Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

40/2006 Höfn II

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 28. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson, formaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 40/2006, kæra eigenda að landi lögbýlisins Hafnar í Svalbarðsstrandarhreppi á ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 25. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II í Svalbarðsstrandarhreppi.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. maí 2006, er barst nefndinni hinn 29. sama mánaðar, kærir Arnar Sigfússon hdl., f.h. eigenda að landi lögbýlisins Hafnar í Svalbarðsstrandarhreppi, þá ákvörðun byggingarnefndar Eyjajarðar frá 25. apríl 2006 að veita leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II í Svalbarðsstrandarhreppi.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 9. maí 2006. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Jafnframt gerðu kærendur kröfu til þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Fram kom í kæru að framkvæmdir við bygginguna væru komnar nokkuð á veg og þegar nefndinni höfðu borist frumgögn í málinu og nánari upplýsingar var staða verksins þannig að ekki þótti hafa þýðingu að stöðva framkvæmdir.  Var afstaða því ekki tekin sérstaklega til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Mál þetta á sér nokkra forsögu sem ítarlega er rakin í kærunni.  Kemur þar m.a. fram að ágreiningur hafi verið með kærendum og byggingarleyfishafa um lóðarréttindi Hafnar II og rétt til bygginga í landi Hafnar, en Höfn II er íbúðarhús í landi Hafnar með umdeildum lóðarréttindum. 

Með bréfi, dags. 3. október 2005, tilkynnti sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps landeigendum Hafnar að fram væri komin umsókn frá erfðafestuhafa lögbýlisins um leyfi til að byggja vélageymslu í landi lögbýlisins og var þar meðal annars vísað til heimilda í erfðafestusamningi.  Í tilefni af þessu bréfi ritaði lögmaður landeigenda bréf til hreppsins hinn 11. október 2005 þar sem umsókninni var mótmælt og rök færð fram fyrir mótmælunum.

Umrædd umsókn virðist ekki hafa komið til afgreiðslu en á fundi byggingarnefndar Eyjafjarðar hinn 25. apríl 2006 var tekin fyrir umsókn eigenda Hafnar II um leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II.  Bókaði nefndin að þar sem fyrir lægi samþykki sveitarstjórnar Svalbarðsstrandarhrepps, Skipulagsstofnununar, umhverfisráðuneytisins og Vegagerðarinnar vegna skipulagstengdra ákvæða er vörðuðu þetta tiltekna hús teldi hún sér ekki fært að synja erindinu, enda þótt húsið væri að dómi nefndarinnar ekki heppilegt á fyrirhuguðum stað.  Vísaði bókun byggingarnefndar til þess að sveitarstjórn hafði óskað meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með veitingu umrædds leyfis og hafði stofnunin fallist á erindið eftir að aflað hafði verið undanþágu umhverfisráðuneytisins frá 7. mgr. gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um lágmarksfjarlægð frá vegi, en Vegagerðin hafði áður lýst þeirri afstöðu sinni að ekki væri gerð athugasemd við staðsetningu byggingarinnar.

Framangreindri ákvörðun byggingarnefndar, sem staðfest var í sveitarstjórn hinn 9. maí 2006, skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 26. maí 2006, eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er á því byggt að sveitarstjórn hafi borið að gefa þeim kost á að gæta hagsmuna sinna vegna umsóknar eigenda Hafnar II um byggingarleyfið.  Þess hafi ekki verði gætt og hafi með því verið brotinn á þeim réttur, ekki aðeins sem landeigendum, heldur einnig sem nágrönnum, en þau eigi sumarbústaðalönd og bústaði í næsta nágrenni.  Muni bygging vélaskemmunnar hafa veruleg áhrif á hagsmuni kærenda og hafa í för með sér óþægindi, sjónmengun og jafnvel verðrýrnun eigna.

Þá telji kærendur að grenndarkynning hefði átt að fara fram samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 áður en umsókn um hið umdeilda byggingarleyfi hefði getað komið til afgreiðslu.  Bendi kærendur sérstaklega á að hér sé um að ræða tiltölulega mjög stóra og áberandi byggingu á viðkvæmum stað á landi sem hafi verið landbúnaðarland og sumarbústaðasvæði.  Ljóst sé einnig að byggingin muni hýsa starfsemi sem hafi í för með sér mikla umferð stórra vinnuvéla með tilheyrandi truflun og óþægindum.

Málsrök sveitarstjórnar:  Af hálfu sveitarstjórnar hefur verið vísað til þess að leitað hafi verið meðmæla Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hafi Skipulagsstofnun ekki gert athugasemd við að leyfi yrði veitt eftir að aflað hafði verið undanþágu umhverfisráðuneytisins frá ákvæði skipulagreglugerðar nr. 400/1998 um fjarlægð mannvirkis frá þjóðvegi.  Málsmeðferð hafi verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og beri því að hafna kröfum kærenda. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Gunnar Sólnes hrl. hefur f.h. byggingarleyfishafa mótmælt kröfu kærenda um að umdeilt byggingarleyfi verði fellt úr gildi.  Telji byggingarleyfishafar sig hafa fullnægt öllum skilyrðum fyrir byggingunni og fengið öll tilskilin leyfi með lögmætum hætti og að ekki hafi verið brotið í bága við skipulags- og byggingarlög og reglugerðir við veitingu leyfisins.

Landeigendur hafi áður reynt að stöðva byggingarframkvæmdir á því landi sem þeir teljist eigendur að en því hafi verið hafnað af dómstólum.

Úrskurðarnefndin hefur gefið sveitarstjórn og byggingarleyfishafa kost á að tjá sig um álitaefni er lúta að því hvort hið umdeilda byggingarleyfi kunni að fara í bága við gildandi aðalskipulag á umræddu svæði en engar athugasemdir hafa borist af því tilefni.

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið greinir kærendur og byggingarleyfishafa á um lóðarréttindi á Höfn II og rétt til bygginga í landi Hafnar.  Verður ekki úr þessum ágreiningi skorið í stjórnsýslumáli þessu, en fyrir liggur að hvað sem líður réttarstöðu kærenda sem landeigenda eru þeir jafnframt eigendur frístundalóða og sumarhúsa í nágrenni Hafnar II og eiga því lögvarða hagsmuna tengda hinni kærðu ákvörðun svo sem áskilið er í 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður málið því tekið til efnisúrlausnar.

Í málinu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem veitt var að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar samkvæmt 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Segir í tilvitnuðu ákvæði að sveitarstjórn geti án þess að fyrir liggi staðfest aðal- eða svæðisskipulag eða samþykkt deiliskipulag og að fengnum meðmælum Skipulagsstofnunar leyft einstakar framkvæmdir sem um kunni að verða sótt og sé unnt að binda slíkt leyfi tilteknum skilyrðum. 

Í hinu kærða tilviki skorti á að fyrir hendi væri samþykkt deiliskipulag, en skylt er að gera deiliskipulag á grundvelli aðalskipulags þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 m.s.br.  Verður að ætla að það hafi vakað fyrir sveitarstjórn að fá meðmæli Skipulagsstofnunar fyrir veitingu leyfisins þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir og virðist það því hafi verið mat sveitarstjórnar að ekki væru skilyrði til þess að veita leyfið með stoð í Aðalskipulagi Svalbarðsstrandarhrepps 1994-2014 að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt heimild í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Þykja ekki efni til að endurskoða þá afstöðu sveitarstjórnar við úrlausn máls þessa.

Við rannsókn málsins hefur komið í ljós að samkvæmt gildandi aðalskipulagi umrædds svæðis er landnotkun á Höfn I landbúnaður, lögbýli og á Höfn II er gert ráð fyrir íbúðarbyggð, opnu óbyggðu svæði og svæði fyrir útivist og beitarlönd.  Er hið umdeilda byggingararleyfi þannig í andstöðu við ákvæði gildandi aðalskipulags um landnotkun og fullnægir því ekki skilyrðum 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga sem kveður á um að byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Verður ákvæði 3. tl. bráðabirgðaákvæða skipulags- og byggingarlaga ekki skilið á þann veg að Skipulagsstofnun geti með stoð í því heimilað framkvæmdir sem fara í bága við gildandi skipulag heldur felur ákvæðið aðeins í sér úrræði sem gerir sveitarfélögum kleift að heimila einstakar framkvæmdir þar sem á skortir að fyrir hendi sé fullnægjandi skipulag.  Verður jafnframt að skýra ákvæðið svo að því séu takmörk sett hversu umfangsmiklar framkvæmdir unnt sé að fallast á án þess að ráðist sé í gerð viðeigandi skipulags.

Af hálfu Skipulagsstofnunar hefur komið fram að við afgreiðslu stofnunarinnar á erindi sveitarfélagsins um byggingarleyfið hafi verið litið til þess að um hafi verið að ræða stækkun á þegar byggðu og starfræktu verkstæði.  Við þessa staðhæfingu verður að gera þá athugasemd að umdeild nýbygging, sem mun vera um 500 m² að flatarmáli, er byggð við 124 m² hús er samþykkt var sem vélaskemma hinn 30. júlí 1992 og liggja ekki fyrir nein gögn um að húsið hafi þá eða síðar verið samþykkt sem verkstæði.  Verður og til þess að líta að umrædd eldri bygging var samþykkt fyrir gildistöku aðalskipulags á svæðinu og fyrir gildistöku núgildandi skipulags- og byggingarlaga.  Er því alfarið hafnað að tilvist þessa eldra húss hafi getað réttlætt samþykkt hinnar umdeildu byggingar í andstöðu við gildandi skipulag og verður hún ekki talin hafa neina þýðingu við úrlausn málsins.

Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.   

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 25. apríl 2006 um að veita leyfi til að byggja vélageymslu úr stálgrind á Höfn II í Svalbarðsstrandarhreppi, sem staðfest var af sveitarstjórn hinn 9. maí 2006, er felld úr gildi.

 

 

                                              _____________________________
                                                               Hjalti Steinþórsson

 

 

        __________________________                  ___________________________
                        Ásgeir Magnússon                                       Þorsteinn Þorsteinsson

44/2007 Hraunteigur

Með

Ár 2007, föstudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson, forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2007, kæra eigenda fasteignarinnar að Sundlaugavegi 16, Reykjavík á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2007 að veita byggingarleyfi fyrir tvöföldum steinsteyptum bílskúr með torfþaki í norðvesturhorni lóðar nr. 13 við Hraunteig í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. maí 2007, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir S, f.h. eigenda að Sundlaugavegi 16, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2007 að veita byggingarleyfi fyrir steinsteyptum tvöföldum bílskúr með torfi á þaki í norðvesturhorni lóðar nr. 13 við Hraunteig í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti hina kærðu ákvörðun á fundi sínum hinn 16. maí 2007.
 

Kærendur gera þá kröfu að úrskurðað verði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda.  Jafnframt verður að skilja kæruna svo að farið sé fram á að umrætt byggingarleyfi verði fellt úr gildi.

Úrskurðarnefndinni hafa borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Reykjavíkurborgar og þykir málið nú nægilega upplýst til að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málavextir:  Hinn 13. mars 2001 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptum tvöföldum bílskúr með torfi á þaki í norðvesturhorni lóðar nr. 13 við Hraunteig.  Var afgreiðslu málsins frestað og það næst tekið fyrir á fundi hinn 3. apríl 2001 og því vísað til Borgarskipulags Reykjavíkur til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Ekki kom til þess að málið yrði grenndarkynnt, þar sem unnið var að deiliskipulagi fyrir syðri hluta Teigahverfis á sama tíma, en innan þess svæðis eru lóðir kærenda og lóð nr. 13 við Hraunteig.  Drög að deiliskipulagstillögu fyrir svæðið voru í kynningu frá 10. júní 2001 til 10. júlí s.á. og var tillaga að deiliskipulagi auglýst frá 14. nóvember 2001 til 31. desember 2001.  Engar athugasemdir bárust frá kærendum máls þessa á kynningartíma deiliskipulagsins, en fyrir gerð þess hafði Borgarskipulagi Reykjavíkur borist bréf eins eigenda fasteignarinnar að Sundlaugavegi 16, dags. 17. apríl 2001, þar sem byggingu bílskúrs á lóð nr. 13 við Hraunteig var mótmælt.

Hinn 2. júlí 2002 var deiliskipulag Teigahverfis samþykkt í borgarráði Reykjavíkur og auglýsing um gildistöku þess birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. ágúst 2002.  Fól tillagan m.a. í sér að gert væri ráð fyrir byggingarreit fyrir bílskúr í norðvesturhorni lóðarinnar nr. 13 við Hraunteig á mörkum lóðarinnar nr. 16 við Sundlaugaveg.

Á fundi skipulags- og umferðanefndar hinn 11. febrúar 2002 var lagt fram fyrrgreint bréf eins eigenda að Sundlaugavegi 16 frá 17. apríl 2001 og eftirfarandi bókað:  „Svarað með bréfi lögfræði og stjórnsýslu 11. febrúar 2002“. 

Hinn 10. september 2002 var fyrrgreind umsókn um byggingarleyfi tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og hún samþykkt.  Borgarráð samþykkti afgreiðsluna á fundi sínum hinn 17. september 2002.  Með bréfi, dags. 10. mars 2003, til skrifstofu skipulags- og byggingarsviðs eru andmæli við byggingu bílskúrs að Hraunteig 13 ítrekuð. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 10. maí 2007 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun á áður veittu byggingarleyfi og var afgreiðslu málsins frestað þar sem samþykki lóðarhafa aðlægra lóða vantaði.  Hinn 15. maí 2007 var málið tekið fyrir að nýju og umsókn samþykkt og talið að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 73/1997.

Hafa kærendur kært veitingu byggingarleyfisins eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að umdeild bygging liggi að suðurmörkum lóðar þeirra og muni staðsetning verða u.þ.b. að miðju lóðarinnar, en lóðir við Hraunteig og Sundlaugaveg standist ekki á.  Telja kærendur að um fjögurra metra hár bílskúr á lóðamörkum, þar sem hæðarmunur sé um einn metri, muni valda verulegri skerðingu á útsýni og birtu í suðurgarði þeirra.  Réttur byggingarleyfishafa til að byggja bílskúr sé virtur en það eigi ekki að ganga á rétt kærenda til að njóta gróðurs og garðs síns í sól og birtu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld gera þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hin kærða ákvörðun standi óhögguð.  Um sé að ræða endurnýjun á áður samþykktu byggingarleyfi sem sé óbreytt og aldrei hafi verið kært á sínum tíma.  Kærufrestir séu því löngu liðnir.  Engir hagsmunir séu nú fyrir kærendur að fá byggingarleyfið fellt úr gildi sem ekki hafi áður verið fyrir hendi. 

Verði ekki fallist á frávísun af þessum sökum sé á því byggt að staðfesta beri samþykkt byggingarfulltrúa þar sem umrædd byggingarleyfisumsókn sé í samræmi við samþykkt deiliskipulag Teigahverfis.  Tillagan hafi verið auglýst og hvorki hafi borist athugasemdir eða kæra vegna skipulagsins frá kærendum.

Reykjavíkurborg fellst á að hin nýja bygging muni hafa einhver áhrif á lóð kærenda en ekki meiri en búast megi við í þéttbýlli miðborg (sic) og sem íbúar geti gert ráð fyrir.  Hafi öll málsmeðferð verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Gerð er sú krafa að kæru verði vísað á bug.  Vísað er til þess að samþykkt deiliskipulag af svæðinu geri ráð fyrir bílskúrum á umræddum stað og hafi það ráðið nokkru um kaup byggingarleyfishafa á eigninni að Hraunteigi 13.  Gróflega sé því brotið á rétti hans verði ákvörðun borgarráðs í máli þessu virt að vettugi.

Að lokum er bent á að ranglega sé farið með staðsetningu bílskúranna í kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Gert sé ráð fyrir því að þeir liggi að lóðarmörkum en ekki að miðju lóðar kærenda.

Niðurstaða:  Í máli þessu er þess krafist að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík verði felld úr gildi.  Kærendur styðja kröfu sína fyrst og fremst þeim rökum að umdeild bygging raski grenndarhagsmunum þeirra.  Hefur Reykjavíkurborg sett fram kröfu um frávísun málsins þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti en ella er þess krafist að ákvörðun byggingarfulltrúa verði staðfest.

Byggingarleyfi það er samþykkt var á fundi borgarráðs hinn 17. september 2002 er fallið úr gildi skv. ákvæðum 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem framkvæmdir við heimilaða byggingu hófust ekki innan 12 mánaða frá útgáfu þess.  Ákvörðun sú er tekin var á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. maí sl., og mál þetta varðar, var ný stjórnvaldsákvörðun og var því kærufrestur ekki liðinn skv. 5. mgr. 8. gr. tilv. laga er kæra barst úrskurðarnefndinni.  Verður málinu af þeim sökum ekki vísað frá nefndinni.

Í gildi er deiliskipulag fyrir Teigahverfi í Reykjavík sem tekur m.a. til lóðar byggingarleyfishafa og kærenda og er það bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum fyrir svæði 2 er gert ráð fyrir byggingarreitum fyrir bílskúra þar sem aðstæður leyfa og er almennt miðað við að hámarksstærð fyrir tvöfaldan bílskúr sé 7,5×7,5m.  Um hæðir bílskúra er vísað til greinar 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Heimilt er skv. skilmálum að víkja um 10% frá byggingarreitum bílskúra og stærð þeirra, ef þörf þykir, með samþykki meðeigenda og lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Á skipulagsuppdrættinum er markaður byggingarreitur fyrir bílskúr í norðvesturhorni lóðarinnar nr. 13 að Hraunteig og liggur hann að suðurmörkum lóðar nr. 16 við Sundlaugaveg.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að umdeilt byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag á svæðinu sem bindandi er fyrir borgarana eins og fyrr greinir.  Verða íbúar skipulagssvæðis að sætta sig við framkvæmdir sem stoð eiga í skipulagi sem ekki hefur verið hnekkt, en geta eftir atvikum átt bótarétt skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 valdi framkvæmd skipulagsins þeim tjóni.

Með hliðsjón af framangreindu og þar sem ekki liggja fyrir aðrir annmarkar er leitt gætu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar er kröfu kærenda í máli þessu hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2007 um veitingu byggingarleyfis fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni nr. 13 við Hraunteig í Reykjavík.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________     _______________________________
Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson

23/2007 Laugarvegur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 31. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 23/2007, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur um breytt deiliskipulag Laugavegar 95-99 og á ákvörðun skipulagsráðs frá 7. febrúar 2007 um að heimila byggingu steinsteypts húss á lóðinni nr. 99 við Laugaveg, ásamt því að byggja við og ofan á húsin að Laugavegi 95 og 97 og ofan á núverandi hús að Laugavegi  99.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. mars 2007, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kæra G og E, f.h. Húsfélagsins Hverfisgötu 108 / Snorrabraut 22, Reykjavík ákvarðanir borgaryfirvalda varðandi uppbyggingu á horni Laugavegar og Snorrabrautar.  Skilja verður kæruna á þann veg að annars vegar sé kærð ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 10. ágúst 2006 um breytt deiliskipulag Laugavegar 95-99 ásamt síðari breytingu og hins vegar skipulagsráðs frá 7. febrúar 2007 um að heimila byggingu þriggja hæða steinsteypts húss á lóðinni nr. 99 við Laugaveg auk inndreginnar fjórðu hæðar og geymslukjallara ásamt því að byggja við og ofan á húsin að Laugavegi 95 og 97 og ofan á núverandi hús að Laugavegi  99. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Með bréfi, dags. 11. maí 2007, setti kærandi einnig fram kröfu um að kveðinn yrði upp bráðabirgðaúrskurður um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða lægi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsráðs hinn 17. maí 2006 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi staðgreinireits 1.174.1 er tók til lóðanna 95-99 við Laugaveg og lóðarinnar nr. 24 við Snorrabraut.  Auglýsingartími var frá 7. júní til og með 19. júlí 2006 og bárust engar athugasemdir.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 28. júlí 2006 var tillagan samþykkt.  Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi, dags. 15. ágúst 2006, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 20. nóvember 2006. 

Deiliskipulagsbreytingin fól m.a. í sér heimildir til að byggja eina hæð ofan á húsin nr. 95-99 við Laugaveg og að byggja fjögurra hæða hús og kjallara á lóðinni nr. 99 við Laugaveg, við hlið þess sem þar er fyrir.          

Á fundi skipulagsráðs hinn 1. desember 2006 var lagt fram erindi varðandi sameiningu lóðanna nr. 95, 97 og 99 við Laugaveg og nr. 24 við Snorrabraut og var fært til bókar að ekki væru gerðar athugasemdir við að unnin yrði tillaga að breyttu  deiliskipulagi þessa efnis og á fundi skipulagsráðs hinn 13. sama mánaðar var hún samþykkt með vísan til 12. gr. samþykktar fyrir skipulagsráð.  

Á fundi skipulagsráðs hinn 7. febrúar 2007 var samþykkt að heimila byggingu þriggja hæða steinsteypts húss á lóðinni nr. 99 við Laugaveg auk inndreginnar fjórðu hæðar og geymslukjallara ásamt því að byggja við og ofan á húsin að Laugavegi 95 og 97 og ofan á núverandi hús að Laugavegi  99.  Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum þann 8. febrúar 2007.

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi enga vitneskju haft um hið kærða deiliskipulag fyrr en honum hafi borist bréf frá byggingarleyfishafa í desember árið 2006 þess efnis að framkvæmdir væru við það að hefjast.  Allt virðist hafa verið gert til að leyna kæranda breytingunum þrátt fyrir loforð og fyrirheit um að samráð yrði við hann haft. Hið kærða byggingarleyfi hafi í för með sér verulega neikvæð grenndaráhrif og gangi freklega á rétt kæranda þar sem byggingarnar muni skyggja á sól í garði og íbúðum hússins.  

Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem þær séu of seint fram komnar.  Kæra  hafi borist hinn 14. mars 2007, en auglýsing um gildistöku hins breytta deiliskipulags hafi birst í B-deild Stjórnartíðinda hinn 5. janúar 2007.  Ljóst megi því vera að kærufrestur vegna breytingar á deiliskipulagi hafi verið löngu liðinn.  Hið kærða byggingarleyfi sé í fullu samræmi við samþykkt deiliskipulag.  

Verði ekki fallist á frávísun málsins sé byggt á því að málsmeðferð hafi verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög og því beri að staðfesta hinar kærðu ákvarðanir.  Tillaga að breytingu á deiliskipulagi hafi verið auglýst í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og hafi engar athugasemdir borist. 

Í ljósi alls ofangreinds og á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, telji Reykjavíkurborg einsýnt að hafna beri kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.  Reykjavíkurborg ítreki þó þá afstöðu sína að kjósi byggingarleyfishafar að halda áfram með framkvæmdirnar, áður en efnisúrskurður liggi fyrir, geri þeir það á eigin ábyrgð og áhættu.
 
Byggingarleyfishafi mótmælir framkominni stöðvunarkröfu.  Byggingaráform á reit þeim sem vestastur sé hafi verið kynnt fyrir mörgum árum og engar breytingar gerðar.  Kærufrestur sé því liðinn.  Hvað varði hæð bygginga á reitnum þá hafi þær verið  kynntar í samræmi við lög og reglur.  Kærufrestur sé því liðinn, sbr. lokamálslið 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Á því sé byggt að byggingarleyfið sé í samræmi við skipulag.

Vísað sé til þess að framkvæmdir þær sem hafnar séu að Laugavegi 95-99 séu í  grunni hússins og því nokkrir mánuðir í það að ráðist verði í byggingu efstu hæðar þess.  Því sé ekki þörf á að stöðva framkvæmdir, að minnsta kosti ekki í bili.

Niðurstaða:  Ekki verður á þessu stigi tekin afstaða til þess hvort vísa eigi frá kröfum kæranda í málinu eða einstökum þáttum þess. Bíður það frekari meðferðar málsins.

Af málsgögnum sem nú liggja fyrir verður ekki ráðið að á hinum kærðu ákvörðunum séu slíkir annmarkar að líklegt sé að koma þurfi til ógildingar þeirra.  Þykja því ekki efni til að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda meðan málið er til frekari rannsóknar hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum er hafnað.

 

        ___________________________          
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                            ____________________________
            Ásgeir Magnússon                                                            Þorsteinn Þorsteinsson       

 

18/2007 Bergstaðastræti

Með

Ár 2007, föstudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. febrúar 2007 um að veita leyfi fyrir endurbyggingu hússins að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16, Reykjavík. 

 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. mars 2007, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir Sigurbjörn Þorbergsson hdl., f.h. ÞG verktaka ehf., eiganda fasteignanna að Spítalastíg 20 og baklóðar að Spítalastíg 6, og S, eiganda Spítalastígs 6 og hluta fasteignarinnar að Spítalastíg 4, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. febrúar 2007 að veita leyfi fyrir endurbyggingu hússins að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16, Reykjavík. 

 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfunnar. 

 

Málsatvik og rök:  Með kæru, dags. 7. mars 2006, skutu kærendur deiliskipulagsákvörðun borgarráðs frá 24. nóvember 2005, er tekur til umrædds svæðis, til úrskurðarnefndarinnar. 

 

Hinn 26. september 2006 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að endurbyggja húsið að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16 og var hún samþykkt.  Skutu kærendur máls þessa þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærunni frá með úrskurði uppkveðnum hinn 29. desember 2006 í kjölfar þess að byggingaryfirvöld afturkölluðu umdeilt leyfi.  Var ástæða afturköllunarinnar sú að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bergstaðastræti 16 samkvæmt veittu byggingarleyfi yrði hærra en heimilað var í deiliskipulagi reitsins.  Jafnframt hafa kærendur skotið ákvörðun skipulagsráðs frá 17. janúar 2007 um breytt nýtingarhlutfall lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18 til úrskurðarnefndarinnar, en auglýsing um gildistöku þeirrar ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. febrúar 2007. 

 

Eftir að ákvörðun um breytt nýtingarhlutfall lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18 hafði tekið gildi samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir flutningshúsi á lóðinni að Bergstaðastræti 16 að nýju og hafa kærendur nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er rakið. 

 

Benda kærendur á að hið kærða byggingarleyfi eigi stoð í fyrrgreindu skipulagi svo sem því hafi verið breytt.  Þeir hafi kært téðar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar og telji þær ólögmætar.  Á meðan ekki liggi fyrir niðurstaða í kærumálinu vegna skipulagsins leiki vafi á um gildi þess og sé því krafist ógildingar hins kærða byggingarleyfis. 

 

Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi standi óraskað enda sé ekkert komið fram um að leyfið sé haldið annmörkum. 

 

Byggingarleyfishafi bendir á að kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta vegna veitingar umdeilds byggingarleyfis og eigi krafa kærenda enga lagastoð.  Þá sé ekkert fram komið um að skipulag það sem leyfið styðjist við sé haldið form- eða efnisannmörkum. 

 

Niðurstaða:  Kærendur máls þessa eiga lóðir í næsta nágrenni við lóðina Bergstaðastræti 16 og geta heimildir í skipulagi eða leyfi fyrir húsbyggingu á þeirri lóð snert hagsmuni þeirra og haft grenndaráhrif.  Þeir hafa kært skipulagsákvarðanir þær sem hið kærða byggingarleyfi á stoð í og voru taldir eiga hagsmuna að gæta við grenndarkynningu vegna breytts nýtingarhlutfalls lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18.  Verður kærumáli þessu því ekki vísað frá sökum aðildarskorts.

 

Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag kveðið upp úrskurð þar sem áðurnefndar skipulagsákvarðanir voru felldar úr gildi og á því umdeilt byggingarleyfi ekki lengur viðhlítandi stoð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.  Verður það af þeim sökum fellt úr gildi með vísan til 2. mgr. 43. gr. nefndra laga.  

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. febrúar 2007 um að veita leyfi fyrir endurbyggingu hússins að Hverfisgötu 44 á lóðinni Bergstaðastræti 16, Reykjavík er felld úr gildi.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________   ____________________________
Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson

36/2006 Ólafsvík

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2006, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Snæfellsbæjar frá 11. maí 2006 um byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð viðbyggingar við húsið að Ólafsbraut 20 í Ólafsvík, Snæfellsbæ.  

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 16. maí 2006, er barst nefndinni hinn 17. sama mánaðar, kærir Ívar Pálsson hdl., f.h. S og S, eigenda hússins að Grundarbraut 1, Ólafsvík samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Snæfellsbæjar frá 11. maí 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir fyrstu hæð viðbyggingar við húsið að Ólafsbraut 20 í Ólafsvík, Snæfellsbæ.  Á fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar hinn 16. maí 2006 var afgreiðsla nefndarinnar staðfest.  

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu viðbyggingu eru ekki hafnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfuna um stöðvun framkvæmda heldur kveðinn upp efnisúrskurður í kærumálinu.  

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 11. maí 2006 var tekin til afgreiðslu beiðni um heimild til að byggja fyrstu hæð viðbyggingar hótelsins að Ólafsbraut 20.  Var eftirfarandi fært til bókar:  „Undir jökli ehf. sækir um byggingarleyfi fyrir 1. hæðinni að viðbyggingu að Ólafsbraut 20 … Skipulags- og byggingarnefnd samþykkir erindið.“  Var afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 16. maí 2006.

Framangreindri samþykkt skipulags- og byggingarnefndar hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur krefjast þess að byggingarleyfið verði fellt úr gildi þar sem þeir telji að deiliskipulag það sem byggingarleyfið grundvallast á sé ólögmætt.  Kærendur hafi kært deiliskipulagið til úrskurðarnefndarinnar með kæru, dags. 1. desember 2005, þar sem þess hafi verið krafist að skipulagið yrði fellt úr gildi. 

Með vísan til rannsóknarskyldu úrskurðarnefndarinnar er þess krafist að úrskurðarnefndin athugi af sjálfsdáðum lögmæti byggingarleyfisins, m.a. hvað varði fjarlægð byggingarinnar frá lóðarmörkum kærenda.

Málsrök Snæfellsbæjar:  Af hálfu Snæfellsbæjar er kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis mótmælt og vísað til þess að það byggi á lögformlegu deiliskipulagi er hlotið hafi málsmeðferð í samræmi við skipulags- og byggingarlög.

Byggingarleyfishafa var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 4. janúar 2007, veitt færi á að tjá sig um ógildingarkröfu kærenda og var frestur til þess veittur til 25. s.á.  Hefur byggingarleyfishafi ekki komið á framfæri til nefndarinnar sjónarmiðum sínum í þessum efnum.  

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið er krafa kærenda um ógildingu hins umdeilda byggingarleyfis studd þeim rökum að leyfið eigi stoð í deiliskipulagi sem þau telji ólögmætt og hafi kært til úrskurðarnefndarinnar til ógildingar.  Úrskurðarnefndin hefur með úrskurði fyrr í dag hafnað kröfu kærenda um ógildingu umrædds deiliskipulags og verður byggingarleyfið því ekki fellt úr gildi af þeim sökum. 

Af hálfu kærenda er því og haldið fram að hið kærða byggingarleyfi sé ólögmætt þar sem fjarlægð milli húsa, þ.e. Ólafsbrautar 20-22 og Grundarbrautar 1, sé ekki í samræmi við þágildandi ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 um fjarlægð frá lóðarmörkum og bil milli húsa.  Samkvæmt ákvæðinu var heimilt að ákveða í skipulagi að víkja frá lágmarkskröfum um fjarlægð húss frá lóðarmörkum ásamt því að undanþágu var að finna um minnsta bil á milli húsa sem þó gat ekki verið minna en sex metrar þegar um nýjar byggingar var að ræða. 

Samkvæmt þeim gögnum er lögð hafa verið fyrir úrskurðarnefndina er minnsta fjarlægð frá húsi kærenda að fyrirhugaðri viðbyggingu, frá horni til horns, um fjórir metrar, en byggingarnar standast ekki á.  Var þannig að mati úrskurðarnefndarinnar ekki fullnægt skilyrðum reglugerðarinnar um bil milli húsa við útgáfu hins umdeilda leyfis þegar litið er til nálægðar fyrirhugaðrar byggingar við hús kærenda og verður byggingarleyfið af þeim sökum fellt úr gildi.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt nú hafi verið gerðar breytingar á umræddu ákvæði 75. gr. byggingarreglugerðarinnar til rýmkunar, enda verður hinu breytta ákvæði ekki beitt með afturvirkum hætti.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Snæfellsbæjar frá 11. maí 2006 um að veita byggingarleyfi til byggingar fyrstu hæðar viðbyggingar við húsið að Ólafsbraut 20-22 í Ólafsvík, Snæfellsbæ er felld úr gildi.  

 

                                     ____________________________________
                                                                    Hjalti Steinþórsson

 

  _______________________________                     _____________________________
             Ásgeir Magnússon                                                           Þorsteinn Þorsteinsson    

13/2007 Fróðaþing

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 8. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður. 

Fyrir var tekið mál nr. 13/2007, kæra á samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.  Þá er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 11. desember 2006 að veita byggingarleyfi í samræmi við breytt deiliskipulag vegna nefndrar lóðar. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 19. febrúar 2007, er barst nefndinni hinn 22. sama mánaðar, kærir S, lóðarhafi Fróðaþings 40, Kópavogi, samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.  Þá er kærð sú ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogs frá 11. desember 2006 að veita byggingarleyfi  fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð.  Bæjarstjórn staðfesti ákvörðun byggingarfulltrúa hinn 9. janúar 2007. 

Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Jafnframt er gerð krafa um bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar fyrir nefndinni.  Úrskurðarnefndinni hafa borist andmæli byggingarleyfishafa og hefur nefndin aflað sér nokkurra upplýsinga varðandi málið.  Þrátt fyrir að umbeðin gögn er málið varða hafa ekki borist frá bæjaryfirvöldum þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að taka til úrskurðar skipulagsþátt kærunnar og bráðabirgðakröfu um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi. 

Málavextir:  Hinn 12. desember 2006 samþykkti bæjarstjórn Kópavogs breytingu á deiliskipulagi varðandi lóðina að Fróðaþingi 20, að undangenginni umsókn lóðarhafa þar um.  Mun breytingin hafa falið í sér breytta stöðu fyrirhugaðs húss á lóð, færslu bílastæða og að aðkoma að lóð skyldi vera frá annarri götu en upphaflega var gert ráð fyrir.  Var breytingartillagan grenndarkynnt sem óveruleg breyting á deiliskipulagi samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Byggingarfulltrúi veitti byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á nefndri lóð í samræmi við fyrrnefnda breytingartillögu hinn 11. desember 2006 er bæjarstjórn staðfesti hinn 9. janúar 2007. 

Málsrök kæranda:  Kærandi gerir athugasemdir við málsmeðferð og efni hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. 

Vafi sé í huga kæranda um hvort ákvörðun bæjarskipulags um grenndarkynningu hafi verið í samræmi við lög og ekki hafi verið færð fram rök fyrir breytingunni.  Áttundi liður deiliskipulagsskilmála, er bæjaryfirvöld vitni til, geti ekki heimilað svo veigamikla breytingu á stöðu húss og aðkomu að lóð er hér um ræði.  Hin kærða ákvörðun fari á skjön við synjun sambærilegs erindis lóðarhafa að Fróðaþingi 22, en eigi sömu sjónarmið eigi við í báðum tilvikum.  Grenndarkynning hafi ekki náð til allra hagsmunaaðila og kynningargögn hafi verið villandi þar sem sýnd hafi verið breytt aðkoma að lóðinni að Fróðaþingi 22 þrátt fyrir synjun um þá breytingu. 

Umdeild breyting og byggingarleyfi raski grenndarhagsmunum kæranda með því að aðkoma að Fróðaþingi 20 sé færð að götu er liggi við suðurlóð kæranda þar sem engin aðkoma sé fyrir að lóðum.  Breytingin hafi því í för með sér aukna umferð og annað ónæði sem raski lögvörðum hagsmunum kæranda auk þess sem snúningur umdeilds húss um 90 gráður eyðileggi fyrirhugaða götumynd. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er krafist frávísunar málsins og að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað.  Byggingarleyfishafi krefst jafnframt kærumálskostnaðar. 

Hið kærða byggingarleyfi styðjist við 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og staðfest deiliskipulag sem breytt hafi verið með grenndarkynningu.  Ákvörðunin, sem sé stjórnvaldsákvörðun, hafi verið tilkynnt byggingarleyfishafa með opinberri birtingu hinn 15. desember 2006 og sé bindandi frá þeim tíma, sbr. 1. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga.  Kæra í máli þessu hafi því borist að liðnum kærufresti og beri af þeim sökum að vísa málinu frá.  Bent sé á að þeim sem hafi tjáð sig við grenndarkynningu skuli tilkynnt um lyktir máls og ekki sé kunnugt um að misbrestur hafi orðið í því efni. 

Samkvæmt 8. lið skilmála umrædds deiliskipulags komi skýrt fram að á teikningu séu sýnd dæmi um staðsetningu bílastæða og aðkomu að bílgeymslum en hönnuðum sé heimilt að gera tillögu að annarri staðsetningu.  Kæranda, sem lóðarhafa, hafi því átt að vera fullkunnugt um þessa skilmála og að staðsetning bílastæða og aðkoma að bílgeymslum kynni að verða útfærð nánar. 

Framkvæmdir séu hafnar að Fróðaþingi 20 á grundvelli lögmæts byggingarleyfis og hafi byggingarleyfishafi tekist á hendur miklar fjárskuldbindingar í því sambandi og hafi nú þegar selt íbúðarhús sitt.  Ekki fái staðist að réttur byggingarleyfishafa samkvæmt lögmætri ákvörðun eigi að víkja fyrir lítt skilgreindum grenndarhagsmunum.  Í lokamálslið 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að ákvörðun sveitarstjórnar skuli standa við þessar aðstæður en að bótaréttur kunni að skapast þeim til handa sem verði fyrir hagsmunaröskun vegna skipulagsbreytingarinnar. 

Ekki eigi hér að skipta máli hvort útfærsla á deiliskipulagi lóðarinnar að Fróðaþingi 20 hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda, enda sé nefnt ákvæði 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga undantekningarákvæði frá 1. og 3. mgr. greinarinnar.  Þá verði jafnframt að skýra 2. mgr. 26. gr. laganna til samræmis við stjórnarskrárvarinn sjálfsforræðisrétt sveitarfélaga og á þann veg að Skipulagsstofnun hafi ekki endurskoðunarvald um óverulegar breytingar á deiliskipulagi. 

Krafa um kærumálskostnað sé sett fram í ljósi þess að byggingarleyfishafi hafi verið knúinn til að bregðast við kæru sem sé sett fram að ósekju.  Tafir á byggingarframkvæmdum hafi þegar valdið byggingarleyfishafa tjóni og augljóst að frekari tafir auki þann skaða.  Þótt ekki sé í lögum heimild fyrir kærumálskostnaði í málum fyrir úrskurðarnefndinni geti hún sem sjálfstætt stjórnvald ákvarðað greiðslu kostnaðar á málefnalegum forsendum.  Ennfremur sé minnt á að í 8. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga segi að kostnaður vegna úrskurðarnefndar greiðist úr ríkissjóði. 

Niðurstaða:  Hin kærða deiliskipulagsbreyting var gerð á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sem óveruleg breyting á gildandi deiliskipulagi. 

Samkvæmt 26. gr. skipulags- og byggingarlaga er meginreglan sú að breytingar á deiliskipulagi sæti sömu málsmeðferð og nýtt deiliskipulag samkvæmt 25. gr. laganna.  Í því felst m.a. að auglýsa skal tillöguna í Lögbirtingarblaði og með öðrum áberandi hætti og skal mönnum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum innan ákveðins frests í samræmi við 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Í 2. mgr. 26. gr. er sú undantekning gerð, þegar um óverulega deiliskipulagsbreytingu er að ræða, að falla má frá auglýsingu en tillagan í stað þess grenndarkynnt samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Skal skipulagsbreytingin send Skipulagsstofnun ásamt yfirlýsingu um að sveitarstjórn taki að sér að bæta það tjón er einstakir aðilar kunni að verða fyrir við breytinguna.  Í 3. mgr. 26. gr. er síðan kveðið á um að birta skuli auglýsingu um breytt deiliskipulag í B-deild Stjórnartíðinda.

Fyrir liggur að hin samþykkta deiliskipulagsbreyting var ekki send Skipulagsstofnun til yfirferðar ásamt fyrrnefndri yfirlýsingu sveitarstjórnar og að auglýsing um gildistöku hennar hefur ekki verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Telur úrskurðarnefndin ótvírætt að birta þurfi gildistökuauglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda vegna deiliskipulagsbreytingar sem farið er með samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Tekin eru af öll tvímæli um þetta atriði í 3. mgr. ákvæðisins, sem væri augljóslega óþarft ætti það aðeins við um breytingar samkvæmt 1. mgr. 26. gr., enda er þar vísað til málsmeðferðar nýs skipulags sem sætir slíkri auglýsingu samkvæmt 25. gr. laganna.  Úrskurðarnefndin byggði á þessari lagatúlkun í úrskurði sínum uppkveðnum hinn 2. nóvember 2006 í máli nr. 54/2006 þar sem fallist var á kröfu Kópavogsbæjar um frávísun með þeim rökum að umþrætt deiliskipulagsbreyting í því máli, sem farið hafði verið með samkvæmt fyrrnefndri 2. mgr. 26. gr., hefði hvorki verið send Skipulagsstofnun né auglýsing um gildistöku hennar verið birt í B-deild Stjórnartíðinda. 

Samkvæmt framansögðu er málsmeðferð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum ekki lokið og hefur hún ekki tekið gildi.  Ber því að vísa kæru vegna deiliskipulagsbreytingarinnar frá með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. 

Byggingarleyfishafi hefur í máli þessu gert kröfu um kærumálskostnað.  Valdheimildir úrskurðarnefndarinnar eru markaðar í 8. gr. skipulags- og byggingarlaga en þar er ekki að finna heimild fyrir úrskurðarnefndina til að úrskurða um kærumálskostnað á hendur málsaðilum.  Verður ekki fallist á að unnt sé að úrskurða um slíkan kostnað án beinnar lagastoðar og styðst sú ályktun við lögmætisreglu íslensks stjórnarfars- og stjórnskipunarréttar, en hún felur m.a. í sér að hver sú athöfn stjórnvalda sem leggur skyldur á herðar einstaklingum verði að eiga sér ótvíræða lagastoð.  Verður kröfu byggingarleyfishafa um kærumálskostnað af þessum sökum vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Áhöld eru uppi í málinu m.a. um það hvort umþrætt byggingarleyfi hafi verið í samræmi við gildandi deiliskipulag er það var veitt.  Með vísan til þess, og með hliðsjón af því að úrskurðarnefndinni hafa enn ekki borist umbeðin gögn er málið varða frá Kópavogsbæ, þykir rétt að verða við kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. 

Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kæranda um ógildingu á samþykki bæjarstjórnar Kópavogs frá 12. desember 2006 fyrir breytingu á deiliskipulagi er fól í sér breytta stöðu húss, færslu bílastæða og breytta aðkomu vegna lóðarinnar að Fróðaþingi 20, Kópavogi.

Kröfu byggingarleyfishafa um kærumálskostnað er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Framkvæmdir samkvæmt byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni að Fróðaþingi 20, Kópavogi, er byggingarfulltrúi Kópavogs veitti hinn 11. desember 2006 og bæjarstjórn Kópavogs staðfesti hinn 9. janúar 2007, skulu stöðvaðar þar til endanlegur úrskurður gengur í máli þessu varðandi nefnt byggingarleyfi. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________                  ____________________________
           Þorsteinn Þorsteinsson                                        Geirharður Þorsteinsson

62/2006 Eyrarstígur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 8. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 62/2006, kæra á samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. ágúst 2006, er barst nefndinni hinn 4. sama mánaðar, kæra H og G, eigendur hússins að Eyrarstíg 2, Reyðarfirði samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði.  Á fundi bæjarráðs hinn 1. ágúst 2006 var samþykkt nefndarinnar staðfest. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu bílgeymslu eru ekki hafnar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfuna um stöðvun framkvæmda heldur kveðinn upp efnisúrskurður í málinu. 

Málavextir:  Hinn 18. maí 2006 barst embætti byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar umsókn frá eiganda hússins nr. 4 við Eyrarveg á Reyðarfirði, m.a. um byggingu bílgeymslu á lóðinni.  Var samkvæmt umsókninni gert ráð fyrir að bílgeymslan yrði staðsett austan við húsið, um einn metra frá mörkum lóðarinnar að lóð nr. 2 við Eyrarveg, en á henni er bílgeymsla sem stendur fast að lóðarmörkum.  Ákvað byggingarfulltrúi að grenndarkynna beiðnina þar sem ekki væri til deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Á fundi umhverfismálaráðs hinn 12. júlí 2006 var umsóknin tekin fyrir ásamt athugasemdum kærenda og var afgreiðslu málsins frestað.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi ráðsins hinn 26. júlí s.á. og var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin hefur skoðað málið vandlega og veitir byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Uppfylla þarf skilyrði um brunavarnir vegna fjarlægðar á milli húsa.  Nefndin telur að framkvæmdin skerði útsýni að mjög litlu leyti.  Þar sem bílgeymsla á lóð nr. 2 er byggð mjög nálægt lóðarmörkum lítur ráðið svo á að um gagnkvæman rétt til byggingar bílgeymslu sé að ræða við lóðarmörk.“ 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs hafa kærendur skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur halda því fram að verði af byggingu bílgeymslu í samræmi við hið kærða leyfi muni það hafa í för með sér birtu- og útsýnisskerðingu þar sem að nokkru yrði byggt fyrir glugga á húsi þeirra. 

Kærendur vísa til þess að hið kærða byggingarleyfi sé í andstöðu við ákvæði gr. 75.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998, en samkvæmt ákvæðinu skuli lágmarks fjarlægð frá lóðamörkum vera þrír metrar.  Í því tilfelli er hér um ræði sé fjarlægðin aðeins einn metri og einn og hálfur metri sé á milli bílgeymslu á lóðinni nr. 2 við Eyrarstíg og þeirrar er um sé deilt í málinu.  Telji kærendur þetta fyrirkomulag í það minnsta varhugavert með tilliti til sambrunahættu. 

Kærendur gera athugasemd við undirbúning og málsmeðferð hins kærða leyfis og telja að gögn er notuð hafi verið við grenndarkynningu þess hafi ekki verið rétt.  Í þeim hafi m.a. verið vísað til gr. 12.5 í byggingarreglugerð í stað 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Málsrök Fjarðabyggðar:  Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ákvörðun umhverfismálaráðs byggi á því að bílskúr á lóð kærenda sé byggður aðeins um hálfan metra frá mörkum lóðanna að Eyrarstíg 2 og 4.  Bílastæði á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg hafi ávallt verið við mörk lóðanna og geti raunar ekki verið annars staðar.  Þegar veitt hafi verið heimild til byggingar bílskúrs á lóð kærenda hafi verið talið að um gagnkvæman byggingarrétt væri að ræða. 

Við ákvörðun um staðsetningu og stærð hinnar umdeildu bílgeymslu sé fullt tillit tekið til kærenda.  Þannig sé hún staðsett á mörkum lóðarinnar nr. 8 við Brekkugötu með samþykki eigenda þess húss ásamt því að hún sé höfð aðeins í 60 sentimetra fjarlægð frá íbúðarhúsi byggingarleyfishafa og sé hófleg að stærð. 

Varðandi birtuskerðingu sé bent á að þeir gluggar á húsi kærenda, er snúi að húsi byggingarleyfishafa og bygging bílgeymslunnar hafi áhrif á, séu á geymslu og þvottahúsi.  Eldhúsgluggi á húsi kærenda sé framan við fyrirhugaða bílgeymslu.  Því sé hafnað að kærendur verði fyrir útsýnisskerðingu enda þurfi að fella tré til að koma bílgeymslunni fyrir. 

Tekið sé fram að byggingarleyfið hafi verið veitt á þeim forsendum að brunakröfur verði í samræmi við ákvæði gr. 113.3, 113.4 og 113.6 í byggingarreglugerð. 

Grenndarkynningargögn hafi verið unnin af byggingarleyfishafa og megi rekja skekkju í þeim til loftmynda af svæðinu. 

Sjónarmið byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að hin umdeilda bílgeymsla muni uppfylla þær kröfur sem til hennar séu gerðar skv. 113 gr. í byggingarreglugerð og telji hann að ákvæði 75. gr. reglugerðarinnar eigi ekki við í þessu tilviki. 

Staðsetning bílgeymslunnar ákvarðist af því að hún hafi sem minnst grenndaráhrif og sé raunar eini mögulegi staðurinn sem hún geti verið á.  Þá sé bent á að eigendur hússins að Brekkugötu 8 hafi ekki sett fram neinar athugasemdir við byggingaráformin. 

Varðandi fullyrðingu kærenda þess efnis að þeir verði fyrir útsýnisskerðingu sé bent á að eina útsýnið sem þeir verði af sé bakgarður byggingarleyfishafa.  Gluggar á húsi kærenda er um ræði séu gegnt herbergisgluggum byggingarleyfishafa og vísi í vestur.  Skerðing verði ekki á sólarljósi fyrr en sólin sé komin norður fyrir vestur.  Þá sé degi farið að halla verulega, auk þess sem landfræðilegar aðstæður séu þess eðlis að sólargangur í vestri og norðan við vestur sé einungis yfir björtustu sumarmánuðina. 

Ekki sé réttmætt af hálfu kærenda að halda því fram að afstaða íbúðarhúss og bílgeymslu í þeirra eigu komi í veg fyrir byggingu hinnar umdeildu bílgeymslu.  Í hverfinu séu flest húsanna byggð á árunum 1960-1970 og við sum þeirra standi bílgeymslur við lóðamörk og séu sumar þeirra nær þeim en kærendur telji heimilt í kærumáli þessu. 

Að öðru leyti sé tekið undir sjónarmið þau er sett hafi verið fram af hálfu sveitarfélagsins. 

Niðurstaða:  Er hin kærða ákvörðun var tekin var í 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 kveðið á um lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum og minnsta bil milli húsa.  Þó var heimilt að víkja frá lágmarksfjarlægð frá lóðamörkum samkvæmt greininni í skipulagi eða með þinglýstum samningi lóðarhafa. 

Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði og ekki liggur fyrir þinglýstur samningur lóðarhafa.  Var því ekki fullnægt skilyrðum til þess að heimila staðsetningu hinnar umdeildu bílgeymslu nær lóðamörkum en áskilið var í tilvitnuðu ákvæði svo sem gert var.  Því var hið umdeilda byggingarleyfi í andstöðu við gildandi ákvæði byggingarreglugerðar þegar leyfið var veitt og verður það af þeim sökum fellt úr gildi.  Breytir það ekki þessari niðurstöðu þótt nú hafi verið gerðar breytingar á umræddu reglugerðarákvæði til rýmkunar, enda verður hinu breytta ákvæði ekki beitt með afturvirkum hætti. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

 

Úrskurðarorð:

Samþykkt umhverfismálaráðs Fjarðabyggðar frá 26. júlí 2006 um byggingarleyfi, sem staðfest var í bæjarráði hinn 1. ágúst 2006, fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði er felld úr gildi. 

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________                      _______________________________
Ásgeir Magnússon                                                       Þorsteinn Þorsteinsson

38/2006 Reykjahlíð

Með

Ár 2007, miðvikudaginn 7. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2006, kæra eigenda hússins að Helluhrauni 5, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi á samþykkt sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 27. apríl 2006 um að heimila breytta notkun húsanna nr. 7a, 8 og 8a við Helluhraun í Reykjahlíð úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. maí 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir Hulda Rós Rúriksdóttir hdl., f.h. M og S, Helluhrauni 5, Reykjahlíð, Skútustaðahreppi samþykkt sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 27. apríl 2006 um að heimila breytingu á notkun húsanna nr. 7a, 8 og 8a  við Helluhraun í Reykjahlíð úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili. 

Málavextir:  Með bréfi, dags. 6. febrúar 2006, óskaði eigandi húsanna nr. 7a, 8 og 8a við Helluhraun í Reykjahlíð eftir heimild sveitarstjórnar Skútustaðahrepps til að breyta notkun húsanna úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Sveitarstjórn tók beiðnina fyrir á fundi hinn 9. febrúar 2006 og samþykkti, með vísan til 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, að fela sveitarstjóra að veita hagsmunaaðilum á svæðinu kost á að tjá sig um beiðnina.  Sveitarstjórn bárust tvær athugasemdir, þ.á m. frá kærendum, og á fundi 27. apríl 2006 var eftirfarandi fært til bókar og samþykkt samhljóða:  „Með bréfi dags. 6. feb. s.l. óskaði Eldá ehf. eftir leyfi til að breyta notkun íbúðanna nr. 7a, 8 og 8a við Helluhraun úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Sveitarstjórn Skútustaðahrepps samþykkti á fundi sínum 9. feb. að fram skyldi fara grenndarkynning sem næði til eigenda og íbúa við Helluhraun. Eftirtöldum eigendum húsnæðis við Helluhraun var sent bréf það sem hér fer á eftir:  Heilbrigðisstofnun Þingeyinga v/ Helluhrauns 17, Birningi ehf v/Helluhrauns 16, Jóni Illugasyni v/Helluhrauns 15, Magnúsi Ómari Stefánssyni og Unni Sigurðardóttur v/Helluhrauns 14, Ásdísi Illugadóttur v/Helluhrauns 13, Rögnvaldi Agli Sigurðssyni v/Helluhrauns 12, Skútustaðahreppi v/Helluhrauns 10 og 18, Landsvirkjun v/Helluhrauns 11, Helluholti v/Helluhrauns 7 og 9, Álfdísi Sigurgeirsdóttur v/Helluhrauns 6, Sigurði Kára Sigfússyni og Margréti Hróarsdóttur v/Helluhrauns 5, Sverri Karlssyni v/Helluhrauns 4, Sparisjóði S-Þingeyinga v/Helluhrauns 3, Karli Viðari Pálssyni v/Helluhrauns 2 og Norrænu Eldfjallastöðinni v/Helluhrauns 1 … Tvær athugasemdir bárust vegna framangreinds bréfs, frá eigendum Helluhrauns 2 annars vegar og frá eigendum Helluhrauns 5 hins vegar. Athugasemdirnar fylgja aftast í fundargerðinni.  Í ljósi úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags– og byggingarmála frá 24. apríl sl. tekur sveitarstjórn ekki undir athugasemdir íbúa Helluhrauns 2 og 5 og heimilar Eldá ehf. að breyta notkun íbúðanna nr. 7a, 8 og 8a úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Samþykkt samhljóða.“  

Kærendur hafa skotið nefndri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að meðal markmiða skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997 sé að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila sé ekki fyrir borð borinn, sbr. ákvæði 3. mgr. 1. gr. laganna.  Sama ákvæði sé að finna í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, grein 1.1.  Einnig sé það markmið laganna að stuðla að skynsamlegri og hagkvæmri nýtingu lands og landgæða og að landnotkun sé í samræmi við skipulagsáætlanir.

Fyrirkomulag í húsum við Helluhraun í Mývatnssveit sé nokkuð sérstakt og því þyki rétt að fara yfir lista eigenda húseignanna. 

Heilbrigðisstofnun Þingeyinga sé eigandi Helluhrauns 17.  Þar sé rekin heilsugæslustöð og það komi ekki á óvart að beiðni um leyfi til reksturs gistihúss hafi ekki verið hafnað. Starfsemi sé í húsinu virka daga vikunnar og enginn búi þar að staðaldri.

Kísiliðjan sé eigandi Helluhrauns 16 samkvæmt fundargerð sveitarstjórnar.  Starfsemi Kísiliðjunnar hafi verið lögð af og því enginn til staðar til að koma að mótmælum fyrir hönd eiganda.  Samkvæmt upplýsingum kærenda hafi eigandi fasteigna þeirra er um ræði í máli þessu, keypt húseignina að Helluhrauni 16 og ætli að nota hana undir gistingu.

Jón Illugason, eigandi fasteigna þeirra er um ræði í kærumáli þessu, sé enn fremur eigandi Helluhrauns 15.  Einstaklingurinn Jón Illugason og fjölskylda hans reki Eldá ehf. og sé eigandi Helluholts ehf., sem sé eigandi húseignanna nr. 7 og 9 við Helluhraun.  Því hafi ekki verið að vænta neinna mótmæla frá eigendum húseignarinnar nr. 15 í grenndarkynningu sveitarfélagsins.

Magnús Ómar Stefánsson og Unnur Sigurðardóttir séu eigendur Helluhrauns 14.  Þau búi í húsi sínu en hafi ekki gert athugasemdir.

Ásdís Illugadóttir sé eigandi Helluhrauns 13.  Ásdís sé systir Jóns Illugasonar.  Sterk tengsl séu á milli systkinanna og því hafi mátt búast við að Ásdís mótmælti ekki starfsemi fyrirtækis bróður síns.  Ásdís hafi í gegnum árin leigt út herbergi á sumrin.

Rögnvaldur Sigurðsson sé eigandi Helluhrauns 12.  Hann og fjölskylda hans búi í húsinu og hafi ekki gert athugasemdir.

Skútustaðahreppur sé eigandi Helluhrauns 10 og 18.  Starfsmenn hreppsins búi í húsunum. 

Landsvirkjun sé eigandi Helluhrauns 11.  Þar hafi starfsmenn Landsvirkjunar búið í gegnum árin.  Það komi ekki á óvart þó engin mótmæli hafi borist frá yfirmönnum Landsvirkjunar enda um risafyrirtæki að ræða.

Helluholt ehf. sé eigandi Helluhrauns 7 og 9 en sama fjölskylda sé eigandi að fyrirtækjunum Helluholt ehf. og Eldá ehf.  Ekki sé því unnt að líta öðruvísi á en að þarna sé um sömu aðila að ræða en einungis með sitt hvoru nafninu á félögunum.
  
Álfdís Sigurgeirsdóttir sé eigandi  Helluhrauns 6.  Hún hafi um mjög langt árabil leigt út herbergi til ferðamanna.  Um sé að ræða tvö herbergi.  Vegna þessa hafi ekki mátt vænta nokkurra viðbragða af hálfu Álfdísar.

Kærendur máls þessa séu eigendur Helluhrauns 5.

Sverrir Karlsson sé eigandi Helluhrauns 4.  Engin mótmæli liggi fyrir af hans hálfu.

Sparisjóður S-Þingeyinga sé eigandi Helluhrauns 3.  Starfsemi sparisjóðsins fari fram í þessu húsi á hefðbundnum opnunartíma.  Engin starfsemi sé í húsinu á kvöldin og um helgar.  Engin mótmæli hafi komið fram af hálfu sparisjóðsins.

Karl Viðar Pálsson sé eigandi Helluhrauns 2.  Fyrir liggi mótmæli af hans hálfu til sveitarstjórnar.

Norræna Eldfjallastöðin sé eigandi Helluhrauns 1.  Þar hafi í gegnum árin búið starfsmenn stöðvarinnar á meðan þeir hafi sinnt tímabundnum verkefnum.  Síðustu árin hafi húsið hins vegar verið notað aðallega sem orlofshús.  Engin mótmæli hafi komið fram af hálfu stofnunarinnar.

Af framangreindri upptalningu sé ljóst að samsetning eigenda húsa við Helluhraun í Mývatnssveit sé alls ekki eins og venjulegt megi teljast.  Í húsum nr. 3 og 17 sé starfsemi sem sé í gangi á hefðbundnum dagvinnutíma, virka daga vikunnar.  Starfsemin hafi ekki truflandi áhrif á þær fjölskyldur sem búi í götunni.  Í húsum nr. 1, 10, 11, 16 og 18 hafi fram til þessa búið einstaklingar sem hafi unnið á vegum eigenda húsanna í sérverkefnum í sveitinni og séu eins og hver önnur fjölskylda.  

Í húsum nr. 13 og 15 búi systkinin Jón og Ásdís.  Fjölskyldan hafi stofnað fyrirtækið Eldá ehf. fyrir mörgum árum og hafi starfsemi fyrirtækisins verið öll á sviði ferðaþjónustu.  Starfsemin hafi hafist á jörðinni Bjargi með gistingu, tjaldstæðum og rútuferðum sem boðið hafi verið upp á.  Með árunum hafi fyrirtækið vaxið og því hafi fjölskyldan brugðið á það ráð að færa gistiþjónustu í þorpið.  Það sé afar hentugt að hafa gistinguna í sömu götu og eigendur fyrirtækisins búi.  Húsverð hafi einnig verið lágt og mun hagstæðara að kaupa hús en byggja ný til starfseminnar. 

Í Helluhrauni nr. 6 hafi eigandi hússins alltaf selt gistingu í nokkrum rúmum.  Eigandinn hafi búið þar ein og hafi drýgt tekjur sínar með þessu.

Í húsunum nr. 2, 4, 5, 12 og 14 búi fjölskyldur sem séu ótengdar rekstraraðila Eldár ehf. eða „bara venjulegar fjölskyldur“ sem búi í húsum sínum.  Eftir framangreinda upptalningu sé því auðvelt að segja að reikna hefði mátt með því að eigendur þessara húsa myndu hafa skoðanir á því hvort þeir teldu eitthvað athugavert við að fleiri leyfi yrðu veitt til reksturs gistiheimila í götunni.

Í hinni kærðu ákvörðun geri sveitarstjórnin rökstuðning úrskurðarnefndarinnar í kærumáli nr. 59/2005 að sínum.  Kærendur mótmæli þessum rökstuðningi fyrir afgreiðslu málsins. 

Af hálfu kærenda sé byggt á því að samkvæmt Aðalskipulagi Skútustaðahrepps 1996-2015 og gr. 4.2.1 skipulagsreglugerðar nr. 440/1998 sé heimilt að reka gistiaðstöðu á íbúðarsvæðum ef reksturinn valdi ekki nágrönnum ónæði.  Enn fremur sé byggt á því að ýmis þjónustustarfsemi sé í húsunum við Helluhraun, þ.á m. að nú þegar sé gistiheimili í götunni.  Bent sé á að „gistiheimili“ sem rekin hafi verið í samræmi við skipulag sveitarfélagsins sé einungis í tveimur húsum, þ.e. í húsi Álfdísar nr. 6 og í húsi Ásdísar í húsi nr. 13.  Skynsemd hverrar manneskju geti sagt að það sé sitthvað að nokkur rúm séu leigð út í einu húsi eða hvort rekið sé gistiheimili í skipulögðum rekstri eins og fyrirtæki Jóns Illugasonar og fjölskyldu hans.  Þó að seld hafi verið út nokkur gistirúm í götunni fram til þessa geti það ekki með nokkru móti verið rökstuðningur fyrir því að veita heimild til reksturs gistiheimilis í götunni. 

Rekstur gistiheimila fyrirtækja Jóns Illugasonar og fjölskyldu hans hafi haft veruleg áhrif nú þegar á aðra íbúa götunnar því að hann hafi rekið gistiheimili án heimildar um nokkurt skeið.  Kvartanir íbúa götunnar hafi ekkert haft að segja.  Hins vegar hafi íbúar götunnar orðið varir við bíla er tengist gistiheimilinu auk þess sem ekki hafi verið hikað við að kvarta við íbúa götunnar hafi rekstraraðilar talið að það hefði truflandi áhrif á gesti gistiheimilisins ef íbúar hafi haft of mikinn hávaða við hús sín á sumarkvöldum.

Þeirri röksemd sé harðlega mótmælt af kærendum að rekstur gistiheimilis í húsunum við Helluhraun 7a, 8 og 8a fari ekki í bága við skilgreinda landnotkun svæðisins samkvæmt gildandi aðalskipulagi svæðisins.  Þó að segi í aðalskipulagi svæðisins að heimilað sé að reka gistiaðstöðu geti það átt við um þau tilvik þegar heimili selji út gistirúm í húsum sínum.  Það geti ekki átt við um rekstur gistiheimilis. Það sé allt önnur notkun húsnæðisins og alls ekki hægt að nefna í sömu setningu. 

Kærendur hafni þeim röksemdum fyrir leyfisveitingunni að nú þegar sé ýmiss konar þjónustustarfsemi í götunni við Helluhraun.  Eins og áður hafi verið nefnt sé ekki hægt að líkja rekstri pósthúss, bankastofnunar og heilsugæslu við rekstur gistiheimilis.  Eins og áður hafi verið nefnt séu framangreindar þjónustustofnanir reknar á virkum dögum á dagvinnutíma.  Allt annað eigi við um gistiheimili eins og áður hafi verið nefnt.    

Með því að heimila rekstur gistiheimilis í húsum þeim er um ræði í máli þessu sé farið gegn markmiði 1. gr. skipulags- og byggingalaga nr. 73/1997, þar sem búið sé þá að heimila allt aðra starfsemi í götunni heldur en sé til staðar nú þegar og sem aðalskipulag svæðisins geri ráð fyrir að undanskilinni leyfisveitingu vegna Helluhrauns 9, sem fjallað hafi verið um í úrskurði nefndarinnar nr. 59/2005.

Við Helluhraun séu einungis íbúðarhús öðru megin götunnar.  Þeim megin sem ekki sé byggt sé friðað hraun svo ekki muni verða byggt þar í framtíðinni eða gerð bílastæði.

Málsrök Skútustaðahrepps:  Af hálfu sveitarstjórnar Skútustaðahrepps er vísað til þess að forsaga kærumáls þessa sé sú að á árinu 2005 hafi eigandi hússins að Helluhrauni 9 óskað eftir því við sveitarstjórn að breyta notkun hússins úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Fram hafi farið grenndarkynning og hafi borist athugasemdir frá eigendum tveggja húsa, þ.á m. kærendum máls þessa.  Í framhaldinu hafi sveitarstjórn hafnað beiðni um breytt not hússins og hafi sú ákvörðun verið kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála sem með úrskurði hinn 24. apríl 2006 hafi fellt synjunina úr gildi. 

Í febrúar árið 2006 hafi sveitarstjórn borist erindi frá forsvarsmanni eiganda húsanna að Helluhrauni 7a, 8 og 8a, sem sé sá hinn sami og eigandi hússins nr. 9 við Helluhraun, þar sem sótt hafi verið um leyfi til að breyta notkun hinna fyrrnefndu húsa nr. 7a, 8 og 8a við Helluhraun úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Fram hafi farið grenndarkynning og hafi athugasemdir borist, þ.á m. frá kærendum.  Í ljósi úrskurðar úrskurðarnefndarinnar hinn 24. apríl 2006 varðandi húsið að Helluhrauni 9 hafi sveitarstjórn talið að sér hafi ekki verið fært að hafna erindinu og því samþykkt það á fundi hinn 27. apríl 2006. 

Sveitarstjórn hafi verið fullljóst að með því að verða við erindi eiganda húsanna að Helluhrauni 7a, 8 og 8a myndi hún kalla yfir sig kæru frá kærendum og í raun og veru alveg sama hver ákvörðun sveitarstjórnar hefði orðið hefði mátt búast við kæru, annað hvort frá kærendum eða eiganda húsanna.  Því hafi verið úr vöndu að ráða.        

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa sé vísað til þess að hann hafi haft leyfi til reksturs gistingar í húsum við Helluhraun um langt árabil.  Leitast hafi verið eftir að sá rekstur væri í samræmi við lög og reglugerðir og hafi byggingarleyfishafi átt gott samband við sveitaryfirvöld, sýslumannsembættið, Vinnueftirlit ríkisins, heilbrigðisfulltrúa og eldvarnareftirlit.  Samband við íbúa Helluhrauns hafi almennt verið gott og nánast engar kvartanir heyrst frá þeim þann aldarfjórðung sem reksturinn hafi staðið yfir.  Ein kvörtun hafi þó borist vorið 2006 vegna hávaða frá kórfélögum í erlendum kór sem þátt hafi tekið í kórastefnu við Mývatn.  Hafi þeir er í hlut hafi átt gleymt sér í blíðviðri og miðnætursól og haft háreisti nokkra við opinn glugga er snúi að húsi kærenda.  Þar hafi verið um réttmæta kvörtun að ræða sem brugðist hafi verið við og séð til þess að háreistinni linnti.  Fullyrða megi að ekkert annað atvik þessu líkt hafi átt sér stað í tengslum við gistihúsareksturinn sl. 25 ár. 

Þess megi geta að ánægjuraddir hafi heyrst frá nokkrum næstu nágrönnum, sem m.a. séu ánægðir með snyrtilega umgengni á lóðum Helluhrauns 7, 7a, 8, 8a, og 9 og geri sér jafnframt grein fyrir mikilvægi þessa reksturs fyrir samfélagið. 

Helluhraun sé friðsæl gata og séu mjög fá dæmi þess að nokkur ástæða hafi verið til kvartana um hávaða á síðkvöldum. 

Bent sé á að bílastæði við húsin að Helluhrauni 7, 7a, 8, 8a og 9 rúmi alls um 20 bíla sem í raun sé meira en þörf sé fyrir vegna reksturs gistingar í húsunum, enda hafi ekki verið nein vandamál til staðar varðandi bílastæði.   

Fullyrðing kærenda um að næst Helluhrauni að vestan sé friðað hraun sé einfaldlega röng, sbr. gildandi deiliskipulag. (sic)

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um samþykkt sveitarstjórnar Skútustaðahrepps um að heimila breytingu á notkun húsanna að Helluhrauni nr. 7a, 8 og 8a í Reykjahlíð úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.  Í gildi er Aðalskipulag Skútustaðahrepps fyrir Reykjahlíð 1996-2015 og skv. því standa hús þau sem hér um ræðir á íbúðarsvæði.  Fyrir úrskurðarnefndinni liggur uppdráttur Verkfræðistofu Norðurlands, dagsettur í júlí árið 1977, þar sem lóðastærðir við Helluhraun og Lynghraun eru tilgreindar en ekki liggur fyrir að uppdrátturinn hafi öðlast gildi sem deiliskipulag.  Verður því að styðjast við ákvæði aðalskipulags um landnotkun á svæðinu.

Samkvæmt gr. 4.2.1 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 er heimilt að reka starfsemi á íbúðarsvæðum sem eðlilegt er að þar sé, enda valdi reksturinn ekki ónæði, m.a. vegna hávaða eða óeðlilega mikillar umferðar. Hefur ákvæði þetta verið skýrt svo að rekstur gistiheimila rúmist innan heimilda þess.  Verður með hliðsjón af tilvitnuðu ákvæði að skýra Aðalskipulags Skútustaðahrepps 1996-2015 svo að rekstur gistiheimila samræmist landnotkun umrædds svæðis.  Húsin að Helluhrauni nr. 7a, 8 og 8a standa í gróinni götu þar sem hefðbundin íbúðarbyggð blandast ýmis konar þjónustustarfsemi.  Eru þar m.a. bankastofnun og heilsugæsla auk þess sem nú þegar eru starfrækt gistiheimili í götunni.  Húsin við Helluhraun standa öðru megin götunnar en hinum megin hennar er autt svæði þar sem gert er ráð fyrir blandaðri landnotkun samkvæmt gildandi aðalskipulagi. 

Þegar litið er til þess sem hér hefur verið rakið og umfangs þess gistirekstrar sem byggingarleyfishafi hyggst starfrækja á svæðinu telur úrskurðarnefndin að sú breytta notkun sem hér um ræðir fari ekki í bága við skilgreinda landnotkun svæðisins samkvæmt gildandi aðalskipulagi.  Þá verður ekki annað séð en að ákvæði 64. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 séu uppfyllt hvað bílastæðaþörf varðar. 

Samkvæmt framansögðu verður að telja að lagaskilyrðum hafi verið fullnægt og málefnaleg rök hafi legið til grundvallar hinni kærðu ákvörðun.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að ógilt verði ákvörðun sveitarstjórnar Skútustaðahrepps frá 27. apríl 2006 um að heimila breytta notkun húsanna nr. 7a, 8 og 8a við Helluhraun í Reykjahlíð úr íbúðarhúsnæði í gistiheimili.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson    

 

______________________________        _______________________________
Ásgeir Magnússon   Þorsteinn Þorsteinsson       

 

 

 

21/2005 Frakkastígur

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 25. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 21/2005, kæra á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2005 á umsókn um leyfi til að breyta í íbúð verslunarrými, matshluta 03, á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 15. mars 2005, er barst úrskurðarnefndinni hinn sama dag, kærir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir hdl., f.h. I, Baugatanga 1, Reykjavík, synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2005 um leyfi til að breyta í íbúð verslunarrými,  matshluta nr. 03, á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg.  Er kærandi eigandi framangreinds eignarhluta. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 
 
Málsatvik:  Með umsókn, dags. 10. mars 2004, sótti kærandi um leyfi til byggingarfulltrúa um að breyta verslunarrými á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg í íbúð, en um er að ræða skúrbyggingu við aðalhús það er á lóðinni stendur og hafði þar verið starfrækt fiskbúð.  Byggingarfulltrúi frestaði afgreiðslu málsins með vísan til athugasemda á umsóknarblaði og vísaði því til skipulagsfulltrúa. 

Í bréfi skipulagsfulltrúa til byggingarfulltrúa, dags. 2. apríl 2004, kom fram að í deiliskipulagi fyrir reitinn sem lóðin Frakkastígur 7 tilheyri sé gert ráð fyrir að skúrar verði fjarlægðir og í þeirra stað verði gefin heimild til viðbygginga við aðalhúsið.  Þetta sé gert með það að leiðarljósi að fækka skúrum á reitnum, en margir þeirra séu ekki vel byggðir og til lýta í umhverfinu.  Það yrði því í andstöðu við þá hugsun sem legið hefði til grundvallar við gerð deiliskipulagsins að heimila að umræddum skúr yrði breytt í íbúð.  Því væri lagt til að erindinu yrði svarað neikvætt.

Hinn 5. apríl 2004 var málið tekið fyrir á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa og málinu vísað til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu.  Hinn 27. apríl var umsóknin tekin fyrir á ný hjá byggingarfulltrúa og afgreiðslu frestað þar sem skipulagsferli væri ólokið, ekki hefði borist umsögn skipulagsfulltrúa auk þess sem gera þyrfti grein fyrir einangrun útveggja. 

Hinn 9. júlí 2004 vísaði skipulagsfulltrúi málinu til hverfisstjóra.  Hinn 16. júlí s.á. var málið á ný tekið fyrir hjá skipulagsfulltrúa þar sem lögð var fram umsögn hans, dags. 15. júlí s.á.  Í henni kom m.a. fram að í fyrri umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 2. apríl 2004, hefði verið komist að þeirri niðurstöðu að ekki væri hægt að synja erindinu ef stjórn skipulagssjóðs samþykkti ekki að kaupa skúrinn.  Hafi þessi niðurstaða verið fengin í samráði við Ívar Pálsson og Magnús Sædal Svavarsson.  Í netpósti frá Ívari Pálssyni sé sú niðurstaða ítrekuð að ekki sé hægt að leggjast gegn þessari breytingu frá „skipulagslegu sjónarmiði“ þar sem í ljós hafi komið að skipulagssjóður hafni uppkaupum á eigninni og verði erindið ekki samþykkt sé að vænta skaðabótakröfu á borgarsjóð.  Þó sé sá varnagli sleginn af hálfu forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu að húsnæðið þurfi að uppfylla kröfur byggingarreglugerðar.  Telji skipulagsfulltrúi að ákvæði í gildandi og staðfestu deiliskipulagi mæli gegn þessari ráðstöfun. 

Var eftirfarandi fært til bókar á fundi skipulagsfulltrúa:   „Neikvætt.  Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa“. 

Á fundi skipulagsfulltrúa hinn 22. október 2004 var tekið upp að nýju bréf byggingarfulltrúa, dags. 24. mars 2004, vegna umsóknar um leyfi til að breyta í íbúð verslunarrými, matshluta 03, á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg.  Lögð var fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 15. júlí 2004.  Erindinu fylgdi samþykki meðlóðarhafa, umsögn burðarvirkishönnuðar og viðauki frá í maí 2004.  Þá var og lögð fram umsögn lögfræði og stjórnsýslu, dags. 20. október 2004.  Var erindinu frestað milli funda.  Í fyrrgreindu bréfi forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu sagði svo:  „Sótt hefur verið um leyfi til að breyta notkun húsnæðisins að Frakkastíg nr. 7 úr verslunarhúsnæði í íbúðarhúsnæði. Umsókn þess efnis barst embætti byggingarfulltrúa í lok mars 2004. Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til umsagnar skipulagsfulltrúa. Á fundi sínum þann 5. apríl sl. vísaði skipulagsfulltrúi erindinu til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu. Þann 2. apríl óskaði skipulagsfulltrúi eftir afstöðu skipulagsjóðs til þess hvort sjóðurinn væri reiðubúinn til að kaupa skúrinn þar sem deiliskipulag svæðisins gerir ráð fyrir að hann verði rifinn. Hafnaði sjóðurinn að koma að kaupum hússins. Undirritaður óskaði eftir því með tölvupósti, dags. 5. júlí sl., þegar afstaða sjóðsins lá fyrir, að málið yrði lagt fyrir fund skipulagsfulltrúa og skipulagsfulltrúa myndi ekki gera athugasemd við erindið fyrir sitt leyti. Á fundi skipulagsfulltrúa þann 9. júlí sl. var málið tekið fyrir og vísað til umsagnar hverfisstjóra (málið hafði í millitíðinni verið tekið fyrir á nokkrum fundum byggingarfulltrúa en ekki afgreitt þar sem umsögn skipulagsfulltrúa vantaði). Á fundi skipulagsfulltrúa þann 16. júlí 2004 var málið svo afgreitt neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 15. júlí 2004. Var sú afgreiðsla, fyrir mistök, send umsækjanda í stað byggingarfulltrúa sem átti að fá umsögnina og afgreiða málið. Olli það því að byggingarfulltrúi hefur ekki enn afgreitt málið.

Í kjölfar tilkynningar til umsækjanda um afgreiðslu skipulagsfulltrúa leitaði umboðsmaður hans til embættisins og óskaði munnlega eftir að málið yrði skoðað á ný. Ákvað undirritaður að verða við þeirri beiðni enda málið nokkuð sérstakt. Í fyrsta lagi þar sem fyrir lágu umsagnir tveggja embættismanna um málið þar sem komist var að mismunandi niðurstöðu. Í öðru lagi þar sem í ljós hafði komið að byggingin hafði verið samþykkt með niðurrifskvöð á sínum tíma. Sú kvöð er hins vegar ekki skráð í þinglýsingabækur né var hún skráð eða bókuð vegna reyndarteikninga sem samþykktar voru af húsinu árið 2003. Kvöðin hafði því farið fram hjá undirrituðum.

Fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn lítur að breyttri landnotkun hússins þ.e. að breyta því úr verslunarhúsnæði í íbúð. Ekkert í deiliskipulagi svæðisins, sem samþykkt var í borgarráði 26. október 1999 né í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024,  bannar slíka notkun á jarðhæð við Frakkastíg. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að umræddur skúr verði rifinn, ásamt nokkrum öðrum, til að styrkja verndun byggðamynsturs á þeim hluta reitsins. Á skúrnum hvíli einnig sú kvöð, sem samþykkt var um leið og veitt var byggingarleyfi fyrir skúrnum, að hann skyldi fjarlægður bæjarsjóði að kostnaðarlausu þegar krafist yrði.

Þar sem deiliskipulagið bannar ekki slíka landnotkun telur undirritaður að ekki sé rétt að leggjast gegn umsókninni af skipulagsástæðum enda réttlæti niðurrifskvöðin ein sér ekki að lagst verði gegn breytingu á notkun hans. Telur undirritaður að slík afgreiðsla væri andstæð meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Hafi umrædd kvöð gildi er hægt að krefjast niðurrifs skúrsins án tillits til þess hvaða notkun er leyfð. Vissulega er þó líklega erfiðara gagnvart eigendum húss að krefjast niðurrifs þar sem haldið er heimili en þar sem atvinnustarfsemi fer fram. Yrði fallist á umsóknina væri rétt að ítreka umrædda kvöð við afgreiðslu málsins þannig að núverandi eigendum og þeim sem koma til með að leiða rétt sinn frá þeim sé þessi kvöð ljós. Hér er ekki lagt mat á það hvort húsnæðið uppfyllir ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhúsnæði en það ber embætti byggingarfulltrúa að meta áður en til afgreiðslu málsins kemur.“

Hinn 29. október 2004 var málinu vísað af skipulagsfulltrúa til skipulags- og byggingarnefndar.

Hinn 16. febrúar 2005 var á fundi skipulagsráðs eftirfarandi fært til bókar:  „Synjað. Með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, að auki uppfyllir húsnæðið ekki ákvæði byggingarreglugerðar um þvottahús, anddyri og eldhús sbr. gr. 90, 92 og 93 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 m.s.b.“

Framangreindri synjun skipulagsráðs hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hin kærða synjun skipulagsráðs með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa hafi verið ólögmæt enda ekkert í deiliskipulagi svæðisins eða aðalskipulagi sem takmarki slíka nýtingu, þ.e. að breyta hagnýtingu eignarhlutans úr verslunarhúsnæði í íbúðarhúsnæði.  Beri því að veita byggingarleyfi að uppfylltum ákvæðum byggingarreglugerðar um þvottahús, anddyri og eldhús.  Líta verði til þess að fyrir liggi samþykki sameiganda fyrir þessari breyttu notkun.  Þá sé hvorki grundvöllur fyrir verslunarrekstri í húsnæðinu né vilji hjá borgaryfirvöldum til að kaupa húsnæðið og því sé kærandi í pattstöðu með eign sína.  Eins og fram komi í umsögn forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu, dags. 20. október 2004, þá réttlæti niðurrifskvöð ein og sér ekki að lagst verði gegn breytingum á rýminu.   

Þá byggi kærandi og kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu synjunar á sjónarmiðum þeim er koma fram í bréfi forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu, dags. 20. október 2004. 

Af hálfu kæranda sé einnig vísað til þess að í bókun skipulagsráðs frá 16. febrúar 2005, sem kærð sé í málinu, þar sem byggingarleyfisumsókninni sé hafnað á grundvelli umsagnar skipulagsfulltrúa, sé vísað til þess að húsnæðið uppfylli að auki ekki skilyrði byggingarreglugerðar um þvottahús, anddyri og eldhús.  Verði ekki annað ráðið en að um málamyndaathugasemd sé að ræða, enda sé það fyrst þá þegar málið hafi verið afgreitt, tæpu ári eftir að umsóknin hafi fyrst verið tekin fyrir, að gerðar hafi verið athugasemdir um þessi atriði.  Því til stuðnings sé á það bent að frá og með fundi sem haldinn hafi verið hinn 1. júní 2004 hafi málið verið afgreitt athugasemdalaust og einungis frestað þar sem umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið ókomin.  Greinilegt sé að þessi atriði hafi ekki haft úrslitaþýðingu um afgreiðslu málsins heldur umsögn skipulagsfulltrúa og hafi synjunin byggst á henni fyrst og fremst.  Ráða megi af bókuninni að byggingarleyfinu hefði verið synjað hvort sem umsóknin hefði uppfyllt skilyrði byggingarreglugerðar eða ekki.  Sé því mikilvægt fyrir kæranda að úrskurðarnefndin úrskurði hvort synjun skipulagsráðs á grundvelli umsagnar skipulagsfulltrúa hafi verið heimil eða ekki, enda sé það hlutverk byggingarfulltrúa að meta hvort húsnæðið uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar áður en til afgreiðslu málsins komi en ekki með eftir á gerðum frekari rökstuðningi eins og gert hafi verið.      

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er vísað til þess að skipulagsráði hafi verið fullkomlega heimilt að synja umræddri umsókn.  Fyrir liggi umsögn skipulagsfulltrúa frá 15. október 2004 þess efnis að ákvæði gildandi deiliskipulags mæli ekki með því að þessi ráðstöfun verði heimiluð.  Í umsögn skipulagsfulltrúa segi eftirfarandi:  „En ef hægt er að teygja svo á byggingarreglugerð að skúr sem býr við birtugjafa við gangstéttarbrún í liðlega mittishæð til norð-vesturs að umferðargötu, ásamt glugga til norð-austurs út í dimman bakgarð, þá er hægt að samþykkja að þessi húshluti henti lögformlegri skilgreiningu sem íbúð“.  Sé alveg ljóst af umsögninni að skipulagsfulltrúi leggist gegn þessari ráðstöfun skúrsins.

Við afgreiðslu máls þessa hafi einnig legið fyrir upphafleg umsögn skipulagsfulltrúa þess efnis að í deiliskipulagi fyrir reit þann er lóðin Frakkastígur 7 tilheyri sé gert ráð fyrir að skúrar á lóðinni verði fjarlægðir.  Í þeirra stað væri veitt heimild til viðbygginga við aðalhúsið.  Þetta væri gert með það að leiðarljósi að fækka skúrbyggingum á reitnum, en margir þeirra væru ekki vel byggðir og til lýta í umhverfinu.  Leyfi til að breyta skúr í íbúð væri því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og lagt til að erindinu yrði svarað neikvætt.  Þessi umsögn hafi þó aldrei verið send byggingarfulltrúa þar sem málinu hafi í millitíðinni verið vísað til umsagnar lögfræði og stjórnsýslu, sem hafi talið að ekki væru skipulagslegar forsendur fyrir því að synja erindinu, m.a. með tilliti til meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Varðandi tilvísun kæranda til umsagnar forstöðumanns lögfræði og stjórnsýslu, dags. 20. október 2004, sé það um hana að segja að hann telji ekki rétt að leggjast gegn umsókninni af skipulagsástæðum enda hafi niðurrifskvöðin, ein og sér, ekki réttlætt að lagst yrði gegn henni.  Í tölvupósti frá 5. júlí, sem skoðist sem hluti umsagnar, telji forstöðumaðurinn að synjun gæti mögulega haft í för með sér bótaskyldu.  Ekki verði nánar fjallað um það á þessum vettvangi.  Ákvörðun um afgreiðslu málsins hafi endanlega legið hjá skipulagsráði og burtséð frá vangaveltum um mögulega bótaskyldu hafi það verið ákvörðun ráðsins að synja umsókninni með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa um að breytingin samræmdist ekki deiliskipulagi.

Umræddur skúr hafi verið samþykktur árið 1961 með þeirri þinglýstu kvöð að hann skyldi rifinn ef þess yrði krafist, borgarsjóði að kostnaðarlausu.  Heimilt sé þó að reisa viðbyggingar við íbúðarhúsin í staðinn samkvæmt skipulaginu.  Fjölmargar byggingar séu háðar slíkum niðurrifskvöðum í borginni, en sjaldan reyni á þær.  Ljóst megi þó vera að þrátt fyrir að skipulagið á reitnum geri ráð fyrir íbúðabyggð á svæðinu sé tilgangur skipulagsyfirvalda með niðurrifskvöðum sá að skúrarnir hverfi með tímanum en breytist ekki í íbúðahúsnæði í dimmum bakgörðum.  Slíkir skúrar sem víða megi finna í bakgörðum lóða séu ekki taldir heppilegir íverustaðir fólks, auk þess sem þeir uppfylli sjaldnast ákvæði byggingarreglugerðar um íbúðarhús.

Umsókninni hafi því verið synjað af skipulagslegum ástæðum en einnig af þeirri ástæðu að skúrinn hafi ekki uppfyllt ákvæði 90., 92. og 93. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Samkvæmt reglugerðinni sé ekki heimilt að hafa baðherbergi og þvottahús í sama rými auk þess sem baðherbergi þurfi a.m.k. að vera 4,8 m² og þvottahús 3,0 m², en baðherbergi og þvottahús séu sýnd saman 4,3 m².  Allir gluggar snúi í norðurátt (sic) út í bakgarð þar sem lítillar birtu njóti og því sé ákvæðum byggingarreglugerðar um birtuskilyrði ekki fullnægt.  Engir gluggar séu á eldhúsi, eins og áskilið sé samkvæmt  93.2 gr. reglugerðarinnar.  Ekki verði þó annað séð við nánari athugun á uppdráttum en að anddyri fullnægi ákvæðum byggingarreglugerðar.  Athugasemdir byggingarfulltrúa hafi þó verið tæknilegs eðlis og hefði hugsanlega mátt bæta úr því sem þær hafi lotið að, en eins og áður hafi fram komið hafi verið óheimilt að samþykkja íbúð í skúrnum af skipulagslegum ástæðum.

Sú röksemd kæranda að um málamyndaathugasemdir sé að ræða sé því með öllu órökstudd.  Mál séu sjaldnast fullyfirfarin af starfsmönnum skipulags- og byggingarsviðs þegar þau berist afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og því algengt að athugasemdir berist síðar séu tilefni til.  Umsóknarblað kæranda beri auk þess með sér skráðar athugasemdir m.a. um þvottahús.  Byggingafulltrúi vísi til þeirra strax við fyrstu afgreiðslu umsóknarinnar hinn 23. mars 2004.  Sé ekki venjan að reifa athugasemdir í bókun, aðeins látið nægja að vísa til þeirra.  Fullyrðingar kæranda um að málið hafi, frá og með 1. júní 2004, ætíð verið afgreitt athugasemdalaust eigi því ekki við rök að styðjast.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2005 um leyfi til að breyta verslunarrými á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg í íbúð.  Byggir synjunin á því að deiliskipulag svæðisins heimili ekki þess háttar breytingu ásamt því að kröfur byggingarreglugerðar nr. 441/1998 séu ekki uppfylltar.   

Deiliskipulag svæðis þess er hér um ræðir afmarkast af Laugavegi, Frakkastíg, Hverfisgötu og Vitastíg og tók það gildi á árinu 1999.  Markmið þess eru m.a. að hlúa að fjölbreytilegri byggð á svæðinu, að miðbæjarstarfsemi verði áfram ríkjandi landnotkun og að íbúabyggð geti dafnað á efri hæðum og á baklóðum.  Þá er það og markmið deiliskipulagsins að bæta götumyndir, en halda um leið í sögulegt gildi byggðarinnar, ásamt því að viðhalda og tryggja aðstæður fyrir smávöruverslun og umhverfi hennar.  Stefnt sé að því að á götuhliðum jarðhæða verði að stærstum hluta smásöluverslun og hvatt er til að nota efri hæðir verslunarhúsnæðis sem íbúðarhúsnæði.  Í kafla deiliskipulagsins um almenna skilmála þess kemur fram að heimilt sé að vera með á reitunum þá starfsemi sem samræmist landnotkun  aðalskipulags Reykjavíkur.  Ekki sé óheimilt að breyta þeim húsum er falli undir vernd byggðamynsturs en breytingar verði þó að vera í samræmi við skilmála deiliskipulagsins er gildi um hvert hús og taka mið af yfirbragði byggðarinnar í heild.  Settir eru skilmálar fyrir hverja lóð á svæðinu og segir eftirfarandi varðandi lóðina að Frakkastíg 7.  „Verndun byggðamynsturs.  Útbygg. innan byggingarreits.  Niðurrif skúra á baklóð.“  Á uppdrættinum er sýndur stækkaður byggingarreitur aðalhúss lóðarinnar og að fyrirhugað sé niðurrif útbygginga, þ.á.m. á rými því er um ræðir í máli þessu.  Með þessum breytingum lækkar nýtingarhlutfall lóðarinnar úr 1,09 í 0,7.   

Í tilvísun deiliskipulagsins til ákvæða aðalskipulags Reykavíkur um landnotkun felst að hún ræðst af þeim kafla þróunaráætlunar miðborgar um landnotkun sem tekinn hefur verið upp í aðalskipulagið.  Verður ekki annað af honum ráðið en að ekki sé gert ráð fyrir íbúðum á götuhlið jarðhæða á verslunarsvæðum.  Verður að telja að húsnæði það sem um ræðir í málinu falli þar undir, enda um að ræða verslunarrými við götu þótt það nái nokkuð langt inn í lóð þá er það stendur á.  Jafnframt er húsrýmið þannig auðkennt á skipulagsuppdrætti að það skuli rifið og er sú skipulagsákvörðun ekki tengd meintri kvöð sem borgaryfirvöld telja hvíla á umræddu húsnæði samkvæmt sérstakri yfirlýsingu þar um.

Ekki er að framangreindum atriðum vikið í rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun.  Bar þó nauðsyn til að tekin væri afstaða til þess hvort umsókn kæranda samrýmdist tilvitnuðum ákvæðum aðalskipulags um landnotkun og hvaða þýðingu ákvörðun deiliskipulagsins um niðurrif kynni að hafa þegar afstaða var tekin til umsóknar kæranda.  Þessa var ekki gætt og þykir undirbúningi og rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun af þeim sökum svo verulega áfátt að leiða eigi til ógildingar hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 16. febrúar 2005, um að synja umsókn kæranda um leyfi til að breyta verslunarrými, matshluta nr. 03, í íbúð á lóðinni nr. 7 við Frakkastíg, er felld úr gildi.

 

__________________________         
Hjalti Steinþórsson

 

_________________________       ___________________________  
                             Ásgeir Magnússon                        Þorsteinn Þorsteinsson                               

30/2006 Langagerði

Með

Ár 2007, fimmtudaginn 18. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 30/2006, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar um að veita leyfi til að byggja einlyft steinsteypt fjölbýlishús með fimm íbúðum fyrir sambýli ásamt sameiginlegu rými og geymsluskúr á lóðinni nr. 122 við Langagerði í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. apríl 2006, er barst úrskurðarnefndinni samdægurs, kæra G, Langagerði 124 og Ö, Langagerði 120, Reykjavík, þá ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 15. mars 2006 um að veita leyfi til að byggja einlyft steinsteypt fjölbýlishús með fimm íbúðum fyrir sambýli ásamt sameiginlegu rými og geymsluskúr á lóðinni nr. 122 við Langagerði í Reykjavík.  Á fundi borgarráðs hinn 16. mars 2006 var afgreiðsla skipulagsráðs lögð fram.

Skilja verður kröfugerð kærenda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulagsfulltrúa í nóvember 2004 var ákveðið að grenndarkynna hagsmunaaðilum tillögu að deiliskipulagi lóðarinnar nr. 122 við Langagerði.  Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 19. janúar 2005 þar sem kynntar voru athugasemdir sem borist höfðu, þ.á.m. frá kærendum, og svör skipulagsfulltrúa við þeim.  Var deiliskipulagstillagan samþykkt.  Síðar komu í ljós gallar á málatilbúnaði borgaryfirvalda sem urðu til þess að ákveðið var að fella úr gildi fyrrgreinda samþykkt.  Í kjölfarið var hagsmunaaðilum þeim er gerðu athugasemdir við fyrrgreinda deiliskipulagstillögu tilkynnt með bréfi, dags. 29. júní 2005, að deiliskipulagið hefði verið fellt niður vegna formgalla.  Í bréfinu var jafnframt tilkynnt að unnin yrði byggingarleyfisumsókn sem síðar yrði grenndarkynnt.

Hinn 25. janúar 2006 var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs umsókn Styrktarfélags vangefinna um leyfi til þess að byggja einlyft steinsteypt fjölbýlishús með fimm íbúðum fyrir sambýli ásamt sameiginlegu rými og geymsluskúr á lóðinni nr. 122 við Langagerði.  Skipulagsráð færði af því tilefni eftirfarandi til bókar:  „Frestað.  Vísað til athugasemda á umsóknarblaði.  Samþykkt að grenndarkynna framlagða umsókn fyrir hagsmunaaðilum að Langagerði 106, 108, 110, 116, 118, 120, 124, 126 og 128.“  Að lokinni grenndarkynningu sem stóð frá 6. febrúar til 6. mars 2006 var umsóknin samþykkt á fundi skipulagsráðs þann 15. mars 2006, en engar athugasemdir höfðu borist.

Hafa kærendur kært þá samþykkt svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er bent á að þeir hafi ekki sett fram athugasemd við borgaryfirvöld vegna hinnar grenndarkynntu byggingarleyfisumsóknar þar sem þeim hafi verið leiðbeint af starfsmönnum skipulagssviðs um að slíkt væri óþarft þar sem sjónarmið þeirra til framkvæmdarinnar hefðu legið fyrir á fyrri stigum málsins.  Kærendum hafi eigi að síður verið gerð grein fyrir afgreiðslu skipulagsráðs á hinni kærðu ákvörðun og leiðbeint um kæru til æðra stjórnvalds.

Á það sé bent að á fyrirhuguðu sambýli muni sex einstaklingar búa ásamt því að þar muni einn til tveir starfsmenn verða við störf.  Ljóst sé að fjölgun íbúa á svæðinu muni auka mjög umferð um botnlangann, þó svo að heimilismenn verði ekki sjálfir færir um að aka bifreiðum.  Meðan starfræktur hafi verið leikvöllur á lóðinni hafi umferð um götuna verið mjög mikil og þar hafi skapast algjört ófremdar- og hættuástand.  Enginn snúningshaus sé í enda botnlangans og hafi það gerst daglega, þegar börnum hafi verið ekið að gæsluvellinum, að bifreiðum hafi verið bakkað niður götuna.  Ekki hafi verið hægt að snúa bifreiðum við gæsluvöllinn þar sem öll bílastæði við hann hafi verið notuð af starfsmönnum vallarins.  Þetta ástand hafi skapað mikla hættu fyrir íbúa hverfisins, sérstaklega börnin.

Gata sú er lóðin að Langagerði 122 standi við sé mun þrengri en aðrar götur í hverfinu og þar muni 2,5 metrum.  Þetta hafi það í för með sér að aðeins sé unnt að leggja bifreiðum öðrum megin götunnar í stað beggja vegna eins og víðast hvar annars staðar sé í hverfinu.  Af þessari ástæðu hafi endi botnlangans verið nýttur af íbúum götunnar.  Það segi sig sjálft að aukin bílaumferð um götuna muni skapa algjört vandræðaástand.

Í huga kærenda skipti ekki máli hvort á lóðinni verði starfrækt stofnun eða heimili.  Umferðin og ónæði muni allt að einu aukast í þessu friðsæla hverfi sem hafi í för með sér mikla röskun og í ljósi reynslunnar geti kærendur ekki sætt við þess háttar ástand.

Það sé staðreynd að á meðan starfræktur hafi verið gæsluvöllur hafi verið erfiðara að selja húseignir í næsta nágrenni hans.  Hvernig verði þá staðan þegar komið verði á lóðina sambýli?  Minni eftirspurn eftir húseignum við götuna þýði einfaldlega verðfall þeirra sem kærendur muni ekki sætta sig við.

Sú hugmynd hafi komið upp, til að afstýra aukinni umferð um botngötuna, að gera aðkeyrslu að sambýlinu frá Tunguvegi.  Taka hefði mátt hluta af opnu svæði austan lóðarinnar undir aðkomu og bílastæði fyrir sambýlið þar sem merkt opið leiksvæði sé hvort eð er mjög lítið notað sem slíkt.

Bent sé á að aukin umferð sé það sem kærendur hafi áhyggjur af, ekki sambýlið sjálf.  Eigi að síður sé það skoðun þeirra að sambýli eins og það er hér um ræði, eigi ekki að vera sett í rótgróið hverfi, heldur í ný hverfi þar sem skipulag geri ráð fyrir því.

Andmæli byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum og sjónarmiðum kærenda mótmælt.  Vísar hann til þeirra raka sem borgaryfirvöld tefla fram í málinu og gerir kröfu til þess að hin kærða ákvörðun verði staðfest.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að meðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga þrátt fyrir að fella hafi þurft niður fyrri samþykkt um deiliskipulag lóðarinnar vegna formgalla.  Sérstaklega sé tekið fram að hagsmunaaðilar hafi verið vel upplýstir og fengið send bréf þar sem þeim hafi verið tilkynnt um hvaða skref væru í vændum.

Samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi sé gert ráð fyrir því að á lóðinni að Langagerði 122 megi byggja sambýli fyrir fólk með þroskahömlun.  Eins og fram komi í gögnum málsins sé gert ráð fyrir að þar verði byggt einlyft steinsteypt fjölbýlishús með fimm íbúðum ásamt sameiginlegu rými.  Íbúar verði fimm til sex auk eins til tveggja starfsmanna sem skipti á milli sín vöktum tvisvar til þrisvar á sólarhring.  Afar sjaldgæft sé að fólk með þroskahömlun sé fært um að aka bíl og sé því ekki ástæða til að ætla að aukning umferðar um botnlangagötuna stafi af hinum nýju íbúum sambýlisins.

Á það beri aftur á móti að líta að langlíklegast sé að íbúar sambýlisins muni njóta þjónustu frá ferðaþjónustu fatlaðra til að komast leiðar sinna, bæði til vinnu og til að sinna öðrum erindum.  Jafnframt sé gert ráð fyrir því að starfsmenn komi akandi til vinnu sinnar, þ.e. að einn til tveir starfsmenn muni koma til vinnu á morgnana og fara þaðan seinnipart dags þegar vaktaskipti séu og þá komi aðrir starfsmenn í þeirra stað.

Með vísan til þessa megi halda því fram með nokkurri vissu að bílaumferð um botnlangann verði mun minni eftir hinar samþykktu breytingar heldur en verið hafi þegar á þessari sömu lóð hafi verið starfræktur gæsluvöllur, þar sem fjölda barna hafi verið ekið til og frá vellinum um hinn þrönga botnlanga.  Með vísan til þessa sé því vísað á bug að verið sé að auka umferð í götunni miðað við það sem verið hafi þegar gæsluvöllur hafi verið starfræktur á umræddri lóð.  Jafnframt megi vísa til þess að umferð vegna sambýlisins verði sennilega minni heldur en frá öðrum íbúðarhúsum við götuna, þar sem íbúar þess muni að öllum líkindum samnýta ferðir í frekari mæli en aðrir íbúar sem haldi jafnvel marga bíla við hvert hús.

Ekki séu bornar brigður á þær fullyrðingar kærenda að snúningshaus við enda botnlangans í Langagerði 116-128 sé minni en í öðrum botnlöngum í Langagerði.  Við hönnun gatnanna á sínum tíma hafi það verið talin eðlileg ráðstöfun í ljósi þess að við enda þessa botnlanga séu mun færri hús en í öðrum botnlöngum í Langagerði og þar af leiðandi ekki eins mikil þörf á miklu rými til snúninga.  Ekki sé fallist á að breyta aðkomu að lóðinni og hafa hana frá Tunguvegi, aðallega með vísan til þess að slík aðkoma myndi skerða möguleika íbúa hverfisins til útivistar á opnu svæði sem þar sé, auk þess sem aðkoma bíla frá ferðaþjónustu fatlaðra muni verða erfiðari eftir þeirri leið.  Einnig sé talið að slík aðkoma hafi mun meiri truflun og skerðingu umhverfisgæða í för með sér en sú aðkoma sem nú sé að lóðinni.

Ítrekað sé að um sé að ræða heimili fyrir fólk með þroskahömlun.  Slíkt heimili sé ekki opinber stofnun.  Mikilvægt sé að átta sig á því að um sé að ræða heimili, eins og hvert annað í hverfinu, nema að því leyti að heimilisfólk þurfi aðstoð eins til tveggja starfsmanna til þess að geta búið í eigin íbúð vegna fötlunar sinnar.  Sambærileg heimili séu í íbúðahverfum víða í borginni og í öllum tilfellum hafi slíkt fyrirkomulag gefið góða raun og ríkt mikil og góð sátt við nágranna.

Hvað varði fullyrðingar kærenda um verðfall á eignum þeirra vegna nábýlis við heimili fyrir þroskahamlaða sé bent á að reynslan hafi sýnt að sú sé ekki raunin og sé þessi málsástæða bæði ósönnuð og órökstudd.

Í málum sem þessum geti eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar á skipulagi sem haft geti í för með sér skerðingu á útsýni, aukið skuggavarp, umferðaraukningu eða aðrar breytingar.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum.  Talið sé að þær breytingar sem nágrannar sambýlisins að Langagerði 122 þurfi að þola séu að engu leyti með þeim hætti að þær valdi óhóflegri skerðingu á hagsmunum þeirra þannig að leitt geti til ógildingar byggingarleyfisins.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar skipulagsráðs um að heimila byggingu einlyfts fjölbýlishúss sem sambýlis með fimm íbúðum ásamt sameiginlegu rými og geymsluskúr á lóðinni nr. 122 við Langagerði í Reykjavík.  Áður hafði lóðin verið nýtt fyrir gæsluvöll.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er lóðin að Langagerði 122 felld undir landnotkunarflokkinn íbúðarsvæði.  Fyrirhuguð bygging er þar mun rísa mun verða nýtt sem íbúðarhús og samræmist hið kærða byggingarleyfi því landnotkun aðalskipulags.

Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag og kusu borgaryfirvöld að neyta undanþáguheimildar 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina, samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Verður að telja að það hafi verið heimilt eins og þarna stóð á, enda verður ekki talið að byggðarmynstur eða yfirbragð byggðarinnar breytist til mikilla muna við tilkomu hinnar umdeildu byggingar.  Verður og til þess að líta að íbúðarlóðir í næsta nágrenni við Langagerði 122 eru fullbyggðar og því ekki að vænta þar mikilla breytinga.  Má fallast á með borgaryfirvöldum að af þessum sökum hafi ekki verið skylt að ráðast í gerð deiliskipulags vegna hinnar umdeildu byggingar.

Kærendur halda því fram að með hinu kærða leyfi sé með ólögmætum hætti gengið gegn grenndarhagsmunum þeirra, m.a. vegna aukinnar umferðar um götuna sem sé þrengri en almennt gerist í hverfinu svo og vegna skorts á bílastæðum ásamt því að ónæði aukist í annars rólegu umhverfi.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Gætt hefur verið gildandi reglna um lágmarksfjölda bílastæða og verður ekki séð að hið kærða byggingarleyfi hafi í för með sér slíka aukningu umferðar um götuna eða önnur slík grenndaráhrif að leiða eigi til þess að fallist verði á kröfur kærenda um ógildingu leyfisins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 15. mars 2006 um að veita leyfi til að byggja einlyft steinsteypt fjölbýlishús með fimm íbúðum fyrir sambýli ásamt sameiginlegu rými og geymsluskúr á lóðinni nr. 122 við Langagerði í Reykjavík.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

___________________________                 ____________________________
Ásgeir Magnússon                                             Þorsteinn Þorsteinsson