Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

34/2008 Bergstaðir

Ár 2009, föstudaginn 20. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent. 

Fyrir var tekið mál nr. 34/2008, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. október 2007 um að samþykkja deiliskipulag frístundabyggðar í landi Bergstaða í Biskupstungum.  Jafnframt er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 18. mars 2008 um að samþykkja leyfi til byggingar frístundahúss á landspildu þeirri sem deiliskipulagið tekur til. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. maí 2008, er barst nefndinni 8. sama mánaðar, kærir B, eigandi landspildu með landnúmer 167201 í landi Bergstaða, þá ákvörðun sveitarstjórnar Bláskógabyggðar frá 2. október 2007 að samþykkja deiliskipulag fyrir frístundahúsalóðir við Bergás í landi Bergstaða í Biskupstungum.  Var auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. apríl 2008.  Jafnframt er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps frá 18. mars 2008, er sveitarstjórn staðfesti hinn 8. apríl s.á., um að samþykkja leyfi til byggingar frístundahúss á landspildu þeirri sem hin kærða skipulagsákvörðun tekur til.  Gerir kærandi þá kröfu að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. 

Málavextir:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 20. september 2007 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi þriggja frístundahúsalóða við Bergás, spildu með landnúmer 167203 úr landi Bergstaða í Biskupstungum, og staðfesti sveitarstjórn Bláskógabyggðar greinda afgreiðslu á fundi hinn 2. október s.á.  Tillagan var auglýst til kynningar frá 16. nóvember 2007 til 14. desember s.á. en engar athugasemdir bárust og var skipulagið í framhaldi af því sent Skipulagsstofnun í samræmi við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Gerði Skipulagsstofnun ekki athugasemd við að gildistaka skipulagsins yrði auglýst og birtist sú auglýsing í B-deild Stjórnartíðinda hinn 8. apríl 2008. 

Gerir deiliskipulagið ráð fyrir þremur frístundahúsalóðum, um 5.000 m² hverri, á spildu í landi Bergstaða með landnúmer 167203, og þar af fái eldra frístundahús á spildunni skilgreinda lóð.  Skulu frístundahús að jafnaði ekki vera stærri en 150 m².  Um aðkomu að svæðinu segir svo í greinargerð skipulagsins:  „Svæðið tengist með aðkomuleið frá safnvegi 358.  Aðkomuleið verður framlenging á núverandi heimreið að frístundahúsum og er sameign lóðarhafa.“  Eru vegir og bílastæði sýnd á uppdrætti. 

Hinn 18. mars 2008 var tekin fyrir í skipulags- og byggingarnefnd umsókn um leyfi til byggingar 82 m² sumarhúss í landi Bergáss á Bergstöðum og hún samþykkt með fyrirvara um athugasemdir byggingarfulltrúa.  Staðfesti sveitarstjórn afgreiðsluna hinn 8. apríl 2008. 

Málsrök kæranda:  Kærandi tekur fram að hluti hins nýja vegar sé inni á landi hans.  Skerði vegurinn bæði aðkomu og bílastæði við sumarbústað hans og auki umferð.  Einnig fari lóð sem merkt sé nr. 3 í skipulaginu inn á landareign kæranda.  Meðal markmiða skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé að tryggja réttaröryggi í meðferð skipulags- og byggingarmála þannig að réttur einstaklinga og lögaðila verði ekki fyrir borð borinn þótt hagur heildarinnar sé hafður að leiðarljósi, sbr. ákvæði 3. mgr. 1. gr. laganna og grein 1.1 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.  Hafi við gerð skipulagsins verið horft fram hjá skýrum ákvæðum jarðaskiptalýsingar sem allir eigendur Bergstaða hafi gert árið 2001.  Þá hafi tillagan ekki verið kynnt kæranda sérstaklega en eðlilegt hefði verið að gera það þar sem beinlínis sé um að ræða nýtingu á eignarrétti hans.  Vísar kærandi m.a. til ákvæða 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 í því sambandi sem og til meginreglu tilvitnaðra laga. 

Málsrök Bláskógabyggðar:  Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að það hafi verið metið svo að auglýsingin hafi fullnægt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og skipulagið hafi ekki verið kynnt kæranda sérstaklega.  Í landi Bergstaða séu í gildi ákveðnar kvaðir um aðgengi að landi sem og leyfilegan fjölda frístundahúsa á mismunandi eignarhlutum og hafi verið talið að deiliskipulagið samræmdist þeim.  Ekki sé rétt að lóð nr. 3 fari inn á land kæranda sé miðað við landamerki samþykkts deiliskipulagsuppdráttar.  Þá verði umræddur vegur færður ef í ljós komi að hann fari inn á land kæranda. 

Málsrök byggingarleyfishafa:  Byggingarleyfishafi bendir á að á uppdrætti nýs deiliskipulags virðist upptök hins nýja vegar liggja að hluta til inni á landi kæranda en eftir mælingar löggilts landmælingamanns hafi komið í ljós að svo væri ekki.  Í einu og öllu hafi verið staðið eðlilega að framkvæmdum á eignarlandinu og lögbýlinu Bergási, til að mynda við lagningu téðs einkavegar og við byggingu frístundahúss á spildunni.  Hafi byggingarleyfishafi í því ferli öllu staðið að framkvæmdum samkvæmt bestu vitund, farið að lögum og fylgt ráðleggingum löggiltra fagmanna og fyrirmælum þar til bærra stjórnvalda. 

—————

Aðilar máls þessa hafa fært fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Niðurstaða:  Á fundi skipulagsnefndar uppsveita Árnessýslu hinn 20. september 2007 var samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Bergstaða í Bláskógabyggð.  Var samþykktin staðfest á fundi sveitarstjórnar hinn 2. október s.á. Tillagan var auglýst til kynningar frá 16. nóvember til 14. desember 2007 með athugasemdafresti til 28. desember s.á., án þess að athugasemdir bærust.  Var tekið fram í auglýsingunni að hver sá sem ekki gerði athugasemdir við tillöguna innan tilskilins frests teldist vera samþykkur henni.  Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að kærandi máls þessa hafi fyrst með bréfi til skipulagsfulltrúa uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps, dags. 25. apríl 2008, komið á framfæri athugasemdum sínum vegna hins kærða deiliskipulags. 

Í 25. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að þegar sveitarstjórn hefur samþykkt að auglýsa tillögu að deiliskipulagi skuli hún auglýst og kynnt á sama hátt og kveðið er á um varðandi auglýsingu aðalskipulags í 1. og 2. mgr. 18. gr. laganna.  Þar segir m.a. að í auglýsingu skuli hverjum þeim aðila sem telji sig eiga hagsmuna að gæta gefinn kostur á að gera athugasemdir við tillöguna innan ákveðins frests sem eigi skuli vera skemmri en sex vikur frá birtingu auglýsingar.  Taka skuli fram hvert skila skuli athugasemdum og að hver sá sem eigi geri athugasemdir við auglýsta tillögu innan tilskilins frests teljist samþykkur henni. 

Fyrrnefnd ákvæði skipulags- og byggingarlaga verða ekki skilin öðruvísi en svo að þeir sem ekki koma á framfæri athugasemdum sínum á auglýstum kynningartíma deiliskipulagstillögu teljist vera samþykkir henni og verður að leggja það til grundvallar í máli þessu.  Eins og atvikum er hér háttað verður ekki fallist á að kærandi, sem að lögum telst hafa verið samþykkur umdeildri skipulagstillögu, geti síðar haft uppi í kærumáli kröfu um ógildingu skipulagsákvörðunar, sem samþykkt hefur verið á grundvelli tillögunnar, án breytinga er varðað geta hagsmuni hans.  Ber því að vísa kröfu hans um ógildingu hins umdeilda deiliskipulags frá úrskurðarnefndinni. 

Kærandi hefur einnig kært ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 18. mars 2008 um leyfi til byggingar sumarhúss á landspildu þeirri er deiliskipulagið tekur til. 

Í máli þessu liggur fyrir að skipulags- og byggingarnefnd samþykkti leyfi til byggingar frístundahúss hinn 18. mars 2008 og var það staðfest af sveitarstjórn hinn 8. apríl s.á. eða sama dag og auglýsing um gildistöku ofangreinds skipulags var birt í B-deild Stjórnartíðinda.  Samkvæmt 8. gr. laga nr. 15/2005 um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblað skulu birt fyrirmæli binda alla frá og með deginum eftir útgáfudag þeirra Stjórnartíðinda þar sem fyrirmælin voru birt ef þau geyma ekki aðrar ákvarðanir um gildistöku sína.  Af þeim sökum átti hið kærða byggingarleyfi sér ekki stoð í gildandi skipulagi svo sem áskilið er í 2. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997 þegar ákvörðun um veitingu þess hlaut fullnaðarafgreiðslu í sveitarstjórn og verður það því fellt úr gildi. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kröfu um ógildingu deiliskipulags frístundabyggðar í landi Bergstaða í Biskupstungum, sem samþykkt var af sveitarstjórn Bláskógabyggðar 2. október 2007, er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

Hið kærða byggingarleyfi, er skipulags- og byggingarnefnd uppsveita Árnessýslu og Flóahrepps samþykkti hinn 18. mars 2008, og sveitarstjórn staðfesti 8. apríl sama ár, er fellt úr gildi. 

 

 

_________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

______________________________               _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                          Aðalheiður Jóhannsdóttir