Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

129/2016 Lundur

Með

Árið 2018, föstudaginn 16. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 129/2016, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. ágúst 2016 um breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2016, sem barst nefndinni sama dag, kæra eigendur og ábúendur á lögbýlinu Minna-Mosfelli í Mosfellsdal, afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. ágúst 2016 um breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal. Skilja verður kröfu kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 18. maí 2017 og 8. mars 2018.

Málsatvik og rök: Hinn 27. maí 2016 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal. Kom fram í greinargerð tillögunnar að skipulagssvæðið afmarkaðist af Þingvallavegi að sunnan, Köldukvísl að norðan, kirkjujörðinni Mosfelli að vestan og óskipulögðu landbúnaðarsvæði að austan. Fælu umræddar breytingar m.a. í sér að aðkomuvegur væri færður nær austurmörkum og sýndur möguleiki á tengingu við golfvöll norðan lóðar. Komu kærendur að athugasemdum við tillöguna varðandi umferðarrétt frá Þingvallavegi að Minna-Mosfelli. Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 23. ágúst 2016 og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Nefndin felur skipulagsfulltrúa að svara framkominni athugasemd í samræmi við umræður á fundinum og annast gildistökuferlið.“ Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 31. s.m.

Kærendur andmæla því að loka eigi varanlega um 60 m löngum hluta gömlu heimreiðarinnar að Minna-Mosfelli, næst Þingvallavegi. Í stað þess muni þeir öðlast umferðarrétt um áformaðan 300 m langan krákustíg á mýrartúni. Sé brotið gegn lögvörðum eignarrétti þeirra og í engu gætt grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins, m.a. varðandi rannsókn máls og andmælarétt.

Af hálfu Mosfellsbæjar er skírskotað til þess að umrædd breyting hafi ekki tekið gildi þar sem hún hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé lögboðinni meðferð málsins enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skilyrði til að vísa málinu til kærunefndar ekki uppfyllt. Verði því ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. Þá sé bent á að réttur kærenda til aðkomu að Minna-Mosfelli sé í engu skertur með breytingunni, þótt fara þurfi aðeins lengri leið en áður.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal.

Leitt hefur verið í ljós að umrætt deiliskipulag var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda svo sem áskilið er í 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hefur hin kærða ákvörðun af þeim ástæðum ekki réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

55/2016 Borgarhólsstekkur

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 55/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 7. apríl 2016 um að synja kröfu um að fjarlægja mannvirki á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk í landi Miðfells í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2016, er barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi sumarbústaðar á lóð Krummastekk 1, Miðfellslandi, Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 7. apríl 2016 um að synja kröfu um að fjarlægja gestahús á lóðinni að Borgarhólsstekk 1, Bláskógabyggð. Skilja verður málsskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, umrætt hús verði fjarlægt og dagsektum beitt.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 24. júní 2016 og 19. febrúar 2018.

Málavextir og málsrök: Byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við sumarhúsið að Borgarhólsstekk 1 og byggingu 25,8 m² gestahúss á lóðinni var samþykkt af byggingarfulltrúa og staðfest af sveitarstjórn Bláskógabyggðar á árinu 2007. Árið 2014 skaut kærandi máls þessa þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi að því er varðar heimild til byggingar fyrrgreinds gestahúss.  Með úrskurði nefndarinnar 19. september 2014 var fallist á kröfu kæranda, en úrskurðarnefndin taldi að lagaskilyrði hefði skort fyrir veitingu leyfisins. Í kjölfar þess sótti lóðarhafi Borgarhólsstekks 1 um endurnýjun á umsókn um byggingarleyfi fyrir umrætt hús. Samþykkti skipulagsnefnd Uppsveita bs. að grenndarkynna umsóknina. Með bréfi kæranda og lóðarhafa Borgarhólsstekks 2 til sveitarfélagsins, dags. 7. janúar 2015, var þess krafist að byggingarleyfi fyrir húsinu yrði ekki veitt og að þegar byggt gestahús yrði fjarlægt.

Hinn 11. júní 2015 fór kærandi fram á það með tölvupósti til sveitarfélagsins að umrætt gestahús yrði fjarlægt af lóðinni. Sveitarstjórn tók málefni Borgarhólsstekks 1 fyrir á fundi sínum 7. apríl 2016 að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Var m.a. bókað að borist hefði beiðni um að gestahúsið yrði fjarlægt og að leitað hefði verið eftir viðbrögðum eigenda Borgarhólsstekks 1 og lægju þau fyrir. Jafnframt var eftirfarandi fært til bókar: „Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fellst ekki á að efnisrök eða hagsmunir séu fyrir því að fjarlægja gestahúsið. Þá er byggingin í samræmi við það sem almennt hefur tíðkast að veita leyfi fyrir í sumarhúsahverfum í sveitarfélaginu. Vinna við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins stendur nú yfir og er fyrirhugað að þeirri vinnu ljúki á haustmánuðum. Afreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er því frestað til 1. október s.á.“ Var kæranda tilkynnt um greinda afgreiðslu með bréfi, dags. 11. maí 2016.

Kærandi bendir á að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 hafi lóðarhafa Hvannalundar 8 í Bláskógabyggð verið gert að fjarlægja nýbyggt hús af lóðinni þar sem ekki hafi verið heimilt að veita byggingarleyfi án undangenginnar deiliskipulagsgerðar. Hafi hin ólögmæta bygging að Borgarhólsstekk 1 verið reist þrátt fyrir að bæði sveitarfélaginu og eiganda hennar hafi mátt vera fullljóst að verulegir annmarkar væru á réttmæti byggingarleyfis og að í aðalskipulagi væri kveðið á um að ekki mætti veita byggingarleyfi fyrir nýbyggingum á meðan ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Nágrannar Borgarhólsstekks 1 hafi mátt þola algert sinnuleysi sveitarfélagsins sem gætt hafi í hvívetna hagsmuna eiganda þeirrar lóðar, en í engu jafnræðis eða hagsmuna nágranna. Nýbygging af þessari stærð, staðsett í beinni sjónlínu við nærliggjandi sumarhús, hafi verulega neikvæð áhrif á ásýnd, skerði útsýni og rýri verðgildi fasteigna þeirra. Sveitarfélagið hafi brotið gegn meginákvæðum laga og reglugerða um nágrannarétt. Það sé óásættanlegt að gengið sé erinda lóðarhafa Borgarhólsstekks 1, t.a.m með því að bíða eftir breyttu skipulagi svo unnt sé að veita nýtt byggingarleyfi. Þá séu rök sveitarfélagsins um að umrædd bygging sé í samræmi við það sem almennt hafi tíðkast að veita leyfi fyrir í sumarhúsahverfum í sveitarfélaginu ekki haldbær.

Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kæranda verði hafnað.  Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Geti kærandi ekki knúið byggingaryfirvöld til að beita úrræðinu, enda sé þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína. Sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 90/2012 í þessu sambandi. Í öndverðu hafi ekki verið um óleyfisframkvæmd að ræða. Hin kærða ákvörðun hafi verið rökstudd, sjónarmið beggja aðila legið fyrir við töku hennar og gætt hafi verið andmælareglu og rannsóknarreglu við meðferð málsins. Litið hafi verið til meðalhófs og jafnræðis, hagsmunir leyfishafa og kæranda verið metnir, m.a. með tilliti til þess hvort byggingin væri hættuleg öðrum, sem og til skipulagssjónarmiða.

Leyfishafi krefst þess að kröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að henni verði hafnað. Sé það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að taka nýja og sjálfstæða ákvörðun, heldur aðeins að endurskoða kærða ákvörðun. Krafa kæranda um að umrætt gestahús verði fjarlægt eigi því ekki undir úrskurðarnefndina og beri að vísa henni frá. Skilningur kæranda á úrskurði í máli nr. 71/2011 sé rangur. Hið rétta sé að í málinu hafi verið fellt úr gildi byggingarleyfi, en sérstaklega hafi verið tekið fram að ekki væri tekin afstaða til kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða. Leiði ógilding byggingarleyfis ekki sjálfkrafa til þess að mannvirki skuli fjarlægð og megi m.a. ráða það af dómum Hæstaréttar í málum nr. 326/2005 og 444/2008. Það sé háð frjálsu mati viðkomandi stjórnvalds hvort ákvæði 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skuli beitt í einstökum tilvikum. Í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum sé tekið fram að ákvörðun um beitingu þessa úrræðis sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Komi þetta frjálsa mat ekki til endurskoðunar af hálfu úrskurðarnefndarinnar og sé vísað um það til fjölmargra úrskurða nefndarinnar, s.s. í málum nr. 5/2005, 90/2012 og 42/2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um að synja beiðni kæranda um að beitt verði úrræðum 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að fjarlægja mannvirki á lóðinni að Borgarhólsstekk 1. Kemur fram í tilvitnuðu ákvæði að byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, geti krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag.
Sveitarstjórn er heimilt með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki vikið að því hvort ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða 2. mgr. 55. gr. laganna geti orðið með öðrum hætti en þar greinir. Ekki liggur fyrir að Bláskógabyggð hafi sett sér slíka samþykkt, en skv. 6. mgr. 7. gr. nefndra laga, sbr. forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, skal samþykkt sem sett er samkvæmt lagagreininni lögð fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar. Í 48. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins Bláskógabyggðar nr. 592/2013, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. júní s.á., kemur fram að skipulagsnefnd fari með skipulagsmál skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarmál skv. 7. gr. laga um mannvirki. Samþykktin er sett með stoð í 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og var hún staðfest af innanríkisráðherra. Liggur því fyrir að sú samþykkt á ekki stoð í 7. gr. mannvirkjalaga og hefur hún ekki verið sett með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Getur hún því ekki vikið til hliðar fyrirmælum 2. mgr. 55. gr. laganna um að það sé á forræði byggingarfulltrúa að meta og taka ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis sem þar greinir. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Bláskógabyggð hefur byggingarfulltrúi ekki tekið erindi kæranda um niðurrif hússins að Borgarhólsstekk 1 fyrir með formlegum hætti. Synjun skipulagsnefndar og sveitarstjórnar á erindi kæranda hefur því ekki þýðingu að lögum þar sem málið var ekki afgreitt af þar til bæru stjórnvaldi lögum samkvæmt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál sem borin verður undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður máli þessu því vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

72/2017 Hvalárvirkjun

Með

Árið 2018, miðvikudaginn 28. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ómar Stefánsson varaformaður.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2017, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 31. janúar 2017 um að framlengja rannsóknarleyfi vegna áætlana um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júní 2017, er barst nefndinni 3. júlí s.á., kærir Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, þá ákvörðun Orkustofnunar frá 31. janúar 2017 að framlengja rannsóknarleyfi vegna áætlana um Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði, Árneshreppi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 12. júlí 2017.

Málavextir: Hinn 31. janúar 2015 sótti leyfishafi um leyfi til Orkustofnunar til rannsóknar á svæðum í Ófeigsfirði og á Ófeigsfjarðarheiði. Í umsókninni kom fram að markmiðið væri að rannsaka hagkvæmni þess að nýta rennsli Hvalár og Rjúkanda í einu þrepi úr Hvalárvatni og allt að því niður að sjávarmáli við Ófeigsfjörð í Árneshreppi. Með bréfi, dags. 30. mars s.á., var leyfi veitt í samræmi við III. kafla laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu með vísan til 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Kom fram að gildistími leyfisins væri frá 31. mars 2015 til 31. mars 2017.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2017, var óskað eftir framlengingu greinds rannsóknarleyfis til tveggja ára. Í bréfinu kom fram að öllum fyrirhuguðum rannsóknum væri lokið nema kjarnaborun í jarðgangaleiðir og staðfestingu magns jökulruðnings með greftri könnunarhola. Þær rannsóknir hafi leyfishafi ekki talið forsvaranlegar vegna kostnaðar fyrr en afstaða Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu virkjunar lægi fyrir, sem og ákvörðun Landsnets og Orkustofnunar um afhendingarstað raforku í Ísafjarðardjúpi. Með bréfi, dags. 31. janúar 2017, féllst Orkustofnun á að framlengja rannsóknarleyfið frá 31. mars 2017 til 31. mars 2019.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er um kæruheimild vísað til 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 og 33. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu. Vísað sé til b-liðar síðari málsliðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en á grundvelli þeirrar kæruheimildar teljist kærandi eiga lögvarða hagsmuni án þess að færa á það sérstakar sönnur. Kærandi haldi því fram að hin kærða ákvörðun varði framkvæmdir er falli undir lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Fyrirhugaðar rannsóknir séu framkvæmdir í skilningi 1. mgr. 3. gr. laga nr. 106/2000. Auk þess sé ekki hægt að slíta undirbúningsframkvæmdir frá öðrum hlutum framkvæmdar við Hvalárvirkjun vegna sjónarmiða um svokallað „salami slicing“.

Málsrök Orkustofnunar: Orkustofnun tekur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Umhverfissamtök eins og kærandi geti þó kært ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, sé um að ræða ákvarðanir sem falli undir a-c liði 3. mgr. 4. gr. laganna. Hin kærða ákvörðun um að framlengja rannsóknarleyfi fyrir Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði falli ekki undir framangreint ákvæði og því eigi kærandi ekki aðild að málinu.

Athugasemdir leyfishafa:
Leyfishafi fer fram á að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni, enda eigi kærandi ekki kæruaðild að málinu. Samkvæmt 3. mgr. 33. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sæti stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar, er lúti að veitingu, endurskoðun og afturköllun rannsóknar- eða nýtingarleyfa samkvæmt lögunum, kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði slíkar kærur fari samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í kæru sé vísað til b-liðar síðari málsliðar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um kæruheimild og aðild kæranda. Leyfishafi bendi hins vegar á að í athugasemdum við fyrrgreint ákvæði í greinargerð frumvarps þess er varð að nefndum lögum hafi komið fram „að rannsóknarleyfi samkvæmt síðastgreindum lögum falla ekki hér undir þar sem ekki verður litið svo á að rannsóknarleyfi feli í sér heimild til framkvæmda þar sem þau eru sérstaks eðlis.“ Samkvæmt þessu sé ljóst að umhverfis-, útivistar- og hagsmunasamtök geti ekki kært ákvarðanir um rannsóknarleyfi samkvæmt lögum nr. 57/1998 til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Minnt sé á að frumvarp til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi verið unnið og afgreitt samhliða frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fullgildingar Árósasamningsins sem hafi orðið að lögum nr. 131/2011. Hafi bæði lögin verið sett til að gera breytingar á ýmsum lögum til að tryggja að íslensk löggjöf myndi samræmast Árósasamningnum um rétt almennings til réttlátrar málsmeðferðar og virkra úrræða til endurskoðunar ákvarðana stjórnvalda um framkvæmdir sem kynnu að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Það veiti framangreindri umfjöllun í greinargerðinni með frumvarpi til laga um úrskurðarnefndina enn meira vægi. Löggjafinn hafi því beinlínis tekið meðvitaða og upplýsta afstöðu til þess að ákvarðanir Orkustofnunar um veitingu rannsóknarleyfa væru ekki kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar.

Fyrir liggi að leyfi það sem Orkustofnun hafi veitt leyfishafa sé rannsóknarleyfi samkvæmt 4. gr. laga nr. 57/1998. Í því felist hvorki beint né óbeint leyfi til framkvæmda heldur takmarkist það við rannsóknir. Í 5. gr. leyfisins komi fram að framkvæmdir á rannsóknarsvæðinu kunni eftir atvikum að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög þess efnis nr. 106/2006. Rannsóknarleyfið sé háð því að farið hafi verið að þeim lögum áður en slíkar framkvæmdir hefjist.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Samkvæmt b-lið ákvæðisins geta umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga kært ákvörðun um að veita leyfi vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að.

Í athugasemdum með áðurnefndri 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er m.a. tekið fram að ákvörðun um matsskyldu ráði því hvort almenningur fái rétt til frekari þátttöku í gegnum matsferlið og hvort hann njóti kæruaðildar vegna ákvarðana stjórnvalda um að veita leyfi vegna framkvæmda. Enn fremur er þar rakið að undir framangreinda kæruheimild geti t.d. fallið nýtingarleyfi samkvæmt lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Loks er fjallað um rannsóknarleyfi samkvæmt nefndum lögum og segir þar eftirfarandi: „Rétt er að taka fram að rannsóknarleyfi samkvæmt síðastgreindum lögum falla ekki hér undir þar sem ekki verður litið svo á að rannsóknarleyfi feli í sér heimild til framkvæmda þar sem þau eru sérstaks eðlis. Í fyrsta lagi er þess að geta að ekki þarf rannsóknarleyfi ef rannsóknir fara fram á vegum landeiganda, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 57/1998. Í öðru lagi gefur Orkustofnun út rannsóknarleyfi án þess að fyrir liggi hvort framkvæmdir vegna rannsókna séu matsskyldar samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Rannsóknarleyfi eru veitt með fyrirvara um að ekki megi ráðast í leyfisskyldar framkvæmdir nema tilskilin leyfi liggi fyrir. Ef viðkomandi framkvæmdir eru háðar mati á umhverfisáhrifum er kæruleið til úrskurðarnefndarinnar opin fyrir alla vegna leyfa sem þarf að afla áður en framkvæmdir geta hafist og falla undir verksvið úrskurðarnefndarinnar.“

Hin kærða ákvörðun er framlenging á rannsóknarleyfi sem upphaflega var gefið út 31. mars 2015 til tveggja ára með stoð í 1. mgr. 4. gr. laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, sbr. og 40. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Í rannsóknarleyfinu kemur fram að framkvæmdir á rannsóknarsvæðinu kunni eftir atvikum að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 106/2000. Rannsóknarleyfið sé háð því að farið hafi verið að framangreindum lögum áður en fyrirhugaðar framkvæmdir á rannsóknarsvæðinu hefjist. Geti aðrar framkvæmdir rannsóknarleyfishafa, eftir atvikum verið háðar lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu er rannsóknum samkvæmt leyfinu lokið að mestu en eftir standa kjarnaborun í jarðgangaleiðir og staðfesting á magni jökulruðnings með greftri könnunarhola. Mat á umhverfisáhrifum Hvalárvirkjunar hefur farið fram og liggur fyrir álit Skipulagsstofnunar frá 3. apríl 2017 þar um. Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Skipulagsstofnun hefur stofnunin ekki fengið tilkynningu samkvæmt lögum nr. 106/2000 um framkvæmdir vegna þeirra rannsókna sem eftir eru á grundvelli rannsóknarleyfis Orkustofnunar og voru þær ekki umfjöllunarefni við mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar. Ekki liggur fyrir hvort að þær rannsóknir eru framkvæmdaleyfisskyldar, en veiting slíks leyfis væri eftir atvikum kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið uppfyllir kærandi ekki skilyrði til kæruaðildar að máli þessu, enda fellur hin kærða ákvörðun ekki undir b-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Auk þess liggur ekki fyrir nein ákvörðun um matsskyldu framkvæmda vegna þeirra rannsókna sem fyrirhugaðar eru á grundvelli hins framlengda rannsóknarleyfis. Verður kærumálinu af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

138/2017 Brúarvirkjun

Með

Árið 2018, mánudaginn 19. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 138/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 12. október 2017 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. nóvember 2017, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Kayakklúbburinn þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 12. október 2017 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. nóvember 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, greinda ákvörðun Bláskógabyggðar og gera þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður seinna kærumálið, sem er nr. 139/2017, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 28. desember 2017.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 12. október 2017 var samþykkt umsókn HS Orku hf. um framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun, 9,9 MW vatnsaflsvirkjun í efri hluta Tungufljóts. Var skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins falið að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar og var slík auglýsing m.a. birt í Löbirtingablaðinu 26. október 2017.

Kærendur telja að með virkjuninni verði möguleikar til útivistar á svæðinu skertir verulega og benda á að ekkert mat hafi verið lagt á hagsmuni því tengda. Áhrif virkjunarinnar muni verða neikvæð á ferðamannaiðnaðinn og muni langtímaverðmætum fórnað fyrir lítil skammtímaverðmæti. Form- og efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun, sem leiða eigi til ógildingar. Hafi sveitarstjórn t.a.m. ekki tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, svo sem lögmælt sé í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi umsagnar Umhverfisstofnunar eða viðkomandi náttúruverndarnefndar ekki verið leitað, svo sem skylt sé skv. 2. mgr. 13. gr. sömu laga, sbr. og 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Af hálfu Bláskógabyggðar var þess krafist að kæru Kayakklúbbsins yrði vísað frá nefndinni, en að kröfum annarra kærenda yrði hafnað.

Á fundi sínum 1. febrúar 2018 tók sveitarstjórn Bláskógabyggðar fyrir erindi HS Orku hf., þar sem þess var farið á leit að afgreiðsla sveitarstjórnar á umsókn fyrirtækisins um framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun frá 12. október 2017 yrði endurupptekin og afturkölluð og umsóknin afgreidd að nýju. Féllst sveitarstjórn á að skilyrði til endurupptöku væru uppfyllt og að tilefni væri til að taka umsókn fyrirtækisins um framkvæmdaleyfi til nýrrar skoðunar. Samþykkti sveitarstjórn að veita framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun með nánar tilgreindum skilyrðum og bókaði sveitarstjórn jafnframt að fyrri samþykkt um málið, frá 12. október 2017, væri felld úr gildi.

Niðurstaða: Eins og fram hefur komið tók sveitarstjórn Bláskógabyggðar þá ákvörðun 1. febrúar 2018 að afturkalla hina kærðu ákvörðun sína frá 12. október 2017 um að veita framkvæmdaleyfi vegna Brúarvirkjunar.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Eftir afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar hefur hún ekki réttarverkan að lögum og hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

13/2018 Edenreitur

Með

Árið 2018, föstudaginn 9. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 13/2018, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis frá 14. desember 2017 um að samþykkja deiliskipulag fyrir Edenreit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. janúar 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi að Þelamörk 52-54, Hveragerði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Hveragerðis frá 14. desember 2017 að samþykkja deiliskipulagið Miðbær-Edenreitur. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 6. febrúar 2018.

Málsatvik og rök: Nýtt deiliskipulag fyrir Edenreit í Hveragerði var birt  með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2017. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir 77 nýjum íbúðum í 2-10 íbúða fjöleignarhúsum á allt að tveimur hæðum. Einnig er gert ráð fyrir torgi/gróðurhúsi innan skipulagssvæðisins.

Kærandi bendir á að fyrirhugaðar byggingar á fjöleignarhúsum á lóðarmörkum lóðar hans, þar sem hann reki gróðurhús og garðplöntusölu, muni hafa veruleg áhrif á rekstur hans og valda honum gríðarlegu fjártjóni. Framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar myndu nánast eyðileggja framtíðarmöguleika lóðar hans og því sé grenndarréttur hans í máli þessu ekki virtur. Kærandi hafi í byrjun janúar 2018 tekið eftir auglýsingu deiliskipulagsáætlunarinnar í B-deild Stjórnartíðinda frá 21. desember 2017, en tilkynningu þar um hafi ekki verið að finna á heimasíðu bæjarins.

Af hálfu Hveragerðisbæjar er m.a. bent á að deiliskipulagið hafi tekið gildi með auglýsingu nr. 1124/2017 í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2017. Hafi kærufrestur hafi því verið liðinn gagnvart kæranda, enda miðist upphaf hans við þann dag, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar.

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 21. desember 2017. Tók kærufrestur því að líða 22. desember, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og mátti kæranda vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst 25. janúar 2018, eða þremur dögum eftir að kærufresti lauk. Með vísan til þess sem að framan er rekið verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

4/2016 Álver Grundartanga

Með

Árið 2018, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 4/2016, kæra á ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 16. desember 2015 um útgáfu starfsleyfis fyrir framleiðslu á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 14. janúar 2016, er barst nefndinni sama dag, þá er kærð ákvörðun Umhverfisstofnunar frá 16. desember 2015 að veita Norðuráli Grundartanga ehf. starfsleyfi fyrir framleiðslu í álveri sínu á Grundartanga á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Umhverfisstofnun 14. mars 2016.

Málsatvik og rök: Umhverfisstofnun veitti 16. desember 2015 Norðuráli Grundartanga ehf. starfsleyfi fyrir framleiðslu í álveri sínu á Grundartanga á allt að 350.000 tonnum af áli á ári, auk reksturs málmsteypu, ker- og skautsmiðju, flæðigryfju fyrir framleiðsluúrgang samkvæmt deiliskipulagi og geymslusvæða fyrir tímabundna geymslu framleiðsluúrgangs.

Með stefnu, sem birt var 19. apríl 2016, höfðaði kærandi dómsmál til ógildingar á starfsleyfinu og var meðferð kærumáls þessa frestað á meðan beðið væri niðurstöðu dómstóla.

Kærandi kveður Umhverfisstofnun ekki hafa aflað gagna til að ganga úr skugga um réttmæti framkominna ábendinga um áhrif flúors á heilsufar hrossa á Kúludalsá áður en hið kærða starfsleyfi hafi verið veitt. Stofnuninni hafi ítrekað verið bent á að þau umhverfismörk sem gilt hafi vegna flúormengunar utan þynningarsvæðis fyrir flúoríð séu umdeild og hafi flúor valdið skaða. Rannsaka hefði þurft ítarlega hversu mikið íslensk húsdýr, einkum hross, þoli af flúori áður en ákvörðun um starfsleyfi væri veitt. Mikilvægt sé að flúor sé mældur í andrúmslofti allan ársins hring. Óhæft sé að mengunarvaldur hafi sjálfur utanumhald með vöktun á áhrifum mengunar. Loks tryggi hið kærða starfsleyfi ekki öryggi íbúa í Hvalfirði komi til mengunarslyss þar sem hreinsibúnaður megi vera bilaður í þrjár klukkustundir án þess að íbúum sé gert viðvart.

Af hálfu Umhverfisstofnunar er bent á niðurstöðu Matvælastofnunar þess efnis að veikindi hrossa tengdust ekki áhrifum vegna flúors. Viðmiðunarmörk fyrir flúor í fóðri og fyrir loftgæði séu til staðar og hafi hvorki magn flúors í grasi né loftgæði mælst yfir viðmiðunarmörkum flúors. Ekki hafi komið fram mælingar eða vísbendingar um umtalsverða flúormengun sem gefi til kynna álag vegna mengunar. Þá standi yfir endurskoðun á vöktunaráætlun á Grundartangasvæðinu.

Heimild til losunar á heildarmagni flúors hafi verið haldið óbreyttri, losunarheimild á hvert framleitt tonn af áli sé lækkuð til mótvægis við framleiðsluaukninguna. Mikilvægt sé að umhverfisvöktun sé hluti af umhverfisstjórnun rekstraraðila en Umhverfisstofnun fylgi því eftir að mælingar séu áreiðanlegar og miðlun gagna skilvirk. Stofnunin geti ákveðið að breyta fyrirkomulagi umhverfisvöktunar ef ástæða sé til, sbr. grein 4.2 í starfsleyfi. Upplýsingagjöf um mengunarslys til almennings sé nauðsynleg og í því augnamiði sé ákvæði í starfsleyfinu, sbr. grein 2.7.

Af hálfu leyfishafa í málinu er tekið undir sjónarmið Umhverfisstofnunar.

Niðurstaða: Kærandi máls þessa höfðaði dómsmál til ógildingar á starfsleyfi því sem hér er um deilt. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 14. desember 2016 voru íslenska ríkið, Umhverfisstofnun og Norðurál Grundartanga ehf. sýknuð af þeirri kröfu kæranda. Dómurinn var staðfestur með skírskotun til forsendna hans af Hæstarétti, sbr. dóm í máli nr. 4/2017, sem kveðinn var upp 25. janúar 2018.

Í 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er tiltekið að dómur sé bindandi um úrlausn sakarefnis milli aðila og þeirra, sem að lögum koma í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Standa res judicata áhrif því í vegi að úrskurðað verði um efni kærumáls þessa og verður því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna þeirra atvika sem að framan eru rakin.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

12/2016 Hvammsvirkjun NASF

Með
Árið 2018, þriðjudaginn 6. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 12/2016, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 2015 um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hvammsvirkjun, Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. janúar 2016, er barst nefndinni 22. s.m., kærir NASF, Verndarsjóður villtra laxastofna, Skipholti 35, Reykjavík,  ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 16. desember 201 um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hvammsvirkjun, að þeim hluta er varðar vatnalíf og vatnafar. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi að þeim hluta.

Gögn málsins bárust frá Skipulagsstofnun 11. mars 2016.

Málsatvik og rök: Skipulagsstofnun kvað upp úrskurð 19. ágúst 2003 um mat á umhverfisáhrifum allt að 150 MW virkjunar Þjórsár við Núp, auk breytingar á Búrfellslínu 1. Niðurstaða stofnunarinnar var sú að fallist var á fyrirhugaða virkjun Þjórsár við Núp í einu þrepi með byggingu Núpsvirkjunar og í tveimur þrepum með byggingu Hvammsvirkjunar og Holtavirkjunar, ásamt breytingum á Búrfellslínu 1 með nánar tilgreindum skilyrðum.

Í júlí 2015 tilkynnti framkvæmdaraðili Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Rangárþingi ytra að fyrirhugað væri að sækja um framkvæmdaleyfi vegna Hvammsvirkjunar. Í samræmi við fyrirmæli þar um í 1. mgr. 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum óskuðu umrædd sveitarfélög með bréfi, dags. 13. júlí 2015, eftir því við Skipulagsstofnun að hún tæki ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu. Ákvörðun um endurskoðun matsskýrslu fyrir Hvammsvirkjun, Rangárþingi ytra og Skeiða- og Gnúpverjahreppi er frá 16. desember 2015. Segir m.a. í niðurstöðukafla ákvörðunarinnar: „[E]r það niðurstaða Skipulagsstofnunar að endurskoða skuli að hluta matsskýrslu um Hvammsvirkjun. Nánar tiltekið skal endurskoða þá hluta umhverfismats virkjunarinnar sem varða áhrif á landslag og ásýnd lands og áhrif á ferðaþjónustu og útivist. Að öðru leyti eru að mati Skipulagsstofnunar ekki forsendur til að krefjast endurskoðunar á matsskýrslu um Hvammsvirkjun samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000.“

Kærandi kveðst vera sjóður með staðfesta skipulagsskrá og starfi hann eftir lögum nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Samkvæmt lögunum skuli sjóðurinn senda Ríkisendurskoðun reikning sjóðsins árlega. Sjóðurinn sé sjálfseignarstofnun með ófjárhagslegan tilgang. Markið hans sé að vernda laxastofna hvar sem þeir finnist í og við Norður-Atlantshafið. Sjóðurinn hafi verið stofnaður árið 1992. Hann sé opinn öllum og séu fjölmargir aðilar að sjóðnum, bæði hér á landi og erlendis.

Af hálfu Skipulagsstofnunar er bent á að kanna þurfi hvort kærandi geti átt aðild að kærumáli samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Stofnunin telji að verndarsjóðurinn geti verið hagsmunasamtök í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en henni sé hins vegar ekki kunnugt um að kærandi hafi innan sinna raða 30 félagsmenn. Á vefsíðu kæranda sé ekki að finna upplýsingar um fjölda félagsmanna.

Framkvæmdaraðili gerir þá kröfu að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni á grundvelli aðildarskorts. Kærandi eigi hvorki lögvarinna hagsmuna að gæta er tengist hinni kærðu ákvörðun né uppfylli hann önnur skilyrði kæruaðildar. Í 14. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum komi fram að ákvörðun Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu skv. 12. gr. laganna sé kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varði kæru fari samkvæmt lögum nr. 130/2011. Í 3. mgr. 4. gr. laganna sé fjallað um kæruaðild umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtaka. NASF, Verndarsjóður villtra laxastofna, uppfylli ekki skilyrði ákvæðisins um umhverfisverndarsamtök. Um sé að ræða erlend samtök, sem ekki verði séð að séu opin fyrir almennri aðild eða uppfylli íslenska löggjöf um ársskýrslur eða endurskoðun bókhalds. Svo virðist sem samtökin séu ekki skráð hér á landi og sé ekki vitað um lögheimili þeirra, félagaform eða aðra þætti. Samtökin uppfylli því ekki lágmarkskröfur sem gerðar séu að lögum um aðild í því máli sem hér um ræði.

Niðurstaða: Í 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kemur fram að þeir einir geti kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök með minnst 30 félaga geta þó kært nánar tilgreindar ákvarðanir án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni, enda samrýmist tilgangi samtakanna að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að. Samkvæmt 4. mgr. 4. gr. teljast umhverfisverndarsamtök samtök sem hafa umhverfisvernd að meginmarkmiði. Útivistarsamtök teljast samtök sem hafa útivist og umhverfisvernd að markmiði. Samtök skv. 1. og 2. málsl. skulu vera opin fyrir almennri aðild, gefa út ársskýrslur um starfsemi sína og hafa endurskoðað bókhald. Meðal þeirra ákvarðana sem framangreind samtök geta kært eru ákvarðanir Skipulagsstofnunar um endurskoðun matsskýrslu framkvæmda samkvæmt 12. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. a-lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Samkvæmt upplýsingum kæranda er hann sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, sbr. lög nr. 19/1988 um sjóði og stofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Á meðal gagna málsins er skipulagsskrá sjóðsins, „Skipulagsskrá fyrir sjálfseignarstofnunina Norður-Atlantshafslaxsjóðinn (NAS)“, sem staðfest var af dómsmálaráðherra og birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. auglýsingu nr. 161/1992 þar um. Samkvæmt skránni er lögheimili sjóðsins í Reykjavík og eru stofnfélagar 27 talsins, bæði íslenskir og erlendir. Samkvæmt gr. 1.3 er hlutverk sjóðsins að greiða bætur fyrir laxakvóta, sem látnir eru af hendi. Nánar er fjallað um tilgang og markmið sjóðsins í gr. 4 og kemur fram í gr. 4.1 að auk friðunar á villtum Atlantshafslaxi hafi stofnunin m.a. að markmiði að stuðla að eflingu laxastofnsins, sbr. B-lið, og að endurskoða lengri tíma nauðsyn á friðun Atlantshafslaxins í Norður-Atlantshafi og í löndunum við það, sbr. E-lið. Samkvæmt gr. 6.1 skal halda ársfund í maí ár hvert og þar skal m.a. leggja fram skýrslu stjórnar og áritaðan ársreikning.

Af framangreindu má sjá að kærandi uppfyllir flest þau skilyrði sem sett eru fyrir aðild skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Úrskurðarnefndin hefur leitað eftir upplýsingum frá kæranda um það hvernig hann telji sig uppfylla skilyrði kæruaðildar, m.a. hvað varðar fjölda félagsmanna. Vísar kærandi til þess að hann starfi í fjölmörgum löndum við Norður-Atlantshafið og séu starfandi innan landsdeilda þeirra einstaklingar, hagsmunaaðilar og aðrir stuðningsmenn, sbr. meðfylgjandi yfirlitsmynd yfir landsdeildir og stjórnarmenn þeirra. Aldrei hafi verið útbúinn heildarlisti yfir þá sem starfað hafi með sjóðnum en hann hafi ávallt litið á þá sem styrki sjóðinn, ýmist með fjárframlögum eða vinnu, sem meðlimi hans. Hver sem er geti gengið til liðs við sjóðinn og skráð sig á póstlista hans. Aðild að sjóðnum hafi ávallt verið opin öllum sem vilji styðja baráttumál hans, enda komi hvergi fram að aðild að honum skuli takmörkuð á nokkurn hátt. Hafi sjóðurinn átt aðild að fjölda mála eins og því sem hér sé rekið.

Kærandi hefur ekki átt aðild að kærumálum fyrir úrskurðarnefndinni. Yfirlitsmynd sú sem kærandi vísar til sýnir deildir, stofnanir og sjóði í öðrum löndum og stjórnir þeirra. Kemur þar fram að sumar hverjar séu ekki virkar og aðrar sé verið að stofna. Frekari upplýsingar er ekki að finna um tengsl þessara mismunandi eininga við kæranda og verður ekki heldur af gögnum málsins að öðru leyti ráðið hver staða þeirra sé að íslenskum eða erlendum landsrétti. Í skipulagsskrá kæranda er tiltekið að innan hans vébanda starfi almennur sjóður, sjóður vegna Færeyja og sjóður vegna Grænlands, sbr. gr. 5.2. Einnig að gert sé ráð fyrir að stofnaðir verði sjóðir vegna einstakra ríkja, samþykktir af stjórn kæranda. Loks kemur fram í gr. 7.2 að a.m.k. tveir íslenskir ríkisborgarar skuli kjörnir í stjórn kæranda en einn stjórnarmaður skuli eiga lögheimili í eftirfarandi ríkjum: Noregi, Bretlandi, Írlandi, Svíþjóð, Danmörku, Bandaríkjunum og Kanada, svo og öðrum þeim ríkjum þar sem laxveiðiár renni og leggi fjármagn til stofnunarinnar. Fjalla nefnd ákvæði fyrst og fremst um innra skipulag starfsemi sjóðsins og er ekki hægt að draga af þeim þá ályktun að stjórnarmenn annarra deilda kæranda teljist félagar í honum. Þá verður því ekki jafnað saman við félagsaðild í skilningi 4. gr. laga nr. 130/2011 þótt hver sem er geti skráð sig á póstlista sjóðsins, styrkt hann eða starfað með honum. Loks voru stofnendur sjóðsins 27 talsins samkvæmt skipulagsskrá og ná því ekki þeim fjölda sem tilskilinn er fyrir kæruaðild.

Aðild að kærumáli án þess að sýna þurfi fram á lögvarða hagsmuni er undantekning frá þeirri meginreglu að svo þurfi að gera. Slíka undantekningu verður að skýra þröngt og verður að gera þá kröfu hið minnsta að sýnt sé fram á að skilyrðum þeirrar undantekningar sé að öllu leyti fullnægt. Samkvæmt því sem að framan er rakið hefur kæranda ekki tekist að leggja fram fullnægjandi upplýsingar um fjölda félaga, þrátt fyrir að leitað hafi verið eftir því. Telst hann því ekki uppfylla skilyrði til aðildar í málinu og er kæru hans af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.


Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Ásgeir Magnússon

33/2016 Norðurgata Seyðisfjörður

Með
Árið 2017, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2016, kæra á samþykkt umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 22. febrúar 2016 á byggingarleyfi vegna Norðurgötu 8b.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2016, er barst nefndinni 23. s.m., kærir A, Bjólfsgötu 8, Seyðisfirði, þá ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 22. febrúar 2016 að samþykkja byggingarleyfi vegna Norðurgötu 8b. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 29. mars og 29. desember 2016 og 16. ágúst 2017.

Málavextir: Í miðbæ Seyðisfjarðar er heilsteypt byggð sem að verulegu leyti er mótuð af húsum frá þar síðustu aldamótum. Samkvæmt Aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar 2010-2030 nýtur þetta svæði hverfisverndar og er það auðkennt sem svæði H1 í greinargerð aðalskipulagsins. Þar kemur fram að með hverfisverndinni sé „stefnt að því að vernda þau hús sem hafa sögulegt og fagurfræðilegt gildi, færa önnur í fyrra horf og leyfa við- og nýbyggingar þar sem aðstæður leyfa með ströngum skilyrðum sem uppfylla markmið hverfisverndarinnar.“

Með umsókn, dags. 1. desember 2015, sóttu lóðarhafar Norðurgötu 8 og 8b um byggingarleyfi vegna breytinga og enduruppbyggingar á tveimur húsum á lóðinni. Kom þar fram að ætlunin væri að breyta innra skipulagi aðalhúss á lóðinni og gera það upp að utan með innblæstri frá upprunalegu útliti hússins. Bakhús á lóðinni var sagt mjög illa farið og því sótt um leyfi fyrir endurbyggingu þess í einföldum nútímalegum stíl. Samhliða var gerð fyrirspurn um stækkun lóðar og flutning bakhússins inn á hina stækkuðu lóð. Útskýrt var að lóðarmörk hafi reynst vera undir bakhúsinu og að ráðlagt væri af fagaðilum að skilja húsin tvö í sundur við endurbyggingu og endurgerð þeirra. Byggingarleyfisumsóknin fyrir bakhúsið var gerð með fyrirvara um samþykkt fyrirspurnarinnar.

Umhverfisnefnd Seyðisfjarðar ákvað hinn 7. desember 2015 að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina, með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi var á meðal þeirra fasteignaeigenda sem ákveðið var að grenndarkynna fyrir. Með bréfi, dags. sama dag, barst byggingarfulltrúa álit Minjastofnunar á fyrirhuguðum framkvæmdum. Minjastofnun gerði ekki athugasemdir við breytingar á aðalhúsinu, en lagði áherslu á að vandað yrði til alls ytri frágangs. Ekki voru heldur gerðar athugasemdir við að bakhúsið yrði rifið og endurbyggt í breyttri mynd aðeins fjær aðalhúsinu, en lögð áhersla á að endurbyggt bakhúsið félli vel að umhverfinu og myndaði sannfærandi heild með aðalhúsinu og gömlu byggðinni við Norðurgötu. Jafnhliða fyrrgreindri samþykkt um grenndarkynningu samþykkti umhverfisnefnd fyrir sitt leyti stækkun lóðarinnar með þeim hætti sem fyrirspurnin frá umsækjendum byggingarleyfisins gerði ráð fyrir. Bæjarstjórn samþykkti síðar lóðarstækkunina á fundi 13. janúar 2016.

Byggingarleyfisumsóknirnar voru teknar fyrir að lokinni grenndarkynningu, á fundi umhverfisnefndar 25. janúar 2016. Bókað var að athugasemdir hefðu borist frá einum aðila, þ.e. kæranda, í kjölfar grenndarkynningar, auk þess sem athugasemdir hefðu borist frá íbúum kaupstaðarins sem ekki var sérstaklega grenndarkynnt fyrir. Var lagt fram áðurnefnt bréf Minjastofnunar, auk umsagnar sömu stofnunar um framkomnar athugasemdir, sem byggingarfulltrúi hafði óskað eftir. Á fundi umhverfisnefndar var ákveðið að heimila byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vegna aðalhússins, en afgreiðslu vegna bakhússins var frestað, með vísan til þess að teikningar þess gætu ekki fallið að þeim kröfum sem hverfisvernd gerði á svæðinu. Gerði nefndin kröfu um að útlit hins endurgerða bakhúss félli að einkennum hinnar sögulegu byggðar.

Fundargerð umhverfisnefndar frá 25. janúar 2016 var tekin fyrir í bæjarráði 27. s.m. og þar bókað að bæjarstjóra væri falið að afla nánari upplýsinga vegna málsins. Á fundi bæjarráðs 10. febrúar s.á. var bókað að lagðar hefðu verið fram upplýsingar frá umhverfisnefnd vegna málsins og að það væri áfram í vinnslu hjá nefndinni. Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir að nýju í umhverfisnefnd 22. febrúar s.á. Í fundargerð sem birt var á vef kaupstaðarins að loknum fundi kom fram að leyfisumsækjandi hefði gert athugasemdir við málsmeðferð nefndarinnar og að teknar hefðu verið fyrir athugasemdir bæjarráðs við afgreiðsluna, sem jafnframt hefði óskað rökstuðnings fyrir synjun byggingarleyfisins. Meirihluti nefndarinnar samþykkti loks byggingarleyfisumsóknina fyrir bakhúsinu, en einn nefndarmaður bókaði að hann teldi gluggasetningu bakhússins ekki samræmast gildandi hverfisvernd. Á fundi bæjarráðs 14. mars s.á. var fundargerð umhverfisnefndar frá 22. febrúar vísað aftur til nefndarinnar til leiðréttingar. Hinn 23. mars 2016 barst úrskurðarnefndinni kæra vegna ákvörðunar umhverfisnefndar frá 22. febrúar. Leiðrétt fundargerð umhverfisnefndar var loks samþykkt af bæjarráði 11. apríl s.á.

Í hinni leiðréttu fundargerð var bætt inn tilvitnun í athugasemdir umsækjanda byggingarleyfisins þess efnis að athugasemdir frá íbúum kaupstaðarins, sem ekki hefði verið grenndarkynnt fyrir, hefðu verið lagðar fyrir umhverfisnefnd. Auk þess kemur fram í hinni leiðréttu fundargerð að umsækjandi hafi óskað eftir útskýringu á túlkun nefndarinnar á hverfisvernd svæðisins. Þá var bætt inn bókun af hálfu nefndarinnar um að Minjastofnun hefði ekki lagst gegn niðurrifi bakhússins og endurbyggingu þess, til hnikuðu, með ákveðnum skilyrðum. Í ljósi þessa og að vandlega athuguðu máli teldi nefndin að leyfisumsóknin fyrir bakhúsið uppfyllti kröfur um hverfisvernd á svæðinu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur tillögur að húsinu Norðurgötu 8b ósamrýmanlegar yfirbragði hverfisins, sem njóti hverfisverndar í gildandi aðalskipulagi. Ekkert í útliti hússins minni á andrúmsloft liðins tíma, sögulegu húsin, né hina vernduðu götumynd. Hús kæranda og eiginkonu hans muni rýrna að verðgildi, og lífsgæði þeirra jafnframt, ef ekki verði staðið við fyrirheit um verndun svæðisins í kringum Lónið. Mikið og verðmætt starf margra aðila um árabil, sem leitt hafi af sér hverfisvernd svæðisins í kringum Lónið, verði að engu haft. Mikil almenn verðmæti séu fólgin í þeirri ímynd sem Seyðisfjörður hafi skapað sér vegna varðveislu og endurgerðar húsa frá því um aldamótin 1900. Bæjarfélagið hafi á liðnum árum haft hverfisverndina í heiðri í ákvarðanatöku um skipulagsmál, en með þessu fráviki verði trúnaðarbrestur á milli bæjaryfirvalda og íbúa. Geti það varðað mannréttindi íbúa að yfirvöld fari ekki með verðmæti samfélagsins á grunni laga og samþykkta. Farið sé fram á að úrskurðarnefndin taki umsóknarferlið til skoðunar, athugi fyrri fordæmi varðandi ákvarðanir um hverfisverndina á Seyðisfirði og gaumgæfi hvort jafnræðisreglu hafi verið gætt.

Málsrök Seyðisfjarðarkaupstaðar:
Seyðisfjarðarkaupstaður tjáði sig ekki sérstaklega um efni kærunnar.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 22. febrúar 2016 varðar umsókn um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði sem var grenndarkynnt samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fram hefur komið við meðferð málsins að byggingarleyfi á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar hefur enn ekki verið gefið út af byggingarfulltrúa. Hefur hann jafnframt upplýst úrskurðarnefndina um að hann telji að ekki sé verið að huga að framkvæmdum. Nefndin gaf kæranda kost á að upplýsa um afstöðu sína til þessara upplýsinga, en svör hans hafa ekki borist nefndinni.

Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Til samræmis við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Grenndarkynnt var fyrir kæranda á þeim grundvelli að hann gæti átt hagsmuna að gæta af áformunum, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, og kom hann að athugasemdum af því tilefni. Það eitt og sér leiðir hins vegar ekki sjálfkrafa til kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærandi byggir ógildingarkröfu sína aðallega á því að útlit hins áætlaða húss samræmist ekki yfirbragði hinnar gömlu byggðar sem fyrir sé á svæðinu og njóti hverfisverndar í aðalskipulagi. Ef af verði muni þetta valda honum tjóni vegna lækkaðs fasteignaverðs og skertra lífsgæða. Að auki nefnir kærandi atriði varðandi málsmeðferðina sem mögulega hafi verið ólögmæt og brotið gegn jafnræðisreglu. Kærandi byggir þannig að miklu leyti á atriðum sem skipulagsyfirvöldum hvers sveitarfélags er við skipulagsákvarðanir falið að gæta og telja verður til almannahagsmuna. Slík skírskotun til almannahagsmuna nægir þó ekki til aðildar að kærumáli heldur verður kærandi að byggja kæruaðild að skipulagsákvörðunum á eigin grenndarhagsmunum, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Sveitarfélagi er heimilt að falla frá grenndarkynningu ef byggingaráform varða aðeins hagsmuni sveitarfélags og umsækjanda, sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga, eða ef hagsmunir nágranna skerðast í engu að því er varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, sbr. 3. mgr. 43. gr. sömu laga. Gefur síðarnefnda undanþágan vísbendingu um hvers konar grenndarhagsmunir geti gefið tilefni til kæruaðildar að ákvörðunum sem teknar eru í kjölfar og á grunni grenndarkynningar.

Við mat á því hvort kærandi eigi þeirra hagsmuna að gæta af hinni kærðu afgreiðslu verður að líta til þess að fasteign kæranda stendur í tæplega 70 m fjarlægð frá áætlaðri byggingu þeirri sem samþykkt var af umhverfisnefnd. Þar á milli liggur Bjólfsgata og lóð hússins að Norðurgötu 10. Fyrirhuguð bygging er þó í beinni sjónlínu frá húsi kæranda. Um er að ræða byggingaráform vegna 60 m2 bakhúss á einni hæð með tæplega 3 m mænishæð, sem myndi standa í forgrunni mun stærra húss, séð frá lóð kæranda. Kæmi það í stað húss af svipaðri stærð sem stóð þar áður. Útlit hins áætlaða endurbyggða húss yrði í nokkru frábrugðið því sem fyrir var.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að hagsmunir kæranda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn, enda lóðirnar ekki samliggjandi. Útsýni kæranda mun sömuleiðis ekki skerðast, þó svo að það muni breytast á þann hátt að útlit hins endurbyggða húss, sem er í beinni sjónlínu frá húsi hans, verði að einhverju leyti frábrugðið því sem fyrir var. Í ljósi staðhátta verður að telja afar ólíklegt að sú útlitsbreyting muni skerða hagsmuni kæranda svo nokkru nemi. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að kærandi hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu afgreiðslu umfram aðra og verður kæruaðild hans ekki byggð á þeim forsendum. Þá hafa við meðferð málsins ekki komið fram aðrar ástæður af hálfu kæranda sem fullnægt geta skilyrðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um kæruaðild.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá vegna aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kæranda um ógildingu samþykktar umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 22. febrúar 2016 á byggingarleyfi vegna Norðurgötu 8b.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

8/2017 Reykjanesvitabraut

Með
Árið 2017, föstudaginn 10. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 8/2017, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 25. október 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir þjónustuskála að Reykjanesvitabraut 1.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. janúar 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir Vitavörðurinn ehf., eigandi Reykjanesvitaíbúðarhúss, Reykjanesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 25. október 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir þjónustuskála að Reykjanesvitabraut 1. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjanesbæ 12. október 2017.

Málsatvik og rök: Auglýsing um gildistöku nýs deiliskipulags fyrir Reykjanesvita var birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. maí 2016. Gerir deiliskipulagið ráð fyrir uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu með það að markmiði að Reykjanesviti og nágrenni verði miðstöð ferðamannastaða á Reykjanesi. Hinn 25. október s.á. samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjanesbæ byggingarleyfi fyrir þjónustuskála að Reykjanesvitabraut 1.

Kærandi byggir kröfu sýna um ógildingu byggingarleyfisins á því að deiliskipulagið, sem leyfið sæki stoð sína til, sé haldið ógildingarannmörkum. Það sé skilyrði að byggingarleyfi styðjist við gilt skipulag, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki. Þegar ákvörðun hafi verið tekin af hálfu byggingarfulltrúa um samþykkt byggingaráforma hafi legið fyrir að lögmæti umrædds deiliskipulags væri vefengt.
 
Af hálfu bæjaryfirvalda kemur fram að byggingaráform hafi verið samþykkt 25. október 2016. Sú samþykkt veiti ekki heimild til framkvæmda og hafi engar framkvæmdir farið fram, enda hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út. Á fundi með bæjarstjóra og fulltrúum leyfishafa 9. október 2017 hafi komið fram að leyfishafi sé hættur við hin kærðu byggingaráform og séu þau því felld úr gildi.

Leyfishafi tekur undir sjónarmið bæjaryfirvalda.

Niðurstaða: Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á, nema í tilteknum undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttar um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi beina einstaklingsbundna hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.

Eins og að framan greinir þá hefur hin kærða ákvörðun verið afturkölluð og er því ljóst að hún hefur ekki lengur réttarverkan að lögum. Af þeim sökum hefur kærandi ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi hennar og verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

127/2017 Sindragata Ísafjörður

Með
Árið 2017, mánudaginn 6. nóvember, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga. nr. 130/2010 fyrir:

Mál nr. 127/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðar frá 21. september 2017 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir Sindragötu 4.

Í málinu er nú kveðinn upp til svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. október 2017, er barst nefndinni 26 s.m., kæra eigendur Aðalstrætis 8, Ísafirði, þá ákvörðun bæjarstjórnar Ísafjarðar að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir Sindragötu 4, Ísafirði. Verður að skilja kröfu kærenda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Ísafirði 31. október 2017.

Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 9. nóvember 2016 var tekin fyrir ósk um breytingar á deiliskipulagi vegna Sindragötu 4, Ísafirði. Bókað var að tillaga um að breyta deiliskipulagi fyrir lóðina hefði verið samþykkt 23. nóvember 2006, en deiliskipulagið hefði reynst ógilt vegna formgalla. Í breytingunni hefði falist að lóðinni yrði skipt í tvær lóðir, Sindragötu 4 og 4a. Væri óskað eftir því við nefndina að hún tæki málið upp að nýju og tæki afstöðu til slíkra deiliskipulagsbreytinga. Væntanlegar breytingar snéru að aukalóð sem bætt yrði við og yrði Sindragata 4a, hæð húsa yrði fjórar í stað þriggja og hálfra og yrði nýtingarstuðull lóða mögulega hækkaður væri þess þörf, m.t.t. 2000 fermetra byggingarmagns. Afgreiðslu málsins var frestað og skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram.

Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 23. nóvember 2016 var lagt til að bæjarstjórn myndi heimila meðferð málsins skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Var það og samþykkt á fundi bæjarstjórnar 1. desember s.á. Drög að deiliskipulagi fyrir Sindragötu 4 voru lögð fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd 24. febrúar 2017 og var lagt til á fundi nefndarinnar 7. júní s.á. að bæjarstjórn myndi heimila auglýsingu deiliskipulagstillögunnar skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Var það samþykkt á fundi bæjarstjórnar 15. s.m. og tillagan auglýst með fresti til athugasemda frá 29. s.m. til 10. ágúst s.á. Athugasemdir bárust á kynningartíma og var þeim svarað með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 6. september s.á. Á fundi bæjarstjórnar 21. september 2017 var tillaga að deiliskipulagi fyrir Sindragötu 4 samþykkt.

Kærendur vísa til þess að þeir hafi gert athugasemdir við tillögu að hinu kærða deiliskipulagi. Um sé að ræða þegar byggt hverfi og gefi nýtt aðalskipulag ástæðu til vandaðra vinnubragða og nýrra sjónarmiða. Vísað sé til aðalskipulagsins m.a. um það að mikilvægt sé að breytingar á eldri byggð falli vel að umhverfi sínu og heildarmynd byggðarinnar. Erfitt hafi verið að nálgast upplýsingar um tillöguna og framsetningu gagna hafi verið áfátt. Þá hafi rökstuðning fyrir bílastæðafjölda verið áfátt og geri kærendur þá kröfu að áfram verði tryggð aðkoma að bílskúr þeirra.
 
Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar hafi ekki verið birt, m.a. vegna athugasemda Skipulagsstofnunar við að svo verði gert. Sveitarstjórn eigi eftir að taka athugasemdir stofnunarinnar til umræðu og afgreiðslu. Sé kæra í máli þessu því ekki tímabær.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti samþykkis bæjarstjórnar Ísafjarðar frá 21. september 2017 á deiliskipulagstillögu vegna Sindragötu 4, Ísafirði. Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skal birta auglýsingu um samþykkt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda og samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar sæti hún opinberri birtingu. Hin kærða ákvörðun hefur ekki verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, en slík auglýsing er skilyrði gildistöku hennar og markar jafnframt upphaf kærufrests til úrskurðarnefndarinnar, sbr. framangreind lagaákvæði. Þar sem lögboðinni meðferð málsins er enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru skilyrði fyrir því að vísa málinu til úrskurðarnefndarinnar ekki uppfyllt. Verður af þeim sökum að vísa því frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

______________________________
Nanna Magnadóttir