin ákvörðun liggur fyrir af hálfu sveitarstjórnar í málinu og gildir einu þótt fundargerð skipulagsnefndar hafi verið afgreidd í heild án umræðu í bæjarráði og bæjarstjórn enda var ekki með því tekin afstaða til þess erindis sem um ræðir í máli þessu.  Skorti því á að tekin væri kæranleg lokaákvörðun í málinu og verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________     _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                  Aðalheiður Jóhannsdóttir

134/2007 Brúarland

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 29. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 134/2007, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar frá 4. september 2007 um að hafna tillögu um deiliskipulag í landi Brúarlands í Eyjafjarðarsveit. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. október 2007, er barst nefndinni hinn 9. s.m., kærir Karl Axelsson hrl., f.h. S og M, eigenda jarðarinnar Brúarlands í Eyjafjarðarsveit, þá afgreiðslu  skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar frá 4. september 2007 að hafna tillögu um deiliskipulag í landi þeirra.  Samþykkti sveitarstjórn greinda bókun hinn 11. september 2007.  Gera kærendur þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Fyrir nokkrum árum var samþykkt deiliskipulag fyrir tvo reiti í landi Brúarlands, annars vegar árið 2001 fyrir svonefnda Brúnahlíð og hins vegar árið 2005 vegna svokallaðs Brúnagerðis, áfanga A.  Með bréfi, dags. 31. janúar 2007, óskuðu kærendur máls þessa eftir samþykki sveitarstjórnar fyrir tveimur nýjum lóðum úr landi Brúarlands.  Í bréfinu segir svo:  „Háspennulína liggur um Brúarland og verið er að kanna möguleika á því að flytja línuna til, eða setja hana í jörð.  Fyrirhugaðar lóðir eru samkvæmt áfanga B, Brúnagerðis úr landi Brúarlands.  Upphaflega var gert ráð fyrir fimm lóðum í áfanganum, en framkvæmdin hefur dregist á langinn vegna tafa á flutningi línunnar.  Við erum þeirrar skoðunar að mögulegt sé, að gera til að byrja með tvær íbúðarhúsalóðir aðra í austurhluta spildunnar við landamerki Leifsstaða og hina í vesturhluta spildunnar norður við læk, við landamerki Leifsstaða.“ 

Erindið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar hinn 19. febrúar 2007 og svohljóðandi fært til bókar:  „Í erindinu er farið fram á að skipuleggja svæði norðan Brúarlands að Þingmannalæknum fyrir tvö íbúðarhús.  Með vísan til fyrri samskipta nefndarinnar og landeiganda sem og skilmála sem settir eru fram í deiliskipulagi frá 27. sept. 2005 áskilur nefndin sér fullan rétt til að skoða skipulag þessa svæðis og hugmyndir þar að lútandi mun nánar áður en hún tekur afstöðu til erindisins.“ 

Á fundi skipulagsnefndar hinn 1. mars 2007 var erindið til skoðunar að nýju og eftirfarandi bókað:  „Með vísan til afgreiðslu erindisins samþykkir skipulagsnefnd meðfylgjandi drög að greinargerð til frekari áréttingar á afstöðu sinni.“  Með bréfi, dags. 7. mars s.á., var kærendum máls þessa kynnt afgreiðsla nefndarinnar sem og tilvitnuð greinargerð.  Í henni var m.a. tekið fram að til að skipulagsnefnd gæti tekið tillögu að skipulagi svæðisins til formlegrar umfjöllunar og afgreiðslu þyrfti framkvæmdaaðilinn, þ.e. kærendur, að leggja fram tillögu er tæki mið af ákveðnum forsendum sem nánar voru tilgreindar í greinargerðinni.  Afgreiðsla þessi var staðfest á fundi sveitarstjórnar 6. mars 2007.  Nokkru síðar, eða á fundi skipulagsnefndar hinn 3. apríl s.á., var tekið fyrir erindi frá lögmanni kærenda og svohljóðandi bókað:  „Í erindinu er farið fram á að skipulagsnefnd falli frá þeim skilyrðum sem sett eru fram í greinargerð til eigenda Brúarlands og samþykkt var á fundi nefndarinnar hinn 1. mars 2007.  Nefndin telur engar efnislegar forsendur til að breyta þeirri afstöðu sem þar kemur fram.“ 

Af hálfu kærenda var gerð grein fyrir þeim tillögum sem lagðar höfðu verið fram að deiliskipulagi í landi Brúarlands á fundi skipulagsnefndar hinn 7. júní 2007 og bókað að nefndin væri tilbúin að taka til skoðunar nýja tillögu sem hagsmunaaðilar gætu hugsanlega náð samkomulagi um.  Á fundi skipulagsnefndar hinn 27. ágúst s.á. var lögð fram hugmynd að deiliskipulagi svæðis milli Þingmannalækjar og Brúnagerðis.  Var afgreiðslu málsins frestað og tekið fram að tillagan væri hliðstæð tillögu sem áður hafði verið kynnt. 

Hinn 4. september 2007 var í skipulagsnefnd samþykkt eftirfarandi bókun:  „Skipulagsnefnd vill að gefnu tilefni enn ítreka að gerð deiliskipulags fyrir frekari íbúðarbyggð í landi Brúarlands skuli lúta þeim skilmálum sem fram eru settir í tillögu að Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025.  Þetta sjónarmið hefur margoft verið kynnt landeiganda bæði munnlega og skriflega [og] á þar af leiðandi að vera honum fullljóst.  Í deiliskipulagi fyrir umrætt svæði ber því að taka fullt tillit til fjarlægðarmarka og ákvæða um klasa eins og um ræðir í kafla “2.2.1 Íbúðarsvæði“ í greinargerð I með aðalskipulagstillögunni.  Nefndin bendir á í þessu samhengi að lega háspennulínu þvert yfir fyrirhugað skipulagssvæði mun augljóslega hafa áhrif á nýtingu þess á þann hátt að íbúðarlóðir norðan hennar virðast ekki koma til álita þegar tekið er tillit til fyrrgreindra ákvæða.  Vilji landeigandinn koma í veg fyrir þær hömlur sem lega línunnar setur á nýtingu landsins þarf hann því að færa línuna.“  Samþykkti sveitarstjórn greinda afgreiðslu hinn 11. september s.á.  Kærendum var kynnt afgreiðsla málsins með bréfi, dags. 5. september 2007, og þar vísað til erindis um málefnið, dags. 7. mars s.á. 

Hafa kærendur skotið ofangreindri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur taka fram að hin kærða ákvörðun sé stjórnvaldsákvörðun sem sé ólögmæt enda haldin verulegum efnisannmörkum og því ógildanleg.  Lúti ákvörðunin að efni málsins og uppfylli að öðru leyti hugtaksskilyrði stjórnvaldsákvörðunar.  Hún sé tekin í skjóli stjórnsýsluvalds, hafi bindandi réttaráhrif um úrlausn tiltekins máls, sé beint út á við að borgurunum og bindi enda á stjórnsýslumál.  Þá beinist hún að tilteknum aðilum, sé ákvörðun í ákveðnu og fyrirliggjandi máli og sé ákvörðun um rétt eða skyldu manna.  Líta verði svo á að hin kærða ákvörðun bindi enda á stjórnsýslumálið.  Fallist kærendur ekki á að lúta hinum ólögmætu skilmálum sem settir séu fram í ákvörðun nefndarinnar verði ekki af skipulagi Brúnagerðis, áfanga B, og málinu því lokið.  Ákvörðunin snúi enda að efni málsins en ekki formi þess. 

Verði ekki talið að um stjórnvaldsákvörðun sé að ræða sé byggt á því að ákvörðunin sé eðlislík slíkri ákvörðun og beri því að fara að sams konar reglum við töku hennar og sæti hún kæru til úrskurðarnefndar.  Í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997 sé vísað til stjórnsýslulaga um málsmeðferð fyrir úrskurðarnefnd.  Bent skuli á að við úrlausn vafatilvika sé einmitt litið til þess hvort ákvörðun sé eðlislík stjórnvaldsákvörðun auk þess sem haft sé í huga að markmið stjórnsýslulaga sé að tryggja réttaröryggi manna í samskiptum við stjórnvöld og því þurfi að huga að því hvort í málinu sé nauðsynlegt að veita aðila þá réttarstöðu sem stjórnsýslulögin veiti.  Í athugasemdum með 1. gr. frumvarps þess sem varð að stjórnsýslulögum segi að í algerum vafatilvikum beri fremur að álykta svo að lögin gildi heldur en að þau gildi ekki. 

Ákvörðun um að synja tillögu þessari samþykkis feli í sér brot á bæði almennum og sérstökum efnisreglum stjórnsýsluréttarins.  Með henni sé brotin lögmætisregla og reglan um að ákvörðun skuli vera byggð á málefnalegum sjónarmiðum.  Þá sé ákvörðunin í ósamræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.a. 2. mgr. 23. gr. laganna.  Jafnframt sé afgreiðsla þessi andstæð þeirri grundvallarreglu að stjórnvaldsfyrirmælum, er sæti birtingu að lögum, verði ekki beitt fyrr en birting hafi farið fram, sbr. 8. gr. laga nr. 15/2005.  Þessir annmarkar leiði til þess að ákvörðunin sé ógildanleg. 

Skipulagsnefnd hafi gert það að skilyrði að farið væri að skilmálum sem sé að finna í tillögu að Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025.  Þannig sé lögð til grundvallar tillaga að aðalskipulagi sem hvorki hafi hlotið lögboðna málsmeðferð Skipulagsstofnunar og staðfestingu ráðherra né verið auglýst í samræmi við lög.  Komi krafa þessi víða fram. 

Einnig sé á því byggt að ómálefnaleg sjónarmið hafi legið til grundvallar umræddri ákvörðun en sveitarstjórn hafi beitt sér til hagsbóta fyrir annan fasteignaeiganda á svæðinu með ómálefnalegum hætti. 

Málsrök Eyjafjarðarsveitar:  Tekið er fram að breytingu hafi þurft að gera á aðalskipulagi til að deiliskipulag vegna Brúnagerðis, áfanga A, næði fram að ganga þar sem ekki hafi verið gert ráð fyrir íbúðarbyggð á þessum stað.  Hafi að beiðni kærenda í máli þessu verið auglýst slík breyting. 

Ljóst sé að kærendur hafi aldrei farið með formlegum hætti fram á það á þessu stigi málsins að allt svæðið sunnan Brúnahlíðar yrði skipulagt sem íbúðarbyggð og landnotkun breytt í aðalskipulagi til samræmis við það, heldur aðeins syðri hluti svæðisins, sunnan heimreiðar, þ.e.a.s. Brúnagerði, áfangi A.  Skipulagsnefnd hafi hins vegar gert ráð fyrir því við endurskoðun aðalskipulagsins að í framtíðinni yrði svæðið norðan heimreiðarinnar, áfangi B, einnig tekið til íbúðarbyggðar og hafi verið við það miðað í tillögum nefndarinnar.  Í staðfestu Aðalskipulagi Eyjafjarðarsveitar 2005-2025 sé gert ráð fyrir allt að fimm lóðum fyrir íbúðarhús á nefndum reit. 

Þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin hafi verið í gildi Aðalskipulag Eyjafjarðarsveitar 1994-2014.  Samkvæmt því hafi ekki verið gert ráð fyrir íbúðarbyggð á svæðinu og því hefði þegar af þeirri ástæðu ekki verið hægt að samþykkja deiliskipulagstillögu kærenda, þar sem slíkt hefði brotið gegn gildandi aðalskipulagi. 

Vinna við nýtt aðalskipulag hafi verið á lokastigi þegar hin kærða ákvörðun hafi verið tekin og í því hafi verið gert ráð fyrir íbúðarbyggð á reitnum.  Það hafi því verið eðlileg og málefnaleg ákvörðun að vísa til væntanlegs aðalskipulags og í raun kærendum til hagræðis að vinna deiliskipulagið þannig, í stað þess að fara fyrst fram á breytingu á aðalskipulagi sem verið væri að klára endurskoðun á.  Því sé mótmælt að sveitarfélagið hafi á óeðlilegan hátt gengið erinda annars aðila í máli þessu. 

Bent sé á varðandi umfjöllun um klasa að vísað hafi verið til þeirra í bréfi sveitarstjóra til kærenda, dags. 7. mars 2007, og jafnframt tilkynnt að skipulagsnefnd væri tilbúin að taka til meðferðar deiliskipulagstillögu sem byggðist á þessum og öðrum forsendum hins væntanlega aðalskipulags.  Hafi í umræddu bréfi jafnframt komið fram mjög ítarlegar skýringar og ábendingar til kærenda um framhald málsins.  Leiðbeiningarskyldu stjórnvaldsins hafi því verið vandlega gætt.  Af kærunni megi ráða að eftir þetta hafi hönnuðir á vegum kærenda verið í sambandi við skipulagsnefnd og lagt fram mismunandi tillögur að útfærslu á þessum svokölluðu klösum.  Ljóst sé því að kærendum hafi verið fullkunnugt um þessi skilyrði og hafi verið að vinna með skipulagsyfirvöldum, að því er virðist, að því að finna lausn er rúmaðist innan þeirra.  Augljóst sé að staðhættir á vettvangi séu þannig að Þingmannalækurinn sé mjög eðlilegt viðmið til að mynda klasaskil.  Eitt af markmiðum skipulagsins sé að það falli að náttúrulegum staðháttum.  Það sé því málefnaleg afstaða og byggð á rökum að fallast ekki á að breyta þessum klasaskilum. 

Því sé mótmælt að stjórnsýslulög eða önnur lög hafi verið brotin við meðferð málsins.  Ákvörðunin hafi verið byggð á málefnalegum rökum.  Hún hafi verið í fullu samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga þar sem á þessum tíma hefði samþykkt tillögunnar verið í andstöðu við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins og því ólögmæt.  Kærendur hafi ekki óskað eftir því að aðalskipulagi yrði breytt sérstaklega vegna þessarar tillögu þeirra, heldur aðeins óskað eftir deiliskipulagi nýs svæðis.  Það hafi því verið málefnalegt og eðlilegt að vísa til væntanlegs aðalskipulags.  Ákvörðunin hafi verið tekin á lögmætan hátt, bæði hvað varði form og efni.  Um sé að ræða ákvarðanir sem teknar hafi verið af réttum og til þess bærum stjórnvöldum.  Málið hafi verið rannsakað vandlega og hafi kærendur haft öll tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Sú málsástæða kærenda að ekki hafi verið heimilt að vísa til stjórnvaldsfyrirmæla sem ekki hefðu verið birt eigi hér ekki við. 

Að lokum sé bent á að nú liggi fyrir nýtt aðalskipulag þar sem gert sé ráð fyrir íbúðarbyggð og því ekkert sem standi því í vegi að kærendur geti sent inn nýja tillögu að deiliskipulagi til meðferðar. 

—–

Niðurstaða:  Af þeim gögnum sem liggja fyrir í máli þessu verður ráðið að samskipti hafi verið milli skipulagsyfirvalda og kærenda um mótun deiliskipulags fyrir spildu úr landi þeirra í kjölfar erindis þeirra þar að lútandi.  Meðal annars ber orðalag hinnar kærðu bókunar skipulagsnefndar Eyjafjarðarsveitar á fundi hinn 4. september 2007 það með sér að þar hafi verið til umfjöllunar breytt útfærsla á deiliskipulagstillögu frá upphaflegri hugmynd.  Að teknu tilliti til greinds aðdraganda og orðalags hinnar kærðu bókunar verður hún ekki skilin svo að með henni hafi erindi kærenda verið endanlega hafnað heldur hafi verið um að ræða áréttingu á skoðun nefndarinnar á tilhögun skipulagsins. 

Telja verður, með hliðsjón af framangreindu, að hin kærða bókun hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun sem bindi enda á meðferð máls í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_______________________________    _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Aðalheiður Jóhannsdóttir

23/2006 Lónsbraut

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 2. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 23/2006, kæra á ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 6. október 2004, 3. nóvember 2004, 8. desember 2004, 15. júní 2005 og 10. ágúst 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. mars 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir E, eigandi bátaskýlis nr. 58 við Lónsbraut, Hafnarfirði, þær ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 6. október 2004, 3. nóvember 2004, 8. desember 2004, 15. júní 2005 og 10. ágúst 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði.  Staðfesti bæjarstjórn veitingu byggingarleyfanna fyrir Lónsbraut 60 og 68 hinn 7. mars 2006.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á þeim tíma er hinar kærðu ákvarðanir voru teknar var í gildi deiliskipulag fyrir suðurhöfn Hafnarfjarðar frá árinu 2000 er tekur til umrædds svæðis.  Í skilmálum deiliskipulagsins kemur m.a. fram að hæð bátaskýla við Lónsbraut megi vera samræmi við þau nýjustu sem standi austast á svæðinu og að heimilt sé að hækka sökkla þeirra skýla sem lægst standa um allt að 1,5 metra vegna sjávarhæðar. 

Hinn 6. október 2004 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar umsókn er fól m.a. í sér hækkun bátaskýlis að Lónsbraut 64 um 1,5 metra.  Var sú ákvörðun staðfest í skipulags- og byggingarráði hinn 7. mars 2005.  Þá tók hann fyrir og samþykki á afgreiðslufundi sínum hinn 3. nóvember 2004 umsókn vegna Lónsbrautar 52 um leyfi til að lengja hús um 1,0 metra og hækka það um 80 sentimetra.  Staðfesti skipulags- og byggingarráð þá ákvörðun hinn 7. mars 2005.  Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti hinn 21. desember 2005 breytingu á því leyfi er fól í sér hækkun skýlisins um 25 sentimetra.  Var sú ákvörðun lögð fram á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 6. janúar 2006 og staðfest í bæjarstjórn hinn 10. janúar s.á.  Ennfremur var samþykkt umsókn um hækkun og viðbyggingu bátaskýlis að Lónsbraut 54, til samræmis við hús nr. 52, á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 8. desember 2004.  Skipulags- og byggingarráð staðfesti erindið hinn 7. mars 2005. Hinn 15. júní 2005 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi leyfi fyrir endurbyggingu og stækkun bátaskýlis að Lónsbraut 60.  Var sú afgreiðsla lögð fram á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 24. febrúar 2006 og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna hinn 7. mars s.á. Hinn 10. ágúst 2005 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar umsókn um leyfi fyrir endurbyggingu og stækkun bátaskýlis að Lónsbraut 68.  Skipulags- og byggingarráð staðfesti afgreiðsluna hinn 24. febrúar 2006 og bæjarstjórn hinn 7. mars s.á. 

Kærandi máls þessa skaut veitingu byggingarleyfa varðandi greind bátaskýli til úrskurðarnefndarinnar í lok árs 2005, sem vísaði málinu frá hinn 9. febrúar 2006 með vísan til þess að lokaákvörðun hefði ekki verið tekin um veitingu þeirra þar sem á skorti að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefði staðfest umdeild leyfi. 

