Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

122/2019 Haukdælabraut

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 122/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. nóvember 2019 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Haukdælabraut 106, Reykjavík.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. nóvember 2019, er barst nefndinni 4. desember s.á., kæra eigendur, Haukdæla­braut 104, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. nóvember 2019 að samþykkja byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Haukdælabraut 106. Fara þau fram á að byggingarleyfið verði afturkallað og að húsið að Haukdælabraut 106 verði byggt og stallað samkvæmt samþykktu skipulagi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 16. janúar 2020.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. nóvember 2019 var samþykkt byggingar­leyfi fyrir steinsteyptu einbýlishúsi á pöllum með innbyggðri bílageymslu og innigarði á lóð nr. 106 við Haukdælabraut. Borgarráð staðfesti þá ákvörðun á fundi sínum 14. s.m. Jafnframt var fyrra byggingarleyfi vegna sömu lóðar, sem einnig hafði verið kært til úrskurðar­nefndarinnar, dregið til baka.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að byggingarleyfi, sem samþykkt hafi verið 16. apríl 2019 og kærendur hafi kært til úrskurðarnefndarinnar, hafi verið dregið til baka 8. október s.á. Framkvæmdir hafi samt sem áður haldið áfram af fullum krafti þó ekkert byggingarleyfi væri til staðar, með leyfi Reykjavíkurborgar að sögn lóðarhafa Haukdælabrautar 106.

Hið kærða byggingarleyfi fyrir Haukdælabraut 106 samræmist ekki gildandi skipulagi fyrir hverfið frá 11. mars 2008. Neðri hluti hússins samkvæmt teikningum standi 20 cm hærra en skipulagið segi til um, sé 73,7 m.y.s. í stað 73,5. Í skipulags- og byggingarskilmálum fyrir svæðið segi: „Við hönnun húsa skal þess gætt að nýta landkosti lóða sem best og fella byggingar vel að landi.“ Einnig sé í skipulaginu tekið fram að útfærsla húsa skuli falla að mæliblöðum, hæðarblöðum og öðru í skilmálunum. Þá bendir kærandi á eftirfarandi: „Halli á lóðarmörkum er 3,49 m og eru teikningar einnig engan veginn að falla að þeim halla. Sá veggur sem snýr að Haukdælabraut 104 er meira en 80% í fullri hæð. Þar með fellur húsið ekki að halla í landinu (lóðarmörkum).“ Það að húsið skuli ekki stallast samkvæmt skipulagi og að hæð plötu hafi verið aukin hafi veruleg áhrif á nýtingu lóðar kærenda og verðgildi fasteignar þeirra að Haukdælabraut 104. Hús og lóð kærenda hafi verið hönnuð miðað við forsendur í skipulagi en þær forsendur hafi brostið með hinu kærða leyfi. Fráleitt sé að sérfræðingar á þessu sviði leyfi sér að samþykkja slík frávik frá skipulagi.

Á mynd í skipulags- og byggingarskilmálum fyrir svæðið megi sjá húsgerðina sem byggja megi á lóðinni Haukdælabraut 106. Þar sjáist skýrt hvernig stöllun hússins skuli vera með feitletraðri svartri línu þar sem gólfplatan sé. Hins vegar sé áætluð stöllun allt önnur samkvæmt byggingar­teikningu. Samkvæmt deiliskipulagi hafi gólfkóti hússins átt að vera að hálfu leyti 0,9 m lægri en gólfkótinn að Haukdælabraut 104 en sé einungis að litlum hluta 0,7 m lægri. Sjónlína á milli húsanna sé allt önnur en hún ætti að vera, en í stað þess að horft sé frá Haukdælabraut 106 upp í Haukdælabraut 104 sé horft niður og beint inn um glugga hússins. Þar sem gólfkóti lækki allt of seint breytist sjónlínan inn í hús nr. 104 töluvert. Samkvæmt skipulagi ætti gólfkótinn að vera 0,9 m lægri. Benda kærendur á að af þessu leiði að gólfkótinn sé 1,4 m hærri en hann ætti að vera samkvæmt deiliskipulagi í rúmu miðju húsi.

Öll hönnun á suðvestur hluta húss kærenda að Haukdælabraut 104 sé miðuð við hús eins og gert sé ráð fyrir í deiliskipulagi og hefði þessi hluti hússins, bæði að innan sem utan, aldrei verið hannaður eins og hann sé í dag ef hús eins og gefið hafi verið leyfi fyrir á Haukdælabraut 106 hefði verið haft til hliðsjónar. Við hönnun húss kærenda hafi verið gert ráð fyrir ákveðinni skuggamyndun og gert hafi verið ráð fyrir palli sem hægt væri að nota seinnipart dags. Með þeirri teikningu sem samþykkt hafi verið með hinni kærðu ákvörðun verði notagildi neðri palls þeirra hins vegar nánast ekkert þar sem stöllun hússins að Haukdælabraut 106 nái til svo lítils hluta þess. Við hönnun efri palls við húsið hafi einnig verið gert ráð fyrir ákveðinni skuggamyndun og hafi notagildi á þeim palli einnig skerst töluvert vegna aukinnar skuggamyndunar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er á það bent að samþykktar byggingarteikningar séu í samræmi við deiliskipulag umrædds svæðis. Ekki sé rétt sem fram komi í kæru að fyrra byggingarleyfi hafi verið dregið til baka 10. október 2019. Hið rétta sé að byggingarleyfið hafi verið dregið til baka 5. nóvember 2019 samhliða veitingu byggingar­leyfisins sem hér sé til umfjöllunar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 sé lóðin á íbúðarsvæði og innan deili­skipulags Reynisvatnsáss, sem samþykkt hafi verið í borgarráði 2. október 2007. Umrædd lóð sé einbýlishúsalóð og gildi um hana skilmálar fyrir húsagerð Ep-Ib. Í kafla 2.8 í skilmálum deiliskipulagsins, sem fjalli um mæliblöð og hæðarblöð, komi eftirfarandi fram: „Hæðarblöð sýna hæðir við lóðamörk (G). Hæðartölur (H) eru leiðbeinandi fyrir aðalhæð. Í vissum tilvikum geta þær verið bindandi vegna frárennslislagna. Mesta hæð á þaki (H.M.) eru gefnar í þessum skilmálum. Á hæðarblöðum eru sýndar hæðir á lóðamörkum fjær götu (L). Þar er einnig sýnd lega vatns- og frárennslislagna og inntakshliðar fyrir rafmagn og heitt vatn.“ Á hæðarblaðinu sé H gefið upp sem GK og (GK) og sé leiðbeinandi. Þá segi eftirfarandi í kafla 3.3 sem fjalli um einbýlishús: „Þar sem aðstæður gefa tilefni til, skal aðlaga hús að landi með stallaðri gólfplötu, háum sökkli eða kjallara sem að miklu leyti er niðurgrafinn.“ Sérskilmálar og skilmálasnið þessara húsagerða séu eftirfarandi: „Gerð Ep-Ib er einbýlishús á pöllum norðan og austan götu. Land lækkandi til norðurs eða austurs. Ef hús er með hallandi þaki er hámarks­mænishæð þess (H.M.) 5,5 m yfir (H) kóta aðkomuhæðar. Ef hús er með flötu þaki er hámarksvegghæð þess (H.V.) 4,0 m yfir (H) gólfkóta við viðkomandi húshlið.“ Þá segir: „Gerð E-IIb er tveggja hæða einbýlishús norðan og austan götu. Land lækkandi til norðurs eða austurs. Ef hús er með hallandi þaki er hámarksmænishæð þess (H.M.) 5,5 m yfir (H) kóta aðkomuhæðar. Ef hús er með flötu þaki er hámarksvegghæð þess (H.V.) 4,5 m yfir (H) kóta aðkomu­­­­hæðar. Ein aukaíbúð heimil á lóð þar sem aðstæður leyfa sbr. 3.3 hér að framan.“

Í kafla 2.8 um mæli- og hæðarblöð komi og fram að uppgefinn kóti á hæðarblaði H sé leiðbeinandi fyrir aðalhæð. Á skilmálasniðum séu síðan gefnar upp hæðarheimildir, þ.e. H.M., hámarks­mænishæð húss og H.V., hámarksvegghæð húss með flötu þaki. Í tilfelli húsagerðar Ep-Ib sé (H.V.) hámarksvegghæð 4,0 m frá H kóta, sem sé hæð gólfs, og eigi það bæði við um hæð gólfs að aðkomu og að garði. Í skilmálum komi fram að stalla eigi húsið, þ.e. það eigi að vera á pöllum, en ekki sé bundið hvar stallurinn eigi að vera heldur sé hönnunarfrelsi hvað það varði. Fari staðsetning þess eftir því hvernig fyrirkomulag sé á lóðinni og húsinu.

Fyrir lóðirnar tvær Haukdælabraut 104 og 106 gildi ekki sömu sérskilmálar þar sem landhalli sé mun meiri á lóðinni nr. 104. Á þeirri lóð sé reiknað með tveggja hæða húsi af gerð E-IIb. Hins vegar sé á lóðinni nr. 106 reiknað með einnar hæðar húsi af gerð Ep-Ib og hafi sérskilmálar verið settir vegna hennar, svo sem áður sé rakið. Það að reiknað sé með svo ólíkum húsagerðum á aðliggjandi lóðum geti vakið upp margar spurningar, ótta um umhverfisáhrif og að hagsmunir fari ekki vel saman. Þar sem aðstæður séu þannig að húsagerðir á aðliggjandi lóðum lúti sömu skilmálum séu líkur á einsleitni og sambærilegum umhverfisáhrifum/upplifun meiri, þ.e.a.s. meiri líkur á sátt um uppbygginguna. Í því tilviki sem hér um ræði sé um þær aðstæður að ræða að húsið númer 104 byggist upp fyrst og íbúar þess því vanist því að lóðin við hliðina sé óbyggð. Við mat á endanlegri hæðarsetningu húsa í byggingarleyfisferlinu sé lagt til grundvallar gildandi deiliskipulag og tækniblöð, sem saman myndi lagalega bindandi heimildir til uppbyggingar á lóðinni. Í því tilviki sem hér um ræði megi hæð húsa með flötu þaki vera 4,0 m frá uppgefnum kóta á hæðarblaði H/GK/(GK) sem sé leiðbeinandi. Það að kótinn sé leiðbeinandi gefi frelsi til að vinna með hann í hönnunarferlinu, þó innan þeirra marka að hámarkshæð fari ekki upp fyrir þá hæð sem búast hefði mátt við m.v. H/GK/(GK). Af samanburði hæðarkóta á samþykktum aðaluppdráttum megi sjá að hönnun hússins sé innan hámarkshæðarmarka, en efri kótinn sé 20 cm undir honum og neðri kótinn sé 10 cm undir honum.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi bendir á að honum sé ókunnugt um að upphaflegt byggingarleyfi fyrir húsinu að Haukdælabraut 106 hafi verið dregið til baka. Komið hefði til tals á fundi leyfishafa og byggingarfulltrúa að draga ætti byggingarleyfi til baka samhliða sam­þykkt nýrra teikninga. Þær hafi ekki verið samþykktar fyrr en 5. nóvember 2019. Hækkun á neðri gólfplötu hússins um 20 cm hafi engin áhrif á ytra umhverfi en innra skipulag ætti ekki að varða nágranna, enda hafi það ekki áhrif á húsið að utan. Hámarksmænishæð á þaki sé 4,0 m yfir hæðarkóta mæliblaðs og takmarkist hæðin við 3,8 m frá gólfkóta vegna hækkunarinnar á gólfplötu. Húsið sé því í samræmi við gildandi skipulag. Það að neðri gólfplata sé 1,2 m neðar en efri gólfplata í stað 1,4 m hafi engin áhrif utan hússins, svo lengi sem húsið fari ekki út fyrir þau mörk sem gólfkótinn á mæliblaði gefi til kynna. Bæði hús kærenda og húsið hinum megin við Haukdælabraut 106 hafi breyttan gólfkóta, enda sé eðlilegt að gólfkóti breytist lítillega við nánari skoðun á legu lóðar, en neðri gólfplata húss kærenda sé 20 cm neðar en samkvæmt mæliblaði og húsið á lóð nr. 108 við Haukdælabraut sé 40 cm yfir hæðarkóta á mæliblaði.

Halli á lóðarmörkum á milli húsa Haukdælabrautar 104 og 106 sé málinu óviðkomandi enda utan byggingarreits. Ef deiliskipulagshönnuðir hefðu talið að hallinn væri lýsandi fyrir lóðina Haukdælabraut 106 hefði sú lóð sennilega verið skilgreind fyrir týpu, E-IIb, sem kæmi sér verr fyrir kærendur. Landhallinn á lóðinni sé aftur á móti mun hófsamari, enda lóðin flokkuð sem Ep-Ib, einbýlishús á pöllum í deiliskipulagi. Hvergi sé tekið fram í deiliskipulagsskilmálum hvar stöllun eigi að eiga sér stað, enda eðlilegt að það sé metið út frá hverri lóð fyrir sig. Ef ætlunin hefði verið að skilgreina það í deiliskipulagi hefði það verið gert með því að tilgreina hvar ætti að stalla þau hús. Í deiliskipulaginu séu ýmsar kvaðir en þar sé hins vegar tekið fram: „Útfærsla húsagerða er frjáls að öðru leyti en því sem mæliblöð, hæðarblöð og skilmálar þessir segja til um.“ Í deiliskipulagi sé hvergi talað um sjónlínur á milli einstakra glugga. Afstaða glugga gagnvart nágrönnum hafi ekki verið forsenda fyrir hönnun á formi hússins heldur hafi verið notast við landslag og sólaráttir. Myndefni sem kærendur hafi stuðst við sé skýringarmynd sem segi til um í hvaða átt húsið eigi að stallast og hvaða hæðatakmarkanir séu á þökum húsa. Hún segi hins vegar ekki til um hvar stöllunin eigi að vera, enda eigi skýringarmyndin við um margar mismunandi lóðir. Þá sé húsið að Haukdælabraut 106, þar sem það standi hæst, 20 cm lægra en deiliskipulag heimili, eingöngu af tillitssemi við kærendur, auk þess sem það sé 10 cm innan við byggingarreit. Smávægileg hækkun á gólfplötu inni í húsinu hafi engin áhrif á nýtingu lóðar kærenda, sem hafi notið góðs af því að hafa ekki haft neitt hús til suðvesturs allt frá því að hús þeirra hafi verið byggt, en hvaða hús sem byggt yrði á lóðinni myndi koma til með að hafa áhrif gagnvart lóð kærenda. Óheppilegt sé að gengið hafi verið út frá því að auð lóð ætti eftir að líta út eins og díagramískt kennisnið úr deiliskipulagi, þrátt fyrir að sambærileg kvöð sé á öllum húsum í kring og ekkert þeirra sé eins. Auk þess gefi deiliskipulagið heimild fyrir húsi með hallandi þaki sem gæti skyggt meira á lóð kærenda. Það sé því erfitt að sjá fyrir sér að umrætt hús, eins og það sé á samþykktum teikningum, komi til með að breyta forsendum sem gengið hafi verið út frá við hönnun hússins að Haukdælabraut 104. Sólpallur á neðri hæð þess sé að hluta til undir efri hæð þess. Sú staðreynd að sólpallur sé 20 cm undir hæðarkóta miðað við mæliblað auki enn á skuggavarp. Á efri hæð sé pallur sem liggi að lóðarmörkum Haukdæla­brautar 106, en öll hús komi til með að skyggja á það svæði.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur árétta að ekki sé hægt að sjá annað á bréfi frá Reykjavíkurborg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála en að fyrra byggingarleyfið hafi verið dregið til baka 8. október 2019 og hafi fyrri kæra verið dregin til baka á þeirri forsendu.

Á skýringarmynd í lóðarúthlutunarskjölum komi skýrt fram hver stöllun eigi að vera með dökkri feitletraðri línu. Almennt sé feitletrun notuð til að undirstrika að um mikilvægar upplýsingar sé að ræða. Óljóst sé hvers vegna skýringarmynd sé höfð með í sölugögnum lóða ef ekki eigi að fara eftir henni. Við byggingu húsa í hverfinu hafi verið farið eftir þessari mynd með nokkuð nákvæmum hætti. Furðulegt sé að hægt sé að túlka myndina þannig að aðilar geti fengið samþykktar teikningar að húsi með lítilli eða engri stöllun. Slíkt samþykki sé í hrópandi ósamræmi við allt sem fyrir hafi legið þegar önnur hús í hverfinu hafi verið byggð og þær forsendur sem aðrir húseigendur hafi gengið út frá við hönnun á sínum eignum.

Ekki verði annað séð en að hæð hússins eftir stöllun sé í ósamræmi við skipulag. Líkt og fram hafi komið eigi gólfkóti samkvæmt teikningum eftir stöllun að vera í 73,50 m y.s. og af því leiði að þak megi standa í 78,0 m. Þakið samkvæmt teikningum sé hins vegar í 78,7 m og því 0,7 m of hátt eftir stöllun. Skuggamyndun væri að sjálfsögðu lægri ef stöllun væri samkvæmt skipulagi. Það að sýna skuggamyndun þegar sólin sé hæst á lofti sé einungis til að afvegaleiða umræðuna. Það hafi líklega komið í ljós í vettvangsskoðun að þörf væri á að húsið félli betur að lóðarmörkum. Það sjáist líklega best á því hversu óvenjulega mikill hæðarmunur verði á neðri lóðum húsanna tveggja. Það að „innra skipulag“ hafi ekki áhrif gagnvart nágrönnum og þar með hærri gólfplata sé furðuleg nálgun. Skýringarmynd sem leyfishafi hafi látið fylgja sé villandi þar sem um sé að ræða hús með hallandi þaki, en húsið sem byggt hafi verið sé með flötu þaki. Allt aðrar forsendur liggi að baki slíkum húsum. Að benda á óheimilt frávik frá hæðarkóta á annarri lóð réttlæti ekki það frávik sem um sé deilt. Þá sé verið að breyta uppslætti og grunur sé um að byggja eigi húsið án nokkurrar stöllunar, en þegar sé hafist handa við að byggja hús á einni hæð án stöllunar. Við hönnun húsa sé tekið mið af sjónlínu milli glugga og þar sé miðað við gólfhæð. Þetta ættu allir arkitektar að vita enda skipti þetta máli í nýtingu hússins. Sú athugasemd Reykjavíkurborgar að íbúar hússins nr. 104 hafi vanist því að lóðin við hliðina sé óbyggð sé verulega óviðeigandi, ófagleg og niðrandi. Kærendur hafi engan hag af því að standa í málarekstri sem þessum og hefðu gjarnan þegið að fá hús samkvæmt skipulagi mun fyrr. Hægt sé að gagnrýna Reykjavíkurborg á móti fyrir að hafa leyft eiganda lóðarinnar að „hanga með hana“ óbyggða í fleiri ár. Það komi kærendum alls ekkert á óvart að hús rísi á lóðinni, en það sé lágmarkið að húsið standist kröfur sem öðrum húsbyggjendum hafi verið skylt að standa við. Kærendur óski eftir því að þessi athugasemd verði ómerkt.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi 11. júní 2020 að viðstöddum öðrum kærenda, fulltrúum borgaryfirvalda og fulltrúum leyfishafa.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis til að reisa einbýlishús á lóðinni nr. 106 við Haukdælabraut í Reykjavík. Annars vegar er deilt um hvort kóti gólfhæðar neðra gólfs hússins samræmist skipulagi og hins vegar hvort stöllun hússins sé í samræmi við skipulag.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreinings­málum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun. Því er það ekki innan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að taka afstöðu til þeirrar kröfu kærenda að húsið að Haukdælabraut 106 verði byggt og stallað samkvæmt samþykktu skipulagi.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. nóvember 2019 var samþykkt hið kærða byggingar­leyfi fyrir steinsteyptu einbýlishúsi á pöllum, með innbyggðri bílageymslu og innigarði, á lóð nr. 106 við Haukdælabraut. Borgarráð staðfesti þá ákvörðun á fundi sínum 14. s.m. Með samþykkt þess leyfis féll eldra byggingarleyfi úr gildi og verður því í máli þessu einungis til skoðunar lögmæti hins kærða leyfis en ekki tekin afstaða til lögmætis þeirra framkvæmda sem áttu sér stað á umræddri lóð fyrir samþykkt þess.

Í gildi er deiliskipulag fyrir Reynisvatnsás íbúðarhverfi, sem tekur m.a. til lóðarinnar Haukdæla­brautar 106. Í kafla 2.1 í skilmálum skipulagsins er fjallað um meginatriði þess. Þar kemur fram að skipulagshugmyndin mótist m.a. mjög af tiltölulega miklum landhalla á svæðinu, sem m.a. sé ákvarðandi fyrir æskilega legu aðkomugatna hverfisins m.t.t. lengdarhalla þeirra, sem hvergi sé meiri en 8%. Útfærsla húsagerðar sé frjáls að öðru leyti en því sem mæliblöð, hæðarblöð og skilmálar skipulagsins segi til um. Að auki er tekið fram að við hönnun húsa skuli þess gætt að nýta landkosti lóða sem best og fella byggingar vel að landi. Þá er tekið fram í kafla 2.7 í skipulaginu að á aðal­teikningum skuli gera grein fyrir lóðarhönnun, núverandi og fyrirhugaðri landhæð lóðar og helstu hæðarkótum. Lóðarhæðir á lóðarmörkum skulu sýndar á sniðum og útlitsmyndum, eftir því sem við eigi. Í kafla 2.8 í skipulaginu segir síðan að mæliblöð sýni lagnir, stærðir lóða, lóðamörk, byggingarreiti húsa og kvaðir ef einhverjar séu svo sem um gangstéttir bæjarfélagsins á einkalóðum. Byggingarreitir séu sýndir á mæliblöðunum og skulu byggingar standa innan þeirra. Einnig séu þar sýndar bindandi byggingarlínur og reitir fyrir leyfilegar útbyggingar með takmörkuðu umfangi. Hæðarblöð sýni hæðir við lóðamörk (G). Hæðartölur (H) séu leiðbeinandi fyrir aðalhæð. Í vissum tilvikum geti þær verið bindandi vegna frárennslislagna. Mesta hæð á þaki (H.M.) sé gefin í skilmálunum. Á hæðarblöðum séu sýndar hæðir á lóðarmörkum fjær götu (L).

Kafli 3.3 í skipulagsskilmálunum fjallar um einbýlishús og er þar m.a. tekið fram að þar sem aðstæður gefi tilefni til skuli laga hús að landi með stallaðri gólfplötu, háum sökkli eða kjallara sem að miklu leyti sé niðurgrafinn. Þá er einbýlishús af gerðinni Ep-Ib, sem heimilað er með hinu kærða byggingarleyfi, skilgreint sem einbýlishús á pöllum norðan og austan götu. Land lækkandi til norðurs eða austurs. Ef hús sé með hallandi þaki er hámarksmænishæð þess (H.M.) 5,5 m yfir (H) kóta aðkomuhæðar en sé það með flötu þaki sé hámarksvegghæð þess (H.V.) 4,0 m yfir (H) gólfkóta við viðkomandi húshlið.

Á hæðarblaði kemur fram að götuhæð við lóðamörk Haukdælabrautar 104 og 106 sé 74,69 m y.s., hæð aðalgólfs Haukdælabrautar 106 sé 74,90 og hæð neðsta gólfs 73,50. Samkvæmt aðaluppdráttum hins kærða byggingarleyfis er gólfhæð aðalhæðar 74,90 m y.s. og hæð neðsta gólfs 73,70. Ljóst er því að gólfkóti neðra gólfs er 20 cm ofar en tilgreint er á hæðarblaði í byggingarleyfinu en tekið er fram á aðaluppdráttum að þakkótinn hækki ekki og sé því innan þeirra marka sem tilgreint sé í deiliskipulagi. Líkt og fram hefur komið segir í kafla 2.8 í skilmálum gildandi deiliskipulags að hæðartölur (H) séu leiðbeinandi fyrir aðalhæð og eru þær því frávíkjanlegar. Í ljósi þessa liggur ekki fyrir að hæðarkótar á samþykktum aðaluppdráttum fari í bága við gildandi deiliskipulag.

Varðandi það álitaefni hvort stöllun hússins sé í samræmi við skipulag skal á það bent að skýringarmyndir eru settar fram í deiliskipulagi í dæmaskyni til leiðbeiningar en teljast ekki til bindandi hluta skipulagsins. Stöllun húsa ræðst hverju sinni af legu þeirrar lóðar sem verið er að byggja á. Verður ekki annað séð en að stöllun hússins sem um er deilt í máli þessu falli að landinu og fari ekki í bága við skipulag.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 5. nóvember 2019 um að veita byggingarleyfi fyrir einbýlishúsi á lóðinni Haukdælabraut 106, Reykjavík.

125/2019 Fálkagata

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 125/2019, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. nóvember 2019 um að synja byggingarleyfisumsókn til að breyta verslunarhúsnæði á fyrstu hæð Fálkagötu 18 í íbúðarhúsnæði með þremur einstaklingsíbúðum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. desember 2019, er barst nefndinni sama dag, kærir Berg slf. þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. nóvember 2019 að synja byggingarleyfisumsókn til að breyta verslunarhúsnæði á fyrstu hæð Fálkagötu 18 í íbúðarhúsnæði með þremur einstaklingsíbúðum. Er þess krafist að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík verið verði felld úr gildi og að umsóknin verði samþykkt. Til vara er þess krafist að efni Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030, hvað varðar meinta kvöð til rekstrar verslunar eða þjónustu að Fálkagötu 18, verði fellt úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að taka málið efnislega fyrir að nýju, eftir atvikum í tengslum við grenndarkynningu. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðuninni verði breytt þannig að umsóknin verði samþykkt með þeim fyrirvara að lagt verði fyrir borgaryfirvöld að samþykkja a.m.k. tvær íbúðir þannig að skilið verði eftir um 25 m2 rými fyrir verslun eða þjónustu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. mars 2020.

Málavextir: Kærandi festi kaup á fyrstu hæð Fálkagötu 18 í júní 2019. Með umsókn um byggingarleyfi, dags. 9. október s.á., óskaði kærandi eftir því að breyta innra skipulagi húsnæðisins, ásamt því að breyta gluggum og útihurðum. Húsnæðið hefði áður verið verslun en kærandi miðaði við að breyta því í þrjár einstaklingsíbúðir, þar af eina með möguleika á aðgengi fyrir fólk með fötlun. Að auki myndi aðgengi að kjallara breytast og verða utan frá. Umsóknin var tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 22. október 2019 en afgreiðslu hennar var þá frestað með vísan til athugasemda og var það tilkynnt kæranda með tölvupósti 23. s.m. Umsóknin var aftur tekin fyrir á fundi byggingarfulltrúa 29. s.m. og afgreiðslu hennar frestað á ný, en bókað að málinu hefði verið vísað til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn hans kom fram að breyting á núverandi húsnæði úr verslun á jarðhæð í þrjár íbúðir samræmdist ekki landnotkunarákvæðum í gildandi aðalskipulagi. Byggingarfulltrúi synjaði erindinu 12. nóvember 2019 með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að höft þau sem synjun byggingarfulltrúa byggi á feli í sér óheimila og ólögmæta kvöð sem hafi ekki komið fram í samþykktu kauptilboði eða öðrum gögnum sem vörðuðu kaupin. Einungis hafi verið sett skilyrði í hinu samþykkta kauptilboði að ekki yrði starfrækt bakarí í húsnæðinu næstu fimm árin eftir kaupin.

Þegar hin meinta kvöð hafi verið ákveðin af höfundi skipulagsins 2008 hafi hvorki þáveranda eiganda að eign kæranda né meðeiganda kæranda, sem eigi um 51% af húsinu, verið gefinn kostur á að neyta andmælaréttar síns samkvæmt IV. kafla stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Þá sé ljóst að kvöðin byggi ekki á samningi við rétthafa, enda hefði seljanda þá borið að gera kaupanda grein fyrir henni. Þegar af þeirri ástæðu sé meint kvöð eða ákvörðun byggð á henni ógild eða a.m.k. ógildanleg á málskotsstigi eða fyrir dómstólum, enda sé meðeigandi hlynntur kærumáli þessu. Þetta bendi einnig til þess að rannsóknarreglu stjórnsýsluréttar hafi ekki verið fullnægt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá hafi andmælaréttar kæranda ekki verið gætt við umsögn embættis skipulagsfulltrúa.

Skipulag sé heildrænt og eigi að varða hverfi, sveitarfélög og stærri heildir eða svæði, sem slíkt sé skipulag talið jafngild réttarheimild samkvæmt hefðbundnum sjónarmiðum í norrænni lögfræði. Með því að freista þess að setja fortakslaus boð um hvað skuli vera í tiltekinni fasteign og þar með hvernig megi ekki nota fasteignina sé farið út fyrir lögmætt hlutverk skipulagsyfirvalda og gildissvið skipulags. Að mörgu leyti sé það ekki gild réttarheimild fyrir hinni kærðu synjun, enda samræmist slík nákvæmnisstjórnun hvorki íslenskri réttarskipan, norrænum skipulagsrétti né faglegum sjónarmiðum á sviði skipulagsfræða. Lög á þessu og skyldu sviði, á borð við lög nr. 80/2002 um menningarminjar og skipulagslög, geti með neikvæðum hætti takmarkað notkun eða ráðstöfun fasteignar. En ekki átt sér stað án skýrrar lagaheimildar og einungis til almannaheilla og gegn fullum bótum, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Hin meinta kvöð hafi ekki verið birt með lögboðnum og eðlilegum hætti, sbr. áskilnað 27. gr. stjórnarskrárinnar um að settar réttarheimildir beri að birta, sbr. og 42. gr. skipulagslaga. Hinnar meintu kvaðar virðist hvorki getið í gögnum hjá fasteignaskrá Þjóðskrár né í þinglýsingarbókum. Eiganda á hverjum tíma sé því ófært að nýta réttarúrræði þinglýsingarlaga nr. 39/1978 til þess að gæta réttar síns og hagsmuna. Svo ósýnileg hafi meint kvöð verið að starfsmenn embættis byggingarfulltrúa hafi fyrst undirbúið málið til efnislegrar afgreiðslu, sbr. bréf, dags. 23. október 2019. Einnig hafi fyrirsvarsmenn kæranda, þótt þeir séu menntaðir arkitektar og starfi sem slíkir, þurft að leita leiðbeininga hjá embætti byggingarfulltrúa og fá tilvísun til að finna skjal það sem synjun byggingarfulltrúa virðist hafa verið byggð á. Í þessu sambandi sé vísað til texta á bls. 234 í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Þótt fyrirsvarsmönnum kæranda hafi vitaskuld verið ljós fyrri notkun hafi þeim hvorki verið né mátt vera ljóst að borgin liti svo á að slík notkun væri áskilin, enda hefðu þeir þá ekki keypt fasteignina í áður tilgreindu augnamiði. Einn ljóslitaður punktur af ógreinilegum, og að því er virðist breytilegum lit, á skýringarmyndum á þéttbýlisuppdrætti Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030 og fylgiskjali með aðalskipulagi (skipulagi borgarhluta bls. 235-237) sem vart sé sýnilegur, geti ekki falið í sér svæðaskipan í samræmi við skipulagslög.

Óljóst sé hvort hin meinta kvöð sé stofnuð með bindandi hætti, á hvaða grunni hún sé byggð og hversu langt hún eigi að ná. Þá virðist hún stangast á við tilvitnuð ummæli í umsögn embættis skipulagsfulltrúa, dags. 7. nóvember 2019, um að ekkert sé sérstaklega tekið fram um landnotkun á lóðinni og að svæðið sé skilgreint sem íbúðarbyggð í aðalskipulagi. Að auki sé hún algerlega óraunhæf og þar með óréttmæt og ómálefnaleg, enda hafi rekstur smáverslana og þess háttar ekki gengið eins og fleiri dæmi megi nefna um. Skuli í dæmaskyni um það vísað til fréttar í Fréttablaðinu 4. nóvember 2019. Þó að yfirmarkmið um þétta byggð, og fjölbreyttar  og umhverfisvænni samgöngur sé málefnalegt, í samræmi við viðurkenndar kenningar á þessu sviði og pólitíska stefnumörkun sé hin meinta sértæka kvöð byggð á órökstuddri óskhyggju um annað samfélag en fyrir hendi sé. Ekki standist að kærandi beri hallann af þeirri draumsýn þegar meintri kvöð hafi ekki verið komið á með lögmætum hætti. Meðeigandi kæranda bendi á að rekstur með vínveitingaleyfi sé eini reksturinn með næga framlegð til að bera sig á þessum stað og tíma. Slíkur rekstur myndi hins vegar hvorki samrýmast réttindum hans og hagsmunum né heldur næstu nágranna. Sambærilegt leyfi muni hafa verið veitt í verslunar- og þjónustuhúsnæði við Dunhaga, en ekki liggi fyrir gögn þar um. Við Dunhaga, um 150 m vestan við hina umþrættu fasteign, sé stórt verslunar- og skrifstofuhúsnæði sem sé að litlu leyti í notkun sem slíkt, sem staðfesti framkomin sjónarmið. Í um 500 m í hvora átt frá Fálkagötu 18 sé að finna „kaupmanninn á horninu“ með fjölbreyttar vörur til daglegra þarfa. Eignaskerðing þessi sé því sannanlega óþörf og því ómálefnaleg og ólögmæt.

Ekki sé ljóst hvort gild stjórnarathöfn liggi að baki hinni meintu kvöð. Þá skuli bent á að byggingarfulltrúi hafi ekki verið bær til að synja byggingarleyfisumsókn með vísan til skipulags heldur verði að telja að honum hafi borið að framsenda það til úrlausnar skipulagsfulltrúa, sem fari einn ásamt skipulagsnefnd samkvæmt skipulagslögum með málefni sem varði skipulag, nema nýtt hafi verið heimild 2. mgr 7. gr. skipulagslaga til þess að hafa embætti þessi á einni hendi. Reykjavíkurborg hafi ekki gert það. Umsögn embættis skipulagsfulltrúa, dags. 7. Nóvember 2019, feli ekki í sér stjórnsýsluákvörðun þess embættis enda segi þar aðeins að tekið sé neikvætt í erindið.

Borgaryfirvöld hefðu átt að bjóða vægari leið að markinu, sé markmiðið á annað borð lögmætt. Í því sambandi megi m.a. vísa til þeirra yfirlýstu markmiða og skipulagsáherslna deiliskipulags að eitt „helsta viðfangsefni deiliskipulags á þessum reit er að stuðla að hæfilegri uppbyggingu og endurnýjun á reitnum, en um leið hlúa að því sem fyrir er og búa þannig um hnútana að uppbygging geti gerst á forsendum þeirrar byggðar sem þar stendur.“

Skýrt sé tekið fram í 20. tl. 2. gr. skipulagslaga að kvaðir eins og hin meinta kvöð eða sambærileg höft sé skylt að hafa í deiliskipulagi, þar sem hugtakið „skipulagskvaðir“ sé skilgreint sem kvaðir sem lagðar séu á einstakar lóðir eða landsvæði í deiliskipulagi. Þetta sértæka ákvæði gangi framar almennu rétthæðarákvæði 2. málsl. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. En af þessu leiði að umsókn kæranda hafi verið í samræmi við deiliskipulag.

Þar sem deiliskipulag sé fyrir hendi eigi það að vera í samræmi við aðalskipulag. Því eigi grandlausir borgarar, í samræmi við lögskýringarsjónarmið um að sértækar reglur gangi framar almennum, að geta treyst því að í deiliskipulagi sé með skýrum og tæmandi hætti getið bindandi kvaða, sem séu til þess fallnar að hafa áhrif á notkunar- og ráðstöfunarmöguleika fasteignar og þar með kaupverð hennar og markaðsverðmæti, sbr. og 1. málsl. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga þar sem kveðið sé á um að gildandi skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi. Skýrar reglur um málsmeðferð við gerð og breytingar deiliskipulags, sbr. einkum 43. gr. skipulagslaga, styðji þessa niðurstöðu. Hin meinta kvöð verði því að mati kæranda ekki réttilega ákveðin og birt í aðalskipulagi eingöngu, sem ekkert tilefni hafi verið til að fyrirsvarsmenn kæranda eða réttsalar hans kynntu sér, auk þess sem birtingin þar sé einungis með agnarsmáum og ógreinilegum litpunkti á aðalskipulagsuppdrætti á skalanum 1:20.000. Af framangreindum ástæðum eigi ekki við almennt réttarhæðarákvæði 2. ml. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga, enda sé lágmarksforsenda þess að aðalskipulag sé skýrt hvað ósamræmi varði. Fasteignarinnar Fálkagötu 18 sé þar hins vegar í engu getið, enda segi aðeins í texta í fylgiskjali með aðalskipulaginu undir millifyrirsögninni „Hverfiskjarni/nærþjónusta“ í kaflanum „Almenn markmið.“ „Eftirfarandi kjarna fyrir verslun og þjónustu sem sinna daglegum þörfum íbúa verði festir í sessi: […] 7. Smyrlisvegur-Fálkagata; […].“ Með vísan til framangreinds verði ekki talið að með tilvitnuðu ákvæði í fylgiskjali, bls. 234, verði með lögmætum hætti og án bóta, sbr. dóm Hæstaréttar frá 8. október 2009 nr. 118/2009, skertur óheftur stjórnarskrárvarinn eignarréttur kæranda, þ.e. skilyrtur eignarréttur hans sem kaupanda að nefndri fasteign, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og meðalhófsreglu, enda sé um veruleg neikvæð áhrif að ræða fyrir kæranda. Þar sem hinni meintu kvöð sé ætlað að vara lengi, sbr. til hliðsjónar 31. gr. þinglýsingarlaga nr. 39/1978, ef ekki ótímabundið, megi jafna henni við lögveð, án þess að skilyrði til slíkra eignarhafta séu fyrir hendi, sbr. 1. mgr. 32. gr. þinglýsingarlaga. Þá sé eðli lögveðs síbreytileg skammtímastaða en hinni meintu kvöð sé ætlaður langur gildistími. Telja verði að jafna megi hinni meintu kvöð við önnur ósýnileg réttindi þannig að þinglýsingar sé þörf til þess að hún teljist gild, sbr. 2. málsl. 32. gr. sömu laga, þar sem fram komi að réttarvernd eignarnámsaðgerða sé hins vegar háð þinglýsingu. Sama gildi um réttindi, sem fengin séu fyrir hefð. Þá sé engin hætta á ferðum en miklir hagsmunir í húfi fyrir kæranda. Engir menningarhagsmunir standi umsókn kæranda heldur í vegi enda sé ekki byggt á því. Þá séu engin svonefnd þriðjamannssjónarmið umsókn kæranda til fyrirstöðu, heldur þvert á móti, enda sé eini sameigandi kæranda hlynntur umsókninni, sbr. yfirlýsingu, dags. 5. október 2019. Ekki verði séð að aðrir eigi lögvarða hagsmuni vegna hinnar meintu kvaðar.

Bein jákvæð kvöð um tiltekinn rekstur í fasteign, að því er virðist vegna hagsmuna heildarinnar, sé afar óvenjuleg og þurfi því að styðjast við skýrar réttarheimildir. Slík kvöð sé meira íþyngjandi og óalgengari en neikvæðar kvaðir. Í því sambandi megi líta til ákvæða sem séu í VII. kafla stjórnarskrárinnar, sem setji frekari hömlur við því að unnt sé eð leggja jákvæðar skyldur á borgarann en þegar um sé að ræða neikvæðar skyldur þeirra.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað og að ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík verði staðfest.

Í 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sbr. gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, segi að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi veiti byggingarleyfi skv. 2. mgr. sömu greinar. Í 11. gr. laganna segi að sé mannvirki háð byggingarleyfi skv. 9. gr. þá skuli byggingarfulltrúi ganga úr skugga um að fyrirhuguð mannvirkjagerð sé í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Sambærileg skylda hvíli á byggingarfulltrúa skv. 1. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð. Í samræmi við 5. mgr. sömu greinar byggingarreglugerðarinnar hvíli skylda á byggingarfulltrúa, leiki vafi á um að framkvæmd samræmist skipulagsáætlun sveitarfélags, að leita umsagnar skipulagsfulltrúa áður en til samþykktar á byggingaráformum komi. Jafnframt komi fram í 1. tölul. 1. mgr. gr. 2.4.4 í byggingarreglugerð að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis sé að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlun á svæðinu. Af framangreindum ákvæðum laga um mannvirki og ákvæðum byggingarreglugerðar sé ljóst að byggingafulltrúa sveitarfélags sé óheimilt að samþykkja byggingaráform eða gefa út byggingarleyfi nema ljóst sé, og án nokkurs vafa, að umsókn um byggingarleyfi samræmist skipulagsáætlunum sem gildi um svæðið.

Skipulagsfulltrúi geti ekki samþykkt byggingarleyfisumsókn án sérstakrar heimildar eða umboðs. Gerði hann það þá væri hann kominn út fyrir valdmörk sín. Byggingarfulltrúa beri að kanna hvort umsókn um byggingarleyfi sé í samræmi við skipulagsáætlun þegar umsókn um byggingarleyfi sé metin. Byggingarfulltrúi hafi leitað eftir afstöðu skipulagsfulltrúa varðandi það, enda sé hann sérfróður aðili um skipulagsleg málefni og því rétt af byggingarfulltrúa að afla umsagnar hans um þann þátt. Með vísan til áðurnefndrar 2. mgr. 10. gr. laga um mannvirki, sbr. 5. mgr. gr. 2.4.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, hafi ekki verið um valdþurrð að ræða af hálfu byggingarfulltrúa við synjun erindisins.

Í umsögn skipulagsfulltrúa sem byggingarfulltrúi hafi óskað eftir á afgreiðslufundi 29. október 2019 hafi komið fram að Fálkagata 18 væri í skilgreindri íbúðarbyggð (ÍB3 Hagar). Svæðið teldist til borgarhluta 1 – Vesturbær, samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Í kaflanum um borgarhluta 1 í aðalskipulaginu væru settir fram skilmálar fyrir borgarhlutann þar sem fram kæmi að byggðin væri að mestu í föstum skorðum þó svo að nokkur svæði og reitir hentuðu fyrir mögulega uppbyggingu, sem og að möguleiki væri fyrir endurbyggingu og þróun. Svæðið ÍB Hagar teldist vera fastmótuð byggð, en í slíkri byggð mætti gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, allt eftir því sem ákveðið væri í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Um svæðið ÍB3 Hagar segði í gildandi aðalskipulagi að svæðið væri fullbyggt og heildstæð byggð að mestum hluta. Litasetning svæðisins væri vel sýnileg í fjólubláum lit á uppdrætti, sem táknaði íbúðarbyggð. Nákvæmt kort væri að finna á bls. 232 í netútgáfu aðalskipulagsins. Í stefnu fyrir borgarhlutann væru sett fram almenn markmið sem væru til samræmis við meginmarkið gildandi aðalskipulags. Þau snéru að markmiðum um sjálfbærni hverfa, vistænar samgöngur og aukin gæði byggðar.

Í umsögninni hafi verið rakið að í Fálkagata 18 skilgreind sem nærþjónustukjarni innan íbúðarbyggðar. Í A–hluta aðalskipulagsins í kaflanum „Borg fyrir fólk“ væri að finna stefnu um „Kaupmanninn á horninu“. Í þeirri umfjöllun segði að í hverjum borgarhluta og hverju hverfi skyldi vera hverfis- og nærþjónustukjarni. Markmiðið væri að dagleg verslun og þjónusta væri í sem mestri nálægð við íbúa hverfisins og gerði þeim kleift að versla innan hverfisins, fótgangandi eða hjólandi. Nærþjónustukjarni væri skilgreindur á bls. 182 í aðalskipulaginu þar sem segði að nærþjónustukjarni félli undir kaupmannin á horninu, þar sem væri að finna minni matvöruverslanir, bakarí, fiskbúðir og annað til daglegra þarfa innan hverfis. Nærþjónustukjarnar væru ekki skilgreindir sérstaklega á uppdrætti aðalskipulags sem verslun og þjónusta heldur væru skilgreindir sem íbúðarbyggð. Til nánar skýringar væri á mynd nr. 15 í kaflanum búið að merkja inn skilgreinda nærþjónustukjarna í Reykjavík. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi komið fram að fasteignin Fálkagata 18 félli innan deiliskipulags Fálkagötureits sem samþykkt hafði verið í borgarráði 15. maí 2008. Þá hafi komið fram í umsögn skipulagsfulltrúa að ekki væri með sérstökum hætti skilgreind landnotkun fyrir lóðina, annað en að verslun og íbúðir væru í húsinu, sem og að lóðin tilheyrði svæði með skilgreinda landnotkun sem íbúðarbyggð samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.

Í 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að gildandi skipulagsáætlanir skuli vera í innbyrðis samræmi og að aðalskipulag sé rétthærra en deiliskipulag. Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. sömu laga skuli í aðalskipulagi setja fram stefnu sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins varðandi landnotkun, byggðarþróun, byggðamynstur, samgöngu- og þjónustukerfi og umhverfismál. Einnig segi í 2. mgr. ákvæðisins að í aðalskipulagi sé lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun og takmarkanir á landnotkun. Vegna kröfu 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga um innbyrðis samræmi milli skipulagsáætlana þá verði deiliskipulag að halda sér innan þeirra takmarkana sem settar séu um landnotkun í aðalskipulagi.

Í gr. 1.3. í skipulagsreglugerð sé að finna skilgreiningu á skipulagskvöðum, en þær séu kvaðir sem lagðar séu á einstakar lóðir eða landsvæði í deiliskipulagi, svo sem um umferðarrétt og legu lagna. Af þessu megi ljóst vera að skipulagskvöð geti ekki átt við í því tilfelli sem hér um ræði. Synjun byggingarfulltrúa byggi á neikvæðri umsögn skipulagsfulltrúa um byggingarleyfi til þess að breyta verslunarhúsnæði í íbúðir. Afstaða skipulagsfulltrúa byggi á því að stefna og markmið aðalskipulagsins komi í veg fyrir áform eiganda fasteignarinnar til umsóttra breytinga. Neikvæð umsögn grundvallist ekki á skipulagslegum kvöðum í deiliskipulagi sem varði lóðina Fálkagötu 18 eða landsvæði sem deiliskipulagið taki til. Við túlkun á deiliskipulaginu verði að hafa í huga stefnu og markmið aðalskipulagsins, enda sé aðalskipulag rétthærra, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga. Því hafi skipulagsfulltrúa verið óheimilt annað en að leggjast gegn umsókninni vegna ákvæða í aðalskipulagi. Engu breyti þar um þótt deiliskipulag svæðisins geri ráð fyrir því að íbúðum geti fjölgað. Sú heimild sé enn til staðar og geti átt við um aðrar fasteignir á svæðinu. Í þessu máli sé það aðalskipulagið sem komi í veg fyrir að unnt sé að breyta tiltekinni fasteign, sem teljist til nærþjónustukjarna, með þeim hætti að um fjölgun íbúða á svæðinu verði að ræða. Það sé mat sveitarstjórnar að mikilvægt sé að festa í sessi nærþjónustukjana í fasteigninni svo að markmið og stefna aðalskipulagsins nái fram að ganga. Hafi sú afstaða ekki breyst frá samþykkt aðalskipulagsins.

Við auglýsingu á gildandi aðalskipulagi hafi allir sem vildu átt kost á að koma að athugasemdum við efni skipulagsáætlunarinnar. Almennt sé litið svo á að ákvörðun sveitarstjórnar um samþykkt aðalskipulags teljist ekki til stjórnvaldsákvörðunar í hefðbundnum skilningi þess hugtaks í stjórnsýslurétti. Fremur sé átt við að um sé að ræða stjórnvaldsfyrirmæli, þar sem um sé að ræða ákvörðun sem beint sé að borgurum í heild, án þess að með því felist ákvörðun í einstöku máli.

Lögmætisreglan sé grundvallarregla innan stjórnsýslunnar og byggist á því að stjórnsýslan sé bundin af lögum. Í henni felist að stjórnvöld geti almennt ekki tekið íþyngjandi ákvarðanir gagnvart borgurunum nema hafa til þess heimild í lögum. Jafnframt þurfi að koma fram með skýrum hætti í þeim lögum sem ákvörðun byggist á hvaða kvaðir séu lagðar á borgarana. Vísað sé til þess sem fram hafi komið um heimildir sveitarstjórnar og skyldu þeirra við samþykkt aðalskipulags. Sé því þar af leiðandi hafnað að lögmætisreglan hafi verið brotin.

Til þess að sjónarmiða um meðalhóf við töku ákvörðunar verði gætt, þá þurfi tvær eða fleiri leiðir að koma til greina við afgreiðslu erindisins og stjórnvald skuli velja þá leið sem sé vægust gagnvart umsækjanda. Ekki verði séð með hvaða hætti hefði mátt afgreiða erindið öðruvísi en með synjun, enda rúmist fyrirhuguð framkvæmd við fasteignina ekki innan skipulagslegra heimilda sem um hana gildi samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Með vísan til þess sé því hafnað að meðalhóf hafi ekki verið viðhaft við afgreiðslu umsóknarinnar.

Lögskýringarreglan lex specialis leiði ekki til þess að deiliskipulag verði talið æðra aðalskipulagi þegar byggt sé á stefnu og markmiðum aðalskipulags.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur að ekki verði séð að stoð sé fyrir þeirri afstöðu borgarinnar að óheimilt sé að veita leyfi nema það sé „án nokkurs vafa“ að umsókn samræmist gildandi skipulagsáætlunum. Í kæru sé ítarlega rökstutt að gildandi skipulagsáætlanir hafi ekki falið í sér nægilega birtingu á hinni kærðu „kvöð“, eins og áskilið sé í stjórnarskrá og lögum, og að í besta falli sé birtingin óljós. Vafa eigi því að skýra kæranda í hag.

Umfjöllun borgarinnar um skilgreinda íbúðarbyggð sem auk þess megi þróa styðji við kæru þótt sé hugtakið hverfisskipulag í greinagerð borgarinnar sem kærandi kannist ekki við. Þá virðist borgin taka undir sjónarmið í kæru með bindandi hætti með þeirri staðhæfingu að litasetning svæðisins sé „vel sýnileg í fjólubláum lit á uppdrætti sem tákni íbúabyggð.“ Enn fremur virðist bindandi samþykki við sjónarmiðum í kæru felast í þeirri fullyrðingu borgarinnar að „nákvæmt kort“ sé að finna á bls. 232 í netútgáfu aðalskipulagsins. Enda sé þrátt fyrir stækkun ómögulegt að sjá annað en áðurnefndan fjólubláan lit fyrir íbúabyggð á horninu við Fálkagötu 18. Við mestu stækkun á mynd nr. 15, þar sem að sögn Reykjavíkurborgar sé búið að merkja inn skilgreinda nærþjónustukjarna í Reykjavík, sé ljóst við mestu stækkun á netútgáfu þeirrar myndar að aðeins birtist við Fálkagötu 18 svartur blettur. Hins vegar sé þar ekkert grænt að sjá, sem merki nærþjónustukjarna.

Varðandi hugtakið „kvöð“ verði að byggja á raunverulegum áhrifum stjórnarathafna, en ekki nafngiftum þeirra, eins og nánar geti í kæru.

Bæði stjórnsýsluákvörðun og stjórnsýslufyrirmæli áskilji skýra og greinilega birtingu til þess að teljast bindandi. Það sé sömuleiðis forsenda stigskiptingar skipulagsáætlana sem borgin falli um. Hins vegar sé fyrrnefnt sjónarmið undantekningum háð, þ.e. ef skipulag kemur sérstaklega hart niður á einum tilteknum aðila, eins og hér eigi við, sbr. úrskurð úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 22. apríl 2013 í máli nr. 131/2012, og umfjöllun Aðalheiðar Jóhannsdóttur bls. 106-107, 125 og 136 í ritinu Inngangur að skipulagsrétti.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að synja byggingarleyfisumsókn um að breyta verslunarhúsæði á fyrstu hæð hússins að Fálkagötu 18 í íbúðarhúsnæði með þremur einstaklingsíbúðum.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er það hlutverk nefndarinnar að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála, eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Verður því ekki tekin afstaða til kröfu kæranda um að umsóttar breytingar vegna Fálkagötu 18 verði samþykktar, að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að taka málið efnislega fyrir að nýju eða að umsóknin verði samþykkt með ákveðnum hætti. Þá brestur úrskurðarnefndina vald til að taka til endurskoðunar ákvæði aðalskipulags samkvæmt skýrum fyrirmælum skipulagslaga nr. 123/2010, en skv. 1. mgr. 52. gr. laganna verða ákvarðanir, sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta, ekki bornar undir nefndina. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar og ráðherra í þeim tilvikum sem hann skal staðfesta aðalskipulag. Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 var samþykkt í borgarstjórn 26. nóvember 2013, sbr. og samþykkt borgarráðs 6. febrúar 2014, staðfest af Skipulagsstofnun 24. s.m. og birt í B-deild Stjórnartíðinda 26. s.m. Efni aðalskipulagsins eða málsmeðferð sæta því ekki lögmætisathugun úrskurðarnefndarinnar, en telji fasteignaeigendur sig hafa orðið fyrir skerðingu eignarréttinda vegna skipulags umfram aðra geta þeir leitað réttar síns í samræmi við ákvæði 51. gr. og 51. gr. a skipulagslaga t.a.m. til viðkomandi sveitarfélags. Það er hins vegar utan valdsviðs úrskurðanefndarinnar að taka afstöðu til bótaskyldu sem kann að skapast vegna skipulagsákvarðana með tilliti til eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar, en slíkur ágreiningur á eftir atvikum undir dómstóla. Loks er ljóst að kærufrestur vegna gildandi deiliskipulags á svæðinu, sem birtist í B-deild Stjórnartíðinda 4. júlí 2008, er löngu liðinn.

Í gr. 4.5. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 er fjallað um framsetningu aðalskipulags. Skal skv. gr. 4.5.1. setja aðalskipulag fram í skipulagsgreinargerð og á skipulagsuppdrætti og eftir atvikum á þemauppdráttum. Í seinni málsgrein í nefndri gr. 4.5.1. segir að samþykkt og staðfesting skipulagsáætlunar nái til rökstuddrar stefnumörkunar í greinargerð og til skipulagsuppdrátta. Lýsing aðstæðna og forsendna í skipulagsgreinargerð teljist ekki hluti samþykktrar og staðfestrar stefnu.

Sérstaklega er fjallað í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 um framsetningu þess og túlkun. Kemur þar fram að aðalskipulagið og fylgigögn þess séu sett fram í þremur meginhlutum. Í A-hluta séu kynnt bindandi stefna og markmið, sbr. skipulagsreglugerð nr. 90/2013, m.a. um landnotkun og byggingarmagn. Í B-hluta sé stefnu um landnotkun og uppbyggingu í hverfum borgarinnar lýst nánar. Í C-hluta séu ýmis stuðnings- og skýringargögn aðalskipulagsins, m.a. umhverfisskýrsla. Segir nánar um A-hluta að stefnumörkun sé sett fram í greinargerð, á þemakortum og á skipulagsuppdráttum, annars vegar þéttbýlisuppdrætti og hins vegar sveitarfélagsuppdrætti. Meginmarkmið aðalskipulagsins séu sett fram í fjórum köflum: Borgin við Sundin, Skapandi borg, Græna borgin og Borg fyrir fólk. Bindandi markmið og stefnuákvæði séu sett fram í sérstökum lituðum römmum og þemakort og töflur sem geymi bindandi stefnu séu merkt með textanum bindandi stefna. Í fimmta kafla greinargerðarinnar sé að finna allar skilgreiningar landnotkunar sem settar séu fram á skipulagsuppdráttum, sérákvæði um landnotkun einstakra svæða, sértæk ákvæði um starfsemi og tímabundin stefnuákvæði. Kaflinn sé í heild sinni, líkt og skipulagsuppdrættirnir, bindandi hluti aðalskipulagsins.

Samkvæmt gildandi aðalskipulagi er Fálkagata 18 á íbúðarsvæðinu ÍB3 Hagar. Í A-hluta aðalskipulagsins eru m.a. sett fram almenn markmið og ákvæði um eflingu verslunar og þjónustu innan hverfa og í kaflanum Landnotkun-skilgreiningar (bindandi stefna) er rakið að íbúðarbyggð sé svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist. Í íbúðarbyggð sé heimil fjölbreyttari landnotkun sem falli undir skilgreininguna aðalgata nærþjónustukjarnar. Í kaflanum er hugtakið nærþjónustukjarni skilgreint með eftirfarandi hætti: „Kaupmaðurinn á horninu. Minni matvöruverslanir, bakarí, fiskbúðir og annað til daglegra þarfa innan hverfa. Íbúðir geta verið á efri hæðum viðkomandi bygginga. … Nærþjónustukjarnar eru að jafnaði ekki skilgreindir sérstaklega á uppdrætti aðalskipulags sem verslun og þjónusta (VÞ) og eru því skilgreindir sem íbúðarbyggð í aðalskipulagi. Staðsetning þeirra er tilgreind á korti í kaflanum Kaupmaðurinn á horninu (sjá einnig nánari lýsingu í Skipulagi borgarhluta).“

Í A-hluta skipulagsins er að finna kaflann Borg fyrir fólk og undirkaflann Kaupmaðurinn á horninu. Þar er í lituðum ramma greint frá markmiðum og ákvæðum aðalskipulagsins um eflingu verslunar og þjónustu innan hverfa og tekið fram að nánari stefna um verslun og þjónustu verði mótuð í hverfisskipulagi. Í rammanum kemur fram meðal tilgreindra markmiða að ekki verði heimilt að breyta verslunarhúsnæði á jarðhæð í skilgreindum kjörnum í íbúðarhúsnæði. Enn fremur segir að í hverfum borgarinnar verði núverandi verslunar- og þjónustulóðir dagvöruverslana festar í sessi til að tryggja betur stöðu verslunar og þjónustu innan hverfanna. Hverfiskjarnar og helstu nærþjónustukjarnar verði afmarkaðir á landnotkunaruppdrætti og minni nærþjónustukjarnar tilgreindir í texta og á þemakorti. Á mynd 15 í sama kafla eru þjónustukjarnar sýndir með mismunandi litum og segir um myndina „Skilgreining verslunar- og þjónustukjarna í aðalskipulaginu (Sjá nánar lista yfir nærþjónustukjarna í Skipulagi Borgarhluta) (bindandi stefna).“ Í B-hluta aðalskipulagsins, Skipulag borgarhluta, er m.a. að finna kafla með stefnumörkun fyrir helstu reiti og svæði innan Vesturbæjar, þ. á m. ÍB3 Hagar, sem Fálkagata 18 tilheyrir. Þar eru taldir upp hverfiskjarnar og nærþjónusta fyrir verslun og þjónustu sem eiga að sinna daglegum þörfum íbúa og festa á í sessi. Meðal þeirra er kjarninn Smyrilsvegur-Fálkagata, en Fálkagata 18 er á horni Fálkagötu og Smyrilsvegar, og verður að telja ljóst að átt sé við þann kjarna. Með aðalskipulaginu var því sett bindandi markmið um að óheimilt væri að breyta verslunarhúsnæði á jarðhæð í skilgreindum kjörnum í íbúðarhúsnæði. Þrátt fyrir að illgreinanlegt sé á nefndri mynd 15 hvaða litur, og þar með hvaða tegund, eigi við um þann kjarna sem hér um ræðir þá er þar merktur kjarni sem af efni aðalskipulagsins, sem að framan er rakið, þykir ljóst að um gildi greint markmið. Verður því að öllu framangreindu virtu að telja nægilega skýrt að ákvæði aðalskipulags varðandi Kaupmanninn á horninu og markmið varðandi verslunarrekstur á jarðhæð eigi við um Fálkagötu 18 og sé þar um að ræða samþykkta og staðfesta stefnu sem bindandi verður að telja, en ekki lýsingu aðstæðna og forsendna sem ekki teljist hluti hennar, sbr. gr. 4.5.1. í skipulagsreglugerð

Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er óheimilt að breyta notkun mannvirkis nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa, sbr. 2. mgr., eða Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, sbr. 3. mgr. Í 11. gr. laganna kemur m.a. fram að fyrirhuguð mannvirkjagerð sem sótt sé um byggingarleyfi fyrir þurfi að vera í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Þetta má einnig sjá á 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laganna, sem gerir það að skilyrði fyrir útgáfu byggingarleyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu. Byggingarfulltrúi í viðkomandi sveitarfélagi veitir byggingarleyfi, eftir atvikum í samræmi við samþykkt skv. 1. mgr. 7. gr., vegna hvers konar mannvirkjagerðar sem háð er byggingarleyfi skv. 1. mgr. en er ekki háð byggingarleyfi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þá er tekið fram í 2. mgr. 10. gr. laganna að sé mannvirki háð byggingarleyfi byggingarfulltrúa skuli hann leita umsagnar skipulagsfulltrúa leiki vafi á að framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitarfélagsins. Byggingarfulltrúi leitaði umsagnar skipulagsfulltrúa í því máli sem hér er til skoðunar og synjaði að henni fenginni byggingarleyfisumsókn kæranda um breytta notkun jarðhæðar Fálkagötu 18. Var sú málsmeðferð í fullu samræmi við áðurgreind ákvæði mannvirkjalaga, en samkvæmt skýrum ákvæðum laganna er það byggingarfulltrúi sem tekur ákvörðun um veitingu eða synjun byggingarleyfis, eftir atvikum að fenginni umsögn skipulagsfulltrúa. Var og byggingarfulltrúa rétt að lögum að synja um umsótt leyfi, enda samræmdist efni umsóknar kæranda ekki ákvæðum aðalskipulags, eins og að framan er rakið.

Að öllu framangreindu virtu verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu þeirrar ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. nóvember 2019 að synja byggingarleyfisumsókn til að breyta verslunarhúsnæði á fyrstu hæð Fálkagötu 18 í íbúðarhúsnæði með þremur einstaklingsíbúðum.

36/2020 Skógarstígur

Með

Árið 2020, föstudaginn 19. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 12. júní 2019 um að samþykkja að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs og að veita leyfi til að hefja gröft á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2020, sem barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafar Skógarstígs 4, Fjallabyggð, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 12. júní 2019 að samþykkja að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs og að veita leyfi til að hefja gröft á lóðinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Hinn 11. febrúar 2019 tók skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar fyrir byggingarleyfisumsókn, dags. 7. s.m., þar sem sótt var um leyfi fyrir byggingu frístundahúss að Skógarstíg 2. Erindið var samþykkt og bókaði nefndin að deildarstjóra tæknideildar væri falin útgáfa byggingarleyfis að uppfylltum skilyrðum gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hinn 22. maí s.á. sótti byggingarleyfishafi um leyfi til að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti. Jafnframt var óskað eftir heimild til að hefja gröft á lóðinni. Samþykkti nefndin erindið með vísan til gr. 5.8.4. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, en ákvæðið mælir fyrir um að við útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfa geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá gr. 5.8.2. reglugerðarinnar um grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik frá deiliskipulagi er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Bæjarstjórn Fjallabyggðar staðfesti niðurstöðu skipulags- og umhverfisnefndar á fundi sínum 12. júní 2019.

Kærendur vísa til þess að fyrirhuguð bygging að Skógarstíg 2 muni skyggja alfarið á langa sjónlínu þeirra út ströndina í átt að Siglunesi í stað þess að byggingin standi samkvæmt gildandi deiliskipulagi lægra og skyggi að mestu á mun styttri sjónlínu í átt að flugvallarendanum sem hafi mun minna gildi fyrir þá. Breytingin hafi verið gerð án vitundar kærenda á þeim forsendum að um hafi verið að ræða óverulegt frávik frá deiliskipulagi, sbr. gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð. Þessu séu kærendur ósammála og telji að breytingin skerði hagsmuni þeirra hvað varðar útsýni og verðmæti eignarinnar. Sé þess krafist að deiliskipulagi verði fylgt og að framkvæmdir við núverandi byggingu verði stöðvaðar.

Af hálfu Fjallabyggðar er þess krafist að stöðvunarkröfu kærenda verði hafnað. Er vísað til réttmætra væntinga leyfishafa og þess langa tíma sem kærendur hafi látið framkvæmdirnar óátaldar. Jafnframt sé byggt á þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar, sem m.a. komi fram í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kæra fresti almennt ekki réttaráhrifum. Reglan sé áréttuð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Stöðvun framkvæmda sé því undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri eingöngu að beita í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Byggingaráform hafa verið samþykkt fyrir lóðina að Skógarstíg 2 og veitt hefur verið leyfi til að hefja þar gröft. Liggur og fyrir að framkvæmdir eru hafnar. Eru skilyrði 5. gr. laga nr. 130/2011 því uppfyllt að því leyti.

Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 12. júní 2019 að samþykkja leyfi um að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs og að veita leyfi til að hefja gröft á lóðinni. Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar sem nefndin þarf tóm til að kynna sér. Leikur meðal annars vafi á því hvort hún samræmist ákvæðum 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með vísan til þessa og í ljósi greindra atvika þykir rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en málið hlýtur flýtimeðferð að kröfu leyfishafa verði þess krafist af hans hálfu skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Stöðvaðar eru framkvæmdir sem hafnar eru á lóð Skógarstígs 2, Fjallabyggð, á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

29/2020 Rjúpnabraut

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 4. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar-verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 4. mars 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut, Bláskógabyggð.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 24. apríl 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir Krókshlíð ehf., lóðarhafi Rjúpnabrautar 10, Bláskógabyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 4. mars 2020 að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóð nr. 9 við Rjúpnabraut. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinni kærða leyfi verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Bláskógabyggð 29. apríl 2020.

Málavextir: Í gildi er deiliskipulag frístundabyggðar í landi Úthlíðar í Biskupstungum frá 5. maí 1993. Hinn 6. mars 2007 var samþykkt breyting á skilmálum nefnds deiliskipulags, sem fól í sér að heimilt yrði að reisa allt að 280 m² frístundahús og 30 m² aukahús á hverri lóð innan deiliskipulagssvæðisins, þó með þeim takmörkunum að nýtingarhlutfall lóðar mætti ekki vera hærra en 0,03. Mænishæð húsanna, þar sem jörð stæði hæst, mætti vera 6,5 m. Í greinargerð sem fylgdi deiliskipulagsbreytingunni kom m.a. fram að á undanförnum misserum þar á undan hefðu  verið gerðar fjölmargar breytingar á deiliskipulagi frístundabyggðar í landi Úthlíðar. Nú væri svo komið að mismunandi skilmálar giltu um stærðir húsa innan deili­skipulags­svæðis jarðarinnar án þess að neinn sérstakur munur væri á náttúrufarslegum aðstæðum á þessum svæðum. Að mati landeigenda og sveitarstjórnar væri þessi staða ekki æskileg þar sem hún gæti leitt til misskilnings og jafnvel skapað ósætti milli lóðarhafa vegna ójafnræðis.

Hinn 31. maí 2018 lagði leyfishafi fram umsókn um leyfi til að byggja 131,8 m² sumarhús með risi á lóðinni Rjúpnabraut 9. Byggingarfulltrúi samþykkti umsóknina 18. júlí s.á. Samkvæmt teikningum sem fylgdu umsókninni yrði húsið 5,57 m hátt og byggt á sama stað og eldra sumarhús sem hafði verið rifið. Byggingarfulltrúi stöðvaði fram­kvæmdir á lóðinni 29. október 2019 þar sem við skoðun á undirstöðum hefði komið í ljós að ekki væri verið að framkvæma í samræmi við samþykktar teikningar. Samkvæmt þeim ætti að festa húsið á steinsteypta undirstöðubita en ekki steinsteyptan grunn, eins og framkvæmt hefði verið.

Leyfishafi fékk verkfræðistofu til að mæla gólfhæð byggingarinnar og hæð landsins í kring 13. febrúar 2020. Byggingarfulltrúi fór á staðinn og sannreyndi mælingarnar með GPS-mælitækjum, en samkvæmt þeim er lægsti punktur á lóð í kóta 196,0 og hæsti punktur á lóð í kóta 201,5. Mesti hæðarmunur innar lóðar var því 5,5 m og mænishæð húss leyfishafa í kóta 204,88. Samkvæmt greindum mælingum var fjarlægð milli húsanna að Rjúpna­braut 9 og 10 um 40 m.

Leyfishafi lagði fram nýja umsókn um byggingarleyfi, sem tekin var fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 4. mars 2020. Á aðaluppdráttum sem fylgdu byggingarleyfisumsókninni kemur fram að húsið, sem er með rishæð, verði 131,8 m² að flatarmáli, og með 5,8 m mænishæð. Í fundargerð var bókað að sótt hefði verið um að setja hús niður á steinsteyptan grunn sem tæki mið af landi í kringum húsið. Fyrir lægju gögn vegna hæðarmælinga á lóð og sökkli. Eigandi hefði áður verið búinn að fá byggingarleyfi til að byggja á umræddri lóð sumarhús með risi, sem yrði samtals 131,8 m². Að endingu var bókað að umsóknin samræmdist gildandi deiliskipulagi og var hún samþykkt. Þeirri ákvörðun byggingarfulltrúa var skotið til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að ekki hafi verið viðhöfð grenndarkynning samkvæmt 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 vegna samþykktrar breytingar á fyrirhuguðu húsi á umræddri lóð­­­. Jafnframt séu gerðar alvarlegar athugasemdir við að byggingar­framkvæmd skuli samþykkt að þeim loknum, en það sé augljóst brot á 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Augljóst sé að bygging sumarhúss ofan á bílskúr eða annað mannvirki sem sé þrír metrar á hæð brjóti í bága við gildandi deiliskipulag og beri skipulagsfulltrúa því að stöðva framkvæmdir þar til úr hafi verið bætt, sbr. 2. mgr. 53. gr. skipulagslaga. Framangreind veiting byggingarleyfis sé algjörlega á skjön við gildandi deiliskipulag. Túlkun byggingarfulltrúa á orðum deili­skipulags „þar sem jörð stendur hæst“ með þeim hætti að átt sé við hæsta mögulega punkt í lóðinni sé algjörlega út í hött. Augljóst sé að túlka beri orðalag þetta svo að um sé að ræða þann stað þar sem jörð standi hæst undir viðkomandi byggingu.

Málsrök Bláskógabyggðar: Sveitarfélagið vísar til þess að samkvæmt gildandi deiliskipulags­skilmálum sé heimilað að reisa allt að 280 m² frístundahús og 30 m² aukahús á lóðum almennt, þó með þeim takmörkunum að nýtingarhlutfall lóðar megi ekki vera hærra en 0,03. Lóðin Rjúpnabraut 9 sé 4.937 m² að stærð, hús á lóðinni verði 131,8 m² og nýtingarhlutfall sé því 0,0267. Mænishæð hússins, þar sem jörð standi hæst, megi vera 6,5 m. Þar sem grunnur hússins standi nú verði mænishæð undir 6,5 m. Hafi það verið sérstaklega mælt af byggingarfulltrúa. Það sé því ljóst að mænishæð sé samkvæmt skilmálum. Vakin sé athygli á því að mænishæð megi vera 6,5 m, þar sem jörð standi hæst. Mikill hæðarmunur sé í lóðinni sjálfri, eða 5,5 m. Mænishæð hússins verði í kóta 204,88 en gólfkóti hússins sé 199,3. Hæð húss sem komi á sökkul sé 5,57 m. Þá liggi líka fyrir að allur grunnurinn verði fylltur með jarðvegi eftir að húsið hafi verið fest á hann og jarðvegshæð verði við efri brún grunns. Enginn bílskúr eða nothæft rými verði undir húsinu. Fjarlægð milli húsanna að Rjúpnabraut 9 og 10 sé um 40 m og sé fyrirhuguð bygging að Rjúpnabraut 9 vel innan byggingarreits. Samkvæmt því sé fyrirhuguð bygging í samræmi við gildandi deiliskipulagsskilmála svæðisins. Þar sem umsókn um byggingarleyfi hafi verið í samræmi við skipulagsskilmála hafi ekki verið þörf á grenndarkynningu samkvæmt 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Byggingarleyfi hafi upphaflega verið samþykkt 18. júlí 2018. Samkvæmt samþykktum teikningum skyldi húsið sett niður á steinsteypta undirstöðubita. Síðar hafi framkvæmdir verið stöðvaðar þar sem í stað undirstöðu­bita hefði verið steyptur grunnur. Umsókn hafi verið send inn að nýju þar sem skýrt sé að vegna kröfu burðarþolverkfræðings og flutningsaðila hússins skyldi húsið sett á steinsteyptan grunn. Að öðru leyti sé húsið sjálft óbreytt. Fyrir liggi að byggingarfulltrúi hafi við afgreiðslu málsins kynnt sér öll atriði er varði húsið sjálft og þá breytingu sem gerð hafi verið á upphaflegum áætlunum, þ.e. að festa húsið á steinsteyptan grunn í stað undirstöðubita. Ekkert hafi því verið til fyrirstöðu að samþykkja byggingarleyfi að nýju þar sem það hafi samrýmst gildandi skipulagsskilmálum.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að öll hönnun framkvæmdarinnar hafi verið unnin af löggildum fagmönnum og hlotið samþykki sveitarfélagsins. Hafi í hvívetna verið unnið eftir samþykktum teikningum. Víða í Bláskógabyggð séu aðstæður svipaðar og á lóðinni Rjúpnabraut 9, þar sem byggt sé í halla, og þar megi sjá svipuð mannvirki. Lóðin og nánasta umhverfi hafi verið hæðarmæld til þess að sýna stöðu húss á lóð.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar byggingu sumarhúss á lóðinni Rjúpnabraut 9. Lóðin er á deiliskipulögðu svæði og því bar ekki að grenndarkynna umdeilda byggingarleyfisumsókn skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 eða auglýsa hana til kynningar skv. 1. eða 2. mgr. 43. gr. laganna nema hún víki frá gildandi deiliskipulagi og kalli þar með á deiliskipulagsbreytingu.

Svo sem áður er fram komið var í mars 2007 samþykkt breyting á skilmálum deiliskipulags frístundabyggðar í landi Úthlíðar, sem tók m.a. til stærða húsa á skipulagssvæðinu. Með breytingunni var heimilað að reisa allt að 280 m² frístundahús og 30 m² aukahús á hverri lóð en nýtingarhlutfall mætti þó ekki fara yfir 0,03. Þá var og tiltekið að „mænishæð húsanna, þar sem jörð stendur hæst, megi vera 6,5 m“. Tilgreint orðalag um mænishæð húsa verður samkvæmt orðanna hljóðan túlkað svo að miða skuli við hámarksmænishæð frá hæsta punkti lóðarinnar.

Í hinu kærða byggingarleyfi var heimiluð bygging 131,8 m² sumarhúss með 5,8 m mænishæð. Nýtingarhlutfall umræddrar lóðar yrði samkvæmt því 0,027. Samkvæmt því er ljóst að stærð hússins og mænishæð fara ekki í bága við skilmála gildandi deiliskipulags. Þá verður af gögnum ráðið að enginn bílskúr eða annað rými verði undir húsinu, eins og kærandi hefur haldið fram.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Bláskógabyggðar frá 4. mars 2020 um að veita byggingarleyfi fyrir sumarhúsi á lóðinni nr. 9 við Rjúpnabraut, Bláskógabyggð.

7/2020 Selás

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 4. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 7/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 30. desember 2019 um stöðvun allra framkvæmda við byggingu á tvílyftu íbúðarhúsi að Selási 20, Reykjanesbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. janúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Seláss 20 í Reykjanesbæ, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Reykjanesbæjar frá 30. desember 2019 að stöðva allar framkvæmdir við byggingu tvílyfts íbúðarhúss að Selási 20. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 25. mars 2020.

Málavextir: Með bréfi, dags. 22. mars 2017, var kæranda tilkynnt að hann hefði fengið úthlutað lóðinni Selási 20 í Reykjanesbæ. Lóðin tilheyrir Ásahverfi og þar er í gildi deiliskipulag sem tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 30. janúar 2007. Í skilmálum deiliskipulagsins segir m.a: ,,Reykjanesbær mun setja almenna úthlutunar­skilmála þar sem kveðið er á um tímamörk fyrir skil á teikningum, byggingafresti o.fl. Reykjanesbær mun gefa út mæliblöð á grundvelli deiliskipulagsins þar sem lóðamörk og byggingareitir verða málsettir og gefnir upp kótar fyrir gólfplötu 1. hæðar ásamt hæðarkótum á lóðarmörkum.“ Úthlutunarskilmálar lóða í hverfinu eru m.a. á þá leið að heildarhæð tveggja hæða húsa sé ekki meiri en 6,3 m.

Umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir byggingu tvílyfts húss á umræddri lóð var ódagsett en undirrituð af honum og var nafn aðalhönnuðar tilgreint í henni. Umsóknin var tekin fyrir og samþykkt á 231. afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 8. júní 2017. Bréf byggingarfulltrúa, dags. 15. s.m., var sent kæranda þar sem tilkynnt var um samþykki byggingaráforma. Samkvæmt samþykktum byggingaráformum er hæðarkóti lægsta punkts þaksins 19,38 en hæsta punkts 20,82. Á lóðarblaði kemur fram að leyfilegur hæðarkóti húss sé 19,50. Byggingarleyfi var gefið út af embætti byggingarfulltrúa 22. febrúar 2018 og hinn 9. mars s.á. var byggingarreitur settur út af Tækniþjónustu SÁ ehf. Á lóðarblaði var gólfkóti hússins tiltekinn 13,20.

Hinn 8. október 2018 var af hálfu byggingarfulltrúa tölvupóstur sendur aðalhönnuði hússins þar sem farið sem fyrst fram á útskýringar og lagfæringar á mistökum hans varðandi hæðarkóta hússins. Aðalhönnuður svaraði erindinu og kvaðst ætla að sjá til þess að hæðarkótinn yrði leiðréttur. Mun kærandi hafa fengið afrit af tölvupósti aðalhönnuðarins. Hinn 30. janúar 2019 sendi embætti byggingarfulltrúa tölvupóst á aðalhönnuðinn og eigandann þar sem spurt var hvenær embættið mætti eiga von á leiðréttum uppdráttum. Var á það bent að við tilraun til að skrá hönnuð í byggingargátt Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar hefði hönnuðurinn ekki fundist á skrá yfir hönnuði og í ljós komið að aðalhönnuðurinn væri hvorki með löggildingu sem aðalhönnuður né með gæðakerfi, líkt og lög nr. 160/2010 um mannvirki gerðu ráð fyrir. Óskað var eftir staðfestingu á ábyrgðartryggingu hönnuðar. Að sögn sveitarfélagsins var þessum tölvupósti var ekki svarað.

Hinn 5. apríl 2019 sendi byggingarfulltrúi tölvupóst til kæranda og aðalhönnuðar þar sem fram kom að vart hefði orðið við að framkvæmdir við húsið á lóð kæranda væru hafnar að nýju af fullum krafti og athygli vakin á því að ekki hefðu borist uppfærðir uppdrættir og að aðalhönnuður hefði ekki löggildingu og gæðakerfi svo sem lög áskildu. Þessum tölvupósti var ekki svarað af hálfu kæranda heldur kom byggingarstjóri hússins á fund byggingarfulltrúa og lagði til að Tækniþjónusta SÁ myndi taka málið að sér og skila inn leiðréttum uppdráttum án frekari tafa. Byggingarfulltrúi ítrekaði erindi sitt um að bætt yrði úr framangreindum ágöllum með tölvu­pósti 19. nóvember 2019 til Tækniþjónustu SÁ sem lagði fram leiðrétta uppdrætti 23. desember s.á. með hæðarkótum í samræmi við lóðarblað. Voru uppdrættirnir samþykktir af byggingarfulltrúa.

Stuttu síðar fékk byggingarfulltrúi ábendingu um að hús kæranda væri of hátt og í kjölfarið óskaði embættið eftir staðfestingu á hæðarsetningu þess. Hinn 30. desember 2019 stöðvaði byggingarfulltrúi síðan framkvæmdir við Selás 20 með vísan til þess að húsið væri of hátt. Mæling á þakhæð leiddi í ljós að hæsti punktur á þaki væri í kóta 20,33 en samkvæmt lóðarblaði og leiðréttum uppdráttum ætti hann að vera 19,50. Samkvæmt upphaflegum upp­dráttum átti hæsti punktur byggingarinnar vera í kóta 20,82. Hinn 6. janúar 2020 barst byggingarfulltrúa ósk um að þak hússins yrði hækkað um 88 cm, en með bréfi, dags. 24. s.m., var kæranda tilkynnt að erindinu hefði verið hafnað á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa, enda væri umbeðin hækkun í andstöðu við skipulag hverfisins.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að ekki sé fullnægjandi lagagrundvöllur fyrir hinni kærðu ákvörðun um stöðvun framkvæmda. Hann hafi fengið samþykkta aðal­uppdrætti og hafið byggingu hússins samkvæmt þeim. Með áritun aðaluppdrátta sé byggingar­fulltrúi búinn að staðfesta að þeir samræmist skipulagi, sbr. 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Séu því ekki lagaskilyrði til þess að stöðva framkvæmdir á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki, sbr. einnig gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Sveitarfélagið sé ekki eigandi lóðarinnar Seláss 20. Ef landeigendur túlki hæðarkóta á annan hátt en byggingarfulltrúi hafi gert við áritun aðaluppdrátta sé um að ræða einkaréttarlegan ágreining milli landeigenda og kæranda. Slíkur ágreiningur sé sveitarfélaginu óviðkomandi. Hlutverk mæliblaðs að lögum sé að sýna afmörkun útskiptra fasteigna, sbr. c-lið 1. mgr. 14. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, líkt og fjallað sé um í lóðarleigusamningi. Hæðarkóti komi fram á lóðarblaði en ekki í deiliskipulaginu sjálfu. Því geti meint brot gegn tilgreindu ákvæði um hæðarkóta á lóðarblaði ekki heimilað stöðvun framkvæmda á þeim grundvelli að þær séu í ósamræmi við deiliskipulag. Lóðarblað hafi ekki annað og meira hlutverk en að afmarka lóðir og geti skilmálar deiliskipulags ekki breytt því.

Hvað sem því líði sé á því byggt að framkvæmdir kæranda hafi verið í samræmi við skilmála lóðarblaðsins. Hið flata þak sem sýnt sé á aðaluppdráttum sé með halla þar sem lægsti punktur sé undir hæðarkóta og hæsti punktur yfir honum. Byggingarfulltrúi hafi fallist á það með undir­ritun sinni og sé bundinn við það. Kærandi hafi hafið uppbyggingu og haldið henni áfram í góðri trú.

Kærandi byggi á því að málsmeðferð byggingarfulltrúa við ákvörðun um stöðvun framkvæmda hafi verið ólögmæt. Byggingarfulltrúi hafi afhent kæranda bréf á vettvangi. Honum hafi borið að senda bréf í kjölfarið þar sem stöðvunin væri ítrekuð. Þá hafi kæranda ekki gefist kostur á að bregðast við og koma að athugasemdum. Ekki hafi verið vísað til lagaákvæða fyrir ákvörðun byggingarfulltrúa og rangt sé, sem fram komi í bréfi byggingarfulltrúa, dags. 24. janúar 2020, að framkvæmdir hafi einnig verið stöðvaðar á þeirri forsendu að uppbygging hafi ekki verið í samræmi við endurbætta aðaluppdrætti frá Tækniþjónustu SÁ ehf., dags. 20. desember 2019. Kæranda hafi einvörðungu verið tilkynnt um að framkvæmdir væru stöðvaðar með vísan til þess að þær samræmdust ekki deiliskipulagi.

Kærandi byggi á því að hinir endurbættu aðaluppdrættir og fyrirspurn um „hækkun“ á þaki hafi ekki stafað frá sér og að gögnin hafi ekki verið send til embættis byggingarfulltrúa í hans umboði. Þar sem fyrirspurnin hafi ekki verið undirrituð af skráðum lóðarhafa, kæranda, og uppdrættir hafi ekki stafað frá honum hafi byggingarfulltrúa borið að ganga úr skugga um að umrædd gögn væru send í umboði hans.

Það að löggiltur hönnuður hafi ekki undirritað aðaluppdrætti valdi því ekki að byggingar­fulltrúi geti stöðvað framkvæmdir. Kærandi hefði skilað inn nýjum uppdráttum undirrituðum af löggiltum hönnuði ef ekki hefði verið fyrir óréttmætar kröfur byggingarfulltrúa um að leiðrétta hið samþykkta þak.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að með vísan til samskipta kæranda og fulltrúa hans við embætti byggingarfulltrúa sé ljóst að kæranda hafi verið kunnugt eða mátt vera kunnugt um alvarlega galla á hönnunargögnum þegar í október 2018. Þá hafi kæranda og sérfræðimenntuðum ráðgjöfum og fulltrúum hans mátt vera ljóst að framkvæmdir gætu ekki haldið áfram á grundvelli slíkra hönnunargagna. Þá hafi kæranda og fulltrúum hans mátt vera ljóst að bygging fasteignarinnar mætti ekki vera í andstöðu við gildandi skipulag. Kærandi hafi ítrekað verið hvattur til að lagfæra hönnunargögn og koma þeim til embættis byggingarfulltrúa svo að framkvæmdir gætu haldið áfram og þá í samræmi við rétt gögn. Ljóst sé að kærandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti að hafa ekki brugðist við ítrekuðum og alvarlegum ábendingum og áskorunum embættis byggingarfulltrúa. Fyrir liggi að ábend­ingar hafi komið fram löngu áður en byggingarframkvæmdir hafi verið komnar jafn langt og raun beri vitni. Embætti byggingarfulltrúa hafi lagt áherslu á að koma ábendingum og áskorunum á framfæri við kæranda eins fljótt og hægt hafi verið. Sveitarfélagið telji að það hafi ekki verið jafn flókið og kostnaðarsamt fyrir kæranda að gera nauðsynlegar lagfæringar ef brugðist hefði verið við ítrekuðum áskorunum byggingarfulltrúa. Ákvarðanir og frekari fram­kvæmdir á grundvelli gallaðra hönnunargagna verði að vera á ábyrgð eiganda fasteignarinnar. Ef í ljós komi gallar í hönnunargögnum séu eigendur fasteigna hvattir til að leiðrétta þau. Það sé á ábyrgð byggingarfulltrúa að sjá til þess að framkvæmdir séu í samræmi við lög og reglur.

Sveitarfélagið mótmæli því alfarið að stöðvun framkvæmda geti ekki byggst á 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki, enda sé heimild byggingarfulltrúa beinlínis að finna í ákvæðinu sjálfu. Í 1. mgr. gr. 2.9.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé ákvæði um heimild byggingarfulltrúa til að stöðva ólöglegar framkvæmdir eða notkun og fyrirskipa lokun mannvirkis. Ákvæðið sé heimildar­ákvæði og sem slíkt alltaf háð mati viðkomandi byggingarfulltrúa hvort þeim heimildum sé beitt að teknu tilliti til aðstæðna og alvarleika mála. Samskipti milli aðila í þessu máli beri með sér að byggingarfulltrúi hafi ítrekað verið búinn að mæla fyrir um úrbætur af hálfu kæranda. Tilmælum byggingarfulltrúa hafi ekki verið sinnt og því hafi verið talið nauðsynlegt að grípa til þess úrræðis að stöðva framkvæmdir.

Stöðvun framkvæmda sé í eðli sínu bráðabirgðaúrræði sem unnt sé að beita tafarlaust án þess að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin að undangenginni málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslu­lögum. Sveitarfélagið telji að byggingarfulltrúi hafi gætt meðalhófs við stöðvun framkvæmda. Þá hafi kæranda og fulltrúum hans mátt vera fullkunnugt um aðfinnslur byggingarfulltrúa.

Markmið laga nr. 160/2010 um mannvirki sé m.a. að vernda líf og heilsu manna og tryggja faglegan undirbúning mannvirkjagerðar og virkt eftirlit með þeim, sbr. 1. gr. laganna. Allir þeir sem komi að mannvirkjagerð með einum eða öðrum hætti hafi réttindi og skyldur samkvæmt lögunum. Þannig skuli byggingarfulltrúar meðal annars annast eftirlit með byggingarleyfis­skyldum framkvæmdum, sbr. 2. mgr. 4. gr., sbr. 1. og 2. mgr. 9. gr. laganna. Þá beri eigandi mannvirkis ábyrgð á því að hönnun, bygging og rekstur mannvirkis sé í samræmi við kröfur laganna og reglugerða sem settar séu á grundvelli þeirra, sbr. 1. mgr. 15. gr. laganna. Eigandi mannvirkis skuli enn fremur hafa virkt eftirlit með því að þeir sem hann ráði til að hanna og byggja mannvirkið fari eftir ákvæðum laganna, sbr. 2. mgr. 15. gr. laganna. Útgefandi byggingarleyfis skuli hafa eftirlit með mannvirkjagerð og að úttektir fari fram og hafi hann heimild til að beita þvingunarúrræðum í samræmi við ákvæði laganna ef fyrirmælum um úrbætur sé ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 16. gr. laganna. Það standist því ekki skoðun að hér sé á ferðinni einkaréttarlegur ágreiningur landeiganda og húsbyggjanda sem komi byggingarfulltrúa ekki við. Eftirlit og áskoranir byggingarfulltrúa og síðar ákvörðun um stöðvun framkvæmda rúmist vel innan laga um mannvirki.

Alfarið sé hafnað þeim sjónarmiðum kæranda að þar sem um sé að ræða flatt þak með halla og lægsti punktur sé undir hæðarkóta og hæsti punktur yfir honum sé mannvirkið í samræmi við gildandi lög og reglur. Hafi byggingarfulltrúi og ítrekað hafnað þeim sjónarmiðum, m.a. á fundum með kæranda. Vikið sé að hæðarkótum í gr. 4.3.2 í byggingarreglugerð: „[…] Tilgreina skal á aðaluppdrætti hæð á neðsta gólfi mannvirkis, hæðarkóta á hverri hæð og hæðarkóta efsta punkts þakvirkis miðað við hæðarkerfi viðkomandi sveitarfélags, en götuhæð þar sem hæðarkerfi er ekki fyrir hendi.“ Sjónarmiðum um að þak þurfi einungis að meðaltali að vera undir hámarkshæðarkóta sé af þessum sökum hafnað.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi árétti að sá eini sem hafi umboð frá honum vegna framkvæmdanna sé byggingarstjóri. Hvorki Tækniþjónusta SÁ né framkvæmdastjóri þess fyrirtækisins hafi slíkt umboð. Í umsögn sveitarfélagsins sé fjallað um ábendingar vegna hæðar á þaki og að fram­kvæmdir hafi verið stöðvaðar vegna slíkra ábendinga. Bent sé á að sá eini sem hafi komið á framfæri ábendingum hafi haft aðaluppdrætti undir höndum síðan 22. júní 2017, sem byggingarfulltrúi hafi samþykkt óbreytta. Að mati kæranda skorti verulega á að sveitarfélagið leggi fram gögn um þær ábendingar vegna hæðar þaks og fleira sem haldið sé fram í umsögn þess. Kærandi vilji taka fram að hann hafi oftsinnis farið á fund með byggingarfulltrúa til þess að ræða framkvæmdir og reyna að leita lausna í málinu. Hvergi sé minnst á það í umsögn sveitar­félagsins. Skylda hvíli á stjórnsýslu sveitarfélaga að skrá slíka fundi í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti.

Niðurstaða: Samkvæmt V. kafla laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu hönnunargögn mann­virkja, t. a. m. aðaluppdrættir og séruppdrættir, vera unnin af hönnuðum sem hafa fengið lög­gildingu, sbr. 25. og 26. gr. laganna. Þá skal mannvirki og notkun þess samræmast skipulags­áætlunum á svæðinu, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna.

Samkvæmt kennisniði á uppdrætti deiliskipulags umrædds svæðis er hámarkshæð tveggja hæða húsa 6,3 m frá botnplötu og er það einnig tekið fram í úthlutunarskilmálum lóðarinnar Seláss 20. Á lóðarblaði sem útbúið var á grundvelli deiliskipulagsins kemur fram að gólfkóti hússins sé 13,20 og hæsti kóti 19,50. Uppdrættir sem samþykktir voru af byggingarfulltrúa 8. júní 2017 og gerðu ráð fyrir að húsið væri 7,62 m á hæð, þ.e. að gólfkótinn væri 13,20 og hæsti kóti 20,82, voru ekki áritaðir af löggiltum hönnuði. Voru uppdrættirnir því ekki í samræmi við gildandi deiliskipulag og áritun þeirra ekki lögum samkvæmt.

Af framangreindum ástæðum var byggingarfulltrúa heimilt  að stöðva framkvæmdir á umræddri lóð kæranda í samræmi við 1. mgr. 55. gr. laga um mannvirki. Samþykki byggingarfulltrúa á umþrættum aðaluppdráttum veldur því ekki að honum sé þar með óheimilt að beita þvingunarúrræðum ákvæðisins sé það hans mat að skilyrði þess séu á annað borð fyrir hendi. Þá ber að hafa í huga að hinn 23. desember 2019 samþykkti byggingarfulltrúi nýja uppdrætti fyrir lóðina Selás 20 með hæðarkótum í samræmi við lóðarblað og teljast þeir nú gildandi aðaluppdrættir lóðarinnar.

Þrátt fyrir að byggingarfulltrúi hafi ekki sent kæranda bréf með ítrekun á beitingu þvingunarúrræðis í samræmi við leiðbeiningar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar leiðir það ekki til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar. Fyrirliggjandi gögn bera með sér að kærandi hafi komið að andmælum vegna hinnar kærðu ákvörðunar, svo sem með bréfi, dags. 6. febrúar 2020, og var hann í tölvupóstsamskiptum við byggingarfulltrúa í janúar 2020 vegna málsins.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki þeir form- eða efnisannmarkar á hinni kærðu ákvörðun að raskað geti gildi hennar og verður framkominni ógildingarkröfu því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar frá 30. desember 2019 um að stöðva framkvæmdir að Selási 20, Reykjanesbæ.

17/2020 Urðarstígur

Með

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 17/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2020 um stöðvun framkvæmda að Urðarstíg 9 og fyrirspurn kæranda um byggingar­leyfisskyldu framkvæmdanna.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. febrúar 2020, kærir ÞórHildur ehf, eigandi íbúðar á neðri hæð Urðarstígs 9, Reykjavík, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 24. janúar 2020 um að stöðva framkvæmdir að Urðarstíg 9. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi að öllu leyti eða að hluta. Jafnframt er lögð fram fyrirspurn um byggingarleyfisskyldu nefndra framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 27. febrúar 2020.

Málavextir: Kærandi festi kaup á neðri hæð fasteignarinnar að Urðarstíg 9 í Reykjavík með kaupsamningi, dags. 27. nóvember 2019. Húsið er tveggja hæða timburhús sem reist var árið 1921. Eftir kaupin hóf kærandi framkvæmdir við lagfæringar innan íbúðarinnar og í fram­haldinu sendu eigendur efri hæðar hússins erindi, dags. 9. desember 2019, til byggingar­fulltrúans í Reykjavík og óskuðu eftir upplýsingum um það hvort þær framkvæmdir sem ættu sér stað á neðri hæð væru byggingarleyfisskyldar. Með bréfi byggingar­fulltrúa, dags. 16. desember 2019, sem sent var til fyrri eigenda neðri hæðar Urðarstígs 9, var þeim gefinn 14 daga frestur til að veita skýringar á framkvæmdunum. Hinn 6. janúar 2020 sendu eigendur efri hæðarinnar annað erindi til byggingarfulltrúa þar sem fullyrt var að kærandi hefði átt við burðar­virki hússins og einangrun milli hæða. Höfðu þeir aftur samband við byggingarfulltrúa 14. s.m. og óskuðu eftir upplýsingum. Sama dag sendi byggingarfulltrúi bréf til fyrri eigenda neðri hæðarinnar þar sem fram komu ásakanir eigenda efri hæðarinnar og veitti 14 daga frest til andmæla. Hinn 20. janúar 2020 fór fulltrúi byggingarfulltrúa á staðinn og skoðaði fyrrgreindar framkvæmdir. Við þá skoðun hitti fulltrúinn fyrirsvarsmann kæranda og sama dag fékk fyrirsvarsmaðurinn sent bréf embættisins sem sent hafði verið fyrrverandi eigenda íbúðarinnar 14. janúar s.á., þar sem kvartanir eigenda efri hæðar komu fram og var veittur frestur til að leggja fram skýringar vegna málsins.

Með bréfi til fyrirsvarsmanns kæranda, dags. 24. janúar 2020, var tilkynnt að embætti byggingarfulltrúa hafi haft til skoðunar framkvæmdir að Urðarstíg 9 og að vettvangsferð skilmálafulltrúa embættisins hafi leitt í ljós að búið var að rífa niður veggi, gólf, timbursúlur og bita, einangrun og eldhús og  gera breytingar á burðarvirki hússins. Var eigendum gert að stöðva tafarlaust allar framkvæmdir hverju nafni sem þær nefndust og sækja um byggingarleyfi innan 30 daga frá móttöku bréfsins. Þá var jafnframt veittur 14 daga andmælafrestur.

Kærandi andmælti ákvörðun byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 26. janúar 2020, og gerði athugasemdir við málsmeðferð embættisins auk þess að krefjast rökstuðnings fyrir ákvörðun embættisins um byggingarleyfisskyldu. Því bréfi var svarað af hálfu byggingarfulltrúa með bréfi, dags. 31. s.m., þar sem fram kom að á myndum sem teknar hafi verið við skoðun byggingar­fulltrúa sæist að búið væri að bæta við burðarbitum undir gólf efri hæðar, endurnýja bita og stoðir, saga sundur og bæta við bitum í gólfi íbúðar og rífa burt baðherbergisveggi. Þessi atriði féllu ekki undir gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og því byggingarleyfisskyld og fyrri ákvörðun embættisins staðfest. Kærandi svaraði því bréfi með bréfi, dags. 5. febrúar 2020, og kom þar á framfæri frekari andmælum og skoraði á embættið að afturkalla ákvörðun sína. Því var hafnað með bréfi, dags. 10. febrúar 2020.

Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er byggt á því að mat byggingarfulltrúans í Reykjavík, að framkvæmdir kæranda séu byggingarleyfisskyldar, sé rangt og því beri að ógilda ákvarðanir embættisins um stöðvun framkvæmda og skyldu kæranda til að sækja um byggingarleyfi. Ákvarðanir byggingarfulltrúa séu ekki fyllilega skýrar um hvaða þætti framkvæmda á vegum kæranda embættið telji byggingarleyfisskylda. Í raun telji kærandi að um sé að ræða breytinga milli bréfa á forsendum embættisins fyrir ákvörðunum sínum sem kærandi telji skýrast af ófullnægjandi rannsókn byggingarfulltrúa á atvikum málsins.

Samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 er allt viðhald innanhúss í íbúðar­húsnæði, s.s. endurnýjun innréttinga, breytingar eða endurnýjun á léttum innveggjum, viðhald lagnabúnaðar innan íbúðar o.þ.h. undanþegið byggingarleyfi. Minniháttar breytingar á burðar­veggjum, eldvarnarveggjum, votrými eða eldhúsi innan íbúðar séu heimilar án byggingarleyfis enda sé leyfisveitanda tilkynnt um framkvæmdir áður en þær hefjist. Allar framkvæmdir kæranda að Urðarstíg 9 falli undir framangreinda undanþágu frá byggingarleyfiskyldu. Í því samhengi sé áréttað að samkvæmt ákvæðinu sé allt viðhald innanhúss í íbúðarhúsnæði undan­þegið byggingarleyfisskyldu og að upptalning ákvæðisins á nánar tilgreindum framkvæmdum sé einungis í dæmaskyni. Ljóst sé að einungis breytingar á eldhúsi og votrými, sem séu meiri að umfangi en almennt viðhald, endurnýjun innréttinda eða breyting eða endurnýjun á léttum veggjum, teljist tilkynningar­skyldar. Önnur túlkun á ákvæðinu fæli í sér að t.d. það eitt að mála baðherbergi eða að endurnýja eldhúsinnréttingu væri háð byggingarleyfi enda fæli það í sér minniháttar breytingu á votrými.

Af bréfi byggingarfulltrúa frá 10. febrúar 2020 megi ráða að hann telji að eftirfarandi atriði leiði til þess að framkvæmdir kæranda séu byggingarleyfis­skyldar: Viðbót burðarbita undir gólf efri hæðar, endurnýjun ótiltekinna bita og stoða, sundur sögun og viðbót bita í gólfi íbúðar og rif á baðherbergisveggjum. Jafnframt sé tiltekið í bréfi embættisins að allar breytingar eða útskipti á burðarvirki geti ekki talist til viðhalds heldur sé um að ræða byggingarleyfisskyldar fram­kvæmdir. Þá árétti embættið þá afstöðu sína að rif á tveimur baðherbergisveggjum geti ekki talist minniháttar breyting á votrými heldur sé um að ræða byggingarleyfisskylda framkvæmd.

Á myndum byggingarfulltrúa, merktar A og B í fylgiskjölum, sem teknar hafi verið við skoðun 20. janúar 2020, megi sjá stoðir og bita fyrir léttan vegg sem kærandi hyggist setja upp í alrými íbúðarinnar. Að því er kærandi komist næst sé þetta sá „burðarbiti“ sem byggingarfulltrúi vísi til í bréfi sínu. Einnig megi ætla að með vísun til burðarbita eigi byggingarfulltrúi við tvo bita sem sýnilegir séu á myndum C og D.

Umræddir bitar séu allir fremur þykkir og kirfilega festir. Megintilgangur þeirra sé að mynda grind fyrir létta veggi sem kærandi hyggist setja upp. Bitarnir séu hvorki ætlaðir né til þess fallnir að bera gólf efri hæðarinnar og finnist kæranda langsótt ef telja eigi þá hluta af burðarvirki hússins. Í því samhengi vísi kærandi til þess að mun þynnri bitar séu alla jafna notaðir í sama tilgangi og kæmi aldrei til greina að telja þá burðarbita. Bitar á myndum A, B, C og D séu allir staðsettir þar sem fyrir hafi verið annað hvort léttur veggur eða enginn veggur.

Í tölvupósti embættis byggingarfulltrúa, dags. 23. janúar 2020, segi orðrétt: „Miðað við sam­þykktar teikningar er einungis burður í útveggjum rýmisins“. Upphaf­legt mat byggingarfulltrúa, um að einungis sé burður í útveggjum rýmisins, sé rétt. Allar breytingar á innri veggjum rýmisins hljóti því að teljast breytingar á léttum veggjum og því undanþegnar byggingarleyfi. Óljóst sé hvaða bita og veggjastoðir byggingarfulltrúi telji háða byggingarleyfisskyldu við endurnýjun og viðhald. Líkt og fram hafi komið í tölvupósti embættisins 23. janúar 2020 sé einungis burður í útveggjum hússins og sé endurnýjun bita og veggjastoða því eftir atvikum annað hvort tímabært viðhald eða tilfærsla og/eða endurnýjun á léttum veggjum. Hvort tveggja sé undanþegið byggingarleyfi. Timburgólf í íbúðinni hafi verið endurnýjað og rétt af en um sé að ræða löngu tímabært viðhald á gólfi sem hafi ekki borið með sér að hafa verið viðhaldið frá byggingu hússins. Bitum sem hafi verið farnir að fúna var skipt út fyrir nýja bita sem festir hafi verið á sama stað. Aðrir bitar hafi verið klæddir að utan til að rétta af gólfið. Kærandi telji fyllilega ljóst að ekki sé um að ræða breytingu á burðarvirki hússins heldur geti vart verið um annað að ræða en viðhald á timburgólfi sem sé undanþegið byggingarleyfisskyldu.

Í íbúðinni séu tvö votrými, annars vegar lítið baðherbergi og hins vegar stærra votrými með sturtuaðstöðu. Bæði rýmin séu ósnert. Húsið sé tæplega hundrað ára gamalt og víðsvegar um íbúðina hafi komið í ljós ýmsar lagnir, bæði tengdar og ótengdar, sem engar nánari upplýsingar séu liggi fyrir um. Kærandi hafi í slíkum tilvikum ekki hreyft við þeim lögnum. Bláar og rauðar lagnir, sem glitti í á nokkrum fyrirliggjandi ljósmyndum, hafi verið til staðar við afhend­ingu eignarinnar og séu annars vegar hluti af ofnakerfi íbúðarinnar, sem sé ósnert, og hins vegar lagnir fyrir eldhús sem verið sé að endurnýja á sama stað og þær hafi verið áður. Niðurrif þeirra léttu veggja sem byggingarfulltrúi telji vera baðherbergis­veggi geti í öllu falli ekki falið í sér breytingu á votrými. Engin slík votrými séu skilgreind á samþykktum teikningum og rými í miðri íbúðinni beri ekki með sér að vera ætluð sem votrými, ólíkt aðgreindu votrýmunum tveimur. Framkvæmdir kæranda á meintum baðherbergjum séu því í öllu falli til þess fallnar að færa íbúðina nær samþykktu ástandi. Því sé alfarið hafnað að rif á léttum veggjum innan íbúðarinnar hafi verið í sér byggingarleyfisskyldar breytingar á votrými.

Óháð niðurstöðu nefndarinnar um byggingarleyfisskyldu séu slíkir annmarkar á málsmeðferð embættis byggingarfulltrúa að ekki verði hjá því komist að ógilda hinar kærðu ákvarðanir og eftir atvikum leggja fyrir embættið að taka málið aftur til efnislegrar meðferðar, fari svo að nefndin telji framkvæmdirnar byggingarleyfisskyldar.

Í 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segi að stjórnvald skuli sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin í því. Krafa um rannsókn máls sé ríkari en ella þegar teknar séu íþyngjandi ákvarðanir, svo sem um beitingu þvingunarráðstafana. Byggingarfulltrúi hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni með fullnægjandi hætti áður en tekin hafi verið ákvörðun um byggingarleyfisskyldu og stöðvun framkvæmda að Urðarstíg 9. Endurspeglist þetta helst í því að embættinu hafi í rúman mánuð verið ókunnugt um raunverulegan eiganda umræddrar íbúðar og framkvæmdaraðila þrátt fyrir þinglýst gögn og ábendingar þess efnis og að embættinu hafi ekki verið fyllilega kunnugt um raunverulegt umfang og eðli framkvæmdanna eða ástand hússins fyrir framkvæmdirnar. Ljóst sé að embættið byggi um of á einhliða lýsingum eigenda efri hæðar hússins í stað þess að framkvæma fullnægjandi sjálfstæða rannsókn á aðstæðum. Í fyrsta svarpósti embættisins til eigenda efri hæðarinnar virðist embættið hafa gert upp hug sinn, innan klukkustundar og á grundvelli einhliða lýsingar, að um byggingarleyfisskyldar fram­kvæmdir sé að ræða. Embættið hafi í framhaldinu reynt að afla frekari upplýsinga án árangurs enda hafi fyrir­spurnum embættisins verið beint til rangs aðila. Að endingu hafi verið liðinn rúmur mánuður frá einhliða yfirlýsingum byggingarfulltrúa áður en hann hafi kannað aðstæður á staðnum. Að lokinni skoðun framkvæmda og samskiptum byggingarfulltrúa við kvartendur í kjölfar heimsóknar skilmálafulltrúa embættisins hafi það ekki talið framkvæmdirnar byggingar­leyfisskyldar. Af ókunnum ástæðum hafi sú afstaða breyst.

Í 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga komi fram þær meginreglur íslensks stjórnsýsluréttar að aðili máls eigi rétt á að vera upplýstur um að til meðferðar sé mál þar sem fyrirhugað sé að taka stjórnvaldsákvörðun sem beint verði að honum og jafnframt að aðili máls eigi rétt á að tjá sig um efni máls áður en slík ákvörðun sé tekin. Það sé einnig ólögfest meginregla íslensks stjórnsýsluréttar, svonefnd réttmætisregla, að allar ákvarðanir og athafnir stjórnvalda þurfi að vera byggðar á málefnalegum sjónarmiðum en ekki geðþótta eða hentisemi.

Upphaf þessa máls verði rakið til kvörtunar eigenda efri hæðar hússins að Urðarstíg 9 til byggingarfulltrúa 9. desember 2019. Frá þeim tíma hafi verið ítrekuð samskipti milli kvartenda og byggingar­fulltrúa. Meðan á þeim samskiptum stóð hafi kæranda verið ókunnugt um að embætti byggingarfulltrúa hafi verið með mál hans til meðferðar. Kærandi hafi því með engu móti getað varist ítrekuðum rangfærslum um þær framkvæmdir sem fram hafi farið eða að öðru leyti komið sínum sjónarmiðum að. Kæranda hafi fyrst verið kunnugt um málið þegar skilmála­fulltrúi embættisins hafi mætt óvænt í heimsókn á framkvæmdastað 20. janúar 2020, rúmum mánuði eftir að meðferð málsins hafi hafist. Í kjölfar heimsóknar fulltrúans hafi kærandi talið að ekkert væri athugavert við framkvæmdirnar og var fulltrúanum tilkynnt að reyndar­teikningum af húsnæðinu yrði skilað þegar þær lægju fyrir. Svo sem greina megi í tölvupósti embættisins til kvartenda frá 23. janúar 2020 hafi kærandi ekki mátt eiga von á að tekin yrði íþyngjandi ákvörðun í málinu í kjölfar heimsóknarinnar enda hafi afstaða embættisins á þeim tíma virst vera sú að framkvæmdirnar væru undanþegnar byggingarleyfi. Fyrsta formlega tilkynning til kæranda um meðferð málsins hafi því ekki verið fyrr en framkvæmdirnar hafi verið óvænt stöðvaðar með bréfi, dags. 24. janúar 2020.

Byggingarfulltrúa hafi átt að vera ljóst, bæði á grundvelli þinglýstra heimilda og ítrekaðra ábendinga kvartenda, hver réttur eigandi fasteignarinnar hafi verið. Þá hafi þinglýst gögn þess efnis verið aðgengileg í rafrænni þinglýsingarbók sýslumanna auk þess sem Reykjavíkurborg hafi innheimt fasteignagjöld af kæranda og því vart geta dulist hver hafi verið réttur eigandi fasteignarinnar. Þau mistök að beina tvívegis áskorunarbréfum til fyrri eiganda fasteignarinnar hafi gert að engu möguleika kæranda til að koma að athugasemdum á fyrri stigum málsins. Þá telji kærandi líklegt að ómálefnaleg sjónarmið hafi að lokum orðið til þess að embættið hafi tekið hinar kærðu ákvarðanir enda liggi ekkert fyrir í málinu sem varpi ljósi á þá breytingu sem hafi orðið á afstöðu embættisins milli 23. og 24. janúar 2020.

Samkvæmt 12. gr. stjórnsýslulaga beri stjórnvöldum að gæta meðalhófs við töku íþyngjandi stjórnvaldsákvarðana og sé sú krafa ríkari eftir því sem ákvörðunin sé meira íþyngjandi. Ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda byggist á heimild í 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í greininni segi að byggingarfulltrúi geti stöðvar framkvæmdir ef byggingarleyfisskyld framkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni. Hafi byggingarfulltrúi gengið mun lengra en efni hafi verið til.

Ákvæði 55. gr. mannvirkjalaga, sbr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð, séu heimildarákvæði og beri byggingarfulltrúa að gæta meðalhófs við beitingu þess. Jafnframt beri byggingarfulltrúa að afmarka skýrt umfang stöðvunarinnar og hvort hún nái til framkvæmdar í heild eða að hluta. Kæranda og byggingar­fulltrúa greini á um hvort tilteknir hlutar framkvæmda séu byggingar­leyfisskyldir. Í stað þess að beina tilmælum til eiganda um úrbætur eða stöðva þann tiltekna hluta framkvæmda sem ágreiningurinn snúi að, hafi byggingarfulltrúi kosið að stöðva allar framkvæmdir, hverju nafni sem nefnist. Með beitingu mun meira íþyngjandi úrræðis en tilefni hafi verið til, hafi embættið komið í veg fyrir að kærandi geti takmarkað tjón sitt meðan leyst sé úr ágreiningnum með því að sinna öðrum hluta framkvæmda sem enginn ágreiningur sé um.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga beri stjórnvöldum að gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Kæranda, sem hafi atvinnu af endurbótum og útleigu á fast­eignum, sé ekki kunnugt um að sambærilegar endurbætur innahúss í gömlu húsnæði hafi áður verið taldar háðar byggingarleyfi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld benda á að fyrir liggi hvaða þættir það séu sem byggingarfulltrúi telji byggingarleyfisskylda. Í gr. 2.3.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé svohljóðandi ákvæði: „Óheimilt er að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi leyfisveitanda, sbr. þó 2.3.5 gr.“ Af myndum sem hafi verið teknar við skoðun byggingar­fulltrúa á staðnum 20. janúar 2020 sjáist að búið sé að bæta við burðarbitum undir gólf efri hæðar, endurnýja bita og stoðir, saga sundur og bæta við bitum í gólfi íbúðar og rífa burt baðherbergisveggi. Af þessu sé ljóst að búið sé að breyta burðarvirki hússins, þ.e. setja upp burðarbita þar sem þeir hafi ekki verið áður og því byggingarleyfisskyld framkvæmd. Ekki sé hægt að fallast á að umræddar breytingar á burðarvirki falli undir a. lið gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð sem minniháttar breytingar, hvorki á burðarvirki né votrými og þannig undanþegin byggingarleyfi. Umræddar breytingar, sem felist m.a. í útskipti á burðarvirki, geti ekki talist til viðhalds. Byggingarfulltrúa hafi heldur ekki verið tilkynnt um framkvæmdir sem gætu talist undanþegnar byggingarleyfi en tilkynningarskyldar skv. a. lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð.

Vegna tölvupósts byggingarfulltrúa frá 23. janúar 2020, þar sem fram komi að miðað við samþykktar teikningar sé einungis burður í útveggjum rýmisins, sé áréttað að sú afstöðumynd sem sé í fylgiskjölum sýni ekki íbúð kæranda og gefi því engar upplýsingar um burðarvirki hússins. Svar byggingarfulltrúa til eiganda efri hæðar hafi því ekki verið nákvæmt en hefð sé fyrir því í timburhúsum þessa tíma að burðarveggur sé eftir endilangri miðju húss, svokallaður hjartaveggur, sbr. snið á upphaflegri teikningu hússins. Þessi burðarveggur hafi verið fjarlægður úr rýminu og bitar settir í loftið í staðinn. Þá verði ekki ráðið af framkvæmdum á gólfi hvað þær eigi að fela í sér, en búið sé að fjarlægja gólfið svo sjáist niður á jörð.

Á myndum sem teknar hafi verið við skoðun byggingarfulltrúa 20. janúar 2020 sjáist ný vatns­rör, bæði fyrir heitt og kalt vatn á vegg, auk þess sem nýjar lagnir hafi verið lagðar í rýminu. Við fyrstu athugun virtist sem um baðherbergi hafi verið að ræða en hugsanlegt sé að þarna sé um lagnir fyrir eldhús að ræða. Það sé þó alls ekki ljóst af þeim lögnum sem þarna sjáist og engar teikningar sem sýni um hvaða rými sé að ræða eða hvaða tilgangi umræddar lagnir þjóni. Ljóst sé að verið sé að breyta lagnakerfi íbúðarinnar og umfang þessara framkvæmda sé það mikið að ekki sé hægt að fella framkvæmdirnar undir undanþáguákvæði gr. 2.3.5. í byggingar­reglugerð.

Málið hafi að öllu leyti verið nægilega rannsakað og upplýst áður en ákvörðun í málinu hafi verið tekin. Það sé vissulega óheppilegt að fyrri eiganda hafi upphaflega verið sent bréf til að óska skýringa, en það eigi sér eðlilegar skýringar. Ekki sé heldur byggt á einhliða lýsingum eiganda efri hæðar eins og haldið sé fram, heldur hafi farið fram vettvangsskoðun á rýminu þar sem byggingarfulltrúi hafi kannað umræddar framkvæmdir og tekið ljósmyndir á vettvangi. Það sé enn fremur mikill mis­skilningur hjá kæranda að embættið hafi gert upp hug sinn innan klukkustundar frá því að fyrsti póstur hafi borist frá eiganda efri hæðar. Í svari byggingarfulltrúa hafi komið fram að það þurfi byggingarleyfi fyrir breytingum á burði og í húsum sem byggð hafi verið fyrir 1926 og að erindið yrði framsent skilmálaeftirliti til frekari skoðunar og svara þar sem væntanlega hafi verið um óleyfisframkvæmd að ræða. Í kjölfarið hafi í tvígang verið farið á staðinn til að kanna málið en enginn hafi hist fyrir í þau skipti og hafi það ekki verið fyrr en 20. janúar 2020 að fyrirsvar­smaður kæranda hittist fyrir og hægt hafi verið að staðreyna umfang og eðli framkvæmdanna. Hafi kæranda þá verið gert ljóst að embættið hafi talið framkvæmdirnar byggingarleyfisskyldar en að skoða þyrfti málið betur áður en næstu skref yrðu ákveðin. Farið hafi verið yfir málið á fundi skilmálaeftirlits byggingarfulltrúa 23. s.m. og ákveðið að senda stöðvunarbréf sem sent hafi verið næsta dag.

Stöðvun framkvæmda samkvæmt 1. og 3. mgr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð sé í eðli sínu bráðabirgðaúrræði sem heimilt sé að beita tafarlaust án þess að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin að undangenginni málsmeðferð skv. stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Vísist nánar um þetta atriði til leiðbeininga Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar um stöðvun framkvæmda, lokun mannvirkja o.fl. frá 1. júní 2018. Það að fyrri eiganda hafi óvart verið send bréf í upphafi hafi í engu breytt um möguleika kæranda á að koma að sjónarmiðum sínum í málinu, enda hafi hann komið að athugasemdum við ákvörðun byggingarfulltrúa um stöðvun framkvæmda þegar hún hafi legið fyrir og tilkynnt kæranda. Öllum sjónarmiðum kæranda um að ómálefnaleg sjónarmið eða þrýstingur hafi ráðið för sé vísað á bug sem röngum og ósönnuðum. Á liðnum árum og áratugum hafi framkvæmdir verið stöðvaðar sem hafi verið hafnar án tilskilinna leyfa, þ. á m. vegna breytinga á burðarvirki, þó slík tilvik séu blessunarlega ekki algeng. Enn fremur sé á það minnt að eigendum húsa sem byggð séu fyrir árið 1925 sé skylt að leita álits hjá Minjastofnun Íslands hyggist þeir breyta þeim, skv. 30. gr. laga nr. 80/2012 um menningar­minjar. Ekki liggi slíkt álit fyrir í málinu.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Áréttað sé að í heimsókn skilmála­fulltrúa 20. janúar 2020 hafi kæranda ekki verið tilkynnt um að framkvæmdir yrðu mögulega stöðvaðar. Í lok heimsóknar virtist skilmálafulltrúinn vera því sammála að ekki hafi verið um byggingarleyfis­skyldar framkvæmdir að ræða og það sama megi lesa úr tölvupóstsamskiptum hans við eigendur efri hæðar þann sama dag. Þá sé ítrekað að eigninni hafi augljóslega verið breytt mikið frá upphaflegum teikningum og að enginn slíkur veggur sem rætt sé um í greinargerð borgarinnar hafi verið til staðar þegar framkvæmdir hafi hafist. Teikning af húsinu sem borgaryfirvöld vísi til hafi verið gerð þegar byggð hafi verið viðbygging í öðrum eignarhluta á efri hæð hússins. Veggur á umræddu sniði sé greinilega steyptur veggur í steyptum hluta hússins sem enginn ágreiningur sé um og skilji að forstofu sem tilheyri efri hæð og tengirými milli bílskúrs og íbúðar neðri hæðar. Umræddar lagnir, fyrir eldhús hafi þegar verið endurnýjaðar og legið í stokkum neðst á veggjum. Til að forða þeim frá hnjaski við framkvæmdir hafi þær tímabundið verið hengdar ofar en muni færðar á sinn stað aftur og notast áfram fyrir eldhúsið eftir endur­bætur. Kærandi telji augljóst að þar gildi a-liður gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 þar sem skýrt sé tekið fram að „viðhald lagnabúnaðar innan íbúðar“ flokkist sem minniháttar framkvæmdir undanþegnar byggingarleyfi.

Í greinargerð Reykjavíkurborgar komi fram sú afstaða að þar sem stöðvun framkvæmda sé bráðabirgða­úrræði sé heimilt að sniðganga málsmeðferð samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi mótmæli þessari afstöðu harðlega. Beiting bráðabirgðaúrræða feli vissulega í sér viss frávik frá hefðbundinni málsmeðferð stjórnsýslumála og feli m.a. í aukna áherslu á að meðferð máls sé hraðar eftir föngum en þó verði að vega og meta slíka flýtingu á móti rannsóknar- og andmælareglu stjórnsýsluréttarins. Þá feli taka ákvörðunar um stöðvun framkvæmda á grundvelli byggingarleyfisskyldu óhjákvæmilega í sér að tekin sé samhliða ákvörðun um byggingarleyfisskyldu framkvæmdanna. Svo sem málum sé hér háttað hafi verið liðnir 46 dagar frá því að byggingarfulltrúi hafi hafið meðferð málsins þar til tekin hafi verið ákvörðun um stöðvun framkvæmda. Það standist enga skoðun að ekki hafi verið hægt að tilkynna honum um meðferð málsins og gefa kost á að koma á framfæri andmælum sínum fyrir töku ákvörðunarinnar. Á það megi einnig benda að greinilega hafi vilji verið til staðar til að veita tækifæri til slíkra andmæla í samræmi við góða stjórnsýsluhætti en með ítrekuðum mis­tökum við meðferð og rannsókn málsins hafi kærandi verið sviptur andmælarétti sínum. Ekki sé til staðar gildur grundvöllur fyrir beitingu úrræðisins enda sé ekki um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir að ræða. Rétt sé að benda á að óréttlættur dráttur á beitingu bráðabirgðar- og þvingunarúrræða geti orðið til þess að stjórn­völdum sé beinlínis óheimilt að beita þeim, sbr. Hrd. 1989, bls. 1242 og Hrd. 1996, bls. 1868.

Varðandi stöðvun allra framkvæmda, hverju nafni sem þær nefnist, sé ítrekað að þær fram­kvæmdir sem byggingarfulltrúi telji leyfisskyldar nái til minna en helmings af flatarmáli eignar­hluta kæranda. Við töku ákvörðunar um stöðvun framkvæmda hafi um 90% af verkhlutanum sem ágreiningur sé um verið lokið. Í heimsókn skilmálafulltrúa 20. janúar hafi sá hluti eignarinnar sem enginn ágreiningur sé um verið skoðaður og fyrirhuguðum framkvæmdum verið lýst. Það viðhald snúi að útskiptingu gólfefna, endurnýjun hreinlætistækja í votrýmum, endurnýjun innihurða, almennri málningarvinnu og öðru almennu viðhaldi. Sú ákvörðun að setja á allsherjar verkbann hafi því verið óþarflega íþyngjandi og til þess fallin að auka verulega fjárhagslegt tjón kæranda.

Athugasemdir kæranda, um að ekki hafi verið gætt jafnræðis við embættisafgreiðslur byggingarfulltrúa, snúi ekki að því að hann hafi ekki áður stöðvað framkvæmdir, heldur að kæranda sé ekki kunnugt um að viðhaldsframkvæmdir og breytingar á innra rými íbúðar­húsnæðis hafi áður verið taldar byggingarleyfisskyldar.

Hvað varði framkvæmdir á húsum byggðum fyrir árið 1925, upplýsist að kærandi hafi óskað símleiðis eftir leiðbeiningum Minjastofnunar um slíka umsagnarskyldu. Samkvæmt upplýsing­um frá stofnuninni sé umsagnarskylda einungis fyrir hendi þegar um sé að ræða byggingar­leyfisskyldar framkvæmdir og þá helst breytingar á ytri ásýnd húsa. Miðað við lýsingar kæranda á framkvæmdum innanhúss hafi starfsmaður Minjastofnunar ekki talið þörf á umsögn stofnunarinnar. Afstaða Minjastofnunar sé í samræmi við athugasemdir um 30. gr. í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um menningarminjar nr. 80/2012, þar sem ákvæðið sé nánar takmarkað við verulegar breytingar, flutning og niðurrif húsa.

Viðbótarathugasemdir Reykjavíkurborgar: Tekið er fram að starfsmaður byggingarfulltrúa hafi ekkert gefið upp um hvort hann hafi talið þetta byggingarleyfisskylt eða ekki. Þá hafi Reykjavíkurborg ekki verið að vísa til þeirrar teikningar sem kærandi vísi til. Ekki sé til grunnmynd af umræddri íbúð og ekki séu neinar umsóknir vegna umræddrar íbúðar til. Tekin hafi verið elsta teikning hússins sem dæmi um það að þessi veggur hafi verið í þessum eldri byggingum en ekki verið sjáanlegur í umræddu húsi. Hvað varði lagnirnar, sé það að segja að umræddar lagnir hafi aldrei verið samþykktar og engar teikningar séu til af þeim. Þær séu því án nokkurs vafa byggingarleyfisskyldar.

Í leiðbeiningum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segi um stöðvun framkvæmda: „Stöðvun framkvæmda og notkunar og lokun mannvirkis samkvæmt 1. og 3. mgr. 2.9.1. gr. byggingar­reglugerðar (liðir 2 og 4 hér að framan) eru í eðli sínu bráðabirgðaúrræði sem unnt er að beita tafarlaust án þess að stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin að undangenginni málsmeðferð samkvæmt stjórnsýslulögum. Gæta ber meðalhófs við beitingu heimildanna, samanber einnig lið 1 hér að framan. Telji leyfisveitandi að skilyrði séu til beitingar heimildarinnar sendir hann hlutaðeigandi eiganda og eftir atvikum umráðamanni bréf þar sem stöðvun/lokun er tilkynnt.“ Kærandi hafi á öllum stigum málsins fengið andmælarétt og hæfilegan frest til svara. Fyrstu bréf hafi verið send á fyrri eigendur þar sem fasteignaskrá hafði ekki verið uppfærð. Ákvörðun um stöðvun hafi verið tekin strax eftir skoðun og myndatökur á staðnum og hún tilkynnt daginn eftir þá skoðun. Ekki hafi verið talið unnt að leyfa framkvæmdir að hluta í ljósi umfangs framkvæmda sem væru að miklu leyti byggingarleyfisskyldar og þar með háðar umsögn Minjastofnunar.

—–

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir máli sínu. Þau sjónarmið verða ekki rakin nánar hér en úrskurðarnefndin hefur farið yfir öll gögn og haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin kynnti sér aðstæður á vettvangi hinn 30. apríl 2020 að viðstöddum fyrirsvarsmanni kæranda og fulltrúa Reykjavíkurborgar.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um hvort framkvæmdir sem standa yfir innan íbúðar kæranda á neðri hæð Urðarstígs 9 séu byggingarleyfisskyldar og þar með hvort ákvörðun byggingar­fulltrúa frá 24. janúar 2020 um stöðvun framkvæmdanna hafi verið lögmæt.

Samkvæmt 9. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er óheimilt að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagnakerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingarfulltrúa. Ráðherra getur í reglugerð kveðið á um að minni háttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum skuli undanþiggja byggingarleyfi eða að slíkar framkvæmdir séu einungis tilkynningaskyldar. Í gr. 2.3.5. byggingarreglugerðar  nr. 112/2012 er kveðið á um hvaða framkvæmdir séu undanþegnar byggingarleyfi. Þar er tekið fram að allt viðhald innanhúss í íbúðarhúsnæði, s.s. endurnýjun innréttinga, breytingar eða endurnýjun á léttum innveggjum, viðhald lagna­búnaðar innan íbúðar o.þ.h. sé undanþegið byggingarleyfi. Minniháttar breytingar á burðar­veggjum, eldvarnar­veggjum, votrými eða eldhúsi innan íbúðar eru heimilar án byggingarleyfis enda sé leyfis­veitanda tilkynnt um framkvæmdir áður en þær hefjast. Leiki vafi á um byggingarleyfisskyldu framkvæmda skal leita niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar um það álitamál samkvæmt 4. mgr. 9. gr. laga um mannvirki.

Kærandi hefur byggt málatilbúnað sinn á því að afstaðnar og fyrirhugaðar framkvæmdir í íbúð hans séu ekki háðar byggingarleyfi enda ekki verið hróflað við burðarvirki húss eða vatnslögnum breytt. Byggingaryfirvöld staðhæfa hins vegar að átt hafi verið við burðarvirki hússins og vatnslögunum breytt og séu þær framkvæmdir byggingarleyfisskyldar. Er því uppi ágreiningur um hvaða framkvæmdir hafi átt sér stað í nefndri íbúð.

Ekki liggja fyrir í málinu byggingarnefndarteikningar, hvorki aðaluppdrættir né séruppdrættir, ljósmyndir eða önnur gögn sem sýna hvernig skipulag íbúðar og lagnakerfis hennar hafi verið áður en framkvæmdir hófust. Hefur úrskurðarnefndin undir rekstri málsins óskað eftir upplýsingum og gögnum frá kæranda og byggingaryfirvöldum Reykjavíkurborgar í því skyni að varpa ljósi á hvað þegar hafi verið framkvæmt og um óloknar fyrirhugaðar framkvæmdir í umræddri íbúð kæranda og hefur nefndin skoðað aðstæður á vettvangi. Þrátt fyrir það liggja  ekki fyrir upplýsingar og gögn sem með viðhlítandi hætti verður stuðst við til að skera úr um leyfisskyldu umdeildra framkvæmda. Auk ágreinings um byggingarleyfisskyldu er deilt um hvaða framkvæmdir hafa átt sér stað. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að vísa þeim þætti málsins frá úrskurðarnefndinni.

Í lögum um mannvirki er byggingarfulltrúa veitt úrræði til þess að halda uppi og verja þá hagsmuni sem búa að baki lögunum. Meðal annars getur hann stöðvað framkvæmdir sem hafnar eru án lögmælts byggingarleyfis, sbr. 55. gr. laganna. Slík ákvörðun er í eðli sínu úrræði til bráðabirgða þar til bætt hefur verið úr ætluðum annmörkum og eðli máls samkvæmt getur verið nauðsynlegt að beita úrræðinu með litlum sem engum fyrirvara og án ítarlegrar rann­sóknar. Í því máli sem hér um ræðir kom fulltrúi embættis byggingarfulltrúa á vettvang þar sem áttu sér stað allmiklar framkvæmdir í 99 ára gömlu fjöleignarhúsi og fyrir lágu kvartanir íbúa efri hæðar sem töldu að burðarvirki íbúðar þeirra hafi verið veikt. Lágu því efnisrök fyrir því að stöðva framkvæmdir tímabundið á meðan málið væri rannsakað.

Hin kærða ákvörðun fól í sér stöðvun allra framkvæmda án tillits til þess hvort einstakir þættir þeirra væru háðir byggingarleyfi og hefur stöðvunin staðið frá 24. janúar 2020. Í ljósi þess ágreinings sem uppi var um hvað framkvæmt hafði verið og þar með um byggingarleyfisskyldu einstakra þátta framkvæmdanna bar byggingarfulltrúa að fylgja eftir ákvörðun sinni með frekari rannsókn og staðfestingu á byggingarleyfisskyldu hinna einstöku þátta. Eins og fram hefur komið er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir viðhlítandi gögn sem leyst gætu úr fyrirspurn kæranda um byggingarleyfisskyldu. Af framangreindum ástæðum verður að telja að ekki séu lengur efnisrök fyrir því að stöðvun framkvæmda verði fram haldið í skjóli hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúa þegar litið er til rannsóknar- og meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins.

Úrskurðarorð:

Fyrirspurn um byggingarleyfisskyldu framkvæmda við Urðarstíg 9 er vísað frá úrskurðar­nefndinni.

Ákvörðun byggingarfulltrúa frá 24. janúar 2020 um stöðvun framkvæmda og að sótt verði um byggingarleyfi er felld úr gildi.

35/2020 Langholtsvegur

Með

Árið 2020, föstudaginn 29. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 35/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 um að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svalahurð á aðra hæð hússins á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2020, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur, Langholtsvegi 138, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 10. september 2019 að samþykkja leyfi til að byggja bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svalahurð á aðra hæð hússins á lóðinni. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 26. maí 2020.

Málsatvik og rök: Með umsókn, dags. 17. maí 2019, var sótt um leyfi til að byggja stein­steyptan bílskúr á lóð nr. 136 við Langholtsveg og bæta við svölum og svalahurð á aðra hæð húss þess sem stendur á lóðinni. Umsókninni fylgdi m.a. samþykki sameigenda fyrir framkvæmdunum.

Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. júní 2019 og ákveðið að vísa málinu til umsagnar skipulagsfulltrúa. Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 5. júlí s.á., kom fram að ekki væru gerðar skipulagslegar athugasemdir við erindið. Hinn 10. september 2019 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráformin og var byggingarleyfi gefið út 29. apríl 2020. Í útgefnu byggingarleyfi er tekið fram að frágangur á lóðarmörkum verði gerður í samráði við lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Kærendur benda á að bygging svala að Langholtsvegi 136 hafi nú þegar farið fram. Þá sé gert ráð fyrir í deiliskipulagi svæðisins að framkvæmdir nái ekki út fyrir byggingarreit. Varðandi stöðvunarkröfuna sé þó alvarlegra að leyfishafi hafi kynnt kærendum að hann hyggist láta verktaka mæta á svæðið til þess að hefja skurðgröft fyrir grunni bílskúrsins. Í því felist meðal annars að grafinn verði fleygskurður inn á lóð kærenda þar sem m.a. standi 72 ára gömul tré. Engin heimild sé til slíkra framkvæmda.

Borgaryfirvöld telja að hafna beri kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Farið sé fram á að kveðinn verði upp fullnaðarúrskurður í málinu. Kjósi byggingarleyfishafi að halda framkvæmdum áfram áður en efnisúrskurður liggi fyrir, geri hann það á eigin ábyrgð og áhættu. Útgáfa byggingarleyfis fyrir Langholtsveg 136 sé í fullu samræmi við málsmeðferðarreglur laga nr. 160/2010 um mannvirki og byggingarreglugerðar nr. 112/2012.

Af hálfu leyfishafa er þess krafist að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Því sé mótmælt að framkvæmdir verði stöðvaðar enda séu forsendur kærunnar alrangar og byggðar á röngum eða engum gögnum um að byggingarleyfið uppfylli ekki löggild skilyrði 55. gr. laga um mannvirki.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Í máli þessu er deilt um veitingu byggingarleyfis sem heimilar byggingu bílskúrs og svala á húsi á lóðinni nr. 136 við Langholtsveg. Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni er ljóst að leyfishafi hefur þegar reist umþrættar svalir. Gert er ráð fyrir byggingarreit fyrir bílskúr á nefndri lóð en málsrök kærenda um stöðvun framkvæmda við bílskúrsbygginguna lúta aðallega að jarðraski á lóð þeirra sem muni fylgja þeim framkvæmdum. Í því sambandi er til þess að líta að hið kærða byggingarleyfi heimilar ekki framkvæmdir á lóð kærenda heldur einskorðast heimildir þess við lóð leyfishafa. Verður leyfishafi því að byggja á öðrum heimildum hyggist hann hagnýta sér lóð kærenda til framkvæmda og kærendur verða sömuleiðis að byggja á réttarreglum, s.s. um lögbann, vilji þeir ekki þola það. Sá ágreiningur er af einkaréttarlegum toga og á ekki undir úrskurðarnefndina sem einskorðar lögmætisathugun sína við lögmæti hins kærða byggingarleyfis, en eins og áður segir heimilar það ekki framkvæmdir á lóð kærenda. Þá skal á það bent að á leyfishafa hvílir sú skylda samkvæmt útgefnu byggingarleyfi að hafa samráð við lóðarhafa aðliggjandi lóða við frágang á lóðarmörkum.

Með hliðsjón af öllu framangreindu þykir ekki tilefni til að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en frekari fram­kvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða.

26/2020 Kambahraun

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 26/2020, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar frá 5. mars 2020 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á lóðinni að Kambahrauni 51.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 6. apríl 2020, er barst nefndinni 8. s.m., kæra eigendur Kambahrauns 60, Hveragerði, þá ákvörðun byggingar­fulltrúa Hveragerðisbæjar að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss að Kamba­hrauni 51. Þess er krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunar­kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hveragerðisbæ 20. apríl 2020.

Málavextir: Á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar Hveragerðisbæjar 8. janúar 2019 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja við íbúðarhús og bílskúr á lóð nr. 51 við Kambahraun og stækka lóðina. Í umsókninni fólst að samþykktar yrðu viðbyggingar íbúðarhúss og bílskúrs og stækkun lóðarinnar til norðurs um 4,5 m. Eftir breytinguna yrði stærð íbúðar 172,5 m² og stærð bílskúrs 91 m². Flatarmál lóðar yrði 906,1 m² og nýtingarhlutfall hennar 0,29. Lagði nefndin til við bæjarstjórn að umsóknin yrði grenndarkynnt samkvæmt 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og samþykkti bæjarstjórn þá afgreiðsla á fundi sínum 10. janúar 2019. Athugasemdir bárust á kynningartíma umsóknarinnar frá kærendum. Að lokinni grenndarkynningu var málið tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar 5. mars s.á. þar sem lagt var til við bæjarstjórn að erindið yrði samþykkt en komið yrði til móts við athugasemdir varðandi framkvæmdir á svæði vestan lóðarinnar með því að mön yrði lækkuð um einn metra og hún opnuð með tveggja metra breiðu skarði til vesturs. Afgreiðsla skipulags- og mannvirkjanefndar var samþykkt í bæjarstjórn 14. mars 2019.

Kærendur kærðu ákvörðun bæjarstjórnar til úrskurðarnefndarinnar með kröfu um ógildingu hennar. Með úrskurði í máli nr. 27/2019, uppkveðnum 3. desember 2019, var kröfu um ógildingu ákvörðunar um stækkun lóðarinnar Kambahrauns 51 hafnað en málinu að öðru leyti vísað frá á þeirri forsendu að í hinni kærðu ákvörðun sveitarstjórnar fælist ekki lokaákvörðun um byggingarleyfi fyrir viðbyggingum á lóðinni í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með tölvupósti til byggingarfulltrúa 25. febrúar 2020 fór leyfishafi fram á að fyrirhuguð viðbygging við íbúðarhús hans yrði metin sem tilkynningarskyld framkvæmd sem undanþegin væri byggingar­leyfi samkvæmt gr. 2.3.5., sbr. gr. 2.3.6., í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Með svarbréfi byggingarfulltrúa, dags. 5. mars s.á., var leyfishafa tilkynnt samþykki fyrir því að viðbyggingin væri minniháttar framkvæmd sem undanþegin væri byggingarleyfi og að framkvæmdin samræmdist skipulagsáætlunum. Þá var og tekið fram að skila þyrfti inn uppdráttum af burðarvirki, pípulögnum og raflögnum. Hinn 5. mars 2020 samþykkti byggingar­fulltrúi fyrirhugaðar framkvæmdir við íbúðarhús og bílskúr leyfishafa með áritun sinni um samþykki byggingaráforma.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að byggingarfulltrúa hafi ekki verið heimilt að samþykkja umrædd byggingaráform á grundvelli gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og að gefa hafi þurft út byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum. Kærendum hafi verið tilkynnt að byggingaráformin hefðu verið samþykkt sem minniháttar framkvæmd með vísan til h-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð. Í 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 komi fram sú meginregla að óheimilt sé að grafa grunn fyrir mannvirki, reisa það, rífa eða flytja, breyta því, burðarkerfi þess eða lagna­kerfum eða breyta notkun þess, útliti eða formi nema að fengnu leyfi viðkomandi byggingar­fulltrúa. Mælt sé fyrir um undantekningu frá framangreindri meginreglu í 2. málsl. 1. mgr. 9. gr. þar sem kveðið sé á um heimild ráðherra til að kveða á um undanþágu frá kröfu um byggingarleyfi í byggingarreglugerð varðandi minniháttar mannvirkjagerð eða smávægilegar breytingar á mannvirkjum. Mælt sé fyrir um slíka undantekningu í h-lið gr. 2.3.5. reglu­gerðarinnar þar sem fram komi að viðbyggingar sem uppfylli ákveðin skilyrði séu undan­þegnar byggingarleyfi. Eigi ákvæðið við um viðbyggingar sem séu innan byggingarreits, að hámarki 40 m2 og á einni hæð enda sé framkvæmdin í samræmi við deiliskipulag. Fyrir liggi að ekki hafi verið gert deiliskipulag fyrir umrædda lóð. Þegar af þeirri ástæðu geti ekki komið til skoðunar að fella framkvæmdina undir gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð og beri því að fella ákvörðunina úr gildi. Grenndarkynning geti ekki komið í stað skýrra fyrirmæla ákvæðisins um deiliskipulag enda um undanþáguákvæði að ræða sem skýra beri þröngt eftir orðanna hljóðan.

Í öðru lagi sé byggt á því að framkvæmdin standist ekki reglur grenndarréttar um innsýn og að ekki hafi verið tekið tillit til lögmætra réttinda og væntinga kærenda við afgreiðslu umsókn­arinnar. Í þriðja lagi hafi við meðferð málsins ekki verið gætt að jafnræðisregla stjórnsýsluréttar, sem sé slíkur annmarki að ógilda beri ákvörðunina.

Málsrök Hveragerðisbæjar: Bæjaryfirvöld benda á að skipulagsyfirvöld og bæjarstjórn hafi að undangenginni grenndarkynningu tekið þá afstöðu að fyrirhuguð framkvæmd væri í fullu samræmi við skipulagsáætlanir í aðalskipulagi og þéttleika byggðar. Í gr. 2.3.6. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, um málsmeðferð vegna tilkynntra framkvæmda, standi: „Yfirferð leyfisveitanda vegna framkvæmda sem tilkynntar eru skv. 2.3.5. gr. takmarkast við það að fara yfir hvort framkvæmdin samræmist skipulagsáætlunum og hún sé innan þeirra marka sem tilgreind eru í ákvæðinu.“ Bæjaryfirvöld geti ekki túlkað ákvörðun skipulagsnefndar og bæjar­stjórnar öðruvísi en svo að fyrirhuguð framkvæmd samræmist skipulagsáætlunum sveitar­félagsins ekkert síður en ef um byggingarreit og deiliskipulag væri að ræða. Þess vegna hafi afgreiðslan verið í fullu samræmi við markmið greinar 2.3.5. í byggingarreglugerð.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafi vísar til þess að hin kærða ákvörðun leiði hvorki til skerðingar á lífsgæðum kærenda innan veggja heimilis þeirra né á útsýni þeirra til fjalla þar sem tekið hafi verið fullt tillit til þess við hönnun fyrirhugaðs mannvirkis.

Niðurstaða: Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu fór leyfishafi fram á það við byggingar­yfirvöld að fyrirhuguð stækkun íbúðarhúss á lóðinni Kambahrauni 51 yrði metin sem minniháttar framkvæmd sem undanþegin væri byggingarleyfi samkvæmt gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Vísað var til  h-liðar ákvæðisins þar sem heimilað er að reisa allt að 40 m² einnar hæðar viðbyggingu við mannvirki án byggingarleyfis sé hún innan byggingarreits. Ákvæðið tilgreinir með tæmandi hætti þær framkvæmdir og breytingar sem eru undanþegnar byggingarleyfi, en sett er það skilyrði að þær séu í samræmi við deiliskipulag. Ákvæðið felur í sér undantekningar frá meginreglu 1. mgr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 um byggingarleyfisskyldu og verður því að skýra ákvæðið þröngri lögskýringu. Lóðin Kamba­hraun 51 er á ódeiliskipulögðu svæði og því var ekki unnt samkvæmt ótvíræðu orðalagi ákvæðisins að undanþiggja heimilaðar framkvæmdir byggingarleyfi. Hvað sem því líður samþykkti byggingarfulltrúi umsókn leyfishafa um fyrirhugaða við­byggingu með áritun sinni á aðaluppdrætti hinn 5. mars 2020 en ekki liggur fyrir þrátt fyrir eftirgrennslan úrskurðar­nefndarinnar að byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum samkvæmt 13. gr. laga um mannvirki hafi verið gefið út.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að skipulagsnefnd skuli láta fara fram grenndar­kynningu þegar sótt sé um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag liggi deiliskipulag ekki fyrir. Byggingarleyfisumsókn leyfishafa var  grenndar­kynnt í upphafi árs 2019 og að henni lokinni hlaut hún samþykki bæjarstjórnar 14. mars 2019.

Samkvæmt 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga skal grenndarkynning fara fram að nýju áður en leyfi er veitt hafi byggingar- eða framkvæmdarleyfi á grundvelli grenndarkynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laganna. Fyrir liggur  að meira en ár er nú liðið frá samþykkt sveitarstjórnar fyrir umdeildri viðbyggingu að Kamba­hrauni 51 án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út og verður því samkvæmt greindu ákvæði að grenndar­kynna umsótt byggingaráform að nýju og afgreiða byggingarleyfisumsóknina í kjölfar þess.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hveragerðisbæjar frá 5. mars 2020 um að samþykkja byggingaráform fyrir viðbyggingu íbúðarhúss á lóðinni að Kambahrauni 51.

116/2019 Langabrekka

Með

Árið 2020, fimmtudaginn 30. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 116/2019, kæra á ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 7. október 2019 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5 í Kópavogi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. nóvember 2019, er barst nefndinni 14. s.m., kærir eigandi, Löngubrekku 5, Kópavogi, þá ákvörðun skipulagsráðs Kópavogsbæjar frá 7. október 2019 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 12. desember 2019.

Málavextir: Hinn 27. september 2016 sótti kærandi um byggingarleyfi fyrir „byggingu bílskúrs sem yrði áföst Löngubrekku 5“ í Kópavogi. Á fundi skipulagsnefndar 17. október s.á. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina með vísan til 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin lögð fram á fundi skipulagsráðs 20. febrúar 2017 ásamt athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingardeildar um framkomnar athugasemdir. Í umsögninni kemur fram að fyrirhuguð framkvæmd liggi að lóðarmörkum Löngubrekku 7 og raski þeirri lóð. Þar sem samþykki lóðarhafans lægi ekki fyrir væri lagt til að skipulagsráð hafnaði erindinu. Var niðurstaða skipulagsráðs að hafna umsókninni og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 28. s.m.

Hinn 23. janúar 2019 sótti kærandi að nýju um byggingarleyfi fyrir sömu framkvæmd. Í umsókninni kom fram að breytt eignarhald hefði orðið á fasteigninni Löngubrekku 7 og að fyrir lægi samþykki eigenda hennar fyrir framkvæmdinni. Á fundi skipulagsráðs 29. júlí s.á. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina með vísan til 44. gr. skipulagslaga. Að lokinni grenndarkynningu var umsóknin lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs 7. október s.á. ásamt athugasemdum og umsögn skipulags- og byggingardeildar um framkomnar athugasemdir. Var niðurstaða skipulagsráðs sú að hafna umsókninni og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 22. október 2019. Á fundi byggingarfulltrúa 25. s.m. var umsókninni hafnað með vísan til afgreiðslna skipulagsráðs og bæjarstjórnar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að í umsögn skipulags- og byggingardeildar séu alvarlegar rangfærslur og sé engu líkara en að deildin hafi ekkert kynnt sér staðreyndir málsins. Mjög langsótt sé að halda því fram að umræddur bílskúr sé ekki í samræmi við yfirbragð byggðarinnar. Allir bílskúrar við Löngubrekku séu á lóðarmörkum aðliggjandi lóðar og séu margir þeirra „sérstæðir aftarlega á lóð við lóðamörk bakliggjandi lóðar“. Einnig séu margir þeirra fastir við íbúðarhúsið og þá alltaf við lóðarmörk aðliggjandi lóðar til hliðar. Húsið að Löngubrekku 5 sé tvíbýli og sé því ekki um einbýlishúsalóð að ræða, líkt og komi fram í umsögninni. Langflest húsin við Löngubrekku séu tvíbýli með tvo bílskúra eða tvöfalda bílskúra. Minnihluti lóða séu einbýlishúsalóðir með einn bílskúr. Að því er varði þá röksemd í umsögninni, að með því að heimila viðbygginguna sé verið að takmarka nýtingarmöguleika lóðar Löngubrekku 7, sé bent á að fyrir liggi yfirlýsing allra eigenda þeirrar lóðar um að þeir samþykki bílageymsluna. Þar með séu þeir að samþykkja takmarkaða nýtingarmöguleika lóðarinnar. Kópavogsbær hafi beðið kæranda um yfirlýsingu varðandi færslu fráveitulagnar vegna fyrirhugaðra framkvæmda, en til hvers væri sú yfirlýsing í ljósi þess að fráveitulögnin þjónusti eingöngu lóð Álfhólsvegar 61 og einu óþægindin yrðu við það þegar gamla lögnin yrði tengd við nýja lögn. Það feli hugsanlega í sér stöðvun á notkun lagnarinnar í einn klukkutíma eða svo.

Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er bent á að sú viðbygging sem kærandi hafi sótt um sé ekki í samræmi við götumynd og yfirbragð byggðarinnar. Um sé að ræða bifreiðageymslu á einbýlishúsalóð þar sem fyrir sé bifreiðageymsla. Væri það því einsdæmi í götunni ef heimiluð yrði önnur bifreiðageymsla á slíkri lóð. Þá muni viðbyggingin standa á lóðarmörkum Löngubrekku 7 og með því væri verið að takmarka möguleika til nýtingar þeirrar lóðar að einhverju leyti. Þar að auki yrði nauðsynlegt að færa fráveitulögn í eigu bæjarins sem þjónusti fleiri lóðir en lóð kæranda. Ekki séu fyrir hendi málefnaleg rök til að heimila framkvæmd sem valdi öðrum en lóðarhafa óþægindum meðan á framkvæmdum standi, sérstaklega vegna framkvæmdar sem sé ekki að frumkvæði Kópavogsbæjar og í óþökk lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Þá séu ítrekaðar breytingar á húsnæði, líkt og hafi verið til meðferðar hjá skipulagsyfirvöldum vegna lóðarinnar Löngubrekku 5, ekki í samræmi við skipulagsmarkmið bæjarins.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að greinargerð Kópavogsbæjar sé einungis endurrit af umsögn skipulags- og byggingardeildar um málið en þeirri umsögn hafi verið svarað í kærunni sjálfri. Eitt atriði hafi þó bæst við greinargerðina en það sé að viðbyggingin sé ekki í samræmi við skipulagsmarkmið bæjarins. Kærandi hafi óskað eftir frekar útskýringu á þeirri röksemd en ekki fengið. Bent sé á að það sé yfirlýst stefna bæjarins samkvæmt gildandi Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 að þétta byggð og nýta lóðir betur.

Niðurstaða: Samkvæmt ákvæðum laga nr. 160/2010 um mannvirki, sbr. 11. gr., 13. gr. og 2. mgr. 9. gr., er endanleg afgreiðsla umsóknar um byggingarleyfi og útgáfa þess í höndum byggingarfulltrúa. Verður því litið svo á að í máli þessu sé kærð fyrirliggjandi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. október 2019 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5, enda er hin kærða ákvörðun skipulagsráðs liður í málsmeðferð byggingarleyfisumsóknar en telst ekki ákvörðun sem bindur enda á mál í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Lóðin Langabrekka 5 er á svæði sem hefur ekki verið deiliskipulagt. Sú meginregla kemur fram í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að gera skuli deiliskipulag fyrir svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Þó segir í 1. mgr. 44. gr. laganna að þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmda­leyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem hafi heimild til fullnaðarafgreiðslu máls, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar og skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Á grundvelli ákvæðisins var umsókn kæranda grenndarkynnt.

Sveitarstjórnir og skipulagsnefndir í hverju sveitarfélagi fara með skipulagsvald skv. 3. mgr. 3. gr. og 2. mgr. 6. gr. skipulagslaga og er íbúum sveitarfélags ekki tryggður lögvarinn réttur til að knýja fram leyfisveitingu. Þrátt fyrir að ákvörðun um að samþykkja eða synja byggingarleyfisumsókn á grundvelli 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga sé háð mati skipulagsyfirvalda þarf ákvörðun þess efnis að vera studd efnislegum rökum, m.a. með hliðsjón af þeim skilyrðum ákvæðisins að framkvæmdin skuli vera í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Jafnframt ber stjórnvaldi að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýsluréttarins, m.a. hvað varðar rökstuðning ákvörðunar, og sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Umsókn kæranda var tekin fyrir á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 7. október 2019 og afgreidd með eftirfarandi bókun: „Skipulagsráð hafnar erindinu. Vísað til afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar.“ Á fundi bæjarstjórnar 22. s.m. var niðurstaða skipulagsráðs staðfest með eftirfarandi bókun: „Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulagsráðs með 11 atkvæðum og hafnar erindinu.“ Með vísan til afgreiðslna skipulagsráðs og bæjarstjórnar synjaði byggingarfulltrúi umsókn kæranda á fundi sínum 25. s.m. Þrátt fyrir að umsögn skipulags- og byggingardeildar, þar sem mælt var með að umsókn kæranda yrði hafnað, hafi verið lögð fram á fundi skipulagsráðs liggur ekkert fyrir um afstöðu ráðsins til þeirra sjónarmiða er fram komu í umsögninni. Af greindum bókunum er því ekki ljóst hvaða rök lágu að baki þeirri ákvörðun að synja umræddri umsókn. Verður af þeim sökum ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Kópavogsbæjar frá 25. október 2019 um að hafna umsókn um byggingarleyfi fyrir bílageymslu við vesturhlið hússins að Löngubrekku 5 í Kópavogi.

81/2019 Laxabakki

Með

Árið 2020, mánudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 81/2019, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar um að hafna umsókn um byggingarleyfi á lóðinni Laxabakka 4 án nokkurs rökstuðnings.  

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:  

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. ágúst 2019, er barst nefndinni sama dag, er kærð sú ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar að hafna umsókn um byggingarleyfi á lóðinni Laxabakka 4 án nokkurs rökstuðnings. Skilja verður kæruna á þann veg að þar sé átt við ákvörðun sveitarstjórnar Árborgar frá 21. ágúst 2019. Gerir kærandi þá kröfu að skipulags- og byggingarnefnd Árborgar samþykki umsókn hans um byggingarleyfi samkvæmt útgefnum og samþykktum teikningum fyrir Laxabakka 4.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Árborg 18. september 2019.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu. Hinn 14. október 2016 keypti kærandi lóð nr. 4 við Laxabakka og fylgdu teikningar að tveggja hæða einbýlishúsi sem samþykktar voru af byggingarfulltrúa 19. júní 2006. Árið 2017 sótti kærandi um leyfi til að byggja tveggja hæða hús samkvæmt nefndum teikningum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 25. apríl 2017 var samþykkt að grenndarkynna erindið fyrir eigendum og íbúum Laxabakka 1, 2, 3, 5 og 6 og Hellubakka 1, 3 og 5. Var það og gert og bárust fimm athugasemdir þar sem veitingu byggingar­leyfis fyrir tveggja hæða húsi var mótmælt. Málið var tekið fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar 7. júní 2017, þar sem umsókn kæranda var hafnað. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. s.m. Skipulags- og byggingarfulltrúi tilkynnti kæranda um synjun á erindi hans með bréfi, dags. 8. júní 2017. Synjun þessi var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og fékk málið númerið 112/2017. Því kærumáli var vísað frá úrskurðarnefndinni 28. nóvember 2018, þar sem byggingarfulltrúi hafði ekki fjallað um erindi kæranda og ekki lá því fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Lagði úrskurðarnefndin fyrir byggingarfulltrúa að taka umsókn kæranda um byggingar­leyfi fyrir tveggja hæða einbýlishúsi á lóðinni nr. 4 við Laxabakka til efnis­legrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar.

Í kjölfarið sendi kærandi inn nýja umsókn um endurnýjun byggingarleyfis í byrjun desember 2018. Lögmaður kæranda ítrekaði erindið með bréfi, dags. 8. mars 2019, þar sem farið var fram á útgáfu byggingarleyfis. Við athugun málsins hjá sveitarfélaginu kom í ljós að deiliskipulag Fosslands hefði aldrei birst í B-deild Stjórnartíðinda og því ekki tekið gildi. Á fundi skipulags- og byggingarnefndar 22. maí 2019 var því ákveðið að grenndarkynna erindi kæranda að nýju fyrir sömu aðilum og áður. Grenndarkynningin var send út 24. s.m. og bárust athugasemdir á kynningartíma frá öllum þeim er grenndarkynnt var fyrir. Lutu athuga­semdir þeirra að því að bygging á tveimur hæðum hefði í för með sér mikil grenndaráhrif, hún myndi ekki falla inn í hverfið og að við samþykkt deiliskipulag hefði verið gert ráð fyrir að réttur til að byggja tveggja hæða hús á svæðinu myndi falla niður að þremur árum liðnum. Mætti því eingöngu byggja einnar hæðar hús. Að grenndarkynningu lokinni tók skipulags- og byggingar­nefnd erindið fyrir á fundi hinn 26. júní s.á. Á fundinum var bókað að lagt yrði til við bæjar­stjórn að tillögunni yrði hafnað. Á fundi bæjarráðs 4. júlí s.á. var tillögunni hafnað í samræmi við tillögu skipulags- og byggingarnefndar. Með bréfi, dags. 22. s.m., var kæranda tilkynnt að skipulags- og byggingarnefnd hefði lagt til við bæjarstjórn að tillögunni yrði hafnað. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi með bréfi, dags. 14. ágúst s.á. Fundargerð bæjarráðs frá 4. júlí s.á var staðfest á fundi bæjarstjórnar 21. ágúst 2019 og barst kæra í máli þessu 22. s.m., svo sem áður greinir. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 3. desember 2019 var erindi kæranda hafnað og var honum tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 5. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að enginn rökstuðningur hafi fylgt höfnun á erindi hans. Byggingarfulltrúi Árborgar hafi þó tjáð kæranda að ástæða höfnunarinnar hafi verið sú að nágrannar vildu ekki tveggja hæða hús á lóðinni. Kærandi hafi haft réttmætar ástæður til þess að ætla að hann fengi umsókn sína samþykkta í fyrsta skipti sem hún hafi verið lögð fram. Þannig séu til samþykktar teikningar af húsi á lóðinni og samtöl við embætti byggingarfulltrúa hafi ekki gefið annað til kynna en að umsóknin yrði samþykkt.

Deiliskipulag það sem vitnað sé til í svarbréfi sveitarfélagsins til úrskurðarnefndarinnar í fyrra skiptið sem kærandi hafi kært höfnun sveitarfélagsins sé hvorki aðgengilegt á heimasíðu sveitarfélagsins né á vef Skipulagsstofnunar. Kærandi hafi því enga ástæðu haft til að ætla að umsókn hans um byggingarleyfi yrði hafnað.

Tveggja hæða hús megi finna á lóðunum nr. 15 og 16 við Hellubakka og á lóð nr. 1 við Lækjarbakka, en það séu þær tvær götur sem standi beggja vegna götunnar Laxabakka. Með því að hafna umsókn kæranda sé því verið að brjóta gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki hafi farið fram grenndarkynning vegna þeirra húsa sem byggð hafi verið í hverfinu undanfarin fjögur ár, þrátt fyrir að sótt hafi verið um breytingar á teikningum í a.m.k. einhverjum tilfellum.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Ekki hafi verið tekin efnisleg ákvörðun af hálfu byggingar­fulltrúa um samþykkt eða höfnun byggingarleyfis á lóðinni Laxabakka 4, líkt og gert sé ráð fyrir í 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Því liggi ekki fyrir lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem borin verði undir úrskurðarnefndina.

Verði málinu ekki vísað frá sé þess krafist að hafnað verði kröfum kæranda um að samþykkt verði umsókn hans um byggingarleyfi. Í kjölfar fyrra kærumáls hafi komið í ljós að farist hefði fyrir að auglýsa deiliskipulag fyrir Fossland á sínum tíma og það því ekki tekið gildi. Hefði sveitarfélagið því talið nauðsynlegt að grenndarkynna að nýju umsókn kæranda um endurnýjun byggingarleyfis. Hafi það einnig verið í samræmi við 4. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem mæli fyrir um að grenndarkynning skuli fara fram að nýju hafi byggingarleyfi á grundvelli grenndar­kynningar ekki verið gefið út innan eins árs frá afgreiðslu sveitarstjórnar skv. 2. mgr. Þá hefðu orðið breytingar á eignarhaldi stórs hluta þeirra fasteigna sem fyrri grenndarkynning hefði tekið til. Mikil andstaða hefði komið fram í athugasemdum eigenda fasteigna í nágrenninu. Þau sjónarmið hefðu komið fram að húsið passaði ekki inn í þennan hluta hverfisins þar sem á öllum aðliggjandi lóðum væru hús á einni hæð, auk þess sem af því yrðu mikil grenndaráhrif. Við ákvörðunartökuna hefðu legið málefnaleg sjónarmið til grundvallar, sem sveitarfélagið hefði talið leiða til þess að ekki væri unnt að veita umrætt byggingarleyfi án deiliskipulagsgerðar. Sveitarfélagið hafi ákveðið að láta uppfæra fyrirliggjandi deiliskipulag fyrir hverfið og muni það hljóta meðferð samkvæmt skipulagslögum.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur af og frá að stjórnvöld komist upp með að fría sig ábyrgð vegna sömu mistaka tvisvar í röð og mótmælir frávísunarkröfu sveitarfélagsins. Kærandi hafi skilað inn byggingarstjóratryggingu að beiðni byggingarfulltrúa og sá hefði mætt á staðinn til að gera botnúttekt. Aukinheldur hefði byggingarfulltrúi beðið starfsmenn verkfræðistofu um að setja út fyrir púða á lóðinni og mæla hæðarpunkta. Slíkt hefði hann vart gert ef ekki hefði staðið til að gefa út byggingarleyfi.

Niðurstaða: Í máli þessu er kærð ákvörðun sveitarstjórnar Sveitarfélagsins Árborgar frá 21. ágúst 2019. Í kjölfar fyrirspurnar frá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tók byggingarfulltrúi sveitar­félagsins málið fyrir á afgreiðslufundi 3. desember s.á., enda er það byggingarfulltrúi sem tekur lokaákvörðun í málinu í skilningi 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eins og nánar er lýst í fyrra máli aðila fyrir úrskurðarnefndinni nr. 112/2017. Ákvörðun byggingarfulltrúa var tekin eftir að kæra barst í máli þessu. Er hún efnislega samhljóða hinni kærðu ákvörðun sveitarstjórnar og virðist tilefnið hafa verið fyrirspurn úrskurðarnefndarinnar um hvort byggingarfulltrúi ætti enn eftir að taka málið fyrir. Í ljósi þess að byggingarfulltrúi hefur nú tekið lokaákvörðun í málinu verður ekki fallist á frávísunarkröfu Sveitarfélagsins Árborgar, enda þykir ekki rétt að kærandi beri hallann af þeim vanköntum við meðferð málsins sem að framan er lýst. Því verður að líta svo á að hin kærða ákvörðun sé í reynd synjun byggingar­fulltrúa frá 3. desember 2019 og að krafist sé ógildingar hennar, enda einskorðast valdheimildir úrskurðarnefndarinnar við endurskoðun á lögmæti þeirra ákvarðana er undir hana eru bornar, en það fellur utan þeirra valdheimilda að taka nýja ákvörðun, t.d. um veitingu byggingarleyfis, svo sem kærandi hefur krafist.

Deiliskipulag fyrir Fossland mun hafa verið samþykkt árið 2004 en ekki tekið gildi þar sem það var ekki birt í B-deild Stjórnartíðinda, svo sem áskilið er. Uppbygging svæðisins hefur að miklu leyti farið fram á grundvelli þess skipulags og liggja fyrir samþykktar teikningar, dags. 19. júní 2006, að tveggja hæða húsi á lóð Laxabakka 4. Eins og fram kemur í málavaxtalýsingu sótti kærandi um endurnýjun byggingarleyfis á grundvelli teikninganna rúmum 10 árum síðar og við meðferð umsóknarinnar kom í ljós að vegna framangreinds er Laxabakki 4 á ódeiliskipulögðu svæði.

Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er kveðið á um að þegar sótt sé um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir megi veita leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal þá skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 2. mgr. sama ákvæðis felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir leyfisumsókn fyrir þeim nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta og gefur þeim kost á að tjá sig um hana. Grenndar­kynning fór fram í samræmi við greint lagaákvæði. Bárust athugasemdir á kynningartíma, en í þeim öllum var lagst gegn leyfisveitingu. Í athugasemdum kom m.a. fram að húsið passaði ekki inn í þennan hluta hverfisins þar sem á aðliggjandi lóðum væru hús á einni hæð, byggingin væri til þess fallin að valda skuggavarpi á nágrannalóðum, óþægindi yrðu vegna útsýnis af efri hæð hússins yfir á verandir og sólskála nálægra húsa, sviptivindar væru líklegir til að myndast og verðmæti nálægra húsa myndi skerðast.

Líkt og áður segir er eitt af skilyrðum þess að byggingarleyfi sé veitt, að undangenginni grenndarkynningu þegar deiliskipulag liggur ekki fyrir, að framkvæmdin sé í samræmi við byggðamynstur. Í ljósi mikillar andstöðu nágranna við áformin og þess að öll önnur hús við Laxabakka eru einnar hæðar verður að telja málefnalegt af byggingarfulltrúa að hafna byggingar­leyfisumsókninni að svo stöddu. Þykir rétt að benda á í þessu samhengi að athugasemdir við grenndarkynningu væru til lítils ef byggingarfulltrúa væri óheimilt að taka mið af þeim við leyfisveitingu. Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 5. desember 2019, voru efnislegar athugasemdir við umsóknina reifaðar. Vísaði byggingarfulltrúi þar til þess að í ljósi þeirra hefði ekki þótt tækt að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar og því verið tekin ákvörðun um höfnunina. Færði byggingarfulltrúi með þessu móti haldbær rök fyrir synjun sinni, en slíkum rökstuðningi átti kærandi ekki rétt á að stjórnsýslulögum fyrr en lokaákvörðun lá fyrir í málinu. Það hefði þó verið í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að svara fyrr beiðni kæranda um rökstuðning frá 14. ágúst 2019, enda á sá sem beinir skriflegu erindi til stjórnvalda jafnan rétt á að honum verði svarað skriflega svo fljótt sem auðið er, sbr. og 9. gr. stjórnsýslulaga. Loks verður ekki talið að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. þeirra laga, þar sem þau tveggja hæða hús sem kærandi hefur vísað til að finna megi í nágrenninu voru byggð á árunum 2004-2006. Auk þess geta þau ekki talist sambærileg við fyrirhugað hús kæranda, en hús þessi eru annars vegar staðsett innst í botngötu og hins vegar á horni botngötu og safngötu. Þá hefur það ekki þýðingu varðandi mál kæranda þótt sveitarfélagið hafi í villu um gildi deiliskipulags Fosslands látið hjá líða að grenndarkynna framkvæmdir vegna upp­byggingar í hverfinu, svo sem hefði borið að gera.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 3. desember 2019 um að hafna umsókn um endurnýjun byggingarleyfis fyrir Laxabakka 4.