Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

2/2008 Gvendargeisli

Ár 2009, fimmtudaginn 27. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 2/2008, kæra á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkurborgar varðandi fjölgun bílastæða við Gvendargeisla 106. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. janúar 2008, er barst nefndinni samdægurs, kærir S, Gvendargeisla 106, Reykjavík, afgreiðslu skipulagsráðs frá 19. desember 2007 varðandi fjölgun bílastæða við Gvendargeisla 106.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 17. júlí 2007 var lögð fram fyrirspurn nokkurra íbúa við Gvendargeisla, þ.á m. kæranda, um fjölgun bílastæða inni á lóðum við götuna.  Var eftirfarandi fært til bókar af því tilefni:  „Lögð fram fyrirspurn, […] dags. 11. júlí 2007 ásamt undirskriftarlista 8 íbúa, dags. 6. júlí 2007, um fjölgun bílastæða inni á lóðum við Gvendargeisla 88-116.  Lögð fram umsögn Framkvæmdasviðs, dags. 2. ágúst 2007.  Neikvætt með vísan til umsagnar Framkvæmdasviðs.“ 

Með bréfi kæranda til skipulagsráðs, dags. 1. október 2007, fór kærandi m.a. fram á leyfi til þess að nýta hluta lóðar sinnar sem bílastæði.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 5. október 2007 var eftirfarandi bókað:  „Gvendargeisli 106, bílastæði, málskot.  Lagt fram bréf […], dags. 1. október 2007, varðandi bílastæði á lóð nr. 106 við Gvendargeisla.  Farið er fram á þrjú bílastæði á lóðinni í stað tveggja.  Sambærilegu erindi fyrir lóðir nr. 88-116 við Gvendargeisla var synjað á afgreiðslufundi skipulagsstjóra þann 17. ágúst 2007.  Vísað til skipulagsráðs.“  Á fundi skipulagsráðs 19. desember 2007 var eftirfarandi bókað:  „Neikvætt með vísan til fyrri afgreiðslu og eldri umfjallana.“  Var fundargerð skipulagsráðs staðfest á fundi borgarráðs 10. janúar 2008. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að í erindi hans til skipulagsyfirvalda hafi falist beiðni um að nýta hluta lóðar hans að Gvendargeisla 106 sem bílastæði og að fjarlægðir verði fimm metrar af fimmtán metra langri merkingu sem sýni bílastæði úti í götu fyrir framan lóð hans.  Bendir kærandi á að víðs vegar í hverfinu séu fleiri en tvö bílastæði á lóðum án þess að við því hafi verið amast af hálfu borgaryfirvalda. 

Af hálfu Reykjavíkurborgar er krafist frávísunar kærumálsins þar sem skipulagsráð hafi aðeins afgreitt fyrirspurn frá kæranda og því liggi ekki fyrir í málinu lokaákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. 

Niðurstaða:  Erindi nokkurra íbúa við Gvendargeisla, dags. 6. júlí 2007, til skipulagsráðs var meðhöndlað af hálfu ráðsins sem fyrirspurn um fjölgun bílastæða inni á lóðum.  Þegar erindi kæranda sama efnis kom til umfjöllunar í skipulagsráði var tekið fram í bókun ráðsins að um málskot væri að ræða og ber bókunin það með sér að eingöngu hafi verið til umfjöllunar fyrirspurn um hvort tiltekin framkvæmd yrði heimiluð. 

Með vísan til þessa verður hin kærða afgreiðsla ekki talin fela í sér lokaákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________            ____________________________
Ásgeir Magnússon                                               Þorsteinn Þorsteinsson