Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

114/2016 Miðbraut

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. ágúst 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun þaks á Miðbraut 34.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. ágúst 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Melabraut 31, Melabraut 33, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. ágúst 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir hækkun þaks á Miðbraut 34. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Seltjarnarness frá 19. júlí 2016 varðandi Miðbraut 34 verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 2. september 2016.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Lóðin að Miðbraut 34 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Vesturhverfis, sem markast af Lindarbraut, Melabraut, Valhúsabraut og Hæðarbraut. Tilgreind lóð er staðsett innan svæðis sem merkt er A á deiliskipulagsuppdrætti. Á svæðinu er að finna einbýlishús og er hvorki heimilt að fjölga þar íbúðum né bæta við viðbótarhæð. Heimilað nýtingarhlutfall á svæðinu er 0,3. Nefnt deiliskipulag tók gildi 7. ágúst 2007, en var kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, m.a. af eiganda Miðbrautar 34. Kvað nefndin upp úrskurð 28. apríl 2008 í því kærumáli, sem er nr. 94/2007, og hafnaði kröfu um ógildingu samþykktar deiliskipulagsins.

Árið 2012 spurðist eigandi Miðbrautar 34 fyrir um breytingu á deiliskipulagi sem fæli í sér hækkun á þaki um 2,7 m. Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkti að auglýsa tillöguna sem var og gert. Að athugasemdum fengnum synjaði nefndin um umbeðna deiliskipulagsbreytingu. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem kvað upp úrskurð 17. nóvember 2015 í því máli sem er nr. 66/2013. Var ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar staðfest af úrskurðarnefndinni með þeim rökstuðningi að þó svo að fallast mætti á að grenndaráhrif breytingarinnar yrðu ekki mikil hefði hin kærða ákvörðun verið studd efnisrökum og yrði því ekki talið að réttur kæranda í því máli hefði verið fyrir borð borinn í skilningi 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Eigandi Miðbrautar 34 sótti um byggingarleyfi 3. febrúar 2016 fyrir breytingu á þaki hússins og stækkun anddyris þess. Í þakbreytingunni fólst m.a. hækkun á þaki. Meðfylgjandi umsókninni var greinargerð lögmanns, þar sem fram kom að núverandi þak væri lekt og þarfnaðist endurnýjunar og var bent á að umsótt hækkun væri umfangsminni og hefði minni grenndaráhrif en þær tillögur sem áður hefði verið hafnað.

Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness 9. febrúar 2016 var nefnd umsókn tekin fyrir. Bókað var að nefndin samþykkti deiliskipulagsbreytingu og vísaði málinu til bæjarstjórnar til ákvörðunar um auglýsingu. Samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 24. febrúar s.á. Á fundi nefndarinnar 19. apríl s.á. var farið yfir athugasemdir og umsagnir sem bárust á auglýsingatíma og ákvað hún að senda gögn til deiliskipulagsráðgjafa og óska umsagnar hans. Nefndin tók málið fyrir að nýju á fundi sínum 16. maí s.á. Samþykkti hún breytta tillögu og fól skipulagsfulltrúa að svara athugasemdum, sbr. greinargerð tilgreindrar lögmannsstofu. Að því loknu sendi nefndin málið til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Skipulags- og umferðarnefnd tók málið enn á ný fyrir á fundi 24. s.m. og var bókað að málið væri tekið upp og óskaði nefndin eftir frekari gögnum vegna ónákvæmni í bókunum og fylgiskjölum. Á fundi nefndarinnar 19. júlí s.á. var málið enn og aftur tekið fyrir og með vísan til umsagnar deiliskipulagshöfundar var því vísað til byggingarfulltrúa. Í kjölfarið, eða 5. ágúst s.á., samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun þaks á Miðbraut 34 og stækkun á anddyri um 3,7 m2 og var leyfið gefið út samdægurs.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að í gildi sé nýlegt deiliskipulag Vesturhverfis. Óumdeilt sé að fasteignin Miðbraut 34 standi á deiliskipulagsreit A innan Vesturhverfis. Miðbraut 34 teljist því til norðurhluta þess og sé þar nokkuð jöfn byggð einbýlishúsa á einni hæð. Grundvallarstefna þessa skipulags sé sú að hækkun húsa sé óheimil innan skipulagssvæðis A. Í greinargerð með deiliskipulaginu segi meðal annars að markmið með endurskoðun þess hafi verið að samræma stærðir húsa, yfirbragð og nýtingarhlutfall lóða og gefa lóðarhöfum, sérstaklega á syðri hluta svæðisins þar sem nýtingarhlutfall hafi verið undir meðalnýtingu, möguleika á auknu byggingarmagni til samræmis við aðliggjandi byggð fyrir sunnan hverfið og í samræmi við stefnumörkun í aðalskipulagi um þéttingu byggðar.

Af þessu og greinargerðinni að öðru leyti megi glögglega ráða að áhersla skipulagsins sé að auka heimildir á syðsta hluta svæðisins með það að markmiði að auka samræmi byggðar, en að sama skapi feli skipulagið í sér afar þröngar heimildir til breytinga á nyrsta hlutanum, þ.e. á A hluta. Þá segi um A hluta í skipulagsskilmálum að ekki sé heimiluð fjölgun íbúða og ekki heimilaður aukinn hæðafjöldi. Einnig komi fram að á nyrðri hluta séu afmarkaðir byggingarreitir fyrir minni háttar stækkanir húsa þar sem byggingarheimild hafi ekki verið fullnýtt.

Þegar skilmálar fyrir A hluta séu lesnir megi ljóst vera að deiliskipulagið banni aukinn hæðafjölda og fjölgun íbúða í A hluta. Skýr afmörkun í skilmálum kveði á um það að hinar þröngu heimildir til breytinga í A hluta verði að fela í sér aukið byggingarmagn innan byggingarreits sem ekki brjóti ofangreindar tvær bannreglur. Með því að heimila hækkun á húsi Miðbrautar 34 um 2,5 m frá loftplötu neðri hæðar sé farið gegn gildandi deiliskipulagi og þessir skilmálar brotnir.

Jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin með útgáfu byggingarleyfis fyrir umræddri hækkun. Innihald leyfisins fari á svig við það yfirbragð og ásýnd sem deiliskipulag Vesturhverfis verndi og skilmála þess. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að í samskiptum við Seltjarnarnesbæ vegna máls þessa hafi því sérstaklega verið teflt fram af sveitarfélaginu að samþykktin vegna Miðbrautar 34 sé ekki fordæmisgefandi. Slíkt standist enga skoðun enda ljóst að ef slíkt reynist rétt sé sveitarfélagið klárlega að brjóta gegn 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélaginu beri einfaldlega lagaskylda til að meðhöndla allar sambærilegar beiðnir með sama hætti.

Kærendur hafni alfarið þeim skilningi Seltjarnarnesbæjar og sérfræðingum sveitarfélagsins að svo framarlega sem hækkun húsa sé innan 2,7 m sé slíkt ekki breyting á deiliskipulaginu og því innan heimilda þess þar sem þá geti hækkun ekki talist hæð í skilningi skipulagsins. Í skilmálum deiliskipulagsins segi mjög skýrt að á A hluta sé óheimilt að auka hæðafjölda. Orðnotkunin „aukinn hæðafjöldi“ takmarkist ekki við 2,7 m enda hefði þá átt að tilgreina það sérstaklega í skilmálunum. Í umsögn skipulagshöfundar, dags. 14. júlí 2016, segi að þakform og hámarkshæð sé ekki bundin en leitast skuli við að samræma þakform og hæð aðliggjandi húsum. Af umsögninni verði lesið að skipulagshöfundur horfi fyrst og fremst til þakforms B hluta en ekki A hluta við rökstuðning sinn. Þetta telji kærendur vera ranga nálgun.

Einnig bendi kærendur á að umrædd deiliskipulagsbreyting feli í sér brot á hagsmunum annarra íbúa innan deiliskipulagssvæðisins og búsetugæðum þeirra. Breytingin hafi afar neikvæð grenndaráhrif í formi aukinnar skuggamyndunar á nærliggjandi hús og útsýnisskerðingar. Þá hafi breytingin í för með sér aukna innsýn frá Miðbraut 34 inn á nærliggjandi lóðir. Engin aðkallandi nauðsyn til að skerða íbúðargæði fjölda annarra innan deiliskipulagsins og það í grónu hverfi. Breytingin sé gerð einungis til þess að fullnægja óskum eins fasteignareiganda. Engin samfélagsleg, almenn nauðsyn eða önnur skipulagsleg nauðsyn sé fyrir því að heimila umrædda hækkun.

Sambærilegu erindi eiganda Miðbrautar 34 frá lokum árs 2012 hafi verið hafnað af Seltjarnarnesbæ. Við meðferð deiliskipulagsbreytingarinnar vegna þess erindis hafi komið fram hörð mótmæli íbúa í næsta nágrenni við Miðbraut 34 og í kjölfar þeirra hafi sveitarfélagið tekið þá ákvörðun að hafna erindinu. Sú synjun hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og staðfest með úrskurði nr. 66/2013. Ekkert hafi breyst í málinu síðan þá.

Krafa kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis byggist einnig á því að lögbundnar málsmeðferðarreglur skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið brotnar við meðferð málsins. Skipulags- og umferðarnefnd Seltjarnarness hafi tekið ákvörðun á fundi sínum 9. febrúar 2016 um að auglýsa umbeðna hækkun á þaki sem deiliskipulagsbreytingu. Samkvæmt þeirri ákvörðun grundvallist deiliskipulagsbreytingin á því að um verulega breytingu sé að ræða. Í þessu máli bregði hins vegar svo við að deiliskipulagsferlinu er hætt af hálfu sveitarfélagsins í miðri meðferð. Slíkt sé brot á 41. gr., sbr. 43. gr., skipulagslaga en jafnframt brot á 1. mgr. 1. gr. laganna, einkum c., d. og e. lið. Sveitarfélagið geti ekki tekið einhliða ákvörðun í miðju deiliskipulagsferli um að kippa því úr sambandi vegna þess að menn séu allt í einu búnir að sannfæra sjálfa sig með þeim furðurökum að erindið rúmist innan skipulagsheimilda. Það sé engin heimild til slíks samkvæmt skipulagslögum. Byggingarleyfið byggi því á ólögmætum grundvelli og beri því að ógilda það.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda kemur fram að þau telji byggingarleyfið vera í samræmi við deiliskipulag svæðisins, en um það sé vísað til umsagnar tilgreindrar lögmannsstofu frá 6. júní 2016 og umsagnar skipulagshöfundar frá 14. júlí s.á. sem lagðar hafi verið fram í málinu, ásamt umsögn arkitekts og skipulagsfræðings frá 22. ágúst s.á.

—–

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. ágúst 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun þaks á Miðbraut 34 ásamt stækkun anddyris. Hámarksmænishæð hússins eftir breytingu verður 5,2 m þ.e. 2,7 m + 2,5 m mælt frá botnplötu. Vegghæð hússins helst óbreytt 3,1 m. Auk áðurgreinds kæruefnis gera kærendur þá kröfu að samþykkt skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness frá 19. júlí 2016 verði felld úr gildi, en sú samþykkt fól eingöngu í sér að umsókn um hina kærðu breytingu var vísað til byggingarfulltrúa sem afgreiddi málið.

Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa til að breyta mannvirki og tilkynnir hann umsækjanda um samþykkt byggingaráforma, sbr. 11. gr. sömu laga, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef vafi leikur á að fyrirhuguð framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins skal byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa samkvæmt 10. gr. laganna. Ljóst er af framangreindum lagaákvæðum að ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa, en leiki vafi á hvort umsótt framkvæmd samræmist gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir aðkomu skipulagsfulltrúa, sem er starfsmaður skipulagsnefndar. Meðferð máls þessa er ítarlega rakin í málavaxtalýsingu og liggur fyrir að umsókn leyfishafa um byggingarleyfi var í upphafi beint í þann farveg að breyta ætti deiliskipulagi. Að lokinni rannsókn og meðferð málsins ákvað skipulags- og umferðarnefnd hins vegar að vísa málinu til byggingarfulltrúa, sem tók um það ákvörðun. Að framangreindu virtu er ljóst að ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar var liður í meðferð byggingarleyfisumsóknar samkvæmt mannvirkjalögum og til þess fallin að upplýsa um afstöðu skipulagsyfirvalda sveitarfélagsins skv. 10. gr. laganna. Var ekki um lokaákvörðun að ræða og hún því ekki kæranleg, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki fjallað um hana frekar nema að því marki sem hún kemur til álita við heildarskoðun úrskurðarnefndarinnar á lögmæti hinnar kærðu byggingarleyfisveitingar.

Í Vesturhverfi Seltjarnarness, þar sem hús leyfishafa og kærenda standa, er í gildi deiliskipulag frá árinu 2007. Með því deiliskipulagi var hverfinu skipt í þrjú svæði, þar sem hvert þeirra hefur mismunandi skilmála hvað varðar fjölda hæða, íbúða og hámark nýtingarhlutfalls, en framkvæmdir þær sem um er deilt í þessu máli eru á A svæði deiliskipulagsins. Í skipulagsskilmálum fyrir það svæði deiliskipulagsins kemur fram að þar sé nokkuð jöfn byggð einnar hæðar einbýlishúsa. Lagt var til að því yrði ekki breytt og er ekki heimilt samkvæmt skipulagsskilmálum að fjölga íbúðum eða að auka hæðafjölda. Nýtingarhlutfall þessa svæðis yrði áfram 0,3. Í deiliskipulaginu er hæð að jafnaði miðuð við 2,7 m plötu á plötu.

Í almennum skilmálum skipulagsins kemur fram að æskilegt sé að leggja fram fyrirspurn um breytingu húss áður en sótt er um byggingarleyfi. Í fyrirspurn skuli koma fram upplýsingar um helstu breytingar, svo sem hæð og form húss, aðlögun að aðliggjandi húsum, fjöldi íbúða og bílastæða svo og heildarstærð. Sýna skuli götumynd með húsum sitt hvoru megin við það hús sem sótt er um breytingu á. Þakform og hámarkshæð sé ekki bundin en leitast skuli við að samræma þakform og hæð að aðlægum húsum. Með vísan til framangreinds verður að telja að samkvæmt deiliskipulaginu séu breytingar á hæð húsa og þakformi heimilar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og meti þar til bær stjórnvöld hverju sinni hvort svo sé.

Miðbraut 34 er við mörk svæða A og B í deiliskipulagsins. Húsið var með flötu þaki, en eftir heimilaðar breytingar verður það með valmaþaki með mænishæð 5,2 m. Nemur hækkunin 2,5 m frá plötu í mæni. Birt flatarmál geymslulofts undir þakinu verður 32,6 m2 eða um 16% af grunnflatarmáli hússins. Húsin sitt hvoru megin Miðbrautar 34 eru með mismunandi þakform og er mesta þakhæð 6,66 m á Miðbraut 32 en 3,65 m á Miðbraut 36. Nýtingarhlutfall Miðbrautar 34 verður eftir breytinguna 0,28.

Byggingarfulltrúi samþykkti hið kærða byggingarleyfi að fenginni þeirri ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar að vísa málinu til hans. Vísaði nefndin um ákvörðun sína til umsagnar höfundar deiliskipulags Vesturhverfis, dags. 14. júlí 2016. Þar kemur fram að skipulagsfulltrúi og byggingarfulltrúi hafi beðið skipulagshöfund að meta hvort byggingarleyfisumsókn sú sem hér um ræðir samræmdist deiliskipulaginu. Í umsögninni kemur fram að ekki verði annað séð en að umsókn um breytt þakform og hækkun þaks sé í samræmi við núgildandi skilmálum deiliskipulags þar sem hámarksþakhæð sé ekki bundin, hún sé undir einni hæð og þakformið aðlagað nálægum húsum. Segir nánar að ekki verði annað séð en að breytt þak Miðbrautar 34 brúi ágætlega breytileika húsa sitt hvoru megin við sem séu með mjög mismunandi þakform og mismunandi að hæð. Þar segir og að ekki sé um breytingu á neinum af þeim megin skilyrðum deiliskipulagsins sem ekki séu sambærileg milli reita A, B og C, þ.e. hvorki breyttu nýtingarhlutfalli, hækkun um hæð, sem sé skilgreind 2,7 m, né portbyggt þak sem hefði þýtt hækkun hússins um hálfa til eina hæð, né fjölgun íbúða. Þetta séu meginskilyrði sem ekki séu heimiluð á svæði A og ekki væri verið að sækja um breytingu fyrir.

Af öllu því sem að framan er rakið verður að telja að það mat skipulagsyfirvalda Seltjarnarnesbæjar, að umsótt byggingarleyfi væri í samræmi við gildandi deiliskipulag, hafi verið forsvaranlegt og stutt nægjanlegum rökum. Var með því skorið úr vafa um samræmi við skipulagsáætlanir og var byggingarfulltrúa að þeirri niðurstöðu fenginni heimilt, samkvæmt þeim ákvæðum mannvirkjalaga sem áður greinir, að samþykkja hið kærða byggingarleyfi. Verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun á þaki Miðbrautar 34.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson

 

130/2016 Vatnsstígur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 15. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 130/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. september 2016 um að veita leyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti á 1. hæð í suðurenda húss á lóð nr. 3 við Vatnsstíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. október 2016, er barst nefndinni 8. s.m., kæra VHV lögmannsþjónusta slf., S2 fjárfesting ehf., Vatnsstíg 3, og Hildur Björnsdóttir, Vatnsstíg 3b, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að veita leyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti á 1. hæð í suðurenda húss á lóð nr. 3 við Vatnsstíg. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 12. október 2016.

Málavextir: Hinn 6. september 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík samþykkt byggingarleyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti á 1. hæð í suðurenda fjöleignarhússins að Vatnsstíg 3. Með erindinu fylgdi umsögn skipulagsfulltrúa, umsögn Minjastofnunar Íslands og hljóðvistarskýrsla verkfræðistofu.

Málsrök kærenda: Kærandi bendir á að fasteignin að Vatnsstíg 3 sé fjöleignarhús sem háð sé  ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Lögin séu ófrávíkjanleg og eigendum því almennt óheimilt að skipa málum sínum, réttindum og skyldum á annan veg en mælt sé fyrir um í lögunum.

Ólíkt mörgum öðrum húsum í miðbæ Reykjavíkur séu flestir eignarhlutar í því, eða um 70%, íbúðir. Rekstur veitingastaðar í húsinu sem hafi sameiginlegan inngang muni hafa í för með sér verulega röskun á hagsmunum íbúðareigenda, enda feli hin breytta hagnýting í sér eðlisbreytingu á notkun húss og lóðar. Í stað kyrrlátrar verslunarstarfsemi komi veitingastaður án takmarkana með tilheyrandi gestakomum, umgangi, hávaða og sóðaskap. Um sé að ræða breytta hagnýtingu á séreign, sem falli undir 27. gr. fjöleignarhúsalaga, og sé um verulega breytingu að ræða. Hin kærða ákvörðun sé því háð samþykki allra eigenda hússins, eða a.m.k einfalds meirihluta þeirra, á húsfundi.

Hin kærða ákvörðun snerti sameign hússins og sameiginlega lóð. Sameiginlegur inngangur verði notaður af starfsmönnum veitingastaðarins og aðföng komi þar inn. Eigendur fasteigna á lóðinni eigi óskoraðan rétt til að taka þátt í öllum ákvörðunum er varði sameignina, en augljóst megi vera að einn eigandi geti ekki ákveðið slíkt í eigin þágu gegn hagsmunum annarra eigenda. Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. fjöleignarhúsalaga eigi ákvörðunarréttur skv. 1. mgr. sama ákvæðis einnig við um m.a. fyrirkomulag, skipulag, hvers kyns framkvæmdir, rekstur og hagnýtingu sameignar og séreignar.

Ákvörðunin samræmist ekki Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Á umræddu svæði sé gert ráð fyrir íbúðarbyggð á efri hæðum húsa en skrifstofum og verslunum á jarðhæðum. Í ákvæðum aðalskipulagsins séu sett skilyrði um að breytt notkun húss hafi ekki truflandi áhrif á nærliggjandi íbúðir vegna hávaða, lyktar, sorps eða af öðrum ástæðum, auk þess sem hún megi ekki leiða af sér óæskilega aukningu umferðar og aðgengi verði að vera tryggt. Við mat á því hvort þessum skilyrðum sé fullnægt verði að taka tillit til þess að ráðgert sé í þróunaráætlun miðborgar að á svæðinu sé m.a. íbúðarhúsnæði. Starfsemi veitingastaðar, sem sé opinn næturlangt um helgar, fylgi aukin umferð bifreiða og umgangur fólks, sem skapa muni verulegan hávaða og óþrifnað. Leyfishafi hafi ekki sýnt fram á að fyrirhugaður rekstur uppfylli skilyrði þróunaráætlunar miðborgarinnar. Deiliskipulag reits 1.172.0 taki til lóðarinnar Vatnsstígs 3, en þar sé svæðinu lýst sem blandaðri byggð íbúðar-, verslunar og þjónustuhúsnæðis. Rekstur veitingastaða samræmist ekki þeirri landnotkun. Borgaryfirvöldum hafi því borið að grenndarkynna áformin, sbr. 43. og 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Loks hafi annar umsækjandi byggingarleyfisins verið úrskurðaður gjaldþrota 8. júní 2016 og hafi af þeim sökum verið óheimilt að taka fyrir umsókn þess umsækjanda til afgreiðslu án aðkomu þrotabús hans.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagins er vísað til þess að á uppdrætti Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 sé umræddur skipulagsreitur í miðborgarkjarna M1a. Þar séu heimilaðar allar tegundir veitingastaða í flokki I-III, sem megi lengst vera opnir til kl. 03 eftir miðnætti um helgar. Engin sérstök notkun sé bundin við húsið að Vatnsstíg 3 í gildandi deiliskipulagi. Húsið sé byggt árið 1919 og því séu breytingar á því háðar umsögn Minjastofnunar, sem hafi ekki gert athugasemdir við breytinguna. Gluggasetning á jarðhæð hússins geri ráð fyrir verslun og/eða þjónustu sem sé opin almenningi og sé hið kærða byggingarleyfi í fullu samræmi við aðal- og deiliskipulag. Í skipulagi svæðisins sé gert ráð fyrir fjölbreyttri notkun húsnæðis. Eina starfsemin sem sæti takmörkunum á svæðinu sé óþrifalegur iðnaður. Telja verði að rekstur veitingastaðar í húsnæðinu í stað verslunar samrýmist því landnotkun aðalskipulags svæðisins og því hafi ekki verið þörf á að grenndarkynna umrædda breytingu.

Inngangur að veitingastaðnum verði á gafli suðurenda hússins og muni gestir því ekki ganga inn um sameiginlegan gang með öðrum eigendum hússins. Þá standi húsið á lóð sem sé skilgreind sem íbúðar- og atvinnulóð og heimiluð breyting úr verslun í veitingastað verði gerð án samþykkis annarra eigenda í húsinu, sbr. 2. mgr. 27. gr. fjöleignarhúsalaga.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi skírskotar til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé eignarhluti hans ætlaður undir atvinnustarfsemi og rúmist þar undir veitingarekstur í flokki III.

Niðurstaða: Með hinu kærða byggingarleyfi var heimiluð breytt notkun séreignarhluta á 1. hæð og í kjallara fjöleignarhússins að Vatnsstíg 3. Kærendur telja að umrædd breyting eigi ekki stoð í skipulagi svæðisins og sé hún háð samþykki allra sameigenda hússins eða eftir atvikum meirihluta þeirra.

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er ekki heimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa og skulu með byggingarleyfisumsókn fylgja nauðsynleg gögn, m.a. samþykki meðeigenda ef þess er þörf samkvæmt ákvæðum fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994, sbr. 1. mgr. 10. gr. laganna. Í 27. gr. nefndra laga er kveðið á um að breytingar á hagnýtingu séreignar í fjöleignarhúsi frá því sem verið hafi eða ráð hafi verið fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum, séu háðar samþykki allra eigenda hússins.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 heyrir umrætt svæði undir miðborgarkjarna M1a. Er því lýst sem svæði þar sem sérstök áhersla sé lögð á smásöluverslun, veitingastarfsemi og afþreyingu, sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Jafnframt er tekið fram að á umræddu svæði gildi almennar veitingaheimildir, þar sem lengst megi vera opið til kl. 01 á virkum dögum og 03 um helgar. Gert er ráð fyrir að á jarðhæðum húsa sé verslunar-, veitinga-, menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en efri hæðir séu skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu. Þá tekur deiliskipulag reits 1.172.0, Brynjureits, til svæðisins þar sem skilgreining landnotkunar aðalskipulags er áréttuð. Samkvæmt framangreindu er heimilaður veitingarekstur í húsnæði leyfishafa í samræmi við landnotkun gildandi skipulags á svæðinu.

Ganga verður út frá þeirri forsendu að eigendur fasteigna geti notað fasteign sína í samræmi við heimildir gildandi skipulags viðkomandi svæðis að uppfylltum skilyrðum laga og reglna sem við eiga um notkunina, s.s. um hljóðvist. Eins og að framan er rakið er umrædd fasteign í miðborgarkjarna þar sem veitingastarfsemi er ótvírætt heimiluð. Verður því ekki talið að þörf hafi verið á samþykki kærenda, sem sameigenda að umræddu fjölbýlishúsi, fyrir hinni breyttu notkun á séreign leyfishafa skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga.

Með hinni kærðu ákvörðun er ekki verið að breyta notkun sameignar fjöleignarhússins við Vatnsstíg 3 og var ákvörðunin því ekki háð samþykki sameigenda samkvæmt fjöleignarhúsalögum. Uppdrættir sem fylgdu hinni umdeildu byggingarleyfisumsókn bera með sér að útgangur úr séreign leyfishafa inn á sameiginlegan gang sé ætlaður sem flóttaleið og aðgengi starfsmanna að geymslurými í kjallara, sem tilheyrir séreignarhluta leyfishafa. Inngangur að veitingastaðnum er hins vegar frá götu inn í séreignarhluta leyfishafa í suðurenda hússins. Verður ekki séð að notkun leyfishafa á sameign verði önnur eða meiri en annarra sameigenda við breytta notkun séreignarhlutans frá því sem áður var.

Leyfishafi er skráður eigandi þess eignarhluta sem hér um ræðir og var hann annar umsækjenda um hið kærða byggingarleyfi. Hefur gjaldþrot hins umsækjandans ekki áhrif á gildi byggingarleyfisins í ljósi greindrar réttarstöðu leyfishafa.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 6. september 2016 um að veita leyfi til að innrétta veitingastað í flokki III, tegund F, fyrir 80 gesti  á 1. hæð í suðurenda húss á lóð nr. 3 við Vatnsstíg.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

126/2016 Þrastargata

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja við húsið nr. 5 við Þrastargötu í Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. september 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi húss að Þrastargötu 7 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2016 að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu við húsið að Þrastargötu 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 8. nóvember 2016.

Málavextir: Á lóðinni að Þrastargötu 5 stendur einbýlishús, reist árið 1944 samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Með umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 3. júní 2016, var tekin afstaða til fyrirspurnar um hvort heimilað yrði að byggja við umrætt hús til austurs ásamt því að fjarlægja skúr á lóðinni og reisa lægri viðbyggingu í hans stað. Kom fram í greinargerð skipulagsfulltrúa að hann hefði í tvígang gefið umsögn á árinu 2015 þar sem tekið hefði verið neikvætt í lengingu hússins. Með nýrri tillögu væri komið til móts við athugasemdir hans. Félli viðbyggingin nú undir skilmála deiliskipulags Fálkagötureits, sem í gildi væri á umræddu svæði, og því ekki nauðsyn á að grenndarkynna breytinguna.

Í kjölfar þessa var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu milli núverandi íbúðarhúss og geymsluhúss. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og á fundi embættisins 8. júlí 2016 var erindið afgreitt með jákvæðum hætti með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. sama dag.

Umsóknin var lögð fram að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 9. ágúst 2016 og afgreiðslu hennar frestað með vísan til athugasemda eldvarnareftirlits. Afgreiðslu málsins var enn frestað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. s.m. og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og á fundi hans 19. s.m. var erindinu vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 26. s.m. var erindið tekið fyrir á ný og hlaut það jákvæða afgreiðslu með vísan til umsagnar embættisins, dags. sama dag. Byggingarfulltrúi tók erindið fyrir á afgreiðslufundi sínum 30. ágúst 2016. Var umsóknin samþykkt og talin samræmast ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að hin kærða ákvörðun muni raska lögvörðum hagsmunum sínum og skerða eignarrétt sinn. Röskun á þeim verði meiri en hann hafi mátt búast við samkvæmt deiliskipulagi fyrir umrætt svæði.

Skort hafi lagaskilyrði til þess að gefa út byggingarleyfi, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki, en ákvörðun byggingarfulltrúa sé í andstöðu við deiliskipulag Fálkagötureits, sem taki m.a. til lóða við Þrastargötu. Skýrt sé tekið fram í skilmálum skipulagsins að lóðin að Þrastargötu 5 sé fullbyggð. Í skilmálunum sé tilgreint á hvaða lóðum sé heimilt að viðhafa breytingar og auka byggingarmagn og hvergi sé minnst á umrædda lóð í því sambandi. Ekki sé hægt að túlka skilmála deiliskipulagsins með þeim hætti að gr. 1. A, sem fjalli almennt um byggingarmöguleika á lóðum á hinu deiliskipulagða svæði, feli í sér sjálfstæða heimild til að auka byggingarmagn. Þar að auki geti fyrirhuguð viðbygging ekki talist lítil. Húsið á umræddri lóð verði um 85 m² eftir breytingar, sem sé um 30% stækkun. Þá sé viðbyggingin ekki til þess fallin að samræmast byggðamynstri á svæðinu, en um sé að ræða verulega stækkun á húsi sem þétti og breyti ásýnd götunnar. Megi í þessu sambandi vísa til úrskurðar úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 20/2014 og úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í máli nr. 56/2008.

Við meðferð málsins hafi verið brotið gegn rannsóknarreglu og jafnræðisreglu stjórnsýsluréttarins, sbr. 10. og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Njóti byggðamynstur við Þrastargötu verndar samkvæmt skilmálum fyrrgreinds deiliskipulags og hefði í því ljósi átt að leita álits Minjastofnunar eða annars sérfróðs aðila um stækkunina. Hafi skipulagsfulltrúi t.d. óskað eftir áliti Minjastofnunar við hönnun á mannvirki kæranda að Þrastargötu 7.

Hús kæranda og lóðin að Þrastargötu 5 séu á sameiginlegri lóð Þrastargötu 3-11. Eftir stækkunina eigi byggingarleyfishafi tilkall til tveggja bílastæða á lóðinni í stað eins áður. Verði ekki séð að þetta atriði hafi verið rannsakað við meðferð málsins eða að þetta skjóti styrkum stoðum undir þá fullyrðingu að viðbyggingin geti talist lítil og rúmist þannig innan deiliskipulagsins á grundvelli gr. 1.A.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld skírskota til þess að með því að tiltaka í skilmálum gildandi deiliskipulags að lóðin sé fullbyggð sé verið að segja að ekki sé hægt að stækka húsið verulega eða gjörbreyta því. Skýrt sé hins vegar tekið fram í almennum skilmálum skipulagsins að hægt sé að bæta við litlum viðbyggingum þar sem aðstæður leyfi. Sé það í takt við markmið deiliskipulagsins um hæfilega uppbyggingu og endurnýjun á reitnum. Viðbyggingin sé í samræmi við byggingarstíl hússins og því óveruleg og innan allra heimilda sem kveðið sé á um í skipulaginu. Einnig taki hún mið af því byggðamynstri sem fyrir sé og hafi við hönnun verið tekið tillit til einkenna nærliggjandi byggðar hvað varði efnisval, þakgerð og mælikvarða.

Húsið að Þrastargötu 5 sé með minnstu húsum við botnlangann, eða 67,2 m² samkvæmt fasteignamati, og sé ekki rétt að miða við 30% stækkun þegar um sé að ræða 17,9 m² viðbyggingu á mjög litlu húsi. Hús kæranda sé mun stærra en húsið að Þrastargötu 5 og verði það enn eftir breytinguna.

Því sé vísað á bug að rannsóknarregla og jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Ekki sé um sambærileg mál að ræða varðandi húsið að Þrastargötu 5 og hús kæranda. Í seinna tilvikinu hafi verið farið fram á heimild til að rífa hús sem byggt hafi verið fyrir 1925 og reisa steinsteypt hús í staðinn. Í máli þessu sé um að ræða litla viðbyggingu en hún sé í samræmi við byggðamynstur og hlutfall hússins, sem byggt hafi verið árið 1944. Hafi því ekki verið skylt að leita álits Minjastofnunar Íslands.

Allir sameigendur að lóðinni séu bundnir af deiliskipulagi fyrir umrætt svæði og geti þeir ekki borið fyrir sig grandleysi um tilvist þess. Megi líta svo á að um sé að ræða framkvæmd sem þegar hafi verið ákveðin þegar núverandi eigendur að Þrastargötu 7 hafi eignast eignarhluta sína. Verði því að leggja það að jöfnu við framkvæmd sem „ráð var fyrir gert í upphafi“, sbr. 27. gr. fjöleignarhúslaga nr. 26/1994. Verði því ekki séð að þörf sé fyrir samþykki allra meðlóðarhafa vegna framkvæmda sem séu í samræmi við skipulag. Þrátt fyrir þetta hafi byggingarfulltrúi leitað eftir samþykki þeirra sem breytingin gæti haft einhver áhrif á og liggi fyrir samþykki eigenda að Þrastargötu 3, 3B, 4 og 7B. Loks sé bent á að með hinni kærðu samþykkt sé eingöngu verið að veita heimild til að byggja við húsið. Ekkert sé þar vikið að bílastæðum og séu þau því óbreytt.

Leyfishafa var tilkynnt um framkomna kæru en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Húsið að Þrastargötu 5 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Fálkagötureits og afmarkast það af Tómasarhaga, Dunhaga, Hjarðarhaga, Suðurgötu og lóðum við Fálkagötu 1-13 og Tómasarhaga 7. Meðal markmiða skipulagsins, samkvæmt greinargerð þess, er að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum á forsendum þeirrar byggðar sem þar er fyrir. Skýra skuli og skilgreina byggingarmöguleika og tryggja að ný- eða viðbyggingar falli vel að umhverfinu. Við mótun byggðamynsturs skuli leitast við að laga viðbyggingar við eldri hús að götumynd og mynda fallega heild.

Grein 1.A í skilmálum deiliskipulagsins ber heitið „Byggingarmöguleikar – Almennt“. Samkvæmt ákvæðinu má m.a. byggja kvisti á risþök á helming þakflatar og heimilt er að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna. Þar sem aðstæður leyfa má byggja litlar geymslur/sólstofur á baklóðum, allt að 6 m² að stærð og með 2,5 m hámarkshæð.

Í deiliskipulaginu er Þrastargötu lýst svo að þar séu lág og stakstæð hús sem myndi ákveðna heild. Lóðin að Þrastargötu 3-11, sem húsið Þrastargötu 5 stendur á, er 3.365 m² samkvæmt skilmálum skipulagsins og nýtingarhlutfall lóðarinnar er 0,44. Er tekið fram í skilmálatöflu deiliskipulagsins fyrir hvert húsnúmer þeirrar lóðar að lóðarhlutinn nr. 5 við Þrastargötu sé fullbyggður. Jafnframt eru í töflunni listaðar upp einstakar lóðir og lóðarhlutar og tilgreindar byggingarheimildir þeirra, svo sem að Þrastargötu 4, þar sem tekið er fram að heimilt sé að byggja sólstofu og kvisti samkvæmt skilmálum, og reisa megi litlar viðbyggingar að Þrastargötu 8. Í gr. 1.B í skipulaginu eru tilgreindir byggingarmöguleikar fyrir einstakar lóðir og lóðarhluta á skipulagssvæðinu, t.a.m. að Þrastargötu 1 og 7. Er lagt til að byggðamynstur, m.a. við Þrastargötu, skuli njóta verndar samkvæmt Húsverndarskrá Reykjavíkur. Skuli breytingar taka mið af mælikvarða byggðar og hlutföllum húsa og sýna þurfi sérstaka aðgát við hönnun breytinga og viðbygginga.

Samkvæmt fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er umrætt hús 58,9 m² að flatarmáli og geymsla á lóðarhlutanum 8,3 m², eða samtals 67,2 m². Með hinni umdeildu samþykkt byggingarfulltrúa er heimilað að reisa viðbyggingu til norðausturs við húsið og tengja hana fyrrgreindu stakstæðu geymsluhúsi þar sunnan við. Eftir stækkun verður íbúðarrými á fyrstu hæð hússins 61,4 m² og á annarri hæð þess 24,7 m², eða samtals 86,1 m². Hin heimilaða stækkun er því 18,9 m², sem er um 28% aukning frá því sem nú er. Um er að ræða þétta byggð lítilla húsa.

Að framangreindu virtu verður að telja að almennir skilmálar deiliskipulagsins, sbr. gr. 1.A, sem kveða á um að heimilt sé að byggja litlar viðbyggingar í samræmi við byggingarstíl húsanna, geti ekki tekið til þeirrar stækkunar hússins sem um ræðir í máli þessu. Þá gefur orðalag og framsetning skipulagsins að öðru leyti ekki tilefni til þeirrar túlkunar að hin umdeilda breyting rúmist innan heimilda deiliskipulagsins og ekki verður ráðið af skipulagsuppdrætti að viðbyggingunni sé markaður byggingarreitur.

Með vísan til þess sem að framan er rakið uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki áskilnað  1.tl. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki um að byggingarleyfi skuli vera í samræmi við  skipulagsáætlanir. Verður hin kærða ákvörðun að þeim sökum felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 30. ágúst 2016 um að samþykkja leyfi til að byggja við húsið nr. 5 við Þrastargötu í Reykjavík.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

141/2016 Bræðraborgarstígur

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 8. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 141/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 um að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 31. október 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra I, Bræðraborgarstíg 23a, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. nóvember 2016.

Málavextir:
Hinn 15. nóvember 2011 var samþykkt byggingarleyfi fyrir 36 m2 bílskúr, sem var 3,5 m á hæð, á lóðinni Bræðraborgarstíg 23 í stað bílskúrs sem fyrir var á lóðinni. Ekki var farið í þær framkvæmdir og féll byggingarleyfið af þeim sökum úr gildi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 2. febrúar 2016 var tekin fyrir ný umsókn um leyfi til þess að rífa bílskúr á nefndri lóð og reisa í hans stað stærri bílskúr, innar á lóðinni og fjær lóðarmörkum. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 3. júní 2016 var samþykkt að grenndarkynna umsóknina, með athugasemdafresti frá 24. júní til 21. júlí s.á., og bárust athugasemdir frá kærendum. Tekin var afstaða til þeirra athugasemda og lagt til að fyrirhugaður bílskúr yrði lækkaður. Hinn 4. október s.á. var svo samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa leyfi fyrir 31,5 m2 bílskúr, 0,6 m frá lóðarmörkum kærenda.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að við málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi ekki verið farið að stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Á fyrri stigum málsins hafi andmæla- og upplýsingaréttur ekki verið virtur og ekki verið tekið tillit til óskar kærenda um frest til að kynna sér gögn máls og gera grein fyrir afstöðu sinni. Núverandi bílskúr sé notaður sem geymsla og hafi hann upphaflega verið reistur án heimildar. Því sé haldið fram í umsögn skipulagsfulltrúa að stækkun bílskúrs sé lítilsháttar, en um sé að ræða rétt tæplega tvöföldun á stærð skúrsins, úr 17 m2 í 31,5 m2, og mjög mikla hækkun. Núverandi bílskúr sé ekki 3 m hár eins og ranglega komi fram í umsögninni. Þar að auki sé verið að samþykkja nýtt bílastæði fyrir framan heimilaðan bílskúr og verði því bílgeymslur meðfram allri lóð kærenda.

Kærendur hafi óskað eftir því að fá að gera athugasemdir við staðsetningu bílskúrsins með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 16. september 2016. Í bréfinu hafi verið gerð tillaga um það að í stað þess að bílastæðið yrði fyrir framan bílskúrinn yrði það áfram við hlið hans. Þessi ósk kærenda hafi hins vegar verið virt að vettugi og aldrei tekin til umfjöllunar. Í tilkynningu Reykjavíkurborgar um afgreiðslu málsins sé lögð áhersla á að ákvörðunin hafi verið tekin á grundvelli samþykktar frá árinu 2011, en sú samþykkt sé fallin úr gildi. Nýtt mál verði að meta sjálfstætt. Því sé mótmælt sem fram komi í sama bréfi að kærendur hafi ekki fært fram rök fyrir þeim skaða og því ónæði sem fylgja muni umræddri byggingu. Það sé alrangt. Lóð kærenda sé mjög lítil og fái sitt fagurfræðilega gildi og verðmæti af því græna opna svæði sem þarna sé. Sú breyting sem felist í hinni kærðu ákvörðun muni jafnframt draga úr notagildi lóðarinnar þar sem upplifun verði ekki söm. Í framangreindu bréfi sé látið að því liggja að komið hafi verið til móts við athugasemdir kærenda, en það eigi ekki við rök að styðjast.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að öll málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið í samræmi við reglur skipulagslaga nr. 123/2010 og hagsmunaaðilum hafi verið kynnt fyrirliggjandi byggingarleyfisumsókn. Rétt sé að með tölvupósti hinn 30. júní 2016 hafi kærendur óskað eftir lengri fresti til að kynna sér umsóknina og koma með athugasemdir, en láðst hafi að taka formlega afstöðu til frestbeiðninnar. Ætla verði að þeirri beiðni hefði verið hafnað, enda hafi þess verið óskað að málinu yrði frestað þar til eftir að sumarleyfum kærenda lyki í lok ágústmánaðar, eða um sex vikur. Verði heldur ekki annað sé en að kærendur hafi haft nægan tíma til kynna sér gögn málsins, sem hafi borist þeim 27. júní s.á., og hafi þeir því haft fimm vikur til að kynna sér þau. Almennt sé orðið við óskum um framlengingu athugasemdafrests ef sérstakar ástæður komi til, s.s. að gögn hafi borist of seint, en almennt sé verði ekki framlengt lengur en sem nemi einni viku til tíu dögum. Allt að einu hafi kærendur komið að athugasemdum með tölvupósti 20. júlí 2016 og hafi þær verið teknar til umfjöllunar í umhverfis- og skipulagsráði lögum samkvæmt.

Engu breyti í máli þessu hvort bílskúrinn sem fyrir sé á umræddri lóð hafi verið reistur í óleyfi eða ekki, enda sé með samþykktinni veitt heimild til að rífa þá skúrbyggingu. Í umsögn skipulagsfulltrúa vegna athugasemda kærenda hafi komið fram að á árinu 2011 hafi verið samþykkt byggingaráform fyrir um 36 m2 bílskúr á lóðinni, sem ekki hafi verið byggður. Þar sé fyrir 17 m2 bílskúr, sem teljist frekar lítill samkvæmt byggingarreglugerð. Fallist hafi verið á athugasemdir kærenda við hæð skúrsins og hafi því verið lagt til að hann yrði ekki hærri en samþykkt hefði verið árið 2011, eða 3,5 m, en núverandi skúr væri sagður 3 m á hæð. Dýpt skúrsins ætti ekki að hafa áhrif á ásýnd frá aðliggjandi lóð. Bílskúrinn sé að auki færður fjær lóðamörkum en núverandi skúr, eða um 0,6 m. Ekki sé verið að samþykkja bílastæði á lóðinni en eðlilegt sé að hægt sé að leggja einni bifreið fyrir framan einfaldan bílskúr.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að samþykkja byggingarleyfi fyrir nýjum bílskúr á lóðinni Bræðraborgarstíg 23 í stað eldri bílskúrs sem skyldi fjarlægður. Á svæðinu er ekki í gildi deiliskipulag og var leyfið veitt að undangenginni grenndarkynningu samkvæmt heimild í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Umsókn um greint byggingarleyfi var grenndarkynnt með lögmæltum fjögurra vikna athugasemdafresti skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Þó svo að láðst hafi að taka afstöðu til beiðni kærenda um framlengingu á athugasemdafresti verður ekki séð að það hafi valdið þeim réttarspjöllum. Þeir komu athugasemdum sínum að við grenndarkynninguna. Þær voru teknar til umfjöllunar og afstaða tekin til þeirra. Kærendum var síðan tilkynnt um niðurstöðu málsins í samræmi við fyrirmæli nefnds ákvæðis skipulagslaga.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður hinn nýi bílskúr samkvæmt leyfinu 31,5 m2 að flatarmáli með 2,10 m vegghæð og 3,50 m mænishæð. Skúr sá sem fyrir er á lóðinni og skal fjarlægður er 17,25 m2 að flatarmáli, með einhalla þaki, og 2,38 m hár þar sem hann er hæstur. Sá skúr er á mörkum lóða leyfishafa og kærenda, en heimilaður bílskúr mun standa 0,6 m frá nefndum lóðamörkum og um 2 m innar á lóð en sá eldri. Staðsetning bílskúranna er í norð-austur frá lóð kærenda. Að því virtu verður ekki ráðið að hinum nýja bílskúr fylgi merkjanlega aukin grenndaráhrif frá því sem fyrir var á lóð kærenda, svo sem aukið skuggavarp.

Nýtingarhlutfall lóðarinnar hækkar úr 0,41 í 0,44, eða um 7%, en nýtingarhlutfall á næstu lóðum er sambærilegt eða hærra. Þá eru fordæmi í hverfinu fyrir bílskúrum af svipaðri stærð og hér um ræðir. Hið kærða byggingarleyfi er því í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem raskað geta gildi hennar. Verður kröfu kærenda þar að lútandi því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. október 2016 um að samþykkja leyfi til að fjarlægja bílskúr og byggja nýjan í hans stað á lóðinni Bræðraborgarstíg 23.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

34/2016 Brekkuhvarf

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 34/2016, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Brekkuhvarfs 20 og ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 26. júlí s.á. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. mars 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Brekkuhvarfi 22, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. febrúar 2016 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar Brekkuhvarfs 20, þar sem lóðinni var skipt upp í tvær lóðir, nr. 20 og 20a. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 27. september 2016, er barst úrskurðarnefndinni 28. s.m., kæra fyrrgreindir kærendur ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 26. júlí 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a. Er gerð krafa um að hið kærða byggingarleyfi verði fellt úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt leyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður það mál, sem er nr. 128/2016, sameinað máli þessu þar sem þau eru samofin og sömu kærendur standa að báðum málunum.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Kópavogsbæ 29. apríl, 30. september og 7. nóvember 2016.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Kópavogsbæjar 5. október 2015 var tekin fyrir umsókn lóðarhafa Brekkuhvarfs 20 um breytingu á gildandi deiliskipulagi svæðisins sem er frá árinu 1992. Í breytingunni fólst að greindri lóði yrði skipt upp í tvær lóðir, Brekkuhvarf 20 og Brekkuhvarf 20a, og að á lóðinni nr. 20a yrði heimiluð bygging einbýlishúss á einni til tveimur hæðum og hámarksnýtingarhlutfall lóðarinnar yrði 0,3. Samþykkti nefndin að grenndarkynna breytingartillöguna.

Að lokinni kynningu var tillagan lögð fyrir skipulagsnefnd að nýju hinn 30. nóvember 2015. Athugasemdir höfðu borist frá kærendum og var þeim vísað til skipulags- og byggingardeildar bæjarins. Málið var á dagskrá skipulagsnefndar 18. janúar 2016 og var þar lögð fram umsögn skipulags- og byggingardeildar við fram komnum athugasemdum ásamt tillögu að breytingum á hinni kynntu tillögu. Var hin breytta tillaga samþykkt og þeirri afgreiðslu vísað til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Fólu breytingarnar í sér að hús á hinni nýju lóð yrði lækkað og að nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,3 í 0,23. Á fundi bæjarstjórnar 26. janúar 2016 var málinu vísað til skipulagsnefndar að nýju og 15. febrúar s.á. samþykkti nefndin tillöguna frá 18. janúar s.á. Hinn 23. febrúar 2016 samþykkti bæjarstjórn deiliskipulagsbreytinguna og öðlaðist hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 7. mars 2016.

Hinn 26. júlí 2016 samþykkti byggingarfulltrúi Kópavogsbæjar byggingarleyfi fyrir 190,2 m2 einbýlishúsi ásamt bílskúr á einni hæð að Brekkuhvarfi 20a með stoð í hinu breytta deiliskipulagi.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að val þeirra við kaup á fasteign þeirra við Brekkuhvarf árið 2004 hafi tekið mið af deiliskipulagi svæðisins, sem kallað hafi verið „sveit í borg“. Svæðið einkennist af afar stórum lóðum með mjög lágu nýtingarhlutfalli og miklu rými milli sérbýla.

Lóðin að Brekkuhvarfi 20 sé mjög stór, eða 2.346 m2. Íbúðarhúsið á þeirri lóð hafi áður verið gamall sumarbústaður, sem síðar hafi verið byggt við og standi húsið skáhallt á miðri lóðinni. Hindri það að hægt sé að framkvæma eitthvað vitrænt skipulag á lóðinni. Núverandi eigendur, sem hafi keypt eignina árið 2005, hafi ráðist í talsverðar endurbætur á íbúðarhúsinu. Húsið hafi verið í slæmu ásigkomulagi og í raun hefði verið eðlilegast að rífa það og byggja heildstæða einingu í samræmi við skipulagningu annarra lóða í hverfinu. Þegar eigendur Brekkuhvarfs 20 hafi sótt um byggingu hesthúss á lóðinni hafi þeir fundið því stað í norðausturhluta lóðarinnar en áætlað hafi verið að það leysti af hólmi gamalt hesthús sem standi utan byggingarreits við götu. Svo hafi farið að nýja hesthúsið hafi orðið að íbúð en gamla hesthúsið standi enn utan byggingarreits og sé í fullri notkun. Nú bregði eigendur Brekkuhvarfs 20 á það ráð að fá leyfi fyrir skiptingu lóðarinnar og byggja þar hús á 1-2 hæðum. Telji kærendur það vera algjörlega í ósamræmi við núverandi skipulag og sama eigi við um húsagerðina. Þetta hafi áhrif á hús kærenda og umhverfi.

Ekki verði séð að meðalhófs hafi verið gætt við vinnslu og samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða að vinnsla hennar hafi verið í samræmi við gott og faglegt verklag við gerð deiliskipulags.

Málsrök Kópavogsbæjar:
Af hálfu Kópavogsbæjar kemur fram að hin kærða ákvörðun feli í sér breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 20 við Brekkuhvarf og feli breytingin í sér að umræddri lóð sé skipt í tvær lóðir, þ.e. nr. 20 og 20a. Nýja lóðin verði 937,7 m2 að stærð með byggingarreit fyrir 220 m2 einbýlishús. Nýtingarhlutfall lóðarinnar verði 0,23. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir 280 m2 húsi á lóðinni, með nýtingarhlutfalli 0,29, en fallið hafi verið frá því til að koma til móts við athugasemdir kærenda. Hafi það verið gert með því að minnka byggingarreit um 5 m og minnka byggingarmagn um 60 m2. Hin kærða deiliskipulagsbreyting geri ráð fyrir byggingu sem sé í samræmi við götumynd viðkomandi svæðis, nýtingarhlutfall og útlit. Ásýnd hverfisins muni því ekki breytast. Að auki sé að finna mörg fordæmi fyrir svipaðri uppskiptingu á lóðum á umræddu skipulagssvæði. Hafi verið ákveðið að grenndarkynna tillöguna fyrir lóðarhöfum í næsta nágrenni en aðeins hafi borist athugasemdir frá kærendum á kynningartíma.

Því sé hafnað að hin kærða ákvörðun breyti forsendum gildandi deiliskipulags. Eftir breytingu verði umræddar lóðir 937,7 m2 og 1.406 m2 að stærð. Lóðirnar verði því þrátt fyrir breytinguna stórar. Einnig sé bent á að minni lóðir finnist á umræddu skipulagssvæði. Breytingin sé auk þess í fullu samræmi við Aðalskipulag Kópavogs 2012-2024. Umrætt svæði sé í aðalskipulaginu skilgreint sem ÍB-5 Vatnsendi (Kórar, Hvörf, Þing) og segi um það svæði að þar sé blönduð byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa, sem að mestu hafi verið byggð á árunum 1990-2012, en uppbyggingu sé enn ekki lokið þar sem helsta uppbyggingarsvæðið sé á Vatnsenda.

Verði ekki séð að deiliskipulagsbreytingin muni hafa veruleg grenndaráhrif fyrir kærendur. Vakin sé athygli á því að nýbyggingin muni að öllu leyti verða innan heimilaðs byggingarreits lóðar nr. 20 fyrir umdeilda breytingu og sé því ekki verið að búa til nýja byggingarlínu. Því hafi mátt búast við að reiturinn yrði nýttur með einhverjum hætti. Auk þess sé röng sú staðhæfing kærenda að lágmarksfjarlægð sé ekki virt. Fjarlægðin frá nýbyggingunni að lóðarmörkum sé 5 m og frá nýbyggingu að húsi kærenda séu 11 m. Séu því skilyrði um lágmarksfjarlægð uppfyllt.

Niðurstaða: Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var lóðinni Brekkuhvarfi 20 skipt upp í tvær lóðir, nr. 20 og 20a, og heimiluð bygging einnar hæðar einbýlishúss á síðargreindu lóðinni með nýtingarhlutfalli allt að 0,23. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúa um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einnar hæðar einbýlishúsi á sömu lóð með stoð í hinu breytta deiliskipulagi.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting var grenndarkynnt í samræmi við 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Þar segir að breytingar á deiliskipulagi, sem séu það óverulegar að ekki sé talin ástæða til meðferðar samkvæmt 1. mgr. sama ákvæðis, megi grenndarkynna. Við mat á því hvort breyting á deiliskipulagi teljist vera óveruleg skal taka mið af því að hve miklu leyti tillagan víkur frá notkun, nýtingarhlutfalli, útliti og formi viðkomandi svæðis.

Nýtingarhlutfall umræddra lóða eftir breytingu er sambærilegt við aðrar lóðir í götunni og fordæmi eru fyrir því á skipulagssvæðinu að stærri lóðum hafi verið skipt í tvær eða fleiri lóðir. Þá er fyrirhugað einbýlishús á lóðinni Brekkuhvarfi 20a einnig í samræmi við upphaflega skipulagsskilmála svæðisins, sem samþykktir voru 1992.  Jafnframt er húsið innan þess byggingarreits sem fyrir var áður en ráðist var í umrædda deiliskipulagsbreytingu. Hins vegar verður að líta til þess að með hinni kærðu breytingu er heimiluð bygging nýs íbúðarhúss og getur slík breyting ekki talist óveruleg í skilningi 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Af þeim sökum verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu deiliskipulagsbreytingu úr gildi.

Hin kærðu byggingaráform voru samþykkt 26. júlí 2016 og barst kæran til úrskurðarnefndarinnar 28. september s.á. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins að kæranda hafi verið tilkynnt um samþykki byggingaráformanna, en byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum hefur ekki verið gefið út og framkvæmdir því ekki hafist. Verður því við það miðað að kæra vegna byggingarleyfisins hafi borist innan kærufrests.

Hin kærðu byggingaráform voru samþykkt með stoð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Eins og að framan er rakið hefur úrskurðarnefndin komist að þeirri niðurstöðu að fella beri þá deiliskipulagsbreytingu úr gildi. Af þeim sökum eiga byggingaráformin ekki stoð í gildandi deiliskipulagi svo sem áskilið er í 10. gr. laga um mannvirki og verður samþykkt byggingaráformanna af þeim sökum felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 23. febrúar 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Brekkuhvarf 20 og ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 26. júlí 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Brekkuhvarfi 20a.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

22/2015 Þrastarás

Með
Árið 2016, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 22/2015, kæra á synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2015 á umsókn um byggingarleyfi fyrir svalaskýli á þakhæð hússins að Þrastarási 39, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. apríl 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir J, Þrastarás 39, Hafnarfirði, synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar frá 24. mars 2015 á umsókn hans um byggingarleyfi fyrir svalaskýli á þakhæð hússins að Þrastarási 39. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Hafnarfjarðarbæ 13. maí 2015.

Málavextir: Árið 2010 lagði kærandi í tvígang fram fyrirspurn til skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um hvort heimilað yrði að stækka kvist á húsi hans að Þrastarási 39 en í bæði skiptin fékk hann neikvætt svar. Í seinna skiptið óskaði hann eftir rökstuðningi sem var á þá leið að stækkun kvists væri hvorki í samræmi við deiliskipulag né byggingarreglugerð, þar sem rýmið myndi ekki uppfylla skilyrði um lágmarkshæð herbergja og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi umfram heimildir deiliskipulagsins. Þá snúi kvisturinn að bakgarði nágranna en aðrir kvistir sem hafi verið samþykktir snúi allir að götu eða opnu svæði. Hinn 6. mars 2015 sótti kærandi um leyfi til þess að byggja svalaskýli á þakhæð nefnds húss með því að framlengja þakkvisti og loka honum með gleri í brautum. Á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa, 18. mars. s.á. var erindinu vísað til skipulags- og byggingarráðs sem tók málið fyrir 24. s.m. og hafnaði erindinu með vísan til fyrri afgreiðslna vegna fyrirspurna kæranda.

Málsrök kæranda: Kærandi telji að engin efnisleg rök séu fyrir hinni kærðu synjun skipulags- og byggingarráðs, enda ákvörðun ráðsins órökstudd. Arkitekt hússins hafi teiknað breytingarnar og samþykki liggi fyrir frá nágranna að Þrastarási 37. Um sé að ræða mjög minimalíska breytingu sem sé í fullu samræmi við byggingarreglugerð. Breyting þessi hafi engin áhrif á götumynd, enda snúi umræddar svalir að baklóð. Eins skyggi umræddar breytingar á engan hátt á nærliggjandi garð eða auki útsýni yfir hann frá því sem nú sé. Hagsmunir kæranda séu miklir í málinu vegna rakaskemmda á neðri hæð frá svölunum. Svalirnar sléttfyllist af snjó sem breytist í krapa þegar hláni og þá leki. Svalalokun sé því nauðsynleg til að verja húsið fyrir leka.

Kærandi telji að þessar breytingar falli vel að deiliskipulagi þar sem í hverfinu séu alls konar útbyggingar leyfðar. Þá sé rétt að árétta að kvistur og svalir séu byggðar samkvæmt samþykktum teikningum frá bæjaryfirvöldum.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að fyrirhuguð framkvæmd samræmist ekki gildandi deiliskipulagi, sem samþykkt hafi verið í bæjarstjórn Hafnarfjarðar 9. apríl 2002. Húsið sé parhús og um það gildi skilmálar merktir P1 í skipulaginu. Svalaskýli teljist í skráningartöflu lokaðar svalir í höfuðflokki S og lokunarflokki A samkvæmt skilgreiningu Fasteignaskrár. Hér sé því ekki um B-lokun að ræða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar um að synja umsókn kæranda um leyfi til að byggja svalaskýli á þakhæð húss hans með því að framlengja þak á kvisti og loka honum með gleri í brautum.

Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag frá árinu 2002. Þar er hús kæranda skilgreint sem húsgerð P1, parhús á einni hæð, og samkvæmt skilmálum deiliskipulagsins má grunnflötur húss ekki vera stærri en nemur 40% af grunnfleti lóðar. Þá er heimilað að nýta rými í rishæð, rúmist það innan tilskilinna hæðarmarka, og er hámarksmænishæð húsgerðarinnar 5 m frá gólfplötu. Svalaskýlið, sem kærandi óskaði að reisa, myndi vera í lokunarflokki A samkvæmt ÍST 50:1998 og því myndi sú breyting hækka nýtingarhlutfall lóðar kæranda. Hins vegar myndi það ekki teljast til stækkunar á grunnfleti húss og færi því ekki gegn skipulagsskilmálum að því leyti, en í skipulaginu eru ekki sett tiltekin mörk á nýtingarhlutfall. Þá verður ekki séð að lokun svala og stækkun kvists, auki grenndaráhrif, svo sem vegna yfirsýnar á lóð nágranna, umfram þau sem þegar eru til staðar vegna þaksvalanna á húsi kæranda. Þá gilda ákvæði gr. 6.7.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um lágmarkshæð herbergja ekki um þakrými í húsi kæranda, þar sem af fyrirliggjandi teikningum verður ráðið að þakrýmið sé nýtt sem geymslurými, og því ekki hægt að synja umsókn hans á þeim forsendum.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður að telja að rökstuðningi hinnar kærðu synjunar sé svo áfátt að ekki verði hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða synjun skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðar á umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir svalaskýli á þakhæð hússins að Þrastarási 39.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

89/2015 Heiðarbær Þingvallasveit

Með
Árið 2016, föstudaginn 18. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Kristín Benediktsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2015, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 10. september 2015 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til byggingar sumarhúss á lóð 170211, nú 223275, í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, Þingvallasveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir, leigjandi lóðar 170211, nú 223275,  í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, ákvörðun skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 10. september 2015 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til byggingar sumarhúss á umræddri lóð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fyrri ákvörðun skipulagsnefndarinnar frá 6. nóvember 2014 um að grenndarkynna skuli umsókn um leyfi til byggingar húss á téðri lóð verði látin standa.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 12. nóvember 2015 og frekari gögn á árinu 2016.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 6. nóvember 2014 var lögð fram   fyrirspurn um hvort leyft yrði að byggja sumarhús á lóð nr. 170211 við Grafningsveg í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit. Í erindinu var m.a. tilgreint að samkvæmt tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Heiðarbæjar við Þingvallavatn væri gert ráð fyrir því að lóðinni yrði skipt í tvo hluta. Ekki hefði tekist að afgreiða skipulagstillöguna innan lögbundins frests. Hafi rétthafar lóðarinnar allt frá árinu 2005 óskað eftir því að heimilað yrði að skipta lóðinni en vinna við deiliskipulag hafi tafið afgreiðslu málsins. Ríkið væri eigandi umræddrar lóðar og hefði samþykkt lóðarskiptin fyrir sitt leyti. Var erindið afgreitt með eftirfarandi hætti: „Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við skiptingu lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi beiðni. Þá er samþykkt að umsókn um byggingarleyfi verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipu-lagslaga nr. 123/2010 þegar lóðastofnun hefur gengið í gegn“. Staðfesti sveitarstjórn greinda afgreiðslu 13. nóvember 2014.

Hinn 3. september 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa 98,2 m² sumarhús á fyrrgreindri lóð og umsókninni vísað til skipulagsnefndar þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir. Skipulagsnefnd tók erindið fyrir 10. s.m. og frestaði afgreiðslu málsins. Var fært til bókar að í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011, væri ekki unnt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá að ákvæði aðalskipulags, um að deiliskipulag þyrfti að vera forsenda byggingarleyfa en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga, yrði fellt út. Var kæranda tilkynnt afgreiðsla skipulagsnefndar með bréfi, dags. 11. september 2015, og þar tekið fram að sá fyrirvari væri á nefndri tilkynningu að sveitarstjórn samþykkti hana á næsta fundi sínum.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að forsendur fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 hafi annars vegar verið reistar á Aðalskipulagi Þingvallasveitar 2004-2016 og hins vegar á skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Sé aðalskipulagið unnið á grundvelli eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og nefndrar reglugerðar. Sú reglugerð hafi ekki lengur verið í gildi þegar kærandi hafi sótt um byggingarleyfi.

Hafi nefndin í úrskurði sínum byggt niðurstöðu málsins á ákvæðum aðalskipulagsins um hverfisvernd, en þó sérstaklega á því ákvæði þess að vinna skuli deiliskipulag fyrir sumarhúsasvæði í Þingvallasveit „innan 4 ára frá gildistöku aðalskipulagsins“ og að ekki verði „gefin út byggingarleyfi á þeim svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag að loknum þessum 4 árum“.

Skilgreining „hverfisverndar“ sé svipuð í fyrrgreindri skipulagsreglugerð og nýrri skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Sá grundvallarmunur sé þó á að samkvæmt eldri reglugerðinni skuli gera grein fyrir slíkum svæðum í „svæðis- og aðalskipulagi“ og öll svæði sem „staðfest hverfisvernd gildir um samkvæmt aðalskipulagi skulu deiliskipulögð ef framkvæmdir eru fyrirhugaðar“. Í gr. 5.3.2.17. í gildandi skipulagsreglugerð sé hins vegar heimilt „að setja ákvæði um hverfisvernd“ við gerð deiliskipulags, „þótt slíkt svæði sé ekki afmarkað í aðalskipulagi“. Jafnframt sé skírskotað til gr. 6.3. í síðarnefndu reglugerðinni.

Í 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi m.a. fram að tilgangur aðalskipulags sé að setja fram stefnu „um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál“ og að leggja grundvöll fyrir gerð deiliskipulags varðandi þessa þætti. Hafi ákvæði 12. gr. laganna verið breytt með lögum nr. 87/2015 þannig að „jafnframt skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um verndaráætlun í byggð samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð“. Kveðið sé á um markmið aðalskipulags í skipulagsreglugerðinni og í gr. 4.7.1. hennar segi að stefna aðalskipulags sé bindandi við gerð deiliskipulags og útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa.

Hverfisverndarsvæðin virðist ekki mjög vel skilgreind í aðalskipulaginu fyrir utan almenna stefnumörkun þess um vatnsvernd, gróður, stærð lóða o.s.frv. Verði ekki séð að umsókn kæranda brjóti á neinn hátt í bága við stefnu þess um landnotkun eða byggingarform og lögð sé áhersla á að gætt verði þeirra verndarsjónarmiða sem þar séu mörkuð. Hafi hvorki skipulags- né byggingarnefnd gert neinar athugsemdir við umsóknina í þá veru. Það skilyrði aðalskipulagsins um að byggingarleyfi verði ekki gefin út eftir 2. júní 2010 sé óvenjulegt og falli ekki undir eðlilega stefnumörkun þess sem skal vera leiðbeinandi „við mat á einstökum byggingarumsóknum innan eldri sumarhúsasvæða“ á meðan deiliskipulag liggi ekki fyrir.

Í 44. gr. skipulagslaga segi að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Hafi ákvæðinu verið breytt og tekið fram í athugasemdum við þá breytingu að lögð væri fram breyting á orðalagi 1. mgr. 44. gr. laganna á þann veg að skýrt yrði að við framkvæmd grenndarkynningar vegna byggingar-eða framkvæmdaleyfis verði aðalskipulag að liggja fyrir og framkvæmdin að vera í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Jafnframt sé vísað til gr. 5.9.1. skipulagsreglugerðar um grenndarkynningu.

Þótt „stefna“ aðalskipulags sé bindandi við útgáfu byggingarleyfis skv. 6. mgr. 32. gr. skipulagslaga sé ekki hægt að fallast á að nefnt ákvæði aðalskipulagsins, um bann við útgáfu byggingarleyfa hafi deiliskipulag ekki verið afgreitt, víki til hliðar skýrum lagaákvæðum um að byggingarleyfi megi gefa út á grundvelli grenndarkynningar samræmist það aðalskipulagi að öðru leyti. Um verulega íþyngjandi ákvæði sé að ræða sem hindri að rétthafi lóðar geti fengið byggingarleyfi. Það sé að auki ósanngjarnt vegna þess langa tíma sem deiliskipulag hafi verið í smíðum og þar sem ákvæðið sé ótímabundið.

Hljóti sanngirnisrök að styðja það að byggingarleyfi verði grenndarkynnt án frekari tafa vegna sögu málsins. Sé það sjónarmið stutt af landeiganda. Þá komi fram í aðalskipulaginu í kafla um stefnu um frístundabyggð á láglendi að annað leiðarljós við mótun stefnunnar, en að vernda lífríki Þingvallavatns og ásýnd svæðisins, sé að gæta eins og framast er unnt sanngirni og jafnræðis gagnvart landeigendum sem lýst hafi áhuga á að skipuleggja sumarhúsasvæði á sínum jörðum.   

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að undanfarin ár hafi skipulagsnefnd samþykkt að grenndarkynna mætti byggingarleyfi á svæðum þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi svo verið gert þrátt fyrir ákvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins um að fjórum árum eftir gildistöku þess skyldi deiliskipulag ávallt vera forsenda fyrir byggingarleyfi á þessu svæðum. Í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011, sem fjalli um viðbyggingu á sumarhúsalóð í landi Miðfells, hafi sveitarfélagið ekki talið mögulegt að taka aðra ákvörðun en þá sem kærð sé í máli þessu. Þá sé bent á að unnið sé að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins og sé gert ráð fyrir að nýtt aðalskipulag taki gildi um mitt árið 2016.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um það í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði eða vafi leikur á um að fyrirhugað mannvirki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag skal leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laganna og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ef sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags, enda hafi áður farið fram grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Felur það lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan m.a. í sér að skipulagsnefnd taki ákvörðun um hvort veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulags. Hins vegar er endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi var tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa 3. september 2015. Vísaði hann erindinu til skipulagsnefndar sem frestaði afgreiðslu þess. Var sú afstaða nefndarinnar á því reist að í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 væri ekki unnt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá með því að fella út ákvæði í aðalskipulagi um að deiliskipulag þyrfti að vera forsenda byggingarleyfa, en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga.

Skýrt er kveðið á um í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt, en af framansögðu er ljóst að svo er ekki. Verður að svo komnu að líta á málskot kæranda sem kæru á óhæfilegum drætti á afgreiðslu máls, skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, enda lítur hin kærða ákvörðun að frestun á afgreiðslu umsóknar kæranda.

Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hefur allt frá árinu 2005 óskað eftir skiptingu lóðar nr. 170211 svo honum væri unnt að reisa sumarhús á lóðinni. Kemur fram í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins f.h. Jarðeigna ríkisins til kæranda, dags. 30. september 2014, að vinna við deiliskipulag frístundabyggðar fyrir Heiðarbæ hafi staðið í vegi fyrir afgreiðslu þess erindis. Eins og fyrr greinir mun tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis ekki hafa verið afgreidd innan lögbundins frests en lóðinni mun þó hafa verið formlega skipt upp sumarið 2015 í samræmi við þá tillögu. Byggingarfulltrúi vísaði umsókn kæranda um byggingarleyfi til skipulagsnefndar 3. september s.á. sem frestaði afgreiðslu málsins ótímabundið á fundi sínum 11. s.m.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 3. mgr. 3. gr. laganna. Aðalskipulag Bláskógabyggðar, Þingvallasveit, 2004-2016 tók gildi árið 2006 og var þar kveðið á um ekki yrðu gefin út byggingarleyfi á ódeiliskipulögðum svæðum að liðnum fjórum árum frá gildistöku þess. Er sú afstaða sveitarfélagsins í samræmi við þá meginreglu skipulagslaga að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Með greindu ákvæði tók sveitarfélagið þá ákvörðun að nýta sér ekki undanþáguákvæði 44. gr. skipulagslaga um að skipulagsnefnd geti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ákveðið að unnt sé að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar enda fari áður fram grenndarkynning. Er sveitarstjórn bundin af greindu skilyrði meðan aðalskipulagi er ekki breytt. Verður að líta svo á að rök sveitarfélagsins fyrir því að fresta afgreiðslu á umsókn kæranda um byggingaleyfi hafi þar með verið málefnaleg og verður ekki talið að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins þegar kæra í máli þessu barst 15. október 2015.

Hins vegar verður að líta til þess að nú er liðið meira en ár frá því að málinu var frestað ótímabundið. Í samræmi við 4. mgr. 28. gr. skipulagslaga og gr. 4.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 mun almenn endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar hafa hafist árið 2014. Munu vonir standa til þess að unnt verði að auglýsa tillögu að greindu aðalskipulagi í byrjun árs 2017, en frekari lögbundin málsmeðferð á sér stað eftir auglýsingu sem líkur eru á að taki mánuði frekar en vikur að ljúka. Þannig er gert ráð fyrir að endurskoðað aðalskipulag geti tekið gildi á vormánuðum 2017 samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hefur verið frá sveitarfélaginu. Er því fyrirsjáanlegt að afgreiðsla á umsókn kæranda um byggingarleyfi muni enn tefjast umfram það sem orðið er.

Stjórnvöldum ber að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er skv. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga á grundvelli laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem þá eru í gildi og að teknu tilliti til annarra réttarheimilda. Umsókn er þá samþykkt eða henni synjað og eftir atvikum beint í annan farveg. Sveitarfélagið getur t.a.m. breytt aðalskipulagi, haft frumkvæði að deiliskipulagsgerð eða leiðbeint framkvæmdaraðila um að óska heimildar til að vinna sjálfur að gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Í því sambandi er rétt að geta þess að ekki mun hafa verið tekin ákvörðun í máli þessu um að hefja gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði, en um mitt árið 2016 tók gildi deiliskipulag fyrir tvær lóðir í landi Heiðarbæjar. Þá mun samkvæmt upplýsingum frá skipulagsfulltrúa koma til greina að skipta umræddu svæði í nokkur deiliskipulagssvæði.

Ríflega 14 mánuðir eru liðnir frá töku hinnar kærðu ákvörðunar 10. september 2015 og liggja ekki fyrir neinar nýjar ákvarðanir vegna umsóknar kæranda um byggingarleyfi. Þá er fyrirsjáanlegt, eins og áður er greint, að afgreiðsla hennar mun tefjast enn frekar ef ekki er leitað annarra lausna en almennrar endurskoðunar á aðalskipulagi. Verður að svo komnu ekki komist hjá því að telja að afgreiðsla umsóknarinnar sé farin að tefjast umfram það sem við verði unað gegn andmælum kæranda. Er því lagt fyrir skipulagsnefnd Uppsveita bs., sveitarstjórn Bláskógabyggðar og byggingarfulltrúa að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar án ástæðulauss dráttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir skipulagsnefnd Uppsveita bs., sveitarstjórn Bláskógabyggðar og byggingarfulltrúa að ljúka afgreiðslu umsóknar kæranda um leyfi til byggingar sumarhúss á lóð 170211, nú 223275, í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, Þingvallasveit.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Kristín Benediktsdóttir

14/2015 Gunnarsbraut

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. janúar 2015 um að synja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu úr steinsteypu, gera tvennar svalir, breyta innra skipulagi og breyta húsinu á lóð nr. 30 við Gunnarsbraut í Reykjavík í tvíbýlishús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2015, er barst nefndinni 19. s.m., kæra eigendur, Gunnarsbraut 30, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. janúar 2015 að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins að Gunnarsbraut 30, Reykjavík og breyta húsinu í tvíbýlishús, reisa steypta viðbyggingu og gera á það tvennar svalir. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 2. mars 2015 og í september og október 2016.

Málavextir: Húsið að Gunnarbraut 30 er steinsteypt tvílyft hús með kjallara. Það var reist árið 1939 og samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skiptist húsið í þrjá eignarhluta. Mun það vera nýtt sem einbýlishús með aukaíbúð í kjallara. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. apríl 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að stækka umrætt hús og byggja bílskúr á lóðinni. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og skrifstofu sviðsstjóra, sem í umsögnum sínum lögðust gegn því að grenndarkynna stækkun á húsinu þar eð umsótt breyting viki frá samþykktum rammaskilmálum fyrir Norðurmýri. Unnt væri hins vegar að grenndarkynna bílskúr þar sem stækkun hans væri í samræmi við fyrrgreinda skilmála. Frestaði byggingarfulltrúi í framhaldinu afgreiðslu málsins.

Umsókn um byggingarleyfi var á ný lögð fram á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. september 2014 og lágu þá fyrir nýir uppdrættir. Samkvæmt þeim var sótt um leyfi til að stækka kjallara hússins, jafnframt því að stækka 1. og 2. hæð til vesturs og setja tvennar svalir á suðvesturhlið þess. Því til viðbótar var sótt um að fækka íbúðum í húsinu um eina og breyta innra fyrirkomulagi þess. Við breytinguna yrði húsið 372,2 m² í stað 259,6 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,46 í 0,66. Frestaði byggingarfulltrúi afgreiðslu málsins og vísaði því til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Samþykkti skipulagsfulltrúi á embættisafgreiðslufundi sínum 3. október s.á. að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Auðarstræti 3, 5, 7, 9 og 11 og Gunnarsbraut 26, 28, 32 og 34. Var það og gert og aðilum bent á að skila bæri athugsemdum eigi síðar en 20. nóvember
s.á. Þann sama dag var erindið tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa. Var tekið fram í fundargerð þess fundar að fyrir lægju tölvupóstar frá fjórum aðilum sem ekki gerðu athugasemd við erindið og einnig skriflegt erindi frá einum aðila um framlengdan frest til athugasemda. Var samþykkt að framlengja athugasemdafrest til og með 4. desember 2014.

Málið var tekið fyrir á tveimur embættisafgreiðslufundum skipulagsfulltrúa í desember 2014 og annars vegar samþykkt að vísa því til umsagnar verkefnisstjóra og hins vegar að kynna það formanni umhverfis- og skipulagsráðs. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 9. janúar 2015 var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem tók það fyrir á fundi 14. s.m., og var það fært til bókar undir 10. lið í B-hluta fundargerðarinnar. Á fundinum lágu m.a. fyrir fyrrgreindir tölvupóstar, sem og aðrar athugasemdir sem borist höfðu síðar. Jafnframt var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. s.m., en hann tók neikvætt í umsóknina í ljósi áhrifa umbeðinnar stækkunar á nærliggjandi lóðir. Afgreiddi umhverfis- og skipulagsráð erindið með svohljóðandi hætti: „Neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 12. janúar 2015. Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.“ Á fundi borgarráðs 15. janúar 2015 var ofangreind fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs lögð fyrir og B-hluti hennar samþykktur. Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir á afgreiðslufundi 20. janúar 2015 og synjaði henni, með vísan til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs 14. s.m. og umsagnar skipulagsfulltrúa 12. s.m. Var fundargerð byggingarfulltrúa lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. janúar s.á. í B-hluta þeirrar fundargerðar og á fundi borgarráðs 22. s.m. var sá hluti fundargerðar ráðsins samþykktur.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að meðferð málsins hafi ekki verið í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.9. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um grenndarkynningu. Þá hafi ekki verið gætt viðeigandi ákvæða laga um mannvirki nr. 160/2010.

Skipulagsnefnd beri að ákveða frest til að koma að athugasemdum fyrirfram og óheimilt sé að framlengja hann. Þurft hefði að færa fram haldbærar ástæður fyrir frestbeiðninni og veita kærendum andmælarétt áður en ákveðið hafi verið að grípa inn í meðferð málsins með svo afdrifaríkum hætti. Leiði ágalli þessi a.m.k. til þess að ekki hafi átt að koma til álita við afgreiðslu málsins neinar þær athugasemdir sem fram hafi komið eftir að upphaflegur kynningarfrestur hafi runnið út. Einnig virðist sem öðrum hafi ekki verið kynntur framlengdur frestur og hafi málsmeðferðin að því leyti einnig verið bæði ólögmæt og ómálefnaleg.

Hvorki afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs, sem hafi stöðu skipulagsnefndar að lögum, né afgreiðsla borgarráðs sem fari með skipulagsvald sveitarstjórnar, feli í sér ákvörðun í samræmi við 44. gr. skipulagslaga. Skort hafi því á að fyrir lægi lögmæt niðurstaða grenndarkynningar í málinu og þar með skilyrði til þess að byggingarfulltrúi gæti tekið ákvörðun um afgreiðslu á umsókn kæranda. Hafi byggingarfulltrúi ekki verið bær til að afgreiða grenndarkynningarþátt málsins og beri að þeim sökum að ógilda ákvörðun hans.

Með hinni kærðu ákvörðun sé gengið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrár, en í umsókn felist ekki annað en það að kærendum verði heimilað að nýta lóð sína til jafns við það sem algengt sé í hverfinu. Þannig verði nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir umsótta breytingu nokkuð lægra en á lóð Gunnarsbrautar 28, en eigendur þeirrar lóðar standi helst gegn áformum kærenda. Þá hafi ekki verið gætt ákvæða 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Virðist niðurstaða málsins alfarið byggjast á meintum grenndaráhrifum fyrirhugaðrar viðbyggingar, en ekkert liggi fyrir um það að þau hafi verið rannsökuð eða mat lagt á áhrifin með fullnægjandi hætti. Komi ekki fram í hverju þau birtist og hvernig þau horfi við með tilliti til jafnræðis- eða grenndarsjónarmiða. Sé í þessu sambandi vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 48/2011. Þá hafi borgaryfirvöld átt að gefa kærendum kost á að draga úr grenndaráhrifum byggingarinnar í stað þess að synja umsókninni.

Kærendur hafi ítrekað leitað leyfis til að byggja við hús sitt en fyrirspurnum þeirra verið synjað með vísan til svokallaðrar rammaskilmála fyrir Norðurmýri frá 1987. Með þeirri ákvörðun að fallist yrði á grenndarkynningu umsóknar þeirra hafi falist viðurkenning á því að umsótt viðbygging væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, enda eigi skipulagsnefnd að leggja mat á hvort framkvæmdin falli að þeim skilyrðum áður en umsókn um byggingarleyfi sé grenndarkynnt, sbr. gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð.

Haldlaust sé að byggja á því að umsóttar breytingar muni skapa fordæmi, en möguleg uppbygging muni ráðast af því deiliskipulagi sem gera eigi. Geti eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar í nágrenni þeirra sem haft geti í för með sér grenndaráhrif. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. Hafi borgaryfirvöld margoft teflt þessum rökum fram í kærumálum til nefndarinnar til að réttlæta samþykktir sínar. Verði ekki annað séð en að þessi sömu rök hafi átt að leiða til þess að umsókn kærenda yrði samþykkt, þrátt fyrir óverulega og afmarkaða aukningu skuggavarps. Jafnframt sé bent á að fyrir liggi jákvæð umsögn Minjastofnunar í málinu. Þá telji kærendur að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið meðferð málsins og að nánar tilgreindur starfsmaður hafi unnið gegn málinu með ýmsum hætti.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að samkvæmt a-lið 2. gr. í viðauka 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar hafi skipulagsfulltrúi heimild til að framlengja frest til athugasemda í grenndarkynningu. Hafi sveitarfélagið ávallt túlkað 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 svo að heimilt væri að framlengja nefndan frest kæmi fram um það beiðni áður en hann væri liðinn. Hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála aldrei gert athugasemd við þá framkvæmd.

Ekki sé fallist á að meðferð málsins hafi verið andstæð lögum eða ómálefnaleg. Ákvörðun um að fallast ekki á byggingarleyfisumsóknina hafi verið tekin af umhverfis- og skipulagsráði samkvæmt heimild í 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar, sem samþykkt hafi verið í borgarstjórn 18. desember 2012. Borgarráð hafi samþykkt afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs sem og afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Því sé mótmælt að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar. Afgreiðsla borgarinnar hafi verið lögmæt og málefnaleg með tilliti til þeirra raka sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. janúar 2015. Engin sambærileg tilvik hafi heldur verið samþykkt í Norðurmýrinni sem kærendur hafi getað bent á, en ekki hafi verið heimilaðar neinar stækkanir á húsum á umræddu svæði frá árinu 1987 umfram það sem rammaskilmálar hafi leyft. Eigi borgarbúar ekki stjórnarskrárvarinn rétt til að byggja hvar sem þeim henti. Beri borgaryfirvöldum í hverju tilviki að meta sjálfstætt umsóknir sem berist með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi og með tilliti til almennra grenndarreglna.

Ekki sé heldur fallist á að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Verði ekki séð að borginni hafi borið skylda til að leggja til breytt fyrirkomulag eða staðsetningu viðbyggingarinnar, m.a. í ljósi þeirrar miklu andstöðu sem komið hafi frá hagsmunaðilum. Þá verði ekki fallist á að málið hafi ekki verið nægilega upplýst, en mat á áhrifum breytinganna hafi farið fram, m.a. með skuggavarpsuppdráttum, sem sýnt hafi aukinn skugga á suður- og vesturgarð Gunnarsbrautar 28, auk aukningar skugga á svalir miðhæðar nefnds húss og útsýnisskerðingar.

Skipulagsvaldið liggi hjá sveitarfélögum og ákvörðun um grenndarkynningu sé tekin af skipulagsyfirvöldum lögum samkvæmt í því skyni að afla gagna sem veita megi leiðbeiningu um afstöðu annarra íbúa og nágranna til fyrirliggjandi umsókna. Þótt grenndarkynnt sé hafi borginni ekki borið að samþykkja umsóknina umyrðalaust. Verði ekki séð að kærendur hafi átt lögvarinn rétt til þess að fá umsókn sína samþykkta og hafi synjun verið byggð á málefnalegum grunni.

Athugasemdir kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar: Kærendur árétta áður fram komin sjónarmið sín. Jafnframt sé bent á að viðauki 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar hafi ekki verið í gildi þegar ákvörðun um framlengingu frestsins hafi verið tekin. Samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð frá 18. desember 2012 hafi hvorki verið staðfest af ráðherra né birt í B-deild Stjórnartíðinda og uppfylli því ekki skilyrði 6. gr. skipulagslaga. Viðauki um samþykkt um stjórn Reykjavíkur um vald umhverfis- og skipulagsráðs til fullnaðarafgreiðslu mála muni ekki hafa tekið gildi fyrr en í nóvember 2015. Þá verði ekki séð að tilvitnuð samþykkt hafi haft að geyma heimild fyrir ráðið til að ganga inn í það hlutverk sem sveitarstjórn sé falið í 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Loks hafi þess ekki verið gætt við meðferð málsins að tilkynna niðurstöðu sveitarstjórnar eða svara framkomnum athugasemdum, svo sem skylt sé lögum samkvæmt.

—–

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var synjað umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Gunnarsbraut 30 að undangenginni grenndarkynningu.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur skipulagsnefnd heimilað að veitt verði byggingarleyfi fyrir umsóttum framkvæmdum án þess að deiliskipulag liggi fyrir. Skilyrði þess er að framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og að grenndarkynning hafi farið fram. Er og kveðið á um í gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að ef ekki liggi fyrir deiliskipulag, líkt og hér háttar, skuli byggingarfulltrúi vísa leyfisumsókn til skipulagsnefndar í samræmi við ákvæði skipulagslaga og skuli grenndarkynning hafa farið fram og hlotið afgreiðslu samkvæmt ákvæðum laganna áður en byggingaráform eru samþykkt.

Grenndarkynning felst í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta, leyfisumsókn og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Er nánar kveðið á um grenndarkynningu í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar er m.a. tekið fram í gr. 5.9.4. að berist athugasemdir á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um þær til sveitarstjórnar, sem síðan taki endanlega afstöðu til málsins. Í 2. mgr. ákvæðisins er svo gerð sú krafa að hafi athugasemdir borist frá hagsmunaðilum skuli sveitarstjórn senda þeim er athugasemdir gerðu umsögn sína um þær ásamt niðurstöðu.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu vísaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu og var samþykkt að grenndarkynna erindið og hagsmunaaðilum gefið færi á því að skila inn athugasemdum innan nánar tilgreinds frests. Sá frestur var síðan framlengdur á fundi skipulagsfulltrúa í kjölfar erindis eins hagsmunaaðila þar um. Að lokinni kynningu var málið á dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs og lá þá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. janúar 2015, þar sem m.a. var tekin afstaða til framkominna athugasemda. Var málið afgreitt „neikvætt“ með vísan til nefndrar umsagnar. Sú niðurstaða var færð til bókar í B-hluta fundargerðarinnar og á fundi borgarráðs næsta dag var sú fundargerð lögð fram og B-hluti hennar samþykktur. Verður því að telja að með þeirri afgreiðslu borgarráðs hafi legið fyrir viljaafstaða ráðsins til erindisins. Hvorki liggur hins vegar fyrir að aðilum sem athugasemdir gerðu hafi verið send umrædd umsögn né að þeim hafi verið tilkynnt niðurstaða málsins og ekki liggur fyrir að ákvörðun skipulagsfulltrúa um að framlengja athugasemdafrest við grenndarkynninguna hafi verið kynnt kærendum eða öðrum aðilum sem grenndarkynningin náði til.

Frestur hagsmunaaðila til að koma að athugasemdum skal vera a.m.k. fjórar vikur skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og er ekki girt fyrir að unnt sé að hafa þann frest lengri. Framlenging frestsins við umrædda grenndarkynningu verður því ekki talin hafa áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Ber í þessu sambandi einnig að líta til 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem heimilar aðila á hvaða stigi málsmeðferðar sem er að krefjast þess að afgreiðslu máls sé frestað uns honum hefur gefist tími til þess að kynna sér gögn og gera grein fyrir afstöðu sinni. Máli skal þó ekki frestað ef það hefur í för með sér að farið sé fram úr lögmæltum fresti til afgreiðslu málsins, en það á ekki við í máli þessu. Grenndarkynning er þáttur í skoðun máls og lýtur bæði að rannsókn þess og samráði við hagsmunaaðila áður en ákvörðun er tekin. Ákvörðun um að grenndarkynna umsóttar breytingar getur þar af leiðandi ekki falið í sér samþykki kynntrar umsóknar, enda geta athugasemdir er fram koma við grenndarkynningu eftir atvikum haft áhrif á niðurstöðu máls.

Í umræddri ákvörðun fólst synjun á umsóttum breytingum á fasteign kærenda og því um að ræða óbreytt ástand. Sú staðreynd að þeim hagsmunaaðilum sem gert höfðu athugasemdir við grenndarkynningu voru hvorki send svör sveitarfélagsins við andmælum né þeim kynnt niðurstaða málsins getur ekki, eins og atvikum er háttað, ráðið úrslitum um gildi ákvörðunarinnar. Tilgangur slíkrar tilkynningar til þeirra er gert hafa athugasemdir við grenndarkynningu er fyrst og fremst sá að gefa þeim kost á því að kynna sér forsendur ákvörðunarinnar og taka afstöðu til málskots, ef breytingar yrðu heimilaðar gegn andmælum þeirra.

Í umsókn kærenda fólst m.a. að hús þeirra yrði stækkað og hefði nýtingarhlutfall lóðarinnar við það hækkað úr 0,44 í 0,66. Nýtingarhlutfall annarra lóða við Gunnarsbraut 26-38, sem standa við sömu götuhlið, er frá 0,48 til 0,71, ef miðað er við upplýsingar úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Í ljósi þessa nýtingarhlutfalls götusvæðisins verður hin kærða ákvörðun ekki talin fela í sér að kærendum sé mismunað umfram aðra fasteignaeigendur á svæðinu hvað nýtingarheimildar varðar.

Hin umdeilda ákvörðun byggingarfulltrúa var tekin með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa og afgreiðslu skipulags- og umhverfisráðs, þar sem skírskotað var til áhrifa umbeðinnar stækkunar á nærliggjandi lóðir. Jafnframt var að því vikið að fyrirhugað væri að hefja vinnu við gerð hverfisskipulags fyrir Hlíðar, Holt og Norðurmýri á árinu, þar sem yrðu til umfjöllunar almennar og samræmdar stækkunarheimildir fyrir fasteignir og mannvirki. Bjuggu því efnisrök að baki niðurstöðu byggingarfulltrúa.
Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim annmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður ógildingarkröfu kærenda af þeim sökum hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. janúar 2015 um að synja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu úr steinsteypu, gera tvennar svalir, breyta innra skipulagi og breyta húsinu á lóð nr. 30 við Gunnarsbraut í Reykjavík í tvíbýlishús.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

49/2015 Lindarbraut

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2015, kæra á synjun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 á umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2015, er barst nefndinni 29. s.m., kærir H, Lindarbraut 11, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 að synja umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 5. júlí 2016.

Málavextir: Árið 1976 var samþykkt á fundi byggingarnefndar Seltjarnarnesbæjar svonefnt bráðabirgðabyggingarleyfi til fimm ára fyrir viðbyggingu verkstæðis er tilheyra myndi Lindarbraut 11. Var sett það skilyrði fyrir útgáfu leyfisins að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi fyrir. Síðar kom upp ágreiningur milli lóðarhafa Lindarbrautar 9 og 11 um lóðamörk. Taldi lóðarhafi Lindarbrautar 9 að þau væri í samræmi við þinglýst lóðablað frá árinu 1971, en lóðarhafi Lindarbrautar 11 að þau væri í samræmi við lóðablað frá árinu 1990. Óskaði Seltjarnarnesbær eftir áliti lögmanns um réttarstöðu lóðarhafa. Niðurstaða álitsgerðarinnar, dags. 2. nóvember 2005, var sú að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi ekki fyrir vegna áðurnefndrar viðbyggingar. Væri stærð lóðanna í samræmi við þinglýst lóðablað frá árinu 1971 og lægi enginn samningur fyrir milli eigenda lóðanna um breytt lóðamörk. Stæði því umrædd viðbygging að Lindarbraut 11 að hluta til innan lóðar nr. 9.

Í maí 2008 fór þáverandi eigandi lóðarinnar að Lindarbraut 9 fram á það við byggingarfulltrúa að hin umdeilda viðbygging yrði fjarlægð af lóð hans. Synjaði sveitarfélagið þeirri beiðni og taldi að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða milli eigenda lóðanna nr. 9 og 11. Árið 2011 fór núverandi lóðarhafi Lindarbrautar 9 fram á það við Seltjarnarnesbæ að sveitarfélagið beitti þeim úrræðum sem það hefði yfir að ráða til að verkstæðisskúr við lóðamörk nefndra lóða yrði fjarlægður eða minnkaður þannig að hann stæði aðeins innan lóðar Lindarbrautar 11. Vísaði lóðarhafinn m.a. til álits frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um að nokkur sambrunahætta væri á milli bílskúrs á lóð hans og nefndrar byggingar. Synjaði Seltjarnarnesbær umræddri kröfu og var ákvörðun þeirri skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er felldi þá ákvörðun úr gildi. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að ekki yrði fallist á að bæjaryfirvöld hefðu getað synjað erindi kæranda um afskipti af málinu með þeim rökum að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða þegar litið væri til þess að erindið væri stutt haldbærum rökum um gæslu öryggishagsmuna.

Lóðarhafi Lindarbrautar 9 óskaði í kjölfar þessa eftir því við Seltjarnarnesbæ að málið yrði tekið upp að nýju. Var kæranda með bréfi Seltjarnarnesbæjar, dags. 2. september 2013, gefið færi á því að koma að sjónarmiðum sínum. Einnig var óskað upplýsinga um hvort lagfærðar hefðu verið eldvarnir í umræddu húsi. Í svarbréfi kæranda, dags. 31. október s.á., var tekið fram að lóðarmörk Lindarbrautar 11 hefðu verið óbreytt í marga áratugi. Hefði skipulags- og byggingarnefnd ekki stjórnsýsluvald í málinu og væri sú krafa gerð að málinu yrði vísað frá, að öðru leyti en því er lyti að brunavörnum. Þá yrðu nánari skýringar á úrbótum varðandi eldvarnir gefnar þegar skipulagsnefnd hefði afgreitt málið.

Með bréfi Seltjarnarnesbæjar til lóðarhafa Lindarbrautar 11, dags. 16. júlí 2014, var veittur frestur til að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim mannvirkjum sem að hluta lægju yfir lóðamörk Lindarbrautar 11 á lóðina nr. 9. Skyldi gert ráð fyrir því í umsókn að sá hluti mannvirkjanna sem nú stæði inni á lóð nr. 9 yrði fjarlægður og að gengið yrði frá mannvirkjunum með fullnægjandi hætti við núverandi lóðamörk í samræmi við þinglýstar heimildir. Þá var tekið fram að ef ekki yrði farið að framangreindum tilmælum innan greindra tímamarka kæmi til greina að beita ákvæðum 2. og 3. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Loks var vakin athygli á því að yrði ekki sótt um byggingarleyfi fyrir umræddum framkvæmdum í samræmi við framangreint kynni það að leiða til þess að Seltjarnarnesbær yrði að krefjast þess að mannvirkin í heild yrðu fjarlægð. Með bréfinu fylgdi umsögn lögmannsstofu um málið, dags. sama dag.

Hinn 2. október 2014 móttók Seltjarnarnesbær umsókn kæranda um leyfi til að „eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu“ á lóðamörkum umræddra lóða. Kom fram á afstöðumynd með umsókn að eystri hluti verkstæðisbyggingar hefði verið reistur á árunum 1950-1960 en viðbygging hennar, vestari hluti, síðar. Bílskúr hefði verið byggður árið 1950. Þá var tilgreint að mannvirkin væru notuð undir starfsemi húsasmíðameistara og væri öllu rafmagni slegið út þegar þau væru ekki í notkun.

Með tveimur bréfum byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 18. maí 2015, kom fram að umsókn kæranda hefði verið synjað þann sama dag. Var í öðru bréfinu jafnframt tekið fram að téð umsókn væri ekki í samræmi við tilmæli í áðurgreindu bréfi byggingarfulltrúa frá 16. júlí 2014 og væri henni því synjað með vísan til þess og fyrirliggjandi umsagnar lögmannsstofu um málið. Einnig kom fram að bærist ekki ný umsókn í samræmi við tilmæli byggingarfulltrúa innan nánar tilgreindra tímamarka myndi byggingarfulltrúi leggja fram þá tillögu fyrir skipulags- og umferðarnefnd að lagðar yrðu dagsektir á eiganda eignanna. Þá skyldu andmæli vegna nefndrar tillögu hafa borist byggingarfulltrúa innan 30 daga frá móttöku bréfsins.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að dráttur hafi orðið á að senda út tilkynningu um afgreiðslu málsins. Teljist kæra of seint fram komin sé þess vænst að slíkt verði talið afsakanlegt. Kærufrestur sé stuttur. Óverulegur dráttur hafi orðið á að senda inn kæru og synjun umsóknar snerti ekki hagsmuni annarra en kæranda og bæjaryfirvalda.

Í umfjöllun um málið sé gengið út frá því að aðeins sé um eina byggingu að ræða, þ.e. viðbyggingu sem veitt hafi verið tímabundið byggingarleyfi fyrir árið 1976 og nái inn á lóð Lindarbrautar 9, eins og hún hafi upphaflega verið afmörkuð. Rétt sé að fyrir hafi verið eldri verkstæðisbygging sem nái jafnt langt inn á lóðina og nefnd viðbygging. Ekki sé annað vitað en að hún hafi verið byggð með leyfi byggingaryfirvalda. Þegar hún hafi verið reist hafi umræddar lóðir verið í eigu sama aðila og því hafi ekki verið þörf á að leita samþykkis. Mátti þeim sem síðar hafi eignast lóðina Lindarbraut 9 vera kunnugt um tilvist og legu umræddrar byggingar. Fáist það því ekki staðist að byggingarleyfi fyrir umræddri byggingu hafi verið tímabundið og sé ekki lengur í gildi, en það eigi aðeins við um lítinn hluta hennar, þ.e.a.s. fyrrgreinda viðbyggingu.

Ekki sé á færi stjórnvalda að skera úr ágreiningi um mörk lóðanna. Sennilegt sé að eigendur Lindarbrautar 11 hafi unnið rétt fyrir hefð á umræddri lóðarspildu, hvað sem líði þinglesnum mæliblöðum. Séu því engar forsendur fyrir þeirri niðurstöðu að fjarlægja beri umrætt mannvirki, en slíkt væri í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og að auki verulega kostnaðarsamt.

Vísað sé til úrskurða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 32/2001, 73/2002 og 19/2003 er varði Spítalastíg 4. Af þeim verði ráðið að ágreiningur um eignarmörk eigi undir dómstóla og að ekki sé réttlætanlegt að krefjast niðurrifs til að fullnægja kröfum um eldvarnir séu vægari úrræði tiltæk. Hafi því jafnframt verið hafnað í úrskurðum nefndarinnar að réttlætanlegt væri að fallast á kröfu um niðurrif eigna hefðu þær staðið óátalið um langan tíma, þótt ekki lægi fyrir byggingarleyfi. Megi í því sambandi t.d. nefna úrskurð í máli nr. 5/2005, en kvartað hafi verið til umboðsmanns Alþings vegna niðurstöðu þess máls og hann ekki talið ástæðu til athugasemda. Einnig sé skírskotað til úrskurðar í máli nr. 22/2000. Hafi bæjaryfirvöld getað gert reka að því að láta fjarlægja viðbygginguna eftir að tímabundna leyfið rann út í samræmi við úrræði þágildandi byggingarlaga. Verði að telja að sveitarfélagið hafi fallið frá því að beita úrræðum þeirra laga með aðgerðaleysi sínu. Þá sé vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 20/407 og 26/67 til stuðnings málsrökum kæranda. 

Virðist sem ætlunin hafi verið sú að leyfa byggingunni að standa áfram. Til þess bendi m.a. lóðablað með breyttum lóðamörkum, áritað af byggingarfulltrúa í júlí 1990, en með því hafi verið staðfest það fyrirkomulag sem þá hafi í raun verið lengi við lýði, þ.e. að mörk umræddra lóða væru um gafl nefndrar verkstæðisbyggingar. Hins vegar hafi farist fyrir að þinglýsa umræddu lóðablaði.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Sveitarfélagið gerir kröfu um frávísun málsins sökum þess að kæra hafi borist of seint. Kæranda hafi verið tilkynnt ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja umsókn um byggingarleyfi með bréfi, dags. 18. maí 2015. Í öðru bréfi, sem dagsett sé og sent þann sama dag, hafi jafnframt verið tilkynnt um synjunina og fyrirhugaða álagningu dagsekta.

Til vara er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Það sé niðurstaða Seltjarnarnesbæjar, sbr. niðurstöðu í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 22. mars 2013, að líta svo á að mörk lóða nr. 9 og 11 við Lindarbraut séu í samræmi við þinglýst lóðablað frá ágúst 1971 og því sé hluti mannvirkja lóðarinnar Lindarbrautar 11 á lóð Lindarbrautar 9. Sé sveitarfélagið að bregðast við ábendingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og leitast við að sjá til þess að ekki stafi hætta af húsum í sveitarfélaginu, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Umsókn kæranda hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem bærinn hafi sett fyrir byggingarleyfi og því hafi byggingarfulltrúa ekki verið annað fært en að synja umsókninni.

Vísun kæranda í úrskurði um Spítalastíg sé almenn og fremur óskýr. Úrskurðarnefndin hafi áður úrskurðað að bæjaryfirvöldum beri að bregðast við í máli þessu og geti Seltjarnarnesbær ekki komið sér hjá því að taka ákvörðun. Þá eigi ekki við að stjórnvöld hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.
Álitaefni um hvort rétturinn kunni að hafa unnist fyrir hefð eigi undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. Það að byggingin hafi staðið óátalið um árabil hafi ekki þau áhrif að ekki verði krafist niðurrifs, sbr. Hrd. 1959:818. Úrskurður í máli nr. 5/2005, sem kærandi vísi til, fjalli ekki um sambærilegt mál. Þar hafi t.d. ekki verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að garðhýsi yrði fjarlægt, en í máli þessu hafi svo verið, sbr. áðurnefnt álit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ekki sé um ákveðinn tímaramma að ræða í 2. mgr. 31. gr. eldri byggingarlaga nr. 54/1978 og því ekki hægt að segja að bæjaryfirvöld hafi fallið frá því að beita úrræðum laganna. Þá verði að telja að atvik í tilvitnuðum hæstaréttardómum séu ekki sambærileg atvikum í máli þessu. Vísun kæranda í dómana sé almenn og í engu sé rökstutt hvernig þeir eigi við í málinu. Virðist í máli þessu sem aldrei hafi verið ætlunin að breyta mörkum lóðanna. Jafnframt sé bent á að fram hafi komið í söluyfirliti með Lindarbraut 11, þegar núverandi eigandi hafi keypt eignina, að fjarlægja þyrfti byggingu sem nái inn á lóðina að Lindarbraut 9.

Bæjaryfirvöld hafi reynt að nálgast málið með hliðsjón af reglu um meðalhóf. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin tæpum tíu mánuðum eftir að kæranda hafi verið tilkynnt um að sækja þyrfti um byggingarleyfi og hafi því meðalhófs verið gætt að þessu leyti. Það sé álit Seltjarnarnesbæjar að vægari úrræði standi ekki til boða. Ekki hafi verið krafist niðurrifs alls hússins heldur eingöngu þess hluta sem standi innan lóðarinnar Lindarbrautar 9. Fyrst eigendur lóðanna nái ekki saman eigi sveitarfélagið ekki annan kost en að krefjast þessa. Forðast hafi verið að taka meira íþyngjandi ákvörðun en nauðsynlegt væri til að tryggja að mannvirkin stæðu ekki inni á lóð nágranna. Þá hafi ekki verið lögð fram nein gögn er styðji þá staðhæfingu að um misskilning sé að ræða varðandi þá byggingu er fari inn á lóð nr. 9.

——

Færð hafa verið fram ítarlegri sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða: Seltjarnarnesbær gerir kröfu um frávísun máls þessa þar sem kæra hafi borist úrskurðarnefndinni að liðnum lögbundnum kærufresti.

Kærandi heldur því fram að dregist hafi að tilkynna honum hina kærðu ákvörðun og í gögnum liggur fyrir að 1. júní 2015 hafi kæranda verið birt bréf frá Seltjarnarnesbæ. Kæra var móttekin hjá úrskurðarnefndinni 29. júní 2015 og verður því með vísan til framangreinds og þar sem greindri fullyrðingu kæranda hefur ekki verið hnekkt, við það miðað að hún hafi borist innan eins mánaðar kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa fól í sér synjun umsóknar kæranda um leyfi til að eldverja suðurgafl byggingar á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11. Var sú synjun m.a. á því reist að umsókn kæranda færi í bága við tilmæli byggingarfulltrúa í bréfi, dags. 16. júlí 2014, þar sem gerð var krafa um að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir allri byggingunni og að sá hluti hennar sem færi yfir lóðarmörk Lindarbrautar 9 yrði fjarlægður.

Fyrir liggur að ágreiningur er á milli lóðarhafa Lindarbrautar 9 og 11 um mörk lóðanna. Á það ekki undir úrskurðarnefndina að skera úr um ágreining um eignarréttindi eða hvort slík réttindi hafi stofnast fyrir hefð. Það álitaefni á undir lögsögu dómstóla. Samkvæmt hnitsettu mæliblaði, dags. í ágúst 1971, stendur hin umdeilda bygging út fyrir mörk lóðar Lindarbrautar 11 og inn á lóð Lindarbrautar 9, sem þar er talin vera 822 m² að flatarmáli. Er það í samræmi við skráningu fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands, sem ætla verður að byggi á gögnum viðkomandi sveitarfélags, sbr. 19. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, en úrskurðarnefndin hefur ekki undir höndum þinglýst lóðablað fyrir umræddar lóðir þrátt fyrir fyrirspurnir þar um. Hefur gildi umrædds mæliblaðs frá árinu 1971 ekki verið hnekkt. Þá liggur fyrir að byggingarleyfi vegna viðbyggingar, er reist var árið 1976 við mörk umræddra lóða, er ekki lengur í gildi og hvorki munu vera til samþykktir uppdrættir hjá sveitarfélaginu af þeim hluta byggingarinnar sem áður hafði verið reistur né hafa þeir verið lagðir fram af hálfu kæranda.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið studd efnislegum rökum með hliðsjón af opinberri skráningu þjóðskrár og þeim gögnum sem fyrir lágu þegar ákvörðunin var tekin og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 um að synja umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

21/2015 Lækjartún Hólmavík

Með
Árið 2016, föstudaginn 28. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011, fyrir:

mál nr. 21/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hólmavík að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu fyrir Lækjartún 23 og ákvörðun sveitarstjórnar sveitarfélagsins að samþykkja byggingarleyfi fyrir vinnustofu sem síðar var breytt í einbýlishús á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. apríl 2015, er barst nefndinni 13. s.m., kærir Á, Lækjartúni 23, Hólmavík, skiptingu lóðarinnar Lækjartúns 23 með eignaskiptayfirlýsingu og að fjarlægð milli tveggja húsa á lóðinni sé ófullnægjandi. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á samþykki byggingarleyfis frá 11. mars 2008, sem staðfest var af sveitarstjórn 18. s.m. fyrir vinnustofu á nefndri lóð sem síðar var breytt í íbúðarhús með leyfi byggingarfulltrúa, dags. 20. október 2009, staðfest af sveitarstjórn 3. nóvember s.á. og ákvörðun byggingarfulltrúa að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu fyrir lóðina sem þinglýst var 23. nóvember 2009.

Gögn málsins bárust frá Strandabyggð 13. maí 2015.

Málsatvik og rök: Með kaupsamningi dagsettum 23. júlí 2014 keypti eiginmaður kæranda einbýlishús á lóðinni Lækjartúni 23, Hólmavík, en á lóðinni standa tvö einbýlishús. Kærandi situr nú í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Hinn 27. nóvember 2014 sendi kærandi tölvupóst til sveitarstjóra Strandabyggðar og sýslumannsins á Hólmavík með fyrirspurn um hvort fyrrnefnd kaup á einbýlishúsinu hafi mögulega verið ólögleg. Þeirri fyrirspurn var ekki svarað og sendi þá lögfræðingur kæranda, hinn 16. janúar 2015, fyrirspurn um eignaskiptayfirlýsingu lóðarinnar og hvort staðsetning húsanna á lóðinni hafi verið samþykkt af byggingaryfirvöldum. Þeirri fyrirspurn var svarað af byggingarfulltrúa með bréfi dagsettu 6. febrúar s.á. Þar kom fram að 19. september 2007 hafi byggingar-, umhverfis- og skipulagsnefnd tekið umsókn um byggingarleyfi fyrir vinnustofu við Lækjartún 23 og umsóknin samþykkt á fundi sömu nefndar 11. mars 2008. Á fundi sömu nefndar 20. október 2009 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um að breyta vinnustofunni í íbúð, nefndin samþykkti umsóknina og staðfesti  sveitarstjórn þá afgreiðslu 3. nóvember 2009.

Kærandi telur það ekki geta staðist að lóð, sem á standi tvö einbýlishús, sé skipt með eignaskiptayfirlýsingu samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samkvæmt 3. gr. laganna eigi þau fyrst og fremst við um sambyggð og/eða samtengd hús. Það gangi þvert á aðalmarkmið lagagreinarinnar að telja að tengd hús geti talist eitt hús í skilningi laganna. Það hljóti því að teljast afar langt gengið að lögum um fjöleignarhús sé beitt um einbýlishús.

Þá sé bil milli húsanna á umræddri lóð einungis 3,5 m. og leiki vafi á því hvort bilið sé nægjanlegt með tilliti til brunavarna. Byggingarfulltrúi hafi upplýst að veggur nýrra hússins, sem snúi að því eldra, sé ekki merktur sem eldvarnarveggur á teikningu.

Sveitarfélagið gerir þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé liðinn og kröfugerð kæranda sé svo óljós að ekki sé hægt að taka afstöðu til krafna hennar. Þá beinist kröfur kæranda að ákvörðunum sem falli utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.

Af hálfu sameiganda lóðarinnar Lækjartún 23 kemur fram  að fasteignasala hafi alfarið séð um söluna á húsi kæranda og hún hafi farið fram á löglegan og eðlilegan hátt. Farið hafi verið eftir öllum samþykktum sveitarfélagsins og kaupandi hafi kynnt sér lóðarskiptingu m.a. hjá byggingarfulltrúa Strandabyggðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Strandabyggðar að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu vegna lóðarinnar Lækjartúns 23 á Hólmavík og ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja byggingarleyfi fyrir vinnustofu sem síðar var breytt í einbýlishús.
 
Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Þó verður kæra ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að hún var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Byggingarleyfi yngra hússins undir vinnustofu á umræddri lóð var samþykkt 11. mars 2008, og 20. október 2009 var veitt leyfi til þess að breyta því húsi í íbúð. Í kjölfar þess staðfesti byggingarfulltrúi eignaskiptayfirlýsingu fyrir lóðina sem var undirrituð af sameigendum lóðarinnar 5. nóvember 2009 og er staðfesting byggingarfulltrúa skráð á eignaskiptayfirlýsinguna. Hún var síðan móttekin til þinglýsingar 8. nóvember 2009 og þinglýst 23. s.m.. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. apríl 2015 eða sex til sjö árum eftir að umdeildar ákvarðanir voru teknar. Var kærufrestur vegna þeirra ákvarðana löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson