Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

114/2016 Miðbraut

Árið 2016, föstudaginn 23. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 114/2016, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. ágúst 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun þaks á Miðbraut 34.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. ágúst 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Melabraut 31, Melabraut 33, Seltjarnarnesi, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. ágúst 2016 að samþykkja byggingarleyfi fyrir hækkun þaks á Miðbraut 34. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að ákvörðun skipulags- og umhverfisnefndar Seltjarnarness frá 19. júlí 2016 varðandi Miðbraut 34 verði felld úr gildi.

Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 2. september 2016.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Lóðin að Miðbraut 34 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulag Vesturhverfis, sem markast af Lindarbraut, Melabraut, Valhúsabraut og Hæðarbraut. Tilgreind lóð er staðsett innan svæðis sem merkt er A á deiliskipulagsuppdrætti. Á svæðinu er að finna einbýlishús og er hvorki heimilt að fjölga þar íbúðum né bæta við viðbótarhæð. Heimilað nýtingarhlutfall á svæðinu er 0,3. Nefnt deiliskipulag tók gildi 7. ágúst 2007, en var kært til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, m.a. af eiganda Miðbrautar 34. Kvað nefndin upp úrskurð 28. apríl 2008 í því kærumáli, sem er nr. 94/2007, og hafnaði kröfu um ógildingu samþykktar deiliskipulagsins.

Árið 2012 spurðist eigandi Miðbrautar 34 fyrir um breytingu á deiliskipulagi sem fæli í sér hækkun á þaki um 2,7 m. Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkti að auglýsa tillöguna sem var og gert. Að athugasemdum fengnum synjaði nefndin um umbeðna deiliskipulagsbreytingu. Sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála sem kvað upp úrskurð 17. nóvember 2015 í því máli sem er nr. 66/2013. Var ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar staðfest af úrskurðarnefndinni með þeim rökstuðningi að þó svo að fallast mætti á að grenndaráhrif breytingarinnar yrðu ekki mikil hefði hin kærða ákvörðun verið studd efnisrökum og yrði því ekki talið að réttur kæranda í því máli hefði verið fyrir borð borinn í skilningi 1. mgr. 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Eigandi Miðbrautar 34 sótti um byggingarleyfi 3. febrúar 2016 fyrir breytingu á þaki hússins og stækkun anddyris þess. Í þakbreytingunni fólst m.a. hækkun á þaki. Meðfylgjandi umsókninni var greinargerð lögmanns, þar sem fram kom að núverandi þak væri lekt og þarfnaðist endurnýjunar og var bent á að umsótt hækkun væri umfangsminni og hefði minni grenndaráhrif en þær tillögur sem áður hefði verið hafnað.

Á fundi skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness 9. febrúar 2016 var nefnd umsókn tekin fyrir. Bókað var að nefndin samþykkti deiliskipulagsbreytingu og vísaði málinu til bæjarstjórnar til ákvörðunar um auglýsingu. Samþykkti bæjarstjórn afgreiðslu nefndarinnar á fundi sínum 24. febrúar s.á. Á fundi nefndarinnar 19. apríl s.á. var farið yfir athugasemdir og umsagnir sem bárust á auglýsingatíma og ákvað hún að senda gögn til deiliskipulagsráðgjafa og óska umsagnar hans. Nefndin tók málið fyrir að nýju á fundi sínum 16. maí s.á. Samþykkti hún breytta tillögu og fól skipulagsfulltrúa að svara athugasemdum, sbr. greinargerð tilgreindrar lögmannsstofu. Að því loknu sendi nefndin málið til bæjarstjórnar til endanlegrar afgreiðslu í samræmi við 41. gr. skipulagslaga. Skipulags- og umferðarnefnd tók málið enn á ný fyrir á fundi 24. s.m. og var bókað að málið væri tekið upp og óskaði nefndin eftir frekari gögnum vegna ónákvæmni í bókunum og fylgiskjölum. Á fundi nefndarinnar 19. júlí s.á. var málið enn og aftur tekið fyrir og með vísan til umsagnar deiliskipulagshöfundar var því vísað til byggingarfulltrúa. Í kjölfarið, eða 5. ágúst s.á., samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun þaks á Miðbraut 34 og stækkun á anddyri um 3,7 m2 og var leyfið gefið út samdægurs.

Málsrök kærenda: Kærendur taka fram að í gildi sé nýlegt deiliskipulag Vesturhverfis. Óumdeilt sé að fasteignin Miðbraut 34 standi á deiliskipulagsreit A innan Vesturhverfis. Miðbraut 34 teljist því til norðurhluta þess og sé þar nokkuð jöfn byggð einbýlishúsa á einni hæð. Grundvallarstefna þessa skipulags sé sú að hækkun húsa sé óheimil innan skipulagssvæðis A. Í greinargerð með deiliskipulaginu segi meðal annars að markmið með endurskoðun þess hafi verið að samræma stærðir húsa, yfirbragð og nýtingarhlutfall lóða og gefa lóðarhöfum, sérstaklega á syðri hluta svæðisins þar sem nýtingarhlutfall hafi verið undir meðalnýtingu, möguleika á auknu byggingarmagni til samræmis við aðliggjandi byggð fyrir sunnan hverfið og í samræmi við stefnumörkun í aðalskipulagi um þéttingu byggðar.

Af þessu og greinargerðinni að öðru leyti megi glögglega ráða að áhersla skipulagsins sé að auka heimildir á syðsta hluta svæðisins með það að markmiði að auka samræmi byggðar, en að sama skapi feli skipulagið í sér afar þröngar heimildir til breytinga á nyrsta hlutanum, þ.e. á A hluta. Þá segi um A hluta í skipulagsskilmálum að ekki sé heimiluð fjölgun íbúða og ekki heimilaður aukinn hæðafjöldi. Einnig komi fram að á nyrðri hluta séu afmarkaðir byggingarreitir fyrir minni háttar stækkanir húsa þar sem byggingarheimild hafi ekki verið fullnýtt.

Þegar skilmálar fyrir A hluta séu lesnir megi ljóst vera að deiliskipulagið banni aukinn hæðafjölda og fjölgun íbúða í A hluta. Skýr afmörkun í skilmálum kveði á um það að hinar þröngu heimildir til breytinga í A hluta verði að fela í sér aukið byggingarmagn innan byggingarreits sem ekki brjóti ofangreindar tvær bannreglur. Með því að heimila hækkun á húsi Miðbrautar 34 um 2,5 m frá loftplötu neðri hæðar sé farið gegn gildandi deiliskipulagi og þessir skilmálar brotnir.

Jafnræðisregla stjórnsýsluréttar hafi verið brotin með útgáfu byggingarleyfis fyrir umræddri hækkun. Innihald leyfisins fari á svig við það yfirbragð og ásýnd sem deiliskipulag Vesturhverfis verndi og skilmála þess. Í þessu sambandi sé rétt að benda á að í samskiptum við Seltjarnarnesbæ vegna máls þessa hafi því sérstaklega verið teflt fram af sveitarfélaginu að samþykktin vegna Miðbrautar 34 sé ekki fordæmisgefandi. Slíkt standist enga skoðun enda ljóst að ef slíkt reynist rétt sé sveitarfélagið klárlega að brjóta gegn 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Sveitarfélaginu beri einfaldlega lagaskylda til að meðhöndla allar sambærilegar beiðnir með sama hætti.

Kærendur hafni alfarið þeim skilningi Seltjarnarnesbæjar og sérfræðingum sveitarfélagsins að svo framarlega sem hækkun húsa sé innan 2,7 m sé slíkt ekki breyting á deiliskipulaginu og því innan heimilda þess þar sem þá geti hækkun ekki talist hæð í skilningi skipulagsins. Í skilmálum deiliskipulagsins segi mjög skýrt að á A hluta sé óheimilt að auka hæðafjölda. Orðnotkunin „aukinn hæðafjöldi“ takmarkist ekki við 2,7 m enda hefði þá átt að tilgreina það sérstaklega í skilmálunum. Í umsögn skipulagshöfundar, dags. 14. júlí 2016, segi að þakform og hámarkshæð sé ekki bundin en leitast skuli við að samræma þakform og hæð aðliggjandi húsum. Af umsögninni verði lesið að skipulagshöfundur horfi fyrst og fremst til þakforms B hluta en ekki A hluta við rökstuðning sinn. Þetta telji kærendur vera ranga nálgun.

Einnig bendi kærendur á að umrædd deiliskipulagsbreyting feli í sér brot á hagsmunum annarra íbúa innan deiliskipulagssvæðisins og búsetugæðum þeirra. Breytingin hafi afar neikvæð grenndaráhrif í formi aukinnar skuggamyndunar á nærliggjandi hús og útsýnisskerðingar. Þá hafi breytingin í för með sér aukna innsýn frá Miðbraut 34 inn á nærliggjandi lóðir. Engin aðkallandi nauðsyn til að skerða íbúðargæði fjölda annarra innan deiliskipulagsins og það í grónu hverfi. Breytingin sé gerð einungis til þess að fullnægja óskum eins fasteignareiganda. Engin samfélagsleg, almenn nauðsyn eða önnur skipulagsleg nauðsyn sé fyrir því að heimila umrædda hækkun.

Sambærilegu erindi eiganda Miðbrautar 34 frá lokum árs 2012 hafi verið hafnað af Seltjarnarnesbæ. Við meðferð deiliskipulagsbreytingarinnar vegna þess erindis hafi komið fram hörð mótmæli íbúa í næsta nágrenni við Miðbraut 34 og í kjölfar þeirra hafi sveitarfélagið tekið þá ákvörðun að hafna erindinu. Sú synjun hafi verið kærð til úrskurðarnefndarinnar og staðfest með úrskurði nr. 66/2013. Ekkert hafi breyst í málinu síðan þá.

Krafa kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis byggist einnig á því að lögbundnar málsmeðferðarreglur skipulagslaga nr. 123/2010 hafi verið brotnar við meðferð málsins. Skipulags- og umferðarnefnd Seltjarnarness hafi tekið ákvörðun á fundi sínum 9. febrúar 2016 um að auglýsa umbeðna hækkun á þaki sem deiliskipulagsbreytingu. Samkvæmt þeirri ákvörðun grundvallist deiliskipulagsbreytingin á því að um verulega breytingu sé að ræða. Í þessu máli bregði hins vegar svo við að deiliskipulagsferlinu er hætt af hálfu sveitarfélagsins í miðri meðferð. Slíkt sé brot á 41. gr., sbr. 43. gr., skipulagslaga en jafnframt brot á 1. mgr. 1. gr. laganna, einkum c., d. og e. lið. Sveitarfélagið geti ekki tekið einhliða ákvörðun í miðju deiliskipulagsferli um að kippa því úr sambandi vegna þess að menn séu allt í einu búnir að sannfæra sjálfa sig með þeim furðurökum að erindið rúmist innan skipulagsheimilda. Það sé engin heimild til slíks samkvæmt skipulagslögum. Byggingarleyfið byggi því á ólögmætum grundvelli og beri því að ógilda það.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda kemur fram að þau telji byggingarleyfið vera í samræmi við deiliskipulag svæðisins, en um það sé vísað til umsagnar tilgreindrar lögmannsstofu frá 6. júní 2016 og umsagnar skipulagshöfundar frá 14. júlí s.á. sem lagðar hafi verið fram í málinu, ásamt umsögn arkitekts og skipulagsfræðings frá 22. ágúst s.á.

—–

Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum en hann hefur ekki látið málið til sín taka.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar frá 5. ágúst 2016 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun þaks á Miðbraut 34 ásamt stækkun anddyris. Hámarksmænishæð hússins eftir breytingu verður 5,2 m þ.e. 2,7 m + 2,5 m mælt frá botnplötu. Vegghæð hússins helst óbreytt 3,1 m. Auk áðurgreinds kæruefnis gera kærendur þá kröfu að samþykkt skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness frá 19. júlí 2016 verði felld úr gildi, en sú samþykkt fól eingöngu í sér að umsókn um hina kærðu breytingu var vísað til byggingarfulltrúa sem afgreiddi málið.

Samkvæmt 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 þarf leyfi byggingarfulltrúa til að breyta mannvirki og tilkynnir hann umsækjanda um samþykkt byggingaráforma, sbr. 11. gr. sömu laga, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Ef vafi leikur á að fyrirhuguð framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins skal byggingarfulltrúi leita umsagnar skipulagsfulltrúa samkvæmt 10. gr. laganna. Ljóst er af framangreindum lagaákvæðum að ákvörðun um samþykkt byggingaráforma og útgáfa byggingarleyfis er á hendi byggingarfulltrúa, en leiki vafi á hvort umsótt framkvæmd samræmist gildandi deiliskipulagi sé gert ráð fyrir aðkomu skipulagsfulltrúa, sem er starfsmaður skipulagsnefndar. Meðferð máls þessa er ítarlega rakin í málavaxtalýsingu og liggur fyrir að umsókn leyfishafa um byggingarleyfi var í upphafi beint í þann farveg að breyta ætti deiliskipulagi. Að lokinni rannsókn og meðferð málsins ákvað skipulags- og umferðarnefnd hins vegar að vísa málinu til byggingarfulltrúa, sem tók um það ákvörðun. Að framangreindu virtu er ljóst að ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar var liður í meðferð byggingarleyfisumsóknar samkvæmt mannvirkjalögum og til þess fallin að upplýsa um afstöðu skipulagsyfirvalda sveitarfélagsins skv. 10. gr. laganna. Var ekki um lokaákvörðun að ræða og hún því ekki kæranleg, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Verður því ekki fjallað um hana frekar nema að því marki sem hún kemur til álita við heildarskoðun úrskurðarnefndarinnar á lögmæti hinnar kærðu byggingarleyfisveitingar.

Í Vesturhverfi Seltjarnarness, þar sem hús leyfishafa og kærenda standa, er í gildi deiliskipulag frá árinu 2007. Með því deiliskipulagi var hverfinu skipt í þrjú svæði, þar sem hvert þeirra hefur mismunandi skilmála hvað varðar fjölda hæða, íbúða og hámark nýtingarhlutfalls, en framkvæmdir þær sem um er deilt í þessu máli eru á A svæði deiliskipulagsins. Í skipulagsskilmálum fyrir það svæði deiliskipulagsins kemur fram að þar sé nokkuð jöfn byggð einnar hæðar einbýlishúsa. Lagt var til að því yrði ekki breytt og er ekki heimilt samkvæmt skipulagsskilmálum að fjölga íbúðum eða að auka hæðafjölda. Nýtingarhlutfall þessa svæðis yrði áfram 0,3. Í deiliskipulaginu er hæð að jafnaði miðuð við 2,7 m plötu á plötu.

Í almennum skilmálum skipulagsins kemur fram að æskilegt sé að leggja fram fyrirspurn um breytingu húss áður en sótt er um byggingarleyfi. Í fyrirspurn skuli koma fram upplýsingar um helstu breytingar, svo sem hæð og form húss, aðlögun að aðliggjandi húsum, fjöldi íbúða og bílastæða svo og heildarstærð. Sýna skuli götumynd með húsum sitt hvoru megin við það hús sem sótt er um breytingu á. Þakform og hámarkshæð sé ekki bundin en leitast skuli við að samræma þakform og hæð að aðlægum húsum. Með vísan til framangreinds verður að telja að samkvæmt deiliskipulaginu séu breytingar á hæð húsa og þakformi heimilar að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og meti þar til bær stjórnvöld hverju sinni hvort svo sé.

Miðbraut 34 er við mörk svæða A og B í deiliskipulagsins. Húsið var með flötu þaki, en eftir heimilaðar breytingar verður það með valmaþaki með mænishæð 5,2 m. Nemur hækkunin 2,5 m frá plötu í mæni. Birt flatarmál geymslulofts undir þakinu verður 32,6 m2 eða um 16% af grunnflatarmáli hússins. Húsin sitt hvoru megin Miðbrautar 34 eru með mismunandi þakform og er mesta þakhæð 6,66 m á Miðbraut 32 en 3,65 m á Miðbraut 36. Nýtingarhlutfall Miðbrautar 34 verður eftir breytinguna 0,28.

Byggingarfulltrúi samþykkti hið kærða byggingarleyfi að fenginni þeirri ákvörðun skipulags- og umferðarnefndar að vísa málinu til hans. Vísaði nefndin um ákvörðun sína til umsagnar höfundar deiliskipulags Vesturhverfis, dags. 14. júlí 2016. Þar kemur fram að skipulagsfulltrúi og byggingarfulltrúi hafi beðið skipulagshöfund að meta hvort byggingarleyfisumsókn sú sem hér um ræðir samræmdist deiliskipulaginu. Í umsögninni kemur fram að ekki verði annað séð en að umsókn um breytt þakform og hækkun þaks sé í samræmi við núgildandi skilmálum deiliskipulags þar sem hámarksþakhæð sé ekki bundin, hún sé undir einni hæð og þakformið aðlagað nálægum húsum. Segir nánar að ekki verði annað séð en að breytt þak Miðbrautar 34 brúi ágætlega breytileika húsa sitt hvoru megin við sem séu með mjög mismunandi þakform og mismunandi að hæð. Þar segir og að ekki sé um breytingu á neinum af þeim megin skilyrðum deiliskipulagsins sem ekki séu sambærileg milli reita A, B og C, þ.e. hvorki breyttu nýtingarhlutfalli, hækkun um hæð, sem sé skilgreind 2,7 m, né portbyggt þak sem hefði þýtt hækkun hússins um hálfa til eina hæð, né fjölgun íbúða. Þetta séu meginskilyrði sem ekki séu heimiluð á svæði A og ekki væri verið að sækja um breytingu fyrir.

Af öllu því sem að framan er rakið verður að telja að það mat skipulagsyfirvalda Seltjarnarnesbæjar, að umsótt byggingarleyfi væri í samræmi við gildandi deiliskipulag, hafi verið forsvaranlegt og stutt nægjanlegum rökum. Var með því skorið úr vafa um samræmi við skipulagsáætlanir og var byggingarfulltrúa að þeirri niðurstöðu fenginni heimilt, samkvæmt þeim ákvæðum mannvirkjalaga sem áður greinir, að samþykkja hið kærða byggingarleyfi. Verður kröfu kærenda um ógildingu þess því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu á ákvörðun byggingarfulltrúans á Seltjarnarnesi um að samþykkja byggingarleyfi fyrir endurnýjun og hækkun á þaki Miðbrautar 34.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson