Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

36/2020 Skógarstígur

Árið 2020, föstudaginn 19. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2020, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 12. júní 2019 um að samþykkja að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs og að veita leyfi til að hefja gröft á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 8. maí 2020, sem barst nefndinni sama dag, kæra lóðarhafar Skógarstígs 4, Fjallabyggð, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 12. júní 2019 að samþykkja að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs og að veita leyfi til að hefja gröft á lóðinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og framkvæmdir stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu kærenda.

Málsatvik og rök: Hinn 11. febrúar 2019 tók skipulags- og umhverfisnefnd Fjallabyggðar fyrir byggingarleyfisumsókn, dags. 7. s.m., þar sem sótt var um leyfi fyrir byggingu frístundahúss að Skógarstíg 2. Erindið var samþykkt og bókaði nefndin að deildarstjóra tæknideildar væri falin útgáfa byggingarleyfis að uppfylltum skilyrðum gr. 2.4.4. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hinn 22. maí s.á. sótti byggingarleyfishafi um leyfi til að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs samkvæmt meðfylgjandi uppdrætti. Jafnframt var óskað eftir heimild til að hefja gröft á lóðinni. Samþykkti nefndin erindið með vísan til gr. 5.8.4. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013, en ákvæðið mælir fyrir um að við útgáfu framkvæmda- og byggingarleyfa geti sveitarstjórn heimilað að vikið sé frá gr. 5.8.2. reglugerðarinnar um grenndarkynningu þegar um svo óveruleg frávik frá deiliskipulagi er að ræða að hagsmunir nágranna skerðist í engu hvað varðar landnotkun, útsýni, skuggavarp eða innsýn. Bæjarstjórn Fjallabyggðar staðfesti niðurstöðu skipulags- og umhverfisnefndar á fundi sínum 12. júní 2019.

Kærendur vísa til þess að fyrirhuguð bygging að Skógarstíg 2 muni skyggja alfarið á langa sjónlínu þeirra út ströndina í átt að Siglunesi í stað þess að byggingin standi samkvæmt gildandi deiliskipulagi lægra og skyggi að mestu á mun styttri sjónlínu í átt að flugvallarendanum sem hafi mun minna gildi fyrir þá. Breytingin hafi verið gerð án vitundar kærenda á þeim forsendum að um hafi verið að ræða óverulegt frávik frá deiliskipulagi, sbr. gr. 5.8.4. í skipulagsreglugerð. Þessu séu kærendur ósammála og telji að breytingin skerði hagsmuni þeirra hvað varðar útsýni og verðmæti eignarinnar. Sé þess krafist að deiliskipulagi verði fylgt og að framkvæmdir við núverandi byggingu verði stöðvaðar.

Af hálfu Fjallabyggðar er þess krafist að stöðvunarkröfu kærenda verði hafnað. Er vísað til réttmætra væntinga leyfishafa og þess langa tíma sem kærendur hafi látið framkvæmdirnar óátaldar. Jafnframt sé byggt á þeirri meginreglu stjórnsýsluréttar, sem m.a. komi fram í 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kæra fresti almennt ekki réttaráhrifum. Reglan sé áréttuð í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Stöðvun framkvæmda sé því undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri eingöngu að beita í takmarkatilvikum þegar sérstakar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Byggingaráform hafa verið samþykkt fyrir lóðina að Skógarstíg 2 og veitt hefur verið leyfi til að hefja þar gröft. Liggur og fyrir að framkvæmdir eru hafnar. Eru skilyrði 5. gr. laga nr. 130/2011 því uppfyllt að því leyti.

Í máli þessu er krafist ógildingar á þeirri ákvörðun bæjarstjórnar Fjallabyggðar frá 12. júní 2019 að samþykkja leyfi um að hliðra byggingarreit á Skógarstíg 2 um 10 m til austurs og að veita leyfi til að hefja gröft á lóðinni. Af þeim gögnum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni verður ráðið að ýmis álitamál séu uppi varðandi lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar sem nefndin þarf tóm til að kynna sér. Leikur meðal annars vafi á því hvort hún samræmist ákvæðum 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Með vísan til þessa og í ljósi greindra atvika þykir rétt að fallast á kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni, en málið hlýtur flýtimeðferð að kröfu leyfishafa verði þess krafist af hans hálfu skv. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011.

Úrskurðarorð:

Stöðvaðar eru framkvæmdir sem hafnar eru á lóð Skógarstígs 2, Fjallabyggð, á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.