Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

53/2023 Efnistaka úr Hörgsá

Árið 2023, föstudaginn 26. maí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 53/2023, kæra á ákvörðun sveitastjórnar Hörgársveitar frá 27. ágúst 2020 um að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

 um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun sveitarstjórnar Hörgársveitar frá 27. ágúst 2020 að samþykkja umsókn um framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hörgársveit 5. og 11. maí 2023.

Málavextir: Í apríl 2015 fór fram umhverfismat framkvæmdar fyrir allt að 795.000 m3 efnistöku úr Hörgá, Fossá og Öxnadalsá. Álit Skipulagsstofnunar lá fyrir 4. júní 2015. Kemur m.a. þar fram að gert er ráð fyrir að tímabundin framkvæmdaleyfi verði gefin út yfir 20 ára tímabil í samræmi við áfangaskiptingu á grundvelli ráðgjafar fiskifræðinga. Gefin hafa verið út nokkur framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á mismunandi svæðum í Hörgá, en stöðvunarkafa í máli þessu varðar eingöngu framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6.

Sveitarstjórn Hörgársveitar samþykkti á fundi sínum 27. ágúst 2020 umsókn um framkvæmdaleyfi og var það gefið út með gildistíma til 1. október 2022, en ekki mun hafa orðið að framkvæmdum. Framkvæmdaraðili óskaði eftir framlengingu á leyfinu og gaf skipulagsfulltrúi út fram­kvæmda­leyfi 1. október 2022 með vísan til fyrri ákvörðunar sveitarstjórnar frá 27. ágúst 2020.

Málsrök kæranda: Máli sínu til stuðnings vísar kærandi til framlagðra ljósmynda og bendir á að mikil og vel sýnileg efnistaka, rask og haugsöfnun hafi farið fram undanfarið í og við Hörgá, og sé enn yfirstandandi. Að loknu efnistökutímabili, 30. apríl 2023, hafi átt eftir að sækja efni úr geymslusvæðum við ána. Því fylgi áhætta vegna frekara álags og áhrifa á vatnsgæði viðkomandi vatnshlota, en ekki hafi verið gerð lögbundin athugun á þeim áhrifum. Miklir almannahagsmunir lífríkis og vatnsgæða séu undir í málinu. Frá því að kæra hafi verið send í máli þessu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, 19. apríl 2023, þar til sveitarfélagið hafi skilað athugasemdum sínum, 5. maí 2023, hafi efnistaka sannanlega farið fram á efnistökusvæði 6. Á þessu tímabili hafi farvegur Hörgár verið fluttur í heild sinni á nokkurra hundruð metra kafla. Tjón á lífríki blasi við, svo sem lesa megi út frá mati á umhverfisáhrifum frá árinu 2015, þar með talinna umsagna Fiskistofu, Veiðimálastofnunar og Umhverfisstofnunar, og áliti Skipulagsstofnunar. Verði ekki fallist á stöðvun framkvæmda á meðan málið sé til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni verði hagsmunir lífríkisins fyrir borð bornir.

Málsrök Hörgársveitar: Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að lagaskilyrði séu ekki uppfyllt fyrir stöðvunkröfu og henni beri að hafna. Ekki séu fyrir hendi ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir því að framkvæmdir verði stöðvaðar og vikið verði frá meginreglu 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála og 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar. Ákvæði sem mæli fyrir undantekningum á þeirri meginreglu beri að skýra þröngt. Stöðvun framkvæmda geti falið í sér tjón fyrir framkvæmdaraðila og mikla röskun á því fyrirkomulagi sem sé til staðar varðandi efnistöku úr Hörgá. Þá sé stöðvun framkvæmda afar íþyngjandi inngrip í sjálfsstjórnarrétt sveitarfélags, ráðstöfunarheimild eiganda yfir landi sínu og eignarrétt þeirra sem eigi haugsett efni. Þar sem um sé að ræða hagsmuni sem njóti allir verndar ákvæða stjórnarskrárinnar beri að gera ríkar kröfur til þess að skilyrði séu uppfyllt til stöðvunar framkvæmdar.

Ljósmyndir sem kærandi hafi lagt fram sýni ekki efnistöku úr ánni, heldur flutning og frágang efnis sem þegar hafi verið tekið úr ánni. Efnistaka sé þegar óröskuðu efni sé mokað upp og tekið úr árfarvegi eða öðrum efnistökustað. Flutningur sé þegar efni, sem mokað hafi verið upp og þegar verið raskað, sé tekið og flutt til. Í máli þessu sé efnistaka heimil til 30. apríl 2023 og megi hún hefjast aftur 1. október 2023. Flutningur efnis sé heimill þess á milli, svo framarlega sem það valdi ekki gruggi í ánni og að uppfylltum öllum skilyrðum. Í byrjun maí 2023 hafi skipulags- og byggingarfulltrúi gert athugasemdir við framkvæmdaraðila um að efni stæði of nærri ánni miðað við ákvæði umhverfismats og að efnishaugar hafi staðið utan geymslusvæðis sem skilgreint sé á uppdrætti sem liggi leyfinu til grundvallar. Framkvæmdaraðili hafi sagst myndu bregðast við þegar í stað og telji sveitarfélagið að svo hafi verið gert. Verði ekki betur séð en að skurðgrafa sem sjáist á ljósmynd frá 5. maí 2023 sýni að framkvæmdaraðili hafi brugðist við þessum athugasemdum og myndin sýni flutning efnis frá ánni. Alltaf hafi legið fyrir að efninu yrði safnað upp í hauga. Um tímabundna sjónmengun sé að ræða, enda verði haugarnir fjarlægðir og efni tekið úr þeim til framkvæmda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðun en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um gildi framkvæmdaleyfis vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá. Efnistökutímabili lauk 30. apríl 2023 og hefst það aftur 1. október 2023. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu er efnistöku á svæðinu lokið og ljósmyndir þær sem lagðar hafa verið í fram í málinu sýni flutning á efni en ekki efnistöku. Með hliðsjón af því og framangreindum lagaákvæðum verður ekki séð að tilefni sé til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

 Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða vegna ákvörðunar sveitarstjórnar um að samþykkja framkvæmdaleyfi vegna efnistöku á svæði E-6 í Hörgá.