Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

126/2021 Fagribær

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru, sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 26. júlí 2021, kæra eigendur, Glæsibæ 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. ágúst 2021.

Málavextir: Hinn 5. nóvember 2019 tók gildi nýtt hverfisskipulag í Reykjavík fyrir Ártúnsholt, Árbæ og Selás. Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda féllu eldri deiliskipulags­áætlanir á svæðinu niður við gildistökuna. Byggingarfulltrúi samþykkti hinn 8. júní 2021 um­sókn eigenda Fagrabæjar 13 um leyfi til að reisa steinsteypta viðbyggingu á austurgafli hússins sem fyrir er á lóðinni. Áður en til samþykktar byggingaráforma kom leitaði byggingar­fulltrúi umsagnar skipulagsfulltrúa sem gerði ekki skipulagslegar athugasemdir við erindið og taldi það samræmast gildandi hverfisskipulagi. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var síðan gefið út hinn 2. júlí 2021.

­Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að efnisannmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun og því beri að fella hana úr gildi. Byggingarfulltrúi hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, viðbyggingin sé fyrir utan byggingarreit, samþykktar teikningar fylgi ekki leiðbeiningum hverfisskipulags Reykjavíkur og enn fremur séu þær rangar. Samkvæmt mælingum kærenda sé viðbyggingin um 2 m frá lóðamörkum og þakskyggni muni koma til með að standa 1,36 m frá lóðamörkunum. Samkvæmt 5. tl. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé ekki heimilt að setja upp stakstæða skúra nær lóðamörkum en 3 m nema að fengnu samþykki lóðarhafa þeirrar nágrannalóðar­ og gildi hið sama um hvers kyns viðbyggingar. Ljóst sé að hin kærða ákvörðun sé byggð á misvísandi og/eða röngum upplýsingum og fari í bága við ákvæði byggingar­reglugerðar þar sem byggingin standi of nærri lóðarmörkum Glæsibæjar 14 án samþykkis kærenda. Þegar af þeirri ástæðu beri að felli hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er ekki gerð athugasemd við máls­ástæður kærenda að öðru leyti en því að heimiluð viðbygging sé 2,5 m frá lóðamörkum, en ekki 2 m, líkt og kærendur haldi fram. Afstöðumynd hafi sýnt viðbygginguna 3 m frá lóða­mörkum og því hafi skipulagsfulltrúi ekki gert athugasemdir við byggingarleyfisumsóknina. Samkvæmt eldri gildandi teikningu að Fagrabæ 13 sé bílskúr málsettur 2,5 m frá lóðamörkum, sem sé villa, og viðbyggingin „því teiknuð í sömu línu og bílskúrinn“. Þó beri á það að líta að fjarlægð viðbyggingarinnar að húsi kærenda sé 17,17 m og ekki verði séð að núverandi staðsetning hennar hafi áhrif á hagsmuni kærenda umfram það sem búast hefði mátt við væri hún staðsett 50 cm fjær lóðamörkum. Eigi það frávik því ekki að leiða til ógildingar byggingar­leyfisins.

 Athugasemdir leyfishafa: Eigendur Fagrabæjar 13 vísa til þess að þau muni verða fyrir fjárhagslegu tjóni verði farið að kröfum kærenda og að munur á upphaflegum áætlunum og raun­verulegri framkvæmd teljist það lítill að hann eigi ekki að hafa áhrif á áframhaldandi framkvæmdir og frágang umþrættrar viðbyggingar. Kærendur hafi hvorki sýnt fram á að aukið skuggavarp muni hljótast af viðbyggingunni né fært fyrir því rök að slíkt skuggavarp hafi áhrif á athafnasvæði lóðar þeirra. Viðbyggingin sé vestan við hús kærenda, hafi því ekki áhrif á sólríkasta útisvæðið og skuggavarp verði ekki mikið meira en af núverandi girðingu á milli lóðanna, sem byggð hafi verið af núverandi eigendum lóðanna árið 2020. Mælingar á lóðinni vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar frá 27. júlí 2021 hafi byggst á upplýsingum frá land­upplýsingum Reykjavíkurborgar, LUKR. Þá eigi ákvæði 5. tl. g-liðar gr. 2.3.5 í byggingar­reglugerð ekki við þar sem ekki sé um að ræða framkvæmd sem undanþegin sé byggingar­leyfi. Þvert á móti sé hún háð umfjöllun og yfirferð byggingarfulltrúa á teikningum og öðrum gögnum sem kunni að skipta máli við leyfisveitinguna.

Niðurstaða: Í málinu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 að samþykkja umsókn eigenda Fagrabæjar 13 um leyfi til að reisa steinsteypta viðbyggingu á austurgafl hússinns á lóðinni, en baklóð nefndrar lóðar og lóðar kærenda eiga sameiginleg lóða­mörk.

Hverfisskipulag fyrir Árbæ tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 5. nóvember 2019. Samkvæmt skilmálum þess er svæðinu skipt upp í skilmálaeiningar. Lóðin Fagribær 13 er innan skilmálaeiningar 7.2.3, Bæjarhverfi, en þar er eingöngu íbúðarbyggð. Kemur og fram að á meðal helstu áherslna innan einingarinnar sé að stækka byggingarreiti á lóðum og gefa viðbótarbyggingarheimildir fyrir viðbyggingum. Ónýttar byggingarheimildir sem fram komi í þeim deiliskipulagsáætlunum sem falli úr gildi með gildistöku hverfis­skipulagsins haldi sér í skipulagsskilmálum hverfisskipulagsins. Allar byggingar á lóð skuli vera innan byggingarreita og er gert ráð fyrir tvenns konar byggingarreitum. Annars vegar takmörkuðum byggingarreitum, en allar lóðir í skilmálaeiningunni sem hér um ræðir eru með slíkan byggingarreit, og hins vegar aðalbyggingarreitum. Um takmarkaða byggingarreiti er m.a. nánar tilgreint að þeir séu rúmir og að ekki sé gert ráð fyrir því að þeir séu fullnýttir heldur sýni þeir mögulegt svæði fyrir minni viðbyggingar og stakstæðar byggingar. Af skipulagsuppdrætti hverfisskipulagsins má ráða að byggingarreitur umræddrar lóðar sé í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum gagnvart lóð kærenda og að bílskúrinn nái að hluta út fyrir þann reit.

Misræmis gætir í aðaluppdráttum heimilaðrar viðbyggingar sem samþykktir voru 8. júní 2021.­ Á aðaluppdrætti með afstöðumynd, sem hefur að geyma byggingarlýsingu, er byggingar­reitur lóðarinnar sýndur 3 m frá mörkum lóðar kærenda og viðbyggingin að einhverju leyti fyrir utan byggingarreitinn, en bílskúr sá sem fyrir er á lóðinni sýndur innan byggingarreitsins. Á aðaluppdrætti sem sýnir grunnmynd og snið, og samþykktur var sama dag með áritun byggingarfulltrúa, er byggingarreiturinn hins vegar sýndur 2,5 m frá greindum lóðamörkum og viðbyggingin ásamt bílskúr þeim sem fyrir er á lóðinni sýnd á mörkum byggingarreitsins. Af framansögðu er ljóst að með hinni kærðu ákvörðun hefur verið samþykkt að veita eigendum Fagrabæjar 13 leyfi fyrir viðbyggingu í allt að 2,5 m fjarlægð frá mörkum lóðar kærenda.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykki byggingaráforma, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Var hið kærða byggingarleyfi því ekki í samræmi við gildandi hverfisskipulag, svo sem áskilið er í fyrrgreindum ákvæðum mannvirkjalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13.

52 og 87/2021 Bergstaðastræti

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur­.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húss að Bergstaða­stræti 2 í veitingastað.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. apríl 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra 10 íbúar að Skólavörðustíg 5, Skólavörðustíg 3A og Laugavegi 8, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun Bergstaðastrætis 2 í veitingastað. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 15. júní 2021, sem barst úrskurðarnefndinni 16. s.m., kærir Hótel Óðinsvé hf. einnig fyrrgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verður síðara kærumálið, sem er nr. 87/2021, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. og 25. júní 2021.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. janúar 2020 var samþykkt umsókn um leyfi til að opna veitingastað í flokki II, tegund f, fyrir allt að 55 gesti og tvo starfsmenn, lækka kjallaragólf um 50 cm og setja stiga upp á 2. hæð við norðurgafl hússins að Bergstaðastræti 2.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að áform um breytta notkun hússins að Bergstaðastræti 2 hafi ekki verið kynnt nágrönnum og að kærendum hafi ekki verið kunnugt um málið fyrr en 21. mars 2021. Þá hafi einn kærenda fengið fregnir af málinu og samdægurs sent fyrirspurn til byggingar­fulltrúans í Reykjavík, en engin svör hefðu borist þegar kæra til úrskurðar­nefndarinnar hafi verið lögð fram. Kærendur byggja á því að í fyrirhugaðri krá muni verða spiluð tónlist fram á nætur auk þess sem drykkjuhljóð muni berast frá gestum. Afar stutt sé að svefnherbergis­gluggum í næstu íbúðum við Bergstaðastræti 2 og gerð hússins sé þess eðlis að ekki verði unnt að tryggja næturró íbúa í nærliggjandi húsum. Uppdrættir þeir sem samþykktir hafi verið 7. janúar 2020 sýni ekki nauðsynlegar hljóðvistarlegar breytingar. Reynsla kærenda af rekstri krár/ölstofu að Bergstaðastræti 3 sé sú að hávaði sé mikill og að gestir hafi gengið örna sinna hvar sem er, m.a. í bakgörðum húsanna í kring. Einn kærenda bendir á að hann leigi út fjórar íbúðir á efri hæðum Bergstaðastrætis 4, sem sé við hlið Bergstaðastrætis 2, og að staðsetning kráarinnar/ölstofunnar að Bergstaðastræti 2 sé beint fyrir neðan svefnherbergi íbúðanna í húsi nr. 4. Hafi nú þegar ítrekað orðið að endurgreiða leigu af þessum sökum og hafi leiguhúsnæðið fengið slæmar umsagnir á netinu vegna reksturs krár/ölstofu að Bergstaðastræti 3. Jarðhæð og kjallari Bergstaðastrætis 4 sé leigt út til verslunarreksturs og hafi starfsemin þar orðið fyrir ónæði vegna næturgesta Bergstaðastrætis 3. Svar frá lögfræðingi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, þar sem fram komi að leyfið sem um ræði falli undir flokk II, sem sé umfangslítill áfengisveitingastaður og ekki til þess fallinn að valda ónæði í nágrenninu, sé ekki í samræmi við raunverulega upplifun nágranna Bergstaðastrætis 2 af slíkum rekstri.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt 7. janúar 2020 en kæran ekki lögð fram fyrr en 15. apríl 2021. Verði ekki fallist á kröfu um frávísun telja borgaryfirvöld að hafna eigi kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til þess að deiliskipulag reitsins heimili þá starfsemi sem kæran lúti að og að starfsemin samræmis einnig aðalskipulagi. Málsmeðferð ákvörðunarinnar hafi verið í sam­ræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og stjórnsýslulaga. Bergstaðastræti 2 sé staðsett á miðborgarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og á svæðinu sé lögð sérstök áhersla á smávöruverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingar. Í gildi sé deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.3, Laugavegs- og Skólavörðustígsreits, sem tók gildi 10. desember 2002 ásamt síðari breytingum. Bergstaðastræti sé enn fremur á skilgreindu götusvæði nr. 22 og sé svæðið eitt af mörgum svæðum innan miðborgarinnar sem lúti starfsemiskvótum. Á skilgreindu götusvæði nr. 22 skuli hámarkshlutfall starfsemi, að smásöluverslun undan­skilinni, vera 50%. Við breytingu á notkun Bergstaðastrætis 2 verði hlutfall veitingastaða á svæðinu 46% og því innan heimilaðra marka eftir breytinguna. Í ljósi þess að heimiluð starfsemi samrýmist gildandi aðal- og deiliskipulagi hafi ekki verið þörf á grenndarkynningu.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að kærufrestur sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og því beri úrskurðarnefndinni að vísa kærunni frá. Leyfishafi telur að ástæða kærunnar sé sú að kærendur séu mótfallnir opnun veitingastaðar að Bergstaðastræti 2 og að þeir hafi fyrir fram gefnar væntingar til þess að veitingastaðurinn muni valda íbúum ónæði. Veitingastaðurinn falli undir skilgreiningu í flokki II sem „umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007. Fyrirhugaðar framkvæmdir og opnun veitingastaðar í flokki II séu í fullu samræmi við deili­skipulag svæðisins, sem og aðalskipulag Reykjavíkur, og því hafi ekki verið þörf á grenndar­kynningu. Svæðið sem húsið að Bergstaðastræti 2 standi á sé skilgreint sem M1a, Miðborgarkjarni, þar sem lögð sé áhersla á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingar. Bergstaðastræti 2 standi enn fremur á svæði sem teljist hafa rýmri veitinga­heimildir en almennt gildi á svæðinu samkvæmt korti sem flokki svæði í miðborginni eftir heimildum um vínveitingar. Bergstaðastræti sé á kortinu á rauðu svæði.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi byggir á að byggingarleyfishafi haldi því ranglega fram að Bergstaða­stræti 2 sé á svæði með rýmri heimildir til vínveitinga en almennt gildi á svæðinu. Húsið standi þvert á móti á svæði sem teljist hafa takmarkaðar heimildir, litað með grænum lit á korti, og hvers kyns starfsemi sem valdið geti ónæði hljóti því að vera óheimil eftir kl. 23:00. Afgreiðsla byggingarfulltrúa sé samkvæmt framangreindu byggð á röngum forsendum og hana beri því að fella úr gildi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hið kærða byggingarleyfi var samþykkt 7. janúar 2020 en kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni 20. apríl og 16. júní 2021, eða rúmu ári eftir að ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfi lá fyrir. Kærendur bera því við að þeim hafi ekki verið kunnugt um heimilaða breytta notkun húsnæðisins að Bergstaðastræti 2 fyrr en 21. mars 2021 annars vegar og svo 15. júní s.á. hins vegar.

Samþykkt eða útgáfa byggingarleyfis sætir ekki opinberri birtingu og er að jafnaði aðeins tilkynnt umsækjanda leyfis. Leiðir af því að ekki er unnt að miða kærufrest þriðja aðila sem kann að eiga hagsmuna að gæta við dagsetningu ákvörðunar byggingarfulltrúa. Borgaryfirvöld hafa ekki sýnt fram á að kærendur hafi vitað eða mátt vita af samþykkt hins kærða byggingarleyfis fyrir þann tíma sem þeir halda fram, en rekstur samkvæmt hinni breyttu notkun var ekki hafinn þegar kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni. Verður upphaf kærufrests í máli þessu því miðað við þau tímamörk sem kærendur halda fram að þeim hafi orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Teljast kærur í máli þessu því hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi þar sem heimilað var að breyta notkun hússins að Bergstaðastræti 2 í veitingastað í flokki II. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 eru veitingastaðir í flokki II skilgreindir sem „umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“.

Umrætt hús er innan staðgreinireits 1.171.3, Laugarvegs- og Skólavörðustígsreits. Í skilmálum deiliskipulagsins segir að innan svæðisins sé heimil sú notkun sem samræmist reglum þar um samkvæmt aðalskipulagi. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem M1a, Miðborgarkjarni. Um það segir svo: „Í miðborgarkjarnanum má finna lykilstofnanir stjórnsýslu, menningar og mennta, líflegustu verslunargötur landsins, litríka flóru veitingastaða auk fjölbreyttrar sérfræðiþjónustu. Sérstök áhersla er á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu. Til þess að efla smásöluverslun staðbundið í miðborgarkjarnanum, stuðla að fjölbreyttri starfsemi og lifandi almenningsrýmum eru ákvæði um útlit og starfsemi við götuhliðar í miðborgarkjarna. Almennar veitingaheimildar miðsvæða gilda í miðborgarkjarna en á afmörkuðu svæði eru rýmri veitingaheimildir.“ Samkvæmt flokkun svæða í miðborginni eftir heimildum um vínveitingar er Bergstaðastræti 2 í flokki „rýmri heimilda“ og er því heimilt að reka þar veitingastað í flokki III með heimilaðan opnunartíma til allt að kl. 04:30 um helgar og á frídögum. Bergstaðastræti 2 stendur enn fremur á skilgreindu götusvæði nr. 22 þar sem hlutfall annarrar starfsemi en smávöruverslunar skal vera að hámarki 50%. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður hlutfall veitingastaða á svæðinu 46% við umrædda breytingu á notkun Bergstaðastrætis 2. Fellur hin breytta notkun því innan starfsemiskvóta svæðisins. Er hið kærða byggingarleyfi samkvæmt framansögðu í samræmi við gildandi deiliskipulag, m.a. hvað land­notkun varðar, svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og var borgaryfirvöldum ekki skylt að láta fara fram grenndarkynningu áður en byggingarfulltrúi samþykkti leyfisumsóknina.

Í málinu liggur ekki annað fyrir en að umrætt húsnæði uppfylli kröfur reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Komi síðar í ljós að hávaði vegna notkunar húss eða starfsemi sem þar fer fram sé óásættanlegur gagnvart nágrönnum ber eigandi eftir atvikum ábyrgð á að úr verði bætt svo hljóðstig sé innan lögboðinna marka. Umkvartanir kærenda um mögulegt ónæði og óþrif vegna reksturs umrædds veitingarstaðar lúta að eftirliti með starfseminni en varða ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar og koma þær því ekki til álita í málinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Bergstaðastræti 2 í veitingastað í flokki II.

44/2021 Miðvangur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. mars 2021 um að synja umsókn um heimild til að færa hjólageymslu, breyta vinnustofu í íbúð, færa sorpgeymslu á lóð og bæta við hjólageymslu að Miðvangi 41.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. apríl 2021, kærir einn eigenda Miðvangs 41, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. mars 2021 að synja umsókn um heimild til að færa hjólageymslu, breyta vinnustofu í íbúð, færa sorpgeymslu á lóð og bæta við hjólageymslu að Miðvangi 41. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 12. maí 2021.

Málavextir: Með umsókn, dags. 26. febrúar 2021, fór kærandi fram á heimild til að færa hjólageymslu út úr rými 01-15 að Miðvangi 41, breyta rýminu úr vinnustofu í íbúð, færa sorpgeymslu á lóð og bæta við hjólageymslu samkvæmt teikningum. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 10. mars s.á. Var umsókninni synjað þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. gr. 6.7.2. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Kærandi óskaði eftir frekari rökstuðningi vegna afgreiðslu málsins með tölvupósti 17. mars 2021, sem var veittur 24. s.m. Þar kom fram að ákvæði um útsýni og birtu þættu ekki uppfyllt. Úrskurðarnefndinni barst kæra í máli þessu 10. apríl 2021 eins og að framan greinir. Kærandi sendi og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ábendingu í kjölfarið á grundvelli 18. gr. mann­virkja­laga nr. 160/2010 en stofnunin ákvað að hefja ekki mál á grundvelli ábendingarinnar, a.m.k. ekki á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að lofthæð eignar hans, ljósop glugga í vistarverum, tenging eignarinnar við lóð og útsýni sé í samræmi við kröfur gr. 6.7.2. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, sem beri yfirskriftina lofthæð og birtuskilyrði.

Í framhaldi synjunar byggingarfulltrúa hafi embættinu verið sent bréf þar sem bent hafi verið á að umrædd afgreiðsla stangaðist á við jafnræðisreglu og óskað eftir ítarlegum rök­stuðningi fyrir ákvörðuninni. Í svari byggingarfulltrúa hafi því verið haldið fram að eignin gæti seint talist uppfylla fyrsta skilyrði gr. 6.7.2. Jafnframt hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verið sent bréf þar sem spurt hafi verið hvernig útsýni væri skilgreint í byggingarreglugerð. Í svari stofnunarinnar hafi komið fram að enga slíka skilgreiningu væri að finna í reglugerðinni.

Í upphafi gr. 6.7.2 sé vísað til íbúðarhúsa en í þessu máli sé um eign í íbúðarhúsi að ræða. Húsið sé átta hæðir og samtals séu 67 samþykktar íbúðir í húsinu. Ákvæðið fjalli um hús í heild sinni en ekki einstaka eignarhluta. Eign kæranda sé á jarðhæð og hafi því væntanlega meiri tengsl við lóð en íbúð á 8. hæð. Vistarverur séu þar við stóra glugga og njóti því mikillar dagsbirtu. Þá uppfylli eignin skilyrði um að samanlagt ljósop glugga hvers íbúðarherbergis skuli ekki vera minna en sem svari til 1/10 af gólffleti þess. Vistverur séu við glugga sem hægt sé að horfa út um og því sé uppfyllt það skilyrði að tekið sé mið af útsýni. Í reglugerðarákvæðinu komi jafnframt fram að Mannvirkjastofnun skuli gefa út leiðbeiningar um framkvæmd greinarinnar. Ekkert í leiðbein­ingum stofnunarinnar varði þau atriði sem byggingarfulltrúi geri að aðalatriðum í synjun sinni. Í rökum byggingarfulltrúa komi fram að íbúar þurfi að hafa möguleika á eðlilegu útsýni þótt byggð sé þétt. Kærandi bendi á að þegar keyrt sé um bæinn sé hægt að finna nýjar eignir sem hafi mjög takmarkað útsýni, t.d. á Laugarnesvegi, við Hlíðarenda, Fellsmúla, Dugguvog, ásamt eldri eignum. Hægt sé að finna mörg slík dæmi um samþykktar íbúðir þar sem útsýni sé takmarkað. Eðlilegt útsýni sé hvergi skilgreint í byggingarreglugerð.

Eign kæranda hafi sameiginlegan inngang með þremur íbúðum, gluggahlið eignarinnar snúi inn í sund sem opið sé í báða enda. Væri betra að gluggahlið sneri að umferðargötu með þeim lífsgæðum sem það byði upp á? Í sundinu sé fólk mjög oft á gangi sem myndi teljast til mannlífs. Sé krafa uppi um gróður þá sé vel hægt að uppfylla það skilyrði. Hægt sé að setja blóm, tré og bekki framan við glugga en synjunin virðist ekki byggja á því. Byggingarfulltrúi beri við gróðurleysi en rétt sé að benda á að enginn gróður sé á lóðinni, hvorki tré né gras, en samt séu 67 íbúðir samþykktar í húsinu. Ekkert í byggingarreglugerð banni að útsýni sé að steyptum vegg. Þá sé hvorki gerð krafa um að gras eða tré séu sjáanleg né sé nokkur greinarmunur gerður á tré eða vegg þegar komi að útsýni. Mörg samþykkt hús séu með svipaða aðstöðu þar sem útsýni sé takmarkað við eitthvað. Með hinni kærðu ákvörðun sé jafnræðisregla því ekki virt. Ákvörðunin byggi  á mjög veikum grunni þar sem enginn texti í byggingar­reglugerð sé í samræmi við þau rök sem lögð séu til grundvallar synjuninni. Þá sé enginn texti í reglugerðinni sem staðfesti rök byggingarfulltrúa heldur sé texti hennar teygður eins og hægt sé. Allar íbúðir og eignir í húsinu hafi samþykkt fyrir sitt leyti að umræddri eign verði breytt í íbúð en hún  sé nú nýtt sem íbúð.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem fram komi að gæta skuli þess að íbúðarhús hafi eðlileg tengsl við útivistarsvæði á lóð og að staðsetning vistarveru taki mið af dagsbirtu og útsýni. Miðvangur 41 hafi á sínum tíma verið hannað sem fjölbýlishús með þjónustu á jarðhæð. Rýmið sem óskað sé eftir að mega hanna sem íbúð geti seint talist uppfylla þau skilyrði sem sett séu í fyrrnefndri byggingar­reglugerð. Fyrir framan Miðvang 41 sé annað húsnæði sem hýsi matvöruverslun og milli þessara bygginga sé sund. Útsýni úr fyrirhugaðri íbúð sé út í þetta sund sem snúi í norður og sýni steyptan vegg húsnæðisins á móti. Þegar talað sé um útsýni sé átt við að þeir sem búi í vistverum hafi eðlileg tengsl við nærumhverfið.

Jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sé ætlað að standa vörð um hagsmuni aðila og koma í veg fyrir að stjórnvöld láti annarlega hagsmuni ráða ákvarðanatöku við úrlausn mála. Hún hafi það hlutverk að styrkja trú og traust almennings á stjórnsýslunni. Jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993, almenn óskráð efnisregla stjórnsýsluréttar um jafnræði og jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 séu allar keimlíkar og hafi sama tilgang. Í greinargerð með frumvarpi því sem orðið hafi að 11. gr. jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sé áréttað að í jafnræðisreglunni felist að mál sem séu sambærileg í lagalegu tilliti geti fengið mismunandi úrlausn ef slíkar ákvarðanir byggist á frambærilegum og lögmætum sjónarmiðum. Jafnframt sé fjallað um undantekningar frá meginreglunni í 2. mgr. nefndrar greinar, enda eigi þær sér stoð í lögum.

Í byggingarmálum verði að taka tillit til laga og byggingarreglugerðar á hverjum tíma. Byggingarreglugerð breytist stanslaust og jafnvel gæti verið að byggingarfulltrúi hafi á einhverjum tímapunkti samþykkt eitthvað sem ekki sé í samræmi við skipulag eða reglugerð og því mistök gerð af hans hálfu. Í slíkum tilvikum sé ekki hægt að vísa til jafnræðisreglu, en kærandi vísi ekki til neins sérstaks máls og því ekki hægt að taka afstöðu til þess. Að mati Hafnarfjarðarbæjar sé mál kæranda ekki sambærilegt öðrum málum. Þótt húsnæði geti verið þar sem byggð sé þétt þá verði íbúar að hafa möguleika á eðlilegu útsýni, sem geti talist vera gróður, mannlíf og möguleiki á að hafa útsýni og sjá annað en vegg.

Niðurstaða: Rökstuðningur byggingarfulltrúa til kæranda fyrir hinni kærðu ákvörðun er eftir­farandi: „Jarðhæð Miðvangs 41 var á sínum tíma hannað sem fjölbýlishús með þjónustu á jarðhæð. Rýmið sem nú er óskað eftir að hanna sem íbúð getur seint talist uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram [í 1. mgr. gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð]. Framan við er húsnæði sem hýsir matvöruverslun og á milli þessara bygginga er sund. Útsýni úr fyrirhugaðri íbúð er út í þetta sund sem snýr í norður, og sem sýnir steyptan vegg. Þegar talað er um útsýni er átt við að þeir sem búi í vistarverunum hafi eðlileg tengsl við nærumhverfið. […] Þótt húsnæði geti verið þar sem þétt byggð er þá hafa íbúar möguleika á eðlilegu útsýni sem getur talist vera gróður, mannlíf og möguleika á að sjá eitthvað annað en steyptan vegg.“ Þá kom fram í tölvupósti byggingarfulltrúa til kæranda að „þetta ákvæði með útsýni og birtu væri mikilvægt, þessi íbúð uppfyllir það ekki.“

Samkvæmt framansögðu er umdeild synjun byggingarfulltrúa byggð á þeim þáttum 1. mgr. gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð sem snúa að birtu og útsýni. Í 3. mgr. gr. 6.7.2. kemur fram að samanlagt ljósop glugga hvers íbúðarherbergis skuli ekki vera minna en sem svari til 1/10 af gólfleti þess, þó aldrei minna en 1 m2. Í 4. mgr. sömu greinar kemur fram að íbúðir skuli njóta fullnægjandi birtuskilyrða. Loks kemur fram í 5. mgr. að í breiðum (djúpum) byggingum beri að huga sérstaklega að því að dagsbirtu gæti innan íbúðar. Af framangreindu má sjá að ákvæði 1., 4. og 5. mgr. nefndrar greinar byggingarreglugerðar eru matskennd varðandi birtu.

Hvorki bókun afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa um málið né svör embættis­ins til kæranda bera með sér að mat hafi farið fram á þessum matskenndu þáttum 1., 4. og 5. mgr. gr. 6.7.2. eða að gengið hafi verið úr skugga um hvort hin hlutlægu skilyrði 3. mgr. væru uppfyllt. Í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að í rökstuðningi skuli greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við mat, að því marki sem ákvörðun byggist á mati. Var það ekki gert hvað varðar dagsbirtu. Er því bæði rannsókn máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og rökstuðningi ákvörðunar áfátt hvað varðar þann þátt gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð er snýr að dagsbirtu.

Líkt og áður segir kemur fram í 1. mgr. gr. 6.7.2. í byggingarreglugerðinni að þess skuli gætt að staðsetning vistarvera taki mið af útsýni. Í rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar kemur fram að „[þ]egar talað er um útsýni er átt við að þeir sem búi í vistarverunum hafi eðlileg tengsl við nærumhverfið“ og að „[þ]ótt húsnæði geti verið þar sem þétt byggð er þá hafa íbúar möguleika á eðlilegu útsýni sem getur talist vera gróður, mannlíf og möguleika á að sjá eitthvað annað en steyptan vegg.“ Verður að telja að byggingarfulltrúi hafi með umfjöllun sinni lagt mat á útsýni.

Enga skilgreiningu er að finna á hugtakinu „útsýni“ í byggingarreglugerð. Hugtakið er nefnt í fjórum lagabálkum, þ.e. í lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús nr. 75/2008, í skipulagslögum nr. 123/2010, í lögum um landgræðslu nr. 155/2018 og í umferðar­lögum nr. 77/2019. Hvorki er þó að finna skilgreiningu á hugtakinu í framangreindum lögum né í lögskýringargögnum sem fylgja þeim. Hvað varðar almenna málnotkun hugtaksins má nefna að í orðabók Menningarsjóðs er útsýni skilgreint sem „sjón yfir e-ð, það að sjá yfir“. Þá er oft talað um útsýni sem gott eða slæmt, mikið eða lítið. Ekki er hægt að fallast á þau rök byggingar­fulltrúa fyrir synjun umsóttra breytinga að ekki sé fullnægt skilyrðum ákvæðis 1. mgr. gr. 6.7.2. í byggingar­reglugerð um útsýni, enda er húsnæðið með gluggum á útvegg. Þrátt fyrir að deila megi um gæði útsýnis er ekki unnt að byggja á að gróður eða mannlíf þurfi að sjást út um gluggann án þess að fyrir því sé stoð í réttarheimildum.

Samkvæmt öllu framansögðu voru slíkir annmarkar á rannsókn máls og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að leiða ber til ógildingar hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. mars 2021 um að synja umsókn um heimild til að færa hjólageymslu, breyta vinnustofu í íbúð, færa sorpgeymslu á lóð og bæta við hjólageymslu að Miðvangi 41.

36 og 42/2021 Dalsbraut 32 til 36

Með

Árið 2021, föstudaginn 20. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. mars 2020 um að breyta deiliskipulagi Dalshverfis, 2. áfanga, vegna lóðanna nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. mars 2021, sem barst nefndinni 19. s.m., kæra 9 eigendur Lerkidals 52-60, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. mars 2020 að breyta deiliskipulagi Dalshverfis, 2. áfanga, vegna lóðanna nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut.

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem móttekin var 6. apríl 2021, skutu sömu aðilar ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 30. mars 2020 um að samþykkja umsóknir um leyfi fyrir byggingu þriggja 15 íbúða fjölbýlishúsa á lóðum nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut til úrskurðarnefndarinnar. Verður greint kærumál, sem er nr. 42/2021, sameinað kærumáli þessu þar sem kæruefni þeirra eru samofin og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé að ógildingar hinna kærðu ákvarðana.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu leyfum yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 21. apríl 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 15. apríl 2021.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 7. janúar 2020 var samþykkt að grenndar­kynna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi tillögu þess efnis að heimila stækkun mannvirkja sem næmi 106 m2 á hverri lóð og að íbúðum í hverju húsi yrði fjölgað úr 11 í 15. Breytingartillagan var grenndarkynnt 14. janúar 2020 með athugasemdafresti til 15. febrúar s.á. og var m.a. grenndarkynnt fyrir þáverandi þinglýstum fasteignareigendum Lerkidals 52-60 sem höfðu á þeim tíma selt fasteignirnar til kærenda. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. s.m. var erindið tekið fyrir að nýju og samþykkt með vísan til þess að engar athugasemdir hefðu borist. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 3. mars s.á. og tók deiliskipulags­breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl s.á.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. mars 2020 voru samþykkt byggingaráform fyrir þremur fjölbýlishúsum á lóðunum Dalsbraut 32, 34 og 36 í samræmi við samþykktar breytingar á deiliskipulagi svæðisins og voru byggingarleyfi gefin út 18. júní s.á.

Í desember 2020 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna bílastæða lóðanna Dalsbrautar 32-36 grenndarkynnt fyrir kærendum. Telja kærendur sig þá hafa orðið varir við að breyting hefði orðið á deiliskipulagi svæðisins vegna nefndra lóða. Í kjölfarið áttu nokkrir kærenda í samskiptum við bæði skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar vegna heimilaðra framkvæmda á nefndum lóðum. Hinn 15. mars 2021 upplýsti byggingar­fulltrúi kærendur um að starfsmenn embættisins hefðu skoðað byggingu á staðnum og að byggt væri í samræmi við aðaluppdrætti. Jafnframt var kærendum bent á að hægt væri að fylgja málinu eftir með kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að áður en þeir hafi fest kaup á fasteignum sínum hafi þeir kynnt sér skipulag svæðisins. Þegar tillaga að umþrættri deiliskipulagsbreytingu vegna Dalsbrautar 32-36 var grenndarkynnt hafi kærendur verið búsettir að Lerkidal 52-60, átt þar lögheimili og hafið greiðslu útsvars til Reykjanesbæjar í samræmi við þá skráningu. Þrátt fyrir það hafi þeim ekki verið grenndarkynnt framangreind tillaga sem sveitarstjórn Reykjanesbæjar hafi samþykkt 3. mars 2020 og því ekki fengið tækifæri til að mótmæla umræddum breytingum. Ekki sé að sjá að breyting á aðalskipulagi og útgáfa byggingarleyfis hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda líkt og lög mæli fyrir um. Kærendur verði fyrir tjóni vegna breytinganna sem felst í skertu útsýni og innsýn í garða frá íbúðum með svölum sem snúi að Lerkidal. Leiði það til lækkunar á verðgildi húsanna og fara kærendur fram á að byggingum verði breytt til sam­ræmis við fyrra skipulag eða kærendum bætt það tjón sem þeir hafi orðið fyrir.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu Reykjanesbæjar er vísað til þess að framkvæmdir séu í samræmi við gildandi deiliskipulag og að málsmeðferð hafi öll verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Við framkvæmd grenndarkynningar hafi íbúar í nærliggjandi húsum fengið tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum. Þá séu skipulags- og hönnunargögn gild og sett fram í samræmi við skilyrði laga og reglna. Óskert útsýni sé ekki bundið í lög og eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði gerðar í nánasta umhverfi þeirra sem geti haft í för með sér einhverja skerðingu á slíkum hags­munum.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærufrestur til nefndarinnar sé liðinn og vísa beri málinu frá. Þá hafi deiliskipulagsbreytingin hvorki haft í för með sér breytingu á hæð umræddra húsa né breytingu á afstöðu þeirra til nærliggjandi húsa. Breytingin hafi varðað viðbót við breidd húsanna sem hafi lítil áhrif á nærliggjandi lóðir.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka þá málsástæðu sína að ástæða þess að engar athugasemdir hafi borist við umþrætta deiliskipulagsbreytingu sé að hún hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir íbúum Lerkidals 52-60 líkt og skylt sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. laganna er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem kærð er í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2020. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar, eða hinn 8. s.m. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deili­skipulags­ákvörðun frá opinberri birtingu hennar en kæra vegna umdeildrar deiliskipulags­breytingar barst úrskurðarnefndinni 19. mars 2021.

Umsóknir um hin kærðu byggingarleyfi voru samþykktar 30. mars 2020 og á grundvelli þeirra samþykkta voru byggingarleyfi gefin út 18. júní s.á. Samkvæmt skoðunarskýrslum fóru áfangaúttektir á sökklum húsanna fram í ágúst 2020. Samkvæmt gögnum málsins voru framkvæmdir langt á veg komnar og uppsteypu húsanna að mestu lokið er leyfin voru kærð. Samkvæmt þessu mátti kærendum þegar á haustmánuðum 2020 vera ljóst að leyfi hafi verið veitt fyrir byggingum á umræddum lóðum. Þegar kæra vegna byggingarleyfanna barst úrskurðar­­nefndinni 6. apríl 2021 var því eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 liðinn.

Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin bárust kærur í máli þessu úrskurðarnefndinni að liðnum eins mánaðar kærufresti og verða kröfur kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana ekki teknar til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningar­ákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að skv. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga getur sá sem sýnir fram á tjón vegna skipulags eftir atvikum átt rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Slík bótaákvörðun á hins vegar ekki undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

29/2021 Skólavörðustígur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 29/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 um að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunar­húsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð, á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. mars 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi Skólavörðustígs 30, þá ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð, á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að framkvæmdir á grundvelli hins kærða byggingarleyfis yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 31. mars 2021 var stöðvunar­kröfu kæranda hafnað.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 24. mars 2021.

Málavextir: Á svæði því sem lóðirnar Skólavörðustígur 30 og 36 tilheyra er í gildi deili­skipu­lag Lokastígsreita, staðgreinireita 1.181.2., 1.181.3. og 1.181.4. Lóðin Skólavörðu­stígur 36 er stað­sett á reit 1.181.4., Lokastígsreit 4. Um þann reit segir nánar í greinargerð deili­skipulagsins að þar sé yfirbragð byggðarinnar fremur lágt og þétt. Flest húsanna séu tví- eða þrílyft með risi. Við Lokastíg og Baldursgötu sé röð stakstæðra húsa en við Skólavörðustíg séu þau ýmist stakstæð eða sambyggð. Sameiginlegir sérskilmálar gilda fyrir reiti tvö, þrjú og fjögur. Þar er m.a. tiltekið að heimilt sé að byggja litlar geymslur á baklóð, allt að 6 m2, þar sem aðstæður leyfi, og litlar viðbyggingar allt að 12 m2 í samræmi við byggingarstíl húsa. Ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkum sé minni en 3,0 m þurfi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða. Hinn 4. júlí 2018 var samþykkt breyting á nefndu deiliskipulagi vegna lóðarinnar Skólavörðustígs 36. Í breytingunni fólst m.a. heimild til að auka byggingar­magn á 1. hæð að suðvestur lóðarmörkum, nýta þakhæð 1. hæðar að hluta sem þaksvalir og stækka og hækka stigahúsið. Heimilað byggingarmagn á lóðinni eftir breytingu er 281,5 m2. Lóðin er 216 m2 að flatarmáli og er nýtingarhlutfall hennar þar með 1,3.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 20. október 2020 var samþykkt leyfi fyrir áður framkvæmdu niðurrifi húss að Skólavörðustíg 36. Þá var jafnframt samþykkt byggingarleyfis­umsókn um byggingu þriggja hæða staðsteypts húss á lóðinni með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð. Fyrirhugað hús yrði samtals 314,8 m2 og nýtingarhlutfall þess 1,45. Kærandi í máli þessu kærði framangreint leyfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með kæru, dags. 18. nóvember 2020. Máli því lauk með úrskurði í máli nr. 121/2020 frá 22. desember s.á. Var ákvörðun byggingar­fulltrúans í Reykjavík um að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunar­húsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð á lóðinni nr. 36 við Skólavörðustíg felld úr gildi þar sem nýtingarhlutfall lóðarinnar var yfir því hámarki sem deiliskipulag svæðisins heimilaði. Lóðarhafi Skólavörðu­stígs 36 sótti í kjölfarið um byggingarleyfi sem var veitt 2. mars 2021. Er það sú ákvörðun sem kærð er í málinu.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að nýtingarhlutfall sé enn of hátt. Komi fram í umsögn skipulagsfulltrúa að svo sé og ekki virðist hafa verið bætt úr því til fulls við útgáfu leyfisins. Í bókun byggingarfulltrúa 2. mars 2021 sé stærð nýbyggingar sögð vera samtals 294,0 m2 en hún megi mest vera 281,5 m2 samkvæmt skipulagi.

Það hafi verið andstætt skipulagi að heimila, án samþykkis kæranda, þá hluta byggingarinnar sem hefðu verið viðbyggingar við eldra hús á lóðinni ef það hefði staðið áfram eins og mælt hafi verið fyrir um í skipulaginu. Húsið að Skólavörðustíg 36 standi á lóðarmörkum gagnvart lóð kæranda og sé skýrt og afdráttarlaust að í skilmálum deiliskipulagsins frá 2009 og breytingu sem á því hafi verið gerð 2018 að slíkar byggingar verði ekki leyfðar nema með samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar. Hafi það jafnframt verið áréttað í svari við athugasemdum sem kærandi hafi gert við skipulagsbreytinguna 2018, að ekki væri hægt að byggja svo nálægt lóðar­mörkum, þ.e. nær en 3 m, nema fyrir lægi skriflegt samþykki lóðarhafa næstu lóðar.

Augljóst sé að þetta eigi við um þann hluta nýbyggingarinnar sem sé á einni hæð til suðvesturs á baklóð, enda væri þar um viðbyggingu við eldra hús að ræða, ef það hefði staðið áfram eins og skipulagið hafi gert ráð fyrir og nái sú bygging að lóðarmörkum. Einnig verði að telja að hið sama eigi við um nýja og hækkaða þakhæð, þ.e. 3. hæð, framhússins, sem einnig hefði skoðast sem viðbygging við eldra hús ef það hefði staðið. Þessi hækkun sé verulega íþyngjandi fyrir kæranda þar sem hún skerði mjög útsýni frá efstu hæð húss hans. Þessa hluta byggingarinnar hafi byggingarfulltrúi ekki mátt leyfa án þess að fyrir lægi skriflegt samþykki kæranda og hafi leyfið að þessu leyti farið í bága við skilmála skipulagsins. Engin heimild hafi verið til að víkja frá þeim, enda ríkir hagsmunir kæranda í húfi. Byggingarleyfi sem fari í bága við deiliskipulag sé ólögmætt og beri að ógilda það.

Í umsögn skipulagsfulltrúa frá 12. febrúar 2021 segi að skriflegt samþykki nágranna þurfi ekki að liggja fyrir við veitingu leyfisins. Sé umsögnin á því byggð að áskilnaður um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða eigi aðeins við um þær heimildir sem taldar séu upp í kafla 1A, Byggingarmöguleikar, allar lóðir, en þar sé um að ræða heimildir fyrir minni háttar við­byggingum og litlum geymslum á baklóð. Hins vegar eigi áskilnaðurinn um samþykki lóðar­hafa aðliggjandi lóða ekki við um heimildir sem falli undir kafla 1B, Byggingarmöguleikar, einstakar lóðir. Framangreint komi þó hvergi fram berum orðum í skilmálunum. Þvert á móti komi fram að ákvæði skilmálanna í kafla 1A gildi fyrir allar lóðir. Þar sé m.a. að finna það ákvæði sem áskilji samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða þegar um viðbyggingar sé að ræða, ef fjarlægð frá lóðarmörkum sé minni en 3 m. Hvergi sé tekið fram að þetta eigi bara við um þær smáu viðbyggingar sem heimilaðar séu samkvæmt kafla 1A.

Gera verði ríkar kröfur til þess að skilmálar í deiliskipulagi gróinna hverfa, sem feli í sér takmarkanir á eignarrétti eigenda þeirra fasteigna sem fyrir séu á svæðinu, séu skýrir og ótvíræðir til þess að þeim verði beitt án samþykkis eigenda nærliggjandi eigna. Því fari fjarri að svo hafi verið í þessu tilviki. Raunar sé það svo að skipulagsfulltrúi hafi áður túlkað þetta ákvæði svo að það ætti við um þær viðbyggingar við Skólavörðustíg 36 sem heimilar séu samkvæmt skipulaginu eftir þá breytingu sem á því hafi verið gerð árið 2018. Komi sú túlkun berlega fram í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum sem nágrannar hafi gert við skipulagstillöguna en þar segi m.a: „Núverandi deiliskipulag leyfir hækkun á risi en annars er ekki um hækkun á sjálfu húsinu. Það er rétt sem að bréfritari leggur áherslu á – í texta deiliskipulagsins kemur fram að „ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkun er minni en 3 m þarf samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða“ þessi grein er enn í fullu gildi. Ekki er hægt að byggja svo nálægð lóðarmörkum nema að fyrir liggi skriflegt samþykki nærliggjandi lóðarhafa.“ Síðar segi: „Tekið er undir með bréfritara ábendingar hans og athugasemdir á mörkum landnotkunar skv. aðalskipulagi og er því enn mikilvægara það ákvæði í deili­skipulaginu er varðar 3ja metra frá lóðarmörkum og að full sátt verði á milli lóðarhafa um slíkar framkvæmdir.“

Með breytingunni sem gerð hafi verið á skipulaginu 2018 hafi einungis verið breytt sérskilmálum fyrir lóðina nr. 36 við Skólavörðustíg, þ.e. skilmálum sem falli undir kafla 1B í upphaflega skipulaginu. Ef skipulagsyfirvöld hefðu á þessum tíma túlkað skipulagið á þann veg sem þau geri nú, þá hefði átt að svara athugasemdum nágranna varðandi ákvæðið um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða, á þann veg að það ætti ekki við þar sem um væri að ræða breytingu á sérskilmálum í kafla 1B, en ákvæðið ætti aðeins við um heimildir samkvæmt kafla 1A. Þetta hafi hins vegar ekki verið gert heldur hafi mikilvægi ákvæðisins þvert á móti verið áréttað og staðfest að greinin væri í fullu gildi og sérstaklega bent á að ekki væri hægt að byggja svo nálægt lóðarmörkum nema að fyrir lægi skriflegt samþykki lóðarhafa næstu lóðar.

Að fengnum þessum svörum hafi nágrannar ekki talið ástæðu til að fylgja málinu frekar eftir með því t.d. að kæra umrædda skipulagsbreytingu eða bera hana undir dómstóla. Verði fallist á þá túlkun sem nú sé teflt fram blasi við að borgaryfirvöld hafi með röngum og villandi svörum við athugasemdum nágranna svipt þá möguleikum á að gæta hagsmuna sinna í samræmi við lög. Sé einnig ljóst að ekki sé boðlegt að túlka skilmála skipulags eftir hentugleika hverju sinni.

Framsetning skipulagsbreytingarinnar frá 2018 gefi ekki tilefni til annarrar túlkunar en þeirrar, að ákvæðið um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða sé áskilið fyrir þeim viðbyggingum sem heimilaðar hafi verið með breytingunni. Reglan sé áréttuð í skilmálum í kafla 1A og sögð gilda um allar lóðir á skipulagssvæðinu án þess að þess sé getið að hún eigi ekki við um sérskilmála í kafla 1B. Sé þess kafla raunar hvergi getið í skipulagsbreytingunni. Einnig sé afar villandi að taka ákvæðin í kafla 1A upp í breytinguna, eins og gert sé, ef niðurstaðan sé að kaflinn eigi ekki að neinu leyti við um breytinguna. Allt sé þetta svo óljóst og villandi að fráleitt sé að nágrannar séu bundnir af þeirri túlkun á skilmálum skipulagsins sem nú sé teflt fram, þvert á það sem áður hafi komið fram í svörum við athugasemdum og ráða megi af umræddri breytingu.

Jafnvel þótt fallist yrði á að beita ætti þeirri túlkun á skilmálum sem borgaryfirvöld vilji nú leggja til grundvallar þá verði þeirri túlkun ekki beitt um þá hluta nýbyggingarinnar sem verið hefðu viðbyggingar við eldra hús að Skólavörðustíg 36. Ástæðan sé sú að með svörum við athugasemdum frá 2. júlí 2018 hafi borgaryfirvöld sérstaklega skuldbundið sig til að virða áskilnað í skipulagi um samþykki nágranna varðandi þær auknu byggingarheimildir sem heimilaðar hafi verið að Skólavörðustíg 36 með skipulagsbreytingunni 2018. Skuldbinding um að veita ekki leyfi án samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar hafi með öðrum orðum legið fyrir um þessar tilteknu viðbyggingar.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er bent á að samkvæmt samþykktu deiliskipulagi Lokastígsreits 4, staðgreinireit 1.181, með síðari breytingum sé heimilt að byggja á lóðinni mannvirki að hámarki 281,5 m2 með nýtingarhlutfalli 1,3. Samkvæmt deiliskipulagi skuli vera verslun/þjónusta á 1. hæð en íbúðir séu heimilaðar á 2.-3. hæð.

Samkvæmt samþykktum aðaluppdráttum sem fylgt hafi umsókn um byggingarleyfi BN058674 sé heildarflatamál fyrirhugaðs mannvirkis á lóðinni 281,2 m2. Skiptist flatarmál mannvirkisins með þeim hætti að A-rými 1. hæðar sé 114,3 m2, 2. hæðar 78,7 m2 og 3. hæðar 78,4 m2. B-rými séu 9,8 m2 og öll á 2. hæð. Samtals sé því flatarmál A-rýma 271,4 m2 og B-rýma 9,8 m2. Flatarmál A- og B-rýma sé því samtals 281,2 m2. Flatarmál lóðarinnar sé 216 m2 og nýtingar­hlutfall sé því 1,3. Því sé ljóst að samþykkt mannvirki sé í samræmi við samþykkt deiliskipulag hvað varði nýtingarhlutfall.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, sem aflað hafi verið fyrir afgreiðslu byggingarfulltrúa á hinni kærðu ákvörðun, komi fram „að heimild sé á öllum lóðum reitsins til að byggja minniháttar við­byggingar, litlar geymslur og svalir. Byggja má nýjar svalir utan byggingarreita. Þar sem ekki er um byggingarreit að ræða er átt við útmörk húsa. Þær eiga að falla vel að stíl húsa og mega ekki koma nær lóðarmörkum en sem nemur dýpt þeirra þar sem um randbyggð er að ræða. Svalir mega ekki vera dýpri en 1,5m. Ekki eru skilgreindir byggingarreitir fyrir þessar framkvæmdir og engin aukning á byggingarmagni kemur fram í töflu vegna þeirra. Minni háttar heimildir sbr. kafla 1.A eru heimilar þar sem aðstæður leyfa og ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkum er minni en 3 m þarf samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða að liggja fyrir.“ Þetta sé í fullu samræmi við þær kröfur sem gerðar hafi verið um fjarlægð smáhýsa á lóð og viðbygginga, þ.e. 3 m frá lóðarmörkum ef samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar liggi ekki fyrir, sjá gr. 2.3.5 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Ekki verði séð af skilmálum deiliskipulagsins að krafa sé gerð almennt um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegna byggingar­leyfis, ef mannvirki sé nær lóðarmörkum en 3 m. Augljóst megi vera að slíkt sé ekki ætlunin, enda geri deiliskipulagið ráð fyrir að byggt sé út að lóðarmörkum. Að auki hafi eldra mannvirki verið byggt út í lóðarmörk.

Einnig komi fram í umsögn skipulagsfulltrúa að í kafla 1.B Byggingarmöguleikar í deili­skipulagi séu einstaka lóðir skilgreindar með auknum byggingarheimildum, hér á meðal að Skóla­vörðu­stíg 36. Byggingarreitir séu skilgreindir á uppdrætti og aukning á byggingarmagni komi fram í töflu. Skriflegt samþykki nágranna þurfi ekki að liggja fyrir þegar um sé að ræða byggingarheimildir sem skilgreindar séu í kafla 1.B, þ.e. auknar heimildir innan skilgreindra byggingarreita.

Tekið sé undir afstöðu skipulagsfulltrúa og ítrekað að heimilt sé samkvæmt deiliskipulagi að byggja út að lóðarmörkum innan byggingarreits. Verði kafli 1.B í deiliskipulagsskilmálum ekki túlkaður með þeim hætti sem gert sé í kæru. Að mati byggingarfulltrúa sé skýr heimild til staðar í deiliskipulagi til þess að samþykkja mannvirki sem sé innan byggingarreits samkvæmt deili­skipulagi, án þess að til komi samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða.

Samskipti þau sem kærandi vísi til frá árinu 2018 taki einungis til þess sem fram komi í kafla 1.A um fjarlægð geymslna og viðbygginga frá lóðarmörkum, en geti með engu móti tekið til mannvirkjagerðar sem sé innan byggingarreits samkvæmt deili­skipulagi. Áréttingin sé einungis um aðra hluti, s.s. stakar geymslur, sem kunni að verða byggðar á lóðinni.

Málsrök leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að í deiliskipulagi fyrir Lokastígsreiti 2, 3 og 4, sem samþykkt hafi verið 10. desember 2009 séu sameiginlegir skilmálar sem gildi fyrir alla reitina þrjá og svo sérskilmálar fyrir hvern reit fyrir sig. Lóð kæranda og lóð leyfishafa tilheyri Lokastígsreit 4 og séu staðsettir á staðgreinireit nr. 1.181.4. Samkvæmt sameiginlegum sérskilmálum fyrir allar lóðir á reitum 2, 3 og 4 sé heimilt samkvæmt deiliskipulaginu að byggja kvisti á risþök í samræmi við byggingarreglugerð og byggingarstíl húsa. Þá sé heimilt að byggja litlar viðbyggingar við húsin allt að 12 m2, svalir utan byggingarreita að hámarksdýpt 1,5 m og þar sem aðstæður leyfi að byggja litlar geymslur allt að 6 m2. Tekið sé fram að ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkum sé innan við 3 m þurfi samþykki lóðarhafa að­liggjandi lóða.

Sérskilmálar fyrir reitina þrjá lúti m.a. að byggingarmöguleikum, verndun húsa og tillögu að friðun. Í sérskilmálum deiliskipulagsins á Lokastígsreit 4 hafi verið gert ráð fyrir auknu byggingarmagni, m.a. á lóðum nr. 30 og 36 við Skólavörðustíg. Á lóð nr. 36 sé heimilt að auka byggingarmagn á lóð með því að hækka ris, þ.a. nýtingarhlutfall lóðar aukist úr 0,69 í 0,92, og á lóð nr. 30 sé heimilt að rífa bílskúr og byggja 1. hæðar viðbyggingu í sömu gólfhæð og kjallari. Viðbygging skuli tengjast eldra húsi með gleri í vegg og þaki, þ.a. nýtingarhlutfall lóðar aukist úr 1,05 í 1,30. Árið 2018 hafi verið gerð breyting á deiliskipulagi reits 1.181.4, Lokastígsreits 4, vegna lóðarinnar nr. 36 við Skólavörðustíg. Í breytingunni hafi falist sá sérskilmáli fyrir lóðina að auka mætti byggingarmagn á 1. hæð að lóðarmörkum í suðvestur, nýta þakhæð 1. hæðar að hluta sem þaksvalir og stækka og hækka stigahúsið. Eftir þessa breytingu hafi nýtingarhlutfall lóðarinnar verið 1,3.

Samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða þurfi ekki vegna byggingarheimilda samkvæmt sér­skilmálum um einstakar lóðir sem séu í samræmi við deiliskipulag. Sú krafa sem komi fram í sameiginlegum skilmálum fyrir Lokastígsreiti 2, 3 og 4 um öflun samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóða eigi ekki við um sérskilmála deiliskipulags um heimild til aukins byggingar­magns á einstökum lóðum á Lokastígsreit 4, eða staðgreinireit 1.181.2.

Kærandi þurfi þannig ekki, sæki hann um leyfi til að rífa bílskúr og byggja 1. hæðar við­byggingu í sömu gólfhæð og kjallari eins og samþykkt sé í deiliskipulagi, að afla leyfis lóðar­hafa aðliggjandi lóðar eða lóðar nr. 36. Hið sama gildi um leyfishafa sem sótt hafi um og fengið samþykkt leyfi til að byggja hús á lóð sinni í samræmi við samþykkt deiliskipulag á lóðinni. Byggingareitur, byggingarmagn og nýtingarhlutfall lóðarinnar sé skilgreint á uppdrætti er hafi fylgt breytingu á deiliskipulagi. Samþykkt byggingarleyfi sé í einu og öllu í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Hvað varði sameiginlega skilmála deiliskipulags frá árinu 2009 fyrir Lokastígsreiti 2, 3 og 4, um heimild til að byggja kvisti á risþök í samræmi við byggingarreglugerð og byggingarstíl húsa, sé í skilmálum ekki gert að skilyrði að afla þurfi samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóða. Skilyrðið um samþykki eigi einungis við ef fjarlægð viðbygginga allt að 12 m2 að flatarmáli og geymslna allt að 6 m2 að flatarmáli sé innan við 3 m frá lóðarmörkum.

Kærandi hafi áður krafist þess að ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfi vegna lóðarinnar nr. 36 við Skólavörðustíg verði felld úr gildi. Hafi því máli lokið með því að úrskurðarnefndin hafi fellt úr gildi byggingarleyfi þar sem það hafi ekki verið í samræmi við heimilað nýtingarhlutafall lóðarinnar. Leyfishafi uppfylli nú skilyrði um byggingarmagn og nýtingarhlutfall lóðarinnar samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Í umsögn skipulagsfulltrúa hafi verið gerðar athugasemdir sem fyrst og fremst hafi lotið að uppdráttum og byggingarreit. Þau atriði hafi verið lagfærð og ekki hafi verið gerðar frekari athugasemdir.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi tekur fram að það kunni að vera að sú túlkun að skýra verði skilmála skipulagsins á þann veg að samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða þurfi ekki að liggja fyrir þegar um framkvæmdir sé að ræða sem eigi stoð í sérskilmálum einstakra lóða, sé í samræmi við það sem höfundar skipulagsins ætluðust fyrir. Þetta komi hins vegar hvergi fram í skilmálum skipulagsins. Þvert á móti segi þar að skilmálar í kafla 1.A gildi um allar lóðir, en í þeim kafla sé að finna ákvæðið um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða ef fjarlægð frá lóðarmörkum sé innan við 3 m. Skilmálar í skipulagi verði að vera borgurunum skiljanlegir og leiki vafi á um túlkun þeirra gildi sá skilningur sem hafi minnsta röskun í för með sér fyrir íbúa og eigendur fasteigna á skipulagssvæðinu. Þá gildi einnig að til þess að takmarka rétt lóðarhafa á skipulagssvæði þurfi heimild í skipulagi að vera ótvíræð.

Í greinargerð borgaryfirvalda segi: „Samskipti sem kærandi vísar til frá árinu 2018 taka einungis til þess sem fram kemur í 1.A um fjarlægð geymslna og viðbygginga frá lóðar­mörkum, enda geta með engu móti tekið til skipulagslegra heimilaðra mannvirkjagerðar sem eru innan byggingarreits skv. deiliskipulagi. Áréttingin er einungis um aðra hluti, s.s. stakar geymslur, sem kunna að verða byggðar á lóðinni.“ Við þetta sé það að athuga að þau samskipti sem vísað sé til séu athugasemdir kæranda við tillögu að breytingu á deiliskipulagi umrædds svæðis og svör borgarinnar við þeim, en þegar til þess sé litið að umrædd deiliskipu­lagsbreyting hafi aðeins falið í sér breytingu á sérskilmálum einnar lóðar sé ekki hægt að skilja umrætt svar borgarinnar á annan veg en þann að ákvæði skilmálanna um samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóðar gildi um byggingar sem reistar séu með stoð í sérskilmálum einstakra lóða.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunarhúsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg. Á svæði því sem lóðirnar Skólavörðustígur 30 og 36 tilheyra er í gildi deili­skipulag Lokastígsreita, staðgreinireita 1.181.2, 1.181.3 og 1.181.4, sem samþykkt var í borgarráði 10. desember 2009. Lóðin Skólavörðu­stígur 36 er staðsett á reit 1.181.4, Lokastígsreit 4. Greinargerð og skilmálar með framangreindu deiliskipulagi skiptast í fjóra hluta. Fyrst eru raktir almennir skilmálar/kvaðir sem virðast eiga að taka til mun stærra svæðis en deiliskipulagið. Næst er fjallað um sameiginlega sérskilmála fyrir reiti 2, 3 og 4, sem er allt deiliskipulagssvæðið. Þá er fjallað um sérskilmála fyrir reit 4 og að lokum eru skilmálar fyrir hverja og eina lóð.

Í sameiginlegum sérskilmálum fyrir reiti 2, 3 og 4 kemur fram í kafla 1.A Byggingar­möguleikar, allar lóðir: „[h]eimilt er að byggja kvisti á risþök í samræmi við byggingar­reglugerð og byggingarstíl húsa og skal fjarlægð þeirra frá þakenda eigi vera minni en 1.0 m. Heimilt er að byggja litlar viðbyggingar við húsin, allt að 12 m2 í samræmi við byggingarstíl húsa. Byggja má nýjar svalir utan byggingarreita. Þar sem ekki er um byggingarreit að ræða er átt við útmörk húsa. Þær eiga að falla vel að stíl húsa og mega ekki koma nær lóðar­mörkum en sem nemur dýpt þeirra þar sem um randbyggð er að ræða. Svalir mega ekki vera dýpri en 1,5 m. Þar sem aðstæður leyfa er heimilt að byggja litlar geymslur á baklóð um allt að 6 m2. Hámarkshæð er 2,5 m. Ef fjarlægð viðbygginga og geymslna frá lóðarmörkum er minni en 3,0 m þar samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða. Allar stærðir eru til viðmiðunar, nánari útfærslu skal sýna á byggingarnefndarteikningum.“

Um nýbyggingu er að ræða en hvorki viðbyggingu eða geymslu. Þrátt fyrir að hinar ýmsu stærðir séu taldar upp í framangreindum kafla 1.A endar kaflinn á að tiltaka sérstaklega að stærðirnar séu til viðmiðunar og nánari útfærslu skuli sýna á teikningum. Verður því ekki ályktað að þær stærðir sem fram koma í kafla 1.A séu án frávika. Sérstaklega er tekið fram að nánari útfærslu skuli sýna á byggingarnefndarteikningum. Er og sýnt á samþykktum aðalupp­drætti að byggt er nær lóðarmörkum en sem nemur 3 m. Í ljósi þess sem að framan er rakið verður þó ekki talið að fortakslaus skylda hafi verið til að afla samþykkis lóðarhafa aðliggjandi lóðar vegna hins kærða byggingarleyfis.

Í sérskilmálum fyrir reit 4 segir í kafla 1.B Byggingarmöguleikar, einstakar lóðir: „Tillagan gerir ráð fyrir auknu byggingarmagni á lóðum Skólavörðustígs 30, 36, 40, 44 og 44A, Lokastíg 21 og Njarðargötu 61. Heimilaðar hækkanir einstakra húsa skulu vera eins og teikningar og skilmálar sýna.“ Í þeim skilmálum kemur einnig fram að nýtingarhlutfall lóðarinnar nr. 36 við Skólavörðustíg sé 0,92. Deiliskipulagsbreyting vegna Skólavörðustígs 36 var samþykkt í borgarráði 19. júlí 2018. Sætti breytingin ekki kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og verður ekki um málsmeðferð hennar fjallað, en kærandi getur eftir atvikum borið þá breytingu undir dómstóla. Í umræddri breytingu fólst að byggingarmagn var aukið úr 200,0 m2 í 281,5 m2. Nýtingarhlutfall var að sama skapi aukið úr 0,92 í 1,3. Þá var skilmálum lóðarinnar breytt þannig að heimilt er að auka byggingarmagn á 1. hæð að suðvestur lóðarmörkum, heimilt er að nýta þakhæð 1. hæðar sem þaksvalir með dýpt allt að 3 m og heimilt er að stækka og hækka stigahúsið.

Í hinum árituðu aðaluppdráttum kemur fram að A-rými á 1. hæð séu 114,3 m2, 78,7 m2 á 2. hæð og 78,4 m2 á 3. hæð. Segir svo að heildarflatarmál A-rýma sé 267 m2. Séu framangreindar stærðir lagðar saman sést hins vegar að heildarflatarmál A-rýma er 271,4 m2. Í áritaðri skráningartöflu kemur fram að heildarflatarmál A-rýma á 1. hæð sé 112,8 m2, 77,1 m2 á 2. hæð og 77,1 m2 á 3. hæð, sem eru samtals 267 m2. Flatarmál B-rýma er 9,8 m2. Heildarflatarmál A- og B-rýma er því 276,8 m2 eða 281,2 m2, eftir því hvora samtölu A-rýma er miðað við. Þrátt fyrir framangreint misræmi eru báðar tölurnar lægri en heimilað hámarksbyggingarmagn, sem er líkt og áður segir 281,5 m2 og verður ekki talið að misræmi þetta varði ógildingu byggingarleyfisins. Lóðarstærð Skólavörðustígs 36 er 216,0 m2 og er nýtingarhlutfall nýbyggingarinnar því 1,28 eða 1,3 eftir því hvor samtala heildarflatarmáls er notuð. Hvort tveggja er heimilt samkvæmt deiliskipulagi svæðisins.

Í ljósi alls þess sem að framan er rakið eru ekki þeir annmarkar á hinu kærða byggingarleyfi sem raskað geta gildi þess, enda rúmast efni leyfisins innan heimilda gildandi skipulagsáætlana, sbr. 11. gr. og 1. tl. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 2. mars 2021 um að veita leyfi til að byggja þriggja hæða staðsteypt hús með verslunar­húsnæði á jarðhæð og einni íbúð á annarri og þriðju hæð, á lóð nr. 36 við Skólavörðustíg.

19/2021 Laugarnesvegur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 8. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 19/2021, kæra vegna framkvæmda í fjöleignarhúsinu að Laugar­nesvegi 83.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. febrúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi efri hæðar hússins að Laugarnesvegi 83, Reykjavík, ætlaðar óleyfisframkvæmdir í húsinu. Er þess krafist að mannvirkinu verði komið í fyrra horf og rask afmáð að fullu. Jafnframt er þess krafist að skúr á lóðinni verði fjarlægður og rask vegna hans verði afmáð að fullu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. apríl 2021.

Málavextir: Í byrjun mars 2020 mun kærandi hafa orðið var við framkvæmdir á neðri hæð hússins að Laugarnesvegi 83. Hinn 6. s.m. sendi hann byggingarfulltrúanum í Reykjavík tölvupóst þar sem spurst var fyrir um hvort embættið vissi af umræddum framkvæmdum. Upplýsti kærandi um að eigandi neðri hæðar hússins væri búinn að bora í og brjóta hluta af burðarveggjum. Óskaði embættið 11. s.m. eftir skýringum frá eigendum íbúðar á neðri hæð hússins á framkvæmdunum. Svar barst embættinu 24. s.m. þar sem fram kom að umræddar framkvæmdir væru hluti af viðhaldi innanhúss og endurnýjun innréttinga. Húsasmíðameistari hafi verið fenginn til að meta burðarvirki hússins og hafi það verið hans mat að það að fjarlægja tiltekinn veggbút hefði ekki áhrif á burðarvirki hússins. Jafnframt kom fram að leyfi íbúa í kjallara og á efri hæð hafi verið fengið til að taka vatnið af húsinu meðan skipt hefði verið um rör. Við þá vinnu hafi ryð stíflað blöndunartæki í íbúð í risi og hafi pípulagningarmeistari verið fenginn til að losa ryð úr tækjum og rörum auk þess sem keypt hafi verið nýtt blöndunartæki fyrir eiganda efri hæðar hússins. Sama dag mun eftirlitsmaður skilmálaeftirlits byggingar­fulltrúa hafa tekið út framkvæmdina vegna kvörtunar kæranda. Í skoðunarskýrslu hans frá sama degi kemur fram að brotið hafi verið um 20 cm bútur af vegg til að stækka dyraop. Framkvæmdin sé minniháttar breyting á burðarvirki hússins. Ennfremur hafi neysluvatns­lögnum verið breytt þannig að nú séu kaldavatnslagnir íbúðanna aðskildar. Þá tók eftirlitsmaður skilmálaeftirlits framkvæmdina aftur út 30. mars 2020. Í skoðunarskýrslu vegna þeirrar úttektar kom m.a. fram að varmaskiptir hafi verið settur upp fyrir neysluvatnslögn.

Kærandi kom á framfæri frekari athugasemdum vegna framkvæmdanna við byggingarfulltrúa með tölvupóstum 6., 12., 13., 19. og 28. mars 2020. Í svari frá byggingarfulltrúa 31. s.m. var vísað til framangreindra samskipta eigenda neðri hæðar og embættisins auk þess eftirlits sem átti sér stað. Kom fram í svarinu að framkvæmd vegna umræddrar breytingar á burðarvirki væri tilkynningarskyld skv. a-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 og að óskað hafi verið eftir því að tilkynnt yrði um þá framkvæmd. Einnig kom fram að lagnaframkvæmdir væru byggingarleyfisskyldar og að óskað hafi verið eftir því að sótt yrði um leyfi fyrir þeim. Þá hafi aðrar framkvæmdir verið skoðaðar og teldust þær til eðlilegs viðhalds sem væru undanþegnar byggingarleyfi. Með umsókn, dags. 10. október 2020, sóttu eigendur íbúðar á neðri hæð hússins um byggingarleyfi fyrir stækkun tveggja hurðargata, breytingu á lagnaleiðum í eldhúsi og uppsetningu á varmaskipti fyrir neysluvatnslögn í geymslu í kjallara. Með umsókninni fylgdi m.a. minnisblað byggingar­verkfræðings þar sem m.a. kom fram að breytingin hafi ekki áhrif á burð hússins, hvorki lárétt né lóðrétt, og samþykki meirihluta eigenda í húsinu væri fyrir breytingunum. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. janúar 2021 var umsóknin tekin fyrir og hún samþykkt.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að 1. mars 2020 hafi framkvæmdaraðilar komið óvænt inn í húsið að Laugarnesvegi 83 og hafið stórframkvæmdir sem engin heimild hafi verið fyrir. Gerðar hafi verið breytingar á burðarveggjum og sameiginlegum lögnum án leyfis. Strax í byrjun mars hafi verið farið fram á það við byggingarfulltrúa að óleyfisframkvæmdir yrðu stöðvaðar strax og þeim sem að framkvæmdunum stæðu gert að afmá allt rask og bæta kæranda tjón. Það hafi byggingarfulltrúi ekki gert heldur lagt fyrir framkvæmdaraðila að sækja um leyfi fyrir óleyfisframkvæmdunum. Framkvæmdirnar hafi stíflað allt vatnsinntak í íbúð efri hæðar og búi kærandi enn við ónothæfan og ónýtan baðvask. Því sé harðlega andmælt að framkvæmdar­aðilar geti snúið inntaksrými hússins á hvolf bara fyrir sig. Eigendur kjallaraíbúðar hafi samþykkt framkvæmdirnar löngu seinna en slíkt dugi ekki fyrir framkvæmdunum þar sem samþykki allra, eða að lágmarki 2/3 hluta, þurfi fyrir þeim, sbr. 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

Framkvæmdaraðilar hafi sett íbúð sína á sölu í lok janúar 2021 með óleyfisskúr á lóð. Með fasteignaauglýsingu hafi þeir reynt að selja inntaksrými allra sem þvottarými fyrir þvottavél og þurrkara og ranglega sagt að enginn hafi nýtt rýmið nema neðri hæð. Ítrekuð sé krafa kæranda um að hinn ólöglegi skúr verði fjarlægður af lóðinni og allt rask afmáð að fullu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er litið svo á að kærð sé ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingar­leyfi til að stækka tvö dyraop og breyta lagnaleiðum í íbúð á neðri hæð hússins að Laugarnesvegi 83 og setja upp varmaskipti í kjallara. Ljóst sé að umrædd stækkun á dyraopum sé minniháttar breyting eins og fram hafi komið í skoðunarskýrslu 24. mars 2020. Í a-lið gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé fjallað sérstaklega um minniháttar breytingar á burðarveggjum sem undanþegnar séu byggingarleyfi, en sú krafa sé gerð að slíkt sé tilkynnt til byggingarfulltrúa. Með umsókn um byggingarleyfi hafi fylgt umsögn burðarþolshönnuðar þar sem hann taldi breytinguna ekki hafa áhrif á burð hússins. Önnur göt sem boruð hafi verið hafi óveruleg áhrif á burðarþol veggja eða platna.

Óverulegar breytingar hafi verið gerðar á lögnum, þ.e. vatnslagnir hafi verið endurnýjaðar þannig að lögn, sem áður hafi verið fyrir íbúðir neðri og efri hæðar, sé nú bara fyrir íbúð efri hæðar. Ný lögn fyrir íbúð neðri hæðar hafi verið komið fyrir, lagnaleið snúið við og varma­skiptir settur upp fyrir neysluvatnslögn. Þessar lagnaframkvæmdir séu byggingarleyfisskyldar og í kjölfar eftirlitsferðar hafi verið óskað eftir að sótt yrði um leyfi vegna breytinganna. Á þeim teikningum sem fylgt hafi byggingarleyfisumsókn komi fram að sú breyting hafi verið gerð á lagnaleiðum íbúðar á neðri hæð að nú kvíslist þær frá lögnum íbúðar á efri hæð í inntaksrými í kjallara. Séu neysluvatnslagnir fyrir íbúð efri hæðar óbreyttar. Kalt vatn í íbúð á neðri hæð fari nú fyrst inn í eldhús og þaðan inn á baðherbergi en áður hafi það verið öfugt. Umrædd breyting hafi því ekki áhrif á íbúð efri hæðar þar sem vatnið kvíslist frá áður en lögn fari inn í íbúð á neðri hæð.

Framangreindar framkvæmdir falli ekki undir skilyrði a.-c. liðar 41. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Dugi því samþykki einfalds meirihluta fyrir framkvæmdunum og hafi slíkt samþykki fylgt byggingarleyfisumsókn.

Niðurstaða: Svo sem rakið er í málavaxtalýsingu er upphaf máls þessa að rekja til ýmissa framkvæmda í íbúð á neðri hæð hússins að Laugarnesvegi 83 í mars 2020. Í október s.á. sóttu leyfishafar um byggingarleyfi til að stækka tvö dyraop og breyta lagn­a­leiðum í íbúð á neðri hæð og setja upp varmaskipti í kjallara og var sú umsókn samþykkt á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 19. janúar 2021. Eins og atvikum máls þessa er háttað verður því litið svo á að það sé hin kærða ákvörðun í máli þessu enda liggur ekki fyrir önnur stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. synjun um beitingu þvingunarúrræða. Verður þar af leiðandi ekki tekin afstaða til þeirrar kröfu kæranda að skúr á lóðinni verði fjarlægður.

Í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki er gerð krafa um að með byggingarleyfis­umsókn fylgi nauðsynleg gögn, þ.m.t. samþykki meðeigenda samkvæmt ákvæðum laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga verður ekki ráðist í framkvæmdir sem ekki hefur verið gert ráð fyrir í upphafi og á samþykktri teikningu nema allir eigendur samþykki, ef um er að ræða verulega breytingu á sameign, þar á meðal útliti hússins. Þá kemur fram í 2. mgr. ákvæðisins að sé um að ræða framkvæmdir sem hafi breytingar á sameign, utan húss eða innan, í för með sér sem þó geti ekki talist verulegar, þá nægi að 2/3 hlutar eigenda, bæði miðað við fjölda og eignarhluta, séu því meðmæltir. Að lokum er mælt fyrir um það í 3. mgr. að til smávægilegra breytinga og endurnýjana nægi þó alltaf samþykki einfalds meiri hluta miðað við eignarhluta.

Hinar umdeildu framkvæmdir fólu í sér stækkun dyraopa, breytingu á lagnaleiðum og upp­setningu á varmaskipti fyrir neysluvatnslögn. Fyrir liggur í máli þessu minnisblað byggingar­verkfræðings um að framkvæmdin hafi ekki áhrif á burð hússins. Að því virtu verður sú breyting er felur í sér stækkun dyraopa talin smávægileg í skilningi 3. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga og gildir hið sama um breytingu á lagnaleiðum í eldhúsi. Þá verður að telja uppsetningu á varmaskipti fyrir neysluvatnslögn fela í sér endurnýjun í skilningi sama ákvæðis. Með umsókn leyfishafa fylgdi tilskilið samþykki eigenda meiri hluta miðað við eignarhluta og getur því skortur á samþykki kæranda fyrir framkvæmdunum ekki varðað ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar. Þá verður ekki séð að aðrir form- eða efnisannmarkar séu á hinu kærða byggingar­leyfi sem raskað geti gildi þess og verður kröfu kæranda þar um því hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að „stækka tvö hurðargöt í íbúð 0101, breyta lagnaleiðum í eldhúsi og setja varmaskipti í kjallara húss nr. 83 við Laugarnesveg.“

24/2021 Birkihlíð

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 30. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur. Þá tók og þátt Ásgeir Magnússon dómstjóri um fjarfundabúnað.

Fyrir var tekið mál nr. 24/2021, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósar­hrepps frá 21. janúar 2021 um að hafna umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á lóðinni Birkihlíð 1, Kjósarhreppi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 3. mars 2021, er barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 4. s.m., kærir eigandi lóðarinnar Birkihlíðar 1 í Kjósarhreppi, landnr. 218849, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 21. janúar 2021 að hafna umsókn hans um byggingar­leyfi fyrir íbúðarhúsi á téðri lóð. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá skipulags- og byggingarfulltrúa Kjósarhrepps 30. mars 2021.

Málavextir: Kærandi öðlaðist eignarhald lóðarinnar Birkihlíðar 1 með nauðungarsöluafsali árið 2015. Í minnisblaði frá 30. október 2019, sem Kjósarhreppur lét gera vegna ágreinings um lóðarblað lóðarinnar, kemur fram að lóðin hafi verið stofnuð sem sérgreind íbúðarhúsalóð árið 2009 úr landi jarðarinnar Þúfukots. Af breytingasögu lóðarinnar hjá Þjóðskrá má ráða að lóðin hafi verið skráð sem slík eigi síðar en 2. desember 2012. Á fundi skipulags- og byggingar­nefndar 2. mars 2020 voru áform kæranda um byggingu íbúðarhúss á lóðinni samþykkt með fyrirvara um athugasemdalausa grenndarkynningu. Fór grenndarkynning fram 10. desember s.á., með fjögurra vikna fresti til að skila athugasemdum. Ein athugasemd barst þar sem því var haldið fram að fyrirhugaður byggingarreitur væri innan gildandi deiliskipulags fyrir frístunda­byggð. Umsókn kæranda um byggingarleyfi, dags. 3. nóvember s.á., var tekin fyrir á fundi skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps 21. janúar 2021 og synjað með vísan til fram­kominnar athugasemdar.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að deiliskipulag fyrir frístundabyggð sé frá árinu 1991. Það hafi verið handteiknað á blað og sé ekki í samræmi við kortasjár. Á skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar megi t.a.m. sjá að frístundabyggðin sé fyrir neðan veg en lóð kæranda sé hins vegar fyrir ofan veg. Þá undrist kærandi að Kjósarhreppur hafi getað skráð lóð sem íbúðarhúsalóð í skipulagðri frístundabyggð. Vísað sé til áðurnefnds minnisblaðs þar sem stofnun lóðarinnar sem íbúðarhúsalóðar og eignarhaldsskipti að henni hafi verið reifuð.

Málsrök Kjósarhrepps: Kjósarhreppur vísar til þess að umrædd lóð hafi verið stofnuð árið 2009 inn á gildandi deiliskipulag frístundabyggðar frá árinu 1992 og því hafi sveitarfélaginu ekki verið annað unnt en að synja erindinu. Þá tekur Kjósarhreppur undir það með kæranda að virst geti sem lóðin Birkihlíð 1 tilheyri ekki deiliskipulagssvæðinu og að á skipulagsvefsjá Skipulagsstofnunar virðist lóðin utan marka þess svæðis. Kjósarhreppur telji þó skjal með hnitasjá, sem sé á meðal gagna málsins, sýna fram á hið gagnstæða.

Niðurstaða: Í málinu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps að synja kæranda um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á lóð hans Birkihlíð 1, að undangenginni grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar skv. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Landnotkun á svæðinu er í gildandi Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2017-2029 að hluta skilgreind sem landbúnaðarsvæði en hluti landsins er ætlaður undir frístundabyggð. Áður var landnotkunin skilgreind í Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2005-2017. Af aðalskipulagsuppdrætti með Aðalskipulagi Kjósarhrepps 2005-2007 má ráða að jörðin Þúfukot hafi verið á landbúnaðarsvæði og að í næsta nágrenni hennar hafi verið gert ráð fyrir svæði fyrir landbúnað/búgarða, B3. Í greinargerð skipulagsins kom fram að framan­greint landsvæði væri skipulagt úr landi Þúfukots og væri 26,4 ha að stærð. Af aðalskipulagsuppdrætti gildandi aðalskipulags má ráða að jörðin Þúfukot er á landbúnaðar­svæði og að í næsta nágrenni hennar sé skipulagt svæði fyrir frístundabyggð, F6. Í kafla 2.2.2 í greinargerð gildandi aðalskipulags er að finna nánari umfjöllun um frístundabyggðir og er áðurnefnt svæði, F6, þar nefnt Þúfukot og m.a. nánar tilgreint að svæðið sé skipulagt að hluta fyrir allt að 12 lóðir og sé 16 ha að stærð. Á deiliskipulagsuppdrætti frá 1992, „Skipulag Þúfukots“, er gert ráð fyrir 13 lóðum og liggur vegur í gegnum svæðið, þar sem lóðir nr. 1-13 eru fyrir neðan veg og lóðir nr. 2-12 fyrir ofan veg. Á þeim uppdrætti eru lóðirnar hins vegar ekki hnitsettar og ekkert er þar tiltekið um landnotkun svæðisins. Framangreindir uppdrættir eiga það sameiginlegt að þeir sýna svæði norðvestan við Þúfukot að hlíð, sem samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti ber heitið Brekkur.

Af framangreindum skipulagsuppdráttum og gögnum málsins, þ. á m. áðurnefndu skjali með hnitaskrá frá verkfræðistofunni Eflu, dags. 30. desember 2020, og ódagsettu stofnskjali lóðarinnar, árituðu af byggingarfulltrúa Kjósarhrepps, verður sú ályktun dregin að lóðin Birkihlíð 1 sé staðsett á mörkum frístundabyggðar skv. núgildandi aðalskipulagi. Líkt og áður greinir tók Kjósarhreppur að nokkru undir það með kæranda að virst gæti sem lóðin Birkihlíð 1 tilheyrði ekki deiliskipulagssvæðinu og eins og skráning lóðarinnar í fasteignaskrá Þjóðskrár ber með sér hafa skipulagsyfirvöld sveitarfélagsins tilkynnt hana sem íbúðarhúsalóð á sínum tíma. Hreppurinn telji skjal með hnitaskrá hins vegar sýna fram á hið gagnstæða. Þar var vísað til skjalsins frá verkfræðistofunni Eflu. Áréttað skal að svæðið sem hér er til umfjöllunar hefur ekki verið deiliskipulagt sem frístundabyggð, heldur er í gildandi deiliskipulagi einvörðungu mælt fyrir um nánar tilteknar lóðir án þess að landnotkun þeirra sé þar skilgreind. Í aðalskipulagi er þó, líkt og áður greinir, afmarkað sérstakt svæði fyrir frístundabyggð norðvestan við Þúfukot, F6. Á skipulagsuppdrætti núgildandi aðalskipulags markast svæðið m.a. af vegslóða þannig að frístundabyggðin er fyrir neðan veg og landbúnaðarsvæði er fyrir ofan veg. Hefur kærandi haldið því fram að umrædd lóð hans sé fyrir ofan nefndan vegslóða. Á skipulagsuppdrætti núgildandi aðalskipulags er vegurinn sýndur sem bein lína á þeim vegkafla sem um ræðir. Af samanburði framangreindra skjala má þó ráða að áðurnefndur vegslóði er í reynd ekki alveg beinn.

Stofnskjal lóðar kæranda Birkihlíðar 1 er hnitsett. Hið sama á við um áðurnefnt skjal frá verkfræðistofunni Eflu, þar sem hnit eru skráð og gildandi deiliskipulag er dregið inn á loftmynd. Við samanburð þeirra kemur í ljós að hnit lóðarinnar samkvæmt skjölunum eru þau sömu. Stofnskjal lóðarinnar sýnir hins vegar lóðina alfarið liggja fyrir ofan beinan veg á meðan loftmynd Eflu sýnir að vegurinn, sem ekki er sýndur beinn, liggur í gegnum lóðina. Af loft­myndinni má ráða að lóðin sé ekki í samræmi við áðurnefnt deiliskipulag og nær að mismiklu leyti yfir fjórar lóðir samkvæmt deiliskipulaginu, þ.e. lóðir nr. 11 og 13 fyrir neðan veg og lóðir nr. 10 og 12 fyrir ofan veg. Mörk umræddrar frístundabyggðar samkvæmt núgildandi aðal­skipulagi eru miðuð við veginn.

Af samanburði gagna málsins sem hér hafa verið reifuð verður að telja að lóðin Birkihlíð 1 nái yfir fyrrgreindan veg og taki að hluta yfir lóðir nr. 11 og 13 fyrir neðan veg. Lóðin er því bæði innan og utan frístundabyggðar samkvæmt gildandi aðalskipulagi. Þar af er stór hluti lóðarinnar utan þess svæðis sem samkvæmt skipulaginu er skilgreint sem svæði fyrir frístundabyggð. Ekki liggur fyrir að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið til skoðunar hvort íbúðarhús það sem kærandi sótti um byggingarleyfi fyrir kynni að vera innan landbúnaðarsvæðis og lyti þ.a.l. öðrum skilmálum en væri það innan frístundabyggðar.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja rökstuðning hinnar kærðu ákvörðunar haldinn slíkum annmörkum að leiða eigi til ógildingar hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Kjósarhrepps frá 21. janúar 2021 um að synja umsókn kæranda um byggingarleyfi fyrir íbúðarhúsi á lóð hans Birkihlíð 1.

1/2021 Hótel Holt

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 8. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson vara­formaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verk­fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 1/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2020 um að samþykkja reyndarteikningar fyrir áður gerðum loftstokkum upp úr þaki bakbyggingar fasteignarinnar Bergstaðastrætis 37.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. janúar 2021, kærir eigandi Óðinsgötu 24a þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2020 að samþykkja reyndarteikningar fyrir áður gerðum loftstokkum upp úr þaki bakbyggingar fasteignarinnar Bergstaðastrætis 37. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. mars 2021.

Málavextir: Hinn 13. júní 2018 var sótt um byggingarleyfi fyrir áður gerðum loftstokkum upp úr þaki bakbyggingar að Bergstaðastræti 37 samkvæmt reyndarteikningum. Erindinu fylgdi umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 26. apríl s.á. Niðurstaða umsagnarinnar var að frekari afstaða til byggingarleyfisins yrði tekin þegar ítarlegri uppdrættir bærust og að teikningar yrðu grenndarkynntar.

Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. júlí 2020 þar sem samþykkt var að vísa málinu til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu. Á fundi skipulags­fulltrúa 10. s.m. var samþykkt að grenndarkynna umsóknina um uppsetningu loftstokkanna fyrir hagsmunaaðilum frá 18. ágúst til og með 15. september 2020 og bárust athugasemdir, m.a. frá kæranda, sem er eigandi fasteignarinnar Óðinsgötu 24a, sem liggur að lóð umsækjanda. Lutu þær að því að um væri að ræða heilsuógnandi hávaða­mengun, mikið ónæði vegna lyktar og almenna sjónmengun vegna búnaðarins. Athugasemdunum var svarað fyrir hönd skipulags­fulltrúa 2. október s.á. Skipulagsfulltrúi tók erindið fyrir að lokinni grenndarkynningu og vísaði því til samgöngu- og skipulagsráðs á fundi sínum 4. desember 2020. Erindið var síðan samþykkt á fundi skipulagsfulltrúa 16. s.m. og byggingaráform síðan samþykkt á afgreiðslufundi byggingar­­fulltrúa 22. s.m.

Málsrök kæranda: Kærandi telur að í umsögn starfsmanns á skrifstofu byggingarfulltrúa séu athugasemdir hans gerðar léttvægar við samþykkt á hinni kærðu byggingarleyfisumsókn, en sú umsögn hafi verið afgerandi við afgreiðslu málsins. Óleyfisframkvæmdir frá árinu 2007 séu gerðar leyfilegar með tilvísun í meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hins vegar sé ekki tekið tillit til athugasemda kæranda í ljósi þeirrar reglu þó svo að hið kærða byggingarleyfi skerði rétt kæranda sem borgara og valdi mikilli röskun á lífsrými hans og annarra íbúa að Óðinsgötu 24a. Ákvæðum í byggingarreglugerð nr. 112/2012 um fjarlægð nýbygginga og grindverka við lóðamörk sé ekki fylgt, hvorki af byggingarfulltrúa né skipulagsfulltrúa, við samþykkt byggingar­leyfisins.

Tillaga kæranda að lausn hafi verið sú að Hótel Holt, sem er að Bergstaðastræti 37, hýsi loftstokka innanhúss sem sé nútímalausn, og að frásogsbúnaður og annar viftubúnaður verði staðsettur við bílastæði hótelsins. Engin starfsemi hafi verið í hótelinu undanfarna mánuði en samt hafi eldhúsvifturnar á þakinu verið keyrðar allan sólarhringinn frá 25. nóvember 2020 með tilheyrandi hávaðamengun og röskun. Samband hafi verið haft við heilbrigðiseftirlitið vegna þessa.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Borgaryfirvöld vísa til þess að í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 2. október 2020 sé athugasemdum kæranda svarað. Fram komi í umsögninni að í athuga­semdum kæranda hafi forsaga málsins verið rakin allt aftur til ársins 2008 þegar útblásturs­búnaði hafi verið komið fyrir á þaki viðbyggingar hótelsins 3,4 m frá lóðarmörkum Óðinsgötu 24a. Útblástursbúnaðurinn sé beint fyrir framan glugga á jarðhæð og fyrstu hæð hússins og sé að sögn kæranda mjög hávaðasamur. Í umsögn skipulagsfulltrúa sé athugasemdum kæranda svarað með ítarlegum hætti og beri umsögnin með sér að málið hafi verið rannsakað með fullnægjandi hætti. Ítarlega sé gerð grein fyrir ferli málsins, áhyggjur kæranda um skuggavarp séu ávarpaðar og afstaða tekin til þeirra á grundvelli greiningar á skuggavarpi, sbr. umsögn skipulagsfulltrúa. Skipulagsleg staða hótelsins sé skýr og gildandi skipulagsheimildir heimili starfsemina. Öll málsmeðferð hafi verið í samræmi við kröfur 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 5.9. gr. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Skipulagsfulltrúi hafi lagt mat á hvaða nágrannar kynnu að verða fyrir grenndaráhrifum af framkvæmdinni, þeim aðilum hafi verið gefinn kostur á að koma að athugasemdum, sem hafi verið svarað í umsögn sem samþykkt hafi verið í skipulags- og samgönguráði Reykjavíkur sbr. 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Hvorki lög um mannvirki nr. 160/2010 né byggingarreglugerð nr. 112/2012 útiloki að umsókn um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir skv. 2.3.1. gr., sem gerðar hafi verið í óleyfi, séu síðar samþykktar, enda uppfylli þær kröfur laga um mannvirki og byggingarreglugerðar. Tekið sé undir það sem fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa um beitingu meðalhófs við töku hinnar kærðu ákvörðunar í samræmi við skráðar sem óskráðar meginreglur stjórnsýsluréttarins, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Fjarlægð milli bygginga fari eftir ákvæðum í gildandi deiliskipulagi, sé því til að dreifa. Þar að auki skuli uppfylla meginreglu gr. 9.7.5. í byggingarreglugerð þar sem fram komi að bil milli bygginga skuli vera nægjanlega mikið til að ekki sé hætta á að eldur nái að breiðast út á milli þeirra. Viðmiðunarreglur greinarinnar sem tilgreini tiltekna metra milli bygginga gildi einungis ef ekki sé hægt að uppfylla framangreinda meginreglu. Að öðru leyti séu ekki frekari reglur um fjarlægð milli fasteigna. Varðandi málsástæðu um að fjarlægð grindverka sé í ósamræmi við byggingarreglugerð þá verði ekki séð að samþykktir aðaluppdrættir tilgreini girðingu. Ákvæði f-liðar í gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð gildi um girðingar á lóðarmörkum, eftir því sem við eigi. Sé girðing á lóðarmörkum skuli afla samþykkis eiganda aðliggjandi lóðar og leiði slíkt til þess að girðing undir 1,8 m krefjist ekki byggingarleyfis skv. 2.3.1. gr. byggingarreglugerðar, sbr. 9. gr. laga um mannvirki.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að þegar kvörtun hafi borist vegna hávaða og matarlyktar frá nágranna hótelsins árið 2018 hafi verið brugðist við með því að fá arkitekt til að teikna hvernig rör frá útblástursröri eldhúss færi upp með baklið hússins. Svar við því erindi hafi ekki borist fyrr en 22. desember 2020. Leyfishafi tekur fram að ráðist verði í framkvæmdir um vorið og að beðið sé eftir rekstrarleyfi.

Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi telur greinargerð byggingarfulltrúa fyrst og fremst vera tilraun til að réttlæta ákvörðun hans um að veita byggingarleyfi fyrir áratuga óleyfis­framkvæmdum. Rangt sé að málið hafi verið rannsakað með fullnægjandi hætti, svo sem að skuggavarp, hljóðvist og grenndaráhrif fyrirhugaðrar byggingar hafi verið mæld. Kærandi hafi hvorki fengið upplýsingar um né verið viðstaddur slíkar mælingar og dragi þær því í efa.

Kærandi geri athugasemd við að tekið sé fram að skipulagsleg staða hótelsins sem lögaðila sé skýr en að ekki gildi sömu réttindi um skipulagslega stöðu hússins Óðinsgötu 24a. Byggingar­fulltrúi dragi í efa gildandi lóðarmörk Óðinsgötu 24a þar sem þau séu ekki afmörkuð með girðingu og vísi til ákvæðis f-liðar gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Það eigi ekki við í þessu máli þar sem Hótel Holt ætli að reisa smáhýsi of nærri lóðarmörkum, þ.e. í 2,4 m fjarlægð. Í því tilviki eigi g-liður gr. 2.3.5. í reglugerðarinni við. Ekki sé um girðingu að ræða heldur smáhýsi og fyrirtækið þurfi því skriflegt samþykki frá kæranda.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 kemur fram að þegar sótt sé um byggingarleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggi ekki fyrir geti sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hafi til fullnaðarafgreiðslu mála ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggða­mynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laganna felst grenndarkynning í því að skipulagsnefnd kynnir nágrönnum sem taldir eru geta átt hagsmuna að gæta leyfisumsókn og gefur þeim kost á að tjá sig um hana innan tilskilins frests, sem skal vera a.m.k. fjórar vikur. Að þeim fresti liðnum og þegar sveitarstjórn hefur afgreitt málið skal þeim sem tjáðu sig um það tilkynnt niðurstaða sveitarstjórnar.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er Bergstaðastræti 37 á íbúðarsvæðinu ÍB10 Þingholt. Samkvæmt kafla aðalskipulagsins um landnotkun er íbúðarbyggð (ÍB) svæði fyrir íbúðarhúsnæði og nærþjónustu sem því tengist, auk minniháttar atvinnustarfsemi sem sam­rýmist búsetu, eftir því sem nánar er kveðið á um í stefnu skipulagsins. Framangreind skil­greining er samhljóða þeirri skilgreiningu sem birtist í a-lið gr. 6.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Í landnotkunarkafla aðalskipulags, sbr. einnig kaflann Gatan sem borgarrými, kemur fram um íbúðarbyggð að „[m]eðfram aðalgötum (sjá mynd 1) er heimil fjölbreyttari landnotkun, þó grunn skil­greining lóða við götuna sé íbúðarsvæði. Hér er einkum um að ræða starfsemi sem fellur undir flokkana verslun og þjónusta (VÞ, að skemmtistöðum undanskildum) og samfélagsþjónusta (S). Verslun og þjónusta á jarðhæðum getur verið heimil, svo og mögulega veitingastaðir í flokki I og II og gististaðir í flokki II-III.“ Síðan segir: „Rýmri heimildir um landnotkun gilda eingöngu um hús sem standa við viðkomandi aðalgötu og ná einkum til jarðhæða þegar um verslun, þjónustu og veitingastaði er að ræða. Ef þörf krefur eru sett nánari ákvæði um land­­notkunarheimildir við aðalgötur í hverfis- og eða deiliskipulagi.“ Með breytingu á aðal­skipulaginu, sem gerð var í mars 2018 var framangreindum heimildum breytt. Eftir breytingu hljómar seinni hluti framangreinds ákvæðis aðalskipulags um aðalgötur svo: „Rýmri heimildir um landnotkun gilda eingöngu um hús sem standa við viðkomandi aðalgötu, hér með talin hornhús sem hafa mögulega lóðanúmer við hliðargötu* og ná einkum til jarðhæða þegar um verslun, þjónustu og veitingastaði er að ræða. […] Í hverfis- eða deiliskipulagi verði sett nánari ákvæði um starfsemi við aðalgötur, m.a. mögulegar takmarkanir á starfsemi, eftir því sem þurfa þykir.“

Lóðin Bergstaðastræti 37 stendur við aðalgötu og ekki er í gildi hverfis- eða deiliskipulag fyrir svæðið. Verði því að telja að heimilt hafi verið að grenndarkynna hinar umdeildu breytingar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga, þar sem þær snúa að veitingastarfsemi sem rúmast innan heimilda aðalskipulags.

Athugasemdir kæranda við grenndarkynningu sneru einna helst að hávaða og lyktarmengun vegna loftstokka á þaki Bergstaðastrætis 37. Loftstokkunum mun hafa verið komið fyrir á þaki hússins árið 2007, u.þ.b. 3,4 m frá lóðarmörkum kæranda. Óumdeilt er að hin umdeilda framkvæmd hafi á sínum tíma verið gerð án byggingarleyfis. Starfsmenn Heil­brigðis­eftirlits Reykjavíkur munu hafa staðfest kvartanir vegna ónæðis frá búnaðinum en ekkert aðhafst þar sem þeir hafi talið að byggingarfulltrúi hefði gert kröfu um að búnaðurinn yrði fjarlægður.

Fyrir liggur að ekki hefur farið fram rannsókn á núverandi ástandi með tilliti til hljóð- og lyktar­mengunar en að slíkt standi til. Þrátt fyrir að æskilegt hefði verið að sú rannsókn hefði farið fram áður en hið umdeilda byggingarleyfi var veitt verður að líta til þess að ekki er fyrir hendi lagaleg skylda til að framkvæma slíka rannsókn við meðferð byggingarleyfisumsóknar. Verður því ekki fallist á að skortur á slíkri rannsókn varði ógildingu byggingarleyfisins.

Af hálfu leyfishafa hefur komið fram að hann hafi fengið bráðabirgðarekstrarleyfi vegna veitingastarfsemi að Bergstaðastræti 37 og beðið sé eftir rekstrarleyfi. Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald er útgáfa rekstrarleyfis háð því að kröfur á grundvelli laga um hollustuhætti og mengunarvarnir séu uppfylltar. Í 3. mgr. 11. gr. sömu laga er sérstaklega nefnt að í rekstrarleyfi skuli koma fram skilyrði sem sett séu fyrir leyfi sem snúi m.a. að hávaða. Fjallað er um mengun af völdum m.a. hávaða og ólyktar í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998, sbr. 6. mgr. 3. gr. nefndra laga. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna skal allur atvinnu­rekstur, sbr. viðauka I, II og IV, hafa gilt starfsleyfi. Í viðauka IV er fjallað um starfsemi sem heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi fyrir. Í 40. tölul. viðaukans eru tilgreindir gististaðir og í 107. tölul. veitingastaðir. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna skal gefa starfsleyfi til tiltekins tíma. Útgefanda starfsleyfis er heimilt að endurskoða og breyta starfsleyfi áður en gildistími þess er liðinn vegna breyttra forsendna, svo sem ef mengun af völdum atvinnurekstrar er meiri en búist var við þegar leyfið var gefið út.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Rétt þykir að benda á að skv. 47. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir ber heilbrigðisnefnd að sjá um að ákvæðum laganna og reglugerða settra samkvæmt þeim sé framfylgt. Kærandi á þess kost að leita til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og fá úr því skorið hvort hávaða- og lyktarmengun frá starfsemi við Bergstaðastræti 37 sé í samræmi við leyfi, lög og reglur, þ. á m. reglugerð um hávaða nr. 724/2008.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 22. desember 2020 um að samþykkja reyndarteikningar fyrir áður gerðum loftstokkum upp úr þaki bakbyggingar fasteignarinnar Bergstaðastrætis 37.

3/2021 Dunhagi

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 18. maí kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar í Borgartúni 21 í Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverk-fræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 3/2021, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 15. október 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir reit, sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46, og ákvörðun byggingarfulltrúans í  Reykjavík frá 12. janúar 2021 að samþykkja byggingaráform vegna Dunhaga 18-20.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. janúar 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Hjarðarhaga 27 þá ákvörðun borgarráðs Reykjavikur að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðar­haga 27-33 og Tómasarhaga 32-46. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Með bréfum til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. og 17. janúar 2021, er bárust úrskurðarnefndinni samdægurs, kæra jafnframt eigandi, Hjarðarhaga 44, eigendur, Tómasarhaga 32, sömu ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur með kröfu um ógildingu hennar. Verða þau kærumál, sem eru nr. 7/2021, 8/2021 og 9/2021, sameinuð máli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í öllum málunum til ógildingar og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 19. apríl 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, persónulega og fyrir hönd allra annarra eigenda að Hjarðarhaga 27, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2021 að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 með kröfu um ógildingu hins kærða byggingarleyfis. Þá er gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt leyfinu verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda. Verður það kærumál, sem er nr. 50/2021, sameinað máli þessu þar sem hinar kærðu ákvarðanir eru samofnar.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 19. febrúar og 27. apríl 2021.

Málavextir: Mál þetta á sér nokkra forsögu, en á afgreiðslufundi 9. janúar 2018 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 í kjölfar grenndar­kynningar. Fól það leyfi í sér heimild til að byggja inndregna hæð ofan á núverandi hús, viðbyggingu við fyrstu hæð hússins og kjallara, minnka og fjölga íbúðum í húsinu úr 8 í 20, koma fyrir lyftu utan á húsinu og sorpgerði fyrir verslun í rými 0106. Sú afgreiðsla byggingar­fulltrúa var staðfest í borgarráði 11. janúar 2018. Það byggingarleyfi var kært til úrskurðar­nefndar umhverfis- og auðlindamála með kærum, dags. 4., 5. og 8. maí 2018. Með úrskurði í máli nr. 69/2018, uppkveðnum 20. júlí s.á., var byggingarleyfið fellt úr gildi þar sem það átti sér ekki stoð í deiliskipulagi og skilyrði grenndarkynningar þóttu ekki fyrir hendi.

Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 19. október 2018 var lögð fram umsókn um nýtt deiliskipulag fyrir Dunhaga 18-20. Fól umsóknin í sér heimild til að byggja hæð ofan á núverandi fjölbýlishús og fyrir aftan húsið, nýtt lyftuhús og viðbyggingu á einni hæð auk kjallara. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 12. desember s.á. var lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi fyrir svæði sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasar­haga 32-46. Í tillögunni fólst niðurrif og uppbygging á lóð nr. 18-20 við Dunhaga auk bílskúrsheimilda á tveimur lóðum. Var samþykkt að auglýsa framlagða tillögu skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og var málinu vísað til borgarráðs, sem samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum 20. desember 2019. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 8. febrúar 2019 var málið tekið fyrir að nýju og lagt fram bréf tveggja aðila sem óskuðu eftir ítarlegri gögnum um skuggavarp og framlengingu á fresti til að leggja fram athugasemdir. Samþykkt var að framlengja athugasemdafrest til 22. s.m. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 15. febrúar 2019 var umsóknin lögð fram auk leiðrétts skuggavarpsuppdráttar og fylgdu drög að húsakönnun Borgarsögusafns Reykjavíkur með umsókninni. Var málinu vísað til skipulags- og samgönguráðs, sem tók það fyrir á fundi sínum 20. s.m. og samþykkti að endurauglýsa framlagða tillögu að nýju deiliskipulagi með leiðréttu skuggavarpi, dags. 8. febrúar 2019, skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi borgarráðs 6. mars s.á. Var tillagan auglýst frá 26. febrúar til 9. apríl 2019.

Að lokinni auglýsingu var umsóknin lögð fram á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 12. apríl 2019 og henni vísað til umsagnar verkefnisstjóra. Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 10. maí s.á. var málið tekið fyrir að nýju og vísað til skipulags- og samgönguráðs. Á fundi þess 15. s.m. var málinu frestað. Málið var svo tekið fyrir að nýju á fundi skipulags- og samgönguráðs 29. maí 2019 og var þar samþykkt umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. s.m. Á fundi borgarráðs 6. júní s.á. var tillaga um nýtt deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga, Hjarðarhaga og Tómasarhaga samþykkt. Auglýsing um gildistöku þess skipulags birtist í B-deild Stjórnartíðinda 23. júlí 2019. Með kærum, dags. 17. og 23. ágúst 2019, var ákvörðun borgarráðs frá 6. júní s.á um samþykki deiliskipulagsins kærð til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði, uppkveðnum 20. mars 2020, í máli nr. 80/2019, var ákvörðun borgarráðs felld úr gildi þar sem skilyrði til þess að falla frá gerð lýsingar skv. 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga hafi ekki verið uppfyllt.

Á fundi skipulags- og samgönguráðs hinn 15. apríl 2020 var lögð fram skipulagslýsing fyrir gerð nýs deiliskipulags fyrir umrætt svæði. Í tillögunni fólst að festa í sessi leiksvæði á borgarlandi og hverfisvernd byggðar við Hjarðarhaga og Tómasarhaga með minniháttar heimildum til breytinga þ. á m. bílskúrsheimildum á tveimur lóðum, niðurrifi bílskúra og uppbyggingu á lóð nr. 18-20 við Dunhaga. Lýsing var samþykkt til kynningar og umsagnar með vísan til 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga. Var hún gerð aðgengileg á vef Reykjavíkurborgar og send til umsagnar umsagnaraðila auk þess að vera auglýst í Fréttablaðinu. Í lýsingunni kom m.a. fram að markmið skipulagsins væri að efla verslun og þjónustu í hverfinu og þétta byggð. Fjallað var um skipulagssvæðið og afmörkun þess. Vísað var til húsakönnunar og fyrirhugaðar breytingar á lóðum og mannvirkjum taldar upp. Þá fylgdu skuggavarps­uppdrættir og fyrirhuguðu skipulags- og samráðsferli var lýst.

Í maí 2020 samþykkti skipulags- og samgönguráð og borgarráð að auglýsa deiliskipulagstillögu fyrir umræddan skipulagsreit. Samkvæmt tillögunni voru afmarkaðir byggingarreitir fyrir bílskúra á lóðunum Tómasarhaga 38 og 44 og Hjarðarhaga 29. Kom fram að lóð Dunhaga 18-20 myndi minnka til austurs og bílskúrar á baklóð yrðu rifnir. Skilgreindir yrðu byggingarreitir fyrir inndregna hæð ofan á núverandi byggingu, fyrir stækkuð stigahús beggja stigaganga til að koma fyrir lyftum og fyrir viðbyggingu á baklóð með kjallara. Notkun fyrstu hæðar yrði skilyrt fyrir verslunarrekstur og íbúðum í húsinu fjölgað. Tillagan var auglýst frá 17. júlí til og með 31. ágúst 2020 og bárust athugasemdir á kynningartíma. Umsögn skipulagsfulltrúa um framkomnar athugasemdir er dagsett 18. september 2020. Á fundi skipulags- og samgönguráðs 7. október 2020 var deiliskipulagstillagan samþykkt og henni vísað til borgarráðs, sem samþykkti hana 14. desember s.á. með þeim breytingum og lagfæringum sem lagðar voru til í umsögn skipulagsfulltrúa.

Með bréfi, dags. 18. nóvember 2020, tilkynnti Skipulagsstofnun að hún gerði ekki athugasemd við birtingu auglýsingar um samþykkt deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda. Deili­skipulagið tók gildi með auglýsingu þess efnis 17. desember 2020 og hefur samþykkt þess nú verið borin undir úrskurðarnefndina, svo sem að framan greinir.

Hinn 12. janúar 2021 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um byggingarleyfi til að byggja inndregna 4. hæð á húsið að Dunhaga 18-20, reisa viðbyggingu við 1. hæð og kjallara, minnka og fjölga íbúðum úr 8 í 21, fyrir breytingum á húsinu að innan og utan, til að færa sorpstæði verslunar á norðvesturhlið hússins og koma fyrir tveimur bílastæðum fyrir fatlaða á norðvesturhlið lóðarinnar að Dunhaga 18-20 á grundvelli hins nýsamþykkta deiliskipulags. Var þeirri ákvörðun einnig skotið til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan er rakið.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda að Hjarðarhaga 27 er vísað til þess að Reykjavíkurborg hafi verið óheimilt að framselja deiliskipulagsgerð fyrir umræddan skipulagsreiti til D18 ehf. og THG Arkitekta ehf. Engin heimild sé í lögum til að fela þessum aðilum að vinna deiliskipulag fyrir lóð kærenda, eins og nú hafi verið gert. Undanfarandi lýsing hafi verið ófullkomin, ekki í samræmi við aðalskipulag og ekki þjónað hlutverki sínu um samráð við íbúa. Deiliskipulagið eigi sér ekki stoð í aðalskipulagi enda raski það bæði stefnu um hverfisvernd og verndun ásýndar og heildaryfirbragðs í grónum hverfum. Aðalskipulag sé deiliskipulagi rétthærra enda þurfi deiliskipulag að vera í samræmi við aðalskipulag. Íbúar og eigendur fasteigna á svæðinu verði að geta treyst gildandi aðalskipulagi. Borgaryfirvöld geti ekki tekið órökstuddar hagnaðarvonir fjárfesta og framkvæmdaraðila fram yfir lögvarða hagsmuni íbúa svæðisins. Markmið deiliskipulags í lýsingu sé sagt vera þétting byggðar, sem ekki sé í samræmi við aðalskipulag, auk þess sem efla eigi verslun að Dunhaga 18-20. Breytingar á húsinu á þeirri lóð gangi mun lengra en nauðsynlegt sé til að efla verslun í húsinu og tengsl deiliskipulags við eflingu verslunar órökrétt og þar með ómálefnalegt. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafi þegar tekið af skarið um að þétting byggðar sé meiri en gangi og gerist á svæðinu og margháttaðri en íbúar megi búast við. Ekki sé skilgreindur fjöldi verslana og opnunartími í húsinu Dunhaga 18-20 í sérskilmálum til þess að tryggja að það verði raunverulegur nærþjónustukjarni, sbr. t.d. bls. 182 í aðalskipulagi, en ekki bara ein stórverslun sem ekki sé nærþjónustukjarni. Umfang skuggavarps á Hjarðarhaga 27 sé óljóst í skipulags­gögnum og einungis metið með matskenndum og huglægum þáttum. Hvorki sé gerð tilraun af hálfu skipulagshöfunda né Reykjavíkurborgar til að setja fram hlutlægt mat og bera slíkt mat saman við aðrar framkvæmdir eða deiliskipulagsáætlanir.

Kærandi að Hjarðarhaga 44 bendir á að fyrirhugaðar breytingar á húsi nr. 18-20 við Dunhaga muni skerða útsýni efstu hæða í húsinu að Hjarðarhaga 44, 46 og 48, valda auknu skuggavarpi í hverfinu og séu til þess fallnar að rýra verðgildi viðkomandi fasteigna. Hvorki sé fjallað um þessi atriði í deiliskipulaginu né vikið að skerðingu útsýnis frá fjölbýlishúsum við Hjarðarhaga í lýsingu sem gerð hafi verið fyrir auglýsingu deiliskipulagsins. Ekki hafi verið gert ráð fyrir neinu samráði við íbúa og hafi kærandi ekki haft möguleika á aðkomu að deiliskipulagsferlinu, svo sem lög geri ráð fyrir. Deiliskipulagið gangi gegn ákvæðum aðalskipulags um vernd ásýndar hverfisins, sem sé gróið og fullbyggt. Þá eigi rök um þéttingu byggðar sér ekki stoð í aðalskipulagi.

Af hálfu kærenda að Tómasarhaga 32 er á það bent að auglýsing skipulagslýsingar fyrir nýtt deiliskipulag hafi verið ófullnægjandi þar sem ekki hafi verið tekið fram hvert athugasemdir skuli sendast, en slíkt eigi að koma fram samkvæmt gr. 5.2.4. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013. Þá geti auglýsing í Fréttablaðinu, sem 37% landsmanna lesi daglega samkvæmt könnun Gallup, ekki talist fullnægjandi samkvæmt nefndri grein skipulagsreglugerðar. Framsetning deili­skipulagsins sé ófullnægjandi þar sem að mynd og texti rími ekki saman. Á sniðmynd sé sýnd bifreið á stað þar sem texti segi að bílastæði verði tekin út og sett gangstétt í staðinn. Þetta skapi vafa um endanlega framkvæmd. Þá sé þar að auki villandi að í texta deiliskipulagsins sé fullyrt að fjöldi hæða húsa aðliggjandi reita sé mest fjórar. Samkvæmt deiliskipulagi fyrir Fálkagötu, sem vísað sé til í þessu samhengi, komi skýrt fram að blokkir sem standi við Dunhaga nr. 19, 21 og 23 séu þrjár hæðir og kjallari en ekki fjórar, eins og lesa megi úr hinu kærða deiliskipulagi. Hvert einasta hús á Fálkagötureitnum sé lægra en fjórar hæðir.

Annar kærenda að Tómasarhaga 32 tekur fram að málsmeðferð umdeilds deiliskipulags hafi ekki verið í samræmi við lög. Þrátt fyrir forsögu málsins og ítrekuð mótmæli hafi kærendum eða öðrum hagsmunaaðilum hvorki verið gefinn kostur á að taka þátt í undirbúningi að gerð lýsingar né tilkynnt að hún hafi verið birt á heimasíðu borgarinnar í andstöðu við áskilnað gr. 5.2.4. í skipulagsreglugerð. Kærendur hafi þó gert athugasemdir við skipulagslýsinguna, sem hafi ekki verið svarað af hálfu borgarinnar, og sé ekki verði séð að tekið hafi verið tillit til þeirra nema að mjög litlu leyti. Þegar tillaga að deiliskipulagi hafi verið auglýst 17. júlí 2020 hafi kærendur auk fjölmargra annarra gert athugasemdir við tillöguna sem hafi ekki verið svarað frekar en athugasemdum við lýsinguna. Það hafi ekki verið fyrr en með bréfi, dags. 29. október 2020, sem kærendum hafi verið tilkynnt um afgreiðslu borgarráðs á deiliskipulagstillögunni og þeim sendur hlekkur á umsögn skipulagsfulltrúa  dagsettri 18. september 2020. Framangreint ferli sé ekki í samræmi við skipulagslög nr. 123/2010, skipulagsreglugerð eða stjórnsýslulög nr. 37/1993. Einnig virðist sem hvorki skipulags- og samgönguráð né borgarráð hafi samþykkt endanlegt deiliskipulag og hafi því málsmeðferð, samþykkt og afgreiðsla deiliskipulagsins verið andstæð lögum. Í fundargerð skipulagsráðs frá 7. október 2020 hafi deiliskipulagstillagan verið tekin fyrir og samþykkt. Í fundargerð fundarins sé að finna skjal með fylgigögnum en hið kærða deiliskipulag sé ekki að finna þar, heldur einungis skuggavarps­uppdrætti, fornleifaskrá, húsakönnun og umsögn skipulagsfulltrúa. Þá sé hið kærða deili­skipulag ekki heldur að finna í þeim fylgigögnum sem legið hafi fyrir á fundi borgarráðs 15. október s.á. þar sem það hafi verið samþykkt. Eftir skoðun á fundargerðum borgarráðs frá september 2020 til ársloka það ár  sé ljóst að þetta sé eina tilvikið þar sem deiliskipulag hafi verið samþykkt í borgarráði án þess að deiliskipulagstillaga hafi verið meðal fundargagna. Samþykkt skipulags- og samgönguráðs sé því andstæð lögum og í raun markleysa, enda hafi hvorki skipulags- og samgönguráð né borgarráð samþykkt endanlegt deiliskipulag svæðisins.

Einnig sé vísað til þeirrar gríðarmiklu uppbyggingar sem deiliskipulagið geri ráð fyrir á Dunhaga 18-20. Gert sé ráð fyrir fjölgun íbúða í húsinu úr 8 í 23, byggingarmagn sé aukið um 950 m2, eða um 57%, nýtingarhlutfall hækki úr 0,86 í 1,38, eða um ríflega 60%, og verði þar með meira en á öllum öðrum lóðum á skipulagsreitnum. Þar sem um verulega aukningu íbúða, byggingarmagns og verulega stækkun á einu húsi sé að ræða telji kærendur nauðsynlegt að gert verði hverfisskipulag fyrir Vesturbæinn, eins og mælt sé fyrir um í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, þar sem sett verði fram heildstæð stefnumörkun um þéttingu byggðar í Vesturbænum.

Efni deiliskipulagsins sé ekki í samræmi við lagaáskilnað. Ófullnægjandi grein sé gerð fyrir fyrirhugaðri uppbyggingu á Dunhaga 18-20 og þá sérstaklega hvað varði verslunarrekstur á jarðhæð hússins. Skilgreind landnotkun svæðisins sé íbúðabyggð samkvæmt aðalskipulagi, en gert ráð fyrir nærþjónustu að Dunhaga 18-20. Í aðalskipulagi sé nærþjónustukjarni skilgreindur svo: „Nærþjónustukjarnar. Kaupmaðurinn á horninu. Minni matvöruverslanir, bakarí, fiskbúðir og annað til daglegra þarfa innan hverfa. Íbúðir geta verið á efri hæðum viðkomandi bygginga. Nærþjónustukjarnar eru að jafnaði ekki skilgreindir sérstaklega á uppdrætti aðalskipulags sem verslun og þjónustu (VÞ) og eru því skilgreindir sem íbúðarbyggð í aðalskipulagi.“ Engin iðnaður eða verslun hefur verið í húsinu um langa hríð og yrði því um verulega breytingu á notkun húsnæðisins að ræða ef þarkæmi verslun eða önnur þjónusta. Hefði þurft að fjalla ítarlegar um framangreind atriði í deiliskipulagi en gert sé. Kærendur geri til dæmis kröfu um að opnunartími verði afmarkaður. Þá sé stækkun á húsnæði við Dunhaga 18-20 ekki í neinu samræmi við byggðamynstur deiliskipulagsreitsins, hæð annarra húsa á reitnum, húsagerð eða stærð íbúða. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skuli við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið en ekki verði séð að svo hafi verið gert. Á svæðinu búi mörg börn og í nágrenninu séu margir leikvellir og göngustígar og börn séu mikið á ferli. Jafnframt gangi mörg börn fram hjá Dunhaga 18-20 á leið í og úr skóla. Þessi mikla fjölgun íbúða og tilheyrandi nærþjónusta muni auka umferð við Dunhaga 18-20. Þetta skapi verulega aukna hættu, óþægindi og hávaðamengun fyrir núverandi íbúa í grenndinni.

Kærandi umdeilds byggingarleyfis telur það leyfi haldið sömu annmörkum og það deiliskipulag sem liggi til grundvallar byggingarleyfinu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að í kjölfar úrskurðar í kærumáli sem varðað hafi deiliskipulagsgerð fyrir umrætt svæði hafi verið unnin skipulagslýsing fyrir Dunhaga – Hjarðarhaga – Tómasarhaga, sem hafi verið auglýst fyrir gerð deiliskipulagstillögunnar, sem einnig hafi verið auglýst samkvæmt ákvæðum skipulagslaga nr. 123/2010. Ekki sé hægt að fallast á að Reykjavíkurborg hafi framselt skipulagsvaldið þótt lóðarhafar Dunhaga 18-20 hafi komið að gerð tillögunnar. Ákvörðunarvald um útfærslu skipulagsins, málsmeðferð og endanleg afgreiðslu þess sé á hendi sveitarstjórnar eftir sem áður. Öllum lóðarhöfum á reitnum hafi gefist kostur á að koma að athugasemdum við meðferð tillögunnar, en ekki hafi verið hægt að gera ráð fyrir miklum breytingum á lóðum kærenda þar sem þær séu að mestu fullbyggðar auk þess sem þær séu í verndunarflokki.

Deiliskipulagið sé unnið í fullu samræmi við stefnu og áherslur gildandi Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Gert sé ráð fyrir því að borgin þéttist á aðalskipulagstímabilinu innan núverandi byggðamarka. Allt að 90% þéttingar verði þannig innan núverandi byggðamarka og aðeins 10% utan þeirra á gildistíma aðalskipulagsins. Eigi þéttingaráformin við um öll hverfi borgarinnar, líka Vesturbæinn. Þéttingarreitir séu þeir reitir þar sem gert sé ráð fyrir fjölgun íbúða um 50 eða fleiri. Í Vesturbænum sé gert ráð fyrir að íbúðum muni fjölga um samtals 940 íbúðir á sex þéttingarreitum, en í B-hluta aðalskipulagsins komi fram að gert sé ráð fyrir því að íbúðum í Vesturbænum muni fjölga um 1.210 á aðalskipulagstímabilinu. Alls sé því gert ráð fyrir 270 íbúða fjölgun utan þéttingarreita. Á lóðinni Dunhaga 18-20 hafi mátt byggja 8 íbúðir en nú sé heimilt að byggja þar 21 íbúð. Fjölgun um 13 íbúðir rúmist því innan stefnu aðalskipulags.

Skilgreining aðalskipulags á hverfisvernd sé svohljóðandi: „Svæði og reitir sem njóta sérstakrar verndar vegna byggðamynsturs, menningarverðmæta, landslags eða náttúrufars.“ Gerð hafi verið húsakönnun fyrir svæðið þar sem lagt hafi verið til að setja Hjarðarhaga og Tómasarhaga í gulan flokk, samstæður húsa og heildir með hverfisvernd. Ekki hafi verið lagt til að Dunhagi yrði hluti af slíkri vernd þótt gatan og byggingarnar sem við hana standi séu hluti af gamla heildardeiliskipulagi Mela og Grímsstaðaholts. Ekki sé því um ósamræmi við stefnu aðal­skipulags að ræða. Um svæði ÍB3 Haga segi í aðalskipulaginu: „Byggð á svæðinu er fastmótuð og var svæðið fullbyggt um 1970. Heilsteypt byggð að stærstum hluta.“ Í sama kafla segi síðar: „Í fastmótaðri byggð má gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum, svo og nýbyggingum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deili­skipulagi.“  Samkvæmt aðalskipulagi megi því skilgreina fjölgun íbúða undir 50 með deiliskipulagi.

Í 1. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 sé gert ráð fyrir að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana. Skipulagslýsing fyrir hið kærða deiliskipulag hafi verið auglýst opinberlega með athugasemdafresti frá 24. apríl til 25. maí 2020, auk þess sem bréf hafi verið send til eigenda hlutaðeigandi húseigna í nágrenninu til að vekja athygli á auglýsingunni. Ekki sé skylt að svara athugasemdum við skipulagslýsingu heldur séu þær hafðar til hliðsjónar við skipulags­vinnuna. Deiliskipulagstillagan hafi verið auglýst frá 17. júlí til og með 30. ágúst 2020 og aftur hafi verið send bréf til hlutaðeigandi aðila. Íbúar Hjarðarhaga 27 hafi óskað eftir fundi með skipulagsfulltrúa, sem hafi orðið við þeirri beiðni og hafi sá fundur verið haldinn/farið fram 2. júní 2020. Þá hafi eigendur Hjarðarhaga 27 sent skipulagsfulltrúa athugasemd bæði vegna skipulagslýsingar og deiliskipulagstillögu. Ekki sé því hægt að taka undir athugasemd um að samráð hafi ekki verið viðhaft.

Skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögum og sé málsástæðum um að ekki hafi verið viðhaft samráð við íbúa vísað á bug. Það sé ekki hlutverk lögbundins samráðs eða í samræmi við hugmyndir um íbúalýðræði að tryggja að farið verði eftir öllum hugmyndum eða skoðunum sem íbúar hafi enda væri slíkt ómögulegt. Þá skuli á það bent að Dunhagi 18-20 sé skilgreindur sem nærþjónustukjarni í aðalskipulagi og samþykktar byggingarnefndarteikningar sýni verslun á fyrstu hæð. Engin breyting verði þar á við samþykkt deiliskipulagsins. Aðalskipulag setji fram stefnu og markmið borgaryfirvalda um þéttingu byggðar og þar með sjálfbærari hverfi. Í kafla aðalskipulags um kaupmanninn á horninu séu sett fram markmið um að bakland hverfis­verslunar og þjónustu verði styrkt með fjölgun íbúða og starfa. Hlutfall íbúa sem búi í innan við 400 m göngufjarlægð (300 m radíus í loftlínu) frá dagvöruverslun hækki verulega á skipulags­tímabilinu og breytingar á hlutfallinu verði vaktaðar. Um 700 m loftlína sé í Melabúðina á horni Hagamels og Hofsvallagötu og engin dagvöruverslun sé í 300 m radíus frá Dunhaga 18-20. Í aðalskipulagi sé sömuleiðis kafli um kaupmanninn á horninu og segi m.a. að skapaðar verði forsendur til að endurbyggja og stækka verslunarhúsnæði þar sem rótgróin dagvöruverslun sé nú til staðar. Rekin hafi verið dagvöruverslun við Dunhaga um árabil þótt ekki hafi verið rekstur í húsinu undanfarið. Með betri aðstöðu sé líklegt að rekstur í húsinu verði eftirsóknar­verður. Í  aðalskipulaginu sé ekkert sem segi að verslanir geti ekki verið fleiri en ein auk þess sem engin sérstök stærðarmörk séu sett hvað varði stærð verslana. Nýtingarhlutfall Dunhaga 18-20 verði 1,3 eftir breytingu og hæð hússins verði þrjár hæðir auk inndreginnar fjórðu hæðar. Dunhaginn skeri sig úr heild húsa sem tilheyri skipulagsreitnum, bæði fyrir og eftir breytingu, en myndi heildstæða götumynd með öðrum áþekkum fjölbýlishúsum sem standi við götuna. Þannig hafi frá upphafi bæði Dunhagi 18-20 og Dunhagi 23 verið fjölbýlishús með verslun og þjónustu á fyrstu hæð. Dunhagi 19, 21 og 23 séu fjögurra hæða byggingar, séð frá götu, og nýtingarhlutfall Dunhaga 23 sé 2,18.

Ekki sé lengur gert ráð fyrir að húsið að Dunhaga 18-20 verði klætt álklæðningu heldur verði það múrhúðað að mestu. Heimilt sé þó að klæða viðbyggingar og efstu hæð hússins með álklæðningu. Húsið að Dunhaga 23 sé álíka hátt og Dunhagi 18-20 verði eftir breytingu. Blokkir Hjarðahaga séu hærri, eða fjórar hæðir á hálfniðurgröfnum kjallara. Húsið að Dunhaga 18-20 hækki um 1,5 m þegar hálfreist þak, sem nú sé 1,5 m á hæsta punkti, verði hækkað í heimilaða eina íbúðarhæð, sem sé um 3 m á hæð með tvo lyftustokka sem nái að hámarki 1,5 m upp fyrir þá hæð. Ekki sé því um mikla breytingu á hæð hússins að ræða. Bílastæðakröfur í deiliskipulaginu séu í samræmi við kröfur um bíla- og hjólastæði í aðalskipulagi. Þar með sé fjölgun nægjanleg til að þjóna fjölgun íbúða og stækkun á verslunarrými. Vegna athugasemda við skuggavarp hafi verið gerðar fleiri skuggavarpsteikningar, sem sýni aðstæður á lóðinni Hjarðarhaga 27 á klukkutímafresti frá kl. 13:00-17:00 á tímabilinu frá fjórum vikum fyrir vorjafndægur til tveggja vikna eftir vorjafndægur.

Deiliskipulagsuppdrættir hafi verið lagfærðir eftir auglýsingu vegna innkominna ábendinga um ósamræmi milli mynda og texta. Bíll sem sýndur hafi verið á sniðmynd hafi verið tekinn út. Þá sé fráleitt að halda því fram að Reykjavíkurborg sé að verðlauna lóðarhafa fyrir að sinna ekki eðlilegu viðhaldi. Þá hafi deiliskipulagsuppdrátturinn verið meðal þeirra gagna sem lögð hafi verið fram í skipulags- og samgönguráði og í borgarráði, eins og fundargerðir beri með sér, enda sé um að ræða opinbert skjal sem hafi einnig verið aðgengilegt á ytri vef Reykjavíkurborgar. Aftur á móti hafi átt sér stað þau mistök við framsetningu á rafrænum kynningargögnum til borgarráðsmanna að uppdráttinn hafi vantað í þann pakka. Hann hafi þannig legið fyrir í pappírsgögnum. Ráðsmenn hafi ekki gert athugasemdir við þennan galla enda skipulagið kynnt rækilega á báðum fundum með glærukynningu.

Hvað varði hið kærða byggingarleyfi þá séu innsendar teikningar í samræmi við gildandi deiliskipulag.

Athugasemdir leyfishafa: Tekið er fram að kærur deiliskipulagsins beinist ekki að neinni eiginlegri stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar. Samþykki skipulagsyfirvalda á breytingum á deiliskipulagi feli ekki í sér ákvörðun í skilningi 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 130/2011 sé sérstaklega tekið fram í skýringum við 5. gr. laganna að ákvæði þeirrar greinar byggist á „almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Sökum framangreindrar tilvísunar til stjórnsýslulaga verði að líta til reglna stjórnsýsluréttarins um hvað telja megi ákvörðun sem kæra megi í skilningi 5. gr. laga nr. 130/2011.

Af 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga verði ráðið að lögin gildi þegar stjórnvöld taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna en gildi ekki um samningu reglugerða eða annarra almennra stjórnvalds­fyrirmæla. Af framangreindu verði því ráðið að stjórnvaldsákvörðun feli í sér ákvörðun af hálfu stjórnvalds um rétt eða skyldu manna. Þessu til viðbótar hafi fræðimenn talið að ákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga feli í sér ákvörðun sem tekin sé af stjórnvaldi sem handhafa opinbers valds, henni sé beint til ákveðins eða ákveðinna aðila og að hún kveði á um rétt eða skyldu viðkomandi í því sérstaka tilviki sem hverju sinni liggi fyrir til ákvörðunar. Ljóst sé að þetta eigi ekki við um ákvörðun skipulagsyfirvalda um deiliskipulag. Deiliskipulag sé almenns eðlis sem feli í sér tilteknar reglur um skipulag viðkomandi svæðis og taki til tiltekins landsvæðis og þar af leiðandi allra þeirra er búi innan viðkomandi svæðis. Vísist í því sambandi til álits umboðsmanns Alþingis nr. 1453/1995 þar sem komi fram a ákvarðanir sveitarfélags varðandi skipulagsmál geti ekki talist stjórnvaldsákvarðanir heldur sé um að ræða stjórnvaldsfyrirmæli og gildi stjórnsýslulögin ekki um slík fyrirmæli. Sé því einsýnt að vísa beri öllum kærum vegna deiliskipulagsins frá úrskurðarnefndinni.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur að Hjarðarhaga 27 taka fram að fráleit sé sú afstaða Reykjavíkurborgar að engu skipti hver vinni deiliskipulag. Fasteignaeigendur og rétt­hafar hafi miklu ríkari rétt gagnvart sveitarfélagi heldur en einkaaðilar sem ekki lúti stjórnsýslu­lögum nr. 37/1993 eða upplýsingalögum nr. 140/2012. Túlka beri 2. mgr. 38. gr. skipulagslaga þannig að það ákvæði hafi áhrif og tilgang í samræmi við orðanna hljóðan. Fátækleg rök borgarinnar um að ekki hafi verið ástæða til þess að ráðfæra sig við aðra á deiliskipulagsreitnum vegna þess að lóðir kærenda „eru að mestu fullbyggðar auk þess sem þær eru í verndarflokki“ séu fráleit. Í fyrsta lagi sé lóðin að Dunhaga 18-20 alveg jafn mikið eða lítið fullbyggð eins og aðrar lóðir á svæðinu. Í öðru lagi kannist kærendur ekki við að húsið að Hjarðarhaga 27 sé í verndarflokki nema þá samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi. Þá virðist Reykjavíkurborg ekki hafa yfirsýn yfir eigin skipulagsáætlanir, en t.d. í deiliskipulagi fyrir húsin að Ægissíðu 56, 58, 68, 74, 84 og 94, sem séu í verndarflokki og á nálægum deiliskipulagsreit, hafi verið gefnar heimildir fyrir rishæðum og breytingum á þökum. Hafa skuli í huga að kærendur hafi í deiliskipulagsferlinu ítrekað óskað eftir heimild til þess að byggja ofan á sína eign. Engin svör hafi borist frá Reykjavíkurborg.

Enginn grundvöllur sé fyrir því að reisa megi 270 íbúðir utan þéttingarreita í Vesturbæ og að þær 13 íbúðir sem sagt sé að bætast muni við húsið að Dunhaga 18-20 rúmist innan þeirrar tölu. Slíkt sé ótækt, hvað þá á svæði sem sé í aðalskipulagi skilgreint sem fastmótað og fullbyggt. Þá sé verndargildi reitsins freklega raskað með fyrirhuguðum breytingum á Dunhaga 18-20 sem verði varla lýst öðruvísi en sem nýbyggingu í útliti eftir fyrirhugaðar framkvæmdir.

Kærendur hafi gert margháttaðar og ítrekaðar athugasemdir sem hafi ekki verið svarað. Til samanburðar megi benda á samstarf Reykjavíkurborgar við lóðarhafa Dunhaga 18-20. Kær­endur hafi fengið afhentar 152 blaðsíður af tölvupóstsamskiptum skipulagssviðs borgarinnar vegna málsins, langmest við lóðarhafa og arkitektastofu. Lengst virðist borgin hafa gengið þegar lögmenn borgarinnar hafi gert drög að endurupptökubeiðni til úrskurðarnefndarinnar og sent til lóðarhafa þar sem „öruggast [væri] að lóðarhafar sendi hana inn og skrifi undir.“ Þá hafi skipulagslýsing ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga eða gr. 5.2.2. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem ekkert hafi verið vikið að samráði gagnvart íbúum í lýsingu. Gerð sé athugasemd við það að engin hlutlæg viðmið hafi verið sett um áhrif skugga­varps heldur eingöngu byggt á huglægu mati skipulagsfulltrúa.

Kærendur að Tómasarhaga 32 mótmæli því sem ótrúverðugu og ósönnuðu að deiliskipulags­tillaga hafi legið fyrir í pappírsformi í skipulags- og samgönguráði og borgarráði. Þá felist í málflutningi Reykjavíkurborgar að ráðsmenn hafi ekki haft tækifæri til þess að kynna sér uppdráttinn fyrir fundinn þar sem hann hafi ekki verið í rafrænum kynningargögnum. Deiliskipulagstillagan hafi enn ekki verið kynnt kærendum eða birt opinberlega á vef Reykjavíkurborgar. Í greinargerð borgarinnar sé ekki fjallað um meðferð deiliskipulags­tillögunnar frá því borgarráð eigi að hafa samþykkt hana með breytingum á grundvelli skrif­legrar umsagnar skipulagsfulltrúa þar sem m.a. sé lagt til að villur í sniðum og grunnmyndum verði leiðréttar. Þögn Reykjavíkurborgar um þetta mikilvæga atriði sé ekki hægt að túlka á annan veg en að fullnaðarafgreiðsla deiliskipulagsins hafi ekki verið í samræmi við lög eða samþykktir.

Borgaryfirvöld líti út fyrir hinn afmarkaða deiliskipulagsreit þegar vísað sé til bygginga sem séu álíka háar eða hærri en Dunhagi 18-20, sem bendi til þess að deiliskipulagsreiturinn nái ekki til reits sem myndi heildstæða einingu. Því sé einnig mótmælt að Dunhagi 19, 21 og 23 séu fjögurra hæða byggingar séð frá götu. Með þessari staðhæfingu sé ekki farið rétt með hugtakið „hæð húss“ í lagalegum skilningi. Af hálfu borgarinnar sé ekki gert ráð fyrir umferðar­aukningu vegna fjölgunar íbúða og algjörlega sé skautað framhjá umferðaraukningu sem muni koma til vegna verslunarreksturs á jarðhæð.

Hvað varði byggingarleyfið þá bendi kærendur að Hjarðarhaga 27 á að samþykktir uppdrættir séu ekki í samræmi við hið kærða deiliskipulag. Svokölluð „vinnuherbergi“ í kjallara, sem fylgi íbúðum 1. hæðar, séu ekki talin með í herbergjafjölda íbúða á 1. hæð. Herbergin séu merkt sérstaklega sem vinnuherbergi og þannig til íveru og séu auk þess órjúfanlegur hluti íbúðar enda aðgengileg um sérstiga innan íbúðar. Þau séu öll með gluggum og opnanlegum fögum. Með því að undanskilja vinnuherbergin í tölu um herbergjafjölda stangist byggingarleyfið að formi til ekki á við hið kærða deiliskipulag að þessu leyti. Með því að telja herbergin með, eins og rétt sé, þá fari tveggja og fjögurra herbergja íbúðir fram úr hámarki hlutfallslegs fjölda tveggja íbúðartegunda, sem sé 60%. Samkvæmt framangreindu sé samanlagður hlutfallslegur fjöldi tveggja og fjögurra herbergja íbúða tæp 62%. Sé það í ósamræmi við sérskilmála hins kærða deiliskipulags sem kveði á um að hámarkið sé 60%.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og í ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í skipulagslögum nr. 123/2010 er fjallað um gerð deiliskipulags og í 52. gr. þeirra laga er kveðið á um að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar séu á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem tók m.a. yfir hlutverk úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála frá 1. janúar 2012.  Fyrir gildistöku skipulagslaga voru í gildi skipulags- og byggingarlög nr. 73/1997, en í 1. mgr. 8. gr. þeirra var kveðið á um að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kvæði upp úrskurði í ágreinings­málum um skipulags- og byggingarmál og í 5. mgr. nefndrar greinar var tekið fram að stjórnvaldsákvarðanir stjórnsýslu sveitarfélaga sættu kæru til nefndarinnar. Þar kom og fram í niðurlagi ákvæðisins að sætti ákvörðun opinberri birtingu væri kærufrestur miðaður við þá birtingu. Sá áskilnaður gat vart átt við aðrar ákvarðanir en þær sem vörðuðu deiliskipulag.

Um langt árabil hefur verið litið svo á að deiliskipulagsákvarðanir sveitarfélaga hafi verið kæranlegar til æðra stjórnvalds á grundvelli kæruheimilda í gildandi lögum og hafa úrskurðir um gildi deiliskipulagsákvarðana sætt endurskoðun dómstóla án athugasemda við þá framkvæmd.  Þá er ekki að finna í lögskýringargögnum með frumvarpi til skipulagslaga eða frumvarpi til laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála ráðagerð um að breyta kæru-heimild að þessu leyti. Verður hin kærða deiliskipulagsákvörðun því tekin til  efnismeðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga ber sveitarstjórn ábyrgð á og annast gerð deili­skipulags. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur landeigandi eða framkvæmdaraðili óskað eftir því við sveitarstjórn að gerð sé tillaga að deiliskipulagi eða breytingu á deiliskipulagi á sinn kostnað. Sveitarstjórn getur einnig veitt landeiganda eða framkvæmdaraðila samkvæmt hans beiðni heimild til að vinna sjálfur að gerð deiliskipulags. Skal hann þá taka saman lýsingu á skipulagsverkefninu, sbr. 1. mgr. 40. gr., og skal hún lögð fyrir sveitarstjórn á sama tíma og beiðni um heimild til að vinna tillögu að deiliskipulagi. Um kynningu, samráð, auglýsingu og samþykkt deiliskipulags fer skv. 40. og 41. gr. laganna. Samkvæmt framansögðu var aðkoma lóðarhafa Dunhaga 18-20 og arkitektastofu á hans vegum ekki andstæð lögum, en undirbúningur og meðferð deiliskipulagstillagna eru allt að einu í umsjá og á ábyrgð skipulagsyfirvalda sveitar­félaga, sbr. áðurnefnda 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga.

Eins og fram kemur í kafla um málavexti var lýsing deiliskipulagsins auglýst í Fréttablaðinu og á vef Reykjavíkurborgar. Þó láðist að taka fram í auglýsingu í Fréttablaðinu hvert skila ætti ábendingum, en þar kom þó fram heimilisfang umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar. Þar að auki var sent bréf til eigenda granneigna til að vekja athygli á auglýsingunni. Samkvæmt gr. 5.2.4. í skipulagsreglugerð er ekki skylt að svara ábendingum við efni lýsingar með formlegum hætti. Þá verður að telja að auglýsing í Fréttablaðinu uppfylli skilyrði sömu greinar um birtingu auglýsingar í víðlesnu dagblaði og að kynning lýsingarinnar hafi að öðru leyti verið í samræmi við 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga og gr. 5.2.4. í skipulagsreglugerð. Ekki er þar gerð krafa um aðkomu almennings við undirbúning lýsingar en lýsingin er auglýst og kynnt íbúum á við­komandi skipulagssvæði sem geta þá komið að athugasemdum og ábendingum, sem eftir atvikum geta nýst við fyrirhugaða skipulagsgerð. Um er að ræða forsögn um gerð skipulags-tillögu, sem sætir síðan opinberri auglýsingu til kynningar þar sem almenningi gefst færi á að koma að athugasemdum sínum. Deiliskipulagstillagan var auglýst með athugasemdafresti frá 17. júlí til 31. ágúst 2020 og einnig voru send bréf til eigenda hlutaðeigandi fasteigna. Þá gerðu allir kærendur athugasemdir við kynnta deiliskipulagstillögu innan athugasemdafrests. Verður því að telja að auglýsing deiliskipulagsins hafi verið í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga og gr. 5.6.2. í skipulagsreglugerð.

Samkvæmt 4. mgr. 41. gr. skipulagslaga er sveitarstjórn skylt að auglýsa deiliskipulagstillögu að nýju sé henni breytt í grundvallaratriðum. Í því felst að sveitarstjórn sé heimilt að gera aðrar breytingar og lagfæringar á auglýstri tillögu án þess að hún sé auglýst að nýju. Nær sú heimild til þess að lagfæra sniðmynd sem birt er með deiliskipulagi eins og gert var í þessu máli. Einnig skal bent á að skýringarmyndir má nota til þess að sýna áhrif af og dæmi um útfærslu deiliskipulags en eru ekki bindandi, nema annað sé tekið fram, sbr. gr. 5.5.4. í skipulags­reglugerð.

Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis sam­ræmi. Svæðisskipulag er rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytinga á skipulagsáætlunum skulu sveitarstjórnir taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 kemur fram að gera megi ráð fyrir því að skilgreindir verði þéttingarreitir í Vesturbænum með færri en 50 íbúðum í hverfisskipulagi. Með þessu er ekki útilokað að skilgreindir verði sambærilegir minni þéttingarreitir með deiliskipulagi enda er um samskonar skipulagsáætlanir að ræða að mestu leyti. Samkvæmt gr. 5.3.3.1. í skipulagsreglugerð er hverfisskipulag deiliskipulag í þegar byggðum hverfum þar sem ekki séu ráðgerðar verulegar breytingar á byggðamynstri og heimilt sé að víkja frá kröfum um framsetningu sem gerðar séu til deiliskipulags, svo sem hvað varði skilmála og mælikvarða uppdrátta. Þar að auki kemur fram í aðalskipulagi að Dunhagi 18-20 verði festur í sessi sem kjarni fyrir verslun og þjónustu sem sinni daglegum þörfum íbúa. Með hliðsjón af framangreindu verður því að telja að hið kærða deiliskipulag sé í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina koma og umhverfismati áætlunarinnar, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Í gr. 5.4. í skipulagsreglugerð segir að við gerð deiliskipulags skuli meta líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði og einstaka þætti áætlunarinnar sjálfrar svo sem á vistkerfi, auðlindir, landslag, ásýnd, útsýni, hljóðvist, loftgæði, hagkvæmni, veðurfar, varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga o.fl. umhverfisþætti eftir því sem efni skipulagsins gefi tilefni til. Þá kom og fram í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 80/2019: „Þá athugist að samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga skal við gerð skipulagsáætlana gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða hennar á umhverfið, en ekki verður séð að svo hafi verið gert.“ Verður ekki séð að slíkt hafi heldur verið gert í hinu kærða deiliskipulagi. Í skipulagslýsingu kom þó fram að: „Deiliskipulag lóðanna kallar ekki á sérstakt umhverfismat samkvæmt 3. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana. Unnið verður ýtarlegt skuggavarp og umsögn fengin m.a. frá Skipulagsstofnun auk samgöngudeildar umhverfis og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar.“ Þá segir í umsögn Skipulagsstofnunar að þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir framkvæmdum sem falli undir lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana þurfi að fjalla um umhverfisáhrif skv. gr. 5.4. í skipulagsreglugerð. Telja verður það ágalla á máls­meðferð deiliskipulagsins að ekki hafi verið fjallað um áhrif áætlunarinnar á umhverfið. Í ljósi þess að fyrir lágu í málinu skuggavarpsuppdrættir og skýrsla Borgasögusafns ásamt því að finna má um­fjöllun um áhrif þéttingar byggðar í umhverfisskýrslu aðalskipulags verður sá ágalli ekki talinn leiða til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar.

Þrátt fyrir að deiliskipulagsuppdráttur hafi ekki fylgt með rafrænum kynningargögnum þá lá hann fyrir í pappírsformi á fundum skipulags- og samgönguráðs og borgarráðs við afgreiðslu umdeilds skipulags samkvæmt upplýsingum frá borgaryfirvöldum.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir form- eða efnisannmarkar á hinu kærða deiliskipulagi sem raskað geta gildi þess.

Samkvæmt 47. tl. í gr. 1.2.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 eru íbúðarherbergi skilgreind sem herbergi innan íbúða sem notuð séu til daglegrar dvalar fyrir fólk, þ.e. svefnherbergi og stofur. Ekki er að finna neina skilgreiningu á svokölluðum vinnuherbergjum, en telja verður að þau séu íbúðarherbergi enda ætluð til daglegrar dvalar á sama hátt og stofur. Ef svokölluð vinnuherbergi eru talin til herbergja íbúða í húsinu að Dunhaga 18-20 fer hlutfall tveggja og fjögurra herbergja íbúða upp í 62% af íbúðum hússins, en hámarkshlutfall tveggja gerða íbúða í húsinu samkvæmt skilmálum gildandi deiliskipulags er 60%. Þykir þessi munur þó ekki slíkur að leiða eigi til ógildingar ákvörðunarinnar. Þá er gert ráð fyrir tveimur bíla­stæðum fyrir hreyfihamlaða á lóð Dunhaga 18-20. Í húsinu verður 21 íbúð og samkvæmt töflu 6.01 í gr. 6.2.4. í byggingarreglugerð er gerð krafa um að lágmarki þrjú bílastæði fyrir hreyfihamlaða þegar fjöldi íbúða í íbúðarhúsnæði, öðrum en sérbýlishúsum, er 21. Að þessu leyti uppfyllir hið kærða byggingarleyfi ekki lágmarkskröfur um fjölda bílastæða fyrir hreyfi­hamlaða samkvæmt nefndu ákvæði byggingarreglugerðar.

Með hliðsjón af framangreindu verður ákvörðun byggingarfulltrúa um ­að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20 felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá  15. október 2020 um að samþykkja deiliskipulag fyrir reit sem afmarkast af Dunhaga 18-20, Hjarðarhaga 27-33 og Tómasarhaga 32-46.

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 12. janúar 2021 um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi vegna Dunhaga 18-20.

38/2021 Álagrandi

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 21. apríl, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 38/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2021 um að endurútgefa vegna byggingarstjóraskipta byggingarleyfi um að byggja úr steypu með timburþaki lengju fimm bílskúra á lóð nr. 2-4 við Álagranda og 37B við Grandaveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 24. mars 2021, kærir eigandi Aflagranda 14, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. janúar 2021 að endurútgefa vegna byggingarstjóraskipta byggingarleyfi um að byggja úr steypu með timburþaki lengju fimm bílskúra á lóð nr. 2-4 við Álagranda og 37B við Grandaveg. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til síðargreindrar kröfu kæranda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 31. mars 2021.

Málavextir: Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúans í Reykjavík 18. júní 2008 var samþykkt byggingarleyfi BN38480 til byggingar á fimm steyptum bílskúrum með timburþaki á lóðinni nr. 2-4 við Álagranda og 37B við Grandaveg. Byggingarleyfið var ekki gefið út innan tilskilins tímafrests og féll því úr gildi. Á embættisafgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. júní 2010 var samþykkt umsókn um byggingarleyfi BN41665, þar sem sótt var um endurnýjun á byggingarleyfi BN38480. Leyfið var í framhaldi gefið út og framkvæmdir hafnar. Fram­kvæmdir samkvæmt leyfinu stöðvuðust þegar byggingarstjóri sagði sig frá verkinu 29. nóvember 2011. Þá hafði verið lokið við þrjá af fimm bílskúrum sem leyfið heimilaði. Byggingarfulltrúa barst tilkynning um nýjan byggingarstjóra vegna byggingarleyfisins 13. nóvember 2020 og var leyfið endurútgefið 8. janúar 2021.

Málsrök kæranda: Kærandi byggir á því að illa komi út að hinn umdeildi bílskúr standi einn og sér, en sé ekki tengdur hinum þremur bílskúrunum. Mikil útlitsbreyting verði fyrir hverfið og byrgi skúrinn útsýni kæranda úr fasteign hans, sem missi þar með sjávarsýn. Miðað við hags­muni kæranda hefði átt að fara fram grenndarkynning fyrir endurútgáfu byggingar­leyfisins. Samkvæmt nágrönnum byggingarleyfishafa standi til að leigja bílskúrinn út sem íbúð, sem sé ekki í samræmi við heimild í byggingarleyfi og hefði í för með sér mikið ónæði fyrir nágranna. Kærandi bendir á að kæran berist innan kærufrests. Hann hafi fyrst orðið var við að til stæði að byggja bílskúr í mars og póstur þess efnis hafi verið sendur til byggingarfulltrúa  2. mars 2021.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að kröfum kæranda verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Í 14. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998, sem hafi verið í gildi þegar byggingarleyfi BN38480 og BN41665 hafi verið samþykkt, en núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012 hafi leyst af hólmi, segi að hafi byggingarframkvæmdir stöðvast í eitt ár eða lengur geti byggingarnefnd fellt byggingarleyfi úr gildi. Sambærileg ákvæði séu í núgildandi byggingarreglugerð.

Byggingarframkvæmdir hafi hafist eftir endurnýjun á byggingarleyfi BN41665 og staðið yfir þar til byggingarstjóri hafi sagt sig frá verkinu. Byggingarleyfið sé því í fullu gildi, enda geri tilvitnuð ákvæði ráð fyrir að byggingarfulltrúi þurfi að taka afstöðu til þess hvort fella eigi byggingar­leyfi úr gildi þegar framkvæmdir stöðvist. Engin slík ákvörðun hafi verið tekin og sé leyfið í fullu gildi. Leiði það ekki til niðurfellingar byggingarleyfis að framkvæmdir stöðvist, heldur þurfi að koma til ákvörðunar leyfisveitanda þar um. Byggingarleyfið sé því í fullu gildi og aldrei verið fellt úr gildi.

Í gr. 4.7.8. byggingarreglugerðar sé fjallað um byggingarstjóraskipti. Fram komi í 2. mgr. ákvæðisins að verði skipti á byggingarstjóra, þá skuli verk stöðvað tafarlaust. Sé byggingar­leyfishafa því óheimilt að halda áfram verki fyrr en nýr byggingarstjóri hafi verið settur á verkið. Engin tímamörk séu á því hvenær nýr byggingarstjóri sé settur á verk, en byggingar­fulltrúi skuli án ástæðulauss dráttar láta fara fram úttekt á stöðu verksins, áður en nýr byggingar­stjóri taki við verkinu.

Af framangreindu megi vera ljóst að byggingarreglugerð geri ráð fyrir að byggingarstjóraskipti geti orðið á verki. Skipti á byggingarstjóra sé ekki stjórnvaldsákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, heldur tilkynning til stjórnvalds um atriði er varði kröfur sem gerðar séu til leyfisveitingar, enda skuli byggingarstjóri vera á verki með tilheyrandi starfsábyrgðartryggingu. Hin eiginlega stjórn­­valds­ákvörðun hafi verið við samþykkt byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis. Sé kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar löngu liðinn.

Í 2. mgr. 4. gr., sbr. 1. mgr. 1. gr., laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis og auðlinda­mála segi að kærufrestur til nefndarinnar sé einn mánuður frá því að kæranda var kunnugt um kærða ákvörðun. Leiði það til þess að einungis stjórnvaldsákvarðanir verði kærðar til úrskurðar­nefndarinnar. Í því samhengi vísist til almennrar skilgreiningar stjórnsýsluréttar á stjórnvalds­ákvörðunum, en eitt skilyrða kæru sé að ákvörðun bindi enda á meðferð stjórnsýslumáls. Endir hafi verið bundinn á málið með útgáfu byggingarleyfis BN41665 árið 2011.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að upphaflega hafi byggingarleyfi verið samþykkt og gefið út í ágúst árið 2010. Leyfið sé því rúmlega tíu ára gamalt og hafi verið endurnýjað reglulega svo að hægt sé að ljúka við byggingu bílskúranna fimm. Upphaflega leyfið, ásamt teikningum, hafi enn verið í gildi þegar sótt hafi verið um skipti á byggingarstjóra. Umsóknin hafi verið í samræmi við lög og reglur. Af framangreindu leiði að hin kærða ákvörðun sé endurnýjun á leyfi sem hafi verið samþykkt fyrir meira en tíu árum og kærandi hafi vitað eða átt að vita af leyfinu í langan tíma.

Bílskúrseiningarnar séu númeraðar 0101, 0102, 0103, 0104 og 0105. Einingar 0103, 0104 og 0105 hafi nú þegar verið byggðar. Eining 0101 sé hluti af skráðri fasteign leyfishafa eins og samþykktar teikningar beri með sér. Hin fyrirhugaða framkvæmd sé í samræmi við teikningar, lög og reglur.

Samskipti við nágranna að Álagranda 2, 4 og 6 hafi alltaf verið góð. Þau hafi verið látin vita af framkvæmdum og verið haldið upplýstum á mismunandi stigum framkvæmda. Það hafi alltaf verið forgangsmál leyfishafa að mynda og viðhalda jákvæðum samskiptum við nágranna.

Leyfishafi hafi nýtt byggingarleyfisréttindi sem veitt hafi verið af þar til bærum yfirvöldum á einkalóð sinni. Leyfishafi hafi fylgt öllum reglum og fyrirmælum stjórnvalda og muni halda því áfram.

Niðurstaða: Í 14. gr. þágildandi byggingarreglugerðar nr. 441/1998 er fjallað um gildistíma byggingarleyfis. Í gr. 14.1 er kveðið á um að byggingarleyfi falli úr gildi hafi byggingar­framkvæmdir ekki hafist innan 12 mánaða frá útgáfu þess. Í gr. 14.2 segir að sveitarstjórn geti fellt byggingarleyfi úr gildi ef byggingarframkvæmdir stöðvist í eitt ár eða lengur. Þá er tekið fram í gr. 14.3 að hafi byggingarframkvæmdir stöðvast í tvö ár hið skemmsta geti sveitarstjórn, að tillögu byggingarnefndar með sex mánaða fyrirvara, lagt dagsektir á byggingarleyfishafa eða tekið ófullgerðar byggingarframkvæmdir eignarnámi samkvæmt lögum um framkvæmd eignar­náms. Sambærileg ákvæði er nú að finna í gr. 2.4.5. í gildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012.

Af framangreindum ákvæðum má sjá að byggingarleyfi fellur sjálfkrafa úr gildi ef fram­kvæmdir hefjast ekki innan 12 mánaða frá útgáfu þess skv. gr. 14.1. Óumdeilt er að fram­kvæmdir hófust á sínum tíma í kjölfar endurnýjunar byggingarleyfis, enda er búið að byggja þrjá bílskúra af þeim fimm sem leyfið heimilar. Þegar framkvæmdir eru hafnar og stöðvast síðar fellur byggingarleyfi ekki sjálfkrafa úr gildi, heldur þarf sveitarstjórn að fella leyfið úr gildi skv. áðurgreindri gr. 14.2 þágildandi byggingarreglugerðar eða taka framkvæmdirnar eignarnámi skv. gr. 14.3. Hvorugt hefur verið gert í máli þessu. Byggingarleyfi BN41665 er því í gildi og hefur verið frá samþykkt þess 15. júní 2010, en sú ákvörðun var ekki kærð á þeim tíma.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðunina. Hið kærða byggingarleyfi var gefið út 8. janúar 2021, en samþykkt 15. júní 2010. Útgáfa byggingarleyfis veitir leyfishafa heimild til að hefja framkvæmdir í samræmi við þegar samþykkta byggingarleyfisumsókn þegar viðbótarskilyrði 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 eru uppfyllt, s.s. um frekari hönnunargögn og greiðslu gjalda. Útgáfa byggingarleyfis ein og sér felur hins vegar ekki í sér kæranlega stjórn­valdsákvörðun, enda hefur efnisinnihald leyfanna þá þegar verið samþykkt af byggingarfulltrúa í samræmi við 11. gr. laganna og fer útgáfa leyfis fram í skjóli þeirrar samþykktar sem er kæranleg. Verður því að miða við að kærufrestur vegna byggingarleyfisins hafi byrjað að líða þegar kæranda mátti vera kunnugt um samþykkt leyfi, í síðasta lagi þegar framkvæmdir hófust við gerð fyrstu þriggja bílskúranna samkvæmt því.  Byggingarár nefndra skúra er skráð 2010 í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands og því ljóst að fjölmörg ár eru síðan kæranda mátti vera kunnugt um samþykkt leyfisins.

Berist kæra að liðnum kærufresti skal vísa henni frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nema afsakanlegt verði talið að kæra hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæra verði tekin til meðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skal og á það bent að í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 er tekið fram í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Segir nánar að brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin, verður samþykkt hins umdeilda byggingarleyfis frá 15. júní 2010 ekki tekin til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningarákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga. Þá felur útgáfa byggingarleyfis ein og sér ekki í sér kæranlega ákvörðun, eins og áður segir. Er því við að bæta að fjallað er um byggingarstjóraskipti í gr. 4.7.8. í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að framkvæmdir skuli stöðvaðar þar til nýr byggingarstjóri hafi undirritað ábyrgðaryfirlýsingu, leyfisveitandi hafi staðfest að hann uppfylli skilyrði laga um mannvirki og úttekt á stöðu framkvæmda hafi farið fram. Verður ekki heldur talið að byggingarstjóraskipti sé kæranleg stjórnvaldsákvörðun, enda bindur slík ákvörðun ekki enda á stjórnsýslumál í skilningi 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með vísan til alls framangreinds verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.