Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

129/2016 Lundur

Árið 2018, föstudaginn 16. mars, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 129/2016, kæra á afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. ágúst 2016 um breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. október 2016, sem barst nefndinni sama dag, kæra eigendur og ábúendur á lögbýlinu Minna-Mosfelli í Mosfellsdal, afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 31. ágúst 2016 um breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal. Skilja verður kröfu kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 18. maí 2017 og 8. mars 2018.

Málsatvik og rök: Hinn 27. maí 2016 var auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal. Kom fram í greinargerð tillögunnar að skipulagssvæðið afmarkaðist af Þingvallavegi að sunnan, Köldukvísl að norðan, kirkjujörðinni Mosfelli að vestan og óskipulögðu landbúnaðarsvæði að austan. Fælu umræddar breytingar m.a. í sér að aðkomuvegur væri færður nær austurmörkum og sýndur möguleiki á tengingu við golfvöll norðan lóðar. Komu kærendur að athugasemdum við tillöguna varðandi umferðarrétt frá Þingvallavegi að Minna-Mosfelli. Málið var tekið fyrir á fundi skipulagsnefndar 23. ágúst 2016 og afgreitt með svohljóðandi hætti: „Nefndin felur skipulagsfulltrúa að svara framkominni athugasemd í samræmi við umræður á fundinum og annast gildistökuferlið.“ Samþykkti bæjarstjórn greinda afgreiðslu 31. s.m.

Kærendur andmæla því að loka eigi varanlega um 60 m löngum hluta gömlu heimreiðarinnar að Minna-Mosfelli, næst Þingvallavegi. Í stað þess muni þeir öðlast umferðarrétt um áformaðan 300 m langan krákustíg á mýrartúni. Sé brotið gegn lögvörðum eignarrétti þeirra og í engu gætt grundvallarreglna stjórnsýsluréttarins, m.a. varðandi rannsókn máls og andmælarétt.

Af hálfu Mosfellsbæjar er skírskotað til þess að umrædd breyting hafi ekki tekið gildi þar sem hún hafi ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Því sé lögboðinni meðferð málsins enn ólokið í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skilyrði til að vísa málinu til kærunefndar ekki uppfyllt. Verði því ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. Þá sé bent á að réttur kærenda til aðkomu að Minna-Mosfelli sé í engu skertur með breytingunni, þótt fara þurfi aðeins lengri leið en áður.

Niðurstaða: Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri afgreiðslu bæjarstjórnar Mosfellsbæjar að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Lundar í Mosfellsdal.

Leitt hefur verið í ljós að umrætt deiliskipulag var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda svo sem áskilið er í 42. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hefur hin kærða ákvörðun af þeim ástæðum ekki réttarverkan að lögum og á kærandi af þeim sökum ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi ákvörðunarinnar. Verður máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni með vísan til 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.