Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

93/2021 Selvogsgata

Með

Árið 2021, föstudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 93/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 22. júní 2021 um að synja um beitingu þvingunarúrræða og um ógildingu ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 vegna Selvogsgötu 16a í Hafnarfirði.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júní 2021, er barst nefnd­inni sama dag, kærir eigendur, Holtsgötu 13, Hafnarfirði, þá ákvörðun bygg­ingar­full­­­trúa Hafnarfjarðar frá 22. júní 2021 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna breytinga sem gerðar hafi verið á Selvogsgötu 16a og ógildingu teikninga sem sam­þykktar hafi verið á af­greiðslu­­fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 23. september 2015. Skilja verður málskot kær­anda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 og ákvörð­­unar um að synja um beitingu þvingunarúrræða frá 22. júní 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 5. júlí 2021.

Málsatvik og rök: Árið 2015 sóttu fyrri eigendur Selvogsgötu 16a, Hafnarfirði, um byggingarleyfi til þess að gera tvö­­falda svaladyr með útgengi í garð í stað eldra gluggaops á bakhlið hússins. Á upp­drætti er fylgdi umsókn um byggingarleyfi voru jafnframt færðar inn áður gerðar breytingar á húsinu án þess að þær væru sérstaklega tilgreindar, en í þeim fólst að á bílskúr í horni lóðarinnar, við lóðamörk Selvogsgötu 16b­ og Holtsgötu 13, höfðu verið gerðar þaksvalir, handrið og stigi. Uppdrættirnir voru samþykktir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar hinn 23. september 2015. Að sögn fyrri eiga­nda höfðu framangreindar breytingar þegar verið tilkomnar við kaup hans á húsinu árið 2014. Þá er í gögnum málsins vísað til þess að nágranni hefði greint frá því að þegar hann keypti sína eign fyrir 15 ár­um hefðu svalirnar þegar verið til staðar.

Með bréfi til byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, dags. 22. júní 2021, fór kærandi fram á að teikningar frá árinu 2015 vegna Selvogsgötu 16a yrðu ógiltar og að beitt yrði þvingunar­úrræðum skv. 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 vegna framangreindra fram­kvæmda. Byggingar­full­­­trúi sveitarfélagsins svaraði kæranda sama dag með þeim hætti að ákvörðunin stæði, teikning­­a­r­nar hefðu verið samþykktar í september árið 2015 og að framkvæmdir hefðu þegar farið fram.

 Kærandi telur teikningar af þeim breytingum sem varði þaksvalir hvorki vera í samræmi við lög né byggingarreglugerð. Þá hafi nágrannar ekki veitt samþykki sitt fyrir þeim. Af svölunum sé fallhætta, þær varpi skugga á næstu lóðir og valdi ónæði. Hand­rið sé 85 cm á hæð en það sé ekki á stiganum líkt og skylt sé.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að hinar umdeildu breytingar hefðu verið til komnar þegar samþykkt var að breyta gluggaopi í dyraop árið 2015. Ekki séu til teikningar af þessari breytingu en oft og tíðum sé áður gerðri framkvæmd bætt inn á teikningar. Þá er vísað til þess að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar liðinn.

 Af hálfu eiganda Selvogsgötu 16a er bent á að kærandi hafi keypt eign sína árið 2020 og hafi honum því verið kunnugt um hinar umdeildu þaksvalir og stiga en engar athugasemdir gert fyrr en árið 2021.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðar­nefnd­ar­innar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Fyrir liggur að á þeim tíma er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni voru tæp sex ár liðin frá því að byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar veitti samþykki fyrir hinni kærðu framkvæmd, sem mun þó vera eldri. Var kærufrestur því löngu liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni 22. júní 2021.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga fyrir töku máls til efnismeðferðar að liðnum kærufresti þykja ekki uppfyllt í máli þessu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 vísað frá úrskurðarnefndinni.

Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því hlutverki felst m.a. að taka afstöðu til beitingar þvingunarúrræða þeirra sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að sé byggingarleyfisskyld framkvæmd skv. 9. gr. hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða byggt á annan hátt en leyfi stendur til geti byggingarfulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir tafarlaust og fyrirskipað lokun mannvirkisins. Sama gildi ef ekki sé að öðru leyti fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 55. gr. laganna að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Þá er í 56. gr. laganna fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Sé það ekki gert sé heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hafi að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. sama ákvæðis.

Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræðis er háð mati stjórnvalds hverju sinni en tekið er fram í athugasemdum við 55. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 160/2010 að eðlilegt sé að hvert tilvik sé metið, m.a. með tilliti til meðalhófs. Fyrrgreind ákvæði 55. og 56. gr. laganna gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við ef byggingarleyfisskyld framkvæmd gengur gegn almanna­hagsmunum, þ. á m. skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum, og eiga einstaklingar því ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram beitingu nefndra þvingunarúrræða vegna einkaréttarlegra hagsmuna sinna. Við mat stjórnvaldsins þarf þó sem endranær að fylgja megin­ reglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið.

Í hinni kærðu ákvörðun um að aðhafast ekki vegna umdeildra framkvæmda var vísað til þess að teikningarnar hefðu verið sam­þykktar árið 2015 og þess að framkvæmdum væri lokið. Þá upplýsti sveitarfélagið hinn 12. október 2021 um að þvingunarúrræðum væri ekki beitt nema þegar um ólöglegar framkvæmdir væri að ræða og að í umræddu tilviki hefði verið veitt byggingarleyfi fyrir þeim. Með hliðsjón af því og þar sem ekki liggur fyrir að almanna­hagsmunum hafi verið raskað með hinum umdeildu framkvæmdum liggja ekki fyrir þær ástæður sem leitt geta til þess að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa að synja um beitingu þvingunarúrræða verði hnekkt.

 Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 23. september 2015 um samþykkt byggingarleyfis vegna Selvogsgötu 16a er vísað frá úrskurðar­nefnd­inni.

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna breytinga sem gerðar hafa verið á Selvogsgötu 16a.

91/2021 Kiðjaberg

Með

Árið 2021, föstudaginn 22. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 91/2021, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. apríl 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 21. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi lóðar nr. 111 í Kiðjabergi þá ákvörðun sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps frá 21. apríl 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að réttaráhrifum deiliskipulagsbreytingarinnar yrði frestað á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 21. júní 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grímsnes- og Grafningshreppi 13. september 2021.

Málavextir: Á fundi skipulagsnefndar umhverfis- og tæknisviðs uppsveita 9. september 2020 var fjallað um fyrirspurn eiganda frístundalóðar nr. 110 í Kiðjabergi varðandi stækkun byggingar­­reits lóðarinnar. Með bókun nefndarinnar var mælst til þess að sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps samþykkti breytingar á deiliskipulagi lóðarinnar með fyrirvara um uppfærð gögn. Sveitarstjórn staðfesti bókun nefndarinnar á fundi sínum 16. s.m. og samþykkti að málið skyldi fá meðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um óverulega breytingu á deiliskipulagi og að grenndarkynningin skyldi ná til næstu nágranna og landeigenda. Í kjölfar grenndarkynningar kom í ljós misræmi milli deiliskipulags og þinglýstra heimilda lóðarhafa á svæðinu. Á fundi skipulagsnefndar 10. febrúar 2021 var lögð fram umsókn frá Kiðjabergsfélaginu um leiðréttingu á deiliskipulagi Kiðjabergs. Í umsókninni kom fram að þegar deiliskipulag Kiðjabergs hefði verið uppfært frá handteiknuðu í stafrænt form hefðu orðið þau mistök að ein lóðin hefði verið teiknuð 4 m of breið. Það hefði orðið til þess að hliðrun hefði orðið á teiknigrunni fleiri lóða. Var þess farið á leit að stærðir lóða nr. 108, 109, 110 og 111 yrðu leiðréttar í samræmi við þinglýst skjöl og núverandi kvaðir deiliskipulags. Samhliða yrði byggingarreitur á lóð nr. 110 stækkaður í takt við umsókn þess efnis. Mæltist skipulagsnefnd til þess við sveitarstjórn að hún samþykkti viðkomandi breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Á fundi sveitarstjórnar 17. s.m. var niðurstaða skipulagsnefndar samþykkt með bókun um að málið fengi málsmeðferð á grundvelli 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga um óverulega breytingu á deiliskipulagi og yrði grenndarkynnt hlutað­eigandi lóðarhöfum. Var breytingar­tillaga deiliskipulagsins grenndarkynnt með athugasemda­fresti frá 23. febrúar til 25. mars s.á. og bárust athugasemdir frá kæranda 29. mars s.á. Málið var tekið fyrir í skipulagsnefnd 15. apríl s.á. þar sem tekin var afstaða til fram­kominna athuga­semda með bókun og var hún staðfest í sveitarstjórn 21. apríl s.á. Kæranda var kynnt niður­staða sveitarstjórnar með tölvupósti 4. maí 2021, auk þess sem samhliða var send tilkynning í bréf­pósti. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 21. maí 2021.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að mál þetta eigi sér nokkra forsögu, en deilur hafi verið um deiliskipulagsákvarðanir sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps er varði frístunda­svæði í landi Kiðjabergs. Mikið og freklega hafi verið þrengt að lóð kæranda í gegnum árin með breytingum á skipulagi og framkvæmdum og ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda og mótmæla. Kærandi hefði óskað eftir frekari gögnum í kjölfar grenndarkynningar í október 2020, s.s. gögn um hnitsetningu lóða nr. 108-112, uppdráttum þar sem lóð nr. 112 sæist, hnit­setningu húsa á lóðum nr. 109, 110 og 112 og mælistikum á lóðamörk. Aðeins hnitsetningar lóða nr. 109-111 hefðu borist við grenndarkynningu deiliskipulagsins. Skipulagsfulltrúi hafi upplýst á kynningartíma að skekkjur hefðu komið í ljós við nánari skoðun og verið væri að útbúa ný gögn. Gögnin hefðu ekki borist fyrir lok athugasemdarfrests kynningar og aðeins að hluta fyrir samþykkt deiliskipulags. Mælistikur sem sýndu lóðamörk greinilega hafi ekki verið settar út. Þá hafi byggingarreitur á lóð nr. 110 verið stækkaður um fimm metra í átt að lóðar­mörkum. Ekki séu fordæmi fyrir því að byggingarreitir séu færðir þetta nálægt öðrum lóðum og verið sé að ganga á réttindi kæranda enn einu sinni. Komið hafi verið til móts við óskir annarra lóðareigenda hvað eftir annað en brotið gegn grenndarrétti og friðhelgi eignarréttar kæranda.

Málsrök Grímsnes- og Grafningshrepps: Sveitarfélagið bendir á að málsrök kæranda taki fyrst og síðast til eldri mála sem ekki falli undir hina kærðu ákvörðun. Fyrir liggi hverjar þinglýstar eignarheimildir lóða á svæðinu séu og þar á meðal sé lóðarleigu­samningur á milli kæranda og Kiðjabergsfélagsins ehf. sem sé eigandi upprunalandsins. Af þeim gögnum megi ætla að málsettar stærðir lóða á svæðinu liggi fyrir og að breidd lóðar nr. 111 eigi að vera 50 m en ekki 54 m, eins og tilgreint hafi verið í deiliskipulagi. Ekkert liggi fyrir um að breytingar hafi verið gerðar á stærðarmörkum lóðanna sem skýri eða réttlæti þá stærð sem tilgreind hafi verið í deiliskipulaginu. Misræmið kunni að hafa áhrif á byggingar­heimildir aðliggjandi lóða þar sem byggingarreitir skerðist í samræmi við skilgreind lóða­mörk sam­kvæmt deiliskipulagi.

Bent sé á að deiliskipulagsákvarðanir geti ekki falið í sér ráðstöfun eignarréttinda að íslenskum rétti. Þannig geti deiliskipulag eitt og sér ekki markað stærð lóða sem séu í einkaeigu heldur verði deiliskipulagið að endurspegla þinglýstar eignarheimildir. Ef misræmi sé á milli til­greindrar stærðar lóðar í deiliskipulagi annars vegar og þinglýstra eignar­heimilda hins vegar gildi hinar þinglýstu eignarheimildir. Hin kærða deiliskipulagsbreyting hafi fyrst og fremst snúist um að lagfæra þau mörk sem birst hafi í deiliskipulagi svæðisins í takt við þinglýstar eignarheimildir og lóðarleigusamning sem taki til lóðar nr. 111. Mælingar sem gerðar hafi verið hafi staðfest að skekkja væri á milli raunverulegra lóðamarka og marka samkvæmt deili­skipulagi. Ekki sé verið að skerða eignarréttindi kæranda með hinni kærðu ákvörðun. Úrskurðar­nefndin sé ekki til þess bær að lögum að skera úr um ágreining um bein eða óbein eignar­réttindi, svo sem um stærð lóða eða eignarlanda, en slíkan ágreining verði eftir atvikum að leiða til lykta fyrir dómstólum.

Breytingar á byggingarreit lóðar nr. 110 hafi engin grenndaráhrif gagnvart lóð nr. 111 enda séu byggingar­reitir lóðanna ekki samliggjandi auk þess sem hús kæranda standi í 115 m fjarlægð frá umræddum byggingarreit.

 Athugasemdir leyfishafa: Eigandi lóðar nr. 110 í Kiðjabergi vísar til þess að það sem kærandi hafi ekki borið fram athugasemdir við skipulagsnefnd og sveitarstjórn fyrr en að liðnum athugasemda­­fresti eigi að vísa kærunni frá úrskurðarnefndinni án frekari umfjöllunar.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi vísar til þess að sveitarfélagið haldi því ranglega fram að kæran snúi einungis að eldra skipulagi. Nýja skipulagið byggi á breytingum sem gerðar hafi verið með skipulagi árið 2015 og felli úr gildi breytingar á stærð lóðar kæranda. Enn sé óljóst hvaða breytingar sé verið að gera í Kiðjabergi og að sveitarfélagið hafi ekki sent gögn sem skýri málið. Það hafi ekki orðið við beiðnum um frekari gögn en svo virðist sem verið sé að færa lóð nr. 111 í norðaustur inn á aðra lóð og færa tvær aðlægar lóðir inn á lóð nr. 111. Stikur hafi ekki verið settar út til afmörkunar lóða fyrr en 28. september 2021 eftir ítrekaðar beiðnir. Þá hafi einungis verið settar út fjórar stikur við horn lóðar nr. 111 en engar til að afmarka aðlægar lóðir. Samkvæmt myndum af stikunum sé lóð nr. 111 komin langt inn á lóð nr. 112. Telur kærandi jafnvel að rangir hnitpunktar hafi verið settir út en skipulagsfulltrúi hafi hvorki svarað fyrirspurn um það né beiðni um frekari gögn. Myndir virðist ekki samræmast hnitunum á loftmynd. Lóð kæranda hafi allt frá upphafi mælst 50 m breið og sé hún með gróðurbeltum á langhliðum. Því sé mótmælt að sveitarfélaginu hafi ekki borist umsóknir um lóðar­­stækkun, en margar beiðnir og umræður um lóðarstækkun hafi verið til umfjöllunar af fulltrúum sveitarfélagsins. Lóðin hafi svo verið stækkuð í 7.561 m2 með deiliskipulagi árið 2015.

—–

Færð hafa verið fram ítarlegri rök í máli þessu sem ekki verða rakin nánar en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafningshrepps um breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs er lýtur m.a. að því að tilgreindri stærð leigulóðar kæranda sé breytt úr 7.561 m2 í 6.150 m2.

Árið 2015 var gildandi deiliskipulag Kiðjabergs tekið til endurskoðunar og tók breytt deili­skipulag svæðisins gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 25. september 2015. Með deili­skipulags­breytingunni var lóð nr. 111 í Kiðjabergi stækkuð úr 6.762 m2 í 7.561 m2 til að koma til móts við óskir kæranda þar um. Í úrskurði úrskurðarnefndarinnar frá 29. september 2017, er varðaði hið endurskoðaða deiliskipulag frá 2015, sagði svo um stækkun lóðar kæranda: „Tilkall kæranda til stærri lóðar ræðst af samningi hans við land­eiganda, en hvorki beinum né óbeinum eignarréttindum verður ráðstafað með deili­skipulagi.“

Í hinni umdeildu deiliskipulagsbreytingu kemur fram að markalínur lóða nr. 108, 109, 110 og 111 hafi ekki verið réttar á teiknigrunni miðað við þinglýst skjöl. Hafi lóðirnar því verið mældar upp á staðnum og hnitsettar á uppdrætti til samræmis við skjölin. Með skipulags­breytingunni sé verið að leiðrétta framangreint misræmi. Um lóð nr. 111 segir enn fremur „Lóðin er á teikningu 7561 m2 en er skv. þinglýstum skjölum 6150 m2. Um 4 metra hliðrun er á teiknigrunni sem er leiðrétt, en lóðin var teiknuð á teiknigrunni 64 metrar á breidd en áttu að vera 60 metrar sbr. þinglýst gögn. Lóðin er leiðrétt í 6150 m2.“

Samkvæmt þinglýstum heimildum um umrædda lóð, þ.e. lóðaleigusamningi, dags. 19. júlí 1990, og stofnskjali lóðarinnar, dags. 21. júní 2005, er stærð hennar 6.150 m2 og liggja engar þinglýstar heimildir fyrir sem skýra stækkun lóðarinnar við deiliskipulagsbreytinguna árið 2015. Deiliskipulag getur hvorki myndað né fellt niður bein eða óbein eignarréttindi, svo sem lóðarréttindi, sem byggjast á einkaréttarlegum samningum, ýmist um kaup á eignarlandi eða um leigu lóðarréttinda. Þinglýstar heimildir um lóðarréttindi, hvort sem um eignarland eða leigulóð er að ræða, eru stofnskjöl slíkra réttinda. Stækkun lóðar nr. 111 samkvæmt deili­skipulagi getur því ekki skapað eignarréttindi umfram þinglýstar heimildir.

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála starfar samkvæmt lögum nr. 130/2011 og hefur það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. ­Er það því ekki á færi nefndarinnar að taka til úrlausnar álitamál er snúa að beinum eða óbeinum eignarréttindum og gildi þinglýstra heimilda í því sambandi.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu var byggingarreitur á lóð nr. 110 stækkaður. Sú breyting verður ekki talin hafa áhrif á grenndarhagsmuni kæranda enda mun hús kæranda vera í um 115 m fjarlægð frá umræddum byggingarreit.

Með vísan til þess sem að framan er rakið liggja ekki fyrir þeir annmarkar á hinni kærðu ákvörðun sem leitt geta til ógildingar hennar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar sveitarstjórnar Grímsnes- og Grafnings­hrepps frá 21. apríl 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kiðjabergs í nefndum hreppi.

154/2021 Bríetartún

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 21. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 154/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. september 2021 um að samþykkja leyfi til að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

 úrskurður

um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur íbúða 0206, 0210, 0213, 2012, 0307 að Bríetartúni 11 og eigendur íbúðar 05 0803 að Bríetartúni 9, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja leyfi til að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. október 2021.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. september 2021 var samþykkt umsókn um leyfi til að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún. Á fundi Borgarráðs 30. september 2021 var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest með samþykkt á Bhluta fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 29. september 2021. Byggingarleyfi var gefið út 29. september 2021.

Kærendur krefjast þess að umrætt byggingarleyfi verði fellt úr gildi auk þess sem framkvæmdir verði stöðvaðar þar til efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir í málinu. Með byggingarleyfinu hafi verið gefið leyfi til að girða af hluta af útisvæði lóðarinnar Borgartún 8-16 og útbúa þar útileiksvæði fyrir leikskóla. Lóðin sé sameign eigenda Borgartúns 8-16,  Þórunnartúns 1, Bríetartúns 9-11 og Katrínartúns 2, 4 og 6. Þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki allra meðeiganda lóðarinnar, líkt og lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús  kveði á um, sé ákvörðun byggingarfulltrúa ekki í samræmi ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki. Því beri að ógilda hana.

Borgaryfirvöld vísa til þess að um sé að ræða tímabundna leigu á hluta af lóð sem kalli á breytingu á nýtingu lóðarinnar að hluta. Þar sem um leigu á óverulegum hluta sameignar hafi verið að ræða hafi samþykki einfalds meirihluta félagsmanna verið fullnægjandi til útgáfu byggingarleyfis. Þá liggi fyrir að heimilt sé að reka atvinnustarfsemi 1. hæð hússins og slík starfsemi geti alltaf kallað á óverulegar breytingar á lóð. Á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, telji Reykjavíkurborg að hafna beri kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Leyfishafi bendir á að í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaáhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt sé kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti sé kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Heimildildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar séu þannig undantekning frá meginreglu sem skýra beri þröngt og að ríkar ástæður eða veigamikil rök verði að vera fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda. Í kærunni séu engin rök færð fyrir kröfu um stöðvun framkvæmda. Um afturkræfa aðgerð sé að ræða enda liggi fyrir í málinu yfirlýsing, dags. 10. mars 2021, um að leyfishafa sé skylt að koma lóðinni í upprunalegt horf við lok leigutíma. Framkvæmdir á lóð séu ekki hafnar og fari nú eingögngu fram inni í rými 0105.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildar­ákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún. Fyrirliggjandi gögn málsins bera með að framkvæmdir á lóð Borgartúns 8-16 eru ekki hafnar auk þess sem þær framkvæmdir sem heimilaðar hafa verið á lóðinni eru afturkræfar, en stöðvunarkrafa kærenda lýtur að þeim framkvæmdum. Í ljósi framangreinds verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt er þó að taka fram að leyfishafi ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

136/2021 Nesvegur

Með

Árið 2021, föstudaginn 15. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 136/2021, kæra á ákvörðun bæjarráðs Grundarfjarðar frá 2. júlí 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 4a við Nesveg og ákvörðun byggingarfulltrúa Grundarfjarðar frá 6. s.m. um að samþykkja umsókn um byggingarleyfi fyrir húsi á sömu lóð.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. ágúst 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Kamski ehf., lóðarhafi Nesvegar 6, Grundarfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Grundarfjarðar frá 2. júlí 2021 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 4a við Nesveg og ákvörðun byggingarfulltrúa Grundarfjarðar frá 6. s.m. um að samþykkja byggingarleyfi fyrir húsi á sömu lóð. Er þess krafist að greindar ákvarðanir verði felldar úr gildi.

Kærandi gerir jafnframt þá kröfu að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til framkominnar stöðvunarkröfu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Grundarfjarðarbæ 26. ágúst 2021.

Málavextir: Á svæðinu sem um ræðir er í gildi deiliskipulag frá árinu 2008. Samkvæmt skipulaginu var lóð kæranda nr. 6 við Nesveg 1.400 m2 að flatarmáli, með 700 m2 byggingarreit, lóð nr. 4a við Nesveg var 2.140 m2 að flatarmáli, með 1.080 m2 byggingarreit, og á milli þessara lóða var Nesvegur 4b með 655 m2 lóð sem á var olíutankur. Árið 2016 var samþykkt breyting á deiliskipulaginu sem fólst í sameiningu lóðarinnar nr. 4b við lóðina nr. 6 og á sú lóð sameiginleg mörk með lóð 4a.

Hinn 12. maí 2021 var grenndarkynnt breyting á umræddu deiliskipulagi. Fólst hún í því að byggingarreitur Nesvegar 4a yrði stækkaður til suðurs og vesturs. Náði grenndarkynningin til lóðarhafa Nesvegar 4 og 4b og til Norðurgarðs D og C. Var þeim veittur frestur til 11. júní s.á. til að skila inn athugasemdum. Athugasemd barst frá lóðarhafa Nesvegar 4b varðandi fjarlægð olíutanks frá fyrirhugaðri byggingu á lóð 4a og að gera þyrfti áhættumat vegna hennar.

Skipulags- og umhverfisnefnd samþykkti deiliskipulagstillöguna á fundi 1. júlí 2021 og fól byggingarfulltrúa að auglýsa gildistöku hennar í B-deild Stjórnartíðinda. Á sama fundi samþykkti nefndin byggingaráform lóðarhafa Nesvegar 4a fyrir sitt leyti með fyrirvara um gildistöku deiliskipulags­breytingarinnar. Á fundi bæjarráðs 2. s.m. voru afgreiðslur nefndarinnar samþykktar. Sama dag óskaði byggingarstjóri fyrir hönd lóðarhafa Nesvegar 4a eftir heimild til að kanna jarðveg á framkvæmda­svæðinu, sbr. 4. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki, og samþykkti byggingar­­fulltrúi þá beiðni 5. s.m. Auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 6. júlí 2021 og samþykkti byggingarfulltrúi byggingarleyfi sama dag. Byggingarleyfi var síðan gefið út 9. s.m.

 Málsrök kæranda: Kærandi kveðst hafa orðið þess áskynja að framkvæmdir hefðu hafist við byggingu húss að Nesvegi 4a, er liggi að lóð hans nr. 6 við Nesveg. Við eftirgrennslan hafi komið í ljós að gerð hefði verið það sem talin hefði verið óveruleg breyting á deiliskipulagi fyrir lóðina Nesveg 4a, að undangenginni grenndarkynningu, en kæranda hefði þó ekki verið send umrædd grenndarkynning þrátt fyrir að vera lóðarhafi grannlóðar. Hefði honum því ekki verið kunnugt um umrædda skipulagsbreytingu og verði því að teljast afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr en raunin varð.

Þá hafi deiliskipulagsbreytingin falið í sér annað og meira en að mörk lóðar Nesvegar 4a hafi verið færð til suðvesturs og byggingarreitur stækkaður til suðurs og vesturs og því hafi ekki getað verið um óverulega deiliskipulagsbreytingu að ræða. Ef skoðað sé það deiliskipulag sem í gildi sé á svæðinu frá því í mars 2008 komi fram að á lóðinni 4a sé hús en hvergi komi fram í skilmálum skipulagsins að heimilt sé að rífa hús sem fyrir hafi verið á lóðinni. Þvert á móti sé þar tekið fram þar að þar sem þegar byggð mannvirki séu á byggingarreit skuli botnplötukóti nýrra mannvirkja taka mið af þeim sem fyrir séu og telji kærandi þetta benda til þess að mannvirki sem fyrir séu á svæðinu skuli standa áfram.

Í málsgögnum komi fram að hús það sem staðið hefði að Nesvegi 4a hefði þegar verið rifið þegar tillaga að breyttu deiliskipulagi hefði verið grenndarkynnt. Hafi það niðurrif verið ólögmætt samkvæmt því sem að framan sé rakið en með hinni kærðu breytingu á skipulaginu hafi í raun verið sköpuð heimild fyrir niðurrifi sem þegar hafi átt sér stað og jafnframt fyrir nýbyggingu á lóðinni og sé fráleitt að slík breyting geti talist svo óveruleg að láta megi við það sitja að hún sé einungis grenndarkynnt. Hafi því ekki verið fyrir hendi skilyrði til þess að beita undanþáguheimild 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Verði ekki fallist á framanritað telji kærandi að ágalli hafi verið á grenndarkynningu tillögunnar sem leiða eigi til ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar þar sem kynningunni hefði ekki verið beint til allra þeirra sem átt hefðu hagsmuna að gæta. Komi fram í grenndarkynningarbréfi að því sé beint að lóðarhöfum Nesvegar 4 og 4b auk Norðurgarðs D og Norðurgarðs C. Virðist með þessu hafa verið litið til þess að lóðirnar nr. 4 og 4b við Nesveg eigi mörk að lóð nr. 4a en erfitt sé að sjá hvaða hagsmuni eigendur atvinnulóða við Norðurgarð, sem liggi handan götu, geti átt vegna breytingarinnar. Hins vegar blasi við að kærandi, sem eigandi Nesvegar 6, hljóti að teljast meðal aðila sem geti átt hagsmuna að gæta, bæði vegna nálægðar við lóð 4a en ekki síður vegna þeirrar hótelstarfsemi sem hann reki í húsinu að Nesvegi 6. Skjóti skökku við að kynna eiganda olíutanks á lóð 4b breytinguna en ekki eiganda hótels þó það sé nokkrum metrum fjær. Við allt þetta bætist svo að með breytingu sem gerð hafi verið á skipulagi svæðisins í febrúar 2016 hafi lóðin nr. 4b við Nesveg verið sameinuð lóð nr. 6 og séu þessar lóðir eftir það ein lóð sem merkt sé sem nr. 6 við Nesveg. Liggi sú lóð því að Nesvegi 4a. Hafi af þessari ástæðu borið að grenndarkynna tillöguna fyrir kæranda. Af framansögðu leiði að grenndarkynning tillögunnar hafi ekki verið í samræmi við 2. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Krafa um ógildingu byggingarleyfis fyrir nýbyggingu að Nesvegi 4a sé aðallega byggð á því að þar sem áðurnefnd breyting a deiliskipulagi vegna lóðarinnar hafi verið ólögmæt hafi byggingarleyfið ekki verið í samræmi við gildandi skipulag, svo sem áskilið sé skv. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki.

 Málsrök Grundafjarðar: Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að kæra í máli þessu hafi borist að liðnum kærufresti. Augljóst sé að það leiði a.m.k. til frávísunar málsins að því er varði breytingu á deiliskipulaginu. Ákvæði laga séu skýr að þessu leyti. Ef um sé að ræða ákvarðanir eins og deiliskipulag, sem sæti opinberri birtingu, þá teljist kærufrestur frá birtingu ákvörðunar, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Sá frestur sé ekki háður neinu mati og að sama skapi geti ekki talist afsakanlegt að hafa ekki vitað af stjórnvaldsreglum sem birtar séu með þeim hætti. Kæra í máli þessu hafi borist 12. ágúst 2021, þ.e. mánuði og fimm dögum eftir birtingu, og rökstuðningur með kærunni hafi borist síðar. Hið kærða byggingarleyfi hafi verið gefið út 9. júlí s.á og kærufrestur vegna þess hafi því runnið út 9. ágúst. Kæranda hafi mátt vera kunnugt um leyfisveitinguna ekki síðar en 9. júlí enda hafi jarðvegsframkvæmdir byrjað ekki síðar en þann dag. Kæra vegna byggingarleyfisins sé því líka of seint fram komin og því beri að vísa henni frá. Auk framangreinds sé rétt að geta þess að sýnilegar framkvæmdir hafi verið í gangi við fráveitulagnir á og að lóðinni við Nesveg 4A á vegum sveitarfélagsins í maí og júní 2021.

Einu málsástæðurnar sem kærandi hafi fært fram fyrir ógildingu byggingarleyfisins séu þær að deiliskipulagsbreytingin sé ógild og af því leiði að byggingarleyfið sé ógilt. Engar sjálfstæðar efnislegar málsástæður séu því fyrir ógildingu byggingarleyfisins. Frávísun á kæru deiliskipu­lagsins leiði því einnig til frávísunar eða a.m.k. höfnunar á kröfu kæranda um ógildingu leyfisins enda málsástæður og forsendur fyrir þeirri kröfu engar eftir frávísun málsins hvað deiliskipulagið varði. Kærandi hafi ekki fært fram nein efnisrök fyrir því að hann hafi átt hagsmuna að gæta vegna skipulagsbreytingarinnar. Bent sé á að allar málsástæður kæranda eigi jafnt við um skipulagið áður en því hafi verið breytt og um hina kærðu breytingu. Ástæða þess sé sú að hin kærða breyting hafi engin neikvæð áhrif umfram það sem verið hafi fyrir breytinguna.

Telja verði að bæði skipulagið frá 2008 og hin kærða breyting sem gerð hafi verið á því geri ráð fyrir að byggingarreitur innan hverrar lóðar nái til sama flatar og hús sem þar standi eða hafi staðið og að auki til byggingarreita sem sýndir séu með rauðum punktalínum á skipulags­uppdráttum. Í þessu hafi ekki falist nein breyting með hinni grenndarkynntu tillögu. Ekki hafi því verið um verulega breytingu að ræða enda sé framsetningin nánast eins á upphaflegu skipulagi og samkvæmt breytingunni. Jafnvel þótt litið væri svo á að með hinni kærðu skipulagsbreytingu væri byggingarreitnum breytt í heild og veitt heimild fyrir niðurrifi eldra húss teldist það ekki veruleg breyting enda séu skilmálar deiliskipulagsbreytingarinnar allir ívilnandi fremur en íþyngjandi hvað varði stærðir og byggingarmagn, hvort sem litið væri til eldra húss eða fyrra deiliskipulags.

Hugleiðingum kæranda um að óheimilt hafi verið að rífa eldra hús þar sem ekki hafi verið bein heimild til þess í skipulagi sé mótmælt enda eigi sú fullyrðing sér enga stoð í lögum. Hún hafi að auki enga þýðingu fyrir hagsmuni kæranda eða lögmæti skipulagsbreytingarinnar. Meint ólögmætt byggingarleyfi til niðurrifs geti ekki leitt til ógildingar deiliskipulagsbreytingar.

Ekki hafi þurft að grenndarkynna umdeilda skipulagsbreytingu fyrir kæranda með hliðsjón af því að breytingin sé að öllu leyti ívilnandi hvað varði hagsmuni hans. Þá sé áréttað að kærandi hafi ekki fært fram nein efnisleg rök fyrir því að hvaða leyti breytingin hafi neikvæð grenndaráhrif umfram skipulag fyrir breytingu.

Þrátt fyrir að umræddu deiliskipulagi hafi verið breytt árið 2016 og þar gert ráð fyrir mögulegri stækkun lóðar kæranda með sameiningu við lóð 4b við Nesveg þá hafi ekki orðið af þeirri breytingu þar sem samkomulag þar um milli eigenda hafi ekki raungerst. Lóðasamningum eða lóðafyrirkomulagi hafi því ekki verið breytt til samræmis við skipulagið. Raunar sé það svo að lóð kæranda sé mun minni en hún sé sýnd á upphaflega deiliskipulaginu frá árinu 2008. Hún sé þar sýnd 1.400 m2, en samkvæmt gildandi lóðarleigusamningi sé hún um 800 m2.

Fullyrðingum kæranda, um að gert sé ráð fyrir að ekið verði um lóð hans til að komast að umræddu húsi eða framkvæmdum við það, sé mótmælt. Hvorki skipulag né samþykktir uppdrættir geri ráð fyrir því. Þá sé alls ekki gert ráð fyrir að framkvæmdaraðilar keyri yfir lóð kæranda til að komast að umræddum framkvæmdum. Málið hafi verið rætt við verktaka eftir að þessi ábending hafi komið fram og þeir inntir eftir þessu. Þeir þvertaki fyrir að sköpuð hafi verið aðstaða með því að aka yfir lóð kæranda. Jafnvel þótt svo væri, þ.e. að verktakar hefðu einhverju sinni ekið yfir þá lóð, myndi það hvorki leiða til ógildingar skipulagsbreytingarinnar eða byggingarleyfisins né leiða til þess að stöðva þyrfti framkvæmdir.

Auk framangreinds sé minnt á að húsnæði kæranda sé á hafnarsvæði þar sem búast megi við starfsemi af þeim toga sem hér um ræði og breytingum á húsnæði, m.t.t. þess að þar fari fram fjölbreytt hafnsækin atvinnustarfsemi sem sé breytingum háð. Telja verði að breytt notkun á lóðinni nr. 4a, þar sem fyrir hafi verið húsnæði undir bræðslu og beinaverksmiðju, sé hins vegar verulega ívilnandi fyrir kæranda.

 Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi bendir á að gengið sé út frá því í kæru að kærufrestur hafi verið liðinn vegna deiliskipulagsbreytingarinnar og sé ekki um það deilt. Hins vegar vísi kærandi til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 því til stuðnings að taka beri kæruna til meðferðar, þrátt fyrir að kærufrestur hafi verið liðinn, enda hafi verið afsakanlegt að hún hafi borist of seint. Við mat á því beri m.a. að líta til þess að kærandi hafi verið sniðgenginn við grenndarkynningu málsins og því ekki fengið að vita af málinu við undirbúning þess, eins og hann hefði þó átt að geta treyst. Þá hafi algjörlega skort kæru­leiðbeiningar í hinni kærðu ákvörðun. Verði ekki fallist á kröfu kæranda um að taka kæruna á skipulagsbreytingunni til meðferðar telji kærandi að úrskurðarnefndin verði samt sem áður að huga að annmörkum á skipulaginu við umfjöllun sína um hið kærða byggingarleyfi og vísist um það til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9116/2016. Um kærufrest vegna byggingar­leyfisins sé vert að taka fram að framkvæmdir við fráveitulagnir á lóðinni hafi ekki gefið tilefni til að ætla að þær tengdust byggingu á lóðinni enda hafi þær allt eins getað verið liður í eðlilegri endurnýjun gamalla lagna, sem eftir atvikum tengist fleiri lóðum og þjóni stærra svæði.

 —–

 Leyfishafa var gefinn kostur á að koma að athugasemdum sínum vegna málsins, en engar slíkar hafa borist úrskurðarnefndinni af hans hálfu.

 Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var birt í B-deild Stjórnartíðinda 6. júlí 2021. Tók kærufrestur því að líða 7. s.m., sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Mátti kæranda vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst 12. ágúst s.á., eða fimm dögum eftir að kærufresti lauk.

Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. En svo háttar í máli þessu að lóðarhafi Nesvegar 4a á andstæðra hagsmuna að gæta í málinu þar sem hin kærða skipulagsbreyting fól í sér stækkun byggingarreits á lóð hans.

Með vísan til þess sem að framan er rakið, og þar sem ekki verður talið að hin kærða breyting raski veigamiklum hagsmunum kæranda, verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu deiliskipulags­breytingar vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga fyrir töku máls til efnismeðferðar að liðnum kærufresti þykja ekki uppfyllt í máli þessu.

Að framangreindri niðurstöðu fenginni á hið kærða byggingarleyfi sér stoð í gildandi deili­skipulagi umrædds svæðis, svo sem því var breytt með áðurgreindri skipulagsákvörðun. Af þeim sökum og þar sem ekki liggur fyrir að annmarkar hafi verið á málsmeðferð byggingar­leyfisins verður gildi þess ekki raskað.

 Úrskurðarorð:

 Vísað er frá kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarráðs Grundarfjarðar frá 2. júlí 2021 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi vegna lóðarinnar nr. 4a við Nesveg.

Hafnað er kröfu kæranda um að felld verði úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Grundar­fjarðar frá 6. júlí 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir húsi á lóðinni Nesvegi 4a.

138/2021 Hafnargata

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 22. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 138/2021, kæra á ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 um að samþykkja afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar á grenndar­kynningu byggingarleyfisumsóknar og samþykkja jafnframt umsókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32, Fáskrúðsfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. ágúst 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur fasteignarinnar að Búðavegi 24, Fáskrúðsfirði, þá ákvörðun bæjarráðs Fjarðabyggðar frá 23. júlí 2021 að samþykkja afgreiðslu eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar á grenndarkynningu byggingarleyfisumsóknar og samþykkja jafnframt um­sókn Loðnuvinnslunnar hf. um byggingarleyfi vegna viðbyggingar og breytinga innanhúss að Hafnargötu 32. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður nú tekin afstaða til þeirrar kröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Fjarðabyggð 30. ágúst 2021.

Málavextir: Á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar Fjarðabyggðar 7. júní 2021 var umsókn leyfishafa lögð fram þar sem sótt var um leyfi til að byggja tvær viðbyggingar að flatarmáli 147,5 m2 og 652,7 m2 í kverk austan frystitækjasalar og norðan við núverandi pökkunarsal og starfsmannaaðstöðu í húsnæði fyrirtækisins að Hafnargötu 32, Fáskrúðsfirði. Kemur fram í umsókninni að bæta eigi við eimsvala norðan við vélasal til að minnka hávaða og lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði til að uppfylla viðmiðunarmörk fyrir hávaða frá atvinnustarfsemi í samræmi við reglugerð um hávaða nr. 724/2008. Nefndin samþykkti að grenndarkynna umsóknina. Bæjarstjórn tók málið fyrir á fundi 24. júní s.á. og samþykkti afgreiðslu nefndarinnar. Að lokinni grenndarkynningu var byggingarleyfisumsóknin samþykkt á fundi eigna-, skipulags- og umhverfisnefndar 22. júlí 2021 og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 23. s.m.

Málsrök kærenda: Kærendur rökstyðja stöðvunarkröfu sína með vísan til annmarka á málsmeðferð að formi til og efni. Vísað er til þess að hávaði skv. reglugerð nr. 724/2008 sé of mikill nú og að ekki hafi verið sýnt fram á að hávaðinn muni minnka með framkvæmdunum. Þá skorti á gögn og mælingar sem sýni með óyggjandi hætti að framkvæmdirnar verði til bóta fyrir hávaða á svæðinu og að með því hafi Fjarðabyggð brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsrök Fjarðabyggðar: Varðandi stöðvunarkröfu er af hálfu bæjaryfirvalda vísað til 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011. Greinin feli í sér þá meginreglu að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Ákvæðið hvíli jafnframt á meginreglum stjórnsýsluréttar um þýðingu kærumálsmeðferðar, þ.e. að kæra fresti ekki réttaráhrifum.

Bent sé á að í úrskurðaframkvæmd úrskurðarnefndarinnar hafi m.a. birst það sjónarmið að litið skuli til umfangs og eðlis framkvæmda sem stöðvunarkrafa varði. Stöðvunarkröfuna verði jafnframt að setja í samhengi við þann efniságreining sem komi fram í kæru. Sjónarmið kærenda hvíli í veigamiklum atriðum á stöðu fasteignar þeirra í ljósi reglna um hljóðvist vegna starfsemi á fasteign leyfishafa.

Byggingarleyfið varði í raun tvíþættar framkvæmdir utan húss, þ.e. annars vegar viðbyggingu og frágang eimsvala og hins vegar breytingar innanhúss. Um framkvæmdir við viðbygginguna og breytingar innanhúss gildi augljóslega að þær hafi ekki áhrif á hljóðvist svo nokkru nemi eða varði hagsmuni kærenda. Þá gildi um alla hluta framkvæmdarinnar og sérstaklega um frágang nýs eimsvala að eðli framkvæmdanna sé þannig að einfalt sé að fjarlægja þann búnað. Stöðvunarkrafan verði með engum hætti réttlætt með því að óafturkræf röskun verði á hagsmunum kærenda, yrði kæra þeirra tekin til greina á síðari stigum.

Vegna stöðvunarkröfu verði ekki litið fram hjá því undirmarkmiði framkvæmdarinnar að lækka hljóðstig frá núverandi kælibúnaði. Leyfishafi hafi látið fara fram hljóðmælingar á núverandi búnaði og stefnt að því að hljóðstig minnki með nýjum tæknibúnaði. Nýr kælibúnaður og aðrar breytingar á rekstri leyfishafa muni skapa svigrúm til minni hljóðmengunar frá rekstrinum. Þá sé það skilyrði byggingarleyfisins að hljóðstig vegna starfsemi leyfishafa eftir breytingar verði sannreynt og að hljóðvist verði innan tilskilinna marka sem skilgreind séu í reglugerð um hávaða. Það sé því bæði markmið leyfishafa að lækka hljóðstig frá starfseminni á grunni þeirra framkvæmda sem byggingarleyfið varði og skilyrði leyfisveitanda að sannreynt verði hvort það gangi eftir. Jafnframt sé möguleiki á endurskoðun byggingarleyfisins eða á kröfum um úrbætur á öðrum grunni. Það sé því með engu móti rökrétt eða forsvaranlegt að fallast á stöðvunarkröfu kærenda. Stöðvun framkvæmda geti haft þveröfug áhrif varðandi þá hagsmuni sem kærendur byggi á að þeir hafi, þ.e. bætingu hljóðvistar. Hafa beri og í huga að það markmið og þau rökstuddu áhrif framkvæmdar að lækka hljóðstig frá starfsemi leyfishafa varði fleiri eigendur fasteigna í nágrenninu. Yrði fallist á stöðvunarkröfu yrði gengið á þá hagsmuni að bæta hljóðvist á öðrum fasteignum í nágrenni fasteignar leyfishafa.

Athugasemdir leyfishafa: Hvað stöðvunarkröfu kærenda varðar er henni mótmælt sem tilefnislausri, órökstuddri og fráleitri. Það sé meginregla að kæra til úrskurðarnefndar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Með sama hætti sé kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar. Í greinargerð með frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 130/2011 komi fram að úrskurðar­nefndinni beri að gæta að því að efnislegar forsendur liggi að baki kæru. Sé litið til úrskurða nefndarinnar beiti hún þessu valdi af mikilli varfærni. Umkvörtunarefni kærenda sé tilefnislaust m.t.t. tilgangs framkvæmdanna að draga úr hljóðmengun og sé því órökstutt með öllu og eigi jafnvel ekki undir úrskurðarvald nefndarinnar.

Ljóst sé að stöðvun framkvæmda byggist á undantekningarheimild sem skýra beri þröngt og beri einungis að beita í takmarkatilvikum þegar sérstakar ríkar aðstæður eða hagsmunir séu fyrir hendi og veigamikil rök standi til beitingar úrræðisins. Kærendur hafi hvorki fært fram málsástæður né efnisleg rök fyrir að einhverjar þær aðstæður séu uppi sem réttlæti beitingu svo harkalegs úrræðis eða sýnt fram á að þeir verði fyrir tjóni vegna framkvæmdanna. Augljóst sé hins vegar að stöðvun framkvæmda hefði í för með sér verulegt tjón fyrir leyfishafa og viðsemjendur hans, með beinum og óbeinum afleiðingum fyrir nærsamfélagið allt. Fyrirhuguðum framkvæmdum sé ætlað að bæta samkeppnishæfni leyfishafa vegna vinnslu uppsjávarafla á svæðinu, bæta hljóðvist m.a. fyrir nágranna leyfishafa og starfsumhverfi starfsmanna, ásamt því að verja störf 30 starfsmanna í landvinnslu auk 15 sjómanna á svæðinu. Sé einnig bent á í því sambandi að umrædd framkvæmd kosti félagið rúman 1,1 milljarð króna og hafi nú þegar verið keypt efni, tæki, og búnaður sem kosti rúmar 900 milljón króna. Ljóst sé enn fremur að framkvæmdin öll sé undir verulegum tímatakmörkunum enda þurfi framkvæmdum að vera lokið áður en loðnuvertíð hefjist. Takist það ekki muni leyfishafi verða af á bilinu 3-4 milljarða króna í veltu sem myndi hafa verulegt tjón í för með sér fyrir leyfishafa. Mætti í raun tala um altjón í því sambandi fyrir leyfishafa.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir slíkum ákvörðunum.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130 /2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi.

Í máli þessu eru málsaðilar fleiri en einn og eiga þeir andstæðra hagsmuna að gæta. Ekki verður talið að framkvæmdir vegna eimsvalans séu óafturkræfar, en það virðast helst vera þær framkvæmdir sem kærendur eru ósáttir við. Þá kemur fram í skilyrðum byggingarleyfis að hljóðstig vegna starfseminnar verði sannreynt að framkvæmdum loknum þannig að hljóðstig verði innan þeirra marka sem skilgreind eru í reglugerð um hávaða nr. 724/2008.

Í ljósi framangreinds verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Verður kröfu kærenda þess efnis því hafnað en frekari framkvæmdir eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.

77/2021 Lækjargata

Með

Árið 2021, miðvikudaginn 15. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. maí 2021 um að heimila byggingu fjölbýlishúsaklasa með 23 íbúðum og einu atvinnurými á lóðinni Lækjargötu 2, Hafnarfirði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. júní 2021, er barst nefndinni 4. s.m., kæra eigendur fasteigna að Lækjargötu 4, 6, og 8 og Brekkugötu 5, 7, 9, 10, 11, 16 og 18 í Hafnarfirði þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. maí 2021 að heimila byggingu fjölbýlishúsaklasa með 23 íbúðum og einu atvinnurými á lóðinni Lækjargötu 2, Hafnarfirði. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 25. júní 2021.

Málavextir: Lóðin Lækjargata 2 er á svæði þar sem í gildi er deiliskipulagið Miðbær Hafnarfjarðar. Árið 2018 var gerð breyting á deiliskipulaginu er varðaði Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7, þar sem m.a. var gert ráð fyrir byggingu fimm hæða húss ásamt sameiginlegri bílageymslu í kjallara á lóð Lækjargötu 2. Deiliskipulagsbreytingin var kærð til úrskurðar­nefndarinnar af eigendum fasteigna við Lækjargötu og Brekkugötu og með úrskurði upp­kveðnum 12. desember 2019 í því kærumáli voru felldir úr gildi breyttir skilmálar fyrir lóðirnar Lækjargötu 2 og Suðurgötu 7 um að heimilt yrði að setja glugga og dyr á austurhlið hússins að Suðurgötu 7, að fengnu leyfi Minjastofnunar. Að öðru leyti stóð hin kærða ákvörðun óröskuð.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. maí 2021 var samþykkt umsókn um leyfi til að byggja fjölbýlishúsaklasa á lóðinni Lækjargötu 2. Byggingarnar yrðu ein til tvær hæðir, auk rishæðar og kjallara, með 23 íbúðum ásamt einu atvinnurými.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er bent á að teikningar þær sem liggi til grundvallar nefndu byggingarleyfi séu ekki í samræmi við aðalskipulag Hafnarfjarðar. Þær teikningar sem byggingarfulltrúi hafi samþykkt geri aðeins ráð fyrir einu atvinnurými á jarðhæð og að megin­hluti jarðhæða húsanna sé íbúðarhúsnæði. Þetta sé í andstöðu við aðalskipulag bæjarins.

Málsrök Hafnarfjarðarkaupstaðar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að á afgreiðslu­fundi skipulags- og byggingarfulltrúa 5. maí 2021 hafi ekki verið samþykkt útgáfa á byggingar­leyfi heldur hafi verið um að ræða samþykki byggingaráforma, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Var vísað til meðfylgjandi fundargerðar afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa frá 5. maí 2021. Telja bæjaryfirvöld að í kæru sé hvorki gerð grein fyrir atvikum né málsástæðum og að ekki verði annað séð en að kæran sé sett fram í þeim eina tilgangi að þrýsta á um endurskoðun á þeim byggingaráformum sem deiliskipulag lóðarinnar heimili. Hin samþykktu byggingaráform séu að öllu leyti í samræmi við gildandi deiliskipulag lóðarinnar og formleg málsmeðferð byggingarfulltrúa lögum samkvæmt. Því beri að hafna framkominni kröfu kærenda.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur benda á að í umsögn bæjarins sé því haldið fram að á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 5. maí 2021 hafi ekki verið samþykkt útgáfa byggingarleyfis heldur hafi verið um að ræða samþykki byggingaráforma. Þetta sé hins vegar ekki í samræmi við gögn frá bæjaryfirvöldum sem vísað hafi verið til enda komi fram í fundargerð að byggingarfulltrúi hefði samþykkt byggingarleyfi. Átt hefði að geta þess í bókuninni ef fundurinn hefði einungis fjallað um byggingaráform en ekki byggingarleyfi. Telja verði kæruna ná til hvoru tveggja samþykktar byggingaráforma og útgáfu byggingarleyfis, sem virðist hafa verið gefið út í beinu framhaldi, enda séu framkvæmdir á lóðinni hafnar. Þá sé það rangt að málsatvikum og málsástæðum sé ekki lýst í kærunni, enda sé greint frá þeirri ákvörðun sem kærð sé og rakið af hverju hún sé ólögleg með vísan til aðalskipulags og úrskurðar úrskurðarnefndarinnar um deiliskipulag á lóðinni.

Niðurstaða: Samkvæmt fundargerð afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa 5. maí 2021 var þar samþykkt umsókn um byggingarleyfi til að reisa fjölbýlishúsaklasa á lóðinni Lækjargötu 2 í Hafnarfirði. Í þeirri afgreiðslu fólst samþykki byggingaráforma skv. 11. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sem er stjórnvaldsákvörðun sem borin verður undir úrskurðar­nefndina, sbr. 59. gr laganna. Útgáfa byggingarleyfis skv. 13. gr. fer fram í skjóli samþykktra byggingaráforma og hefur, að öðrum skilyrðum uppfylltum, þau réttaráhrif að hefja má samþykktar byggingarframkvæmdir.

Samkvæmt Aðalskipulagi Hafnarfjarðar 2005-2024 er hið umdeilda svæði á miðsvæði M1. Í almennum ákvæðum aðalskipulagsins um miðsvæði kemur fram að á „miðsvæðum skal fyrst og fremst gera ráð fyrir verslunar- og þjónustustarfsemi og stjórnsýslu sem þjóna heilu landsvæði, bænum í heild sinni eða fleiri en einu bæjarhverfi, s.s. verslunum, skrifstofum, þjónustu­stofnunum, veitinga- og gistihúsum, menningarstofnunum og hreinlegum iðnaði. Þar sem aðstæður leyfa má gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði, sérstaklega á efri hæðum bygginga.“ Í kafla um miðbæ Hafnarfjarðar M1 kemur fram að „[a]llt rými á jarðhæð í miðbænum verði nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu en stefnt skuli að aukinni íbúðarbyggð í miðbænum, m.a. á efri hæðum húsa við Strandgötuna.“

Í gildi er deiliskipulagið Miðbær Hafnarfjarðar sem tekur til lóðarinnar Lækjargötu 2. Deili­skipulagið tók gildi árið 2001 en deiliskipulagsbreyting fyrir nefnda lóð tók gildi 13. september 2018. Samkvæmt deiliskipulagi er heimilt að byggja á lóðinni fimm hús ásamt sameiginlegri bílageymslu í kjallara með nýtingarhlutfalli allt að 1,89. Lóðin var fyrir breytingu skilgreind sem iðnaðar- og athafnalóð en er nú skilgreind sem íbúðar- og atvinnulóð með verslun/þjónustu á jarðhæðum sem snúa að Lækjargötu. Í deiliskipulagsbreytingunni er ekki fjallað um hvernig nýtingu jarðhæða sem snúa að Suðurgötu og Brekkugötu skuli háttað en tekið er fram að skilmálar deiliskipulagsins Hafnarfjörður miðbær, sem öðlaðist gildi 19. október 2001, gildi að öðru leyti. Í deiliskipulaginu er ekki minnst á hvaða starfsemi skuli vera á jarðhæð þeirra húsa sem snúa að Suðurgötu eða Brekkugötu.

Í byggingarlýsingu sem lá til grundvallar hinu kærða byggingarleyfi segir m.a. „Um er að ræða fjölbýlishúsaklasa sem er ein til tvær hæðir auk nýtilegrar rishæðar og kjallara, með samtals 23 íbúðum, ásamt einu atvinnurými. Í kjallara eru geymslur og sameiginleg rými auk tæknirýma og bílageymslu. Innkeyrsla í bílageymslu er frá Suðurgötu en aðkoma fótgangandi og hjólandi í bíl- og hjólageymslu er frá Lækjargötu. Atvinnurými á horni Lækjargötu og Suðurgötu er ekki fullhannað en þar er möguleiki á verslun, þjónustu eða kaffihúsi. Sérafnotaflötur utanhúss fylgir atvinnurýminu. Gerðir verða sérstakir uppdrættir af innra skipulagi atvinnuhúsnæðisins sem taka mið af þeirri starfsemi sem fyrirhuguð er. Mögulegt er að innrétta íbúðir á jarðhæð við Lækjargötu sem verslunar- og þjónusturými. Merkingar fyrir starfsemi atvinnurýmis skulu staðsettar innan sérstaklega tilgreindra reita á útlitsmyndum.“ Samkvæmt þessu sem og fyrir­liggjandi teikningum er ljóst að byggingarfulltrúi samþykkti með hinni kærðu ákvörðun byggingarleyfi fyrir fjölbýlis­húsa­­­klasa með íbúðum á jarðhæð.

Í 11. gr. mannvirkjalaga kemur m.a. fram að fyrirhuguð mannvirkjagerð sem sótt sé um byggingarleyfi fyrir þurfi að vera í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Þetta má einnig sjá í 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna, sem gerir það að skilyrði fyrir útgáfu byggingar­leyfis að mannvirkið og notkun þess samræmist skipulagsáætlunum á svæðinu.

Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að í aðalskipulagi Hafnarfjarðar er gerð sú krafa að allt rými á jarðhæð í miðbænum skuli nýtt fyrir verslun, veitingahús og þjónustu og fer umdeilt byggingar­leyfi því í bága við gildandi skipulag svæðisins hvað landnotkun varðar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 5. maí 2021 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir byggingu fjölbýlishúsaklasa á lóðinni Lækjargötu 2.

126/2021 Fagribær

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 126/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru, sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 26. júlí 2021, kæra eigendur, Glæsibæ 14, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 4. ágúst 2021.

Málavextir: Hinn 5. nóvember 2019 tók gildi nýtt hverfisskipulag í Reykjavík fyrir Ártúnsholt, Árbæ og Selás. Samkvæmt auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda féllu eldri deiliskipulags­áætlanir á svæðinu niður við gildistökuna. Byggingarfulltrúi samþykkti hinn 8. júní 2021 um­sókn eigenda Fagrabæjar 13 um leyfi til að reisa steinsteypta viðbyggingu á austurgafli hússins sem fyrir er á lóðinni. Áður en til samþykktar byggingaráforma kom leitaði byggingar­fulltrúi umsagnar skipulagsfulltrúa sem gerði ekki skipulagslegar athugasemdir við erindið og taldi það samræmast gildandi hverfisskipulagi. Byggingarleyfi fyrir framkvæmdunum var síðan gefið út hinn 2. júlí 2021.

­Málsrök kærenda: Kærendur byggja á því að efnisannmarkar hafi verið á hinni kærðu ákvörðun og því beri að fella hana úr gildi. Byggingarfulltrúi hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, viðbyggingin sé fyrir utan byggingarreit, samþykktar teikningar fylgi ekki leiðbeiningum hverfisskipulags Reykjavíkur og enn fremur séu þær rangar. Samkvæmt mælingum kærenda sé viðbyggingin um 2 m frá lóðamörkum og þakskyggni muni koma til með að standa 1,36 m frá lóðamörkunum. Samkvæmt 5. tl. gr. 2.3.5. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sé ekki heimilt að setja upp stakstæða skúra nær lóðamörkum en 3 m nema að fengnu samþykki lóðarhafa þeirrar nágrannalóðar­ og gildi hið sama um hvers kyns viðbyggingar. Ljóst sé að hin kærða ákvörðun sé byggð á misvísandi og/eða röngum upplýsingum og fari í bága við ákvæði byggingar­reglugerðar þar sem byggingin standi of nærri lóðarmörkum Glæsibæjar 14 án samþykkis kærenda. Þegar af þeirri ástæðu beri að felli hina kærðu ákvörðun úr gildi.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er ekki gerð athugasemd við máls­ástæður kærenda að öðru leyti en því að heimiluð viðbygging sé 2,5 m frá lóðamörkum, en ekki 2 m, líkt og kærendur haldi fram. Afstöðumynd hafi sýnt viðbygginguna 3 m frá lóða­mörkum og því hafi skipulagsfulltrúi ekki gert athugasemdir við byggingarleyfisumsóknina. Samkvæmt eldri gildandi teikningu að Fagrabæ 13 sé bílskúr málsettur 2,5 m frá lóðamörkum, sem sé villa, og viðbyggingin „því teiknuð í sömu línu og bílskúrinn“. Þó beri á það að líta að fjarlægð viðbyggingarinnar að húsi kærenda sé 17,17 m og ekki verði séð að núverandi staðsetning hennar hafi áhrif á hagsmuni kærenda umfram það sem búast hefði mátt við væri hún staðsett 50 cm fjær lóðamörkum. Eigi það frávik því ekki að leiða til ógildingar byggingar­leyfisins.

 Athugasemdir leyfishafa: Eigendur Fagrabæjar 13 vísa til þess að þau muni verða fyrir fjárhagslegu tjóni verði farið að kröfum kærenda og að munur á upphaflegum áætlunum og raun­verulegri framkvæmd teljist það lítill að hann eigi ekki að hafa áhrif á áframhaldandi framkvæmdir og frágang umþrættrar viðbyggingar. Kærendur hafi hvorki sýnt fram á að aukið skuggavarp muni hljótast af viðbyggingunni né fært fyrir því rök að slíkt skuggavarp hafi áhrif á athafnasvæði lóðar þeirra. Viðbyggingin sé vestan við hús kærenda, hafi því ekki áhrif á sólríkasta útisvæðið og skuggavarp verði ekki mikið meira en af núverandi girðingu á milli lóðanna, sem byggð hafi verið af núverandi eigendum lóðanna árið 2020. Mælingar á lóðinni vegna fyrirhugaðrar viðbyggingar frá 27. júlí 2021 hafi byggst á upplýsingum frá land­upplýsingum Reykjavíkurborgar, LUKR. Þá eigi ákvæði 5. tl. g-liðar gr. 2.3.5 í byggingar­reglugerð ekki við þar sem ekki sé um að ræða framkvæmd sem undanþegin sé byggingar­leyfi. Þvert á móti sé hún háð umfjöllun og yfirferð byggingarfulltrúa á teikningum og öðrum gögnum sem kunni að skipta máli við leyfisveitinguna.

Niðurstaða: Í málinu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 að samþykkja umsókn eigenda Fagrabæjar 13 um leyfi til að reisa steinsteypta viðbyggingu á austurgafl hússinns á lóðinni, en baklóð nefndrar lóðar og lóðar kærenda eiga sameiginleg lóða­mörk.

Hverfisskipulag fyrir Árbæ tók gildi með birtingu auglýsingar í B-deild Stjórnartíðinda 5. nóvember 2019. Samkvæmt skilmálum þess er svæðinu skipt upp í skilmálaeiningar. Lóðin Fagribær 13 er innan skilmálaeiningar 7.2.3, Bæjarhverfi, en þar er eingöngu íbúðarbyggð. Kemur og fram að á meðal helstu áherslna innan einingarinnar sé að stækka byggingarreiti á lóðum og gefa viðbótarbyggingarheimildir fyrir viðbyggingum. Ónýttar byggingarheimildir sem fram komi í þeim deiliskipulagsáætlunum sem falli úr gildi með gildistöku hverfis­skipulagsins haldi sér í skipulagsskilmálum hverfisskipulagsins. Allar byggingar á lóð skuli vera innan byggingarreita og er gert ráð fyrir tvenns konar byggingarreitum. Annars vegar takmörkuðum byggingarreitum, en allar lóðir í skilmálaeiningunni sem hér um ræðir eru með slíkan byggingarreit, og hins vegar aðalbyggingarreitum. Um takmarkaða byggingarreiti er m.a. nánar tilgreint að þeir séu rúmir og að ekki sé gert ráð fyrir því að þeir séu fullnýttir heldur sýni þeir mögulegt svæði fyrir minni viðbyggingar og stakstæðar byggingar. Af skipulagsuppdrætti hverfisskipulagsins má ráða að byggingarreitur umræddrar lóðar sé í 3 m fjarlægð frá lóðamörkum gagnvart lóð kærenda og að bílskúrinn nái að hluta út fyrir þann reit.

Misræmis gætir í aðaluppdráttum heimilaðrar viðbyggingar sem samþykktir voru 8. júní 2021.­ Á aðaluppdrætti með afstöðumynd, sem hefur að geyma byggingarlýsingu, er byggingar­reitur lóðarinnar sýndur 3 m frá mörkum lóðar kærenda og viðbyggingin að einhverju leyti fyrir utan byggingarreitinn, en bílskúr sá sem fyrir er á lóðinni sýndur innan byggingarreitsins. Á aðaluppdrætti sem sýnir grunnmynd og snið, og samþykktur var sama dag með áritun byggingarfulltrúa, er byggingarreiturinn hins vegar sýndur 2,5 m frá greindum lóðamörkum og viðbyggingin ásamt bílskúr þeim sem fyrir er á lóðinni sýnd á mörkum byggingarreitsins. Af framansögðu er ljóst að með hinni kærðu ákvörðun hefur verið samþykkt að veita eigendum Fagrabæjar 13 leyfi fyrir viðbyggingu í allt að 2,5 m fjarlægð frá mörkum lóðar kærenda.

Samkvæmt 11. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki skulu aðaluppdrættir byggingarleyfis uppfylla ákvæði laganna og reglugerða sem settar hafa verið á grundvelli þeirra. Á grundvelli ákvæðisins tilkynnir leyfisveitandi umsækjanda um samþykki byggingaráforma, enda sé fyrirhuguð mannvirkjagerð í samræmi við skipulagsáætlanir á viðkomandi svæði. Skal útgefið byggingarleyfi vera í samræmi við skipulagsáætlanir, sbr. 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laganna. Var hið kærða byggingarleyfi því ekki í samræmi við gildandi hverfisskipulag, svo sem áskilið er í fyrrgreindum ákvæðum mannvirkjalaga.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. júní 2021 um að samþykkja umsókn um leyfi til að byggja við húsið að Fagrabæ 13.

52 og 87/2021 Bergstaðastræti

Með

Árið 2021, þriðjudaginn 7. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur­.

Fyrir var tekið mál nr. 52/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húss að Bergstaða­stræti 2 í veitingastað.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. apríl 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra 10 íbúar að Skólavörðustíg 5, Skólavörðustíg 3A og Laugavegi 8, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun Bergstaðastrætis 2 í veitingastað. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi, dags. 15. júní 2021, sem barst úrskurðarnefndinni 16. s.m., kærir Hótel Óðinsvé hf. einnig fyrrgreinda ákvörðun byggingarfulltrúa með kröfu um ógildingu hennar. Þar sem kærumálin varða sömu ákvörðun, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi, verður síðara kærumálið, sem er nr. 87/2021, sameinað máli þessu.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 3. og 25. júní 2021.

Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 7. janúar 2020 var samþykkt umsókn um leyfi til að opna veitingastað í flokki II, tegund f, fyrir allt að 55 gesti og tvo starfsmenn, lækka kjallaragólf um 50 cm og setja stiga upp á 2. hæð við norðurgafl hússins að Bergstaðastræti 2.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að áform um breytta notkun hússins að Bergstaðastræti 2 hafi ekki verið kynnt nágrönnum og að kærendum hafi ekki verið kunnugt um málið fyrr en 21. mars 2021. Þá hafi einn kærenda fengið fregnir af málinu og samdægurs sent fyrirspurn til byggingar­fulltrúans í Reykjavík, en engin svör hefðu borist þegar kæra til úrskurðar­nefndarinnar hafi verið lögð fram. Kærendur byggja á því að í fyrirhugaðri krá muni verða spiluð tónlist fram á nætur auk þess sem drykkjuhljóð muni berast frá gestum. Afar stutt sé að svefnherbergis­gluggum í næstu íbúðum við Bergstaðastræti 2 og gerð hússins sé þess eðlis að ekki verði unnt að tryggja næturró íbúa í nærliggjandi húsum. Uppdrættir þeir sem samþykktir hafi verið 7. janúar 2020 sýni ekki nauðsynlegar hljóðvistarlegar breytingar. Reynsla kærenda af rekstri krár/ölstofu að Bergstaðastræti 3 sé sú að hávaði sé mikill og að gestir hafi gengið örna sinna hvar sem er, m.a. í bakgörðum húsanna í kring. Einn kærenda bendir á að hann leigi út fjórar íbúðir á efri hæðum Bergstaðastrætis 4, sem sé við hlið Bergstaðastrætis 2, og að staðsetning kráarinnar/ölstofunnar að Bergstaðastræti 2 sé beint fyrir neðan svefnherbergi íbúðanna í húsi nr. 4. Hafi nú þegar ítrekað orðið að endurgreiða leigu af þessum sökum og hafi leiguhúsnæðið fengið slæmar umsagnir á netinu vegna reksturs krár/ölstofu að Bergstaðastræti 3. Jarðhæð og kjallari Bergstaðastrætis 4 sé leigt út til verslunarreksturs og hafi starfsemin þar orðið fyrir ónæði vegna næturgesta Bergstaðastrætis 3. Svar frá lögfræðingi umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, þar sem fram komi að leyfið sem um ræði falli undir flokk II, sem sé umfangslítill áfengisveitingastaður og ekki til þess fallinn að valda ónæði í nágrenninu, sé ekki í samræmi við raunverulega upplifun nágranna Bergstaðastrætis 2 af slíkum rekstri.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er gerð sú krafa að kröfu kærenda verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem kærufrestur sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Byggingarleyfið hafi verið samþykkt 7. janúar 2020 en kæran ekki lögð fram fyrr en 15. apríl 2021. Verði ekki fallist á kröfu um frávísun telja borgaryfirvöld að hafna eigi kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar með vísan til þess að deiliskipulag reitsins heimili þá starfsemi sem kæran lúti að og að starfsemin samræmis einnig aðalskipulagi. Málsmeðferð ákvörðunarinnar hafi verið í sam­ræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga og stjórnsýslulaga. Bergstaðastræti 2 sé staðsett á miðborgarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og á svæðinu sé lögð sérstök áhersla á smávöruverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingar. Í gildi sé deiliskipulag fyrir staðgreinireit 1.171.3, Laugavegs- og Skólavörðustígsreits, sem tók gildi 10. desember 2002 ásamt síðari breytingum. Bergstaðastræti sé enn fremur á skilgreindu götusvæði nr. 22 og sé svæðið eitt af mörgum svæðum innan miðborgarinnar sem lúti starfsemiskvótum. Á skilgreindu götusvæði nr. 22 skuli hámarkshlutfall starfsemi, að smásöluverslun undan­skilinni, vera 50%. Við breytingu á notkun Bergstaðastrætis 2 verði hlutfall veitingastaða á svæðinu 46% og því innan heimilaðra marka eftir breytinguna. Í ljósi þess að heimiluð starfsemi samrýmist gildandi aðal- og deiliskipulagi hafi ekki verið þörf á grenndarkynningu.

Athugasemdir byggingarleyfishafa: Leyfishafi bendir á að kærufrestur sé liðinn, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, og því beri úrskurðarnefndinni að vísa kærunni frá. Leyfishafi telur að ástæða kærunnar sé sú að kærendur séu mótfallnir opnun veitingastaðar að Bergstaðastræti 2 og að þeir hafi fyrir fram gefnar væntingar til þess að veitingastaðurinn muni valda íbúum ónæði. Veitingastaðurinn falli undir skilgreiningu í flokki II sem „umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007. Fyrirhugaðar framkvæmdir og opnun veitingastaðar í flokki II séu í fullu samræmi við deili­skipulag svæðisins, sem og aðalskipulag Reykjavíkur, og því hafi ekki verið þörf á grenndar­kynningu. Svæðið sem húsið að Bergstaðastræti 2 standi á sé skilgreint sem M1a, Miðborgarkjarni, þar sem lögð sé áhersla á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingar. Bergstaðastræti 2 standi enn fremur á svæði sem teljist hafa rýmri veitinga­heimildir en almennt gildi á svæðinu samkvæmt korti sem flokki svæði í miðborginni eftir heimildum um vínveitingar. Bergstaðastræti sé á kortinu á rauðu svæði.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærandi byggir á að byggingarleyfishafi haldi því ranglega fram að Bergstaða­stræti 2 sé á svæði með rýmri heimildir til vínveitinga en almennt gildi á svæðinu. Húsið standi þvert á móti á svæði sem teljist hafa takmarkaðar heimildir, litað með grænum lit á korti, og hvers kyns starfsemi sem valdið geti ónæði hljóti því að vera óheimil eftir kl. 23:00. Afgreiðsla byggingarfulltrúa sé samkvæmt framangreindu byggð á röngum forsendum og hana beri því að fella úr gildi.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Hið kærða byggingarleyfi var samþykkt 7. janúar 2020 en kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni 20. apríl og 16. júní 2021, eða rúmu ári eftir að ákvörðun byggingarfulltrúa um byggingarleyfi lá fyrir. Kærendur bera því við að þeim hafi ekki verið kunnugt um heimilaða breytta notkun húsnæðisins að Bergstaðastræti 2 fyrr en 21. mars 2021 annars vegar og svo 15. júní s.á. hins vegar.

Samþykkt eða útgáfa byggingarleyfis sætir ekki opinberri birtingu og er að jafnaði aðeins tilkynnt umsækjanda leyfis. Leiðir af því að ekki er unnt að miða kærufrest þriðja aðila sem kann að eiga hagsmuna að gæta við dagsetningu ákvörðunar byggingarfulltrúa. Borgaryfirvöld hafa ekki sýnt fram á að kærendur hafi vitað eða mátt vita af samþykkt hins kærða byggingarleyfis fyrir þann tíma sem þeir halda fram, en rekstur samkvæmt hinni breyttu notkun var ekki hafinn þegar kærur í máli þessu bárust úrskurðarnefndinni. Verður upphaf kærufrests í máli þessu því miðað við þau tímamörk sem kærendur halda fram að þeim hafi orðið kunnugt um hina kærðu ákvörðun. Teljast kærur í máli þessu því hafa borist úrskurðarnefndinni innan kærufrests skv. 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Í máli þessu er deilt um byggingarleyfi þar sem heimilað var að breyta notkun hússins að Bergstaðastræti 2 í veitingastað í flokki II. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007 eru veitingastaðir í flokki II skilgreindir sem „umfangslitlir áfengisveitingastaðir þar sem starfsemin er ekki til þess fallin að valda ónæði í nágrenninu, svo sem með háværri tónlist, og staðir sem kalla ekki á mikið eftirlit og/eða löggæslu“.

Umrætt hús er innan staðgreinireits 1.171.3, Laugarvegs- og Skólavörðustígsreits. Í skilmálum deiliskipulagsins segir að innan svæðisins sé heimil sú notkun sem samræmist reglum þar um samkvæmt aðalskipulagi. Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er umrætt svæði skilgreint sem M1a, Miðborgarkjarni. Um það segir svo: „Í miðborgarkjarnanum má finna lykilstofnanir stjórnsýslu, menningar og mennta, líflegustu verslunargötur landsins, litríka flóru veitingastaða auk fjölbreyttrar sérfræðiþjónustu. Sérstök áhersla er á smásöluverslun auk veitingastarfsemi og afþreyingu sem og þjónustu lykilstofnana stjórnsýslu, menningar og mennta. Á jarðhæðum eru verslunar-, veitinga- og menningar-, félags- og þjónustustarfsemi opin almenningi í forgangi, en á efri hæðum skrifstofu- og íbúðarhúsnæði auk gistiþjónustu. Til þess að efla smásöluverslun staðbundið í miðborgarkjarnanum, stuðla að fjölbreyttri starfsemi og lifandi almenningsrýmum eru ákvæði um útlit og starfsemi við götuhliðar í miðborgarkjarna. Almennar veitingaheimildar miðsvæða gilda í miðborgarkjarna en á afmörkuðu svæði eru rýmri veitingaheimildir.“ Samkvæmt flokkun svæða í miðborginni eftir heimildum um vínveitingar er Bergstaðastræti 2 í flokki „rýmri heimilda“ og er því heimilt að reka þar veitingastað í flokki III með heimilaðan opnunartíma til allt að kl. 04:30 um helgar og á frídögum. Bergstaðastræti 2 stendur enn fremur á skilgreindu götusvæði nr. 22 þar sem hlutfall annarrar starfsemi en smávöruverslunar skal vera að hámarki 50%. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verður hlutfall veitingastaða á svæðinu 46% við umrædda breytingu á notkun Bergstaðastrætis 2. Fellur hin breytta notkun því innan starfsemiskvóta svæðisins. Er hið kærða byggingarleyfi samkvæmt framansögðu í samræmi við gildandi deiliskipulag, m.a. hvað land­notkun varðar, svo sem kveðið er á um í 1. mgr. 11. gr. og 1. tl. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og var borgaryfirvöldum ekki skylt að láta fara fram grenndarkynningu áður en byggingarfulltrúi samþykkti leyfisumsóknina.

Í málinu liggur ekki annað fyrir en að umrætt húsnæði uppfylli kröfur reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða. Komi síðar í ljós að hávaði vegna notkunar húss eða starfsemi sem þar fer fram sé óásættanlegur gagnvart nágrönnum ber eigandi eftir atvikum ábyrgð á að úr verði bætt svo hljóðstig sé innan lögboðinna marka. Umkvartanir kærenda um mögulegt ónæði og óþrif vegna reksturs umrædds veitingarstaðar lúta að eftirliti með starfseminni en varða ekki gildi hinnar kærðu ákvörðunar og koma þær því ekki til álita í málinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 7. janúar 2020 um að samþykkja byggingarleyfi fyrir breyttri notkun hússins að Bergstaðastræti 2 í veitingastað í flokki II.

44/2021 Miðvangur

Með

Árið 2021, fimmtudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 44/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. mars 2021 um að synja umsókn um heimild til að færa hjólageymslu, breyta vinnustofu í íbúð, færa sorpgeymslu á lóð og bæta við hjólageymslu að Miðvangi 41.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 10. apríl 2021, kærir einn eigenda Miðvangs 41, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. mars 2021 að synja umsókn um heimild til að færa hjólageymslu, breyta vinnustofu í íbúð, færa sorpgeymslu á lóð og bæta við hjólageymslu að Miðvangi 41. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 12. maí 2021.

Málavextir: Með umsókn, dags. 26. febrúar 2021, fór kærandi fram á heimild til að færa hjólageymslu út úr rými 01-15 að Miðvangi 41, breyta rýminu úr vinnustofu í íbúð, færa sorpgeymslu á lóð og bæta við hjólageymslu samkvæmt teikningum. Umsóknin var tekin fyrir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar 10. mars s.á. Var umsókninni synjað þar sem hún uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. gr. 6.7.2. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012. Kærandi óskaði eftir frekari rökstuðningi vegna afgreiðslu málsins með tölvupósti 17. mars 2021, sem var veittur 24. s.m. Þar kom fram að ákvæði um útsýni og birtu þættu ekki uppfyllt. Úrskurðarnefndinni barst kæra í máli þessu 10. apríl 2021 eins og að framan greinir. Kærandi sendi og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun ábendingu í kjölfarið á grundvelli 18. gr. mann­virkja­laga nr. 160/2010 en stofnunin ákvað að hefja ekki mál á grundvelli ábendingarinnar, a.m.k. ekki á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að lofthæð eignar hans, ljósop glugga í vistarverum, tenging eignarinnar við lóð og útsýni sé í samræmi við kröfur gr. 6.7.2. í byggingar­reglugerð nr. 112/2012, sem beri yfirskriftina lofthæð og birtuskilyrði.

Í framhaldi synjunar byggingarfulltrúa hafi embættinu verið sent bréf þar sem bent hafi verið á að umrædd afgreiðsla stangaðist á við jafnræðisreglu og óskað eftir ítarlegum rök­stuðningi fyrir ákvörðuninni. Í svari byggingarfulltrúa hafi því verið haldið fram að eignin gæti seint talist uppfylla fyrsta skilyrði gr. 6.7.2. Jafnframt hafi Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verið sent bréf þar sem spurt hafi verið hvernig útsýni væri skilgreint í byggingarreglugerð. Í svari stofnunarinnar hafi komið fram að enga slíka skilgreiningu væri að finna í reglugerðinni.

Í upphafi gr. 6.7.2 sé vísað til íbúðarhúsa en í þessu máli sé um eign í íbúðarhúsi að ræða. Húsið sé átta hæðir og samtals séu 67 samþykktar íbúðir í húsinu. Ákvæðið fjalli um hús í heild sinni en ekki einstaka eignarhluta. Eign kæranda sé á jarðhæð og hafi því væntanlega meiri tengsl við lóð en íbúð á 8. hæð. Vistarverur séu þar við stóra glugga og njóti því mikillar dagsbirtu. Þá uppfylli eignin skilyrði um að samanlagt ljósop glugga hvers íbúðarherbergis skuli ekki vera minna en sem svari til 1/10 af gólffleti þess. Vistverur séu við glugga sem hægt sé að horfa út um og því sé uppfyllt það skilyrði að tekið sé mið af útsýni. Í reglugerðarákvæðinu komi jafnframt fram að Mannvirkjastofnun skuli gefa út leiðbeiningar um framkvæmd greinarinnar. Ekkert í leiðbein­ingum stofnunarinnar varði þau atriði sem byggingarfulltrúi geri að aðalatriðum í synjun sinni. Í rökum byggingarfulltrúa komi fram að íbúar þurfi að hafa möguleika á eðlilegu útsýni þótt byggð sé þétt. Kærandi bendi á að þegar keyrt sé um bæinn sé hægt að finna nýjar eignir sem hafi mjög takmarkað útsýni, t.d. á Laugarnesvegi, við Hlíðarenda, Fellsmúla, Dugguvog, ásamt eldri eignum. Hægt sé að finna mörg slík dæmi um samþykktar íbúðir þar sem útsýni sé takmarkað. Eðlilegt útsýni sé hvergi skilgreint í byggingarreglugerð.

Eign kæranda hafi sameiginlegan inngang með þremur íbúðum, gluggahlið eignarinnar snúi inn í sund sem opið sé í báða enda. Væri betra að gluggahlið sneri að umferðargötu með þeim lífsgæðum sem það byði upp á? Í sundinu sé fólk mjög oft á gangi sem myndi teljast til mannlífs. Sé krafa uppi um gróður þá sé vel hægt að uppfylla það skilyrði. Hægt sé að setja blóm, tré og bekki framan við glugga en synjunin virðist ekki byggja á því. Byggingarfulltrúi beri við gróðurleysi en rétt sé að benda á að enginn gróður sé á lóðinni, hvorki tré né gras, en samt séu 67 íbúðir samþykktar í húsinu. Ekkert í byggingarreglugerð banni að útsýni sé að steyptum vegg. Þá sé hvorki gerð krafa um að gras eða tré séu sjáanleg né sé nokkur greinarmunur gerður á tré eða vegg þegar komi að útsýni. Mörg samþykkt hús séu með svipaða aðstöðu þar sem útsýni sé takmarkað við eitthvað. Með hinni kærðu ákvörðun sé jafnræðisregla því ekki virt. Ákvörðunin byggi  á mjög veikum grunni þar sem enginn texti í byggingar­reglugerð sé í samræmi við þau rök sem lögð séu til grundvallar synjuninni. Þá sé enginn texti í reglugerðinni sem staðfesti rök byggingarfulltrúa heldur sé texti hennar teygður eins og hægt sé. Allar íbúðir og eignir í húsinu hafi samþykkt fyrir sitt leyti að umræddri eign verði breytt í íbúð en hún  sé nú nýtt sem íbúð.

Málsrök Hafnarfjarðarbæjar: Bæjaryfirvöld vísa til gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem fram komi að gæta skuli þess að íbúðarhús hafi eðlileg tengsl við útivistarsvæði á lóð og að staðsetning vistarveru taki mið af dagsbirtu og útsýni. Miðvangur 41 hafi á sínum tíma verið hannað sem fjölbýlishús með þjónustu á jarðhæð. Rýmið sem óskað sé eftir að mega hanna sem íbúð geti seint talist uppfylla þau skilyrði sem sett séu í fyrrnefndri byggingar­reglugerð. Fyrir framan Miðvang 41 sé annað húsnæði sem hýsi matvöruverslun og milli þessara bygginga sé sund. Útsýni úr fyrirhugaðri íbúð sé út í þetta sund sem snúi í norður og sýni steyptan vegg húsnæðisins á móti. Þegar talað sé um útsýni sé átt við að þeir sem búi í vistverum hafi eðlileg tengsl við nærumhverfið.

Jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar sé ætlað að standa vörð um hagsmuni aðila og koma í veg fyrir að stjórnvöld láti annarlega hagsmuni ráða ákvarðanatöku við úrlausn mála. Hún hafi það hlutverk að styrkja trú og traust almennings á stjórnsýslunni. Jafnræðisregla 11. gr. stjórnsýslu­laga nr. 37/1993, almenn óskráð efnisregla stjórnsýsluréttar um jafnræði og jafnræðisregla 65. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 séu allar keimlíkar og hafi sama tilgang. Í greinargerð með frumvarpi því sem orðið hafi að 11. gr. jafnræðisreglu stjórnsýslulaga sé áréttað að í jafnræðisreglunni felist að mál sem séu sambærileg í lagalegu tilliti geti fengið mismunandi úrlausn ef slíkar ákvarðanir byggist á frambærilegum og lögmætum sjónarmiðum. Jafnframt sé fjallað um undantekningar frá meginreglunni í 2. mgr. nefndrar greinar, enda eigi þær sér stoð í lögum.

Í byggingarmálum verði að taka tillit til laga og byggingarreglugerðar á hverjum tíma. Byggingarreglugerð breytist stanslaust og jafnvel gæti verið að byggingarfulltrúi hafi á einhverjum tímapunkti samþykkt eitthvað sem ekki sé í samræmi við skipulag eða reglugerð og því mistök gerð af hans hálfu. Í slíkum tilvikum sé ekki hægt að vísa til jafnræðisreglu, en kærandi vísi ekki til neins sérstaks máls og því ekki hægt að taka afstöðu til þess. Að mati Hafnarfjarðarbæjar sé mál kæranda ekki sambærilegt öðrum málum. Þótt húsnæði geti verið þar sem byggð sé þétt þá verði íbúar að hafa möguleika á eðlilegu útsýni, sem geti talist vera gróður, mannlíf og möguleiki á að hafa útsýni og sjá annað en vegg.

Niðurstaða: Rökstuðningur byggingarfulltrúa til kæranda fyrir hinni kærðu ákvörðun er eftir­farandi: „Jarðhæð Miðvangs 41 var á sínum tíma hannað sem fjölbýlishús með þjónustu á jarðhæð. Rýmið sem nú er óskað eftir að hanna sem íbúð getur seint talist uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram [í 1. mgr. gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð]. Framan við er húsnæði sem hýsir matvöruverslun og á milli þessara bygginga er sund. Útsýni úr fyrirhugaðri íbúð er út í þetta sund sem snýr í norður, og sem sýnir steyptan vegg. Þegar talað er um útsýni er átt við að þeir sem búi í vistarverunum hafi eðlileg tengsl við nærumhverfið. […] Þótt húsnæði geti verið þar sem þétt byggð er þá hafa íbúar möguleika á eðlilegu útsýni sem getur talist vera gróður, mannlíf og möguleika á að sjá eitthvað annað en steyptan vegg.“ Þá kom fram í tölvupósti byggingarfulltrúa til kæranda að „þetta ákvæði með útsýni og birtu væri mikilvægt, þessi íbúð uppfyllir það ekki.“

Samkvæmt framansögðu er umdeild synjun byggingarfulltrúa byggð á þeim þáttum 1. mgr. gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð sem snúa að birtu og útsýni. Í 3. mgr. gr. 6.7.2. kemur fram að samanlagt ljósop glugga hvers íbúðarherbergis skuli ekki vera minna en sem svari til 1/10 af gólfleti þess, þó aldrei minna en 1 m2. Í 4. mgr. sömu greinar kemur fram að íbúðir skuli njóta fullnægjandi birtuskilyrða. Loks kemur fram í 5. mgr. að í breiðum (djúpum) byggingum beri að huga sérstaklega að því að dagsbirtu gæti innan íbúðar. Af framangreindu má sjá að ákvæði 1., 4. og 5. mgr. nefndrar greinar byggingarreglugerðar eru matskennd varðandi birtu.

Hvorki bókun afgreiðslufundar skipulags- og byggingarfulltrúa um málið né svör embættis­ins til kæranda bera með sér að mat hafi farið fram á þessum matskenndu þáttum 1., 4. og 5. mgr. gr. 6.7.2. eða að gengið hafi verið úr skugga um hvort hin hlutlægu skilyrði 3. mgr. væru uppfyllt. Í 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram að í rökstuðningi skuli greina frá þeim meginsjónarmiðum sem ráðandi hafi verið við mat, að því marki sem ákvörðun byggist á mati. Var það ekki gert hvað varðar dagsbirtu. Er því bæði rannsókn máls, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og rökstuðningi ákvörðunar áfátt hvað varðar þann þátt gr. 6.7.2. í byggingarreglugerð er snýr að dagsbirtu.

Líkt og áður segir kemur fram í 1. mgr. gr. 6.7.2. í byggingarreglugerðinni að þess skuli gætt að staðsetning vistarvera taki mið af útsýni. Í rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar kemur fram að „[þ]egar talað er um útsýni er átt við að þeir sem búi í vistarverunum hafi eðlileg tengsl við nærumhverfið“ og að „[þ]ótt húsnæði geti verið þar sem þétt byggð er þá hafa íbúar möguleika á eðlilegu útsýni sem getur talist vera gróður, mannlíf og möguleika á að sjá eitthvað annað en steyptan vegg.“ Verður að telja að byggingarfulltrúi hafi með umfjöllun sinni lagt mat á útsýni.

Enga skilgreiningu er að finna á hugtakinu „útsýni“ í byggingarreglugerð. Hugtakið er nefnt í fjórum lagabálkum, þ.e. í lögum um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús nr. 75/2008, í skipulagslögum nr. 123/2010, í lögum um landgræðslu nr. 155/2018 og í umferðar­lögum nr. 77/2019. Hvorki er þó að finna skilgreiningu á hugtakinu í framangreindum lögum né í lögskýringargögnum sem fylgja þeim. Hvað varðar almenna málnotkun hugtaksins má nefna að í orðabók Menningarsjóðs er útsýni skilgreint sem „sjón yfir e-ð, það að sjá yfir“. Þá er oft talað um útsýni sem gott eða slæmt, mikið eða lítið. Ekki er hægt að fallast á þau rök byggingar­fulltrúa fyrir synjun umsóttra breytinga að ekki sé fullnægt skilyrðum ákvæðis 1. mgr. gr. 6.7.2. í byggingar­reglugerð um útsýni, enda er húsnæðið með gluggum á útvegg. Þrátt fyrir að deila megi um gæði útsýnis er ekki unnt að byggja á að gróður eða mannlíf þurfi að sjást út um gluggann án þess að fyrir því sé stoð í réttarheimildum.

Samkvæmt öllu framansögðu voru slíkir annmarkar á rannsókn máls og rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að leiða ber til ógildingar hennar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 10. mars 2021 um að synja umsókn um heimild til að færa hjólageymslu, breyta vinnustofu í íbúð, færa sorpgeymslu á lóð og bæta við hjólageymslu að Miðvangi 41.

36 og 42/2021 Dalsbraut 32 til 36

Með

Árið 2021, föstudaginn 20. ágúst, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 36/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. mars 2020 um að breyta deiliskipulagi Dalshverfis, 2. áfanga, vegna lóðanna nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. mars 2021, sem barst nefndinni 19. s.m., kæra 9 eigendur Lerkidals 52-60, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 3. mars 2020 að breyta deiliskipulagi Dalshverfis, 2. áfanga, vegna lóðanna nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut.

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem móttekin var 6. apríl 2021, skutu sömu aðilar ákvörðunum byggingarfulltrúans í Reykjanesbæ frá 30. mars 2020 um að samþykkja umsóknir um leyfi fyrir byggingu þriggja 15 íbúða fjölbýlishúsa á lóðum nr. 32, 34 og 36 við Dalsbraut til úrskurðarnefndarinnar. Verður greint kærumál, sem er nr. 42/2021, sameinað kærumáli þessu þar sem kæruefni þeirra eru samofin og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé að ógildingar hinna kærðu ákvarðana.  Jafnframt var gerð krafa um að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu leyfum yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðar­nefndinni, en þeirri kröfu var hafnað með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum 21. apríl 2021.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 15. apríl 2021.

Málavextir: Á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 7. janúar 2020 var samþykkt að grenndar­kynna sem óverulega breytingu á deiliskipulagi tillögu þess efnis að heimila stækkun mannvirkja sem næmi 106 m2 á hverri lóð og að íbúðum í hverju húsi yrði fjölgað úr 11 í 15. Breytingartillagan var grenndarkynnt 14. janúar 2020 með athugasemdafresti til 15. febrúar s.á. og var m.a. grenndarkynnt fyrir þáverandi þinglýstum fasteignareigendum Lerkidals 52-60 sem höfðu á þeim tíma selt fasteignirnar til kærenda. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 21. s.m. var erindið tekið fyrir að nýju og samþykkt með vísan til þess að engar athugasemdir hefðu borist. Staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 3. mars s.á. og tók deiliskipulags­breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl s.á.

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 30. mars 2020 voru samþykkt byggingaráform fyrir þremur fjölbýlishúsum á lóðunum Dalsbraut 32, 34 og 36 í samræmi við samþykktar breytingar á deiliskipulagi svæðisins og voru byggingarleyfi gefin út 18. júní s.á.

Í desember 2020 var tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna bílastæða lóðanna Dalsbrautar 32-36 grenndarkynnt fyrir kærendum. Telja kærendur sig þá hafa orðið varir við að breyting hefði orðið á deiliskipulagi svæðisins vegna nefndra lóða. Í kjölfarið áttu nokkrir kærenda í samskiptum við bæði skipulagsfulltrúa og byggingarfulltrúa Reykjanesbæjar vegna heimilaðra framkvæmda á nefndum lóðum. Hinn 15. mars 2021 upplýsti byggingar­fulltrúi kærendur um að starfsmenn embættisins hefðu skoðað byggingu á staðnum og að byggt væri í samræmi við aðaluppdrætti. Jafnframt var kærendum bent á að hægt væri að fylgja málinu eftir með kæru til úrskurðarnefndarinnar.

Málsrök kærenda: Kærendur benda á að áður en þeir hafi fest kaup á fasteignum sínum hafi þeir kynnt sér skipulag svæðisins. Þegar tillaga að umþrættri deiliskipulagsbreytingu vegna Dalsbrautar 32-36 var grenndarkynnt hafi kærendur verið búsettir að Lerkidal 52-60, átt þar lögheimili og hafið greiðslu útsvars til Reykjanesbæjar í samræmi við þá skráningu. Þrátt fyrir það hafi þeim ekki verið grenndarkynnt framangreind tillaga sem sveitarstjórn Reykjanesbæjar hafi samþykkt 3. mars 2020 og því ekki fengið tækifæri til að mótmæla umræddum breytingum. Ekki sé að sjá að breyting á aðalskipulagi og útgáfa byggingarleyfis hafi verið auglýst í B-deild Stjórnartíðinda líkt og lög mæli fyrir um. Kærendur verði fyrir tjóni vegna breytinganna sem felst í skertu útsýni og innsýn í garða frá íbúðum með svölum sem snúi að Lerkidal. Leiði það til lækkunar á verðgildi húsanna og fara kærendur fram á að byggingum verði breytt til sam­ræmis við fyrra skipulag eða kærendum bætt það tjón sem þeir hafi orðið fyrir.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu Reykjanesbæjar er vísað til þess að framkvæmdir séu í samræmi við gildandi deiliskipulag og að málsmeðferð hafi öll verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga nr. 123/2010. Við framkvæmd grenndarkynningar hafi íbúar í nærliggjandi húsum fengið tækifæri til að koma á framfæri athugasemdum sínum. Þá séu skipulags- og hönnunargögn gild og sett fram í samræmi við skilyrði laga og reglna. Óskert útsýni sé ekki bundið í lög og eigendur fasteigna í þéttbýli geti ávallt vænst þess að einhverjar breytingar verði gerðar í nánasta umhverfi þeirra sem geti haft í för með sér einhverja skerðingu á slíkum hags­munum.

Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er bent á að kærufrestur til nefndarinnar sé liðinn og vísa beri málinu frá. Þá hafi deiliskipulagsbreytingin hvorki haft í för með sér breytingu á hæð umræddra húsa né breytingu á afstöðu þeirra til nærliggjandi húsa. Breytingin hafi varðað viðbót við breidd húsanna sem hafi lítil áhrif á nærliggjandi lóðir.

Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur ítreka þá málsástæðu sína að ástæða þess að engar athugasemdir hafi borist við umþrætta deiliskipulagsbreytingu sé að hún hafi ekki verið grenndarkynnt fyrir íbúum Lerkidals 52-60 líkt og skylt sé.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um þá ákvörðun sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar skv. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 28. gr. laganna er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum.

Auglýsing um gildistöku þeirrar deiliskipulagsbreytingar sem kærð er í máli þessu var birt í B-deild Stjórnartíðinda 7. apríl 2020. Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga tók kærufrestur því að líða degi síðar, eða hinn 8. s.m. Mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deili­skipulags­ákvörðun frá opinberri birtingu hennar en kæra vegna umdeildrar deiliskipulags­breytingar barst úrskurðarnefndinni 19. mars 2021.

Umsóknir um hin kærðu byggingarleyfi voru samþykktar 30. mars 2020 og á grundvelli þeirra samþykkta voru byggingarleyfi gefin út 18. júní s.á. Samkvæmt skoðunarskýrslum fóru áfangaúttektir á sökklum húsanna fram í ágúst 2020. Samkvæmt gögnum málsins voru framkvæmdir langt á veg komnar og uppsteypu húsanna að mestu lokið er leyfin voru kærð. Samkvæmt þessu mátti kærendum þegar á haustmánuðum 2020 vera ljóst að leyfi hafi verið veitt fyrir byggingum á umræddum lóðum. Þegar kæra vegna byggingarleyfanna barst úrskurðar­­nefndinni 6. apríl 2021 var því eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 liðinn.

Fram kemur í athugasemdum með 2. mgr. 4. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé styttri en almennur kærufrestur stjórnsýslulaga. Brýnt sé að ágreiningur um form eða efni ákvörðunar verði staðreyndur sem fyrst og áréttað í því samhengi að eftir því sem framkvæmdir séu komnar lengra áður en ágreiningur um þær verði ljós skapist meiri hætta á óafturkræfu tjóni af bæði umhverfislegum og fjárhagslegum toga. Sjónarmið um réttaröryggi og tillit til hagsmuna leyfishafa liggja því þarna að baki og hefur byggingarleyfishafi eðli máls samkvæmt ríkra hagsmuna að gæta í málinu.

Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem að framan hafa verið rakin bárust kærur í máli þessu úrskurðarnefndinni að liðnum eins mánaðar kærufresti og verða kröfur kærenda um ógildingu hinna kærðu ákvarðana ekki teknar til efnismeðferðar að liðnum kærufresti á grundvelli undantekningar­ákvæða 28. gr. stjórnsýslulaga. Verður kærumáli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Rétt þykir að benda á að skv. 1. mgr. 51. gr. skipulagslaga getur sá sem sýnir fram á tjón vegna skipulags eftir atvikum átt rétt á bótum frá viðkomandi sveitarfélagi. Slík bótaákvörðun á hins vegar ekki undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.