Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

147/2007 Smábýli 15A

Ár 2009, fimmtudagur 26. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mætt voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 147/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. október 2007 um að synja um leyfi fyrir byggingu stálgrindarhúss á lóð Smábýlis nr. 15A, Kjalarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 30. október 2007, er barst nefndinni hinn 2. nóvember s.á., kærir S, eigandi lóðarinnar Smábýli nr. 15A, Kjalarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. október 2007 að synja um leyfi fyrir byggingu stálgrindarhúss á steyptum sökklum undir hesthús, reiðskemmu og vélageymslu á lóðinni.

Skilja verður kröfugerð kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Málavextir:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 2. október 2007 var lögð fram umsókn kæranda um leyfi til að byggja stálgrindarhús á steyptum sökklum sem nýtt yrði sem hesthús, reiðskemma og vélageymsla á lóð Smábýlis nr. 15A á Kjalarnesi.  Var málinu frestað og því vísað til umsagnar skipulagsstjóra Reykjavíkurborgar er afgreiddi það á fundi sínum hinn 5. október 2007 með svohljóðandi bókun:  „Neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 5.10.07.“  Hinn 9. s.m. var umsóknin tekin fyrir að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa og eftirfarandi bókað:  „Synjað.  Samræmist ekki skipulagsskilmálum sbr. umsögn skipulagsstjóra dags. 5. október 2007.“  Greind afgreiðsla var staðfest í borgarráði hinn 18. október 2007.

Hefur kærandi kært ofangreinda afgreiðslu eins og fyrr greinir.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi fyrr á árinu 2007 lagt fram umsókn er fól í sér ósk um heimild til að byggja geymsluhúsnæði á lóð Smábýlis nr. 15A.  Hafi þeirri umsókn verið hafnað með þeim rökstuðningi að umrætt svæði væri skipulagt sem landbúnaðarsvæði.  Synjun sú er nú hafi verið kærð hafi hins vegar verið byggð á þeim forsendum að umsókn um byggingarleyfi teldist ekki samræmast skipulagsskilmálum, sbr. umsögn skipulagsstjóra frá 5. október 2007.  Ofangreindar synjanir séu ekki í samræmi við hvora aðra.  Þá sé bent á að á næstu lóð, Sætúni 1, sé verið að selja lóðir sem séu samkvæmt skipulagi bæði ætlaðar fyrir iðnaðar- og íbúðarhúsnæði og sé slíkt í hrópandi ósamræmi við fyrrgreindar synjanir.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfum kæranda verði hafnað.  Bent sé á að á næstu lóð sé í gildi deiliskipulag fyrir Sætún 1 sem ekki hafi verið kært til nefndarinnar.  Þar komi fram að ekkert hafi verið byggt upp fyrir landbúnað á umræddu svæði í langan tíma og að hugmyndir um landnýtingu hafi þróast í aðrar áttir samfara stækkun Reykjavíkur og áformum um byggingu Sundabrautar upp á Kjalarnes.  Hafi umhverfisráðuneytið veitt undanþágu frá reglum um fjarlægðarmörk svo að heimilt yrði að byggja í samræmi við deiliskipulagið.

Borgaryfirvöld vísa til umsagnar skipulagsfulltrúa frá 5. október 2007 en þar komi m.a. fram að umrætt Smábýli nr. 15A sé í næsta nágrenni við tvö kjúklingabú og innan fjarlægðartakmarkana sem banni óskylda starfsemi nær búunum en 500 metra.

Áður hafi verið hafnað umsókn um að reisa atvinnuskemmu fyrir starfsemi óskylda búrekstri á smábýlinu.  Hafi það hús hvorki verið í samræmi við deiliskipulagstillögur um smábýli á svæðinu né skilgreiningu aðalskipulags um landnotkun, en þar segi að staðsetja eigi vöruskemmur á skilgreindum athafnasvæðum en ekki á dreifðum bújörðum við jaðar höfuðborgarinnar.

Ekki verði betur séð en verið sé að sækja um sama hús og áður hafi verið hafnað.  Húsið hafi öll einkenni atvinnuskemmu líkt og fyrri tillaga.  Hæð þess, mögulegar vöruhurðir og bílastæði séu þau sömu og áður þó þau séu sýnd með öðrum hætti á tillögunni.  Stærð hússins sem hesthús og reiðskemma sé heldur ekki í góðu samhengi við landkosti smábýlisins og tengingar þess við nauðsynlegar reiðleiðir.

Ein af meginforsendum þess að mælt hafi verið með því að umsókn yrði hafnað sé sú að ástæða sé til að halda í yfirbragð svæðisins sem landbúnaðarsvæðis, sem þróast gæti í átt til dreifðrar íbúðarbyggðar í framtíðinni fremur en til annarra nota.  Nýtt aðalskipulag sé í undirbúningi og rétt sé að binda ekki hendur manna með því að samþykkja atvinnuhús á svæðinu.

Líklegt megi telja að landlausri reiðskemmu og hesthúsi fylgi miklir gripaflutningar um þjóðveg er þarna liggi með tilheyrandi hættu fyrir alla umferð.  Ekki hafi verið mælt með því að tillagan yrði samþykkt meðan landnotkun svæðisins væri óbreytt og ekki unnar úrbætur á þjóðveginum.  Þá hafi það einnig mælt gegn tillögunni að ekki lægi fyrir aðalskipulag og/eða deiliskipulag sem heimili svo mikla og breytta starfsemi.

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til byggingar stálgrindarhúss á lóð Smábýlis nr. 15A, Kjalarnesi.
 
Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er umrædd lóð á skilgreindu landbúnaðarsvæði.  Á svæðinu er í gildi deiliskipulag fyrir spildu úr löndum Móa, Skrauthóla og Sjávarhóla er samþykkt var á fundi sveitarstjórnar Kjalarneshrepps 3. febrúar 1975.  Í almennum skilmálum þess um útihús segir svo í gr. 2.6 að hæð veggja að þakkanti skuli ekki vera meiri en 2,50 m frá landi en leyfilegt sé þó að hafa meiri hæð að hluta ef þörf krefji.  Breyting á umræddu deiliskipulagi tók gildi hinn 31. ágúst 2007 þar sem m.a. var heimilað að reisa íbúðar- og atvinnuhús á spildu úr landi Móa er nefnd er Sætún 1 og mun vera Smábýli nr. 16 samkvæmt eldra skipulagi.  Hins vegar hefur upphaflegu deiliskipulagi ekki verið breytt að því er snertir spildu kæranda, Smábýli nr. 15A. 

Í máli þessu liggur fyrir að bygging sú er synjað var um leyfi fyrir er með mænishæð 8,04 m og vegghæð langhliða 5,0 m, eða tvöfalt meiri hæð en heimilt er samkvæmt gildandi skipulagsskilmálum.  Byggingarleyfisumsókn kæranda var því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins og var byggingarfulltrúa rétt að synja umsókninni í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Verður hin kærða ákvörðun af þeim sökum ekki felld úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 9. október 2007, er staðfest var í borgarráði hinn 18. október sama ár, um að synja um leyfi fyrir byggingu stálgrindarhúss á steyptum sökklum undir hesthús, reiðskemmu og vélageymslu á lóð merktri Smábýli 15A, Kjalarnesi.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 

______________________________           _______________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                      Aðalheiður Jóhannsdóttir