Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

127/2023 Hörgá E-9

Með

Árið 2023, fimmtudaginn 21. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Geir Oddsson auðlindafræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bráðabirgðaúrskurði, uppkveðnum 21. nóvember 2023, voru framkvæmdir á grundvelli hinnar kærðu ákvörðunar stöðvaðar að kröfu kæranda á meðan mál þetta væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 13. nóvember 2023.

Málavextir: Hörgá er u.þ.b. 44 km löng dragá sem rennur eftir Hörgárdal í Hörgársveit til sjávar. Stærð vatnasviðs Hörgár og hliðaráa hennar er áætlað um 700 km2. Með úrskurði í máli nefndarinnar nr. 53/2023, sem kveðinn var upp 29. september 2023, voru felld úr gildi þrjú óskyld framkvæmdaleyfi til malartöku í farvegi árinnar sem veitt höfðu verið tilteknum félögum.

Með umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 9. október 2023, var sótt um heimild til 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá. Á fundi skipulags- og umhverfisnefndar Hörgársveitar 30. s.m. var fjallað um umsóknina og í fundargerð gerð grein fyrir þeim gögnum sem lágu fyrir nefndinni. Sveitarstjórn samþykkti umsóknina á fundi 31. s.m. með svohljóðandi rökstuðningi: „Fyrir sveitarstjórn liggur bókun skipulags- og umhverfisnefndar og þau gögn sem þar voru lögð fram. Sveitarstjórn tekur undir rökstuðning skipulags- og umhverfisnefndar. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin sem sótt er um sé í samræmi við umhverfismat Environice frá apríl 2015 og leggur það til grundvallar ásamt áliti Skipulagsstofnunar vegna umhverfismatsins, dags. 4. júní 2015. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag Hörgársveitar 2012 til 2024 og ákvæði skipulagsins um efnistöku úr Hörgá. Í fyrirliggjandi leyfi Fiskistofu, dags. 12. september 2022, er afstaða tekin til framkvæmdarinnar á grundvelli gildandi leyfa um efnistöku úr Hörgá. Í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa kemur fram greining á framkvæmdinni á grundvelli laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Sveitarstjórn telur að framkvæmdin leiði ekki til að vatnshlot Hörgár versni og telur að framkvæmdin sé í samræmi við þá stefnumörkun og markmið um vatnsvernd sem fram kemur í vatnaáætlun fyrir Íslands, sbr. lög um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Sveitarstjórn samþykkir greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 23. október 2023, vegna framkvæmdarinnar og leggur til grundvallar þau rök sem þar koma fram. Sveitarstjórn samþykkti að framkvæmdaleyfið verði veitt.“ Skipulags- og byggingarfulltrúi gaf út framkvæmdaleyfi sama dag og var útgáfa leyfisins auglýst í Lögbirtingablaði 3. nóvember 2023.

Málsrök kæranda: Að mati kæranda verður ekki séð að sveitarstjórn hafi brugðist við athugasemd í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í úrskurði í kærumáli nr. 53/2023, sem kveðinn var upp 29. september 2023, um að sveitarstjórn geti verið skylt að líta til efnis- og formreglna laga nr. 60/2013 um náttúruvernd við veitingu framkvæmdaleyfis. Samkvæmt lögunum gegni sveitarstjórnir mikilvægu hlutverki í náttúruvernd, en einnig sé mælt fyrir um í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að við veitingu framkvæmdaleyfis skuli sveitarstjórn ganga úr skugga um að gætt hafi verið ákvæða laga um náttúruvernd. Ákvæðið sé bæði skýrt og afdráttarlaust. Með hliðsjón af bókun í fundargerð virðist sveitarstjórn ekki hafa gætt þessarar skyldu.

Við setningu stjórnvaldsfyrirmæla og töku ákvarðana sem áhrif hafi á náttúruna skuli stjórnvöld taka mið af meginreglum og sjónarmiðum 8.–11. gr. náttúruverndarlaga, sbr. 7. gr. laganna. Í 8. gr. laganna sé fjallað um vísindalegan grundvöll ákvarðanatöku. Reglan gildi um skipulagsáætlanir og einstaka ákvarðanir, sbr. einnig rannsóknarreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hvorki hafi í Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024 né umhverfismati frá 2015 verið lagt mat á áform um efnistöku úr Hörgá í samræmi við áskilnað 8. gr. náttúruverndarlaga. Í hinni kærðu ákvörðun hafi jafnframt ekki verið gengið úr skugga um að skilyrði ákvæðisins séu uppfyllt, ekki sé þar að finna umfjöllun um verndarstöðu og stofnstærð tegunda, útbreiðslu og verndarstöðu vistgerða og vistkerfa, en til þess hafi verið brýnt tilefni. Samkvæmt 10. gr. náttúruverndarlaga sé sveitarstjórn skylt að líta til alls áhrifasvæðis framkvæmdar og heildarálags á það, en það hafi ekki heldur verið gert.

Áður en sveitarstjórn veiti leyfi til efnistöku skuli leita álits náttúruverndarnefndar, sbr. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Umsögn náttúruverndarnefndar á umræddri efnistöku hafi ekki legið fyrir vegna samþykkts aðalskipulags og því eigi undanþága samkvæmt ákvæðinu ekki við. Í hinni kærðu ákvörðun komi ekki fram að lögbundin álitsumleitan hafi farið fram. Þótt skipulags- og umhverfisnefnd fari með hlutverk náttúruverndarnefndar samkvæmt erindisbréfi frá 2018 og samþykktum sveitarstjórnar sé ekki óþarft að fjalla um náttúruvernd við töku ákvarðana. Í bókun skipulags- og umhverfisnefndar í fundargerð frá 30. október 2023 komi ekki fram á neinn hátt að hún hafi verið að veita álit skv. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga með afgreiðslu sinni um tillögu til sveitarstjórnar um afgreiðslu málsins. Í greindu lagaákvæði sé einnig að finna skyldu til að leita álits Umhverfisstofnunar um efnistöku, nema umsögn hennar um samþykkt aðalskipulag liggi fyrir. Afstaða stofnunarinnar komi ekki fram í greinargerð gildandi aðalskipulags, en þar segi einungis að stofnunin hafi gert athugasemdir við skógrækt og efnistöku. Ekki hafi verið fjallað um efni athugasemdanna, en fram komi að sveitarfélagið hafi ekki gert breytingar vegna þeirra.

Á vef Umhverfisstofnunar megi finna umsögn hennar við aðalskipulagstillögu gildandi aðalskipulags, dags. 14. janúar 2015. Afstaða stofnunarinnar í umsögninni sé skýr, afdráttarlaus og neikvæð. Sömu sjónarmið hafi komið fram í umsögn stofnunarinnar við frummatsskýrslu umhverfismats framkvæmdarinnar, dags. 27. febrúar s.á. Þar hafi komið fram að ráðagerðir Hörgár sf. um að taka „með skipulegum og ábyrgum hætti“ á efnistökunni væri til bóta. Í kafla um lífríki hafi komið fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis ætti að styðjast við álit Veiðimálastofnunar, nú Hafrannsóknastofnunar, og niðurstöður vöktunar á áhrifum efnistöku á bleikju í Hörgá. Þá hafi í umsögn Umhverfisstofnunar vegna breytinga á gildandi aðalskipulagi, dags. 19. mars 2020, ekki verið vikið að efnistöku. Sveitarstjórn hafi borið að fjalla um afstöðu Umhverfisstofnunar í greinargerð aðalskipulags og einnig við töku hinnar kærðu ákvörðunar og gera grein fyrir því hvers vegna ekki hefði verið leitað á ný lögbundins álits stofnunarinnar um efnistökuna í samræmi við áskilnað 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Koma hefði þurft fram hvers vegna brugðist hafi í engu verið við ítrekuðu áliti stofnunarinnar frá árinu 2015 og hvers vegna ekki hafi verið leitað álits Hafrannsóknastofnunar við afgreiðslu umsóknar.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sé umsækjendum framkvæmdaleyfa skylt að leggja fram greiningu á því hvort forsendur umhverfismats hafi breyst verulega frá umhverfismatsskýrslu og áliti um umhverfismat framkvæmdarinnar. Í hinni kærðu ákvörðun sé ekki vikið að slíkri greiningu. Hér standi svo sérstaklega á að umhverfismat hafi verið gert fyrir níu árum, en samkvæmt efni þess megi veita framkvæmdaleyfi allt til ársins 2035, að því tilskildu að ekki hafi verið farið yfir hámark leyfilegrar efnistöku. Rannsóknarskylda sveitarstjórnar sé rík, líkt og staðfest hafi verið í úrskurðum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og af dómstólum. Með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 7.–8. gr. náttúruverndarlaga hafi sveitarstjórn verið skylt að ganga eftir gögnum um gildi forsendna umhverfismatsins. Með tilskipun 2014/52/ESB, sem breytt hafi tilskipun 2011/92/ESB, hafi slík skylda orðið bindandi fyrir íslensk stjórnvöld. Tilskipun 2000/60/ESB, sem innleidd hafi verið með lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, og staðfesting fyrstu vatnaáætlunar 2022 væri næg ástæða til þess að líta svo á að forsendur matsskýrslu og álits Skipulagsstofnunar hefðu breyst verulega. Önnur slík ástæða sé lögfesting meginreglna umhverfisréttar með náttúruverndarlögum fyrir átta árum. Ákvæði beggja lagabálkanna varði líffræðilega fjölbreytni og hin kærða ákvörðun hafi áhrif á hana. Ekki hafi farið fram raunverulegt mat á áhrifum efnistöku úr Hörgá á gæði viðkomandi yfirborðsvatnshlota í samræmi við meginmarkmið laga nr. 36/2011. Þá komi slíkt mat ekki fram í gildandi aðalskipulagi. Engin undaþága liggi fyrir og því séu skilyrði laganna ekki uppfyllt.

Í umsögn Orkustofnunar um frummatsskýrslu, dags. 16. febrúar 2015, komi fram vangaveltur um þörf leyfisveitinga stofnunarinnar á grundvelli vatnalaga nr. 15/1923 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Svo virðist sem slík leyfi hafi þurft að liggja fyrir áður en hið kærða framkvæmdaleyfi hafi verið veitt. Hvorki leyfi skv. 1. mgr. 75. gr. vatnalaga né nýtingarleyfi skv. 5. gr. laga nr. 57/1998 hafi legið fyrir. Í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 74/2023, sem kveðinn hafi verið upp 26. október 2023, en þar sé vitnað til eldri úrskurða, sé kveðið á um að við útgáfu framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar verði leyfi annarra leyfisveitenda að liggja fyrir.

Ástæða ógildingar fyrra framkvæmdarleyfis samkvæmt úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 53/2023 hafi verið sú að ekki hafi verið að finna rökstuðning í fundargerð sveitarstjórnar, en slíkan rökstuðning sé ekki heldur að finna í fundargerð sveitarstjórnar frá 31. október 2023. Ekki hafi verið fjallað um samræmi ákvörðunar við meginatriði niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2015 þess efnis að áhrif framkvæmdanna á veiði velti alfarið á því hvernig lífríki ánna reiði af, að áhrif framkvæmdanna á lífríki Hörgár sé háð óvissu og til að lífríki árinnar verði fyrir sem minnstum skaða sé nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu.

Hið kærða framkvæmdaleyfi virðist ekki vera í samræmi við bindandi skilyrði í áliti Skipulagsstofnunar um að leggja skuli fram áætlun um efnistöku í samræmi við þágildandi lög um náttúruvernd nr. 44/1999 áður en framkvæmdaleyfi sé veitt. Þá sé ekki getið slíkrar áætlunar sem fylgigagna leyfis. Í framkvæmdaleyfinu sé ekki getið stærðar efnistökusvæðis, vinnsludýpis og gerðar efnis og því sé leyfið í ósamræmi við áskilnað 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga um það sem koma skuli fram í leyfi.

 

Deiliskipulag fyrir framkvæmdirnar liggi ekki fyrir og ekki hafi farið fram grenndarkynning í samræmi við 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Þá hafi ekki verið leitað umsagna viðeigandi umsagnaraðila í samræmi við ákvæðið, en um undantekningu sé að ræða sem beri að skýra þröngt. Sveitarstjórn hafi ekki gert grein fyrir því hvers vegna ekki þyrfti að fara fram grenndarkynning og álitsumleitan.

Málsrök Hörgársveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kæranda skorti lögvarða hagsmuni til aðildar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og því beri að vísa frá kæru í máli.

 Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar og framkvæmdaleyfi uppfylli öll lagaskilyrði og engar forsendur séu til þess að fella leyfið úr gildi. Í fundargerðum skipulags- og umhverfisnefndar og sveitarstjórnar komi fram að framkvæmdaleyfið sé gefið út á grundvelli umhverfismats og álits Skipulagsstofnunar frá árinu 2015, röksemda þeirra sem fram komi í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa og sé í samræmi við þegar tekið efni á efnistökusvæði E-9 í Hörgá. Þá sé efnistakan mikilvægur liður í bakkavörnum en í leysingum raskist farvegur Hörgár og dragi framkvæmdin úr neikvæðum áhrifum þeirra.

Með hinni kærðu ákvörðun hafi verið bætt úr þeim annmörkum sem taldir hafi verið á fyrri leyfisveitingu sem felld var úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 53/2023, uppkveðnum 29. september 2023. Einnig hafi verið gætt að efnis- og formreglum laga um náttúruvernd nr. 60/2013. Fyrir skipulags- og umhverfisnefnd og sveitarstjórn hafi legið ítarleg gögn um framkvæmdina, forsendur hennar og möguleg áhrif hennar á umhverfið og lífríki Hörgár. Um sé að ræða umhverfismat, álit Skipulagsstofnunar, greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa vegna framkvæmdarinnar, dags. 23. október 2023, og leyfi Fiskistofu, dags. 12. september 2022, en það sé m.a. byggt á umsögn fiskifræðings þar sem fjallað sé um möguleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríkið. Í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa sé einnig að finna greiningu á mögulegum áhrifum framkvæmdarinnar á Hörgá og vatnshlot hennar. Skilyrði í náttúruverndarlögum, sbr. einkum 7.–11. gr., hafi því verið uppfyllt. Þá sé tekið fram magn efnis sem eigi að taka og heimilað magn á efnistökusvæði E-9 samkvæmt gildandi aðalskipulagi og umhverfismati, hvar eigi að taka efnið og hvernig það samræmist umhverfismati, áliti Skipulagsstofnunar og aðalskipulagi.

Kærandi hafi ekki sýnt fram á að fjölbreytni náttúrunnar sé í hættu vegna efnistöku úr Hörgá. Helstu áhrifin á lífríkið sé á laxfiska, einkum bleikju, en þeim hafi fækkað í öllum ám á landinu og þar séu ár þar sem efnistaka fari fram engin undantekning. Fækkun sé jafn mikil í öðrum stórum ám í Eyjafirði, t.d. Eyjafjarðará og Fnjóská, en þar sé efnistaka mun minni. Um skynsamlega og hagkvæma nýtingu lands og landsgæða sé að ræða og innan skynsamlegra marka, sbr. m.a. b-lið 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og a. lið 2. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Farvegur Hörgár endurnýi sig fljótt og því sé efnistakan sjálfbær og mun sjálfbærari en efnistaka á landi. Séu þessir tveir kostir til efnisöflunar jarðefna bornir saman m.t.t. áhrifa á umhverfið sé ljóst að efnistaka úr Hörgá hafi í för með sér mun minni umhverfisáhrif heldur en efnistaka úr námum uppi á landi. Þar sem áin endurnýi sig sé um að ræða afturkræfar framkvæmdir. Samanborið við efnisvinnslu úr klöpp, þar sem þurfi að sprengja og harpa niður efni með hávaða- og rykmengun og meiri olíunotkun, sé efnistaka úr Hörgá miklu betri kostur. Óhjákvæmilegt sé að líta til þessara sjónarmiða um framburðarefni Hörgár sem endurnýi sig með framburði árinnar. Þá sé tekið tillit til heildarálags og áhrifasvæðisins í heild en umhverfismat, aðalskipulag og önnur gögn fjalli um efnistöku úr Hörgá í heild.

Skipulags- og umhverfisnefnd fari með hlutverk náttúruverndarnefndar í Hörgársveit og því sé umfjöllun hennar um málið á fundi 30. október 2023 nægjanleg. Ljóst megi vera að nefndin hafi verið að starfa eftir skipulagslögum sem og öðrum viðkomandi lögum.

Við gerð aðalskipulags hafi alltaf verið leitað umsagnar Umhverfisstofnunar og slík umsögn hafi alltaf legið fyrir við samþykkt aðalskipulags og breytinga á því. Í umsögnum stofnunarinnar, dags. 14. janúar, 27. september 2019 og 30. mars 2020, hafi verið fjallað um efnistöku úr Hörgá. Umhverfisstofnun leggist ekki gegn efnistökunni í þessum umsögnum. Alltaf hafi verið fylgt umsögnum stofnunarinnar og tekið mið af efni þeirra. Ekki hafi verið talin þörf á frekari umsögn stofnunarinnar vegna hinnar kærðu ákvörðunar, enda hafi umsagnir legið fyrir vegna aðalskipulags þar sem fjallað sé um framkvæmdina.

Greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 23. október 2023, sé nægjanleg greining um mögulega breyttar forsendur umhverfismats og feli í sér fullnægjandi rökstuðning ásamt öðrum gögnum sem legið hafi fyrir skipulags- og umhverfisnefnd og sveitarstjórn. Ekki liggi fyrir neinar ástæður sem gefi til kynna að forsendur umhverfismatsins hafi breyst. Reglulega sé fjallað um matið, álit Skipulagsstofnunar og önnur gögn, þ. á m. leyfi Fiskistofu, þegar veitt séu framkvæmdaleyfi. Ekki verði litið svo á að efnistaka sem fari fram m.a. á grundvellli umhverfismatsins kippi forsendum undan matinu.

Endurskoðun umhverfismats heyri undir Skipulagsstofnun og hún hafi ekki ákveðið neina slíka endurskoðun, sbr. 12. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. 1. tl. ákvæðis til bráðabirgða, sé ekki að finna ákvæði um slíka endurskoðun, en 1. mgr. 27. gr. laganna eigi ekki við um leyfisveitingu þá sem fjallað sé um í máli þessu. Þar sem umfjöllun Skipulagsstofnunar hafi lokið fyrir gildistöku laga nr. 111/2021 geti þau ekki talist gilda í máli þessu, sbr. meginreglu um bann við afturvirkni laga. Telji úrskurðarnefndin að ákvæðið eigi við þá hafi sveitarstjórn allt að einu lagt fram fullnægjandi greiningu og mat, en um það sé vísað til gagna málsins.

Í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa sé tekin afstaða til framkvæmdarinnar í samræmi við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála með rökstuddum hætti.

Við útgáfu hins kærða leyfis hafi legið fyrir leyfi Fiskistofu, dags. 12. september 2022, þar sem veitt sé leyfi fyrir framkvæmdinni skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Í leyfinu sé byggt á umsögnum annarra aðila, þ. á m. fiskifræðings og Skipulagsstofnunar, og þar komi enn fremur fram að tekið sé mið af öðrum gildandi leyfum vegna efnistöku úr Hörgá. Leyfi Fiskistofu hafi ekki verið fellt úr gildi eða málið tekið upp að nýju og hafi gildistíma til 31. desember 2023 líkt og hið kærða leyfi. Ekki verði betur séð en að leyfi Fiskistofu sé byggt á vandaðri málsmeðferð og umsögnum sérfróðra aðila.

Heimilt hafi verið að gefa út framkvæmdaleyfi þótt leyfi Orkustofnunar skv. 1. mgr. 75. gr. vatnalaga nr. 15/1923 og 6. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu hafi ekki legið fyrir. Í skipulagslögum sé þess ekki getið að slík leyfi þurfi að liggja fyrir áður en veitt séu framkvæmdaleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 75. gr. vatnalaga megi breyta vatnsfarvegi að fengnu leyfi Orkustofnunar eða eftir atvikum leyfi Fiskistofu skv. V. kafla laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Í máli þessu liggi fyrir leyfi Fiskistofu og því hafi ekki þurft leyfi Orkustofnunar. Þegar litið sé til hlutverks Orkustofnunar skv. 2. gr. laga nr. 87/2003 um Orkustofnun verði ekki séð að leyfi hennar þurfi að liggja fyrir, eða eigi að vera liður í rannsókn máls, áður en gefin séu út framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr Hörgá. Hlutverk stofnunarinnar sé að mestu bundið við orkumál en framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr Hörgá varði aðeins nýtingu jarðefna og malartekju. Rétt sé að hafa í huga að engir virkjanakostir séu í Hörgá í rammaáætlun, sbr. lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Með efnistökunni sé ekki verið að breyta farvegi árinnar. Raunveruleg tilfærsla á vatnasviði ár, þar sem farvegi sé varanlega breytt feli í sér breytingu á vatnsfarvegi. Efnistaka úr Hörgá, sem hafi síbreytilegan farveg, falli ekki hér undir. Ekki verði séð hverju fyrrnefnd leyfi Orkustofnunar hefðu bætt við rannsókn málsins eða hvers vegna þau hefðu átt að vera nauðsynleg.

Við ákvörðunartöku hafi verið farið yfir samræmi á milli hinnar kærðu leyfisveitingar og álits Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015, bæði munnlega og skriflega. Hvað þetta varði sé vísað til greinargerðar skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 23. október 2023. Einnig hafi legið fyrir leyfi Fiskistofu og umsögn fiskifræðings til hennar, auk annarra gagna sem sýni samræmi milli leyfisveitingar og álits Skipulagsstofnunar.

Í Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024 sé ítarlega fjallað um efnistökuna, efnistökusvæði og áætlanir og því hafi grenndarkynningar ekki verið þörf, sbr. lokamálslið 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga. Þá verði ekki séð hverjir hefðu átt að vera umsagnaraðilar. Í reglugerð nr. 772/2012 og skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé ekki sett skylda til grenndarkynningar. Skriflegt samþykki landeigenda á svæðinu hafi fylgt með umsókn um framkvæmdaleyfi en þeim hópi tilheyri eigendur mannvirkja í nágrenni framkvæmdanna sem geti talist hafa grenndarhagsmuni sem framkvæmdin geti haft áhrif á. Áætlun um efnistöku sé ítarlega lýst í aðalskipulagi og sé hún í samræmi við umhverfismat og álit Skipulagsstofnunar. Þegar ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis vegna efnistöku úr Hörgá sé tekin liggi ávallt fyrir það magn af efni sem þegar hafi verið tekið á hverju svæði og hversu mikið eigi eftir að taka. Í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa um hina kærðu ákvörðun komi fram magn efnis sem eigi eftir að taka og hvar það verði tekið sem og hvernig efnistakan samræmist umhverfismati og áliti Skipulagsstofnunar. Fyrrnefnd áætlun um efnistöku úr Hörgá sé fullnægjandi. Í hinu kærða framkvæmdaleyfi komi skýrt fram að um svæði E-9 sé að ræða og að það sé skilgreint í aðalskipulagi. Nánari afmörkun sé í greinargerð skipulags- og byggingarfulltrúa og fyrirliggjandi skýringarmyndum. Á afstöðumynd sé efnistökudýpt skilgreind 1,5 m og sé myndin á meðal fylgigagna umsóknar um framkvæmdarleyfi. Af framkvæmdarleyfinu, umhverfismati og öðrum gögnum megi ráða að um möl sé að ræða.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að í umhverfismati vegna efnistöku úr Hörgá frá 2015 komi fram að lífríki Hörgár sé í mestri hættu og jafnframt háð óvissu. Af hálfu sveitarfélagsins hafi ekki verið bent á neina umfjöllun við meðferð málsins þar sem lög nr. 60/2013 um náttúruvernd hafi komið við sögu en brýn lagaskylda gagnvart þeim felist í 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Alvarlegur annmarki sé að ekki hafi verið metið hvort efnistaka úr Hörgá sé í samræmi við meginreglur náttúruverndarlaga. Í 10. gr. laganna sé regla um vistkerfisnálgun og mat á heildarálagi. Fyrirmynd ákvæðisins sé úr norskri löggjöf og verði að vísa til fordæma þar í landi. Norski umboðsmaðurinn hafi gagnrýnt ákvarðanir stjórnvalda um leyfisveitingar þar sem þessa hafi ekki verið gætt. Sem dæmi megi nefna mál um vegarlagningu um náttúru- og menningarlandslag, mál nr. SOM-2018-1219, en þar hafi staðfesting ráðuneytis á skipulagi verið gagnrýnd þar sem meginreglur umhverfisréttar, sem lögfestar séu í norskri löggjöf, hafi ekki verið teknar til greina og ráðuneytið lagt of mikla áherslu á sjálfsstjórn sveitarfélags gagnvart almannahagsmunum af náttúruvernd, sbr. einnig dóm Borgarting Lagmannsrett í máli LB-2014-40734 um mörk sjálfsstjórnarréttar sveitarfélaga. Nefna megi önnur fordæmi norska umboðsmannsins, svo sem SOM-2011-1327, SOM-2017-1346, SOM-2018-1219 og SOM-2022/3102. Lögfesting meginreglna náttúruverndarlaga, sbr. 7.–11. gr. laganna, væri þýðingarlaus ef stjórnvöld þyrftu ekki að taka mið af þeim. Í frumvarpi því sem varð að lögunum komi fram að slík vanræksla gæti valdið ógildingu ákvörðunar.

Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 27. september 2019, sé ítarleg ábending um að vatnsformfræðilegar breytingar fylgi efnistöku sem geti haft áhrif á líffræðilega og eðlisefnafræðilega gæðaþætti skv. lögum nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og þar með vistfræðilegt ástand. Sveitarstjórn hafi hunsað þessa athugasemd algerlega. Í umsögn sveitarfélagsins í máli þessu sé vísað til þess að sýnt hafi verið fram á vistfræðilegt ástand rýrni ekki við efnistöku úr Hörgá. Umhverfisstofnun veiti leiðbeiningar um hvernig eigi að gera þetta og tafla í greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 23. október 2023, sé fjarri því að uppfylla kröfur um hvernig sýna skuli fram á að bindandi umhverfismarkmið náist eða til staðar sé undanþága, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 3/2023. Mjög ríkar sönnunarkröfur hvíli á sveitarfélaginu í þessu tilviki þar sem í umhverfismati komi fram sterkar vísbendingar og vegna þess hvers eðlis framkvæmdin sé í heild og um gríðarlegt magn efnis sé um að ræða. Í leyfi Fiskistofu, dags. 12. september 2022, komi fram að Hafrannsóknastofnun hafi bent á bága stöðu bleikjustofna og minnkaða bleikjuveiði og vari við svo mikilli efnistöku úr Hörgá.

Hvað varði leyfi Orkustofnunar megi benda á fjölda fordæma úrskurðarnefndarinnar þar sem komist sé að gagnstæðri niðurstöðu við sömu aðstæður við það sem fram komi í umsögn sveitarfélagsins, sjá mál nr. 115/2012, 25/2016, 58/2022 og 74/2023. Samkvæmt fordæmunum sé um ógildingarannmarka að ræða.

Ítrekað sé að í greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 23. október 2023, og leyfi Fiskistofu sé ekki sýnt fram á samræmi hinnar kærðu ákvörðunar við álit Skipulagsstofnunar. Þá hafi ekkert álit fiskifræðings eða annars sérfræðings verið lagt fram í málinu.

———-

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um málatilbúnað kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 um að samþykkja umsókn fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 teljast  umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.

Lög nr. 111/2021 tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda og verður með því að líta til ákvæða þeirra laga í máli þessu, en ferli umhverfismats vegna heildstæðs mats á efnistöku á 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár, lauk með áliti Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015.

Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 795.000 m3 efnistöku úr áreyrum og árfarvegi Hörgár í Hörgársveit var fjallað um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi. Þótt leyfið sem fjallað er um í máli þessu taki aðeins til hluta þeirrar framkvæmdar sem um var fjallað í ferli umhverfismatsins sem lauk árið 2015, verður að líta svo á að leyfisveitanda sé skylt hverju sinni að horfa jafnframt til annarra framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti. Verður því litið á leyfið sem leyfi til framkvæmda í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. gr. 2.01 í 1. viðauka við lögin.

Kærandi nýtur aðildar að máli þessu skv. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en af gögnum sem nefndin hefur aflað og kynnt sér uppfyllir hann skilyrði þeirrar greinar sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hagsmunasamtök. Verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2015 segir að tilgangur framkvæmdarinnar sé að sporna við landbroti af völdum Hörgár með rennslisstýringu árinnar með það að markmiði að verja landbúnaðarland og mannvirki. Grjótvarnir hefðu gefið nokkuð góða raun en þær séu mjög kostnaðarsamar. Verði efni ekki fjarlægt úr farvegum megi gera ráð fyrir að þörfin fyrir grjótvarnir aukist mikið. Þá geti varnargarðar gert gagn við að beina ánni frá árbökkum, en séu þeir ekki grjótvarðir megi gera ráð fyrir að þeir geti skolast burt í stórum flóðum. Efnistöku er lýst í matinu og kemur fram að fyrst verði efnistökusvæði afmarkað og sett upp tímabundin höft eða stíflur úr malarefni. Þá verði efni mokað upp úr farvegi eða áreyrum og flutt á haugsetningarsvæði í nægjanlega mikilli fjarlægð frá ánni þannig að ekki verði hætta á að áin sópi haugnum með sér í næsta flóði. Efni verði svo ekið frá haugsetningarsvæði eftir því sem þörf og aðstæður á markaði kalli á. Þegar sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi hafi verið gert ráð fyrir að leita ráðgjafar Veiðimálastofnunar, nú Hafrannsóknastofnunar, um ákjósanlegustu aðferðir og afmörkun á hverju einstaka framkvæmdasvæði. Kemur einnig fram að árlega sé áætlað að meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fyrirhuguð framkvæmd feli í aðalatriðum í sér efnistöku á efnistökusvæðum á tímabilinu 1. október til 30. apríl ár hvert, flutning efnis frá efnistökusvæði á geymslusvæði og flutning efnis frá geymslusvæði á notkunarstað.

Fram kemur í matsskýrslu að árið 2013 hafi sameignarfélagið Hörgá sf. verið stofnað. Í samþykktum þess var tekið fram að félagsmenn væru landeigendur að ánni eða fulltrúar þeirra. Félaginu var ætlað að láta vinna umhverfismat fyrir efnistökuna fyrir hönd landeigenda við Hörgá og þveráa hennar. Skyldi félagið vera framkvæmdaraðili að allri efnistökunni. Ekki væru þó allir landeigendur að Hörgá í félaginu, en það hefði ekki áhrif á efnistöku. Þar sem félagið liti á ána alla og þverár sem eina heild og skipuleggi efnistöku með hagsmuni alls svæðisins að leiðarljósi, væri í umhverfismatinu fjallað um þau efnistökusvæði sem þættu hentug vegna aðstæðna, efnismagns eða efniseiginleika ásamt efnistökusvæðum sem þyki brýnt að taka efni úr til að draga úr landbroti. Í matsskýrslunni var að finna lýsingu á efnistökusvæðum sem tilgreind voru í drögum sem þá lágu fyrir að Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024, og höfðu svæðin tiltekna auðkenningu, þ.e. E-2, E-4, E-6, E-7, E-8, E-9, E-10 og E-11.

Fram kom í matsskýrslunni að nær ógerlegt væri að áætla hvar vinnsla hæfist og óraunhæft að ætla að fastsetja alla efnistöku næstu 20 árin. Ekki væri áætlað að umfangsmikil efnistaka ætti sér stað á hverju svæði, utan svæðis E-9 en þar væri gert ráð fyrir að hægt væri að vinna allt að 400.000 m3 af efni. Á hverju ári breyti áin sér og jafnvel oftar og því ætlaði framkvæmdaraðili að meta ástand árinnar á hverju ári, yfir sumartímann þegar vatnsborð væri hæst eða við flóð. Að því loknu yrði gerð tillaga um efnisvinnslu næsta tímabils, sem hæfist að hausti. Alltaf yrði hætta á landbroti höfð að leiðarljósi og svæðum forgangsraðið þannig að minnka mætti hættu á tjóni á mannvirkjum og ræktunarlandi.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina dags. 4. júlí 2015 kom fram að tilgangur framkvæmdarinnar væri að sporna við landbroti af völdum Hörgár. Ekki yrði sótt um framkvæmdaleyfi fyrir öllum efnistökusvæðunum á sama tíma og væri áætlað að meta stöðu verkefnisins árlega með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Áætlað væri að hefja skipulagða efnistöku á þeim svæðum í ánni þar sem mest þörf væri á að skapa pláss fyrir flóðvatn í farveginum með það að markmiði að draga úr bakkarofi og þar með þörf fyrir annars konar og mjög kostnaðarsamar bakkavarnir, s.s. grjótvörn. Fjallað var stuttlega um hvert efnistökusvæði um sig í álitinu, m.a. það efnistökusvæði sem veitt var leyfi til að nýta með hinu kærða leyfi.

Rakið var í álitinu að efnistaka gæti haft áhrif á eðli og þróun vatnsfalla. Efnistaka í og við ár sé vandasöm og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Botngerð ánna geti breyst og búsvæði laxfiska geti þannig raskast og haft neikvæð áhrif á veiði. Að mati sérfræðinga Veiðimálastofnunar sé óraunhæft að meta áhrif verkefnisins á veiði og lífríki á þessu stigi og almennt geti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum í ám. Á hinn bóginn væri eðlilegt að stofnunin veitti ráðgjöf um heppilegustu útfærslu efnistöku á hverju framkvæmdasvæði fyrir sig, ef efnistaka á viðkomandi framkvæmdasvæði þætti nauðsynleg og framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Áhrif á veiði væru metin óviss, en staðbundin og afturkræf. Áhrif framkvæmdanna á veiði yltu alfarið á því hvernig lífríki ánna reiddi af. Ef tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg, en hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif, þótt um það atriði væri nokkur óvissa. Í niðurstöðukafla álitsins var gerð bending um að til þess að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu á hverju efnistökusvæði.

Í álitinu var lögð áhersla á mikilvægi þess að efnistaka yrði unnin skipulega og yfir lengra tímabil, en fram kom að efnistakan mundi vara í 20 ár. Var í því sambandi talið jákvætt að landeigendur að efnistökusvæðinu hefðu sameinast um efnistökuna, sem ætti að bæta skipulag hennar og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Meðal mótvægisaðgerða sem ráðgert var að fjallað yrði um við útgáfu hvers framkvæmdaleyfis væru hvernig staðið yrði að efnistökunni með því að ekki yrðu grafnar djúpar gryfjur, aðallega yrði fjarlægt efni ofan af áreyrum og árkeilum og að efnistakan færi fram á fáum afmörkuðum svæðum í einu og væru því staðbundin að hluta. Þá kom fram að ekki yrði unnið að efnistöku á tímabilinu 1. maí til 30. september. Skipulagsstofnun tók fram að áhrif framkvæmdanna á lífríki Hörgár væri háð óvissu og til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða yrði að eiga gott samráð við fiskifræðinga um boðað árlegt mat á tilhögun og áfangaskiptingu. Í niðurstöðum álitsins var gerð ábending um að nauðsynlegt væri að í aðalskipulagi Hörgársveitar yrði tekið á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti og það notað til að leggja línurnar um skipulag efnistöku í og við ána.

Mælt er fyrir um í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og þágildandi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Í 2. mgr. beggja lagagreinanna er svo fjallað nánar um hvernig líta skuli til álits Skipulagsstofnunar við leyfisveitingu vegna matsskyldrar framkvæmdar. Áður voru þau lagaákvæði samhljóða um að við slíka leyfisveitingu bæri leyfisveitanda að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Með breytingalögum nr. 96/2019 var skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 breytt og í stað þess að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar segir nú í greindum lagaákvæðum að leyfisveitanda beri að leggja álitið til grundvallar við ákvörðun um útgáfu leyfis. Jafnframt kváðu breytingalögin á um það nýmæli að leyfisveitandi skuli taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis. Þannig segir í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga að slíkt skuli gert í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum, en í þágildandi 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er kveðið á um að í slíkri greinargerð skuli gera grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu sé vikið frá niðurstöðu álits. Einnig skuli leyfisveitandi taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni sé til ef um það sé fjallað í áliti Skipulagsstofnunar.

Þá er í 18. gr. breytingalaga nr. 96/2019 að finna lagaskilareglu er mælir fyrir um að matsskyldar framkvæmdir skuli hlíta málsmeðferð samkvæmt eldri ákvæðum laga nr. 106/2000 ef tillaga að matsáætlun hefur borist Skipulagsstofnun fyrir gildistöku laga nr. 96/2019, svo sem raunin er hér. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar því sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Sambærilegt lagaskilaákvæði er á hinn bóginn ekki að finna í tengslum við áðurgreinda breytingu á skipulagslögum og bar því að leggja álit Skipulagsstofnunar til grundvallar leyfisveitingu samkvæmt orðalagi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sem gilti við samþykkt hinna kærðu framkvæmdaleyfa. Það verður þó ekki séð að breytt orðalag hafi haft í för með sér efnisbreytingu að máli skipti við úrlausn þessa máls, svo fremi að báðum ákvæðum sé fullnægt þannig að rökstudd afstaða sé tekin til álits Skipulagsstofnunar og það jafnframt lagt til grundvallar leyfisveitingu. Þá er einnig ljóst að þrátt fyrir að sveitarstjórn hafi ekki verið skylt samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þá var henni það skylt samkvæmt gildandi skipulagslögum.

Að framangreindu virtu er skýrt að skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga bar sveitarstjórn Hörgársveitar að kynna sér matsskýrslu um framkvæmdina, leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar og taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt er ljóst að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Telja verður lögbundnar skyldur sveitarstjórnar, vegna framkvæmdar sem hefur sætt mati á umhverfisáhrifum, vera mikilvægan þátt í málsmeðferð leyfisveitingarinnar og til þess fallnar að stuðla að því að fyrrnefnt markmið b-liðar 1. gr. skipulagslaga verði náð, sem og markmið laga um mat á umhverfisáhrifum sem talin eru upp í 1. gr. þeirra laga. Er og ljóst að sveitarstjórn ber að sinna þeim skyldum óháð því hvenær mat á umhverfisáhrifum fór fram eða hvort leyfi hafi áður verið veitt fyrir hluta framkvæmdar.

Við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum eru skyldur sveitarstjórnar sem leyfisveitanda ríkar. Ber sveitarstjórn að fylgja þeim málsmeðferðarreglum sem mælt er fyrir um í skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 og sjá til þess að skilyrði þeirra laga séu uppfyllt. Enn fremur ber sveitarstjórn að fylgja þeim markmiðum laganna sem tíundið eru í 1. gr. þeirra beggja, þar á meðal að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, sbr. b-lið 1. gr. skipulagslaga. Jafnframt getur sveitarstjórn við leyfisveitinguna verið skylt að líta til efnis- og formreglna annarra laga, þ.m.t. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá er sveitarstjórn sem endranær bundin af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Í áliti Skipulagsstofnunar er lögð áhersla á hlutverk sveitarfélagsins við stjórnun efnistöku í Hörgá með þeim heimildum sem felast í gerð aðalskipulags. Er þar greint frá og fjallað um áform Hörgár sf. að meta árlega stöðu verkefnisins með tilliti til landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fjallað er um efnistöku úr Hörgá og þverám hennar í kafla um efnistöku- og efnislosunarsvæði. Þar segir: „Efnistaka verður skipulögð á afmörkuðum stöðum hverju sinni. Við efnistöku skal setja ströng skilyrði til varnar umhverfisspjöllum s.s. um viðhald vinnuvéla og meðferð olíu og spilliefna til að koma í veg fyrir mengun frá framkvæmdasvæðinu.“ Gerðar voru breytingar á aðalskipulaginu með ákvörðun sveitarstjórnar frá 5. febrúar 2021 og tóku þær gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. s.m. Með þeim var fellt brott skilyrði um að efnistaka yrði einungis á einum efnistökustað í einu. Kom fram í greinargerð með breytingunni að erfitt hafi verið að framfylgja því þar sem landeigendur efnistökusvæða teldu jafnræðis ekki gætt væri þeim synjað um framkvæmdaleyfi vegna þess að efnistaka stæði yfir á öðrum stað í ánni, en einnig vegna þess að ekki væri hafið yfir vafa hvernig túlka bæri orðalag ákvæðisins.

Eftir breytingu aðalskipulagsins segir: „Við veitingu framkvæmdaleyfis til efnistöku í Hörgá og þverám hennar (efnistökusvæði E2, E4, E6, E7, E8, E9, E10 og E11) skal liggja fyrir umsögn Fiskistofu um framkvæmdina þar sem tillit er tekið til annarra gildandi framkvæmdaleyfa vegna efnistöku í Hörgá.“ Þá var einnig bætt við ákvæði um að við efnistöku úr Hörgá og þverám hennar skuli þannig gengið frá efnislager á geymslusvæðum á bökkum ánna að ekki skolist efni úr þeim aftur í árnar við háa vatnsstöðu í þeim. Samkvæmt aðalskipulaginu er heimiluð 400.000 m3 efnistaka á svæði E-9.

Sú leið sem farin var í aðalskipulagi sveitarfélagsins, eins og því var breytt árið 2021, var að leggja í hendur Fiskistofu að gefa umsögn um heildaráhrif efnistöku. Sú leið var hvorki reifuð í matsskýrslu framkvæmdarinnar né heldur áliti Skipulagsstofnunar. Álíta verður að leyfisveitandi beri ábyrgð á því að sú málsmeðferð tryggi nægilega þau markmið um heildræna stjórnun efnistöku sem fjallað er um í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar. Til þess er þá einnig að líta að sveitarfélagið hefur lýst því yfir gagnvart úrskurðarnefndinni að það hafi tekið að sér að axla þær skyldur sem Hörgá sf. voru ætlaðar og lýst var í matsskýrslu.

Úrskurðarnefndin leitaði viðhorfa Fiskistofu til þess hlutverks sem stofnuninni er ætlað samkvæmt aðalskipulaginu og upplýsinga um hvort umsagnar hafi verið leitað af hálfu sveitarfélagsins eða framkvæmdaraðila vegna þeirrar efnistöku úr Hörgá sem um er fjallað í máli þessu. Sem svar við þessu barst úrskurðarnefndinni umsögn Fiskistofu um téða aðalskipulagsbreytingu, dags. 5. desember 2019. Þar kemur m.a. fram að sérfræðingar Hafrannsóknastofnunar hafi almennt varað við því að taka efni úr virkum farvegi straumvatna, einkum þeim sem fóstri fiska. Þó kunni að koma upp aðstæður þar sem þörf sé á því að gera lagfæringar, s.s. bakkavarnir. Um ætlað hlutverk stofnunarinnar samkvæmt framansögðu kom fram að framkvæmdir við veiðivötn, t.d. efnistaka, væru háðar leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Því sæi stofnunin ekki þörf á því að hún veitti umsögn til sveitarfélagsins vegna umfjöllunar þess um umsókn um framkvæmdaleyfi. Vitanlega gæti sveitarfélagið hins vegar ákveðið að hafa leyfi Fiskistofu sem forsendu fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis, þótt leyfin væru sjálfstæð og óháð hvoru öðru í raun.

Í greindri umsögn Fiskistofu sagði enn fremur að við útgáfu leyfa vegna framkvæmda við veiðivötn liti Fiskistofa til hugsanlegra áhrifa framkvæmda á afkomu fiskstofna og aðstöðu til veiði. Þá benti stofnunin á að umfangsmikil efnistaka kynni að snerta margvíslega aðra hagsmuni og varaði stofnunin við því að einskorða skilyrði fyrir framkvæmdaleyfi jákvæðri niðurstöðu af hálfu Fiskistofu.

—–

Á fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar 31. október 2023 lá fyrir greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 23. október 2023, vegna efnistöku á svæði E-9 í Hörgá. Þar er gerð grein fyrir umsókn um framkvæmdaleyfi og fyrirliggjandi gögnum, s.s. leyfi Fiskistofu, dags. 12. september 2022, samþykki landeigenda, umsögn veiðifélags, framkvæmdaáætlun, uppdráttur af framkvæmdasvæði og umsögn sérfræðings í veiðimálum vegna framkvæmdarinnar, dags. 18. febrúar 2022. Fram kemur að verkferlislýsing og viðbragðsáætlun sé sú sama og með fyrra leyfi á sama svæði. Um heimildir er vísað til matsskýrslu umhverfismats, dags. apríl 2015, álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum, dags. 4. júní 2015, Aðalskipulags Hörgársveitar 2012–2024, leyfi Fiskistofu vegna 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9, dags. 12. september 2022, Vatnaáætlunar Íslands 2022–2027 og vatnavefsjár. Þá kemur fram að forsendur framkvæmdaleyfisins séu gildandi aðalskipulag og umhverfismat frá 2015. Samkvæmt aðalskipulaginu sé heimilað efnismagn 400.000 m3 á umræddu svæði og áður tekið efni sé 272.714 m3. Vísað er til sértækra skilmála aðalskipulagsins um efnistöku í Hörgá og samkvæmt þeim skuli liggja fyrir umsögn Fiskistofu um framkvæmdina þar sem tillit sé tekið til annarra gildandi framkvæmdaleyfa vegna efnistöku í Hörgá og við efnistöku úr Hörgá og þverám hennar skuli þannig gengið frá efnislager á geymslusvæðum á bökkum ánna að ekki skolist efni úr þeim aftur út í árnar við háa vatnsstöðu í þeim.

Í greinargerðinni er fjallað um umhverfismat framkvæmdarinnar en þar segir að markmið hennar sé markviss árfarvegastjórnun með það að markmiði að vernda mannvirki og mikilvægt landbúnaðarland. Gerð er grein fyrir leiðum sem fjallað er um í umhverfismatinu til að ná því markmiði. Um álit Skipulagsstofnunar vegna umhverfismatsins kemur fram að nauðsynlegt sé að tekið verði á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti í aðalskipulagi sveitarfélagsins, áríðandi sé að ekki skapist hætta á að vatnsból spillist og nauðsynlegt sé að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu. Þá er vísað til þess að fyrir hendi sé leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 vegna framkvæmdarinnar. Jafnframt að leyfisveitandi skuli tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun í samræmi við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála.

Í greinargerðinni er undirkafli með heitinu „Greining“. Þar segir að umfang framkvæmdar samræmist skilmálum aðalskipulags um svæði E-9 og skipulag framkvæmdasvæðis samkvæmt uppdrætti sé einnig í samræmi við aðalskipulag. Fyrir hendi sé verklag við áfyllingu, frágang áfyllingarsvæðis og viðbragðsáætlun vegna slyss. Í aðalskipulagi Hörgársveitar sé gerð grein fyrir umfangi og efnistökumagni. Sveitarfélagið stýri efnistöku sem umhverfismat nái til með heildstæðum hætti í gegnum leyfisveitingar á grundvelli þessara skipulagsákvæða. Framkvæmdin fari fram innan skilgreinds framkvæmdasvæðis og samræmist umhverfismati og aðalskipulagi varðandi magn efnis og umfang. Einnig segir að framkvæmdaleyfi sem veitt hafi verið til efnistöku úr Hörgá séu að jafnaði gefin út til eins til tveggja ára í senn.

Fram kemur þessu næst að útgáfa nýrra framkvæmdaleyfa miðist við árangur og reynslu af fyrri áföngum efnistökunnar. Fyrir hendi sé leyfi Fiskistofu til framkvæmda í veiðivatni, sbr. 33. gr. laga nr. 61/2006. Í leyfisbréfi hennar sé gerð grein fyrir þeim „fiskihagsmunum“ sem framkvæmdin snerti og skilmálum sem hún sé háð vegna þeirra. Fram komi í leyfisbréfinu að tillit hafi verið tekið til „fyrirliggjandi leyfa til efnistöku í og við Hörgá“ við leyfisveitinguna.  Úrskurðarnefndin bendir á að leyfi Fiskistofu skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 er óháð því framkvæmdaleyfi sem er til umfjöllunar í máli þessu, en um leið er rétt athugað að meðal forsendna í rökstuðningi þess leyfis var tilvísun til annarra leyfa til efnistöku í Hörgá. Engu að síður verður ekki hjá því litið að skyldur leyfisveitanda eru ríkar samkvæmt þágildandi 13. gr. laga nr. 106/2000 og að leyfi Fiskistofu varðar aðeins einn þátt framkvæmda. Hefði sveitarfélaginu því verið rétt að fjalla nánar um það hvernig tryggð væru þau markmið um heildræna stjórnun efnistöku úr Hörgá sem fjallað var um í áliti Skipulagsstofnunar.

Að lokum er í greinargerð skipulagsfulltrúa dregin saman sú niðurstaða að framkvæmdin sé í samræmi við gildandi aðalskipulag, matsskýrslu frá apríl 2015 og álit Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015 sem og í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem komi fram í vatnaáætlun. Heilt yfir litið er rökstuðningur hinnar kærðu ákvörðunar takmarkaður þar sem ekki er fjallað markvisst um álit Skipulagsstofnunar né þær efnisreglur laga sem eru af þýðingu fyrir hina kærðu ákvörðun. Úrskurðarnefndin lætur þó vera að kveða úr um hvort annmarkar þessir, einir og sér, séu svo verulegir að varði ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til þess sem hér fer á eftir.

—–

Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur sveitarstjórn bundið framkvæmdaleyfi þeim skilyrðum er fram kunna að koma í áliti Skipulagsstofnunar að svo miklu leyti sem aðrir sem veita leyfi til framkvæmda samkvæmt sérlögum hafa ekki tekið afstöðu til þeirra. Jafnframt er sveitarstjórn heimilt að binda framkvæmd skilyrðum sem sett eru í samræmi við gildandi skipulagsáætlanir sveitarfélagsins. Nánari fyrirmæli um samþykki og útgáfu framkvæmdaleyfa eru í reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Þar kemur fram í 5. tl. 2. mgr. 7. gr. að umsókn um framkvæmdaleyfi skuli fylgja fyrirliggjandi samþykki og/eða leyfi annarra leyfisveitenda sem framkvæmdin kann að vera háð samkvæmt öðrum lögum, ásamt upplýsingum um önnur leyfi sem framkvæmdaraðili er með í umsóknarferli eða hyggst sækja um. Þegar lög gera með þessum hætti ráð fyrir því að ákvörðun stjórnvalds sé háð því að fyrir liggi ákvörðun annars stjórnvalds leiðir af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 rík skylda fyrir fyrrnefnda stjórnvaldið að afla með forsvaranlegum hætti nægilegra upplýsinga um hvort ákvörðun hins síðarnefnda stjórnvalds liggi fyrir og þá hvers efnis hún er.

Í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að skipulagslögum var fjallað sérstaklega um fyrirmæli þau sem komu fram í 3. mgr. 14. gr. laganna og rakið að skilyrði sem fram komi í áliti Skipulagsstofnunar geti m.a. varðað mótvægisaðgerðir og samráð við tiltekna aðila. Sveitarstjórn sé heimilt en ekki skylt að taka upp slík skilyrði. Þetta væri þó háð því að önnur stjórnvöld, sem veiti leyfi til framkvæmdanna, hafi ekki tekið afstöðu til þessara skilyrða. Þegar svo standi á beri sveitarstjórn ekki að taka upp slík skilyrði, enda sé það í höndum annarra leyfisveitenda að fjalla um þau. Af þessum skýringargögnum má greina það viðhorf löggjafans að fyrirmælum 3. mgr. 14. gr. skipulagslaga hafi verið ætlað að tryggja að áður en til samþykktar framkvæmdaleyfis kæmi, lægi fyrir efnisleg afstaða annarra leyfisveitenda sem framkvæmd væri háð samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gildi. Sama ályktun verður dregin af sambærilegum ákvæðum í 4. mgr. 10. gr. reglugerðar nr. 772/2012.

Í 2. mgr. 7. gr. vatnalaga nr. 15/1923 er kveðið á um að óheimilt sé nema sérstök heimild eða lagaleyfi sé til þess að breyta vatnsbotni, straumstefnu, vatnsmagni eða vatnsflæði, hvort sem það verður að fullu og öllu eða um ákveðinn tíma, svo og að hækka eða lækka vatnsborð. Í 1. mgr. 75. gr. laganna er síðan mælt fyrir um að heimilt sé að fengnu leyfi Orkustofnunar eða eftir atvikum leyfi Fiskistofu skv. V. kafla laga nr. 61/2006, að breyta vatnsfarvegi, víkka hann eða rétta, gera nýjan farveg eða önnur þau mannvirki í vatni eða við það sem nauðsynleg eru í því skyni að verja land eða landsnytjar gegn spjöllum af landbroti eða árennsli vatns og kemur fram að heimilt sé að binda slíkt leyfi skilyrðum sem þykja nauðsynleg vegna almannahagsmuna. Sé Fiskistofu send skrifleg umsókn um framkvæmd í eða við veiðivatn skal sú stofnun þegar í stað senda Orkustofnun afrit af slíkri umsókn. Orkustofnun, sem fer með stjórnsýslu vatnamála, sbr. 143. gr. vatnalaga nr. 15/1923, getur þá, ef hún telur ástæðu til, sett skilyrði fyrir framkvæmdinni í samræmi við 4. mgr. 144. gr. laganna, m.a. ef ætla má að framkvæmdir eða starfsemi geti spillt þeirri nýtingu sem fram fer í eða við vatn eða möguleikum á að nýta vatn síðar. Tekið er fram að slík skilyrði skuli vera í samræmi við markmið laga nr. 15/1923, reglugerðir og vatnaáætlun samkvæmt lögum um stjórn vatnamála.

Af framanröktum viðhorfum Hörgársveitar er sýnt að Orkustofnun hafi ekki fjallað um hina kærðu framkvæmd. Til þess virðist þó fullt tilefni þar sem megintilgangur framkvæmdarinnar samkvæmt matsskýrslu er að sporna við landbroti af völdum Hörgár með rennslisstýringu árinnar með það að markmiði að verja landbúnaðarland og mannvirki, en í matsskýrslu er enn fremur rakið að á svæði E-9 sé talið mikilvægt að lækka árfarveginn með efnistöku og minnka álag á Hringveginn með því að beina ánni fjær veginum. Í þessu ljósi verður að telja til verulegs annmarka á leyfisveitingu að ekki liggur fyrir afstaða Orkustofnunar til hennar, en athuga má að með umsögn Orkustofnunar til Skipulagsstofnunar, sem vísað var til í áliti Skipulagsstofnunar um hina kærðu framkvæmd var, svo sem kærendur hafa bent á, fjallað um tilvísaða lagastaði og þörf á því að aflað yrði leyfis stofnunarinnar til framkvæmdarinnar. Má einnig benda á sem þar er rakið að til kann að vera að dreifa skyldu til öflunar nýtingarleyfis til efnistöku skv. 6. gr. laga nr. 57/1998, sbr. þó 8. gr. laganna, en um þetta vísast nánar til leiðbeininga sem vænta má hjá Orkustofnun.

—–

Í 3. mgr. 28. gr. laga um stjórn vatnamála nr. 36/2011 er mælt fyrir um að leyfisveitandi skuli við afgreiðslu umsóknar um leyfi til nýtingar vatns og við aðra leyfisveitingu til framkvæmda á grundvelli vatnalaga, laga um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og um leyfi á grundvelli skipulagslaga og laga um mannvirki, tryggja að leyfið sé í samræmi við þá stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun. Sambærileg skylda virðist hvíla á Orkustofnun samkvæmt tilvísaðri 4. mgr. 144. gr. vatnalaga nr. 15/1923. Til þess er þá að líta sem rakið er í téðri greinargerð skipulagsfulltrúa, dags. 23. október 2023, vegna efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, að samkvæmt umsókn muni efnistaka fara fram á þremur svæðum innan þess og nái svæðið í heild til um 5,3 km kafla árfarvegarins. Í framhaldi þessa er í greinargerðinni vísað til Vatnaáætlunar Íslands 2022–2027 og rakið að þar komi fram markmið varðandi ástand vatnshlota. Í framhaldi er sett fram mat á áhrifum framkvæmdarinnar á ástand viðkomandi vatnshlots, sem þó er ekki auðkennt, þannig að áhrif á botnþörunga séu hverfandi, áhrif á hryggleysingja séu engin og engin áhrif verði á eðlisefnafræði og staðhæft að því muni ástandi vatnshlotsins ekki hraka við fyrirhugaða framkvæmd.

Umfjöllun þessi vekur spurningar um þær kröfur sem verði gerðar til leyfisveitingarstjórnvalds um rökstuðning fyrir því að framkvæmdir á borð við þær sem hér eru til umfjöllunar, feli eigi í sér hnignun vatnsgæða sem fari í bága við meginreglur laga um stjórn vatnamála. Úrskurðarnefndin bendir á að í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 36/2011 segi að mat á yfirborðsvatnshloti skuli byggjast á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og taka fyrir hverja vatnshlotsgerð mið af skilgreindum líffræðilegum gæðaþáttum auk vatnsformfræðilegra og efna- og eðlisefnafræðilegra þátta eftir því sem við eigi. Einnig kunna að skipta máli ákvæði reglugerðar nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun og aðgerðir samkvæmt vatnaáætlun og fylgiáætlun hennar. Því er beint til Hörgársveitar, komi fram að nýju sambærileg leyfisumsókn og um er fjallað í máli þessu, að leita leiðbeininga Umhverfisstofnunar um með hvaða hætti tryggt verði að leyfi samrýmist framangreindum lögum og þeirri stefnumörkun um vatnsvernd sem fram komi í vatnaáætlun.

—–

Með vísan til alls framangreinds verður að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá.

127/2023 Hörgá E-9

Með

Árið 2023, þriðjudaginn 21. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor, Karólína Finnbjörnsdóttir lögmaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2023, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 um að samþykkja umsókn fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. nóvember 2023, er barst nefndinni þann sama dag, kæra samtökin Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 31. október 2023 að samþykkja umsókn fyrir 56.286 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 13. nóvember 2023.

Málavextir: Hin kærða framkvæmd er efnistaka á svæði E-9 í Hörgá í Hörgársveit. Á fundi sveitarstjórnar 31. október 2023 var samþykkt umsókn fyrir 56.286 m3 efnistöku á efnistökusvæðinu og gaf skipulags- og byggingarfulltrúi út framkvæmdaleyfi þann sama dag. Leyfið gildir til 31. desember s.á. Fyrir liggur umhverfismat vegna heildstæðs mats á efnistöku á 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár og lauk því ferli með áliti Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015. Þá liggur fyrir að með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 29. september 2023, í kærumáli nr. 53/2023, var felld úr gildi ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á þessu sama efnistökusvæði.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að ljóst sé af gögnum málsins að framkvæmdaraðili hafi óskað nýs framkvæmdaleyfis fáeinum dögum eftir að úrskurðarnefndin hafi ógilt fyrra framkvæmdaleyfi sem hann hafi áður starfað eftir. Álykta megi að efnistaka fari fram og muni að óbreyttu halda áfram í þessum mánuði og næsta. Kæruheimild væri þýðingarlaus ef efnistakan ætti að geta farið fram á meðan málsmeðferð standi og séu verulegir almannahagsmunir af því að ekki sé tekið efni á meðan fjallað sé um málið hjá úrskurðarnefndinni.

Málsrök Hörgársveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda verði hafnað þar sem ekki séu uppfyllt lagaskilyrði fyrir stöðvunarkröfunni. Það sé meginregla í stjórnsýslulögum nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttararáhrifum kærðrar ákvörðunar og heimildir til frestunar réttaráhrifa beri að skýra þröngt. Aðeins mikilsverðar og ríkar ástæður eða veigamikil rök geti réttlætt að framkvæmdir séu stöðvaðar og sé þeim ekki til að dreifa í málinu.

Það verði ekki séð að kærandi hafi neina knýjandi hagsmuni af úrlausn kærumáls þessa. Stöðvun framkvæmda muni hins vegar valda öðrum tjóni og raska gildandi fyrirkomulagi efnistöku. Þar sem stöðvun framkvæmda sé afar íþyngjandi inngrip í sjálfstjórnarrétt sveitarfélags, ráðstöfunarheimild eiganda yfir landi sínu og eignarrétt þeirra sem rétt eigi til efnistöku beri að gera afar ríkar kröfur til þess að skilyrði séu uppfyllt til stöðvunar framkvæmda. Allt séu þetta hagsmunir sem verndaðir séu af ákvæðum stjórnarskrárinnar. Af þessu leiði að gera verði ríkar sönnunarkröfur um nauðsyn svo alvarlegs inngrips í réttindi þeirra sem hlut eigi að máli og hafi kærandi í engu axlað þá sönnunarbyrði. Rétt sé að hafa í huga að efnistaka úr Hörgá sé mikilvægur liður í bakkavörnum, en farvegur Hörgár raskist mjög í leysingum og það mæli gegn því að stöðva framkvæmdir. Þetta eigi ekki síst við um svæði E-9 eins og sjá megi t.d. í umfjöllun í áliti Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2015.

——

Í máli þessu er aðeins fjallað um sjónarmið kæranda og leyfisveitanda, sem varða kröfu um stöðvun framkvæmda. Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að tjá sig en ekki bárust athugasemdir frá honum við kæruna.

Niðurstaða: Í 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að kæra til nefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Kærandi geti þó krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Ákvörðun um slíka stöðvun er undantekning frá þeirri meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ekki er um það deilt í málinu að framkvæmdir séu yfirstandandi. Skírskotar kærandi til þess að kæra hans yrði þýðingarlaus ef ekki yrði við kröfu hans um stöðvun framkvæmda.

Með vísan til athugasemda um 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 verður að telja að kæruheimild kunni að verða þýðingarlaus í málum sem varði framkvæmdir sem hafi áhrif á umhverfið hafi úrskurðarnefndin ekki framangreindar heimildir, en mikilvægt sé að gætt sé að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Af hálfu kæranda hefur verið hreyft margvíslegum sjónarmiðum og álítur hann m.a. að skilyrðum skipulagslaga til útgáfu framkvæmdaleyfis hafi ekki verið fullnægt við töku hinnar kærðu ákvörðunar og ekki hafi verið gætt að lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd. Að auki telur kærandi að hin kærða ákvörðun hafi ekki uppfyllt skilyrði annarra laga, svo sem laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, vatnalaga nr. 15/1923 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Samkvæmt þessu eru ýmis álitaefni uppi í málinu sem geta haft áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Þarf úrskurðarnefndin tóm til að kanna málsatvik frekar og eftir atvikum að afla frekari gagna.

Sem fyrr segir er ekki um það deilt í máli þessu að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi eru yfirstandandi og er gildistími leyfisins til 31. desember 2023. Verður því að telja að ekki hafi þýðingu að fjalla efnislega um málið nema tryggt sé að efnistaka fari ekki fram úr áreyrum og árfarvegi á svæði E-9 í Hörgá á meðan málið er til úrlausnar hjá úrskurðarnefndinni. Þá þykir af framansögðu ljóst að fram séu komin atriði sem þarfnist nánari rannsóknar og séu því efnisleg rök að baki kæru. Þykir því fullnægt skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 til stöðvunar framkvæmda.

Rétt þykir að árétta að framkvæmdir eru alfarið á áhættu leyfishafa á meðan efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggur ekki fyrir, en hann getur jafnframt krafist þess að mál þetta sæti flýtimeðferð samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

 Úrskurðarorð:

Stöðvaðar eru framkvæmdir sem hafnar eru samkvæmt hinu kærða framkvæmdaleyfi á svæði E-9 í Hörgá, Hörgársveit, á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

53/2023 Efnistaka í Hörgá

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 53/2023, kæra á ákvörðunum sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn fyrir 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um að samþykkja ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þær ákvarðanir sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá. Er þess krafist að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir á svæði E-6 í Hörgá yrðu stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 26. maí 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 5., 8. og 11. maí og 5. júní 2023.

Málavextir: Hörgá er u.þ.b. 44 km löng dragá sem rennur eftir Hörgárdal í Hörgársveit til sjávar. Stærð vatnasviðs Hörgár og hliðaráa hennar er áætlað um 700 km2. Kærandi kærði fimm ákvarðanir sveitarstjórnar um að samþykkja umsóknir um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku úr Hörgá en með erindi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. maí 2023 féll kærandi frá kæru vegna tveggja þeirra ákvarðana. Með kæru í máli þessu er því skotið til nefndarinnar ákvörðunum sveitarstjórnar Hörgársveitar um samþykkja umsóknir um þrjú framkvæmdaleyfi, sem veitt voru þremur ólíkum félögum, til malartöku á grundvelli umhverfismatsskýrslu Hörgár sf. og álits Skipulagsstofnunar frá árinu 2015, en um er að ræða:

  1. Framkvæmdaleyfi G.V. Grafna ehf., dags. 1. október 2022, vegna 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá á tímabilinu 1. október 2022 til 31. desember 2023. Var málið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar 22. september 2022 og bókað í fundargerð að sveitarstjórn „samþykkti að framkvæmdaleyfið verði veitt, enda liggi fyrir skriflegt samþykki allra landeigenda áður en framkvæmdaleyfið er gefið út.“
  2. Framkvæmdaleyfi Skútabergs ehf., dags. 1. október 2022, fyrir 85.000 m3 efnistöku úr Hörgá á svæði E-6 samkvæmt aðalskipulagi. Erindið var samþykkt á fundi sveitarstjórnar Hörgársveitar 27. ágúst 2020 með þeim rökstuðningi að veiting framkvæmdaleyfis samræmdist aðalskipulagi. Einnig var bókað í fundargerð að endurnýjað leyfi frá Fiskistofu væri skilyrði. Gilti leyfið fyrir 85.000 m3 efnistöku og að henni skyldi lokið og efnið farið af svæðinu fyrir 1. október 2022. Ekki varð af framkvæmdum og var nýtt framkvæmdaleyfi gefið út, dags. 1. október 2022, án þess að málið væri tekið fyrir að nýju í sveitarstjórn.
  3. Framkvæmdaleyfi Nesbræðra ehf., dags. 4. nóvember 2022, fyrir 25.000 m3 efnistöku á svæði E-8 í Hörgá. Umsókn um framkvæmdaleyfi var tekin fyrir á fundi sveitar­stjórnar Hörgársveitar 26. október 2022 og samþykkti sveitarstjórn að framkvæmda­leyfi yrði veitt þegar skriflegt samþykki allra landeigenda sem ættu hlutdeild í svæði E8 lægi fyrir.

 Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að hinar kærðu ákvarðanir hafi ekki verið auglýstar í Lögbirtingablaði í samræmi við 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og því sé kærufrestur ekki liðinn.

Hin kærðu framkvæmdaleyfi hafi verið gefin út án þess að lögbundið mat hafi farið fram á því hvort framkvæmdir væru til þess fallnar að umhverfismarkmið laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála næðust ekki, m.a. varðandi vatnshlotin Hörgá 1 102-1801-R, Fossá 102-1705-R, Hörgá 2 102-1702-R, Öxnadalsá 1 102-1793-R og Eyjafjörð 102-277-G. Samkvæmt vatnavefsjá sé vistfræðilegt ástand allra straumvatnshlotanna „mjög gott“ og umhverfismarkmið laganna séu því „mjög gott vistfræðilegt ástand“. Umhverfismatið frá árinu 2015 hafi leitt í ljós að framkvæmdirnar muni líklega hafa áhrif á eðli og þróun vatnsfalla og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Fram komi í umhverfismatinu að Veiðimálastofnun, nú Hafrannsóknarstofnun, hafi talið óraunhæft að meta áhrif framkvæmda á veiði og lífríki á því stigi og því gæti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum. Í matsskýrslu komi fram það álit stofnunarinnar að „ógerlegt [sé] að áætla fórnarkostnað við heildarframkvæmdina og efnistaka úr vatnsfalli ætti einungis að vera ásættanleg ef mjög miklir efnahags- og samfélagslegir hagsmunir eru í húfi“.

Í skýrslum Hafrannsóknarstofnunar komi fram að veiði á bleikju í Hörgá hafi dregist mikið saman á allra síðustu árum og hafi veiðin verið aðeins 146 fiskar sumarið 2021, en hafi áður verið að meðaltali yfir 900 bleikjur líkt og fram komi í fyrrnefndu umhverfismati. Ekki hafi verið aflað álits stofnunarinnar við veitingu framkvæmdaleyfanna. Með vísan til umhverfismatsins teljist komnar fram nægar líkur á að áhrif framkvæmda á vatnsgæði umræddra yfirborðsvatnshlota samrýmist ekki bindandi umhverfismarkmiðum 11. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, svo sem þau verði skýrð með hliðsjón af tilskipun 2000/60/EB og fyrirliggjandi dómafordæmum um 4. gr. hennar. Því hafi sveitarstjórn verið óheimilt að veita hin kærðu framkvæmdaleyfi án undangengis mats á því, og eftir atvikum möguleikum á undanþágu frá bindandi umhverfismarkmiðum vegna knýjandi almannahagsmuna. Varúðarregla, greiðsluregla og reglan um vísindalegan grundvöll ákvarðana í náttúruverndar­lögum nr. 60/2013 styðji þá niðurstöðu.

Hvergi sé að finna vísbendingu í fundargerðum um að sveitarstjórn hafi lagt álit Skipulagsstofnunar til grundvallar ákvörðunum sínum um framkvæmdaleyfi. Þar sé ekki að finna rökstuðning fyrir leyfi svo sem skylt sé skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og 2. og 3. mgr. 27. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. áður rannsóknarskyldu, skyldu til að leggja til grundvallar og til greinargerðar eða rökstuðnings í samræmi við áskilnað 13. gr. laga nr. 106/2000. Leiðbeiningar, birtar á vefsvæði Hörgársveitar, hafi ekki lagastoð og komi ekki í stað lögbundinnar málsmeðferðar.

Í áliti Skipulagsstofnunar, dags. 4. júní 2015, hafi verið sett skilyrði um að tekið yrði á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti í aðalskipulagi Hörgársveitar og það notað til að leggja línurnar um skipulag efnistöku. Sérákvæði um efnistöku í Hörgá og þverám hennar hafi verið sett í Aðalskipulag Hörgársveitar 2012–2024 en nú hafi því verið breytt, sbr. auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. febrúar 2021. Breytingarnar hafi verið gerðar að kröfu einstakra landeigenda, en ekki Hörgár sf. Í kjölfar þessara breytinga virðist sem efnistaka í Hörgá hafi farið úr böndum en fjöldaútgáfa framkvæmdaleyfa hafi átt sér stað frá því aðalskipulags­breytingin hafi tekið gildi.

Framkvæmd hins breytta aðalskipulags, um að við veitingu framkvæmda vegna efnistöku­svæða E2, E4, E6, E7, E8, E9, E10 og E11 skuli liggja fyrir umsögn Fiskistofu um sammögnunar­áhrif í stað þess að aðeins skuli liggja fyrir leyfi á einum stað í senn, virðist fara þvert gegn umhverfismatinu. Ógerningur sýnist einnig að framfylgja nýju ákvæði aðalskipulags um að efni skuli ekki hrúgað á bakka Hörgár á þann hátt að við háa vatnsstöðu skolist efni úr þeim aftur út í ánna, í stað þess að færa skuli það á stað fjarri bakkanum þegar í stað og því komi vinnuvélar ekki að ánni á veiðitíma, líkt og upphaflega hafi verið kveðið á um í aðalskipulaginu. Virðist því skilyrði Skipulagsstofnunar í umhverfismatinu fyrir borð borið með breyttu aðalskipulagi.

Ein meginforsenda í umhverfismati hafi verið að sameignarfélag landeigenda stæði að framkvæmdinni og er framkvæmdaraðili þar tilgreindur Hörgá sf. Um þetta hafi verið fjallað í áliti Skipulagsstofnunar. Hin kærðu framkvæmdaleyfi séu gefin út til annarra aðila og því stangist þau á við þessa forsendu. Samkvæmt samþykktum Hörgár sf. sé tilgangur félagsins allt annar en fram komi í umhverfismati. Þá stangist hinar kærðu ákvarðanir á við 2. og 4. mgr. 13. gr. skipulagslaga þar sem ekki sé getið stærðar efnistökusvæðis, vinnsludýpis og gerðar efnis. Hvorki hafi verið leitað lögbundinnar umsagnar náttúruverndarnefndar né gengið úr skugga um samræmi við skipulag og náttúruverndarlög. Ákvarðanirnar uppfylli m.a. ekki áskilnað reglugerðar nr. 772/2012 um nákvæma tilgreiningu svæðis.

Í umsögn Orkustofnunar um frummatsskýrslu, dags. 16. febrúar 2015, komi fram hugleiðingar stofnunarinnar um þörf leyfisveitinga hennar skv. vatnalögum nr. 15/1923 og laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þörf hafi verið á þeim leyfisveitingum áður en hægt hefði verið að veita hin kærðu framkvæmdaleyfi. Þannig virðist leyfi skv. 1. mgr. 75. gr. vatnalaga ekki hafa legið fyrir við ákvarðanir um framkvæmdaleyfi og heldur ekki nýtingarleyfi skv. 6. gr. laga nr. 57/1998.

Málsrök Hörgársveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kæru í máli þessu verði vísað frá eða kröfum kæranda hafnað. Kæranda skorti lögvarða hagsmuni til aðildar, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Hann eigi engin tengsl við hinar kærðu ákvarðanir og hafi því ekki lögvarða hagsmuni af kærunni. Í kæru sé hvergi rökstutt að skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 séu uppfyllt. Aðild umhverfis-, útivistar- og hagsmunasamtaka skv. 3. og 4. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 sé undantekning frá þeirri almennu reglu stjórnsýsluréttar að aðeins þeir sem eigi einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta geti orðið aðilar að stjórnsýslumáli, sem verði því að túlka þröngt. Þá sé skilyrði 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um ætlað brot á þátttökurétti ekki uppfyllt.

Þá sé kærufrestur hinna kærðu ákvarðana liðinn. Þær hafi ekki verið auglýstar í Lögbirtingablaði en birtar á vefsíðu sveitarfélagsins. Einnig hafi umhverfismatsskýrsla frá apríl 2015 og álit Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2015, sbr. ákvörðun Skipulagsstofnunar, dags. 4. september 2014, verið aðgengileg á vefnum síðan árið 2015. Verði því að líta svo á að birting hafi verið fullnægjandi. Auk þess séu framkvæmdir vel sýnilegar frá þjóðvegi og ættu ekki að dyljast þeim sem sýni þeim áhuga. Ákvæði 4. mgr. 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 gildi ekki um hinar kærðu ákvarðanir. Um sé að ræða aðskildar framkvæmdir, sem hver fyrir sig sé kærð í málinu, en engin þeirra sé matsskyld, sbr. gr. 2.01 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, þar sem matsskylda eigi aðeins við um efnistöku yfir 500.000 m3. Því þurfi ekki að birta þær opinberlega. Þó önnur viðmið kunni að hafa verið í tíð eldri laga nr. 106/2000 um umhverfismat framkvæmda þá verði að fjalla um kæru á grundvelli þeirra laga sem í gildi séu þegar kæra sé borin fram.

Öll efnistaka og leyfi séu í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, sbr. reglugerð um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og gildandi skipulag. Efnistakan sé í samræmi við umhverfismatsskýrslu frá apríl 2015 um efnistöku í Hörgá. Áhrif efnistöku séu í mörgum atriðum jákvæð að mati Skipulagsstofnunar, sbr. álit dags. 4. júní 2015, og heimili stofnunin fyrir sitt leyti efnistöku úr Hörgá á grundvelli matsskýrslunnar. Ekkert sé komið fram í málinu sem styðji að efnistakan sé ekki í samræmi við skipulag, umhverfismatsskýrslu, lög eða reglur, né að hagsmunum Hörgár, umhverfis hennar eða lífríki sé ógnað á nokkurn hátt. Aðeins hafi verið settar fram órökstuddar fullyrðingar um meint áhrif af flutningi efnis frá bökkum Hörgár sem séu meira í ætt við skoðanir en staðreyndir um atvik. Fullyrðingar um að minnkandi veiði megi að einhverju leyti tengja við efnistöku séu órökstuddar og fái enga stoð í rannsóknum eða athugunum og liggi ekkert fyrir um orsakatengsl. Fjölmargir aðrir þættir hafi áhrif á veiði og fiskafjölda, svo sem hitastig vatns og sjávar, heimilar veiðiaðferðir, fjöldi veiðidaga og ásókn og ástundun veiðimanna. Hörgá og aðrar ár í vatnakerfi hennar, eins og Öxnadalsá, séu nokkuð berskjaldaðar fyrir framburði vegna hlýinda sumarið í gegn og sé verðlagning veiðileyfa í ánni um áratugaskeið einn gleggsti mælikvarðinn á það að ástundun veiðimanna sé ef til vill stærsta breytan í því hver veiði sé í Hörgá, auk almennrar þróunar í veiði, en ekki efnistaka. Þó hin kærðu leyfi séu allt sjálfstæðar og aðskildar framkvæmdir hafi sveitarfélagið alltaf tekið mið af áhrifum á ánna í heild og telji sig hafa farið eftir umhverfismatsskýrslu.

Sameignarfélagið Hörgá sf. hafi staðið að öflun umhverfismatsins á sínum tíma. Landeigendur sem eigi rétt til efnistöku úr Hörgá hafi staðið að félaginu. Síðar hafi landeigendur ákveðið að slíta því samstarfi og sveitarfélagið keypt umhverfismatið, sbr. bókanir af fundum sveitarstjórnar, dags. 9. desember 2015, 17. mars 2016 og 20. apríl 2016, en það muni hafa verið til að draga úr beinu fjárhagstjóni Hörgár sf. af kostnaði við matið, en félagsmenn sjálfir skyldu bera kostnað af matinu væri ekki til fyrir því í sjóði. Kærandi haldi því fram í tölvupósti, dags. 9. maí 2023, að með því hafi grundvöllur umhverfismatsins liðið undir lok. Sveitarfélagið hafi alltaf litið svo á að rétt sé að fara eftir umhverfismatinu og hafi lagt sig fram um að fara eftir því við útgáfu leyfa og eftirlit með framkvæmdum. Þó fyrrnefnt sameignarfélag sé ekki lengur starfandi og í slitaferli þá hljóti að vera eðlilegt og í samræmi við góða stjórnsýslu og í þágu umhverfisins og lífríkis Hörgár að tekið sé mið af umhverfismatinu þrátt fyrir það. Þá sé ekkert sem banni slíkt framsal á vísindalegri skýrslu.

Á þeim tíma sem ráðist hafi verið í umhverfismatið hafi það verið í samstarfi landeigenda og sveitarfélagsins til að tryggja yfirsýn yfir efnistöku og áhrif hennar á vatnakerfi í heild, í stað þess að hver og einn landeigandi fyrir sig ráðstafi námuréttindum sínum án tillits til annarra landeigenda. Við útgáfu leyfanna hafi gildandi lögum verið fylgt og öll lagaskilyrði þeirra verið uppfyllt. Útgáfa leyfanna sé í samræmi við markmið a-d liðar 2. gr. reglugerðar nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Farið hafi verið eftir og byggt á matsskýrslu frá 2015 og áliti Skipulagsstofnunar frá 4. júní 2015. Samkvæmt Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024 sé Hörgá skipulagt efnistökusvæði en í aðalskipulaginu sé lögð áhersla á nýtingu náma sem náttúran geti viðhaldið.

Fyrirliggjandi gögn, þ.e. matsskýrslan, álit og ákvörðun Skipulagsstofnunar, sem og önnur fyrirliggjandi gögn hafi verið nægjanleg til að sveitarstjórn gæti lagt mat á áhrif efnistöku. Þá séu leyfin í samræmi við lög nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði, sbr. V. kafla þeirra. Ekki verði heldur séð að útgefin leyfi fari gegn þeim markmiðum sem sett séu í vatnaáætlun Umhverfisstofnunar fyrir Ísland 2022–2027, sbr. 5. mgr. 11. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Þá megi benda á umhverfisskýrslu vegna Aðalskipulags Hörgársveitar 2012–2024 en þar sé fjallað um áhrif efnistöku á gæði vatns. Vistfræðilegt ástand allra straumvatnshlotanna í Hörgá þar sem efnistaka fari fram sé mjög gott samkvæmt vatnavefsjá Umhverfisstofnunar. Hljóti það að vera vísbending um að efnistaka úr ánni á umliðum árum hafi ekki haft neikvæð áhrif á lífríki hennar. Ef svo væri mætti ætla að ástand straumvatnshlotanna væri ekki gott. Efnistaka hafi farið fram í Hörgá árum saman og vissulega hafi hún verið nokkuð umfangsmikil en hún sé framkvæmd á ábyrgan hátt og í sátt við vistfræði árinnar. Þá sé enda ljóst að farvegurinn jafni sig fljótt líkt og fram komi í umhverfismati. Miður sé að veiði fari sífellt minnkandi í Hörgá en engin gögn styðji að það sé vegna efnistöku úr ánni. Sífellt minnkandi bleikjuveiði sé í öðrum ám um allt land. Veiði hafi farið minnkandi löngu áður en hinu kærðu framkvæmdaleyfi hafi verið gefin út.

Sveitarstjórn hafi ávallt fært rök fyrir ákvörðunum sínum og fylgt fyrirliggjandi gögnum. Sérstakar leiðbeiningar sem sveitarfélagið fari eftir séu birtar á vefsíðu sveitarfélagsins en þær hafi verið samþykktar í sveitarstjórn 20. apríl 2016 á grundvelli 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerðar um framkvæmdaleyfi. Er það til vitnis um vandaða stjórnsýsluhætti. Þá sé eftirlit með efnistöku með ágætum og beri framkvæmdaleyfishafa til að mynda að hafa meðferðis á framkvæmdastað afrit framkvæmdaleyfis.

 Athugasemdir leyfishafa framkvæmdaleyfis á svæði E-6: Við meðferð máls þessa bárust úrskurðarnefndinni athugasemdir frá leyfishafa þar sem framkvæmdum á svæði E-6 er lýst. Kom þar fram að búið væri að ýta og moka upp á bilinu 35.000–38.000 m3 af möl úr stórri áreyri sem byggst hafi upp á síðastliðnum árum. Við þessa framkvæmd hafi myndast nýr og breiðari farvegur í sveigum, með misdjúpum og ójöfnum botni í samræmi við leiðbeiningar sem unnar hafi verið af Fiskirannsóknum ehf. fyrir framkvæmdaraðila. Ekkert rennsli hafi verið í eða eftir þessum nýja farvegi við framkvæmdina, enda hafi verið byrjað „neðst“ og unnið upp eftir eyrinni og endað með því að opna inn á Hörgá „efst“. Þá fyrst hafi hún runnið inn á þennan nýja farveg. Við framkvæmdina hafi þess verið gætt að „hræra“ ekki í árfarvegi Hörgár, þ.e. meginrennsli. Ekki hafi verið snert við lænu meðfram Krossastaðatúninu enda mælist mestur þéttleiki seiða í Hörgá á þessu svæði.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að sveitarfélagið hafi ekki gert grein fyrir því hvernig standi á því að skipulagsfulltrúi hafi gefið út leyfisbréf 1. október 2022 fyrir efnistöku á 85.000 m3 til tveggja ára á svæði E6 á grundvelli ákvörðunar sem sveitarstjórn hafi tekið 27. ágúst 2020. Útgáfa leyfisbréfsins sýnist í andstöðu við efni ákvörðunar sveitarstjórnar og hafi tímafrestir til útgáfu leyfis auk þess verið runnir út. Sveitarstjórn hefði því borið að taka nýja ákvörðun í málinu. Þá ítrekar kærandi áðurrakin málsrök. Sveitarfélagið viðurkenni að „hnökrar“ kunni að vera á hinum kærðu ákvörðunum, en álítur þá smávægilega. Þessu sé kærandi ekki sammála. Til að mynda hafi sveitarfélagið enga grein gert fyrir efni ákvörðunar sveitarstjórnar frá 26. október 2022 um heimild til ótiltekinnar efnistöku á svæði E8. Af opinberum gögnum sé útilokað að sjá um hvaða ákvörðun sé að ræða.

Í greinargerð sveitarfélagsins komi fram að sveitarfélagið hafi ekki þurft að ganga úr skugga um líkur á því að vistfræðilegu ástandi myndi hnigna í þeim vatnshlotum sem efnistökuleyfi hafi verið veitt og öðrum vatnshlotum sem geti orðið fyrir áhrifum. Það sé í ósamræmi við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála og það sem vísað sé til í kafla 4.2 í áliti Skipulagsstofnunar, hvað snerti áhrif á veiði. Fullt tilefni hefði verið til þess fyrir sveitarfélagið að leita til Hafrannsóknarstofnunar áður en gefin yrðu út fleiri leyfi fyrir efnistöku, þá sérstaklega eftir að veitt hafi verið leyfi fyrir efnistöku á fleiri en einum stað í ánni á sama tíma.

Aðilar máls þessa hafa fært fram ítarlegri rök fyrir máli sínu, sem ekki verða rakin hér frekar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þær ákvarðanir sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn fyrir 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um að samþykkja ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá. Kæruheimild til úrskurðarnefndarinnar er í 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur hins vegar frá birtingu ákvörðunar.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Til þess er einnig að líta að umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtök eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið málsgreinarinnar. Lögin tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda og verður því að líta til ákvæða þeirra laga í máli þessu, en ferli umhverfismats vegna heildstæðs mats á efnistöku á 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár, lauk með áliti Skipulagsstofnunar dags. 4. júní 2015.

Þótt hvert leyfi um sig, sem fjallað er um í máli þessu, taki aðeins til hluta þeirrar framkvæmdar sem um var fjallað í ferli umhverfismatsins sem lauk árið 2015, verður að álíta að leyfisveitanda sé skylt hverju sinni að horfa jafnframt til annara framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti. Teljast hinar kærðu ákvarðanir því allar til leyfa til framkvæmda í skilningi laga nr. 106/2000.

Kærandi nýtur aðildar að máli þessu skv. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011, en af gögnum sem nefndin hefur kynnt sér uppfyllir hann skilyrði þeirrar greinar sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hagsmunasamtök. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun var ekki birt opinberlega og var í henni ekki fjallað um kæruheimild né kærufrest. Verður af gögnum málsins ályktað að kæranda varð eða mátti fyrst vera kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis um miðjan apríl 2023, en samkvæmt því var kærufrestur ekki liðinn þegar kæra í málinu barst nefndinni 19. apríl s.á. Verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar frá 2015 segir að tilgangur framkvæmdarinnar sé að sporna við landbroti af völdum Hörgár með rennslisstýringu árinnar með það að markmiði að verja landbúnaðarland og mannvirki. Þar er rakið að Landgræðsla ríkisins hafi í gegnum tíðina styrkt eigendur jarða við Hörgá vegna bakkavarna fjárhagslega og með ráðgjöf. Að mati Landgræðslunnar séu bakkavarnir við Hörgá nánast endalaust verkefni vegna síbreytilegrar rennslisstefnu árinnar sökum mikils framburðar í ánni sem valdi landbroti mjög víða. Í skýrslunni var einungis fjallað að ráði um einn valkost, þ.e. efnistöku úr Hörgá, auk núllkosts. Kemur þar fram að aðrir valkostir, þ.e. manngerðar bakkavarnir, séu mögulegir til að verja landbúnaðarland og mannvirki. Grjótvarnir hefðu gefið nokkuð góða raun en þær séu mjög kostnaðarsamar. Verði efni ekki fjarlægt úr farvegum mætti gera ráð fyrir að þörfin fyrir grjótvarnir myndu aukast mikið. Þá geti varnargarðar gert gagn við að beina ánni frá árbökkum en séu þeir ekki grjótvarðir megi gera ráð fyrir að þeir geti skolast burt í stórum flóðum. Einnig var fjallað um þann kost að vinna að endurheimt árinnar með það að markmiði að láta hana „ná að þróast á sinn náttúrulega hátt“. Var það ekki talið samrýmast markmiðum Hörgár sf. og slíkar aðgerðir voru ekki taldar raunhæfar þar sem þær hefðu í för með sér mikið fjárhagslegt og samfélagslegt tjón þar sem land, vegir og mannvirki myndu skemmast eða eyðileggjast.

Í umhverfismatinu kemur fram að efnistakan muni fara fram með þeim hætti að fyrst verði efnistökusvæði afmarkað og sett upp tímabundin höft eða stíflur úr malarefni. Þá verði efni mokað upp úr farvegi eða áreyrum og flutt á haugsetningarsvæði í nægjanlega mikilli fjarlægð frá ánni þannig að ekki verði hætta á að áin sópi haugnum með sér í næsta flóði. Efni verði svo keyrt frá haugsetningarsvæði eftir því sem þörf og aðstæður á markaði kalli á. Fram kemur að þegar sótt hafi verið um framkvæmdaleyfi sé gert ráð fyrir að leita ráðgjafar Veiðimálastofnunar, nú Hafrannsóknarstofnunar, um ákjósanlegustu aðferðir og afmörkun á hverju einstaka framkvæmdasvæði. Kemur einnig fram að árlega sé áætlað að meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fyrirhuguð framkvæmd feli í aðalatriðum í sér efnistöku á efnistökusvæðum á tímabilinu 1. október til 30. apríl ár hvert, flutning efnis frá efnistökusvæði á geymslusvæði og flutning efnis frá geymslusvæði á notkunarstað.

Fram kemur í matsskýrslu að árið 2013 hafi sameignarfélagið Hörgá sf. verið stofnað. Í samþykktum þess var tekið fram að félagsmenn væru landeigendur að ánni eða fulltrúar þeirra. Félaginu var ætlað að láta vinna umhverfismat fyrir efnistökuna fyrir hönd landeigenda við Hörgá og þveráa hennar. Skyldi félagið vera framkvæmdaraðili að allri efnistökunni. Ekki væru þó allir landeigendur að Hörgá í félaginu, en það hefði ekki áhrif á efnistöku. Þar sem félagið liti á ána alla og þverár sem eina heild og skipuleggi efnistöku með hagsmuni alls svæðisins að leiðarljósi, væri í umhverfismatinu fjallað um þau efnistökusvæði sem þættu hentug vegna aðstæðna, efnismagns eða efniseiginleika ásamt efnistökusvæðum sem þyki brýnt að taka efni úr til að draga úr landbroti. Í matsskýrslunni var lýst efnistökusvæðum sem tilgreind voru í drögum sem þá lágu fyrir að Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024, með auðkenninguna: E-2, E-4, E-6, E-7, E-8, E-9, E-10 og E-11.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina dags. 4. júlí 2015 kom fram að tilgangur framkvæmdarinnar væri að sporna við landbroti af völdum Hörgár. Ekki yrði sótt um framkvæmdaleyfi fyrir öllum efnistökusvæðunum á sama tíma og væri árlega áætlað að meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Áætlað væri að hefja skipulagða efnistöku á þeim svæðum í ánni þar sem mest þörf væri á að skapa pláss fyrir flóðvatn í farveginum með það að markmiði að draga úr bakkarofi og þar með þörf fyrir annars konar og mjög kostnaðarsamar bakkavarnir s.s. grjótvörn. Fjallað var stuttlega um hvert efnistökusvæði um sig í álitinu, m.a. þau efnistökusvæði þar sem með hinum kærðu leyfum var heimiluð efnistaka.

Rakið var í álitinu að efnistaka gæti haft áhrif á eðli og þróun vatnsfalla. Efnistaka í og við ár sé vandasöm og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Botngerð ánna geti breyst og búsvæði laxfiska geti þannig raskast og haft neikvæð áhrif á veiði. Að mati sérfræðinga Veiðimálastofnunar sé óraunhæft að meta áhrif verkefnisins á veiði og lífríki á þessu stigi og almennt geti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum í ám. Hins vegar væri eðlilegt að stofnunin veitti ráðgjöf með heppilegustu útfærslu efnistöku á hverju framkvæmdasvæði fyrir sig, ef efnistaka á viðkomandi framkvæmdasvæði þætti nauðsynleg og framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Áhrif á veiði væru metin óviss en staðbundin og afturkræf. Áhrif framkvæmdanna á veiði yltu alfarið á því hvernig lífríki ánna reiddi af. Ef tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg en hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif en um það væri nokkur óvissa. Í niðurstöðukafla álitsins var gerð bending um að til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu á hverju efnistökusvæði.

Í álitinu var lögð áhersla á mikilvægi þess að efnistaka yrði unnin skipulega og yfir lengra tímabil, en fram kom að efnistakan mundi vara í 20 ár. Var í því sambandi talið jákvætt að landeigendur að efnistökusvæðinu hefðu sameinast um efnistökuna, sem ætti að bæta skipulag hennar og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Meðal mótvægisaðgerða sem ráðgert var að fjallað yrði um við útgáfu hvers framkvæmdaleyfis væru hvernig staðið yrði að efnistökunni með því að ekki yrðu grafnar djúpar gryfjur, aðallega yrði fjarlægt efni ofan af áreyrum og árkeilum og að efnistakan færi fram á fáum afmörkuðum svæðum í einu og væru því staðbundin að hluta. Þá kom fram að ekki yrði unnið að efnistöku á tímabilinu 1. maí til 30. september. Í niðurstöðum álitsins var gerð ábending um að nauðsynlegt væri að í aðalskipulagi Hörgársveitar yrði tekið á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti og það notað til að leggja línurnar um skipulag efnistöku í og við ána.

Mælt er fyrir um í 1. mgr. 14. gr. skipulagslaga og þágildandi 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 að óheimilt sé að gefa út leyfi til framkvæmda fyrr en álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir eða ákvörðun um að framkvæmd sé ekki matsskyld. Í 2. mgr. beggja lagagreinanna er svo fjallað nánar um hvernig líta skuli til álits Skipulagsstofnunar við leyfisveitingu vegna matsskyldrar framkvæmdar. Áður voru þau lagaákvæði samhljóða um að við slíka leyfisveitingu bæri leyfisveitanda að kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Með breytingalögum nr. 96/2019 var skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 hins vegar breytt og í stað þess að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar segir nú í greindum lagaákvæðum að leyfisveitanda beri að leggja álitið til grundvallar við ákvörðun um útgáfu leyfis. Jafnframt kváðu breytingalögin á um það nýmæli að leyfisveitandi skuli taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis. Þannig segir í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga að slíkt skuli gert í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum en í þágildandi 3. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 er kveðið á um að í slíkri greinargerð skuli gera grein fyrir samræmi milli leyfis og niðurstöðu álits Skipulagsstofnunar og rökstyðja sérstaklega ef í leyfinu sé vikið frá niðurstöðu álits. Einnig skuli leyfisveitandi taka afstöðu til tengdra leyfisveitinga þegar tilefni sé til ef um það sé fjallað í áliti Skipulagsstofnunar.

Þá er í 18. gr. breytingalaga nr. 96/2019 að finna lagaskilareglu er mælir fyrir um að matsskyldar framkvæmdir skuli hlíta málsmeðferð samkvæmt eldri ákvæðum laga nr. 106/2000 ef tillaga að matsáætlun hefur borist Skipulagsstofnun fyrir gildistöku laga nr. 96/2019, svo sem raunin er hér. Samkvæmt þágildandi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar því sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Sambærilegt lagaskila­ákvæði er hins vegar ekki að finna í tengslum við áðurgreinda breytingu á skipulagslögum og bar því að leggja álit Skipulagsstofnunar til grundvallar leyfisveitingu samkvæmt orðalagi 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga, sem gilti við samþykkt hinna kærðu framkvæmdaleyfa. Það verður þó ekki séð að breytt orðalag hafi haft í för með sér efnisbreytingu að máli skipti við úrlausn þessa máls, svo fremi að báðum ákvæðum sé fullnægt þannig að rökstudd afstaða sé tekin til álits Skipulagsstofnunar og það jafnframt lagt til grundvallar leyfisveitingu. Þá er einnig ljóst að þrátt fyrir að sveitarstjórn hafi ekki verið skylt samkvæmt þágildandi lögum nr. 106/2000 að taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis þá var henni það skylt samkvæmt gildandi skipulagslögum.

Að framangreindu virtu er skýrt að skv. 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga bar sveitarstjórn Hörgársveitar að kynna sér matsskýrslu um framkvæmdina, leggja álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar til grundvallar og taka saman greinargerð um afgreiðslu leyfis í samræmi við ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Jafnframt er ljóst að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 bar sveitarstjórn að taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar. Telja verður lögbundnar skyldur sveitarstjórnar, vegna framkvæmdar sem hefur sætt mati á umhverfisáhrifum, vera mikilvægan þátt í málsmeðferð leyfisveitingarinnar og til þess fallnar að stuðla að því að fyrrnefnt markmið b-liðar 1. gr. skipulagslaga verði náð, sem og markmið laga um mat á umhverfisáhrifum sem talin eru upp í 1. gr. þeirra laga. Er og ljóst að sveitarstjórn ber að sinna þeim skyldum óháð því hvenær mat á umhverfisáhrifum fór fram eða hvort leyfi hafi áður verið veitt fyrir hluta framkvæmdar.

Við útgáfu leyfis til framkvæmdar sem undirgengist hefur mat á umhverfisáhrifum eru skyldur sveitarstjórnar sem leyfisveitanda ríkar. Ber sveitarstjórn að fylgja þeim málsmeðferðarreglum sem mælt er fyrir um í skipulagslögum og lögum nr. 106/2000 og sjá til þess að skilyrði þeirra laga séu uppfyllt. Enn fremur ber sveitarstjórn að fylgja þeim markmiðum laganna sem tíundið eru í 1. gr. þeirra beggja, þar á meðal að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða, tryggja vernd landslags, náttúru og menningarverðmæta og koma í veg fyrir umhverfisspjöll og ofnýtingu, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi, sbr. b-lið 1. gr. skipulagslaga. Jafnframt getur sveitarstjórn við leyfisveitinguna verið skylt að líta til efnis- og formreglna annarra laga, s.s. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá er sveitarstjórn sem endranær bundin af ákvæðum stjórn­sýslu­laga nr. 37/1993 og óskráðum meginreglum stjórnsýsluréttar.

Í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar var lögð áhersla á hlutverk sveitarfélagsins við stjórnun efnistökunnar í Hörgá, með þeim heimildum sem felast í gerð aðalskipulags, en í álitinu var um leið greint frá og fjallað um áform framkvæmdaraðila um að hann mundi árlega meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landsbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Fram kom í umhverfismatinu að Hörgá sf. hafi verið ætlað að bera ábyrgð á malarnáminu, sjá um að forgangsraða og sækja um framkvæmdaleyfi hverju sinni. Fyrir liggur að upp úr þessu samstarfi slitnaði og að sveitarfélagið yfirtók sameignarfélagið og keypti umhverfismatið fyrir efnistökuna. Samkvæmt skýringum sveitarfélagsins hefur verið farið eftir umhverfismatinu frá upphafi og tekið mið af því við útgáfu framkvæmdaleyfa vegna efnistöku úr Hörgá. Það sé grundvallargagn þegar komi að efnistökunni og með því að fylgja því og áliti Skipulagsstofnunar sé tryggð yfirsýn um efnistökuna og vatnasvæði Hörgár.

Hinn 20. apríl 2016 samþykkti Hörgársveit leiðbeiningar um efnistöku úr Hörgá. Sveitarfélagið hefur staðfest við úrskurðarnefndina að ekki hafi verið farið eftir þeim leiðbeiningum í öllu, s.s. um auglýsingu um afmarkaða staði efnistöku á viðkomandi kjörtímabili, en það hafi verið álitið óþarft þegar á reyndi í ljósi þess að efnistökusvæðin í Hörgá væru nægilega skilgreind í aðalskipulagi sveitarfélagsins. Engri áætlun virðist því til að dreifa sem feli í sér skipulega efnistöku í Hörgá á grundvelli leiðbeininganna.

Í greinargerð Aðalskipulags Hörgársveitar 2012–2024 er fjallað um efnistöku úr Hörgá og þverám hennar í kafla um efnistöku- og efnislosunarsvæði. Þar segir: „Efnistaka verður skipulögð á afmörkuðum stöðum hverju sinni. Við efnistöku skal setja ströng skilyrði til varnar umhverfisspjöllum s.s. um viðhald vinnuvéla og meðferð olíu og spilliefna til að koma í veg fyrir mengun frá framkvæmdasvæðinu.“ Gerðar voru breytingar á aðalskipulaginu með ákvörðun sveitarstjórnar frá 5. febrúar 2021 og tóku þær gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. s.m. Með þeim var fellt brott skilyrði um að efnistaka yrði einungis á einum efnistökustað í einu. Kom fram í greinargerð með breytingunni að erfitt hafi verið að framfylgja því þar sem landeigendur efnistökusvæða teldu jafnræðis ekki gætt væri þeim synjað um framkvæmdaleyfi vegna þess að efnistaka stæði yfir á öðrum stað í ánni, en einnig vegna þess að ekki væri hafið yfir vafa hvernig túlka bæri orðalag ákvæðisins.

Eftir breytingu aðalskipulagsins segir: „Við veitingu framkvæmdaleyfis til efnistöku í Hörgá og þverám hennar (efnistökusvæði E2, E4, E6, E7, E8, E9, E10 og E11) skal liggja fyrir umsögn Fiskistofu um framkvæmdina þar sem tillit er tekið til annarra gildandi framkvæmdaleyfa vegna efnistöku í Hörgá.“ Þá var einnig bætt við ákvæði um að við efnistöku úr Hörgá og þverám hennar skuli þannig gengið frá efnislager á geymslusvæðum á bökkum ánna að ekki skolist efni úr þeim aftur í árnar við háa vatnsstöðu í þeim. Samkvæmt aðalskipulaginu er heimiluð 85.000 m3 efnistaka á svæði E-6, 75.000 m3 efnistaka á svæði E-8 og 400.000 m3 efnistaka á E-9.

Í fundargerðum sveitarstjórnar við töku hinna kærðu ákvarðana, dags. 27. ágúst 2020, 22. september og 26. október 2022, er enga umfjöllun að finna um það mat á umhverfisáhrifum sem fram fór vegna framkvæmdanna. Bera fundargerðirnar því ekki með sér að sveitarstjórn hafi, í samræmi við áðurnefnd ákvæði skipulagslaga og laga nr. 106/2000, kynnt sér matsskýrslu Hörgár sf., tekið afstöðu til þess hvort framkvæmdin sé sú sem lýst sé í matsskýrslu og lagt álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum til grundvallar eða tekið rökstudda afstöðu til þess.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 20. september 2023, hefur Hörgársveit upplýst að við afgreiðslu hinna kærðu framkvæmdaleyfa hafi verið farið yfir umsóknir og fyrirliggjandi gögn og stöðuna á efnistöku úr Hörgá og greinargerðir verið samþykktar af sveitarstjórn. Þetta hafi verið gert bæði munnlega og skriflega. Með bréfinu fylgdu skriflegar greinargerðir frá fundum skipulagsnefndar sveitarfélagsins, sem skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins tók saman vegna málanna og voru samþykktar, að því greinir í svari Hörgársveitar til nefndarinnar, á greindum fundum sveitarstjórnar. Sveitarfélagið álíti þessar greinargerðir uppfylla kröfur skipulagslaga nr. 123/2010 um rökstuðning, þ. á m. 2. mgr. 14. gr. laganna.

Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér þessar greinargerðir. Í þeim er fjallað um tiltekna umhverfisþætti fyrir hvert efnistökusvæði um sig, eins og þeim er lýst í matsskýrslunni frá 2015. Þar er um leið gerð grein fyrir ákvæðum aðalskipulags um frágang á efnislager á geymslusvæðum á bökkum Hörgár og að við veitingu framkvæmdaleyfis til efnistöku í ánni skuli liggja fyrir umsögn Fiskistofu um framkvæmdina þar sem tillit sé tekið til annarra gildandi framkvæmdaleyfa vegna efnistöku í Hörgá. Í greinargerð vegna eins leyfisins, sem samþykkt var samkvæmt framangreindu á fundi sveitarstjórnar 27. ágúst 2020, og tekur til efnistökusvæðis E6, var sett skilyrði um að fyrir lægi endurnýjað leyfi frá Fiskistofu til framkvæmdanna. Í engri þessara greinargerða var vikið að áliti Skipulagsstofnunar.

Sem áður er rakið var í áliti Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdarinnar lögð áhersla á hlutverk sveitarfélagsins við stjórnun efnistökunnar í Hörgá, með þeim heimildum sem felast í gerð aðalskipulags. Um leið var í álitinu greint frá og fjallað um áform framkvæmdaraðila um að hann mundi árlega meta stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Sú leið sem farin var í aðalskipulagi sveitarfélagsins að leggja í hendur Fiskistofu að gefa umsögn um heildaráhrif efnistöku var hvorki reifuð í matsskýrslu framkvæmdarinnar né heldur áliti Skipulagsstofnunar.

Úrskurðarnefndin hefur ekki leitað viðhorfa Fiskistofu til þessa hlutverks sem stofnuninni er ætlað samkvæmt aðalskipulaginu. Almennt má þó segja að álitsumleitan til stjórnvalds geti haft leiðbeinandi þýðingu fyrir sveitarstjórnir, ef álit er látið í té. Hins vegar leysir það ekki sveitarstjórn undan skyldu þeirri um rökstuðning sem felst í fyrirmælum 14. gr. skipulagslaga. Raunar verður þess utan ekki séð í gögnum málsins að umsagnar Fiskistofu hafi verið aflað með vísan til aðalskipulagsins. Meðal gagna þessa úrskurðarmáls eru á hinn bóginn leyfi sem Fiskistofa gaf með vísan til 33. gr. laga um lax- og silungsveiði, til þeirrar efnistöku sem fjallað var um á fundum sveitarstjórnar Hörgársveitar 22. september 2022 (100.000 m3) og 27. ágúst 2020 (85.000 m3). Í hvorugu þessara leyfa er fjallað um önnur leyfi eða aðra ráðgerða efnistöku í Hörgá eða þverám hennar. Þá var annað þessara leyfa, með úrskurði úrskurðarnefndarinnar, uppkveðnum í dag, í máli nr. 61/2023, fellt úr gildi.

Í ljósi framangreinds verður álitið að umræddar greinargerðir fullnægi ekki þeim áskilnaði sem gerður er í 2. mgr. 14. gr. skipulagslaga og vék undirbúningar hinna kærðu leyfisveitinga með þessu frá mikilvægum og lögbundnum skilyrðum laga.

Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 15. gr. skipulagslaga er útgáfa framkvæmdaleyfis háð því skilyrði að sveitarstjórn, eða annar aðili sem hún hefur falið það vald, hafi samþykkt veitingu framkvæmdaleyfis. Hefjist framkvæmdir ekki innan 12 mánaða frá samþykki sveitarstjórnar fellur framkvæmdarleyfið úr gildi, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis. Í 42. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 er kveðið á um að í því skyni að stuðla að hagræðingu, skilvirkni og hraðari málsmeðferð geti sveitarstjórn ákveðið í samþykkt um stjórn sveitarfélagsins að fela fastanefnd fullnaðarafgreiðslu einstakra mála sem ekki varða verulega fjárhag sveitarfélagsins. Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn heimilt í samþykkt sveitarfélagsins að fela skipulagsnefnd eða öðrum aðilum innan stjórnsýslu sveitarfélagsins heimild til fullnaðarafgreiðslu mála, svo sem deiliskipulagsáætlana og útgáfu framkvæmdaleyfa.

Á fundi sveitarstjórnar 27. ágúst 2020 var samþykkt umsókn um framkvæmdaleyfi, dags. 16. apríl 2019, vegna 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6. Í fundargerð segir: „Sveitarstjórn samþykk[ir] erindið enda samræmist veiting framkvæmdaleyfis samþykktu aðalskipulagi. Skilyrði er að fyrir liggi endurnýjað leyfi frá Fiskistofu. Leyfið gildi fyrir 85.000 m3 og efnistöku skal lokið og efnið farið af svæðinu fyrir 1. október 2022.“ Svo sem fyrr segir var framkvæmdarleyfi gefið út en ekki varð af framkvæmdum. Gefið var út nýtt framkvæmdarleyfi 1. október 2022, með vísan til ákvörðunar sveitarstjórnar frá 27. ágúst 2020. Af fundargerðum sveitarstjórnar verður ekki ráðið að hún hafi tekið umrædda umsókn vegna efnistöku á svæði E-6 til afgreiðslu að nýju áður en skipulagsfulltrúi gaf út framkvæmdaleyfi. Í gildi er samþykkt um stjórn Hörgársveitar og fundarsköp sveitarstjórnar nr. 678/2013, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 16. júlí 2013. Er þar fjallað um valdsvið nefnda og framsal sveitarstjórnar til fastanefnda á valdi til fullnaðarafgreiðslu mála, en ekki er vikið að framsali slíks valds til einstakra starfsmanna, s.s. skipulagsfulltrúa, um útgáfu framkvæmdaleyfa. Brast skipulagsfulltrúa því heimild til þess að endurútgefa hið kærða leyfi.

Framangreindu til viðbótar bendir úrskurðarnefndin á að ekki verði séð að við undirbúning og veitingu hinna kærðu leyfa hafi verið tekin afstaða til framkvæmdanna á grundvelli laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en samkvæmt þeim er skylt að vernda yfirborðsvatnshlot og tryggja að ástand þeirra versni ekki.

Að öllu framangreindu virtu vék undirbúningur hinna kærðu ákvarðana frá mikilvægum skilyrðum laga og verður því að fella hin kærðu leyfi úr gildi.

 Úrskurðarorð:

Felldar eru úr gildi ákvarðanir sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 22. september 2022 um að samþykkja umsókn fyrir 100.000 m3 efnistöku á svæði E-9 í Hörgá, 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn fyrir 85.000 m3 efnistöku á svæði E-6 í Hörgá og 26. október 2022 um að samþykkja ótiltekna heimild til efnistöku á svæði E-8 í Hörgá.

61/2023 Efnistaka í Hörgá

Með

Árið 2023, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2023, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 að veita Hæðargarði ehf. leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 26. maí 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu 22. maí 2023.

Málavextir: Hinn 11. apríl 2019 veitti Fiskistofa framkvæmdaraðila leyfi til allt að 85.000 m3 efnistöku úr Hörgá við Krossastaði, þ.e. á svæði E-6 samkvæmt Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024, og gilti leyfið til 12. apríl 2020. Framkvæmdarleyfi var hins vegar ekki gefið út og því fór efnistaka ekki fram. Fiskistofa veitti leyfi að nýju 18. nóvember 2020 á grundvelli sömu forsendna og fyrra leyfi byggðist á með gildistíma til 1. október 2022. Hinn 4. júlí 2022 óskaði leyfishafi eftir því að leyfið yrði framlengt þar sem framkvæmdir hefðu ekki hafist vegna tafa. Var leyfi veitt að nýju 12. september 2022 á grundvelli sömu forsendna og fyrri leyfi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun fari í bága við ákvæði laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laganna, áður 4. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, skuli leyfisveitandi tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína og gera leyfi og greinargerð með því aðgengilegt á netinu innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Þar skuli tilgreina kæruheimild og kærufrest. Þessa hafi ekki verið gætt og hafi kærufrestur því ekki byrjað að líða fyrr en kæranda hafi getað verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun, sem hafi verið þegar ummerki við Hörgá á svæði E-6 hafi fyrst komið fram um miðjan apríl 2023, en hann hafi í framhaldi þess lagt fram kæru vegna framkvæmdaleyfis sveitarfélagsins 19. s.m. Kærandi álítur að allar efnis- og formreglur hafi verið brotnar við útgáfu leyfisins við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Þar komi m.a. skýrt fram að í engu hafi verið gætt að því sem fiskifræðingur hafi mælt með í byrjun árs 2019 og hafi ekki heldur verið aflað uppfærðra upplýsinga frá þeim fiskifræðingi, þótt tvö og hálft ár hafi verið liðin frá því að greinargerðar hans hafi verið aflað.

Málsrök Fiskistofu: Af hálfu Fiskistofu er upplýst að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið birt opinberlega og ekki hafi verið fjallað um kæruheimild né kærufrest í henni. Þá hafi Skipulagsstofnun ekki verið tilkynnt um útgáfu leyfanna. Þá sé það rétt að ekki hafi verið aflað uppfærðra upplýsinga frá sérfræðingi á sviði veiðimála fyrir útgáfu hins kærða leyfis, þar sem efnistaka hafi tekið til sama magns og svæðis og fjallað hafi verið um í fyrri leyfum til sömu framkvæmdar, en engin efnistaka hafi farið fram með heimild í þeim.

Fiskistofa geti krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi sé veitt, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Sú leið hafi ekki verið farin við undirbúning málsins, en þess í stað kveðið á um það í leyfinu að efnistakan yrði framkvæmd í samráði við fiskifræðing til að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna árinnar. Seiðamælingar yrðu gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdir hæfust og að henni lokinni. Þetta sé í samræmi við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, dags. 4. júlí 2015. Ákvæði leyfisins um magn efnis og tíma framkvæmda hafi einnig verið í samræmi við álit Skipulagstofnunar.

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um málatilbúnað kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sem verður borin undir úrskurðarnefndina með heimild í 1. mgr. 36. gr. þeirra laga. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur hins vegar frá birtingu ákvörðunar.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Á hinn bóginn teljast  umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið málsgreinarinnar. Lögin tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda. Ferli umhverfismats vegna heildstæðs mats á efnistöku á að 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár, lauk með áliti Skipulagsstofnunar dags. 4. júní 2015. Verður því að líta til ákvæða laga nr. 106/2000 hvað varðar leyfisveitinguna.

Í c-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 var hugtakið framkvæmd afmarkað þannig að það næði til hvers konar nýframkvæmdar eða breytingar á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi, sem undir lögin falli. Samkvæmt f-lið greinarinnar töldust leyfi til framkvæmda vera framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og önnur leyfi til starfsemi og framkvæmda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda. Í 2. og 3. mgr. 13. gr. laganna var mælt fyrir um undirbúning að útgáfu leyfis á grundvelli matsskýrslu framkvæmdaraðila og álits Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Í 4. mgr. lagagreinarinnar var síðan mælt fyrir um skyldu leyfisveitanda til að birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess, þar sem tilgreint væri hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis væri aðgengileg og tilkynnt væri um kæruheimild og kærufrest þegar það ætti við.

Um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi var fjallað, sem einn framkvæmdaþátt, í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 795.000 m3 efnistöku úr áreyrum og árfarvegi Hörgár í Hörgársveit. Þótt leyfið takið aðeins til hluta þeirrar framkvæmdar verður að álíta að leyfisveitanda sé skylt hverju sinni að horfa jafnframt til annara framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti. Verður leyfið því álitið leyfi til framkvæmda í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. gr. 2.01 í 1. viðauka við lögin.

Kærandi nýtur aðildar að máli þessu skv. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og af gögnum sem nefndin hefur kynnt sér uppfyllir hann skilyrði þeirrar greinar sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hagsmunasamtök. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun var ekki birt opinberlega og var í henni ekki fjallað um kæruheimild né kærufrest. Verður af gögnum málsins ályktað að kæranda varð eða mátti fyrst vera kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis um miðjan apríl 2023, en samkvæmt því var kærufrestur ekki liðinn þegar kæra í málinu barst nefndinni 11. maí s.á. Verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistöku í Hörgá, dags. í apríl 2015, var rakið að árið 2013 hafi landeigendur við Hörgá stofnað sameignarfélagið Hörgá. Markmið þess væri að minnka líkur á landbroti sem valdi skemmdum á mannvirkjum og löndum í nágrenni árinnar og þveráa hennar og um leið að stuðla að sjálfbærri nýtingu jarðefna með sem minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. Markmiði sínu hygðist sameignarfélagið ná með því að láta vinna, fyrir hönd landeigenda við Hörgá og þveráa hennar, umhverfismat vegna efnistökunnar. Efnistaka væri áætluð á átta svæðum í ánni, en svæðin hefðu verið tilgreind sem efnistökusvæði í drögum að aðalskipulagi Hörgársveitar sem væri í vinnslu. Sameignarfélagið væri því framkvæmdaraðili að allri efnistöku úr Hörgá og þverám hennar.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina, dags. 4. júlí 2015, kom fram að tilgangur framkvæmdarinnar væri að sporna við landbroti af völdum Hörgár. Ekki yrði sótt um framkvæmdaleyfi fyrir öllum efnistökusvæðunum á sama tíma og væri áætlað að meta árlega stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Áætlað hefði verið að hefja skipulagða efnistöku á þeim svæðum í ánni þar sem mest þörf væri á að skapa pláss fyrir flóðvatn í farveginum með það að markmiði að draga úr bakkarofi og þar með þörf fyrir annars konar og mjög kostnaðarsamar bakkavarnir, s.s. grjótvörn. Fjallað var stuttlega um hvert efnistökusvæði um sig í álitinu og kemur fram um svæði E-6, sem hið kærða leyfi varðar, að það sé í árfarvegi frá Laugalandi að Vöglum, á u.þ.b. 2,2 km svæði. Það sé á malarsvæði og í löndum jarðanna Krossastaða, Laugalands, Auðbrekku og Hólkots. Áætlað sé að taka 85.000 m3 á svæðinu sem sé á jaðri grannsvæðisverndar vatnsbóla. Á þessu svæði hafi á undanförnum árum verið mjög mikið bakkarof og farvegur árinnar breytist reglulega, en þar hafi landeigendur reynt ýmsar leiðir til að draga úr flóðahættu og landbroti.

Í áliti Skipulagsstofnunar var rakið að efnistaka gæti haft áhrif á eðli og þróun vatnsfalla. Efnistaka í og við ár sé vandasöm og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Botngerð ánna geti breyst og búsvæði laxfiska geti þannig raskast og haft neikvæð áhrif á veiði. Að mati sérfræðinga Veiðimálastofnunar sé óraunhæft að meta áhrif verkefnisins á veiði og lífríki á þessu stigi og almennt geti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum í ám. Hins vegar væri eðlilegt að stofnunin veitti ráðgjöf með heppilegustu útfærslu efnistöku á hverju framkvæmdasvæði fyrir sig, ef efnistaka á viðkomandi framkvæmdasvæði þætti nauðsynleg og framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Áhrif á veiði væru metin óviss, en staðbundin og afturkræf. Áhrif framkvæmdanna á veiði yltu alfarið á því hvernig lífríki ánna reiddi af. Ef tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg. Hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif, en um það væri nokkur óvissa. Í niðurstöðukafla álitsins var sagt að til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu.

Í álitinu var lögð áhersla á mikilvægi þess að efnistaka yrði unnin skipulega og yfir lengra tímabil, en fram kom að hún myndi vara í 20 ár. Var í því sambandi talið jákvætt að landeigendur hefðu sameinast um skipulag efnistökunnar, sem ætti að bæta skipulag hennar og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Meðal mótvægisaðgerða sem fjallað yrði um við útgáfu hvers framkvæmdaleyfis væri hvernig staðið yrði nánar að efnistökunni á hverjum stað. Þá kom fram að ekki yrði efnistaka á tímabilinu 1. maí til 30. september. Í niðurstöðum álitsins var gerð ábending um að nauðsynlegt væri að í aðalskipulagi Hörgársveitar yrði tekið á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti til að leggja línurnar um skipulag efnistöku í og við ána.

Hið kærða leyfi, sem er dags. 12. september 2022, er gefið út á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006. Í þeirri lagagrein er kveðið á um það að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif geti haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, sé háð leyfi Fiskistofu. Mælt er fyrir um hvaða gögn skuli fylgja umsókn um slíkt leyfi og er þar m.a. nefnd umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns.

Með leyfinu féllst Fiskistofa á að framkvæmdaraðili tæki allt að 85.000 m3 af malarefni á tveimur árum úr efnistökusvæði E6 við Hörgá. Fram kom að efnistakan skyldi fara fram utan veiðitíma árinnar og unnin í samráði við fiskifræðing til þess að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna árinnar. Seiðamælingar yrðu gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdin hæfist og að henni lokinni. Mælingar yrðu gerðar fyrir ofan, neðan og á framkvæmdasvæðinu. Þá fór Fiskistofa fram á að gerð yrði grein fyrir helstu niðurstöðum seiðarannsókna og niðurstöður yrðu síðan teknar saman í skýrslu að lokinni efnistökunni og hún send stofnuninni ekki síðar en 31. desember 2024.

Í hinu kærða leyfi kemur fram að Fiskistofa hafi litið til gagna sem fylgdu upphaflegri umsókn um leyfið og skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Með henni hafi fylgt upplýsingar um framkvæmdina og yfirlitsmynd af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum vegna efnistöku úr og við Hörgá, umsókn stjórnar Veiðifélags Hörgár og samþykki landeigenda. Þá lá fyrir umsögn sérfræðings í veiðimálum um hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríki veiðivatns skv. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006. Umsögnin er dags. 18. mars 2019 og var því tveggja ára gömul við útgáfu leyfisins, en á hinn bóginn höfðu engar framkvæmdir átt sér stað á framkvæmdasvæðinu þegar það var veitt. Til þess er einnig að líta að gert er ráð fyrir því í hinu kærða leyfi að fiskifræðingur verði til ráðuneytis um tilhögun framkvæmda. Þá verður ekki gerð athugasemd við það mat Fiskistofu að sá sem lét álitið í té verði talinn sérfræðingur á sviði veiðimála.

Í leyfinu er ítarleg endursögn á umsögn sérfræðingsins og er rakið að engar seiðamælingar séu til af svæðinu, þ.e. úr meginfarvegi Hörgár. Á hinn bóginn væru fyrirliggjandi mælingar um stöðuna talsvert neðar í ánni, með mjög lágum gildum og talsvert ofan við svæðið þar sem gildi séu hærri og fari hækkandi því ofar sem dragi í ánni. Mælingar úr þverám í nágrenni svæðisins, t.d. Krossastaðaá, sýni mikinn þéttleika, raunar þann mesta á öllu vatnasvæði Hörgár. Í ljósi þessa sé freistandi að álykta að efnistökusvæðið sé á mörkum þess að vera gott hrygningar/búsvæði fyrir bleikju. Rétt sé að hafa í huga að í Krossastaðaá sé mikill þéttleiki og gæti sá þéttleiki einnig verið í lænu er liggi samhliða Hörgá í framhaldi af Krossastaðaá. Þá lænu og aðra andspænis þurfi að skoða sérstaklega og bíða með framkvæmdir þar uns seiðamælingar hafi farið fram. Mögulega þurfi að friða þá farvegi algerlega. Samkvæmt veiðitölum (veiðisvæði 3) sé svæðið með lakari veiðisvæðum árinnar og hafi veiðin dalað mjög á svæðinu síðust ár. Á svæðinu hafi áin safnað nokkurri möl, farvegir hækkað og breyst á milli ára, við það hefur hætta á bakkarofi með flóðum á ræktarland aukist. Séu landeigendur uggandi og séu uppi hugmyndir um bakkavarnir með stórgrýti. Afleiðingar slíkra framkvæmda séu oftar en ekki þær að áin grafi sig í djúpan og hraðan stokk meðfram bakkavörn. Slíkir staðir hugnist bleikju ekki.

Fram kemur einnig að framkvæmdin geti haft nokkur áhrif á búsvæði fiska og seiðaframleiðslu vatnssvæðisins. Það sé þó álit sérfræðingsins að með ákveðnu verklagi, mótvægisaðgerðum og eftirfylgni, megi jafnvel gera þessa efnistöku jákvæða fyrir lífríki árinnar. Varast skuli að dýpka ánna mikið en leggja fremur áherslu á að breikka farveg hennar. Áhrifin verði svo metin með seiðamælingu, myndatöku og gögnum úr veiðibókum. Mælt sé auk þess með því að rask á farvegi árinnar fari fram utan veiðitíma, eins og hann sé ákveðinn af veiðifélagi árinnar ár hvert, en sé þó með öllu óheimilt í júlí til september. Efnistakan sjálf geti svo farið fram utan þess tíma, en þá ekki í farvegi árinnar.

Í hinu kærða leyfi kemur fram að aflað hafi verið umsagnar veiðifélags Hörgár og hafi stjórn félagsins ekki gert athugasemd við efnistökuna, en árétti að ekki skuli unnið við hana á veiðitíma í ánni nema með sérstöku samkomulagi við veiðifélagið.

Í leyfinu er á grundvelli umsagnar sérfræðingsins heimiluð allt að 85.000 m3 efnistaka á efnistökusvæðinu á tveimur árum. Kveðið er á um að hún skuli fara fram utan veiðitíma árinnar. Engin bein afstaða er tekin til ábendinga í umsögn sérfræðingsins um tilhögun framkvæmdar hvað snertir æskilegt verklag og mótvægisaðgerðir, en mælt fyrir um að gengið skuli snyrtilega frá svæðinu að framkvæmdum loknum. Kveðið er á um að efnistakan skuli fara fram í samráði við fiskifræðing til þess að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskstofna árinnar. Skuli seiðamælingar gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdin hefjist og að henni lokinni, sem verði fyrir ofan, neðan og á framkvæmdasvæðinu. Skuli Fiskistofu gerð grein fyrir helstu niðurstöðum seiðarannsókna og niðurstöður teknar saman í skýrslu að lokinni efnistökunni sem send verði stofnuninni ekki síðar en 31. desember 2024. Loks er í leyfinu m.a. bent á að framkvæmdir við veiðivötn kunni að vera háðar framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags.

Í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 er mælt fyrir um það að ef sérstök ástæða þyki til geti Fiskistofa krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi til framkvæmdar er veitt. Fiskistofa geti í slíkum tilvikum kveðið nánar á um til hvaða þátta úttektin skuli ná. Í lögskýringargögnum kemur fram að ákvæðið feli í sér almenna skyldu til að standa þannig að framkvæmd við veiðivatn að ávallt liggi fyrir hver áhrif framkvæmdin kunni að hafa á þá þætti sem ráða afkomu fiskstofna vatnsins. Niðurstaða hinnar líffræðilegu úttektar geti leitt til þess að ekki verði fallist á framkvæmdina, þótt sá er hennar óski hafi aflað sér jákvæðra álita annarra umsagnaraðila, að því er segir í frumvarpi er varð að lögum nr. 60/2006 (þskj. 891, 132. löggjþ.). Með þessu er gert ráð fyrir einskonar þröskuldsviðmiðun, þannig að álíti Fiskistofa að umtalsverð áhrif geti orðið af framkvæmd á fiskigengd veiðivatns, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, geti verið skilyrði til þess, til rannsóknar máls sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, að afla líffræðilegrar úttektar. Skal þá slík úttekt greidd af þeim sem óskar leyfis til framkvæmdanna, sbr. 4. mgr. 33. gr. laganna. Með þessum fyrirmælum er ekki fjallað um hvaða þýðingu það hafi ef fyrir liggur skýrsla um umhverfismat framkvæmdar, en eðlilegt virðist að efni hennar geti haft þýðingu um hvort krafist verði sérstakrar úttektar samkvæmt þessari lagagrein.

Svo sem að framan greinir telst hið kærða leyfi til leyfis til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 106/2000. Af því leiðir að Fiskistofu var skylt við undirbúning leyfisins að byggja á 2. og 3. mgr. 13. gr. þeirra laga þar sem kveðið var á um að við útgáfu slíks leyfis skyldi leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Það er ljóst af hinu kærða leyfi að þessa var ekki gætt. Þar kemur að vísu fram að skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hafi verið meðal gagna sem litið hafi verið til og fylgt hafi upphaflegri umsókn um framkvæmdina, en í engu er getið álits Skipulagsstofnunar. Þess í stað er í leyfinu aðeins fjallað um álit sérfræðings í veiðimálum og tillaga hans lögð grundvallar niðurstöðu. Með þessu vék undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar frá mikilvægum skilyrðum laga og verður því að fella hið kærða leyfi úr gildi.

Framangreindu til viðbótar bendir úrskurðarnefndin á að ekki verði séð að við undirbúning og veitingu hinna kærðu leyfa hafi verið tekin afstaða til framkvæmdanna á grundvelli laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en samkvæmt þeim er skylt að vernda yfirborðsvatnshlot og tryggja að ástand þeirra versni ekki.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

143/2022 Efnistaka úr námu í Almannaskarði

Með

Árið 2023, 15. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Þorsteinn Sæmundsson jarðfræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 143/2022, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. nóvember 2022 um að efnistaka í Almannaskarði í Sveitarfélaginu Hornafirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 16. desember 2022, er barst nefndinni sama dag, kæra A og Litlahorn ehf., þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. nóvember 2022 að efnistaka í Almannaskarði í Sveitarfélaginu Hornafirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 18. og 30. janúar 2023.

Málavextir: Hinn 26. september 2022 barst Skipulagsstofnun tilkynning frá kæranda, Litlahorni ehf., um fyrirhugaða efnistöku úr námu norðan við gamla þjóðveginn yfir Almannaskarð í Hornafirði, samkvæmt 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. lið 2.02 í viðauka laganna.

Í greinargerð sem fylgdi tilkynningunni kemur fram að í fyrirhugaðri framkvæmd felist framhald efnistöku úr námunni, en heildarmagn efnis sem þegar hafi verið unnið á síðast­liðnum 25 árum, sé í kringum 200.000–250.000 m3. Þegar raskað svæði sé um þrír hektarar og í 40–60 m hæð fyrir ofan veginn um Almannaskarð og nái það upp að klettabrún í tæplega 300 m hæð þar sem hæst sé. Gert sé ráð fyrir að vinnsla næstu 20 ára geti orðið allt að 20.000 m3 á ári og heildarvinnsla gæti orðið allt að 400.000 m3 verði eftirspurn eftir fyllingar- og vegagerðarefni á svæðinu. Áhrifasvæði í skriðunni muni stækka úr um 25.000 m2 í 75.000 m2 vegna fyrirhugaðrar efnistöku. Þá verði áhrif efnistökunnar mest neðan til í námunni, en auk þess muni efni ofan við efnistökusvæðið skríða niður þegar bratti skriðunnar verði meiri svo áhrifanna muni einnig gæta upp að klettabeltinu.

Helstu áhrif framkvæmdarinnar séu sjónræn þar sem grafið verði 40–50 m inn í skriðu­fótinn ofan við veginn. Áhrif þessa verði þau að efnið ofan við veginn skríði niður og sá hluti skriðunnar sem verði á hreyfingu muni stinga í stúf við þann hluta sem hreyfist minna. Ekki verði séð að efnistakan muni hafa áhrif á vatn, jarðveg eða líffræðilega fjölbreytni umhverfisins, sbr. 1. og 3. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021. Fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir snúi einkum að því að draga úr sjónrænum áhrifum framkvæmdarinnar á verktíma með því að snyrtilega verði gengið um svæðið og efnishaugar verði að mestu innan við innri brún vegar eftir því sem við verði komið. Fyrirhugað sé að ganga frá efri kanti námunnar á næstu tveimur árum þannig að hann falli sem best að umhverfinu með því að jafna hann niður. Við lokafrágang námunnar verði neðri kanturinn jafnaður með sama hætti til að draga úr sjónrænum áhrifum vinnslunnar svo svæðið fái svipaða ásýnd og aðrir hlutar skriðunnar með tímanum.

Við meðferð málsins leitaði Skipulagsstofnun umsagna Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar. Umsagnir bárust í september og október 2022. Í umsögnum Sveitarfélagsins Hornafjarðar og Minjastofnunar kemur fram að þau telji framkvæmdina ekki háða umhverfismati. Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Austurlands er ekki tekin afstaða til matsskyldu, en bent á að aldrei hafi verið gefið út starfsleyfi vegna starfseminnar þótt efnistaka hafi lengi farið fram. Fram kemur í umsögn Vega­gerðarinnar að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni í greinargerð kæranda, en leiðin um Almannaskarð hafi verið notuð fyrir undanþágu­akstur með farm sem ekki komist í göngin og leiðin sé jafnframt mikilvæg fyrir neyðarakstur í þeim tilvikum sem loka þurfi göngunum.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar, dags. 24. október 2022, segir að nægjanlega sé gerð grein fyrir framkvæmdinni og umhverfi hennar í greinargerð kæranda. Hins vegar sé of lítið gert úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Þá séu fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir óljósar og ólíklegt að þær dugi til að draga úr umhverfisáhrifum. Bendir stofnunin á að efnistaka úr skriðum sé almennt óæskileg þar sem hún geti haft veruleg sjónræn áhrif í landslagi og verið til mikilla lýta á umhverfinu. Forðast ætti efnistöku úr skriðum eins og kostur sé og ekki vera með námur í skriðum á áberandi stöðum í fallegu landslagi. Sérstaklega sé varhuga­vert að fara með námur djúpt inn í skriðufótinn þar sem það raski jafnvægi skriðunnar og geti valdið hruni úr efri hluta skriðunnar og klettum fyrir ofan þar sem stuðningur við þá minnki. Þá telur stofnunin að náman verði áfram lýti á landslagi a.m.k. næstu 20 ár og ef til vill lengur verði af fyrirhuguð framkvæmdum. Að mati stofnunarinnar eigi að hætta efnistöku og ganga frá svæðinu.

Í umsögn Umhverfisstofnunar, dags. 13. október 2022, kemur fram að við gerð Almanna­skarðs­ganga hefði efnistaka hafist á svæðinu án þess að hún hefði fengið formlega meðferð. Fallegar og litríkar skriður setji glæsilegan svip á landslagið á svæðinu og að mati stofnunarinnar eigi ekki að taka efni úr skriðunni sem muni verða til lýta um alla framtíð. Telur stofnunin að um óafturkræfa framkvæmd sé að ræða og möguleikar um mótvægis­aðgerðir fáir sem engir. Framkvæmdin muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og leita ætti leiða til að hindra frekari spjöll á svæðinu. Þá er í umsögnum Náttúrufræði­stofnunar og Umhverfis­stofnunar bent á að náman í Almannaskarði sé tekin sem dæmi á vefsíðunni www.namur.is um námutöku úr skriðu í fallegu umhverfi sem mikil lýti séu af og nær ómögulegt sé að ganga frá svo vel fari.

Kæranda var gefinn kostur á að koma að athugasemdum vegna umsagna og bárust þær með bréfi, dags. 4. nóvember 2022. Vegna umsagna Umhverfisstofnunar og Náttúru­fræði­stofnunar kemur þar fram að grafið hefði verið nokkuð djúpt inn í skriðuna að vestanverðu, en til að hægt sé að ganga frá námunni á sómasamlegan hátt gæti reynst nauðsynlegt að fjarlægja efnið úr þeim hluta skriðunnar og jafna þykkt hennar. Einnig kæmi til greina að vinna skriðuna inn að berginu líkt og gert hefði verið efst og austast í skriðunni. Þá bendir kærandi á að fáist ekki leyfi til áframhaldandi efnistöku verði efni til mannvirkja­gerðar á svæðinu að koma úr öðrum eða nýjum námum. Tekur kærandi undir þau sjónarmið að sjónræn áhrif efnisvinnslunnar í Almannaskarði séu nokkur og verði það áfram verði efnisvinnslu hætt og náman skilin eftir í núverandi ástandi.

Til að bæta fyrir þau sjónrænu áhrif sem þar hafi verið unnin verði hins vegar ekki komist hjá því að stækka efnistökusvæðið, til vesturs og/eða austurs, þannig að jafnvægi fáist á skriðuna yfir stærra svæði. Sé vandað til þess verks eigi að vera hægt að forma skriðuna þannig að ekki verði verulegt lýti af henni til lengri tíma litið. Hugsanlega mætti ná þessu með 100.000–200.000 m3 efnisvinnslu á næstu 10–15 árum og endurmeta stöðuna að þeim tíma liðnum. Hvort þetta náist sé háð því að markaður sé fyrir efnið hjá framkvæmdaraðilum sem standi að vegagerð og annarri mannvirkjagerð á svæðinu sem krefjist fyllingar-, styrktar- og burðarefna. Bendir kærandi einnig á að skriðan vestan við Almannaskarð sé löng og samfelld og talsverður breytileiki í litum skriðunnar. Efnistaka á afmörkuðum svæðum í skriðunni breyti ekki að marki þeirri ásýnd skriðunnar og sé þess gætt að ganga vel um efnistökusvæðin á meðan vinnslu stendur hljóti sjónræn áhrif að teljast innan ásættanlegra marka.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdarinnar lá fyrir 11. nóvember 2022. Kemur fram í henni að við mat á því hvort tilkynningarskyld framkvæmd skuli háð umhverfismati skuli taka mið af eðli og staðsetningu framkvæmdar sem og gerð og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar, sbr. 1.–3. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021. Benti stofnunin á að fyrirhuguð efnistaka sé mikil að umfangi og hún muni valda raski á stóru svæði upp eftir skriðunni. Að mati stofnunarinnar muni framkvæmdin hafa bein neikvæð, varanleg og óafturkræf áhrif á þær jarðmyndanir sem efni verði numið úr, sem og þær landslagsheildir sem einkenni svæðið. Þá muni rask vegna efnistökunnar koma til með að bætast við rask sem þegar hefði orðið vegna efnistöku. Tekur stofnunin undir með Náttúrufræði­stofnun og Umhverfisstofnun að fyrirhugaðar mótvægis­aðgerðir kæranda séu óljósar og möguleikar takmarkaðir til að beita slíkum aðgerðum.

Var niðurstaða Skipulagsstofnunar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna kynni fyrirhuguð framkvæmd að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. þau viðmið sem tilgreind væru í 2. viðauka laga nr. 111/2021. Skyldi hún því háð mati á umhverfisáhrifum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda kemur fram að náma í Almannaskarði hafi lengi verið opin og staðsetning hennar sé heppileg fyrir nærliggjandi þéttbýli, nýja vegi og brýr í sveitarfélaginu. Framkvæmdin sé í eðli sínu framhald af fyrri framkvæmd og hafi þau áhrif að ekki sé þörf á að opna ný efnistökusvæði á öðrum svæðum sem myndu hafa í för með sér verulega neikvæð umhverfisáhrif. Fyrirhugaðar framkvæmdir muni að hluta fara fram á óröskuðu svæði, en að mestu leyti á þegar röskuðu svæði. Um samlegðaráhrif verði að ræða með þeirri röskun sem þegar hafi átt sér stað á svæðinu. Ekki sé líklegt að frekari landmótun muni breyta verulega ásýnd svæðisins, heldur muni vandaður frágangur að framkvæmd lokinni geta bætt yfirbragð svæðisins og gert það minna áberandi en það sé í dag. Útkantur námunnar að vestanverðu sé í dag meira áberandi en auðvelt sé að draga verulega úr sjónrænum áhrifum.

Fyrirhuguð efnistaka sé nokkuð umfangsmikil og hafi það markmið að nýta jarðefni í sveitar­félaginu til mannvirkjagerðar. Mörg og fjölbreytt efnistökusvæði séu nauðsynleg vegna langra vegalengda innan sveitarfélagsins. Þá sé efnisþörf mikil og fyrirséð að hún verði það áfram vegna umfangsmikilla framkvæmda við Hringveg 1 og nýjar brýr í sveitarfélaginu sem og byggingarframkvæmda. Markmið framkvæmdar­innar sé í samræmi við stefnu Aðalskipu­lags Horna­fjarðar 2012–2030.

Fyrirhuguð framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, sbr. viðmið í 2. viðauka við lög nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, og því eigi hún ekki að vera háð umhverfismati. Hvað varði stærð og fjölda þeirra sem verði fyrir áhrifum af framkvæmdinni séu umhverfisáhrif efnistökunnar óveruleg. Hingað til hafi efnistaka í Almannaskarði ekki hamlað fólki að ganga upp gamla veginn, en það sé sá hópur sem verði líklega fyrir mestum sjónrænum áhrifum þar sem efnistökusvæðið sjáist best frá gamla veginum. Þá muni fyrirhuguð framkvæmd ekki hafa áhrif á íbúa og heilbrigði manna þar sem framkvæmdin sé staðsett á svæði þar sem engin mannabyggð eða mannabústaðir séu fyrir hendi. Ekki verði heldur nein áhrif af efnistökunni á umferð á Þjóðvegi 1. Enn fremur stafi engin hætta á mengun grunnvatns, vatnsbóla eða annarra náttúrusvæða af framkvæmdinni og hverfandi líkur séu á hættu á stórslysum og/eða náttúruhamförum af völdum hennar. Hvað varði eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar séu þau óveruleg fyrir svæðið, fólkið sem fari um svæðið, hvort heldur gangandi eða akandi, og óafturkræfi áhrifa. Aðstæður á svæðinu öllu geri mönnum kleift að færa landslagið og landmótunina aftur til fyrra horfs að miklu leyti.

Staðsetning framkvæmdarinnar sé ákjósanleg þegar litið sé til þess að svæðinu sé þegar raskað, engin vistkerfi í hættu og engin byggð í nánasta umhverfi svæðisins. Æskilegt sé að taka eins mikið efni á hverjum stað í stað þess að opna nýjar námur. Framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun og skipulagsáætlanir á svæðinu. Í aðalskipulagi Hornafjarðar sé ekki gert ráð fyrir uppbyggingu á svæðinu eða breyttri landnotkun. Engar fornleifar séu á svæðinu og engin vernd svo vitað sé, hvorki á grundvelli skipulagsreglugerðar né samþykktum alþjóðlegra samninga sem Ísland sé bundið af. Því sé fyrirhuguð efnistaka til þess fallin að stuðla að hagkvæmri nýtingu lands og landsgæða. Einnig muni framkvæmdin ekki hafa í för með sér röskun á vistkerfum, fossum, vatnsfarvegi, stöðuvötnum, leirum, sjávarfitjum, fuglalífi eða lífi og heilsu þeirra sem kjósi að ganga upp Almannaskarð.

Framkvæmdasvæðið njóti ekki verndar á grundvelli laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Þá muni framkvæmdin ekki hafa áhrif á verndarsvæði sem liggi langt frá framkvæmdasvæðinu, s.s. Skarðsfjörð og fjalllendið sunnan Skarðsdals. Fjarstæðukennt sé að halda því fram að framkvæmdin muni með einhverjum hætti hafa áhrif á leirar, sjávarfitjar, lífríki og fuglalíf í Skarðsfirði. Fegurð og verndargildi fjarðarins muni enn fremur ekki minnka verði af efnistökunni. Áhrif af framkvæmdinni á jarðmyndanir verði varanleg en bundin við tiltölulega afmarkað svæði.

Í hinni kærðu ákvörðun komi fram að efnistaka úr skriðu raski jafnvægi hennar og afleiðingar þess séu brattari skriða með óstöðugum bergbrotum sem hrynji af og til áratugum eftir að efnistöku sé hætt. Einfalt sé að bregðast við áhyggjum Skipulagsstofnunar með mótvægisaðgerðum. Leyfisveitanda, og eftir atvikum Skipulagsstofnun, sé heimilt að setja skilyrði fyrir útgáfu framkvæmdaleyfis sem hafi það að markmiði að takmarka spjöll á náttúrunni vegna framkvæmdarinnar, t.d. um áfangaskiptingu til að tryggja að mörk framkvæmdasvæðisins fylgi landformum nánast umhverfis á hverjum tíma. Mótvægisaðgerðir séu raunhæfar og til þess fallnar að draga verulega úr sjónrænum áhrifum námunnar. Með því að jafna niður vesturkant námunnar, sem sé í dag helsta sjónmengunin, verði náman lítt áberandi frá láglendi og Þjóðvegi 1. Líta beri til þess að mikil litbrigði séu á svæðinu en það auðveldi allan frágang námunnar að því leyti að mislit skriðan sé minna áberandi en ella. Sem dæmi um vel heppnaðar mótvægisaðgerðir megi nefna Hvalnesnámu. Þótt efnistaka hafi ekki verið mikil þar sé sjónmengun af námunni talsverð. Með vönduðum frágangi hafi ummerki um námustall verið að mestu horfin og námusvæðið falli vel að skriðunni þó svo að litamunur sé nokkur.

Með hliðsjón af mögulegum mótvægisaðgerðum, meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og réttmætra væntinga kæranda hefði Skipulagsstofnun átt að leggja til við leyfisveitanda að framkvæmdinni yrðu sett skýr og afmörkuð skilyrði um frágang námunnar að frágangi loknum í stað þess að krefjast umhverfismats vegna framkvæmdarinnar. Þá hefði Skipulagsstofnun borið að óska eftir frekari og nánari lýsingum á mótvægisaðgerðum hafi þær vantað í gögn kæranda. Eðlilegt og sanngjarnt hefði verið að gefa kæranda kost á að útfæra tillögur sínar nánar og gera betur grein fyrir þeim þannig að þær væru skýrar og líklegar til að skila árangri.

 Málsrök Skipulagsstofnunar: Helsta röksemd stofnunarinnar er sú að hin fyrirhugaða efnistaka sé mikil að umfangi og muni valda raski á stóru svæði upp eftir skriðunni. Þar sem efnistakan fari fram neðst úr skriðunni verði hún brattari og óstöðugri og fyrir vikið muni hrynja úr þeim hluta skriðunnar sem sé ofan við efnistökusvæðið. Hrunið verði allan þann tíma sem framkvæmdin standi yfir og líklega lengur. Þá sé stærstur hluti skriðanna í Almannaskarði ógróinn, en það bendi til þess að einhver hreyfing sé á efninu án þess að efni sé tekið úr skriðunni. Skriðan sé því mjög vökur án þess að mokað sé úr henni.

Mikil sjónræn áhrif og áhrif á landslag hafi orðið vegna fyrri efnistöku, en fyrirhuguð efnistaka muni stækka áhrifasvæðið. Ekki verði séð að sá frágangur sem kærandi fjalli um geti bætt yfirbragð svæðisins. Með hliðsjón af umsögnum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Umhverfisstofnunar sé ekki hægt að taka undir röksemdir kæranda um að mótvægisaðgerðir séu raunhæfar. Meðalhófsregla stjórnsýsluréttar og réttmætar væntingar kæranda breyti engu í því sambandi. Skipulagsstofnun hafi ekki talið þörf á því að óska eftir frekari upplýsingum um mótvægisaðgerðir í ljósi afstöðu fyrrnefndra stofnana. Þá hafi kærandi ekki lagt fram gögn sem sýni hvernig Hvalnesnáma muni nýtast sem fyrirmynd fyrir frágang í Almannaskarðsnámu. Af myndum af fyrrnefndu námunni megi sjá að umfang hennar sé mun minna og annars konar efni í henni heldur en í Almannaskarðsnámu. Þá megi sjá gróskumikla gróðurtorfu sem teygi sig upp með Hvalnesnámu en það bendi til þess að mun stöðugra efni sé að ræða heldur en í Almannaskarði. Auk þess virðist vera minni bratti á því svæði.

Flest bendi til þess að fyrirhuguð framkvæmd komi til með að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Kæranda hafi ekki tekist að sýna fram á að unnt sé að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum með trúverðugum mótvægisaðgerðum. Þvert á móti séu tiltekin dæmi um frágang náma úr skriðum sem ekki séu sambærilegar. Tilgangur umhverfismats framkvæmda sé að leiða í ljós hver ætluð eða líkleg umhverfisáhrif verði. Með hliðsjón af því sé ljóst að fram geti komið upplýsingar í ferlinu sem leiði til þess að Skipulagsstofnun setji fram í niðurstöðu sinni um umhverfismatið skilyrði um mótvægisaðgerðir og vöktun sem beint sé til leyfisveitanda. Umhverfismatið sé mikilvægt stjórntæki sem leggi grundvöll að ákvörðunar­­töku hjá stjórnvöldum sem þurfi að taka afstöðu til þess hvort veita eigi leyfi fyrir fyrirhugaðri framkvæmd eða breytingu á framkvæmdinni.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. nóvember 2022 að efnistaka allt að 400.000 m3 úr námu í Almannaskarði í Sveitarfélaginu Hornafirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 16. desember 2022, eða fimm vikum eftir kærufrestur hófst. Fjallað er um kærur sem berast að liðnum kærufresti í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. tölul. nefndrar greinar kemur fram að vísa skuli kæru frá hafi hún borist að liðnum kærufresti nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr. Þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega og rökstuðningur fylgir ákvörðun skal m.a. veita leiðbeiningar um kæruheimild og kærufresti, sbr. 3. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga. Í hinni kærðu ákvörðun er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar tilgreindur til 16. desember 2022 og verður því að telja afsakanlegt í skilningi 1. tölul. 28. gr. stjórnsýslulaga að kæra hafi borist úrskurðar­nefndinni eftir að kærufresti lauk. Verður kæran því tekin til efnismeðferðar.

Fyrirhuguð framkvæmd var tilkynnt til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um matsskyldu skv. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana sem framkvæmdir í flokki B, sbr. lið 2.02 í 1. viðauka við lögin. Skulu tilkynningarskyldar framkvæmdir sem tilgreindar eru í flokki B háðar umhverfismati þegar þær eru taldar líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar skv. 2. viðauka við lögin. Í tilkynningu skal framkvæmdaraðili leggja fram upplýsingar um framkvæmdina og líkleg umtalsverð umhverfisáhrif hennar. Skal hann, þar sem við á, taka tillit til fyrirliggjandi niðurstaðna um umhverfismat framkvæmdarinnar og leggja fram, þar sem við á, upplýsingar um fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir, sbr. 2. mgr. 19. gr. laganna. Í 20. gr. laga nr. 111/2021 er mælt fyrir um að Skipulagsstofnun skuli innan sjö vikna frá því að fullnægjandi gögn berast um framkvæmdina taka ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð umhverfismati samkvæmt lögunum. Áður skal stofnunin leita umsagnar umsagnaraðila eftir því sem við á hverju sinni. Þá skal Skipulagsstofnun gera hlutaðeigandi grein fyrir niðurstöðu sinni og hafa hana aðgengilega á netinu.

Löggjafinn hefur ákveðið að ávallt skuli fara fram umhverfismat vegna efnistöku þar sem áætlað er að raska 25 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 500.000 m3, sbr. tölul. 2.01 í 1. viðauka við lög nr. 111/2021. Hins vegar verði metið hverju sinni hvort efnistaka þar sem áætlað er að raska 2,5 ha svæði eða stærra eða efnismagn er 50.000 m3 eða meira sé líkleg til að hafa í för með sér svo umtalsverð umhverfisáhrif að umhverfismat þurfi að fara fram, sbr. tölul. 2.02 viðaukans. Ber við það mat að líta til þeirra viðmiða sem fram koma í 2. viðauka laganna og lúta að eðli framkvæmdar og staðsetningu, auk gerðar og eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdarinnar. Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðun snýst um hvert þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.–3. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021 vegi þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Þegar það er metið verður að miða við þá tilhögun framkvæmdar sem kynnt er og leggja mat á það hvort framkvæmdin, svo sem hún er fyrirhuguð, sé líkleg til þess að valda umtalsverðum umhverfisáhrifum.

Hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar um að þeir þættir sem falla undir eðli framkvæmdar­innar, staðsetningu eða eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar væru með þeim hætti að þeir kölluðu á að framkvæmdin undirgengist umhverfismat, skiptist í nokkra kafla. Fyrirhugaðri framkvæmd er lýst, auk þess sem fjallað er um umhverfisáhrif hennar eins og þeim er lýst af kæranda og um afstöðu umsagnaraðila. Þá er í ákvörðuninni einnig vikið að skipulagi á svæðinu og leyfum sem framkvæmdin er háð. Í niðurstöðukafla fjallar stofnunin um eðli framkvæmdarinnar og staðsetningu auk þess að fjalla um eiginleika hugsanlegra áhrifa framkvæmdar.

Hvað varðar eðli framkvæmdar rekur Skipulagsstofnun í ákvörðun sinni að taka skuli mið af atriðum svo sem stærð og umfangi framkvæmdar, samlegðar með öðrum framkvæmdum og nýtingar náttúruauðlinda, sbr. 1. tölul. 2. viðauka laga nr. 111/2021. Bendir stofnunin á að um umfangsmikla efnistöku sé að ræða. Þar sem efnistaka komi til með að fara fram neðst í skriðunni megi gera ráð fyrir að hún komi til með að valda raski á stóru svæði upp eftir skriðunni. Um staðsetningu framkvæmdarinnar vísar stofnunin til þess að líta skuli til hversu viðkvæm þau svæði séu sem líklegt er að framkvæmd hafi áhrif á, svo sem með tilliti til magns og getu náttúruauðlinda til endurnýjunar. Einnig beri að líta til sérstæðra jarðmyndana og landslagsheilda, sbr. 2. tölul. 2. viðauka fyrrnefndra laga. Fram kemur að framkvæmdasvæðið sé í innan við 150 metra fjarlægð frá Þjóðvegi 1, rétt við gangnamuna Almannaskarðsganga. Þá sé gamli þjóðvegurinn, sem náman standi við, vinsæl gönguleið. Framkvæmdasvæðið njóti ekki verndar og skriður, líkt og taka eigi efnið úr, njóti ekki verndar á grundvelli laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Bendir Skipulagsstofnun á að svæði á náttúruminjaskrá séu í mikilli nálægð við framkvæmdasvæðið, þ.e. fjalllendið sunnan Skarðsdals sem njóti verndar á grundvelli fagurs fjalllendis með margvíslegum bergtegundum, auk þess sem Skarðsdalur njóti verndar vegna lífauðugra leira og grunnsævis með miklu fuglalífi. Tekur stofnunin fram að framkvæmdin hafi ekki bein áhrif á þau verndarsvæði en hún hafi bein neikvæð, varanleg og óafturkræf áhrif á þær jarðmyndanir sem efni verði numið úr, sem og þær landslagsheildir sem einkenni svæðið.

Skipulagsstofnun bendir einnig á að áhrif framkvæmdar beri að skoða í ljósi eðlis og staðsetningar hennar, svo sem með tilliti til umfangs áhrifa, t.d. með tilliti til stærðar svæðis eða fjölda fólks sem verði líklega fyrir áhrifum, eðlis, styrks og fjölbreytileika áhrifa, hverjar líkur séu á áhrifum, tímalengdar, tíðni og afturkræfni áhrifa, samlegðaráhrifa með áhrifum annarra framkvæmda og möguleika á að draga úr áhrifum, sbr. 3. tölul. 2. viðauka laganna. Fram kemur að rask vegna efnistökunnar muni koma til með að bætast við það sem rask sem þegar hefði orðið vegna þeirrar efnistöku sem átt hafi sér stað. Að mati stofnunarinnar hafi sú efnistaka leitt til umfangsmikilla sjónrænna áhrifa og áhrifa á landslag. Frekari efnistaka sé líkleg til að stækka svæðið þar sem óafturkræfra áhrifa gæti og auka þau verulega. Bendir stofnunin á að efnistaka úr skriðu raski jafnvægi hennar og skriðan verði brattari fyrir vikið með óstöðugum bergbrotum sem hrynji af og til árum, og jafnvel áratugum, eftir að efnistöku sé hætt. Vegna staðsetningar efnistökunnar sé líklegt að margt fólk verði fyrir áhrifum af henni, hvort sem um göngufólk sé að ræða eða fólk sem eigi leið um Þjóðveg 1. Þá séu fyrirhugaðar mótvægisaðgerðir kæranda óljósar og möguleikar til að beita slíkum aðgerðum séu takmarkaðir.

Við undirbúning ákvörðunarinnar aflaði Skipulagsstofnun umsagna Sveitarfélagsins Hornafjarðar, Heilbrigðiseftirlits Austurlands, Minjastofnunar Íslands, Náttúrufræðistofnunar Íslands, Umhverfisstofnunar og Vegagerðarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. laga nr. 111/2021, sbr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Gafst kæranda tækifæri til andsvara. Fjallaði Skipulagsstofnun um og tók afstöðu til þessara umsagna. Er í þessu sambandi rétt að árétta að þótt Skipulags­stofnun sé ekki bundin af þeim umsögnum sem hún aflar frá sérfræðistofnunum við lögbundna meðferð máls er henni heimilt að vísa þeirra umsagna til stuðnings niðurstöðu sinni.

Við mat á því hvort framkvæmd sem kann að vera háð umhverfismati skuli sæta slíku mati verður að gera þá kröfu að fyrir liggi nægar upplýsingar miðað við aðstæður til að hægt sé að komast að niðurstöðu um hvort framkvæmdin geti haft í för með sér umtalsverð áhrif. Þá verður að gera meiri kröfur um upplýsingar um fyrirhugaða framkvæmd og frágang eftir því sem staðhættir gefa tilefni til. Líkt og að framan greinir var hin kærða ákvörðun studd þeim rökum að fyrirhuguð framkvæmd muni hafa bein neikvæð, varanleg og óafturkræf áhrif á jarðmyndanir og landlagsheildir sem séu einkennandi fyrir svæðið. Frekari efnistaka muni auka verulega sjónræn áhrif þeirrar efnistöku sem þegar hefði farið fram og stækka áhrifasvæðið. Vegna staðsetningar framkvæmdarinnar sé líklegt að margir verði fyrir áhrifum af henni. Enn fremur vísaði Skipulagsstofnun til þess að vafi léki á því hvort raunhæft væri að beita þeim mótvægisaðgerðum sem kærandi gerði grein fyrir og hvort þær myndu skila tilætluðum árangri.

Með hliðsjón af öllu framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að Skipulags­stofnun hafi séð til þess að málið væri nægjanlega upplýst áður en hún tók hina kærðu matsskylduákvörðun, lagt viðunandi mat á efni málsins og rökstutt niðurstöðu sína með ásættanlegum hætti. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 11. nóvember 2022 um að efnistaka í Almannaskarði í Sveitarfélaginu Hornafirði skuli háð mati á umhverfisáhrifum.

61/2023 Efnistaka úr Hörgá

Með

Árið 2023, föstudaginn 26. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 61/2023, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 að veita leyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist á réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu 22. maí 2023.

Málavextir: Hinn 11. apríl 2019 veitti Fiskistofa framkvæmdaraðila leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit, fyrir allt að 85.000 m3. Gildistími leyfisins var til 12. apríl 2020. Sveitarfélagið mun ekki hafa veitt framkvæmdaleyfi og fór efnistaka því ekki fram. Fiskistofa veitti aftur leyfi 18. nóvember 2020 og gilti það til 1. október 2022. Framkvæmdir munu ekki hafa farið fram og óskaði framkvæmdaraðili eftir því að leyfið yrði framlengt. Fiskistofa veitti leyfi að nýju 12. september 2022 á grundvelli sömu forsendna og fyrri leyfi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun brjóti gegn ákvæðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana en um kæruheimild fari samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Í hinni kærðu ákvörðun komi skýrt fram að í engu hafi verið gætt að því sem sjávarútvegsfræðingur hafi mælt með í byrjun árs 2019, og þá hafi heldur ekki verið aflað uppfærðra upplýsinga frá þeim sérfræðingi, þótt tvö og hálft ár hafi liðið frá því að fyrri greinargerð hans lá fyrir. Allar efnis- og formreglur hafi verið brotnar við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök Fiskistofu: Af hálfu Fiskistofu er vísað til þess að stofnuninni hafi ekki þótt tilefni til þess að afla uppfærðra upplýsinga frá sérfræðingi á sviði veiðimála fyrir útgáfu leyfisins frá 12. september 2022. Efnistakan hafi tekið til sama magns og engin efnistaka hefði farið fram á svæðinu á grundvelli fyrri leyfa. Stofnunin hefði ekki krafist þess að framkvæmdaraðili léti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi hafi verið veitt, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þess í stað hefði verið kveðið á um að efnistakan yrði unnin í samráði við fiskifræðing til að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna árinnar.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um gildi ákvörðunar Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er efnistöku á svæðinu lokið á þessu efnistökutímabili. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vegna ákvörðunar Fiskistofu um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

53/2023 Efnistaka úr Hörgsá

Með

Árið 2023, föstudaginn 26. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 53/2023, kæra á ákvörðun sveitastjórnar Hörgársveitar frá 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 27. ágúst 2020 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 5. og 11. maí 2023.

Málavextir: Í apríl 2015 fór fram umhverfismat framkvæmdar fyrir allt að 795.000 m3 efnistöku úr Hörgá, Fossá og Öxnadalsá. Álit Skipulagsstofnunar lá fyrir 4. júní 2015. Kemur m.a. þar fram að gert er ráð fyrir að tímabundin framkvæmdaleyfi verði gefin út yfir 20 ára tímabil í samræmi við áfangaskiptingu á grundvelli ráðgjafar fiskifræðinga. Gefin hafa verið út nokkur framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á mismunandi svæðum í Hörgá, en stöðvunarkafa í máli þessu varðar eingöngu framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti á fundi sínum 27. ágúst 2020 umsókn um framkvæmdaleyfi og var það gefið út með gildistíma til 1. október 2022, en ekki mun hafa orðið að framkvæmdum. Framkvæmdaraðili óskaði eftir framlengingu á leyfinu og gaf skipulagsfulltrúi út fram­kvæmda­leyfi 1. október 2022 með vísan til fyrri ákvörðunar sveitarstjórnar frá 27. ágúst 2020.

Málsrök kæranda: Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til framlagðra ljósmynda og bendir á að mikil og vel sýnileg efnistaka, rask og haugsöfnun hafi farið fram undanfarið í og við Hörgá, og sé enn yfirstandandi. Að loknu efnistökutímabili, 30. apríl 2023, hafi átt eftir að sækja efni úr geymslusvæðum við ána. Því fylgi áhætta vegna frekara álags og áhrifa á vatnsgæði viðkomandi vatnshlota, en ekki hafi verið gerð lögbundin athugun á þeim áhrifum. Miklir almannahagsmunir lífríkis og vatnsgæða séu undir í málinu. Frá því að kæra hafi verið send í máli þessu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 19. apríl 2023, þar til sveitarfélagið hafi skilað athugasemdum sínum, 5. maí 2023, hafi efnistaka sannanlega farið fram á efnistökusvæði 6. Á þessu tímabili hafi farvegur Hörgár verið fluttur í heild sinni á nokkurra hundruð metra kafla. Tjón á lífríki blasi við, svo sem lesa megi út frá mati á umhverfisáhrifum frá árinu 2015, þar með talinna umsagna Fiskistofu, Veiðimálastofnunar og Umhverfisstofnunar, og áliti Skipulagsstofnunar. Verði ekki fallist á stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni verði hagsmunir lífríkisins fyrir borð bornir.

Málsrök Hörgársveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að lagaskilyrði séu ekki uppfyllt fyrir stöðvunkröfu og henni beri að hafna. Ekki séu fyrir hendi ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir því að framkvæmdir verði stöðvaðar og vikið verði frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Ákvæði sem mæli fyrir undantekningum á þeirri meginreglu beri að skýra þröngt. Stöðvun framkvæmda geti falið í sér tjón fyrir framkvæmdaraðila og mikla röskun á því fyrirkomulagi sem sé til staðar varðandi efnistöku úr Hörgá. Þá sé stöðvun framkvæmda afar íþyngjandi inngrip í sjálfsstjórnarrétt sveitarfélags, ráðstöfunarheimild eiganda yfir landi sínu og eignarrétt þeirra sem eigi haugsett efni. Þar sem um sé að ræða hagsmuni sem njóti allir verndar ákvæða stjórnarskrárinnar beri að gera ríkar kröfur til þess að skilyrði séu uppfyllt til stöðvunar framkvæmdar.

Ljósmyndir sem kærandi hafi lagt fram sýni ekki efnistöku úr ánni, heldur flutning og frágang efnis sem þegar hafi verið tekið úr ánni. Efnistaka sé þegar óröskuðu efni sé mokað upp og tekið úr árfarvegi eða öðrum efnistökustað. Flutningur sé þegar efni, sem mokað hafi verið upp og þegar verið raskað, sé tekið og flutt til. Í máli þessu sé efnistaka heimil til 30. apríl 2023 og megi hún hefjast aftur 1. október 2023. Flutningur efnis sé heimill þess á milli, svo framarlega sem það valdi ekki gruggi í ánni og að uppfylltum öllum skilyrðum. Í byrjun maí 2023 hafi skipulags- og byggingarfulltrúi gert athugasemdir við framkvæmdaraðila um að efni stæði of nærri ánni miðað við ákvæði umhverfismats og að efnishaugar hafi staðið utan geymslusvæðis sem skilgreint sé á uppdrætti sem liggi leyfinu til grundvallar. Framkvæmdaraðili hafi sagst myndu bregðast við þegar í stað og telji sveitarfélagið að svo hafi verið gert. Verði ekki betur séð en að skurðgrafa sem sjáist á ljósmynd frá 5. maí 2023 sýni að framkvæmdaraðili hafi brugðist við þessum athugasemdum og myndin sýni flutning efnis frá ánni. Alltaf hafi legið fyrir að efninu yrði safnað upp í hauga. Um tímabundna sjónmengun sé að ræða, enda verði haugarnir fjarlægðir og efni tekið úr þeim til framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um gildi framkvæmdaleyfis vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá. Efnistökutímabili lauk 30. apríl 2023 og hefst það aftur 1. október 2023. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er efnistöku á svæðinu lokið og ljósmyndir þær sem lagðar hafa verið í fram í málinu sýni flutning á efni en ekki efnistöku. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá.

48, 23, 64, og 65/2019 Hvalárvirkjun

Með

Árið 2020, föstudaginn 22. maí, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 48/2019, kæra á ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 13. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag Hvalárvirkjunar vegna rannsókna og ákvörðun hreppsnefndar frá 12. júní s.á. um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júní 2019, er barst nefndinni 24. s.m., kæra nokkrir eigendur jarðarinnar Drangavíkur þá ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 13. mars 2019 að samþykkja deiliskipulag vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun og ákvörðun hreppsnefndar frá 12. júní s.á. að veita framkvæmdaleyfi fyrir  gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsins yrði frestað og að framkvæmdir á grundvelli framkvæmdaleyfisins yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. apríl 2019, er barst nefndinni sama dag, kæra nokkrir eigendur lóða úr landi Eyrar við Ingólfsfjörð og nokkrir eigendur jarðarinnar Seljaness fyrrgreinda ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 13. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag Hvalárvirkjunar vegna rannsókna. Krefjast kærendur þess að ákvörðunin verði felld úr gildi en til vara að viðurkennt verði að deiliskipulagið sé ógilt. Er það kærumál nr. 23/2019.

Með bréfi, dags. 15. júlí 2019, er barst nefndinni 16. s.m., kærir hluti eigenda jarðarinnar Seljaness áðurnefnda ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Einnig var með sama bréfi kærð ákvörðun hreppsnefndar frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi Ófeigsfjarðarvegar, en sá hluti málsins, sem er nr. 64/2019, var sameinaður kærumáli nr. 51/2019 og var kveðinn upp úrskurður í því 24. apríl 2020.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 15. júlí 2019, er barst nefndinni 16. s.m., kærir Fornasel ehf., eigandi jarðarinnar Dranga, áðurgreinda ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 12. júní 2019 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun. Gerð er krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Er það kærumál nr. 65/2019.

Þar sem um sömu ákvarðanir er að ræða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi verða kærumál nr. 23/2019, nr. 64/2019 að hluta og nr. 65/2019 sameinuð máli þessu.

Með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 19. júlí 2019 var stöðvunarkröfu kærenda hafnað sem og kröfu um frestun réttaráhrifa. Í kjölfar þess var farið fram á það við nefndina að hún endurskoðaði þá niðurstöðu sína, en síðar var fallið frá þeirri beiðni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Árneshreppi  27. maí 2019 og í júlí s.á. og 16. apríl 2020, en afgreiðslu málsins var frestað þar sem hinum kærðu ákvörðunum var jafnframt skotið til dómstóla af hluta eigenda Drangavíkur.

Málavextir: Fyrirhuguð Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði hefur sætt mati á umhverfisáhrifum og liggur fyrir álit Skipulagsstofnunar frá 3. apríl 2017 um það mat.

Hinn 18. október 2018 var birt í B-deild Stjórnartíðinda auglýsing um þá ákvörðun hreppsnefndar Árneshrepps frá 30. september s.á. að samþykkja deiliskipulag ásamt umhverfisskýrslu er tæki til hluta fyrirhugaðs virkjunarsvæðis Hvalár. Sætti ákvörðun hreppsnefndar kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem með úrskurði sínum 16. nóvember 2018, í máli nr. 57/2018, vísaði kærunni frá. Var niðurstaða nefndarinnar sú að hin kærða ákvörðun hefði verið ógild þegar auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birtist í B-deild Stjórnartíðinda þar sem auglýsingin hefði ekki birst innan lögbundins frests. Lægi því ekki fyrir gild ákvörðun er réttarverkan gæti haft að lögum.

Tillaga að deiliskipulagi Hvalár v/rannsókna var auglýst til kynningar að nýju í nóvember 2018 í samræmi við ákvörðun hreppsnefndar þar um. Málið var tekið fyrir á ný á fundi hreppsnefndar 13. mars 2019 að undangenginni umfjöllun skipulagsnefndar. Samþykkti hreppsnefnd fyrirliggjandi tillögu að deiliskipulagi, dags. 25. febrúar 2019, með breytingum sem gerðar voru eftir auglýsingarferlið. Jafnframt var samþykkt afstaða til umsagna og athugasemda. Þá var skipulagsfulltrúa falið að svara þeim er gert höfðu athugasemdir og senda Skipulagsstofnun deiliskipulagið til yfirferðar. Með bréfi stofnunarinnar til Árneshrepps, dags. 28. mars 2019, kom fram að ekki væri gerð athugasemd við að birt yrði auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda og var það gert 14. júní 2019. Samkvæmt auglýsingunni tekur deiliskipulagið, sem fyrr segir, til hluta fyrirhugaðs virkjunarsvæðis Hvalár, nánar tiltekið til lóðar fyrir starfsmannabúðir og vinnusvæði, vinnuvega frá Ófeigsfjarðarvegi upp á Ófeigsfjarðarheiði og efnistöku. Þá kemur fram í auglýsingunni að skipulagssvæðið sé um 13,4 km² að stærð.

Á fundi hreppsnefndar Árneshrepps 12. júní 2019 var tekin fyrir umsókn Vesturverks ehf. um framkvæmdaleyfi fyrir vinnuvegum og efnistöku vegna rannsókna fyrir Hvalárvirkjun, en skipulagsnefnd hafði fjallað um erindið 11. s.m. Taldi hreppsnefnd að lagaskilyrði væru til útgáfu framkvæmdaleyfis, sbr. 13. og 14. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, og samþykkti umsóknina með nánar tilgreindum skilyrðum. Var jafnframt samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að gefa út leyfið í samræmi við reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi þegar deiliskipulagið Hvalárvirkjun v/rannsókna hefði verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda. Afgreiðsla hreppsnefndar um samþykkt framkvæmdaleyfisins var auglýst í Lögbirtingablaðinu 26. júní 2019 og í Morgunblaðinu 27. s.m. Hinn 1. júlí 2019 gaf skipulagsfulltrúi f.h. Árneshrepps út framkvæmdaleyfið.

Svo sem áður greinir var afgreiðslu máls þessa frestað þar sem greindum ákvörðunum var jafnframt skotið til dómstóla af hálfu hluta eigenda jarðarinnar Drangavíkur í Árneshreppi. Með úrskurði Landsréttar kveðnum upp 26. mars 2020 í máli nr. 54/2020 var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að vísa bæri málinu frá þar sem sóknaraðilar hefðu ekki sýnt nægilega fram á að þeir hefðu þá lögvörðu hagsmuni sem gætu leitt til þess að efnisdómur gengi um kröfur þeirra. Hinn 24. apríl 2020 tók úrskurðarnefndin fyrir mál er lutu að framkvæmdaleyfi fyrir viðhaldi Ófeigsfjarðarvegar. Vísaði hún frá kröfum tiltekinna kærenda um ógildingu leyfisins og hafnaði sömu kröfu annarra kærenda.

Málsrök kærenda: Kærendur telja sig eiga lögvarinna hagsmuna að gæta sem eigendur jarðanna Drangavíkur, Dranga, Eyrar og Seljaness.

Kærendur sem eru þinglýstir eigendur jarðarinnar Drangavíkur taka fram að hið kærða deiliskipulag varði eignarréttindi þeirra á fernan hátt. Í fyrsta lagi sé virkjunarsvæðið skilgreint innan landamerkja jarðarinnar Drangavíkur í aðalskipulagi Árneshrepps og sé deiliskipulagið byggt á því skipulagi. Í öðru lagi myndi vegur sem sýndur sé í deiliskipulaginu liggja um landareign kærenda að Eyvindarfjarðarvatni. Í þriðja lagi myndu óbyggð víðerni innan landamerkja jarðarinnar skerðast verulega við vegaframkvæmdir þær sem gert sé ráð fyrir í deiliskipulaginu. Í fjórða lagi sé deiliskipulagið órjúfanlegur hluti af áætlunum um virkjunarframkvæmdir og framkvæmdinni Hvalárvirkjun. Með þeim yrði raskað á margvíslegan annan hátt en með vegagerðinni svæðum og fyrirbærum sem lúti að eignarréttindum kærenda, m.a. vatnsréttindum. Af sömu ástæðu eigi kærendur sérstakra og einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta varðandi samþykkt hins kærða framkvæmdaleyfis.

Við undirbúning og töku hinna kærðu ákvarðana hafi verið brotið gegn stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Auk þess fari þær í bága við almenna náttúruverndarlöggjöf á Íslandi, löggjöf er varði mat á umhverfisáhrifum framkvæmda og umhverfismat áætlana, skipulagslöggjöf og meginreglur umhverfisréttar, auk sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Þá skerði umræddar ákvarðanir eignarrétt kærenda, en slík skerðing sé í andstöðu við 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Kærendur hafi hvorki heimilað miðlun vatnasviðsins með stíflu neðan Eyvindarfjarðarvatns og jarðgangagerð til suðurs né vegagerð að vatninu. Af orðalagi í framkvæmdalýsingu verði ekki annað ráðið en að hinar kærðu framkvæmdir séu beinlínis hluti af heildarframkvæmdinni Hvalárvirkjun. Það sé fáheyrt í íslenskri virkjanasögu að skipulagsáætlunum og framkvæmdaleyfi sé skipt upp með þeim hætti sem gert sé í máli þessu og gangi það þvert gegn þeim meginsjónarmiðum er liggi að baki lögum um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda um að litið sé heildstætt á framkvæmdirnar. Umsagnir fagstofnana þar að lútandi hafi hingað til verið hunsaðar. Í hinum kærðu ákvörðunum sé fjallað um fyrsta hluta framkvæmdanna án þess að fjallað sé þar um sjálfar virkjunarframkvæmdirnar. Þannig sé fjallað um vegagerð sem eyði óafturkræft óbyggðum víðernum svo hundruðum ferkílómetra skipti án þess að fjallað sé um rask á vatnasviði. Hvorki víðerni né skerðing þeirra séu kortlögð í samræmi við lög. Samvirk áhrif með öðrum tengdum framkvæmdum séu ekki metin. Gengið hafi verið á svig við grundvallarsjónarmið um að framkvæmdaraðili verði að leggja fyrir almenning og leyfisveitanda gögn er sýni heildarmyndina. Liggi fyrir úrskurðarnefndinni að fara gaumgæfilega yfir sjónarmið um svokallað „project splitting“ í tengslum við þetta mál,  en það sé sú aðferð að skipta verkþáttum upp til að komast hjá því að fjalla um verk heildstætt í mati á umhverfisáhrifum. Umrædd framkvæmd sé ekki sú sama og sætt hafi mati á umhverfisáhrifum, t.a.m. séu  kjarnaborun og könnunargryfjur þær, sem séu hluti af hinum kærðu ákvörðunum, ekki meðal þess sem Skipulagsstofnun hafi fjallað um í áliti sínu frá 3. apríl 2017. Engin nauðsyn sé til að leggja vegi um alla heiði til að sinna kjarnaborun.

Verulegir gallar séu almennt á því á hvern hátt leyfisveitandi hafi haft hliðsjón af þeim athugasemdum er borist hafi. Leyfisveitanda hafi ekki verið heimilt að líta fram hjá skýrslu Environice um þann kost að friðlýsa óbyggð víðerni við Drangajökul skv. 46. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en honum hafi verið kynnt skýrslan 18. janúar 2019. Það mat leyfisveitanda í umhverfisskýrslu deiliskipulagsins að skipulagið sé ekki líklegt til að takmarka möguleika á stofnun þjóðgarðs á svæðinu sé órökstutt og ekki stutt neinum gögnum. Rask sem heimilað sé gangi mun lengra en þörf sé á og raski verndarhagsmunum náttúruverndarlaga. Eyðileggingin verði mikil og sé í því sambandi vísað til skýrslu International Union for Conservation of Nature (IUCN) frá janúar 2020.

Jarðarmörk þau sem komi fram á yfirlitsuppdrætti og afstöðuuppdráttum sem fylgi með framkvæmdalýsingu séu ekki í samræmi við þinglýstar heimildir að því er varði norðurmörk jarðarinnar Ófeigsfjarðar. Uppdrættirnir sýni ekki heldur merki milli jarðanna Drangavíkur og Engjaness í samræmi við þinglýstar heimildir og seinni jarðarinnar sé ekki getið. Jörðin Eyvindarfjörður, sem þar sé merkt og getið um í texta, finnist ekki í landamerkjaskrám eða öðrum heimildum. Vísi kærendur til landamerkja jarðarinnar Drangavíkur á uppdrætti, dags. 19. júní 2019, sem dregin séu upp í samræmi við þinglýstar eignaheimildir

Jörðin Seljanes sé næsta jörð við fyrirhugaðar virkjunarframkvæmdir í Hvalá. Ljóst sé að þær framkvæmdir sem gert sé ráð fyrir í hinu kærða deiliskipulagi og framkvæmdaleyfi hafi veruleg áhrif á landeigendur að Seljanesi og Eyri svo og virkjunarframkvæmdin í heild sinni. Hafi framkvæmdirnar bein áhrif á einstaklingsbundin, lögvarin réttindi kærenda og varði mikilsverð réttindi þeirra, sem fólgin séu í eignarrétti þeirra að Seljanesi og Eyri.

Við mat á lögvörðum hagsmunum kærenda verði að hafa í huga að ef að líkum láti muni fleiri deiliskipulög er varði framkvæmdir á svæðinu líta dagsins ljós. Umrætt deiliskipulag og framkvæmdaleyfi sé hluti af stórri virkjunarframkvæmd í næsta nágrenni við fasteignir kærenda og augljóst að þeir hafi lögvarðra hagsmuna að gæta af ákvörðun um slíka framkvæmd. Geri hinar kærðu ákvarðanir ráð fyrir því að lagðir verði vegir sem notaðir verði til að ferja ýmis tól og tæki að framkvæmdasvæðinu. Verði þeir vegir tengdir við veg sem liggi í gegnum jörðina Seljanes í eigu kærenda og þétt við hús kærenda að Eyri. Muni það leiða til aukinnar umferðar um þann veg og þá sérstaklega umferð hinna ýmissa vinnutækja. Verði af þessu sjón-, hljóð- og loftmengun og hafi deiliskipulagið þannig bein áhrif á hagsmuni kærenda.

Heimilaðar framkvæmdir verði sjáanlegar frá jörðinni Seljanesi og muni iðnaðarsvæði blasa við. Slíkt hafi í för með sér umtalsverða sjónmengun og töluverða hljóð- og loftmengun. Takmarki slíkt ýmsa mögulega hagnýtingu á jörðinni Seljanesi og að húsinu að Eyri, s.s. í ferðamannaiðnaði, enda sé helsta aðdráttarafl svæðisins náttúrufegurð og friðsæld. Auk þess takmarki framkvæmdirnar möguleika kærenda til að njóta þeirrar friðsældar sem þar sé. Séu hagsmunir kærenda alls ekki fjarlægari en t.d. hagsmunir kærenda í málum hjá úrskurðarnefndinni sem varðað hafi laxeldi, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 3/2018, nr. 4/2018, nr. 5/2018 og nr. 6/2018.

Ljóst sé að umræddar ákvarðanir muni hafa í för með sér gríðarlega eyðileggingu á óbyggðum víðernum auk þess sem gríðarlegt tjón muni verða á vistkerfum og vatnasvæðum sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd.

Hið kærða deiliskipulag og afgreiðsla þess sé haldið verulegum form- og efnisannmörkum sem leiði til þess að samþykkt þess sé ógild eða ógildanleg. Þannig hafi meðferð málsins ekki verið í samræmi við 15. gr. sveitarstjórnarlaga. Nánar tilgreindur sveitarstjórnarmaður hafi verið vanhæfur skv. 1. mgr. 20. gr. þeirra laga og 3. gr. stjórnsýslulaga. Skort hafi verulega á að tekið hafi verið tillit til ýmissa athugasemda eða rökstutt hvers vegna svo hafi ekki verið gert. Hið umdeilda deiliskipulag sé í reynd hluti af heildarframkvæmdunum. Óheimilt sé að skilja þær framkvæmdir frá, hvort sem sé í mati á umhverfisáhrifum framkvæmdar eða umhverfismati áætlunar. Samræmist það ekki skipulagslögum nr. 123/2010 að skipuleggja heila virkjunarframkvæmd í bútum heldur þurfi að taka málið fyrir í heild sinni. Með þessari málsmeðferð sé verið að eyðileggja aðra valkosti, s.s. eflingu byggðar á grunni náttúruverndar, áður en endanleg ákvörðun um virkjun verði tekin. Sé því mótmælt að uppskipting skipulagsins eigi sér eðlilegar skýringar. Verulegir annmarkar séu á valkostaumfjöllun í umhverfismati skipulagsins og ekki hafi verið uppfyllt ákvæði laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana, sbr. einnig 1. mgr. 5. gr. tilskipunar 2001/42/EB. Ekki hafi verið lagt mat á áhrif valkosta sem hefðu minni áhrif á umhverfið en sú sem hreppsnefnd hafi valið. Sú röskun óbyggðra víðerna sem sé heimiluð sé í andstöðu við verndarmarkmið náttúruverndarlaga. Því sé sérstaklega mótmælt að vegagerð sé haldið í lágmarki. Þvert á móti standi til að leggja vegi eins og um virkjunarframkvæmdir sé að ræða. Þá séu gerðar alvarlegar athugasemdir við svör við umsögnum og athugasemdum.

Eigandi Dranga tekur fram að hann eigi beinna, verulegra og sérstakra hagsmuna að gæta sem landeigandi þar sem hin kærða ákvörðun sé hluti framkvæmdar sem skerða muni óbyggð víðerni innan jarðarinnar og hamla lögmæltu og yfirstandandi friðlýsingarferli hennar skv. 46. gr. náttúruverndarlaga.

Málsrök Árneshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að í ljósi niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 54/2020 beri að vísa málinu frá úrskurðarnefndinni. Dómurinn hafi afdráttarlaust fordæmisgildi um þá réttarstöðu að ekki hafi verið sýnt fram á lögvarða hagsmuni eigenda Drangavíkur varðandi hinar kærðu ákvarðanir. Ekki séu forsendur til þess að úrskurðarnefndin leggi mat á lögvarða hagsmuni kærenda með öðrum hætti en dómstóll hafi gert. Hið kærða deiliskipulag hafi afmarkað skipulagssvæði sem liggi allt sunnan Eyvindarfjarðarár og Eyvindarfjarðarvatns innan marka jarðarinnar Ófeigsfjarðar. Samkvæmt þeim landamerkjum sem upplýsingar hafi legið fyrir um liggi land jarðarinnar Engjaness milli lands Drangavíkur og skipulagssvæðisins, sem sé sunnan Eyvindarfjarðarár. Umrædd málsástæða hafi bein tengsl við eignarréttarlegan ágreining en slíkar málsástæður geti úrskurðarnefndin ekki lagt mat á. Til hliðsjónar sé t.d. vísað til úrskurða nefndarinnar í málum nr. 71/2016 og nr. 116/2012. Gert sé ráð fyrir því að vegur verði lagður að Eyvindarfjarðarvatni, sunnan megin, en óljóst sé hvort sá vegslóði liggi að nokkru leyti innan meints lands Drangavíkur. Í öllu falli sé ljóst að aðeins geti verið um að ræða lítið brot af framkvæmdinni.

Lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu geri ráð fyrir að rannsóknarleyfi verði gefin út án tillits til afstöðu landeigenda. Falli skipulagssvæði deiliskipulagsins innan þess svæðis sem rannsóknarleyfið taki til. Í ljósi markmiða deiliskipulagsins og eðlis þeirra framkvæmda sem leyfið varði virðist framkvæmdirnar geta farið fram á grundvelli réttarstöðu sem rannsóknarleyfið veiti óháð afstöðu landeigenda.

Í ljósi umfjöllunar Landsréttar í máli nr. 54/2020, um lögvarða hagsmuni, sönnunarkröfur og eðli framkvæmda, beri að vísa frá kærum kærenda að Seljanesi og Eyri. Verði ekki fallist á frávísun sé þess krafist að kröfum kærenda verði hafnað. Kærendur séu ekki aðilar að þeirri stjórnvaldsákvörðun sem felist í samþykkt deiliskipulagsins. Landareignir og húsbyggingar sem kærendur vísi til um eignarhald á falli ekki innan marka deiliskipulagssvæðisins. Fasteignin Eyri lóð 2 standi við Ingólfsfjörð. Aðrir kærendur eigi hlut í jörðinni Seljanesi, en sú jörð liggi að jörðinni Ófeigsfirði. Liggi skipulagssvæði deiliskipulagsins innan jarðarinnar Ófeigsfjarðar og ekki að landamerkjum við jörðina Seljanes. Ekki sé dregið í efa að frá jörðinni Seljanesi geti sést inn á skipulagssvæðið og til mannvirkja að einhverju leyti. Lögvarðir hagsmunir séu þó ekki til staðar, sérstaklega sé haft í huga eðli þeirra mannvirkja sem deiliskipulagið varði og þau er verði helst sýnileg, en einkum sé um samgöngumannvirki að ræða. Framkvæmdir sem deiliskipulagið varði yrðu í verulegri fjarlægð frá landi jarðarinnar Seljaness þegar litið sé til grenndarhagsmuna.

Sjónarmið um hljóð- og loftmengun vegna framkvæmda sem skipulagið varði séu með öllu óútskýrð. Hvað varði umferð um veg þá séu lögvarðir hagsmunir ekki til staðar þótt hugmynda um ferðamannaiðnað sé getið, enda séu þær óútskýrðar. Þar fyrir utan verði ekki séð að umrætt deiliskipulag takmarki með nokkru móti heimildir kærenda til nýtingar á fasteignum sínum. Því fari fjarri að þeir sem búi í nágrenni við þjóðvegi geti vísað til þess sem lögvarinna hagsmuna við deiliskipulagsákvarðanir að framkvæmdir á grunni skipulags geti leitt til einhverrar aukningar á umferð. Gera megi ráð fyrir að umferð á öllum Ófeigsfjarðarvegi og Strandavegi aukist vegna framkvæmdanna, en hún geti einnig komið til af fjölda annarra ástæðna.

Loks liggi jörðin Drangar ekki að framkvæmdasvæði Hvalárvirkjunar. Ákvarðanir um friðlýsingu samkvæmt lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd séu á forræði stjórnvalda umhverfismála, en ekki landeigenda.

Varðandi efni málsins taki sveitarfélagið fram að engar afgerandi málsástæður liggi fyrir um að form- eða efnisannmarkar séu á hinum kærðu ákvörðunum sem leitt geti til ógildingar þeirra. Málsmeðferð við framkvæmd deiliskipulagsins hafi í öllum meginatriðum verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010 þar um. Fyrirkomulag deiliskipulagsins hvíli á aðalskipulagi Árnesshrepps, sbr. breytingu á því frá árinu 2018. Undir markmiðskafla aðalskipulagsins komi fram að skapa eigi svigrúm til frekari rannsókna innan virkjunarsvæðisins og leggja þannig grunn að ákvarðanatöku um framhald verkefnisins. Hvíli deiliskipulagið á þessari forsendu. Með því fyrirkomulagi að skipta upp deiliskipulagi sé unnt að vinna sem best að því að rannsóknir sem nauðsynlegar séu vegna undirbúnings stórframkvæmdarinnar taki sem mest tillit til umhverfissjónarmiða. Það fyrirkomulag sem viðhaft sé við gerð deiliskipulagsins samræmist vel markmiðum skipulagslaga. Vangaveltur um svokallaða uppskiptingu framkvæmdar og skipulags standist því enga skoðun. Ljóst sé að margar af stærri vatnsaflsvirkjunum á Íslandi hafi verið rannsakaðar með nýtingu vega sem lagðir hafi verið í þágu rannsókna, áður en endanlegar skipulagsáætlanir fyrir virkjun hafi verið samþykktar. Hvalárvirkjun hafi verið flokkuð í orkunýtingarflokk á grundvelli þingsályktunar en skv. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun séu þær áætlanir bindandi við gerð skipulagsáætlana. Það sé algert grundvallaratriði að mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar hafi farið fram og með því hafi verið fjallað um umhverfisáhrif á heildstæðan hátt, þ.m.t. vegna tengdra framkvæmda.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að kærumálinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Vísað sé til niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 54/2020, en málið hafi beint og ótvírætt fordæmisgildi um lögvarða hagsmuni kærenda máls nr. 48/2019. Jörðin Drangar sé enn lengra frá en Drangavík og niðurstaða dómsins hafi því einnig fordæmisgildi hvað þann kæranda varði. Geti kærandi ekki átt lögvarða hagsmuni af framkvæmd sem sé að langmestu leyti í tæplega 10 km fjarlægð og að litlu leyti í 4 km fjarlægð. Auk þess skilji að fjöll, vogar og firðir. Framkvæmdir séu ekki sjáanlegar frá Dröngum og grenndaráhrif þeirra því engin. Þá feli framkvæmdaleyfið ekki í sér heimildir til neinna framkvæmda sem skert geti möguleika til friðlýsingar jarðarinnar Dranga. Fullyrðingar um annað séu rangar og misvísandi.

Jafnframt sé augljóst með hliðsjón af greindri niðurstöðu Landsréttar í máli nr. 54/2020 að kærendur að Seljanesi og Eyri geti ekki átt lögvarða hagsmuni, m.a. vegna fjarlægðar frá framkvæmdum. Einnig sé vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 51/2019. Þá fjalli kæra þeirra aðeins að litlu leyti um það deiliskipulag sem samþykkt hafi verið á fundi hreppsnefndar 13. mars 2019. Sé kæran fremur með því sniði eins og um væri að ræða deiliskipulag fyrir virkjunarframkvæmdina í heild. Hin kærða ákvörðun varði ekki einstaklega og lögvarða hagmuni nefndra kærenda í þeim mæli að þeir geti átt aðild að kæru.

Við mat á því hvort kærandi geti átt kæruaðild á grundvelli grenndarréttar hafi almennt verið litið til þess hvort hagnýtingarmöguleikar kæranda á eign hans skerðist með einhverri breytingu sem leiði af hinni kærðu ákvörðun. Þær rannsóknir sem deiliskipulagið lúti að kalli á lítilsháttar aðstöðusköpun. Gert sé ráð fyrir vinnubúðum, en þær verði í u.þ.b. 4 km fjarlægð í beinni loftlínu frá Seljanesi og enn lengra frá Eyri í Ingólfsfirði. Þarna á milli sé önnur byggð og því ekki um ósnortið land eða víðerni að ræða. Þótt hluti kærenda geti mögulega séð til granna sinna í vinnubúðunum frá hlaðinu í Seljanesi og telji það skerða útsýni sitt þá takmarki það í engu nýtingarmöguleika á jörð þeirra. Þá geti þeir kærendur sem séu að hluta eigendur jarðarinnar Eyrar ekki með nokkru móti byggt kæruaðild sína á grenndarrétti enda staðsetning jarðarinnar þannig að þeir verði ekki fyrir nokkurri sjón-, loft- eða hljóðmengun. Hvorki vegna vinnubúða né vegaframkvæmda.

Fyrirhugaðar framkvæmdir vegna Hvalárvirkjunar verði ekki á landi kærenda og snerti hvorki vatnasvið jarðanna né skerði hagnýtingarmöguleika eigenda þeirra. Skráður eignarhluti kærenda í jörðinni Seljanesi sé undir 10% og um 60% í jörðinni Eyri lóð 2, sem sé agnarsmár hlutur í heildarjörðinni Eyri. Hafi sameigendur þeirra ekki mótmælt deiliskipulaginu eða kært afgreiðslu þess. Þrátt fyrir að Ófeigsfjarðarvegur sé fáfarinn þá snerti það tímabundna ónæði sem verði vegna flutnings tækja og búnaðar ekki einstaklega og lögvarða hagsmuni kærenda í þeim mæli að þeir geti átt aðild að kærumálinu.

Meðferð málsins hafi verið í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, laga nr. 105/2006 um mat á umhverfisáhrifum áætlana, ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010, laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem og annarra laga og reglugerða. Öllum fullyrðingum um annað sé mótmælt og málsástæðum kærenda hafnað. Deiliskipulagið byggi á stefnu aðalskipulagsins í samræmi við 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga og hafi virkjunarframkvæmdin ávallt verið unnin sem ein heild í því skipulagi. Málið hafi verið kynnt með ítarlegum hætti frá upphafi og reynt að vinna það í sátt og samráði við hagsmunaaðila. Fjallað sé um núllkost í greinargerð deiliskipulagsins. Þá sé því ranglega haldið fram að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda.

Viðbótarathugasemdir kærenda að Drangavík: Kærendur telja að ekki hafi verið færðar fram neinar röksemdir eða gögn til sönnunar á því að leyfishafi hafi þau eignarráð er þurfi til hagnýtingar alls þess vatnsafls sem um ræði. Kærendur hafni sem fráleitum þeim sjónarmiðum að full sönnun falli á þá gegn einhliða fullyrðingum leyfishafa um landamerki. Landamerki þau sem þinglesin hafi verið árið 1890 hafi ekki verið umdeild á þessu svæði og séu þar enda engin önnur landamerki til. Kærendur byggi hvort tveggja á eignarrétti og grenndarrétti. Þurfi úrskurðarnefndin aðeins að taka afstöðu til þess hvort kærendur hafi gert nægilega sennilegt að þeir eigi lögvarða hagsmuni. Það hafi þegar verið gert með landamerkjakorti því sem þeir hafi lagt fram. Frekari sönnunarkröfur verði ekki lagðar á eigendur Drangavíkur þar sem að af hálfu leyfisveitanda og leyfishafa hafi ekkert verið lagt fram sem styðji fullyrðingar þeirra. Jarðamörk á kortum, sem teiknuð hafi verið af hálfu annarra en til þess séu bærir, þ.e. landeigendum sjálfum, séu ekki landamerki í skilningi laga nr. 41/1919 um landamerki, auk þess sem þau mörk séu alls staðar birt með fyrirvara. Sönnunarkröfu verði að leggja á leyfishafa og leyfisveitanda fyrir fullyrðingum um landamerki.

—–

Færðar hafa verið fram frekari röksemdir í máli þessu en í ljósi niðurstöðu málsins verða þær ekki raktar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti tveggja ákvarðana sveitarstjórnar Árneshrepps. Annars vegar ákvörðunar frá 13. mars 2019 um að samþykkja deiliskipulag Hvalárvirkjunar vegna rannsókna og hins vegar ákvörðunar frá 12. júní s.á. um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku vegna rannsókna fyrir virkjunina. Er gerð krafa um frávísun málsins með þeim rökum að kærendur eigi ekki kæruaðild fyrir nefndinni samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt tilvitnuðu ákvæði geta þeir einir sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að viðkomandi eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og að þeir hagsmunir séu verulegir. Þó verður almennt að gæta varfærni við að vísa málum frá á þeim grunni að lögvarða hagsmuni skorti, nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæft gildi fyrir lögverndaða hagsmuni viðkomandi að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.

Ljóst er að hinar kærðu ákvarðanir eru undanfari fyrirhugaðra virkjunarframkvæmda, enda tekur mat á umhverfisáhrifum þeirra m.a. til vinnuvega. Það er þó ekki hægt að játa kærendum kæruaðild á þeim grundvelli einum að þeir telji sig eiga hagsmuna að gæta af því að af virkjunaráformum verði ekki, heldur verður að gera þá kröfu að efni hinna umdeildu ákvarðana raski einstaklingsbundnum og verulegum hagsmunum þeirra. Stendur enda ekkert því í vegi að skipulag eða veitt leyfi taki eingöngu til hluta framkvæmda sem mat á umhverfisáhrifum hefur tekið til og kann það raunar að vera nauðsynlegt þegar um flóknar stórframkvæmdir er að ræða.

Í greinargerð deiliskipulagsins er því lýst að tæplega 14 km² skipulagsvæði sé í landi Ófeigsfjarðar, en liggi ekki að landamerkjum jarðarinnar og taki aðeins til svæðis umhverfis starfsmannabúðir, vinnuvegi og efnistökusvæði. Gert sé ráð fyrir 5,8 ha lóð fyrir tímabundnar starfmannabúðir og vinnusvæði við Hvalá neðan Strandarfjalla. Innan byggingarreits sé heimilt að reisa einn eða fleiri skála með svefnaðstöðu fyrir allt að 30 manns, hreinlætisaðstöðu, mötuneyti, geymslu og skrifstofu. Samanlögð stærð bygginga megi vera allt að 400 m² og hámarksmænishæð 7 m. Byggingar skuli staðsettar þannig að þær falli sem best að landslagi og landmótun skuli haldið í lágmarki. Skuli efni, form og litaval bygginga falla vel að landslagi og umhverfi. Ef fallið verði frá virkjunaráformum falli tilheyrandi heimildir niður einu ári eftir að rannsóknum ljúki. Öll mannvirki skuli fjarlægð og gengið frá vinnusvæðum innan þess tíma. Ganga skuli um skipulagssvæðið með það í huga að um tímabundna landnotkun sé að ræða.

Þá er tekið fram að gert sé ráð fyrir vegum frá Ófeigsfjarðarvegi sunnan Hvalár að Neðra-Hvalárvatni og þaðan að Neðra-Eyvindarfjarðarvatni annars vegar og Rjúkanda hins vegar, samtals um 25 km. Einnig sé gert ráð fyrir vegi að námu ES19 við Neðra-Hvalárvatn. Aðeins sé um malarvegi að ræða. Ekki sé gert ráð fyrir neinum borplönum eða sambærilegum framkvæmdum utan vega. Um sé að ræða um 6,2 km langan vinnuveg frá þjóðveginum við Hvalárfoss að fyrirhugaðri Hvalárstíflu. Þar kvíslist vegurinn í tvær áttir. Annars vegar sé gert ráð fyrir 11,9 km löngum vinnuvegi að Rjúkanda og hins vegar 6,8 km löngum vinnuvegi að fyrirhugaðri Eyvindarfjarðarstíflu. Vegurinn verði 4 m breiður með útskotum. Um 600 m ofan Hvalárfoss liggi vegurinn um nýja einbreiða stálbrú yfir Hvalá, sem hvíla muni á steyptum burðarbitum sem staðsettir verða við hvorn enda brúarinnar. Brúin verði um 22 m að lengd og tæplega 6 m breið í heild, en akstursbreidd verði 4,2 m. Huga skuli að því að sýnileiki vega verði eins lítill og kostur sé. Þetta eigi bæði við um veglínu upp Strandarfjöll og á heiðinni. Vegir skuli vera eins lítið uppbyggðir og kostur sé og falla vel að landslagi þannig að þeir hafi sem minnst áhrif á víðernin. Í fyrstu séu vegirnir ætlaðir fyrir aðkomu tækja til rannsókna á fyrirhuguðu virkjunarsvæði Hvalárvirkjunar. Leitast skuli við að halda vegaframkvæmdum í algjöru lágmarki á þessu stigi og skuli umfang þeirra takmarkast við það að nauðsynleg tæki komist að rannsóknarsvæðum. Þar sem það sé mögulegt skuli vegagerð sleppt. Samhliða vegagerðinni skuli hugað að frágangi svæðisins og öllu raski haldið í lágmarki. Komi til virkjunarframkvæmda skuli vegirnir nýttir sem aðkomuvegir að lónum og stíflum. Ef fallið verði frá virkjunaráformum skuli vegirnir og brúin fjarlægð og ummerki þeirra eins og kostur sé. Loks er samkvæmt greinargerð deiliskipulagsins gert ráð fyrir þremur nýjum efnistökusvæðum í tengslum við vegagerð og uppbyggingu starfsmannabúða. Efnistökusvæði ES18 við Hvalárósa, svæði ES19 vestan megin við Neðra-Hvalárvatn  og efnistökusvæði ES20 í Hvalá, rúmum kílómetra ofan við Hvalárfoss.

Fellur framkvæmdalýsing í fylgigögnum með útgefnu framkvæmdaleyfi fyrir gerð vinnuvega og efnistöku að því sem áður er rakið úr deiliskipulaginu, en leyfið tekur ekki til starfsmannabúða. Að auki er í nefndum gögnum að finna nánari lýsingu á fyrirhuguðum rannsóknum.

Kærendur máls þessa eru hluti eigenda Drangavíkur, eigandi Dranga, nokkrir eigendur lóða í landi Eyrar við Ingólfsfjörð, sem og hluti eigenda jarðarinnar Seljaness. Vísa þeir til eignarhalds síns um lögvarða hagsmuni sína sem þeir telja raskað með hinum kærðu ákvörðunum.

Svo sem fram kemur í málavaxtalýsingu var dómsmáli hluta eigenda Drangavíkur vísað frá af dómstólum, sbr. úrskurð Landsréttar í máli nr. 54/2020, þar sem þeir hefðu ekki sýnt nægilega fram á að þeir hefðu þá lögvörðu hagsmuni sem gætu leitt til þess að efnisdómur gengi um kröfur þeirra. Tók dómurinn fram að eigendurnir teldu þinglýstar landamerkjaskrár frá 1890 staðfesta eignarrétt þeirra yfir mun stærra landsvæði en áður hefði verið talið og miðað hefði verið við í opinberum gögnum. Sóknaraðilar hefðu ekki fyrr gert reka að því að fá skorið úr ágreiningi um landamerki Drangavíkur, Engjaness og Ófeigsfjarðar og yrði ekki leyst úr slíkum ágreiningi án aðildar eigenda síðargreindu jarðanna. Þá tók dómurinn fram að þegar litið væri til grenndarsjónarmiða, án tillits til stöðu landamerkja, hefðu aðilar í ljósi fjarlægðar jarðarinnar frá framkvæmdum ekki sýnt fram á slíka röskun á hagsmunum Drangavíkur, svo sem vegna hávaða, sjónmengunar eða annarra atriða, að eignarréttindi þeirra sem nytu verndar meginreglna nábýlis- og grenndarréttar væru skert.

Líkt og í nefndu dómsmáli byggja kærendur að Drangavík á því fyrir úrskurðarnefndinni að fyrirhugað virkjunarsvæði, svo og vegaframkvæmdir sem hinar kærðu ákvarðanir heimili, verði að hluta innan landamerkja jarðarinnar. Við fyrirhugaðar vegaframkvæmdir muni óbyggð víðerni innan landamerkjanna skerðast. Hafa atvik breyst að því leyti að tilteknir eigendur Drangavíkur hafa nú höfðað landamerkjamál og er aðalkrafa stefnenda í því máli sú að Drangavík verði talin eiga landamerki að jörðinni Ófeigsfirði, þau verði dregin sunnan við Neðra-Eyvindafjarðarvatn og raunar sunnar en landamerki Engjaness og Ófeigsfjarðar hafa verið talin liggja. Varakrafa í dómsmálinu lýtur að því að landamerki Drangavíkur og Engjaness verði talin liggja um Neðra-Eyvindarfjarðarvatn.

Á sveitarfélagsuppdrætti gildandi Aðalskipulags Árneshrepps 2005-2025 eru landamerki Ófeigsfjarðar og Engjaness m.a. sýnd um Neðra-Eyvindarfjarðarvatn og mörk jarðanna Engjaness og Drangavíkur nokkru norðar. Norðanverð mörk virkjunarsvæðis fyrirhugaðrar Hvalárvirkjunar eru á uppdrættinum sýnd meðfram Eyvindarfjarðará, sem skilur að Ófeigsfjörð og Engjanes, í átt að Neðra-Eyvindarfjarðarvatni. Áður en komið er að vatninu er dregin lína til norðurs að sýndum landamerkjum Engjaness og Drangavíkur sem mörk virkjunarsvæðisins fylgja að sýndum landamerkjum Engjaness og Dranga og þaðan vestur að Drangajökli. Í hinu kærða deiliskipulagi er tekið fram að deiliskipulagssvæðið sé að fullu innan jarðarinnar Ófeigsfjarðar og kemur það heim og saman við þau mörk jarðarinnar sem áður er lýst og sýnd eru til skýringar, en án staðfestingar, í aðalskipulagi. Nyrsti hluti deiliskipulagssvæðisins er skammt sunnan Neðra-Eyvindarfjarðarvatns og nái aðalkrafa kærenda fram að ganga í nýhöfðuðu landamerkjamáli mun lítill hluti skipulagssvæðisins, þar sem ekki er gert ráð fyrir öðrum framkvæmdum en vinnuvegi, fara inn á land kærenda.

Í Aðalskipulagi Árneshrepps 2005-2025, sem öðlaðist gildi með birtingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. febrúar 2014, kemur fram að ýmsar tafir hafi orðið á framgangi og staðfestingu aðalskipulagstillögunnar og sé ástæða þess m.a. áætlun um virkjun Hvalár. Við upphaf skipulagsvinnu hafi verið gert ráð fyrir tiltölulega litlum breytingum á landnotkun en virkjun Hvalár einungis verið kynnt sem framtíðarmöguleiki. Það hafi breyst við þá ákvörðun hreppsnefndar að stefna að því að staðfesta virkjunarsvæði við Ófeigsfjörð með virkjun Hvalár. Mun sú ákvörðun hafa verið tekin veturinn 2007-2008. Ágreiningur um eignarréttindi, sem stafar af óvissu um hvernig túlka beri þinglýstar landamerkjaskrár, verður ekki til lykta leiddur fyrir úrskurðarnefndinni, enda á slíkur ágreiningur undir dómstóla. Eins og fram er komið hefur nú verið höfðað landamerkjamál um þann ágreining, en þar til úr honum hefur verið skorið verður að telja líkur á því að opinber gögn, s.s. skipulagsáætlanir, sýni þá legu landamerkja sem almennt hafi verið talin rétt. Miðað við það er meira en kílómetri frá landamerkjum Drangavíkur að deiliskipulagssvæðinu sunnan Neðra-Eyvindarfjarðarvatns þar sem vinnuvegur endar, en frekari framkvæmdir eru fyrirhugaðar sunnar á skipulagssvæðinu. Drangar eru norðan Drangavíkur og því lengra frá skipulagssvæðinu. Jörðin Seljanes liggur að jörðinni Ófeigsfirði austan megin, en frá landamerkjum jarðanna eru a.m.k. 3 km að skipulagssvæðinu þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Eyri í Ingólfsfirði er enn lengra frá skipulagssvæðinu.

Kærendur geta ekki byggt einstaklingshagsmuni sína á atriðum sem varða almannahag, s.s. sjónarmiðum um verndun víðerna eða náttúru, án þess að sýna sérstaklega fram á hvernig einstaklingsbundnir hagsmunir þeirra skerðast. Í þágu undirbúningsrannsókna gera hinar kærðu ákvarðanir eingöngu ráð fyrir lagningu vinnuvega, efnistöku og gerð starfsmannabúða, sem samkvæmt framansögðu verða í mesta lagi 400 m2 að flatarmáli og að hámarki 7 m háar. Í ljósi þeirra takmörkuðu framkvæmda sem um ræðir, sem og þess að skipulagssvæðið er í töluverðri fjarlægð frá eignum kærenda, munu hagsmunir þeirra ekki skerðast í þeim mæli að það skapi þeim kæruaðild jafnvel þótt einhverjir þeirra kunni að heyra hljóð berast frá framkvæmdum á skipulagssvæðinu eða kærendur að Seljanesi t.d. eygi þær starfsmannabúðir sem heimilað er að reisa. Munu þær búðir t.a.m. ekki skerða útsýni þeirra kærenda þótt ásýnd lands verði breytt að nokkru. Af sömu sökum er ekki hægt að líta svo á að möguleikar kærenda að Seljanesi og Eyri til uppbyggingar, t.d. ferðaþjónustu, séu takmarkaðir í nokkru. Verður atvikum þessum ekki jafnað saman við atvik í þeim kærumálum vegna fiskeldis sem kærendur hafa vísað til.

Með hliðsjón af framangreindum aðstæðum öllum og eins og atvikum máls þessa er háttað þykja þær framkvæmdir sem leyfðar hafa verið og sækja stoð sína í umdeilt deiliskipulag ekki þess eðlis að þær snerti grenndarhagsmuni eða aðra einstaklega lögvarða hagsmuni kærenda með þeim hætti að þeir geti talist eiga kæruaðild í máli þessu. Þar sem skilyrðum kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 telst ekki fullnægt verður máli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur tafist þar sem málsmeðferð þess var frestað á meðan hinar kærðu ákvarðanir voru til meðferðar hjá dómstólum.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

11/2018 Kalkþörungaset í Miðfirði

Með

Árið 2019, fimmtudaginn 28. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður og Geir Oddsson auðlindafræðingur. Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundarbúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 11/2018, kæra á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. desember 2017 um að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. janúar 2018, er barst nefndinni 22. s.m., kæra Veiðifélag Miðfirðinga og Kvísl ehf., eigandi Króksstaða og hluta Miðfjarðarár, þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. desember 2017 að nýting kalkþörungasets í Miðfirði, 1.200 m³ á ári í 30 ár, skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er gerð krafa um frestun réttaráhrifa en þó er tekið fram að ekki sé krafist úrskurðar um hana að svo stöddu. Vegna framsetningar kröfunnar þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til framkominnar kröfu um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 26. febrúar 2018.

Málavextir: Forsaga máls þessa er nokkur. Hinn 14. maí 2015 sótti Icecal ehf. um leyfi til Orkustofnunar fyrir hagnýtingu á 1.200 m³ af kalkþörungaseti á ári innan ákveðins svæðis í Miðfirði. Óskað var eftir nýtingarleyfi til 30 ára, eða frá 2015 til 2045. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 73/1990 um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins skal við veitingu leyfa samkvæmt lögunum gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum. Í samræmi við tilvitnaða málsgrein leitaði Orkustofnun umsagna Umhverfisstofnunar, Fiskistofu, Hafrannsóknastofnunar, Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, Húnaþings vestra, Minjastofnunar Íslands, Náttúrustofu Norðurlands vestra, Náttúrustofu Vestfjarða og Samgöngustofu áður en leyfið var veitt. Í bréfi sínu til umsækjanda, dags. 20. nóvember 2015., benti Orkustofnun á að tilkynna þyrfti um fyrirhugaða framkvæmd til Skipulagstofnunar og var það gert 4. desember s.á. Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu 9. s.m. að umrædd framkvæmd væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 30. maí 2016 veitti Orkustofnun umsækjanda leyfi til töku kalkþörungasets af hafsbotni í vestanverðum Miðfirði við Húnaflóa.

Í janúar 2016 bárust úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála kærur vegna fyrrnefndrar ákvörðunar Skipulagsstofnunar og kvað nefndin upp úrskurð 3. október 2017 í kærumálum nr. 3/2016 og 8/2016 þar sem ákvörðunin var felld úr gildi. Í niðurstöðu nefndarinnar segir að ekki verði ráðið af hinni kærðu ákvörðun og rökstuðningi hennar að mat Skipulagsstofnunar þess efnis að framkvæmdin skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum hafi farið fram með fullnægjandi hætti samkvæmt viðmiðum 2. viðauka laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Með bréfi, dags. 7. nóvember 2017, tilkynnti Icecal að nýju um fyrirhugaða framkvæmd til Skipulagsstofnunar. Fram kom í tilkynningunni að hinn 30. maí 2016 hefði félagið fengið leyfi frá Orkustofnun til hagnýtingar á 1.200 m3 af kalkþörungaseti á ári í 30 ár innan tilgreinds svæðis í Miðfirði. Við leyfisumsóknina hafi verið stuðst við setlagarannsóknir tilgreindrar jarðfræðistofu frá árinu 2004, auk rannsókna á kalkþörungum í Húnaflóa frá árinu 1980. Við val á svæði hafi verið horft til niðurstaðna setmælinga m.t.t. magns lífræns og ólífræns sets. Sótt hafi verið um leyfi til efnisnáms á svæði þar sem kalkþörungaset sé talið í sem mestu magni. Fyrirhugað sé að nýta skip útbúið með krana og gálga eða dælubúnað sem nýtist við efnistökuna. Þar sem umfang nýtingar sé almennt lítið sé lögð á það áhersla að nýting verði eins vistvæn og kostur sé og taki mið af lögun kalkþörungasetsins. Gert sé ráð fyrir að set verði flutt í kerjum, sekkjum eða einhverju sambærilegu og notast sé við hefðbundnar aðferðir, eins og við löndun á matvælum úr sjó, s.s. fiski. Skipulagt efnisnám muni fara fram á afmörkuðu efnistökusvæði með þeim hætti að rask á botnlífi verði sem minnst. Sama gildi um rask sem áhrif hafi á fiskistofna á svæðinu þar sem grugg frá efnistöku sé almennt lítið í samanburði við umfangsmeiri efnistöku annars staðar.

Skipulagsstofnun tók nýja ákvörðun í málinu 14. desember 2017. Þar kom fram að stofnunin hefði ekki talið tilefni til að óska sérstaklega eftir umsögnum, en þess í stað stuðst við umsagnir frá árinu 2015 sem Orkustofnun hefði óskað eftir vegna leyfisumsóknar framkvæmdaraðila. Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar er vísað til þess að í umsögn Umhverfisstofnunar hafi komið fram sú skoðun stofnunarinnar að þau stærðarviðmið sem ætlað sé að gefa vísbendingar um líkleg áhrif efnistöku ættu að öllum líkindum ekki við þegar um efnistöku á seti væri að ræða, sér í lagi þegar verið væri að vinna efni sem væri jafn viðkvæmt og kalkþörungaset. Skipulagsstofnun taki undir það sjónarmið að gerð efnis sem taka eigi sé ekki síður mikilvægur þáttur þegar horft sé til líklegra áhrifa af efnistöku. Tekið hafi verið á þessu vandamáli við samþykkt laga nr. 138/2014 um breytingu á lögum nr. 106/2000. Við lagabreytinguna hafi efnistaka sem áður hafi verið undir stærðarviðmiðum laganna orðið tilkynningarskyld. Ekki liggi fyrir hversu mikið sé af lifandi kalkþörungum innan fyrirhugaðs efnistökusvæðis. Að mati Skipulagsstofnunar felist neikvæð áhrif framkvæmdar fyrst og fremst í röskun lifandi kalkþörunga sem séu afar viðkvæmir og séu mikilvægt búsvæði fyrir sjávardýr og gróður. Vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og áhrifin því langvarandi og vart afturkræf nema ef litið sé til mjög langs tíma. Stofnunin taki þó ekki undir þá umsögn Hafrannsóknastofnunar að nýtingin sé ekki sjálfbær þar sem um afar hóflega nýtingu á auðlindinni sé að ræða. Í ljósi þess telji Skipulagsstofnun að áhrif framkvæmdarinnar á kalkþörunga verði nokkuð neikvæð en staðbundin. Mikilvægt sé að við efnisnám verði notast við aðferðir sem takmarki gruggmyndun og þess gætt að áhrifa gæti ekki út fyrir fyrirhugað efnistökusvæði. Stofnunin telji eðlilegt að í nýtingarleyfi verði sett skilyrði um fyrirkomulag efnistöku, rannsóknir á lífríki, vöktun og hvernig bregðast skuli við niðurstöðum rannsókna og vöktunar. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna sé það niðurstaða stofnunarinnar að umrædd framkvæmd sé ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif með tilliti til eðlis framkvæmdarinnar, staðsetningar hennar og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. þau viðmið sem tilgreind séu í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Því skuli framkvæmdin ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hefur framangreind ákvörðun verið kærð, eins og áður segir.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að Skipulagsstofnun hafi ekki aflað nýrra umsagna hinna ýmsu stofnana og Húnaþings vestra áður en stofnunin hafi tekið ákvörðun sína 14. desember 2017. Í stað þess hafi hún látið umsagnir til Orkustofnunar frá miðju ári 2015 duga, en þær umsagnir hafi verið gefnar löngu fyrir ógildingarúrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála hinn 3. október 2017. Umsagnirnar hafi því verið úreltar þegar hin kærða ákvörðun var tekin auk þess sem þær hafi verið veittar annarri óviðkomandi stofnun. Þá sé í hinni kærðu ákvörðun hvorki getið um né fjallað um athugasemdir og mótmæli kærenda sem komi fram í málum nr. 3/2016 og 8/2016. Kærendur mótmæli túlkun Skipulagsstofnunar á 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en stofnunin misskilji víðtækt ákvæði greinarinnar þannig að hún eigi einungis við um ákvarðanir á grundvelli náttúruverndarlaganna.

Orkustofnun hafi gefið út leyfi til töku kalkþörungasetsins 30. maí 2016, en það leyfi hafi orðið markleysa eftir að fyrri ákvörðun Skipulagsstofnunar hafi verið ógilt af úrskurðarnefndinni 3. október 2017, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Veruleg óvissa sé um áhrif framkvæmdarinnar. Fram komi í umsögn Umhverfisstofnunar að stærðarviðmið efnistöku í 1. viðauka laga nr. 106/2000, sem ætlað sé að gefa vísbendingar um líkleg áhrif efnistöku á landi, eigi að öllum líkindum ekki við þegar um sé að ræða efnistöku á hafsbotni, sérstaklega þegar efni sé dælt upp af hafsbotni úr seti sem sé jafn viðkvæmt og kalkþörungar. Þá megi líta til umsagnar Hafrannsóknastofnunar þar sem komi fram að vegna óvenju hægs vaxtar kalkþörunga muni það væntanlega taka hundruð ára fyrir þá og lífríkið að jafna sig. Þess vegna sé ekki um að ræða sjálfbæra nýtingu. Einnig segi í umsögn Fiskistofu að ástæða kunni að vera til að skoða á landsvísu hvort kalkþörunganám kunni að hafa neikvæð áhrif á afkomu laxfiska og annarra lífvera sem nýti sér búsvæði á grunnsævi. Í Miðfirði sé ein mikilvægasta laxveiðiá landsins. Fiskistofa bendi á að það svæði og það magn sem sótt sé um leyfi til að nýta, sé ekki fjarri þeim mörkum sem sett hafi verið til viðmiðunar um framkvæmdir sem skuli vera háðar mati á umhverfisáhrifum. Jafnframt komi fram hjá framkvæmdaraðila að sótt verði um frekara efnisnám á leyfistímanum, ef ástæða reynist til. Því telji Fiskistofa eðlilegt að umhverfisáhrif verði metin.

Ákvörðun Skipulagsstofnunar sé enn verulega ábótavant og langt frá því að bera með sér að stofnunin hafi rannsakað málið sérstaklega með sjálfstæðum og víðfeðmum hætti, með tilliti til allra þeirra atriða sem máli skipta, áður en hún hafi tekið ákvörðun sína. Ekki dugi að fullyrða um það heldur verði ákvörðunin að bera með sér að málið hafi verið rannsakað.

Sem dæmi um lítt rökstuddar og óviðunandi staðhæfingar Skipulagsstofnunar sé vísað til orðalags stofnunarinnar varðandi umfang framkvæmda, þ.e. „[g]era má ráð fyrir“ að umhverfisáhrif framkvæmdar takmarkist við efnistökusvæðið. Kærandi spyrji hvers vegna megi gera ráð fyrir að umhverfisáhrif framkvæmdar takmarkist við efnistökusvæðið, hvernig efnistökusvæðið takmarkist eða hvernig það sé tryggt að ekkert rask verði utan hins formlega 25.000 m2 efnistökusvæðis. Ráðagerð stofnunarinnar sé ekki rökstudd og engin trygging sé fyrir því að ekki verði umhverfisáhrif af framkvæmdinni utan hins formlega efnistökusvæðis. Þvert á móti sé ástæða til að óttast veruleg umhverfisáhrif utan framkvæmdasvæðisins, bæði bein og óbein, m.a. á lífríki Miðfjarðarár og vatnasvæði árinnar og Miðfjarðarins í heild. Fleiri dæmi megi finna en um stærð og fjölbreytileika áhrifa segi í ákvörðun Skipulagsstofnunar að helstu neikvæðu áhrifin séu vegna rasks á kalkþörungaseti og þeirrar eyðileggingar á búsvæðum sem því fylgi og sé svo viðhaft orðalagið „[g]era má ráð fyrir“ að umfang áhrifa ráðist af umfangi rasks. Þá segi um líkur á áhrifum „má ganga út frá“ því að framkvæmd muni raska búsvæðum og hafa áhrif á sjávargróður og dýr á framkvæmdasvæði svo og „[t]elja má“ að litlar líkur verði á öðrum áhrifum.

Um tímalengd, tíðni og óafturkræfi áhrifa segi að fyrir liggi að vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og það taki því lífríkið langan tíma að jafna sig eftir rask. Sé vísað í umsögn Hafrannsóknastofnunar um að efnisnám kalkþörungasets sé ekki sjálfbær nýting á náttúruauðlind. Í niðurstöðu ákvörðunar Skipulagsstofnunar gildi það sama. Hún endurspegli ekki sjálfstæða rannsókn eða rökstudda og þar sé aðeins ein lagatilvísun.

Enginn viti hvaða áhrif fyrirhuguð námuvinnsla geti haft á laxa- og bleikjugöngur í Miðfjarðará eða á lífríki vatnasvæðis árinnar og fjarðarins. Miðfjarðará sé ein mesta laxveiðiá landsins og geti verið í stórhættu ef af námuvinnslunni verði með tilheyrandi uppróti og kalkþörungaskoli í firðinum. Sérstaklega hljóti sú hætta að eiga við á göngutíma seiða til sjávar og á tíma göngu lax og silungs í ána. Áður en til greina komi að heimila framkvæmdina sé brýnt að framkvæma margvíslegar rannsóknir á náttúru svæðisins og láta fara fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, sem ætla megi að geti stefnt í stórhættu lífríki umhverfisins í nágrenni námuvinnslunnar.

Málsrök Skipulagsstofnunar: Skipulagsstofnun telur að þótt umsagnir í málinu séu frá árinu 2015 þá séu þær ekki úreltar. Þrátt fyrir að þær hafi verið veittar Orkustofnun þá hafi verið hægt að byggja á þeim, enda hafi leyfisumsókn lotið að sömu framkvæmd og hin kærða ákvörðun lúti að. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi í úrskurði sínum frá 3. október 2017 ekki gert athugasemd við það að Skipulagsstofnun hafi ekki leitað umsagna leyfisveitanda samkvæmt 5. mgr. 6. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum.

Kærendur nefni að í ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. desember 2017 sé hvorki getið né fjallað um athugasemdir og mótmæli kærenda varðandi fyrri ákvörðun stofnunarinnar. Stofnunin fái ekki séð að henni sé skylt að lögum að víkja að athugasemdum og mótmælum í umræddum kærum varðandi fyrri ákvörðun stofnunarinnar, enda hafi úrskurðarnefndin fellt hana úr gildi. Aftur á móti hafi stofnuninni borið að taka mið af þeim sjónarmiðum og lagarökum sem komu fram í úrskurði nefndarinnar sem hún og gerði áður en hún tók hina kærðu ákvörðun. Af samanburði á umræddum kærum og því sem fram komi í úrskurði nefndarinnar verði ráðið að úrskurðarnefndin hafi ekki tekið undir öll sjónarmið og rök sem fram hafi komið í kærunum.

Því sé hafnað að Skipulagsstofnun misskilji 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Gerð hafi verið breyting á ákvæðinu með lögum nr. 109/2015. Eftir þá breytingu gildi ákvæðið einungis um ákvarðanir teknar á grundvelli náttúruverndarlaga. Ákvæðið gildi því ekki um ákvarðanir Skipulagsstofnunar sem teknar séu á grundvelli laga nr. 106/2000.

Í kærunni sé því haldið fram að veruleg óvissa sé um áhrif framkvæmdarinnar. Í því sambandi sé vitnað til umsagna Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunar og Fiskistofu. Í umsögn Umhverfisstofnunar sé þeirri afstöðu lýst að stærðarviðmið, sem ætlað sé að gefa vísbendingu um líkleg áhrif efnistöku á landi, eigi að öllum líkindum ekki við þegar um efnistöku á hafsbotni sé að ræða, sérstaklega þegar efni sé dælt upp af hafsbotni úr seti sem sé jafn viðkvæmt og kalkþörungar. Skipulagsstofnun bendi á að gerð efnis sem taka eigi sé ekki síður mikilvægur þáttur þegar horft sé til líklegra áhrifa efnistöku. Tekið hafi verið á þessu vandamáli við samþykkt laga nr. 138/2014 um breytingu á lögum nr. 106/2000. Við lagabreytinguna hafi efnistaka, sem áður hafi verið undir stærðarviðmiðunum, orðið tilkynningarskyld. Þá sé í tölulið 2.04 ekki aðeins talað um efnistöku á landi heldur einnig úr hafsbotni.

Eins og fram komi í ákvörðun Skipulagsstofnunar þá felist neikvæð áhrif framkvæmdarinnar fyrst og fremst í röskun lifandi kalkþörunga sem séu afar viðkvæmir fyrir raski og séu mikilvægt búsvæði fyrir sjávardýr og gróður. Vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og áhrifin því langvarandi og vart afturkræf nema til mjög langs tíma sé litið. Skipulagsstofnun taki þó ekki undir með Hafrannsóknastofnun að nýtingin sé ekki sjálfbær vegna þess að um sé að ræða afar hóflega nýtingu á auðlindinni. Í ljósi þess sem hér sé rakið telji Skipulagsstofnun að áhrif framkvæmdarinnar á kalkþörunga verði nokkuð neikvæð og staðbundin en ekki veruleg, eins og skilgreining á umtalsverðum umhverfisáhrifum áskilji, sbr. p-lið 3. gr. laga nr. 106/2000. Þess skuli getið að í umsögn Umhverfisstofnunar komi fram sú afstaða að um hóflega nýtingu sé að ræða.

Kærendur vísi til ummæla Fiskistofu í umsögn sinni en horfi vísvitandi fram hjá því að í umsögninni sé vikið að því að þar sem fyrirhuguð efnistaka sé fremur lítil að umfangi og til langs tíma, efnistökusvæðið sé afmarkað og nokkuð fjarri árósi Miðfjarðará, sé ekki líklegt að hún hafi mikil áhrif á afkomu laxfiska á svæðinu. Vegna þeirra orða Fiskistofu að það svæði og það magn sem sótt sé um leyfi til að nýta sé ekki fjarri þeim mörkum sem sett hafi verið til viðmiðunar um framkvæmdir sem skuli vera háðar mati á umhverfisáhrifum bendi Skipulagsstofnun á að það atriði geti ekki leitt til þess að framkvæmdin eigi að fara í mat á umhverfisáhrifum heldur þurfi að meta hvort framkvæmdin skuli matsskyld á grundvelli þeirra viðmiða sem fram komi í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Þá veki stofnunin athygli á því að mörkin í tölulið 2.01 séu há, enda um matsskylda framkvæmd að ræða í A-flokki. Því sé nokkuð langt seilst að tala um að stærð efnistökusvæðisins sé ekki fjarri mörkunum. Einnig geri stofnunin athugasemd við það orðalag Fiskistofu að henni þyki „eðlilegt“ að metin verði umhverfisáhrif framkvæmdarinnar áður en efnistaka hefjist. Skipulagsstofnun bendi á að ákvörðun um matsskyldu skuli byggjast á lagarökum og lagasjónarmiðum en ekki sjónarmiðum um hvað sé eðlilegt.

Því sé hafnað að Skipulagsstofnun hafi ekki rannsakað málið. Fram komi í niðurlagi hinnar kærðu ákvörðunar að í samræmi við 6. gr. laga nr. 106/2000 hafi stofnunin farið yfir þau gögn sem lögð hafi verið fram af hálfu framkvæmdaraðila við tilkynningu og fyrirliggjandi umsagnir. Þá hafi stofnunin aflað nánar tilgreindrar greinar frá 1980 sem fjalli um kalkþörunga í Húnaflóa og hugsanlega nýtingu þeirra. Vitnað hafi verið til greinarinnar og fjallað um rannsóknirnar í ákvörðuninni. Eins og málið hafi legið fyrir stofnuninni út frá þessum gögnum og að gættum viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000 hafi stofnunin ekki talið tilefni til að afla frekari upplýsinga, enda hafi legið fyrir hendi allar þær upplýsingar sem máli hafi skipt eða verið nauðsynlegar.

Þá hafni Skipulagsstofnun því að ákvörðunin sé ekki rökstudd. Þegar ákvörðunin sé borin saman við fyrri ákvörðunina, sem úrskurðarnefndin hafi gert athugasemd við, sé ljóst að rökstuðningnum í fyrri ákvörðuninni hafi verið ábótavant. Í hinni kærðu ákvörðun sé tekin afstaða til þess sem komi fram í umsögnum Umhverfisstofnunar og Hafrannsóknastofnunar auk þess sem tekin sé afstaða til þess hvort og hvaða þýðingu það hafi að áhrif verði á kalkþörungaset sem sé á lista OSPAR samningsins um viðkvæm búsvæði sem séu í hættu eða á undanhaldi, en úrskurðarnefndin hafi í úrskurði sínum kallað eftir þessum atriðum. Gerðar hafi verið breytingar á gátlistanum í samræmi við úrskurð nefndarinnar að því leyti að bætt hafi verið við þeim atriðum sem vantaði og koma fram í 2. viðauka laga nr. 106/2000. Einnig sé í reitunum „Já/Nei/Útskýring“ að finna mun ítarlegri umfjöllun heldur en í fyrri ákvörðuninni. Þar sé gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem hafi þýðingu í málinu. Rökstuðningurinn fullnægi því kröfum 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærendur vísi til staðhæfinga í hinni kærðu ákvörðun sem þeir telji lítt rökstudda, t.d. um að „telja [megi] að litlar líkur verði á öðrum áhrifum, eins og t.d. áhrifum á laxfiska í Miðfjarðará.“ Skipulagsstofnun bendi á að þau ummæli verði að skoða í samhengi við það sem komi fram á öðrum stað í ákvörðuninni, þ.e. tilvísun í umsögn Fiskistofu þess efnis að ólíklegt sé að efnistaka hafi áhrif á laxfiska á svæðinu. Með það í huga fái Skipulagsstofnun ekki séð að hin tilvitnuðu orð feli í sér lítt rökstudda staðhæfingu. Þá víki kærendur að þeim orðum Skipulagsstofnunar að fyrir liggi að vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og það taki því lífríkið langan tíma að jafna sig eftir rask. Í umsögn Hafrannsóknastofnunar komi fram að stofnunin telji efnisnám kalkþörungasets ekki sjálfbæra nýtingu á náttúruauðlind. Skipulagsstofnun bendi á að í niðurstöðukafla ákvörðunar hennar komi fram að vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og áhrifin því langvarandi og vart afturkræf nema á mjög löngum tíma. Einnig vísi kærendur til þeirra ummæla í ákvörðuninni að gera megi ráð fyrir að umhverfisáhrif framkvæmdar takmarkist við efnistökusvæðið. Skipulagsstofnun bendi á að gögn málsins gefi ekki til kynna að umhverfisáhrifin nái út fyrir framkvæmdasvæðið. Því hafi stofnunin ekki haft forsendur til að leggja annað til grundvallar. Í tilkynningu framkvæmdaraðila til stofnunarinnar sé gerð grein fyrir efnistökusvæðinu og með tilkynningunni fylgi kort/hnit af efnistökusvæðinu. Þannig hafi legið fyrir upplýsingar um afmörkun svæðisins áður en stofnunin hafi tekið ákvörðun í málinu.

Kærendur nefni að niðurstaða ákvörðunar Skipulagsstofnunar beri ekki vitni um sjálfstæða rannsókn og rökstudda niðurstöðu, en þar sé aðeins ein lagatilvísun. Stofnunin bendi á að það verði að meta ákvörðunina í heild sinni. Þegar það sé gert, en ekki bara einblínt á niðurstöðukaflann, komi í ljós að ákvörðunin beri merki þess að vera rökstudd og að undirbúningur hennar hafi fullnægt kröfum rannsóknarreglu stjórnsýslulaga.

Athugasemdir framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili telur ljóst að efnisleg rök fyrir möguleikum á áfalli fyrir hagsmunaaðila á svæðinu, verði af fyrirhugaðri efnistöku í Miðfirði, séu án rökstuðnings eða tilvitnana í rannsóknir eða til fyrri atburða vegna sambærilegra framkvæmda. Ljóst sé að rask af dragnótaveiðum hafi verið í firðinum áratugum saman, ásamt veiði með plógum og rækjutrolli, án þess að það hafi haft áhrif á göngu laxa í Miðfjarðará. Í samanburði sé efnistakan af völdum framkvæmdaraðila fjær og líklega minni, en auk þess liggi fyrir álit þess efnis að efnistakan muni að öllum líkindum ekki hafa nein áhrif.

——-

Bæði kærendur og Skipulagsstofnun vísa jafnframt til þeirra málsraka sem fram komu í kærumálum úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála nr. 3/2016 og 8/2016 og rakin eru í úrskurði nefndarinnar frá 3. október 2017. Verður ekki fjallað nánar um þau sjónarmið hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Að mati kærenda ber nauðsyn til að slíkt mat fari fram vegna mögulegra áhrifa framkvæmdarinnar á lífríki Miðfjarðarár og nánasta umhverfi hennar.

Efnistaka úr hafsbotni þar sem áætlað er að raska minna en 25.000 m2 svæði eða efnismagn er minna en 50.000 m3 fellur undir flokk C í 1. viðauka við lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum, sbr. tölul. 2.04 viðaukans. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skulu framkvæmdir í þeim flokki háðar mati á umhverfisáhrifum þegar þær geta haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Skal framkvæmdaraðili tilkynna Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd í flokki C, sbr. 2. mgr. nefndrar 6. gr., og tekur stofnunin ákvörðun um hvort framkvæmdin skuli háð mati á umhverfisáhrifum í samræmi við 5. mgr. lagagreinarinnar. Segir þar nánar að ákvörðun skuli taka innan tveggja vikna frá því að fullnægjandi gögn hafi borist, við ákvörðunina skuli fara eftir viðmiðum í 2. viðauka laga nr. 106/2000 og að Skipulagsstofnun sé heimilt að leita álits leyfisveitanda og annarra aðila eftir eðli máls hverju sinni. Í samræmi við 2. mgr. 6. gr. tilkynnti framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun um fyrirhugaða framkvæmd, svo sem frá er greint í málavaxtalýsingu. Í tilkynningunni kemur fram að framkvæmdaraðili hafi fengið leyfi frá Orkustofnun til hagnýtingar á 1.200 m³ af kalkþörungaseti á ári í 30 ár innan tiltekins svæðis í Miðfirði.

Samkvæmt þeim ákvæðum 6. gr. laga nr. 106/2000 sem áður er lýst ræðst matsskylda af því hvort framkvæmd getur haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Í p-lið 3. gr. laganna eru umhverfisáhrif skilgreind sem umtalsverð ef um er að ræða „[v]eruleg óafturkræf umhverfisáhrif eða veruleg spjöll á umhverfinu sem ekki er hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.“ Í 5. mgr. nefndrar 6. gr. segir að við ákvörðun um matsskyldu skuli fara eftir viðmiðum 2. viðauka laganna, en þar eru þeir þættir sem líta ber til taldir upp í þremur töluliðum. Varða þeir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar, sbr. 1.-3. tölul. 2. viðauka. Undir hverjum tölulið eru svo talin upp önnur atriði sem líta ber til. Hefur Skipulagsstofnun útbúið eyðublað og sniðmát ákvörðunar um framkvæmd í flokki C. Þá er fyrirliggjandi gátlisti þar sem spurt er hvort framkvæmdin hafi áhrif á þætti sem taldir eru í 32 liðum sem flokkaðir eru í þrennt, sbr. 1.-3. tölul. 2. viðauka, þ.e. eftir eðli framkvæmdar, staðsetningu og eiginleika hugsanlegra áhrifa hennar. Er hin kærða ákvörðun að formi svo sem að framan er lýst.

Hvað varðar eðli framkvæmdar fjallar Skipulagsstofnun fyrst og fremst um hvort framkvæmdin sé umfangsmikil. Þar er rakið að fyrirhuguð framkvæmd feli í sér töku á allt að 36.000 m3 á þrjátíu árum og að fyrirhugað efnistökusvæði sé 24.150 m2 að stærð. Vísað er til þess að niðurstöður könnunar frá árinu 1980 á kalki í sjávarseti í vestanverðum Húnaflóa gefi til kynna að útbreiðsla kalkþörungasets á svæðinu sé töluverð. Við könnunina hafi fundist kalkþörungaset víða á grunnsævi í innsta hluta Húnaflóa en setið hafi þó verið sérstaklega áberandi með vestanverðum Miðfirði og í Hrútafirði.

Að því er varðar staðsetningu framkvæmdar þá vísar Skipulagsstofnun til þess að í umsögn Fiskistofu komi fram að ólíklegt sé að efnistakan hafi áhrif á laxfiska á svæðinu, efnissvæðið sé afmarkað, umfangslítið og nokkuð fjarri árósi Miðfjarðarár. Tekur Skipulagsstofnun undir þau ummæli og telur ekki líklegt að efnisnámið og gruggmyndun því samfara hafi neikvæð áhrif á laxfiska á svæðinu. Um getu náttúruauðlinda á svæðinu til endurnýjunar segir Skipulagsstofnun að vaxtarhraði kalkþörunga sé afar hægur og framkvæmdin hafi því áhrif á magn náttúruauðlinda. Þá vísar stofnunin til þess að kalkþörungaset sé á lista samningsins um verndun Norðaustur-Atlantshafsins (OSPAR samningsins), sem Ísland hefur fullgilt, um viðkvæm búsvæði sem séu í hættu eða á undanhaldi. Hafsvæðum OSPAR samningsins sé skipt í fimm undirsvæði og sé hafsvæði við Ísland á svæði I. Ástand búsvæða kalkþörunga sé ólíkt á milli undirsvæða og hafi aðildarríkin verið hvött til að grípa til verndaraðgerða á svæði III en ekki á öðrum svæðum. Að því er varðar áhrif framkvæmdanna á gróður og búsvæði dýra segir að framkvæmdin muni raska gróðri og búsvæðum sjávardýra á fyrirhuguðu framkvæmdarsvæði, en með hliðsjón af umsögn Fiskistofu megi gera ráð fyrir að áhrifin verði staðbundin og hafi ekki áhrif á afkomu laxfiska í nærliggjandi ám.

Þegar kemur að eiginleikum hugsanlegra áhrifa telur Skipulagsstofnun að gera megi ráð fyrir að umhverfisáhrif framkvæmda takmarkist við efnistökusvæðið. Helstu neikvæðu áhrifin séu vegna rasks á kalkþörungaseti og þeirrar eyðileggingar á búsvæðum sem því fylgi. Gera megi ráð fyrir að umfang áhrifa ráðist af því raski sem verði, en með hliðsjón af stærð efnistökusvæðis megi ætla að magn og fjölbreytileiki áhrifa verði takmarkaður. Ganga megi út frá því að framkvæmd muni raska búsvæðum og hafa áhrif á sjávargróður og dýr á framkvæmdasvæði, en litlar líkur verði á öðrum áhrifum. Þá liggi fyrir að vaxtartími kalkþörunga sé afar hægur og það taki því lífríkið langan tíma að jafna sig eftir rask.

Eðli máls samkvæmt fer það eftir þeirri framkvæmd sem ákvörðunin snýst um hver þeirra atriða sem tiltekin eru í 1.-3. tölul. 2. viðauka laga nr. 106/2000 vega þyngst við mat Skipulagsstofnunar á því hvort umhverfisáhrif framkvæmdar teljist umtalsverð. Það leiðir þó ekki sjálfkrafa til matsskyldu að einhver þeirra atriða eigi við um fyrirhugaða framkvæmd. Þótt eitt af viðmiðunum um matsskyldu sé eðli framkvæmdar, m.a. með tilliti til stærðar og umfangs hennar, þá veldur umfang efnistökunnar eitt og sér ekki matsskyldu, enda hefur löggjafinn ákveðið að metið verði hverju sinni hvort efnistaka af þeirri stærð sem hér um ræðir sé líkleg til að valda svo umtalsverðum áhrifum að mat á umhverfisáhrifum þurfi að fara fram.

Kærandi telur skorta á rökstuðning í ákvörðun Skipulagsstofnunar, m.a. að því er varðar þá afstöðu hennar að umhverfisáhrif framkvæmdar takmarkist við efnistökusvæðið, auk þess sem rannsókn málsins hafi verið ábótavant. Rökstuðningur Skipulagsstofnunar um að neikvæð áhrif framkvæmdarinnar séu staðbundin tekur m.a. mið af umsögn Fiskistofu þar sem kemur fram að þar sem fyrirhuguð efnistaka sé fremur lítil að umfangi og til langs tíma, efnistökusvæðið afmarkað og nokkuð fjarri árósi Miðfjarðarár, sé ekki líklegt að hún hafi mikil áhrif á afkomu laxfiska á svæðinu. Einnig segir í umsögn Umhverfisstofnunn að um hóflega nýtingu sé að ræða þar sem lögð verði áhersla á að valda sem minnstum skaða utan hins eiginlega efnistökusvæðis. Hefur og ekkert fram komið í málinu sem gefur tilefni til að ætla að umhverfisáhrif framkvæmdarinnar muni ná út fyrir fyrirhugað efnistökusvæði. Fyrir stofnuninni lágu umsagnir fagstofnana og leyfisveitanda sem aflað var við leyfisveitingu vegna sömu framkvæmdar og höfðu aðstæður ekki breyst frá þeim tíma. Verður því ekki séð að ástæða hafi verið fyrir Skipulagsstofnun að afla sérstaklega nýrra umsagna til að málið teldist nægjanlega upplýst, líkt og kærendur halda fram. Skal áréttað í því sambandi að ekki hvílir skylda á stofnuninni að afla álita vegna framkvæmda í flokki C í 1. viðauka laga nr. 106/2000, að því gefnu að málið sé nægjanlega upplýst án þess að svo sé gert, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því síður er stofnunin bundin af umsögnum sem aflað er við leyfisveitingu og lýsa eftir atvikum afstöðu umsagnaraðila til matsskyldu þótt þær upplýsingar, sem og aðrar, geti stuðlað að rannsókn málsins. Verður talið að Skipulagsstofnun hafi sinnt rannsóknarskyldu sinni og rökstutt ákvörðun sína að því marki sem nauðsyn bar til. Þá bendir ekkert til þess að mat Skipulagsstofnunar hafi að öðru leyti verið ómálefnalegt eða stutt ónógum gögnum.

Að virtum aðstæðum öllum er það álit úrskurðarnefndarinnar að Skipulagsstofnun hafi við undirbúning ákvörðunar sinnar lagt viðhlítandi mat á þá þætti sem máli skiptu og vörðuðu það hvort umtalsverð umhverfisáhrif hlytust af framkvæmdinni og við það mat tekið tillit til viðeigandi viðmiða 2. viðauka laga nr. 106/2000. Miðað við allar aðstæður var ekki sérstök þörf á að reifa varúðarsjónarmið við undirbúninginn og gat varúðarregla 9. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd ekki heldur komið til skoðunar, enda tekur ákvæðið samkvæmt orðanna hljóðan einungis til ákvarðana sem teknar eru á grundvelli þeirra laga. Er og rétt að taka fram að þar sem niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að framkvæmdin væri ekki matsskyld þá var eðli máls samkvæmt ekki nauðsyn á mati á umhverfisáhrifum eða sérstökum rannsóknum því tengdu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 14. desember 2017 um að nýting kalkþörungasets í Miðfirði skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

126/2018 Káragerði

Með

Árið 2018, fimmtudaginn 20. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2018, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 9. október 2018 um að stöðva ekki efnistöku úr árfarveginum við ána Affall í Vestur-Landeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. október 2018, er barst nefndinni 11. s.m., kæra A og B, þinglýstir eigendur jarðarinnar Bergþórshvols í Vestur-Landeyjum, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra frá 9. október 2018 að stöðva ekki efnistöku án framkvæmdaleyfis í landi Bergþórshvols í Vestur-Landeyjum. Að auki er þess krafist að efnistaka á efnistökusvæðinu verði stöðvuð til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Rangárþingi eystra 31. október og 1. nóvember 2018.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Rangárþings 30. júní 2011 var lögð fram tillaga að deiliskipulagi á 5 ha svæði í landi Káragerðis með landnúmerið 163954. Samkvæmt fundargerð fyrrnefnds fundar tók deiliskipulagið til byggingarreits fyrir íbúðarhús, bílskúr og útihús. Aðkoma að svæðinu átti að vera um Landeyjaveg, um Bergþórshvolsveg og aðkomuveg að Káragerði. Kærendur, sem eru þinglýstir eigendur jarðanna Bergþórshvols I og II, komu á framfæri athugasemdum við meðferð málsins þar sem því var mótmælt að aðkoma að Káragerði yrði um aðkomuveg að Bergþórshvoli I og II. Skipulagsnefnd Rangárþings vísaði málinu til sveitarstjórnar Rangárþings eystra til frekari afgreiðslu. Á fundi sveitarstjórnar 8. september 2011 var tekið fram að sveitarstjórn tæki tillit til framkominna athugasemda eigenda Bergþórshvols I og II og mæltist til þess að aðkomu að Káragerði yrði fundinn nýr staður. Á sveitarstjórnarfundi 6. október s.á. var málið tekið fyrir að nýju til þess m.a. að skýra betur fyrri ákvörðun sveitarstjórnar frá 8. september vegna fyrirspurna sem fram höfðu verið bornar af hálfu eigenda Bergþórshvols vegna boðaðra lokana á heimreið að Káragerði. Af þessu tilefni var lögð fram í sveitarstjórn bókun sem samþykkt var samhljóða. Í bókuninni kom fram að sveitarstjórn staðfesti þá afstöðu sem fram kæmi í bréfi lögmanns sveitarfélagsins að lokun á heimreiðinni að Káragerði væri ekki samþykkt af hálfu þess. Þá var tekið fram að sveitarstjórn liti að öðru leyti svo á að um einkaréttarlegan ágreining milli eigenda Bergþórshvols og Káragerðis væri að ræða og að hún myndi ekki aðhafast frekar í málinu að óbreyttu. Var síðan ítrekað í bókuninni að fyrirliggjandi deiliskipulag íbúðarhúss, bílskúrs og útihúss að Káragerði væri samþykkt af hálfu sveitarfélagsins. Byggingarleyfi eigenda Káragerðis væri því án annarra skilyrða en þeirra sem fram kæmu í almennum lögum og reglum um framkvæmdir af því tagi sem um ræddi á svæðinu. Með bókun sinni frá 8. september 2011 hefði sveitarstjórn ekki verið að fella skipulagið úr gildi heldur hefði hún samþykkt deiliskipulagið. Hins vegar hefði sveitarstjórn viljað taka fram að ákveddu eigendur Káragerðis að sækja síðar um breytingu á legu heimkeyrslu að hinum nýbyggðu húsum á jörðinni myndi sveitarfélagið taka jákvætt í það, þrátt fyrir almennt ákvæði í aðalskipulagi um samnýtingu vega svo sem frekast væri kostur, enda félli væntanleg tillaga að skipulagi svæðisins að öðru leyti.

Deiliskipulagstillagan var samþykkt af sveitarstjórn Rangárþings eystra á fundi 8. september 2016. Hinn 28. mars 2017 birtist hún í B-deild Stjórnartíðinda og var tekið fram í greinagerð að aðkoma að Káragerði væri af Landeyjavegi nr. 252 um nýjan aðkomuveg að Káragerði.

Hinn 17. maí 2018 sendu kærendur bréf til skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra og kröfðust stöðvunar á framkvæmdum framkvæmdaaðila skv. 53. gr. skipulagslaga þar sem þeir töldu þær fela í sér framkvæmdaleyfisskylda efnistöku í landi Bergþórshvols. Að sögn kærenda var á þessum tíma hins vegar ekki þörf á frekari afskiptum sveitarfélagsins þar sem framkvæmdaaðilar hættu efnistökunni af sjálfsdáðum. Efnistakan hófst hins vegar aftur um haustið án þess að aflað hefði verið framkvæmdaleyfis og höfðu kærendur því samband við embætti skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins og kröfðust þess að nýju að framkvæmdirnar yrðu stöðvaðar. Skipulags- og byggingarfulltrúi synjaði beiðni kærenda 9. október 2018 með þeim rökum að þar sem efnistakan væri til einkanota væri hún ekki framkvæmdaleyfisskyld. Kærendur óskuðu þá eftir því að embættið endurskoðaði afstöðu sína til erindisins tafarlaust eða rökstyddi hana með fullnægjandi hætti. Tóku þeir fram að um framkvæmdaleyfisskylda framkvæmd væri að ræða en efnistakan væri í landi kærenda þar sem að á þriðja tug sturtuvagna af möl hefðu verið fjarlægðir. Ekkert framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar lægi fyrir, líkt og skýrt og afdráttarlaust orðalag laganna gerði kröfu um, og bæri því skipulagsfulltrúa að stöðva þær framkvæmdir sem hafnar væru án leyfis skv. 53. gr. skipulagslaga. Lögmaður sveitarfélagsins staðfesti með skeyti 10. október 2018 fyrri afstöðu embættis skipulags- og byggingarfulltrúa. Tók hann fram að tilgangur laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu væri að tryggja að farið væri með löndum við nýtingu auðlinda í jörðu. Benti hann sérstaklega á að í a-lið 2. mgr. 8. gr. kæmi fram að minni háttar efnistaka væri ekki háð sérstöku framkvæmdaleyfi að mati sveitarfélagsins og um væri að ræða efnistöku til einkanota. Áréttaði hann síðan að lokum að viðkomandi malartekja væri ekki framkvæmd sem háð væri skilyrðum um framkvæmdaleyfi að mati sveitarfélagsins. Tók hann síðan fram að sveitarfélagið myndi ekki blanda sér með neinum hætti í þær deilur sem kynnu að vera uppi um málið á Bergþórshvoli og yrðu aðilar því að leita annarra úrræða til að leiða þær til lykta.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að samkvæmt 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 1. mgr. 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu sé efnistaka að meginreglu háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Skilyrði undanþágu frá slíku leyfi komi fram í 2. mgr. fyrrnefnds ákvæðis þar sem segi að eiganda eða umráðamanni eignarlands sé heimil minni háttar efnistaka til eigin nota, án þess að aflað sé framkvæmdaleyfis. Af þessu leiði að afla þurfi framkvæmdaleyfis fyrir efnistöku ef eigandi eða umráðamaður efnistökusvæðis stendur ekki að framkvæmdinni, efnistakan sé minniháttar eða efnistakan sé ekki til einkanota.

Að mati kærenda ættu umrædd skilyrði fyrir undanþágu frá framkvæmdaleyfi ekki við um hina kærðu efnistöku. Efnistökusvæðið sé innan þinglýstra marka jarðar þeirra, Bergþórshvols, og hún hafi ekki verið til eigin nota framkvæmdaaðila þar sem efninu hafi verið ekið í veginn að Káragerði, sem sé héraðsvegur, sbr. c-lið 2. mgr. 8. gr. vegalaga nr. 80/2007. Því hafi eigendur Káragerðis einungis borið helming kostnaðar við gerð vegarins á móti Vegagerðinni, sbr. 20. og 13. gr. vegalaga, og að lokum hafi framkvæmdin ekki með nokkru móti geta talist minni háttar í skilningi laganna, en kærendum hafi talist til að um 50 vörubílahlöss af möl hafi verið fjarlægð af efnistökusvæðinu á sólarhring. Þá sé efnistakan enn yfirstandandi og aukist jafnt og þétt. Af framangreindu blasi við að umrædd efnistaka sé framkvæmdaleyfisskyld og hafi því embætti skipulagsfulltrúa borið að lögum að grípa tafarlaust til aðgerða til að stöðva óleyfisframkvæmdina í samræmi við 53. gr. skipulagslaga.

Kærendur geri athugasemdir við þá fullyrðingu sveitarfélagsins að verkinu sé lokið. Hið rétta sé að aðeins hafi verið ekið efni í hluta af heimreiðinni að Káragerði og því standi allar líkur til þess að efnistökunni verði fram haldið í óþökk kærenda. Hafi vinnuvél á vegum eigenda Káragerðis staðið á efnistökusvæðinu svo ætla megi að áframhaldandi efnistaka sé þar yfirvofandi.

Við meðferð málsins og undirbúning ákvörðunarinnar hafi skipulagsfulltrúi ekki gætt nægilega vel að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, einkum rannsóknarreglu 10. gr. þeirra, þar sem ákvörðun embættisins hafi verið tekin þegar hvorki hafi verið búið að staðreyna umfang efnistökunnar né hvort hún hafi verið til einkanota framkvæmdaaðila.

Málsrök Rangárþings eystra: Að hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að í kjölfar ábendingar kærenda varðandi umdeilda efnistöku hafi verið aflað upplýsinga um framangreint mál í samræmi við 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélagið hafi fengið þær upplýsingar frá framkvæmdaaðilum að kærendur hafi meinað þeim að nota sameiginlegan afleggjara jarðanna tveggja. Af þeim sökum hafi framkvæmdaaðilar ákveðið að bera ofan í afleggjara sem sé innan lands þeirra, Káragerðis, til að komast að húsi sínu. Til þess verks hafi framkvæmdaaðilar tekið óverulegt malarefni úr eignarlandi sínu. Eftir rannsókn sveitarfélagsins hafi það verið mat þess að umrædd efnistaka rúmaðist innan heimilda 2. mgr. 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og að ekki hefði þurft framkvæmdaleyfi vegna hennar. Hafi því ekki verið tilefni til að stöðva efnistökuna auk þess sem verkinu hafi þá verið lokið. Framkvæmdaaðilar hafi ekki verið að útbúa nýjan veg heldur bera í veg sem hafi verið innan jarðar þeirra. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi farið á vettvang vegna málsins til að staðfesta magn efnistökunnar og um hafi veri að ræða 24 vagna, eða um 8 m3 efni í hverjum vagni, samanlagt tæplega 200 m3.

Athugasemdir framkvæmdaaðila: Af hálfu framkvæmdaaðila er vísað til þess að frá árinu 1998 hafi svæðið verið nýtt til efnistöku til heimanota. Efnistakan sem hér hafi farið fram hafi einnig verið til heimanota en efnið hafi verið nýtt til að bera ofan í bráðabirgða slóða sem nýttur séu eins og vegur vegna samskiptavanda við nágranna. Sé ljóst að þörf sé á frekari ofaníburði í þennan slóða og til þess muni hann sækja möl eftir þörfum úr landi sínu. Viðgengist hafi allt þar til nýlega að eigendur Káragerðis hafi getað farið um jörð Bergþórshvols og sótt möl úr Affalli eftir þörfum, en frjáls malartaka hafi tíðkast úr vatnasvæði Affallsins. Framkvæmdaaðilar hafi ekið um 25 vagna af möl úr hrúgu sem þegar hafi verið mokað upp í því skyni að leggja við hlið fyrirhugaðs vegstæðis í landi Káragerðis. Eigendur Káragerðis hafi brugðið á þetta ráð í ljósi þess að eigendur Bergþórshvols hafi lokað fyrir umferð eigenda, íbúa og gestkomandi að Káragerði. Malartakan hafi ekki verið meiri en þetta og séu rangar þær fullyrðingar eigenda Bergþórshvols að hún sé yfirstandandi og hafi aukist jafnt og þétt.

Andmæli kærenda við umsögn sveitarfélagsins:
 Kærendur mótmæla því að sameiginleg aðkoma sé að jörðunum Bergþórshvoli og Káragerði. Hið rétta sé að á meðan fyrrverandi eigandi Káragerðis hafi búið að Bergþórshvoli II hafi hann ekið frá íbúðarhúsi síðarnefndu jarðarinnar að Káragerði. Forsendur þeirrar aðkomu að jörðinni Káragerði um og frá landi Bergþórshvols hafi hins vegar liðið undir lok þegar fyrrverandi eigandi Bergþórshvols II hafi selt jörðina til kærenda.

Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé aðkoma að jörðinni Káragerði frá þjóðveginum innan þinglýstra marka þeirrar jarðar. Í greinagerð deiliskipulagsins og með deiliskipulags-uppdrættinum sjáist svo ekki verði um villst hvernig gert sé ráð fyrir heimreið að Káragerði frá Landeyjavegi nr. 252, en jafnframt hvernig heimreið í landi Bergþórshvols endi við íbúðarhúsið að Bergþórshvoli II. Deiliskipulagið sé fullgild réttarheimild sem stjórnvaldsfyrirmæli, sett af sveitarfélaginu og skuldbindandi fyrir bæði almenning og sveitarfélagið sjálft. Deiliskipulagið sé undirritað af núverandi sveitarstjóra og sæti því óneitanlega furðu að sveitarfélagið skuli fullyrða að allt annað fyrirkomulag sé í gildi á svæðinu en fram komi í deiliskipulaginu.

Því sé hafnað að efnistakan sem um ræði hafi verið óveruleg. Um 50 vörubílahlöss af malarefni hafi verið flutt af efnistökusvæðinu. Umfang efnistökunnar sé því langt umfram það sem geti talist óverulegt í skilningi 2. mgr. 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Athygli veki að engin gögn fylgi bréfi sveitarfélagsins til stuðnings þeirri fullyrðingu þess að efnistakan falli undir það að vera óveruleg framkvæmd í skilningi laganna. Þá mótmæli kærendur þeirri fullyrðingu að framkvæmdaaðilar hafi tekið óverulegt malarefni úr eignarlandi sínu. Sú fullyrðing sé í hróplegu ósamræmi við þinglýsta yfirlýsingu eigenda jarðanna Káragerðis og Bergþórshvols, dags. 22. júní 2009, þar sem staðfest hafi verið landamerki á milli jarðanna. Á loftmynd með landamerkjum jarðanna sé augljóst að efnistökusvæðið sem sé næst Affallinu sé innan þinglýstra landamerkja Bergþórshvols. Þá sé gerð athugasemd við það að sveitarfélagið bregðist ekki við því sjónarmiði kærenda að efnistakan sé ekki til eigin nota framkvæmdaaðila. Ljóst sé að framkvæmdaaðilar muni ekki bera nema helming kostnaðar af gerð vegarins á móti Vegagerðinni í samræmi við 20. gr. vegalaga nr. 80/2008. Skilyrði tilvitnaðrar 2. mgr. 8. gr. a í lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og 2. ml. 2. mgr. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um að framkvæmdin sé til einkanota séu því ekki uppfyllt.

Fullyrðingar sem fram komi í bréfi sveitarfélagsins séu í raun svo víðsfjarri staðreyndum og gögnum málsins að kærendur telja einsýnt að sveitarfélaginu hafi orðið á mistök við afgreiðslu þess. Raunar renni bréf sveitarfélagsins stoðum undir þá fullyrðingu kærenda, að skipulags- og byggingarfulltrúi hafi við afgreiðslu á kröfu kærenda um stöðvun efnistökunnar ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 enda ljóst að ekkert hafi verið aðhafst í málinu fyrr en ákvörðun embættisins hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar. Upplýsingaöflun sveitarfélagsins um málsatvik hafi síðan verið ófullnægjandi með öllu eins og ráða megi af efnistökum bréfsins.

Niðurstaða: Fram kemur í 1. mgr. 13. gr. skipulagslaga að afla skuli framkvæmdaleyfis sveitarstjórnar vegna meiri háttar framkvæmda sem áhrif hafa á umhverfið og breyta ásýnd þess, svo sem breytingar lands með jarðvegi eða efnistöku, og annarra framkvæmda sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Þá er samkvæmt 2. mgr. 13. gr. öll efnistaka á landi, úr botni vatnsfalla og stöðuvatna og úr hafsbotni innan netlaga háð framkvæmdaleyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar að því undanskildu að eiganda eða umráðamanni eignarlands er heimil minni háttar efnistaka til eigin nota án leyfis nema um sé að ræða náttúruverndarsvæði. Er ákvæði þetta sambærilegt 8. gr. a í lögum nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Sé framkvæmdaleyfisskyld framkvæmd hafin án þess að framkvæmdaleyfi sé fengið fyrir henni er eftir atvikum unnt að leita atbeina skipulagsfulltrúa um stöðvun framkvæmda, sbr. 1. mgr. 16. gr. reglugerðar um framkvæmdaleyfi nr. 772/2012 og 1. mgr. 53. gr. skipulagslaga.

Í máli þessu greinir kærendur og framkvæmdaaðila á um eignarheimildir að landi því þar sem umdeild malartaka átti sér stað. Upplýst hefur verið að framkvæmdaaðilarnir hafa stefnt kærendum fyrir Héraðsdóm Suðurlands og farið fram á viðurkenningu á því að jörð þeirra Káragerði tilheyri þriðjungur af óskiptum hlunnindum Bergþórshvolstorfu, sem felur þá m.a. í sér þriðjungshlutdeild til malarnáms ásamt tilheyrandi umferðarrétti. Telja framkvæmdaaðilar sig því hafa rétt til efnistöku á svæðinu. Það er hvorki á valdi skipulagsfulltrúa né úrskurðarnefndarinnar að skera úr slíkum ágreiningi heldur á úrlausn hans eftir atvikum undir dómstóla. Er því óljóst hvernig eignarréttindi að umdeildu malartökusvæði er háttað.

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er umrætt svæði ætlað til malarnáms og er þar tekið fram að malarnám skuli fyrst og fremst fara fram á slíkum stöðum þar sem árframburður jafni út áhrif námsins. Skipulags- og byggingarfulltrúi hefur upplýst að umrædd malartaka hafi verið úr árfarvegi Affalls. Því má gera ráð fyrir að framburður árinnar upphefji áhrif malarnámsins að mestu og hefur malartakan því væntanlega takmörkuð áhrif á ásýnd lands. Samkvæmt upplýsingum skipulags- og byggingarfulltrúa var um að ræða tæplega 200 m3 malartekju, sem fallast má að ekki geti talist meiri háttar með tilliti til staðhátta. Þá verður ekki annað séð en að malartakan hafi verið ætluð til eigin nota framkvæmdaaðila, en ljóst er að vegurinn er heimkeyrsla að húsi í þeirra eigu og skiptir þá ekki máli þótt framkvæmdaaðilar hafi ekki staðið einir að kostnaði við gerð vegarins.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja að fullnægjandi rök hafi verið færð fram fyrir hinni kærðu ákvörðun að synja beiðni kærenda um stöðvun umræddrar efnistöku. Slík ákvörðun felur í sér íþyngjandi réttarúrræði sem beita ber af varúð og einungis þegar ótvírætt er að lagaskilyrði teljist uppyllt. Verður kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Rangárþings eystra um að stöðva ekki efnistöku landeigenda Káragerðis úr árfarvegi árinnar Affalls í Vestur-Landeyjum skv. 53. gr. skipulagslaga.