Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

9/2015 Mosgerði

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 28. maí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 9/2015, kæra á drátt á afgreiðslu máls hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. janúar 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Guðmundína Ragnarsdóttir hdl., f.h. S, Mosgerði 7, Reykjavík, drátt á afgreiðslu máls er varðar framkvæmdir á lóð nr. 7 við Mosgerði. Er þess krafist að byggingarfulltrúinn taki málið til efnislegrar meðferðar.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 3. febrúar 2015.

Málsatvik og rök: Haustið 2013 sendu kærendur kvörtun til byggingarfulltrúans í Reykjavík vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði og á fjöleignarhúsi sem þar stendur. Í framkvæmdinni fólst að grafið var frá sökklum hússins og lagnir lagðar upp að húsinu auk þess sem steyptar tröppur á lóðinni voru brotnar niður og lóð lækkuð. Í kjölfar vettvangsskoðunar af hálfu embættis byggingarfulltrúa voru framkvæmdirnar stöðvaðar 3. október 2013, þar sem byggingarleyfi lá ekki fyrir. Bárust mótbárur frá framkvæmdaraðila 7. nóvember s.á. þar sem því var lýst að um væri að ræða viðhald á fasteigninni en ekki byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Dróst afgreiðsla málsins og 11. september 2014 beindu kærendur þeirri kröfu til byggingarfulltrúans að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmdanna. Var sú beiðni ítrekuð af hálfu kærenda allt fram til 30. janúar 2015 þegar dráttur á afgreiðslu málsins var kærður til úrskurðarnefndarinnar.

Hinn 4. febrúar 2015 tók byggingarfulltrúinn ákvörðun í málinu. Féllst hann á að um viðhald á fasteign væri að ræða og taldi málinu lokið af hálfu embættisins.

Kærendur skírskota til þess að málið hafi verið til meðferðar hjá embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík í 15 mánuði. Séu málsatvik og rök aðila löngu orðin ljós og því sé ekkert því til fyrirstöðu að málið sé afgreitt efnislega. Starfsmenn embættisins hafi ekki gefið neinar skýringar á töfum málsins. Kærendur hafi lögvarða hagsmuni á því að málið sé tekið til efnislegrar afgreiðslu en einnig hafi kærendur brýna hagsmuni af því að málið hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Sé málsmeðferð ekki í samræmi við lög. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, beri stjórnvaldi skylda til að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt sé og hafi afgreiðsla hins umdeilda máls dregist óhæfilega.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að samkvæmt 1. mgr. og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæti stjórnvaldsákvörðun stjórnsýslu sveitafélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar enda hafi hún bundið enda á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í málinu sé ekki að finna slíka ákvörðun og beri því að vísa málinu frá nefndinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um drátt á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík á máli er varðar framkvæmdir á lóð og fjölbýlishúsi nr. 7 við Mosgerði.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er meginreglan sú að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Á því er þó að finna tilteknar undantekningar og er í  4. mgr. 9. gr. laganna að finna slíka undantekningu. Samkvæmt nefndri grein er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til æðra stjórnvalds og ber að beina henni til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til. Í 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er kveðið svo á um að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðar-nefndarinnar.

Fyrir liggur að byggingarfulltrúinn tók ákvörðun í greindu máli 4. febrúar 2015. Þar sem málinu er því lokið af hálfu embættisins er ekki lengur tilefni til að taka kæru um drátt á afgreiðslu þess til efnislegrar meðferðar. Af þeim sökum verður kröfu kærenda vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kærenda um að byggingarfulltrúinn í Reykjavík taki mál til efnislegrar meðferðar er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

70/2015 Gjaldskrá

Með
Árið 2016, þriðjudaginn 16. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 70/2015, kæra á breytingu á gjaldskrá nr. 893/2014 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, samkvæmt auglýsingu nr. 696/2015 er birtist í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. september 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Isavia ohf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 21. júlí 2015, samkvæmt auglýsingu nr. 696/2015 er birtist í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015, um breytingu á gjaldskrá nr. 893/2014 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi eða gjaldskránni breytt þannig að tímagjald og gjald fyrir rannsókn á sýnum verði stórlega lækkað.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 5. október 2015.

Málavextir: Auglýsing nr. 696/2015, um breytingu á gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, var birt í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015. Um breytingu á gjaldskrá nr. 893/2014 er að ræða og felst hún í því að tímagjald er hækkað úr 10.529 krónum í 17.340 krónur og gjald fyrir rannsókn á hverju sýni samkvæmt eftirlitsáætlun er hækkað úr 12.390 krónum í 20.200 krónur. Kærandi starfar á svæði Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja samkvæmt starfsleyfi útgefnu af eftirlitinu og skv. 1. gr. gjaldskrárinnar er heimilt að innheimta af honum gjöld í samræmi við hana.

Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa lögvarða hagsmuni í málinu þar sem hann starfi á svæðinu samkvæmt starfsleyfi útgefnu af Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og greiði gjöld samkvæmt gjaldskrá eftirlitsins. Heilbrigðisnefnd Suðurnesja hafi hækkað tímagjald og gjald fyrir sýni fjórum sinnum frá árinu 2012. Upphæð eftirlitsgjalda samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir skuli byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði séu rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á. Megi gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Með öðrum orðum sé um að ræða þjónustugjöld, sem verði aðeins nýtt til þess að standa undir þeim kostnaði sem hljótist af þeirri þjónustu sem gjaldið standi í tengslum við. Á tæpu þriggja ára tímabili hafi tímagjald hækkað um 175% og gjald fyrir sýni um 115%. Þessi hækkun sé langt umfram vísitölu- og verðlagshækkanir í landinu á sama tímabili og verði því ekki skýrð með vísan til þess. Með vísan til lagasjónarmiða um þjónustugjöld fari kærandi fram á að hækkun sú sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015 verði felld úr gildi eða breytt þannig að hún nemi verðlagshækkun þeirra kostnaðarliða sem séu grundvöllur þjónustugjaldsins.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Heilbrigðiseftirlitið fer fram á að málinu verði vísað frá á grundvelli þess að ekki sé um kæranlega ákvörðun að ræða og að kærandi eigi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Gjaldskrá sú er málið snúist um hljóti að teljast vera almenn stjórnvaldsfyrirmæli sem beinist að ótilteknum hópi aðila en feli ekki í sér ákvörðun sem beinist að kæranda. Kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni í málinu þar sem kröfur hans miði að því að fá gjaldskrá fellda úr gildi en ekki álagningu gjalda á hann sjálfan. Eftirlitsgjöldin hafi verið reiknuð út vegna þeirra þátta sem heilbrigðiseftirlitinu beri að hafa eftirlit með lögum samkvæmt, en álagning hafi enn ekki farið fram. Kærandi geti ekki átt lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um almennar gjaldskrárbreytingar án þess að það sé tengt við einstaklingsbundna og afmarkaða hagsmuni hans sjálfs.

Sveitarfélögin sem standi að Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja leggi áherslu á að eftirliti sé sinnt af kostgæfni en jafnframt sé eftirlitinu ætlað að standa undir eigin rekstri hvað eftirlitsskylda starfsemi varði, enda sé það í fullu samræmi við gjaldtökuheimild 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998. Fjárhagsleg endurskipulagning heilbrigðiseftirlitsins hafi staðið yfir um nokkra hríð og ljóst hafi verið að taka yrði gjaldskrá eftirlitsins til gagngerrar endurskoðunar svo að reksturinn stæði undir sér. Breytingar á gjaldskrá undanfarinna ára endurspegli þetta en ljóst sé að of stutt hafi verið gengið í hvert sinn og þess ekki gætt að gjaldskráin endurspeglaði raunkostnað. Tímagjald samkvæmt hinni kærðu gjaldskrá sé byggt á fjárhagsáætlun heilbrigðiseftirlitsins, m.a. með hliðsjón af rekstrarafkomu undanfarinna ára. Sá hluti rekstrarfjár eftirlitsins sem snúi að almennri þjónustu við borgarana, sem ekki falli undir eftirlitsskylda starfsemi, sé lagður til af sveitarfélögunum.

Athugasemdir kæranda við greinargerð Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Kærandi mótmælir frávísunarkröfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja. Í 31. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir segi að rísi ágreiningur um framkvæmd laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga eða um ákvarðanir yfirvalda sé heimilt að vísa málinu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Enn fremur segi í 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að nefndin skuli hafa það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir í lögum á því sviði. Samkvæmt þessu sé ljóst að allar ákvarðanir stjórnvalda með stoð í lögum nr. 7/1998, og ágreiningur er þær varði, verði bornar undir nefndina, þ.m.t. ákvörðun heilbrigðisnefndar um hækkun tímagjalds og sýnatökugjalds sem hér um ræði. Sú ákvörðun sé að mati kæranda stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í þessu samhengi skipti þó ekki máli hvort um stjórnvaldsákvörðun eða stjórnvaldsfyrirmæli sé að ræða vegna valdheimilda úrskurðarnefndarinnar samkvæmt lögum. Þær taki til þess að endurskoða bæði undirbúning og efni þeirra ákvarðana og stjórnvaldsfyrirmæla sem bornar séu undir hana.

Skýrt sé að kærandi hafi lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa. Kærandi reki starfsemi á Keflavíkurflugvelli, sem sé starfsleyfisskyld samkvæmt lögum nr. 7/1998. Á grundvelli starfsleyfis fari Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja með eftirlit með starfsemi kæranda á flugvallarsvæðinu og innheimti fyrir það árleg eftirlitsgjöld. Samkvæmt áætlun sem kærandi hafi fengið séu eftirlitsgjöldin byggð á tímagjaldi og gjaldi fyrir sýnatöku og upphæð þeirra gjalda hafi því bein áhrif á kæranda, þ.e. hvaða fjárhæð hann þurfi að greiða fyrir eftirlit, og varði hann verulega.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 12. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir er sveitarfélögum heimilt að setja gjaldskrá og innheimta gjald fyrir eftirlitsskylda starfsemi, svo sem fyrir eftirlit, útgáfu starfsleyfa og vottorða, sé eftirlitið á vegum sveitarfélaga. Upphæð gjaldsins skal byggð á rekstraráætlun þar sem þau atriði eru rökstudd sem ákvörðun gjalds við viðkomandi eftirlit byggist á og má gjaldið ekki vera hærra en sá kostnaður. Hvert eftirlitssvæði skal hafa sameiginlega gjaldskrá og skal hlutaðeigandi heilbrigðisnefnd láta birta hana í B-deild Stjórnartíðinda.

Í máli þessu er deilt um lögmæti gjaldskrár nr. 893/2014 fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði, eins og henni var breytt með auglýsingu nr. 696/2015, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 5. ágúst 2015. Eftir að kæra var lögð fram í málinu hefur verið sett ný gjaldskrá fyrir heilbrigðis- og mengunarvarnaeftirlit á Suðurnesjasvæði. Gjaldskráin er nr. 927/2015 og var hún birt í B-deild Stjórnartíðinda 19. október 2015. Við gildistöku hennar féll jafnframt úr gildi áðurnefnd gjaldskrá nr. 893/2014 og fór álagning ekki fram samkvæmt henni eftir að henni var breytt. Þar sem hin kærða gjaldskrá hefur ekki lengur réttarverkan að lögum verður ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að skorið verði úr um lögmæti hennar. Með vísan til þessa er kröfu kæranda því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                  Ásgeir Magnússon

41/2014 Skráningargjald

Með

Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 41/2014, kæra vegna gjalds til að standa undir kostnaði vegna skráninga og reksturs skráningarkerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. maí 2014, er barst nefndinni sama dag, kærir D, innheimtu skráningar- og árgjalda skráningarkerfis framleiðenda og innflytjenda raf- og rafeindatækja.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 18. júní 2014.

Málsatvik og rök: Kæranda barst bréf Umhverfisstofnunar, dags. 10. júní 2013, sem lýsti breyttu fyrirkomulagi við tollafgreiðslu raf- og rafeindatækja frá 1. september s.á. Var með bréfinu tilkynnt að stofnunin stæði fyrir kynningarfundi um þetta efni 24. júní s.á. Jafnframt var upplýst um möguleika til skráningar og nota á skilakerfum sem og kostnað því tengdu.

Samkvæmt kæru stóð kærandi fyrir innflutningi á vörum í nóvember 2013, greiddi gjald vegna þess í gegnum skilakerfi og árgjald samkvæmt reikningi í febrúar 2014.

Kærandi vísar til bréfs Umhverfisstofnunar frá 10. júní 2013 þar sem útskýrt sé hvernig nýtt skilakerfi fyrir raftæki eigi að virka. Ef aðili þurfi eða vilji flytja inn vörur í atvinnuskyni með ákveðna tollflokka þá sé einfaldlega ekki heimilt að gera það án þess að vera aðili að kerfinu. Í bréfinu komi skýrt fram að ódýrara sé að skrá sig hjá skilakerfi en hjá Umhverfisstofnun, kr. 6.000 fyrir skráningu og kr. 3.000 í árgjald fyrir einstakling hjá Umhverfisstofnun en kr. 2.000 í skráningargjald og kr. 1.000 í árgjald sjái skilakerfi um skráningu. Ekkert komi fram um að skilakerfin séu með ólíka verðskrá. Hafi kærandi þurft að skrá sig hjá skilakerfi vegna innflutnings vara í nóvember 2013. Við það hafi hann þurft að greiða kr. 5.000 í skráningargjald og seinna kr. 2.000 í árgjald. Þegar hann hafi kvartað yfir þessu við Umhverfisstofnun hafi hann fengið þau svör að stofnunin beri ekki ábyrgð á því hvort þessi fyrirtæki innheimti umsýslugjald. Umhverfisstofnun eigi að biðjast afsökunar á þessari framkvæmd og endurgreiða það sem oftekið hafi verið.

Umhverfisstofnun bendir á að hvorki liggi fyrir hvaða aðili sé að kæra framkvæmd eða ákvörðun stofnunarinnar né hvort um sé að ræða kæru á sérstakri stjórnvaldsákvörðun eða lagaframkvæmd sem sé röng. Þá séu lögvarðir hagsmunir kæranda óljósir. Í bréfi Umhverfisstofnunar um breytt fyrirkomulag við tollafgreiðslu raf- og rafeindatækja, dags. 10. júní 2013, sé útskýrð skylda viðkomandi aðila til aðildar að skilakerfi. Jafnframt verði þeir aðilar að vera skráðir í skráningarkerfi innflytjenda og framleiðenda. Byggi þessar kröfur á ákvæðum VII. kafla laga nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og reglugerðar nr. 1104/2008, um raf- og rafeindatækjaúrgang. Í bréfinu bendi stofnunin á þau tvö skilakerfi sem séu starfandi í dag. Í 19. gr. þáverandi gjaldskrár Umhverfisstofnunar, nr. 446/2012, segi að Umhverfisstofnun innheimti gjald til að standa undir kostnaði vegna skráninga og reksturs skráningarkerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja skv. 36. gr. laga nr. 55/2003. Gjaldið sé tvíþætt, annars vegar skráningargjald, kr. 6.000, og hinsvegar árgjald, kr. 3.000. Sjái skilakerfi um skráninguna lækki skráningargjaldið til stofnunarinnar í kr. 2.000 og árgjaldið í kr. 1.000. Ástæðan fyrir lægra gjaldi fyrir skilakerfi sé sú að umsýsla sé mun minni þegar stofnunin innheimti gjöldin hjá einum aðila í stað allt að 20 til 80 aðila í hverjum mánuði. Augljóst sé að kærandi hafi ekki kynnt sér reglurnar nægilega vel. Skilakerfin séu sjálfstætt starfandi og stofnunin taki ekki ábyrgð á mögulegu umsýslugjaldi þeirra fyrir veitta þjónustu.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála, skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð. Þar skal koma fram hver er kærandi, hvaða ákvörðun er kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru.

Kæra í máli þessu barst með tölvupósti og er undirrituð með nafni kæranda, en engu kenninafni. Frekari upplýsingar um kæranda er ekki að finna í kærunni, t.d. hvert heimilisfang hans er eða kennitala. Við ítrekaðar tilraunir úrskurðarnefndarinnar til að hafa samband við kæranda á tölvupóstfang hans bárust tilkynningar til baka um að enginn móttakandi væri með nefnt tölvupóstfang. Ekki er um fleiri leiðir að ræða til að hafa upp á kæranda. Ljóst er því að ekki liggja fyrir nægilegar upplýsingar til að staðreyna hver kærandi er.

Eftir því sem næst verður komist er kært í máli þessu vegna framkvæmdar á reglum í þágildandi gjaldskrá nr. 446/2012 og núgildandi gjaldskrá nr. 1281/2013 fyrir verkefni og þjónustu Umhverfisstofnunar. Er og kvartað yfir leiðbeiningum stofnunarinnar vegna nefndra reglna. Um er að ræða innheimtu á gjaldi til að standa undir kostnaði vegna skráninga og reksturs skráningarkerfis fyrir framleiðendur og innflytjendur raf- og rafeindatækja, sbr. 36. gr. laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs. Virðist umkvörtunarefni kæranda helst það að hann hafi þurft að greiða hærra gjald vegna skráningar í skilakerfi til rekstraraðila kerfisins en þá upphæð sem komið hafi fram í bréfi Umhverfisstofnunar, dags. 10. júní 2013. Er illskiljanlegt hvort og þá hvaða ákvörðun liggur til grundvallar kærunni.

Með hliðsjón af framangreindu fullnægir kæra málsins ekki áskilnaði 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Nanna Magnadóttir

68/2014 Naustabrekka

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 68/2014, kæra á  álagningu umhverfisgjalds fyrir árið 2014 vegna sumarhúss að Naustabrekku í Vesturbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með tölvupósti til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála er barst nefndinni 2. mars 2014, kærir G, Strandgötu 15, Patreksfirði, ákvörðun Vesturbyggðar frá 29. janúar 2014 um álagningu umhverfisgjalds fyrir Naustabrekku á Rauðasandi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Málavextir: Kæranda, sem er eigandi sumarhúss að Naustabrekku, var gert að greiða umhverfisgjald að upphæð kr. 25.000 samkvæmt álagningu fasteignagjalda fyrir árið 2014. Kærandi hafði fengið umhverfisgjald fyrir 2012 fellt niður í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 17/2012. Í síðari samskiptum við úrskurðarnefndina kom fram að kærandi teldi að ágreiningur væri enn til staðar og krafðist hann þess með tölvupósti 2. mars 2014 að gjald þetta yrði „strikað út“ og í tölvupósti dags. 3. s.m. ítrekaði hann þá kröfu. Var kærumál þetta stofnað hjá úrskurðarnefndinni en jafnframt var kæranda leiðbeint um að undirrituð kæra yrði að berast úrskurðarnefndinni. Með bréfi, dags. 8. júlí s.á., var kæranda gefinn frestur til 22. s.m. til að koma að undirritaðri kæru í málinu og var jafnframt bent á að ellegar liti nefndin svo á að kæran væri ekki í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála, skal kæra til nefndarinnar vera skrifleg og undirrituð. Þar skal koma fram hver er kærandi, hvaða ákvörðun er kærð, kröfur kæranda og rök fyrir kæru. Eins og lýst er í málavöxtum gaf kærandi til kynna með tölvupóstum að hann vildi kæra álagningu umhverfisgjalds. Þrátt fyrir ítrekaðar ábendingar um að eitt af skilyrðum fyrir lögmæti kæru væri skrifleg og undirrituð kæra hefur slíkt skjal ekki borist frá kæranda. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 1. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

8/2014 Hverfisgata Reykjavík

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 8/2014, kæra á þeirri framkvæmd að fjarlægja skábraut að inngangi hússins að Hverfisgötu 52, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. febrúar 2014, sem barst nefndinni sama dag, kærir eigandi eignarhluta 01-0101 í húsinu að Hverfisgötu 52, Reykjavík, þá framkvæmd að fjarlægja skábraut að inngangi nefnds húss. Er þess krafist að skábrautin verði endurbyggð. Þá er kærð sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að skipuleggja gangstétt fyrir framan húsið þannig að ekki sé gert ráð fyrir nefndri skábraut.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 28. febrúar 2014.

Málsatvik og rök: Hinn 4. desember 2007 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um samþykki á leyfi fyrir skábraut og tröppum við fjöleignarhúsið á lóð nr. 52 við Hverfisgötu. Árið 2011 keypti kærandi atvinnuhúsnæði í greindu fjöleignarhúsi og lá skábrautin að inngangi eignarhluta hans. Á árinu 2013 barst í tal eigenda fjöleignarhússins hvort fjarlægja ætti skábrautina. Húsfélagið sendi eigendum allra eignarhluta hússins tölvupóst 31. júlí 2013 þess efnis að ekki þyrfti samþykki allra eigenda til að fjarlægja umrædda skábraut. Í kjölfarið var skábrautin fjarlægð af einum eigenda fjölbýlishússins. Hinn 28. ágúst s.á. sendi Húseigendafélagið, fyrir hönd kæranda, bréf þar sem skorað var á greindan eiganda að koma húsinu aftur í fyrra horf en ekki var orðið við þeirri áskorun. Hafði kærandi samband við Reykjavíkurborg eftir að greind skábraut var fjarlægð og leitaði eftir svörum við því hvort heimilt væri að koma henni aftur fyrir. Hinn 8. janúar 2014 barst kæranda svar frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík þar sem hann upplýsti kæranda um að vafi væri um gildi byggingarleyfisins frá 2007 þar sem framkvæmdin hefði hugsanlega ekki uppfyllt nauðsynleg formatriði, þyrfti því að kanna gildi leyfisins betur.

Kærandi skírskotar til þess að skábrautin hafi verið samþykkt sem hluti af ytra byrði hússins af byggingarfulltrúanum í Reykjavík í desember 2007. Kærandi hafi fest kaup á atvinnuhúsnæði að Hverfisgötu 52 með það í huga að reka þar sálfræðistofu. Aðgengi fatlaðra hafi verið eitt þeirra atriða sem réði kaupunum. Sé aðgengið aðallega hagsmunamál fyrir kæranda þar sem umrædd aðkoma sé að sérinngangi eignarhluta hans. Í kjölfar niðurrifs skábrautarinnar geti kærandi ekki lengur boðið fötluðum þjónustu sína. Að auki virðist Reykjavíkurborg hafa teiknað og byggt götuna á þann hátt að bílastæði hafi verið bætt inn á upphaflegu teikningu sem geri það að verkum að ekki sé gert ráð fyrir að skábrautin verði endurbyggð. 

Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að ekki sé annað ráðið en að kærður sé skortur á byggingarleyfi. Kæru sé beint að tilteknum framkvæmdum við inngang að húsinu á lóð nr. 52 við Hverfisgötu. Hafi húsfélag hússins tekið þá ákvörðun að fjarlægja skábrautina. Um ágreining milli húseigenda sé að ræða enda hafi engin ákvörðun verið tekin um hana af hálfu Reykjavíkurborgar. Sé því ekki um kæranlega ákvörðun að ræða skv. 1. gr. laga nr. 130/2011, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beri að vísa málinu frá.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirra framkvæmdar að fjarlægja skábraut við inngang í hús nr. 52 að Hverfisgötu.

Samkvæmt 52. gr. skiplagslaga nr. 123/2010 og 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Slíkar stjórnvaldsákvarðanir verða jafnframt að binda endi á mál, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Eins og nánar er lýst í málavöxtum var umrædd skábraut fjarlægð af einum eiganda fjölbýlishússins að Hverfisgötu 52. Liggur fyrir að kærandi leitaði eftir svörum frá Reykjavíkurborg vegna hinna umdeildu framkvæmda í því skyni að fá skábrautina endurbyggða. Lauk þeim samskiptum með tölvupósti byggingarfulltrúans í Reykjavík þar sem hann gerði kæranda grein fyrir því að kanna þyrfti frekar lögmæti hins upprunalega byggingarleyfis fyrir hinni umræddu skábraut. Verður ekki séð að svar byggingarfulltrúa eða önnur svör starfsmanna Reykjavíkurborgar feli í sér stjórnvaldsákvörðun sem varði hina kærðu framkvæmd. Þá verður ekki séð að framkvæmdin hafi að öðru leyti komið til formlegrar málsmeðferðar og ákvörðunartöku hjá borginni á grundvelli skipulagslaga vegna gatnaframkvæmda þeirra sem kærandi vísar til.

Með hliðsjón af því sem að framan greinir er ekki fyrir hendi nein sú ákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar og bundið getur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaganna. Af þeim sökum verður málinu vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar hefur dregist í máli þessu sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

109/2017 Bjarmaland Sandgerði

Með

Árið 2017, föstudaginn 8 desember, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 109/2017 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. september 2017, er barst nefndinni 27. s.m., kæra Sigurgeir Jónsson og Elísabet Jensdóttir, Uppsalavegi 8, Sandgerði, staðsetningu fjarskiptamasturs að Bjarmalandi 16 Sandgerði. Er þess krafist að mastrið verði skráð lögum samkvæmt og það fari í grenndarkynningu. Til vara er þess krafist að mastrið verði fjarlægt.

Málsatvik og rök: Árið 1978 fékk Ríkisútvarpið heimild Miðneshrepps til þess að reisa mastur á lóð nr. 16 við Bjarmaland. Með bréfi dags. 2. apríl 2012 óskuðu kærendur eftir svörum yfirvalda Sandgerðis varðandi hið kærða fjarskiptamastur og bárust svör sveitarfélagsins við erindinu 29. ágúst s.á. Með bréfi dags. 5. nóvember 2012 óskaði annar kærenda eftir afriti af leyfi til uppsetningar útvarpssenda að Bjarmalandi 16 sem settir hefðu verið upp 6.-8. mars s.á. Þeirri beiðni var svarað af hálfu sveitarfélagsins með bréfi dags. 17. maí 2017 þar sem fram kom að það telji spurningum hans svarað með erindi skipulags- og byggingarfulltrúa dags. 29. ágúst 2012. Jafnframt var beðist velvirðingar á að ítrekunum á  erindi kærandans frá 5. nóvember 2012 í bréfum 1. og 27. apríl 2017 hafi ekki verið svarað. Með bréfi dags. 25. ágúst 2017 svaraði sviðstjóri umhverfis-, skipulags- og byggingarsviðs spurningum kærenda sem bárust embættinu 21. júní s.á. Þar var upplýst hver væri skráður eigandi lóðarinnar Bjarmalands 16 og hver landnotkun hennar væri samkvæmt aðalskipulagi sveitarfélagsins.

Kærendur telja að skrá beri þennan búnað og atvinnustarfsemi lögum samkvæmt og að sú skráning fari í grenndarkynningu. Að öðrum kosti beri að fjarlæga umrædd mannvirki. Hvergi hafi komið fram að Miðneshreppur hafi komið að leyfisveitingu fjarskiptamasturs frá árinu 1978 enda lóðin ekki í eigu hreppsins heldur hafi verið um persónulegt leyfi sveitarstjóra að ræða, sem hann hafi ekki haft heimild til að veita.

Sveitarfélagið bendir á að almennt tíðkist ekki að sjónvarpssenda sé getið sérstaklega í aðal- eða deiliskipulagi.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðuni samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Þó verður kæra ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að hún var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Sú ákvörðun að heimila að reist yrði fjarskiptamastur að Bjarmalandi 16, mun hafa verið tekin árið 1978. Er kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar löngu liðinn. Þá liggja ekki fyrir aðrar ákvarðanir bæjaryfirvalda Sandgerðisbæjar vegna umdeilds fjarskiptabúnaðar sem bornar verða undir úrskurðarnefndina. Bent er á að úrskurðarnefndin hefur það hlutverk að endurskoða lögmæti ákvörðunar yfirvalda sveitarfélaga samkvæmt lögum nr. 160/2010 um mannvirki og skipulagslögum nr. 123/2010 en nefndin er ekki bær að lögum að taka stjórnvaldsákvarðanir svo sem um að mannvirki skuli fjarlægð. Taka slíkrar ákvörðunar er í verkahring byggingaryfirvalda í hverju sveitarfélagi, sbr. 55. og 56. gr. laga um mannvirki en þær ákvarðanir verða eftir atvikum bornar undir úrskurðarnefndina.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

__________________________________________
Ómar Stefánsson

11/2011 Bakkavör

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 11/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 10. nóvember 2010 um að samþykkja deiliskipulag Bakkahverfis, Seltjarnarnesi.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. janúar 2011, er barst nefndinni 25. s.m., kærir H, Bakkavör 6, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Seltjarnarness frá 10. nóvember 2010 að samþykkja deiliskipulag Bakkahverfis á Seltjarnarnesi. Gerð er krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að fyrri útgefnir skilmálar, dags. 30 september 1986, vegna lóða nr. 2-44 við Bakkavör, Seltjarnarnesi, standi óbreyttir.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni 1. apríl 2011.

Málsatvik og rök: Árið 2009 var auglýst til kynningar deiliskipulag Bakkahverfis er tekur til húsa sunnan Hæðarbrautar, austan Valhúsabrautar, suðaustan Bakkavarar, austan Suðurstrandar og austan Lindarbrautar. Bárust athugasemdir á kynningartíma, þ. á m. frá kæranda. Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness hinn 4. júní 2010 voru samþykkt svör við framkomnum athugasemdum sem og tillaga að téðu deiliskipulagi. Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 9. s.m. Í kjölfar þess var deiliskipulagið sent Skipulagsstofnun til lögboðinnar yfirferðar er gerði athugasemd við að birt yrði auglýsing um samþykkt þess. Tók skipulags- og mannvirkjanefnd málið fyrir að nýju hinn 28. október 2010. Var tillagan samþykkt með breytingum og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu 10. nóvember s.á. Öðlaðist deiliskipulagið gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2010.

Kærandi tekur fram að staðhæft hafi verið að skipulag fyrir lóðirnar Bakkavör 2-44 frá 1986 hafi aldrei verið staðfest af sveitarstjórn. Standist það ekki og því sé vinna við gerð deiliskipulags Bakkahverfis byggð á röngum forsendum. Ekkert samráð hafi verið haft við eigendur lóðanna vegna þessara breytinga og vandséð hvað búi að baki breytingunum þar sem skipulag af þessum reit sé að öllu leyti í samræmi við skipulagslög.
 
Sveitarfélagið krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað. Markmið nýs deiliskipulags Bakkahverfis sé að móta heilstætt skipulag sem byggi á þeirri sýn sem sett sé fram í Aðalskipulagi Seltjarnarness 2006-2024. Sé t.a.m. leitast við að staðfesta byggðamynstur hverfisins og feli það m.a. í sér að eldri skipulagsskilmálar séu felldir inn hið nýja skipulag eins og kostur sé. Eðlilegt hafi þótt að taka hús við Bakkavör inn í þá vinnu, sérstaklega þar sem allt skipulagssvæðið myndaði þannig eðlilega heild sem hverfi. Skapi deiliskipulagsáætlanir og skilmálar, sem hvorki voru auglýstir, hlutu staðfestingu ráðherra né samþykki skipulagsstjóra ríkisins, í mörgum tilfellum skipulagslega óvissu og standist ekki núgildandi lög.

Niðurstaða: Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997, sem í gildi voru til ársloka 2010, gátu þeir einir gætu skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem áttu lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Af kæru verður ekki ráðið hvaða einstaklingsbundnu hagsmunum kærandi telji hina kærðu ákvörðun raska. Þá seldi kærandi fasteign sína að Bakkavör 6 hinn 13. júní 2013 samkvæmt gögnum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Var afsal gefið út 4. nóvember s.á. og því þinglýst 7. s.m. Mun kærandi nú búsettur í Reykjavík og í töluverðri fjarlægð frá því svæði sem deiliskipulag Bakkahverfis tekur til. Verður því ekki séð að umrætt deiliskipulag snerti lögvarða hagsmuni kæranda með þeim hætti að hann teljist eiga kæruaðild varðandi hina umdeildu ákvörðun.

Með vísan til framangreinds verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

114/2013 Gámaþjónusta Austurlands

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 29. apríl, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. l. nr. 130/2011 fyrir:
 
Mál nr. 114/2013, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands um breytingu á starfsleyfi til Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. desember 2013, er barst nefndinni sama dag, kæra Á Brekkugötu 4, Á, Brekkugerði 11, R, Stekkjarbrekku 5 og S, Eyrarstíg 1, allir á Reyðarfirði, ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Austurlands frá 27. nóvember 2013 um viðbótarstarfsleyfi og framlengingu starfsleyfis fyrir Gámaþjónustu Austurlands – Sjónarás ehf. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Austurlands 14. janúar 2014.

Málavextir: Gámaþjónusta Austurlands – Sjónarás ehf. sótti um breytingu á starfsleyfi sínu til Heilbrigðiseftirlits Austurlands með umsókn, dags. 17. apríl 2013. Samkvæmt umsókninni fólst breytingin í því að nýtt yrði „um 2000 m² lóð innan girðingar sunnan húss til umhleðslu timburs og lestunar gáma til útflutnings“. Vegna breytinganna voru starfsleyfisdrög auglýst í Dagskránni, 42. tbl., og lágu drögin frammi á skrifstofu Fjarðarbyggðar í Molanum til kynningar. Rann umsagnarfrestur út 15. nóvember 2013. Andmæli bárust, m.a. frá kærendum. Starfsleyfi var gefið út 27. nóvember s.á. og sama dag var tveimur kærenda sent bréf þar sem sú ákvörðun var rökstudd. Bent var á kæruleið í málinu og var ákvörðunin kærð með bréfi, dags. 23. desember 2013, eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærendur halda því fram að umdeilt starfsleyfi feli í sér útvíkkun og framlengingu á gildandi starfsleyfi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. á geymslusvæði við Hafnargötu 6, sem sé í miðbæ Reyðarfjarðar. Undanfarin ár hafi náðst mikill og jákvæður árangur í uppbyggingu miðbæjarins á Reyðarfirði. Í innan við 500 metra fjarlægð frá því svæði sem umrædd starfsleyfisumsókn nái til hafi á undanförnum árum byggst upp stærsta matvöruverslun Fjarðarbyggðar, skrifstofur Fjarðarbyggðar, verslanir, gistihús og ýmis önnur þjónustustarfsemi. Þessi þróun hafi verið í samræmi við gildandi aðalskipulag, sem gildi frá árinu 2007 til 2027, þar sem svæðið sé skipulagt sem miðbæjarsvæði eða M1. Starfsemi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. uppfylli ekkert af þeim skilyrðum eða markmiðum sem séu sett fyrir miðbæjarsvæðið í aðalskipulagi, t.d. fylgi starfseminni miklir þungaflutningar. Deiliskipulag Reyðarfjarðar sé frá árinu 1999 og sé úrelt og ekki í samræmi við aðalskipulagið. Dragi kærendur gildi deiliskipulagsins í efa vegna þessa og telji að fara skuli eftir aðalskipulagi. Nægar lóðir séu innan bæjarfélagsins fyrir iðnaðarsvæði.

Kærendur hafi lögvarða hagsmuni af málinu sem íbúar svæðisins, útsvarsgreiðendur og virkir þátttakendur í mótun aðalskipulagsins. Einn kærenda búi auk þess í næsta nágrenni við skipulagt miðbæjarsvæði skv. aðalskipulagi, eða í um 150 m fjarlægð. Jafnframt hafi hann verið að gæta hagsmuna föður síns, sem hafi átt fasteign í nágrenni við Hafnargötu 6 en sú eign hafi nú verið seld.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Austurlands: Heilbrigðiseftirlitið bendir á að einungis sé um að ræða breytingu á starfsleyfi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. en ekki framlengingu, eins og komi fram í kærunni. Fyrra leyfi hafi verið frá 29. janúar 2009 og gilt til 29. janúar 2021. Hið kærða leyfi sé útgefið 27. nóvember 2013 og gildi til 29. janúar 2021. Breytingin á starfsleyfinu felist í því að til viðbótar við starfsemi í húsnæði fyrirtækisins að Hafnargötu 6, Reyðarfirði, sé heimilað að nýta útisvæði til geymslu á tilteknum flokkum efna með ákveðnum skilyrðum sem fram komi í starfsleyfi. Umrætt útisvæði hafi áður verið nýtt undir steypustöð, allt fram í desember 2011. Svæðið sé nú afgirt með steinsteyptum plötum og járni þannig að það myndi aflokað port.

Fullyrðingum um þungaflutninga af völdum starfsemi Gámaþjónustu Austurlands – Sjónaráss ehf. um miðbæ Reyðarfjarðar er vísað á bug. Fyrirtækið hafi aðkomu að austan og með því móti sé umferð vegna fyrirtækisins á meginumferðaræð þéttbýlisins þar sem þungaflutningum sé einmitt ætluð leið. Deiliskipulag frá 1999 skilgreini svæðið sem iðnaðar- og hafnarsvæði, en aðalskipulag 2007-2029 hafi ekki verið staðfest af ráðherra fyrr en 24. ágúst 2009, eða sjö mánuðum eftir að starfsleyfi fyrirtækisins hafi fyrst verið gefið út.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Kærendur rökstyðja lögvarða hagsmuni sína í málinu með því að þeir séu íbúar svæðisins, útsvarsgreiðendur og virkir þátttakendur í mótun aðalskipulags. Ekki verður fallist á að sem slíkir eigi kærendur þeirra einstaklingsbundnu hagsmuna að gæta að það veiti þeim kæruaðild í málinu fremur en öðrum bæjarbúum almennt. Þá liggur fyrir að fasteign þess kæranda sem býr næst þeirri starfsemi sem um ræðir er ekki í þeirri nálægð við hana að umdeild starfsleyfisbreyting hafi þau áhrif á umhverfi hans að það skapi honum einstaklega, lögvarða hagsmuni. Aðrir kærendur búa fjær svæðinu.

Samkvæmt framansögðu eiga kærendur ekki lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, og ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

 

54/2012 Skútuvogur

Með
Árið 2015, föstudaginn 24. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 54/2012, kæra á ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. maí 2012  um að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar vegna umsóknar um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í atvinnuhúsnæði að Skútuvogi 12.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júní 2012, sem barst nefndinni 4. s.m., kærir Garðar Briem hrl., f.h. SP fasteignafélags ehf., þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar frá 4. maí 2012 að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar vegna umsóknar um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í atvinnuhúsnæði að Skútuvogi 12. Til vara er kærð sú ákvörðun skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar að halda ekki áfram upphaflegu umsóknarferli. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.
   
   
   
Gögn málsins bárust frá Mannvirkjastofnun 20. júní 2012 og frá Reykjavíkurborg 14. ágúst s.á.

Málavextir: Hinn 5. janúar 2012 felldi úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála úr gildi synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík um leyfi til að innrétta húsvarðaríbúð í eignarhluta 03 0103 í húsi nr. 12 við Skútuvog. Hinn 20. s.m. lagði kærandi inn beiðni til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar um að upprunaleg umsókn hans frá 2009 yrði tekin aftur fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa. Var greindri beiðni kæranda hafnað með bréfi lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs, dags. 22. febrúar s.á., og þess krafist að sótt yrði um nýtt byggingarleyfi. 

Með bréfi, dags. 29. febrúar 2012, beindi kærandi þeirri kröfu til Mannvirkjastofnunar að hún tæki til skoðunar synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík á að taka umsókn kæranda aftur til meðferðar. Kallaði stofnunin eftir skýringum frá byggingarfulltrúanum 21. mars s.á., sem bárust 3. apríl s.á. Var greindri beiðni kæranda synjað með bréfi frá Mannvirkjastofnun, dags. 4. maí s.á., en þar segir m.a:  „ Að mati stofnunarinnar er það háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óski eftir því að umsækjandi fylli út nýtt umsóknareyðublað og skili til byggingarfulltrúa ásamt nýjum uppdráttum, eftir atvikum samskonar og þeim sem fylgdu fyrri umsókn, eða hvort byggt sé á fyrri umsókn og þeim gögnum sem þeim fylgdu.“
Hinn 11. febrúar 2014 var upphafleg umsókn kæranda frá 2009 tekin fyrir á ný á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík. Var málinu frestað og kallað eftir frekari gögnum, s.s. samþykki nýrra meðeigenda.

Málsrök kæranda: Kærandi skírskotar til þess að ferli hafi hafist þegar hann hafi lagt inn umsókn til skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar og sé því ekki lokið. Hafi skipulags- og byggingarsvið synjað erindi kæranda en úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála fellt þá afgreiðslu úr gildi. Úr því að synjun embættisins hafi ekki verið talin gild liggi beint við að hin upprunalega umsókn, sem móttekin hafi verið 2009, sé í fullu gildi og embættið þurfi að taka nýja ákvörðun í stað þeirrar ákvörðunar sem úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi.

Það sé misskilningur embættisins að hinu upprunalega umsóknarferli hafi lokið og að tilefni sé til þess að lögð verði inn ný umsókn. Hafi úrskurðarnefndin talið að hin kærða ákvörðun væri hvorki reist á málefnalegum grunni né studd haldbærum rökum. Af þeim sökum yrði að taka málið á ný til meðferðar og úrskurðar, annaðhvort með samþykki eða synjun. Ekki sé hægt að ætlast til að lögð verði inn ný umsókn um byggingarleyfi. Hafi lögformleg umsókn verið afhent á sínum tíma og eigi það ferli sem þá hafi hafist að ganga sinn veg á enda.

Að auki sé ekki hægt að sætta sig við þá ákvörðun Mannvirkjastofnunar að það sé háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óski eftir því að umsækjandi fylli út nýtt umsóknareyðublað. Virðist stofnunin misskilja ferli umsókna um byggingarleyfi þar sem hún hafi talið að unnt sé að sækja um nýtt byggingarleyfi þegar afstaða hafi ekki verið tekin til fyrri umsóknar um sama erindi og sú umsókn hafi ekki runnið sitt skeið á enda. Með því að taka við erindi kæranda og kalla eftir skýringum frá byggingarfulltrúa hafi málið farið í löglegt ferli innan stofnunarinnar. Ekki séu því haldbær rök til að halda því fram að stofnuninni beri ekki að sinna kærum frá almennum borgurum.

Málsrök Mannvirkjastofnunar: Vísað er til þess að 18. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 feli í sér heimild stofnunarinnar til íhlutunar sem eigi  aðeins að beita í undantekningartilvikum. Heimildinni sé ekki ætlað að vera kæruleið fyrir hinn almenna borgara. Um sé að ræða heimild eins stjórnvalds til afskipta af stjórnsýslu annars stjórnvalds, háð mati þess fyrrnefnda, og sé því eðli máls samkvæmt ekki ákvörðun sem beint sé að borgurunum. Ákvörðunin sé ekki ákvörðun um rétt eða skyldu aðila máls. Af þeim sökum sé ákvörðun um að beita ekki heimild 18. gr. mannvirkjalaga til íhlutunar í stjórnsýslu byggingarfulltrúa ekki stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála á grundvelli 59. gr. laganna. Beri því að vísa kærunni frá.

Af hálfu stofnunarinnar hafi það verið talið háð mati byggingarfulltrúa hvort hann óskaði eftir því að umsækjandi fyllti út nýtt umsóknareyðublað og skilaði til byggingarfulltrúa ásamt nýjum uppdráttum, eftir atvikum samskonar og þeim sem fylgt hafi fyrri umsókn, eða hvort byggt yrði á fyrri umsókn og þeim gögnum sem henni hafi fylgt. Við meðferð umsóknar, eftir að mál hafi verið tekið fyrir að nýju, sé byggingarfulltrúa ávallt heimilt á grundvelli rannsóknarreglu stjórnsýslulaga að óska nýrra afrita af uppdráttum eða frekari gagna, gerist slíks þörf, t.d. ef í ljós kæmi að uppdrættir hafi ekki uppfyllt ákvæði laga og reglugerða eða að afla þyrfti nýrra umsagna. Hafi ekki verið talið að afgreiðsla byggingarfulltrúa hvað þetta varðaði færi í bága við lög. Snúist ágreiningurinn einungis um það hvort umsækjanda sé skylt að fylla út umsóknareyðublað að nýju og sé hann ekki þess eðlis að tilefni sé til íhlutunar á grundvelli 18. gr. laga um mannvirki. Sé bent á að heimildin sé neyðarúrræði sem einungis skuli beitt undantekningartilvikum. Það sé háð mati stofnunarinnar hvort 18. gr. mannvirkjalaga sé beitt.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að í þeim tilvikum þar sem úrskurðarnefnd hafi fellt úr gildi synjanir á byggingarleyfisumsóknum hafi það verið venja hjá embætti byggingarfulltrúa að óska eftir nýrri byggingarleyfisumsókn og nýjum uppdráttum stæði vilji til að fá mál tekin fyrir að nýju. Hafi verið litið svo á að með úrskurðum úrskurðarnefndarinnar sé bundinn endir á tiltekið mál og því þurfi að stofna nýtt mál sé óskað frekari meðferðar. Sé á það bent að úrskurðarnefndin hafi ekki lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka málið fyrir að nýju. Mál líkt og það sem hér um ræði sé því ekki tekið upp að frumkvæði embættisins heldur verði að koma fram ósk um það. Hafi embættið því litið svo á að eðlilegast væri að bera þá ósk fram í formi nýrrar umsóknar, sem fái þá nýja umfjöllun.

Sú krafa að umsækjandi leggi fram nýja uppdrætti sé bæði eðlileg og nauðsynleg. Sé í því sambandi vísað til þeirra skýringa sem áður hafi komið fram af hálfu embættisins að ekki þyki viðeigandi að notast við uppdrætti sem áður hafi verið stimplaðir með synjun. Slík notkun á gögnum embættisins geti verið til þess fallin að valda ruglingi eða misskilningi síðar meir, enda sé um opinber skjöl að ræða sem lýsi sjálfstætt tilteknum lyktum máls og geti haft þýðingu síðar, t.d. í dómsmálum. Megi af þeim sökum einnig halda því fram að það sé með öllu óheimilt að breyta slíkum gögnum með nýjum eða breyttum áritunum.

Verði ekki með nokkru móti séð að sú einfalda gagnaöflun, þ.e. að fylla út byggingarleyfisumsókn og útvega afrit uppdrátta, sé svo íþyngjandi, kostnaðarsöm, erfið eða ósanngjörn fyrir umsækjanda að ekki megi beina þeim tilmælum til hans að leggja þau fram, enda sé málið til orðið að hans frumkvæði. Sérstaklega sé vísað til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í þeim efnum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi ákvörðunar Mannvirkjastofnunar um að hafna beiðni um afskipti stofnunarinnar af málsmeðferð skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar. Að auki er deilt um þá málsmeðferð borgarinnar vegna umsóknar kæranda um byggingarleyfi.

Samkvæmt 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvörðunin verður þó að binda endi á mál til þess að hún sé kæranleg, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Á grundvelli 18. gr. mannvirkjalaga getur Mannvirkjastofnun tekið til athugunar hvort afgreiðsla byggingarfulltrúa hafi farið í bága við lög. Stofnunin kallaði eftir gögnum frá byggingarfulltrúanum í Reykjavík á grundvelli 1. mgr. nefndrar lagagreinar en niðurstaða stofnunarinnar var að ekki væri tilefni til íhlutunar. Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. skal stjórnsýsla máls vera í höndum byggingarfulltrúa þegar meðferð Mannvirkjastofnunar er lokið og er málið nú til meðferðar hjá byggingarfulltrúa á grundvelli upphaflegrar umsóknar kæranda, eins og nánar er lýst í málavöxtum. Sætir meðferð málsins ekki lögmætisathugun nefndarinnar fyrr en endanleg niðurstaða liggur fyrir, sem eftir atvikum er þá kæranleg til nefndarinnar. Ljóst er af framangreindu að málinu er ólokið og liggur því ekki fyrir nein sú ákvörðun sem bundið getur endi á mál í skilningi áðurgreindrar 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá nefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

 

58/2013 Kröflulína 3

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 31. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri, Geir Oddsson auðlindafræðingur og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 58/2013, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 10. maí 2013 um að taka Blöndulínu 3 og fyrirætlun Landsnets hf. um Kröflulínu 3 ekki til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2013, er barst nefndinni s.d., kærir eigandi Hóla í Öxnadal í Hörgársveit, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 10. maí 2013 að taka Blöndulínu 3 og fyrirætlun Landsnets hf. um Kröflulínu 3 ekki til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að Skipulagsstofnun verði gert að taka ákvörðun um slíkt sameiginlegt mat. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og Skipulagsstofnun gert að taka málið á ný til efnismeðferðar.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 27. september 2013.

Málavextir: Blöndulína 3 er 220 kV háspennulína sem fyrirhuguð er á milli Blöndustöðvar og Akureyrar. Færi línan m.a. um land kæranda í Hörgársveit. Kröflulína 3 yrði 220 kV háspennulína frá tengivirki við Kröflustöð að tengivirki við Fljótsdalsstöð.

Hinn 26. febrúar 2013 auglýsti Skipulagsstofnun til kynningar tillögu framkvæmdaraðila að matsáætlun vegna Kröflulínu 3. Tillagan  lá frammi til kynningar til 15. mars 2013. Kærandi gerði athugasemdir við tillöguna með bréfi til stofnunarinnar, dags. 10. s.m. Í bréfi kæranda var þess krafist að stofnunin tæki til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 þær framkvæmdir sem kærandi taldi vera í beinum tengslum við Kröflulínu 3 og heyrðu beint undir fyrirhugaða 220 kV hringtengingu flutningskerfis framkvæmdaaðila. Í kæru til úrskurðarnefndarinnar er tekið fram að um sé að ræða þá kafla sem falli undir Hólasandslínu 3 og Blöndulínu 3.

Skipulagsstofnun svaraði athugasemdum kæranda með bréfi, dags. 10. maí 2013. Í bréfi stofnunarinnar kom fram að ekki væri tilefni til að verða við kröfu kæranda um sameiginlegt mat, þar sem skilyrði 2. mgr. 5. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum væru ekki uppfyllt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að um eina samfellda háspennulínu sé að ræða sem fyrirhugað sé að reisa hringinn í kringum landið. Kröflulína 3 og Blöndulína 3, sem muni liggja um land kæranda, séu tengdar framkvæmdir. Kærandi hafi áður kært til úrskurðarnefndarinnar synjun Skipulagsstofnunar um að taka síðarnefndu framkvæmdina til sameiginlegs mats með öðrum hlutum hringtengingarinnar. Kærandi eigi því einnig aðild að kærumáli þessu og sé eðlilegt að kærumálin hljóti sameiginlega málsmeðferð fyrir úrskurðarnefndinni.

Skilyrði um sameiginlegt mat séu uppfyllt. Af gögnum framkvæmdaraðila, sem kynnt hafi verið á málþingi Skipulagsstofnunar 24. apríl 2012, sé ljóst að til standi að leggja háspennulínu frá Blöndu um Akureyri að Kröflu og áfram í Fljótsdal. Sé örðugt að skilja þau gögn á annan hátt en að þar sé átt við framkvæmdir sem séu háðar hver annarri og jafnvel að um sé að ræða sömu framkvæmd í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum.

Framkvæmdaraðili birti árlega áætlun um framkvæmdir í flutningakerfi rafmagns. Undir kaflanum „almenn undirbúningsverkefni“ sé fjallað um „styrkingu byggðarlínunnar“ á þann veg að telja verði að framkvæmdaraðili líti svo á að um sé að ræða eina heild, enda sé þar ítrekað vísað til „línunnar“ og talað um lagningu hennar „hringinn í kringum landið“. Ljóst sé að í huga framkvæmdaraðila sé í reynd um að ræða eina línu og mismunandi kafla hennar. Eigi að leggja að jöfnu hugtökin „verkefni í undirbúningi“, sem sé kaflaheitið í kerfisáætlun 2013-2017, og „fyrirhuguð framkvæmd“ í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000. Sé ljóst að hinir mismunandi kaflar séu hver öðrum háðir en það sé eitt skilyrða 2. mgr. 5. gr. laganna.

Ekki sé skilyrt í lögum að einungis megi hefja umhverfismat á framkvæmd hafi hún þá þegar samþykkt í aðalskipulagi og sé kærandi ósammála þeirri afstöðu framkvæmdaraðila að ekki eigi að hefja mat á umhverfisáhrifum fyrir Hólasandslínu 3 þar sem sá kafli línunnar sé ekki enn kominn í aðalskipulag allra hlutaðeigandi sveitarfélaga. Þá hafi framkvæmdaraðili nú þegar hafið mat á umhverfisáhrifum á öðrum köflum línunnar þó svo að skipulagsferli þess sé ólokið. Skipulagsstofnun hafi skilgreint hugtakið „fyrirhuguð framkvæmd“ skv. lögum nr. 106/2000 of þröngt. Framkvæmd þurfi ekki að vera tæk til málsmeðferðar skv. IV. kafla laganna og telji kærandi að hér sé verið að rugla sama hugtökum. Megi vísa í lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sérstaklega hvað varði skilgreiningu á hugtakinu „áætlanir“. Ljóst sé að Hólasandslína 3 hafi verið í undirbúningi um langt skeið. Hafi línan ásamt Kröflulínu 3 verið samhliða í undirbúningi þrátt fyrir að framkvæmdaraðili hafi síðar ákveðið að annar kaflinn skyldi fara fyrr í matsáætlun. Sá tilgangur laganna að draga fram heildaráhrif framkvæmdar væri að engu hafður ef framkvæmdaraðili gæti að vild hlutað niður nátengdar framkvæmdir á lokastigi undirbúnings í því skyni að fá mat á umhverfisáhrifum þeirra bútað niður. Hafi úrskurður ráðherra frá 28. janúar 2010 um Suðvesturlínur ekki fordæmisgildi hér.

Loks sé ákvörðun Skipulagsstofnunar háð formgalla, þar sem stofnunin hafi ekki leitað til leyfisveitenda, sem séu viðkomandi sveitarfélög og Orkustofnun, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000. Slíkt sé jafnframt brot á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.   

Málsrök Skipulagsstofnunar: Af hálfu Skipulagsstofnunar er vísað til bréfs stofnunarinnar frá 10. maí 2013. Niðurstaða stofnunarinnar hafi verið að þar sem ekki væri hægt að líta svo á að aðrar framkvæmdir en Kröflulína 3 væru fyrirhugaðar í skilningi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum væri ekki forsenda að taka ákvörðun á grundvelli 2. mgr. 5. gr. laganna. Sú niðurstaða hafi ekki falið í sér stjórnvaldsákvörðun, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og beri að vísa stjórnsýslukæru kæranda frá, sbr. 1. ml. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá bendi stofnunin á, vegna kröfugerðar kæranda þar um, að úrskurðarnefndin hafi ekki valdheimild til að leggja fyrir stofnunina að taka ofangreindar framkvæmdir til sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 þurfi m.a. að vera um að ræða fleiri en eina „fyrirhugaða“ matsskylda framkvæmd. Ekki séu til staðar forsendur til að taka ákvörðun um hvort umhverfisáhrif framkvæmda skuli metin sameiginlega sé þetta skilyrði laganna ekki uppfyllt. Stofnunin hafi talið að til þess að framkvæmd geti talist „fyrirhuguð“ í skilningi ákvæðisins þurfi hún að vera komin í tiltölulega fastar skorður. Án þess sé hvorki hægt að meta eðli eða umfang slíkrar framkvæmdar né taka afstöðu til þess hvort rétt sé að meta umhverfisáhrif hennar sameiginlega með öðrum framkvæmdum. Því sé ekki nóg að framkvæmd sé á áætlunarstigi heldur þurfi hún að vera fastmótuð og tæk til málsmeðferðar skv. IV. kafla nefndra laga. Ráðuneytið hafi tekið undir þennan skilning stofnunarinnar í úrskurði umhverfisráðherra frá 28. janúar 2010 vegna Suðvesturlínu.

Þrátt fyrir að ekki hafi verið leitað upplýsinga eða viðhorfa frá leyfisveitendum, þ.e.a.s. sveitarfélögum og Orkustofnun, hafni stofnunin þeirri staðhæfingu kæranda að um hafi verið að ræða brot á 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Eins og ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000 sé úr garði gert sé ekki með berum orðum gert ráð fyrir því að stofnuninni sé skylt að leita til leyfisveitenda um upplýsingagjöf heldur skuli hún hafa samráð við töku ákvörðunar um hvort umhverfisáhrif framkvæmda skuli metin sameiginlega.

Ekki verði ráðið af fyrirliggjandi gögnum um áformaðar framkvæmdir í tengslum við Kröflulínu 3 að fyrirhugaðar séu aðrar framkvæmdir á vegum framkvæmdaaðila sem til álita komi að meta sameiginlega með fyrrgreindri framkvæmd. Ekki sé fallist á þá ályktun kæranda að hugtökin „verkefni í undirbúningi“, sem sé kaflaheitið í kerfisáætlun 2013-2017, og „fyrirhuguð framkvæmd“ í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 106/2000, hafi sama inntak.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili tekur undir athugasemdir Skipulagsstofnunar og bendir auk þess á að kærandi geti ekki talist eiga lögvarða hagsmuni í máli þessu, líkt og gert sé ráð fyrir varðandi kæruaðild í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærandi búi erlendis og sé þinglýstur eigandi jarðarinnar Hóla í Öxnadal í Hörgársveit, en Kröflulína 3 liggi hvorki um landareign kæranda né umrætt sveitarfélag.

Niðurstaða: Í máli þessu er m.a. gerð krafa um frávísun með þeim rökum að fyrirhuguð framkvæmd við Kröflulínu 3 snerti ekki lögvarða hagsmuni kæranda og skorti því á að skilyrði um kæruaðild séu uppfyllt, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í nefndu lagaákvæði segir að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Þó geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök átt aðild, m.a. vegna ákvarðana Skipulagsstofnunar um sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum, án þess að sýna fram á einstaklingsbundna lögvarða hagsmuni. Um slíkt er ekki að ræða í þessu tilviki og kemur þá til skoðunar hvort að kærandi eigi lögvarinna hagsmuni að gæta í málinu, en fyrrgreint ákvæði þar um verður að skýra í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Í kæru vísar kærandi til eignarhalds síns á landi sem Blöndulína 3 mun liggja um en kærandi hefur einnig kært til úrskurðarnefndarinnar þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að mat á umhverfisáhrifum þeirrar línu verði ekki sameiginlegt með öðrum tilteknum framkvæmdum, sbr. úrskurð nefndarinnar sem kveðinn var upp fyrr í dag í kærumáli nr. 72/2012. Mál þetta snýst hins vegar um þá afgreiðslu Skipulagsstofnunar, sem fram kemur í bréfi stofnunarinnar frá 10. maí 2013, að ekki séu forsendur fyrir því að taka ákvörðun á grundvelli 2. mgr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Liggur fyrir að krafa kæranda þar um var gerð af því tilefni að tillaga að matsáætlun vegna Kröflulínu 3 lá fyrir til ákvörðunar Skipulagsstofnunar. Lítur úrskurðarnefndin svo á að málið snúi að framkvæmdum vegna þeirrar línu, en hún mun liggja fjarri landareign kæranda í öðrum landshluta. Vísar kærandi til þess í kæru að ljóst sé að stefnt sé að tengingu á flutningskerfi raforku sunnanlands og norðan og að tengja eigi saman þau tvö kerfi. Kerfið sem vísað sé til fyrir norðan nái frá Blöndu til Fljótsdals. Verður með hliðsjón af því sem að framan er rakið ekki séð að kærandi hafi hagsmuni umfram aðra landsmenn af því að umhverfisáhrif Kröflulínu 3 verði metin sameiginlega með öðrum framkvæmdum, s.s. Blöndulínu 3.

Að teknu tilliti til alls framangreinds verður ekki séð að afgreiðsla Skipulagsstofnunar snerti lögvarða hagsmuni kæranda þannig að það skapi honum kæruaðild. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________    
Ómar Stefánsson                                             Ásgeir Magnússon    

______________________________              _____________________________    
Geir Oddsson                                                   Þorsteinn Þorsteinsson