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að búið sé að hækka sökkla umdeildra bygginga verulega og stefni í að mænishæð þeirra verði allt að 2,5 – 3,0 metrum hærri en skýli kæranda og séu þau í engu samræmi við hæðir annarra skýla á svæðinu og gildandi deiliskipulag.  Kærandi hafi átt í vandræðum vegna aur- og vatnsflæðis að skýli sínu, sem hann hefði vænst að úr rættist þegar Lónsbrautin yrði hönnuð og lögð lægra en nú sé með hliðsjón af ákvarðaðri hæð bátaskýlanna í gildandi skipulagi.  Umræddar byggingar skemmi heildarsvip svæðisins vegna hæðar sinnar en auk þess sé þakhalli skýlisins að Lónsbraut 52 í engu samræmi við þakhalla annarra skýla. 

Málsrök bæjaryfirvalda:  Bæjaryfirvöld benda á að eigendur sumra bátaskýla á svæðinu hafi nýtt sér heimild í skipulagsskilmálum um að hækka gólf skýlanna um 1,5 metra og hafi skýlunum þá verið lyft til að gæta samræmis í þakhalla annarra skýla.  Á gildandi mæliblaði fyrir umrætt svæði sé gólfkóti greindur á einum stað 3,9 metrar sem gildi fyrir öll skýlin og sé kótinn miðaður við að gólf skýlanna sé yfir stórstreymi. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi Lónsbrautar 68 bendir á að hann hafi byggt skýlið í góðri trú en byggingaryfirvöld hafi stimplað teikningar af skýli hans.  Byggingarleyfishafi bátaskýlis að Lónsbraut 54 tekur fram að aðeins sé búið að byggja sökkul og því hvorki komin gólfhæð né mænishæð á húsið svo óljóst sé hvað verið sé að kæra.  Hafi alfarið verið farið að reglum og leyfum hvað varði byggingu hússins.  Öðrum byggingarleyfishöfum var veitt færi á að tjá sig en ekki liggja fyrir í málinu athugasemdir þeirra. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi í tilefni af fyrra kærumáli um sama efni. 

Niðurstaða:  Kærandi ber fyrst og fremst fyrir sig að með hinum kærðu byggingarleyfum sé vikið frá gildandi skipulagi um gólfhæð umræddra bátaskýla sem hafa muni áhrif á mótun aðkomu að skýlunum sem verði hærri en ella hefði orðið. 

Sveitarstjórn skal afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa frá 6. október, 3. nóvember og 8. desember 2004 á umsóknum um byggingarleyfi vegna Lónsbrautar 52, 54 og 64 hafi verið staðfestar í bæjarstjórn.  Af þessum ástæðum hafa greind byggingarleyfi ekki hlotið lögboðna meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og verður því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni hvað umdeild leyfi varðar, með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um veitingu byggingarleyfanna. 

Deiliskipulag það er í gildi var er umdeild byggingarleyfi varðandi bátaskýlin að Lónsbraut 60 og 68 voru veitt þykir að ýmsu leyti óljóst að því er tekur til heimilaðrar hæðar skýlanna og hæðarsetningar þeirra í landi.  Á skipulagsuppdrætti er ekki að finna upplýsingar um landhæð eða hæðarsetningu gólfplötu umræddra skýla.  Í greinargerð skipulagsins segir um yfirbragð bygginga á svæðinu í kafla 5.2 að þakform þeirra sé bundið núverandi A-formi en heimilt verði að hækka þau skýli sem lægst standi í landi um allt að 1,5 m vegna sjávarhæðar.  Þar segir þar ennfremur: „Hæð skýlanna sjálfra má vera skv. þeim nýjustu austast á svæðinu.“ 

Af greindum upplýsingum og fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið með afdráttarlausum hætti að greind byggingarleyfi hafi farið í bága við skipulag svæðisins.  Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógidingu umræddra byggingarleyfa. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð:

Kæru vegna byggingarleyfisákvarðana skipulags- og byggingarfulltúa Hafnarfjarðar frá 6. október, 3. nóvember og 8. desember 2004 vegna bátaskýla við Lónsbraut 52, 54 og 64 er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Kröfu um ógilndingu ákvarðana skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 15. júní og 10. ágúst 2005 um veitingu byggingarleyfa vegna bátaskýla að Lónsbraut 60 og 68 er hafnað. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir