Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

21/2015 Lækjartún Hólmavík

Árið 2016, föstudaginn 28. október, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr.  l. nr. 130/2011, fyrir:

mál nr. 21/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Hólmavík að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu fyrir Lækjartún 23 og ákvörðun sveitarstjórnar sveitarfélagsins að samþykkja byggingarleyfi fyrir vinnustofu sem síðar var breytt í einbýlishús á sömu lóð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 10. apríl 2015, er barst nefndinni 13. s.m., kærir Á, Lækjartúni 23, Hólmavík, skiptingu lóðarinnar Lækjartúns 23 með eignaskiptayfirlýsingu og að fjarlægð milli tveggja húsa á lóðinni sé ófullnægjandi. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á samþykki byggingarleyfis frá 11. mars 2008, sem staðfest var af sveitarstjórn 18. s.m. fyrir vinnustofu á nefndri lóð sem síðar var breytt í íbúðarhús með leyfi byggingarfulltrúa, dags. 20. október 2009, staðfest af sveitarstjórn 3. nóvember s.á. og ákvörðun byggingarfulltrúa að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu fyrir lóðina sem þinglýst var 23. nóvember 2009.

Gögn málsins bárust frá Strandabyggð 13. maí 2015.

Málsatvik og rök: Með kaupsamningi dagsettum 23. júlí 2014 keypti eiginmaður kæranda einbýlishús á lóðinni Lækjartúni 23, Hólmavík, en á lóðinni standa tvö einbýlishús. Kærandi situr nú í óskiptu búi eftir eiginmann sinn. Hinn 27. nóvember 2014 sendi kærandi tölvupóst til sveitarstjóra Strandabyggðar og sýslumannsins á Hólmavík með fyrirspurn um hvort fyrrnefnd kaup á einbýlishúsinu hafi mögulega verið ólögleg. Þeirri fyrirspurn var ekki svarað og sendi þá lögfræðingur kæranda, hinn 16. janúar 2015, fyrirspurn um eignaskiptayfirlýsingu lóðarinnar og hvort staðsetning húsanna á lóðinni hafi verið samþykkt af byggingaryfirvöldum. Þeirri fyrirspurn var svarað af byggingarfulltrúa með bréfi dagsettu 6. febrúar s.á. Þar kom fram að 19. september 2007 hafi byggingar-, umhverfis- og skipulagsnefnd tekið umsókn um byggingarleyfi fyrir vinnustofu við Lækjartún 23 og umsóknin samþykkt á fundi sömu nefndar 11. mars 2008. Á fundi sömu nefndar 20. október 2009 var tekin fyrir og samþykkt umsókn um að breyta vinnustofunni í íbúð, nefndin samþykkti umsóknina og staðfesti  sveitarstjórn þá afgreiðslu 3. nóvember 2009.

Kærandi telur það ekki geta staðist að lóð, sem á standi tvö einbýlishús, sé skipt með eignaskiptayfirlýsingu samkvæmt lögum um fjöleignarhús nr. 26/1994. Samkvæmt 3. gr. laganna eigi þau fyrst og fremst við um sambyggð og/eða samtengd hús. Það gangi þvert á aðalmarkmið lagagreinarinnar að telja að tengd hús geti talist eitt hús í skilningi laganna. Það hljóti því að teljast afar langt gengið að lögum um fjöleignarhús sé beitt um einbýlishús.

Þá sé bil milli húsanna á umræddri lóð einungis 3,5 m. og leiki vafi á því hvort bilið sé nægjanlegt með tilliti til brunavarna. Byggingarfulltrúi hafi upplýst að veggur nýrra hússins, sem snúi að því eldra, sé ekki merktur sem eldvarnarveggur á teikningu.

Sveitarfélagið gerir þá kröfu að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé liðinn og kröfugerð kæranda sé svo óljós að ekki sé hægt að taka afstöðu til krafna hennar. Þá beinist kröfur kæranda að ákvörðunum sem falli utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar.

Af hálfu sameiganda lóðarinnar Lækjartún 23 kemur fram  að fasteignasala hafi alfarið séð um söluna á húsi kæranda og hún hafi farið fram á löglegan og eðlilegan hátt. Farið hafi verið eftir öllum samþykktum sveitarfélagsins og kaupandi hafi kynnt sér lóðarskiptingu m.a. hjá byggingarfulltrúa Strandabyggðar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúa Strandabyggðar að staðfesta eignaskiptayfirlýsingu vegna lóðarinnar Lækjartúns 23 á Hólmavík og ákvörðun sveitarstjórnar um að samþykkja byggingarleyfi fyrir vinnustofu sem síðar var breytt í einbýlishús.
 
Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Þó verður kæra ekki tekin til meðferðar ef meira en ár er liðið frá því að hún var tilkynnt aðila, sbr. 2. mgr. ákvæðisins.

Byggingarleyfi yngra hússins undir vinnustofu á umræddri lóð var samþykkt 11. mars 2008, og 20. október 2009 var veitt leyfi til þess að breyta því húsi í íbúð. Í kjölfar þess staðfesti byggingarfulltrúi eignaskiptayfirlýsingu fyrir lóðina sem var undirrituð af sameigendum lóðarinnar 5. nóvember 2009 og er staðfesting byggingarfulltrúa skráð á eignaskiptayfirlýsinguna. Hún var síðan móttekin til þinglýsingar 8. nóvember 2009 og þinglýst 23. s.m.. Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni 13. apríl 2015 eða sex til sjö árum eftir að umdeildar ákvarðanir voru teknar. Var kærufrestur vegna þeirra ákvarðana löngu liðinn er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni og verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Ómar Stefánsson