Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

154/2021 Bríetartún

Árið 2021, fimmtudaginn 21. október, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 154/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 14. september 2021 um að samþykkja leyfi til að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún.

 Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

 úrskurður

um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 11. október 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur íbúða 0206, 0210, 0213, 2012, 0307 að Bríetartúni 11 og eigendur íbúðar 05 0803 að Bríetartúni 9, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja leyfi til að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 21. október 2021.

Málsatvik og rök: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 14. september 2021 var samþykkt umsókn um leyfi til að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún. Á fundi Borgarráðs 30. september 2021 var afgreiðsla byggingarfulltrúa staðfest með samþykkt á Bhluta fundargerðar skipulags- og samgönguráðs frá 29. september 2021. Byggingarleyfi var gefið út 29. september 2021.

Kærendur krefjast þess að umrætt byggingarleyfi verði fellt úr gildi auk þess sem framkvæmdir verði stöðvaðar þar til efnisleg niðurstaða úrskurðarnefndarinnar liggi fyrir í málinu. Með byggingarleyfinu hafi verið gefið leyfi til að girða af hluta af útisvæði lóðarinnar Borgartún 8-16 og útbúa þar útileiksvæði fyrir leikskóla. Lóðin sé sameign eigenda Borgartúns 8-16,  Þórunnartúns 1, Bríetartúns 9-11 og Katrínartúns 2, 4 og 6. Þar sem ekki hafi legið fyrir samþykki allra meðeiganda lóðarinnar, líkt og lög nr. 26/1994 um fjöleignarhús  kveði á um, sé ákvörðun byggingarfulltrúa ekki í samræmi ákvæði laga nr. 160/2010 um mannvirki. Því beri að ógilda hana.

Borgaryfirvöld vísa til þess að um sé að ræða tímabundna leigu á hluta af lóð sem kalli á breytingu á nýtingu lóðarinnar að hluta. Þar sem um leigu á óverulegum hluta sameignar hafi verið að ræða hafi samþykki einfalds meirihluta félagsmanna verið fullnægjandi til útgáfu byggingarleyfis. Þá liggi fyrir að heimilt sé að reka atvinnustarfsemi 1. hæð hússins og slík starfsemi geti alltaf kallað á óverulegar breytingar á lóð. Á grundvelli meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, telji Reykjavíkurborg að hafna beri kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda.

Leyfishafi bendir á að í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála komi fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaáhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt sé kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti sé kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Heimildildarákvæði fyrir frestun framkvæmda eða réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar séu þannig undantekning frá meginreglu sem skýra beri þröngt og að ríkar ástæður eða veigamikil rök verði að vera fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda. Í kærunni séu engin rök færð fyrir kröfu um stöðvun framkvæmda. Um afturkræfa aðgerð sé að ræða enda liggi fyrir í málinu yfirlýsing, dags. 10. mars 2021, um að leyfishafa sé skylt að koma lóðinni í upprunalegt horf við lok leigutíma. Framkvæmdir á lóð séu ekki hafnar og fari nú eingögngu fram inni í rými 0105.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og séu heimildar­ákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum með 5. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Hið kærða byggingarleyfi heimilar að að fjarlægja útigeymslu við austurhlið 1. hæðar og til að innrétta fjögurra deilda leikskóla fyrir 60 börn í rými 0105, 0116 og 0117 á 1. hæð í Bríetartúni 9-11 á lóð nr. 8-16 við Borgartún. Fyrirliggjandi gögn málsins bera með að framkvæmdir á lóð Borgartúns 8-16 eru ekki hafnar auk þess sem þær framkvæmdir sem heimilaðar hafa verið á lóðinni eru afturkræfar, en stöðvunarkrafa kærenda lýtur að þeim framkvæmdum. Í ljósi framangreinds verður ekki talin knýjandi þörf á að stöðva framkvæmdir meðan málið er til meðferðar hjá nefndinni og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt er þó að taka fram að leyfishafi ber áhættu af úrslitum kærumálsins kjósi hann að hefja framkvæmdir áður en niðurstaða þessa máls liggur fyrir.

 Úrskurðarorð:

 Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi.