Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

81/2011 Vesturvör

Með
Árið 2015, föstudaginn 9. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 81/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. október 2011, er barst nefndinni 4. nóvember s.á., kærir D, f.h. Idea ehf., Vesturvör 36, þá ákvörðun bæjarráðs Kópavogs frá 25. ágúst 2011 að samþykkja tillögu að breyttu deiliskipulagi Kársneshafnar þar sem gert er ráð fyrir nýrri lóð nr. 38 við Vesturvör. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök: Í gildi er deiliskipulag fyrir Kársneshöfn frá árinu 1990 en á því hafa verið gerðar nokkrar breytingar, m.a. vegna þess að landrými hefur verið aukið með landfyllingu. Með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. janúar 2004 tók gildi breyting á nefndu skipulagi þar sem gert var ráð fyrir þremur nýjum lóðum nr. 32, 34 og 36 við Vesturvör.

Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs 19. apríl 2011 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Kársnesi í samræmi við 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með breytingartillögunni var gert ráð fyrir nýrri athafnalóð, nr. 38 við Vesturvör, á landfyllingu norðan Vesturvarar 34 og 36. Samkvæmt tillögunni verður lóðin að Vesturvör 38 tæplega 11.000 m2 að flatarmáli og verður heimilt að reisa þar allt að 6.000 m2 byggingu á 1-2 hæðum með vegghæð að hámarki 10 m og mænishæð 12 m. Bæjarráð staðfesti afgreiðslu nefndarinnar 28. apríl 2011 og í kjölfarið samþykkti ráðið hinn 26. maí s.á. samning um úthlutun hinnar nýju lóðar til byggingar iðnaðarhúsnæðis fyrir báta- og skipasmíði á Kársnesi. Skipulagstillagan var auglýst til kynningar og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda. Á fundi skipulagsnefndar 19. júlí 2011 var lagt fram erindi skipulagsstjóra, dags. 26. maí s.á., til lögboðinna umsagnaraðila og framkomnar athugasemdir kynntar. Málið var síðan á dagskrá nefndarinnar 23. ágúst 2011 og lá þá fyrir umsögn skipulags- og byggingardeildar, dags. s.d., um framkomnar athugasemdir. Var tillagan samþykkt ásamt greindri umsögn og málinu vísað til afgreiðslu bæjarráðs sem samþykkti erindið á fundi sínum hinn 25. s.m. Skipulagsbreytingin öðlaðist gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. október 2011.

Kærandi vísar til þess að jafnræðis hafi ekki verið gætt við töku hinar kærðu ákvörðunar. Þegar lóðum hafi verið bætt við gildandi deiliskipulag fyrir Vesturvör 32-36, sem samþykkt hafi verið í bæjarráði árið 2003, hafi byggingarskilmálar miðað við 6 m vegghæð og 8 m mænishæð, þrátt fyrir beiðni um heimild fyrir meiri lofthæð húss að Vesturvör 36 sem hefði auðveldað starfsemi í húsinu til muna og gert hana arðbærari. Fyrirhugað mannvirki við Vesturvör 38 verði helmingi lengra en þær byggingar sem fyrir séu á athafnasvæðinu og með því að staðsetja bygginguna langsum meðfram ströndinni muni ásýnd Kópavogs breytast frá Reykjavík séð og öll stærðarhlutföll.

Af hálfu Kópavogsbæjar er gerð krafa um frávísun málsins en ella að kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar verði hafnað.

Kærandi hafi ekki lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Þó að honum hafi verið settar einhverjar skorður varðandi stærð byggingar á sínum tíma á lóð sinni við Vesturvör 36, hafi hann enga hagsmuni af því að hindra að öðrum verði gert kleift að byggja hærra hús.  Kærandi hafi sett fram tillögur um frávik frá samþykktu deiliskipulagi varðandi lóðina að Vesturvör 36 og hafi þær verið samþykktar. Byggingarnefndarteikningar hússins beri með sér að vegghæð þess sé 7,33 m og mænishæð sé 9,95 m. Lóðarhöfum á svæðinu hafi verið heimilað að haga húsbyggingum með ýmsum hætti í samræmi við þarfir þeirra. Það sé því ekki um brot á jafnræðisreglu að ræða þó að heimilað verði að byggja hús með 12 m mænishæð að Vesturvör 38. Lítil aukning umferðar muni fylgja starfsemi á lóð Vesturvarar 38 og húsið á lóðinni, sem liggi norðan við lóð kæranda, muni ekki draga úr birtu á þeirri lóð eða hafa veruleg áhrif á útsýni. Hafa verði í huga að um svæði fyrir iðnaðarstarfsemi sé að ræða en ekki íbúðarsvæði en hið kæða deiliskipulag fylgi stefnu gildandi aðalskipulags um landnotkun.

Niðurstaða: Eftir gildistöku hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar var ný tillaga að breytingu deiliskipulags Kársneshafnar við Vesturvör 38-50 lögð fram og samþykkt á fundi bæjarstjórnar 27. nóvember 2012. Tók sú deiliskipulagsbreyting gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda hinn 30. nóvember 2012.  Eftir þá breytingu er í gildandi deiliskipulagi umrædds svæðis gert ráð fyrir nýjum lóðum nr. 40-50 (sléttar tölur) og hefur  lóðinni nr. 38 við Vesturvör í Kópavogi verið skipt í tvær lóðir, um 5000 m² að flatarmáli, hvor með sinn byggingarreit, 32 x 65 m að stærð. Heimiluð mænishæð húsa var lækkuð úr 12 m í 10 m og vegghæð úr 10 m í 8 m frá því sem gert hafði verið ráð fyrir eftir hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Liggur því fyrir að ný ákvörðun um breytt skipulag lóðarinnar að Vesturvör 38 tók gildi 30. nóvember 2012. Hefur sú deiliskipulagsbreyting ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar og á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar. Hvað sem lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar líður, stæði hin nýja skipulagsákvörðun óhögguð allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

________________________________________
Ómar Stefánsson

 

102/2011 Stafafellsfjöll

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 13. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 102/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. l. nr. 130/2011.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi innanríkisráðuneytisins, dags. 24. júní 2011, sem barst úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála 27. s.m., var úrskurðarnefndinni framsend kæra, eins fjögurra eigenda lóðar nr. 10 í Stafafellsfjöllum í Lóni, dags. 7. júní 2011, vegna afskiptaleysis Sveitarfélagsins Hornafjarðar af húsbyggingu á lóð nr. 11 í Stafafellsfjöllum. Skilja verður málskot kæranda svo að kærð sé ákvörðun umhverfis- og skipulagsnefndar Hornafjarðar frá 2. mars 2011 um að nefndin telji ekki rétt að fara fram á við eiganda húss á lóð nr. 11 í Stafafellsfjöllum að hann færi húsið og að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Hornafirði 2. ágúst 2013.

Málavextir og rök: Með bréfi til bæjarráðs og byggingarfulltrúa Hornafjarðar, dags. 1. september 2009, fór kærandi fram á að eiganda lóðar nr. 11 í Stafafellsfjöllum yrði gert að „fjarlægja húsið, pall og allt það jarðfast, sem byggt hefur verið á klettinum – og því fylgt eftir.“ Var þar vísað til vinnuskúrs sem komið hafði verið fyrir nálægt mörkum lóðar nr. 10. Rakti kærandi það í erindi sínu að framkvæmdir hefðu hafist sumarið 2006 á lóð nr. 11, og hefði hún þá samstundis haft samband við skrifstofu byggingarfulltrúa Hornafjarðar og spurst fyrir um málið. Hún hafi fengið þær skýringar að einungis yrði veitt tímabundið leyfi til tveggja ára fyrir vinnuskúr á þessum stað. Eigandi lóðar nr. 11 hafi jafnframt upplýst að vinnuskúrinn ætti að standa næstu tvö árin á meðan bygging frístundahúss á lóðinni færi fram. Í stað þess að byggja frístundahúsið á réttum stað og rífa skúrinn væri hins vegar unnið að endurbótum á honum en húsið stæði í 3-5 m fjarlægð frá mörkum lóðar nr. 10. Stöðuleyfið væri útrunnið og engin merki sæjust um byggingu á byggingarreit. Húsið líktist í engu vinnuskúr og hér væri um að ræða brot gegn ákvæðum byggingarreglugerðar og deiliskipulags.

Erindi kæranda var tekið fyrir í bæjarráði Hornafjarðar 8. september 2009 og vísað til skipulags- og byggingarnefndar. Var það kynnt á fundi nefndarinnar 10. s.m. og starfsmönnum falið að afla frekari gagna áður en málið fengi endanlega afgreiðslu. Erindið var tekið fyrir á ný á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar Hornafjarðar 2. mars 2011. Í fundargerð kemur fram að nefndin sé sammála um að á undanförnum árum hafi ýmislegt sem framkvæmt hafi verið á umræddu svæði verið gert án þess að skipulagi hafi verið fylgt í hvívetna. Nefndin telji hins vegar ekki jafnræði fólgið í að krefja einn af eigendum sumarhúsa, þar sem framkvæmd kunni að stangast á við skipulag, um að fara í breytingar þannig að ótvírætt sé að farið sé eftir skipulagi. Af þeim sökum telji nefndin ekki rétt að fara fram á við eiganda húss á lóð nr. 11 í Stafafellsfjöllum að hann færi húsið.

Kærandi vísar í kæru sinni til sömu atvika og sjónarmiða og rakin voru í framangreindu erindi frá 1. september 2009. Hann hafi haldið áfram mótmælum sínum og fyrirspurnum og óskað eftir afskiptum byggingaryfirvalda á staðnum af byggingarframkvæmdunum. Þá hafi verið farið fram á að húsið yrði fjarlægt eða flutt á byggingarreit og spurt hafi verið um áætlun sem lyti að því, en án árangurs. Húsið á lóð nr. 11 sé byggt án tilskilinna leyfa, í trássi við skipulag og of nálægt lóðamörkum, en hin umdeilda bygging rýri mjög notagildi lóðar kæranda. Sveitarfélagið hafi brugðist skyldu sinni og ekki farið að lögum.

———-

Sveitarfélaginu og eiganda lóðar nr. 11 í Stafafellsfjöllum var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og athugasemdum í tilefni af kærumálinu en úrskurðarnefndinni hafa ekki borist athugasemdir af hálfu nefndra aðila.

Niðurstaða: Í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, sem tóku gildi hinn 1. janúar 2011, kemur fram að ef byggingarframkvæmd er hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brýtur í bága við skipulag getur byggingarfulltrúi eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, ef mannvirkið fellur undir 3. mgr. 9. gr. laganna, krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað.

Í máli þessu liggur fyrir að umhverfis- og skipulagsnefnd Hornafjarðar tók hinn 2. mars 2011 afstöðu til erindis kæranda, þar sem þess var óskað að sveitarfélagið beitti eiganda lóðar nr. 11 í Stafafellsfjöllum þvingunarúrræðum vegna húss sem stæði nær lóðamörkum en byggingarreglugerð og deiliskipulag heimiluðu. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að byggingarfulltrúi hafi tekið afstöðu til erindisins, svo sem áðurnefnt lagaákvæði kveður á um.

Af framangreindum ástæðum liggur ekki fyrir ákvörðun þar til bærs stjórnvalds sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verður undir úrskurðarnefndina. Af þeim sökum verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

76/2013 Austurvegur á Ísafirði

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2013, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 6. júní 2013 um breytingar á skólalóð Grunnskólans á Ísafirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. ágúst 2013, er barst nefndinni 2. s.m., kæra Á, Austurvegi 7, Ísafirði, framkvæmdir Ísafjarðarbæjar vegna skólalóðar Grunnskólans á Ísafirði. Verður að skilja kæruna svo að kærð sé ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar frá 6. júní 2013 um breytingar á skólalóð Grunnskólans á Ísafirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Ísafjarðarbæ 4. október 2013.

Málavextir: Á fundi umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar 29. maí 2013 var lagt fram erindi Grunnskólans á Ísafirði, dags. 8. s.m., þar sem þess var óskað að blómagarðurinn við Austurvöll yrði skilgreindur sem skólalóð. Jafnframt voru lagðar fram nokkrar tillögur að nýrri skólalóð og lagði nefndin til að farið yrði eftir tillögu 3, sem fól m.a. í sér að sá hluti Austurvegar, sem hafði verið skilgreindur sem vistgata og lokaður á skólatíma, var gerður að hluta skólalóðarinnar og þeim hluta því lokað varanlega. Þá var bókað að óheimilt væri að skerða umfang garðsins og var grunnskólanum veitt leyfi til að nýta hann sem hluta af skólalóð undir eftirliti skólastjórnenda. Á fundi bæjarstjórnar 6. júní s.á. var samþykkt að nýta Austurvöll sem hluta af skólalóð Grunnskólans á Ísafirði og var bókað að sú nýting gengi ekki gegn hverfisvernd Austurvallar, sem samþykkt væri í Aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar. Á sama fundi var fundargerð umhverfisnefndar frá 29. maí s.á. staðfest.

Fréttir af greindum ákvörðunum ásamt teikningu að fyrirhugaðri skólalóð birtust í Bæjarins Besta, fréttablaði á Vestfjörðum, í byrjun júlí 2013. Hófust framkvæmdir við lóðina og var leiktækjum komið fyrir seinna í sama mánuði.

Málsrök kæranda: Kærendur taka fram að með hinum kærðu breytingum verði þeim meinuð aðkeyrsla að fasteign þeirra að Austurvegi 7, og þá sérstaklega að bílskúr austan megin við húsið. Aðkeyrslan hafi verið um sund á milli Sundhallar Ísafjarðar og skrúðgarðsins Austurvallar. Ekki hafi farið fram grenndarkynning vegna framkvæmdanna og ákvörðunin hafi ekki verið auglýst. Kærendur hafi þær upplýsingar frá Skipulagsstofnun að framkvæmdir þessar séu unnar í trássi við gildandi deiliskipulag frá 16. október 1997. Það fyrsta sem kærendur hafi séð um málið hafi verið frétt á vef bæjarblaðsins, dags. 3. júlí 2013, þar sem birt hafi verið teikning af fyrirhugaðri skólalóð.

Með lokun á innkeyrslunni séu nýtingarmöguleikar kærenda á fasteign þeirra stórlega takmarkaðir. Útilokað sé að koma bifreið að húsinu eða inn í bílskúrinn nema um innkeyrsluna. Sé um að ræða rýrnun á verðmæti fasteignarinnar vegna hinna kærðu framkvæmda.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er skírskotað til þess að gildandi deiliskipulag hafi verið samþykkt af bæjarstjórn Ísafjarðar 16. október 1997. Í skipulaginu komi fram að Austurvegur sé lokaður á skólatíma milli sundhallar og Grunnskólans á Ísafirði, en einstefna sé þar á öðrum tímum. Austurvegur sé skólalóð samkvæmt skipulaginu og því hafi nægt að breyta umferðarsamþykkt til að banna umferð um þennan hluta Austurvegar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar að loka hluta Austurvegar á Ísafirði, en aðkoma að innkeyrslu að fasteign kærenda Austurvegi 7 er innan þess svæðis sem lokað var.

Þegar ákvörðun sú er málið snýst um var tekin var í gildi deiliskipulag fyrir Eyrina á Ísafirði frá 16. október 1997. Þar var sá hluti Austurvegar sem lokað var skilgreindur sem vistgata en í greinargerð með skipulaginu kom fram í kafla 2.8 Kvaðir: „Kvöð er um umferð að Austurvegi 7 um lóðir Austurvegar 9 og 11.“ Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni var hafist handa við breytingu á nefndu deiliskipulagi í kjölfar kæru til nefndarinnar og segir í greinargerð með breytingunni að kæran hafi verið ástæða þess að ákveðið hafi verið að breyta deiliskipulaginu. Í öðrum kafla greinargerðarinnar segir eftirfarandi: „Meginbreyting deiliskipulagsins felst í að Austurvegi milli grunnskólans (Aðalstræti 36) og Austurvallar (Austurvegar 5) og Sundhallarinnar (Austurvegur 9) er lokað að fullu, í stað þess að vera skilgreindur sem vistgata með lokun á skólatíma. Lóð skólans stækkar sem þessari lokun nemur.“ Einnig segir: „Aðkoma að Austurvegi 7 verður áfram um lóð Sundhallarinnar (Austurvegar 9) líkt og í gildandi skipulagi.“ Á skipulagsuppdrættinum kemur fram að gatan fyrir framan innkeyrslu þá er kæra málsins snýst um sé nú lokuð en kvöð um umferðarrétt sé að húsi kærenda milli húsanna við Austurveg 9 og 11. Loks kemur fram í greinargerðinni að annar kærenda hafi skilað inn athugasemdum á auglýsingartíma skipulagsins.

Skipulagsbreytingin tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 10. september 2014 og hefur sú skipulagsákvörðun hvorki verið borin undir úrskurðarnefndina af kærendum né öðrum aðilum.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Ljóst er af framangreindu að hvað sem líður lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar liggur nú fyrir ný ákvörðun um breytingu deiliskipulags, sem gildir fyrir hið umdeilda svæði. Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki lengur réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar. Eiga kærendur af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar, enda stæði hin nýja skipulagsákvörðun óhögguð allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurgreinda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                            Þorsteinn Þorsteinsson

77/2010 Hörðuvellir Reykdalsreitur

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 24. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2010, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 10. nóvember 2010 um að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hörðuvalla/-Reykdalsreits í Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. desember 2010, er barst nefndinni 10. s.m., kærir Kári Hólmar Ragnarsson hdl., f.h. G, Ljósatröð 4, Hafnarfirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 10. nóvember 2010 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hörðuvalla/Reykdalsreits í Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að bæjaryfirvöldum verði gert að taka tillit til þeirra athugasemda sem kærandi hefur sett fram.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 25. janúar 2011.

Málavextir: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar hinn 24. mars 2009 var samþykkt að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi Hörðuvalla/Reykdalsreits vegna staðsetningar á lóð fyrir dælustöð og byggingarreits viðbyggingar við Ljósatröð 2 skv. 1. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Var afgreiðslan staðfest í bæjarstjórn hinn 31. mars 2009. Tillagan var auglýst frá 4. maí 2009 til 2. júní s.á. og var frestur til að skila inn athugasemdum veittur til 16. s.m. Vegna tafa á úrvinnslu málsins samþykkti skipulags- og byggingarráð á fundi sínum 3. ágúst 2010 að tillagan yrði auglýst að nýju. Deiliskipulagsbreytingin var auglýst 13. september s.á. Var hún til sýnis til 11. október s.á. og frestur til að skila inn athugasemdum veittur til 25. s.m. Athugasemdir bárust frá kæranda og var þeim svarað í umsögn skipulags- og byggingarsviðs bæjarins, dags. 1. nóvember 2010.

Á fundi skipulags- og byggingarráðs 2. nóvember 2010 var málið tekið fyrir að nýju og tillagan afgreidd með svohljóðandi bókun: „Skipulags- og byggingarráð tekur undir svar skipulags- og byggingarsviðs, samþykkir skipulagið og að afgreiðslu verði lokið í samræmi við 26. grein skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Skipulags- og byggingarráð gerir eftirfarandi tillögu til bæjarstjórnar: „Bæjarstjórn Hafnarfjarðar samþykkir tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir svæði við Ljósatröð dags. 15.01.2009 og að afgreiðslu verði lokið í samræmi við 26. grein skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997“.“ Bæjarstjórn samþykkti tillöguna á fundi hinn 10. nóvember 2010 og var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar birt í B-deild Stjórnartíðinda 15. mars 2011.

Deiliskipulagsbreytingin tekur til svæðis við Ljósatröð sem afmarkast af Lækjargötu, Reykjanesbraut og Læknum, en deiliskipulagi þessa svæðis var frestað þegar deiliskipulag Hörðuvalla/Reykdalsreits var samþykkt árið 2001. Með umræddri deiliskipulagsbreytingu var svæðið því deiliskipulagt í fyrsta sinn.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða deiliskipulagsbreyting brjóti í bága við eignarrétt hans og valdi honum hugsanlegu tjóni og spjöllum. Lóð hans, Ljósatröð 4, sé afmörkuð minni en hún ætti að vera í skipulagstillögunni. Lóðin sé að stofni til erfðafestulóð samkvæmt erfðafestusamningi, dags. 28. desember 1933, og hafi verið hluti af landi Verksmiðju Reykdals, en landið hafi verið selt Hafnarfjarðarbæ árið 2000. Í erfðafestusamningnum sé lóðin afmörkuð og tilgreind með flatarmálið 1.250 m2 og sé hún merkt inn á deiliskipulagsuppdráttinn með sama hætti nú. Eftir að erfðafestusamningurinn hafi verið gerður hafi lóðarmörk Reykholts, nú Ljósatraðar 4, hins vegar breyst og lóðin stækkað á grundvelli samkomulags við þáverandi eigendur landsins og/eða hefðar. Talið sé líklegt að fljótlega eftir að erfðafestusamningurinn hafi verið gerður hafi orðið að samkomulagi milli eigenda Reykholts og eigenda Reykdalslandsins að land Reykholts næði allt niður að læk. Skriflegir gerningar um slíkt samkomulag finnist ekki en framkvæmdin tali sínu máli. Jóhannes Reykdal, leigusali samkvæmt erfðafestusamningnum, hafi álitið að lóðarmörk Reykholts væru með þeim hætti sem kærandi haldi fram og sé þar vísað til uppdráttar sem Jóhannes hafi undirritað hinn 25. ágúst 1967, sem Hafnarfjarðarbæ hafi mátt vera kunnugt um, enda hafi verið til hans vísað í afsali vegna kaupa bæjarins á spildu úr lóð Íshúss Reykdals. Einnig sé vísað til teikningar bæjarverkfræðings Hafnarfjarðar af lóð Reykdalsverksmiðju frá því í janúar 1988.

Eigendur Ljósatraðar 4 hafi í 75 ár farið að öllu leyti með eignarhald og nýtingu á stærra svæði en erfðafestusamningurinn hafi gert ráð fyrir, eða alls 1.877 m2, án athugasemda frá eigendum Reykdalsverksmiðjunnar. Því til stuðnings sé meðal annars vísað til girðingar sem komið hafi verið fyrir í tíð fyrri eigenda og sjáist á teikningu sem stafi frá Garðahreppi. Þá hafi landfræðilegar aðstæður ætíð ráðið lóðamörkum á svæðinu en mikill hæðarmunur sé meðfram suður- og norðurmörkum lóðarinnar, eins og kærandi telji þeim rétt lýst. Stallur á suðurmörkum hennar sé að öllum líkindum manngerður og hæðarmunurinn sé hátt í tveir metrar. Eigendur landsins hafi ávallt nýtt allt svæðið, m.a. til ræktunar og dýrahalds, en ummerki um ræktun utan lóðamarka samkvæmt deiliskipulagsuppdrættinum sjáist vel. Skilyrði hefðar séu uppfyllt og kærandi og forverar hans hafi öðlast eignarrétt á landi allt niður að læk, eða a.m.k. afnotarétt með sömu skilyrðum og komi fram í erfðafestusamningnum.

Samkvæmt skipulagstillögunni eigi skúr á lóð kæranda að víkja en það sé bæði heimildarlaust og óútskýrt af hálfu sveitarfélagsins. Skúrinn hafi staðið athugasemdalaust á lóðinni frá árinu 1997 og sé því harðlega mótmælt að hann eigi að víkja. Einnig sé stækkun byggingarreits vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar á lóð Ljósatraðar 2 mótmælt en gert sé ráð fyrir gríðarlegri stækkun á mannvirkjum í átt að lóð kæranda, sem óhjákvæmilega muni hafa í för með sér aukið áreiti, óþægindi og umferð vegna starfseminnar í húsinu. Lóð kæranda standi á einstökum stað, fjarri öðrum íbúðarhúsum, og verðmæti hennar taki mið af þeirri sérstöðu. Fyrirhuguð viðbygging nái inn fyrir lóðarmörk Ljósatraðar 4, eins og kærandi telji þau rétt afmörkuð. Auk þess muni svo há bygging sem fyrirhuguð sé varpa algerum skugga á lóð Ljósatraðar 4. Þá virðist Hafnarfjarðarbær þegar hafa tekið afstöðu til viðbyggingarinnar með lóðarleigusamningi um Ljósatröð 2 frá árinu 2004, þar sem gert hafi verið ráð fyrir henni. Sveitarfélaginu sé óheimilt að gera samning sem brjóti í bága við gildandi skipulag og telja verði nær ómögulegt að mál þetta fái faglega meðferð af þess hálfu við þessar aðstæður.

Þá sé mótmælt fyrirhugaðri byggingu dælustöðvar örskammt frá íbúðarhúsi kæranda en slíkt mannvirki eigi illa heima svo nálægt íbúðarbyggð. Starfseminni fylgi veruleg og viðvarandi óþægindi fyrir nágranna vegna mögulegrar hávaðamengunar, sjónmengunar og hættu á slysum og tjóni, en deiliskipulagstillagan geri ekki ráð fyrir sérstökum viðbúnaði vegna slíkrar hættu. Í aðalskipulagi Hafnarfjarðarbæjar sé svæðið skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði og ekki komi fram að búast megi við veitumannvirkjum á slíkum svæðum. Deiliskipulagstillagan sé í andstöðu við skilmála aðalskipulags hvað landnotkun varði. Þá njóti deiliskipulagsreiturinn hverfisverndar samkvæmt aðalskipulagi. Þar segi m.a. að í hverfisverndinni felist að vistkerfi lækjarins, fuglalíf, útivistarmöguleikar og menningarminjar skuli njóta forgangs miðað við hagsmuni annarrar landnotkunar. Við allar framkvæmdir innan hverfisverndar skuli leitast við að viðhalda og styrkja þá þætti sem hverfisverndin nái til. Þessir skilmálar aðalskipulagsins hafi ekki verið virtir við gerð skipulagstillögunnar og eigi það bæði við um dælustöðina og aðrar viðbyggingar.

Verði ekki fallist á ógildingu á ákvörðun um samþykkt deiliskipulagstillögunnar sé þess krafist að bæjaryfirvöld girði af þau mannvirki sem deiliskipulagstillagan geri ráð fyrir að reist verði á svæðinu til þess að draga úr áhrifum breytinganna. Þá er ítrekuð krafa um að tillögunni verði breytt þannig að heimiluð verði bygging tveggja nýrra íbúðarhúsa á lóð Ljósatraðar 4 og tvennra veggsvala á 2. hæð hússins á þeirri lóð.

Að lokum telur kærandi að kröfur skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 um form deiliskipulags hafi ekki verið uppfylltar við málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar. Ekki verði séð að gerð hafi verið bæja- og húsakönnun, sbr. 3. mgr. gr. 3.1.4 í skipulagsreglugerð, og ekki sé gerð grein fyrir trjágróðri, sbr. 3. mgr. gr. 4.5.2 í nefndri reglugerð. Vísað sé til 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um bílastæði, en fjöldi bílastæða samkvæmt deiliskipulagstillögunni sé ekki rökstuddur eða vikið að honum í greinargerð með tillögunni. Engar upplýsingar séu veittar um umfang starfsemi í húsinu við Ljósatröð 2 og því sé nær ómögulegt að meta hvort fyrirhugaður fjöldi bílastæða teljist nægilegur. Engin grein sé gerð fyrir því hvort skilyrðum 75. gr. byggingarreglugerðar um lágmarksfjarlægð milli húsa sé fullnægt, hvað varði fjarlægð milli íbúðarhúss kæranda og dæluhúss Orkuveitu Reykjavíkur. Þá komi ekkert fram um stærð viðbyggingar við Ljósatröð 2, en aðeins sé tilgreint leyfilegt nýtingarhlutfall. Deiliskipulagstillagan í heild sé svo ónákvæm að erfitt sé fyrir þá sem hagsmuna eigi að gæta að átta sig á áhrifum hennar. Einnig séu gerðar athugasemdir við umsögn skipulags- og byggingarsviðs Hafnarfjarðar um athugasemdir kæranda við deiliskipulagstillöguna og sérstaklega vísað til málsmeðferðar varðandi athugasemdir kæranda vegna dælustöðvar. Í umsögninni komi fram að dælustöðin verði óþægilega nálægt íbúðarhúsi kæranda og að ekkert land sé eftir til slíkra framkvæmda. Því skyldi ætla að ekki hafi mátt samþykkja fyrirliggjandi tillögu til breytinga á deiliskipulaginu en það hafi þó verið gert. Slík vinnubrögð samræmist ekki stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Sérstaklega sé vísað til rannsóknarreglu 10. gr. laganna og meðalhófsreglu 12. gr. þeirra.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar kemur fram að ástæða þess að upphaflega hafi verið ráðist í þær breytingar á deiliskipulagi sem um sé deilt í málinu hafi verið sú að Orkuveita Reykjavíkur hafi óskað eftir því í desember 2008 að setja upp dælustöð á þessum stað til þess að halda uppi nægilegum þrýstingi á heitu vatni á nýjum íbúðarsvæðum í bænum. Þessi staðsetning hafi verið álitin langbesti kosturinn með tilliti til þess svæðis sem Orkuveitan gæti þjónað. Svæðið sé skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði í aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Samkvæmt upplýsingum frá Orkuveitu Reykjavíkur sé engin hljóðmengun frá dælustöðinni og ekki sé rétt að fyrirhuguð dælustöð sé á hverfisvernduðu svæði.

Samkvæmt þinglýstum lóðarsamningi frá 1933 og lóðarblaði frá 2004 sé lóð kæranda að Ljósatröð 4 1.250 m2 að flatarmáli og á þeim upplýsingum sé deiliskipulagstillagan byggð. Einnig sé vísað til þinglýsts lóðarleigusamnings frá 2004 um lóð til byggingar félagsheimilis að Ljósatröð 2, sem sýni hvernig mannvirkjum á þeirri lóð skuli háttað. Þar sem Ljósatröð 4 sé á verslunar- og þjónustusvæði sé það ekki vilji sveitarfélagsins að leyfa þar aukna íbúðarbyggð, eins og kærandi hafi óskað eftir. Þá sé skúrinn, sem standi á lóðinni Ljósatröð 4, ekki skráður hjá Þjóðskrá Íslands og ekkert byggingarleyfi sé fyrir honum. Eigi hann að standa áfram þurfi að sækja sérstaklega um það.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 10. nóvember 2010 að samþykkja tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Hörðuvelli/-Reykdalsreit. Ákvörðun bæjarstjórnar var tekin í gildistíð skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt hinn 15. mars 2011. Hinn 1. janúar 2011 tóku gildi skipulagslög nr. 123/2010 en í þágildandi 3. mgr. 42. gr. þeirra sagði: „Birta skal auglýsingu um gildistöku deiliskipulags í B-deild Stjórnartíðinda innan þriggja mánaða frá endanlegri afgreiðslu sveitarstjórnar á tillögunni. Hafi slík auglýsing ekki verið birt innan þess frests telst tillagan ógild og fer um hana í samræmi við 41. gr.“ Fyrirliggjandi gögn bera með sér að Hafnarfjarðarbær hafi metið það svo að hin kærða deiliskipulagsbreyting væri ógild samkvæmt nefndri 3. mgr. 42. gr. skipulagslaga þar sem ríflega fjórir mánuðir liðu frá endanlegri afgreiðslu bæjarstjórnar og þar til auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Var ný tillaga að breytingu  deiliskipulags Hörðuvalla/Reykdalsreits, samhljóða hinni fyrri, lögð fram og samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar á fundi sínum hinn 5. febrúar 2013 að sú tillaga yrði auglýst að nýju, skv. 41. gr. skipulagslaga. Samþykkti bæjarstjórn Hafnarfjarðar þá afgreiðslu hinn 13. s.m. Tillagan var auglýst frá 25. febrúar til 12. apríl 2013. Engar athugasemdir bárust og samþykkti skipulags- og byggingarráð Hafnarfjarðar deiliskipulagsbreytinguna hinn 30. apríl 2013 og að málinu yrði lokið í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Tók skipulagsbreytingin gildi 5. júní 2013 með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda og hefur sú skipulagsákvörðun ekki verið borin undir úrskurðarnefndina.

Hvað sem líður lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar liggur fyrir að ný ákvörðun um umdeilda deiliskipulagsbreytingu tók gildi 5. júní 2013 og gildir hún fyrir umrætt svæði. Hefur hin kærða ákvörðun af framangreindum ástæðum ekki réttarverkan að lögum eftir gildistöku hinnar yngri ákvörðunar. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar enda stæði hin nýja skipulagsákvörðun óhögguð allt að einu. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með hliðsjón af þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. nú 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________         _____________________________
Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

1/2014 Baldursgata

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 22. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 1/2014, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 4. desember 2013 um breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.186.3 vegna lóðanna nr. 32 og 34 við Baldursgötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. janúar 2014, er barst nefndinni 6. s.m., kærir K, Þórsgötu 18 a, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. nóvember 2013, að samþykkja breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.186.3 vegna lóða nr. 32 og 34 við Baldursgötu í Reykjavík. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að samþykkt deiliskipulag frá 2008 haldi gildi sínu. Samkvæmt gögnum málsins mun rétt vera að umhverfis- og skipulagsráð tók afstöðu til breytingar á umræddu deiliskipulagi á fundi sínum 4. desember 2013, en ekki 27. nóvember s.á., og verður á því byggt í máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 18. febrúar 2014 og á árinu 2015.

Málavextir: Árið 2009 tók gildi deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.186.3, svonefndan Baldursgötureit 1. Gerði skipulagið ráð fyrir að heimilt væri að fjarlægja byggingar að Baldursgötu 32 og 34 og reisa ný hús á lóðunum. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa Reykjavíkur 4. október 2013 var tekin fyrir tillaga að breytingu á nefndu skipulagi. Fól breytingin m.a. í sér að mænishæð Baldursgötu 32 hækkaði um 60 cm frá núverandi mænishæð Freyjugötu 15 og hæð þakbrúnar um 15 cm yfir hæð núverandi þakbrúnar Freyjugötu 15. Jafnframt var gert ráð fyrir að hæð á þakbrún Baldursgötu 34 hækkaði um 100 cm og yrði því 130 cm hærri en núverandi hæð þakbrúnar Þórsgötu 14. Samþykkt var að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Baldursgötu 33, Freyjugötu 15, 17 og 17a og Þórsgötu 12, 14, 16, 16a og 18. Bárust jákvæðar sem neikvæðar athugasemdir við breytinguna á kynningartíma tillögunnar.

Málið var tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. nóvember s.á. og því vísað til umhverfis- og skipulagsráðs er tók það fyrir 4. desember s.á. Var umsóknin tekin til dagskrár undir lið A, skipulagsmál, og afgreidd þar með svohljóðandi bókun: „Samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 15. nóvember 2013.“ Fundargerð ráðsins var lögð fram á fundi borgarráðs 5. desember s.á. þar sem B-hluti hennar var samþykktur. Birtist auglýsing um gildistöku breytingarinnar í B-deild Stjórnartíðinda 20. desember 2013. 

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að húsið hafi ekki verið byggt í samræmi við samþykktar teikningar. Þegar ábending hafi borist til byggingarfulltrúa um að það væri stærra en heimild væri fyrir hafi framkvæmdaaðila látið vinna nýtt deiliskipulag sem gerði ráð fyrir stærra húsi. Hafi það því þegar verið risið í leyfisleysi þegar hið kærða deiliskipulag hafi verið samþykkt. Beri framkvæmdaaðilanum að leiðrétta á eigin kostnað þau mistök sem gerð hafi verið. Jafnframt telji kærandi að skipulagsyfirvöld hafi ekki beitt eðlilegum stjórnsýsluháttum við afgreiðslu málsins. Rýri byggingin verðgildi annarra eigna á reitnum og hafi neikvæð áhrif á nánasta umhverfi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Sveitarfélagið bendir á að hin kærða breyting hafi verið gerð til að koma til móts við skekkju er orðið hafi við gerð uppdrátta af Baldursgötu 32. Séu breytingarnar svo óverulegar, t.d. varðandi skuggavarp og útsýni, að þær rýri hvorki umhverfisgæði né raski svo nokkru nemi grenndarhagsmunum kæranda. Ekki valdi það heldur ógildi þó þær hafi verið framkvæmdar áður en í ljós kom að húsið væri of hátt. Vegi hagsmunir lóðarhafa af því að fá húsin í löglegt horf með deiliskipulagsbreytingunni mun þyngra en óljósir og óverulegir grenndarhagsmunir kæranda. 

Athugasemdir lóðarhafa: Lóðarhafi tekur fram að eftir að húsið að Baldursgötu 32 hafi að mestu verið risið og sperrur komnar upp hafi komið í ljós að samþykktar teikningar, og þar með húsið, hafi reynst vera 50 cm hærri en heimilt væri samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Tekið sé undir sjónarmið borgarinnar um áhrif breytinganna. Sé breyting á Baldursgötu 32 það lítil að hún sjáist varla frá götunni og skerði á engan hátt útsýni frá Freyjugöturóló og frá íbúðum við Freyjugötu og Þórsgötu. Þá falli hækkun þakbrúnar á Baldursgötu 34 að byggðamynstri reitsins. Unnið hafi verið skuggavarp fyrir umþrættan reit sem sýni enga aukningu skugga á sumarsólstöðum og nánast enga breytingu á skugga á jafndægrum, en eigendur þeirra húsa sem skuggi falli á hafi samþykkt breytinguna. Hafi mun fleiri hagsmunaaðilar lagt fram samþykki sitt fyrir breytingunum en andmælt þeim.

Lóðarhafi hafi alla tíð verið í góðri trú varðandi umræddar framkvæmdir og að samþykktar teikningar væru í samræmi við gildandi deiliskipulag, enda hafi hann mátt ætla að Reykjavíkurborg hafi staðreynt að svo væri. Séu fullyrðingar kæranda um áhrif breytinganna órökstuddar. Gangi meiri hagsmunir framar minni hagsmunum.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs frá 4. desember 2013 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi svonefnds Baldursgötureits 1.
 
Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna skv. 2. mgr. 6. gr. sömu laga og er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana. Er vísað til sveitarstjórnarlaga um þetta atriði, sem nú eru lög nr. 138/2011. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum segir um 2. mgr. 6. gr. að þar séu lagðar til breytingar til samræmis við ákvæði sveitarstjórnarlaga sem heimili að fela nefndum sveitarfélags fullnaðarafgreiðslu mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins. Lagt sé til að sveitarstjórn sé heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að vísa afgreiðslum til skipulagsnefnda. Er tekið fram í athugasemdunum að í slíkum samþykktum „… yrði að kveða á með skýrum hætti um hvað fælist í fullnaðarafgreiðslu mála hjá skipulagsnefnd, svo sem kynningu gagnvart sveitarstjórn, og hvort afstaða sveitarstjórnar þurfi að liggja fyrir á einhverju stigi mála“. Skulu sveitarstjórnir skv. 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annast. Skal slík samþykkt send ráðuneytinu til staðfestingar.

Sveitarstjórn ákveður valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. sveitarstjórnalaga. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. Kveðið er á um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála í 42. gr. laganna. Segir í 1. mgr. að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Þá er tekið fram í 4. mgr. að þegar sveitarstjórn nýti sér heimild skv. 1. mgr. skuli jafnframt kveða á um það í samþykkt sveitarfélagsins hver skuli taka fullnaðarákvörðun í máli skv. 3. mgr. og hvernig skuli fara með endurupptöku mála sem hljóti afgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum.

Um V. kafla sveitarstjórnarlaga um nefndir, ráð og stjórnir segir í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna að í ljósi þess að sveitarstjórn fari með æðsta vald í málefnum sveitarfélagsins, og taki ákvarðanir um stjórn þess og stjórnskipulag innan ramma laga, sé í frumvarpinu lagt til grundvallar að stærstu ákvarðanir um málefni sveitarfélagsins geti aðeins sveitarstjórnin sjálf tekið. Sveitarfélög fari með mikla hagsmuni og ákvarðanir um málefni þeirra geti haft mikil áhrif á íbúa sveitarfélaganna og jafnvel á þjóðfélagið í heild sinni. Enn fremur segir að það sé í samræmi við þann lýðræðislega grundvöll sem kjör sveitarstjórnar byggist á að eiginlegt ákvörðunarvald um mikilvæg málefni sé í hennar höndum, en ekki undirnefnda hennar eða einstakra starfsmanna.

Samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar var samþykkt af borgarstjórn 18. desember 2012 og í 12. gr. hennar er kveðið á um að umhverfis- og skipulagsráð afgreiði, án staðfestingar borgarráðs, nánar tilgreind verkefni skv. skipulagslögum samkvæmt heimild í 42. gr. sveitarstjórnarlaga og viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Ný samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar, nr. 715/2013, var staðfest fyrir hönd innanríkisráðherra 8. júlí 2013 og öðlaðist gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m. Frá sama tíma féll eldri samþykkt um sama efni, ásamt viðaukum, úr gildi. Í VI. kafla gildandi samþykktar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en borgarráð. Í 58. gr. samþykktarinnar er kveðið á um fullnaðarafgreiðslu og er orðalag greinarinnar áþekkt orðalagi 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Segir nánar í 1. mgr. 58. gr. að borgarstjórn geti ákveðið með viðauka við samþykktina að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Reykjavíkurborgar fullnaðarafgreiðslu mála og eru sett við því sömu skilyrði og er að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkir viðaukar við samþykktina höfðu ekki verið samþykktir þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 4. desember 2013.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið samkvæmt skipulagslögum og er framsal þess valds undantekning frá greindri meginreglu. Heimild 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga til valdframsals innan sveitarfélaga er almenns eðlis en í 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn veitt sérstök heimild til framsals valds síns samkvæmt þeim lögum. Er ljóst af orðalagi ákvæðanna að valdframsal þetta fer fram í sérstakri samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga, en kveðið er á um slíkar samþykktir í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Fer lögmætt valdframsal ekki fram með öðrum hætti á þessum lagagrundvelli. Með hliðsjón af athugasemdum með frumvörpum til nefndra laga sem að framan eru raktar þykir einnig ljóst að í slíkri samþykkt þurfi að koma fram efnislegt valdframsal. Nægir í því sambandi ekki að endurtaka í samþykkt orðalag lagaheimildar til valdframsals heldur verður að koma skýrt fram í samþykktinni sjálfri hvert það vald er sem framselt er og hverjum. Valdframsal borgarstjórnar til umhverfis- og skipulagsráðs í samþykkt um umhverfis- og skipulagsráð frá 18. desember 2012 var því ekki í samræmi við lög.

Samkvæmt framansögðu brast umhverfis- og skipulagsráð vald til að samþykkja umþrætta deiliskipulagsbreytingu og verður að líta svo á að í samþykkt hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar um afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Eins og nánar er rakið í málavöxtum samþykkti umhverfis- og skipulagsráð hina umdeildu deiliskipulagsbreytingu undir lið A, skipulagsmál, svo sem fundargerð ráðsins frá 4. desember 2013 ber með sér, en borgarráð samþykkti B-hluta fundargerðarinnar á fundi sínum degi síðar. Þar sem ekki liggur fyrir að sveitarstjórn hafi komið að málinu er ekki fyrir hendi lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Ber því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

23/2015 Suðurlandsbraut

Með
Árið 2015, föstudaginn 11. september, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. 1. nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 23/2015, kæra á ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur um að krefjast þess að lagnir á lóðinni Suðurlandsbraut 46-54 verði myndaðar.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Húsfélagið Suðurlandsbraut 46-54, Suðurlandsbraut 48, Reykjavík, þá ákvörðun Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 19. mars 2015 að krefjast þess að lagnir á lóðinni Suðurlandsbraut 46-54 verði myndaðar til að unnt verði að staðfesta hvaðan fita berist inn í frárennslislagnir. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Kærandi gerir jafnframt þá kröfu að nefndin úrskurði honum hæfilegan málskostnað úr hendi Reykjavíkurborgar, standi lagaheimildir til þess.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur 18. maí 2015.

Málavextir: Kærandi er húsfélag fyrir eigendur fasteigna á lóðinni nr. 46-54 við Suðurlandsbraut. Með bréfi, dags. 23. febrúar 2015, fór Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fram á að kærandi léti mynda lagnir á viðkomandi lóð þar sem ummerki um fitu og fitumengað vatn hefðu fundist í frárennslisbrunni við skoðun heilbrigðiseftirlitsins og starfsmanna Orkuveitu Reykjavíkur fyrr í sama mánuði. Var gefinn frestur til 16. mars s.á. til að skila gögnum um niðurstöðu myndunarinnar. Frá árinu 2012 hafði kærandi átt samskipti við heilbrigðiseftirlitið vegna endurtekinna stíflna í skolplögnum á lóðinni, sem kærandi rakti til veitingastaða á svæðinu. Hafði kærandi kvartað yfir kostnaði og tjóni vegna flóða og hreinsunar lagna, síðast með bréfi dags. 11. febrúar 2015, og krafist þess að heilbrigðiseftirlitið gengi úr skugga um hvort fituskiljur væru í frárennslislögnum frá nefndum veitingastöðum. Kemur fram í bréfi kæranda að fyrirtæki hafi verið fengið til að hreinsa fitu úr lögnum á lóðunum frá því að flætt hefði í byrjun árs 2015.

Með bréfi, dags. 4. mars 2015, mótmælti kærandi fyrirmælum heilbrigðiseftirlitsins á þeim forsendum að ekki hvíldi skylda á fasteignareigendum að framkvæma rannsóknina á lögnunum. Með bréfi, dags. 19. s.m., var krafa heilbrigðiseftirlitsins ítrekuð og nýr frestur veittur til 7. apríl s.á. til að skila umræddum gögnum. Kæra í málinu barst úrskurðarnefndinni 15. apríl s.á., eins og áður sagði.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður forsögu málsins vera þá að frá byggingu þeirra fimm húsa sem standi á lóðinni 46-54 við Suðurlandsbraut hafi þrír veitingastaðir fengið starfsleyfi í húsunum. Ýmis vandamál hafi fylgt veitingarekstrinum og meðal þeirra hafi verið ítrekuð fitusöfnun í lögnum á lóðinni, með tilheyrandi stíflum og flóðum. Þrisvar sinnum hafi orðið mjög erfiðar stíflanir, síðast í upphafi þessa árs. Í janúar og febrúar á þessu ári hafi farið fram viðamikil og kostnaðarsöm hreinsun ásamt myndatöku á öllum lögnunum utan stutts leggs, sem ekki hafi verið unnt að komast að. Hafi Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur verið greint frá þessu. Kærandi hafi kvartað ítrekað við heilbrigðiseftirlitið frá árinu 2012 yfir því að ekki væri gengið úr skugga um hvort fitugildrur væru á útrennsli frá áðurnefndum veitingastöðum í samræmi við lög og reglur. Heilbrigðiseftirlitið hafi eftirlitsskyldu með því að fyrrnefndu sé sinnt en treglega hafi gengið að fá heilbrigðiseftirlitið til að sinna því eftirliti. Kærandi hafi sent enn eitt bréfið, dags. 11. febrúar 2015, þar sem greint hafi verið frá stíflum í frárennsliskerfi lóðarinnar og hreinsun á þeim. Þá hafi borist bréf frá heilbrigðiseftirlitinu, dags. 23. s.m.,  þar sem einungis hafi verið farið fram á að lagnir á lóðinni yrðu myndaðar. Það sé fyrst með bréfi heilbrigðiseftirlitsins 19. mars sl. þar sem „krafan“ sé ítrekuð að líta megi á að einhvers konar ákvörðun hafi verið tekin af hálfu eftirlitsins. Sé sú ákvörðun kærð þar sem kærandi telji ekki að kostnaður við myndun lagnanna eigi að leggjast á hann.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Af hálfu heilbrigðiseftirlitsins kemur fram að  krafa hafi verið gerð um myndun lagna á umræddri lóð í kjölfar vettvangsskoðunar 20. febrúar 2015, sem leitt hafi í ljós að fita væri í frárennslisbrunnum á lóðinni. Sú krafa hafi verið gerð í samráði við Orkuveitu Reykjavíkur, sem einnig hefði komið að málinu, til að afla gagna um ástand lagna og uppfylla rannsóknarskyldu skv. stjórnsýslulögum til að geta gengið að þeim aðilum sem væru að valda skaða á lögnunum.

Krafan hafi fyrst verið sett fram með bréfi, dags. 23. febrúar 2015, og verið ítrekuð með bréfi, dags. 19. mars s.á. Fyrst hafi verið veittur frestur til 16. mars og síðan aftur til 7. apríl til að mynda lagnir og senda gögn til heilbrigðiseftirlitsins. Kærandi hafi óskað eftir auknum fresti í tölvupósti 31. mars s.á. og hafi fresturinn enn verið framlengdur til 21. apríl s.á. Heilbrigðiseftirlitinu hafi síðan borist bréf frá kæranda, dags. 15. þess mánaðar, þar sem fram hafi komið að búið væri að kæra umrædda ákvörðun. Í sama pósti hafi komið fram að búið væri að mynda allar lagnir nema stuttan legg og því sæi kærandi ekki ástæðu til að mynda aftur. Fram að þessu hefði heilbrigðiseftirlitinu ekki verið gerð grein fyrir að lagnir hefðu verið myndaðar heldur aðeins að þær hefðu verið hreinsaðar. Óskað hafi verið eftir því við kæranda að hann léti heilbrigðiseftirlitinu í té gögnin sem aflað hefði verið með mynduninni. Kærandi hafi orðið við þeirri beiðni og teljist því krafa sú sem kærð sé í málinu uppfyllt. Í ljósi þessa telji heilbrigðiseftirlitið að vísa beri kærunni frá þar sem kæruefni sé ekki lengur til staðar.

Athugasemdir kæranda við málsrök Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur: Kærandi telur frávísunarkröfu heilbrigðiseftirlitsins byggða á röngum lagaforsendum, málið sé engan veginn útkljáð. Heilbrigðiseftirlitið hafi hvorki afturkallað, leiðrétt né breytt ákvörðun sinni, sem þó sé heimild til að gera samkvæmt stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Kærandi hafi hagsmuni af því að fá efnisúrskurð í málinu um það álitaefni hvort heilbrigðiseftirlitinu hafi verið heimilt að lögum að skylda kæranda til að leggja út í kostnaðarsamar myndatökur í þágu þeirrar rannsóknarskyldu sem á heilbrigðiseftirlitinu sjálfu hvíli.

——————–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en tekið hefur verið mið af þeim við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um skyldu kæranda til að verða við þeirri kröfu um að láta mynda lagnir á lóðinni við Suðurlandsbraut 46-54, en kærandi er húsfélag fasteignareigenda á þeirri lóð. Krafan var sett fram af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sem í umboði heilbrigðisnefndar Reykjavíkur sér um að framfylgt sé ákvæðum laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerða settra samkvæmt þeim, sbr. t.a.m. 13. og 15. gr. laganna.
 
Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt gögnum málsins er fyrra bréf Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur til kæranda dagsett 23. febrúar 2015. Þar er farið fram á myndun á nefndum lögnum og frestur veittur til 16. mars s.á. Síðara bréf heilbrigðiseftirlitsins, þar sem krafan er ítrekuð, er dagsett 19. mars s.á. og er þar jafnframt veittur nýr frestur til 7. apríl 2015, sem samkvæmt gögnum málsins var síðan framlengdur til 21. apríl s.á. Í báðum bréfum heilbrigðiseftirlitsins til kæranda voru veittar leiðbeiningar um kæru til úrskurðarnefndarinnar og er því rétt að miða við seinna bréfið við útreikning kærufrests. Telst kæran því hafa borist innan lögmælts frests.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Í greinargerð Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur í málinu kemur fram að eftir að hin umdeilda ákvörðun hafi verið tekin hafi komið í ljós að nýlegar myndir af lögnum þeim sem um ræddi lægju fyrir. Hafi heilbrigðiseftirlitið fengið aðgang að þeim gögnum og þar með hafi krafa sú um myndir af lögnunum, sem fólst í hinni kærðu ákvörðun, verið uppfyllt. Gögn málsins styðja þessar málalyktir en af þeim má ráða að heilbrigðiseftirlitinu hafi verið greint frá fyrirliggjandi myndefni sama dag og málið var kært til úrskurðarnefndarinnar. Telst hin kærða ákvörðun samkvæmt framangreindu ekki lengur hafa réttarverkan að lögum, enda er kæruefni ekki lengur til staðar. Verður því ekki séð að kærandi eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar og verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við ákvæði fyrrgreindrar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Lagaheimild skortir til að ákvarða kærumálskostnað í málum sem rekin eru fyrir úrskurðarnefndinni og kemur krafa kæranda um málskostnað því ekki til álita.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

14/2011 Nönnustígur

Með
Árið 2015, föstudaginn 14. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 14/2011 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 18. febrúar 2011, sem barst nefndinni sama dag, kærir Sverrir Pálsson hdl., f.h. Á, Reykjavíkurvegi 27, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Hafnarfirði frá 8. desember 2010 að veita að nýtt byggingarleyfi fyrir tveimur bílastæðum á lóð nr. 2 við Nönnustíg í Hafnarfirði. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.

Málsatvik og rök: Að undangenginni grenndarkynningu samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar hinn 13. maí 2009 umsókn um gerð tveggja bílastæða á lóðinni Nönnustíg 2.  Kærendur sendu bæjaryfirvöldum erindi, dags. 22. október 2010, þar sem mælst var til þess að nefnt byggingarleyfi yrði fellt úr gildi þar sem meira en tólf mánuðir væru liðnir frá samþykki leyfisins án þess að ráðist hefði verið í framkvæmdir.  Málið var á dagskrá skipulags- og byggingarráðs 16. nóvember 2010 þar sem ákveðið var að beina því til eigenda Nönnustígs 2 að sækja skriflega um endurnýjun byggingarleyfisins. Umsókn um endurnýjun leyfis varðandi lóðarfrágang sem veitt var 13. maí 2009 var síðan samþykkt á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 8. desember 2010 og staðfest í bæjarstjórn 17. s.m.  Kærendur fóru fram á rökstuðning bæjaryfirvalda fyrir þeirri ákvörðun að veita leyfishafa tækifæri til að endurnýja umrætt byggingarleyfi í stað þess að afturkalla það. Í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 21. janúar 2011, kemur fram að skipulags- og byggingarráð taki undir og geri að sínu svar skipulags- og byggingarsviðs við erindi kærenda. Tekið er fram að umdeild framkvæmd hafi verið grenndarkynnt á sínum tíma og þá hafi borist athugasemd frá kærendum. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt með vísan til fyrri afgreiðslu og þess að ekkert nýtt hafi komið fram sem breyti þeirri niðurstöðu. Framkvæmdin sé jafnframt í samræmi við gr. 64.3 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.

Kærendur byggja kröfu sína á því að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið ólögmæt og hún sé því ógildanleg. Enga heimild sé að finna í lögum til að endurnýja byggingarleyfi líkt og gert hafi verið í máli þessu en verði svo talið sé um nýja stjórnvaldsákvörðun að ræða sem sæta þurfi meðferð samkvæmt form- og efnisreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Í kæru var boðaður frekari rökstuðningur kærenda en hann hefur ekki borist úrskurðarnefndinni. 

Bæjaryfirvöld benda á að eðlilegt hafi þótt að gefa byggingarleyfishafa kost á að gefa skýringu á því hvers vegna framkvæmdir sem heimilaðar voru á árinu 2009 hafi tafist og honum hafi verið leiðbeint um framhald málsins. Fullnægjandi skýringar á töfunum hafi borist bæjaryfirvöldum. Þótt hafi til bóta að tvö bílastæði væru gerð innan lóðar í stað eins sem var í landi bæjarins. Engin breyting hefði orðið á afstöðu bæjaryfirvalda í þessu efni þótt erindið hefði verið grenndarkynnt að nýju þar sem nágrannar hafi verið þeir sömu og við fyrri afgreiðslu byggingarleyfisins.

Niðurstaða: Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997  gátu þeir einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem áttu lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild í kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Kærendur byggja málskot sitt vegna hins umdeilda byggingarleyfis á atvikum er tengjast réttarstöðu þeirra sem eigenda fasteignarinnar að Reykjavíkurvegi 27 í Hafnarfirði, sem liggur að lóð þeirri er leyfið tekur til. Fyrir liggur kaupsamningur dags. 1. apríl 2014 þar sem kærendur selja fasteignina að Reykjavíkurvegi 27 og samkvæmt samningnum var eignin afhent hinn 1. júlí s.á. Afsal fyrir fasteigninni var gefið út hinn 23. mars 2015 og þinglýst. Frá þeim tíma hafa kærendur ekki hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hinnar kærðu ákvörðunar sem heimilaði gerð tveggja bílastæða á nágrannalóð.

Vegna þessara ástæðna eiga kærendur nú ekki lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn um ágreiningsefni máls þessa og verður málinu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Ómar Stefánsson

 

37/2014 Hólmsheiði

Með
Árið 2015, miðvikudaginn 26. ágúst, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 37/2014, kæra á ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 19. mars 2014 um breytingu á deiliskipulagi Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. apríl 2014, er barst nefndinni 30. s.m., kæra eigendur landspildna nr. 113435, 113410, 113426 og 113422 á Reynisvatnsheiði, auk Landeigendafélagsins Græðis, þá ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur frá 19. mars 2014 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Hólmsheiðar, svæðis fyrir Fisfélag Reykjavíkur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þá var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða en með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 1. september 2014 var þeirri kröfu hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 6. maí 2014.

Málavextir: Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur 19. mars 2014 var lögð fram umsókn Fisfélags Reykjavíkur, dags. 13. s.m., varðandi breytingu á deiliskipulagi svæðis félagsins á Hólmsheiði. Samkvæmt deiliskipulaginu var svæðinu skipt í þrennt, í A-, B- og C-svæði. Breytingin felur í sér að skilgreindar eru tvær lóðir á svæði A, annars vegar 200 m2 lóð undir hús fyrir félagsaðstöðu og hins vegar 4.150 m2 lóð undir vélageymslur. Byggja má frjálst innan lóðamarka. Byggingarreitur á svæði C er felldur út, en þar var áður gert ráð fyrir húsi undir félagsaðstöðu. Þá er felld niður skilgreining á „svæði 1“ innan svæðis A.

Umsóknin var samþykkt með vísan til 2. mgr. 12. gr. samþykktar um umhverfis- og skipulagsráð. Jafnframt var samþykkt að falla frá grenndarkynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðaði ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 3. apríl 2014.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að deiliskipulag svæðis Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði hafi verið kært til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 28. febrúar 2011. Athugasemdir kærenda í því máli skoðist sem athugasemdir við þá deiliskipulagsbreytingu sem hér sé kærð, auk þess sem vísað sé til annarra kæra og erinda, sem úrskurðarnefndinni hafi borist á umliðnum árum vegna skipulagsákvarðana Reykjavíkurborgar á Reynisvatns- og Hólmsheiði, og þess sem fram komi í niðurstöðum úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 6/2011, 68/2011 og 26/2010 er varðað hafi jarðvegslosunarsvæði á Hólmsheiði.

Gerð er athugasemd við að fallið hafi verið frá grenndarkynningu hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar með vísan til þess að hún hafi ekki varðað hagsmuni annarra en umsækjanda. Í þessu felist alvarlegt brot á réttaröryggisreglum skipulagslaga, skipulagsreglugerðar og stjórnsýslulaga. Er vísað til þess að Reykjavíkurborg hafi borist u.þ.b. 10 athugasemdir við tillögu að deiliskipulagi svæðisins, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 9. desember 2010. Reykjavíkurborg sé fullkunnugt um baráttu landeigenda frístundalóða í Reynisvatnslandi gegn öllum áformum um að skipuleggja flugvöll í landi jarðarinnar og lögbýlisins Reynisvatns, en flugvöllur og aðstaða Fisfélagsins skerði rétt allra þeirra sem eigi lönd og lóðir á þessu svæði. Því beri að fella nú þegar úr gildi deiliskipulagið frá 9. desember 2010.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að kröfum kærenda í málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem hin kærða deiliskipulagsbreyting varði ekki hagsmuni annarra en Fisfélags Reykjavíkur. Því hafi Reykjavíkurborg verið heimilt að samþykkja umsóknina með þeim hætti sem gert hafi verið. Í gildi sé deiliskipulag fyrir svæðið sem samþykkt hafi verið í borgarráði 9. desember 2010. Frávísunarkrafan byggist á því að hin umþrætta breyting hafi engin áhrif á grenndarhagsmuni kærenda, hvorki í sjónrænu tilliti né öðru. Kærendur eigi því enga lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um kæruefnið, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, en þeir einir geti kært ákvörðun sem eigi lögvarða hagsmuni henni tengda. Því beri að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða:
Hin kærða ákvörðun felur í sér  breytingu á deiliskipulagi fyrir svæði Fisfélags Reykjavíkur á Hólmsheiði. Með úrskurði í máli nr. 18/2011, uppkveðnum 30. júlí 2015, hafnaði úrskurðarnefndin kröfu um ógildingu þess deiliskipulags. Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um að máli þessu verði vísað frá þar sem kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun.

Sú ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs að samþykkja umrædda deiliskipulagsbreytingu byggðist á 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar sem samþykkt var af borgarstjórn 18. desember 2012. Þar er kveðið á um að umhverfis- og skipulagsráð afgreiði, án staðfestingar borgarráðs, nánar tilgreind verkefni skv. skipulagslögum samkvæmt heimild í 42. gr. sveitarstjórnarlaga og viðauka við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir m.a. gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sömu laga fara skipulagsnefndir með skipulagsmál undir yfirstjórn sveitarstjórna og er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt lögunum, svo sem afgreiðslu deiliskipulagsáætlana. Er vísað til sveitarstjórnarlaga um þetta atriði, sem nú eru lög nr. 138/2011. Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum segir um 2. mgr. 6. gr. að þar séu lagðar til breytingar til samræmis við ákvæði sveitarstjórnarlaga sem heimili að fela nefndum sveitarfélags fullnaðarafgreiðslu mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins. Lagt sé til að sveitarstjórn sé heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að vísa afgreiðslum til skipulagsnefnda. Er tekið fram í athugasemdunum að í slíkum samþykktum „… yrði að kveða á með skýrum hætti um hvað fælist í fullnaðarafgreiðslu mála hjá skipulagsnefnd, svo sem kynningu gagnvart sveitarstjórn, og hvort afstaða sveitarstjórnar þurfi að liggja fyrir á einhverju stigi mála“.

Í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga segir að sveitarstjórnir skuli gera sérstaka samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélagsins og um meðferð þeirra málefna sem sveitarfélagið annist. Skuli slík samþykkt send ráðuneytinu til staðfestingar. Ákveður sveitarstjórn valdsvið nefnda, ráða og stjórna sem hún kýs nema slíkt sé ákveðið í lögum, sbr. 1. mgr. 40. gr. laganna. Hafi nefnd ekki verið falin fullnaðarafgreiðsla máls samkvæmt lögum eða samþykkt um stjórn sveitarfélagins teljast ályktanir hennar tillögur til sveitarstjórnar enda þótt þær séu orðaðar sem ákvarðanir eða samþykktir nefndar, sbr. 2. mgr. 40. gr. Kveðið er á um framsal sveitarstjórnar á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála í 42. gr. laganna. Segir í 1. mgr. að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varði verulega fjárhag sveitarfélagsins, nema lög eða eðli máls mæli sérstaklega gegn því. Þá segir í 4. mgr. að þegar sveitarstjórn nýti sér heimild skv. 1. mgr. skuli jafnframt kveða á um það í samþykkt sveitarfélagsins hver skuli taka fullnaðarákvörðun í máli skv. 3. mgr. og hvernig skuli fara með endurupptöku mála sem hljóti afgreiðslu samkvæmt þessum ákvæðum.

Um V. kafla sveitarstjórnarlaga um nefndir, ráð og stjórnir segir í almennum athugasemdum með frumvarpi til laganna að í ljósi þess að sveitarstjórn fari með æðsta vald í málefnum sveitarfélagsins, og taki ákvarðanir um stjórn þess og stjórnskipulag innan ramma laga, sé í frumvarpinu lagt til grundvallar að stærstu ákvarðanir um málefni sveitarfélagsins geti aðeins sveitarstjórnin sjálf tekið. Sveitarfélög fari með mikla hagsmuni og ákvarðanir um málefni þeirra geti haft mikil áhrif á íbúa sveitarfélaganna og jafnvel á þjóðfélagið í heild sinni. Enn fremur segir að það sé í samræmi við þann lýðræðislega grundvöll sem kjör sveitarstjórnar byggist á að eiginlegt ákvörðunarvald um mikilvæg málefni sé í hennar höndum, en ekki undirnefnda hennar eða einstakra starfsmanna.

Samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar var samþykkt af borgarstjórn 18. desember 2012. Í henni er vísað til samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar. Samþykkt nr. 715/2013 þess efnis var staðfest fyrir hönd innanríkisráðherra 8. júlí 2013 og öðlaðist gildi með birtingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 25. s.m. Frá sama tíma féll eldri samþykkt um sama efni, ásamt viðaukum, úr gildi. Í VI. kafla gildandi samþykktar er fjallað um fastanefndir, ráð og stjórnir, aðrar en borgarráð. Í 58. gr. samþykktarinnar er kveðið á um fullnaðarafgreiðslu og er orðalag greinarinnar áþekkt orðalagi 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Segir nánar í 1. mgr. 58. gr. að borgarstjórn geti ákveðið með viðauka við samþykktina að fela nefnd, ráði eða stjórn á vegum Reykjavíkurborgar fullnaðarafgreiðslu mála og eru sett við því sömu skilyrði og er að finna í 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga. Slíkir viðaukar við samþykktina höfðu ekki verið samþykktir þegar hin kærða deiliskipulagsbreyting var samþykkt í umhverfis- og skipulagsráði 19. mars 2014.

Sveitarstjórnir fara með skipulagsvaldið samkvæmt skipulagslögum og er framsal þess valds undantekning frá greindri meginreglu. Heimild 1. mgr. 42. gr. sveitarstjórnarlaga til valdframsals innan sveitarfélaga er almenns eðlis en í 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn veitt sérstök heimild til framsals valds síns samkvæmt þeim lögum. Er ljóst af orðalagi ákvæðanna að valdframsal þetta fer fram í sérstakri samþykkt um stjórn og stjórnsýslu sveitarfélaga, en kveðið er á um slíkar samþykktir í 1. mgr. 9. gr. sveitarstjórnarlaga. Fer lögmætt valdframsal ekki fram með öðrum hætti á þessum lagagrundvelli. Með hliðsjón af athugasemdum með frumvörpum til nefndra laga sem að framan eru raktar þykir einnig ljóst að í slíkri samþykkt þurfi að koma fram efnislegt valdframsal. Nægir í því sambandi ekki að endurtaka í samþykkt orðalag lagaheimildar til valdframsals heldur verður að koma skýrt fram í samþykktinni sjálfri hvert það vald er sem framselt er og hverjum. Valdframsal borgarstjórnar til umhverfis- og skipulagsráðs í samþykkt um umhverfis- og skipulagsráð frá 18. desember 2012 var því ekki í samræmi við lög.

Samkvæmt framansögðu brast umhverfis- og skipulagsráð vald til að samþykkja umþrætta deiliskipulagsbreytingu og verður að líta svo á að í samþykkt hennar hafi falist tillaga til sveitarstjórnar um afgreiðslu, sbr. 2. mgr. 40. gr. sveitarstjórnarlaga. Þar sem sveitarstjórn hefur ekki komið að málinu er ekki fyrir hendi lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar. Ber þegar af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

59/2010 Hvammar

Með
Árið 2015, fimmtudaginn 2. júlí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Ómar Stefánsson yfirlögfræðingur, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 59/2010, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 14. júlí 2010 um breytingu á deiliskipulagi Reykjanesbrautar, frá Fjarðarhrauni að Ásbraut, svæði ÓB 5 í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. september 2010, er barst nefndinni 21. s.m., kæra J og B, f.h. eigenda lögbýlisins og jarðarinnar Selskarðs í Garðabæ, ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 14. júlí 2010 um breytingu á mörkum deiliskipulags Reykjanesbrautar, frá Fjarðarhrauni að Ásbraut, svæði ÓB 5 í Hafnarfirði. Tók deiliskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 23. ágúst 2010.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 17. október 2010, er barst nefndinni sama dag, kæra fyrrgreindir kærendur, f.h. eigenda lögbýlisins og jarðarinnar Selskarðs í Garðabæ, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar um að auglýsa breytingu á deiliskipulagi fyrir Sléttuhlíð í Hafnarfirði. Bæjarstjórn samþykkti greinda deiliskipulagsbreytingu hinn 10. nóvember 2010 og var gildistaka hennar auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní 2011.

Loks skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar, f.h. eigenda nefnds lögbýlis, ákvörðun bæjarstjórnar Hafnarfjarðar frá 20. apríl 2010 um breytingu á deiliskipulagi fyrir Hvamma í Hafnarfirði, er tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. október 2010.  

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu skipulagsákvarðanir verði felldar úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt deiliskipulagi Reykjanesbrautar verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan það mál sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þar sem hin kærða skipulagsákvörðun felur ekki í sér sjálfstæðar heimildir til að hefja framkvæmdir á svæðinu var ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfunnar á grundvelli þágildandi 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. nr. 73/1997. Málatilbúnaður kærenda í greindum kærumálum er á sömu lund og þykir því rétt að sameina kærumálin vegna breytingar á deiliskipulagi Sléttuhlíðar, sem er mál nr. 62/2010 og vegna breytingar á deiliskipulagi Hvamma, sem er mál nr. 63/2010, kærumáli þessu. 

Tekur úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála málið nú til úrskurðar á grundvelli ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. breytingu á þeim lögum nr. 139/2014.
 
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar hinn 11. maí 2010 var lögð fram tillaga skipulags- og byggingarsviðs að breyttum mörkum deiliskipulags Reykjanesbrautar frá árinu 2008. Var fært til bókar að breytingin væri til „samræmingar“ við endurskoðað deiliskipulag Hvamma. Fólst breytingin í því að svæði, merkt ÓB 5, við Háahvamm og Stekkjarhvamm, sem tilheyrði deiliskipulagi Reykjanesbrautar, var fært undir deiliskipulag Hvamma. Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi hinn 14. júlí 2010 og tók breytingin gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 23. ágúst s.á.

Hinn 31. mars 2010 staðfesti umhverfisráðherra breytingu á Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 er laut að frístundabyggð á svonefndu Sléttuhlíðarsvæði. Tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 20. apríl s.á. Orðalagi í kafla 2.2.1 um frístundabyggð var breytt og m.a. gert ráð fyrir að byggðinni yrði viðhaldið og hún fest í sessi, þjónusta veitna aukin, öryggi akvega bætt og að akandi, gangandi og hjólandi umferð yrði aðskilin. Þá var kveðið á um að byggingar sem rísa myndu á svæðinu yrðu í anda þeirra sem fyrir væru. Tillaga að breytingu á deiliskipulagi umrædds svæðis var síðan á dagskrá fundar skipulags- og byggingarráðs 24. ágúst s.á. Kom þar fram að um væri að ræða leiðréttingu á orðalagi til samræmis við fyrrnefnda aðalskipulagsbreytingu og var samþykkt að auglýsa hana til kynningar. Fól breytingin í sér að geymsla, vinnustofa eða gestahús mættu ekki vera tengd frístundahúsi með þaki eða vegg. Hámark mænishæðar frístundahúsa var ákveðið 5,5 m í stað 6,0 m miðað við gólfkóta og hámarksvegghæð langhliða 2,8 m. Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagsbreytinguna hinn 10. nóvember s.á. og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 3. júní 2011.

Að lokinni forstigskynningu tók bæjarstjórn Hafnarfjarðar fyrir á fundi sínum hinn 5. maí 2010 drög skipulags- og byggingarsviðs að endurgerðu deiliskipulagi fyrir Hvamma. Kom þar fram að tilefni skipulagstillögunnar væri það að ekki hefði verið byggt í samræmi við gildandi deiliskipulag frá árinu 1976 og yrði það skipulag fellt úr gildi með gildistöku nýs skipulags. Lagðar voru fram athugasemdir sem borist höfðu eftir forstigskynningarfund sem haldinn var hinn 12. apríl 2010 og breytt tillaga, dags. 20. s.m., þar sem brugðist var við athugasemdum. Skipulags- og byggingarráð samþykkti að leggja til við bæjarstjórn að hin breytta tillaga að deiliskipulagi fyrir Hvamma yrði auglýst til kynningar. Engar athugasemdir bárust vegna hinnar kynntu tillögu. Í kjölfar þess samþykkti skipulags- og bygggingarfulltrúi skipulagstillöguna hinn  23. júní 2010 og lauk afgreiðslu málsins skv. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga. Endurskoðað deiliskipulag fyrir Hvamma tók síðan gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 1. október 2010. Samkvæmt gildistökuauglýsingu skipulagsins sé það lagað að byggingum sem fyrir séu á svæðinu, auknar byggingarheimildir veittar á sumum lóðum og þrjú deiliskipulagssvæði sameinuð í eitt.

Af hálfu kærenda er á því byggt að svæði það sem hinar kærðu deiliskipulagsákvarðanir taki til fari að hluta til inn á þinglýsta beitarréttareign jarðarinnar Selskarðs í Garðabæ, sem sé í þeirra eigu. Með ákvörðununum sé stefnt að því að afhenda beitarréttarlóðina með byggingar- eða framkvæmdaleyfi til annarra aðila án samþykkis sameigenda á lóðinni. Sveitarfélagið sé þannig að útiloka eigendur jarðarinnar Selskarðs frá því að nýta eign sína og um leið að gera öðrum mögulegt að hafa ávinning af henni. Farið sé fram á að úrskurðarnefndin sjái til þess að sveitarfélagið fari að lögum við skipulag og sérstaklega framkvæmd þess hvað viðvíki ákvörðunum um byggingar og nýtingu á svæði því þar sem jörðinni Selskarði fylgi beitarréttur. Með hinum kærðu ákvörðunum sé í raun verið að breyta eignarrétti á umræddu svæði án nokkurrar samvinnu eða samráðs við löglega eigendur nýtingarréttar innan þess. Kærendur bendi á, í ljósi fyrri afgreiðslna úrskurðarnefndarinnar á málum er snerti umrædd réttindi þeirra, að þeir láti sér í léttu rúmi liggja „… hvað mikið er teiknað og skipulagt með pennastrikum á eigninni. Það er væntanleg framkvæmd á eigninni, samkvæmt skipulagi, sem skiptir máli og sem við erum að kæra og í sjálfu sér skiptir það því ekki máli hvenær pennastrikin voru sett á blað“.

     ———-

Hafnarfjarðarkaupstað var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna  kærumáls þessa en umsögn þar að lútandi hefur ekki borist úrskurðarnefndinni.  

Niðurstaða: Hinar kærðu deiliskipulagsákvarðanir fólu í sér breytingar á mörkum skipulagssvæða, skilmálabreytingar um frístundahúsabyggð, sem fyrir er, og endurgerð skipulags á þegar byggðu íbúðarsvæði. Byggja kærendur málatilbúnað sinn á því að með umdeildum ákvörðunum sé gengið á beitarrétt sem nái til hluta skipulagssvæðanna og tilheyri jörð þeirra Selskarði í landi Garðabæjar.

Með deiliskipulagi er tekin ákvörðun um heimilaða tilhögun byggðar og annarra mannvirkja á skipulagssvæðinu í samræmi við landnotkun gildandi aðalskipulags, en það felur ekki í sér ráðstöfun beinna eða óbeinna eignaréttinda. Slík réttindi geta eftir atvikum hindrað framgang skipulagsins nema með samkomulagi við rétthafa eða að undangengnu eignarnámi, sbr. 33. og 34. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þá verður ekki ráðist í einstakar        leyfisskyldar framkvæmdir á grundvelli deiliskipulags nema að fengnu framkvæmda- eða byggingarleyfi samkvæmt 27., 43. og 44. gr. laganna. Ákvörðun um slíka leyfisveitingu er stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðarnefndina að lagaskilyrðum uppfylltum.    Verður því ekki tekin afstaða til framkvæmda sem kann að verða ráðist í á grundvelli hinna kærðu deiliskipulagsákvarðana.    

Í gildandi Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 segir í kafla 2.2.13, landbúnaðarsvæði, að ekki séu afmörkuð nein svæði fyrir landbúnað í Hafnarfirði nema í Krýsuvík. Samkvæmt lögbýlaskrá Þjóðskrár Íslands er lögbýlið Selskarð í Garðabæ eyðibýli og í gildandi aðalskipulagi Garðabæjar er lögbýlið ekki á skilgreindu landbúnaðarsvæði. Deiliskipulagssvæði þau sem hér eru til umfjöllunar höfðu þegar verið skipulögð við töku hinna kærðu ákvarðana og ekki er gerð breyting á landnotkun skipulagssvæðanna, sem ákveðin er í gildandi aðalskipulagi Hafnarfjarðar. Hefur lögmæti eldra deiliskipulags umræddra svæða ekki verið borið undir úrskurðarnefndina og getur það hér eftir ekki komið til endurskoðunar af hálfu nefndarinnar þar sem frestir til kæru eða endurupptöku eru löngu liðnir. 

Samkvæmt framansögðu geta hinar kærðu ákvarðanir engin áhrif haft á ætlaðan rétt kærenda, umfram það sem þegar er orðið og felst í fyrri ákvörðunum um skipulag á umræddu svæði.  Verða þeir af þeim sökum ekki taldir eiga lögvarða hagsmuni því tengda að fá úrlausn um kæruefnið, svo sem áskilið var í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga sem hér á við. Ber því þegar af þeirri ástæðu að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
 

Úrskurðarorð: 

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

_________________________________
Ómar Stefánsson

____________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                Þorsteinn Þorsteinsson

17/2015 Brú í landi Elliðakots

Með
Árið 2015, þriðjudaginn 8. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2015, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 4. febrúar 2015 og á ákvörðun bæjarstjórnar frá 11. s.m. um að samþykkja að veita megi byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Brú í landi Elliðakots í Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. febrúar 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir Hjalti Steinþórsson hrl., f.h. eigenda fasteignarinnar Elliðakots í Mosfellsbæ, ákvörðun skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 4. febrúar 2015 og ákvörðun bæjarstjórnar frá 11. s.m. um að samþykkja að veita megi byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Brú í landi Elliðakots. Var gerð sú krafa að hinar kærðu ákvarðanir yrðu felldar úr gildi og að úrskurðarnefndin frestaði réttaráhrifum þeirra til bráðabirgða meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni. Var kröfu um frestun réttaráhrifa hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 12. mars 2015.

Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. apríl og 6. maí 2015, er bárust nefndinni samdægurs, kæra sömu aðilar ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. apríl 2015 um að samþykkja byggingaráform fyrir 133,2 m² sumarbústað á fyrrnefndri lóð og ákvörðun byggingarfulltrúans frá 24. apríl 2015 um að samþykkja byggingaráform fyrir sumarbústað á nefndri lóð er yrði 129,3 m² í stað 133,2 m². Gerð er krafa um ógildingu hinna kærðu ákvarðana og að kveðið verði á um stöðvun framkvæmda meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður það kærumál, sem er númer 27/2015, sameinað máli þessu enda lúta hinar kærðu ákvarðanir að heimild til byggingar sumarhúss á nefndri lóð. Verður málið nú tekið til endanlegrar úrlausnar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málsatvik: Kærendur eru eigendur fasteignarinnar Elliðakots í Mosfellsbæ sem er lögbýli. Samkvæmt lóðarleigusamningi frá 2002 seldu kærendur leigutaka á leigu „lóð þá úr landi Elliðakots, Mosfellsbæ sem sumarhúsið „Brú“ stendur á“. Umrætt hús, sem mun hafa verið um 70 m² timburhús, brann árið 2014. Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar hinn 1. júlí s.á. var tekin fyrir fyrirspurn f.h. leigutaka lóðarinnar um hvort leyft yrði að endurbyggja sumarbústað í landi Elliðakots, landnr. 125216, sem yrði 130 m² að stærð með útgröfnum skriðkjallara/tæknirými. Var fært til bókar að samkvæmt aðalskipulagi væri hámarksstærð húss á lóðinni 130 m² en nefndin væri neikvæð fyrir gerð skriðkjallara undir húsi. Heimilað yrði að grenndarkynna umrætt sumarhús þegar breyttir uppdrættir lægju fyrir. Í kjölfarið var grenndarkynnt „umsókn um leyfi til að byggja 130 m² sumarbústað í stað bústaðar þess sem brann“ og var samkvæmt kynntum uppdráttum kjallari undir öllu húsinu. Komu kærendur að athugasemdum við fyrirhugaða byggingu og kváðust sem landeigendur hafna henni. Athugasemdum kærenda var svarað með bréfum, dags. 9. september 2014, og þeim gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum, sem þeir og gerðu með bréfum, dags. 18. og 22. s.m.

Málið var tekið fyrir að nýju á fundi skipulagsnefndar hinn 11. nóvember 2014. Taldi nefndin m.a. að hafna bæri umsókn um byggingarleyfi þar sem húsið væri yfir stærðarmörkum í aðalskipulagi þar sem reikna bæri flatarmál kjallara með í heildarflatarmáli þess. Á sama fundi var tekið fyrir erindi frá byggingarfulltrúa um byggingu 129,3 m² sumarhúss á lóðinni og fallist á að grenndarkynna það. Var erindið grenndarkynnt með bréfum, dags. 20. nóvember 2014. Andmælum og sjónarmiðum kærenda var komið á framfæri við bæjaryfirvöld með bréfi, dags. 2. desember s.á. Hinn 4. febrúar 2015 var málið tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Nefndin samþykkir framlögð drög að svörum og samþykkir jafnframt að hún gerir ekki athugasemdir við að byggingarfulltrúi veiti byggingarleyfi skv. fyrirliggjandi umsókn þegar hann telur hönnunargögn vera orðin fullnægjandi.“ Staðfesti bæjarstjórn samþykkt skipulagsnefndar 11. s.m.

Hinn 15. apríl s.á. var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að „byggja/endurbyggja“ 133,2 m² sumarbústað úr forsteyptum einingum á nefndri lóð. Var umsóknin samþykkt og í fundargerð var vísað til bókunar skipulagsnefndar frá 4. febrúar s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 24. apríl 2015 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um byggingarleyfi fyrir „breyttri stærð á áður samþykktum sumarbústað úr forsteyptum einingum á lóð nr. 125216 í Elliðakotslandi í samræmi við framlögð gögn en stærð bústaðarins var við umfjöllun skipulagsnefndar og í grenndarkynntum gögnum 129,3 m². Stærð bústaðs eftir breytingu er 129,3 m², 675,0 m³. Áður samþykktir uppdrættir falli úr gildi.“

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að veiting fyrirhugaðs byggingarleyfis fari í bága við gildandi aðalskipulag Mosfellsbæjar. Svæði það sem hér um ræði sé í aðalskipulagi skilgreint á uppdrætti sem svæði fyrir frístundabyggð sem ekki hafi verið deiliskipulagt. Í gr. 4.11 í greinargerð aðalskipulagsins sé fjallað um svæði fyrir frístundabyggð. Þar segi svo: „Ný frístundahús má einungis reisa innan svæða sem afmörkuð eru fyrir frístundabyggð og í samræmi við samþykkt deiliskipulag.“ Sé þess hvergi getið að víkja megi frá kröfu um deiliskipulag eða að frá henni séu undantekningar. Í umsögn skipulagsfulltrúa í málinu sé ekki gerð grein fyrir því á hvaða grundvelli bæjaryfirvöld telji sig geta vikið til hliðar fortakslausu ákvæði aðalskipulags um deiliskipulag frístundabyggða. Fyrirhuguð sé nýbygging sem sé nærri tvöfalt stærra en hús það sem verið hafi á lóðinni. Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé það skilyrði fyrir veitingu byggingarleyfis að það samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Augljóst sé að svo sé ekki í máli þessu og beri þegar af þeirri ástæðu að fella hinar kærðu ákvarðanir úr gildi.

Að auki hafi ekki verið skilyrði til að viðhafa grenndarkynningu í málinu. Ekki sé um þegar byggt hverfi að ræða. Við það bætist m.a. að um verulega breytingu á byggðamynstri og þéttleika byggðar sé að ræða og um leið vikið frá hvoru tveggja, sem ekki samrýmist skilyrðum þeim sem sett séu í 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé alfarið hafnað að líta beri til heimilda aðalskipulags um hvert sé byggðamynstur svæðisins.

Loks telji kærendur að fyrirhuguð bygging húss á lóð þeirra að Brú sé háð samþykki þeirra og gildi þá einu hver afstaða byggingaryfirvalda kunni að vera til umsóknarinnar. Leigulóðarhafi eigi aðeins samningsbundinn og tímabundinn rétt til hagnýtingar afmarkaðs lands í eigu kærenda. Sé réttur hans aðeins sá sem með óyggjandi hætti verði ráðinn af samningnum. Beri að skýra allan vafa kærendum í hag, en úrlausn ágreiningsins eigi undir dómstóla. Hvergi sé í lóðarleigusamningi um lóðina vikið að rétti til nýbyggingar eða endurbyggingar húss á lóðinni. Þvert á móti sé samningurinn gerður fyrir tiltekið hús sem þar sé fyrir. Sé réttur lóðarhafa til afnota af lóðinni bundinn við umrætt hús og þær framkvæmdir sem nauðsynlegar séu til nýtingar þess. Væri talið að réttur til endurbyggingar húss eftir bruna væri fyrir hendi, reistur á sanngirnissjónarmiðum og eðli máls, væri hann takmarkaður við sambærilegt og jafn stórt hús og fyrir hafi verið á lóðinni.

Eigi kærendur ríka lögvarða hagsmuni því tengda að ekki verði byggt á lóðinni stærra og verðmætara hús en það sem fyrir hafi verið, m.a. vegna hugsanlegrar innlausnarskyldu þeirra í lok leigutíma lóðarinnar. Leiði af grundvallareglum eignarréttarins að leyfi landeiganda þurfi til að veita megi byggingarleyfi á hans landi og sé land í sameign þurfi samþykki sameigenda. Sé í því sambandi vísað m.a. til dóma Hæstaréttar í málum nr. 326/2005, 204/2008 og 406/2010. Þá hafi verið samþykkt lítilsháttar breyting árið 1998 á bústað þeim er brann og hafi hann eftir það verið skráður 68,9 m² og því rangt að hann hafi margsinnis verið stækkaður, líkt og haldið sé fram.

Byggt sé á sömu málsrökum vegna hinna kærðu ákvarðana byggingarfulltrúa um samþykkt byggingaráforma. Þar við bætist að leyfi byggingarfulltrúa vegna áforma um byggingu 133,2 m² sumarbústaðar á lóðinni sé bæði í andstöðu við ákvæði aðalskipulags um hámarksstærð sumarhúsa á frístundasvæðum í sveitarfélaginu svo og samþykkt skipulagsnefndar um að heimila mætti byggingu á 129,3 m² húsi á umræddri lóð.

Málsrök Mosfellsbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að öllum kröfum kærenda verði hafnað. Óskað hafi verið eftir leyfi til að endurbyggja sumarhús sem hafi eyðilagst í bruna og verði sá bústaður m.a. með sama fastanúmer og eldri bústaður. Ákvæði aðalskipulags taki samkvæmt orðum sínum ekki til slíkra tilvika þegar endurbygging fari fram. Taki það einungis til nýrra frístundahúsa, og þá í þeim skilningi að um sé að ræða ný hús, sem fái ný fastanúmer, þar sem ekki hafi staðið hús áður. Fyrirhugað hús samræmist fyllilega aðalskipulagi hvað varði landnotkun, stærð húss og fjölda húsa/lóða á svæðinu.

Samkvæmt orðalagi 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 beri aðeins að horfa til þess hvort byggð sé fyrir hendi en ekki til stærðar hennar. Teljist umrætt hverfi byggt í skilningi ákvæðisins, þótt fjöldi húsa eða nágranna sé ekki mikill, en viðmið um fjölda leiði af eðli byggðarinnar sem sé gisin byggð frístundahúsa. Skuli ekki horfa til ástandsins sem fyrir hafi verið á umræddu svæði þegar meta beri hvort bygging feli í sér verulega breytingu á byggðamynstri og þéttleika byggðar, heldur til ákvæða gildandi aðalskipulags. Fyrirhugað hús samræmist fyllilega ákvæðum aðalskipulags um landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Hafi því verið rétt að viðhafa grenndarkynningu.

Sveitarfélagið hafi ekki talið að því væri stætt á að neita að gefa út byggingarleyfi á þeim grundvelli að heimild umsækjanda til notkunar landsins væri ekki fyrir hendi, á meðan í gildi væri lóðarleigusamningur þar sem skýrlega kæmi fram að umrædd lóð væri leigð undir „sumarhúsið Brú“. Sé þá haft í huga að samningur þessi kveði ekki á um að húsið skuli vera af tiltekinni lögun eða stærð, eða að óheimilt sé að endurbyggja það. Hljóti lóðarhafi að hafa rúman rétt til notkunar og hagnýtingar landsins, nema sérstakar kvaðir séu settar í lóðarleigusamningi. Jafnframt hafi verið horft til þess að ef afstaða kærenda til efnis samningsins yrði ofan á sæti lóðarleiguhafi uppi með leigusamning til margra ára án þess að geta hagnýtt sér landið í samræmi við ákvæði hans.
Hvað varði kæru um samþykkt byggingaráforma frá 15. apríl 2015 sé vísað til fram kominna málsraka bæjarins eftir því sem við eigi. Sé bent á að eftir nýja samþykkt byggingarfulltrúa frá 24. s.m. sé húsið nú í samræmi við ákvæði aðalskipulags og samþykkt skipulagsnefndar. Þá standist það ekki málsmeðferðarreglur að leggja sama ágreining aftur til úrskurðar nefndarinnar, eins og gert sé, og ætti því að vísa máli þessu frá með hliðsjón af sjónarmiðum um litis pendens áhrif. Verði í öllu falli ekki séð að kærendur hafi lengur lögvarða hagsmuni af úrlausn kærunefndar í máli nr. 17/2015, þar sem um sama ágreiningsefni sé að ræða, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Málsrök leyfishafa: Leyfishafi bendir á sérkenni lóðarleigusamninga miðað við leigusamninga almennt, sem sé m.a. hinn ríki ráðstöfunarréttur lóðarleiguhafans. Þurfi almennt ekki leyfi landeiganda fyrir breytingu á mannvirkjum sem á leigðri lóð standi. Fram þurfi að koma í lóðarleigusamningi eigi landeigandi að hafa eitthvað að segja um útlit eða gerð húsa á landinu. Í því sambandi verði að benda á að hús það sem staðið hafi á lóðinni, er lóðarleigusamningur hafi verið gerður við fyrri lóðarleiguhafa, hafi verið margstækkað.

Fyrirhugaður bústaður verði eftir sem áður sumarhúsið „Brú“ og muni bera sama fastanúmer og hús það sem fyrir hafi verið. Ekki sé um nýtt hús að ræða í skilningi skipulagslaga. Aðeins sé verið að reisa hús í samræmi við það sem almennt tíðkist í dag hvað varði stærð og útlit. Hvorki sé vikið að því í lóðarleigusamningi aðila að sumarhúsið sé af ákveðinni stærð eða gerð né að óheimilt sé að bæta við það eða breyta því að vild eigenda þess. Réttur til endurbyggingar eftir bruna sé fyrir hendi á grundvelli samnings og bygging nýs húss í stað þess sem brann nauðsynleg og eðlileg framkvæmd til að leyfishafi geti nýtt sér réttindi sín samkvæmt samningum. Sé vísað til þess að samkvæmt 5. gr. samningsins sé gert ráð fyrir að önnur hús eða mannvirki geti staðið á lóðinni. Ekki sé hægt að synja útgáfu byggingarleyfis vegna hugsanlegrar innlausnarskyldu í lok leigutíma. Þá sé ekki hægt að fallast á að 44. gr. skipulagslaga eigi ekki við hér og megi því til stuðnings vísa til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis og auðlindamála í máli nr. 48/2014. Loks sé tekið fram að samkvæmt gildandi skipulagslögum sé ekki gert ráð fyrir samþykki sameigenda eins og áður hafi verið.

Eftir brunann hafi talsmanni eigenda verið kynntar teikningar og áform um byggingu nýs húss og hafi engar athugasemdir borist. Hafi síðar borist bréf frá eigendum þar sem byggingu hússins hafi verið hafnað. Leyfishafi hafi síðan verið beðinn um að gera kauptilboð í landspilduna en þá hafi eigendur hætt við söluna. Sé ferlið búið að taka eitt ár og hafi kostað leyfishafa bæði tíma og talsverða peninga. Telji leyfishafi sig hafa farið að öllum lögum og reglum og hafi allan tímann reynt að framkvæma í sátt við sveitarfélagið og landeigendur.

Athugasemdir kærenda við greinargerð Mosfellsbæjar og leyfishafa: Kærendur taka fram að ekki verði séð að skilyrði hafi verið til endurupptöku fyrri ákvörðunar byggingarfulltrúa um samþykkt byggingaráforma á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða að um einhliða afturköllun hafi verið að ræða á grundvelli 25. gr. sömu laga. Sé þessari málsmeðferð mótmælt sem ólögmætri. Þá sé hafnað að vísa beri málinu frá. Um sitthvora stjórnvaldsákvörðun sé að ræða sem stafi jafnframt frá sitt hvoru stjórnvaldinu og geti því ekki verið um litis pendens áhrif að ræða þegar þannig standi á.

Kærendur taki einnig fram að lóðarhafa hafi aldrei verið gefið loforð af hálfu landeigenda fyrir því að þeir myndu samþykkja byggingu hins umdeilda húss. Hafi hann ekki verið beðinn um að gera kauptilboð heldur aðeins verið bent á að slíkt væri mögulegt vildi hann fá svar frá landeigendum.
Athugasemdir Mosfellsbæjar við athugasemdum kærenda: Sveitarfélagið tekur fram að við afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 24. apríl 2015 hafi legið fyrir teikning er sýnt hafi að stærð umrædds sumarbústaðar næmi 129,3 m². Við nánari skoðun hafi komi í ljós að þetta væri rangt og hafi bústaðurinn í raun verið 133 m². Í kjölfarið hafi verið ákveðið að afturkalla fyrri ákvörðun og hafi sveitarfélaginu verið það heimilt, sbr. 1. og 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 1.tl. 1. mgr. 24. gr. sömu laga.

—-

Færð hafa verið fram frekari sjónarmið sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar í málinu.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um það í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði eða vafi leikur á um að fyrirhugað mannvirki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag skal leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laganna og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Ef sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags, enda hafi áður farið fram grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Felur það lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan m.a. í sér að skipulagsnefnd taki ákvörðun um hvort veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulags. Hins verður ekki litið fram hjá því að endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki. Var hin kærða ákvörðun skipulagsnefndar frá 4. febrúar 2015, sem og afgreiðsla bæjarstjórnar frá 11. s.m um að samþykkja að veita mætti byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóðinni Brú í landi Elliðakots, því ekki lokaákvörðun í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður þessum hluta málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hinn 24. apríl 2015 felldi byggingarfulltrúi úr gildi samþykkt sína frá 15. s.m. um samþykkt byggingaráforma fyrir 133,2 m² sumarhúsi á lóðinni Brú. Telja kærendur að ekki hafi verið heimild fyrir slíkri málsmeðferð, svo sem áður hefur verið rakið. Fram hefur komið að sama dag samþykkti byggingarfulltrúi áform um byggingu 129,3 m² sumarhúss á sömu lóð í kjölfar umsóknar þess efnis. Lá því fyrir ný stjórnvaldsákvörðun á grundvelli nýrrar og breyttrar umsóknar leyfishafa fyrir byggingu sumarhússins. Hefur hin kærða ákvörðun um byggingarleyfi frá 15. apríl 2015 því ekki lengur réttarverkan að lögum og verður ekki séð að kærendur eigi lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti þeirrar ákvörðunar. Verður þeim þætti málsins af þeim sökum einnig vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. 

Verður því eingöngu tekin afstaða til lögmætis þeirra byggingaráforma er samþykkt voru 24. apríl 2015 og fólu í sér heimild til að reisa 129,3 m² sumarhús úr forsteyptum einingum.

Lóðin þar sem hinu umdeilda sumarhúsi er ætlað að rísa er innan svæðis sem afmarkað er í Aðalskipulagi Mosfellsbæjar 2011-2030 sem frístundabyggð. Ekki er fyrir hendi deiliskipulag af því svæði. Kveðið er á um í gr. 4.11 í aðalskipulaginu að ný frístundahús megi einungis reisa innan svæða sem afmörkuð séu fyrir frístundabyggð og í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Aðalskipulagið gerir þó ráð fyrir því að heimila megi, að undangenginni grenndarkynningu, minniháttar viðbyggingar við stök frístundahús frá fyrri tíð sem auðkennd séu á aðalskipulagsuppdrætti með hring í lit frístundasvæða, en um slíkt er ekki að ræða hér. Fram hefur komið að á umræddri lóð stóð áður um 70 m² sumarhús úr timbri en með hinni kærðu ákvörðun er heimilað að reisa þar 129,3 m² sumarhús úr forsteyptum einingum. Telja verður að um nýtt hús sé að ræða en ekki endurbyggingu fyrra húss, enda er hið samþykkta hús töluvert stærra en það sem fyrir var og steinsteypt í stað þess að vera úr timbri. Var því ekki heimilt að samþykkja hin umdeildu byggingaráform án undangenginnar deiliskipulagsgerðar, sbr. áskilnað tilvitnaðrar greinar í aðalskipulagi Mosfellsbæjar. Öndverð túlkun nefnds ákvæðis myndi leiða til þess að áskilnaður um deiliskipulag væri þýðingarlaus. Með hliðsjón af þessu verður að fella hina umdeildu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni afgreiðslu skipulagsnefndar Mosfellsbæjar frá 4. febrúar 2015 og ákvörðun bæjarstjórnar frá 11. s.m. um að samþykkja að veita megi byggingarleyfi fyrir frístundahúsi á lóð, landnr.125216, í landi Elliðakots í Mosfellsbæ.

Jafnframt er vísað frá úrskurðarnefndinni ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. apríl 2015 um að samþykkja byggingaráform fyrir byggingu 133,2 m² sumarbústaðar á nefndri lóð.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 24. apríl 2015 um að samþykkja byggingaráform fyrir byggingu 129,3 m² sumarbústað á nefndri lóð.

______________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson