Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

55/2016 Borgarhólsstekkur

Árið 2018, miðvikudaginn 28. febrúar, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011 fyrir:

Mál nr. 55/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 7. apríl 2016 um að synja kröfu um að fjarlægja mannvirki á lóð nr. 1 við Borgarhólsstekk í landi Miðfells í Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. maí 2016, er barst nefndinni 27. s.m., kærir eigandi sumarbústaðar á lóð Krummastekk 1, Miðfellslandi, Bláskógabyggð, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 7. apríl 2016 um að synja kröfu um að fjarlægja gestahús á lóðinni að Borgarhólsstekk 1, Bláskógabyggð. Skilja verður málsskot kæranda svo að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi, umrætt hús verði fjarlægt og dagsektum beitt.

Gögn málsins bárust frá Bláskógabyggð 24. júní 2016 og 19. febrúar 2018.

Málavextir og málsrök: Byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við sumarhúsið að Borgarhólsstekk 1 og byggingu 25,8 m² gestahúss á lóðinni var samþykkt af byggingarfulltrúa og staðfest af sveitarstjórn Bláskógabyggðar á árinu 2007. Árið 2014 skaut kærandi máls þessa þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og krafðist þess að ákvörðunin yrði felld úr gildi að því er varðar heimild til byggingar fyrrgreinds gestahúss.  Með úrskurði nefndarinnar 19. september 2014 var fallist á kröfu kæranda, en úrskurðarnefndin taldi að lagaskilyrði hefði skort fyrir veitingu leyfisins. Í kjölfar þess sótti lóðarhafi Borgarhólsstekks 1 um endurnýjun á umsókn um byggingarleyfi fyrir umrætt hús. Samþykkti skipulagsnefnd Uppsveita bs. að grenndarkynna umsóknina. Með bréfi kæranda og lóðarhafa Borgarhólsstekks 2 til sveitarfélagsins, dags. 7. janúar 2015, var þess krafist að byggingarleyfi fyrir húsinu yrði ekki veitt og að þegar byggt gestahús yrði fjarlægt.

Hinn 11. júní 2015 fór kærandi fram á það með tölvupósti til sveitarfélagsins að umrætt gestahús yrði fjarlægt af lóðinni. Sveitarstjórn tók málefni Borgarhólsstekks 1 fyrir á fundi sínum 7. apríl 2016 að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Var m.a. bókað að borist hefði beiðni um að gestahúsið yrði fjarlægt og að leitað hefði verið eftir viðbrögðum eigenda Borgarhólsstekks 1 og lægju þau fyrir. Jafnframt var eftirfarandi fært til bókar: „Sveitarstjórn Bláskógabyggðar fellst ekki á að efnisrök eða hagsmunir séu fyrir því að fjarlægja gestahúsið. Þá er byggingin í samræmi við það sem almennt hefur tíðkast að veita leyfi fyrir í sumarhúsahverfum í sveitarfélaginu. Vinna við breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins stendur nú yfir og er fyrirhugað að þeirri vinnu ljúki á haustmánuðum. Afreiðslu umsóknar um byggingarleyfi er því frestað til 1. október s.á.“ Var kæranda tilkynnt um greinda afgreiðslu með bréfi, dags. 11. maí 2016.

Kærandi bendir á að með úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 hafi lóðarhafa Hvannalundar 8 í Bláskógabyggð verið gert að fjarlægja nýbyggt hús af lóðinni þar sem ekki hafi verið heimilt að veita byggingarleyfi án undangenginnar deiliskipulagsgerðar. Hafi hin ólögmæta bygging að Borgarhólsstekk 1 verið reist þrátt fyrir að bæði sveitarfélaginu og eiganda hennar hafi mátt vera fullljóst að verulegir annmarkar væru á réttmæti byggingarleyfis og að í aðalskipulagi væri kveðið á um að ekki mætti veita byggingarleyfi fyrir nýbyggingum á meðan ekki væri í gildi deiliskipulag fyrir svæðið. Nágrannar Borgarhólsstekks 1 hafi mátt þola algert sinnuleysi sveitarfélagsins sem gætt hafi í hvívetna hagsmuna eiganda þeirrar lóðar, en í engu jafnræðis eða hagsmuna nágranna. Nýbygging af þessari stærð, staðsett í beinni sjónlínu við nærliggjandi sumarhús, hafi verulega neikvæð áhrif á ásýnd, skerði útsýni og rýri verðgildi fasteigna þeirra. Sveitarfélagið hafi brotið gegn meginákvæðum laga og reglugerða um nágrannarétt. Það sé óásættanlegt að gengið sé erinda lóðarhafa Borgarhólsstekks 1, t.a.m með því að bíða eftir breyttu skipulagi svo unnt sé að veita nýtt byggingarleyfi. Þá séu rök sveitarfélagsins um að umrædd bygging sé í samræmi við það sem almennt hafi tíðkast að veita leyfi fyrir í sumarhúsahverfum í sveitarfélaginu ekki haldbær.

Sveitarfélagið krefst þess að kröfu kæranda verði hafnað.  Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki sé byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Geti kærandi ekki knúið byggingaryfirvöld til að beita úrræðinu, enda sé þeim tryggð önnur réttarúrræði til að verja einstaklingsbundna hagsmuni sína. Sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 90/2012 í þessu sambandi. Í öndverðu hafi ekki verið um óleyfisframkvæmd að ræða. Hin kærða ákvörðun hafi verið rökstudd, sjónarmið beggja aðila legið fyrir við töku hennar og gætt hafi verið andmælareglu og rannsóknarreglu við meðferð málsins. Litið hafi verið til meðalhófs og jafnræðis, hagsmunir leyfishafa og kæranda verið metnir, m.a. með tilliti til þess hvort byggingin væri hættuleg öðrum, sem og til skipulagssjónarmiða.

Leyfishafi krefst þess að kröfu kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að henni verði hafnað. Sé það ekki á færi úrskurðarnefndarinnar að taka nýja og sjálfstæða ákvörðun, heldur aðeins að endurskoða kærða ákvörðun. Krafa kæranda um að umrætt gestahús verði fjarlægt eigi því ekki undir úrskurðarnefndina og beri að vísa henni frá. Skilningur kæranda á úrskurði í máli nr. 71/2011 sé rangur. Hið rétta sé að í málinu hafi verið fellt úr gildi byggingarleyfi, en sérstaklega hafi verið tekið fram að ekki væri tekin afstaða til kröfu kæranda um beitingu þvingunarúrræða. Leiði ógilding byggingarleyfis ekki sjálfkrafa til þess að mannvirki skuli fjarlægð og megi m.a. ráða það af dómum Hæstaréttar í málum nr. 326/2005 og 444/2008. Það sé háð frjálsu mati viðkomandi stjórnvalds hvort ákvæði 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skuli beitt í einstökum tilvikum. Í athugasemdum við frumvarp það sem orðið hafi að mannvirkjalögum sé tekið fram að ákvörðun um beitingu þessa úrræðis sé metin í hverju tilviki, m.a. með tilliti til meðalhófs. Komi þetta frjálsa mat ekki til endurskoðunar af hálfu úrskurðarnefndarinnar og sé vísað um það til fjölmargra úrskurða nefndarinnar, s.s. í málum nr. 5/2005, 90/2012 og 42/2016.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti þeirrar ákvörðunar sveitarstjórnar Bláskógabyggðar um að synja beiðni kæranda um að beitt verði úrræðum 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að fjarlægja mannvirki á lóðinni að Borgarhólsstekk 1. Kemur fram í tilvitnuðu ákvæði að byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, geti krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag.
Sveitarstjórn er heimilt með sérstakri samþykkt samkvæmt 7. gr. mannvirkjalaga að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og hafi að öðru leyti eftirlit með stjórnsýslu hans fyrir hönd sveitarstjórnar. Er sveitarstjórn og heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna. Í ákvæðinu er ekki vikið að því hvort ákvörðun um beitingu þvingunarúrræða 2. mgr. 55. gr. laganna geti orðið með öðrum hætti en þar greinir. Ekki liggur fyrir að Bláskógabyggð hafi sett sér slíka samþykkt, en skv. 6. mgr. 7. gr. nefndra laga, sbr. forsetaúrskurð um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, skal samþykkt sem sett er samkvæmt lagagreininni lögð fyrir umhverfis- og auðlindaráðherra til staðfestingar og birt af sveitarstjórn í B-deild Stjórnartíðinda. Enn fremur skal hún færð inn í rafrænt gagnasafn Mannvirkjastofnunar. Í 48. gr. samþykktar um stjórn sveitarfélagsins Bláskógabyggðar nr. 592/2013, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 27. júní s.á., kemur fram að skipulagsnefnd fari með skipulagsmál skv. 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og byggingarmál skv. 7. gr. laga um mannvirki. Samþykktin er sett með stoð í 9. og 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og var hún staðfest af innanríkisráðherra. Liggur því fyrir að sú samþykkt á ekki stoð í 7. gr. mannvirkjalaga og hefur hún ekki verið sett með þeim hætti sem þar er mælt fyrir um. Getur hún því ekki vikið til hliðar fyrirmælum 2. mgr. 55. gr. laganna um að það sé á forræði byggingarfulltrúa að meta og taka ákvörðun um beitingu þess þvingunarúrræðis sem þar greinir. Samkvæmt upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Bláskógabyggð hefur byggingarfulltrúi ekki tekið erindi kæranda um niðurrif hússins að Borgarhólsstekk 1 fyrir með formlegum hætti. Synjun skipulagsnefndar og sveitarstjórnar á erindi kæranda hefur því ekki þýðingu að lögum þar sem málið var ekki afgreitt af þar til bæru stjórnvaldi lögum samkvæmt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggur ekki fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál sem borin verður undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og verður máli þessu því vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.