Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

138/2017 Brúarvirkjun

Árið 2018, mánudaginn 19. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 138/2017, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 12. október 2017 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. nóvember 2017, er barst nefndinni 24. s.m., kærir Kayakklúbburinn þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 12. október 2017 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. nóvember 2017, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Suðurlands og Landvernd, landgræðslu- og umhverfisverndarsamtök Íslands, greinda ákvörðun Bláskógabyggðar og gera þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þar sem um sömu ákvörðun er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verður seinna kærumálið, sem er nr. 139/2017, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 28. desember 2017.

Málsatvik og rök: Á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar 12. október 2017 var samþykkt umsókn HS Orku hf. um framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun, 9,9 MW vatnsaflsvirkjun í efri hluta Tungufljóts. Var skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins falið að auglýsa niðurstöðu sveitarstjórnar og var slík auglýsing m.a. birt í Löbirtingablaðinu 26. október 2017.

Kærendur telja að með virkjuninni verði möguleikar til útivistar á svæðinu skertir verulega og benda á að ekkert mat hafi verið lagt á hagsmuni því tengda. Áhrif virkjunarinnar muni verða neikvæð á ferðamannaiðnaðinn og muni langtímaverðmætum fórnað fyrir lítil skammtímaverðmæti. Form- og efnisannmarkar séu á hinni kærðu ákvörðun, sem leiða eigi til ógildingar. Hafi sveitarstjórn t.a.m. ekki tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, svo sem lögmælt sé í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þá hafi umsagnar Umhverfisstofnunar eða viðkomandi náttúruverndarnefndar ekki verið leitað, svo sem skylt sé skv. 2. mgr. 13. gr. sömu laga, sbr. og 3. mgr. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Af hálfu Bláskógabyggðar var þess krafist að kæru Kayakklúbbsins yrði vísað frá nefndinni, en að kröfum annarra kærenda yrði hafnað.

Á fundi sínum 1. febrúar 2018 tók sveitarstjórn Bláskógabyggðar fyrir erindi HS Orku hf., þar sem þess var farið á leit að afgreiðsla sveitarstjórnar á umsókn fyrirtækisins um framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun frá 12. október 2017 yrði endurupptekin og afturkölluð og umsóknin afgreidd að nýju. Féllst sveitarstjórn á að skilyrði til endurupptöku væru uppfyllt og að tilefni væri til að taka umsókn fyrirtækisins um framkvæmdaleyfi til nýrrar skoðunar. Samþykkti sveitarstjórn að veita framkvæmdaleyfi fyrir Brúarvirkjun með nánar tilgreindum skilyrðum og bókaði sveitarstjórn jafnframt að fyrri samþykkt um málið, frá 12. október 2017, væri felld úr gildi.

Niðurstaða: Eins og fram hefur komið tók sveitarstjórn Bláskógabyggðar þá ákvörðun 1. febrúar 2018 að afturkalla hina kærðu ákvörðun sína frá 12. október 2017 um að veita framkvæmdaleyfi vegna Brúarvirkjunar.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök, sem uppfylla tiltekin skilyrði og hafa þann tilgang að gæta þeirra hagsmuna sem kæran lýtur að, er þó m.a. heimilt að kæra leyfisveitingar vegna framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum án þess að sýna fram á lögvarða hagsmuni. Eftir afturköllun hinnar kærðu ákvörðunar hefur hún ekki réttarverkan að lögum og hefur því enga þýðingu, hvorki með tilliti til einstaklingsbundinna- né almannahagsmuna að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.