Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

18/2007 Bergstaðastræti

Ár 2007, föstudaginn 30. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

 

Fyrir var tekið mál nr. 18/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. febrúar 2007 um að veita leyfi fyrir endurbyggingu hússins að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16, Reykjavík. 

 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

 

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 7. mars 2007, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir Sigurbjörn Þorbergsson hdl., f.h. ÞG verktaka ehf., eiganda fasteignanna að Spítalastíg 20 og baklóðar að Spítalastíg 6, og S, eiganda Spítalastígs 6 og hluta fasteignarinnar að Spítalastíg 4, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. febrúar 2007 að veita leyfi fyrir endurbyggingu hússins að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16, Reykjavík. 

 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.  Þykir málið nú nægjanlega upplýst til þess að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfunnar. 

 

Málsatvik og rök:  Með kæru, dags. 7. mars 2006, skutu kærendur deiliskipulagsákvörðun borgarráðs frá 24. nóvember 2005, er tekur til umrædds svæðis, til úrskurðarnefndarinnar. 

 

Hinn 26. september 2006 var tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um leyfi til að endurbyggja húsið að Hverfisgötu 44 á lóðinni að Bergstaðastræti 16 og var hún samþykkt.  Skutu kærendur máls þessa þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem vísaði kærunni frá með úrskurði uppkveðnum hinn 29. desember 2006 í kjölfar þess að byggingaryfirvöld afturkölluðu umdeilt leyfi.  Var ástæða afturköllunarinnar sú að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Bergstaðastræti 16 samkvæmt veittu byggingarleyfi yrði hærra en heimilað var í deiliskipulagi reitsins.  Jafnframt hafa kærendur skotið ákvörðun skipulagsráðs frá 17. janúar 2007 um breytt nýtingarhlutfall lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18 til úrskurðarnefndarinnar, en auglýsing um gildistöku þeirrar ákvörðunar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. febrúar 2007. 

 

Eftir að ákvörðun um breytt nýtingarhlutfall lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18 hafði tekið gildi samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir flutningshúsi á lóðinni að Bergstaðastræti 16 að nýju og hafa kærendur nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan er rakið. 

 

Benda kærendur á að hið kærða byggingarleyfi eigi stoð í fyrrgreindu skipulagi svo sem því hafi verið breytt.  Þeir hafi kært téðar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar og telji þær ólögmætar.  Á meðan ekki liggi fyrir niðurstaða í kærumálinu vegna skipulagsins leiki vafi á um gildi þess og sé því krafist ógildingar hins kærða byggingarleyfis. 

 

Reykjavíkurborg gerir þá kröfu að hið kærða byggingarleyfi standi óraskað enda sé ekkert komið fram um að leyfið sé haldið annmörkum. 

 

Byggingarleyfishafi bendir á að kærendur eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta vegna veitingar umdeilds byggingarleyfis og eigi krafa kærenda enga lagastoð.  Þá sé ekkert fram komið um að skipulag það sem leyfið styðjist við sé haldið form- eða efnisannmörkum. 

 

Niðurstaða:  Kærendur máls þessa eiga lóðir í næsta nágrenni við lóðina Bergstaðastræti 16 og geta heimildir í skipulagi eða leyfi fyrir húsbyggingu á þeirri lóð snert hagsmuni þeirra og haft grenndaráhrif.  Þeir hafa kært skipulagsákvarðanir þær sem hið kærða byggingarleyfi á stoð í og voru taldir eiga hagsmuna að gæta við grenndarkynningu vegna breytts nýtingarhlutfalls lóðanna að Bergstaðastræti 16 og 18.  Verður kærumáli þessu því ekki vísað frá sökum aðildarskorts.

 

Úrskurðarnefndin hefur fyrr í dag kveðið upp úrskurð þar sem áðurnefndar skipulagsákvarðanir voru felldar úr gildi og á því umdeilt byggingarleyfi ekki lengur viðhlítandi stoð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum.  Verður það af þeim sökum fellt úr gildi með vísan til 2. mgr. 43. gr. nefndra laga.  

 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 27. febrúar 2007 um að veita leyfi fyrir endurbyggingu hússins að Hverfisgötu 44 á lóðinni Bergstaðastræti 16, Reykjavík er felld úr gildi.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________   ____________________________
Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson