Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

23/2006 Lónsbraut

Ár 2009, fimmtudaginn 2. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 23/2006, kæra á ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 6. október 2004, 3. nóvember 2004, 8. desember 2004, 15. júní 2005 og 10. ágúst 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. mars 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir E, eigandi bátaskýlis nr. 58 við Lónsbraut, Hafnarfirði, þær ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 6. október 2004, 3. nóvember 2004, 8. desember 2004, 15. júní 2005 og 10. ágúst 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði.  Staðfesti bæjarstjórn veitingu byggingarleyfanna fyrir Lónsbraut 60 og 68 hinn 7. mars 2006.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á þeim tíma er hinar kærðu ákvarðanir voru teknar var í gildi deiliskipulag fyrir suðurhöfn Hafnarfjarðar frá árinu 2000 er tekur til umrædds svæðis.  Í skilmálum deiliskipulagsins kemur m.a. fram að hæð bátaskýla við Lónsbraut megi vera samræmi við þau nýjustu sem standi austast á svæðinu og að heimilt sé að hækka sökkla þeirra skýla sem lægst standa um allt að 1,5 metra vegna sjávarhæðar. 

Hinn 6. október 2004 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar umsókn er fól m.a. í sér hækkun bátaskýlis að Lónsbraut 64 um 1,5 metra.  Var sú ákvörðun staðfest í skipulags- og byggingarráði hinn 7. mars 2005.  Þá tók hann fyrir og samþykki á afgreiðslufundi sínum hinn 3. nóvember 2004 umsókn vegna Lónsbrautar 52 um leyfi til að lengja hús um 1,0 metra og hækka það um 80 sentimetra.  Staðfesti skipulags- og byggingarráð þá ákvörðun hinn 7. mars 2005.  Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti hinn 21. desember 2005 breytingu á því leyfi er fól í sér hækkun skýlisins um 25 sentimetra.  Var sú ákvörðun lögð fram á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 6. janúar 2006 og staðfest í bæjarstjórn hinn 10. janúar s.á.  Ennfremur var samþykkt umsókn um hækkun og viðbyggingu bátaskýlis að Lónsbraut 54, til samræmis við hús nr. 52, á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 8. desember 2004.  Skipulags- og byggingarráð staðfesti erindið hinn 7. mars 2005. Hinn 15. júní 2005 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi leyfi fyrir endurbyggingu og stækkun bátaskýlis að Lónsbraut 60.  Var sú afgreiðsla lögð fram á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 24. febrúar 2006 og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna hinn 7. mars s.á. Hinn 10. ágúst 2005 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar umsókn um leyfi fyrir endurbyggingu og stækkun bátaskýlis að Lónsbraut 68.  Skipulags- og byggingarráð staðfesti afgreiðsluna hinn 24. febrúar 2006 og bæjarstjórn hinn 7. mars s.á. 

Kærandi máls þessa skaut veitingu byggingarleyfa varðandi greind bátaskýli til úrskurðarnefndarinnar í lok árs 2005, sem vísaði málinu frá hinn 9. febrúar 2006 með vísan til þess að lokaákvörðun hefði ekki verið tekin um veitingu þeirra þar sem á skorti að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefði staðfest umdeild leyfi. 

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að búið sé að hækka sökkla umdeildra bygginga verulega og stefni í að mænishæð þeirra verði allt að 2,5 – 3,0 metrum hærri en skýli kæranda og séu þau í engu samræmi við hæðir annarra skýla á svæðinu og gildandi deiliskipulag.  Kærandi hafi átt í vandræðum vegna aur- og vatnsflæðis að skýli sínu, sem hann hefði vænst að úr rættist þegar Lónsbrautin yrði hönnuð og lögð lægra en nú sé með hliðsjón af ákvarðaðri hæð bátaskýlanna í gildandi skipulagi.  Umræddar byggingar skemmi heildarsvip svæðisins vegna hæðar sinnar en auk þess sé þakhalli skýlisins að Lónsbraut 52 í engu samræmi við þakhalla annarra skýla. 

Málsrök bæjaryfirvalda:  Bæjaryfirvöld benda á að eigendur sumra bátaskýla á svæðinu hafi nýtt sér heimild í skipulagsskilmálum um að hækka gólf skýlanna um 1,5 metra og hafi skýlunum þá verið lyft til að gæta samræmis í þakhalla annarra skýla.  Á gildandi mæliblaði fyrir umrætt svæði sé gólfkóti greindur á einum stað 3,9 metrar sem gildi fyrir öll skýlin og sé kótinn miðaður við að gólf skýlanna sé yfir stórstreymi. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi Lónsbrautar 68 bendir á að hann hafi byggt skýlið í góðri trú en byggingaryfirvöld hafi stimplað teikningar af skýli hans.  Byggingarleyfishafi bátaskýlis að Lónsbraut 54 tekur fram að aðeins sé búið að byggja sökkul og því hvorki komin gólfhæð né mænishæð á húsið svo óljóst sé hvað verið sé að kæra.  Hafi alfarið verið farið að reglum og leyfum hvað varði byggingu hússins.  Öðrum byggingarleyfishöfum var veitt færi á að tjá sig en ekki liggja fyrir í málinu athugasemdir þeirra. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi í tilefni af fyrra kærumáli um sama efni. 

Niðurstaða:  Kærandi ber fyrst og fremst fyrir sig að með hinum kærðu byggingarleyfum sé vikið frá gildandi skipulagi um gólfhæð umræddra bátaskýla sem hafa muni áhrif á mótun aðkomu að skýlunum sem verði hærri en ella hefði orðið. 

Sveitarstjórn skal afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa frá 6. október, 3. nóvember og 8. desember 2004 á umsóknum um byggingarleyfi vegna Lónsbrautar 52, 54 og 64 hafi verið staðfestar í bæjarstjórn.  Af þessum ástæðum hafa greind byggingarleyfi ekki hlotið lögboðna meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og verður því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni hvað umdeild leyfi varðar, með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um veitingu byggingarleyfanna. 

Deiliskipulag það er í gildi var er umdeild byggingarleyfi varðandi bátaskýlin að Lónsbraut 60 og 68 voru veitt þykir að ýmsu leyti óljóst að því er tekur til heimilaðrar hæðar skýlanna og hæðarsetningar þeirra í landi.  Á skipulagsuppdrætti er ekki að finna upplýsingar um landhæð eða hæðarsetningu gólfplötu umræddra skýla.  Í greinargerð skipulagsins segir um yfirbragð bygginga á svæðinu í kafla 5.2 að þakform þeirra sé bundið núverandi A-formi en heimilt verði að hækka þau skýli sem lægst standi í landi um allt að 1,5 m vegna sjávarhæðar.  Þar segir þar ennfremur: „Hæð skýlanna sjálfra má vera skv. þeim nýjustu austast á svæðinu.“ 

Af greindum upplýsingum og fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið með afdráttarlausum hætti að greind byggingarleyfi hafi farið í bága við skipulag svæðisins.  Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógidingu umræddra byggingarleyfa. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð:

Kæru vegna byggingarleyfisákvarðana skipulags- og byggingarfulltúa Hafnarfjarðar frá 6. október, 3. nóvember og 8. desember 2004 vegna bátaskýla við Lónsbraut 52, 54 og 64 er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Kröfu um ógilndingu ákvarðana skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 15. júní og 10. ágúst 2005 um veitingu byggingarleyfa vegna bátaskýla að Lónsbraut 60 og 68 er hafnað. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir