Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

44/2007 Hraunteigur

Ár 2007, föstudaginn 15. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson, forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2007, kæra eigenda fasteignarinnar að Sundlaugavegi 16, Reykjavík á þeirri ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2007 að veita byggingarleyfi fyrir tvöföldum steinsteyptum bílskúr með torfþaki í norðvesturhorni lóðar nr. 13 við Hraunteig í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. maí 2007, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kærir S, f.h. eigenda að Sundlaugavegi 16, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2007 að veita byggingarleyfi fyrir steinsteyptum tvöföldum bílskúr með torfi á þaki í norðvesturhorni lóðar nr. 13 við Hraunteig í Reykjavík.  Borgarráð staðfesti hina kærðu ákvörðun á fundi sínum hinn 16. maí 2007.
 

Kærendur gera þá kröfu að úrskurðað verði til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda.  Jafnframt verður að skilja kæruna svo að farið sé fram á að umrætt byggingarleyfi verði fellt úr gildi.

Úrskurðarnefndinni hafa borist andmæli byggingarleyfishafa og greinargerð Reykjavíkurborgar og þykir málið nú nægilega upplýst til að taka það til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Málavextir:  Hinn 13. mars 2001 var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa umsókn um byggingarleyfi fyrir steinsteyptum tvöföldum bílskúr með torfi á þaki í norðvesturhorni lóðar nr. 13 við Hraunteig.  Var afgreiðslu málsins frestað og það næst tekið fyrir á fundi hinn 3. apríl 2001 og því vísað til Borgarskipulags Reykjavíkur til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Ekki kom til þess að málið yrði grenndarkynnt, þar sem unnið var að deiliskipulagi fyrir syðri hluta Teigahverfis á sama tíma, en innan þess svæðis eru lóðir kærenda og lóð nr. 13 við Hraunteig.  Drög að deiliskipulagstillögu fyrir svæðið voru í kynningu frá 10. júní 2001 til 10. júlí s.á. og var tillaga að deiliskipulagi auglýst frá 14. nóvember 2001 til 31. desember 2001.  Engar athugasemdir bárust frá kærendum máls þessa á kynningartíma deiliskipulagsins, en fyrir gerð þess hafði Borgarskipulagi Reykjavíkur borist bréf eins eigenda fasteignarinnar að Sundlaugavegi 16, dags. 17. apríl 2001, þar sem byggingu bílskúrs á lóð nr. 13 við Hraunteig var mótmælt.

Hinn 2. júlí 2002 var deiliskipulag Teigahverfis samþykkt í borgarráði Reykjavíkur og auglýsing um gildistöku þess birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 16. ágúst 2002.  Fól tillagan m.a. í sér að gert væri ráð fyrir byggingarreit fyrir bílskúr í norðvesturhorni lóðarinnar nr. 13 við Hraunteig á mörkum lóðarinnar nr. 16 við Sundlaugaveg.

Á fundi skipulags- og umferðanefndar hinn 11. febrúar 2002 var lagt fram fyrrgreint bréf eins eigenda að Sundlaugavegi 16 frá 17. apríl 2001 og eftirfarandi bókað:  „Svarað með bréfi lögfræði og stjórnsýslu 11. febrúar 2002“. 

Hinn 10. september 2002 var fyrrgreind umsókn um byggingarleyfi tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og hún samþykkt.  Borgarráð samþykkti afgreiðsluna á fundi sínum hinn 17. september 2002.  Með bréfi, dags. 10. mars 2003, til skrifstofu skipulags- og byggingarsviðs eru andmæli við byggingu bílskúrs að Hraunteig 13 ítrekuð. 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 10. maí 2007 var tekin fyrir umsókn um endurnýjun á áður veittu byggingarleyfi og var afgreiðslu málsins frestað þar sem samþykki lóðarhafa aðlægra lóða vantaði.  Hinn 15. maí 2007 var málið tekið fyrir að nýju og umsókn samþykkt og talið að hún samræmdist ákvæðum laga nr. 73/1997.

Hafa kærendur kært veitingu byggingarleyfisins eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Kærendur benda á að umdeild bygging liggi að suðurmörkum lóðar þeirra og muni staðsetning verða u.þ.b. að miðju lóðarinnar, en lóðir við Hraunteig og Sundlaugaveg standist ekki á.  Telja kærendur að um fjögurra metra hár bílskúr á lóðamörkum, þar sem hæðarmunur sé um einn metri, muni valda verulegri skerðingu á útsýni og birtu í suðurgarði þeirra.  Réttur byggingarleyfishafa til að byggja bílskúr sé virtur en það eigi ekki að ganga á rétt kærenda til að njóta gróðurs og garðs síns í sól og birtu.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld gera þá kröfu að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að hin kærða ákvörðun standi óhögguð.  Um sé að ræða endurnýjun á áður samþykktu byggingarleyfi sem sé óbreytt og aldrei hafi verið kært á sínum tíma.  Kærufrestir séu því löngu liðnir.  Engir hagsmunir séu nú fyrir kærendur að fá byggingarleyfið fellt úr gildi sem ekki hafi áður verið fyrir hendi. 

Verði ekki fallist á frávísun af þessum sökum sé á því byggt að staðfesta beri samþykkt byggingarfulltrúa þar sem umrædd byggingarleyfisumsókn sé í samræmi við samþykkt deiliskipulag Teigahverfis.  Tillagan hafi verið auglýst og hvorki hafi borist athugasemdir eða kæra vegna skipulagsins frá kærendum.

Reykjavíkurborg fellst á að hin nýja bygging muni hafa einhver áhrif á lóð kærenda en ekki meiri en búast megi við í þéttbýlli miðborg (sic) og sem íbúar geti gert ráð fyrir.  Hafi öll málsmeðferð verið í samræmi við skipulags- og byggingarlög.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Gerð er sú krafa að kæru verði vísað á bug.  Vísað er til þess að samþykkt deiliskipulag af svæðinu geri ráð fyrir bílskúrum á umræddum stað og hafi það ráðið nokkru um kaup byggingarleyfishafa á eigninni að Hraunteigi 13.  Gróflega sé því brotið á rétti hans verði ákvörðun borgarráðs í máli þessu virt að vettugi.

Að lokum er bent á að ranglega sé farið með staðsetningu bílskúranna í kæru til úrskurðarnefndarinnar.  Gert sé ráð fyrir því að þeir liggi að lóðarmörkum en ekki að miðju lóðar kærenda.

Niðurstaða:  Í máli þessu er þess krafist að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík verði felld úr gildi.  Kærendur styðja kröfu sína fyrst og fremst þeim rökum að umdeild bygging raski grenndarhagsmunum þeirra.  Hefur Reykjavíkurborg sett fram kröfu um frávísun málsins þar sem kæra hafi borist að liðnum kærufresti en ella er þess krafist að ákvörðun byggingarfulltrúa verði staðfest.

Byggingarleyfi það er samþykkt var á fundi borgarráðs hinn 17. september 2002 er fallið úr gildi skv. ákvæðum 1. mgr. 45. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem framkvæmdir við heimilaða byggingu hófust ekki innan 12 mánaða frá útgáfu þess.  Ákvörðun sú er tekin var á fundi byggingarfulltrúa hinn 15. maí sl., og mál þetta varðar, var ný stjórnvaldsákvörðun og var því kærufrestur ekki liðinn skv. 5. mgr. 8. gr. tilv. laga er kæra barst úrskurðarnefndinni.  Verður málinu af þeim sökum ekki vísað frá nefndinni.

Í gildi er deiliskipulag fyrir Teigahverfi í Reykjavík sem tekur m.a. til lóðar byggingarleyfishafa og kærenda og er það bindandi fyrir stjórnvöld og borgara, sbr. 2. mgr. greinar 6.4 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Samkvæmt deiliskipulagsskilmálum fyrir svæði 2 er gert ráð fyrir byggingarreitum fyrir bílskúra þar sem aðstæður leyfa og er almennt miðað við að hámarksstærð fyrir tvöfaldan bílskúr sé 7,5×7,5m.  Um hæðir bílskúra er vísað til greinar 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.  Heimilt er skv. skilmálum að víkja um 10% frá byggingarreitum bílskúra og stærð þeirra, ef þörf þykir, með samþykki meðeigenda og lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Á skipulagsuppdrættinum er markaður byggingarreitur fyrir bílskúr í norðvesturhorni lóðarinnar nr. 13 að Hraunteig og liggur hann að suðurmörkum lóðar nr. 16 við Sundlaugaveg.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður ráðið að umdeilt byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag á svæðinu sem bindandi er fyrir borgarana eins og fyrr greinir.  Verða íbúar skipulagssvæðis að sætta sig við framkvæmdir sem stoð eiga í skipulagi sem ekki hefur verið hnekkt, en geta eftir atvikum átt bótarétt skv. 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 valdi framkvæmd skipulagsins þeim tjóni.

Með hliðsjón af framangreindu og þar sem ekki liggja fyrir aðrir annmarkar er leitt gætu til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar er kröfu kærenda í máli þessu hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. maí 2007 um veitingu byggingarleyfis fyrir byggingu bílskúrs á lóðinni nr. 13 við Hraunteig í Reykjavík.

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________     _______________________________
Ásgeir Magnússon                              Þorsteinn Þorsteinsson