Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

33/2016 Norðurgata Seyðisfjörður

Árið 2017, fimmtudaginn 16. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 33/2016, kæra á samþykkt umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 22. febrúar 2016 á byggingarleyfi vegna Norðurgötu 8b.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. mars 2016, er barst nefndinni 23. s.m., kærir A, Bjólfsgötu 8, Seyðisfirði, þá ákvörðun Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 22. febrúar 2016 að samþykkja byggingarleyfi vegna Norðurgötu 8b. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Seyðisfjarðarkaupstað 29. mars og 29. desember 2016 og 16. ágúst 2017.

Málavextir: Í miðbæ Seyðisfjarðar er heilsteypt byggð sem að verulegu leyti er mótuð af húsum frá þar síðustu aldamótum. Samkvæmt Aðalskipulagi Seyðisfjarðarkaupstaðar 2010-2030 nýtur þetta svæði hverfisverndar og er það auðkennt sem svæði H1 í greinargerð aðalskipulagsins. Þar kemur fram að með hverfisverndinni sé „stefnt að því að vernda þau hús sem hafa sögulegt og fagurfræðilegt gildi, færa önnur í fyrra horf og leyfa við- og nýbyggingar þar sem aðstæður leyfa með ströngum skilyrðum sem uppfylla markmið hverfisverndarinnar.“

Með umsókn, dags. 1. desember 2015, sóttu lóðarhafar Norðurgötu 8 og 8b um byggingarleyfi vegna breytinga og enduruppbyggingar á tveimur húsum á lóðinni. Kom þar fram að ætlunin væri að breyta innra skipulagi aðalhúss á lóðinni og gera það upp að utan með innblæstri frá upprunalegu útliti hússins. Bakhús á lóðinni var sagt mjög illa farið og því sótt um leyfi fyrir endurbyggingu þess í einföldum nútímalegum stíl. Samhliða var gerð fyrirspurn um stækkun lóðar og flutning bakhússins inn á hina stækkuðu lóð. Útskýrt var að lóðarmörk hafi reynst vera undir bakhúsinu og að ráðlagt væri af fagaðilum að skilja húsin tvö í sundur við endurbyggingu og endurgerð þeirra. Byggingarleyfisumsóknin fyrir bakhúsið var gerð með fyrirvara um samþykkt fyrirspurnarinnar.

Umhverfisnefnd Seyðisfjarðar ákvað hinn 7. desember 2015 að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina, með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Kærandi var á meðal þeirra fasteignaeigenda sem ákveðið var að grenndarkynna fyrir. Með bréfi, dags. sama dag, barst byggingarfulltrúa álit Minjastofnunar á fyrirhuguðum framkvæmdum. Minjastofnun gerði ekki athugasemdir við breytingar á aðalhúsinu, en lagði áherslu á að vandað yrði til alls ytri frágangs. Ekki voru heldur gerðar athugasemdir við að bakhúsið yrði rifið og endurbyggt í breyttri mynd aðeins fjær aðalhúsinu, en lögð áhersla á að endurbyggt bakhúsið félli vel að umhverfinu og myndaði sannfærandi heild með aðalhúsinu og gömlu byggðinni við Norðurgötu. Jafnhliða fyrrgreindri samþykkt um grenndarkynningu samþykkti umhverfisnefnd fyrir sitt leyti stækkun lóðarinnar með þeim hætti sem fyrirspurnin frá umsækjendum byggingarleyfisins gerði ráð fyrir. Bæjarstjórn samþykkti síðar lóðarstækkunina á fundi 13. janúar 2016.

Byggingarleyfisumsóknirnar voru teknar fyrir að lokinni grenndarkynningu, á fundi umhverfisnefndar 25. janúar 2016. Bókað var að athugasemdir hefðu borist frá einum aðila, þ.e. kæranda, í kjölfar grenndarkynningar, auk þess sem athugasemdir hefðu borist frá íbúum kaupstaðarins sem ekki var sérstaklega grenndarkynnt fyrir. Var lagt fram áðurnefnt bréf Minjastofnunar, auk umsagnar sömu stofnunar um framkomnar athugasemdir, sem byggingarfulltrúi hafði óskað eftir. Á fundi umhverfisnefndar var ákveðið að heimila byggingarfulltrúa að gefa út byggingarleyfi vegna aðalhússins, en afgreiðslu vegna bakhússins var frestað, með vísan til þess að teikningar þess gætu ekki fallið að þeim kröfum sem hverfisvernd gerði á svæðinu. Gerði nefndin kröfu um að útlit hins endurgerða bakhúss félli að einkennum hinnar sögulegu byggðar.

Fundargerð umhverfisnefndar frá 25. janúar 2016 var tekin fyrir í bæjarráði 27. s.m. og þar bókað að bæjarstjóra væri falið að afla nánari upplýsinga vegna málsins. Á fundi bæjarráðs 10. febrúar s.á. var bókað að lagðar hefðu verið fram upplýsingar frá umhverfisnefnd vegna málsins og að það væri áfram í vinnslu hjá nefndinni. Byggingarleyfisumsóknin var tekin fyrir að nýju í umhverfisnefnd 22. febrúar s.á. Í fundargerð sem birt var á vef kaupstaðarins að loknum fundi kom fram að leyfisumsækjandi hefði gert athugasemdir við málsmeðferð nefndarinnar og að teknar hefðu verið fyrir athugasemdir bæjarráðs við afgreiðsluna, sem jafnframt hefði óskað rökstuðnings fyrir synjun byggingarleyfisins. Meirihluti nefndarinnar samþykkti loks byggingarleyfisumsóknina fyrir bakhúsinu, en einn nefndarmaður bókaði að hann teldi gluggasetningu bakhússins ekki samræmast gildandi hverfisvernd. Á fundi bæjarráðs 14. mars s.á. var fundargerð umhverfisnefndar frá 22. febrúar vísað aftur til nefndarinnar til leiðréttingar. Hinn 23. mars 2016 barst úrskurðarnefndinni kæra vegna ákvörðunar umhverfisnefndar frá 22. febrúar. Leiðrétt fundargerð umhverfisnefndar var loks samþykkt af bæjarráði 11. apríl s.á.

Í hinni leiðréttu fundargerð var bætt inn tilvitnun í athugasemdir umsækjanda byggingarleyfisins þess efnis að athugasemdir frá íbúum kaupstaðarins, sem ekki hefði verið grenndarkynnt fyrir, hefðu verið lagðar fyrir umhverfisnefnd. Auk þess kemur fram í hinni leiðréttu fundargerð að umsækjandi hafi óskað eftir útskýringu á túlkun nefndarinnar á hverfisvernd svæðisins. Þá var bætt inn bókun af hálfu nefndarinnar um að Minjastofnun hefði ekki lagst gegn niðurrifi bakhússins og endurbyggingu þess, til hnikuðu, með ákveðnum skilyrðum. Í ljósi þessa og að vandlega athuguðu máli teldi nefndin að leyfisumsóknin fyrir bakhúsið uppfyllti kröfur um hverfisvernd á svæðinu.

Málsrök kæranda: Kærandi telur tillögur að húsinu Norðurgötu 8b ósamrýmanlegar yfirbragði hverfisins, sem njóti hverfisverndar í gildandi aðalskipulagi. Ekkert í útliti hússins minni á andrúmsloft liðins tíma, sögulegu húsin, né hina vernduðu götumynd. Hús kæranda og eiginkonu hans muni rýrna að verðgildi, og lífsgæði þeirra jafnframt, ef ekki verði staðið við fyrirheit um verndun svæðisins í kringum Lónið. Mikið og verðmætt starf margra aðila um árabil, sem leitt hafi af sér hverfisvernd svæðisins í kringum Lónið, verði að engu haft. Mikil almenn verðmæti séu fólgin í þeirri ímynd sem Seyðisfjörður hafi skapað sér vegna varðveislu og endurgerðar húsa frá því um aldamótin 1900. Bæjarfélagið hafi á liðnum árum haft hverfisverndina í heiðri í ákvarðanatöku um skipulagsmál, en með þessu fráviki verði trúnaðarbrestur á milli bæjaryfirvalda og íbúa. Geti það varðað mannréttindi íbúa að yfirvöld fari ekki með verðmæti samfélagsins á grunni laga og samþykkta. Farið sé fram á að úrskurðarnefndin taki umsóknarferlið til skoðunar, athugi fyrri fordæmi varðandi ákvarðanir um hverfisverndina á Seyðisfirði og gaumgæfi hvort jafnræðisreglu hafi verið gætt.

Málsrök Seyðisfjarðarkaupstaðar:
Seyðisfjarðarkaupstaður tjáði sig ekki sérstaklega um efni kærunnar.

Niðurstaða: Hin kærða ákvörðun umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 22. febrúar 2016 varðar umsókn um byggingarleyfi á ódeiliskipulögðu svæði sem var grenndarkynnt samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Fram hefur komið við meðferð málsins að byggingarleyfi á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar hefur enn ekki verið gefið út af byggingarfulltrúa. Hefur hann jafnframt upplýst úrskurðarnefndina um að hann telji að ekki sé verið að huga að framkvæmdum. Nefndin gaf kæranda kost á að upplýsa um afstöðu sína til þessara upplýsinga, en svör hans hafa ekki borist nefndinni.

Í samræmi við 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Til samræmis við aðildarhugtak stjórnsýsluréttarins hefur þetta skilyrði verið túlkað svo að þeir einir teljist eiga lögvarða hagsmuni sem eiga einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Grenndarkynnt var fyrir kæranda á þeim grundvelli að hann gæti átt hagsmuna að gæta af áformunum, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga, og kom hann að athugasemdum af því tilefni. Það eitt og sér leiðir hins vegar ekki sjálfkrafa til kæruaðildar fyrir úrskurðarnefndinni.

Kærandi byggir ógildingarkröfu sína aðallega á því að útlit hins áætlaða húss samræmist ekki yfirbragði hinnar gömlu byggðar sem fyrir sé á svæðinu og njóti hverfisverndar í aðalskipulagi. Ef af verði muni þetta valda honum tjóni vegna lækkaðs fasteignaverðs og skertra lífsgæða. Að auki nefnir kærandi atriði varðandi málsmeðferðina sem mögulega hafi verið ólögmæt og brotið gegn jafnræðisreglu. Kærandi byggir þannig að miklu leyti á atriðum sem skipulagsyfirvöldum hvers sveitarfélags er við skipulagsákvarðanir falið að gæta og telja verður til almannahagsmuna. Slík skírskotun til almannahagsmuna nægir þó ekki til aðildar að kærumáli heldur verður kærandi að byggja kæruaðild að skipulagsákvörðunum á eigin grenndarhagsmunum, sbr. áðurnefnda 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Sveitarfélagi er heimilt að falla frá grenndarkynningu ef byggingaráform varða aðeins hagsmuni sveitarfélags og umsækjanda, sbr. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga, eða ef hagsmunir nágranna skerðast í engu að því er varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn, sbr. 3. mgr. 43. gr. sömu laga. Gefur síðarnefnda undanþágan vísbendingu um hvers konar grenndarhagsmunir geti gefið tilefni til kæruaðildar að ákvörðunum sem teknar eru í kjölfar og á grunni grenndarkynningar.

Við mat á því hvort kærandi eigi þeirra hagsmuna að gæta af hinni kærðu afgreiðslu verður að líta til þess að fasteign kæranda stendur í tæplega 70 m fjarlægð frá áætlaðri byggingu þeirri sem samþykkt var af umhverfisnefnd. Þar á milli liggur Bjólfsgata og lóð hússins að Norðurgötu 10. Fyrirhuguð bygging er þó í beinni sjónlínu frá húsi kæranda. Um er að ræða byggingaráform vegna 60 m2 bakhúss á einni hæð með tæplega 3 m mænishæð, sem myndi standa í forgrunni mun stærra húss, séð frá lóð kæranda. Kæmi það í stað húss af svipaðri stærð sem stóð þar áður. Útlit hins áætlaða endurbyggða húss yrði í nokkru frábrugðið því sem fyrir var.

Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að hagsmunir kæranda muni skerðast á nokkurn hátt að því er varðar landnotkun, skuggavarp eða innsýn, enda lóðirnar ekki samliggjandi. Útsýni kæranda mun sömuleiðis ekki skerðast, þó svo að það muni breytast á þann hátt að útlit hins endurbyggða húss, sem er í beinni sjónlínu frá húsi hans, verði að einhverju leyti frábrugðið því sem fyrir var. Í ljósi staðhátta verður að telja afar ólíklegt að sú útlitsbreyting muni skerða hagsmuni kæranda svo nokkru nemi. Með hliðsjón af framangreindu verður ekki séð að kærandi hafi einstaklegra hagsmuna að gæta af hinni kærðu afgreiðslu umfram aðra og verður kæruaðild hans ekki byggð á þeim forsendum. Þá hafa við meðferð málsins ekki komið fram aðrar ástæður af hálfu kæranda sem fullnægt geta skilyrðum 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um kæruaðild.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar vísað frá vegna aðildarskorts.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Vísað er frá kröfu kæranda um ógildingu samþykktar umhverfisnefndar Seyðisfjarðarkaupstaðar frá 22. febrúar 2016 á byggingarleyfi vegna Norðurgötu 8b.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson