Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

67/2007 Frostaþing

Með

Ár 2009, föstudaginn 12. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 67/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 12 við Frostaþing í Kópavogi og til vara á afturköllun byggingarfulltrúans, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 12. júlí 2007, er barst nefndinni samdægurs, kærir Sigurbjörn Þorbergsson hdl., f.h. G og G, lóðarhafa Frostaþings 10 í Kópavogi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007 að veita leyfi til að reisa einbýlishús á lóðinni nr. 12 við Frostaþing.  Ákvörðunin var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 13. febrúar 2007.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.  Til vara er þess krafist að afturköllun byggingarfulltrúans í Kópavogi, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi verði ógilt.  Jafnframt gerðu kærendur þá kröfu að kveðinn yrði upp úrskurður um stöðvun framkvæmda en þar sem þeim framkvæmdum sem einkum er um deilt í málinu var að mestu lokið er kæra barst nefndinni þótti ekki tilefni til að taka afstöðu til þeirrar kröfu.

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar Kópavogs hinn 16. maí 2006 var tekið fyrir erindi lóðarhafa að Frostaþingi 12 um leyfi til að byggja hús út fyrir byggingarreit til norðurs, austurs og suðurs, um 1,0-1,7 m, aðkomuhæð hússins yrði hækkuð um 0,18 m og að heimilt yrði að hækka húsið um 9 cm, þ.e. húsið færi 9 cm upp fyrir mestu leyfilegu hæð samkvæmt skipulagsskilmálum.  Var ákveðið að senda málið í kynningu til lóðarhafa Frostaþings 10, 11, 13 og 15, Fróðaþings 24 og Dalaþings 15.  Málið var kynnt sem útfærsla deiliskipulags og var á skýringarmynd m.a. sýndur stoðveggur er lægi þvert á lóðarmörk.  Engar athugasemdir bárust við tillöguna og á fundi skipulagsnefndar hinn 4. júlí 2006 var hún samþykkt sem og á fundi bæjarráðs hinn 13. júlí s.á.  Mun auglýsing um gildistöku breytts deiliskipulags ekki hafa verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.

Á fundi byggingarfulltrúans í Kópavogi hinn 25. janúar 2007 var veitt leyfi til að byggja einbýlishús á lóðinni nr. 12 við Frostaþing og staðfesti bæjarstjórn þá ákvörðun á fundi sínum hinn 13. febrúar s.á.

Með umsókn, dags. 18. maí 2007, sótti lóðarhafi Frostaþings 12 um leyfi til að reisa veggi á norður- og austurmörkum lóðar sinnar auk breytinga á útitröppum og var umsóknin samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 31. maí 2007.  Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 28. júní s.á., var fyrrgreindum lóðarhafa tilkynnt að við afgreiðslu málsins hefði láðst að leggja fram samþykki lóðarhafa Frostaþings 10 og í ljósi þessara mistaka væri samþykkt leyfisins frá 31. maí 2007 felld úr gildi.  Nokkru síðar, eða með bréfi, dags. 9. júlí 2007, tilkynnti byggingarfulltrúi lóðarhafa Frostaþings 12 að komið hefði í ljós að framangreind afgreiðsla hefði verið á misskilningi byggð og væri hún af þeim sökum afturkölluð með vísan til 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Jafnframt sagði svo í bréfinu:  „Vakin er athygli yðar á því hér með að lóðarhafi að Frostaþingi 10 telur að á rétti sínum hafi verið hallað við samþykkt byggingarleyfis fyrir einbýlishúsi að Frostaþingi 12.  Af hans hálfu er því haldið fram að ekki hafi komið fram við grenndarkynningu að stoðveggur yrði á lóðarmörkum, en slíkir veggir eru háðir samþykki annarra lóðarhafa.  Í umsókn um byggingarleyfi kom ekki fram að sótt væri um stoðvegg á lóðarmörkum, en slíkir veggir koma ekki fram á deiliskipulagi.“

Hafa kærendur kært áðurgreindar ákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Kærendur byggja á því að hið kærða byggingarleyfi samræmist ekki ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem umræddur veggur sé ekki í samræmi við samþykkt deiliskipulag svæðisins.  Í skipulagsskilmálum skuli, sbr. ákvæði 5.4.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, kveða m.a. á um byggingarmagn á lóð og frágang lóða og lóðamarka en í skipulagi sé hvergi minnst á umræddan stoðvegg á lóðamörkum.  Nái byggingarleyfið til hans beri að fella það úr gildi þar sem veggurinn sé ekki í samræmi við deiliskipulag.

Jafnframt sé á því byggt að byggingarteikningar stangist á við ákvæði 20. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998 þar sem téður stoðveggur sé ekki málsettur og hafi því ekki verið möguleiki fyrir kærendur að átta sig á stærð hans og umfangi.  Hafi byggingarfulltrúa borið að synja um útgáfu leyfisins þar sem teikningar hafi ekki verið í samræmi við tilvitnuð ákvæði.

Byggingarleyfið sé ennfremur í andstöðu við 1. mgr. 67. gr. byggingarreglugerðar.  Um sé að ræða stoðvegg sem rísi á lóðarmörkum, um þriggja metra háan mælt frá yfirborði lóðar kærenda.  Hann sé aðeins í um þriggja metra fjarlægð frá stofuglugga kærenda og rísi hærra en gólfflötur í stofu á efri hæð.  Því sé um verulega skerðingu á gæðum húseignar kærenda að ræða.  Girðing á mörkum lóða sé háð samþykki beggja lóðarhafa og ekki verði gerðar minni kröfur til stoðveggja.  Hafi kærendur aldrei samþykkt slík mannvirki á lóðamörkum.  Byggingarfulltrúa hafi borið að synja um útgáfu leyfis þar sem samþykki hafi ekki legið fyrir.

Um kærufrest sé byggt á því að kærendum hafi ekki verið ljóst að leyfi fyrir slíkum vegg hefði verið veitt fyrr en hann hafi verið reistur, síðustu vikuna í júní og í byrjun júlí 2007.

Krafa um að felld verði úr gildi afturköllun byggingarfulltrúa á fyrri ákvörðun sé á því byggð að afturköllunin sé ekki í samræmi við ákvæði 25. gr. stjórnsýslulaga en ekki hafi verið haldið fram að um ógildanlega ákvörðun sé að ræða.  Hafi umrædd ákvörðun verulega íþyngjandi áhrif fyrir kærendur.  Verði að telja kærendur aðila máls í samræmi við meginreglu stjórnsýslulaga, enda hafi þeir lögmætra hagsmuna að gæta þar sem umrætt byggingarleyfi snúi m.a. að mannvirki á mörkum lóðar þeirra.

Ekki hafi verið sýnt fram á að fyrri ákvörðun hafi verið byggð á röngum gögnum.  Að auki hafi málið ekki verið nægilega upplýst, sbr. ákvæði 10. gr. stjórnsýslulaga, svo taka mætti ákvörðunina.  Þá hafi verið brotinn andmælaréttur á kærendum en þeim hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um meintan „misskilning“.  Sé vísað til ákvæða 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 í því sambandi.  Samræmist umþrætt ákvörðun hvorki ákvæðum stjórnsýslulaga né ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Kærendur taka fram að samkvæmt teikningum muni yfirborð lóðar þeirra hækka um ca. 90 cm frá núverandi ástandi.  Á móti sé gert ráð fyrir álíka háu handriði á umræddan vegg.

Málsrök Kópavogsbæjar:  Af hálfu Kópavogsbæjar er þess aðallega krafist að kröfum kærenda verði vísað frá nefndinni.  Til vara er þess krafist að kröfum verði hafnað og til þrautavara að kröfum kærenda verði hafnað að hluta.

Samkvæmt 2. gr. reglugerðar um úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála sé kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt um þá samþykkt sem hann kæri.  Byggingarleyfi hafi verið samþykkt í janúar 2007 og nýtt deiliskipulag ári áður.  Kæra sé því of seint fram komin og í ljósi þess beri að vísa málinu frá nefndinni.

Þess sé krafist að kröfu um að byggingarleyfið verði fellt úr gildi verði hafnað en til vara að leyfið verði aðeins ógilt að því er varðar umdeildan stoðvegg á lóðamörkum.  Bent sé á að með kynningargögnum við grenndarkynningu hafi fylgt uppdráttur af fyrirhuguðu mannvirki að Frostaþingi 12.  Þar hafi mannvirkið verið sýnt og gerð grein fyrir hvað fælist í breytingunni.  Á uppdrættinum sé jafnframt gert grein fyrir frágangi á lóðamörkum en sérstaklega sé tilgreindur og sýndur stoðveggur við lóðamörk.  Engar athugasemdir hafi borist frá kærendum við kynninguna né hafi samþykkt deiliskipulagsins verið kærð.  Málsmeðferð við töku ákvörðunar hafi að öllu leyti verið í samræmi við 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997.  Byggingarleyfið hafi verið gefið út í samræmi við hið breytta deiliskipulag og sé því í fullu gildi samkvæmt 2. mgr. 43. gr. sömu laga.

Krafa kærenda um að fella úr gildi þá ákvörðun byggingarfulltrúa að afturkalla byggingarleyfi frá því í maí 2007 sé á misskilningi byggð auk þess sem þeir eigi ekki lögvarinna hagsmuna að gæta vegna þeirrar ákvörðunar.  Hinn 21. maí 2007 (sic) hafi byggingarfulltrúi gefið út leyfi fyrir stoðveggjum á austur- og norðurmörkum lóðarinnar Frostaþing 12.  Í framhaldi af kvörtun kærenda hafi útgáfa leyfisins verið afturkölluð en um mistök hafi verið að ræða þar sem byggingarleyfið frá 21. maí 2007 (sic) hafi ekki tekið til þess stoðveggjar sem kvörtun kærenda hafi beinst að, þ.e. á lóðamörkum Frostaþings 10 og 12, heldur að stoðveggjum á austur- og norðurmörkum lóðarinnar, sem ekki snúi að lóð kærenda.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að leyfi það er afturkallað hafi verið af hálfu byggingarfulltrúi varði stoðveggi á lóðarmörkum að opnum svæðum er tilheyri Kópavogsbæ, en ekki stoðvegg á lóðamörkum Frostaþings 10 og 12. Stoðveggur á lóðarmörkum hafi verið reistur í maí og júní og verið fullbúinn í byrjun júlí 2007.

Teikningar hafi verið lagðar fram til skipulagsnefndar 5. mars 2006.  Þá hafi hæðarkóti fyrir neðri hæð Frostaþings 10 verið 100,20 skv. hæðarblaði tæknideildar Kópavogsbæjar.  Umræddur stoðveggur sé í kóta 100,90 og hæðarmismunur því 70 cm.  Í mars 2007 hafi lóðarhafi Frostaþings 10 fengið samþykktar teikningar þar sem hæðarkóti neðri hæðar sé 98,80, þ.e. 140 cm neðar en skilmálar segi til um, og hæðarmismunur því orðinn 210 cm.  Efri brún stoðveggjarins sé því 210 cm fyrir ofan gólfflöt neðri hæðar Frostaþings 10 og standi 10 cm inn á lóð Frostaþings 12. 

Þá sé bent á að kærendum hafi allan tímann verið fullkunnugt um stoðvegginn á lóðamörkunum og hafi þeir m.a. nefnt við arkitekt hússins að Frostaþingi 12 í apríl 2007 að veggurinn væri fyrirferðarmikill.  Hafi lóðarhöfum Frostaþings 10 staðið til boða að skoða aðra mögulega útfærslu.  Telji byggingarleyfishafi sig hafa öll tilskilin leyfi fyrir framkvæmdunum, teikningar hafi verið grenndarkynntar og engar athugasemdir borist.

Andsvör kærenda vegna málsraka byggingarleyfishafa:  Kærendur taka fram að húsið að Frostaþingi 10 fari ekki upp fyrir leyfilega hæð.  Hins vegar sé byggt niður fyrir hæðarlínu, en það sé ekki í andstöðu við byggingarreglugerð.  Aldrei hafi verið samþykkt að reisa mætti vegg á lóðamörkum Frostaþings 10 og 12.  Í greinargerð með skipulagsbreytingu hafi einungis verið fjallað um að byggt væri út fyrir byggingarreit en hvergi minnst á umræddan stoðvegg.  Vísað sé til ákvæða gr. 5.4.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Þar sem ekki sé getið um téðan stoðvegg í greinargerð með tillögunni geti samþykki á skipulagstillögunni ekki falið í sér samþykki á byggingu hans. 

———–

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir sjónarmiðum sínum í máli þessu sem ekki verða rakin nánar, en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi með óformlegum hætti. 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti leyfis byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007 til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 12 við Frostaþing.  Snýr ágreiningsefnið fyrst og fremst að stoðvegg er liggur við norðurmörk lóðar kærenda, þ.e. á mörkum lóðanna nr. 10 og 12 við Frostaþing.

Af hálfu Kópavogsbæjar er aðallega krafist frávísunar málsins á þeirri forsendu að kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni.  Þá hefur byggingarleyfishafi haldið því fram að kærendum máls þessa hafi verið kunnugt um fyrirhugaða framkvæmd í apríl 2007. 

Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er frestur til að skjóta máli til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á.  Ekki nýtur við gagna í málinu um það hvenær kærendum mátti fyrst vera kunnugt um hæð og umfang stoðveggjar við mörk lóðanna.  Þykir rétt, m.a. vegna óvissu um það hvenær gengið var frá skjólvegg á brún stoðveggjarins og með hliðsjón af efni bréfs byggingarfulltrúa til byggingarleyfishafa frá 9. júlí 2007, að fallast á að kærufrestur hafi ekki verið liðinn þegar kæra barst nefndinni.  Verður kröfu um frávísun því hafnað og málið tekið til efnislegar úrlausnar.

Á svæðinu Vatnsendi-Þing í Kópavogi er í gildi deiliskipulag frá árinu 2005.  Samkvæmt því er heimilt á lóðinni að Frostaþingi 12 að byggja einbýlishús á einni hæð auk kjallara.  Í almennum ákvæðum fyrir einbýlishús, raðhús og parhús á reit 1, er gilda m.a. fyrir lóðirnar að Frostaþingi 10 og 12, segir í lið 3c um frágang lóða að öll stöllun á lóð skuli gerð innan lóðar í beinni línu milli uppgefinna hæðartalna nema annað sé tekið fram eða um annað semjist við lóðarhafa aðliggjandi lóða.  Komi upp ágreiningur um frágang á sameiginlegum lóðamörkum skuli hlíta úrskurði byggingarnefndar um lausn málsins.  Flái við lóðamörk skuli að jafnaði ekki vera brattari en 1:2.  Þá segir enn fremur í lið 3d að stoðveggir og skábrautir í bílakjallara skuli vera í samræmi við skilmála skipulagsins (sérákvæði) og skuli sýna á byggingarnefndarteikningum.  Stoðveggir séu hluti af hönnun húsa og skuli efni og yfirbragð vera í samræmi við þau. 

Úrskurðarnefndin telur með vísan til ofangreinds að túlka beri skilmála skipulagins á þann veg að þar sé gert ráð fyrir stoðveggjum á lóðamörkum.  Er þar ekki gerð krafa um að stoðveggir séu sýndir á skipulagsuppdráttum en slíka veggi þarf hins vegar að sýna á byggingarnefndarteikningum.  Bar því ekki nauðsyn til að sýna eða geta sérstaklega um hinn umdeilda stoðvegg í skipulagi eða að grenndarkynna áform um byggingu hans og verður ekki fallist á að veggurinn hafi verið reistur í andstöðu við gildandi deiliskipulag. 

Fyrir liggur að hæðarmunur lóðanna að Frostaþingi 10 og 12 er meiri en orðið hefði að óbreyttu skipulagi en bæði kærendur og eigandi Frostaþings 12 fengu samþykktar breytingar á hæðarkótum á lóðum sínum.  Var samþykkt breyting á hæðarkóta neðri hæðar húss kærenda að Frostaþingi 10 þannig að hann yrði 98,80 í stað 100,20.  Að auki var samþykkt hækkun á aðkomuhæð Frostaþings 12 um 18 cm, en þeirri hækkun mótmæltu kærendur ekki.  Þótt fallast megi á að umdeildur veggur sé hár þá er hann í samræmi við skipulag með áorðnum breytingum.  Veggurinn stendur allur innan marka lóðarinnar nr. 12 og er hann sýndur og málsettur á samþykktum byggingarnefndarteikningum líkt og almennir skilmálar skipulagsins gera ráð fyrir.  Verður því ekki fallist á að byggingarleyfi hússins að Frostaþingi 12 fari gegn skilmálum deiliskipulags hvað umræddan vegg varðar og verður það því ekki fellt úr gildi af þeim sökum.

Kærendur telja ennfremur að byggingarleyfið sé í andstöðu við ákvæði 67. gr. byggingarreglugerðar og að ekki skuli gera vægari kröfur til stoðveggja en til girðinga á lóðamörkum.  Úrskurðarnefndin fellst ekki á þessi sjónarmið.  Umrætt ákvæði tekur til girðinga en ekki stoðveggja.  Auk þess er beinlínis gert ráð fyrir því í 2. lið tilvitnaðs ákvæðis að kveðið sé á um það í skipulagi að girt sé með tilteknum hætti og verður að skilja ákvæðið svo að víkja megi frá skilyrðum þess í skipulagi.  Er áður rakið hvernig gerð er grein fyrir stöllun lóða, stoðveggjum o.fl. í gildandi skipulagi og ganga þau ákvæði framar ákvæðinu í 1. lið gr. 76 í byggingarreglugerð nr. 441/1998.     

Þá hafa kærendur krafist þess til vara að afturköllun byggingarfulltrúans í Kópavogi, sem tilkynnt var með bréfi, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi verði ógilt.  Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að umrætt byggingarleyfi varði stoðveggi á norður- og austurmörkum lóðarinnar að Frostaþingi 12, sem ekki snúi að lóð kærenda.  Verður ekki séð að gerð þeirra raski svo lögvörðum hagsmunum kærenda að þeir eigi rétt á að fá úrlausn um lögmæti umræddrar afturköllunar, sbr. 5. mgr. 8. gr. laga nr. 73/1997.  Tekur úrskurðarnefndin því ekki afstöðu til þess hvort hin kærða afturköllun á fyrri afturköllun hafi verið lögmæt heldur verður þessum kröfulið vísað frá.

Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.   

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.  

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á samþykkt byggingarfulltrúans í Kópavogi frá 25. janúar 2007, sem staðfest var á fundi bæjarstjórnar hinn 13. febrúar 2007, um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 12 við Frostaþing í Kópavogi.

Vísað er frá varakröfu kærenda um ógildingu á afturköllun byggingarfulltrúans í Kópavogi, dags. 9. júlí 2007, á fyrri ákvörðun um að fella byggingarleyfi úr gildi.

__________________________
 Hjalti Steinþórsson

_____________________________    ____________________________
       Ásgeir Magnússon                                  Þorsteinn Þorsteinsson 

26/2007 Unubakki

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 19. maí, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 26/2007, kæra á afgreiðslu bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007 um að synja að svo stöddu umsókn um breytta notkun hússins að Unubakka 24 í Þorlákshöfn og uppsetningu tveggja ósontanka að Unubakka 26-28.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. mars 2007, er barst nefndinni hinn 30. sama mánaðar, kærir Sigurbjörn Magnússon hrl., f.h. Lýsis hf., lóðarhafa lóðanna að Unubakka 24 og 26-28 í Þorlákshöfn, þá afgreiðslu bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007 að synja að svo stöddu umsókn Lýsis hf. um breytta notkun hússins að Unubakka 24 og uppsetningu ósontanka að Unubakka 26-28. 

Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Með bréfi kæranda máls þessa til skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 25. ágúst 2006, var óskað eftir heimild til að setja upp þvottatanka við þurrkverksmiðju kæranda.  Sagði í bréfinu að um væri að ræða viðurkenndan búnað til að eyða lykt.  Þá sagði ennfremur að óskað væri eftir bráðabirgðaleyfi til 18 mánaða á meðan bygging nýrrar verksmiðju stæði yfir.  Var umsókn kæranda tekin til umfjöllunar á fundum skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar sveitarfélagsins hinn 2., 18. og 31. október 2006 og 19. desember s.á. án þess að umsóknin væri afgreidd.  Á fundi nefndarinnar hinn 16. janúar 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Mál fyrir Unubakka 26-28, uppsetning á ósontönkum og breytingar á Unubakka 24, rædd.  Fyrir liggja teikningar af Unubakka 26-28, byggingum og afstöðumynd og af innra skipulagi, breytingar á Unubakka 24.  Starfleyfisveitingin er í vinnslu hjá lögmanni sveitarfélagsins.  Afgreiðsla á þeim málum er varða starfsemi Lýsis, hausaþurrkun og þá leyfi fyrir uppsetningu á ósontönkum og breytingar á Unubakka 24, verður tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar 25. janúar n.k. til afgreiðslu.“  Á fundi bæjarstjórnar hinn 25. janúar 2007 var eftirfarandi fært til bókar:  „Á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar þann 16. janúar sl. tók nefndin fyrir erindi Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28.  Bæjarstjórn felur lögmanni sveitarfélagsins að skila áliti um hvort þörf sé á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir verði heimilaðar.  Þá er lögmanni sveitarfélagsins einnig falið að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir séu í samræmi við gildandi aðalskipulag svæðisins.“  

Á fundi bæjarráðs hinn 8. mars 2007 var fjallað um umsókn kæranda og samþykkti meirihluti ráðsins eftirfarandi bókun:

Erindi Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28 var tekin fyrir í bæjarstjórn síðast þann 25. janúar sl.  Á þeim fundi var lögmanni sveitarfélagsins falið að skila áliti sínu um hvort þörf væri á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir yrðu heimilaðar.  Þá var lögmanni sveitarfélagsins einnig falið að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir væru í samræmi við gildandi aðalskipulags svæðisins.  Álit lögmanns sveitarfélagsins hefur verið lagt fram til bæjarstjórnar.

Að íhuguðu máli þá hafnar bæjarráð Ölfuss að svo stöddu framkominni umsókn Lýsis hf. um breytta notkun á Unubakka 24 og uppsetningu á tveimur ósontönkum við Unubakka 26-28.

Bæjarráð bendir á þá meginreglu sem orðuð er í 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 (sbl) og mælir fyrir um að skylt er að gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú heimild sem fram kemur í 2. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. (sbl) þess efnis að sveitarstjórn getur heimilað framkvæmdir á þegar byggðum svæðum, þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag, að undangenginni grenndarkynningu, er undanþága frá þessari meginreglu.

Bæjarráð bendir á að sú málsmeðferð að láta fara fram deiliskipulag áður en byggingarleyfi er gefið út í þegar byggðu hverfi er mun vandaðri málsmeðferð en sú að láta fara fram grenndarkynningu.  Tryggir sú leið því betur að nágrönnum og hagsmunaaðilum sé gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum. Hins vegar er gerð deiliskipulags þyngra í vöfum og tímafrekara en grenndarkynning.

Bæjarráð bendir á að málefni Lýsis hf. hafa verið mikið í umræðu í sveitarfélaginu.  Þá hafa sveitarfélaginu borist kvartanir um ólykt frá starfsemi verksmiðju Lýsis hf, vegna þessara kvartana verður að telja að útgáfa byggingarleyfis geti haft áhrif á fleiri aðila en hægt er að flokka sem nágranna skv. grenndarkynningu.

Bæjarráð metur það sem svo að hagsmunir íbúa sveitarfélagsins á að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri vegi þyngra en hagsmunir Lýsis á því að fá skjótari úrlausn sinna mála.

Bæjarráð bendir Lýsi hf. á ákvæði 2. ml. 1. mgr. 23. gr. sbl er mælir fyrir um að framkvæmdaraðila er heimilt að gera tillögu til sveitarstjórnar að deiliskipulagi.“

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er krafist ógildingar á ofangreindri afgreiðslu bæjarráðs og því m.a. haldið fram að vandséð sé nauðsyn á gerð deiliskipulags vegna fyrirhugaðra framkvæmda.  Telji kærandi það vera meginreglu að veita beri lóðarhafa byggingarleyfi í samræmi við umsókn hans sé hún í samræmi við gildandi skipulags- og byggingarlöggjöf og skipulag viðkomandi svæðis.  Þá standist ekki afgreiðslan þar sem hún geri ráð fyrir að deiliskipulag takmarkist eingöngu við lóð kæranda en túlka verði úrskurði úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarlaga á þann veg að deiliskipulag skuli ná yfir stærra svæði. 

Málsrök Sveitarfélagsins Ölfuss:  Af hálfu sveitarfélagsins er kröfum kæranda hafnað og því m.a. haldið fram að framkvæmdir þær sem kærandi óski eftir séu þess eðlis að gera þurfi deiliskipulag, grenndarkynning sé ekki nægileg.  Byggingarleyfi skuli vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Lögfest sé því sú meginregla að byggingarleyfi verið ekki gefin út nema í samræmi við samþykkt deiliskipulag.  Með því að benda kæranda á heimild til að gera tillögu að deiliskipulagi sé fyrirtækinu gefið færi á að koma með tillögur eða hefja viðræður um gerð deiliskipulags fyrir svæðið.

———-

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök máli sínu til stuðnings sem ekki verða reifuð hér frekar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Eins og að framan er rakið var á fundi skipulags-, byggingar- og umhverfisnefndar hinn 16. janúar 2007 bókað að umsókn um uppsetningu ósontanka á lóð kæranda og breytingar að Unubakka 24 yrði tekin til afgreiðslu á fundi bæjarstjórnar 25. sama mánaðar.  Á þeim fundi fól bæjarstjórn lögmanni sveitarfélagsins að skila áliti um hvort þörf væri á deiliskipulagi fyrir umrætt svæði áður en framkvæmdir yrðu heimilaðar ásamt því að kanna hvort fyrirhugaðar framkvæmdir væru í samræmi við gildandi aðalskipulag.  Að áliti þessu fegnu afgreiddi bæjarráð umsókn kæranda og hafnaði henni að svo stöddu.  Verður að skilja bókun ráðsins svo að það hafi talið að vinna þyrfti tillögu að deilskipulagi í tilefni af umsókn kæranda.

Í  2. mgr. 38. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að byggingarnefnd fjalli um byggingarleyfisumsóknir sem berist og álykti um úrlausn þeirra til viðkomandi sveitarstjórnar.  Þá segir í 2. mgr. 39. gr. laganna að nefndinni sé skylt að rökstyðja afgreiðslu á erindum sem henni berast og að ákvarðanir nefndarinnar skuli leggja fyrir sveitarstjórn til afgreiðslu.

Fyrir liggur að skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd ályktaði aldrei um umsókn kæranda heldur tók bæjarráð ákvörðun í málinu án þess að fyrir lægi rökstudd ályktun nefndarinnar um úrlausn þess.  Er þessi málsmeðferð andstæð tilvitnuðum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga um meðferð byggingarleyfisumsókna.  Þar við bætist að með hinni kærðu ákvörðun bæjarráðs var umsókn kæranda hafnað að svo stöddu án þess að gerð væri grein fyrir því með skýrum hætti við hvað væri átt. 

Samkvæmt framansögðu var undirbúningi hinnar kærðu afgreiðslu áfátt en auk þess skorti á að hún væri fyllilega skýr að efni til.  Þykja þessir annmarkar svo verulegir að leiða eigi til ógildingar og verður hin kærða afgreiðsla því felld úr gildi.  

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Afgreiðsla bæjarráðs Sveitarfélagsins Ölfuss frá 8. mars 2007, um að synja að svo stöddu umsókn um breytta notkun hússins að Unubakka 24 og uppsetningu ósontanka að Unubakka 26-28, er felld úr gildi. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_______________________________      _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                   Aðalheiður Jóhannsdóttir

 
 
 

23/2006 Lónsbraut

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 2. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 23/2006, kæra á ákvörðunum skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 6. október 2004, 3. nóvember 2004, 8. desember 2004, 15. júní 2005 og 10. ágúst 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. mars 2006, er barst nefndinni sama dag, kærir E, eigandi bátaskýlis nr. 58 við Lónsbraut, Hafnarfirði, þær ákvarðanir skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 6. október 2004, 3. nóvember 2004, 8. desember 2004, 15. júní 2005 og 10. ágúst 2005 um að veita byggingarleyfi fyrir endurbyggingu og breytingum á bátaskýlum á lóðunum nr. 52, 54, 60, 64 og 68 við Lónsbraut í Hafnarfirði.  Staðfesti bæjarstjórn veitingu byggingarleyfanna fyrir Lónsbraut 60 og 68 hinn 7. mars 2006.  Gerir kærandi þá kröfu að hin kærðu byggingarleyfi verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á þeim tíma er hinar kærðu ákvarðanir voru teknar var í gildi deiliskipulag fyrir suðurhöfn Hafnarfjarðar frá árinu 2000 er tekur til umrædds svæðis.  Í skilmálum deiliskipulagsins kemur m.a. fram að hæð bátaskýla við Lónsbraut megi vera samræmi við þau nýjustu sem standi austast á svæðinu og að heimilt sé að hækka sökkla þeirra skýla sem lægst standa um allt að 1,5 metra vegna sjávarhæðar. 

Hinn 6. október 2004 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar umsókn er fól m.a. í sér hækkun bátaskýlis að Lónsbraut 64 um 1,5 metra.  Var sú ákvörðun staðfest í skipulags- og byggingarráði hinn 7. mars 2005.  Þá tók hann fyrir og samþykki á afgreiðslufundi sínum hinn 3. nóvember 2004 umsókn vegna Lónsbrautar 52 um leyfi til að lengja hús um 1,0 metra og hækka það um 80 sentimetra.  Staðfesti skipulags- og byggingarráð þá ákvörðun hinn 7. mars 2005.  Skipulags- og byggingarfulltrúi samþykkti hinn 21. desember 2005 breytingu á því leyfi er fól í sér hækkun skýlisins um 25 sentimetra.  Var sú ákvörðun lögð fram á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 6. janúar 2006 og staðfest í bæjarstjórn hinn 10. janúar s.á.  Ennfremur var samþykkt umsókn um hækkun og viðbyggingu bátaskýlis að Lónsbraut 54, til samræmis við hús nr. 52, á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 8. desember 2004.  Skipulags- og byggingarráð staðfesti erindið hinn 7. mars 2005. Hinn 15. júní 2005 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi leyfi fyrir endurbyggingu og stækkun bátaskýlis að Lónsbraut 60.  Var sú afgreiðsla lögð fram á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 24. febrúar 2006 og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna hinn 7. mars s.á. Hinn 10. ágúst 2005 samþykkti skipulags- og byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar umsókn um leyfi fyrir endurbyggingu og stækkun bátaskýlis að Lónsbraut 68.  Skipulags- og byggingarráð staðfesti afgreiðsluna hinn 24. febrúar 2006 og bæjarstjórn hinn 7. mars s.á. 

Kærandi máls þessa skaut veitingu byggingarleyfa varðandi greind bátaskýli til úrskurðarnefndarinnar í lok árs 2005, sem vísaði málinu frá hinn 9. febrúar 2006 með vísan til þess að lokaákvörðun hefði ekki verið tekin um veitingu þeirra þar sem á skorti að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefði staðfest umdeild leyfi. 

Málsrök kæranda:  Kærandi styður kröfu sína þeim rökum að búið sé að hækka sökkla umdeildra bygginga verulega og stefni í að mænishæð þeirra verði allt að 2,5 – 3,0 metrum hærri en skýli kæranda og séu þau í engu samræmi við hæðir annarra skýla á svæðinu og gildandi deiliskipulag.  Kærandi hafi átt í vandræðum vegna aur- og vatnsflæðis að skýli sínu, sem hann hefði vænst að úr rættist þegar Lónsbrautin yrði hönnuð og lögð lægra en nú sé með hliðsjón af ákvarðaðri hæð bátaskýlanna í gildandi skipulagi.  Umræddar byggingar skemmi heildarsvip svæðisins vegna hæðar sinnar en auk þess sé þakhalli skýlisins að Lónsbraut 52 í engu samræmi við þakhalla annarra skýla. 

Málsrök bæjaryfirvalda:  Bæjaryfirvöld benda á að eigendur sumra bátaskýla á svæðinu hafi nýtt sér heimild í skipulagsskilmálum um að hækka gólf skýlanna um 1,5 metra og hafi skýlunum þá verið lyft til að gæta samræmis í þakhalla annarra skýla.  Á gildandi mæliblaði fyrir umrætt svæði sé gólfkóti greindur á einum stað 3,9 metrar sem gildi fyrir öll skýlin og sé kótinn miðaður við að gólf skýlanna sé yfir stórstreymi. 

Andmæli byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi Lónsbrautar 68 bendir á að hann hafi byggt skýlið í góðri trú en byggingaryfirvöld hafi stimplað teikningar af skýli hans.  Byggingarleyfishafi bátaskýlis að Lónsbraut 54 tekur fram að aðeins sé búið að byggja sökkul og því hvorki komin gólfhæð né mænishæð á húsið svo óljóst sé hvað verið sé að kæra.  Hafi alfarið verið farið að reglum og leyfum hvað varði byggingu hússins.  Öðrum byggingarleyfishöfum var veitt færi á að tjá sig en ekki liggja fyrir í málinu athugasemdir þeirra. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér staðhætti á vettvangi í tilefni af fyrra kærumáli um sama efni. 

Niðurstaða:  Kærandi ber fyrst og fremst fyrir sig að með hinum kærðu byggingarleyfum sé vikið frá gildandi skipulagi um gólfhæð umræddra bátaskýla sem hafa muni áhrif á mótun aðkomu að skýlunum sem verði hærri en ella hefði orðið. 

Sveitarstjórn skal afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að afgreiðslur skipulags- og byggingarfulltrúa frá 6. október, 3. nóvember og 8. desember 2004 á umsóknum um byggingarleyfi vegna Lónsbrautar 52, 54 og 64 hafi verið staðfestar í bæjarstjórn.  Af þessum ástæðum hafa greind byggingarleyfi ekki hlotið lögboðna meðferð samkvæmt skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 og verður því að vísa kærumáli þessu frá úrskurðarnefndinni hvað umdeild leyfi varðar, með skírskotun til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem lokaákvörðun hefur ekki verið tekin um veitingu byggingarleyfanna. 

Deiliskipulag það er í gildi var er umdeild byggingarleyfi varðandi bátaskýlin að Lónsbraut 60 og 68 voru veitt þykir að ýmsu leyti óljóst að því er tekur til heimilaðrar hæðar skýlanna og hæðarsetningar þeirra í landi.  Á skipulagsuppdrætti er ekki að finna upplýsingar um landhæð eða hæðarsetningu gólfplötu umræddra skýla.  Í greinargerð skipulagsins segir um yfirbragð bygginga á svæðinu í kafla 5.2 að þakform þeirra sé bundið núverandi A-formi en heimilt verði að hækka þau skýli sem lægst standi í landi um allt að 1,5 m vegna sjávarhæðar.  Þar segir þar ennfremur: „Hæð skýlanna sjálfra má vera skv. þeim nýjustu austast á svæðinu.“ 

Af greindum upplýsingum og fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið með afdráttarlausum hætti að greind byggingarleyfi hafi farið í bága við skipulag svæðisins.  Verður því ekki fallist á kröfu kæranda um ógidingu umræddra byggingarleyfa. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og vegna tafa við gagnaöflun. 

Úrskurðarorð:

Kæru vegna byggingarleyfisákvarðana skipulags- og byggingarfulltúa Hafnarfjarðar frá 6. október, 3. nóvember og 8. desember 2004 vegna bátaskýla við Lónsbraut 52, 54 og 64 er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Kröfu um ógilndingu ákvarðana skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 15. júní og 10. ágúst 2005 um veitingu byggingarleyfa vegna bátaskýla að Lónsbraut 60 og 68 er hafnað. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________             ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                     Aðalheiður Jóhannsdóttir

112/2008 Eyrarstígur

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 26. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 112/2008, kæra á samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. desember 2008, er barst nefndinni hinn 12. sama mánaðar, kæra H og G, eigendur hússins að Eyrarstíg 2, Reyðarfirði, samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Bæjarstjórn staðfesti þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 20. nóvember 2008.

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Þar sem fyrir liggur að framkvæmdir við hina umdeildu bílgeymslu eru ekki hafnar og málið þykir nú nægjanlega upplýst til þess að taka það til endanlegs úrskurðar verður ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Málavextir:  Kærumál þetta á sér nokkra forsögu.  Hinn 18. maí 2006 barst embætti byggingarfulltrúa Fjarðabyggðar umsókn frá eiganda hússins nr. 4 við Eyrarstíg á Reyðarfirði, m.a. um byggingu bílgeymslu á lóðinni.  Var samkvæmt umsókninni gert ráð fyrir að bílgeymslan yrði staðsett austan við húsið, um einn metra frá mörkum lóðarinnar  nr. 2 við Eyrarstíg, en á henni er bílgeymsla sem stendur fast að þeim.  Ákvað byggingarfulltrúi að grenndarkynna beiðnina þar sem ekki væri til deiliskipulag fyrir umrætt svæði.  Á fundi umhverfismálaráðs hinn 12. júlí 2006 var umsóknin tekin fyrir ásamt athugasemdum kærenda og var afgreiðslu málsins frestað.  Umsóknin var tekin fyrir að nýju á fundi ráðsins hinn 26. júlí s.á. og var eftirfarandi fært til bókar:  „Nefndin hefur skoðað málið vandlega og veitir byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4.  Uppfylla þarf skilyrði um brunavarnir vegna fjarlægðar á milli húsa.  Nefndin telur að framkvæmdin skerði útsýni að mjög litlu leyti.  Þar sem bílgeymsla á lóð nr. 2 er byggð mjög nálægt lóðarmörkum lítur ráðið svo á að um gagnkvæman rétt til byggingar bílgeymslu sé að ræða við lóðarmörk.“ 

Framangreindri samþykkt umhverfismálaráðs skutu kærendur til úrskurðarnefndarinnar sem með úrskurði uppkveðnum hinn 8. mars 2007 felldi byggingarleyfið úr gildi með vísan til þágildandi ákvæða 75. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. 

Í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndarinnar var á fundi umhverfismálaráðs hinn 25. júlí 2007 eftirfarandi fært til bókar:  „1. Samþykktir byggingarfulltrúa … Eyrarstígur 4, … sækir um leyfi til að byggja bílskúr við austurhlið hússins.  Liður 1 samþykktur.“  Var fundargerð umhverfismálaráðs samþykkt á fundi bæjarráðs hinn 31. júlí 2007.  Samþykkt þessi var einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar, sem með úrskurði uppkveðnum hinn 2. apríl 2008 felldi hana úr gildi sökum þess að undirbúningi hennar væri áfátt. 

Á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar hinn 27. ágúst 2008 var enn á ný lögð fram umsókn um leyfi til að byggja bílskúr á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg og var samþykkt að grenndarkynna erindið, m.a. gagnvart kærendum.  Komu þau á framfæri athugasemdum sínum vegna þessa með bréfi, dags. 22. október 2008.  Að lokinni grenndarkynningu var á fundi nefndarinnar hinn 12. nóvember 2008 m.a. eftirfarandi fært til bókar:  „Ein athugasemd hefur borist, þar sem lagst er gegn veitingu byggingarleyfis.  Nefndin telur ekki nógu sterk rök gegn veitingu byggingarleyfis og felur byggingarfulltrúa að ganga frá byggingarleyfinu.“  Var samþykkt þessi staðfest í bæjarstjórn hinn 20. nóvember 2008. 

Hafa kærendur kært framangreinda samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er vísað til þess að byggingarfulltrúi hafi brugðist skyldum sínum þar sem hann hafi ekki farið að lögum varðandi upplýsingaskyldu gagnvart kærendum.  Þeim hafi ekki verið gert kunnugt um að hið kærða leyfi hafi verið samþykkt nema við lestur fundargerða á netinu.   

Átelja beri byggingarfulltrúa og umhverfis- og skipulagsnefnd fyrir endurtekna útgáfu á leyfi til byggingar bílskúrs á lóðinni nr. 4 við Eyrarstíg, þ.e. fyrir sama bílskúrinn á sama stað, og sé spurning hversu oft slíkt sé hægt og hvort það standist lög. 

Því sé haldið fram að hinn umdeildi bílskúr sé bæði of stór og of hár samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar.  Bílskúrinn fari fyrir glugga á húsi kærenda og valdi aukinni brunahættu.  Í byggingarreglugerð sé talað um að Brunamálastofnun gefi út leiðbeiningar varðandi framangreint en kærendum sé tjáð að þær reglur séu enn í smíðum. 

Af gefnu tilefni sé bent á að aldrei hafi verið bílastæði á milli húsanna nr. 2 og 4 við Eyrarstíg heldur fyrir framan húsin.  Þá sé því mótmælt að um gagnkvæman rétt til byggingar bílskúrs sé að ræða.   

Málsrök Fjarðabyggðar:  Af hálfu Fjarðabyggðar er bent á að hið kærða byggingarleyfi hafi verið samþykkt að undangenginni grenndarkynningu og hafi aðeins ein athugasemd borist, þ.e. frá kærendum. 

Tvívegis áður hafi umhverfis- og skipulagsnefnd heimilað byggingu bílskúrs á lóðinni nr. 4 og í þetta skiptið hafi þótt rétt að veita leyfið og láta reyna á ný ákvæði byggingarreglugerðar varðandi brunafjarlægðir.

Byggingarleyfi hafi ekki verið gefið út og sé ástæðan fyrir því sú að ekki hafi verið talið rétt að gefa út byggingarleyfi áður en kærendum hafi verið gert viðvart um hina kærðu ákvörðun, leiðbeint um kæruleiðir og kærufrest.

Smávægileg frávik frá byggingarreglugerð séu heimiluð er varði stærð hins umdeilda bílskúrs, eða 3,6 m².  Þá sé og frávik er varði hæð hans, en reynt sé að koma í veg fyrir hæðarmismun með því að hafa kóta bílskúrs lægri en íbúðarhúss.  Eins sé miðað við að samræma vegghæðir bílskúrs að Eyrarstíg 4 og bílskúrs kærenda að Eyrarstíg 2, þannig að útlit hverfisins verði heilsteypt.

Staðsetning bílskúrsins sé heimiluð aftast í lóðinni þannig að sem minnst af byggingunni skyggi á íbúðarhús kærenda, en fari þess í stað fyrir bílskúr þeirra og fyrir framan glugga geymslu og þvottahúss.  Bent sé á að tré séu nú fyrir framan þann glugga. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er vísað til þess að þau hafi lagt þann skilning í úrskurð úrskurðarnefndarinnar frá 2. apríl 2008 að tvennt hafi verið að við undirbúning og gerð ákvörðunar umhverfis- og skipulagsnefndar.  Annars vegar að beiðni þeirra hafi ekki verið grenndarkynnt og hins vegar hafi efnisleg rök skort fyrir heimild til þess að byggja stærri og hærri bílskúr en að jafnaði skuli gert.  Því mætti ætla að hönnun og staðsetning bílskúrsins sé nú með þeim hætti að skilyrðum laga og reglna sé hlýtt, að öðru leyti en hvað hæð og stærð varði.
 
Grenndarkynning hafi farið fram og hafi verið send nágrönnum sem eigi aðliggjandi lóðir og einnig þeim sem ekki eigi aðliggjandi lóðir en hafi sýn heim að Eyrarstíg 4.  Athugasemdir hafi einungis borist frá íbúum að Eyrarstíg 2.
 
Unnar hafi verið teikningar sem sýni staðsetningu og hæðarsetningu bílskúrs er fylgt hafi grenndarkynningunni.  Þær teikningar liggi til grundvallar þeim rökum að veitt verði heimild til byggingar bílskúrs á lóðinni.  Í umsókn til byggingarfulltrúa, dags. 13. ágúst 2008, hafi m.a. eftirfarandi komið fram:  „Í byggingareglugerð eru takmarkandi ákvæði um vegghæð bílskúra.  Með því að hafa gólfkvóta bílskúrs eins lágt yfir hæstu jarðvegshæð og kostur er, verður niðurstaðan eftirfarandi með vegghæð 2,80 metrar.  Mænishæð bílskúrs verður 79 cm undir mænishæð á Eyrarstíg 4, jafnframt er mænishæð bílskúrs u.þ.b. 40 cm lægri en frambrún þaks á Eyrarstíg 2.  Eins og sjá má á sniðmynd verður vegghæð ekki meiri en vegghæð aðlægs framhorns bílskúrs á Eyrarstíg 2.  Í byggingarreglugerð eru takamarkandi ákvæði um flatarmál bílskúra.  Nokkur atriði við hönnun bílskúrsins sem styðja hönnunarstærð umfram ákvæði reglugerðar um jafnaðarstærð.  Fatarmál bílskúrsins sem hannaður hefur verið á lóð að Eyrarstíg 4 er 39,6 fermetrar. Flatarmál einangrunar sem verður utanfrá er 3,16 fermetrar og er munurinn að okkar mati óverulegur.  Staðsetning bílskúrsins innan lóðar, með stafn á lóðarmörkum Brekkugötu 8 og 1 meter frá lóðarmörkum Eyrarstígs 2 á langhlið.  Brunaþolshönnun bílskúrsins er þannig háttað að heimilt er skv. reglugerðinni að byggja innan eins meters frá lóðarmörkum.“ 

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um gildi samþykktar umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir 39,5 m² bílgeymslu að Eyrarstíg 4, Reyðarfirði.  Á svæði því er um ræðir er ekki í gildi deiliskipulag.  

Í gr. 113.1 í byggingarreglugerð nr. 441/1998 segir að bílageymsla fyrir einn bíl skuli að jafnaði ekki vera stærri en 36 m² brúttó.  Þá kemur fram í lokamálslið sömu greinar að byggingarnefnd geti aðeins heimilað stærri og hærri  bílgeymslur þar sem slíkt valdi ekki verulegri röskun á umhverfi og aðstæður leyfi að öðru leyti. 

Í úrskurði nefndarinnar í máli nr. 88/2007 var talið að á skorti að sýnt hefði verið fram á að fyrrgreindum skilyrðum væri fullnægt og að rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar væri því áfátt.  Þrátt fyrir að bílskúr sá sem hið umdeilda leyfi lýtur að sé nokkuð lægri en bílskúr samkvæmt fyrri byggingarleyfisumsóknum sýnist mega ráða af fyrirliggjandi gögnum að hann muni hafa grenndaráhrif gagnvart kærendum.  Þykir því enn á skorta að sýnt hafi verið fram á réttmæti þess að víkja frá fyrrgreindu ákvæði byggingarreglugerðar.  Var rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun því áfátt, sbr. 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hún af þeim sökum felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt umhverfis- og skipulagsnefndar Fjarðabyggðar frá 12. nóvember 2008 um að veita byggingarleyfi fyrir bílgeymslu að Eyrarstíg 4 á Reyðarfirði. 

 

 

____________________________________
                                                        Ásgeir Magnússon                                                      

 

______________________________                      _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                                 Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

 

147/2007 Smábýli 15A

Með

Ár 2009, fimmtudagur 26. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 147/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. október 2007 um að synja um leyfi fyrir byggingu stálgrindarhúss á lóð Smábýlis nr. 15A, Kjalarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. október 2007, er barst nefndinni hinn 2. nóvember s.á., kærir S, eigandi lóðarinnar Smábýli nr. 15A, Kjalarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. október 2007 að synja um leyfi fyrir byggingu stálgrindarhúss á steyptum sökklum undir hesthús, reiðskemmu og vélageymslu á lóðinni.

Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 2. október 2007 var lögð fram umsókn kæranda um leyfi til að byggja stálgrindarhús á steyptum sökklum sem nýtt yrði sem hesthús, reiðskemma og vélageymsla á lóð Smábýlis nr. 15A á Kjalarnesi.  Var málinu frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar er afgreiddi það á fundi sínum hinn 5. október 2007 með svohljóðandi bókun:  „Neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 5.10.07.“  Hinn 9. s.m. var umsóknin tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og eftirfarandi bókað:  „Synjað.  Samræmist ekki skipulagsskilmálum sbr. umsögn skipulagsstjóra dags. 5. október 2007.“  Greind afgreiðsla var staðfest í borgarráði hinn 18. október 2007.

Hefur kærandi kært ofangreinda afgreiðslu eins og fyrr greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi fyrr á árinu 2007 lagt fram umsókn er fól í sér ósk um heimild til að byggja geymsluhúsnæði á lóð Smábýlis nr. 15A.  Hafi þeirri umsókn verið hafnað með þeim rökstuðningi að umrætt svæði væri skipulagt sem landbúnaðarsvæði.  Synjun sú er nú hafi verið kærð hafi hins vegar verið byggð á þeim forsendum að umsókn um byggingarleyfi teldist ekki samræmast skipulagsskilmálum, sbr. umsögn skipulagsstjóra frá 5. október 2007.  Ofangreindar synjanir séu ekki í samræmi við hvora aðra.  Þá sé bent á að á næstu lóð, Sætúni 1, sé verið að selja lóðir sem séu samkvæmt skipulagi bæði ætlaðar fyrir iðnaðar- og íbúðarhúsnæði og sé slíkt í hrópandi ósamræmi við fyrrgreindar synjanir.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.  Bent sé á að á næstu lóð sé í gildi deiliskipulag fyrir Sætún 1 sem ekki hafi verið kært til nefndarinnar.  Þar komi fram að ekkert hafi verið byggt upp fyrir landbúnað á umræddu svæði í langan tíma og að hugmyndir um landnýtingu hafi þróast í aðrar áttir samfara stækkun Reykjavíkur og áformum um byggingu Sundabrautar upp á Kjalarnes.  Hafi umhverfisráðuneytið veitt undanþágu frá reglum um fjarlægðarmörk svo að heimilt yrði að byggja í samræmi við deiliskipulagið.

Borgaryfirvöld vísa til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 5. október 2007 en þar komi m.a. fram að umrætt Smábýli nr. 15A sé í næsta nágrenni við tvö kjúklingabú og innan fjarlægðartakmarkana sem banni óskylda starfsemi nær búunum en 500 metra.

Áður hafi verið hafnað umsókn um að reisa atvinnuskemmu fyrir starfsemi óskylda búrekstri á smábýlinu.  Hafi það hús hvorki verið í samræmi við deiliskipulagstillögur um smábýli á svæðinu né skilgreiningu aðalskipulags um landnotkun, en þar segi að staðsetja eigi vöruskemmur á skilgreindum athafnasvæðum en ekki á dreifðum bújörðum við jaðar höfuðborgarinnar.

Ekki verði betur séð en verið sé að sækja um sama hús og áður hafi verið hafnað.  Húsið hafi öll einkenni atvinnuskemmu líkt og fyrri tillaga.  Hæð þess, mögulegar vöruhurðir og bílastæði séu þau sömu og áður þó þau séu sýnd með öðrum hætti á tillögunni.  Stærð hússins sem hesthús og reiðskemma sé heldur ekki í góðu samhengi við landkosti smábýlisins og tengingar þess við nauðsynlegar reiðleiðir.

Ein af meginforsendum þess að mælt hafi verið með því að umsókn yrði hafnað sé sú að ástæða sé til að halda í yfirbragð svæðisins sem landbúnaðarsvæðis, sem þróast gæti í átt til dreifðrar íbúðarbyggðar í framtíðinni fremur en til annarra nota.  Nýtt aðalskipulag sé í undirbúningi og rétt sé að binda ekki hendur manna með því að samþykkja atvinnuhús á svæðinu.

Líklegt megi telja að landlausri reiðskemmu og hesthúsi fylgi miklir gripaflutningar um þjóðveg er þarna liggi með tilheyrandi hættu fyrir alla umferð.  Ekki hafi verið mælt með því að tillagan yrði samþykkt meðan landnotkun svæðisins væri óbreytt og ekki unnar úrbætur á þjóðveginum.  Þá hafi það einnig mælt gegn tillögunni að ekki lægi fyrir aðalskipulag og/eða deiliskipulag sem heimili svo mikla og breytta starfsemi.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til byggingar stálgrindarhúss á lóð Smábýlis nr. 15A, Kjalarnesi.
 
Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er umrædd lóð á skilgreindu landbúnaðarsvæði.  Á svæðinu er í gildi deiliskipulag fyrir spildu úr löndum Móa, Skrauthóla og Sjávarhóla er samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Kjalarneshrepps 3. febrúar 1975.  Í almennum skilmálum þess um útihús segir svo í gr. 2.6 að hæð veggja að þakkanti skuli ekki vera meiri en 2,50 m frá landi en leyfilegt sé þó að hafa meiri hæð að hluta ef þörf krefji.  Breyting á umræddu deiliskipulagi tók gildi hinn 31. ágúst 2007 þar sem m.a. var heimilað að reisa íbúðar- og atvinnuhús á spildu úr landi Móa er nefnd er Sætún 1 og mun vera Smábýli nr. 16 samkvæmt eldra skipulagi.  Hins vegar hefur upphaflegu deiliskipulagi ekki verið breytt að því er snertir spildu kæranda, Smábýli nr. 15A. 

Í máli þessu liggur fyrir að bygging sú er synjað var um leyfi fyrir er með mænishæð 8,04 m og vegghæð langhliða 5,0 m, eða tvöfalt meiri hæð en heimilt er samkvæmt gildandi skipulagsskilmálum.  Byggingarleyfisumsókn kæranda var því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins og var byggingarfulltrúa rétt að synja umsókninni í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður hin kærða ákvörðun af þeim sökum ekki felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. október 2007, er staðfest var í borgarráði hinn 18. október sama ár, um að synja um leyfi fyrir byggingu stálgrindarhúss á steyptum sökklum undir hesthús, reiðskemmu og vélageymslu á lóð merktri Smábýli 15A, Kjalarnesi.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

______________________________           _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir

 

113/2008 Strandgata

Með

Ár 2009, þriðjudaginn 10. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 113/2008, kæra á afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 27. nóvember 2008 varðandi byggingarleyfi fyrir húsi á lóðinni nr. 5 við Strandgötu á Stokkseyri. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 10. desember 2008, er barst nefndinni hinn 15. sama mánaðar, kærir V, Sandgerði 1, Stokkseyri, afgreiðslu skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 27. nóvember 2008 um að leggja til við bæjarstjórn að veitt verði byggingarleyfi á lóðinni nr. 5 við Strandgötu á Stokkseyri.  Bæjarráð samþykkti þá afgreiðslu nefndarinnar hinn 4. desember 2008 og staðfesti bæjarstjórn afgreiðsluna hinn 22. sama mánaðar. 

Skilja verður erindi kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða afgreiðsla verði felld úr gildi.  Með bréfi, dags. 26. febrúar 2009, er barst úrskurðarnefndinni hinn 2. mars s.á., gerir kærandi jafnframt þá kröfu að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Þykir málið vera tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda. 

Málavextir:  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar hinn 11. september 2008 var tekin fyrir fyrirspurn um leyfi til að flytja hús frá Grund í Meðallandi að Strandgötu 5 á Stokkseyri.  Lóðin er óbyggð en þar stóð áður hús er brann árið 2002.  Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag.  Var málinu frestað og óskað eftir fullnægjandi aðaluppdráttum.  Erindið var tekið fyrir að nýju á fundi nefndarinnar hinn 23. október s.á. og lagt til að það yrði grenndarkynnt og var svo gert, m.a. gagnvart kæranda.  Í kjölfar þess sendi kærandi skipulags- og byggingaryfirvöldum spurningar í tölvupósti og var þeim svarað með tölvubréfi, dags. 30. október 2008.  Í þeim svörum sagði m.a. að á svæðinu væri deiliskipulag frá 17. maí 1989 og að samkvæmt því mætti byggja 153,16 m² hús á lóðinni.  Fyrirhugað hús væri 159,8 m² og nýtingarhlutfall 0,41, sem væri innan skekkjumarka.  Kærandi sendi síðan inn skriflegar athugasemdir í tilefni grenndarkynningarinnar.  Á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 27. nóvember 2008 var samþykkt að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja hina grenndarkynntu tillögu með þeim fyrirvara að húsið yrði fært um einn metra að Strandgötu.  Staðfesti bæjarstjórn þessa afgreiðslu hinn 22. desember 2008 að undangengnu samþykki bæjarráðs hinn 4. desember s.á.  Athugasemdum kæranda var svarað með bréfi, dags. 8. sama mánaðar.

Hefur kærandi kært framangreinda samþykkt til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að grenndarkynning sú er fram hafi farið hafi verið afar gölluð, m.a. hafi kærandi sjálf þurft að óska eftir frekari gögnum varðandi málið áður en hún hafi komið á framfæri athugasemdum sínum til byggingaryfirvalda.  Í grenndarkynningunni hafi t.d. hvergi komið fram að um væri að ræða aðflutt hús sem hafi enga tengingu við gömlu húsaröðina við Sandgerði á Stokkseyri en öll húsin í þeirri röð séu friðuð.  Hvergi hafi verið sýnt fram á raunverulegt ástand hússins, teikningar sem hafi fylgt hafi ekki verið málsettar og ekki stimplaðar af byggingarfulltrúa.  Fyrirhuguð bygging verði miklu nær Sandgerði 1, húsi kæranda, en gamla húsið er áður hafi staðið á lóðinni.  Það hafi staðið alveg úti í götu, sem hafi verið einstefnugata, en sé í dag tvístefnugata með gangstétt.  Þarna muni trúlega um fimm til sex metrum.  Benda megi á að verið sé að troða of stóru húsi á lóðina, sama hvað það kosti, og séu eingöngu tímabundnir, fjárhagslegir hagsmunir bæjarfélagsins látnir ganga fyrir, þrátt fyrir að 15 lóðir séu lausar í bænum.  Þótt þessi gömlu hús virðist ekki eiga sér málssvara í tíðarandanum í dag megi benda á að allsstaðar í Evrópu sé verið að halda í gamla miðbæi, og þyki sameiginleg saga ómetanleg og mikilvæg. 

Kærandi telji að skylt sé að deiliskipuleggja hverfi og vinna svo eftir því, en af hálfu byggingaryfirvalda hafi ýmist verið haldið fram að í gildi væri deiliskipulag fyrir umrætt svæði eða ekki.  Spyrja mætti hvort byggja mætti blokk á lóðinni, ef byggingaryfirvöldum sýndist svo, þar sem ekki væru fyrir hendi takmörk á mænishæð, byggingarmagni eða byggingarreit.

Húsið sem talað sé um að flytja á lóðina sé þriggja hæða en húsin í nágrenninu séu hæð og ris.  Öll húsin í gömlu röðinni séu friðuð og eigi sér sameiginlega sögu, sem séu menningarverðmæti út af fyrir sig og verði aldrei sköpuð aftur.  Húsamyndinni verði stórkostlega raskað, en hún hafi verið vinsæl meðal ferðamanna, málara og ljósmyndara.  Ekki spilli nálægðin við einn elsta og merkasta kirkjustað landsins.  Hið umdeilda hús falli því alls ekki inn í götumyndina. 

Inngangur í fyrirhugað hús sé um það bil einn metra frá lóðarmörkum, sem snúi að lóð kæranda, og því fylgi truflun og óþægindi þó innkeyrslan sé frá Strandgötu.  Þetta rýri lífsgæði kæranda og geti hún t.d. ekki byggt aftur bílskúr á lóð sinni ásamt því að hún missi útsýni til kirkjunnar og draga muni úr kvöldsól. 

Málsrök Árborgar:  Af hálfu sveitarfélagsins er því ekki mótmælt að svo kunni að vera að vanda hefði mátt betur til grenndarkynningar þeirrar sem fram hafi farið.  Hins vegar telji sveitarfélagið að þar sem kærandi hafi komið fjölmörgum spurningum varðandi hið umdeilda hús á framfæri við skipulagsyfirvöld, og fengið svör við þeim, hafi verið bætt úr ágöllum sem kunni að hafa verið á framkvæmd grenndarkynningarinnar. 

Þrátt fyrir að hið umdeilda hús standi eitthvað nær fasteign kæranda en hús það sem áður hafi staðið á lóðinni sé minnsta fjarlægð þess frá fasteign kæranda 13,2 metrar.  Minnsta fjarlægð frá lóðarmörkum verði 3,57 metrar.  Bent sé á að fyrirhugað hús sé kjallari, hæð og ris, rétt eins og hús það sem áður hafi staðið á lóðinni.  Þá hafi það sama gólfflöt og eldra hús.  Heildarflatarmál nýja hússins sé 159,8 m² og nýtingarhlutfall 0,41, sem ekki geti talist óeðlilegt miðað við nýtingarhlutfall lóða á svæðinu. 

Hús það sem deilt sé um sé gamalt hús, upphaflega byggt í Reykjavík og flutt þaðan í Meðalland.  Það sé bárujárnsklætt timburhús, eins og meirihlutinn af þeim húsum sem fyrir séu í húsaröðinni, m.a. hús kæranda og hús það sem áður hafi staðið á lóðinni.  Húsið muni því falla vel að götumyndinni að mati sveitarfélagsins. 

Það sé misskilningur hjá kæranda að öll húsin í húsaröðinni séu friðuð.  Eina húsið á Stokkseyri sem sé friðað sé Stokkseyrarkirkja byggð 1886 auk Rjómabúsins að Baugsstöðum.  Þá uppfylli ekkert af húsunum í húsaröðinni aldursskilyrði 1. mgr. 6. gr. laga um húsafriðun nr. 104/2001.  Ekkert af húsunum sé reist fyrir 1850.  Elstu húsin í húsaröðinni Sandgerði 1 til Sandgerði 9 séu byggð árið 1900 og það yngsta 1955.  Þá telji sveitarfélagið athugasemdir kæranda varðandi byggðarmynstur í hverfinu á misskilningi byggðar og geti ekki leitt til þess að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi. 

Kærandi geri athugasemdir við misvísandi upplýsingar um deiliskipulag á svæðinu.  Í spurningum kæranda til sveitarfélagsins og svörum við þeim, sbr. tölvubréf, dags. 30. október 2008, hafi kærandi óskað svara við því frá hvaða tíma deiliskipulag svæðisins sé og fengið þau svör að það væri frá 17. maí 1989.  Hið rétta sé að ekkert deiliskipulag sé í gildi fyrir umrætt svæði.    Hins vegar sé til „lóðaskipulag“ sem miðað hafi verið við, en það skipulag hafi þó aldrei fengið þá umfjöllun sem þurfi til að öðlast gildi sem deiliskipulag.  Af þeirri ástæðu hafi umdeilt byggingarleyfi verið grenndarkynnt kæranda með vísan í 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Slík grenndarkynning hefði verið óþörf ef deiliskipulag væri í gildi á svæðinu. 

Mótmælt sé fullyrðingum kæranda þess efnis að hún verði fyrir truflun og óþægindum af hinu umdeilda húsi ásamt því að lífsgæði hennar rýrni.  Lóð sú sem til standi að reisa hið umdeilda hús á sé byggingarlóð þar sem hafi staðið hús frá árinu 1915 fram til ársins 2002.  Þó svo að það hús hafi verið rifið í kjölfar bruna fyrir sex árum geti kærandi ekki haft neinar væntingar um að lóðin standi auð um ókomna framtíð.  Umrætt svæði sé miðbær Stokkseyrar og geti kærandi því ekki búist við að verða ekki fyrir ónæði af nágrönnum.  Ónæði það sem hljótist af því að inngangur hússins sé nálægt lóðarmörkum fasteignar kæranda geti ekki talist meira en það sem íbúar miðbæjar verði almennt að þola. 

Sömu sjónarmið gildi um þá fullyrðingu kæranda að hún missi útsýni til kirkju og kvöldsólar.  Fyrirhugað hús sé í fullu samræmi við hús það sem áður hafi staðið á lóðinni, það komi til með að standa lítillega nær húsi kæranda en fyrra hús, en sé fyllilega sambærilegt hvað hæð varði.  Bæði húsin séu, eða hafi verið, hæð og ris á steyptum kjallara.  Væntingar kæranda um óskert útsýni á kirkju og kvöldsól, séu því ekki eitthvað sem kærandi geti reist rétt sinn á sem réttmætar væntingar.  Hin umdeilda byggingarlóð sé í eigu sveitarfélagsins og geti kærandi ekki búist við því að lóðin verði óbyggð til frambúðar. 

Ekki eigi við rök að styðjast að kærandi geti ekki byggt bílskúr á lóð sinni. Ef umsókn um slíkt myndi berast frá kæranda færi hún í hefðbundið kynningarferli, sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga. 

Bent sé á að ef fallist verði á það að skerðing verði á grenndarhagsmunum kæranda sé ljóst að hún sé ekki slík að bótaákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nái ekki yfir að bæta þá hugsanlegu skerðingu, komi sú grein yfir höfuð til skoðunar. 

Lóðin að Strandgötu 5 sé innan svæðis sem njóti hverfisverndar samkvæmt Aðalskipulagi Árborgar 2005-2025, Stokkseyri.  Í greinargerð með aðalskipulaginu kafli 4.4.5 segi m.a. um hverfisvernd: „Hverfisverndin tekur til einstakra húsa, götumynda, húsaraða og heildaryfirbragðs sem skal varðveita og halda sem upprunalegustu. Sérstök aðgát skal höfð við breytingar, viðbyggingar, nýbyggingar og aðra mannvirkjagerð s.s. gerð gatna, gangstétta, girðinga og grjótgarða, og ákvarðanir um breytingar á einstökum húsum eða umhverfi þeirra skulu teknar með tilliti til sérkenna og þess gildis sem byggingarnar hafa fyrir umhverfi, sögu og byggingarlist.  Virða skal upprunalega gerð bygginga og halda óbreyttri efnisnotkun við frágangs- og deililausnir.  Nýbyggingar skulu sniðnar að þeirri byggð sem fyrir er hvað varðar stærðir, form, mænisstefnu, efnisval og liti, án þess að um eftiröpun þurfi að vera að ræða.“  Með því að veita byggingarleyfi fyrir flutningi gamals, bárujárnsklædds timburhúss á lóðina að Strandgötu 5 sé verið að fylgja skilmálum aðalskipulags um hverfisvernd eins ítarlega og frekast sé unnt.  Hverfisvernd útiloki ekki nýjar byggingar á lóðum innan þess svæðis sem njóti hverfisverndar, heldur skuli nýjar byggingar falla að götumynd og húsaröðum auk þess sem halda skuli heildaryfirbragði svæðisins.  Telji sveitarfélagið að með því að veita leyfi til að flytja gamalt bárujárnsklætt timburhús á þessa lóð séu skilyrði hverfisverndar uppfyllt.  Sérstaklega með tilliti til þess að á þessari lóð hafi, frá 1915 til 2002, staðið bárujárnsklætt timburhús á steyptum kjallara.

Málsrök byggingarleyfishafa:  Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kæranda mótmælt þar sem engin haldbær rök hafi verið færð fram til stuðnings þeim.  Aftur á móti sé tekið undir málsrök sveitarfélagsins sem styðji lögmæti þeirra framkvæmda sem um sé deilt. 

Bent sé á að öll tilskilin leyfi hafi verið fengin fyrir framkvæmdinni og öll gjöld greidd.  Því hafi byggingarleyfishafar talið sig geta farið í umrædda framkvæmd af fullum krafti.  Þau séu að losa bújörð í Meðallandi og ætlunin hafi verið sú að flytja inn í nýja húsnæðið á fardögum.  Nú þegar hafi verið lagt mikið fé í þessa framkvæmd og kostnaður þegar hlotist af töfum vegna stöðvunar jarðvegsverktaka af völdum kæranda.  Áskilji byggingarleyfishafar sér allan rétt til að krefjast bóta úr hendi þeirra sem að slíkum töfum standi. 

———————–

Aðilar hafa fært fram frekari rök í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.
 
Niðurstaða:  Lóðin að Strandgötu 5 er óbyggð og er í elsta hluta Stokkseyrar.  Þar stóð áður hús er brann árið 2002.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði en í gildandi Aðalskipulagi Árborgar 2005-2025, Stokkseyri, er lóðin á svæði umhverfis Stokkseyrarkirkju er nýtur hverfisverndar. 

Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 4.22.1, er tekið fram að um hverfisverndarsvæði gildi sérstök ákvæði í skipulagsáætlunum sem sveitarstjórnir hafi sett, er kveði á um verndun sérkenna eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja án þess að um lögformlega friðun sé að ræða.  Í 4. mgr. gr. 4.22.2 nefndrar reglugerðar er tekið fram að öll svæði sem staðfest hverfisvernd gildi um samkvæmt aðalskipulagi skuli deiliskipulögð ef framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Þegar um er að ræða þegar byggð hverfi skal jafnframt gera bæja- og húsakönnun samhliða gerð deiliskipulags sem höfð skal til hliðsjónar. 

Samkvæmt ótvíræðu orðalagi áðurnefndrar 4. mgr. gr. 4.22.2 skipulagsreglugerðar bar að deiliskipuleggja hið hverfisverndaða svæði sem lóðin að Strandgötu 5, Stokkseyri tilheyrir áður en leyfi fyrir húsi og staðsetningu þess á lóðinni var veitt.  Svo var ekki gert og verður hin kærða afgreiðsla þegar af þeirri ástæðu felld úr gildi. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 27. nóvember 2008, sem staðfest var í bæjarráði hinn 4. desember og bæjarstjórn hinn 22. desember s.á., um veitingu byggingarleyfis fyrir húsi á lóðinni nr. 5 við Strandgötu á Stokkseyri. 

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________                 ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                         Aðalheiður Jóhannsdóttir

7/2009 Bústaðavegur

Með

Ár 2009, fimmtudaginn 26. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 7/2009, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. maí 2008 um að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóðinni nr. 9 við Bústaðaveg.  Ennfremur er kærð synjun byggingarfulltrúans frá 8. janúar 2009 á beiðni kærenda um grenndarkynningu vegna ofangreinds byggingarleyfis. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 6. febrúar 2009, er barst nefndinni sama dag, kærir Dögg Pálsdóttir hrl., f.h. S, Stigahlíð 87 og S, Stigahlíð 89, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. maí 2008 að veita leyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóðinni nr. 9 við Bústaðaveg.  Þá er til vara kærð synjun byggingarfulltrúans frá 8. janúar 2009 um að verða við kröfu kærenda um grenndarkynningu vegna umdeildra framkvæmda. 

Gera kærendur þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi.  Þá er þess krafist að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda.  Þar sem kærumálið þykir nú nægjanlega upplýst verður það tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda. 

Málavextir:  Á afgreiðslufundi skipulagsstjóra Reykjavíkur hinn 29. febrúar 2008 var lögð fram fyrirspurn Geislavarna ríkisins um byggingu 20 m² skúrs á lóð Veðurstofu Íslands að Bústaðavegi 9.  Skipulagsstjóri afgreiddi fyrirspurnina með eftirfarandi bókun:  „Ekki eru gerðar athugasemdir við að fyrirspyrjandi láti vinna tillögu að breytingu á deiliskipulagi í samráði við embætti skipulagsstjóra, á eigin kostnað, sem síðar verður grenndarkynnt án þess tekin sé afstaða til staðsetningu samkvæmt skissu.“ 

Fyrirspurnin var tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi skipulagsstjóra hinn 4. apríl 2008 og svohljóðandi bókað:  „Leiðrétt bókun frá afgreiðslufundi skipulagsstjóra frá 29. febrúar 2008. Ekki eru gerðar athugasemdir við erindið. Byggingarleyfisumsókn verður grenndarkynnt þegar hún berst.“ 

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 6. maí 2008 var tekin fyrir umsókn þar sem sótt var um leyfi fyrir 24,3 m² smáhýsi úr timbri fyrir Geislavarnir ríkisins á lóð nr. 9 við Bústaðaveg og fylgdi umsókninni samþykki lóðarhafa.  Var umsóknin afgreidd með svohljóðandi bókun:  „Samþykkt. Samræmist ákvæðum laga nr. 73/1997.“  Staðfesti borgarráð afgreiðsluna á fundi hinn 15. maí 2008. 

Hinn 22. desember 2008 höfðu kærendur máls þessa samband við embætti byggingarfulltrúa og mótmæltu framkvæmdum á lóð Veðurstofu Íslands og með tölvupósti byggingarfulltrúa, dags. 26. desember s.á., var þeim m.a. tilkynnt að embættið hefði samþykkt byggingu á smáhýsi á umræddri lóð og hafi þá legið fyrir umsagnir ýmissa aðila, m.a. skipulagsstjóra.  Væri ekki annað að sjá en að starfsmönnum hefði við yfirferð umsóknar yfirsést bókun þess efnis að umsókn um byggingarleyfi yrði grenndarkynnt ef hún bærist.  Þegar þetta hefði komið í ljós hefðu framkvæmdir verið stöðvaðar. 

Í kjölfar þessa var kærendum sendur aðaluppdráttur, er samþykktur hafði verið 6. maí 2008, af umræddu smáhýsi til óformlegrar kynningar á málinu og þeim bent á að hefðu þeir einhverjar athugasemdir fram að færa myndi fara fram grenndarkynning. 

Með tölvupósti til byggingarfulltrúa, dags. 5. janúar 2009, fóru kærendur fram á að formleg grenndarkynning ætti sér stað.  Með svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 8. janúar s.á. var þeim tilkynnt að fallið hefði verið frá grenndarkynningu á byggingarleyfisumsókn og að stöðvun framkvæmda hefði verið aflétt, með vísan til minnisblaðs skipulagsstjóra, dags. 8. janúar 2009. 

Málsrök kærenda:  Aðalkrafa kærenda byggist fyrst og fremst á þeirri málsástæðu að í umdeildri ákvörðun felist röskun á hagsmunum þeirra.  Enn fremur hafi skýr réttur verið brotinn á kærendum sem og öðrum er hagsmuna eigi að gæta þegar ákvörðun um byggingarleyfi hafi verið tekin án þess að grenndarkynning færi fram.  Hljóti slíkir annmarkar að leiða til þess að ákvörðunin verði felld úr gildi. 

Allur ferill málsins sé mjög einkennilegur og málsmeðferðin afar gagnrýnisverð.  Hafi kærendum fyrst orðið kunnugt um umræddar framkvæmdir þegar þær hafi byrjað í desember 2008.  Hafi þeir þá strax leitað upplýsinga og hafi byggingarfulltrúi stöðvað framkvæmdir enda hafi hann talið að um mistök væri að ræða. 

Vísi kærendur til 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en í 7. mgr. ákvæðisins sé fjallað um grenndarkynningu.  Eigi grenndarkynning annars vegar við þegar um sé að ræða minniháttar framkvæmdir í þegar byggðum hverfum, í þéttbýli eða dreifbýli, þar sem aðal- eða svæðisskipulag sé fyrir hendi en ekki deiliskipulag og fyrirhuguð framkvæmd víki ekki frá notkun, nýtingarhlutfalli eða yfirbragði hverfisins í verulegum atriðum.  Hins vegar eigi hún við þegar um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi.  Grenndarkynning hafi þannig verið talin eiga við um stakar, óverulegar framkvæmdir í fullbyggðum hverfum í þéttbýli.  Felist grenndarkynningin í því að skipulagsráð kynni nágrönnum fyrirhugaða framkvæmd sem varðað geti hagsmuni þeirra, t.d. skert útsýni, og veiti þeim rétt til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.  Meti skipulagsnefnd í hverju tilviki hvort framkvæmd teljist það óveruleg að grenndarkynning sé nægileg og byggi það m.a. á eðli, staðsetningu og umfangi framkvæmdarinnar og hvaða áhrif hún hafi á nærliggjandi svæði. 

Að mati kærenda sé ekki hægt að túlka ákvæði annars vegar 7. mgr. 43. gr. laganna og hins vegar 2. mgr. 26. gr. sömu laga á annan veg en svo að skylt sé, í öllum tilfellum þegar byggingarleyfi sé veitt og um óverulega breytingu á deiliskipulagi sé að ræða, að grenndarkynna umsókn.  Ekki sé þannig gert ráð fyrir því í tilvitnuðum lögum að unnt sé að sneiða hjá afdráttarlausu orðalagi lagaákvæðis um grenndarkynningu vegna þess að framkvæmdir hafi „hverfandi“ grenndaráhrif að mati skipulagsfulltrúa.  Sé þessi niðurstaða í samræmi við það er fram komi í bókun afgreiðslufundar skipulagsstjóra hinn 4. apríl 2008, þar sem segi að ekki séu gerðar athugasemdir við erindið og að umsókn verði grenndarkynnt þegar hún berist.  Einnig sé þessi túlkun í samræmi við álit byggingarfulltrúans í Reykjavík, þ.e. að um mistök hafi væri að ræða. 

Hafi kærendur og aðrir íbúar götunnar verulegra hagsmuna að gæta.  Um sé að ræða svæði sem hingað til hafi verið óbyggt og hafi framkvæmdir veruleg áhrif á alla íbúa götunnar bæði sjónrænt sem og á útivist á svæðinu.  Umræddar framkvæmdir séu beint fyrir utan stofuglugga kærenda, blasi við þeim, og sé því um verulega sjónmengun að ræða auk þess sem framkvæmdirnar hafi verulegt rask í för með sér.  Byrgi þær sýn til suðurs frá lóðum kærenda og fyrirsjáanlegt sé að einnig verði um hljóðmengun að ræða en loft sé stöðugt sogað inn í skúrinn með tilheyrandi hávaða. 

Til vara sé þess krafist að ákvörðun byggingarfulltrúans um að hafna grenndarkynningu verði felld úr gildi og sé vísað til sömu röksemda hvað varakröfu varði og áður hafi verið fram settar.  Ljóst sé að reglur hafi verið brotnar þegar kærendum og öðrum sem hagsmuna eigi að gæta hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig og taka afstöðu til umræddrar framkvæmdar eins og skipulags- og byggingarlög geri ráð fyrir. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld krefjast þess að kröfum kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að þeim verði hafnað.  Sé krafa um frávísun á því byggð að kærendur eigi enga lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð nefndarinnar um álitaefnið.  Samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga geti þeir „…einir skotið máli til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda hinni kærðu ákvörðun.“  Í máli því sem hér um ræði verði ekki séð í hverju hinir einstaklegu lögákveðnu hagsmunir kærenda séu fólgnir, en hin umdeilda bygging sé í meira en 60 m fjarlægð frá íbúðarhúsum þeirra.  Við yfirferð á uppdráttum hafi komið í ljós að grenndaráhrif vegna umrædds smáhýsis séu hverfandi og hafi því ekki þótt ástæða til að grenndarkynna umsókn um byggingarleyfi.  Á það skuli einnig sérstaklega minnt að lóð Veðurstofu Íslands sé ekki skilgreint útivistarsvæði fyrir íbúa hverfisins og börn þeirra og eigi því íbúarnir ekkert tilkall til slíkra hagsmuna á lóðinni. 

Verði ekki fallist á frávísunarkröfu Reykjavíkurborgar í málinu sé á því byggt að ekki hafi verið skylt að grenndarkynna byggingarleyfisumsóknina í upphafi þar sem grenndaráhrif smáhýsisins séu svo óveruleg að þau raski ekki hagsmunum kærenda né annarra íbúa að neinu leyti.  Synjun á ósk kærenda um grenndarkynningu síðar hafi því einnig verið fullkomlega heimil.  Bent sé á að smáhýsið sé aðeins um 20 m² og um fjórir metrar á hæð en á vettvangi sjáist glöggt að útsýniskerðing vegna þess sé engin og aðeins sjáist glitta í efri hluta þess úr fjarlægð.  Umrætt smáhýsi sé staðsett innarlega á lóðinni, varði aðeins hagsmuni lóðarhafa og ekki sé nokkur leið að sjá hvaða réttmætu athugasemdir kærendur hefðu getað haft uppi við grenndarkynningu hefði hún farið fram.  Á það skuli sérstaklega bent að grenndarkynning skuli fara fram skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 ef einhverjir finnast sem telja megi að hagsmuna hafi að gæta.  Það hafi verið mat skipulagsyfirvalda að engum hagsmunaaðilum hefði verið til að dreifa í málinu og því heimilt að samþykkja umsóknina án sérstakrar grenndarkynningar. 

Fari svo ólíklega að úrskurðarnefndin telji að hagsmunum kærenda hafi með einhverjum hætti verið raskað svo að kynna hefði átt þeim málið sérstaklega með grenndarkynningu skuli minnt á að eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar í nágrenni þeirra sem haft geti í för með sér útsýnisskerðingu, skuggavarp eða önnur óþægindi.  Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. 

Þá hafi sú aðgerð byggingarfulltrúa, að stöðva framkvæmdir tímabundið á meðan kvörtun kærenda og mögulegur grunur um mistök borgarinnar í málinu hafi verið uppi, verið fullkomlega eðlileg í ljósi aðstæðna.  Sú aðgerð að aflétta stöðvun hafi einnig verið réttmæt og eðlileg í ljósi minnisblaðs skipulagsstjóra, dags. 8. janúar sl. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að kærendur búi í meira en 60 m fjarlægð frá umræddum skúr sem sé fyrirferðarlítill, aðeins um 20 m² að flatarmáli og 4 m á hæð, sem leiði af sér hverfandi grenndaráhrif, jafnvel engin.  Vísi byggingarleyfishafi til 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 þar sem m.a. komi fram að í grenndarkynningu felist að nágrönnum sem hagsmuna eigi að gæta sé kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests sem skuli vera a.m.k. fjórar vikur. 

Vert sé að árétta að lóð nr. 9 við Bústaðaveg sé í ódeiliskipulögðu hverfi og að samræmisskýring kærenda á 2. mgr. 26. gr. laga nr. 73/1997 um breytingu á deiliskipulagi og 7. mgr. 43. gr. sömu laga eigi ekki við.  Það að kærendur geti fallist á að um óverulegar breytingar á deiliskipulagi sé að ræða eigi ekki við þar sem ekkert deiliskipulag hafi verið samþykkt fyrir svæðið.  Aftur á móti beri að grenndarkynna umsóknir á ódeiliskipulögðum svæðum fyrir þeim nágrönnum sem hagsmuna eigi að gæta og sé það afstaða byggingarleyfishafa að þeir grenndarhagsmunir séu ekki til staðar, þ.e. illmögulegt sé að tilgreina þá aðila sem hagsmuni geti haft af framkvæmdinni.  Framkvæmdin muni ekki fela í sér skert útsýni fyrir kærendur, hún sé ekki í óþægilegri nálægð við kærendur og muni hún ekki varpa skugga á lóðir þeirra eða á annan hátt skerða hagsmuni þeirra. 

Bent sé á að skúrinn gegni hlutverki mælistöðvar er mæli geislavirkar svifagnir í andrúmslofti og séu strangar kröfur gerðar um að finna staði er hæfi.  Vegi veðurfarsleg skilyrði hvað þyngst auk þess sem sjónlína þurfi að vera við gervihnött.  Hvað hávaða af notkun skúrsins varði, þá beri að taka það fram að byggingarleyfishafi hafi gert sérstaka kröfu til hönnuða um að tryggja að hávaði verði innan ásættanlegra marka, enda skúrinn nærri fjölmennum vinnustað.  Því sé alfarið vísað á bug að búnaðurinn hafi þann hávaða í för með sér að hann hafi áhrif á kærendur.  Þá sé talið nauðsynlegt að árétta að afgreiðsla skipulagsstjóra frá 4. apríl 2008, þar sem bókað hafi verið að byggingarleyfisumsókn yrði grenndarkynnt þegar hún bærist, hafi ekki verið stjórnvaldsákvörðun heldur leiðbeiningar sem stjórnvald hafi gefið fyrirspyrjanda.  Breytt afstaða skipulagsstjórans í Reykjavík feli ekki í sér afturköllun á stjórnvaldsákvörðun og sé stjórnvald í fullum rétti til að breyta afstöðu sinni telji það fyrri afstöðu ranga. 

—————

Aðilar hafa fært fram frekari rök í málinu sem ekki verða rakin hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangsskoðun:  Úrskurðarnefndin kynnti sér óformlega aðstæður á vettvangi hinn 20. febrúar 2009. 

Niðurstaða:  Lóð Veðurstofu Íslands, er hin umdeilda bygging stendur á, er á ódeiliskipulögðu svæði, en hún er skilgreind sem stofnanalóð í gildandi aðalskipulagi Reykjavíkur.  Um er að ræða mótaða byggð nærri miðju þéttbýli höfuðborgarsvæðisins en engar byggingar standa á milli fasteigna kærenda og umdeilds skúrs.

Reykjavíkurborg hefur krafist þess að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar eð kærendur hafi ekki neina lögvarða hagsmuni af því að fá úrskurð nefndarinnar í málinu. Við vettvangsskoðun kom í ljós að hin umdeilda bygging blasir við úr stofugluggum og frá suðurverönd fasteigna kærenda. Verður samkvæmt því að telja að kærendur hafi tvímælalaust lögvarða hagsmuni af úrlausn máls þessa þótt ekki verði hér tekin afstaða til þess hversu ríkir þeir hagsmunir eru. Verður því að hafna kröfu um frávísun málsins frá nefndinni.

Samkvæmt meginreglu, sem fram kemur í 2. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, skal gera deiliskipulag þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar.  Sú undantekning er gerð í 3. mgr. ákvæðisins, þegar um er að ræða þegar byggð hverfi, að sveitarstjórn getur veitt heimild til framkvæmda þótt deiliskipulag liggi ekki fyrir, en þá að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laganna.  Í því ákvæði kemur fram að grenndarkynning sé í því fólgin að nágrönnum, sem hagsmuna eiga að gæta, sé kynnt málið og gefinn kostur á að tjá sig innan ákveðins frests.  Hið kærða byggingarleyfi var veitt án þess að grenndarkynning hefði átt sér stað.  Hafa borgaryfirvöld skýrt þær málalyktir með því að grenndaráhrif byggingarinnar væru hverfandi. 

Telja verður eins og hér háttar að umrætt smáhýsi hafi grenndaráhrif.  Samkvæmt fyrirmælum 3. mgr. 23. gr., sbr. 7. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, bar því að grenndarkynna umrædda framkvæmd fyrir kærendum og öðrum hugsanlegum hagsmunaaðilum áður en hið kærða byggingarleyfi var veitt.  Sá annmarki að þess var ekki gætt leiðir til ógildingar byggingarleyfisins enda ekki útilokað að hugsanlegar athugasemdir nágranna hefðu getað haft áhrif á efni hinnar kærðu ákvörðunar. 

Að þeirri niðurstöðu fenginni þykir ekki ástæða til að fjalla um varakröfu kærenda í máli þessu. 

Úrskurðarorð:

Byggingarleyfi fyrir smáhýsi úr timbri á lóðinni að Bústaðavegi 9 í Reykjavík, er byggingarfulltrúi veitti hinn 6. maí 2008 og staðfest var í borgarráði hinn 15. maí sama ár, er fellt úr gildi.

 

 

___________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

_____________________________                  ____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

34/2008 Bergstaðir

Með

Ár 2009, föstudaginn 20. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 34/2008, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. október 2007 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í landi Bergstaða í Biskupstungum.  Jafnframt er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 18. mars 2008 um að samþykkja leyfi til byggingar frístundahúss á landspildu þeirri sem deiliskipulagið tekur til. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. maí 2008, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir B, eigandi landspildu með landnúmer 167201 í landi Bergstaða, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. október 2007 að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundahúsalóðir við Bergás í landi Bergstaða í Biskupstungum.  Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. apríl 2008.  Jafnframt er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 18. mars 2008, er sveitarstjórn staðfesti hinn 8. apríl s.á., um að samþykkja leyfi til byggingar frístundahúss á landspildu þeirri sem hin kærða skipulagsákvörðun tekur til.  Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 20. september 2007 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi þriggja frístundahúsalóða við Bergás, spildu með landnúmer 167203 úr landi Bergstaða í Biskupstungum, og staðfesti sveitarstjórn Bláskógabyggðar greinda afgreiðslu á fundi hinn 2. október s.á.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 16. nóvember 2007 til 14. desember s.á. en engar athugasemdir bárust og var skipulagið í framhaldi af því sent Skipulagsstofnun í samræmi við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Gerði Skipulagsstofnun ekki athugasemd við að gildistaka skipulagsins yrði auglýst og birtist sú auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. apríl 2008. 

Gerir deiliskipulagið ráð fyrir þremur frístundahúsalóðum, um 5.000 m² hverri, á spildu í landi Bergstaða með landnúmer 167203, og þar af fái eldra frístundahús á spildunni skilgreinda lóð.  Skulu frístundahús að jafnaði ekki vera stærri en 150 m².  Um aðkomu að svæðinu segir svo í greinargerð skipulagsins:  „Svæðið tengist með aðkomuleið frá safnvegi 358.  Aðkomuleið verður framlenging á núverandi heimreið að frístundahúsum og er sameign lóðarhafa.“  Eru vegir og bílastæði sýnd á uppdrætti. 

Hinn 18. mars 2008 var tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd umsókn um leyfi til byggingar 82 m² sumarhúss í landi Bergáss á Bergstöðum og hún samþykkt með fyrirvara um athugasemdir byggingarfulltrúa.  Staðfesti sveitarstjórn afgreiðsluna hinn 8. apríl 2008. 

Málsrök kæranda:  Kærandi tekur fram að hluti hins nýja vegar sé inni á landi hans.  Skerði vegurinn bæði aðkomu og bílastæði við sumarbústað hans og auki umferð.  Einnig fari lóð sem merkt sé nr. 3 í skipulaginu inn á landareign kæranda.  Meðal markmiða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. ákvæði 3. mgr. 1. gr. laganna og grein 1.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Hafi við gerð skipulagsins verið horft fram hjá skýrum ákvæðum jarðaskiptalýsingar sem allir eigendur Bergstaða hafi gert árið 2001.  Þá hafi tillagan ekki verið kynnt kæranda sérstaklega en eðlilegt hefði verið að gera það þar sem beinlínis sé um að ræða nýtingu á eignarrétti hans.  Vísar kærandi m.a. til ákvæða 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í því sambandi sem og til meginreglu tilvitnaðra laga. 

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að það hafi verið metið svo að auglýsingin hafi fullnægt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og skipulagið hafi ekki verið kynnt kæranda sérstaklega.  Í landi Bergstaða séu í gildi ákveðnar kvaðir um aðgengi að landi sem og leyfilegan fjölda frístundahúsa á mismunandi eignarhlutum og hafi verið talið að deiliskipulagið samræmdist þeim.  Ekki sé rétt að lóð nr. 3 fari inn á land kæranda sé miðað við landamerki samþykkts deiliskipulagsuppdráttar.  Þá verði umræddur vegur færður ef í ljós komi að hann fari inn á land kæranda. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að á uppdrætti nýs deiliskipulags virðist upptök hins nýja vegar liggja að hluta til inni á landi kæranda en eftir mælingar löggilts landmælingamanns hafi komið í ljós að svo væri ekki.  Í einu og öllu hafi verið staðið eðlilega að framkvæmdum á eignarlandinu og lögbýlinu Bergási, til að mynda við lagningu téðs einkavegar og við byggingu frístundahúss á spildunni.  Hafi byggingarleyfishafi í því ferli öllu staðið að framkvæmdum samkvæmt bestu vitund, farið að lögum og fylgt ráðleggingum löggiltra fagmanna og fyrirmælum þar til bærra stjórnvalda. 

—————

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 20. september 2007 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Bergstaða í Bláskógabyggð.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 2. október s.á. Tillagan var auglýst til kynningar frá 16. nóvember til 14. desember 2007 með athugasemdafresti til 28. desember s.á., án þess að athugasemdir bærust.  Var tekið fram í auglýsingunni að hver sá sem ekki gerði athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests teldist vera samþykkur henni.  Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi máls þessa hafi fyrst með bréfi til skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, dags. 25. apríl 2008, komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hins kærða deiliskipulags. 

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. 

Fyrrnefnd ákvæði skipulags- og byggingarlaga verða ekki skilin öðruvísi en svo að þeir sem ekki koma á framfæri athugasemdum sínum á auglýstum kynningartíma deiliskipulagstillögu teljist vera samþykkir henni og verður að leggja það til grundvallar í máli þessu.  Eins og atvikum er hér háttað verður ekki fallist á að kærandi, sem að lögum telst hafa verið samþykkur umdeildri skipulagstillögu, geti síðar haft uppi í kærumáli kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar, sem samþykkt hefur verið á grundvelli tillögunnar, án breytinga er varðað geta hagsmuni hans.  Ber því að vísa kröfu hans um ógildingu hins umdeilda deiliskipulags frá úrskurðarnefndinni. 

Kærandi hefur einnig kært ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 18. mars 2008 um leyfi til byggingar sumarhúss á landspildu þeirri er deiliskipulagið tekur til. 

Í máli þessu liggur fyrir að skipulags- og byggingarnefnd samþykkti leyfi til byggingar frístundahúss hinn 18. mars 2008 og var það staðfest af sveitarstjórn hinn 8. apríl s.á. eða sama dag og auglýsing um gildistöku ofangreinds skipulags var birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Samkvæmt 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað skulu birt fyrirmæli binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.  Af þeim sökum átti hið kærða byggingarleyfi sér ekki stoð í gildandi skipulagi svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 þegar ákvörðun um veitingu þess hlaut fullnaðarafgreiðslu í sveitarstjórn og verður það því fellt úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu deiliskipulags frístundabyggðar í landi Bergstaða í Biskupstungum, sem samþykkt var af sveitarstjórn Bláskógabyggðar 2. október 2007, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Hið kærða byggingarleyfi, er skipulags- og byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps samþykkti hinn 18. mars 2008, og sveitarstjórn staðfesti 8. apríl sama ár, er fellt úr gildi. 

 

 

_________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Aðalheiður Jóhannsdóttir

105/2008 Sléttuhlíð

Með

Ár 2009, miðvikudaginn 21. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 105/2008, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008 um að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 13. nóvember 2008, er barst úrskurðarnefndinni samdægurs, kærir K, Reykjavíkurvegi 39, Hafnarfirði, eigandi sumarbústaðar á lóðinni nr. B-6 í Sléttuhlíð í Hafnarfirði, þá ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008 að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð.  Hin kærða ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 28. október 2008. 

Kærandi krefst þess að hin kærða samþykkt verði felld úr gildi ásamt því að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.  Þykir málið nú tækt til lokaúrskurðar og verður því ekki fjallað sérstaklega um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda, en ekki er vitað til þess að þær séu hafnar. 

Málsatvik:  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 23. september 2008 var lögð fram umsókn um leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð, sem samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 er svæði fyrir frístundabyggð.  Samkvæmt deiliskipulagi svæðisins, sem samþykkt var á árinu 2007, er þar gert ráð fyrir 37 lóðum undir sumarhús.  Erindið hafði áður verið til umfjöllunar á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 17. sama mánaðar, sem vísaði því til skipulags- og byggingarráðs.  Var afgreiðslu ráðsins frestað.  Á fundi skipulags- og byggingarráðs hinn 7. október 2008 var eftirfarandi fært til bókar:  „Þar sem vafi leikur á túlkun á skilmálum skipulagsins óskar skipulags- og byggingarráð eftir umsögn lögfræðings skipulags- og byggingarsviðs og umsögn skipulagshöfundar.“  Á fundi ráðsins hinn 13. október 2008 var erindið tekið fyrir og var eftirfarandi bókað:  „Skipulags- og byggingarráð tekur jákvætt í erindið og felur skipulags- og byggingarsviði endanlega afgreiðslu málsins.  Jafnframt er sviðinu falið að gera tillögu að breytingu texta í greinargerð skipulags í kafla 3 til að gera hann skýrari.“  Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 15. október 2008 var erindið samþykkt og tekið fram að umsóknin samræmdist lögum nr. 73/1997.  Var framangreint staðfest á fundi bæjarstjórnar hinn 28. október s.á.

Hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er því haldið fram að með hinni kærðu samþykkt hafi Hafnarfjarðarbær brotið gegn Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 og samþykktu deiliskipulagi Sléttuhlíðar frá árinu 2007.  Í greinargerð aðalskipulags segi m.a. um svæðið:  „Svæði fyrir frístundabyggð er á svonefndu Sléttuhlíðarsvæði.  Tillaga að deiliskipulagi nær til um 230 ha svæðis og er hluti þess ætlaður undir eiginlega frístundabyggð.  Afmörkun svæðisins helgast af því að öll þau frístundahús sem eru í Sléttuhlíð og Klifsholti falli innan þess.  Í deiliskipulagstillögunni er gert ráð fyrir því að núverandi frístundabyggð sé viðahaldið og fest í sessi en ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.   Ákveðið hefur verið að þau örfáu stöku hús sem reist hafa verið utan aðal frístundasvæðisins fái að halda sér en ekki er gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið er.“  Þá segi í auglýsingu um samþykkt bæjarstjórnar á deiliskipulagi Sléttuhlíðar m.a:  „Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að núverandi frístundabyggð verði viðhaldið og fest í sessi en ekki er gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.“ 

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar:  Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar er vísað til þess að deiliskipulagstillaga fyrir Sléttuhlíð hafi verið í vinnslu á sama tíma og textinn í Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025 og þar sé vissulega gert ráð fyrir nýjum byggingum.  Það að „…núverandi frístundabyggð sé fest í sessi og ekki gert ráð fyrir frekari uppbyggingu“  vísi til þess að svæðið/frístundabyggðin verði ekki stækkað frá því sem það sé í dag.  Ákveðið hafi verið að bæta mætti við takmörkuðum fjölda sumarhúsa innan svæðisins og hafi öllum sumarhúsaeigendum margítrekað verið gerð grein fyrir því, bæði á kynningarfundum og í bréfum. 

Í greinargerð aðalskipulags varðandi svæðið segi m.a. eftirfarandi:  „…ekki er gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið er.“  Þetta vísi í raun aðeins til þeirra húsa sem séu utan frístundasvæðisins, m.a. húss í Gjánum sem sé á hverfisvernduðu svæði. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafa var veittur kostur á að tjá sig um kæruefnið en hann hefur ekki gert það. 

Niðurstaða:  Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2025, sem samþykkt var í bæjarstjórn 12. desember 2006, er í Sléttuhlíð gert ráð fyrir frístundabyggð.  Í greinargerð aðalskipulagsins er vísað til tillögu að deiliskipulagi fyrir svæðið og segir þar að gert sé ráð fyrir því að núverandi frístundabyggð sé viðhaldið og hún fest í sessi en ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.  Ákveðið hafi verið að þau örfáu, stöku hús sem reist hafi verið utan aðal frístundasvæðisins fái að halda sér en ekki sé gert ráð fyrir frekari mannvirkjagerð umfram það sem orðið sé.  Verður ekki annað ráðið af greinargerð aðalskipulagsins en að ekki sé gert ráð fyrir nýjum byggingum á svæðinu, en afar óheppilegt er að vísa til tillögu að deiliskipulagi í greinargerð aðalskipulags enda á deiliskipulagstillagan að byggja á aðalskipulaginu en ekki öfugt.  Að auki liggur ekki fyrir hvað nákvæmlega fólst í þeirri tillögu að deiliskipulagi svæðisins sem vísað var til þegar greinargerð aðalskipulagsins var samin eða samþykkt, en af gögnum málsins verður ráðið að fleiri en ein tillaga að deiliskipulagi hafi komið fram auk, þess sem breytingar hafi verið gerðar á endanlegri deiliskipulagstillögu meðan hún var til meðferðar hjá bæjaryfirvöldum.  Leiðir þetta til þess að túlka verður efni aðalskipulagsins eftir orðalagi þess texta sem fram kemur í greinargerð þess.

Misræmi er milli greinargerða aðalskipulags og deiliskipulags svæðisins, en skilja verður ákvæði deiliskipulagsins á þann veg að þar sé gert ráð fyrir nýjum byggingum, þrátt fyrir að kveðið sé á um hið gagnstæða í aðalskipulagi.  Þó segir í gildistökuauglýsingu deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 28. ágúst 2007 að deiliskipulagið geri ráð fyrir að núverandi frístundabyggð verði viðhaldið og hún fest í sessi en ekki sé gert ráð fyrir frekari uppbyggingu.  Leiðir þessi árétting í auglýsingunni til þess að vafi leikur á um það hvernig skýra beri heimildir deiliskipulagsins um nýjar byggingar á svæðinu.  Hafa ekki komið fram viðhlítandi skýringar á því misræmi sem er í skipulagsgögnum og að framan er lýst, en ákvörðun um deiliskipulag svæðisins hefur hvorki verið borin undir úrskurðarnefndina né dómstóla.  

Samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skulu framkvæmdir sem háðar eru byggingarleyfi vera í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Verður ekki séð að hin kærða ákvörðun samræmist ákvæðum í staðfestu aðalskipulagi og fullnægir hún því ekki framangreindum lagaskilyrðum 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Leiðir sá annmarki til ógildingar.

Að auki skortir á að umdeilt byggingarleyfi samræmist skilmálum deiliskipulags um hámarksflatarmál bygginga á lóð, sem má mest vera 100 m², en samkvæmt skráningartöflu er fyrirhugað hús 100 m² auk 20 m² gestahúss og er heildarflatarmál bygginga á lóðinni því 120 m².  Myndi þetta misræmi eitt og sér hafa leitt til ógildingar þótt ekki hefðu verið þeir annmarkar á framsetningu skipulags sem að framan er lýst.

Með vísan til framanritaðs verður hin kærða ákvörðun ógilt. 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðarbæjar frá 15. október 2008, um að veita leyfi til að byggja sumarhús á lóðinni nr. C-O í Sléttuhlíð, er felld úr gildi.   

 

__________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________   ______________________________
Ásgeir Magnússon                                     Þorsteinn Þorsteinsson

68/2008 Helguvík

Með

Ár 2009, föstudaginn 9. janúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Geir Oddsson auðlindafræðingur, Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2008, kæra Náttúruverndarsamtaka Íslands á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 1. ágúst 2008, er barst nefndinni sama dag, kæra Náttúruverndarsamtök Íslands þær ákvarðanir sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

Af hálfu kæranda er þess krafist að hinar kærðu ákvarðanir verið felldar úr gildi.  Þá krafðist kærandi þess einnig að framkvæmdir yrðu stöðvaðar þar til málið hefði verið til lykta leitt, sbr. 6. mgr. 8. gr. skipulags og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Hafnaði úrskurðarnefndin þeirri kröfu með úrskurði, uppkveðnum 4. september 2008.

Málavextir:  Um nokkurt skeið hefur verið unnið að undirbúningi byggingar álvers í Helguvík á Reykjanesi.  Af því tilefni var tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Gerðahrepps 1998-2008 (Sveitarfélagsins Garðs) auglýst hinn 6. september 2007 og öðlaðist breytingin gildi við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 17. desember 2007.  Deiliskipulag svæðisins, innan Sveitarfélagsins Garðs, var samþykkt í sveitarstjórn 30. janúar 2008 og öðlaðist það gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 26. febrúar s.á.

Jafnframt var tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Reykjanesbæjar 1995-2015 vegna framkvæmdarinnar auglýst hinn 1. maí 2007 og öðlaðist sú breyting gildi við auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 17. desember 2007.  Deiliskipulag svæðisins, innan Reykjanesbæjar, var samþykkt í sveitarstjórn 5. febrúar 2008 og öðlaðist gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 12. mars s.á.

Á sama tíma og unnið var að gerð framangreindra skipulagsáætlana vegna fyrirhugaðs álvers var unnið að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Var Skipulagsstofnun send frummatsskýrsla um byggingu og rekstur álvers í Helguvík hinn 14. maí 2007 og var hún tekin til lögboðinnar meðferðar hjá stofnuninni.  Hinn 3. september 2007 sendi framkvæmdaraðili Skipulagsstofnun endanlega matsskýrslu og gaf stofnunin lögbundið álit sitt á matsskýrslunni og efni hennar 4. október 2007.  Kemur m.a. fram í álitinu að ekki hafi verið talið verjandi að krefjast þess að metin yrðu samtímis umhverfisáhrif álverksmiðjunnar sjálfrar og tengdra framkvæmda í ljósi þess hve mikil óvissa ríkti um hvaðan og eftir hvaða leiðum orka bærist álverinu.

Með bréfi, dags. 11. október  2007, kærði Landvernd til umhverfisráðherra þá ákvörðun Skipulagsstofnunar að krefjast þess ekki að metin yrðu samtímis umhverfisáhrif álverksmiðjunnar sjálfrar og tengdra framkvæmda.  Lauk meðferð þess kærumáls með úrskurði umhverfisráðherra, uppkveðnum 3. apríl 2008, þar sem hin kærða ákvörðun Skipulagsstofnunar var staðfest.

Með bréfi, dags. 7. mars 2008, til byggingarnefndar álvers í Helguvík, sem sveitarfélögin tvö höfðu sett á stofn til að annast byggingarmál á svæðinu, sótti Norðurál um byggingarleyfi fyrir álverinu.  Umsóknin gerði ráð fyrir að framkvæmdinni yrði skipt í áfanga og að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir einstökum hlutum hennar á hverjum tíma.  Tók umsóknin til fyrsta áfanga kerskála og tengdra framkvæmda, þ.e. girðingar, nauðsynlegra jarðvegsframkvæmda og byggingar bráðabirgðaraðstöðu og athafnasvæðis fyrir verktaka.

Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á fundi sameiginlegrar byggingarnefndar álvers í Helguvík hinn 10. mars 2008.  Var afgreiðsla byggingarnefndarinnar staðfest á bæjarstjórnarfundum í báðum sveitarfélögunum 12. mars 2008 og bókað um afstöðu sveitarfélaganna til álits Skipulagsstofnunar frá 4. október 2007 um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Byggingarleyfi var gefið út 13. mars 2008, og birtu sveitarfélögin auglýsingu um afgreiðslur sínar 27. mars s.á.

Þessar ákvarðanir kærðu Náttúruverndarsamtök Íslands til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 26. mars 2008.  Við frumathugun á því máli kom fram vafi um hvort lagaheimild hefði verið til stofnunar sérstakrar byggingarnefndar vegna álversins með þeim hætti sem gert hefði verið með samkomulagi Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs hinn16. janúar 2007.

Til að eyða óvissu um framangreint var leyfisveitingin tekin upp að nýju hjá báðum sveitarfélögunum.  Var umsókn Norðuráls Helguvík sf. samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar Garðs 2. júlí 2008 og var sú afgreiðsla nefndarinnar staðfest á fundi sveitarstjórnar 3. júlí 2008.  Jafnframt var fyrri samþykkt afturkölluð.  Umsóknin var einnig samþykkt á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar 2. júlí 2008 og staðfest á fundi bæjarráðs í umboði sveitarstjórnar 3. júlí 2008.

Skaut kærandi þessum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar með bréfi, dags. 1. ágúst 2008, svo sem að framan greinir.  Fyrri kæru sína afturkallaði hann síðan með bréfi, dags. 13. ágúst 2008.   

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á það bent að framkvæmdir hafi verið hafnar á grundvelli byggingarleyfa frá 12. mars 2008 sem síðar hafi verið dregin til baka enda hafi þau verið ólögmæt.  Þar með sé ljóst að framkvæmdirnar hafi í upphafi verið ólöglegar.  Þetta skipti máli við mat á lögmæti ákvarðana leyfisveitenda.

Af hálfu kæranda er einnig á það bent að í áliti Skipulagsstofnunar um álver í Helguvík séu gerðir þrír fyrirvarar sem leyfisveitendum sé gert að horfa til við útgáfu leyfa.  Fyrirvarar Skipulagsstofnunar varði óvissu varðandi orkuöflun, orkuflutninga og losunarheimildir fyrir gróðurhúsalofttegundir, en til þessara fyrirvara hafi leyfisveitendur ekki tekið fullnægjandi afstöðu er hinar kærðu ákvarðanir hafi verið teknar.

Útgáfa framkvæmdaleyfisins (byggingarleyfis) uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum en þar komi fram að við útgáfu framkvæmdaleyfis skuli taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar.  Þegar lög mæli fyrir um að rök séu sett fram hljóti það að vera vilji löggjafans að röksemdafærslan standist skoðun og að framsett rök séu í það minnsta jafn veigamikil og rökin sem þeim sé ætlað að hrekja.  Það sé mat Náttúruverndarsamtaka Íslands að svo sé ekki í þessu tilfelli.

Hvað orkuöflun varði megi ljóst vera að samningur tveggja fyrirtækja geti ekki skuldbundið landeigendur og sveitarfélög til þess að láta af hendi auðlindir sínar.  Orkusamningur Norðuráls og Hitaveitu Suðurnesja breyti engu um þá óvissu sem ríki um orkuöflun og ekki sé því hægt að fallast á rök leyfisveitenda hvað þetta varði.

Um rök er varði orkuflutninga gegni sama máli.  Tilvísun í samning Norðuráls og Landsnets feli ekki í sér fullnægjandi rök til þess að ganga á svig við álit Skipulagsstofnunar.  Samningar þessara tveggja fyrirtækja geti ekki rýrt rétt landeigenda og geri sveitarfélög ekki á nokkurn hátt skuldbundin til þess að breyta skipulagsáætlunum sínum.  Verði að gera ríkari kröfur til röksemdafærslu en hér hafi verið gert þegar ganga eigi gegn áliti Skipulagsstofnunar.

Loks ríki óvissa um heimildir fyrirhugaðs álvers til losunar gróðurhúsalofttegunda og verði að telja hæpið að byggingarleyfi fyrir álver í Helguvík standist lög um losun þeirra.

Málsrök Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs:  Af hálfu sveitarfélaganna er mótmælt þeirri staðhæfingu kæranda að ekki hafi verið tekin rökstudd afstaða til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar.  Þvert á móti hafi sveitarstjórnirnar tekið rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar með ítarlegum bókunum við afgreiðslu málsins og hafi sú afgreiðsla þeirra verið auglýst.  Bæði sveitarfélögin hafi fallist á þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar að fyrirhugað álver í Helguvík muni ekki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi eða samfélag.

Þó það sé ekki fyllilega skýrt í kæru virðist kærandi byggja á því að sveitarfélögin hefðu þurft að rökstyðja betur afstöðu sína til meintrar óvissu um orkuöflun, orkuflutninga og losunarheimildir.  Á þetta verði ekki fallist.  Hvað orkuöflun varði þá hafi Skipulagsstofnun ekki sett skilyrði er lúti að henni en bent sveitarfélögunum á að huga að þessu atriði og hafi það verið gert.  Um flutning raforku segi Skipulagsstofnun í áliti sínu að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins þar til niðurstaða liggi fyrir.  Fullt tillit hafi verið tekið til þessarar ábendingar við afgreiðslu málsins.  Loks hafi sveitarfélögin ekki talið forsendur til að synja eða fresta afgreiðslu byggingarleyfisins á þeim grunni að starfsemin hefði að svo stöddu ekki losunarheimildir.

Því hafi verið hafnað að meta þyrfti umhverfisáhrif tengdra framkvæmda samhliða áhrifum álversbyggingarinnar.  Að auki sé vandséð að heimilt hefði verið að fresta afgreiðslu umsókna um byggingarleyfi fyrir álverinu þótt óvissa hafi verið um orkuöflun, orkuflutning og losunarheimildir.  Engin lagastoð hefði verið fyrir slíkri ákvörðun.

Málsrök Norðuráls Helguvík sf:  Af hálfu leyfishafans Norðuráls Helguvík sf. er á það bent að útgáfa byggingarleyfa, dags. 3. júlí 2008, vegna álvers í Helguvík hafi verið í samræmi við aðal- og deiliskipulag sveitarfélaganna Reykjanesbæjar og Garðs, sbr. auglýstar skipulagstillögur 1. maí 2007 og 6. september 2007.  Ekki sé vitað til að athugasemdir hafi verið gerðar við auglýsingar um skipulagstillögur svo sem heimilt sé að gera samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og hafi skipulagstillögurnar hlotið lögboðna meðferð.

Túlka verði kröfu kæranda í málinu á þann veg að hann telji ákvarðanir sveitarstjórna Garðs og Reykjanesbæjar vera haldnar formannmarka hvað varði framsetningu rökstuðnings, sem leiða eigi til ógildingar stjórnvaldsákvörðunar.  Leyfishafi mótmæli því eindregið að ákvarðanir um útgáfu byggingarleyfa séu haldnar nokkrum þeim annmörkum sem leiða eigi til þess að þær beri að ógilda.  Athygli sé vakin á því sem talið hafi verið gilda í íslenskum stjórnsýslurétti að annmarki á samhliða rökstuðningi stjórnvaldsákvörðunar geti einungis leitt til þess að íþyngjandi ákvarðanir geti sætt ógildingu.  Ákvörðun um útgáfu byggingarleyfis geti varla talist vera íþyngjandi gagnvart kæranda í málinu, þar sem hann eigi engra annarra hagsmuna að gæta en þeirra sem löggjafinn kunni að hafa veitt honum með sérstakri kæruheimild samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. 

Árétta verði að á grundvelli 78. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, sbr. og einkum 16., 23. og 44. gr. skipulags- og byggingarlaga fari sveitarfélög með skipulagsvald hér á landi.  Álit Skipulagsstofnunar sé lögbundið álit sem liggja verði fyrir áður en byggingarleyfi sé gefið út en slíkt álit bindi ekki hendur sveitarfélags samkvæmt 8. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga, sbr. og athugasemdir í greinargerð með 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.  Í málinu liggi fyrir ákvarðanir sveitarfélaga um útgáfu byggingarleyfis sem teknar hafi verið á grundvelli gildandi aðal- og deiliskipulags.  Þetta vald verði, hvorki af Skipulagsstofnun né öðrum aðilum, tekið af sveitarfélögum nema skýr lagaheimild standi til þess.  Slíka lagaheimild sé ekki að finna að íslenskum rétti.

Bent sé á að Skipulagsstofnun hafi fallist á framkvæmdina og talið að hún myndi hvorki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi né samfélag.  Hafi sveitarfélögin tekið undir þetta með útgáfu byggingarleyfa.  Í niðurstöðum Skipulagsstofnunar sé að finna ábendingar eða tilmæli til sveitarfélaganna um að huga að vissum þáttum áður en byggingarleyfi verði veitt fyrir álveri, hvað varði virkjanakosti raforku, flutning hennar til álversins og nauðsyn þess að tryggja losunarheimildir samkvæmt lögum nr. 65/2007.  Í afgreiðslu bæjarstjórna Reykjanesbæjar og Garðs hafi sérstaklega verið tekið á þessum atriðum og rökstutt hvers vegna sveitarfélögin hafi álitið að þessi atriði stæðu ekki í vegi útgáfu byggingarleyfis.

—————-

Aðilar hafa fært fram frekari rök fyrir máli sínu sem ekki verða rakin frekar í úrskurði þessum. 

Vettvangsganga:  Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 10. júní 2008 við meðferð fyrra kærumáls um hinar umdeildu framkvæmdir.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvarðana sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi.  Leyfin tengjast framkvæmdum sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum og bar því við töku hinna kærðu ákvarðana að gæta ákvæðis 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum m.s.br. þar sem segir að við útgáfu leyfis til framkvæmdar skv. 1. mgr. skuli leyfisveitandi kynna sér matsskýrslu framkvæmdaraðila um framkvæmdina og taka rökstudda afstöðu til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum hennar.

Við afgreiðslu á umsóknum leyfishafa um hin umdeildu byggingarleyfi lá fyrir álit Skipulagsstofnunar um matsskýrslu framkvæmdaraðila um umrædda framkvæmd, dags. 4. október 2007.  Samkvæmt álitinu telur Skipulagsstofnun að matsskýrsla Norðuráls Helguvík sf. hafi uppfyllt skilyrði laga og reglugerðar um mat á umhverfisáhrifum hvað varði þau atriði sem getið sé í 18. gr. reglugerðar nr. 1123/2005.  Einnig telur stofnunin að í matsskýrslu sé gerð grein fyrir athugasemdum og umsögnum sem borist hafi á kynningartíma frummatskýrslu og hafi þeim verið svarað.  Segir í lok álitsins að Skipulagsstofnun telji að fyrirhugað álver Norðuráls Helguvík sf., með fyrirvara um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda, muni ekki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi og samfélag.

Í áliti Skipulagsstofnunar kemur jafnframt fram að stofnunin telji að sveitarfélögin þurfi að huga vel að þeirri stöðu sem uppi sé varðandi orkuöflun fyrir álverið þegar komi að leyfisveitingum og að vegna óvissu um flutningsleiðir raforku þurfi sveitarfélögin að huga að því hvort bíða eigi með leyfisveitingar fyrir byggingu álversins þar til niðurstaða liggi fyrir.  Ennfremur segir að Skipulagsstofnun telji að áður en Norðuráli Helguvík sf. verði veitt framkvæmda- og byggingarleyfi þurfi að liggja fyrir hvort fyrirtækið fái þær losunarheimildir sem það þurfi eða að það hafi sýnt veitanda losunarheimilda fram á hvernig losun gróðurhúsalofttegunda verði mætt.  Er af hálfu kæranda aðallega á því byggt að sveitarstjórnir Garðs og Reykjanesbæjar hafi ekki tekið með fullnægjandi hætti rökstudda afstöðu til framangreindra þátta í áliti Skipulagsstofnunar og því hafi ekki verið fullnægt skilyrði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 106/2000.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000 m.s.br. skal Skipulagsstofnun gefa rökstutt álit sitt á því hvort matsskýrsla uppfylli skilyrði laga nr. 106/2000 og reglugerða settra samkvæmt þeim og að umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt.  Í áliti Skipulagsstofnunar skal jafnframt gera grein fyrir helstu forsendum matsins, þ.m.t. gildi þeirra gagna sem liggja til grundvallar matinu, og niðurstöðum þess.  Jafnframt skal í álitinu fjalla um afgreiðslu framkvæmdaraðila á þeim athugasemdum og umsögnum sem bárust við kynningu á frummatsskýrslu.  Verður að telja að í fyrirliggjandi áliti hafi Skipulagsstofnun fullnægt þeim kröfum sem settar eru fram í tilvitnuðu ákvæði.

Í 2. mgr. 11. gr. segir síðan að telji Skipulagsstofnun að setja þurfi frekari skilyrði fyrir framkvæmdinni eða gera þurfi aðrar, eða frekari mótvægisaðgerðir en fram komi í matsskýrslu, skuli stofnunin tilgreina skilyrðin og mótvægisaðgerðirnar og færa rök fyrir þeim.

Ekki verður talið að ábendingar Skipulagsstofnunar um að huga þurfi að orkuöflun og línulögnum, og að losunarheimildir þurfi að liggja fyrir, geti fallið undir heimildir stofnunarinnar til að setja skilyrði eða mæla fyrir um mótvægisaðgerðir á grundvelli 2. mgr. 11. gr. laga nr. 106/2000, enda lúta þessar ábendingar að framkvæmdaþáttum sem ekki er fjallað um í matsskýrslu þeirri sem álitið tekur til.  Var það niðurstaða Skipulagsstofnunar á sínum tíma að krefjast ekki sameiginlegs mats á umhverfisáhrifum álversins og tengdra framkvæmda og var sú ákvörðun staðfest með úrskurði umhverfisráðherra hinn 3. apríl 2008.  Þykir það ekki samræmast þeirri niðurstöðu að gera síðar, í áliti um matsskýrslu sem einungis tekur til mannvirkjagerðar innan lóðar álversins, áskilnað um að leyfisveitingum verði frestað með vísan til þeirra atvika sem að framan greinir.  Var því ekki þörf á að færð væru fram frekari rök gegn téðum sjónarmiðum Skipulagsstofnunar en gert var við töku hinna kærðu ákvarðana.  Verður þvert á móti að telja að rökstuðningur leyfisveitenda hafi verið fullnægjandi í hinu kærða tilviki, enda lá fyrir að Skipulagsstofnun taldi að þær framkvæmdir við álver Norðuráls Helguvík sf. sem matsskýrslan tekur til myndu ekki valda verulegum neikvæðum og óafturkræfum áhrifum á umhverfi og samfélag.  Kemur sú afstaða fram í lokamálsgrein álits stofnunarinnar en þar er jafnframt gerður fyrirvari um umhverfisáhrif tengdra framkvæmda.  Engin lagaheimild er fyrir slíkum fyrirvara og var leyfisveitendum rétt að líta framhjá honum svo sem gert var.

Ekki skiptir máli þótt leyfi þau sem voru grundvöllur að upphafi framkvæmda við byggingu álversins, og veitt voru hinn 12. mars 2008, kunni að hafa verið ólögmæt, enda voru framkvæmdirnar í samræmi við gildandi aðal- og deiliskipulag og féllu því ekki undir 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Var sveitarfélögum þeim sem hlut áttu að máli því heimilt að bæta úr hugsanlegum annmörkum á leyfunum og veita þau að nýju með þeim hætti sem gert var og hefur nefndur undanfari hinna kærðu ákvarðana engin áhrif á lögmæti þeirra.

Samkvæmt því sem að framan er rakið verður ekki fallist á að hinar kærðu ákvarðanir hafi verið haldnar neinum þeim annmörkum er leiða eigi til ógildingar og verður kröfu kæranda því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikilla anna hjá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðunum sveitarstjórnar Garðs og bæjarráðs Reykjanesbæjar frá 3. júlí 2008 um að veita leyfi til byggingar álvers og tengdra mannvirkja í Helguvík á Reykjanesi. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

_____________________________                  ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                   Geir Oddsson

 

____________________________                    _____________________________
Geirharður Þorsteinsson                                         Þorsteinn Þorsteinsson