Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

77/2008 Lambhóll við Starhaga

Ár 2009, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2008, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að aðhafast ekki vegna breytinga á gluggum hússins Lambhóls við Starhaga.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. ágúst 2008, er barst nefndinni hinn 18. sama mánaðar, kærir K, Löngubrekku 5, Kópavogi, eigandi íbúðar í húsinu Lambhól við Starhaga í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúa að aðhafast ekki vegna breytinga á gluggum hússins Lambhóls.

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málvextir og rök:  Í nokkur ár virðist sem deilur hafi staðið milli eigenda fasteignarinnar Lambhóls við Starhaga m.a. um endurgerð glugga í eldri hluta hússins.  Með bréfi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 13. apríl 2006, var óskað eftir því að byggingarfulltrúi skæri úr deilum eigenda hússins varðandi glugga.  Var erindi þessu svarað með bréfi, dags. 15. janúar 2007, þar sem sagði m.a:  „Í fyrrnefndu bréfi yðar er óskað eftir úrskurði á því hvert skuli vera útlit glugga í eldra húsi, þeirri beiðni er hér með hafnað þar sem ekki er á valdsviði embættisins að kveða upp dóma.  Er yður leiðbeint um að leita til dómstóla vegna þessa ágreiningsefnis.“ 

Á fundi skipulagsráðs hinn 18. júní 2008 var lagt fram bréf byggingarfulltrúa, dags. 16. s.m., þar sem rakin voru deiluefni eigenda hússins.  Varðandi ágreining um endurgerð glugga í eldri hluta þess sagði m.a. eftirfarandi:  „Jafnframt hefur byggingarfulltrúi leiðbeint málsaðilum að leita til dómstóla með deilumálið, þar sem ekki er á valdsviði embættisins að dæma í málinu.  Er afskiptum embættisins af þeim þætti málsins lokið.“  

Hefur kærandi kært þessa ákvörðun byggingarfulltrúa svo sem að framan greinir. 

Af hálfu kæranda er bent á að kærunefnd fjöleignarhúsamála hafi í áliti sínu komist að þeirri niðurstöðu að leggja beri til grundvallar teikningar hússins frá árinu 1951 hvað gluggagerð þess varði.  Hafi byggingarfulltrúi verið beðinn um að aðhafast í málinu.  Hann hafi neitað því en samkvæmt byggingarreglugerð beri byggingarfulltrúa að bregðast við ef útliti húss er breytt án byggingarleyfis. 

Af hálfu borgaryfrvalda er krafist frávísunar málsins með þeim rökum að ekki sé um endanlega ákvörðun að ræða sem bindi enda á mál heldur fyrirspurn sem ekki sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Kærandi kom á framfæri mótmælum sínum vegna kröfu Reykjavíkurborgar um frávísun málsins og heldur því fram að hann kæri þá ákvörðun byggingarfulltrúa um að aðhafast ekkert í málinu en ekki svar hans, dags. 15. janúar 2007. 

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda máls þessa, dags. 15. janúar 2007, kemur fram að hann telji það ekki vera á valdsviði embættis síns að kveða upp dóma og er þar vísað til deilna eigenda hússins um breytingar á gluggum.  Framangreinda afstöðu sína kynnti byggingarfulltrúi síðar í bréfi til skipulagsráðs, dags. 16. júní 2008, þar sem reifaðar eru deilur eigenda hússins Lambhóls við Starhaga.

Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.  Gildir þá einu þótt fyrir hendi kunni að hafa verið ástæður sem réttlætt hafi drátt á því að mál væri kært.  Verður að líta svo á að með bréfi byggingarfulltrúa 15. janúar 2007 hafi kæranda verið tilkynnt um þá niðurstöðu byggingarfulltrúa að það væri ekki á valdsviði hans að skera úr ágreiningi eigenda um breytingar á gluggum umrædds húss og að kæranda hafi þá þegar mátt vera ljóst að byggingarfulltrúi myndi ekkert aðhafast í tilefni af erindi hans.  Þar sem meira en ár var liðið frá dagsetningu bréfs byggingarfulltrúa þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni ber samkvæmt 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga að vísa málinu frá.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.       

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.  

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________    _____________________________
Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson