Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2023 Efnistaka úr Hörgá

Árið 2023, föstudaginn 26. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 61/2023, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 að veita leyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist á réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni og verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu 22. maí 2023.

Málavextir: Hinn 11. apríl 2019 veitti Fiskistofa framkvæmdaraðila leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit, fyrir allt að 85.000 m3. Gildistími leyfisins var til 12. apríl 2020. Sveitarfélagið mun ekki hafa veitt framkvæmdaleyfi og fór efnistaka því ekki fram. Fiskistofa veitti aftur leyfi 18. nóvember 2020 og gilti það til 1. október 2022. Framkvæmdir munu ekki hafa farið fram og óskaði framkvæmdaraðili eftir því að leyfið yrði framlengt. Fiskistofa veitti leyfi að nýju 12. september 2022 á grundvelli sömu forsendna og fyrri leyfi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun brjóti gegn ákvæðum laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana en um kæruheimild fari samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Í hinni kærðu ákvörðun komi skýrt fram að í engu hafi verið gætt að því sem sjávarútvegsfræðingur hafi mælt með í byrjun árs 2019, og þá hafi heldur ekki verið aflað uppfærðra upplýsinga frá þeim sérfræðingi, þótt tvö og hálft ár hafi liðið frá því að fyrri greinargerð hans lá fyrir. Allar efnis- og formreglur hafi verið brotnar við töku hinnar kærðu ákvörðunar.

Málsrök Fiskistofu: Af hálfu Fiskistofu er vísað til þess að stofnuninni hafi ekki þótt tilefni til þess að afla uppfærðra upplýsinga frá sérfræðingi á sviði veiðimála fyrir útgáfu leyfisins frá 12. september 2022. Efnistakan hafi tekið til sama magns og engin efnistaka hefði farið fram á svæðinu á grundvelli fyrri leyfa. Stofnunin hefði ekki krafist þess að framkvæmdaraðili léti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi hafi verið veitt, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Þess í stað hefði verið kveðið á um að efnistakan yrði unnin í samráði við fiskifræðing til að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna árinnar.

 Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um gildi ákvörðunar Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er efnistöku á svæðinu lokið á þessu efnistökutímabili. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa vegna ákvörðunar Fiskistofu um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.