Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

121/2008 Uppsalir

Ár 2009, föstudaginn 10. júlí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 121/2008, kæra vegna brota sveitarfélagsins Hornafjarðar á 29. og 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við skiptingu jarðarinnar Uppsala í Hornafirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags.  12. nóvember 2008, er barst nefndinni hinn 14. s.m., framsendi Skipulagsstofnun kæru S, Uppsalavegi 8, Sandgerði, f.h. P, meðeiganda að jörðinni Uppsölum 2 í Hornafirði, dags. 11. nóvember 2008, vegna brota sveitarfélagsins Hornafjarðar á 29. og 30. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 við skiptingu jarðarinnar Uppsala í Hornafirði. 

Skilja verður málskot kæranda svo að farið sé fram á að skipting jarðarinnar Uppsala í Uppsali 1, Uppsali 2 og jörðina Sunnuhlíð verði hnekkt. 

Málsatvik og rök:  Kærandi vísar til þess að á sínum tíma hafi jörðin Uppsalir verið skráð sem óskipt eign í veðmálabókum með tveimur eignarhlutum, Uppsölum 1 og 2, sem tilgreindir hafi verið í hundruðum.  Eftir 1976 hafi þinglýsingarstjóri skráð í veðmálabækur jörðina Uppsali „sem sér eign og eignarhlutann Uppsalir 2 í Uppsalajörðinni sem sér eign.“  Hafi það verið gert án samþykkis eigenda Uppsala 2 og án atbeina sveitarstjórnar. 

Í apríl 2008 hafi kærandi fengið upplýsingar um að Uppsalajörðinni hefði verið skipt upp í þrjár jarðir, Uppsali 1, Uppsali 2 og Sunnuhlíð sem skipt hefði verið úr eignahlutanum Uppsölum 1.  Þessar jarðir hafi fengið skráningu í Landskrá fasteigna sem sjálfstæðar fasteignir þótt engin landamerki hafi verið gerð milli eignarhlutanna, samþykki sveitarfélags fyrir skiptingunni hafi ekki legið fyrir og hún verið án samþykkis allra eigenda Uppsalajarðarinnar.  Kærandi hafi bent sveitarstjórnaryfirvöldum í Hornafirði á meint lagabrot í þessu efni en engar skýringar fengið frá þeim og ekki hafi verið farið að óskum eigenda Uppsala 2 um að Uppsalajörðin yrði skráð í Landskrá fasteigna í samræmi við þinglýst landamerki jarðarinnar sem hafi verið óbreytt frá árinu 1922. 

Telur kærandi Sveitarfélagið Hornafjörð hafa vanrækt þá lagaskyldu sína að halda landeignaskrá eins og mælt sé fyrir um í 29. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og með áðurgreindri skiptingu Uppsalajarðarinnar hafi sveitarfélagið brotið gegn 30. gr. laganna.

—–

Embætti byggingarfulltrúa Hornafjarðar hefur veitt úrskurðarnefndinni þær upplýsingar að í öllu falli frá síðari hluta áttunda áratugar síðustu aldar liggi ekki fyrir ákvarðanir af hálfu sveitarfélagsins um skiptingu umræddrar jarðar. 

Þá hefur Fasteignaskrá Íslands upplýst að skráning áðurgreindra jarðahluta hafi þegar verið fyrir hendi árið 1970.  Skráning Sunnuhlíðar sem sérstakrar fasteignar hafi nú, á árinu 2009, verið felld brott. 

Loks hefur sýslumaðurinn á Höfn upplýst að skipuð hafi verið landskiptanefnd til þess að afmarka eignarhluta jarðarinnar Uppsala og sé störfum hennar ekki lokið.  Þá liggi fyrir að kærandi hafi látist eftir að kæra barst í málinu og sé einkaskiptum í búi hennar lokið. 

Fyrirsvarsmaður kæranda í málinu hlaut við skiptin eignarhlut í Uppsölum 2 og verður hann því nú talinn aðili kærumáls þessa í skjóli hagsmuna sinna sem eigandi nefnds eignarhlutar. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sæta kæru til úrskurðarnefndarinnar stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga og samvinnunefndar miðhálendisins, þegar það á við, nema annað sé sérstaklega tiltekið í lögum.  Í ákvæðinu er kveðið á um að frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á. 

Af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum, er aflað hefur verið, verður ekki séð að fyrir liggi í máli þessu stjórnvaldsákvörðun varðandi umdeilda skiptingu eða skráningu jarðarinnar Uppsala sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar.  Í öllu falli liggur fyrir að möguleg stjórnvaldsákvörðun sem málið kann að varða hefur þá verið tekin fyrir mörgum áratugum og gæti af þeim sökum ekki fallið undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, en nefndin var sett á laggirnar með skipulags- og byggingarlögum nr. 73 /1997 er tóku gildi hinn 1. janúar 1998.

Með vísan til framanritaðs verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

___________________________              ________________________
Ásgeir Magnússon                                          Þorsteinn Þorsteinsson