Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

89/2015 Heiðarbær Þingvallasveit

Með
Árið 2016, föstudaginn 18. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Kristín Benediktsdóttir dósent.

Fyrir var tekið mál nr. 89/2015, kæra á ákvörðun skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 10. september 2015 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til byggingar sumarhúss á lóð 170211, nú 223275, í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, Þingvallasveit.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. október 2015, er barst nefndinni sama dag, kærir, leigjandi lóðar 170211, nú 223275,  í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, ákvörðun skipulagsnefndar Uppsveita bs. frá 10. september 2015 um að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til byggingar sumarhúss á umræddri lóð. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að fyrri ákvörðun skipulagsnefndarinnar frá 6. nóvember 2014 um að grenndarkynna skuli umsókn um leyfi til byggingar húss á téðri lóð verði látin standa.

Gögn málsins bárust frá sveitarfélaginu 12. nóvember 2015 og frekari gögn á árinu 2016.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar Uppsveita bs. 6. nóvember 2014 var lögð fram   fyrirspurn um hvort leyft yrði að byggja sumarhús á lóð nr. 170211 við Grafningsveg í landi Heiðarbæjar í Þingvallasveit. Í erindinu var m.a. tilgreint að samkvæmt tillögu að deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Heiðarbæjar við Þingvallavatn væri gert ráð fyrir því að lóðinni yrði skipt í tvo hluta. Ekki hefði tekist að afgreiða skipulagstillöguna innan lögbundins frests. Hafi rétthafar lóðarinnar allt frá árinu 2005 óskað eftir því að heimilað yrði að skipta lóðinni en vinna við deiliskipulag hafi tafið afgreiðslu málsins. Ríkið væri eigandi umræddrar lóðar og hefði samþykkt lóðarskiptin fyrir sitt leyti. Var erindið afgreitt með eftirfarandi hætti: „Skipulagsnefnd gerir ekki athugasemd við skiptingu lóðarinnar í samræmi við fyrirliggjandi beiðni. Þá er samþykkt að umsókn um byggingarleyfi verði grenndarkynnt skv. 44. gr. skipu-lagslaga nr. 123/2010 þegar lóðastofnun hefur gengið í gegn“. Staðfesti sveitarstjórn greinda afgreiðslu 13. nóvember 2014.

Hinn 3. september 2015 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa tekin fyrir umsókn um leyfi til að reisa 98,2 m² sumarhús á fyrrgreindri lóð og umsókninni vísað til skipulagsnefndar þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir. Skipulagsnefnd tók erindið fyrir 10. s.m. og frestaði afgreiðslu málsins. Var fært til bókar að í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011, væri ekki unnt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá að ákvæði aðalskipulags, um að deiliskipulag þyrfti að vera forsenda byggingarleyfa en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga, yrði fellt út. Var kæranda tilkynnt afgreiðsla skipulagsnefndar með bréfi, dags. 11. september 2015, og þar tekið fram að sá fyrirvari væri á nefndri tilkynningu að sveitarstjórn samþykkti hana á næsta fundi sínum.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að forsendur fyrir niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 hafi annars vegar verið reistar á Aðalskipulagi Þingvallasveitar 2004-2016 og hins vegar á skipulagsreglugerð nr. 400/1998. Sé aðalskipulagið unnið á grundvelli eldri skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og nefndrar reglugerðar. Sú reglugerð hafi ekki lengur verið í gildi þegar kærandi hafi sótt um byggingarleyfi.

Hafi nefndin í úrskurði sínum byggt niðurstöðu málsins á ákvæðum aðalskipulagsins um hverfisvernd, en þó sérstaklega á því ákvæði þess að vinna skuli deiliskipulag fyrir sumarhúsasvæði í Þingvallasveit „innan 4 ára frá gildistöku aðalskipulagsins“ og að ekki verði „gefin út byggingarleyfi á þeim svæðum þar sem ekki liggur fyrir deiliskipulag að loknum þessum 4 árum“.

Skilgreining „hverfisverndar“ sé svipuð í fyrrgreindri skipulagsreglugerð og nýrri skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Sá grundvallarmunur sé þó á að samkvæmt eldri reglugerðinni skuli gera grein fyrir slíkum svæðum í „svæðis- og aðalskipulagi“ og öll svæði sem „staðfest hverfisvernd gildir um samkvæmt aðalskipulagi skulu deiliskipulögð ef framkvæmdir eru fyrirhugaðar“. Í gr. 5.3.2.17. í gildandi skipulagsreglugerð sé hins vegar heimilt „að setja ákvæði um hverfisvernd“ við gerð deiliskipulags, „þótt slíkt svæði sé ekki afmarkað í aðalskipulagi“. Jafnframt sé skírskotað til gr. 6.3. í síðarnefndu reglugerðinni.

Í 28. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 komi m.a. fram að tilgangur aðalskipulags sé að setja fram stefnu „um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðaþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál“ og að leggja grundvöll fyrir gerð deiliskipulags varðandi þessa þætti. Hafi ákvæði 12. gr. laganna verið breytt með lögum nr. 87/2015 þannig að „jafnframt skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um verndaráætlun í byggð samkvæmt lögum um verndarsvæði í byggð“. Kveðið sé á um markmið aðalskipulags í skipulagsreglugerðinni og í gr. 4.7.1. hennar segi að stefna aðalskipulags sé bindandi við gerð deiliskipulags og útgáfu byggingar- og framkvæmdaleyfa.

Hverfisverndarsvæðin virðist ekki mjög vel skilgreind í aðalskipulaginu fyrir utan almenna stefnumörkun þess um vatnsvernd, gróður, stærð lóða o.s.frv. Verði ekki séð að umsókn kæranda brjóti á neinn hátt í bága við stefnu þess um landnotkun eða byggingarform og lögð sé áhersla á að gætt verði þeirra verndarsjónarmiða sem þar séu mörkuð. Hafi hvorki skipulags- né byggingarnefnd gert neinar athugsemdir við umsóknina í þá veru. Það skilyrði aðalskipulagsins um að byggingarleyfi verði ekki gefin út eftir 2. júní 2010 sé óvenjulegt og falli ekki undir eðlilega stefnumörkun þess sem skal vera leiðbeinandi „við mat á einstökum byggingarumsóknum innan eldri sumarhúsasvæða“ á meðan deiliskipulag liggi ekki fyrir.

Í 44. gr. skipulagslaga segi að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggi ekki fyrir eða um sé að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi geti skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar, enda fari áður fram grenndarkynning. Hafi ákvæðinu verið breytt og tekið fram í athugasemdum við þá breytingu að lögð væri fram breyting á orðalagi 1. mgr. 44. gr. laganna á þann veg að skýrt yrði að við framkvæmd grenndarkynningar vegna byggingar-eða framkvæmdaleyfis verði aðalskipulag að liggja fyrir og framkvæmdin að vera í samræmi við aðalskipulag hvað varði landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Jafnframt sé vísað til gr. 5.9.1. skipulagsreglugerðar um grenndarkynningu.

Þótt „stefna“ aðalskipulags sé bindandi við útgáfu byggingarleyfis skv. 6. mgr. 32. gr. skipulagslaga sé ekki hægt að fallast á að nefnt ákvæði aðalskipulagsins, um bann við útgáfu byggingarleyfa hafi deiliskipulag ekki verið afgreitt, víki til hliðar skýrum lagaákvæðum um að byggingarleyfi megi gefa út á grundvelli grenndarkynningar samræmist það aðalskipulagi að öðru leyti. Um verulega íþyngjandi ákvæði sé að ræða sem hindri að rétthafi lóðar geti fengið byggingarleyfi. Það sé að auki ósanngjarnt vegna þess langa tíma sem deiliskipulag hafi verið í smíðum og þar sem ákvæðið sé ótímabundið.

Hljóti sanngirnisrök að styðja það að byggingarleyfi verði grenndarkynnt án frekari tafa vegna sögu málsins. Sé það sjónarmið stutt af landeiganda. Þá komi fram í aðalskipulaginu í kafla um stefnu um frístundabyggð á láglendi að annað leiðarljós við mótun stefnunnar, en að vernda lífríki Þingvallavatns og ásýnd svæðisins, sé að gæta eins og framast er unnt sanngirni og jafnræðis gagnvart landeigendum sem lýst hafi áhuga á að skipuleggja sumarhúsasvæði á sínum jörðum.   

Málsrök Bláskógabyggðar: Af hálfu sveitarfélagsins er tekið fram að undanfarin ár hafi skipulagsnefnd samþykkt að grenndarkynna mætti byggingarleyfi á svæðum þar sem deiliskipulag lægi ekki fyrir, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi svo verið gert þrátt fyrir ákvæði í aðalskipulagi sveitarfélagsins um að fjórum árum eftir gildistöku þess skyldi deiliskipulag ávallt vera forsenda fyrir byggingarleyfi á þessu svæðum. Í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011, sem fjalli um viðbyggingu á sumarhúsalóð í landi Miðfells, hafi sveitarfélagið ekki talið mögulegt að taka aðra ákvörðun en þá sem kærð sé í máli þessu. Þá sé bent á að unnið sé að endurskoðun á aðalskipulagi sveitarfélagsins og sé gert ráð fyrir að nýtt aðalskipulag taki gildi um mitt árið 2016.

Niðurstaða: Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki þarf leyfi byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, fyrir byggingu mannvirkis. Er kveðið á um það í 11. gr. sömu laga að nefndir aðilar tilkynni umsækjanda um samþykkt byggingaráforma enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef umsókn lýtur að mannvirkjagerð á ódeiliskipulögðu svæði eða vafi leikur á um að fyrirhugað mannvirki sé í samræmi við gildandi deiliskipulag skal leita umsagnar skipulagsfulltrúa eða skipulagsnefndar, sbr. 10. gr. laganna og gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ef sótt er um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og deiliskipulag liggur ekki fyrir eða um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi getur skipulagsnefnd ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulags, enda hafi áður farið fram grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Felur það lagaákvæði samkvæmt orðanna hljóðan m.a. í sér að skipulagsnefnd taki ákvörðun um hvort veita megi byggingar- eða framkvæmdaleyfi án deiliskipulags. Hins vegar er endanleg ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis á hendi byggingarfulltrúa samkvæmt skýrum ákvæðum laga um mannvirki.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi var tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa 3. september 2015. Vísaði hann erindinu til skipulagsnefndar sem frestaði afgreiðslu þess. Var sú afstaða nefndarinnar á því reist að í ljósi niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála í máli nr. 71/2011 væri ekki unnt að gefa út byggingarleyfi á lóðum innan fyrrum Þingvallasveitar nema á grundvelli deiliskipulags eða þá með því að fella út ákvæði í aðalskipulagi um að deiliskipulag þyrfti að vera forsenda byggingarleyfa, en ekki grenndarkynning skv. 44. gr. skipulagslaga.

Skýrt er kveðið á um í 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verði ekki kærð fyrr en málið hafi verið til lykta leitt, en af framansögðu er ljóst að svo er ekki. Verður að svo komnu að líta á málskot kæranda sem kæru á óhæfilegum drætti á afgreiðslu máls, skv. 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, enda lítur hin kærða ákvörðun að frestun á afgreiðslu umsóknar kæranda.

Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hefur allt frá árinu 2005 óskað eftir skiptingu lóðar nr. 170211 svo honum væri unnt að reisa sumarhús á lóðinni. Kemur fram í bréfi fjármála- og efnahagsráðuneytisins f.h. Jarðeigna ríkisins til kæranda, dags. 30. september 2014, að vinna við deiliskipulag frístundabyggðar fyrir Heiðarbæ hafi staðið í vegi fyrir afgreiðslu þess erindis. Eins og fyrr greinir mun tillaga að deiliskipulagi umrædds svæðis ekki hafa verið afgreidd innan lögbundins frests en lóðinni mun þó hafa verið formlega skipt upp sumarið 2015 í samræmi við þá tillögu. Byggingarfulltrúi vísaði umsókn kæranda um byggingarleyfi til skipulagsnefndar 3. september s.á. sem frestaði afgreiðslu málsins ótímabundið á fundi sínum 11. s.m.

Samkvæmt skipulagslögum er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórna og annast þær gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlana skv. 3. mgr. 3. gr. laganna. Aðalskipulag Bláskógabyggðar, Þingvallasveit, 2004-2016 tók gildi árið 2006 og var þar kveðið á um ekki yrðu gefin út byggingarleyfi á ódeiliskipulögðum svæðum að liðnum fjórum árum frá gildistöku þess. Er sú afstaða sveitarfélagsins í samræmi við þá meginreglu skipulagslaga að deiliskipulag skuli gera fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Með greindu ákvæði tók sveitarfélagið þá ákvörðun að nýta sér ekki undanþáguákvæði 44. gr. skipulagslaga um að skipulagsnefnd geti, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ákveðið að unnt sé að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar enda fari áður fram grenndarkynning. Er sveitarstjórn bundin af greindu skilyrði meðan aðalskipulagi er ekki breytt. Verður að líta svo á að rök sveitarfélagsins fyrir því að fresta afgreiðslu á umsókn kæranda um byggingaleyfi hafi þar með verið málefnaleg og verður ekki talið að óhæfilegur dráttur hafi orðið á afgreiðslu málsins þegar kæra í máli þessu barst 15. október 2015.

Hins vegar verður að líta til þess að nú er liðið meira en ár frá því að málinu var frestað ótímabundið. Í samræmi við 4. mgr. 28. gr. skipulagslaga og gr. 4.8.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 mun almenn endurskoðun aðalskipulags Bláskógabyggðar hafa hafist árið 2014. Munu vonir standa til þess að unnt verði að auglýsa tillögu að greindu aðalskipulagi í byrjun árs 2017, en frekari lögbundin málsmeðferð á sér stað eftir auglýsingu sem líkur eru á að taki mánuði frekar en vikur að ljúka. Þannig er gert ráð fyrir að endurskoðað aðalskipulag geti tekið gildi á vormánuðum 2017 samkvæmt þeim upplýsingum sem aflað hefur verið frá sveitarfélaginu. Er því fyrirsjáanlegt að afgreiðsla á umsókn kæranda um byggingarleyfi muni enn tefjast umfram það sem orðið er.

Stjórnvöldum ber að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt er skv. 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga á grundvelli laga og stjórnvaldsfyrirmæla sem þá eru í gildi og að teknu tilliti til annarra réttarheimilda. Umsókn er þá samþykkt eða henni synjað og eftir atvikum beint í annan farveg. Sveitarfélagið getur t.a.m. breytt aðalskipulagi, haft frumkvæði að deiliskipulagsgerð eða leiðbeint framkvæmdaraðila um að óska heimildar til að vinna sjálfur að gerð deiliskipulags, sbr. 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga. Í því sambandi er rétt að geta þess að ekki mun hafa verið tekin ákvörðun í máli þessu um að hefja gerð deiliskipulags fyrir umrætt svæði, en um mitt árið 2016 tók gildi deiliskipulag fyrir tvær lóðir í landi Heiðarbæjar. Þá mun samkvæmt upplýsingum frá skipulagsfulltrúa koma til greina að skipta umræddu svæði í nokkur deiliskipulagssvæði.

Ríflega 14 mánuðir eru liðnir frá töku hinnar kærðu ákvörðunar 10. september 2015 og liggja ekki fyrir neinar nýjar ákvarðanir vegna umsóknar kæranda um byggingarleyfi. Þá er fyrirsjáanlegt, eins og áður er greint, að afgreiðsla hennar mun tefjast enn frekar ef ekki er leitað annarra lausna en almennrar endurskoðunar á aðalskipulagi. Verður að svo komnu ekki komist hjá því að telja að afgreiðsla umsóknarinnar sé farin að tefjast umfram það sem við verði unað gegn andmælum kæranda. Er því lagt fyrir skipulagsnefnd Uppsveita bs., sveitarstjórn Bláskógabyggðar og byggingarfulltrúa að taka umsóknina til efnislegrar meðferðar án ástæðulauss dráttar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir skipulagsnefnd Uppsveita bs., sveitarstjórn Bláskógabyggðar og byggingarfulltrúa að ljúka afgreiðslu umsóknar kæranda um leyfi til byggingar sumarhúss á lóð 170211, nú 223275, í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, Þingvallasveit.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ómar Stefánsson                                                    Kristín Benediktsdóttir

14/2015 Gunnarsbraut

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 14/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. janúar 2015 um að synja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu úr steinsteypu, gera tvennar svalir, breyta innra skipulagi og breyta húsinu á lóð nr. 30 við Gunnarsbraut í Reykjavík í tvíbýlishús.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. febrúar 2015, er barst nefndinni 19. s.m., kæra eigendur, Gunnarsbraut 30, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. janúar 2015 að synja umsókn um leyfi til að breyta innra skipulagi hússins að Gunnarsbraut 30, Reykjavík og breyta húsinu í tvíbýlishús, reisa steypta viðbyggingu og gera á það tvennar svalir. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 2. mars 2015 og í september og október 2016.

Málavextir: Húsið að Gunnarbraut 30 er steinsteypt tvílyft hús með kjallara. Það var reist árið 1939 og samkvæmt upplýsingum úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands skiptist húsið í þrjá eignarhluta. Mun það vera nýtt sem einbýlishús með aukaíbúð í kjallara. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. apríl 2014 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að stækka umrætt hús og byggja bílskúr á lóðinni. Var afgreiðslu málsins frestað og því vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa og skrifstofu sviðsstjóra, sem í umsögnum sínum lögðust gegn því að grenndarkynna stækkun á húsinu þar eð umsótt breyting viki frá samþykktum rammaskilmálum fyrir Norðurmýri. Unnt væri hins vegar að grenndarkynna bílskúr þar sem stækkun hans væri í samræmi við fyrrgreinda skilmála. Frestaði byggingarfulltrúi í framhaldinu afgreiðslu málsins.

Umsókn um byggingarleyfi var á ný lögð fram á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 16. september 2014 og lágu þá fyrir nýir uppdrættir. Samkvæmt þeim var sótt um leyfi til að stækka kjallara hússins, jafnframt því að stækka 1. og 2. hæð til vesturs og setja tvennar svalir á suðvesturhlið þess. Því til viðbótar var sótt um að fækka íbúðum í húsinu um eina og breyta innra fyrirkomulagi þess. Við breytinguna yrði húsið 372,2 m² í stað 259,6 m² og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,46 í 0,66. Frestaði byggingarfulltrúi afgreiðslu málsins og vísaði því til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Samþykkti skipulagsfulltrúi á embættisafgreiðslufundi sínum 3. október s.á. að grenndarkynna framlagða tillögu fyrir hagsmunaaðilum að Auðarstræti 3, 5, 7, 9 og 11 og Gunnarsbraut 26, 28, 32 og 34. Var það og gert og aðilum bent á að skila bæri athugsemdum eigi síðar en 20. nóvember
s.á. Þann sama dag var erindið tekið fyrir að nýju á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa. Var tekið fram í fundargerð þess fundar að fyrir lægju tölvupóstar frá fjórum aðilum sem ekki gerðu athugasemd við erindið og einnig skriflegt erindi frá einum aðila um framlengdan frest til athugasemda. Var samþykkt að framlengja athugasemdafrest til og með 4. desember 2014.

Málið var tekið fyrir á tveimur embættisafgreiðslufundum skipulagsfulltrúa í desember 2014 og annars vegar samþykkt að vísa því til umsagnar verkefnisstjóra og hins vegar að kynna það formanni umhverfis- og skipulagsráðs. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 9. janúar 2015 var erindinu vísað til umhverfis- og skipulagsráðs, sem tók það fyrir á fundi 14. s.m., og var það fært til bókar undir 10. lið í B-hluta fundargerðarinnar. Á fundinum lágu m.a. fyrir fyrrgreindir tölvupóstar, sem og aðrar athugasemdir sem borist höfðu síðar. Jafnframt var lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. s.m., en hann tók neikvætt í umsóknina í ljósi áhrifa umbeðinnar stækkunar á nærliggjandi lóðir. Afgreiddi umhverfis- og skipulagsráð erindið með svohljóðandi hætti: „Neikvætt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 12. janúar 2015. Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.“ Á fundi borgarráðs 15. janúar 2015 var ofangreind fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs lögð fyrir og B-hluti hennar samþykktur. Byggingarfulltrúi tók umsóknina fyrir á afgreiðslufundi 20. janúar 2015 og synjaði henni, með vísan til afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs 14. s.m. og umsagnar skipulagsfulltrúa 12. s.m. Var fundargerð byggingarfulltrúa lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. janúar s.á. í B-hluta þeirrar fundargerðar og á fundi borgarráðs 22. s.m. var sá hluti fundargerðar ráðsins samþykktur.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á því byggt að meðferð málsins hafi ekki verið í samræmi við 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og gr. 5.9. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 um grenndarkynningu. Þá hafi ekki verið gætt viðeigandi ákvæða laga um mannvirki nr. 160/2010.

Skipulagsnefnd beri að ákveða frest til að koma að athugasemdum fyrirfram og óheimilt sé að framlengja hann. Þurft hefði að færa fram haldbærar ástæður fyrir frestbeiðninni og veita kærendum andmælarétt áður en ákveðið hafi verið að grípa inn í meðferð málsins með svo afdrifaríkum hætti. Leiði ágalli þessi a.m.k. til þess að ekki hafi átt að koma til álita við afgreiðslu málsins neinar þær athugasemdir sem fram hafi komið eftir að upphaflegur kynningarfrestur hafi runnið út. Einnig virðist sem öðrum hafi ekki verið kynntur framlengdur frestur og hafi málsmeðferðin að því leyti einnig verið bæði ólögmæt og ómálefnaleg.

Hvorki afgreiðsla umhverfis- og skipulagsráðs, sem hafi stöðu skipulagsnefndar að lögum, né afgreiðsla borgarráðs sem fari með skipulagsvald sveitarstjórnar, feli í sér ákvörðun í samræmi við 44. gr. skipulagslaga. Skort hafi því á að fyrir lægi lögmæt niðurstaða grenndarkynningar í málinu og þar með skilyrði til þess að byggingarfulltrúi gæti tekið ákvörðun um afgreiðslu á umsókn kæranda. Hafi byggingarfulltrúi ekki verið bær til að afgreiða grenndarkynningarþátt málsins og beri að þeim sökum að ógilda ákvörðun hans.

Með hinni kærðu ákvörðun sé gengið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og 65. gr. stjórnarskrár, en í umsókn felist ekki annað en það að kærendum verði heimilað að nýta lóð sína til jafns við það sem algengt sé í hverfinu. Þannig verði nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir umsótta breytingu nokkuð lægra en á lóð Gunnarsbrautar 28, en eigendur þeirrar lóðar standi helst gegn áformum kærenda. Þá hafi ekki verið gætt ákvæða 10. og 12. gr. stjórnsýslulaga. Virðist niðurstaða málsins alfarið byggjast á meintum grenndaráhrifum fyrirhugaðrar viðbyggingar, en ekkert liggi fyrir um það að þau hafi verið rannsökuð eða mat lagt á áhrifin með fullnægjandi hætti. Komi ekki fram í hverju þau birtist og hvernig þau horfi við með tilliti til jafnræðis- eða grenndarsjónarmiða. Sé í þessu sambandi vísað til úrskurðar úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 48/2011. Þá hafi borgaryfirvöld átt að gefa kærendum kost á að draga úr grenndaráhrifum byggingarinnar í stað þess að synja umsókninni.

Kærendur hafi ítrekað leitað leyfis til að byggja við hús sitt en fyrirspurnum þeirra verið synjað með vísan til svokallaðrar rammaskilmála fyrir Norðurmýri frá 1987. Með þeirri ákvörðun að fallist yrði á grenndarkynningu umsóknar þeirra hafi falist viðurkenning á því að umsótt viðbygging væri í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, enda eigi skipulagsnefnd að leggja mat á hvort framkvæmdin falli að þeim skilyrðum áður en umsókn um byggingarleyfi sé grenndarkynnt, sbr. gr. 5.9.1. í skipulagsreglugerð.

Haldlaust sé að byggja á því að umsóttar breytingar muni skapa fordæmi, en möguleg uppbygging muni ráðast af því deiliskipulagi sem gera eigi. Geti eigendur fasteigna í þéttbýli ávallt vænst þess að breytingar verði gerðar í nágrenni þeirra sem haft geti í för með sér grenndaráhrif. Verði menn almennt að sæta því að með almennum takmörkunum geti hagsmunir þeirra í einhverju verið skertir með slíkum breytingum. Hafi borgaryfirvöld margoft teflt þessum rökum fram í kærumálum til nefndarinnar til að réttlæta samþykktir sínar. Verði ekki annað séð en að þessi sömu rök hafi átt að leiða til þess að umsókn kærenda yrði samþykkt, þrátt fyrir óverulega og afmarkaða aukningu skuggavarps. Jafnframt sé bent á að fyrir liggi jákvæð umsögn Minjastofnunar í málinu. Þá telji kærendur að ómálefnaleg sjónarmið hafi ráðið meðferð málsins og að nánar tilgreindur starfsmaður hafi unnið gegn málinu með ýmsum hætti.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er tekið fram að samkvæmt a-lið 2. gr. í viðauka 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar hafi skipulagsfulltrúi heimild til að framlengja frest til athugasemda í grenndarkynningu. Hafi sveitarfélagið ávallt túlkað 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 svo að heimilt væri að framlengja nefndan frest kæmi fram um það beiðni áður en hann væri liðinn. Hafi úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála aldrei gert athugasemd við þá framkvæmd.

Ekki sé fallist á að meðferð málsins hafi verið andstæð lögum eða ómálefnaleg. Ákvörðun um að fallast ekki á byggingarleyfisumsóknina hafi verið tekin af umhverfis- og skipulagsráði samkvæmt heimild í 12. gr. samþykktar fyrir umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkurborgar, sem samþykkt hafi verið í borgarstjórn 18. desember 2012. Borgarráð hafi samþykkt afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs sem og afgreiðslu byggingarfulltrúa.

Því sé mótmælt að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu íslensks stjórnsýsluréttar. Afgreiðsla borgarinnar hafi verið lögmæt og málefnaleg með tilliti til þeirra raka sem fram komu í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. janúar 2015. Engin sambærileg tilvik hafi heldur verið samþykkt í Norðurmýrinni sem kærendur hafi getað bent á, en ekki hafi verið heimilaðar neinar stækkanir á húsum á umræddu svæði frá árinu 1987 umfram það sem rammaskilmálar hafi leyft. Eigi borgarbúar ekki stjórnarskrárvarinn rétt til að byggja hvar sem þeim henti. Beri borgaryfirvöldum í hverju tilviki að meta sjálfstætt umsóknir sem berist með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi og með tilliti til almennra grenndarreglna.

Ekki sé heldur fallist á að meðalhófsregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin. Verði ekki séð að borginni hafi borið skylda til að leggja til breytt fyrirkomulag eða staðsetningu viðbyggingarinnar, m.a. í ljósi þeirrar miklu andstöðu sem komið hafi frá hagsmunaðilum. Þá verði ekki fallist á að málið hafi ekki verið nægilega upplýst, en mat á áhrifum breytinganna hafi farið fram, m.a. með skuggavarpsuppdráttum, sem sýnt hafi aukinn skugga á suður- og vesturgarð Gunnarsbrautar 28, auk aukningar skugga á svalir miðhæðar nefnds húss og útsýnisskerðingar.

Skipulagsvaldið liggi hjá sveitarfélögum og ákvörðun um grenndarkynningu sé tekin af skipulagsyfirvöldum lögum samkvæmt í því skyni að afla gagna sem veita megi leiðbeiningu um afstöðu annarra íbúa og nágranna til fyrirliggjandi umsókna. Þótt grenndarkynnt sé hafi borginni ekki borið að samþykkja umsóknina umyrðalaust. Verði ekki séð að kærendur hafi átt lögvarinn rétt til þess að fá umsókn sína samþykkta og hafi synjun verið byggð á málefnalegum grunni.

Athugasemdir kærenda við málsrökum Reykjavíkurborgar: Kærendur árétta áður fram komin sjónarmið sín. Jafnframt sé bent á að viðauki 2.3 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar hafi ekki verið í gildi þegar ákvörðun um framlengingu frestsins hafi verið tekin. Samþykkt fyrir umhverfis- og skipulagsráð frá 18. desember 2012 hafi hvorki verið staðfest af ráðherra né birt í B-deild Stjórnartíðinda og uppfylli því ekki skilyrði 6. gr. skipulagslaga. Viðauki um samþykkt um stjórn Reykjavíkur um vald umhverfis- og skipulagsráðs til fullnaðarafgreiðslu mála muni ekki hafa tekið gildi fyrr en í nóvember 2015. Þá verði ekki séð að tilvitnuð samþykkt hafi haft að geyma heimild fyrir ráðið til að ganga inn í það hlutverk sem sveitarstjórn sé falið í 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Loks hafi þess ekki verið gætt við meðferð málsins að tilkynna niðurstöðu sveitarstjórnar eða svara framkomnum athugasemdum, svo sem skylt sé lögum samkvæmt.

—–

Færð hafa verið fram frekari rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en þau hafa verið höfð til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða: Með hinni kærðu ákvörðun var synjað umsókn kærenda um byggingarleyfi fyrir breytingum á húsinu að Gunnarsbraut 30 að undangenginni grenndarkynningu.

Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 getur skipulagsnefnd heimilað að veitt verði byggingarleyfi fyrir umsóttum framkvæmdum án þess að deiliskipulag liggi fyrir. Skilyrði þess er að framkvæmdin sé í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu hverfi og að grenndarkynning hafi farið fram. Er og kveðið á um í gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 að ef ekki liggi fyrir deiliskipulag, líkt og hér háttar, skuli byggingarfulltrúi vísa leyfisumsókn til skipulagsnefndar í samræmi við ákvæði skipulagslaga og skuli grenndarkynning hafa farið fram og hlotið afgreiðslu samkvæmt ákvæðum laganna áður en byggingaráform eru samþykkt.

Grenndarkynning felst í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum, sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta, leyfisumsókn og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan frests sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga. Er nánar kveðið á um grenndarkynningu í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þar er m.a. tekið fram í gr. 5.9.4. að berist athugasemdir á kynningartíma skuli skipulagsnefnd gefa umsögn um þær til sveitarstjórnar, sem síðan taki endanlega afstöðu til málsins. Í 2. mgr. ákvæðisins er svo gerð sú krafa að hafi athugasemdir borist frá hagsmunaðilum skuli sveitarstjórn senda þeim er athugasemdir gerðu umsögn sína um þær ásamt niðurstöðu.

Eins og rakið er í málavaxtalýsingu vísaði byggingarfulltrúi umsókn kærenda til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu og var samþykkt að grenndarkynna erindið og hagsmunaaðilum gefið færi á því að skila inn athugasemdum innan nánar tilgreinds frests. Sá frestur var síðan framlengdur á fundi skipulagsfulltrúa í kjölfar erindis eins hagsmunaaðila þar um. Að lokinni kynningu var málið á dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs og lá þá fyrir umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 12. janúar 2015, þar sem m.a. var tekin afstaða til framkominna athugasemda. Var málið afgreitt „neikvætt“ með vísan til nefndrar umsagnar. Sú niðurstaða var færð til bókar í B-hluta fundargerðarinnar og á fundi borgarráðs næsta dag var sú fundargerð lögð fram og B-hluti hennar samþykktur. Verður því að telja að með þeirri afgreiðslu borgarráðs hafi legið fyrir viljaafstaða ráðsins til erindisins. Hvorki liggur hins vegar fyrir að aðilum sem athugasemdir gerðu hafi verið send umrædd umsögn né að þeim hafi verið tilkynnt niðurstaða málsins og ekki liggur fyrir að ákvörðun skipulagsfulltrúa um að framlengja athugasemdafrest við grenndarkynninguna hafi verið kynnt kærendum eða öðrum aðilum sem grenndarkynningin náði til.

Frestur hagsmunaaðila til að koma að athugasemdum skal vera a.m.k. fjórar vikur skv. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga og er ekki girt fyrir að unnt sé að hafa þann frest lengri. Framlenging frestsins við umrædda grenndarkynningu verður því ekki talin hafa áhrif á gildi hinnar kærðu ákvörðunar. Ber í þessu sambandi einnig að líta til 18. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem heimilar aðila á hvaða stigi málsmeðferðar sem er að krefjast þess að afgreiðslu máls sé frestað uns honum hefur gefist tími til þess að kynna sér gögn og gera grein fyrir afstöðu sinni. Máli skal þó ekki frestað ef það hefur í för með sér að farið sé fram úr lögmæltum fresti til afgreiðslu málsins, en það á ekki við í máli þessu. Grenndarkynning er þáttur í skoðun máls og lýtur bæði að rannsókn þess og samráði við hagsmunaaðila áður en ákvörðun er tekin. Ákvörðun um að grenndarkynna umsóttar breytingar getur þar af leiðandi ekki falið í sér samþykki kynntrar umsóknar, enda geta athugasemdir er fram koma við grenndarkynningu eftir atvikum haft áhrif á niðurstöðu máls.

Í umræddri ákvörðun fólst synjun á umsóttum breytingum á fasteign kærenda og því um að ræða óbreytt ástand. Sú staðreynd að þeim hagsmunaaðilum sem gert höfðu athugasemdir við grenndarkynningu voru hvorki send svör sveitarfélagsins við andmælum né þeim kynnt niðurstaða málsins getur ekki, eins og atvikum er háttað, ráðið úrslitum um gildi ákvörðunarinnar. Tilgangur slíkrar tilkynningar til þeirra er gert hafa athugasemdir við grenndarkynningu er fyrst og fremst sá að gefa þeim kost á því að kynna sér forsendur ákvörðunarinnar og taka afstöðu til málskots, ef breytingar yrðu heimilaðar gegn andmælum þeirra.

Í umsókn kærenda fólst m.a. að hús þeirra yrði stækkað og hefði nýtingarhlutfall lóðarinnar við það hækkað úr 0,44 í 0,66. Nýtingarhlutfall annarra lóða við Gunnarsbraut 26-38, sem standa við sömu götuhlið, er frá 0,48 til 0,71, ef miðað er við upplýsingar úr fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands. Í ljósi þessa nýtingarhlutfalls götusvæðisins verður hin kærða ákvörðun ekki talin fela í sér að kærendum sé mismunað umfram aðra fasteignaeigendur á svæðinu hvað nýtingarheimildar varðar.

Hin umdeilda ákvörðun byggingarfulltrúa var tekin með vísan til fyrirliggjandi umsagnar skipulagsfulltrúa og afgreiðslu skipulags- og umhverfisráðs, þar sem skírskotað var til áhrifa umbeðinnar stækkunar á nærliggjandi lóðir. Jafnframt var að því vikið að fyrirhugað væri að hefja vinnu við gerð hverfisskipulags fyrir Hlíðar, Holt og Norðurmýri á árinu, þar sem yrðu til umfjöllunar almennar og samræmdar stækkunarheimildir fyrir fasteignir og mannvirki. Bjuggu því efnisrök að baki niðurstöðu byggingarfulltrúa.
Að öllu framangreindu virtu er hin kærða ákvörðun ekki haldin þeim annmörkum sem raskað geta gildi hennar og verður ógildingarkröfu kærenda af þeim sökum hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 20. janúar 2015 um að synja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu úr steinsteypu, gera tvennar svalir, breyta innra skipulagi og breyta húsinu á lóð nr. 30 við Gunnarsbraut í Reykjavík í tvíbýlishús.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

49/2015 Lindarbraut

Með
Árið 2016, miðvikudaginn 9. nóvember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 49/2015, kæra á synjun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 á umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11, Seltjarnarnesi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júní 2015, er barst nefndinni 29. s.m., kærir H, Lindarbraut 11, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 að synja umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11. Skilja verður kröfugerð kæranda svo að gerð sé krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Seltjarnarnesbæ 5. júlí 2016.

Málavextir: Árið 1976 var samþykkt á fundi byggingarnefndar Seltjarnarnesbæjar svonefnt bráðabirgðabyggingarleyfi til fimm ára fyrir viðbyggingu verkstæðis er tilheyra myndi Lindarbraut 11. Var sett það skilyrði fyrir útgáfu leyfisins að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi fyrir. Síðar kom upp ágreiningur milli lóðarhafa Lindarbrautar 9 og 11 um lóðamörk. Taldi lóðarhafi Lindarbrautar 9 að þau væri í samræmi við þinglýst lóðablað frá árinu 1971, en lóðarhafi Lindarbrautar 11 að þau væri í samræmi við lóðablað frá árinu 1990. Óskaði Seltjarnarnesbær eftir áliti lögmanns um réttarstöðu lóðarhafa. Niðurstaða álitsgerðarinnar, dags. 2. nóvember 2005, var sú að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi ekki fyrir vegna áðurnefndrar viðbyggingar. Væri stærð lóðanna í samræmi við þinglýst lóðablað frá árinu 1971 og lægi enginn samningur fyrir milli eigenda lóðanna um breytt lóðamörk. Stæði því umrædd viðbygging að Lindarbraut 11 að hluta til innan lóðar nr. 9.

Í maí 2008 fór þáverandi eigandi lóðarinnar að Lindarbraut 9 fram á það við byggingarfulltrúa að hin umdeilda viðbygging yrði fjarlægð af lóð hans. Synjaði sveitarfélagið þeirri beiðni og taldi að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða milli eigenda lóðanna nr. 9 og 11. Árið 2011 fór núverandi lóðarhafi Lindarbrautar 9 fram á það við Seltjarnarnesbæ að sveitarfélagið beitti þeim úrræðum sem það hefði yfir að ráða til að verkstæðisskúr við lóðamörk nefndra lóða yrði fjarlægður eða minnkaður þannig að hann stæði aðeins innan lóðar Lindarbrautar 11. Vísaði lóðarhafinn m.a. til álits frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins um að nokkur sambrunahætta væri á milli bílskúrs á lóð hans og nefndrar byggingar. Synjaði Seltjarnarnesbær umræddri kröfu og var ákvörðun þeirri skotið til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er felldi þá ákvörðun úr gildi. Var niðurstaða nefndarinnar á því reist að ekki yrði fallist á að bæjaryfirvöld hefðu getað synjað erindi kæranda um afskipti af málinu með þeim rökum að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða þegar litið væri til þess að erindið væri stutt haldbærum rökum um gæslu öryggishagsmuna.

Lóðarhafi Lindarbrautar 9 óskaði í kjölfar þessa eftir því við Seltjarnarnesbæ að málið yrði tekið upp að nýju. Var kæranda með bréfi Seltjarnarnesbæjar, dags. 2. september 2013, gefið færi á því að koma að sjónarmiðum sínum. Einnig var óskað upplýsinga um hvort lagfærðar hefðu verið eldvarnir í umræddu húsi. Í svarbréfi kæranda, dags. 31. október s.á., var tekið fram að lóðarmörk Lindarbrautar 11 hefðu verið óbreytt í marga áratugi. Hefði skipulags- og byggingarnefnd ekki stjórnsýsluvald í málinu og væri sú krafa gerð að málinu yrði vísað frá, að öðru leyti en því er lyti að brunavörnum. Þá yrðu nánari skýringar á úrbótum varðandi eldvarnir gefnar þegar skipulagsnefnd hefði afgreitt málið.

Með bréfi Seltjarnarnesbæjar til lóðarhafa Lindarbrautar 11, dags. 16. júlí 2014, var veittur frestur til að sækja um byggingarleyfi fyrir þeim mannvirkjum sem að hluta lægju yfir lóðamörk Lindarbrautar 11 á lóðina nr. 9. Skyldi gert ráð fyrir því í umsókn að sá hluti mannvirkjanna sem nú stæði inni á lóð nr. 9 yrði fjarlægður og að gengið yrði frá mannvirkjunum með fullnægjandi hætti við núverandi lóðamörk í samræmi við þinglýstar heimildir. Þá var tekið fram að ef ekki yrði farið að framangreindum tilmælum innan greindra tímamarka kæmi til greina að beita ákvæðum 2. og 3. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Loks var vakin athygli á því að yrði ekki sótt um byggingarleyfi fyrir umræddum framkvæmdum í samræmi við framangreint kynni það að leiða til þess að Seltjarnarnesbær yrði að krefjast þess að mannvirkin í heild yrðu fjarlægð. Með bréfinu fylgdi umsögn lögmannsstofu um málið, dags. sama dag.

Hinn 2. október 2014 móttók Seltjarnarnesbær umsókn kæranda um leyfi til að „eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu“ á lóðamörkum umræddra lóða. Kom fram á afstöðumynd með umsókn að eystri hluti verkstæðisbyggingar hefði verið reistur á árunum 1950-1960 en viðbygging hennar, vestari hluti, síðar. Bílskúr hefði verið byggður árið 1950. Þá var tilgreint að mannvirkin væru notuð undir starfsemi húsasmíðameistara og væri öllu rafmagni slegið út þegar þau væru ekki í notkun.

Með tveimur bréfum byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 18. maí 2015, kom fram að umsókn kæranda hefði verið synjað þann sama dag. Var í öðru bréfinu jafnframt tekið fram að téð umsókn væri ekki í samræmi við tilmæli í áðurgreindu bréfi byggingarfulltrúa frá 16. júlí 2014 og væri henni því synjað með vísan til þess og fyrirliggjandi umsagnar lögmannsstofu um málið. Einnig kom fram að bærist ekki ný umsókn í samræmi við tilmæli byggingarfulltrúa innan nánar tilgreindra tímamarka myndi byggingarfulltrúi leggja fram þá tillögu fyrir skipulags- og umferðarnefnd að lagðar yrðu dagsektir á eiganda eignanna. Þá skyldu andmæli vegna nefndrar tillögu hafa borist byggingarfulltrúa innan 30 daga frá móttöku bréfsins.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að dráttur hafi orðið á að senda út tilkynningu um afgreiðslu málsins. Teljist kæra of seint fram komin sé þess vænst að slíkt verði talið afsakanlegt. Kærufrestur sé stuttur. Óverulegur dráttur hafi orðið á að senda inn kæru og synjun umsóknar snerti ekki hagsmuni annarra en kæranda og bæjaryfirvalda.

Í umfjöllun um málið sé gengið út frá því að aðeins sé um eina byggingu að ræða, þ.e. viðbyggingu sem veitt hafi verið tímabundið byggingarleyfi fyrir árið 1976 og nái inn á lóð Lindarbrautar 9, eins og hún hafi upphaflega verið afmörkuð. Rétt sé að fyrir hafi verið eldri verkstæðisbygging sem nái jafnt langt inn á lóðina og nefnd viðbygging. Ekki sé annað vitað en að hún hafi verið byggð með leyfi byggingaryfirvalda. Þegar hún hafi verið reist hafi umræddar lóðir verið í eigu sama aðila og því hafi ekki verið þörf á að leita samþykkis. Mátti þeim sem síðar hafi eignast lóðina Lindarbraut 9 vera kunnugt um tilvist og legu umræddrar byggingar. Fáist það því ekki staðist að byggingarleyfi fyrir umræddri byggingu hafi verið tímabundið og sé ekki lengur í gildi, en það eigi aðeins við um lítinn hluta hennar, þ.e.a.s. fyrrgreinda viðbyggingu.

Ekki sé á færi stjórnvalda að skera úr ágreiningi um mörk lóðanna. Sennilegt sé að eigendur Lindarbrautar 11 hafi unnið rétt fyrir hefð á umræddri lóðarspildu, hvað sem líði þinglesnum mæliblöðum. Séu því engar forsendur fyrir þeirri niðurstöðu að fjarlægja beri umrætt mannvirki, en slíkt væri í andstöðu við meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins og að auki verulega kostnaðarsamt.

Vísað sé til úrskurða úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála í málum nr. 32/2001, 73/2002 og 19/2003 er varði Spítalastíg 4. Af þeim verði ráðið að ágreiningur um eignarmörk eigi undir dómstóla og að ekki sé réttlætanlegt að krefjast niðurrifs til að fullnægja kröfum um eldvarnir séu vægari úrræði tiltæk. Hafi því jafnframt verið hafnað í úrskurðum nefndarinnar að réttlætanlegt væri að fallast á kröfu um niðurrif eigna hefðu þær staðið óátalið um langan tíma, þótt ekki lægi fyrir byggingarleyfi. Megi í því sambandi t.d. nefna úrskurð í máli nr. 5/2005, en kvartað hafi verið til umboðsmanns Alþings vegna niðurstöðu þess máls og hann ekki talið ástæðu til athugasemda. Einnig sé skírskotað til úrskurðar í máli nr. 22/2000. Hafi bæjaryfirvöld getað gert reka að því að láta fjarlægja viðbygginguna eftir að tímabundna leyfið rann út í samræmi við úrræði þágildandi byggingarlaga. Verði að telja að sveitarfélagið hafi fallið frá því að beita úrræðum þeirra laga með aðgerðaleysi sínu. Þá sé vísað til dóma Hæstaréttar í málum nr. 20/407 og 26/67 til stuðnings málsrökum kæranda. 

Virðist sem ætlunin hafi verið sú að leyfa byggingunni að standa áfram. Til þess bendi m.a. lóðablað með breyttum lóðamörkum, áritað af byggingarfulltrúa í júlí 1990, en með því hafi verið staðfest það fyrirkomulag sem þá hafi í raun verið lengi við lýði, þ.e. að mörk umræddra lóða væru um gafl nefndrar verkstæðisbyggingar. Hins vegar hafi farist fyrir að þinglýsa umræddu lóðablaði.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Sveitarfélagið gerir kröfu um frávísun málsins sökum þess að kæra hafi borist of seint. Kæranda hafi verið tilkynnt ákvörðun byggingarfulltrúa um að synja umsókn um byggingarleyfi með bréfi, dags. 18. maí 2015. Í öðru bréfi, sem dagsett sé og sent þann sama dag, hafi jafnframt verið tilkynnt um synjunina og fyrirhugaða álagningu dagsekta.

Til vara er þess krafist að öllum kröfum kæranda verði hafnað. Það sé niðurstaða Seltjarnarnesbæjar, sbr. niðurstöðu í úrskurði úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála uppkveðnum 22. mars 2013, að líta svo á að mörk lóða nr. 9 og 11 við Lindarbraut séu í samræmi við þinglýst lóðablað frá ágúst 1971 og því sé hluti mannvirkja lóðarinnar Lindarbrautar 11 á lóð Lindarbrautar 9. Sé sveitarfélagið að bregðast við ábendingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og leitast við að sjá til þess að ekki stafi hætta af húsum í sveitarfélaginu, sbr. 1. mgr. 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Umsókn kæranda hafi ekki uppfyllt þær kröfur sem bærinn hafi sett fyrir byggingarleyfi og því hafi byggingarfulltrúa ekki verið annað fært en að synja umsókninni.

Vísun kæranda í úrskurði um Spítalastíg sé almenn og fremur óskýr. Úrskurðarnefndin hafi áður úrskurðað að bæjaryfirvöldum beri að bregðast við í máli þessu og geti Seltjarnarnesbær ekki komið sér hjá því að taka ákvörðun. Þá eigi ekki við að stjórnvöld hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar.
Álitaefni um hvort rétturinn kunni að hafa unnist fyrir hefð eigi undir dómstóla en ekki úrskurðarnefndina. Það að byggingin hafi staðið óátalið um árabil hafi ekki þau áhrif að ekki verði krafist niðurrifs, sbr. Hrd. 1959:818. Úrskurður í máli nr. 5/2005, sem kærandi vísi til, fjalli ekki um sambærilegt mál. Þar hafi t.d. ekki verið sýnt fram á brýna nauðsyn þess að garðhýsi yrði fjarlægt, en í máli þessu hafi svo verið, sbr. áðurnefnt álit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Ekki sé um ákveðinn tímaramma að ræða í 2. mgr. 31. gr. eldri byggingarlaga nr. 54/1978 og því ekki hægt að segja að bæjaryfirvöld hafi fallið frá því að beita úrræðum laganna. Þá verði að telja að atvik í tilvitnuðum hæstaréttardómum séu ekki sambærileg atvikum í máli þessu. Vísun kæranda í dómana sé almenn og í engu sé rökstutt hvernig þeir eigi við í málinu. Virðist í máli þessu sem aldrei hafi verið ætlunin að breyta mörkum lóðanna. Jafnframt sé bent á að fram hafi komið í söluyfirliti með Lindarbraut 11, þegar núverandi eigandi hafi keypt eignina, að fjarlægja þyrfti byggingu sem nái inn á lóðina að Lindarbraut 9.

Bæjaryfirvöld hafi reynt að nálgast málið með hliðsjón af reglu um meðalhóf. Ákvörðun í málinu hafi verið tekin tæpum tíu mánuðum eftir að kæranda hafi verið tilkynnt um að sækja þyrfti um byggingarleyfi og hafi því meðalhófs verið gætt að þessu leyti. Það sé álit Seltjarnarnesbæjar að vægari úrræði standi ekki til boða. Ekki hafi verið krafist niðurrifs alls hússins heldur eingöngu þess hluta sem standi innan lóðarinnar Lindarbrautar 9. Fyrst eigendur lóðanna nái ekki saman eigi sveitarfélagið ekki annan kost en að krefjast þessa. Forðast hafi verið að taka meira íþyngjandi ákvörðun en nauðsynlegt væri til að tryggja að mannvirkin stæðu ekki inni á lóð nágranna. Þá hafi ekki verið lögð fram nein gögn er styðji þá staðhæfingu að um misskilning sé að ræða varðandi þá byggingu er fari inn á lóð nr. 9.

——

Færð hafa verið fram ítarlegri sjónarmið í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn þess.

Niðurstaða: Seltjarnarnesbær gerir kröfu um frávísun máls þessa þar sem kæra hafi borist úrskurðarnefndinni að liðnum lögbundnum kærufresti.

Kærandi heldur því fram að dregist hafi að tilkynna honum hina kærðu ákvörðun og í gögnum liggur fyrir að 1. júní 2015 hafi kæranda verið birt bréf frá Seltjarnarnesbæ. Kæra var móttekin hjá úrskurðarnefndinni 29. júní 2015 og verður því með vísan til framangreinds og þar sem greindri fullyrðingu kæranda hefur ekki verið hnekkt, við það miðað að hún hafi borist innan eins mánaðar kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa fól í sér synjun umsóknar kæranda um leyfi til að eldverja suðurgafl byggingar á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11. Var sú synjun m.a. á því reist að umsókn kæranda færi í bága við tilmæli byggingarfulltrúa í bréfi, dags. 16. júlí 2014, þar sem gerð var krafa um að sótt yrði um byggingarleyfi fyrir allri byggingunni og að sá hluti hennar sem færi yfir lóðarmörk Lindarbrautar 9 yrði fjarlægður.

Fyrir liggur að ágreiningur er á milli lóðarhafa Lindarbrautar 9 og 11 um mörk lóðanna. Á það ekki undir úrskurðarnefndina að skera úr um ágreining um eignarréttindi eða hvort slík réttindi hafi stofnast fyrir hefð. Það álitaefni á undir lögsögu dómstóla. Samkvæmt hnitsettu mæliblaði, dags. í ágúst 1971, stendur hin umdeilda bygging út fyrir mörk lóðar Lindarbrautar 11 og inn á lóð Lindarbrautar 9, sem þar er talin vera 822 m² að flatarmáli. Er það í samræmi við skráningu fasteignaskrár Þjóðskrár Íslands, sem ætla verður að byggi á gögnum viðkomandi sveitarfélags, sbr. 19. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, en úrskurðarnefndin hefur ekki undir höndum þinglýst lóðablað fyrir umræddar lóðir þrátt fyrir fyrirspurnir þar um. Hefur gildi umrædds mæliblaðs frá árinu 1971 ekki verið hnekkt. Þá liggur fyrir að byggingarleyfi vegna viðbyggingar, er reist var árið 1976 við mörk umræddra lóða, er ekki lengur í gildi og hvorki munu vera til samþykktir uppdrættir hjá sveitarfélaginu af þeim hluta byggingarinnar sem áður hafði verið reistur né hafa þeir verið lagðir fram af hálfu kæranda.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið studd efnislegum rökum með hliðsjón af opinberri skráningu þjóðskrár og þeim gögnum sem fyrir lágu þegar ákvörðunin var tekin og verður kröfu kæranda um ógildingu hennar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Seltjarnarness frá 18. maí 2015 um að synja umsókn um leyfi til að eldverja suðurgafl á verkstæði/geymslu á lóðamörkum Lindarbrautar 9 og 11.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

21/2015 Lækjartún Hólmavík

Með
Árið 2016, föstudaginn 28. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011, fyrir:

mál nr. 21/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hólmavík að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu fyrir Lækjartún 23 og ákvörðun sveitarstjórnar sveitarfélagsins að samþykkja byggingarleyfi fyrir vinnustofu sem síðar var breytt í einbýlishús á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. apríl 2015, er barst nefndinni 13. s.m., kærir Á, Lækjartúni 23, Hólmavík, skiptingu lóðarinnar Lækjartúns 23 með eignaskiptayfirlýsingu og að fjarlægð milli tveggja húsa á lóðinni sé ófullnægjandi. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á samþykki byggingarleyfis frá 11. mars 2008, sem staðfest var af sveitarstjórn 18. s.m. fyrir vinnustofu á nefndri lóð sem síðar var breytt í íbúðarhús með leyfi byggingarfulltrúa, dags. 20. október 2009, staðfest af sveitarstjórn 3. nóvember s.á. og ákvörðun byggingarfulltrúa að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu fyrir lóðina sem þinglýst var 23. nóvember 2009.

Gögn málsins bárust frá Strandabyggð 13. maí 2015.

Málsatvik og rök: Með kaupsamningi dagsettum 23. júlí 2014 keypti eiginmaður kæranda einbýlishús á lóðinni Lækjartúni 23, Hólmavík, en á lóðinni standa tvö einbýlishús. Kærandi situr nú í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Hinn 27. nóvember 2014 sendi kærandi tölvupóst til sveitarstjóra Strandabyggðar og sýslumannsins á Hólmavík með fyrirspurn um hvort fyrrnefnd kaup á einbýlishúsinu hafi mögulega verið ólögleg. Þeirri fyrirspurn var ekki svarað og sendi þá lögfræðingur kæranda, hinn 16. janúar 2015, fyrirspurn um eignaskiptayfirlýsingu lóðarinnar og hvort staðsetning húsanna á lóðinni hafi verið samþykkt af byggingaryfirvöldum. Þeirri fyrirspurn var svarað af byggingarfulltrúa með bréfi dagsettu 6. febrúar s.á. Þar kom fram að 19. september 2007 hafi byggingar-, umhverfis- og skipulagsnefnd tekið umsókn um byggingarleyfi fyrir vinnustofu við Lækjartún 23 og umsóknin samþykkt á fundi sömu nefndar 11. mars 2008. Á fundi sömu nefndar 20. október 2009 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um að breyta vinnustofunni í íbúð, nefndin samþykkti umsóknina og staðfesti  sveitarstjórn þá afgreiðslu 3. nóvember 2009.

Kærandi telur það ekki geta staðist að lóð, sem á standi tvö einbýlishús, sé skipt með eignaskiptayfirlýsingu samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samkvæmt 3. gr. laganna eigi þau fyrst og fremst við um sambyggð og/eða samtengd hús. Það gangi þvert á aðalmarkmið lagagreinarinnar að telja að tengd hús geti talist eitt hús í skilningi laganna. Það hljóti því að teljast afar langt gengið að lögum um fjöleignarhús sé beitt um einbýlishús.

Þá sé bil milli húsanna á umræddri lóð einungis 3,5 m. og leiki vafi á því hvort bilið sé nægjanlegt með tilliti til brunavarna. Byggingarfulltrúi hafi upplýst að veggur nýrra hússins, sem snúi að því eldra, sé ekki merktur sem eldvarnarveggur á teikningu.

Sveitarfélagið gerir þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé liðinn og kröfugerð kæranda sé svo óljós að ekki sé hægt að taka afstöðu til krafna hennar. Þá beinist kröfur kæranda að ákvörðunum sem falli utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.

Af hálfu sameiganda lóðarinnar Lækjartún 23 kemur fram  að fasteignasala hafi alfarið séð um söluna á húsi kæranda og hún hafi farið fram á löglegan og eðlilegan hátt. Farið hafi verið eftir öllum samþykktum sveitarfélagsins og kaupandi hafi kynnt sér lóðarskiptingu m.a. hjá byggingarfulltrúa Strandabyggðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Strandabyggðar að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu vegna lóðarinnar Lækjartúns 23 á Hólmavík og ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja byggingarleyfi fyrir vinnustofu sem síðar var breytt í einbýlishús.
 
Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Þó verður kæra ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að hún var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Byggingarleyfi yngra hússins undir vinnustofu á umræddri lóð var samþykkt 11. mars 2008, og 20. október 2009 var veitt leyfi til þess að breyta því húsi í íbúð. Í kjölfar þess staðfesti byggingarfulltrúi eignaskiptayfirlýsingu fyrir lóðina sem var undirrituð af sameigendum lóðarinnar 5. nóvember 2009 og er staðfesting byggingarfulltrúa skráð á eignaskiptayfirlýsinguna. Hún var síðan móttekin til þinglýsingar 8. nóvember 2009 og þinglýst 23. s.m.. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. apríl 2015 eða sex til sjö árum eftir að umdeildar ákvarðanir voru teknar. Var kærufrestur vegna þeirra ákvarðana löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson
 

101/2016 Vogabraut í Vogum

Með
Árið 2016, föstudaginn 14. október kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 101/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Voga frá 24. maí 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæði við Vogabraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra S, Ó, S, H og Reykjaprent ehf., Síðumúla 14, Reykjavík, ákvörðun sveitarstjórnar Voga frá 24. maí 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæði við Vogabraut, Vogum. Jafnframt fara þau fram á að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar verði frestað til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Með bréfi, dags. 12. september 2016, er barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra fyrrgreindir kærendur auk Mótel-Best ehf., Stapavegi 7, Vogum, ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga frá 19. ágúst 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðju á lóðinni Heiðarholti 5 og stöðuleyfi fyrir 10-12 tuttugu feta gámum á lóðinni Heiðarholti 3. Jafnframt kæra þau samþykktir bæjarráðs hinn 18. ágúst s.á. og bæjarstjórnar 31. s.m. vegna umsókna um framangreind leyfi. Er gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður það mál, sem er nr. 120/2016, sameinað máli þessu.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til kröfu kærenda um frestun réttaráhrifa eða stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Vogum 26. júlí og 20. september 2016.

Málavextir: Hinn 22. september 2015 sendi leyfishafi erindi til Sveitarfélagsins Voga og óskaði eftir umsögn um fyrirhugaða framkvæmd og starfsemi hans í sveitarfélaginu. Í kjölfar þess hófst vinna við að undirbúa deiliskipulagsbreytingu fyrir iðnaðarsvæðið við Vogabraut, sem auglýst var til kynningar 21. desember s.á. til 1. febrúar 2016. Sú lóð sem upphaflega átti að úthluta umsækjanda er í sameign kærenda, sveitarfélagsins og fleiri aðila. Sveitarfélagið hóf viðræður við landeigendur um kaup á lóðinni en aðilar náðu ekki saman um verð. Var því ákveðið að úthluta umsækjanda annarri lóð á svæðinu sem var í eigu sveitarfélagsins. Hinn 15. mars 2016 var lögð fram á fundi umhverfis- og skipulagsnefndar sveitarfélagsins ný tillaga að breytingu á deiliskipulagi iðnaðarsvæðisins við Vogabraut þar sem gert var ráð fyrir fyrirhugaðri starfsemi á annarri lóð. Samþykkt var að tillagan yrði kynnt í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og í kjölfarið auglýst í samræmi við 1. mgr. 41. gr. sömu laga. Að lokinni kynningu tók nefndin breytingartillöguna fyrir 23. maí 2016 og var lögð fram umsögn um þær athugasemdir sem borist höfðu á kynningartíma, m.a. frá kærendum. Bæjarstjórn samþykkti deiliskipulagstillöguna 24. maí 2016 og tók hún gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní s.á. Hinn 19. ágúst 2016 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um byggingu verksmiðju leyfishafa og stöðuleyfi fyrir gáma vegna starfsemi verktaka. Sama dag gaf byggingarfulltrúi út leyfi til jarðvegsframkvæmda á umræddri lóð.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir séu meðal eigenda að flestum lóðum á hinu skipulagða iðnaðarsvæði. Einnig séu þeir meðal eigenda Heiðarlands Vogajarða, sem liggi að iðnaðarsvæðinu. Við gerð deiliskipulagsins hafi ekki verið gætt ákvæða 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem mæli fyrir um að við gerð skipulagsáætlana skuli gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði á milli þeirra kosta sem komi til greina. Vegna sjónrænna áhrifa og hættu af heimilaðri starfsemi hefði verið eðlilegra að ætla verksmiðjunni stað í Flekkuvík fremur en í þéttbýliskjarna sveitarfélagsins.

Umhverfismat deiliskipulagsins uppfylli ekki lagakröfur um gerð slíks mats. Við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar, sbr. 1. mgr. gr. 5.4.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Aðeins hafi verið stuttlega vikið að sjónrænum áhrifum fyrirhugaðra framkvæmda í greinargerð skipulagsins. Þá sé í 2. mgr. gr. 5.4.1. reglugerðarinnar m.a. mælt fyrir um það að áætluð skuli áhrif af umfangsmiklum mannvirkjum. Það hafi ekki verið gert. Í sömu málsgrein sé einnig tekið fram að mat skuli lagt á það hvort hætta geti verið á stórslysi. Þetta hafi ekki verið gert, þrátt fyrir að fyrir liggi að starfsemi verksmiðjunnar falli undir reglugerð nr. 160/2007 um varnir gegn hættu á stórslysum af völdum hættulegra efna. Látið hafi verið við það sitja við lokaafgreiðslu skipulagsins að bæta því við skilmála vegna starfsemi innan lóðar við Heiðarholt 5 að áætlun verði gerð um fyrirhugaða starfsemi. Hins vegar sé í skipulaginu ekkert fjallað um ráðstafanir vegna hættu á stórslysi á iðnaðarsvæðinu. Við deiliskipulagsgerð séu settir skilmálar um að hljóðstig verði í samræmi við reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Hins vegar hafi komið í ljós að sveitarfélagið hafi gert samkomulag við framkvæmdaraðila í miðju skipulagsferlinu þar sem fyrirtækinu hafi verið veitt undanþága frá hljóðvistarreglum hvað varði íbúðarsvæði ÍB 3-2.

Deiliskipulagsbreytingin breyti eðli deiliskipulags svæðisins og eyðileggi innra samræmi þess með nærri 30 m hárri mjög frekri byggingu. Samkvæmt ákvæðum gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð beri sveitarfélagi við gerð deiliskipulags að hafa samráð við hagsmunaaðila, þ. á m. landeigendur, sem og eiganda lands sem liggi að landa- og lóðamörkum þess svæðis sem skipulagið taki til. Við gerð deiliskipulagstillögu og fyrir auglýsingu hennar hafi ekkert samráð verið haft við kærendur sem eigendur að hinu skipulagða svæði en þeir séu einnig eigendur aðliggjandi lands.

Kærendur vekji einnig athygli á þeim formgalla að bæjarstjórn Voga hafi talið samþykkt sína um deiliskipulagsbreytingu frá 24. febrúar 2016 vera lögformlegt skipulag og hafi lagt fram tillöguna, sem samþykkt hafi verið 24. maí s.á., sem breytingu á því skipulagi. Ósamræmi sé milli deiliskipulags og aðalskipulags og gríðarleg sjónmengun verði af hinni fyrirhugðu verksmiðju, þar sem henni sé ætlað að rísa upp úr flatlendu hrauni, og skeri hún sig algerlega úr í landslagi. Ranghermt sé í auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins, sem birst hafi í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2016, að hámarkshæð iðnaðarhúsnæðis á lóð við Heiðarholt 5 sé aukin úr 13 m í 27 m, auk 2,5 m vegna létts búnaðar. Rétt sé að hæðin sé aukin úr 8 m í fyrrnefnda hæð.

Breytingar hafi verið gerðar á deiliskipulagstillögunni eftir auglýsingu hennar. Í hinni auglýstu tillögu hafi ekki verið vikið að því að fyrirhuguð starfsemi hefði í för með sér stórslysahættu. Í hinu samþykkta deiliskipulagi sé þessarar hættu getið. Í umhverfismatskafla skipulagstillögunnar sé tekið fram að skipulagsbreytingin feli ekki í sér umhverfismatsskylda framkvæmd. Í hinu samþykkta deiliskipulagi sé bætt um betur og tekið fram að Skipulagsstofnun hafi með tölvupósti staðfest að fyrirhuguð starfsemi falli ekki undir ákvæði laga nr. 106/2006 um mat á umhverfisáhrifum áætlana, en að gera þurfi grein fyrir breytingum á deiliskipulagi skv. 12. gr. skipulagslaga.

Hvað varði byggingarleyfið telji kærendur að sú deiliskipulagsbreyting sem það eigi stoð í sé ógildanleg. Þannig hafi sveitarfélaginu borið skylda til að ganga úr skugga um það hvort fyrirhuguð framkvæmd væri háð mati á umhverfisáhrifum, en ekki liggi fyrir nein ákvörðun Skipulagsstofnunar um það álitaefni. Þá hafi umsókn um byggingarleyfi hvorki verið í samræmi við lög um mannvirki nr. 160/2010 né byggingarreglugerð nr. 112/2012 og ekki hafi verið farið eftir ákvæðum hins vefengda deiliskipulags. Loks telji kærendur að byggingarfulltrúi hafi verið vanhæfur til að gefa út byggingarleyfi í þessu máli. Hann sé í hlutastarfi hjá fyrirtækinu sem gert hafi uppdrættina sem fylgdu umsókninni og hafi því hagsmuna að gæta af málinu.

Málsrök sveitarfélagsins Voga: Vísað er til þess að deiliskipulag iðnaðarsvæðisins við Vogabraut sé að stofni til frá árinu 2001, eins og fram komi í hinni kærðu breytingu. Í kafla 1.0 segi m.a. um landnotkun svæðisins að það sé ætlað fyrir stærri og grófari iðnaðarstarfsemi en á iðnaðarsvæðinu við Iðndal sem sé í uppbyggingu. Í Aðalskipulagi Sveitarfélagsins Voga 2008-2028 sé um iðnaðarsvæði vísað til skilgreiningar gr. 4.7.1. í skipulagsreglugerð, en þar komi fram að á iðnaðarsvæðum sé gert ráð fyrir umfangsmikilli iðnaðarstarfsemi eða starfsemi sem sé talin geta haft mengun í för með sér. Fyrirhuguð starfsemi samræmist því landnotkun deili- og aðalskipulags. Afmörkun byggingarreita, lóða og skilmálar deiliskipulagsins taki mið af greindri landnotkun og séu skilmálarnir sveigjanlegir, enda erfitt að sjá nákvæmlega fyrir þarfir slíkrar starfsemi, sem iðulega geti kallað á sérlausnir hvað ýmsa þætti varði. Í samræmi við þetta hafi skipulaginu verið breytt þrisvar, þ.e. 2007, 2009 og 2010, auk hinnar kærðu breytingar.

Í aðalskipulagi komi fram að iðnaðarsvæðið norðan Vogabrautar hafi verið deiliskipulagt fyrir iðnaðarsvæði og að ekki sé gert ráð fyrir þróun iðnaðarsvæða í þéttbýlinu í Vogum nema á áðurnefndu afmörkuðu svæði norðan Vogabrautar. Þar komi og fram að á iðnaðarsvæðinu í Flekkuvík geti rúmast stóriðja eða starfsemi stórfyrirtækja, sem þarfnist stórskipahafnar. Sú starfsemi sem hér um ræði teljist ekki vera stóriðja og þarfnist ekki stórskipahafnar og falli því ekki að skilgreiningu aðalskipulagsins fyrir slíka starfsemi. Þá sé uppbygging iðnaðarsvæðisins norðan Vogabrautar þegar hafin með uppbyggingu eins húss og gatnagerð að hluta. Svæðið sé þegar deiliskipulagt auk þess sem það liggi nálægt þéttbýlinu og þar með allri þjónustu, veitum og samgöngum. Landsvæðið við Flekkuvík hafi ekki verið deiliskipulagt og þar séu engir innviðir, s.s. veitur. Þá sé það land í eigu ríkissjóðs og ekkert liggi fyrir um hvernig ríkissjóður vilji nýta það. Samningar milli sveitarfélagsins og ríkisins þar að lútandi og um skipulag svæðisins hafi ekki tekist þrátt fyrir tilraunir til þess.

Með vísan til framangreinds hafi umsókn leyfishafa fallið að gildandi skipulagi. Í raun hafi eingöngu verið um að ræða breytingar á byggingarskilmálum, einkum hvað varði hæð húss, og því hafi ekki verið nauðsynlegt að gera ítarlegar grein fyrir áhrifum breytingarinnar eða stefnumiðum en gert hafi verið eða bera með ítarlegum hætti saman þá kosti sem uppi hafi verið.

Því sé mótmælt að mat á umhverfisáhrifum breytingarinnar sé ekki fullnægjandi. Áréttað sé að um sé að ræða breytingu á deiliskipulagi einnar lóðar á þegar skipulögðu iðnaðarsvæði í samræmi við aðalskipulag og stefnu þess. Á svæðinu sé þegar gert ráð fyrir að mögulegt sé að byggja upp verulega iðnaðarstarfsemi af grófari gerðinni, eins og fram komi í deiliskipulagi. Því hafi ekki verið sérstök þörf á að meta áhrif iðnaðarstarfseminnar sem slíkrar. Í raun séu umhverfisáhrif vegna breytingarinnar eingöngu sjónræn, þ.e. vegna breytingar á leyfilegri hámarkshæð mannvirkja. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi fyrir breytinguna hafi verið gert ráð fyrir nokkuð háum byggingum, 8-13 m. Eðli málsins samkvæmt sé ljóst að uppbygging á svæðinu muni því alltaf hafa sjónræn áhrif. Í skilmálum deiliskipulagsins komi þó fram að sérstaklega skuli horft til þess að milda sjónræn áhrif mannvirkja á svæðinu með útfærslum í hönnun og litavali, þannig að þau verði sem minnst áberandi.

Óumdeilt sé að umrædd starfsemi, sem fyrirhuguð sé á lóðinni Heiðarholti 5, falli undir ákvæði reglugerðar nr. 160/2007 um varnir gegn hættu á stórslysum, en starfsemin falli engu að síður að landnotkun skipulagssvæðisins. Ef ekki hefði komið til hæð mannvirkjanna hefði ekki verið þörf á skipulagsbreytingu. Mat á hættu og nauðsynlegum aðgerðum vegna þessa fari því fram af hálfu sveitarfélagsins við útgáfu byggingarleyfis fyrir framkvæmdinni. Eins og fram hafi komið í umsögn um athugasemdir kærenda hafi legið fyrir umsögn Vinnueftirlitsins frá 31. mars 2016, þar sem fram komi að verksmiðjan sé í lægra þröskuldsmagni samkvæmt reglugerðinni og að Vinnueftirlitið geri ekki athugasemd við staðsetninguna enda hafi verið tekið tillit til stórslysahættu. Til áréttingar hafi verið bætt við skilmála skipulagsins að áður en byggingarleyfi verði veitt þurfi að liggja fyrir fullnægjandi áætlun um stórslysavarnir á lóðinni vegna verksmiðjunnar. Um hljóðvist séu skipulagsskilmálar algjörlega skýrir. Þar komi fram að hljóðstig starfsemi innan lóðar við Heiðarholt 5 verði undir þeim mörkum sem getið sé um í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða. Þó hafi verið gert samkomulag við leyfishafa um að ekki þurfi að uppfylla kröfur um hljóðstig hvað varði fyrirhugað íbúðarsvæði vestan deiliskipulagssvæðisins. Þegar og ef svæðið verði skipulagt sem íbúðarsvæði muni sveitarfélagið gera viðeigandi ráðstafanir.

Hið kærða byggingarleyfi styðjist við gilt deiliskipulag og því hafi sveitarfélaginu borið að afgreiða lögmæta byggingarleyfisumsókn í samræmi við það. Þá falli umrædd framkvæmd ekki undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum. Því hafi verið heimilt að gefa út leyfið þótt ákvörðun Skipulagsstofnunar lægi ekki fyrir, enda muni Skipulagsstofnun ekki fjalla um framkvæmdina að þessu leyti. Því sé mótmælt að ekki hafi verið farið að ákvæðum laga um mannvirki og byggingarreglugerðar. Umsókn leyfishafa hafi í fyrstu fylgt aðaluppdrættir á ensku. Óskað hafi verið eftir lagfæringu sem legið hafi fyrir við afgreiðslu málsins. Séruppdráttum hafi ekki verið skilað enda byggingarleyfið takmarkað við jarðvegsframkvæmdir. Rétt sé hjá kærendum að byggingarfulltrúi sé starfsmaður Tækniþjónustu SÁ, sem í byrjun júní 2016 hafi fengið það verkefni að staðfæra aðaluppdrætti vegna verksins og setja texta þeirra fram á íslensku og annast hönnunarstjórn. Fyrirtækið annaðist því ekki frumhönnun. Fyrstu gögn málsins hafi borist tækniþjónustunni 16. júní s.á. og muni byggingarfulltrúi ekki hafa komið að þeirri vinnu á nokkurn hátt.

Athugasemdir byggingarleyfishafa:
Af hálfu leyfishafa er þess aðallega krafist að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en til vara að öllum kröfum kærenda verði hafnað.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 geti þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eigi lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Þrátt fyrir þetta skilyrði sé í engu rökstutt í kærunni hvaða hagsmuni kærendur telji sig hafa af hinni kærðu ákvörðun. Þeir láti við það sitja að nefna að þeir eigi lóðir á hinu skipulagða iðnaðarsvæði sem og aðrar fasteignir í sveitarfélaginu. Að mati leyfishafa geti slíkir almennir hagsmunir ekki réttlætt framkomna kæru.

Bent sé á að skipulagsvaldið sé hverju sinni í höndum viðkomandi sveitarfélags, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Hafi kærendur hvorki getað gert ráð fyrir að deiliskipulag umrædds iðnaðarsvæðis yrði óbreytt um ókomin ár né eigi þeir nokkra kröfu til þess. Þá liggi einfaldlega ekkert fyrir um að fyrirhuguð bygging raski lögvörðum hagsmunum kærenda, hvorki í grenndarréttarlegum né skipulagslegum skilningi. Verði því að vísa kærunni frá nefndinni. Þá liggi ekki annað fyrir en að farið hafi verið í einu og öllu að lögum við meðferð og samþykkt hins kærða skipulags. Fyrir hafi legið skýrsla fyrirtækisins IABAS, dags. 24. mars 2016, um hljóðvist og lögð hafi verið fram áætlun um stórslysavarnir til sveitarfélagsins í samræmi við reglugerð nr. 160/2007.

Byggingarleyfið styðjist við gilt deiliskipulag. Kærendur hafi vissulega haft uppi efasemdir um lögmæti deiliskipulagsins og m.a. kært það til úrskurðarnefndarinnar. Það breyti hins vegar engu um þá staðreynd að umrædd leyfi voru gefin út af þar til bærum aðila á grundvelli gildandi deiliskipulags. Þá falli umrædd framkvæmd ekki undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Hún sé því ekki matsskyld samkvæmt ákvæðum greindra laga. Hér sé um að ræða atriði sem ráðist af lögum en ekki mati sveitarfélagsins. Þá hafi verið farið eftir ákvæðum laga um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Því sé hafnað að byggingarfulltrúi hafi verið vanhæfur í málinu. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 fari um hæfi starfsmanna eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sé ekki öðruvísi ákveðið í sveitarstjórnarlögum. Í 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga séu taldar upp í sex stafliðum þær ástæður sem valdið geti vanhæfi við meðferð máls. Af atvikum öllum sé ljóst að 1.-4. tl. geti ekki átt við í því tilviki sem hér um ræði. Hvað varði 5. tl. þá áskilji hann að starfsmaður eða venslamenn hans, eða lögaðili í einkaeigu, sem hann sé í fyrirsvari fyrir, þurfi að eiga sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta. Telji leyfishafi að byggingarfulltrúinn geti ekki talist hafa átt slíkra hagsmuna að gæta af úrlausn málsins í skilningi 5. tl. ákvæðisins. Í 6. tl. sé svo að finna matskennda vanhæfisreglu, en leyfishafi telji að þetta ákvæði geti ekki átt við. Til þess að vanhæfi komi til greina á grundvelli þess þurfi að vera um meira að ræða en hugsanlega og óverulega hagsmuni. Um hafi verið að ræða útgáfu byggingarleyfis sem þegar hafi verið samþykkt af umhverfis- og skipulagsnefnd sveitarfélagsins og sú afgreiðsla hlotið staðfestingu bæjarráðs.

Athugasemdir stöðuleyfishafa: Af hálfu stöðuleyfishafa kemur fram að umsókn hans hafi fylgt þeim kröfum sem gefnar séu upp í gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í bréfi kærenda færi hann rök fyrir því sem þeir telji vera brot á öðrum greinum byggingarreglugerðar, en ekkert sé þar minnst á brot á gr. 2.6.1. sem gildi fyrir leyfið. Stöðuleyfi sé sjálfstætt leyfi óháð öðrum leyfum. Engar kröfur séu gerðar í gr. 2.6.1. um að leyfishafi hafi t.d. gilt byggingarleyfi til að fá leyfi til að geyma gáma.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar Sveitarfélagsins Voga um breytingu deiliskipulags fyrir iðnaðarsvæði við Vogabraut í Vogum vegna lóðarinnar Heiðarholts 5 og veitingu byggingarleyfis fyrir mannvirkjum á þeirri lóð, auk veitingu stöðuleyfis fyrir gámum vegna starfsemi verktaka lóðinni Heiðarholti 3.

Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kæra á. Er það í samræmi við þá meginreglu stjórnsýsluréttar að kæruaðild sé bundin við þá sem eiga einstaklingsbundna og verulega lögvarða hagsmuni tengda hinni kæranlegu ákvörðun. Kærendur umdeildrar deiliskipulagsbreytingar eru meðal sameigenda Heiðarlands Vogajarða, sem liggur við deiliskipulagssvæðið, og eiga þeir lóðir á umræddu iðnaðarsvæði. Getur deiliskipulagsbreytingin og hin kærðu byggingar- og stöðuleyfi því haft áhrif á hagsmuni þeirra sem land- og lóðareigenda. Teljast þessir kærendur því hafa lögvarða hagsmuni tengda hinum kærðu ákvörðunum. Öðru máli gegnir um kærandann Mótel-Best ehf., sem stendur að kæru vegna ákvarðana um veitingu byggingar- og stöðuleyfis í máli þessu. Sá kærandi er ekki meðal sameigenda Heiðarlands Vogajarða og telur ekki til lóðarréttinda á umræddu svæði. Hann er hins vegar eigandi fasteignar í þéttbýliskjarna sveitarfélagsins, sem er í um 500 m fjarlægð frá iðnaðarlóðinni. Verður hann ekki talinn hafa einstaklingsbundinna lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu umfram aðra íbúa sveitarfélagsins og er hans þætti í kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hin kærða deiliskipulagsbreyting er í samræmi við ákvæði gildandi aðalskipulags um landnotkun svæðisins undir iðnaðarstarfsemi. Breytingin var auglýst hinn 31. mars 2016 á heimasíðu sveitarfélagsins, í Fréttablaðinu og Lögbirtingablaðinu. Gerðu kærendur athugasemdir við tillöguna á auglýsingatíma hennar og var þeim athugasemdum svarað. Við gerð auglýsingar voru gerð þau mistök að litið var svo á að um væri að ræða breytingu á deiliskipulagi sem samþykkt var í sveitarstjórn 24. febrúar 2016, en sú deiliskipulagsbreyting tók aldrei gildi. Þetta var leiðrétt á deiliskipulagsuppdrætti eftir auglýsingu tillögunnar til kynningar. Þá kom fram í auglýsingu um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2016 að hámarkshæð á lóð Heiðarholts 5 færi úr 13 m í 27 m, auk 2,5 m vegna létts búnaðar, en hið rétta er að aukningin er úr 8 m í 27 m, auk 2,5 m vegna létts búnaðar, og kom það skýrt fram á deiliskipulagsuppdrætti og í greinargerð.

Með deiliskipulagsbreytingunni var samþykkt ný húsagerð fyrir lóðina Heiðarholt 5. Er hún í samræmi við aðra húsagerð á deiliskipulagssvæðinu að því undanskildu að heimiluð er 27 m hæð fyrir skilju og tanka, auk 2,5 m vegna létts búnaðar. Ekki er um að ræða breytingu á landnotkun en breytingin er gerð í kjölfar erindis leyfishafa, sem áætlar að reisa súrefnis- og köfnunarefnisverksmiðju á nefndri lóð. Í deiliskipulaginu kemur fram að settir séu þeir skilmálar um fyrirhugaða starfsemi að hljóðstig verði undir þeim mörkum sem getið er um í reglugerð nr. 724/2008 um hávaða og að áætlun verði gerð um stórslysavarnir, þar sem starfsemin fellur undir reglugerð um stórslysavarnir vegna hættulegra efna nr. 150/2007. Skilmálann um áætlun um stórslysavarnir var ekki að finna í auglýstri tillögu en var bætt inn eftir auglýsinguna. Áður en deiliskipulagstillagan var samþykkt lá fyrir umsögn Vinnueftirlitsins um fyrirhugaða starfsstöð og gerði það ekki athugasemdir við staðsetningu hennar svo framarlega sem tekið yrði tillit til stórslysahættu.

Skipulagsstofnun sendi sveitarfélaginu bréf 17. mars 2016 og tilkynnti að hún gæti ekki tekið afstöðu til deiliskipulagstillögunnar þar sem nánari upplýsingar vantaði um áformaða starfsemi. Taldi stofnunin sig ekki geta séð út frá fyrirliggjandi upplýsingum hvort deiliskipulagsbreytingin fæli í sér framkvæmd sem félli undir lög um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Þetta erindi var sent vegna fyrri samþykktar sveitarstjórnar, sem hlaut aldrei gildi en varðaði sömu fyrirhuguðu verksmiðju. Í tölvupósti vegna seinni tillögunnar sem Skipulagsstofnun sendi sveitarfélaginu kom fram sú afstaða stofnunarinnar að umrædd starfsemi félli ekki undir ákvæði laga um mat á umhverfisáhrifum og með bréfi stofnunarinnar, dags. 9. júní 2016, tilkynnti hún að ekki væri gerð athugasemd við að auglýsing yrði birt um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar.

Hvað varðar samkomulag milli sveitarfélags og leyfishafa um undanþágu frá aðgerðum vegna hljóðstigs við íbúðarsvæði merkt ÍB 3-2 í aðalskipulagi þá liggur fyrir að umrætt svæði er óbyggt og hefur ekki verið deiliskipulagt. Samkomulagið er ekki hluti hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar en þegar og ef svæðið verður deiliskipulagt fyrir íbúðarbyggð gilda þær reglur sem er að finna í reglugerð um hávaða og verður því að gera ráðstafanir þar að lútandi ef til þess kemur.

Að öllu framangreindu virtu verður ekki talið að þeir form- eða efnisgallar sem að framan er getið séu slíkir að leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Verður kröfu kærenda þar um hafnað.

Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 er það byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags sem veitir byggingarleyfi. Þá kemur fram í 1. mgr. 7. gr. sömu laga að sveitarstjórn sé heimilt með sérstakri samþykkt að kveða á um að í sveitarfélaginu starfi byggingarnefnd sem fjalli um byggingarleyfisumsókn áður en byggingarfulltrúi gefi út byggingarleyfi og í 2. mgr. lagagreinarinnar kemur fram að sveitarstjórn sé heimilt að gera það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis af hálfu byggingarfulltrúa, vegna allra eða tiltekinna mannvirkjagerða, að byggingarnefnd og/eða sveitarstjórn hafi samþykkt útgáfuna. Skulu slíkar samþykktir sveitarstjórnar háðar staðfestingu ráðherra og birtar í B-deild Stjórnartíðinda, sbr. 6. mgr. lagagreinarinnar. Ekki liggur fyrir að slíkar samþykktir hafi verið settar fyrir Sveitarfélagið Voga eftir gildistöku laga um mannvirki. Hafa því hinar kærðu ákvarðanir bæjarstjórnar og bæjarráðs ekki þýðingu í þessu máli og á það sama við um hið kærða stöðuleyfi. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 19. ágúst 2016 voru byggingaráform samþykkt og á sama degi tilkynnti byggingarfulltrúi umsækjanda að umsókn hans um stöðuleyfi hefði verið samþykkt.

Hið kærða byggingarleyfi á stoð í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu og samræmist því 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki. Byggingarfulltrúinn starfar í hlutastarfi hjá því fyrirtæki sem sá um að staðfæra aðaluppdrætti vegna verksins, setja texta þeirra fram á íslensku og annast hönnunarstjórn. Hins vegar verður ekki ráðið af gögnum máls að hann hafi komið að þeirri vinnu. Verður hann því ekki talinn vanhæfur við útgáfu hins kærða byggingarleyfis á grundvelli 4. mgr. 8. gr. laga um mannvirki eða að hagsmunir hans af meðferð málsins séu þess eðlis að valdið geti vanhæfi hans skv. 2. mgr. 20. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Hið kærða stöðuleyfi sem byggingarfulltrúi veitti er í samræmi við ákvæði gr. 2.6.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og verður ekki annað ráðið en að það leyfi sé lögum samkvæmt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki forsendur til að fallast á kröfur kærenda um ógildingu hins kærða byggingar- og stöðuleyfis.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Voga hinn 24. maí 2016 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir iðnaðarsvæðið við Vogabraut.

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúa Sveitarfélagsins Voga um að samþykkja byggingarleyfi og stöðuleyfi hinn 19. ágúst 2016.

Kröfu kæranda Mótel-Best ehf. í málinu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

63/2015 Kerbyggð orlofshús

Með
Árið 2016, föstudaginn 30. september kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 63/2015, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 20. maí 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Kerbyggð í landi Seyðishóla og ákvörðun byggingarfulltrúa sveitarfélagsins frá 18. maí 2016 um að samþykkja sex byggingarleyfi fyrir orlofshús í Kerbyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. ágúst 2015, er barst nefndinni sama dag, kæra G og S, ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 20. maí 2015 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Kerbyggð.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 9. ágúst 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra G og S, ákvarðanir byggingarfulltrúa Grímsnes- og Grafningshrepps frá 18. maí 2016 um að samþykkja sex byggingarleyfi fyrir orlofshús í Kerbyggð og krefjast þess að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda. Þar sem ágreiningsefni kærumálanna eru samofin og sömu kærendur standa að þeim, verður greint kærumál, sem er nr. 107/2016, sameinað kærumáli þessu.

Gögn málsins bárust frá Grímsnes- og Grafningshreppi 7. september 2015 og 22. ágúst 2016.

Málavextir: Hinn 9. janúar 2014 var auglýst lýsing skipulagsverkefnis vegna breytingar á Aðalskipulagi Grímsnes- og Grafningshrepps 2008-2020 fyrir spildu úr landi Klausturhóla við Biskupstungnabraut. Um var að ræða 20 ha spildu þar sem í gildi var deiliskipulag frá árinu 2007 fyrir 28 frístundalóðir. Gert var ráð fyrir því að breyta landnotkun svæðisins úr frístundasvæði í verslunar- og þjónustusvæði þar sem fyrirhugað var að reisa um 50 orlofshús auk þjónustuhúss. Lýsingin var auglýst í Fréttablaðinu og Fréttablaði Suðurlands. Kynningartími lýsingarinnar var frá 9. til 21. janúar 2014.

Hinn 20. mars 2014 var tillaga að framangreindri aðalskipulagsbreytingu auglýst til kynningar fyrir íbúum og hagsmunaaðilum skv. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og fylgdi tillögunni breytingartillaga á deiliskipulagi svæðisins til skýringar. Kynningartími tillögunnar var frá 20. mars til 2. apríl 2014.

Að lokinni kynningu var breytingatillaga aðalskipulagsins lögð fram á fundi skipulagsnefndar, dags 30. apríl 2014 og höfðu þá borist athugasemdir frá eigendum sumarhúss á lóðinni Kerengi 39. Þá lágu fyrir viðbrögð umsækjanda um skipulagsbreytinguna við þeim athugasemdum. Skipulagsnefnd mælti með því að sveitarstjórn samþykkti að auglýsa tillöguna skv. 1. mgr. 31. gr. skipulagslaga sem og sveitarstjórnin gerði 7. maí 2014. Á sömu fundum var samþykkt að auglýsa skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga tillögu að breyttu deiliskipulagi fyrir fyrrgreint svæði. Tillögurnar að breyttu aðal- og deiliskipulagi voru auglýstar til kynningar í Lögbirtingablaði, Fréttablaðinu, Fréttablaði Suðurlands og á heimasíðu sveitarfélagsins. Athugasemdafrestur var frá 21. ágúst til 3. október 2014. Hinn 18. febrúar 2015 var samþykkt að senda Skipulagsstofnun tillögurnar til lögboðinnar meðferðar og tók aðalskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. maí 2015 og deiliskipulagsbreytingin 9. júlí s.á.

Hinn 18. maí 2016 voru svo samþykkt á fundi byggingarfulltrúa sex byggingarleyfi fyrir sumarhús á umræddu svæði.

Málsrök kærenda: Kærendur telja að ekki hafi verið gætt ákvæða skipulagslaga nr. 123/2010 og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um samráð við skipulagsgerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar og þá sérstaklega 4. mgr. 12. gr. skipulagslaga og gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð. Svæðið sem hið kærða deiliskipulag taki til sé umlukið eignarlöndum og e.t.v. lóðum á alla vegu. Þrátt fyrir það njóti engra gagna í málinu um að leitað hafi verið eftir afstöðu þessara aðila til tillögunnar. Þá liggi svæðið að sameiginlegum vegi og hefði því átt að hafa samráð við eigendur hans en ekki sé til þess vitað að svo hafi verið gert. Því sé hafnað að auglýsing til kynningar og að tillagan hafi legið frammi á kynningartíma uppfylli lagaskyldu um að leita skuli eftir föngum eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta.

Framsetning deiliskipulagsins hafi ekki verið í samræmi við gr. 4.5.1. skipulagsreglugerðar. Landnotkun svæðisins sé óljós þar sem segi að svæðinu sé breytt í svæði fyrir verslun og þjónustu en þó sé þar gert ráð fyrir 51 lóð fyrir orlofshús ásamt einni lóð undir þjónustuhús. Augljóst misræmi sé þarna á ferð auk þess sem landnotkun deiliskipulagsins fari á skjön við aðalskipulag eftir þá breytingu sem á því hafi verið gerð. Þá skorti á að gerð sé fullnægjandi grein fyrir tengslum svæðisins við samgöngur eða þeim áhrifum sem fyrirhuguð starfsemi kunni að hafa á umhverfið. Um þýðingu þess að gera grein fyrir tengslum skipulagssvæðis við samgöngur megi vísa til úrskurðar úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 30. október 2008 í máli nr. 30/2007.

Auglýsing deiliskipulagstillögunnar hafi einnig verið haldin verulegum ágöllum. Ranglega kom fram að í eldra skipulagi hafi verið heimilt að reisa allt að 150 frístundahús en skilja mátti auglýsinguna svo að með breytingunni væri verið að fækka húsum á svæðinu. Séu þessir ágallar á auglýsingunni svo verulegir að telja verði hana marklausa. Umrædd tillaga hafi ýmist verið kölluð breyting á deiliskipulagi eða endurskoðað deiliskipulag. Þannig hafi í auglýsingu verið talað um breytt deiliskipulag en yfirskrift auglýsingarinnar hafi verið endurskoðun deiliskipulags. Mátti því ætla að um heildarendurskoðun væri að ræða og hafi framsetning tillögunnar því verið áfátt skv. gr. 5.8.1. í skipulagsreglugerð.

Kærendur telji að umdeild breyting muni hafa í för með sér aukið ónæði, en um sé að ræða tvöföldun á fjölda húsa á svæðinu og vegna eðlis fyrirhugaðrar starfsemi megi búast við tíðari komum og brottförum gesta á ýmsum tímum sólarhringsins. Samkvæmt aðalskipulagi skuli nýtingarhlutfall lóða í frístundabyggð ekki vera hærra en 0,03. Í deiliskipulaginu séu lóðirnar skilgreindar sem lóðir fyrir orlofshús og ættu því að gilda skilmálar aðalskipulags fyrir slíkar lóðir. Er því um misræmi milli aðal- og deiliskipulags að ræða sem fari gegn 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 sé það skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Byggingarleyfin sem veitt hafi verið í þessu máli hafi verið veitt með stoð í deiliskipulagi sem kært hefur verið til úrskurðarnefndarinnar og gildi þess velti á niðurstöðu kærunnar. Því kynni svo að fara að byggingarleyfi þau sem kærð séu skorti áskilda stoð í deiliskipulagi. Meðan óvissa sé um gildi skipulagsins sé óvarlegt að ráðast í framkvæmdir á grundvelli þess.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Af hálfu sveitarfélagsins er því hafnað að breyting deiliskipulagsins hafi ekki verið kynnt eigendum lands á svæðinu, en eins og gögn málsins beri með sér hafi þessar breytingar margsinnis verið auglýstar með áberandi hætti. Í ferlinu hafi borist athugasemdir frá lóðarhöfum tveggja lóða á svæðinu en aldrei frá þeim aðilum sem lagt hafi fram kæru til nefndarinnar.

Skipulagsstofnun hafi staðfest 4. maí 2015 breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins fyrir viðkomandi svæði sem samþykkt hafi verið í sveitarstjórn 18. febrúar 2015. Í breytingunni hafi falist að hluta frístundabyggðar væri breytt í verslunar- og þjónustusvæði fyrir gisti- og ferðaþjónustu. Málsmeðferð hafi verið samkvæmt 1. mgr. 36. gr. skipulagslaga og aðalskipulagsbreytingin tekið gildi 19. maí 2015. Deiliskipulagsáætlun fyrir Kerbyggð hafi verið samþykkt í sveitarstjórn 20. maí s.á. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 9. júlí 2015. Í breytingunni fólst að í stað 28 frístundalóða á 20 ha frístundasvæði væri gert ráð fyrir 51 lóð fyrir orlofshús ásamt einni lóð undir þjónustuhús á svæðinu og það skilgreint sem verslunar- og þjónustusvæði.

Uppbygging hafi ávallt í för með sér áhrif á umhverfið og þar með þá byggð sem fyrir sé í næsta nágrenni. Á svæðinu hafi þó lengi verið gert ráð fyrir mikilli uppbyggingu og hafi það verið mat bæði skipulagsnefndar og sveitarstjórnar að sú breyting sem nýtt skipulag feli í sér komi ekki til með að hafa meiri neikvæð áhrif en sú byggð sem áður hafi verið fyrirhuguð í formi ónæðis, hávaða-, sjón- og lyktarmengunar eða vegna aukinnar umferðar. Frekar megi gera ráð fyrir minna ónæði en áður þar sem umferð að svæðinu fari ekki lengur framhjá aðliggjandi lóðum. Tenging inn á svæðið verði skammt frá þjóðvegi. Í sveitarfélaginu séu fjölmörg frístundahús sem leigð séu út og hafi til þessa ekki borið á kvörtunum vegna ónæðis eða hávaða. Þá sé ekki líklegt að lyktarmengun komi til með að aukast þar sem hönnun fráveitukerfis verði í samræmi við gildandi lög og reglugerðir. Fráveitan verði sameiginleg en ekki rotþró við hvert hús eins og tíðkist víða í frístundabyggðum. Í skilmálum svæðisins sé gert ráð fyrir lágreistum húsum sem falla eigi vel inn í umhverfið og því ekki um neikvæð sjónræn áhrif að ræða. Húsin séu vissulega fleiri en áður hafi verið gert ráð fyrir en hámarksstærð þeirra minni auk þess sem meira samræmi verði í uppbyggingu. Í aðalskipulagi komi fram að nýtingarhlutfall lóða í frístundabyggð skuli ekki vera hærra en 0,03, en það ákvæði eigi ekki við um svæði fyrir verslun og þjónustu eins og umrætt svæði sé skilgreint í aðalskipulagi.

Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á frávísun kæru vegna byggingarleyfa í Kerbyggð. Kæran sé of seint fram komin. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé frestur til að skjóta máli til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt, eða mátti vera kunnugt, um ákvörðun þá sem kæra á. Hinar kærðu ákvarðanir hafi verið teknar 18. maí 2016. Verði að horfa til þess að kærendur hafi notið aðstoðar lögmanns. Kæra vegna greindrar ákvörðunar hafi hins vegar ekki komið fram fyrr en 9. ágúst 2016. Þá geti kærendur ekki átt aðild að kröfu um ógildingu byggingarleyfa sem byggist á skipulagsákvörðun sveitarstjórnar frá 20. maí 2015 sem tekið hafi gildi 9. júlí s.á. Kærendur hafi engar athugasemdir gert vegna þess deiliskipulags fyrr en með kæru sinni, dagsettri 7. ágúst 2015, þrátt fyrir að hafa átt þess kost við kynningu skipulagsins. Með afsali, dagsettu 25. mars 2016, eignaðist félagið Búhamar ehf. lóðina að Kerengi 39. Það félag sé hins vegar ekki aðili að umræddu kærumáli og beri því að vísa kærunni frá þegar af þeirri ástæðu. Ljóst sé að viðkomandi lögpersóna eignaðist ekki lóðina fyrr en löngu eftir að hin umdeilda deiliskipulagsbreyting hafi tekið gildi gildi. Lóðin að Kerengi 4 sé í sameign og ljóst sé að samaðild þeirra þurfi til að standa að umræddri kæru. Þar sem hinn eigandinn eigi ekki aðild að kærumáli þessu, beri að vísa kærunni frá þegar af þeirri ástæðu.

Kærendur hafi heldur ekki upplýst um meinta lögvarða hagsmuni sína af greindri kæru. Þá hafi ekki verið upplýst um hvernig standi á því að sameigendur að Kerengi 4 séu ekki báðir kærendur. Einnig liggi fyrir að fjarlægð húsa frá byggingarreit sé rúmlega 150 m frá húsum á lóðunum að Kerengi 4 og 39, fjær en eldra deiliskipulag gerði ráð fyrir. Ekki verði séð hvaða neikvæðu grenndaráhrif gætu verið samfara nýju skipulagi umfram það sem skipulag sem áður hafi verið fyrirhugað. Kærendur hafi ekki gert grein fyrir því hvaða efnislegu sjónarmið eða hagsmunir búi að baki kærunni eða hverjir raunverulegir hagsmunir þeirra séu. Það hljóti að teljast frumskilyrði þess að slík kæra sé tekin til meðferðar hjá nefndinni.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess krafist að kæru kærenda vegna byggingarleyfa verði vísað frá nefndinni. Umrædd byggingarleyfi hafi verið veitt með afgreiðslu byggingarfulltrúa 18. maí 2016 og staðfest á næsta sveitarstjórnarfundi þar eftir í júní. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Í þessu tilviki liggi fyrir að umræddir sömu einstaklingar hafi í ágúst 2015 lagt fram kæru og væntanlega vefengt lögmæti aðal- og deiliskipulagsbreytingar vegna fyrirhugaðra frístundahúsa í Kerbyggð sem hafi verið grundvöllur þess að unnt væri að gefa út umrædd byggingarleyfi. Kærendur hafi því ríka skyldu til að sýna árvekni gagnvart afgreiðslum byggingarfulltrúa í kjölfar slíkrar kæru. Ennfremur hafi kærendur engar skýringar gefið á því af hverju 17. júlí 2016 sé dagurinn sem þeir fengu vitneskju um byggingarleyfin. Úrskurðarnefndin geti ekki leyft sér að taka tillit til órökstuddra skýringa á tímamarki grandsemis kærenda, hvað þá eftiráskýringa. Í kærunni sjálfri komi ekki fram málefnalegar ástæður fyrir því hvers vegna taka ætti tillit til annarrar tímasetningar en þeirrar sem opinber fundargerð beri vitni um. Vísa beri kæru frá nefndinni þegar jafn ljóst sé að eins mánaðar kærufrestur sé löngu liðinn og undantekning frá þeirri meginreglu beri að skýra þröngt. Undantekningar á því beri að túlka þröngt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi fyrir Kerbyggð – Seyðishóla. Með breytingunni var heimilað að reisa þar 51 orlofshús ásamt þjónustuhúsi, en í eldra skipulagi var gert ráð fyrir 28 frístundahúsum á svæðinu.

Um kæruaðild, kærufrest og málsmeðferð mála sem borin eru undir úrskurðarnefndina fer samkvæmt lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Ekki er gerð krafa um samaðild að kærumáli þegar eigendur fasteignar eru tveir eða fleiri eða að kærandi hafi komið að málsmeðferð kærðrar ákvörðunar svo sem með athugasemdum við kynningu skipulagstillögu. Kærendur eiga frístundahús í um 200 m fjarlægð frá svæði því sem umrædd deiliskipulagsbreyting tekur til. Með hliðsjón af því getur fyrirhuguð uppbygging á skipulagssvæðinu snert grenndarhagsmuni kærenda. Um aðild kæranda vegna Kerengis 39 hefur verið upplýst að hann er eigandi félagsins sem er í dag skráð fyrir eigninni og kærir byggingarleyfin fyrir hönd þess. Verður kærumáli þessu því ekki vísað frá úrskurðarnefndinni sökum aðildarskorts kærenda.

Tillaga að deiliskipulagsbreytingu var kynnt samhliða tillögu að breytingu á aðalskipulagi vegna sama svæðis í samræmi við 2. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með áðurnefndri aðalskipulagsbreytingu var landnotkun svæðisins breytt úr frístundabyggð í verslun og þjónustu ásamt því að heimilað nýtingarhlutfall hækkaði úr 0,03 í 0,05. Deiliskipulagstillagan fékk málsmeðferð í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Hún var auglýst í Fréttablaðinu, Fréttablaði Suðurlands, Lögbirtingablaði og á heimasíðu sveitarfélagsins og var veittur sex vikna athugasemdafrestur. Þau mistök voru gerð í texta við auglýsingu breytingartillögunnar að það mátti túlka hana svo að eldra deiliskipulag gerði ráð fyrir 150 frístundahúsum á 28 frístundalóðum. Hið rétta var að um var að ræða allt að 150 m2 frístundahús sem voru 28 talsins, en það kom fram með skýrum hætti á skipulagsuppdrætti. Deiliskipulagssvæðið liggur ekki að lóðum kærenda og á 3. mgr. gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 ekki við um kynningu skipulagstillögunnar gagnvart þeim. Með aðalskipulagsbreytingunni var landnotkun skipulagssvæðisins breytt úr frístundabyggð í svæði fyrir verslun og þjónustu. Samkvæmt gr. 6.2. í skipulagsreglugerð er gert ráð fyrir að innan þeirrar landnotkunar rúmist m.a. rekstur hótela, gistiheimila, gistiskála, veitingastaða og skemmtistaða. Samkvæmt 2. gr. reglugerðar nr. 585/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald eru gististaðir hvert það hús eða húshluti sem hannað er til slíkrar starfsemi, svo sem hótel, gistiheimili, gistiskálar, íbúðir eða sumarhús, sem telst ekki íbúð eða íbúðarherbergi, þar sem dvalið er til skamms tíma, gegn endurgjaldi. Er deiliskipulagið því í samræmi við landnotkun aðalskipulags. Er hið kærða deiliskipulag samkvæmt framangreindu ekki haldið þeim form- eða efnisannmörkum sem raskað geta gildi þess.

Umsókn leyfishafa um byggingarleyfi var samþykkt á fundi byggingarfulltrúa 18. maí 2016 og staðfest af sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps 8. júní s.á. Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærendur halda því fram að þeir hafi ekki fengið vitneskju um afgreiðslu umræddra byggingarleyfa fyrr en 17. júlí 2016, en ljóst er að þeim var ekki tilkynnt um samþykki byggingarleyfa af hálfu sveitarfélagsins. Verður því að telja að kærufrestur hafi byrjað að líða þann dag og kæra borist innan lögmælts frests.

Samkvæmt 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er það eitt af skilyrðum fyrir útgáfu byggingarleyfis að efni þess samræmist gildandi skipulagsáætlunum á svæðinu. Eins og að framan er rakið er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hið kærða deiliskipulag sé ekki haldið ógildingarannmörkum. Ekki liggur fyrir að málsmeðferð byggingarleyfanna hafi verið áfátt og eiga þau stoð í gildu deiliskipulagi.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfum kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir Kerbyggð í landi Seyðishóla og kröfu um ógildingu hinna kærðu ákvarðana byggingarfulltrúa sveitarfélagsins að samþykkja sex byggingarleyfi fyrri sumarhús á skipulagssvæðinu.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

47/2016 Borgarbraut Borgarbyggð

Með
Árið 2016, föstudaginn 23. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 47/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar 55-59 við Borgarbraut, Borgarnesi, og ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 26. s.m. um að veita leyfi fyrir jarðvegsvinnu á byggingarsvæði lóða nr. 57 og 59 við Borgarbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 17. maí 2016, er barst nefndinni 18. s.m., kærir Borgarland ehf., eigandi Borgarbrautar 56-60, þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar Borgarbraut 55-59. Jafnframt er kærð ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 26. s.m. að veita leyfi fyrir jarðvegsvinnu á byggingarsvæði lóða nr. 57 og 59. Er gerð sú krafa að hinar kærðu ákvarðanir verði felldar úr gildi. Þá var gerð krafa um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 6. júní 2016.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kærir sami aðili þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 8. júlí 2016 um að veita leyfi til sökkulvinnu á byggingarsvæði lóðanna Borgarbraut 57 og 59. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar og sami aðili stendur að báðum kærumálunum verður síðargreinda kærumálið, sem er nr. 93/2016, sameinað máli þessu. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til síðari stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 25. maí, 27. júní, 15. og 19. júlí og 31. ágúst 2016.

Málavextir: Hinn 10. desember 2015 samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar að auglýsa tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Borgarbraut 55-59. Í breytingunni fólst að lóð nr. 55-57 var skipt upp í tvær lóðir, byggingarmagn á svæðinu aukið um 1.569 m2 og hæð húsa breytt. Var tillagan auglýst í fjölmiðlum 16. desember s.á. með athugasemdarfresti til 29. janúar 2016. Bárust athugasemdir á kynningartíma, m.a. frá kæranda. Var þeim svarað af skipulagsfulltrúa. Deiliskipulagsbreytingin var svo samþykkt á sveitarstjórnarfundi 11. febrúar 2016. Hinn 14. apríl s.á. var deiliskipulagsbreytingin tekin fyrir að nýju á fundi sveitarstjórnar þar sem breytingar höfðu verið gerðar á tillögunni vegna athugasemda frá Skipulagsstofnun. Var skipulagsbreytingin samþykkt með áorðnum breytingum og tók hún gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 20. s.m.

Hinn 26. apríl 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar samþykkt að veita leyfi fyrir jarðvegsvinnu á lóðum nr. 57 og 59. Hinn 8. júlí 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir sökkulvinnu á fyrrgreindum lóðum.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er skírskotað til þess að í hinni kærðu skipulagsbreytingu sé gert ráð fyrir að hámarksbyggingarmagn á byggingareitum Borgarbrautar 57 og 59 verði 3.600 m2 annars vegar og 4.777 m2 hins vegar, en með því sé nýtingarhlutfall lóðanna 1,52 og 2,09. Þetta sé í ósamræmi við gildandi aðalskipulag sveitarfélagsins enda komi þar skýrlega fram að hámarks nýtingarhlutfall innan miðsvæðis sé 1,0. Með því að tilgreina hámarks nýtingarhlutfall á miðsvæðinu sérstaklega hafi sveitarfélagið skuldbundið sig til þess að þéttleiki byggðar og áframhaldandi uppbygging innan miðsvæðisins verði hagað þannig að nýtingarhlutfall á einstökum lóðum eða reitum innan miðsvæðisins fari ekki yfir 1,0.

Svo mikil hækkun á nýtingarhlutfalli líkt og hér um ræði hafi umtalsverð grenndaráhrif í för með sér. Staðfest aðalskipulag sé bindandi fyrir sveitarfélagið og íbúa þess sem eigi að geta gengið út frá því að þróun byggðar og landnotkun sé hagað til samræmis við skipulagsáætlanir.

Fyrirhuguð uppbygging muni leiða til verulegra takmarkana á möguleikum annarra lóðarhafa miðsvæðisins til að auka byggingarmagn á sínum lóðum, en með hinni kærðu skipulagsbreytingu sé gert ráð fyrir uppbyggingu á um 16% þess byggingarmagns sem sé kveðið á um í aðalskipulagi fyrir miðsvæðið í heild. Með því sé með ólögmætun hætti farið gegn jafnræði sem eðlilegt sé að ríki á milli lóðarhafa á miðsvæðinu til möguleika á uppbyggingu og breytinga á svæðinu.

Jafnframt hafi ekki verið rannsakað nægilega hvort umferðamannvirki myndu anna aukinni umferð og hvort bílastæðaþörf sé fullnægt. Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 90/2013 sé gerð krafa um að skilmálar um fjölda bílastæða og frágang þeirra sé getið í deiliskipulagi. Í hinni kærðu skipulagstillögu sé tekið fram að fjöldi bílastæða miðist við eitt stæði á hverja 80 m2 íbúð, sé íbúðin stærri séu tvö stæði á íbúð. Hins vegar sé ekki tekið fram hver sé fjöldi eða stærð fyrirhugaðra íbúða né hvernig rými nýbyggingar skiptist á milli notkunarflokka og því sé útilokað að reikna bílastæðaþörf. Auk þess sé ekki gert ráð fyrir bílastæði fyrir hópferðabíla né hreyfihamlaða. Hin kærða skipulagsbreyting stríði gegn ákvæðum skipulagslaga, stjórnsýslulaga og skipulagsreglugerðar og því beri að fella hana úr gildi.

Málsrök Borgarbyggðar: Sveitarfélagið vísar til þess að samkvæmt aðalskipulagi sé heimilt að miða við reitanýtingu við ákvörðun nýtingarhlutfalls tiltekinna landnotkunarreita. Það þýði að sveitarfélaginu sé heimilt að ákvarða hámarksnýtingarhlutfall fyrir landnotkunarreitinn „Miðsvæði“ eins og hann sé skilgreindur í gildandi aðalskipulagi.

Heimilað nýtingarhlutfall á miðsvæði sé á bilinu 0,35-1,0 og miðað við að nýtingarhlutfall skuli vera allt að 1,0 sé því heimilt að byggja allt að 60.000 m2 á svæðinu. Í dag séu byggðir á miðsvæðinu ríflega 13.200 m2 sem samsvari nýtingarhlutfalli 0,22. Ef fyrirhugaðar byggingar rísi, sem hin kærða deiliskipulagsbreyting geri ráð fyrir, myndu byggðir fermetrar á miðsvæðinu aukast um tæplega 9.600 m2 og verði því ríflega 22.800 m2 og hækki nýtingarhlutfall svæðisins í 0,38. Nýtingarhlutfall yrði því eftir sem áður langt undir því hámarksviðmiði sem gildandi aðalskipulag setji á svæðinu, þ.e. 1,0.

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi komi fram að á miðsvæði skuli vera blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu og falli fyrirhuguð nýting bygginga á lóðunum Borgarbraut 55-59 fullkomlega innan þeirrar skilgreiningar. Jafnframt sé á það bent að samkvæmt núgildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir mannvirkjum á lóðunum þar sem saman gætu farið íbúðir á efri hæðum og atvinnurekstur á jarðhæð, allt að 8.000 m2 að stærð, með nýtingarhlutfalli 1,15.

Í kærunni sé vísað til þess að nýtingarhlutfall lóðar nr. 57 við Borgarbraut sé 1,52 og nýtingarhlutfall lóðar nr. 59 sé 2,09. Samkvæmt gr. 5.3.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 skuli ákvarða nýtingarhlutfall fyrir einstakar lóðir eða afmörkuð svæði eftir landfræðilegum aðstæðum og markmiðum skipulagsins. Sé því réttast að horfa til meðalnýtingarhlutfalls deiliskipulagssvæðisins sem sé 1,4 vegna nýbygginga ef byggðir verða bílakjallarar, þar sem þeir séu heimilaðir, eða 1,17 ef aðeins sé miðað við þann hluta þeirra sem rísa megi ofan jarðar. Því sé ekki verið að auka byggingarmagn á umræddum lóðum svo mikið að kærandi hafi af þeirri ráðstöfun sérstaka hagsmuni.

Litið hafi verið til þess að minnka skuggavarp af fyrirhuguðum byggingum með því að breyta legu byggingarreita og með því að breyta leyfilegri hæð Borgarbrautar 55 sem og að gera efri hæðir allra bygginganna inndregnar. Þar að auki sé verið að vinna að því að setja upp hópferðabifreiðastæði á mismunandi stöðum. Jafnframt sé fjöldi bílastæða tilgreindur í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að samkvæmt aðalskipulagi megi byggja allt að 60.000 m2 á miðsvæðinu og hafi aðeins lítill hluti þess byggingarmagns þegar verið byggður. Byggingar þær sem eigi að rísa á lóðunum Borgarbraut 55-59 séu langt innan þess byggingarmagns. Auk þess sé á það bent að samkvæmt 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli nýtingarhlutfall ákveðið í deiliskipulagi.

Fyrirhugaðar framkvæmdir séu eitt stærsta uppbyggingarverkefni sem í hafi verið ráðist í Borgarbyggð og muni uppbyggingin og fyrirhuguð starfsemi verða mikil lyftistöng fyrir byggðarlagið. Deiliskipulagsbreytingin hafi verið unnin að mikilli vandvirkni og tillit tekið til allra þeirra þátta sem nauðsynlegir séu og lög og reglugerðir kveði á um.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eru í deiliskipulagi teknar ákvarðanir um lóðir, lóðanotkun, byggingareiti og byggðamynstur. Skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal það að jafnaði taka til svæða sem mynda heildstæða einingu, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Sveitarstjórn er heimilt að gera breytingar á deiliskipulagi telji hún þess þörf, sbr. 1. mgr. 43. gr. laganna, en skipulagsáætlanir skulu vera í innbyrðis samræmi og er aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag, sbr. 7. mgr. 12. gr. laganna. Kæranda og sveitarfélaginu greinir á um túlkun ákvæða aðalskipulagsins um nýtingarhlutfall umrædds svæðis og þar með hvort innbyrðis samræmi sé milli aðalskipulags og deiliskipulags í því efni.

Í Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 er umrætt svæði skilgreint sem miðsvæði (M) og er þar heimiluð blönduð landnotkun íbúða, þjónustustofnana, verslunar og þjónustu. Í töflu aðalskipulagsins um skilgreind svæði innan Borgarness er tekið fram að umrætt svæði sé sex hektarar að stærð með nýtingarhlutfall 0,35-1,0. Segir síðan í almennri umfjöllun um miðsvæðið að þar sem að nokkru leyti sé um þéttingu í byggðu umhverfi að ræða, megi reikna með að nýtingarhlutfall geti sumstaðar farið upp undir 1,0. Af greindri umfjöllun verður ekki annað ráðið en að verið sé í nefndri töflu að vísa til nýtingarhlutfalls fyrir einstakar lóðir eða götureiti innan hins skilgreinda miðsvæðis, en skilgreint nýtingarhlutfall eigi ekki við um miðsvæðið í heild eins og sveitarfélagið byggir á. Hin kærða deiliskipulagsbreyting felur í sér uppbyggingu á þremur lóðum, þ.e. lóðum nr. 55, 57 og 59 við Borgarbraut. Kemur fram að hámarksnýtingarhlutfall lóðar nr. 55 verði 0,54, lóðar nr. 57 1,25 en með kjallara 1,52 og lóðar nr. 59 1,67 en með kjallara 2,09. Er ljóst að nýtingarhlutfall á síðargreindu lóðunum er yfir tilgreindu hámarksnýtingarhlutfalli í aðalskipulagi. Sveitarfélög eru bundið af þeirri stefnumörkun sem sett er í aðalskipulagi hverju sinni og verða að gæta þess að samræmi sé á milli aðalskipulags og deiliskipulags. Að framangreindu virtu verður ekki séð að áskilnaði 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi gildandi skipulagsáætlana sé fullnægt og verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella hina kærðu skipulagsbreytingu úr gildi.

Hin kærðu byggingarleyfi fólu í sér heimild fyrir framkvæmdum á lóðum nr. 57 og 59 við Borgarbraut við jarðvegsvinnu og gerð sökkuls. Ekki verður séð að þær framkvæmdir séu þess eðlis að raskað geti hagsmunum kæranda. Þá liggur fyrir að hinn 16. september 2016 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar veitt leyfi til að reisa íbúðarhús, þjónustukjarna og hótel í samræmi við hina kærðu deiliskipulagsbreytingu. Verður að líta svo á að hin nýja ákvörðun taki einnig til þeirrar undirbúningsvinnu sem eldri leyfi tóku til.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eiga kærendur ekki lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti hinna kærðu byggingarleyfa og skortir því á að uppfyllt sé skilyrði kæruaðildar 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála að fyrir hendi séu lögvarðir hagsmunir. Verður þessum þætti málsins því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 14. apríl 2016 um að samþykkja breytt deiliskipulag fyrir lóðirnar 55-59 er felld úr gildi.

Ákvarðanir byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 26. apríl 2016 og 8. júlí s.á um að veita leyfi fyrir jarðvegsvinnu og sökkulvinnu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                       Þorsteinn Þorsteinsson

 

105/2016 Legsteinasafn í landi Húsafells

Með

Vinsamlegast athugið að mál þetta var endurupptekið og úrskurður kveðinn upp að nýju 6. desember 2018, sjá hér.

Árið 2016, föstudaginn 23. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar¬verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 105/2016, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Húsafell 2, Steinharpan, og ákvörðun byggingar¬fulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 2. ágúst 2016, er barst nefndinni 3. s.m., kærir landeigandi Húsafells 1, þá ákvörðun sveitar¬stjórnar Borgarbyggðar frá 12. febrúar 2015 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Húsafell 2 og ákvörðun byggingarfulltrúans í Borgarbyggð frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells í Borgarbyggð. Verður að skilja málskot kæranda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinna kærðu ákvarðana. Jafnframt er gerð krafa um stöðvun framkvæmda á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust frá Borgarbyggð 24. og 26. ágúst og 6. og 12. september 2016.

Málavextir: Lóð kæranda og hin deiliskipulagða lóð liggja í landi jarðarinnar Húsafells í Borgarbyggð og munu vera um 40 m á milli húss kæranda, þar sem rekin er gististarfsemi, og húss þess sem hýsa á legsteinasafn.

Í byrjun árs 2014 hófst vinna við nýtt deiliskipulag fyrir Steinhörpuna í landi Húsafells. Tók deiliskipulagið til sýningarskála, menningarhúss og þjónustuhúss, sem voru m.a. ætlað að hýsa steinhörpur og önnur verk listamannsins á Húsafelli ásamt því að gert var ráð fyrir uppbyggingu á legsteinasafni fyrir Húsafellslegsteina frá 19. öld. Að lokinni málsmeðferð skipulagstillögunnar var hún samþykkt á fundi sveitarstjórnar 12. febrúar 2015 og tók gildi með auglýsingu þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní s.á. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa Borgarbyggðar 12. janúar 2016 var samþykkt að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir áður¬greint legsteinasafn í landi Húsafells.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er á því byggt að margir gallar séu á hinu kærða deiliskipulagi, sem m.a. felist í að rangt landnúmer sé á tillögunni, ósamræmi sé á milli hnita og uppdráttar, ekki hafi verið leitað álits umsagnaraðila auk þess sem ekkert samráð hafi verið haft við eigendur aðliggjandi lóða. Jafnframt nái bílastæðabókhald til nágrannalóðar og ekki sé gert ráð fyrir stærri fólksflutningabílum.

Kærandi hafi ekki fengið upplýsingar um gerð deiliskipulagsins og hafi því ekki haft ástæðu til að fylgjast með auglýsingum um deiliskipulag í nágrannalandi þar sem skipulagsfulltrúi hafi borið að leita eftir áliti hans sem eiganda aðliggjandi jarðar áður en skipulagið hafi verið auglýst. Sé þess krafist að kærufrestur miðist við þá dagsetningu sem starfsmaður Borgarbyggðar hafi afhent kæranda deiliskipulagsuppdráttinn, þ.e. 27. júlí 2016. Vegna rangs landnúmers í auglýsingu skipulagsins, hafi verið útilokað að átta sig á til hvaða svæðis deiliskipulagið tæki til.

Það safnhús sem hið kærða byggingarleyfi taki til sé staðstett langt utan byggingarreits. Samkvæmt mælipunktum á deiliskipulagi sé fjarlægð frá lóðarmörkum 11,3 m en á samþykktum aðalteikningum sé sú fjarlægð 5,5 m. Fyrirhuguð staðsetning safnsins muni valda miklum erfiðleikum við rekstur gistiheimilis kæranda. Aðkoma að því og bílastæðum sé tekin í burtu samkvæmt deiliskipulaginu þannig að stæðin verði augljóslega notuð af gestum safnsins. Fyrirhugað sé að stækka gistiheimili kæranda en það verði ómögulegt ef af fyrirhugaðri uppbyggingu verði. Muni kærandi af þessum sökum verða af miklum tekjum. Jafnframt verði erfitt að reka gistiheimili í nálægð við mikinn átroðning safngesta á hlaði gistiheimilisins. Megi gera ráð fyrir miklum fjölda gesta þegar nýtt safn hafi verið byggt en ekki hafi verið gerðar áætlanir af því tilefni. Augljóst sé að fyrirhuguð bílastæði beri ekki þann mikla fjölda gesta sem megi gera ráð fyrir.

Málsrök Borgarbyggðar: Sveitarfélagið andmælir því að hin umdeilda bygging sé langt utan byggingarreits. Augljóst sé að mistök hafi orðið við gerð hnitaskrár deiliskipulagsins þar sem fjöldi hnita samkvæmt skránni séu 17 talsins en að punktar á uppdrættinum sjálfum séu 21. Hafi hnitaskráin ekki uppfærst líkt og hún eigi að gera við gerð deiliskipulagsins. Skýrist ósamræmi milli skipulagsuppdráttar og hnitaskrár af framangreindu. Skipulagsuppdrátturinn komi á undan hnitaskráningu í ferlinu og ráði staðsetningu hnitanna og eigi því að líta til uppdráttarins fremur en hnitaskrárinnar. Skipulags¬uppdrátturinn sé í samræmi við aðal¬uppdrátt fyrirhugaðra mannvirkja sem samþykktur hafi verið á afgreiðslufundi byggingar¬fulltrúa 12. janúar 2016.

Hið kærða skipulag hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015 og verði því að líta svo á að kærufrestur sé löngu liðinn, en samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hafi kæranda verið kunnugt um hið kærða deiliskipulag í rúmt ár áður en hann lagði fram kæru í málinu. Jafnframt sé bent á að ekki sé verið að fækka bílastæðum á lóð Húsafells 1. Umrædd bílastæði falli ekki undir deiliskipulagið og ekki felist afsal á bílastæðum í deiliskipulaginu þar sem afsal eigna verði ekki ákveðið í skipulagsáætlunum.

Þrátt fyrir að rangt landnúmer hafi verið gefið upp í kynntum uppdrætti, hafi engu að síður verið gerð grein fyrir heiti jarðanna á svæðinu, lóðamörkum og heiti þeirra húsa sem á lóðunum standi í samræmi við d-lið 4. mgr. gr. 5.3.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá sé þar að finna heiti skipulagsins, þ.e. Steinharpa, og heiti sveitarfélagsins í samræmi við gr. 7.1. í reglugerðinni en á það sé bent að ekki sé gerð krafa um að landnúmer sé tilgreint í deiliskipulagi.

Hið kærða byggingarleyfi sé í samræmi við gildandi deiliskipulag og hafi það fengið lögboðna málsmeðferð.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi krefst þess að málinu verði vísað frá þar sem kæran sé of seint fram komin. Kærufrestur sé einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Þar sé einnig kveðið á um að ef um sé að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu teljist kærufrestur vera frá birtingu. Hið kærða deili¬skipulag hafi öðlast gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015 og byggingar¬leyfið verið samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. janúar 2016. Kæra sé sett fram tæplega 13 mánuðum eftir að hið kærða deiliskipulag tók gildi og sjö mánuðum eftir að byggingarfulltrúi samþykkti kært byggingarleyfi. Hafi byggingarframkvæmdir staðið yfir á umræddum deiliskipulagsreit frá haustinu 2015 án afláts eftir að byggingaráform fyrir húsi A, sem sýnt sé á deiliskipulagi, hafi verið samþykkt.

Fullyrðingu kæranda um að fyrirhugað mannvirki sem hið kærða byggingarleyfi taki til sé staðsett langt utan við byggingarreit sé mótmælt sem rangri. Mælingamaður hafi verið fenginn til þess að setja út lóðarmörk og byggingarreit í samræmi við gildandi uppdrátt deiliskipulagsins og komi fram í minnisblaði hans að staðsetning hússins sé í samræmi við deiliskipulags¬uppdráttinn. Í ljós hafi komið sú hnitaskrá sem sé tilgreind í deilskipulaginu sé röng og hafi hönnuðir deiliskipulagsins viðurkennt það en engu að síður sé skipulagsuppdrátturinn réttur. Bent sé á að öll mannvirki sem hafi verið reist séu í samræmi við umræddan skipulagsuppdrátt og hafi það verið staðfest með reyndarmælingum á svæðinu. Þá sé á það bent að gert sé ráð fyrir tveimur stæðum fyrir fatlaða auk þess sem hvergi sé þess getið að leyfishafi hyggist fá afnot af stæðum kæranda.

———–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur haft þau öll til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2015. Kæra í málinu barst 3. ágúst 2016 eða um 13 mánuðum eftir lok kærufrests. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá berist hún að liðnum kærufresti nema talið sé afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. sömu greinar er hins vegar kveðið á um að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Verður þeim hluta máls þessa er lýtur að hinu kærða deiliskipulagi af framangreindum ástæðum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Hvað varðar hið kærða byggingarleyfi miðast kærufrestur við það tímamark hvenær kærandi hafi mátt vita um samþykki leyfisins. Byggingaráformin voru samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 12. janúar 2016. Leyfishafi hefur upplýst að byrjað hafi verið að vinna við grunn hússins í ágúst 2016 og liggja ekki fyrir úttektir byggingarfulltrúa vegna framkvæmdanna. Þá kemur fram í fyrirliggjandi tölvupóstsamskiptum kæranda og embættis byggingarfulltrúa frá 26. júlí s.á. að kærandi hafi þá þegar haft byggingarnefndarteikningar undir höndum. Af máls¬atvikum verður ekki fullyrt að kæranda hafi verið kunnugt um byggingarleyfið fyrr en á þeim tíma sem nefnd tölvupóstsamskipti áttu sér stað. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 3. ágúst 2016 og því innan lögmælts eins mánaðar kærufrests.

Samkvæmt 11. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 þarf fyrirhuguð mannvirkjagerð að vera í samræmi við skipulagsáætlanir og þarf vitneskja þar um að liggja fyrir við útgáfu byggingarleyfis, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. sömu laga. Í málinu liggur fyrir að hnitaskrá gildandi deiliskipulags og skipulagsuppdráttur fara ekki saman. Í gr. 5.5.3. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um framsetningu deiliskipulagsuppdráttar. Er þess þar hvergi getið að hnitaskrá skuli fylgja slíkum uppdrætti. Gildandi deiliskipulagsuppdráttur sýnir hins vegar afmörkun lóða, bygginga og byggingarreita á skipulagssvæðinu. Mælingar á samþykktum aðaluppdráttum byggingar¬leyfis annars vegar og gildandi skipulagsuppdrætti hins vegar gefa til kynna að umrætt mann¬virki sé í samræmi við deiliskipulag svæðisins og sé staðsett innan uppgefins byggingarreits.

Í gildandi lögum og reglugerðarákvæðum á sviði skipulags- og byggingarmála eru ekki gerðar kröfur um lágmarksfjölda almennra bílastæða en fjöldi þeirra skal ákveðinn í deiliskipulagi, sbr. b lið gr. 5.3.2.5. í skipulagsreglugerð. Samkvæmt töflu 6.01 í gr. 6.2.6. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er hins vegar kveðið á um lágmarksfjölda bílastæða fyrir hreyfihamlaða. Hið kærða byggingarleyfi gerir ráð fyrir tveimur bílastæðum fyrir hreyfihamlaða og er það í samræmi við greint ákvæði byggingarreglugerðar. Deiliskipulagið gerir ennfremur ráð fyrir 12 almennum bílastæðum á umræddri lóð. Lóð kæranda liggur utan skipulagssvæðisins og ekki verður ráðið að hin kærða ákvörðun breyti aðkomu eða hlutverki bílastæða á lóð hans.

Með vísan til þess sem að framan er rakið og þar sem ekki liggur fyrir að málsmeðferð hins kærða byggingarleyfis sé haldin annmörkum sem raskað geta gildi þess, verður ekki fallist á kröfu um ógildingu leyfisins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 12. janúar 2016 um að veita byggingarleyfi fyrir húsi undir legsteinasafn við Bæjargil í landi Húsafells. Að öðru leyti er kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

127/2014 Starmýri 2c

Með
Árið 2016, föstudaginn 9. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 127/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að veita leyfi til að innrétta gistiheimili í flokki II í verslunarrými á jarðhæð hússins að Starmýri 2c.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. desember 2014, er barst nefndinni 17. s.m., kæra eigendur Starmýrar 2b og eigendur efri hæðar Starmýrar 2c þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 að veita leyfi til að innrétta gistiheimili í flokki II í verslunarrými á jarðhæð hússins að Starmýri 2c. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 9. febrúar 2015.

Málavextir: Á óskiptri lóð nr. 2 við Starmýri standa húsin Starmýri nr. 2a, 2b, og 2c og eru tvö þau síðasttöldu samtengd. Á árinu 1995 var samþykkt í skipulagsnefnd og borgarráði að heimila að byggð yrði 2. hæð ofan á húsin Starmýri 2b og 2c til íbúðarnota og tengibygging milli húsanna, m.a. með stigagangi að íbúðum beggja húsanna á annarri hæð. Gengu þessi byggingaráform eftir.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 26. apríl 2013 var tekin fyrir fyrirspurn um hvort leyfi fengist til að breyta atvinnuhúsnæði í íbúðir á fyrstu hæð hússins nr. 2c við Starmýri. Afgreiddi byggingarfulltrúi fyrirspurnina neikvætt á afgreiðslufundi sínum 14. maí s.á með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa. Hinn 18. nóvember 2014 var á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa samþykkt að veita leyfi til að innrétta gistirými í flokki II í húsinu nr. 2c í fjórum eignarhlutum, samtals 100 m2 að stærð, með vísan til jákvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að skv. 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 séu breytingar á hagnýtingu séreignar frá því sem verið hafi eða ráð hafi verið fyrir gert í upphafi, sem hafi í för með sér verulega meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður hafi verið og gangi og gerist í sambærilegum húsum, háð samþykki allra eigenda hússins.

Samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 eigi að vera verslunarhúsnæði á jarðhæð húsa á nefndri lóð. Allt frá árinu 1965 hafi verið starfræktar þar snyrti- og hárgreiðslustofur og sé svipaður rekstur dagþjónustu ásættanlegur og réttmætur. Lóðin Starmýri 2 sé skilgreind sem nærþjónustusvæði og geti gistiheimili ekki flokkast sem nærþjónusta við íbúa hverfisins.

Starfsemi gistiheimilis sé veruleg breyting á hagnýtingu séreignar Starmýrar 2c. Slík starfsemi fari fram allan sólarhringinn og muni hafa í för með sér verulegt ónæði, röskun og óþægindi fyrir íbúa hússins. Auk þess sé ljóst að verðgildi íbúða í næsta nágrenni muni rýrna.
  
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er á því byggt að ekki hafi þurft samþykki meðeiganda fyrir hinni breyttu notkun, enda sæti hún ekki sérstökum takmörkunum, hvorki í lögum um fjöleignarhús, sérstökum þinglýstum húsfélagssamþykktum, öðrum þinglýstum gögnum né aðalskipulagi. Þá verði ekki séð að umrædd breyting muni fela í sér verulega meira ónæði eða röskun en gera hafi mátt ráð fyrir frá upphafi við nýtingu húsnæðisins. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir þjónustustarfsemi á 1. hæð hússins. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé umrætt húsnæði innan skilgreinds nærþjónustukjarna og sé rekstur gistiheimila þjónusta sem heimil sé á þeim svæðum. Samræmist því umsóknin ákvæðum aðalskipulags.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að hann hafi gert tilboð í húsnæðið með fyrirvara um að þar mætti reka gistiheimili. Hafi byggingarfulltrúa verið send fyrirspurn varðandi málið og hafi leyfi verið veitt með ákveðnum skilyrðum. Jafnframt hafi leyfishafa verið bent á að ekki þyrfti samþykki annarra íbúa hússins fyrir umræddum breytingum. Sé um að ræða þrjú gistirými, fyrir að hámarki sex gesti, auk móttöku.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar breytingu á hagnýtingu séreignarhluta í fjöleignarhúsinu Starmýri 2c úr verslunarrými í gistiheimili. Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulagið Safamýri-Álftamýri frá árinu 1961, þar sem hús á lóðinni eru skráð á uppdrætti sem verslunarhúsnæði. Engin greinargerð fylgdi deiliskipulaginu og er ekki að finna sérstaka skilmála á skipulagsuppdrætti er taka til umrædds húsnæðis.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem íbúðarbyggð, en slík byggð er nánar skilgreind sem svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem samrýmist búsetu, eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins. Þar er og kveðið á um að undir nærþjónustu geti, auk opinberrar grunnþjónustu og dagvöruverslana, m.a. fallið almenn þjónustustarfsemi, s.s. hárgreiðsla, veitingastaðir í flokki I og eftir atvikum í flokki II, menningarhús, íþróttahús, gallerí og þrifalegur smáiðnaður. Umrætt hús er staðsett á íbúðarsvæðinu ÍB28, Álftamýri-Háaleiti, en í stefnu aðalskipulagsins um borgarhlutann Háaleiti-Bústaðir er tekið fram að nærþjónustukjarni sé m.a. á lóðinni Starmýri 2 og kemur það einnig fram á þemakortum borgarhlutans. Hinn 31. október 2014 tók gildi óveruleg breyting á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda þar um, er varðar túlkun sérstakra ákvæða um starfsemi innan landnotkunarsvæða. Var tilgangur breytingarinnar að árétta og skerpa túlkun ákvæða aðalskipulagsins. Í viðauka sem fylgdi skipulagsbreytingunni er að finna töflur er sýna hvers konar starfsemi sé heimiluð á hinum ýmsu svæðum. Í töflu 3 er að finna nákvæma útlistun á því hvar heimilt sé að reka gististaði og kemur þar fram að heimilt sé að reka slíka staði í flokkum I, II og III í skilgreindum nærþjónustukjörnum. Er hin kærða ákvörðun samkvæmt framansögðu í samræmi við gildandi skipulag.

Samkvæmt 27. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 þarf samþykki allra eigenda eða a.m.k. einfalds meirihluta þegar breytingar eru gerðar á séreignarhluta í fjöleignarhúsi, frá því sem verið hefur eða ráð var fyrir gert í upphafi, sem hafa í för með sér meira ónæði, röskun eða óþægindi fyrir aðra eigendur eða afnotahafa en áður var og gerist og gengur í sambærilegum húsum. Af athugasemdum við nefnda grein í frumvarpi því sem varð lögum nr. 26/1994 verður ráðið að tilgangur ákvæðisins sé fyrst og fremst sá að sporna við atvinnustarfsemi í húsnæði sem ætlað er til íbúðarnota í fjöleignarhúsum. Um slíka breytingu er ekki að ræða í máli þessu. Í umræddum séreignarhlutum hefur í skipulagi svæðisins frá upphafi verið gert ráð fyrir atvinnustarfsemi og hafa þar m.a. verið starfræktar snyrti- og hárgreiðslustofur. Með hinni kærðu ákvörðun var heimiluð gististarfsemi í húsnæðinu fyrir allt að sex gesti og samkvæmt fyrirliggjandi byggingarleyfisteikningum er ekki um að ræða sameiginlegan inngang í húsnæði leyfishafa og íbúðir kærenda. Verður ekki séð að umdeild breyting á hagnýtingu eignarhlutanna úr einni tegund atvinnurekstrar í aðra hafi í för með sér eða sé til þess fallin að hafa í för með sér, aukna röskun eða ónæði gagnvart öðrum eigendum fjöleignarhússins en búast hafi mátt við að fylgt gæti notkun atvinnuhúsnæðis. Var hin breytta notkun séreignahluta leyfishafa því ekki háð samþykki annarra eigenda fjöleignarhússins samkvæmt fyrrnefndri 27. gr. laga um fjöleignarhús.

Að öllu framangreindu virtu, og þar sem ekki liggur fyrir að ágallar hafi verið á málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar sem raskað geta gildi hennar, verður ógildingarkröfu kærenda hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 18. nóvember 2014 um að veita byggingarleyfi fyrir innréttingu gistiheimilis í flokki II í verslunarrými á jarðhæð hússins að Starmýri 2c.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson

 

116/2014 Skipholt

Með
Árið 2016, föstudaginn 19. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2014, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. október 2014 um að veita leyfi til að breyta fyrirkomulagi bílastæða við lóðamörk Skipholts 50C og 50D. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. nóvember 2014, er barst nefndinni 19. s.m., kærir húsfélagið Skipholti 50C þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. október 2014 að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á fyrirkomulagi bílastæða við lóðamörk Skipholts 50C og 50D. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík, um að synja kröfu kæranda um ógildingu byggingarleyfis, sem tilkynnt var í bréfi dags. 20. október 2014, verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 24. júní 2015.

Málavextir: Lóðirnar Skipholt 50C og 50D hafa sameiginleg lóðamörk og er kvöð á lóðunum um aðkomu að bílastæðum þeirra beggja. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 7. október 2014 var tekin fyrir umsókn húsfélags Skipholts 50D um leyfi til að breyta fyrirkomulagi bílastæða við lóðamörkin í þá veru að bílastæðum og aðkomu á milli húsanna yrði hliðrað um einn metra til vesturs, innar á lóð Skipholts 50C. Var erindið samþykkt. Hinn 10. s.m. sendi kærandi bréf til byggingarfulltrúa þar sem þess var krafist að samþykkt byggingarfulltrúa yrði dregin til baka. Var þeirri kröfu hafnað með bréfi embættisins, dags. 20. október 2014. 

Málsrök kærenda: Kærandi telur að ákvörðun byggingarfulltrúa hafi verið tekin á röngum forsendum og sé ólögmæt þar sem samþykki húsfundar kæranda hafi ekki legið fyrir, líkt og kveðið sé á um í 1. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010. Sameign verði ekki ráðstafað af húsfélagi nema allir eigendur séu því samþykkir. Sama gildi um verulegar breytingar á sameign og hagnýtingu hennar. Hin kærða ákvörðun feli í sér verulega breytingu þar sem bílastæðum á lóð hússins við Skipholt 50C fækki samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi, auk þess sem vegstæði sé fært langt inn á lóð hússins. Þá sé um að ræða breytingu á hagnýtingu sameignar hússins. Bílastæði á lóðinni séu sameiginleg og óskipt og verði þeim ekki skipt eða breytt nema allir eigendur samþykki. Slíkt samþykki hafi ekki legið fyrir heldur hafi verið lagður fram tölvupóstur sem beri það með sér að málefnið kunni að hafa verið rætt á stjórnarfundi húsfélagsins en aldrei á almennum húsfundi. Verk og valdsvið stjórnar húsfélags sé að taka hvers kyns ákvarðanir sem lúti að venjulegum daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignar, sbr. 1. mgr. 70. gr. fjöleignarhúsalaga.  Um meiri háttar framkvæmdir sé að ræða sem fjalla beri um og taka ákvörðun um á húsfundi. Umdeilt byggingarleyfi sé byggt á ófullnægjandi gögnum auk þess sem umsækjandi leyfisins hafi vísvitandi haldið gögnum frá embætti byggingarfulltrúa.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst nefndinni, en að öðrum kosti að kröfu kæranda verði hafnað.

Bent sé á að byggingarfulltrúi hafi metið það svo að við afgreiðslu erindisins hafi legið fyrir fullnægjandi samþykki stjórnar húsfélags, en samkvæmt 71. gr. fjöleignarhúsalaga sé húsfélag skuldbundið út á við með undirritun meirihluta stjórnarmanna og skuli formaður að jafnaði vera einn af þeim. Stofni stjórnarmenn til skuldbindinga sem falli utan heimilda þeirra og valdsviðs samkvæmt lögum eða ákvörðun húsfundar séu þeir ábyrgir og eftir atvikum bótaskyldir gagnvart húsfélaginu samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar. 

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að í tölvupósti hafi verið greint frá því að daginn áður hafi kærandi haldið stjórnarfund og þar hafi tillagan að breytingu á bílaplaninu verið samþykkt. Hafi því verið litið svo á að umrædd breyting hafi verið samþykkt af báðum húsfélögunum.

Samþykki kæranda hafi verið fullnægjandi, sbr. 71. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Jafnframt hafi kærandi greitt án fyrirvara helming kostnaðar við verkið. Hljóti það að vera hafið yfir allan vafa að húsfélagið teljist hafa samþykkt umrædda breytingu. Þótt eigendur einhverra eignarhluta í húsinu kunni að hafa verið mótfallnir breytingunni eða snúist hugur síðar geti það ekki leitt til þess að samþykki fyrir framkvæmdinni teljist hafa fallið niður. Geti kærandi ekki einhliða rift gerðu samkomulagi.

Afstaða kæranda sé á misskilningi byggð. Virðist hann telja að hin kærða ákvörðun breyti lóðarmörkum með einhverjum hætti. Hins vegar sé óumdeilt að lóðir húsanna séu samnýttar fyrir bílastæði og umferðarreinar en vegna þess gildi einu hvort akreinar séu að meira eða minna leyti innan eða utan marka lóðar tiltekins húss.

Niðurstaða: Frestur til að bera mál undir úrskurðarnefndina er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um kæranlega ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Óski aðili eftir endurupptöku máls innan kærufrests skv. 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 hefur það í för með sér að kærufrestur rofnar, en heldur síðan áfram að líða eftir tilkynningu til aðila um ákvörðun stjórnvalds um að hafna endurupptöku máls. Telja verður kæranda aðila máls í skilningi greinds ákvæðis enda snertir hin kærða ákvörðun með beinum hætti hagsmuni eigenda lóðarinnar Skipholts 50C.

Kæranda barst tilkynning frá leyfishafa hins kærða byggingarleyfis um hina kærðu ákvörðun 9. október 2014 og fór hann fram á endurupptöku málsins með bréfi til byggingarfulltrúa 10. s.m. Kæranda var tilkynnt um höfnun erindisins með bréfi, dags. 20. október 2014, og barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu 19. nóvember s.á. Samkvæmt framangreindri 4. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga barst kæran innan tilskilins frests og verður málið því tekið til efnismeðferðar.

Með hinu kærða byggingarleyfi var aðkomunni við lóðamörk Skipholts 50C og 50D að bílastæðum beggja lóðanna hliðrað um einn metra inn á lóð Skipholts 50C og við þá hliðrun fækkaði bílastæðum á þeirri lóð um tvö. Í málinu er um það deilt hvort lögmætt samþykki eigenda Skipholts 50C hafi legið fyrir við samþykkt byggingarleyfisins.

Samkvæmt 30. gr. fjöleignarhúsalaga verða ekki gerðar breytingar á sameign nema með samþykki allra eigenda eða a.m.k. 2/3 hluta þeirra. Jafnframt verður sameign ekki ráðstafað af húsfélagi með samningi nema með samþykki allra eigenda og gildir sama um verulegar breytingar á sameign eða hagnýtingu hennar, sbr. 1. mgr. 19. gr. sömu laga. Í 1. og 2. mgr. 70. gr. laganna er stjórn húsfélags veitt heimild til að taka hvers kyns ákvarðanir sem lúta að venjulegum daglegum rekstri og hagsmunagæslu vegna sameignar sem og að láta framkvæma minni háttar viðhald, viðgerðir og bráðnauðsynlegar og brýnar ráðstafanir sem ekki þola bið. Þá segir í 3. mgr. sömu greinar að ráðstafanir og framkvæmdir sem ganga lengra en kveðið er á um í 1. og 2. mgr. beri að leggja fyrir húsfund til umfjöllunar og ákvörðunar.

Með hinu kærða byggingaleyfi er kvaðabundinni aðkomu að bílastæðum á lóðum Skipholts 50C og 50D hliðrað innar á lóð Skipholts 50C og bílastæðum fækkað frá því sen áður var á þeirri lóð. Samkvæmt framangreindum ákvæðum fjöleignarhúsalaga eru breytingar þær sem hér um ræðir, á lóð í óskiptri sameign, háðar samþykki sameigenda á húsfundi, sbr. 39. gr. laganna. Slíkt samþykki lá ekki fyrir við samþykkt stjórnar húsfélags kæranda. Við hina kærðu ákvörðun var því ekki fylgt fyrirmælum 1. mgr. 10. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 um að umsókn þurfi að fylgja samþykki meðeigenda í samræmi við ákvæði laga um fjöleignarhús, ef við á.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykir hin kærða ákvörðun haldin slíkum ágalla að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. október 2014 um að veita leyfi til að breyta fyrirkomulagi bílastæða við lóðamörk Skipholts 50C og 50D.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson