Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

61/2023 Efnistaka í Hörgá

Árið 2023, föstudaginn 29. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í gegnum fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 61/2023, kæra á ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. maí 2023, er barst nefndinni sama dag, kærir Náttúrugrið, þá ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 að veita Hæðargarði ehf. leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt var gerð krafa um að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði uppkveðnum 26. maí 2023.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fiskistofu 22. maí 2023.

Málavextir: Hinn 11. apríl 2019 veitti Fiskistofa framkvæmdaraðila leyfi til allt að 85.000 m3 efnistöku úr Hörgá við Krossastaði, þ.e. á svæði E-6 samkvæmt Aðalskipulagi Hörgársveitar 2012–2024, og gilti leyfið til 12. apríl 2020. Framkvæmdarleyfi var hins vegar ekki gefið út og því fór efnistaka ekki fram. Fiskistofa veitti leyfi að nýju 18. nóvember 2020 á grundvelli sömu forsendna og fyrra leyfi byggðist á með gildistíma til 1. október 2022. Hinn 4. júlí 2022 óskaði leyfishafi eftir því að leyfið yrði framlengt þar sem framkvæmdir hefðu ekki hafist vegna tafa. Var leyfi veitt að nýju 12. september 2022 á grundvelli sömu forsendna og fyrri leyfi.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun fari í bága við ákvæði laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laganna, áður 4. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000, skuli leyfisveitandi tilkynna Skipulagsstofnun um útgáfu leyfis vegna matsskyldra framkvæmda og birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína og gera leyfi og greinargerð með því aðgengilegt á netinu innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess. Þar skuli tilgreina kæruheimild og kærufrest. Þessa hafi ekki verið gætt og hafi kærufrestur því ekki byrjað að líða fyrr en kæranda hafi getað verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun, sem hafi verið þegar ummerki við Hörgá á svæði E-6 hafi fyrst komið fram um miðjan apríl 2023, en hann hafi í framhaldi þess lagt fram kæru vegna framkvæmdaleyfis sveitarfélagsins 19. s.m. Kærandi álítur að allar efnis- og formreglur hafi verið brotnar við útgáfu leyfisins við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar. Þar komi m.a. skýrt fram að í engu hafi verið gætt að því sem fiskifræðingur hafi mælt með í byrjun árs 2019 og hafi ekki heldur verið aflað uppfærðra upplýsinga frá þeim fiskifræðingi, þótt tvö og hálft ár hafi verið liðin frá því að greinargerðar hans hafi verið aflað.

Málsrök Fiskistofu: Af hálfu Fiskistofu er upplýst að hin kærða ákvörðun hafi ekki verið birt opinberlega og ekki hafi verið fjallað um kæruheimild né kærufrest í henni. Þá hafi Skipulagsstofnun ekki verið tilkynnt um útgáfu leyfanna. Þá sé það rétt að ekki hafi verið aflað uppfærðra upplýsinga frá sérfræðingi á sviði veiðimála fyrir útgáfu hins kærða leyfis, þar sem efnistaka hafi tekið til sama magns og svæðis og fjallað hafi verið um í fyrri leyfum til sömu framkvæmdar, en engin efnistaka hafi farið fram með heimild í þeim.

Fiskistofa geti krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi sé veitt, sbr. 3. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði. Sú leið hafi ekki verið farin við undirbúning málsins, en þess í stað kveðið á um það í leyfinu að efnistakan yrði framkvæmd í samráði við fiskifræðing til að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna árinnar. Seiðamælingar yrðu gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdir hæfust og að henni lokinni. Þetta sé í samræmi við álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, dags. 4. júlí 2015. Ákvæði leyfisins um magn efnis og tíma framkvæmda hafi einnig verið í samræmi við álit Skipulagstofnunar.

Framkvæmdaraðila var gefinn kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum í málinu en hann hefur ekki tjáð sig um málatilbúnað kæranda.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 skv. 33. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði sem verður borin undir úrskurðarnefndina með heimild í 1. mgr. 36. gr. þeirra laga. Í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kveðið á um að kærufrestur til nefndarinnar sé almennt einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina eða ætlað brot á þátttökurétti almennings. Sé um að ræða ákvarðanir sem sæta opinberri birtingu telst kærufrestur hins vegar frá birtingu ákvörðunar.

Það er skilyrði kæruaðildar að málum fyrir úrskurðarnefndinni að kærandi eigi lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Á hinn bóginn teljast  umhverfisverndar-, útivistar- og hagsmunasamtökum eiga lögvarinna hagsmuna að gæta fyrir nefndinni að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sbr. nánar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Meðal ákvarðana sem slíkum samtökum er heimilt að bera undir nefndina eru ákvarðanir um leyfi vegna framkvæmda samkvæmt lögum nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana, sbr. b. lið málsgreinarinnar. Lögin tóku gildi 1. september 2021, en í 1. ákvæði til bráðabirgða við lögin segir að í þeim tilvikum þegar umhverfismatsferli framkvæmdar sem fellur undir þau lög er lokið við gildistöku laganna skuli ákvæði eldri laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lúta að leyfisveitingum vegna framkvæmdarinnar gilda. Ferli umhverfismats vegna heildstæðs mats á efnistöku á að 795.000 m3 úr áreyrum og árfarvegi Hörgár, lauk með áliti Skipulagsstofnunar dags. 4. júní 2015. Verður því að líta til ákvæða laga nr. 106/2000 hvað varðar leyfisveitinguna.

Í c-lið 3. gr. laga nr. 106/2000 var hugtakið framkvæmd afmarkað þannig að það næði til hvers konar nýframkvæmdar eða breytingar á eldri framkvæmd og starfsemi sem henni fylgi, sem undir lögin falli. Samkvæmt f-lið greinarinnar töldust leyfi til framkvæmda vera framkvæmdaleyfi og byggingarleyfi samkvæmt skipulagslögum og lögum um mannvirki og önnur leyfi til starfsemi og framkvæmda samkvæmt sérlögum sem um viðkomandi framkvæmd gilda. Í 2. og 3. mgr. 13. gr. laganna var mælt fyrir um undirbúning að útgáfu leyfis á grundvelli matsskýrslu framkvæmdaraðila og álits Skipulagsstofnunar um framkvæmdina. Í 4. mgr. lagagreinarinnar var síðan mælt fyrir um skyldu leyfisveitanda til að birta opinberlega með auglýsingu ákvörðun sína um útgáfu leyfis innan tveggja vikna frá afgreiðslu þess, þar sem tilgreint væri hvar greinargerð um afgreiðslu leyfis væri aðgengileg og tilkynnt væri um kæruheimild og kærufrest þegar það ætti við.

Um framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi var fjallað, sem einn framkvæmdaþátt, í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum allt að 795.000 m3 efnistöku úr áreyrum og árfarvegi Hörgár í Hörgársveit. Þótt leyfið takið aðeins til hluta þeirrar framkvæmdar verður að álíta að leyfisveitanda sé skylt hverju sinni að horfa jafnframt til annara framkvæmda, sem þegar hafa átt sér stað og eru fyrirhugaðar, svo framarlega sem þær tengist með augljósum hætti. Verður leyfið því álitið leyfi til framkvæmda í skilningi laga nr. 106/2000, sbr. gr. 2.01 í 1. viðauka við lögin.

Kærandi nýtur aðildar að máli þessu skv. b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 og af gögnum sem nefndin hefur kynnt sér uppfyllir hann skilyrði þeirrar greinar sem umhverfisverndar- eða útivistar- og hagsmunasamtök. Fyrir liggur að hin kærða ákvörðun var ekki birt opinberlega og var í henni ekki fjallað um kæruheimild né kærufrest. Verður af gögnum málsins ályktað að kæranda varð eða mátti fyrst vera kunnugt um útgáfu hins kærða leyfis um miðjan apríl 2023, en samkvæmt því var kærufrestur ekki liðinn þegar kæra í málinu barst nefndinni 11. maí s.á. Verður kæra í máli þessu því tekin til efnismeðferðar.

Í skýrslu um mat á umhverfisáhrifum efnistöku í Hörgá, dags. í apríl 2015, var rakið að árið 2013 hafi landeigendur við Hörgá stofnað sameignarfélagið Hörgá. Markmið þess væri að minnka líkur á landbroti sem valdi skemmdum á mannvirkjum og löndum í nágrenni árinnar og þveráa hennar og um leið að stuðla að sjálfbærri nýtingu jarðefna með sem minnstum neikvæðum umhverfisáhrifum. Markmiði sínu hygðist sameignarfélagið ná með því að láta vinna, fyrir hönd landeigenda við Hörgá og þveráa hennar, umhverfismat vegna efnistökunnar. Efnistaka væri áætluð á átta svæðum í ánni, en svæðin hefðu verið tilgreind sem efnistökusvæði í drögum að aðalskipulagi Hörgársveitar sem væri í vinnslu. Sameignarfélagið væri því framkvæmdaraðili að allri efnistöku úr Hörgá og þverám hennar.

Í áliti Skipulagsstofnunar um framkvæmdina, dags. 4. júlí 2015, kom fram að tilgangur framkvæmdarinnar væri að sporna við landbroti af völdum Hörgár. Ekki yrði sótt um framkvæmdaleyfi fyrir öllum efnistökusvæðunum á sama tíma og væri áætlað að meta árlega stöðu verkefnisins með tilliti til rennslis árinnar og landbrots og vinna áætlanir um efnistöku næsta tímabils. Áætlað hefði verið að hefja skipulagða efnistöku á þeim svæðum í ánni þar sem mest þörf væri á að skapa pláss fyrir flóðvatn í farveginum með það að markmiði að draga úr bakkarofi og þar með þörf fyrir annars konar og mjög kostnaðarsamar bakkavarnir, s.s. grjótvörn. Fjallað var stuttlega um hvert efnistökusvæði um sig í álitinu og kemur fram um svæði E-6, sem hið kærða leyfi varðar, að það sé í árfarvegi frá Laugalandi að Vöglum, á u.þ.b. 2,2 km svæði. Það sé á malarsvæði og í löndum jarðanna Krossastaða, Laugalands, Auðbrekku og Hólkots. Áætlað sé að taka 85.000 m3 á svæðinu sem sé á jaðri grannsvæðisverndar vatnsbóla. Á þessu svæði hafi á undanförnum árum verið mjög mikið bakkarof og farvegur árinnar breytist reglulega, en þar hafi landeigendur reynt ýmsar leiðir til að draga úr flóðahættu og landbroti.

Í áliti Skipulagsstofnunar var rakið að efnistaka gæti haft áhrif á eðli og þróun vatnsfalla. Efnistaka í og við ár sé vandasöm og geti haft áhrif á lífríki í vatni. Botngerð ánna geti breyst og búsvæði laxfiska geti þannig raskast og haft neikvæð áhrif á veiði. Að mati sérfræðinga Veiðimálastofnunar sé óraunhæft að meta áhrif verkefnisins á veiði og lífríki á þessu stigi og almennt geti stofnunin ekki mælt með slíkum verkefnum í ám. Hins vegar væri eðlilegt að stofnunin veitti ráðgjöf með heppilegustu útfærslu efnistöku á hverju framkvæmdasvæði fyrir sig, ef efnistaka á viðkomandi framkvæmdasvæði þætti nauðsynleg og framkvæmdaleyfi hefði verið veitt. Áhrif á veiði væru metin óviss, en staðbundin og afturkræf. Áhrif framkvæmdanna á veiði yltu alfarið á því hvernig lífríki ánna reiddi af. Ef tækist að koma í veg fyrir að bú- og hrygningarsvæði ánna spilltust þá yrðu áhrif óveruleg. Hætta væri á að inngrip í náttúrulegt ferli árinnar hefði neikvæð áhrif, en um það væri nokkur óvissa. Í niðurstöðukafla álitsins var sagt að til að lífríki árinnar yrði fyrir sem minnstum skaða væri nauðsynlegt að ráðfæra sig við fiskifræðinga um tilhögun og áfangaskiptingu.

Í álitinu var lögð áhersla á mikilvægi þess að efnistaka yrði unnin skipulega og yfir lengra tímabil, en fram kom að hún myndi vara í 20 ár. Var í því sambandi talið jákvætt að landeigendur hefðu sameinast um skipulag efnistökunnar, sem ætti að bæta skipulag hennar og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Meðal mótvægisaðgerða sem fjallað yrði um við útgáfu hvers framkvæmdaleyfis væri hvernig staðið yrði nánar að efnistökunni á hverjum stað. Þá kom fram að ekki yrði efnistaka á tímabilinu 1. maí til 30. september. Í niðurstöðum álitsins var gerð ábending um að nauðsynlegt væri að í aðalskipulagi Hörgársveitar yrði tekið á efnistöku í Hörgá með heildstæðum hætti til að leggja línurnar um skipulag efnistöku í og við ána.

Hið kærða leyfi, sem er dags. 12. september 2022, er gefið út á grundvelli 33. gr. laga nr. 61/2006. Í þeirri lagagrein er kveðið á um það að sérhver framkvæmd í eða við veiðivatn, allt að 100 metrum frá bakka, sem áhrif geti haft á fiskigengd þess, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, sé háð leyfi Fiskistofu. Mælt er fyrir um hvaða gögn skuli fylgja umsókn um slíkt leyfi og er þar m.a. nefnd umsögn sérfræðings á sviði veiðimála um hugsanleg áhrif framkvæmdar á lífríki veiðivatns.

Með leyfinu féllst Fiskistofa á að framkvæmdaraðili tæki allt að 85.000 m3 af malarefni á tveimur árum úr efnistökusvæði E6 við Hörgá. Fram kom að efnistakan skyldi fara fram utan veiðitíma árinnar og unnin í samráði við fiskifræðing til þess að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskistofna árinnar. Seiðamælingar yrðu gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdin hæfist og að henni lokinni. Mælingar yrðu gerðar fyrir ofan, neðan og á framkvæmdasvæðinu. Þá fór Fiskistofa fram á að gerð yrði grein fyrir helstu niðurstöðum seiðarannsókna og niðurstöður yrðu síðan teknar saman í skýrslu að lokinni efnistökunni og hún send stofnuninni ekki síðar en 31. desember 2024.

Í hinu kærða leyfi kemur fram að Fiskistofa hafi litið til gagna sem fylgdu upphaflegri umsókn um leyfið og skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Með henni hafi fylgt upplýsingar um framkvæmdina og yfirlitsmynd af fyrirhuguðu framkvæmdasvæði, álit Skipulagsstofnunar vegna mats á umhverfisáhrifum vegna efnistöku úr og við Hörgá, umsókn stjórnar Veiðifélags Hörgár og samþykki landeigenda. Þá lá fyrir umsögn sérfræðings í veiðimálum um hugsanleg áhrif framkvæmdarinnar á lífríki veiðivatns skv. 2. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006. Umsögnin er dags. 18. mars 2019 og var því tveggja ára gömul við útgáfu leyfisins, en á hinn bóginn höfðu engar framkvæmdir átt sér stað á framkvæmdasvæðinu þegar það var veitt. Til þess er einnig að líta að gert er ráð fyrir því í hinu kærða leyfi að fiskifræðingur verði til ráðuneytis um tilhögun framkvæmda. Þá verður ekki gerð athugasemd við það mat Fiskistofu að sá sem lét álitið í té verði talinn sérfræðingur á sviði veiðimála.

Í leyfinu er ítarleg endursögn á umsögn sérfræðingsins og er rakið að engar seiðamælingar séu til af svæðinu, þ.e. úr meginfarvegi Hörgár. Á hinn bóginn væru fyrirliggjandi mælingar um stöðuna talsvert neðar í ánni, með mjög lágum gildum og talsvert ofan við svæðið þar sem gildi séu hærri og fari hækkandi því ofar sem dragi í ánni. Mælingar úr þverám í nágrenni svæðisins, t.d. Krossastaðaá, sýni mikinn þéttleika, raunar þann mesta á öllu vatnasvæði Hörgár. Í ljósi þessa sé freistandi að álykta að efnistökusvæðið sé á mörkum þess að vera gott hrygningar/búsvæði fyrir bleikju. Rétt sé að hafa í huga að í Krossastaðaá sé mikill þéttleiki og gæti sá þéttleiki einnig verið í lænu er liggi samhliða Hörgá í framhaldi af Krossastaðaá. Þá lænu og aðra andspænis þurfi að skoða sérstaklega og bíða með framkvæmdir þar uns seiðamælingar hafi farið fram. Mögulega þurfi að friða þá farvegi algerlega. Samkvæmt veiðitölum (veiðisvæði 3) sé svæðið með lakari veiðisvæðum árinnar og hafi veiðin dalað mjög á svæðinu síðust ár. Á svæðinu hafi áin safnað nokkurri möl, farvegir hækkað og breyst á milli ára, við það hefur hætta á bakkarofi með flóðum á ræktarland aukist. Séu landeigendur uggandi og séu uppi hugmyndir um bakkavarnir með stórgrýti. Afleiðingar slíkra framkvæmda séu oftar en ekki þær að áin grafi sig í djúpan og hraðan stokk meðfram bakkavörn. Slíkir staðir hugnist bleikju ekki.

Fram kemur einnig að framkvæmdin geti haft nokkur áhrif á búsvæði fiska og seiðaframleiðslu vatnssvæðisins. Það sé þó álit sérfræðingsins að með ákveðnu verklagi, mótvægisaðgerðum og eftirfylgni, megi jafnvel gera þessa efnistöku jákvæða fyrir lífríki árinnar. Varast skuli að dýpka ánna mikið en leggja fremur áherslu á að breikka farveg hennar. Áhrifin verði svo metin með seiðamælingu, myndatöku og gögnum úr veiðibókum. Mælt sé auk þess með því að rask á farvegi árinnar fari fram utan veiðitíma, eins og hann sé ákveðinn af veiðifélagi árinnar ár hvert, en sé þó með öllu óheimilt í júlí til september. Efnistakan sjálf geti svo farið fram utan þess tíma, en þá ekki í farvegi árinnar.

Í hinu kærða leyfi kemur fram að aflað hafi verið umsagnar veiðifélags Hörgár og hafi stjórn félagsins ekki gert athugasemd við efnistökuna, en árétti að ekki skuli unnið við hana á veiðitíma í ánni nema með sérstöku samkomulagi við veiðifélagið.

Í leyfinu er á grundvelli umsagnar sérfræðingsins heimiluð allt að 85.000 m3 efnistaka á efnistökusvæðinu á tveimur árum. Kveðið er á um að hún skuli fara fram utan veiðitíma árinnar. Engin bein afstaða er tekin til ábendinga í umsögn sérfræðingsins um tilhögun framkvæmdar hvað snertir æskilegt verklag og mótvægisaðgerðir, en mælt fyrir um að gengið skuli snyrtilega frá svæðinu að framkvæmdum loknum. Kveðið er á um að efnistakan skuli fara fram í samráði við fiskifræðing til þess að meta áhrif framkvæmdarinnar á fiskstofna árinnar. Skuli seiðamælingar gerðar á völdum stöðum áður en framkvæmdin hefjist og að henni lokinni, sem verði fyrir ofan, neðan og á framkvæmdasvæðinu. Skuli Fiskistofu gerð grein fyrir helstu niðurstöðum seiðarannsókna og niðurstöður teknar saman í skýrslu að lokinni efnistökunni sem send verði stofnuninni ekki síðar en 31. desember 2024. Loks er í leyfinu m.a. bent á að framkvæmdir við veiðivötn kunni að vera háðar framkvæmdaleyfi viðkomandi sveitarfélags.

Í 3. mgr. 33. gr. laga nr. 61/2006 er mælt fyrir um það að ef sérstök ástæða þyki til geti Fiskistofa krafist þess að framkvæmdaraðili láti gera líffræðilega úttekt á veiðivatni áður en leyfi til framkvæmdar er veitt. Fiskistofa geti í slíkum tilvikum kveðið nánar á um til hvaða þátta úttektin skuli ná. Í lögskýringargögnum kemur fram að ákvæðið feli í sér almenna skyldu til að standa þannig að framkvæmd við veiðivatn að ávallt liggi fyrir hver áhrif framkvæmdin kunni að hafa á þá þætti sem ráða afkomu fiskstofna vatnsins. Niðurstaða hinnar líffræðilegu úttektar geti leitt til þess að ekki verði fallist á framkvæmdina, þótt sá er hennar óski hafi aflað sér jákvæðra álita annarra umsagnaraðila, að því er segir í frumvarpi er varð að lögum nr. 60/2006 (þskj. 891, 132. löggjþ.). Með þessu er gert ráð fyrir einskonar þröskuldsviðmiðun, þannig að álíti Fiskistofa að umtalsverð áhrif geti orðið af framkvæmd á fiskigengd veiðivatns, afkomu fiskstofna, aðstæður til veiði eða lífríki vatnsins að öðru leyti, geti verið skilyrði til þess, til rannsóknar máls sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, að afla líffræðilegrar úttektar. Skal þá slík úttekt greidd af þeim sem óskar leyfis til framkvæmdanna, sbr. 4. mgr. 33. gr. laganna. Með þessum fyrirmælum er ekki fjallað um hvaða þýðingu það hafi ef fyrir liggur skýrsla um umhverfismat framkvæmdar, en eðlilegt virðist að efni hennar geti haft þýðingu um hvort krafist verði sérstakrar úttektar samkvæmt þessari lagagrein.

Svo sem að framan greinir telst hið kærða leyfi til leyfis til framkvæmda samkvæmt lögum nr. 106/2000. Af því leiðir að Fiskistofu var skylt við undirbúning leyfisins að byggja á 2. og 3. mgr. 13. gr. þeirra laga þar sem kveðið var á um að við útgáfu slíks leyfis skyldi leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar. Það er ljóst af hinu kærða leyfi að þessa var ekki gætt. Þar kemur að vísu fram að skýrsla um mat á umhverfisáhrifum hafi verið meðal gagna sem litið hafi verið til og fylgt hafi upphaflegri umsókn um framkvæmdina, en í engu er getið álits Skipulagsstofnunar. Þess í stað er í leyfinu aðeins fjallað um álit sérfræðings í veiðimálum og tillaga hans lögð grundvallar niðurstöðu. Með þessu vék undirbúningur hinnar kærðu ákvörðunar frá mikilvægum skilyrðum laga og verður því að fella hið kærða leyfi úr gildi.

Framangreindu til viðbótar bendir úrskurðarnefndin á að ekki verði séð að við undirbúning og veitingu hinna kærðu leyfa hafi verið tekin afstaða til framkvæmdanna á grundvelli laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála, en samkvæmt þeim er skylt að vernda yfirborðsvatnshlot og tryggja að ástand þeirra versni ekki.

 Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun Fiskistofu frá 12. september 2022 um að veita leyfi til efnistöku á svæði E-6 í Hörgá í Hörgársveit.