Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

83/2013 Sautjándajúnítorg

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 83/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis um útgáfu á bráðabirgðaleyfi fyrir hundinn David Byron, örmerki nr. 352206000089460, til heimilis í íbúð nr. 207 að Sautjándajúnítorgi 3 í Garðabæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Húseigendafélagið, f.h. húsfélagsins Sautjándajúnítorgi 1-7, Sautjándajúnítorgi 3, Garðabæ, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis frá 24. júlí 2013 að veita bráðabirgðaleyfi til 23. október s.á. fyrir hundinn David Byron, til heimilis að Sautjándajúnítorgi 3, Garðabæ. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara er þess krafist að leyfistíminn verði styttur úr þremur mánuðum í einn mánuð.

Gögn málsins bárust frá heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis 11. september 2013.

Málavextir: Eigandi hundsins David Byron sótti um leyfi fyrir honum hinn 28. maí 2013 og fékk útgefið skráningarskírteini, dags. 20. júní 2013. Kærandi hafði þá samband við heilbrigðiseftirlitið og gerði þá athugasemd að tilskilið samþykki meðeigenda fyrir hundinum lægi ekki fyrir. Of fáir hefðu samþykkt og lægi ekki fyrir tilskilið hlutfall samþykkta. Var leyfishafa tilkynnt með bréfi 1. júlí s.á. að til þess að skráning hundsins yrði lögleg þyrfti heilbrigðiseftirlitið að fá að nýju fullnægjandi yfirlýsingu meðeigenda hans að stigagangi um samþykki fyrir hundinum. Bærust þessi gögn ekki fyrir 20. júlí s.m. teldist skráningin ólögleg. Tilskilin gögn um samþykki bárust ekki og var varanlegt leyfi afturkallað með bréfi til leyfishafa, dags. 24. júlí s.m. Var honum jafnframt tilkynnt með bréfinu að hundurinn yrði skráður til bráðabirgða til 23. október s.á. Kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að samkvæmt 33. gr. a fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 sé hundahald í fjöleignarhúsi háð samþykki 2/3 hluta eigenda sem hafi sameiginlegan inngang eða stigagang. Eigandi skuli afla samþykkis annarra eigenda og fá leyfi fyrir dýrinu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það á við, áður en dýrið komi í húsið. Eigandi hundsins hafi, allt frá því að hún eignaðist hann fyrir mörgum mánuðum síðan, haft tækifæri til þess að afla tilskilins samþykkis meðeigenda sinna. Það hafi hún ekki gert. Tilskilins samþykkis hafi ekki verið aflað og hafi eigandi hundsins þannig brotið á rétti meðeigenda sinna í húsinu allt frá því að hann var fluttur í húsið í mars 2013. Upphafleg ákvörðun heilbrigðiseftirlitsins um að skrá hundinn hafi verið ólögmæt. Eigandi hundsins hafi síðan fengið nægilega langan frest til að gera viðeigandi ráðstafanir hans vegna. Þá hafi hann fengið fullnægjandi viðvörun um afleiðingar þess að afla ekki tilskilins samþykkis meðeigenda. Þegar litið sé til þess að með áframhaldandi dvöl hundsins í húsinu sé brotið á lögbundnum réttindum annarra íbúa hússins telji kærandi eðlilegt og nauðsynlegt að eiganda hundsins verði gert að fjarlægja hann úr húsinu án frekari tafar.

Málsrök heilbrigðisnefndar Hafnafjarðar- og Kópavogssvæðis: Heilbrigðisnefndin bendir á að um hundahald í Garðabæ gildi heilbrigðissamþykkt nr. 154/2000, sem sé sett með vísan til ákvæða 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir en þar sé sveitarfélögum m.a. heimilað að setja samþykktir um takmörkun gæludýrahalds. Samkvæmt 4. gr. samþykktarinnar séu allir hundar sem haldnir séu á eftirlitssvæðinu skráningarskyldir. Sé skráningarskylda grundvöllur fyrir eftirliti og afskiptum sveitarfélagsins af hundahaldinu. Við skráningu hundsins hafi verið tekið við gögnum sem eigandi hans hafi lagt fram og hafi leyfishafi fengið skráningarskírteini til staðfestingar skráningunni. Í ákvæðum fjöleignarhúsalaga komi fram að eigandi skuli afla samþykkis 2/3 sameigenda og fá leyfi fyrir dýrinu samkvæmt reglum viðkomandi sveitarfélags, þar sem það eigi við, áður en dýrið kemur í húsið. Heilbrigðisnefnd beri að fara að ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir, samþykkt um hundahald og stjórnsýslulögum við störf sín. Sé þess krafist að hafnað sé kröfu um ógildingu á útgáfu hins umdeilda bráðabirgðaleyfis, enda hafi ekkert komið fram um að ákvörðunin hafi byggst á röngum forsendum. Hafi meðalhófs verið gætt við afgreiðslu málsins með því að fara ekki strangar í sakir en nauðsyn hafi borið til.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist niðurfellingar á bráðbirgðaleyfi fyrir hundahaldi. Fyrir liggur að leyfi var veitt og skráningarskírteini gefið út 20. júní 2013, í samræmi við 4. gr. samþykktar um hundahald í Garðabæ, Hafnarfirði og Kópavogi nr. 154/2000. Það leyfi var síðan afturkallað með bréfi 24. júlí s.á. vegna athugasemda kæranda um að samþykkis tilskilins fjölda sameigenda að Sautjándajúnítorgi 1-7 hefði ekki verið aflað. Nýtti heilbrigðiseftirlit sér heimild 1. mgr. 4. gr. samþykktarinnar og gaf út bráðabirgðaleyfi fyrir hundinum til þriggja mánaða. Þennan tíma skyldi leyfishafi nýta til að finna hundinum annan dvalarstað, en leyfið skyldi renna út 23. október 2013.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Hið umdeilda bráðabirgðaleyfi var gefið út til þriggja mánaða og síðasti gildisdagur þess var 23. október 2013. Samkvæmt gögnum málsins var leyfið ekki framlengt og rann það því út á tilsettum degi, eða fyrir um einu ári og fimm mánuðum síðan. Ljóst er að hin kærða ákvörðun hefur ekki lengur réttarverkan að lögum þar sem gildistími hins umdeilda bráðabirgðaleyfis er löngu liðinn. Verður því ekki séð að kærandi eigin lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þeirrar ákvörðunar. Máli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

21/2014 Viðvík

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 26. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 21/2014, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra um álagningu heilbrigðiseftirlitsgjalds fyrir árið 2012 vegna vatnsveitu að Viðvík í sveitarfélaginu Skagafirði.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. mars 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir K, Viðvík, Sauðárkróki, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra að leggja á kæranda heilbrigðiseftirlitsgjald fyrir árið 2012 vegna vatnsveitu að Viðvík í sveitarfélaginu Skagafirði. Skilja verður málskot kæranda svo að að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefninni 11. apríl 2014.

Málsatvik og rök: Með greiðsluseðli gefnum út 31. desember 2012 var lagt á kæranda „heilbrigðiseftirlitsgjald 2012“, kr. 19.056, með gjalddaga 21. janúar 2013 og eindaga 4. febrúar s.á. Gjaldið kom til vegna eftirlits á vegum Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra á vatnsveitu kæranda að Viðvík í Skagafirði þar sem fram fer mjólkurframleiðsla. Með tölvupósti 5. febrúar s.á. var gjaldinu mótmælt af hálfu kæranda. Var þess farið á leit að gjaldtakan yrði rökstudd og krafan felld niður. Svar barst frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra með tölvupósti 14. s.m. Í framhaldinu var eindaga frestað til 10. mars s.á. að ósk kæranda.

Með tölvupósti heilbrigðiseftirlitsins 17. júlí 2013 var kæranda bent á að hann gæti vísað ágreiningi um framkvæmd laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvernd og reglugerða settra samkvæmt þeim til sérstakrar úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, sbr. 31. gr. laganna. Heilbrigðiseftirlitið hefði gefið umbeðnar skýringar á gjaldtökunni en ef enn væri ágreiningur um hana væri rétti farvegurinn að kæra málið til úrskurðarnefndarinnar. Hinn 9. október s.á. var kæranda svo tilkynnt með tölvupósti frá að á næsta fundi heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra yrði lagt til að starfsleyfi vatnsveitu kæranda yrði fellt úr gildi þar sem ekki hefðu enn verið greidd lögbundin eftirlitsgjöld fyrir árið 2013. Var kæranda gefinn kostur á að koma fram sínum sjónarmiðum á fundi heilbrigðisnefndarinnar og var jafnframt ítrekuð ábending um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar. Samdægurs var heilbrigðiseftirlitinu tjáð að kært hefði verið til úrskurðarnefndarinnar um sumarið en erindi kæranda þar um mun hafa verið verið sent til umhverfis- og auðlindaráðuneytis í stað úrskurðarnefndarinnar. Í tölvupósti 11. október 2013 áréttaði heilbrigðiseftirlitið að ágreiningnum skyldi skotið til nefndarinnar. Hinn 2. desember 2013 barst kæranda svarbréf frá umhverfis og auðlindaráðuneyti og er í niðurlagi þess bent á að heimilt sé að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar. Í kjölfar frekari samskipta við heilbrigðiseftirlitið skaut kærandi málinu svo til úrskurðarnefndarinnar hinn 25. mars 2014, svo sem að framan greinir.

Kærandi krefst niðurfellingar eftirlitsgjaldsins á þeirri forsendu að gjaldið hafi hvorki stoð í lögum né gjaldskrá. Sýni sé eingöngu tekið annað hvert ár en gjaldið innheimt á hverju ári. Ekki sé lögmætt að innheimta gjald fyrir árið 2012 þegar ekkert sýni hafi verið tekið. Gjaldskráin sé breytileg þar sem hún byggi á áætlunum sem breytist á milli ára og megi ekki vera hærri en sem nemi kostnaði við eftirlitið. Sé gjaldtakan ólögmæt þar sem ekki sé neinn kostnaður við sýnatökuna þau ár sem ekkert sýni er tekið.

Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra er bent á að kærufrestur sé liðinn samkvæmt 4. gr. laga nr. 130/2011 en heilbrigðiseftirlitið vilji gjarnan láta skera úr málinu. Bent sé á að samkvæmt lögum og reglugerðum hafi heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga umsjón með neysluvatni sem feli í sér eftirlit með vatnsvernd, skoðun vatnsbóla, innra eftirlit og sýnatöku. Árið 2004 hafi Umhverfisstofnun farið að gera ríkari kröfur til vatnsveitna er þjónuðu mjólkurframleiðendum á þeim grundvelli að þar færi fram matvælaframleiðsla samkvæmt matvælalögum nr. 93/1995. Nú sé skylt að taka sýni annað hvert ár úr þeim vatnsbólum sem sýnt hefðu góðar niðurstöður tvö ár í röð. Gjaldskrá Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra hafi verið samþykkt af heilbrigðisnefnd Norðurlands vestra, eins og lög kveði á um, og birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Niðurstaða: Kæruheimild til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, ásamt síðari breytingum. Samkvæmt 2. mgr. 31. gr. fer um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. þeirra laga er kærufrestur í máli einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. ákvæðisins er þó tekið fram að kæra verði ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Kæranda var ítrekað leiðbeint um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar eins og nánar er rakið í málsatvikum. Kæra barst nefndinni hins vegar ekki fyrr en 25. mars 2014 eða ríflega þremur mánuðum frá því að kæranda var síðast leiðbeint um kæruleið og var þá liðið á fjórtánda mánuð frá hinni umdeildu álagningu og mótmælum kæranda á henni. Þar sem kæra í máli þessu barst þegar meira en ár var liðið frá því að kæranda var kunnugt um hina kærðu ákvörðun er óheimilt að taka málið til efnismeðferðar, sbr. áðurnefnda 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

16/2010 Hrauntunga

Með
Árið 2015, föstudaginn 27. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 16/2010, kæra vegna afgreiðslu Kópavogsbæjar á erindi vegna stækkunar húss að Hrauntungu 59, sem fólst í nýtingu sökkulrýmis, og vegna skilgreiningar bæjaryfirvalda á umferðarrétti um lóðina Hrauntungu 51 að baklóð Hrauntungu 59.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. mars 2010, er barst nefndinni 17. s.m., kærir Sveinn Guðmundsson hrl., f.h. Ó, Hrauntungu 51, Kópavogi, afgreiðslu Kópavogsbæjar á erindi kæranda vegna stækkunar hússins að Hrauntungu 59, sem fólst í nýtingu sökkulrýmis, og vegna skilgreiningar bæjaryfirvalda á umferðarrétti um lóðina Hrauntungu 51 að baklóð Hrauntungu 59.

Gerir kærandi þá kröfu að réttur hans vegna lóðarinnar Hrauntungu 51 verði viðurkenndur og að umferðarréttur nágranna verði þannig takmarkaður í samræmi við skilgreiningu bæjaryfirvalda Kópavogs frá 7. ágúst 2007.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málavextir: Raðhús kæranda nr. 51 við Hrauntungu er innst í botngötu sem liggur að húsunum nr. 43-51 (oddatölur) við þá götu og stendur gegnt raðhúsi nr. 59 við götuna. Greind raðhús eru með aðalinngang að austan og kjallarainngang úr bakgarði að vestan og liggur sitthvor botngatan að framhlið húsanna.

Forsaga málsins er sú að á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 7. ágúst 2007 var tekið fyrir erindi kæranda varðandi eignarrétt á bílastæðum við lóðina að Hrauntungu 51. Á fundinum samþykkti nefndin umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, dags. 7. ágúst 2007, þar sem fram er tekið: „Samkvæmt þinglýstum lóðarleigusamningi eru umrætt svæði sem afmarkað er af hálfu lóðarhafa, innan lóðar. Um er að ræða svæði innan lóðar sem telst vera hluti götunnar þe. bílastæði eða snúningshaus. Þar sem umrætt svæði er hluti af götu en innan lóðar eru afnot nágranna af umræddri lóð háð verulegum takmörkunum. Slík afnot byggja á umferðarrétti sem felst eingöngu í tímabundinni aðkomu að lóð t.d. til umhirðu og viðhalds. Sem dæmi má nefna er aðkoma lóðarhafa að Hrauntungu 51 að sinni lóð háð umferðarrétti í gegnum lóðirnar Hrauntungu 43-49. Umræddur lóðarhafi hefur samsvarandi rétt til aðgangs að bakgarði sínum í gegnum lóðirnar Hrauntungu 31-41.“

Á fundi bæjarráðs Kópavogs 21. febrúar 2008 var á dagskrá erindi kæranda varðandi aukna umferð um lóðina að Hrauntungu 51 vegna framkvæmda við Hrauntungu 57 og 59. Var ákveðið að óska eftir umsögn byggingarfulltrúa og á fundi ráðsins 28. s.m. var byggingarfulltrúa falið að svara kæranda á grundvelli hennar. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 19. mars 2008, segir: „Teikningar húsa við Hrauntungu (Sigvaldahús) sýna kjallara með gluggum og útgönguhurð. Þrátt fyrir það þá er óheimilt að nýta næsta botnlanga fyrir vestan til aðkomu að húsunum Hrauntungu 57 og 59.“

Með bréfi, dags. 8. apríl 2009, fór kærandi fram á við skipulagsnefnd að skoðað yrði m.a. lögmæti stækkunar kjallara hússins að Hrauntungu 59, hvort hækkun nýtingarhlutfalls lóðarinnar kallaði á grenndarkynningu og hvort eðlileg aðkoma að kjallaranum væri um aðalinngang hússins og íbúar þar hefðu aðgang að bílastæði inni á lóð Hrauntungu 59.

Skipulagsnefnd tók bréf kæranda fyrir hinn 15. desember 2009 þar sem fyrir lá umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, dags. 10. s.m. Í umsögninni kemur m.a. fram að við skoðun á vettvangi hafi komið í ljós að lítill gluggi sé á vesturhlið hússins að Hrauntungu 59 þar sem upphaflegar teikningar sýni óútgrafið rými. Gluggar séu á samsvarandi stað á fleiri húsum í götunni og því virðist sem þetta rými hafi verið grafið út í allmörgum tilfellum. Húsin séu byggð á árunum 1965-1969 og hafi þetta verið látið óátalið í mjög langan tíma. Eigandi Hrauntungu 59 segist ekki hafa stækkað húsið frá því að hann keypti það árið 2004 og því eðlilega ekki sótt um leyfi. Telji umsagnaraðili ekkert benda til þess að núverandi eigandi hafi gert umrædda breytingu og ekki sé ástæða til að krefjast breytinga eða beita viðurlögum vegna tilhögunar í kjallara hússins.

Í greindri umsögn kemur fram að við athugun hafi komið í ljós að í mörgum tilfellum liggi gangstéttir frá inngangi á vesturhlið út að lóðarmörkum og ekki sé girt fyrir þann aðgang að lóðarmörkunum. Þannig hátti m.a. til bæði í Hrauntungu 51 og 59 og líklegt sé að opið hafi verið fyrir aðkomu gangandi vegfarenda að bakhlið húsanna frá upphafi. Ekki sé hægt að banna slíka umferð sem hafi að öllum líkindum viðgengist í um 40 ár. Hins vegar hafi ekki verið gert ráð fyrir aðkomu bifreiða að bakhlið húsanna nema í þeim tilfellum sem um hafi verið getið í fyrri umsögn um málið. Snúningshaus liggi að gangstígnum bak við Hrauntungu 59 sem alls ekki sé bílastæði fyrir íbúa kjallara hússins. Eigandi Hrauntungu 59 hafi mótmælt því að hann beini allri umferð leigjenda kjallarans um lóðina að Hrauntungu 51. Aðeins sé um að ræða eðlilega og mjög takmarkaða umferð sem samræmist algerlega hefðum og venjum sem skapast hafi í hverfinu. Í umsögninni er komist að þeirri niðurstöðu að aðkoma gangandi vegfarenda sé heimil að bakhlið húsa við Hrauntungu og ekki sé rétt að gera ráðstafanir til að hindra aðkomu. Komi t.d. ekki til álita að krefjast þess að allar lóðir verði afgirtar baka til. Á meðan aðeins sé um gangandi umferð að ræða, auk tilfallandi aðkomu ökutækja vegna umhirðu og viðhalds, sé ekki ástæða til að grípa til sérstakra aðgerða annarra en þeirra að upplýsa eigendur Hrauntungu 59 um skilning bæjaryfirvalda á umferðarrétti um lóð Hrauntungu 51. Hins vegar komi til greina að grípa til viðeigandi ráðstafana ef bifreiðaumferð verði meiri en ætlast sé til eða ef íbúar Hrauntungu 59 leggi bílum sínum á lóð Hrauntungu 51.

Skipulagsnefnd tók undir framangreinda umsögn og lagði til að eigendur húsanna að Hrauntungu 51 og 59 yrðu upplýstir um afstöðu bæjaryfirvalda og að ekki yrði gripið til neinna aðgerða af hálfu skipulagsnefndar að svo stöddu. Var niðurstaðan kynnt kæranda og eiganda Hrauntungu 59 með bréfi, dags. 18. desember 2009.

Kærandi ritaði skipulagsnefnd bréf, dags. 23. desember 2009, þar sem því m.a. er haldið fram að rannsóknarskylda stjórnsýslulaga hafi ekki verið uppfyllt við meðferð málsins. Til séu ljósmyndir sem sýni að gluggi á vesturhlið hússins nr. 59 við Hrauntungu hafi verið gerður snemma árs 2007. Árið 2006 hafi kærandi ítrekað lagt fram kvartanir og óskað eftir að leigjendur notuðu bílastæði austan við húsið. Hafi honum verið boðið inn og séð að lokað hafi verið fyrir aðkomu inn í íbúðina um aðalinnganginn með vegg og ekki hafi verið búið að opna inn í rými í sökklinum. Það sé skilningur kæranda að með óheimilli aðkomu að húsunum að Hrauntungu 57 og 59 sé í bréfi byggingarfulltrúa frá 19. mars 2008 átt við það þegar íbúum sé alfarið beint um kjallarainngang. Kærandi hafi óskað eftir því við eiganda Hrauntungu 57 að hann beindi umferð leigjenda í kjallara um aðalinngang hússins. Fullreynt sé að ná einhverri niðurstöðu við eigendur nefndra húsa í samræmi við samþykktir Kópavogsbæjar. Óski kærandi eftir því að rannsakað verði hvort brotið hafi verið gegn 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og ef rétt reynist þá verði sökkulrýmið fært í upprunalegt horf eins og það birtist á upphaflegum teikningum.

Með bréfi til bæjarráðs, dags. 29. janúar 2010, fór lögmaður kæranda fram á að kannað yrði til hlítar hvort rökstuddur grunur kæranda um stækkun hússins að Hrauntungu 59 og um aðkomu að kjallara þess húss væri í samræmi við veruleikann og að tilkynnt yrði til eiganda hússins að umferðaréttur um lóð kæranda væri háður takmörkunum. Bréfið var lagt fram á fundi bæjarráðs 11. febrúar 2010 og gerð svofelld bókun: „Lagt er til að viðkomandi aðila verði tilkynnt að málinu hafi lokið með afgreiðslu byggingarnefndar (sic) 15/12 sl. og að honum verði leiðbeint um kæruleið. Bæjarráð samþykkir tillögu um afgreiðslu og felur skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs að svara bréfritara.“

Málið var loks til umfjöllunar á fundi skipulagsnefndar hinn 16. febrúar 2010 þar sem m.a. var bókað: ,,… er erindið lagt fram að nýju, ásamt bréfi eiganda Hrauntungu 51 dags. 23. desember 2009. Jafnframt er lögð fram fundargerð bæjarráðs frá 11. febrúar 2010. Sviðstjóri gerði grein fyrir bréfi hans og skrifstofustjóra dags. 11. febrúar 2010 til eiganda Hrauntungu 51“. Í bréfi til lögmanns kæranda, dags. 17. febrúar 2010, var vísað í fyrrgreindan fund skipulagsnefndar og tekið fram að málið væri afgreitt á þessu stjórnsýslustigi og ekki komnar fram ástæður til endurupptöku þess.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að frá árinu 2006 hafi hann barist fyrir þeim rétti sínum að takmarkaður verði umferðarréttur þriðja aðila um lóð hans að Hrauntungu 51. Til margra ára hafi eigendur íbúðarhúsa við Hrauntungu 57 og 59 leigt út hluta af jarðhæð húsanna og stefnt leigjendum sínum um inngang sem snúi í vestur og teljist ekki aðalinngangur þeirra húsa. Eigandi íbúðarhússins að Hrauntungu 59 hafi komið málum þannig fyrir að ekki sé lengur hægt að komast inn í þann hluta hússins um aðalinnganginn, sem hafi haft í för með sér ómæld óþægindi fyrir kæranda árum saman. Bifreiðum hafi verið lagt til lengri tíma á lóð kæranda án þess að athugasemdum hans þar að lútandi hafi verið sinnt af eiganda eða leigjendum að Hrauntungu 59. Öll aðkoma að leiguhluta jarðhæðar hússins sé um lóð kæranda. Vegna sannanlegs umráðaréttar kæranda yfir lóð sinni eigi afnot nágranna af henni að vera háð verulegum takmörkunum. Slík afnot hafi verið skilgreind sem tímabundin aðkoma að lóð, t.d. til umhirðu og viðhalds, sbr. umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs, dags. 7. ágúst 2007. Þrátt fyrir þá skilgreiningu hafi bæjaryfirvöld kosið síðar að túlka aðkomu um lóð kæranda með mun rýmri hætti en fyrrgreind umsögn þeirra sjálfra hafi kveðið á um án þess að rökstyðja þá niðurstöðu með skírskotun til laga þar um.

Eigendur íbúðarhúsa að Hrauntungu 57 og 59 hafi verið að stækka fasteignir sínar, sem bæði megi sjá á vettvangi og með því að bera saman ytri ummerki á milli ára, eins og sjá megi á ljósmyndum. Þrátt fyrir ábendingar kæranda hafi yfirvöld ekki talið sér skylt að verða við áskorun hans um að gerðar yrðu athugasemdir og gripið yrði inn í ferlið. Við þetta allt vilji kærandi ekki una og óski eftir því að bæjaryfirvöld taki málið til formlegrar skoðunar og afgreiðslu í samræmi við lög og reglur.

Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld krefjast þess að kröfu kæranda verði hafnað enda sé afgreiðsla bæjarins á erindum kæranda bæði formlega og efnislega rétt.

Í kæru sé ekki tilgreint með ótvíræðum hætti hvaða ákvörðun sé verið að kæra en þó megi álykta að kærandi óski eftir að nýjustu ákvarðanir varðandi málið komi til skoðunar hjá úrskurðarnefndinni. Á fundi skipulagsnefndar hinn 15. desember 2009 hafi erindi kæranda verið afgreitt og hafnað að grípa til aðgerða í málinu. Ákvörðunin hafi byggst á umsögn skrifstofustjóra framkvæmda- og tæknisviðs Kópavogs, dags. 10. desember 2009. Í þeirri umsögn sé að finna þau sjónarmið sem byggt sé á af hálfu skipulagsnefndar og vísist til hennar hvað varði málsástæður og lagarök. Í janúar 2010 hafi lögmaður kæranda síðan sent erindi þar sem óskað hafi verið skoðunar á sama máli. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2010, hafi endurupptöku málsins verið hafnað.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök fyrir málatilbúnaði sínum sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu eru uppi álitaefni er snerta nýtingu sökkulrýmis húss að Hrauntungu 59 í Kópavogi, umferðarrétt íbúa þess húss um lóð kæranda að Hrauntungu 51 og afgreiðslur bæjaryfirvalda á erindum kæranda af því tilefni.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru á umræddum tíma, var m.a. óheimilt að breyta húsi eða notkun þess nema að fengnu leyfi sveitarstjórnar. Ef það var gert án tilskilins leyfis voru skipulags- og byggingaryfirvöldum tiltæk úrræði sem kveðið var á um í 56. gr. laganna. Í 5. mgr. ákvæðisins var tekið fram að byggingarnefnd gæti ávallt mælt fyrir um að fjarlægja skyldi ólöglega byggingu eða byggingarhluta, jarðrask skyldi afmáð eða starfsemi hætt og ef ekki var orðið við fyrirmælum byggingarfulltrúa eða byggingarnefndar innan frests sem sveitarstjórn setti gat hún ákveðið dagsektir þar til úr yrði bætt eða byggingarnefnd látið vinna verk á kostnað eiganda fasteignar.

Hinn 15. desember 2009 afgreiddi skipulagsnefnd erindi kæranda frá 8. apríl s.á. en þar hafði kærandi m.a. farið fram á að skoðað yrði hvort húsinu að Hrauntungu 59 hefði verið breytt frá samþykktum teikningum án leyfis. Umsögn var unnin fyrir nefndina vegna erindisins þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að ekki þætti tilefni til þvingunaraðgerða í tilefni af notkun sökkulrýmis. Afgreiddi skipulagsnefnd þann þátt málsins með því að taka undir nefnda umsögn. Kæranda var tilkynnt þessi niðurstaða skipulagsnefndar en ekki var leiðbeint um kæruheimild í samræmi við 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af nefndum aðdraganda málsins og afgreiðslu verður ekki annað ráðið en að fyrrgreind afgreiðsla skipulagsnefndar hafi aðeins falið í sér skoðun nefndarinnar á álitaefninu en ekki lokaákvörðun í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga enda á slík ákvörðun undir byggingarnefnd samkvæmt áðurnefndri 5. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í kjölfar tilkynningar til kæranda um niðurstöðuna setti hann hins vegar fram í bréfi, dags. 23. desember 2009, kröfu um að húsið að Hrauntungu 59 yrði fært til fyrra horfs en ekki liggur fyrir í gögnum málsins að sú krafa hafi verið tekin til formlegrar afgreiðslu af þar til bæru stjórnvaldi.

Í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga kemur fram að hlutverk úrskurðarnefndarinnar sé að úrskurða í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögum. Úrlausn á álitaefni um umferðarrétt um lóð kæranda að bakgarði Hrauntungu 59 ræðst ekki af ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nema í þeim tilfellum þegar skipulagskvöð er sett í deiliskipulagi um slíkan rétt. Um það er ekki að ræða í máli þessu. Það er því ekki á valdi sveitarstjórna eða úrskurðarnefnarinnar að skera úr um hvort um slíkan rétt sé að ræða eða um inntak þess réttar í máli þessu.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_________________________________
Ómar Stefánsson

_____________________________           _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

49/2014 Grettisgata

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 24. febrúar, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 49/2014, kæra á ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 7. febrúar 2014 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi reits 1.172.2, Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur, vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júní 2014, er barst nefndinni 6. s.m., kæra nánar tilgreindir íbúar að Grettisgötu 6, 8, 11, 12, 13, 13b, 13c, 16, 18, 19, 19b og 20b, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 7. febrúar 2014 um að samþykkja breytingar á deiliskipulagi reits 1.172.2, Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur, vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki gera kærendur þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Reykjavíkurborg 20. júní 2014 og 16. febrúar 2015.

Málsatvik og rök: Breyting á deiliskipulagi fyrir reit 1.172.2, Laugavegur, Frakkastígur, Grettisgata, Klapparstígur, vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu, var samþykkt af skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 7. febrúar 2014. Í breytingunni fólst að nýbyggingar á reitnum yrðu í takt við byggðamynstur á svæðinu, rými myndaðist milli húsa og varðveisla núverandi friðaðra húsa. Öðlaðist deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 21. mars 2014.

Kærendur benda á að framsetning á skipulagsuppdrætti sé ekki í samræmi við lög. Uppdrátturinn sé svo óskýr að erfitt sé að sjá í hverju breytingin sé fólgin. Þá hafi auglýsing fyrirhugaðra deiliskipulagsbreytinga ekki verið í samræmi við 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og ekki verið til þess fallin að ná fram markmiðum um íbúasamráð. Tillöguna hafi borið að kynna á íbúafundi. Slíkur fundur hafi ekki verið haldinn og leiði sá málsmeðferðarannmarki til ógildingar deiliskipulagsins. Loks gangi deiliskipulagið með ólögmætum hætti gegn verulegum nábýlis- og grenndarhagsmunum kærenda.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Sé kæra of seint fram komin, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun um deiliskipulagsbreytingu reits 1.172.2 sem  samþykkt var af skipulagsfulltrúa Reykjavíkur hinn 7. febrúar 2014 og auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 21. mars s.á. Tók breytingin til lóðanna nr. 34A og nr. 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti 18. desember 2014 breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.2 vegna lóðanna nr. 34A og 36 við Laugaveg og nr. 17 við Grettisgötu. Öðlaðist sú deiliskipulagsbreyting gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 9. febrúar 2015. Hin kærða ákvörðun, sem varðaði sömu lóðir svo sem áður er lýst, hefur því ekki lengur réttarverkan að lögum og eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Nanna Magnadóttir

113/2013 Hamragil

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 24. febrúar, tók Nanna Magnadóttir formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 113/2013, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar sveitarfélagsins Ölfuss frá 28. nóvember 2013 á umsókn Íþróttafélags Reykjavíkur um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni á Hengilsvæðinu.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. desember 2013, er barst nefndinni 23. s.m., kæra formaður og varaformaður aðalstjórnar sem og framkvæmdastjóri Íþróttafélags Reykjavíkur, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Ölfuss frá 29. nóvember 2013 að synja umsókn félagsins um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku í námu þess á Hengilsvæðinu. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Ölfusi 7. janúar 2015.

Málsatvik og rök: Hinn 19. nóvember 2013 var umsókn Íþróttafélags Reykjavíkur um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingar- og umhverfisnefndar Ölfuss. Í umsókninni var tekið fram að óskað væri eftir endurnýjun námuleyfis til efnistöku og var þess jafnframt óskað að mið væri tekið af umsókninni við gerð næsta aðalskipulags. Fundargerð nefndarinnar ber með sér að farið var með umsóknina sem fyrirspurn og var svohljóðandi bókað: „Afgreiðsla. Lagt fram. Kynna skal erindið fyrir Orkuveitur Reykjavíkur.“ Var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt í bæjarstjórn 28. s.m. Með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa fyrir hönd skipulags- og byggingarnefndar var kæranda tilkynnt um afgreiðslu málsins. Segir jafnframt í bréfinu að erindi um opnun námu sé hafnað og að sú ákvörðun sé kæranleg til úrskurðarnefndarinnar. Hefur kærandi kært greinda afgreiðslu til nefndarinnar svo sem áður er lýst.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að forsendur sveitarfélagsins fyrir synjun erindis kæranda standist ekki. Fullyrðing sveitarfélagsins um að náman sé nær fjarsvæði vatnsverndar sveitarfélagsins sé einfaldlega röng. Röksemdir um að umferð þungaflutningstækja sé ekki æskileg geti ekki staðist þar sem vegstæði að námunni sé á opnum vegi. Kærandi hafi verið eigandi að landsvæðinu frá árinu 1932 og hafi efnistaka farið fram þar frá því upp úr 1970. Ekki hafi verið leitað umsagnar kæranda sem landeiganda við þá ákvörðun að hafa ekki námu á aðalskipulaginu. Hafi sveitarfélagið þannig reynt að takmarka ráðstöfunarrétt kæranda en slíkt verði ekki gert án þess að bætur komi fyrir.

Skipulagsyfirvöld Ölfuss  skírskota til þess að erindi kæranda hafi verið hafnað þar sem ekki sé gert ráð fyrir námunni í Aðalskipulagi Ölfuss 2010-2022. Sé það stefna sveitarfélagsins að vera með fáar en stórar námur. Samkvæmt náttúruverndarlögum þurfi allar námur leyfi og hafi lokafrestur þar um verið til 1. júlí 2012.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um synjun á umsókn kæranda um framkvæmdaleyfi fyrir efnistöku úr námu sinni. Samkvæmt 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er öll efnistaka á landi háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar í samræmi við ákvæði laga nr. 44/1999 um náttúruvernd. Í 52. gr. skipulagslaga er mælt fyrir um að stjórnvaldsákvarðanir á grundvelli þeirra laga sæti kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Svo sem nánar er lýst í málavöxtum samþykkti bæjarstjórn Ölfuss þá afgreiðslu umsóknar kæranda að hún væri lögð fram og kynnt fyrir Orkuveitu Reykjavíkur. Í því felst ekki nein sú ákvörðun sem bundið getur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Breytir synjunarbréf skipulags- og byggingarfulltrúa fyrir hönd skipulags- og byggingarnefndar engu þar um, enda er ákvörðunarvaldið á hendi sveitarstjórnar, sbr. áðurnefnda 13. gr. skipulagslaga. Þar sem ekki er fyrir hendi kæranleg ákvörðun í máli þessu verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_____________________________
Nanna Magnadóttir

66/2014 Aðalskipulag Grófin – Berg

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 19. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 66/2014, kæra á samþykkt bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 á tillögu að breyttu Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. júní 2014, er barst nefndinni 8. júlí s.á., kæra lóðarhafar Bakkavegar 18, 20, og 21 í Reykjanesbæ, þá ákvörðun Reykjanesbæjar frá 3. júní 2014 um að samþykkja tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 25. júlí 2014.

Málavextir og málsrök: Hinn 3. júní 2014 samþykkti sveitarstjórn Reykjanesbæjar breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 2008-2024 fyrir hafnar og miðsvæði. Jafnframt var gert ráð fyrir að íbúðasvæði á Berginu yrði minnkað og að lóðir Bakkavegar 17 og 19 yrðu á miðsvæði en ekki íbúðarsvæði. Þá var samþykkt breyting á afmörkun sjávar við hafnarsvæði. Staðfesti Skipulagsstofnun téða breytingu 11. s.m. og birtist auglýsing um gildistöku breytinganna í B-deild Stjórnartíðinda 26. júní 2014.

Kærendur taka fram að ekkert samráð hafi verið haft við þá vegna breytinganna og ekki hafi verið farið að lögum við auglýsingu þeirra. Séu umræddar breytingar á Bakkavegi verulega íþyngjandi fyrir kærendur. Rekstur hótels að Bakkavegi 17 hafi valdið kærendum miklu ónæði, líkt og þeir hafi margoft bent á. Muni sú mikla stækkun sem áformuð sé á athafnasvæði hótelsins skerða lífsgæði kærenda með ónæði og umferðarhættu og hafa áhrif á verðmæti og sölumöguleika fasteigna þeirra.  

Reykjanesbær krefst þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Hin kærða ákvörðun hafi hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar skv. 3. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. sömu laga sæti ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber samkvæmt lögunum að staðfesta ekki kæru til nefndarinnar. Af þessu leiði að umrædd ákvörðun sé ekki kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 29. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er aðalskipulag háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Er mælt svo fyrir um í 2. ml. 3. mgr. 32. gr. tilvitnaðra laga  að aðalskipulag taki gildi þegar það hafi verið samþykkt af sveitarstjórn, hlotið staðfestingu Skipulagsstofnunar og verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. Eins og að framan er rakið var hin umþrætta breyting á aðalskipulagi Reykjanesbæjar staðfest af Skipulagsstofnun 11. júní 2014 og birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. s.m. Sæta ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að fyrrgreindum lögum að staðfesta ekki kæru til úrskurðarnefndarinnar samkvæmt 1. mgr. 52. gr. téðra laga. Af þeim sökum brestur úrskurðarnefndina vald til að taka hina kærðu ákvörðun til endurskoðunar  og verður málinu því vísað frá nefndinni.

Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

65/2010 Klapparstígur

Með
Árið 2015, föstudaginn 30. janúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 65/2010, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 29. september 2010 um að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötureits, staðgreinireits 1.152.4, vegna lóðar nr. 19 við Klapparstíg í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. október 2010, er barst nefndinni 27. s.m., kærir Óskar Sigurðsson hrl., f.h. Ottó ehf. og G, sameigenda lóðar nr. 19 við Klapparstíg í Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs frá 29. september 2010 að synja umsókn um breytingu á deiliskipulagi Skúlagötureits, staðgreinireits 1.152.4 vegna lóðar nr. 19 við Klapparstíg. Af hálfu kærenda er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir skipulagsráð að taka umsókn kærenda til meðferðar að nýju.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingalög nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 21. júní 2011 og 8. og 27. janúar 2015.

Málavextir: Lóðin að Klapparstíg 19 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag svo nefnds Skúlagötureits, sem markast af Vatnsstíg, Hverfisgötu, Klapparstíg og Lindargötu. Tekur skipulagið til staðgreinireita 1.152.208 – 1.152.213, sem og til staðgreinireits 1.152.4, þar sem tilgreinda lóð er að finna.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 26. júní 2009 var lögð fram fyrirspurn Ottó ehf. um tillögu að breyttu deiliskipulagi reits 1.152.4. Gerði tillagan ráð fyrir stækkun byggingarreits og nýbyggingu með allt að sjö íbúðum á lóðinni nr. 19 við Klapparstíg og var málinu vísað til umfjöllunar verkefnisstjóra. Fyrirspurnin var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 14. ágúst s.á. ásamt umsögn hans um málið. Var ekki gerð athugasemd við erindið, með þeim skilyrðum sem fram kæmu í téðri umsögn og lutu t.a.m. að því að æskilegt væri að fá upplýsingar um fyrirhugað byggingarmagn og málsetningu byggingarreita áður en lengra yrði haldið. Þá kom fram að ekki væri tekin afstaða til fjölda íbúða að svo stöddu. Hinn 5. febrúar 2010 var lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra umsókn kærenda um breytingu á deiliskipulagi umrædds reits, sambærileg fyrri fyrirspurn, en jafnframt var tekið fram að byggingarmagn á lóð myndi aukast. Var afgreiðslu málsins frestað og vísað til þess að laga þyrfti uppdrætti. Á fundi skipulagsstjóra 19. s.m. var ákveðið að kynna málið fyrir formanni skipulagsráðs. Skipulagsráð tók málið fyrir hinn 10. mars og 7. júlí s.á. og frestaði afgreiðslu þess. Málinu var enn frestað á fundi ráðsins 14. júlí 2010 en því beint til embættis skipulagsstjóra að funda með lóðarhöfum.

Umsóknin var næst tekin fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 29. september 2010. Fyrir fundinum lágu bréf sem stöfuðu frá Ottó ehf., dags. 27. maí,  3. september og 23. september 2010, sem og orðsending frá skrifstofu borgarstjórnar, dags. 24. september s.á. Var umsóknin afgreidd með svofelldri bókun: „Synjað. Skipulagsráð getur ekki fallist á að breyta gildandi deiliskipulagi á þann hátt sem lagt er til í framlagðri tillögu lóðarhafa. Embætti skipulagsstjóra er falið að vinna að því með lóðarhöfum að gera nýja tillögu þar sem kannað er hvort unnt er að fella steinbæ á lóðinni inn í uppbygginguna.“ Var fundargerð skipulagsráðs lögð fram á fundi borgarráðs hinn 7. október 2010.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að samkvæmt 1. gr. viðauka 1.1. með samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 638/2001 með síðari breytingum sé skipulagsráði falið að afgreiða, án staðfestingar borgarráðs, verkefni er lúti m.a. að ákvörðunum um að hefja gerð deiliskipulags og óverulegum breytingum á deiliskipulagi skv. ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Hin kærða ákvörðun líti að synjun á deiliskipulagstillögu og feli í sér fyrirmæli um gerð nýrrar tillögu að deiliskipulagi. Falli ákvörðunin því undir framangreint ákvæði og þurfi ekki staðfestingu borgarráðs og sé því kæranleg til úrskurðarnefndarinnar.

Byggt sé á því að ekki hafi verið heimild til að synja umsókn með vísan til þess að fella beri rústir steinbæjar á lóðinni inn í fyrirhugaða uppbyggingu. Með deiliskipulagi fyrir umrætt svæði, sem samþykkt hafi verið í borgarráði árið 2004, hafi nýtingarhlutfall fyrir umrædda lóð verið „aukið“ úr 0,35 í 0,69 en kærendur telji að nýtingarhlutfallið hafi í reynd verið lækkað frá eldra skipulagi. Hafi kærandi miðað við nýtingarhlutfall allt að 1,5 í áætlunum sínum. Jafnframt hafi verið samþykkt að rífa mætti rústir steinbæjar á lóðinni auk þess sem reisa mætti nýbyggingu sem yrði tvær hæðir, kjallari og ris. Á grundvelli þessa skipulags hafi kærendur hafið undirbúning framkvæmda í nánu samstarfi og með vitund og vilja skipulagsyfirvalda. Kærendur hafi keypt fasteignina að Veghúsastíg 1 árið 2007 og með deiliskipulagsbreytingu, sem samþykkt hafi verið í skipulagsráði í mars 2008, hafi lóðin að Klapparstíg 19 verið sameinuð hluta lóðar að Veghúsastíg 1-1A. Ekki hafi verið gerð athugasemd við fyrirhugaða nýbyggingu á lóðinni á fundi skipulagsstjóra 26. júní 2009. Sé umsókn kærenda í samræmi við framangreint. Í ljósi þessa, sem og fyrri samskipta og funda með starfsmönnum Reykjavíkurborgar, hafi kærendur haft réttmætar væntingar um að tillaga þeirra yrði samþykkt. Byggi synjun skipulagsráðs á því að ekki megi rífa rústir steinbæjarins og gangi það gegn gildandi deiliskipulagi og fyrri skipulagsákvörðunum.

Í eignarráðum fasteignareiganda felist að hann geti ráðstafað eign sinni innan þeirra takmarka sem lög og ákvarðanir stjórnvalda, á grundvelli laga, setji honum á hverjum tíma. Hafi kærendur sett fram tillögu sína í samræmi við heimild 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og telji að sú hagnýting lóðarinnar sem tillagan geri ráð fyrir sé eðlileg og réttmæt. Ákvörðun í gildandi deiliskipulagi um að heimila niðurrif rústa steinbæjar bindi hendur skipulagsráðs. Heimildir stjórnvalda til að takmarka ráðstöfunarrétt fasteignareiganda yfir eign hans með því að banna honum að nýta eignina með þeim hætti sem hann kjósi verði að eiga sér skýra lagastoð. Skipulagsráð hafi hins vegar ekki bent á lagaheimild til stuðnings synjun sinni. Hafi borið að afgreiða umsókn í samræmi við fyrirmæli 26. gr. fyrrgreindra laga. Með synjun sé með ólögmætum og bótaskyldum hætti verið að takmarka nýtingarmöguleika eiganda fasteignarinnar að Klapparstíg 19. Þau hús sem fyrir séu á lóðinni séu óheppileg fyrir hvers konar nútímastarfsemi þar sem stærð þeirra og hönnun uppfylli ekki kröfur samtímans. Þá sé sérstaklega gagnrýndur sá dráttur sem orðið hafi á því að afgreiða umsóknina.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Skipulagsráði hafi verið fullkomlega heimilt að synja umsókn kærenda. Ekki sé tekið undir þær fullyrðingar að tillaga kærenda hafi verið unnin í samstarfi við skipulagsyfirvöld með öðrum hætti en að lóðarhafar hafi kynnt fyrirætlanir sínar fyrir starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs og skipulagsráði. Það sé hlutverk skipulagsyfirvalda að taka afstöðu til og leiðbeina borgurum um tillögugerð í skipulagsmálum, en slík leiðsögn geti þó aldrei komið í stað lögbundinnar meðferðar skipulagsráðs og borgarráðs. Kærendur hafi aldrei fengið formlegt jákvætt svar við fyrirspurn sinni um svo mikla uppbyggingu á lóðinni sem hann fari fram á. Þá hafi skipulagsyfirvöld með síðustu afgreiðslu sinni leiðbeint lóðarhöfum um hvaða skilyrði væru sett fyrir því að þeir fengju heimild fyrir aukinni nýtingu á lóðinni.

Skipulagsvald liggi hjá sveitarfélögum samkvæmt ákvæðum skipulagslaga. Engin trygging sé fyrir því að þær væntingar sem borgarar hafi um afgreiðslu mála sinna gangi alltaf eftir enda séu það borgaryfirvöld sem hafi endanlegt ákvörðunarvald í skipulagsmálum. Því sé mótmælt sem órökstuddu og ósönnuðu að annað nýtingarhlutfall sé í gildi en fram komi í gildandi deiliskipulagi. Beri lóðarhöfum að miða við það. Verði ekki annað ráðið af bókun skipulagsráðs við endanlega afgreiðslu málsins en að vilji skipulagsyfirvalda standi til að vinna áfram með kærendum að uppbyggingu lóðarinnar með það að leiðarljósi hvort unnt sé að fella steinbæinn inn í uppbygginguna. Hafi því ekki verið tekin nein lokaafstaða til þess hvort hann verði rifinn eða ekki. Skipulagsráði sé vel kunnugt um að heimilt sé í gildandi deiliskipulagi að rífa téðan steinbæ en vilji setja það skilyrði fyrir mögulegum breytingum að sú niðurrifsheimild verði felld niður. Sé bent á að lóðarhafi hafi aldrei sótt um að fá að nýta sér heimildir deiliskipulagsins, þ.m.t. heimild til að fjarlægja umræddan steinbæ.

Farið hafi verið fram á mjög auknar heimildir frá gildandi deiliskipulagi. Byggingarmagn hafi átt að auka til muna og nýtingarhlutfall að hækka úr 0,69 í 1,56. Þrátt fyrir að upphaflega hafi verið tekið jákvætt í að vinna tillögu að aukinni uppbyggingu sé skipulagsyfirvöldum fullkomlega heimilt í því ljósi að setja málefnaleg skilyrði fyrir samþykkt slíkrar umsóknar á síðari stigum máls. Telja verði að verndun rústa gamla steinbæjarins sé málefnalegt skilyrði, enda geti viðmið skipulagsyfirvalda til verndunar slíkra mannvirkja tekið breytingum í tímans rás. Heimild til niðurrifs steinbæjarins geti ekki bundið hendur skipulagsyfirvalda nema sótt sé um uppbyggingu í samræmi við gildandi deiliskipulag. Það hafi ekki verið gert og hafi kærendur því ekki getað gefið sér það fyrirfram að gengið yrði að öllum þeirra óskum án tillits til álits og vilja skipulagsyfirvalda.

Dráttur á afgreiðslu máls skýrist að mestu leyti af því að unnið hafi verið að bættri framsetningu tillögunnar, auk þess sem reynt hafi verið að fá lóðarhafa til að draga úr umfangi byggingaráforma. Aðaldráttur málsins helgist þó af því að ekki hafi náðst samstaða um tillöguna í skipulagsráði, þrátt fyrir að ýmsum möguleikum hafi verið velt upp til að lagfæra hana. Þá hafi ávallt verið litið á tillöguna sem verulega breytingu á deiliskipulagi og því hafi afgreiðslu skipulagsráðs verið vísað til fullnaðarafgreiðslu borgarráðs. Í tölvubréfi sem barst úrskurðarnefndinni 8. janúar 2015 kemur fram að fundargerð skipulagsráðs hafi verið lögð fram á fundi borgarráðs. Synjunin hafi ekki verið staðfest sem slík, en litið sé svo á að skipulagsráð hafi haft heimilt til að fullnaðarafgreiðslu málsins. 

Athugasemdir kærenda við greinargerð Reykjavíkurborgar: Kærendur árétta sjónarmið sín. Jafnframt fallist þeir ekki á rökstuðning borgarinnar fyrir þeim drætti sem orðið hafi á afgreiðslu málsins. Sé vísað til 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997 í því sambandi og telji kærendur að ákvörðunin sé að þessu leyti verulegum annmörkum háð. Þá sé því alfarið hafnað að skipulags- og byggingarsvið geti tekið ákvörðun um varðveislu nefnds steinbæjar með vísan til þess að viðmið skipulagsyfirvalda til verndunar slíkra mannvirkja geti tekið breytingum í tímans rás. Verði skipulagsráð að rökstyðja afstöðu sína að þessu leyti með ítarlegri hætti.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulagsráðs að synja beiðni um breytt deiliskipulag Skúlagötureits vegna lóðarinnar nr. 19 við Klapparstíg. Fól breytingin í sér stækkun byggingarreits lóðarinnar og að heimilað yrði að reisa nýbyggingu á lóðinni. Yrði nýtingarhlutfall lóðarinnar allt að 1,56 í stað 0,69. Var umræddri beiðni synjað á fundi skipulagsráðs hinn 29. september 2010 og var fundargerð ráðsins skipt í A-hluta sem fjallaði um skipulagsmál, B-hluta sem fjallaði um byggingarmál og D-hluta ýmis mál. Mál það sem hér er um deilt var afgreitt í A-hluta fundargerðarinnar. Hinn 7. október s.á. var fundargerð skipulagsráðs lögð fram á fundi borgarráðs þar sem bókað var að borgarráð samþykkti B-hluta fundargerðarinnar. Hins vegar verður ekki ráðið af fundargerð borgarráðs að fjallað hafi verið um afgreiðslu skipulagsráðs vegna umrædds erindis kærenda.

Skipulagsvald í hverju sveitarfélagi er í höndum sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 23. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og er samsvarandi ákvæði að finna í gildandi skipulagslögum nr. 123/2010. Eins og nú var landeiganda eða framkvæmdaraðila þó heimilt skv. 1. mgr. 23. gr. nefndra skipulags- og byggingarlaga að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Samkvæmt 6. gr. laganna sbr. og gr. 2.4 í þágildandi skipulagsreglugerð nr. 400/1998 fóru skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar. Ennfremur sagði m.a. í gr. 2.4 að skipulagsnefnd geri tillögu til sveitarstjórnar um endanlega afgreiðslu skipulagstillagna. Þá var mælt svo fyrir um í gr. 2.5 í skipulagsreglugerð að ákvarðanir skipulagsnefnda skyldi leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Skilja verður þágildandi laga- og reglugerðarákvæði, sem að framan eru rakin, á þann veg að skipulagsnefnd sveitarfélags hafi ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla erinda um samþykkt eða synjun á nýju eða breyttu deiliskipulagi heldur hafi það verið sveitarstjórnar að taka slíkar ákvarðanir. Hins vegar gat sveitarstjórn ákveðið í samþykkt sveitarfélagsins að framselja vald sitt með því að fela skipulagsnefnd eða öðrum í stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála og þá á grundvelli 44. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. breytingalög nr. 74/2003. Var rík nauðsyn á að slíkt valdframsal væri skýrt og afdráttarlaust í ljósi þess að um undantekningu var að ræða frá þeirri meginreglu að skipulagsvaldið sé í höndum sveitarstjórnar, sbr. það sem áður hefur verið rakið. Kveðið var á um heimildir skipulagsráðs til  fullnaðarafgreiðslu án staðfestingar borgarráðs í 1. gr. viðauka 1.1. við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar nr. 1200/2007 og var samhljóða ákvæði að finna í 12. gr. samþykktar fyrir Skipulagsráð Reykjavíkurborgar frá 5. apríl 2005. Þar voru talin ákveðin verkefni, m.a. var í b-lið talin „ákvörðun um að hefja gerð deiliskipulags“. Verða tilvitnuð ákvæði ekki skilin svo að skipulagsráð hafi haft heimild til að synja um gerð deiliskipulags án staðfestingar borgarráðs, enda er slík afgreiðsla ekki meðal þeirra verkefna sem talin eru upp í nefndum viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og samþykkt skipulagsráðs. Er og ljóst að íþyngjandi ákvörðun um að synja gerð deiliskipulags verður ekki jafnað við ívilnandi ákvörðun um að hefja gerð deiliskipulags

Samkvæmt framangreindu brast skipulagsráði heimild til lokaafgreiðslu málsins. Bar borgarráði að taka tillöguna fyrir sem sérstakt mál og afgreiða það með formlegum hætti, sbr. 49. gr. tilvitnaðra sveitarstjórnarlaga og 60. gr. nefndrar samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar. Eins og fyrr greinir ber samþykkt borgarráðs á B-hluta fundargerðar skipulagsráðs ekki með sér að tekin hafi verið afstaða til erindis kærenda sem fjallað var um í A-hluta fundargerðarinnar og hefur það því ekki fengið fullnaðarafgreiðslu að lögum. Fól hin kærða afgreiðsla skipulagsráðs því ekki í sér ákvörðun er bindur enda á mál og sætt getur kæru til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar sem málið hefur ekki verið til lykta leitt verður ekki hjá því komist að vísa kæru þessari frá með vísan til þess sem að framan greinir.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

___________________________
Nanna Magnadóttir

94/2014 Ice Lagoon ehf

Með
Árið 2014, miðvikudaginn 17. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2014, kæra á ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar frá 15. ágúst 2014 um að krefjast þess að kærandi hætti starfsemi við austurbakka Jökulsárlóns og fjarlægi lausafjármuni sem þar standi í óleyfi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

    úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. ágúst 2014, sem barst nefndinni 22. s.m., kærir Jón Gunnar Ásbjörnsson hdl., f.h. Ice Lagoon ehf., þá ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar frá 15. ágúst 2014 að krefjast þess af kæranda að hann hætti starfsemi við austurbakka Jökulsárlóns og fjarlægi lausafjármuni sem standi í óleyfi á svæðinu. Er þess krafist að að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að réttaráhrifum verði frestað á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 27. ágúst 2014, kærir sami aðili ákvörðun bæjarráðs Hornafjarðar frá 26. s.m. um að beita kæranda dagsektum að fjárhæð 250.000 krónur frá og með 2. september s.á. yrði hann ekki við þeirri kröfu sveitarfélagsins að fjarlægja hjólhýsi og húskerru af austurbakka Jökulsárlóns. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að réttaráhrifum ákvörðunarinnar verði frestað á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 96/2014, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Hornafirði 2. og 5. september og 10. nóvember 2014.

Málavextir: Hinn 10. janúar 2014 sótti kærandi um stöðuleyfi fyrir hjólhýsi undir starfsmannaaðstöðu, húskerru fyrir flotgalla, bíl fyrir farþegaflutninga og færanlega salernisaðstöðu á austurbakka Jökulsárlóns, sem er í landi jarðarinnar Fells. Kærandi hafði gert leigusamning, dags. 20. apríl 2012, við sameigendafélag Fells um leigu á landspildu á greindu svæði undir atvinnurekstur. Var umsóknin tekin til umræðu á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Hornafjarðar 21. janúar 2014 og bókað að nefndin væri jákvæð gagnvart erindinu. Óskaði nefndin eftir frekari gögnum en benti einnig á að samþykki landeigenda þyrfti að liggja fyrir. Hinn 11. júlí s.á. barst sveitarfélaginu bréf frá lögmanni eiganda minnihluta Fells þar sem gerðar voru athugasemdir við starfsemi kæranda en hún væri í óleyfi og óþökk eigandans. Hinn 22. s.m. sendi sveitarfélagið kæranda bréf þar sem skorað var á hann að hætta starfsemi við austurbakka Jökulsárlóns og fjarlægja lausafjármuni sem væru þar án leyfis. Bárust sveitarfélaginu andmæli frá kæranda með bréfi, dags. 1. ágúst. s.á., þar sem farið var fram á að sveitarfélagið rökstuddi ákvörðun sína en að auki bent á ýmsa annmarka við ákvörðunina. Hinn 13. s.m. var umsókn kæranda um stöðuleyfi á austurbakka Jökulsárlóns tekin aftur fyrir hjá umhverfis- og skipulagsnefnd. Taldi nefndin að húskerra og hjólhýsi væri stöðuleyfisskyldir lausafjármunir en synjaði umsókninni þar sem ekki lá fyrir samþykki allra eigenda jarðarinnar Fells. Með bréfi, dags. 15. s.m., svaraði sveitarfélagið framangreindri beiðni kæranda um rökstuðning fyrir ákvörðun sveitarfélagsins 22. júlí 2014. Var því lýst í bréfinu að litið væri svo á að í bréfi kæranda frá 1. ágúst fælist umsókn um stöðuleyfi. Var um það efni vísað til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsnefndar frá 13. ágúst s.á. um að ekki væri hægt að veita kæranda stöðuleyfi vegna skorts á samþykki allra eigenda Fells. Jafnframt var kæranda veittur frestur til 21. s.m. til að verða við áskorun sveitarfélagsins en að öðrum kosti yrði gripið til viðeigandi úrræða. Var ákvörðunin kærð til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir, og beindi kærandi beiðni um frestun réttaráhrifa til sveitarfélagsins á meðan kæra hans væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Hinn 26. s.m. barst svar frá sveitarfélaginu þar sem beiðni um frestun réttaráhrifa var hafnað en veittur var frestur til 1. september s.á. til að bregðast við áskorun sveitarfélagsins. Að öðrum kosti yrði dagsektum að fjárhæð 250.000 krónur beitt frá og með 2. september 2014 í samræmi við ákvörðun bæjarráðs frá 25. ágúst 2014. Hefur sú ákvörðun einnig verið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem áður er lýst.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að hann hafi tilskilin leyfi sem ferðaskipuleggjandi samkvæmt lögum um skipan ferðamála, en að auki sé hann með starfsleyfi fyrir rekstri sínum, útgefið af Samgöngustofu. Sé ákvörðun sveitarfélagsins efnislega röng þar sem umræddir lausafjármunir séu ekki stöðuleyfisskyldir og hafi túlkun sveitarfélagsins sjálfs verið slík í bréfi til eigenda Fells, dags. 15. desember 2011, þ.e. að ekki þyrfti stöðuleyfi fyrir farartæki „á ferð“ hvort sem um væri að ræða bíla, báta, hjólhýsi, kerrur eða flugvélar. Verði ekki fallist á að sveitarfélagið sé bundið af túlkun sinni sé á því byggt að hjólhýsi falli undir a-lið gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, en þar sé kveðið á um að skylda til stöðuleyfis hjólhýsa gildi frá 1. október til 1. maí ár hvert. Samkvæmt því sé því hafnað að hjólhýsi kæranda sé stöðuleyfisskylt allt árið um kring. Að auki sé því hafnað að þar sem hjólhýsið sé nýtt sem starfsmannaaðstaða og starfsstöð falli það undir b-lið greinarinnar. Að auki sé ekki fallist á að húskerra sé stöðuleyfisskyld. Séu þeir lausafjármunir sem séu stöðuleyfisskyldir tæmandi taldir í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerðinni og geti húskerra kæranda því ekki talist til stöðuleyfisskyldra muna. Hafi kærandi ekki viðurkennt í umsóknum sínum að lausamunir sínir séu stöðuleyfisskyldir. Að auki gangi sveitarfélagið ansi langt á rétt kæranda með því að nota skilning hans sem borgara gegn honum við beitingu opinbers valds. Geti slíkt ekki talist til góðra stjórnsýsluhátta.

Ekki sé kveðið á um það í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerðinni hvernig farið skuli með lóðir í sameign. Um slíkt hljóti að eiga að gilda almennar reglur eignaréttar. Samkvæmt meginreglum um sérstaka sameign þurfi aðeins samþykki meirihluta sameigenda til ráðstafana sem heyri til venjulegrar meðferðar og hagnýtingar eignar. Hljóti veiting stöðuleyfis að teljast til venjulegrar ráðstöfunar á sameign, enda sé það í eðli sínu óvaranleg og tímabundin ráðstöfun. Hafi kærandi gert leigusamning við sameigendafélag Fells, sem sé félag aukins meirihluta eigenda jarðarinnar Fells. Þar hafi honum verið veitt heimild til þess að hafa umþrætta lausafjármuni á umræddri landspildu. Fáist ekki staðist að samþykki allra sameigenda þurfi svo veita megi stöðuleyfi fyrir þessum hlutum, með þeim afleiðingum að minnihluti sameigenda geti komið í veg fyrir útgáfu slíks leyfis. Því hafi sveitarfélaginu borið að veita slíkt leyfi enda hafi öll skilyrði þess verið uppfyllt

Kærandi telji og að með bréfi, dags. 26. ágúst 2014, hafi sveitarfélagið tekið nýja ákvörðun í málinu og hafi af þeim sökum fallið frá því að krefja kæranda um að hætta starfsemi á austurbakka Jökulsárlóns. Hafi sú ákvörðun aðeins snúið að hjólhýsi og húskerru og hafi hún staðfest ákveðna annmarka á ákvörðun sveitarfélagsins frá 15. s.m. Að auki séu boðaðar dagsektir sveitarfélagsins fram úr öllu hófi og brjóti gegn meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar.

Málsrök sveitarfélags: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að hjólhýsi, sem notað sé sem starfsmannaaðstaða, salerni og húskerra, fyrir flotgalla, þurfi stöðuleyfi. Í 9. tl. 60. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 sé kveðið á um að nánari útfærslu á stöðuleyfi sé að finna í reglugerð. Í greindum tölulið sé ekki tæmandi talning á þeim lausafjármunum sem gætu fallið undir ákvæðið, sbr. orðalagið „og þess háttar“. Sé hjólhýsi skilgreint sem færanleg aðstaða til gistingar innan afmarkaðs svæðis en venjuleg notkun hjólhýsa tengist ekki atvinnustarfsemi. Ljóst sé að kærandi noti hjólhýsi á austurbakka Jökulsárlóns í allt öðrum tilgangi en venja sé fyrir. Að mati sveitarfélagsins sé hjólhýsi sem ætlað sé fyrir slíka notkun stöðuleyfisskylt allt árið um kring. Að auki sé talið að samþykki allra landeigenda verði að liggja fyrir svo umsókn um stöðuleyfi uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar, enda segi í 2. málslið gr. 2.6.1. í reglugerðinni að umsókn um stöðuleyfi skuli vera skrifleg og undirrituð af eiganda eða ábyrgðamanni viðkomandi hlutar og skuli fylgja samþykki eiganda eða lóðarhafa þeirrar lóðar þar sem fyrirhugað sé að lausafjármunirnir muni standa.

Þegar jarðir séu í sérstakri sameign gildi sú regla að hver sameigandi hafi allar þær eignarheimildir sem fylgi jörðinni, með þeim takmörkunum sem gera verði vegna hagsmuna hinna sameigendanna. Þetta þýði að hver og einn sameigandi geti hagnýtt sameignina með þeim hætti, og án samþykkis sameigenda sinna, svo fremi sem það skerði í engu rétt annarra sameigenda. Sameigandi hafi þannig ekki heimild til að raska rétti annarra sameigenda með því t.d. að framkvæma breytingar á sameign, ráðstafa henni, stofna til samninga eða gera aðrar breytingar, nema með samþykki þeirra allra. Mat á því hvort ráðstöfun eða afnot þarfnist samþykkis meirihluta eða allra sameigenda ráðist af heildarmati á öllum aðstæðum. Sé litið svo á að ef ráðstöfun eða afnot sameignar séu meiriháttar eða ef ráðstöfun eða óvenjuleg þurfi samþykki allra eigenda óskiptrar sameignar.

Starfstöð kæranda sé staðsett á landspildu á austurbakka Jökulsárlóns, stutt frá starfsstöð Jökulsárlóns ferðaþjónustu ehf. Í nýju deiliskipulagi sé hvorki gert ráð fyrir starfsemi né mannvirkjum á því svæði sem kærandi hafi haft starfsstöð sína. Vegna náttúruverndargildis svæðisins og mikilvægis þess fyrir ferðaþjónustu hafi sveitarfélagið ákveðið að ekki yrði skipulagt nema eitt þjónustusvæði fyrir Jökulsárlón en að auki hafi verið ákveðið að verja önnur svæði við lónið eins og kostur sé. Ný og aukin atvinnustarfsemi utan skipulagsskilmála, líkt og eigi við um starfsemi kæranda, gangi þvert gegn tilgangi og markmiðum nýja deiliskipulagsins.

Því sé hafnað að ný ákvörðun hafi verið tekin í málinu með erindi sveitarfélagsins, dags. 26. ágúst 2014. Hafi ákvörðun sveitarfélagsins frá 15. s.m., um að kæranda hafi borið að fjarlægja lausafjármuni á austurbakka Jökulsárlóns og láta af starfsemi, ekki breyst og standi því enn. Með erindi sínu frá 26. ágúst hafi sveitarfélagið ítrekað fyrri kröfur sínar um að kærandi skyldi fjarlægja greinda lausafjármuni sem hafi verið án stöðuleyfis. Sé að finna heimild í mannvirkjalögum til þess að innheimta allt að 500.000 krónur í dagsektir. Séu 250.000 krónur því vel innan marka. Við ákvörðun á fjárhæð sektarinnar hafi verið tekið tillit til áætlaðra daglegrar veltu kæranda af starfsemi sinni, sem og alvarleika brotsins. Hafi því meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar verið gætt við ákvörðun á upphæð dagsekta.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirra ákvarðana bæjaryfirvalda Hornafjarðar að krefjast þess að tilgreindir lausafjármunir verði fjarlægðir að viðlögðum dagsektum. Að auki er deilt um þá kröfu sveitarfélagsins að kærandi hætti starfsemi sinni á austurbakka Jökulsárlóns. Af gögnum málsins verður ekki ráðið á hvaða forsendum síðastnefnda krafa sveitarfélagsins er reist en ekki er á valdsviði sveitarfélagsins að fjalla um þau leyfi kæranda sem gefin hafa verið út af Ferðamálastofu og Samgöngustofu. Verður af þeim sökum ekki fjallað frekar um nefnda kröfu sveitarfélagsins.

Samkvæmt 9. tl. 60. gr. laga nr. 60/2010 um mannvirki skulu í reglugerð vera ákvæði um skilyrði fyrir veitingu stöðuleyfa fyrir ákveðna lausafjármuni. Skal þar einnig kveðið á um heimildir byggingarfulltrúa til að krefjast þess að þeir séu fjarlægðir séu ákvæði reglugerðarinnar ekki uppfyllt. Í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er leyfisveitandi skilgreindur sem það stjórnvald sem gefur eða á að gefa út byggingarleyfi samkvæmt reglugerðinni. Er jafnframt tekið fram að þar sé um að ræða byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags eða Mannvirkjastofnun, sbr. 48. tl. gr. 1.2.1. nefndri reglugerð. Skal sækja um stöðuleyfi til leyfisveitanda skv. gr. 2.6.1. í reglugerðinni, og er leyfisveitanda veitt heimild í gr. 2.6.2. til að krefjast þess af eiganda að hann fjarlægi þá lausafjármuni sem getið er um í gr. 2.6.1. og staðsettir eru án stöðuleyfis. Loks er Mannvirkjastofnun og byggingarfulltrúa heimilt að beita dagsektum skv. 2. mgr. 56. gr. mannvirkjalaga til að knýja menn til þeirra verka sem þau skulu hlutast til um samkvæmt lögunum eða reglugerðum.

Er ljóst samkvæmt skýru tilvitnuðu orðalagi byggingarreglugerðar og mannvirkjalaga að byggingarfulltrúar, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, hafa forræði á framangreindu. Er það og í samræmi við það sem segir í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa. Auk þess sé lagt til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar, en slík samþykkt hefur ekki verið sett af sveitarstjórn Hornafjarðar. Loks er tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti.

Svo sem áður er lýst beindu bæjaryfirvöld áskorun til kæranda um að fjarlægja hina umdeildu lausafjármuni og hætta starfsemi, umhverfis- og skipulagsnefnd synjaði um stöðuleyfi og dagsektir voru síðan lagðar á kæranda samkvæmt ákvörðun bæjarráðs. Af fyrirliggjandi gögnum verður hins vegar ekki ráðið að neinar sjálfstæðar ákvarðanir byggingarfulltrúa samkvæmt framangreindum ákvæðum hafi legið fyrir. Voru hinar kærðu ákvarðanir því ekki teknar í samræmi við málsmeðferð þá sem mannvirkjalög og byggingarreglugerð mæla fyrir um.
 
Verður máli þessu af framangreindum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda liggur ekki fyrir nein sú ákvörðun í málinu sem bindur endi á mál og kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson

 

80/2012 Þernunes

Með
Árið 2014, föstudaginn 5. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 80/2012, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 1. mars 2012 um að fela byggingarfulltrúa að krefjast þess að eigendum hússins að Þernunesi 6 í Garðabæ verði gert að lækka vegg á lóðinni í 1,80 m.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. ágúst 2012, er barst nefndinni næsta dag, kærir Sigurður G. Guðjónsson hrl., f.h. J, Þernunesi 6, Garðabæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Garðabæjar frá 1. mars 2012 að fela byggingarfulltrúa að krefjast þess að eigendur hússins að Þernunesi 6 lækki vegg á nefndri lóð. Var ákvörðun bæjarstjórnar kynnt kærendum með bréfi, dags. 10. júlí s.á. Með bréfi, dags. 7. nóvember 2014, veittu nýir eigendur nefndum lögmanni umboð til að kæra til úrskurðarnefndarinnar fyrrgreinda ákvörðun og verður að líta svo á að með því hafi þeir orðið aðilar að rekstri málsins fyrir nefndinni.

Gera kærendur kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Jafnframt er gerð krafa um að aðgerðir byggingarfulltrúa er miði að því að lækka greindan vegg verði bannaðar eða stöðvaðar komi til þeirra meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn málsins frá Garðabæ 7. mars og 22. október 2014.

Málsatvik: Mál þetta á sér langan aðdraganda en í allmörg ár hefur staðið styr um hæð veggjar á lóðinni að Þernunesi 6 í Garðabæ en árið 2004 var samþykkt byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð. Árið 2007 tók skipulagsnefnd fyrir tillögu að breytingu á deiliskipulagi téðrar lóðar. Samþykkti nefndin stækkun byggingarreits en hafnaði 2,20 m háum vegg á lóðinni. Fór tillaga skipulagsnefndar fyrir bæjarstjórn og var hún þar samþykkt.

Með bréfi bæjarritara til þáverandi eigenda, dags. 28. nóvember 2011, var m.a. frá því greint að á fundi bæjarráðs hinn 25. október s.á. hefði verið tekið fyrir að nýju bréf, dags. 21. janúar 2008, varðandi steyptan vegg á umræddri lóð. Fram kom að á fundi bæjarráðs hefði bæjarstjóri greint frá viðræðum við eigendurna og bréfritara og sagt að fullreynt væri að ná sátt í málinu en að bréfritari hefði farið fram á að veggur umhverfis verönd fyrir framan húsið  yrði lækkaður. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna teldi bæjarráð að hæð veggjarins væri 38 cm umfram það sem heimilað væri samkvæmt samþykktum teikningum og útgefnu byggingarleyfi. Var eigendum hússins gefinn kostur á að kynna sér fyrirliggjandi gögn og tjá sig um málið fyrir 12. janúar 2012. Jafnframt var tekið fram að hefðu athugasemdir ekki borist fyrir þann tíma mætti búast við að bæjaryfirvöld gripu til aðgerða til að knýja fram úrbætur í samræmi við útgefið byggingarleyfi. 

Bréfi bæjarritara var svarað með bréfi, dags. 12. janúar 2012, þar sem fram kom að umræddur veggur væri málsettur 1,80 m miðað við plötuhæð hússins. Málið var tekið fyrir að nýju á fundi bæjarráðs 21. febrúar s.á. Samþykkti bæjarráð með vísan til 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 að leggja til við bæjarstjórn „að fela byggingarfulltrúa að krefjast þess að húseigandi lækki hæð veggjarins um 38 cm eða í 180 cm eins og samþykktir uppdrættir sýna hæð hans miðað við hæðarkóda lóðar“. Samþykkti bæjarstjórn tillögu bæjarráðs hinn 1. mars s.á. og vísaði málinu til byggingarfulltrúa. Hafa kærendur kært þá afgreiðslu bæjarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar eins og fyrr greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að eigendur hússins að Þernunesi 8 hafi árið 2006 áritað samþykki sitt fyrir breytingum á teikningu af húsi kærenda. Sýni teikningin líkt og aðrir uppdrættir hinn umdeilda vegg. Hafi hönnunargögn hússins að Þernunesi 6 frá upphafi haft að geyma allar þær upplýsingar sem áskilið hafi verið í þágildandi 46. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, m.a. nákvæmar upplýsingar um vegginn. Byggingaryfirvöld hafi einnig fengið skýringarmynd af húsinu í þrívídd. Ofangreind gögn hafi byggingaryfirvöld lagt til grundvallar við útgáfu byggingarleyfis. Verði að ætla að byggingaryfirvöld hafi gætt að því hvort húsið samrýmdist sérstökum skipulags- og byggingarreglum bæjarins, ef einhverjar væru.

Í bréfi frá arkitektum hússins til byggingarfulltrúa í nóvember 2006 hafi verið tekið fram að téður veggur væri hluti af heildarhönnun hússins og rýmissköpun þess og væri því ekki girðing á lóðamörkum. Kalli breyting á honum á endurhönnun hússins. Byggi kótasetning í hönnunargögnum á upplýsingum frá Garðabæ. Veggurinn sé málsettur 1,80 m og liggi fyrir stimplaðar teikningar hjá byggingaryfirvöldum í Garðabæ með þeirri málsetningu. Þá hafi hvorki bæjar- né byggingaryfirvöld svarað fyrrnefndu bréfi, svo sem þeim beri þó að gera.

Byggingaryfirvöld séu bundin af útgefnu byggingarleyfi er byggi á 44. gr. laga nr. 73/1997. Um ívilnandi stjórnvaldsákvörðun hafi verið að ræða, kærendum til handa. Hafi hún falið í sér leyfi til að reisa hús kærenda og samþykkt á hönnunargögnum, sem unnin hafi verið af þar til bærum aðilum, sbr. 46. og 47. gr. sömu laga. Þá hafi í ákvörðuninni falist heimild til að hefja framkvæmdir sem nú sé löngu lokið. Geti byggingaryfirvöld hvorki afturkallað né breytt ákvörðuninni að hluta þar sem skilyrðum 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé ekki fullnægt, en samkvæmt 1. tl. 1. mgr. þess ákvæðis geti stjórnvald ekki afturkallað að eigin frumkvæði birta ákvörðun sé það til tjóns fyrir aðila máls.

Lækkun veggjarins myndi fela í sér verulegt fjárhagstjón fyrir kærendur og hreina eyðileggingu á hönnun hússins. Liggi ekkert fyrir um hvaða hagsmunir eigenda nærliggjandi fasteigna hafi skerts við útgáfu byggingarleyfisins. Samþykkt skipulagsnefndar frá nóvember 2006 um að breyta deiliskipulagi lóðarinnar hafi aðeins lotið að breytingu á byggingarreit hennar. Engar breytingar á veggnum hafi verið kynntar en hann hafi verið á aðaluppdrætti allt frá 2004. Bendi ekkert til þess að byggingarleyfi hússins sé haldið þeim annmörkum að það sé ógildanlegt. Verði það ekki afturkallað að hluta eða því breytt til að koma í veg fyrir hugsanlegar bótakröfur annarra eigenda fasteigna við Þernunes. Um fordæmisgefandi úrskurði megi m.a. vísa til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 35/2010.

Málsrök Garðabæjar: Af hálfu sveitarfélagins er tekið fram að á uppdráttum samþykktum árið 2004 hafi verið sýndur 2,20 m hár veggur á lóð. Þegar gerð hafi verið breyting á deiliskipulagi lóðarinnar hafi skipulagsnefnd samþykkt stækkun byggingarreits en hafnað því að veita leyfi fyrir 2,20 m háum vegg á lóð. Á grundvelli nýs deiliskipulags hafi verið gefið út nýtt byggingarleyfi í október 2007 en þar sé á uppdráttum sýndur 1,80 m hár veggur á lóðinni og sérstaklega tekið fram að girðing (veggur) sé lækkuð frá fyrri teikningum. Veggurinn hafi því verið sýndur á teikningu í samræmi við þágildandi 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar komi fram að ekki þurfi að leita samþykkis byggingarnefndar sé girðing/veggur á lóð ekki hærri en 1,80 m.

Við skoðun á teikningum hússins, þar sem sýnd sé sneiðing merkt A-A, sé gólfkóti (GK-kóti) við vegginn 8,70 en hæðarkóti við lóðarmörk, sem sýndur sé í sömu hæð, sé 8,26. Um sé að ræða mismun upp á 0,44 sem skýrist með engu öðru en að verið sé að beita blekkingum með því að falsa upplýsingar á teikningu. Á sömu sneiðingu sé sýndur 1,80 m veggur án þess að tilgreindur sé hæðarkóti jarðvegs við vegg. Því sé mótmælt að villandi framsetning á hæðarkótum á uppdrætti geti falið í sér heimild til að reisa 1,80 m vegg miðað við plötuhæð. Með sama hætti væri hægt að halda því fram að veggurinn eigi að vera 1,80 m, miðað við hæðarkóta á lóðarmörkum sem sé 8,26, eða 0,44 m lægri en hann sé í raun.

Við ákvörðun á hæð veggjarins beri að miða við jarðvegshæð lóðar þar sem veggurinn standi og leiði það beint af áðurnefndu ákv. 1. mgr. 67. gr. þágildandi byggingarreglugerðar. Í því komi skýrt fram að mæla eigi hæð girðingar/veggjar frá jarðvegshæð eða frá hæð lóðar við lóðarmörk sé hún meiri. Við mælingu á veggnum sé hann 2,18 m miðað við jarðvegshæð lóðar eða 38 cm of hár miðað við teikningar. Bygging veggjarins sé því ekki í samræmi við útgefið byggingarleyfi og sé það því lögmæt krafa af hálfu Garðabæjar, sbr. ákvæði 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 að krefjast þess að húseigandi lækki vegginn þannig að hann verði byggður á þann hátt sem leyfi standi til.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar bæjarstjórnar Garðabæjar frá 1. mars 2012 að fela byggingarfulltrúa að krefjast þess að veggur á lóðinni að Þernunesi 6 verði lækkaður.

Í 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa, og eftir atvikum Mannvirkjastofnun, veitt heimild til ýmissa þvingunaraðgerða, t.a.m. í þeim tilvikum þegar byggt er á annan hátt en leyfi stendur til. Þá kemur og fram í 2. mgr. tilvitnaðs ákvæðis að byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, geti krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag. Segir í almennum athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum að um sé að ræða nokkrar breytingar frá gildandi lögum. Lögð sé til sú grundvallarbreyting að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa, auk þess sem lagt er til að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Slík samþykkt var í gildi fyrir byggingarnefnd Garðabæjar og er áréttað þar að byggingarfulltrúi fari með verkefni sem mælt sé fyrir um í mannvirkjalögum. Loks er tekið fram í athugasemdunum að sveitarstjórnir komi að meginreglu til ekki að stjórnsýslu byggingarmála með beinum hætti. Í eðli sínu séu byggingarmál tæknileg mál og þess vegna sé eðlilegt að framkvæmd þeirra sé í höndum aðila með sérfræðiþekkingu á því sviði. Er ljóst samkvæmt skýru orðalagi laganna, sem nýtur frekari stuðnings í lögskýringargögnum, að byggingarfulltrúar, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, hafa einir forræði á að beita þeim heimildum sem um er rætt.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var bæjarstjórn ekki til þess bær að taka hina kærðu ákvörðun heldur þurfti til að koma sjálfstæð ákvörðun byggingarfulltrúa. Liggur ekki fyrir að slík ákvörðun hafi verið tekin og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

________________________________              _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

69/2013 Ásgarður

Með

Árið 2014, miðvikudaginn 12. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 69/2013, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 16. janúar 2013 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs, Grímsnes- og Grafningshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, mótt. 15. júlí 2013, kærir H, eigandi lóðar nr. 11 við Vesturbrúnir í landi Ásgarðs, samþykkt sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að breyta deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs. Gerir kærandi þá kröfu að nefnd ákvörðun verði felld úr gildi.

Úrskurðarnefndinni bárust gögn og greinargerð frá sveitarfélaginu 11. nóvember 2013.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 21. júní 2012 var lögð fram tillaga að breytingu á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs er fól í sér fjölgun lóða við Skógarholt og Vesturbrúnir. Samþykkt var að auglýsa tillöguna skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og staðfesti sveitarstjórn þá ákvörðun 4. júlí s.á. Var tillagan auglýst til kynningar, m.a. í Fréttablaðinu og Dagskránni 20. september 2012, og veittur frestur til athugasemda til 2. nóvember s.á. Barst ein athugasemd á kynningartíma. Hinn 7. nóvember 2012 var tillagan samþykkt óbreytt á fundi sveitarstjórnar og í kjölfar þess send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu. Taldi Skipulagsstofnun að framkominni athugasemd hefði ekki verið svarað efnislega og var málið tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 20. desember 2012. Mælti nefndin með því að tekið yrði tillit til innkominnar athugasemdar og að deiliskipulagsbreytingin yrði samþykkt að nýju með þeirri breytingu að ekki yrði lengur gert ráð fyrir nýrri lóð við Vesturbrúnir. Staðfesti sveitarstjórn þá afgreiðslu hinn 16. janúar 2013 og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí s.á.

Kærandi tekur fram að lóð hans sé við enda götu með útivistarsvæði á þrjá vegu en í þess stað muni lóðir liggja að lóð hans eftir samþykkta breytingu. Ekki hafi komið fram í afsali fyrir fasteigninni að til stæði að breyta deiliskipulagi svæðisins eða að opið svæði til útivistar ætti að vera til takmarkaðs tíma. Þurfi að gera slíkar breytingar í samráði við lóðareigendur. Hafi ekki verið farið að ákvæðum skipulagslaga þar sem málið hafi hvorki verið grenndarkynnt né kynnt kæranda formlega. Þá sé bent á að skipulagsnefnd hafi oft synjað þess að sameina lóðir á þeirri forsendu að ekki væri vilji til að breyta lóðarfjölda í áður skipulögðum hverfum.

Sveitarfélagið krefst þess að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá hafi deiliskipulagsbreytingin verið kynnt og auglýst í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki hafi borist athugasemd frá kæranda um tillöguna.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun var auglýst til kynningar í tveimur dagblöðum og samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var hún einnig auglýst í Lögbirtingablaði og á heimasíðu skipulags- og byggingarfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps. Tók breyting á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Ásgarðs gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. maí 2013. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála einn mánuður, nema á annan veg sé mælt í lögum. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu miðast upphaf frestsins við birtingu ákvörðunar. Kæra í máli þessu var móttekin hjá úrskurðarnefndinni 15. júlí 2013, eða tæpum tveimur mánuðum eftir birtingu hinnar kærðu ákvörðunar, og var þá kærufrestur til nefndarinnar liðinn samkvæmt tilvitnuðu ákvæði. Ber af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
 
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

___________________________________
Nanna Magnadóttir