Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

117/2007 Holtsmúli

Ár 2009, föstudaginn 19. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 117/2007, kæra á samþykkt hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 12. september 2007 um að veita stöðuleyfi fyrir 20 m² bjálkahúsi til eins árs að Holtsmúla II. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. september 2007, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kærir Þ, Miðvangi 3, Hafnarfirði, f.h. T ehf., eiganda jarðarinnar Holtsmúla I, Rangárþingi ytra, þá samþykkt hreppsnefndar Rangárþings ytra frá 12. september 2007 að veita stöðuleyfi fyrir 20 m² bjálkahúsi til eins árs að Holtsmúla II. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.  Ekki kom til þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar sem þær voru að mestu yfirstaðnar er kæran barst nefndinni.

Málavextir og rök:  Á fundi byggingarnefndar hinn 28. júní 2007 var samþykkt umsókn eiganda jarðarinnar Holtsmúla II um stöðuleyfi fyrir 20 m² bjálkahúsi til fjögurra ára.  Á fundi hreppsnefndar hinn 12. september s.á. var fundargerðin samþykkt þó með þeirri breytingu að stöðuleyfið var aðeins veitt til eins árs í stað fjögurra til samræmis við byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Af hálfu kæranda er því haldið fram að umrætt sumarhús muni hafa veruleg áhrif á hagsmuni hans sem landeiganda.  Það sé staðsett við veg sem liggi mjög nærri bænum og hafi neikvæð grenndaráhrif.  Þá hafi hið kærða leyfi leitt til þess að erfiðara hafi reynst að selja jörðina en ella. 

Af hálfu Rangárþings ytra er krafist frávísunar málsins þar sem kærandi eigi ekki einstaklegra lögákveðinna hagsmuna að gæta.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geti þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Í máli þessu verði ekki séð í hverju hinir einstaklegu lögákveðnu hagsmunir kæranda séu fólgnir. 

Hvað efnishlið málsins varði sé bent á að hið kærða leyfi sé veitt til eins árs og ekki sé um varanlega staðsetningu hússins að ræða. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 geta þeir einir skotið máli af því tagi sem hér um ræðir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.  Í máli þessu liggur fyrir að stöðuleyfi það er um er deilt var aðeins veitt til eins árs frá samþykkt þess hinn 12. september 2007 og verður það því ekki lengur lagt til grundvallar áframhaldandi stöðu húss á umræddum stað.  Hefur kærandi af þessum sökum ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hins kærða leyfis og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

__________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________          ________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson